Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2007


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. júní 2007.

Nr. 149/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Arnari Sindra Magnússyni

(Jón Höskuldsson hrl.)

Elísabetu Arnardóttur

(Jón Egilsson hdl.)

Elvu Hlín Hauksdóttur og

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Guðmundi Andra Ástráðssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

AM, EA, EG og GA voru sakfelld fyrir stórfellt fíkniefnabrot framið í ágóðaskyni með því að hafa lagt á ráðin um og staðið saman að innflutningi á tæplega tveimur kílóum af kókaíni, auk þess sem AM var sakfelldur fyrir vörslur tæplega tveggja gramma af fíkniefnum. Að virtum þætti hvers ákærðu í skipulagningu og framkvæmd sameiginlegs brots þeirra, sem þótti nokkuð misjafn, og því sem greindi í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar var EA dæmd til að sæta fangelsi í fimm ár, AM í þrjú ár, en EG og GA í tvö ár hvort. Eins og brotum þeirra var háttað þótti ekki koma til álita að binda refsingu skilorði í heild eða að hluta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2007 í samræmi við yfirlýsingar um áfrýjun frá ákærðu Arnari Sindra Magnússyni, Elísabetu Arnardóttur og Guðmundi Andra Ástráðssyni, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins gagnvart þeim öllum og ákærðu Elvu Hlín Hauksdóttur. Þess er krafist að refsing ákærðu Elísabetar og Elvu Hlínar verði þyngd, en staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærðu Arnars Sindra og Guðmundar Andra, svo og um upptöku fíkniefna.

Ákærðu Arnar Sindri og Elísabet krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærða Elva Hlín krefst þess að sér verði gerð svo væg refsing sem lög leyfi.

Ákærði Guðmundur Andri krefst þess að refsing verði milduð.

Að því leyti, sem komi til refsingar, krefjast öll ákærðu þess að gæsluvarðhald, sem þau hafa sætt vegna málsins, komi henni til frádráttar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu.

Brot ákærðu laut að innflutningi á 1.980,87 g af kókaíni, sem samkvæmt efnagreiningu rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist vera kókaínklóríð að 93%, auk þess sem ákærði Arnar Sindri hefur gerst sekur um vörslur tæplega 2 g af fíkniefnum. Þáttur hvers ákærðu í skipulagningu og framkvæmd sameiginlegs brots þeirra var nokkuð misjafn, svo sem ítarlega er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Að þessu virtu ásamt því, sem greinir í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar, skal ákærða Elísabet sæta fangelsi í 5 ár, ákærði Arnar Sindri í 3 ár, svo sem ákveðið var í héraðsdómi, en ákærðu Elva Hlín og Guðmundur Andri í 2 ár hvort. Eins og brotum þeirra var háttað kemur ekki til álita að binda refsingu skilorði í heild eða að hluta, en til frádráttar henni komi gæsluvarðhald, sem ákærðu hafa sætt vegna málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði Arnar Sindri Magnússon sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. ágúst til 8. september 2006.

Ákærða Elísabet Arnardóttir sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hennar, sem staðið hefur frá 10. ágúst 2006.

Ákærða Elva Hlín Hauksdóttir sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hennar frá 10. ágúst til 30. ágúst 2006.

Ákærði Guðmundur Andri Ástráðsson sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. ágúst til 13. október 2006.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Arnar Sindri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

Ákærða Elísabet greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur.

Ákærða Elva Hlín greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

Ákærði Guðmundur Andri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað málsins, 94.981 krónu, greiði ákærðu óskipt.

                                                                                                                  

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2007.

 Mál þetta sem dómtekið var 4. janúar sl., er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 1. nóvember 2006 á hendur:

             Arnari Sindra Magnússyni, kt. 190679-5439,

             Rauðási 19, Reykjavík,

             Elísabetu Arnardóttur, kt. 020174-5959,               

             Kleppsvegi 52, Reykjavík,

             Elvu Hlín Hauksdóttur, kt. 260488-2799,

             Furugrund 16, Kópavogi,

X, kt. [...]

             , Reykjavík, og

             Guðmundi Andra Ástráðssyni, kt. 200685-3189,

             Eystri-Hellum, Flóahreppi,

fyrir fíkniefnalagabrot framin í Reykjavík á árinu 2006 eins og hér greinir nema annað sé tekið fram:

A.

Gegn öllum ákærðu fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið í ágóðaskyni með því að hafa í júlí og ágúst, lagt á ráðin um og staðið saman að innflutningi á 1.980,87 g af kókaíni, frá Spáni um London til Keflavíkurflugvallar, svo sem nánar er rakið í 1. – 5. tölulið:

             1. Ákærða Elísabet:

Að hafa að beiðni óþekkts vitorðsmanns haft milligöngu um flutning fíkniefnanna til Íslands með því að hafa í júlí sett sig í samband við meðákærða Guðmund Andra og beðið hann um að finna samverkamenn til að sækja fíkniefnin til Spánar og flytja þau til Íslands. Fyrir milligöngu meðákærða Guðmundar Andra hitti ákærða hann ásamt meðákærða X nokkrum dögum síðar á heimili sínu í þessu skyni þar sem lagt var nánar á ráðin um innflutning fíkniefnanna. Ákærða hitti meðákærða X aftur í lok júlí að Laugavegi [...] sem og daginn eftir á heimili sínu þar sem ákærða veitti honum frekari upplýsingar um skipulag ferðarinnar og tilhögun hennar.  Frá 2. til 5. ágúst var ákærða í síma- og netsamskiptum við meðákærða X og veitti honum nauðsynlegar leiðbeiningar til að hann gæti mælt sér mót við meðákærða Arnar Sindra á Benidorm í því skyni að móttaka frá honum fíkniefnin og flytja þau til Íslands, sbr. 3. og 4. tölulið. Að beiðni óþekkts vitorðsmanns lagði ákærða kr. 30.000 inn á bankareikning meðákærða Arnars Sindra í því skyni að hann gæti greitt kostnað vegna ferðalaga til að sækja og flytja fíkniefnin á Spáni fram að afhendingu þeirra.  Ákærða hugðist móttaka fíkniefnin frá meðákærðu X og Elvu Hlín á Keflavíkurflugvelli eftir komu þeirra til landsins.

             2. Ákærði Guðmundur Andri:

Að hafa að beiðni meðákærðu Elísabetar haft milligöngu um að finna samverkamenn til að flytja efnin til landsins. Í þessu skyni setti ákærði sig í samband við meðákærða X og kom á tengslum milli hans og meðákærðu Elísabetar og tók þátt í undirbúningi og skipulagningu innflutningsins, sbr. 1. og 3. tölulið.

             3. Ákærði X:

Að hafa hitt meðákærðu Elísabetu og Guðmund Andra í því skyni að leggja á ráðin og skipuleggja innflutning fíkniefnanna, sbr. 1. og 2. tölulið. Á svipuðum tíma á grundvelli ráðagerða meðákærðu Elísabetar og Guðmundar Andra mælti ákærði sér mót við meðákærðu Elvu Hlín í tvígang að [...] þar sem ákærði lagði á ráðin við hana og fékk hana til að fara með sér til Spánar og flytja fíkniefnin til Íslands. Eftir leiðbeiningum frá meðákærðu Elísabetu símleiðis og um tölvu hitti ákærði meðákærða Arnar Sindra laugardaginn 5. ágúst á óþekktum stað á Benidorm og móttók frá honum fíkniefnin falin í ferðatösku, sbr. 4. tölulið. Ákærði flutti efnin á óþekkt hótel í sömu borg þar sem hann ásamt meðákærðu Elvu Hlín hafði efnin í vörslum sínum þar til þau fluttu fíkniefnin til Íslands, sbr. 5. tölulið.

             4. Ákærði Arnar Sindri:

Að hafa að beiðni óþekkts vitorðsmanns farið til Spánar mánudaginn 31. júlí og sótt þar fíkniefnin á óþekktan stað og haft efnin í vörslum sínum fram til laugardagsins 5. ágúst þegar hann afhenti efnin til meðákærða X á Benidorm í því skyni að þau yrðu flutt til Íslands, sbr. 3. tölulið.

             5. Ákærða Elva Hlín:

Að hafa að beiðni meðákærða X farið ásamt honum til Spánar í því skyni að móttaka og flytja fíkniefnin til Íslands, sbr. 3. tölulið. Frá þeim tíma sem meðákærði X móttók fíkniefnin hafði ákærða ásamt honum fíkniefnin í vörslum sínum á hóteli á Benidorm, sbr. 3. og 4. tölulið. Nokkrum dögum síðar flutti ákærða fíkniefnin með farangri sínum frá Spáni um London og þaðan til Íslands að kvöldi miðvikudagsins 9. ágúst þegar ákærða var stöðvuð af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins og fíkniefnin fundust við leit.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og lög nr. 32/2001.

B.

