Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2013
Lykilorð
- Höfundarréttur
- Aðildarskortur
- Skaðabætur
- Vextir
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013 |
|
Nr. 178/2013.
|
Kjartan Pétur Sigurðsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) Plúsarkitektum ehf. (Eiríkur Elís Þorláksson hrl.) Saga Film ehf. og 365 miðlum ehf. (Einar Þór Sverrisson hrl.) |
Höfundaréttur. Aðildarskortur. Skaðabætur. Vextir. Matsgerð.
K sendi inn tillögu í samkeppni á vegum utanríkisráðuneytisins um hönnun á skála Íslands á heimssýningunni EXPO í Shanghai í Kína árið 2010. Í tillögunni var m.a. að finna ljósmynd sem K hafði tekið af Jökulsárlóni árið 1988. Í tillögu P ehf. og S ehf., sem sigraði í samkeppninni, var einnig að finna breytta útgáfu af ljósmyndinni, sem einn af eigendum P ehf. kvaðst hafa tekið af internetinu og notað í vinningstillöguna. Í málinu krafði K, P ehf., S ehf., íslenska ríkið og 365 ehf. um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar notkunar á myndinni í tengslum við vinningstillöguna og sýninguna, svo og vegna birtingar myndarinnar í Fréttablaðinu. Talið var að umrædd ljósmynd K væri verk sem væri háð höfundarétti hans, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. höfundarlaga nr. 73/1972, og að P ehf. og S ehf. hefðu brotið gegn þeim rétti. Var P ehf. og S ehf. gert að greiða K skaðabætur vegna fjártjóns og miska samtals að fjárhæð 550.000 krónur á grundvelli 56. gr. laga nr. 73/1972, eins og hún hljóðaði fyrir setningu laga nr. 93/2010. Þá var jafnframt talið að íslenska ríkið hefði ekki gætt að því í samskiptum við Fréttablaðið við vinnslu fréttar um sýninguna að ljósmyndin yrði ekki birt í blaðinu, eftir að íslenska ríkið hafði fengið vitneskju um að myndin hefði verið notuð án heimildar K. Var íslenska ríkinu því einnig gert að greiða K skaðabætur vegna fjártjóns og miska samtals að fjárhæð 500.000 krónur. 365 ehf. var hins vegar sýknað af kröfu K um skaðabætur þar sem ekkert benti til þess að starfsmenn félagsins hefðu verið grandsamir um að brotið hefði verið gegn höfundarrétti K. Hefði birting myndarinnar í Fréttablaðinu því rúmast innan þess svigrúms sem 365 ehf. hafði samkvæmt 2. mgr. 15. gr. höfundarlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2013. Hann krefst þess aðallega:
1. Að stefndu Plúsarkitektum ehf. og Saga Film ehf. verði óskipt gert að greiða sér skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 49.500 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2009 til 23. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að stefndu Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu verði óskipt gert að greiða sér skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 795.701 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. desember 2009 til 23. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
3. Að stefnda 365 miðlum ehf. verði gert að greiða sér óskipt með Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 460.805 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá nánar tilgreindum dögum, sá fyrsti þeirra 1. janúar 2010, eftir breytilegum vaxtafæti án þess að geta upphafsdags vaxtanna til 23. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 29. september 2011 til greiðsludags.
4. Að stefndu Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu verði gert að greiða sér óskipt skaðabætur fyrir miskatjón að fjárhæð 1.000.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá nánar tilgreindum dögum, sá fyrsti þeirra 1. janúar 2010, eftir breytilegum vaxtafæti án þess að geta upphafsdags vaxtanna til 23. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
5. Að stefndi 365 miðlar ehf. greiði sér óskipt með Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu skaðabætur fyrir miskatjón að fjárhæð 500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá nánar tilgreindum dögum, sá fyrsti þeirra 1. janúar 2010, eftir breytilegum vaxtafæti án þess að geta upphafsdags vaxtanna til 23. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 29. september 2011 til greiðsludags.
Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða sér skaðabætur að álitum með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í 1. tölulið aðalkröfu. Í öllum tilvikum krefst hann þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Plúsarkitektar ehf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu Saga Film ehf. og 365 miðlar ehf. krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar.