             6. Gegn ákærða Arnari Sindra, með því að hafa mánudaginn 14. ágúst í íbúð að Aðalstræti 9 haft í vörslum sínum 1,57 g af hassi og 0,21 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla fann við húsleit.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. 

             Í þinghaldi 4. janúar sl., var þingfest önnur ákæra á hendur X, dagsett 16. nóvember sl., fyrir umferðar- og hegningarlagabrot:

1. Umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. maí 2006 ekið bifreiðinni [...], um Breiðumörk í Hveragerði, sviptur ökurétti. Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. , sbr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2. Ranga skýrslugjöf, með því að hafa, er lögregla hafði afskipti af ákærða, í framangreint skipti, skýrt lögreglu rangt frá kennitölu sinni.

Telst þetta varða við 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði, Arnar Sindri, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.

Ákærða, Elísabet, krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærðu málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.

Ákærða, Elva Hlín krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.

Ákærði, X, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.

Ákærði, Guðmundur, krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa, að mati dómsins.

Málsatvik.

             Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 10. ágúst 2006 fannst talsvert magn af fíkniefnum í ferðatösku ákærðu, Elvu Hlínar Hauksdóttur, við komu hennar til landsins frá London 9. ágúst sl. Við nánari eftirgrennslan tollvarða kom í ljós að samferðamaður hennar var ákærði, X. Hann var kominn út um tollhlið er ákveðið var að handtaka hann ásamt fólki sem tók á móti honum í flugstöðinni. Við litaprófun tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík greindust þau fíkniefni sem ákærða bar í ferðatösku sinni vera 1.980.87 g af kókaíni. Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar hjá rannsóknastofu í lyfja-og eiturefnafræði Háskóla Íslands, frá 25. ágúst 2006, bentu efnapróf til þess að kókaínið væri að mestu á formi kókaínklóríðs. Magn kókaíns í sýninu var 83%, sem samsvarar 93% af kókaínklóríði.

             Við yfirheyrslu hjá lögreglu 10. ágúst 2006 kvaðst ákærði, X, hafa hitt meðákærða, Guðmund Andra, á þáverandi vinnustað sínum. Hann hafi sagt sér frá stúlku, Elísabetu Arnardóttur, sem væri að leita að manni til að flytja inn fíkniefni hingað til lands. Hafi ákærði sagt við Guðmund Andra að hann ætlaði að leita að einhverjum til verksins. Stuttu síðar hafi hann tjáð ákærða, Guðmundi Andra, að hann hefði í huga meðákærðu, Elvu Hlín, sem væri tilbúin til að taka þetta að sér. Guðmundur Andri hafi sagst vilja hitta ákærða ásamt meðákærðu, Elísabetu, og hafi það orðið úr að þau hafi öll mælt sér mót á Kleppsvegi, á heimili meðákærðu, Elísabetar. Hafi meðákærða, Elísabet, tjáð ákærða, X, að hún þyrfti að fá einhvern til að fara til Benidorm, hitta þar fyrir mann og fá frá honum tösku, er innihéldi kókaín. Hún hafi ekki nefnt magn efnisins, en ákærði kvað sig minna að talað hefði verið um eitt kíló. Síðan hafi átt að koma töskunni heim til Íslands og afhenda Elísabetu. Sá er tæki þetta að sér ætti að fá 500.000 krónur fyrir verkið. Ákærði hafi svo í kjölfarið leitað til meðákærðu, Elvu Hlínar, og hafi orðið úr að hún hafi tekið þetta að sér. Daginn eftir hafi ákærði hitt meðákærða, Guðmund Andra, og hafi hann tjáð sér að ekki væru til peningar fyrir ferðakostnaði, en ákærði kvaðst hafa útvegað sér þá, með því að fá lán hjá kunningjum sínum. Síðan hafi þeir Guðmundur Andri hitt meðákærðu, Elísabetu, á heimili hennar. Borist hafi í tal að hann færi sjálfur með ákærðu, Elvu Hlín, til Spánar til að vera henni til aðstoðar og hafi það orðið úr. Á Benidorm hafi þau farið á tiltekinn stað til þess að hitta manninn sem ákveðið hafði verið að hitta. Þau hafi beðið lengi, en hann ekki komið. Ákærði hafi þá haft símasamband við meðákærðu, Elísabetu, og hafi þá komið í ljós að þau voru ekki á réttum stað. Áður en ferðin var farin, hafi verið ákveðið að hafa aðgerðarplan B, ef fyrir fram verkáætlun tækist ekki. Þau hafi síðan farið á annan stað til að hitta manninn, en hann hafi heldur ekki komið. Elísabet hafi sagt honum að bíða rólegur. Hún hafi svo sent honum sms um að hann gæti hitt þennan aðila á tilteknum stað og hafi ákærði farið þangað, en aðilinn hafi ekki sýnt sig. Meðákærða, Elísabet, hafi svo aftur haft samband við hann með sms og hafi hún leiðbeint ákærða í gegnum símann hvar manninn væri að finna. Ákærði kvaðst hafa fengið lýsingu á þessum manni hér heima, hann hafi átt að vera krullhærður með stutt og dökkt hár og yfirvaraskegg. Hafi verið ákveðið að ákærði skyldi segja við manninn: ,,Hitti ég þig ekki hérna í fyrra.” Hafi ákærði gengið að manninum og ávarpað hann, og hafi maðurinn talað íslensku. Maðurinn hafi svo rétt honum tösku. Ákærði kvaðst hafa haft töskuna í sínum fórum í fjóra daga, en síðan hafi þau Elva Hlín flogið heim, þar sem þau voru handtekin. Ákærði kvað meðákærðu, Elísabetu, hafa verið stadda á flugstöðinni er hann kom til landsins og hafi hann rætt við hana, og hafi hún spurt um meðákærðu, Elvu Hlín.

             Ákærði kvaðst hafa tekið þetta verkefni að sér peninganna vegna, en ekki til að fjármagna eigin neyslu. Þá hafi hann gert Elvu Hlín grein fyrir þeim hættum er fylgt gætu þessu.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu, 15. ágúst sl. kvað ákærði Elísabetu hafa afhent sér miða, sem hafði að geyma upplýsingar um hvar átti að nálgast töskuna með fíkniefnunum og hvenær. Á miðanum hafi staðið Levante Club, aftan á miðanum hafi staðið plan B 18.30. Ákærði greindi einnig frá því í sömu yfirheyrslu að meðákærða, Elísabet, hefði lofað ákærða því að farmiði yrði keyptur til baka frá Spáni, fyrir hann og meðákærðu, Elvu Hlín. Við sömu yfirheyrslu lýsti ákærði því á nákvæman hátt hvernig meðákærða, Elísabet, gaf honum fyrirmæli um síma eða á msn um hvar manninn væri að finna sem afhenda átti töskuna, en ákærða hafði gengið illa að ná fundum hans.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 17. ágúst sl., kvaðst ákærði hafa hringt í meðákærðu, Elísabetu, og sagt henni að hún þyrfti að kaupa farmiða fyrir þau Elvu Hlín heim til Íslands. Hafi hún sagt að þau skyldu fara á flugvöll Alicante og þar yrði hægt að kaupa farmiða. Hafi þau gert það, en ekki hafi verið hægt að kaupa þar farmiða. Hann hafi aftur haft samband við meðákærðu, Elísabetu, á flugvellinum og hún hafi sagt ákærða að íslenskir fararstjórar á flugvellinum hlytu að geta hjálpað til við kaup á farmiðum. Það hafi hins vegar ekki gengið og hafi orðið úr að ákærða, Elva Hlín, hafi hringt í stjúpföður sinn, sem hafi útvegað peninga til þess að kaupa farmiða til London. Þau hafi svo dvalist í London og þá hafi meðákærða, Elísabet, gefið honum upp kreditkortanúmer sem hann gat notað til þess að kaupa fyrir ferð heim frá London. Hann kvað meðákærðu, Elísabetu, hafa haft fullkomna vitneskju um þetta verk og kvaðst hafa heyrt hana tala um að í töskunni hafi átt að vera 1 kíló af kókaíni og hafi meðákærða, Elva Hlín, talið að um sama magn hafi átt að vera að ræða.

Ákærði kom fyrir dóm 18. ágúst sl. Hann lýsti málsatvikum á sama veg og fyrir lögreglu og staðfesti fyrir dómi þær lögregluskýrslur er hann gaf 10. ágúst sl., 15. ágúst sl. og 17. ágúst sl. Hann kvað meðákærðu, Elvu Hlín, hafa átt að fá greitt fyrir verkið 500.000 krónur, en ákærði hafi sjálfur átt að fá ,,góðan kökubita“ fyrir þetta.

Ákærða, Elva Hlín, var fyrst yfirheyrð hjá lögreglu 10. ágúst sl. Hún kvaðst hafa farið ásamt meðákærða, X, til Spánar í skemmtiferð. Spurð um hver hafi sett fíkniefnin í tösku þá sem hún hafði meðferðis við komuna til landsins, kvaðst hún ekki vilja svara því. Þá kvaðst hún ekki vilja svara því hvort hún hafi vitað af fíkniefnum í töskunni eða hver ætti fíkniefnin. Ákærða var aftur yfirheyrð hjá lögreglu 18. ágúst sl. Þá kvað hún tilgang fararinnar hafa átt að vera að ná í fíkniefni, um tvö kíló af kókaíni. Síðar í yfirheyrslunni kvaðst ákærða vilja breyta fyrri framburði sínum. Hún kvað þau X einhverju sinni hafa verið að ræða saman á msn og hafi hann spurt hana að því hvort hún væri tilbúin til að fara til Benidorm til að sækja þangað fíkniefni, um eitt kíló af kókaíni. Hann hafi sagt að hún fengi 500.000 krónur fyrir að sækja fíkniefnin. Hún hafi hugsað málið og síðan ákveðið að fara. Hún kvað að í upphafi hafi verið talað um að um eitt kíló væri að ræða, en þegar líða hafi tekið á ferðina hafi hún einhvern tíma heyrt að um tvö kíló af kókaíni væri að ræða. Hún kvað meðákærða, X, hafa sagt sér að þeir sem stæðu á bak við innflutninginn ætluðu að fjármagna ferðina og greiða fyrir ferðir og uppihald, en þegar á reyndi hafi þeir ekki borgað neitt. Ákærða lýsti ferðinni út og afhendingu efnanna til X ytra á sama hátt og ákærði, X, gerði fyrir lögreglu. Ákærða kvaðst ekki vita hver stæði á bak við þennan innflutning og kvaðst ekki þekkja meðákærðu, Elísabetu, eða meðákærða, Arnar Sindra.

Ákærða kom fyrir dóm 18. ágúst 2006. Hún lýsti málsatvikum á sama hátt og fyrir lögreglu. Hún kvaðst ekkert hafa komið að skipulagningu ferðarinnar, hún hafi einungis átt að bera töskuna með fíkniefnunum í gegnum tollinn. Ákærða kvað að í fyrstu hafi henni verið sagt að um væri að ræða eitt kíló af kókaíni, en þegar þau voru komin út hafi verið sagt að um væri að ræða tvö kíló. Ákærða kvaðst hafa átt að fá 500.000 krónur fyrir verkið. Hún kvað fólkið sem átti kókaínið hafa átt að sjá um ferðina út og borga hana, en það hafi ekki verið gert. Ákærða kvað einhver vandræði hafa verið þegar taskan var afhent úti, en hún hafi ekki verið viðstödd afhendinguna. Ákærða staðfesti fyrir dómi lögregluskýrslu er hún gaf 18. ágúst sl.

Ákærða, Elísabet, var fyrst yfirheyrð hjá lögreglu 10. ágúst sl. Hún kvaðst kannast við málið að hluta til og kvaðst vera milligöngumaður í málinu. Hún kvaðst skulda ónefndum aðila 390.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta. Hún kvað samband hafa verið haft við hana og hún beðin um að útvega aðila til að fara að ná í fíkniefni til útlanda. Ef hún gerði það, yrði skuldin við þennan aðila afgreidd. Hún hafi þá haft samband við meðákærða, Guðmund Andra, sem hafi séð um að hafa samband við meðákærða, X, og fengið hann til verksins. Hún kvaðst ekki þekkja ákærðu, X og Elvu Hlín. Hún kvaðst þó hafa verið stödd á flugstöðinni er þau komu til landsins, til að sækja þau. Ákærða kvaðst þekkja Guðmund Andra, þar sem hann hefði keypt af henni kókaín, er hún var að selja það. Ákærða vildi ekki svara því hvort hún þekkti eitthvað til manns sem kallaður væri Sindri. Við lögregluyfirheyrslu 16. ágúst sl., kvað ákærða Arnar Sindra vera þann aðila sem hafi átt að afhenda ákærðu, X og Elvu Hlín, fíkniefnin á Spáni. Hún kvað meðákærða, X, hafa verið í sambandi við hana meðan hann dvaldi á Benidorm, aðallega vegna þess að þeir hafi farist á mis, X og Arnar Sindri.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. ágúst sl., var ákærðu kynnt efnaskýrsla í málinu og kvað hún það koma sér á óvart um hversu mikið magn fíkniefna var að ræða. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 25. september sl., kvaðst ákærða einungis hafa verið milliliður til að útvega burðardýr, hún hafi ekki vitað hver hafi átt að útvega meðákærðu, X og Elvu Hlín, peninga til ferðarinnar. Ákærða kvað þann mann sem hefði afhent henni minnismiða, er hafði að geyma upplýsingar um staðsetningu og tíma til afhendingar fíkniefnanna, hafa verið sama mann og hún skuldaði peninga vegna fíkninefnakaupa. Hún kvaðst hafa haft milligöngu um sölu á kókaíni til nokkurra aðila. Hún kvaðst aldrei geta átt fíkniefni sjálf, þar sem hún væri mikill fíkill, en hún hefði verið milliliður milli seljanda og kaupenda.

Hún kom fyrir dóm 18. ágúst sl. Skýrði hún þá svo frá að hún hefði skuldað ákveðnum manni peninga, sem hún vildi ekki nafngreina. Hafi sá maður viljað að hún sæi til þess að hún kæmi pakka heim til Íslands. Hafi hún neitað í fyrstu, en kvað sér hafa verið hótað og hún verið lamin. Hafi hún þá rætt við meðákærða, Guðmund Andra, og hafi hann komið á fundi með henni og ákærða, X, sem hafi tekið þetta að sér. Hún kvaðst hafa þekkt meðákærða, Guðmund Andra, frá fyrri tíð og hafi henni dottið í hug hans nafn, þar sem hann þekki vel til í undirheimunum. Hafi hann átt að fá hlut í efnunum fyrir greiðann. Hún kvaðst ekki þekkja meðákærða, Arnar Sindra, neitt, en hún hafi þó hitt hann áður en hann fór út. Hann hafi látið hana fá símanúmer hjá vinkonu hennar, sem sé með manninum sem eigi efnin og kvað hún Arnar Sindra hafa sagt að hún mætti eingöngu hringja í það númer úr tíkallasíma. Hún kvaðst hafa hitt meðákærða, X, tvisvar eða þrisvar og hafi þau spjallað um fyrirkomulag og afhendingu efnanna. Hún kvað afhendinguna hafa átt að fara fram á hóteli sem heiti Levante Club. Hafi meðákærði, X, átt að segja við Arnar Sindra: ,,Hitti ég þig ekki í fyrra.“ Síðan hafi orðið eitthvert vesen á afhendingu efnanna, þar sem meðákærða, Arnari Sindra, hafi eitthvað seinkað. Því hafi hún þurft að hafa samband við ,,þau sem búa úti“ og þau hafi svo verið í sambandi við meðákærða, Arnar Sindra, en hún sjálf verið í sambandi við meðákærða, X, um hvernig standa ætti að afhendingunni. Hún kvaðst telja að um ætti að vera að ræða ,,sirka eitt kíló“ af kókaíni. Hún staðfesti fyrir dómi lögregluskýrslu frá 16. ágúst sl. Við lögregluyfirheyrslu 25. september sl., kvað ákærða rétt sem meðákærði, Arnar Sindri, hefði borið fyrir lögreglu að hún hefði lagt inn á greiðslukort er hann hafði umráð yfir 30.000 krónur og hefðu peningarnir komið frá þeim aðila sem hafi beðið ákærðu um að útvega ,,burðardýrið“.

Ákærði, Guðmundur Andri, var yfirheyrður 14. ágúst 2006. Kvað hann aðild sína að máli þessu vera þá að meðákærða, Elísabet, og hann væru kunningjar. Hún hefði haft samband við sig, um mánuði fyrr og í framhaldi af því hefðu þau hist heima hjá henni að Kleppsvegi. Hún hefði sagt honum að ,,eitthvað stórt“ tengt fíkniefnainnflutningi væri í gangi og spurt hann að því hvort hann gæti lánað henni peninga fyrir fargjaldi tveggja aðila heim til Íslands og hafi ákærði talið sig geta það. Þegar á reyndi hafi hann ekki getað það. Ákærði kvaðst ekkert hafa komið frekar að máli þessu.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 16. ágúst 2006 breytti ákærði framburði sínum og kvað meðákærðu, Elísabetu, hafa sagt sér frá innflutningi á fíkniefnum frá Spáni og hafi hún spurt ákærða að því hvort hann þekkti einhvern sem gæti náð í efnin þangað og flutt þau heim. Hafi ákærði sagst ætla að kanna málið. Hann hafi síðan borið þetta í tal við meðákærða, X, sem hafi sagst ætla að hugsa málið. Hafi hann svo látið meðákærðu, Elísabetu vita af því að líklega væri hann kominn með aðila er gæti tekið verkefnið að sér. Meðákærði, X, hafi svo haft samband við sig og sagt að hann væri kominn með aðila sem gæti tekið þetta að sér, en ekki nefnt hann á nafn. Þeir X hafi svo hist heima hjá meðákærðu, Elísabetu, og þar hafi verið rætt um að sækja ætti tösku með fíkniefnunum á eitthvert hótel á Benidorm. Kvaðst ákærði hafa haft vitneskju um að einhver aðili hafi átt að afhenda töskuna þar ytra. Ákærði kvað sig minna að ákærða, Elísabet, hefði sagt að sá sem tæki verkið að sér fengi 500.000 krónur. Ákærði kvað þau þrjú aftur hafa hist á heimili sínu, stuttu áður en ákærði, X, fór til Spánar. Ákærði kvaðst hafa reynt að redda einhverjum peningum og hafi hann getað útvegað 10.000 krónur, sem ákærða, Elísabet, hafi millifært af hans reikningi yfir á einhvern annan reikning. Ákærði kvaðst telja að meðákærða, Elísabet, hafi verið eigandi þessara fíkniefna og kvað sér hafa verið sagt að eitt kíló af fíkniefnum hafi átt að vera í töskunni.