Stefndi íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
I
Hinn 1. maí til 31. október 2010 var haldin heimssýningin EXPO í Shanghai í Kína. Ísland tók þátt í sýningunni og hafði utanríkisráðuneytið umsjón með þátttökunni en hún var samstarfsverkefni fyrirtækja og íslenska ríkisins. Að tilhlutan ráðuneytisins auglýsti Framkvæmdasýsla ríkisins í desember 2008 eftir hugmyndum um hönnun á þeim skála sem Ísland hafði til umráða á sýningunni. Tók þetta bæði til hönnunar innanhúss og á sýningunni í skálanum. Skilafrestur var til 8. janúar 2009 og bárust nokkrar tillögur í samkeppnina. Þar á meðal var tillaga frá áfrýjanda og samstarfsmanni hans, en í þeirri tillögu var ljósmynd sem áfrýjandi tók af Jökulsárlóni árið 1988. Á þeirri tillögu sem varð fyrir valinu í samkeppninni voru tilgreind á forsíðu firmanöfn stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Events sem er hluti af Saga Film ehf., auk þeirra starfsmanna fyrirtækjanna sem tekið höfðu saman tillöguna. Annar þeirra var Páll Hjaltason, en hann er einn af eigendum stefnda Plúsarkitekta ehf. Í þessari tillögu var einnig að finna fyrrgreinda ljósmynd af Jökulsárlóni, en nefndur Páll hefur staðhæft að hann hafi tekið myndina af vefnum þar sem hún hafi verið í breyttri útgáfu.
Hinn 21. apríl 2009 gerði utanríkisráðuneytið samning sem verkkaupi við stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Film ehf. um hönnun vegna þátttöku í heimssýningunni. Í samningnum var tekið fram að stefndu kæmu sameignlega fram gagnvart ráðuneytinu og færi tilgreindur starfsmaður með fyrirsvar af þeirra hálfu. Í samningnum var verkinu nánar lýst en það fólst meðal annars í hönnun á skálanum og þeirri sýningu sem þar yrði, auk þess að taka saman kynningarefni til dreifingar og setja á heimasíðu. Þá var tekið fram í samningnum að utanríkisráðuneytið fengi í þrjú ár frá gerð hans afnotarétt án sérstaks endurgjalds af myndefni og hönnun sem framleidd yrði. Auk þess greindi í samningnum að stefndu myndu leitast við að semja um afnotarétt við þriðja aðila vegna hugsanlegra kaupa á myndefni til sama tíma. Fyrir gerð þessa samnings, eða 17. apríl 2009, höfðu stefndu Plúsarkitektar ehf. og Saga Film ehf. gert með sér samning þar sem fyrrnefnda fyrirtækið tók að sér sem undirverktaki gagnvart hinu síðarnefnda hönnun og ráðgjöf vegna sýningarinnar. Í þeim samningi var hliðstætt ákvæði um að stefndu myndu leitast við gagnvart ráðuneytinu að semja við aðra um afnotarétt vegna kaupa á myndefni.
Í desember 2009 mun áfrýjandi hafa fengið upplýsingar um að ljósmyndin af Jökulsárlóni hefði verið notuð af öðrum en honum við hönnun skálans og kynningu á honum. Af því tilefni ritaði áfrýjandi tölvubréf 9. þess mánaðar til þess starfsmanns utanríkisþjónustunnar sem hafði á hendi framkvæmdastjórn vegna þátttöku Íslands í sýningunni. Þar gerði hann athugasemd við leyfislausa notkun myndarinnar og fór þess á leit að hún yrði fjarlægð af vefnum hið fyrsta. Einnig ritaði áfrýjandi tölvubréf 10. desember 2009 til þriggja starfsmanna stefnda Saga Film ehf. og Páls Hjaltasonar þar sem gerð var athugasemd við að ljósmyndin hefði verið notuð í tillögu þessara stefndu í samkeppninni um hönnun skálans. Þessu erindi svaraði Páll með tölvubréfi sama dag þar sem fram kom að myndin hefði verið notuð vegna mistaka og yrði hún fjarlægð. Í kjölfarið skiptust áfrýjandi og Páll á frekari tölvubréfum, en þar innti áfrýjandi Pál eftir því hvert hann ætti að senda reikning fyrir afnot af myndinni. Því svaraði Páll með að benda á að myndin yrði ekki í neinum gögnum og því væri ekki um nein afnot að ræða. Tók hann fram að búið væri að skipta myndinni út á öllum þeim vefsíðum sem stefndu hefðu yfir að ráða og í opinberum fjölmiðlagögnum.
Hinn 21. desember 2009 birtist í Fréttablaðinu heilsíðufrétt um heimssýninguna í Shanghai og þátttöku Íslands í henni. Umfjöllun blaðsins fólst aðallega í viðtali við fyrrgreindan starfsmann utanríkisþjónustunnar en greinin lýsti meðal annars hvernig staðið hefði verið að undirbúningi af Íslands hálfu. Með fréttinni var teikning af þversniði skálans en þar var ljósmyndin af Jökulsárlóni á innri veggjum hans. Af þessu tilefni sendi áfrýjandi tölvubréf sama dag til Páls Hjaltasonar þar sem bent var á að enn væri verið að nota myndina og óskaði eftir skýringum á þessu.