Ákærði kom fyrir dóm 18. ágúst sl. Lýsti hann málsatvikum á sama hátt og í lögregluskýrslu 16. ágúst 2006. Hann kvaðst ekki hafa átt að fá neitt fyrir aðild sína að málinu, um hafi verið að ræða greiða á móti greiða. Ákærði staðfesti fyrir dómi lögregluskýrslu er hann gaf 16. ágúst sl.

Ákærði, Arnar Sindri Magnússon, var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. ágúst sl. Kvaðst hann hafa farið til Spánar 31. júlí sl. og hafi hann verið þar í um viku. Hann hafi einungis verið að skemmta sér þar og kvaðst ekki hafa farið til Benidorm. Hann neitaði alfarið aðild sinni að innflutningi fíkniefna til landsins. Ákærði hélt fast við framburð sinn 16. ágúst 2006, er hann var yfirheyrður á ný og einnig í lögregluskýrslu  21. ágúst 2006 og neitaði aðild sinni að innflutningi fíkniefna til landsins.

Í lögregluskýrslu, er tekin var af ákærða 6. september sl., breytti hann framburði sínum og kvaðst játa að hafa afhent tösku á Benidorm. Tildrög þess hafi verið þau að hann hafi skuldað manni 70.000 krónur og hafi tilgreindur maður komið til hans og sagt honum að hann fengi skuldina niðurfellda ef hann færi til Spánar, nálgaðist ferðatösku á Torrevieja og kæmi henni á ákveðinn stað. Hann hafi því farið til Spánar 9. eða 11. júní sl., tekið við töskunni en sá sem taka átti við henni hafi aldrei látið sjá sig. Honum því verið sagt að koma töskunni vel fyrir. Hann hafi svo haldið heim, en sá maður sem hafði beðið hann um að afhenda töskuna, hafi sagt að hlutverki hans væri ekki lokið og hann þyrfti aftur að fara út og klára þetta verkefni. Hafi hann þá haldið aftur til Spánar 31. júlí sl. Þar hafi hann lent í ákveðnum peningavandræðum sem hafi orðið til þess að honum tókst ekki að nálgast töskuna strax, en eftir að meðákærða, Elísabet, hafði lagt 30.000 krónur inn á greiðslukort sem hann var með, hafi honum tekist að nálgast töskuna. Síðan hafi hann afhent töskuna manni nokkrum við netkaffi á Benidorm. Hann hafði áður beðið á Hótel Levante Club, en þangað hafði enginn komið. Því hafi hann haft samband á netinu við manninn sem hafi fengið ákærða í þetta verkefni og hafi sá maður ætlað að kanna málið. Eftir einhvern tíma hafi ákærði fengið boð frá manninum um að fara á ákveðið netkaffi þar sem afhenda ætti töskuna. Stuttu síðar hafi gengið til hans maður sem hafi tekið við töskunni. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvaða fíkniefni voru í töskunni og hversu mikið magn var um að ræða.

Í sömu yfirheyrslu var ákærði spurður um tengsl sín við A. Kvaðst ákærði þekkja hann en ekki hafa nein tengsl við hann í dag. Ákærða var kynnt að lögregla hefði undir höndum hljóðritanir úr síma hans og sú ætlun lögreglu að ákærði hefði nokkrum sinnum rætt við A í síma og að A hefði ítrekað verið að biðja ákærða um að fara inn á Skype svo að þeir gætu talað saman. Kvaðst ákærði ekkert hafa um það að segja og kvaðst ekki vita við hvern hann væri að tala, er spilaðar voru fyrir ákærða upptökur af hljóðritunum, sem lögregla ætlaði að væru samtöl milli ákærða og A.

Ákærði kom fyrir dóm 8. september sl. Hann kvaðst hafa verið tilneyddur að taka þátt í þessum fíkniefnainnflutningi vegna skulda við tilgreinda menn, sem hann þori ekki að nafngreina. Hann kvað sitt verkefni hafa verið að taka við pakka á Spáni og færa hann frá einu hóteli til annars. Hann hafi farið tvær ferðir til Spánar í þessum tilgangi, en einhver ruglingur hafi orðið á afhendingu og hann hafi setið uppi með töskuna. Hann hafi því komið töskunni fyrir og komið síðar til Spánar til þess að klára verkefnið. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað var í töskunni, annað en það að hann vissi að þar voru fíkniefni. Hann kvað að laugardaginn 5. ágúst hafi hann getað afhent töskuna, fyrir utan eitthvert netkaffi á Spáni. Hann kvaðst ekki þekkja manninn sem tók við töskunni og aldrei hafa séð hann áður. Ákærði kvaðst ekki hafa þorað að játa aðild sína að málinu fyrr en raun bar vitni, vegna hræðslu um ofbeldi af hálfu þeirra sem stóðu að máli þessu. Ákærði staðfesti fyrir dómi lögregluskýrslu sem hann gaf 6. september sl.

Í málinu liggja frammi gögn um símhleranir í síma ákærðu, sem og ýmis gögn úr bönkum og sparisjóðum varðandi bankaviðskipti þeirra, en vegna játningar ákærðu á meginefni ákæru, þykir ekki þykir ástæða til að rekja efni þessara skjala, að öðru leyti en því að í yfirliti yfir kortafærslur vegna greiðslukorts B, unnustu ákærða, Arnars Sindra, kemur fram að 2. ágúst 2006 hafi verið lagðar inn á greiðslukortið 30.000 krónur.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna við þingfestingu málsins og við aðalmeðferð þess.

Ákærði, X, játaði þá háttsemi sem greinir í ákæru, að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa lagt á ráðin við Elvu Hlín um að fara með sér til Spánar. Hann kvaðst ekki hafa framið brotið í ágóðaskyni og kvaðst hafa staðið í þeirri trú að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni. Þá neitaði hann því að hafa staðið að skipulagningu á innflutningi efnanna.

Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá að hann hefði hitt meðákærða, Guðmund Andra, sem hafi spurt hann hvort hann gæti útvegað ,,burðardýr“. Hann hafi haft samband við meðákærðu, Elvu Hlín, og spurt hana. Síðan hafi meðákærði, Guðmundur Andri, komið á fundi með honum sjálfum og Elísabetu til að vita hvernig ætti að standa að þessu. Sá fundur hafi verið haldinn heima hjá meðákærðu, Elísabetu. Hann kvað skipulagningu ferðarinnar ekki hafa verið í sínum höndum, hún hefði verið frágengin áður en hann kom að málinu. Hann kvað að sér hefði aldrei verið boðin peningagreiðsla, en ákærða, Elísabet, hafi sagt að ,,gert yrði vel við hann“.  Hann kvaðst hafa skilið það svo, um væri að ræða greiðslu með einhverjum efnum. Ákærði kvað þau þrjú, þ.e. Elísabetu, Guðmund Andra og hann sjálfan hafa hist. Hafi verið rætt um hvar ætti að sækja efnið, sem hafi átt að vera 1 kíló af kókaíni og hvernig standa ætti að afhendingu þess. Meðákærði, Guðmundur Andri, hefði hins vegar ekki verið á þeim fundi með þeim Elísabetu, þar sem Elísabet afhenti ákærða miða með upplýsingum um þann sem afhenda átti töskuna ytra, lykilorð og fleira. Ákærði kvaðst hafa sagt meðákærðu, Elvu Hlín, að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni og kvaðst ekki reka minni til að upplýsingar um efnismagn hefðu breyst. Hann kvaðst hafa hitt meðákærðu, Elísabetu, nokkrum sinnum vegna þessa. Hann kvað hafa verið ákveðið á síðustu stundu að hann færi með ákærðu, Elvu Hlín, út. Hann kvað það hafa verið mestan part sína ákvörðun að senda hana ekki eina út. Ákærði kvaðst hafa greitt um 130.000 krónur fyrir flugmiðana. Ákærði kvaðst hafa búist við því að meðákærða, Elísabet, myndi endurgreiða sér fargjaldið. Þá kvaðst ákærði hafa búist við því að meðákærða, Elísabet, tæki við efnunum er þau væru komin til landsins, enda hefði hún virst vera sá aðili sem sá mest um þetta. Ákærði kvað tímasetningar á afhendingu efnanna ekki hafa staðist úti, en hann hafi verið í sambandi við meðákærðu, Elísabetu, vegna þess og hafi hún svo haft samband við sig aftur. Aðallega hafi þau verið í símasambandi vegna þessa. Ákærði kvaðst hafa verið í fíkniefnaneyslu á þessum tíma.

Ákærða, Elva Hlín, játaði þá háttsemi sem greinir í ákærulið 4, en kvaðst hafa staðið í þeirri trú að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni og kvaðst ekki hafa framið verknaðinn í ágóðaskyni. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærða vin sinn, X, hafa spurt hana um það hvort hún vildi fara út og ná þar í fíkniefni. Hann hafi rætt mjög lauslega um hvað ætti að gera, þ.e. að þar ætti hún að ná í tösku úti og koma með hana til landsins. Nokkrum dögum síðar hafi hún ákveðið að taka verkið að sér. Hafi hún þá fengið frekari upplýsingar, þ.e. að hún ætti að hitta mann úti og fá hjá honum tösku, sem hún átti að koma til landsins. Hún kvaðst eingöngu hafa rætt við meðákærða, X, um þessa ferð. Hún kvað að sér hefði verið sagt að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni. Þegar þau voru komin út hafi meðákærði, X, sagt henni að hugsanlega gæti verið um 2 kíló að ræða, en þær upplýsingar hefðu komið frá einhverjum sem var undir áhrifum fíkniefna, þannig að hún hafi ekki vitað hvort þetta hafi verið vitleysa. Hún kvaðst hafa átt að fá 500.000 krónur fyrir verkið. Hún kvaðst ekki hafa verið viðstödd þegar fíkniefnin voru afhent úti og kvaðst ekki hafa verið í samskiptum við neina þegar ljóst varð að afhending fíkniefnanna hafði misfarist í fyrstu tilraun þar ytra. Meðákærði, X, hafi ákveðið að fara með henni, en ekki hafi verið rætt sérstaklega um hvað hann ætti að fá fyrir sinn hlut. Hún kvaðst hafa farið í fíkniefnameðferð eftir að þetta mál kom upp og einnig hafi hún farið í sálfræðimeðferð.

Ákærða, Elísabet, neitaði sök við þingfestingu málsins og kvaðst hafa verið látin útvega ,,burðardýr“ til að flytja efnin til landsins vegna mikilla ofbeldishótana. Hún kvaðst draga þann framburð sinn til baka sem stangaðist á við það sem hún héldi fram nú. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærða að hún hefði verið beðin um að flytja efni til landsins. Hún hefði neitað því og þá hefði hún verið beitt miklum þrýstingi og ofbeldi. Hún kvaðst þó aldrei hafa kært það ofbeldi. Hún kvaðst ekki vilja nafngreina þá sem beittu hana þrýstingi. Hún hefði því látið það berast í vinahóp sinn að hana vantaði burðardýr. Hafi þá meðákærði, Guðmundur Andri, komið henni í samband við ákærða, X. Hún hafi hitt ákærðu, Guðmund Andra og X, þrisvar, bæði heima hjá henni sjálfri og heima hjá Guðmundi Andra. Þau hafi rætt um fyrirkomulagið á þessari ferð, en hún kvaðst ekki vita hvort rætt hefði verið á þessum fundum um hvaða fíkniefni væri að ræða og magn þeirra. Ákærða kvað meðákærða, X, eitt sinn hafa komið einan til hennar og hafi hún þá afhent honum miðann sem meðákærði, Arnar Sindri, hefði afhent henni. Þá kvaðst ákærða hafa lýst Arnari Sindra fyrir ákærða, X. Ákærða kvaðst hafa hitt meðákærða, Arnar Sindra, og hafi hann afhent henni miða þar sem á stóð hvar og hvenær ætti að afhenda efnin. Hún hafi svo afhent ákærða, X, þennan miða. Ákærða kvað meðákærða, X, hafa verið í símasambandi og sambandi á msn við hana meðan hann var úti á Spáni. Þau hafi rætt um að sá sem afhenda átti töskuna hefði ekki sýnt sig. Hefði hún þá fengið upplýsingar frá þeim aðilum sem fengu hana til þessa verks, um hvar ætti að afhenda efnin og hafi hún komið þeim upplýsingum áfram. Hún kvað að um það hefði verið rætt að flytja ætti til landsins að hámarki eitt kíló af kókaíni. Hún var spurð um það hvort meðákærði, Guðmundur Andri, hefði átt að fá eitthvað fyrir sinn þátt í málinu. Sagði þá ákærða orðrétt: ,,Veistu, ég bara.“ Spurð um það hvort ákærða hefði sjálf lofað honum einhverju í því sambandi, kvaðst ákærða ekki hafa gert það.

Ákærða kvaðst ekki hafa neytt fíkniefna frá því að hún var handtekin og ekki vera á neins konar lyfjum. Hún kvaðst eiga tvö lítil börn, 2 ára og 8 ára.

Ákærði, Guðmundur Andri, kvaðst játa háttsemi þá sem í ákæru greinir, að öðru leyti en því að hann kvað verkið hafa verið unnið í ágóðaskyni, kvaðst ekki hafa tekið þátt í undirbúningi og skipulagningu innflutningsins og ekki hafa vitað um tegund eða magn efnanna. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá að hann þekkti meðákærðu Elísabetu og einhverju sinni sem þau hittust hafi hún spurt hvort hann vissi um einhvern sem gæti tekið að sér að flytja fíkniefni til landsins. Ákærði kvað meðákærðu hafa sagt að hún væri peningalaus, en ástæða innflutningsins hefði aldrei verið rædd og hefði hún ekki rætt við ákærða um að henni hefði verið hótað ofbeldi ef hún útvegaði ekki einhvern til að flytja efnin til landsins.

Ákærði hafi haft samband við meðákærða, X, og hafi hann sagst ætla að athuga málið. Síðan hafi þau þrjú hist heima hjá meðákærðu, Elísabetu. Málið hafi hins vegar verið lítið rætt í það skipti. Ákærði kvað meðákærðu hafa sagt á seinni fundum þeirra að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni. Síðar bar ákærði þann framburð til baka og kvað efnismagnið alltaf hafa verið óljóst. Þau þrjú hafi hist í tvö til þrjú skipti, þar á meðal hafi þau hist í eitt skipti heima hjá honum sjálfum. Rætt hafi verið um það á fundum þeirra hvort hann gæti útvegað einhverja peninga, en ákærði hafi ekki getað það. Ákærði kvaðst ekki hafa gengið út frá því að fá einhver efni fyrir sinn hlut í málinu. Ákærði kvaðst hafa leyft meðákærðu, Elísabetu, að millifæra 10.000 krónur af reikningi sínum yfir á einhvern annan reikning. Ákærði kvaðst hafa verið í sálfræðimeðferð frá miðjum október sl. Þá hafi hann verið að byggja sér hús fyrir austan og verið í vinnu alla daga. Hann kvaðst ekki vera í neinni neyslu fíkniefna í dag.

Ákærði, Arnar Sindri, játaði sök við þingfestingu málsins. Hann kvaðst þó ekki hafa framið brot sitt í ágóðaskyni og ekki hafa haft hugmynd um magn efnisins. Hann játaði brot það er greinir í ákærulið 6.

Við aðalmeðferð málsins bar hann að hann hefði verið neyddur til að fara í þessa ferð, vegna skuldar við ákveðinn aðila. Hann kvaðst hafa skuldað þessum aðila vegna fíkniefnakaupa, en um væri að ræða um tveggja ára gamla skuld. Ákærði kvaðst áður hafa verið tekinn og  hann pyntaður og barinn fyrir slíkar skuldir. Ákærði kvað að sl. sumar hefði verið rætt við hann og hann beðinn um að fara í þessa ferð og afhenda efnin. Ákærði kvaðst hafa farið út til Spánar 31. júlí. Þar hefði hann beðið í tvo til þrjá daga eftir því að geta náð í efnin. Síðan hafi hann getað nálgast efnin og hafi hann þurft að færa töskuna til Benidorm. Hann kvað ekki hafa verið rætt um innhald töskunnar og hafi hún verið tóm þegar hún var opnuð. Ákærði kvað áætlun um afhendingu töskunnar ekki hafa staðist. Hann kvaðst hafa verið í sambandi í gegnum netið við aðila sem leiðbeindu honum um hvar ætti að hitta manninn, en ákærði kvaðst ekki geta nefnt aðilana á nafn. Það hefðu verið sömu aðilar og þvinguðu ákærða til að fara út og afhenda efnin. Ákærði kvaðst hafa hitt meðákærðu, Elísabetu, á BSÍ áður en hann fór út, en þar hafi hún verið að ræða um breytingar á áætlun, varðandi nýja tímasetningu og nýja staðsetningu á afhendingu efnanna og einnig að um nýjan aðila væri að ræða, sem tæki við efnunum. Ákærði kvað meðákærðu, Elísabetu, ekki hafa minnst á hvað væri í töskunni. Ákærði kvað að fyrir greiðann hafi átt að gera upp skuld ákærða við þann sem fól honum verkið. Ákærði kvað hlutverki sínu hafa verið lokið þegar hann hafði afhent efnin. Ákærði kvaðst ekki neyta fíkniefna í dag og hafi hann hætt neyslu þeirra af sjálfsdáðum. 