Með bréfi 3. nóvember 2010 til utanríkiráðuneytisins fór áfrýjandi þess meðal annars á leit að ráðuneytið afhenti eintök af öllu því kynningarefni og öðru efni, sem gefið var út og birt á prenti eða með öðru móti, þar sem ljósmynd áfrýjanda af Jökulsárlóni kæmi fram. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hverjir hefðu fengið þetta efni afhent. Þessu erindi svarði ráðuneytið með bréfi 23. desember sama ár. Þar kom fram að kynningarefni vegna þátttöku Íslands á heimssýningunni hefði verið vistað á tveimur vefsíðum um framlag landsins til sýningarinnar, en samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmönnum skálans hefði myndin verið um tíma á annarri eða báðum síðunum frá vori og fram í september 2009. Einnig hefði bæklingur verið prentaður í 200 eintökum fyrir þá sem vildu nýta sér viðskiptaþjónustu skálans, en gæði hans ekki verið nógu góð svo nær öllu upplaginu hefði verið fargað. Þá hefði kynningarefni þar sem ljósmyndina var að finna verið dreift til um 60 erlenda fjölmiðla á minniskubbum á blaðamannaviðburði við opnun íslenska skálans og sama efni sent kínverskum fjölmiðlum á geisladiski þegar eftir því var óskað í 10 til 20 skipti. Loks hefði ljósmyndin verið notuð þrisvar til fimm sinnum í svonefndum Powerpoint-kynningum.
Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin bréfaskipti aðila í aðdraganda þess að málið var höfðað. Þar kemur einnig fram nánari sundurliðun á kröfum áfrýjanda á hendur stefndu.
II
Eftir að héraðsdómur gekk óskaði áfrýjandi eftir því með beiðni 16. janúar 2013 að matsmaður yrði dómkvaddur til að meta hvort ljósmynd tekin af áfrýjanda „árið 1988 á tölvustýrða 360° filmu hringmyndavél ... sé afrakstur sjálfstæðs persónulegs sköpunarframlags ljósmyndarans og þannig verk í skilningi höfundarlaga nr. 73/1972.“ Hinn 8. mars 2013 var Viktor Smári Sæmundsson forvörður dómkvaddur og skilaði hann matsgerð sinni 27. apríl sama ár.
Í matsgerðinni er lýst myndavélinni og þeim búnaði sem notaður var við myndatökuna. Um er að ræða hringmyndatökuvél með búnaði sem snýr vélinni, en þessi tegund myndavélar mun hafa verið fullkomin til töku slíkra mynda. Vélin er fyrir filmu en tölvubúnað hennar þarf að forrita fyrir töku til að stýra magni birtu og tímalengd lýsingar. Fram kemur að vélin sé flókin í notkun og þarfnist tímafreks undirbúnings fyrir myndatöku. Um uppbyggingu ljósmyndarinnar segir að hún falli nánast að svokölluðu gullinsniði þótt snið myndarinnar (10x35cm) sé ekki í því. Þetta lýsi sér í því að draga megi línur frá hornum myndarinnar og þá lendi á ásunum áhersluatriði myndarinnar en þau séu ísjakar og spegluð ský á vatni. Fram kemur að myndin hafi verið tekin í dagrenningu við sólarupprás, en bæði yfirlýsing og undirlýsing hafi verið nauðsynleg. Því hafi ljósop verið opnað og þrengt á víxl um nokkur op til að ná fram „teikningu“ í skugga og ofurbjörtum svæðum. Það hafi tekist og lýsing myndarinnar heppnast mjög vel. Fyrir vikið hafi tekist að fanga stemmingu augnabliksins þegar myndin var tekin með sannfærandi hætti. Þá segir að um sé að ræða hefðbundna landslagsmynd sem hvorki geti talist nýstárleg hvað varði efni né uppbyggingu. Aftur á móti sé myndin sérstök fyrir þá sök að það hafi verið nýjung þegar myndin var tekin að notast við þessa gerð myndavélar, en til þess hafi þurft kunnáttu og reynslu. Í niðurlagi matsgerðarinnar er komist að þeirri niðurstöðu að höfundur myndarinnar hafi lagt fram sjálfstætt framlag sköpunar til að ná fram stemmingu íslenskrar náttúru við dagrenningu.
III
Stefndi Plúsarkitektar ehf. krefjast sýknu af kröfum áfrýjanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessi málsástæða er reist á því að stefndi hafi ekki skilað tillögu í samkeppni um hönnun sýningarskála Íslands á heimssýningunni heldur hafi Páll Hjaltason gert það í eigin nafni. Því hafi stefndi fyrst komið að verkinu við gerð samnings 17. apríl 2009 sem undirverktaki gagnvart stefnda Saga Film ehf.
Svo sem áður greinir gerðu stefndu Plúsarkitektar ehf. og Saga Film ehf. samning við utanríkisráðuneytið 21. apríl 2009 vegna þátttöku í sýningunni en í verkinu fólst meðal annars að taka saman kynningarefni fyrir hana. Leggja verður til grundvallar að allt það efni sem málið lýtur að og hefur að geyma ljósmynd áfrýjanda hafi verið tekið saman eftir að sá samningur var gerður að frátalinni þeirri tillögu sem varð fyrir valinu í samkeppninni sem efnt var til um hönnunina. Getur því aðeins reynt á aðildarskort stefnda Plúsarkitekta ehf. að því er varðar 1. kröfulið í aðalkröfu áfrýjanda.
Í umræddri tillögu sem var hlutskörpust í samkeppninni eru þeir sem að henni stóðu tilgreindir á sama hátt á forsíðu tillögunnar með því að nefna firmanöfn stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Events. Jafnframt er þess að gæta að í kjölfar samkeppninnar gerði stefndi Plúsarkitektar ehf. ásamt stefnda Saga Film ehf. fyrrgreindan verksamning við utanríkisráðuneytið. Að þessu virtu verður ekki fallist á að fyrrgreindum kröfulið sé ranglega beint að stefnda Plúsarkitektum ehf.
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er einnig krafist sýknu vegna aðildarskorts. Því til stuðnings er bent á að með verksamningi 21. apríl 2009 hafi stefndu Plúsarkitektar ehf. og Saga Film ehf. tekið að sér að semja við þá sem ættu afnotarétt af myndefni. Af því leiði að þessir stefndu hafi borið ábyrgð á hagnýtingu efnis sem hafi verið í eigu annarra enda hafi verið gert ráð fyrir slíkum kostnaði í þóknun fyrir verkið. Á þetta verður ekki fallist enda gátu stefndu ekki með samningi sín á milli girt fyrir að einhver þeirra bæri ábyrgð gagnvart þriðja manni vegna brota gegn hugverkaréttindum hans.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. höfundarlaga á höfundur að listaverki eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem leiðir af lögunum. Þetta nær til þeirra listgreina sem taldar eru í 2. mgr. sömu greinar en meðal þeirra er ljósmyndalist. Til að verk njóti þessarar verndar þarf það að vera afrakstur andlegrar sköpunar höfundarins, en í því felst áskilnaður um vissan frumleika og sjálfstæði sem hefur að geyma sérkenni. Ljósmyndir verða yfirleitt ekki taldar listaverk í þessum skilningi en þær myndir sem fela ekki í sér listræna sköpun njóta þó ákveðinnar verndar eftir 49. gr. laganna. Með aðilum er ágreiningur um hvort ljósmynd áfrýjanda af Jökulsárlóni teljist listaverk í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna sem háð er höfundarétti.
Við mat á því hvort verk verði talið list í skilningi höfundarlaga þannig að það sé háð höfundarrétti reynir einkum á almenna þekkingu og menntun auk lagaþekkingar, en á þetta leggur dómari sjálfstætt mat, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Við mat á gildi ljósmynda í þessu tilliti ber meðal annars að líta til vals á myndefni og samsetningu þess, sjónarhorns, skerpu og lýsingar. Þegar þetta er virt geta tæknileg atriði við undirbúning og töku ljósmyndar skipt máli en á þau verða færðar sönnur eftir almennum reglum, þar með talið með matsgerð eftir reglum IX. kafla laga nr. 91/1991.
Svo sem áður er rakið hefur áfrýjandi aflað matsgerðar um ljósmyndina af Jökulsárlóni undir áfrýjun málsins. Stefndu telja að á matsgerðinni séu slíkir annmarkar að hún hafi ekki sönnunargildi í málinu. Til stuðnings þessu halda þeir því fram að matsmanni hafi verið gefnar rangar forsendur við matið þar sem fram komi í matsgerðinni að ljósmynd áfrýjanda hafi verið valin til kynningar á íslenska skálanum á heimssýningunni í Shanghai í þeim tilgangi að vekja sterka upplifun hjá áhorfandanum, en það gefi til kynna að ljósmyndin veki hughrif þess sem horfir. Í tillögu stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Film ehf. í samkeppninni um hönnun skálans var gert ráð fyrir því að kvikmynd yrði varpað á innri veggi og loft skálans til að sýningargestir fengju að upplifa landið. Þannig var aldrei gert ráð fyrir að ljósmynd áfrýjanda yrði notuð á sjálfri sýningunni heldur var henni aðeins ætlað að vera dæmi um það myndefni sem mætti nota. Þetta fær því þó ekki breytt að ljósmyndin var í öndverðu notuð til að kynna skálann eftir að tillagan var valin og allt þar til í desember 2009 þegar áfrýjandi gerði athugasemdir við notkun myndarinnar án heimildar hans. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefndu að röng forsenda hafi að þessu leyti verið lögð til grundvallar við matið. Í annan stað benda stefndu á að í matsgerðinni sé tekinn upp innan tilvitnunarmerkja texti sem ranglega sé sagður úr kynningarblaði fyrir sýninguna, en þar er lýst þeirri upplifun sem sýningu í skálanum er ætlað að hafa á gesti hennar. Vissulega er hér um missögn að ræða því þennan texta er að finna í tillögu stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Film ehf. um hönnun skálans en ekki í kynningarblaði fyrir sýninguna. Þetta breytir því þó ekki að ljósmynd áfrýjanda var í tillögunni notuð til að sýna veggi og loft skálans til að lýsa þeirri upplifun sem stefndu vildu skapa með hönnun skálans og sýningunni. Þetta verður því heldur ekki talið rýra sönnunargildi matsgerðarinnar.