Vitnið, Jakob Guðjónsson, kvaðst starfa sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli. Hann kvað ákærðu, Elvu Hlín og X, hafa komið til landsins og hafi X verið stöðvaður. Ekkert athugavert hafi fundist í farangri hans. Í tösku Elvu Hlínar hafi hins vegar fundist einkennilegur frágangur á saumum. Við gegnumlýsingu á töskunni hafi komið í ljós tveir stórir pakkar. Ákærða, Elva Hlín, hafi neitað því að um fíkniefni væri að ræða. Vitnið hafi síðan komið auga á fíkniefnin í töskunni.

Vitnið, Jakob Líndal Kristinsson, kvaðst hafa tekið til skoðunar sýni til rannsóknar, sem greinir í fyrirliggjandi matsgerð frá 25. ágúst sl. Komið hafi í ljós að styrkur kókaíns í sýninu hafi verið 83% en talið hafi verið að það hafi að mestu leyti verið í formi kókaínklóríðs og hafi styrkur kókaínklóríðs verið 93%. Um sé að ræða mjög sterkt efni, en hreint kókaínklóríð geti ekki verið meira en 100%. Vitnið kvað meðalstyrk í kókaínsýnum ársins 2005 hafa verið um 31% en bráðabirgðauppgjör um meðalstyrk í kókaínsýnum ársins 2006 sýna um 43%. Vitnið kvaðst einungis hafa fengið eitt sýni til rannsóknar og hafi það vegið um 2 g.

Vitnið, Kristinn Sigurðsson lögreglumaður, kom fyrir dóm. Hann var spurður um litaprófun sem gerð var á umræddu kókaíni, sbr. skjal nr. 1.0.16. Hann kvað tæknideild hafa framkvæmt þessa litaprófun. Hann kvað litaprófun leiða í ljós tegund fíkniefna sem um ræði. Vitnið kvað ekkert hafa komið fram í máli þessu um að ákærða, Elísabet, hafi verið þvinguð til þess að taka þátt í þessum innflutningi, eða að hún hefði verið beitt ofbeldi í þeim tilgangi. Vitnið staðfesti það mat lögreglu að A sé höfuðpaurinn að baki þessa innflutnings.

Niðurstaða.

Þáttur ákærða, X.

Ákærði hefur játað þá háttsemi sem greinir í ákæru frá 16. nóvember sl. og samrýmist játning hans gögnum málsins. Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði játaði þá háttsemi sem greinir í ákæru frá 1. nóvember sl., að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa lagt á ráðin við Elvu Hlín um að fara með sér til Spánar, kvaðst ekki hafa framið brotið í ágóðaskyni og kvaðst hafa staðið í þeirri trú að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni. Þá kvaðst hann ekki hafa staðið að skipulagningu á innflutningi efnanna.

Frá því að ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu um sakarefni það er greinir í ákæru frá 1. nóvember sl., hefur hann skýrt frá málsatvikum á svipaða lund. Hann skýrði svo frá fyrir dómi 4. janúar sl., að hann hefði spurt meðákærðu, Elvu Hlín, að því hvort hún vildi taka að sér að flytja 1 kíló af kókaíni til landsins, en kvaðst ekki hafa fengið hana til að fara með sér til Spánar, heldur hefði hann ákveðið að fara með henni, þar sem hann hefði ekki viljað senda hana eina út. Meðákærða, Elva Hlín, hafi tekið verkið að sér og þau farið saman út. Verður framburður ákærða um að hann hafi farið með Elvu Hlín, þar sem honum hafi þótt það öruggara, lagður til grundvallar í málinu, þar sem ekkert í málinu styður þá atvikalýsingu í ákæru að ákærði hafi ,,fengið hana til að fara með sér“.

Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði hitt meðákærðu, Elísabetu, ásamt Guðmundi Andra, nokkrum sinnum áður en haldið var út, til þess að ræða um framkvæmd afhendingar efnanna úti og einnig hafi hann verið í símsambandi við Elísabetu þegar afhending efnanna misfórst. Hann bar og fyrir dómi að hann hefði lagt út fyrir farmiðum 130.000 krónur, sem hann kvaðst hafa búist við að fá endurgreiddar frá meðákærðu, Elísabetu.

Þáttur ákærða í máli þessu var einn hlekkur í keðju atburðarásar, sem varð til þess að hingað til lands voru flutt tæp tvö kíló af kókaíni. Af gögnum málsins má ráða að ákærði hafi sjálfur ekki haft alla þræði í hendi sér varðandi skipulagningu innflutningsins. Þáttur hans var bundinn við að finna menn til verksins, sitja fundi með meðákærðu, Elísabetu og Guðmundi Andra, þar sem skipulag ferðarinnar var rætt, og afhending efnanna á Spáni. Þá hafði ákærði fíkniefnin í vörslum sínum áður en haldið var með þau til landsins. Hans þátttaka í brotinu var engu að síður grundvallarþáttur í því að hrinda verkinu í framkvæmd og ljúka því. 

Ákærði bar fyrir dómi 4. janúar sl. að honum hefði aldrei verið boðin peningagreiðsla fyrir verkið, en ákærða, Elísabet, hefði sagt að gert yrði vel við hann. Kvaðst hann hafa skilið það svo að honum yrði greitt í einhverjum efnum. Ákærði bar einnig fyrir dómi 18. ágúst sl., að hann hefði sjálfur átt að fá ,,góðan kökubita“ fyrir verkið. Verður af framburði þessum ráðið að ákærði hafi átt að njóta einhvers fyrir verk sitt.

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar voru tæp 2 kíló af kókaíni í töskunni sem ákærða, Elva Hlín, bar til landsins og breytir engu um hvað ákærði taldi vera mikið magn kókaíns í töskunni.

Þegar allt framangreint er virt og litið til játningar ákærða að hluta, er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, hann hafi staðið að skipulagningu á innflutningi fíkniefnanna og brot hans hafi verið framið í ágóðaskyni. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til refisákvæða.

Þáttur ákærðu, Elvu Hlínar.

Ákærða hefur játað þá háttsemi sem í ákæru greinir, að öðru leyti en því að hún kvaðst hafa staðið í þeirri trú að um væri að ræða 1 kíló af kókaíni og kvaðst ekki hafa framið verknaðinn í ágóðaskyni.

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar voru tæp 2 kíló af kókaíni í töskunni sem ákærða, Elva Hlín, bar til landsins og breytir engu um hvað ákærða taldi vera mikið magn kókaíns í töskunni.

Ákærða bar fyrir dómi að hún hefði átt að fá greiddar 500.000 krónur fyrir sinn þátt í verkinu. Þegar framangreint er virt og litið er til játningar ákærðu, efnismagns og tegundar fíkniefnna, er fram komin lögfull sönnun þess að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Hún er því sakfelld fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Þáttur ákærðu, Elísabetar.

Ákærða hefur játað fyrir dómi þá háttsemi að hafa í júlí sl. sett sig í samband við meðákærða, Guðmund Andra, og beðið hann að finna samverkamenn til að sækja fíkniefni til Spánar og flytja þau til landsins. Þá hefur ákærða játaðað hafa hitt ákærðu, X og Guðmund Andra, þar sem rætt var um skipulag ferðarinnar og afhendingu efnanna. Þá hefur ákærða játað að hafa verið í síma- og netsamskiptum við meðákærða X og hafi hún veitt upplýsingar um hvar afhenda átti efnin. Þá hefur ákærða neitað að hafa lagt inn á reikning meðákærða, Arnars Sindra, 30.000 krónur er hann var staddur á Spáni. Ákærði, Arnar Sindri hefur borið fyrir dómi að hún hafi lagt inn á greiðslukort, sem hann hafði umráð yfir, 30.000 krónur og á sömu lund bar ákærða sjálf í lögregluyfirheyrslu 25. september sl. Þá verður af gögnum málsins ráðið að lagðar voru inn á greiðslukort unnustu ákærða, Arnars Sindra, B 30.000 krónur 2. ágúst 2006, en ákærði hafði aðgang að því korti. Þegar framangreint er virt, er það mat dómsins að sannað sé að ákærða hafi umrætt sinn lagt 30.000 krónur inn á greiðslukort sem meðákærði, Arnar Sindri, hafði umráð yfir.