Áfrýjandi er áhugaljósmyndari en því má slá föstu að hann hafi reynslu af ljósmyndun þegar litið er til lýsingar matsgerðar á því hvernig hann stóð að vandasamri töku myndarinnar í Jökulsárlóni. Þegar virt er myndefnið og samsetning myndarinnar ásamt því hvernig lýsingu myndarinnar var hagað við sólarupprás, svo sem nánar er rakið í matsgerð, er vafalaust að um er að ræða listræna sköpun. Ljósmynd áfrýjanda telst því verk sem háð er höfundarrétti hans, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. höfundarlaga.
V
Með lögum nr. 93/2010 voru gerðar breytingar á 56. gr. höfundarlaga sem mælir fyrir um skaðabótaábyrgð vegna brota á höfundarrétti. Þau lög tóku gildi 2. júlí 2010 en þá voru um garð gengin öll þau atvik sem mál þetta er sprottið af. Um bótaábyrgðina fer því eftir þeim reglum sem voru í gildi fyrir lagabreytinguna.
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna, eins og hún hljóðaði fyrir setningu laga nr. 93/2010, bar að bæta tjón eftir almennum reglum fébótaréttar þegar saknæmt brot á lögunum hafði fétjón í för með sér. Þannig var um að ræða bótaábyrgð á sakargrundvelli. Ef réttarröskun var valdið án sakar var þó heimilt eftir 3. mgr. greinarinnar að dæma þann sem henni olli til að greiða fébætur en þær voru þá takmarkaðar við þann ávinning sem hann hafði af brotinu. Þá var í 2. mgr. ákvæðisins að finna heimild til að dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hafði rétti hans með ólögmætri háttsemi.
VI
Í tillögu stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Film ehf. í samkeppninni um hönnun á skála Íslands á heimssýningunni í Shanghai og þeirri sýningu sem yrði í honum var notuð ljósmynd áfrýjanda af Jökulsárlóni. Stefndu höfðu ekki aflað sér heimildar hans til þessarar nýtingar og því brutu þeir gegn höfundarrétti áfrýjanda. Í því tilliti breytir engu þótt sú mynd sem stefndu notuðu hafi verið breytt að einhverju leyti miðað við upprunalega mynd áfrýjanda. Jafnframt tóku stefndu að sér með verksamningi 21. apríl 2009 að útbúa kynningarefni til dreifingar og fyrir heimasíður. Efni þetta var sett á tvær vefsíður og þar mun ljósmynd áfrýjanda hafa verið þar til hann gerði athugasemd við nýtingu hennar í desember 2009. Einnig var myndin notuð í prentuðum bæklingi fyrir þá sem vildu nýta sér viðskiptaþjónustu skálans. Þá var myndin í kynningarefni á tölvutæku formi ætlað fyrir blaðamenn og í Powerpoint kynningum á skálanum. Með því að nota ljósmynd áfrýjanda í þetta efni brutu þeir einnig gegn höfundarrétti hans. Aftur á móti verður ekki talið að þessir stefndu beri ábyrgð á því þótt myndin hafi verið birt í Fréttablaðinu 21. desember 2009, en fram hefur komið að blaðið fékk myndina frá utanríkisráðuneytinu og hefur það ekki verið vefengt af hálfu áfrýjanda.
Brot stefndu Plúsarkitekta ehf. og Saga Film ehf. samkvæmt framansögðu fólust bæði í því að gera eintök af myndinni og birta hana, sbr. 3. gr. höfundarlaga, og að láta hjá líða að geta höfundar og breyta verki hans, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna. Á þessu bera stefndu skaðabótaábyrgð. Krafa áfrýjanda um bætur fyrir fjártjón er reist á gjaldskrá Myndstefs, samtaka myndhöfunda, sem sett er á grundvelli 2. mgr. 25. gr. höfundarlaga. Miðar áfrýjandi kröfu sína við upplýsingar um nýtingu á ljósmyndinni sem fram komu í bréfi utanríkisráðuneytisins 23. desember 2010. Leggja verður þetta til grundvallar en þó er þess að gæta að upplýsingar þessar eru ekki nákvæmar og því verður að nokkru að ákveða bætur fyrir fjártjón að álitum. Þykja þær hæfilega ákveðnar 350.000 krónur, en auk þess verður þessum stefndu gert að greiða áfrýjanda 200.000 krónur í miskabætur.