Ákærða hefur neitað því að hafa ætlað sér að taka við fíkniefnunum frá meðákærðu X, og Elvu Hlín, á Keflavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins, en fyrir liggur í málinu að ákærða var stödd þar við komu þeirra til landsins. Samkvæmt framburði ákærða, X, var ákærða sú sem ,,sá mest um“ fíkniefnainnflutninginn og kvaðst hann hafa búist við því að ákærða tæki við efnunum er þau væru komin hingað til lands.

Af framgöngu og þátttöku ákærðu í máli þessu má ráða að hún var sú sem hafði töglin og hagldirnar varðandi skipulagningu á innflutningi fíkniefnanna. Að frumkvæði ákærðu voru fundnir samverkamenn, sem fluttu efnin til landsins, hún sat fundi með samverkamönnum sínum, þar sem farið var yfir skipulag ferðarinnar og afhendingu efnanna og hún hafði milligöngu um að koma upplýsingum áleiðis til samverkamanna sinna um afhendingu efnanna á Spáni. Þá hlutaðist hún til um að útvega peninga til handa meðákærða, Arnars Sindra, er hann var í peningavandræðum á Spáni.

Þegar framangreint er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi haft svo mikilvægu hlutverki að gegna varðandi skipulag og framkvæmd fíkniefnainnflutnings þessa, að án hennar þátttöku hefði verk þetta aldrei orðið að veruleika. Það er að mati dómsins, í ljósi framangreinds, hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi ætlað sér að taka við fíkniefnunum úr hendi þeirra X og Elvu Hlínar við komu þeirra til landsins, en ákærða hefur ekki gefið trúverðugar skýringar á veru sinni flugstöðinni við komu þeirra til landsins. Ákærða hefur haldið því fram að hún hafi framið brot þessi, vegna ótta um ofbeldi af hálfu þeirra sem í raun stóðu á bak við fíkniefnainnflutninginn. Ekkert í málinu styður þennan framburð og m.a. bar meðákærði, Guðmundur Andri, sem ákærða fékk til þess að finna fyrir sig mann til að flytja efnin til landsins, fyrir dómi að hann hefði ekki heyrt ákærðu minnast á að hún þyrfti að útvega ,,burðardýr “ til þess að komast hjá ofbeldi. Þegar allt framangreint er virt og litið til játningar ákærðu að hluta, er fram komin lögfull sönnun þess að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Hún er því sakfelld fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Þáttur ákærða, Guðmundar Andra.

Ákærði játaði þá háttsemi sem í ákæru greinir, að öðru leyti en því að hann kvað verkið ekki hafa verið unnið í ágóðaskyni, kvaðst hvorki hafa tekið þátt í undirbúningi og skipulagningu innflutningsins né vitað um magn eða tegund efnanna.

Fram er komið í málinu, m.a. með framburði hans sjálfs fyrir dómi, að hann sat fundi með meðákærðu, Elísabetu og X, þar sem fíkniefnainnflutningurinn var undirbúinn og skipulag ferðarinnar var rætt, sem og afhending fíkniefnanna þar ytra. Hann hafði frumkvæði að því að finna mann, sem nota átti sem ,,burðardýr“ til að flytja fíkniefnin hingað til lands. Með þátttöku sinni í brotinu stuðlaði hann að því að flutt voru hingað til lands tæp tvö kíló af kókaíni og er að mati dómsins fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi tekið þátt í undirbúningi og skipulagningu innflutningsins.

Ákærði bar fyrir dómi 18. ágúst að rætt hefði verið um að efnin sem flytja átti til landsins væru 1 kíló af kókaíni. Við yfirheyrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærði á sömu lund, en nánar aðspurður af verjanda sínum dró ákærði í land varðandi það og kvað efnismagnið alltaf hafa verið óljóst. Afturhvarf frá fyrra framburði ákærða um efnismagn og efnistegund er að mati dómsins ótrúverðugt og að mati dómsins sannað, með afdráttarlausum fyrri framburði ákærða fyrir dómi að hann hafi vitað að um kókaín væri að ræða og að hann hafi talið það vera 1 kíló. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík voru tæp 2 kíló af kókaíni í töskunni sem ákærða, Elva Hlín, bar til landsins og breytir engu um hvað ákærði taldi vera mikið magn kókaíns í töskunni.

Varðandi þann framburð ákærða að brot hans hafi ekki verið framið í ágóðaskyni,  er að líta til þess að hann bar sjálfur fyrir dómi 18. ágúst sl., að um greiða á móti greiða hafi verið að ræða, hann hafi ekki átt að fá neitt fyrir þetta viðvik. Samkvæmt framburði ákærðu, Elísabetar fyrir dómi 18. ágúst sl., átti ákærði að fá hlut í efnunum fyrir þátt sinn í málinu. Við aðalmeðferð málsins dró ákærða úr þessum framburði sínum og kvaðst sjálf ekki hafa lofað honum neinu í þessum efnum. Er að mati dómsins ótrúverðugt afturhvarf hennar frá fyrra framburði og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið brot þetta í ágóðaskyni, enda um mikið magn sterkra fíkniefna að ræða.

Þegar allt framangreint er virt og litið til játningar ákærða að hluta er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Þáttur ákærða, Arnars Sindra.

Að því leyti sem ákærði hefur haldið því fram að verknaður hans sé refsilaus, þar sem hann hafi framið brot sitt á Spáni, er vísað til ákvæðis 2. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga, þar sem fram kemur að refsað skuli eftir íslenskum hegningarlögum, ef brot er framið á stað, sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarrétti og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess. Í málinu hefur verið lagt fram símbréf frá utanríkisráðuneytinu, þar sem fram kemur að Spánn hefur fullgilt samning ,,United Nations Convention against Illicit Traffic in Narcotic Drugs and Psychotropic substances“ frá 1988. Einnig hefur verið lögð fram þýðing á ákvæðum spænskra hegningarlaga varðandi meðferð fíkniefna. Af gögnum þessum verður ráðið að fyrir brot ákærða skal refsað samkvæmt íslenskum hegningarlögum.

Ákærði, Arnar Sindri, játaði sök, en kvaðst þó ekki hafa framið brot sitt í ágóðaskyni og ekki hafa haft hugmynd um magn efnisins, en kvaðst hafa vitað að um fíkniefni væri að ræða.

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar voru tæp 2 kíló af kókaíni í töskunni sem ákærða, Elva Hlín, bar til landsins og breytir engu um hvað ákærði taldi vera mikið magn kókaíns í töskunni.

Ákærði lýsti því fyrir dóminum að hann hefði verið neyddur til þess að framkvæma sinn hlut í brotinu vegna skuldar við þann sem stæði á bak við innflutning efnanna. Hann kvað að fyrir sinn þátt hefði hann átt að fá uppgjöf skuldarinnar. Því er ljóst að ákærði átti að njóta góðs af þátttöku sinni í brotinu. Þegar framangreint er virt, horft til efnismagns og tegundar fíkniefna þeirra sem um ræðir og litið til játningar ákærða að hluta er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Hann er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Refsiákvarðanir.

Að mati dómsins bera öll ákærðu refsiábyrgð í máli þessu sem aðalmenn, enda var þáttur hvers og eins í brotinu mikilvægur og stuðlaði með einum eða öðrum hætti að því að hingað til lands voru flutt tæp tvö kíló af kókaíni.

Samkvæmt sakavottorði ákærða, X, gekkst hann undir greiðslu 75.000 króna sektar 16. febrúar 2006 vegna brota gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 48. gr. sömu laga og var þá sviptur ökurétti í 8 mánuði.

Brot þetta hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum, 146. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu varðar fíkniefnainnflutning á afar hættulegu fíkniefni, kókaíni, að miklum styrkleika. Það beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og horfir það til refsiþyngingar. Ákærði sammæltist við aðra ákærðu um framkvæmd verknaðarins og horfir það einnig til refsiþyngingar. Til refsimildunar verður horft til þess að ákærði var samvinnuþýður við rannsókn málsins og alla meðferð þess. Samkvæmt framlögðu vottorði varðstjóra á Litla-Hrauni hefur hann stundað vinnu vel í fangelsinu og ekki orðið uppvís að agabrotum.

Þegar framangreint er virt og litið til 77. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 ár, en vegna alvarleika brots hans kemur skilorðsbinding refsingar ekki til greina. Til frádráttar refsingar ákærða komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 10. ágúst sl. til 22 desember sl.

Ákærða, Elva Hlín, er aðeins 18 ára gömul og hefur aldrei gerst sek um refsiverðan verknað svo vitað sé. Samkvæmt framlögðu vottorði SÁÁ dvaldist hún á sjúkrahúsinu Vogi frá 4. september til 16. september 2006 í fíkniefnameðferð. Hún var í eftirmeðferð frá 18. september 2006 til 15. október 2006. Hún hefur einnig sótt sálfræðiviðtöl og er í vinnu.

Brot hennar beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og horfir það til refsiþyngingar. Þegar litið er framangreinds er refsing hennar ákveðin fangelsi í 3 ár. Þegar horft til þess að ákærða er mjög ung, með engan sakarferil að baki og hefur sýnt viðleitni til að koma lífi sínu í réttara horf, sem og þess að þáttur hennar í brotinu var að mestu bundinn við flutning efnanna til landsins, án beinnar þátttöku hennar í skipulagningu verksins, er rétt að fresta fullnustu refsingar ákærðu og skal hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Komi til fullnustu refsingar ákærðu komi gæsluvarðhald, sem ákærða sætti frá 10. ágúst til  30. ágúst 2006, til frádráttar refsingu hennar. 

Ákærða, Elísabet, er fædd árið 1974. Samkvæmt sakavottorði hennar gekkst hún undir greiðslu 100.000 króna sektar vegna ölvunarakstursbrots, 28. janúar 1997 og var þá svipt ökurétti í 3 ár. Hún gekkst undir greiðslu 35.000 króna sektar 24. febrúar 1997 fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Síðast hlaut ákærða 4 mánaða dóm 24. júní 2005, skilorðsbundinn í 2 ár fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum. Með broti því sem ákærða hefur verið sakfelld fyrir í máli þessu hefur hún rofið skilorð dómsins og ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma upp skilorðsdóminn og gera ákærðu refsingu í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Garðars Sigursteinssonar er ákærða á þunglyndislyfjum, þar sem hún á við þunglyndi að stríða. Einnig hefur verið lagt fram vottorð Menntaskólans í Kópavogi um að ákærða hafi verið nemandi í tölvun á haustönn 2006 og staðið sig með prýði. Þá hefur verið lagt fram vottorð þriggja manna sem staðfesta að ákærða hafi vilja til að hætta í fíkniefnum.

Að mati dómsins er þáttur ákærðu í máli þessu langalvarlegastur og veigamestur. Hún hafði frumkvæði að því að útvega mann til að flytja efnin til landsins, sat fundi með samverkamönnum sínum, þar sem skipulag ferðarinnar var rætt og afhending fíkniefnanna á Spáni, miðlaði upplýsingum til samverkamanna og hafði flesta þræði í hendi sér varðandi fíkniefnainnflutninginn. Brot hennar beindist að mikilsverðum hagsmunum og með broti sínu stuðlaði hún að því að hingað til lands voru flutt tæp tvö kíló af sterku kókaíni. Nokkurs misræmis hefur gætt í frásögnum ákærðu undir meðferð málsins og framburður hennar hefur á tíðum verið villandi og óljós. Að mati dómsins á hún sér engar málsbætur og ekkert fram komið í málinu um að ákærða hafi framið brot sitt vegna ótta um ofbeldi af hálfu þeirra sem hún kvað hafa fjármagnað fíkniefnainnflutninginn. Þegar framangreint er virt og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 4 ár. Vegna alvarleika brots ákærðu og veigamikils þáttar hennar í því er ekki unnt að skilorðsbinda refsingu ákærðu. Til frádráttar refsingu ákærðu kemur gæsluvarðhald sem ákærða hefur sætt frá 10. ágúst 2006.

Ákærði, Guðmundur Andri, er fæddur árið 1985. Hann hefur frá árinu 2004 gengist undir 4 sektir vegna umferðarlagabrota og brota gegn ávana- og fíkniefnalögum, síðast gekkst hann undir sekt 7. nóvember 2006, vegna brota gegn ávana- og fíkniefnalögum. Hann hlaut dóm, 2. ágúst 2005, 160.000 króna sekt, fyrir ölvunarakstur og 9. desember sama ár hlaut hann 30 daga fangelsisdóm fyrir ölvunarakstur og brot gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Var hann þá sviptur ökurétti ævilangt. Hann hlaut 65 daga fangelsisdóm 31. ágúst 2006 fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti og var þá sviptur ökurétti ævilangt. Þá hlaut ákærði 30 daga fangelsisdóm 4. október 2006, fyrir ölvunarakstur og brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Um hegningarauka við dóminn frá 31. ágúst 2006 var að ræða. Með dóminum var áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu er framið fyrir uppkvaðningu dómanna frá 31. ágúst 2006, 4. október 2006 og ákvörðun sektarinnar frá 7. nóvember 2006. Ber því að ákvarða refsingu ákærða sem hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að brot ákærða fólst í undirbúningi og skipulagningu á innflutningi á afar hættulegu fíkniefni, kókaíni, að miklum styrkleika. Það beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og horfir það til refsiþyngingar. Ákærði sammæltist við aðra ákærðu um framkvæmd verknaðarins og horfir það einnig til refsiþyngingar. Framburður ákærða fyrir lögreglu tók nokkrum breytingum og var á tíðum villandi og óljós. Þegar framangreint er virt og litið til þáttar ákærða í brotinu er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 15. ágúst 2006 til 13. október 2006.

Ákærði, Arnar Sindri, er fæddur árið 1979. Samkvæmt sakavottorði hans hlaut hann 22.000 króna sektardóm 28. desember 1999 fyrir brot gegn umferðarlögum. Hann hlaut dóm 31. mars 2004, 80.000 króna sekt fyrir ölvunarakstursbrot og var þá sviptur ökurétti í 10 mánuði. Hann gekkst undir greiðslu 80.000 króna sektar 8. júlí 2004 fyrir brot gegn umferðarlögum og síðast gekkst hann undir viðurlagaákvörðun 26. apríl 2004 vegna ölvunarakstursbrots og brots gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var hann þá sviptur ökurétti í 3 ár frá 26. apríl 2006. Brot þessi hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga auk brots gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, fyrir að hafa haft í vörslum sínum smáræði af hassi og tóbaksblönduðu kannabisefni. Við ákvörðun refsingar ákærða ber því að horfa til 77. gr. almennra hegningarlaga. Einnig ber að líta til þess að brot ákærða, sem varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga, fólst í afhendingu á afar hættulegu fíkniefni, kókaíni, að miklum styrkleika, sem ákærða hlaut að vera ljóst að var ætlað til innflutnings til Íslands. Það beindist gegn mikilsverðum hagsmunum og horfir það til refsiþyngingar. Framburður ákærða fyrir lögreglu tók miklum breytingum undir rekstri málsins og var mjög til þess fallinn að villa um fyrir lögreglu. Þegar framangreint er virt og litið til þáttar ákærða í brotinu er refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingar ákærðu kemur gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 15. ágúst 2006 til 8. september 2006.

Með vísan til 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærðu in solidum sakarkostnað að fjárhæð 74.002 krónur, en málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna sem hér segir:

Ákærði, X, greiði skipuðum verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 766.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærða, Elva Hlín, greiði skipuðum verjanda sínum, Bjarna Haukssyni héraðsdómslögmanni, 731.313 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærða, Elísabet Arnardóttir, greiði skipuðum verjanda sínum, Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni 766.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Guðmundur Andri, greiði skipuðum verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 571.533 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og skipuðum verjanda sínum á rannsóknarstigi málsins, Braga Björnssyni héraðsdómslögmanni, 245.641 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði, Arnar Sindri Magnússon, greiði skipuðum verjanda sínum, Jóni Höskuldssyni hæstaréttarlögmanni, 618.294 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 sæti ákærðu upptöku á 1.980,87 g af kókaíni. Þá sæti ákærði, Arnar Sindri, upptöku á 1,57 g af hassi og 0,21 g af tókbaksblönduðu kannabisefni, með vísan til sömu lagaákvæða.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Ingveldur Einarsdóttir, sem dómsformaður, Pétur Guðgeirsson og Sigríður Ólafsdóttir.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Arnar Sindri Magnússon, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu ákærða komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. ágúst 2006 til 8. september 2006.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 618.294 krónur.

Ákærða, Elísabet Arnardóttir, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu ákærðu komi gæsluvarðhaldsvist er hún sætti frá 10. ágúst 2006. Ákærða greiði skipuðum verjanda sínum, Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni í málsvarnarlaun 766.920 krónur.

Ákærða, Elva Hlín Hauksdóttir, sæti fangelsi í 3 ár, en frestað er fullnustu refsingar ákærðu og falli hún niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingar ákærðu, komi gæsluvarðhald sem hún sætti frá 10. ágúst til 30. ágúst 2006 til frádráttar refsingu hennar. Ákærða greiði skipuðum verjanda sínum, Bjarna Haukssyni héraðsdómslögmanni, 731.313 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu hans komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 10. ágúst 2006 til 22. desember 2006. Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum Guðmundi Ágústssyni héraðsdómslögmanni, 766.920 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Guðmundur Andri Ástráðsson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu ákærða komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. ágúst 2006 til 13. október 2006. Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 571.533 krónur í málsvarnarlaun og verjanda sínum á rannsóknarstigi, Braga Björnssyni héraðsdómslögmanni, 245.641 krónu.

Annan sakarkostnað, að fjárhæð 74.002 krónur, greiði ákærðu öll in solidum.

Ákærðu sæti öll upptöku á 1.980,87 g af kókaíni, en auk þess sæti ákærði, Arnar Sindri upptöku á 1,57 g af hassi og 0,21 g tóbaksblönduðu kannabisefni.