Svo sem áður er rakið tóku stefndu Plúsarkitektar ehf. og Saga Film ehf. að sér með verksamningi 21. apríl 2009 við utanríkisráðuneytið að útbúa kynningarefni vegna sýningarinnar. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til að stefndi íslenska ríkið hafi haft upplýsingar um að ljósmynd áfrýjanda hafi verið nýtt án heimildar fyrr en með tölvubréfi hans 9. desember 2009. Kemur því ekki til álita að áfrýjanda verði dæmdar bætur vegna fjártjóns úr hendi stefnda vegna þess kynningarefnis sem þá hafði verið tekið saman, enda hefur ekki verið leitt í ljós að stefndi hafi haft nokkurn ávinning af þessu, sbr. 3. mgr. þágildandi 56. gr. höfundarlaga. Er þá litið til þess að stefnda bar að greiða stefndu Plúsarkitektum ehf. og Saga Film ehf. fyrir efnið og engu gat breytt í því tilliti hvort ljósmynd áfrýjanda eða önnur mynd yrði nýtt til að sýna hvernig skálinn gæti litið út miðað við áform um að þar yrði sýnd kvikmynd frá Íslandi. Á hinn bóginn bar utanríkisráðuneytinu að gæta að því í samskiptum við Fréttablaðið við vinnslu fyrrgreindrar fréttar, sem birtist í blaðinu 21. desember 2009, að ljósmyndin yrði ekki birt, en fréttin fólst aðallega í viðtali við þann starfsmann ráðuneytisins sem áfrýjandi hafði beint athugasemd til með tölvubréfinu 9. sama mánaðar. Var því beint tilefni til að ganga úr skugga um þetta þegar haft er í huga að myndin hafði í ríkum mæli ratað inn í kynningargögn vegna sýningarinnar. Af þessum sökum hefur stefndi íslenska ríkið fellt á sig skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda en bætur til hans fyrir fjártjón þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur auk miskabóta að fjárhæð 100.000 krónur.
Eins og áður greinir hefur áfrýjandi ekki vefengt að teikning af skálanum með ljósmynd áfrýjanda, sem birtist í frétt blaðsins 21. desember 2009, hafi borist blaðinu frá utanríkisráðuneytinu. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til að starfsmenn stefnda 365 miðla ehf. hafi verið grandsamir um að brotið hafði verið gegn höfundarrétti áfrýjanda að ljósmyndinni. Að þessu gættu verður birting myndarinnar í blaðinu talin hafa rúmast innan þess svigrúms sem stefndi hafði samkvæmt 2. mgr. 15. gr. höfundarlaga til að birta mynd sem stóð í nægu sambandi við umfjöllunarefnið. Þessi stefndi verður því sýknaður af kröfum áfrýjanda.
Stefndu Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu verður gert að greiða áfrýjanda vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af bótum fyrir fjártjón í samræmi við 1. og 2. kröfulið í aðalkröfu. Í 3. kröfulið aðalkröfu vegna miskabóta er breytilegur vaxtafótur samkvæmt því ákvæði rakinn án þess að geta upphafsdags vaxtanna. Verða þeir vextir á miskabætur því reiknaðir frá 1. janúar 2010 sem er fyrsti tilgreindi vaxtadagur í kröfugerðinni. Dráttarvextir reiknast síðan í samræmi við kröfugerð áfrýjanda en upphafsdagur þeirra er miðaður við það tímamark þegar mánuður var liðinn frá því hann krafðist bóta með bréfi 23. febrúar 2011.
Stefndu Plúsarkitektum ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkinu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Jafnframt verður áfrýjanda gert að greiða 365 miðlum ehf. málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, Plúsarkitektar ehf. og Saga Film ehf., greiði áfrýjanda, Kjartani Pétri Sigurðssyni, óskipt 550.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 49.500 krónum frá 8. janúar 2009 til 21. desember sama ár, af 350.000 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2010, af 550.000 krónum frá þeim degi til 23. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 400.000 krónum frá 21. desember 2009 til 1. janúar 2010, af 500.000 krónum frá þeim degi til 23. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, 365 miðlar ehf., er sýkn af kröfum áfrýjanda.
Stefndu, Plúsarkitektar ehf., Saga Film ehf. og íslenska ríkið, greiði áfrýjanda óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi greiði stefnda, 365 miðlum ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2012.
Mál þetta sem dómtekið var 26. nóvember 2012 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 10. nóvember 2011 af Kjartani Pétri Sigurðssyni, Rauðagerði 54, Reykjavík, á hendur Plúsarkitektum ehf., Laugavegi 59, Reykjavík, Sagafilm ehf., Laugavegi 176, Reykjavík, íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík og 365 miðlum ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.
Kröfur aðila
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi.
Aðallega:
1. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf. og Sagafilm ehf., in solidum, greiði sér skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 49.500 krónur ásamt 13,3% ársvöxtum frá 8. janúar 2009 til 1. mars 2009, með 12,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 2009, með 12% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2009, með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2009, með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2010, með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, með 4,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2010, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, með 3,67% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 23. mars 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2011 til greiðsludags.
2. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf. og íslenska ríkið, in solidum, greiði sér skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 795.701 króna ásamt 6% ársvöxtum frá 21. desember 2009 til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2010, með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, með 4,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2010, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, með 3,67% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 23. mars 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2011 til greiðsludags.
3. Að stefndi 365 miðlar ehf. greiði sér in solidum með Plúsarkitektum ehf., Sagafilm ehf. og íslenska ríkinu skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 460.805 krónur ásamt 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2010, með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, með 4,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2010, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, með 3,67% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 23. mars 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2011 til greiðsludags.
4. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf. og íslenska ríkið, in solidum, greiði sér skaðabætur fyrir miskatjón tjón að fjárhæð 1.000.000 króna ásamt 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2010, með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, með 4,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2010, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, með 3,67% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 23. mars 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2011 til greiðsludags.
5. Að stefndi 365 miðlar ehf. greiði sér in solidum með Plúsarkitektum ehf., Sagafilm ehf. og íslenska ríkinu skaðabætur fyrir miskatjón að fjárhæð 500.000 krónur ásamt 6% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júní 2010, með 5,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2010, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 2010, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2010, með 4,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember 2010, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2010, með 3,67% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars 2011, með 3,5% árs-vöxtum frá þeim degi til 23. mars 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2011 til greiðsludags.
6. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf., íslenska ríkið og 365 miðlar ehf., verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.
Til vara:
1. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf., íslenska ríkið og 365 miðlar ehf., verði allir, in solidum, dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að lægri fjárhæð en að framan greinir, að mati dómsins, með vöxtum eins og greinir í tölulið 1.
2. Að stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf., íslenska ríkið og 365 miðlar ehf., verði dæmdir, in solidum, til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.
Af hálfu stefndu, Plúsarkitekta ehf., er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefndu, Sagafilm ehf., er krafist sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Af hálfu stefndu, 365 miðla ehf., er þess krafist aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Atvik máls
Heimssýningin EXPO 2010 var haldin í borginni Shanghai í Kína 1. maí til 31. október 2010. Þátttaka af Íslands hálfu var í höndum utanríkisráðuneytisins.
Í tilefni af þátttökunni var í desember 2008 efnt til hugmyndasamkeppni um útfærslu á innanhússkipulagi og fyrirhugaðri sýningu í íslenska sýningarskálanum. Óskað var eftir að þátttakendur legðu fram, auk upplýsinga um hæfni og reynslu, lauslega unna hugmynd að innanhússkipulagi íslenska skálans og sýningu sem þar yrði, sem studd væri texta og teikningum, ásamt lýsingu á nálgun hugmyndar við þema sýningarinnar og þema Íslands. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins var þema heimssýningarinnar „betri borg, meiri lífgæði“ en þema Íslands „hrein orka, heilbrigt líf“. Skilafrestur tillagna var til 8. janúar 2009. Ekki var gert ráð fyrir að greitt yrði sérstaklega fyrir þátttökuna eða vinningstillöguna en hins vegar myndi sá einstaklingur eða aðili sem fyrir valinu yrði, vinna með framkvæmdastjórn EXPO 2010 að nánari útfærslu tillögunnar. Stefnandi og kínverskur samstarfsmaður hans sendu tillögu í samkeppnina. Í henni sést m.a. ljósmynd af Jökulsárlóni sem stefnandi kveðst hafa tekið á árinu 1988 og er myndin notuð til að sýna mögulega útfærslu á sýningarsal og sýningarskjá. Þá eru í tillögunni nefndar ýmsar hugmyndir um útfærslu sýningarinnar og áherslur eins og síðar verður rakið. Tillagan sem sigraði í keppninni liggur fyrir í málinu. Á forsíðu hennar koma fram nöfn Páls Hjaltasonar, Plúsarkitektum og Aðalbjargar Hafliðadóttur, Saga Events. Í tillögunni eru upplýsingar um fyrirtæki og einstaklinga sem komið geti að nánari útfærslu tillögunnar (teymið) en Páll Hjaltason er sérstaklega tilgreindur sem „sýningarstjórn“. Í desember 2009 taldi stefnandi sig verða þess áskynja að framangreind ljósmynd af Jökulsárlóni hefði verið notuð í vinningstillögunni með þeim hætti að hún hefði verið sýnd sem hluti af hugmynd um hvernig varpa mætti mynd á veggi sýningarskálans. Myndinni hefði verið breytt þannig að hún hafi verið sýnd sem spegilmynd af frummyndinni auk þess sem hluti frummyndarinnar hefði verið felldur út. Kynningarefni um íslensku sýninguna mun hafa verið dreift í desember 2009 og var umrædd ljósmynd í kynningarefninu. Nánar tiltekið var efnið, a.m.t. ljósmyndinni, vistað á tveimur vefsíðum, www.expo2010.is og www.iceland.com.cn , því var dreift á minniskubbum á blaðamannaviðburðum og sent fjölmiðlum á geisladiskum. Þá var myndin notuð í glærukynningum og dreift þannig til yfirstjórnar EXPO 2010 auk þess sem myndin var notuð í kynningarbæklingi, sem prentaður var sérstaklega fyrir þá sem vildu nýta sér viðskiptaþjónustu, sem boðið var upp á í tengslum við íslenska sýningarskálann. Stefnandi gerði með tölvubréfi 9. desember 2009, til framkvæmdastjóra íslensku sýningarinnar, athugasemd við notkun ljósmyndarinnar á vefsíðunni www.expo2010.is. Jafnframt gerði hann athugasemdir við Pál Hjaltason með tölvubréfi 21. desember. Var stefnanda tjáð í framhaldi af orðsendingunum, af framkvæmdastjóra sýningarinnar, að hætt yrði að framleiða og senda út kynningarefni um sýninguna, er hefði að geyma umrædda ljósmynd, en ómögulegt væri að stöðva með öllu þá dreifingu sem fram hefði farið og eftirfarandi notkun enda hefðu kynningargögnin farið víða. Hinn 21. desember 2009 birtist í Fréttablaðinu, sem er gefið út af 365 miðlum ehf., frétt um heimssýninguna. Með fréttinni birtist litmynd úr framangreindu kynningarefni sem sýnir hvernig myndinni af Jökulsárlóni er varpað á veggi íslenska sýningarskálans. Stefnandi, sem er búsettur í Kína, heimsótti heimssýninguna. Taldi hann sig þá verða þess varan að ýmsar af þeim hugmyndum, er hann hefði komið á framfæri í áðurgreindri keppnistillögu, væru notaðar og útfærðar á sýningunni, án þess að leitað hefði verið eftir heimild hans til slíks. Nánar tiltekið væri um eftirfarandi hugmyndir að ræða:
„Risamynd af fossi í návígi (videó). Hægt að ganga í gegnum foss“.
„Nota íslenskar flugfreyjur“.
„Notað verður sýningakerfi eins og Þjóðleikhúsið notar. Hægt að stjórna mörgum skjáum samtímis með flókinni grafik ásamt ljósa- og hljóðkerfum ...“
„Norðurljósasýning (best væri að fá hana á 3 skjái samtímis, þarf 3 myndavélar)“.
Stefnandi taldi áðurnefnda notkun ljósmyndarinnar af Jökulsárlóni og nýtingu framangreindra hugmynda brjóta gegn lögum um höfundarétt nr. 73/1972 og lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Krafði hann stefnda, Plúsarkitekta ehf., með reikningi dags. 15. apríl 2010, um greiðslu á 1.000.000 króna vegna meintrar óleyfilegrar birtingar á myndinni af Jökulsárlóni og breytinga á myndinni. Plúsarkitektar ehf. munu ekki hafa svarað kröfunni. Lögmaður stefnanda ritaði utanríkisráðuneytinu bréf 3. nóvember 2010, upplýsti um meint brot á höfundalögum vegna óheimillar notkunar á ljósmyndinni af Jökulsárlóni og óskaði upplýsinga um nýtingu myndarinnar. Svar ráðuneytisins við erindinu er dagsett 23. desember 2010 og er þar gerð grein fyrir notkun myndarinnar af hálfu íslenska ríkisins. Með bréfum 23. febrúar 2011 og 9. ágúst 2011 setti lögmaður stefnanda fram kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins, Sagafilm ehf. og Plúsarkitekta ehf. vegna meintrar heimildalausrar notkunar á ljósmyndinni af Jökulsárlóni og brota gegn 3. og 4. gr. laga um höfundarétt nr. 73/1972. Ennfremur setti stefnandi með bréfi dags. 29. ágúst fram skaðabótakröfu á hendur 365 miðlum ehf. vegna meints brots á sömu ákvæðum. Með bréfi 20. júní 2011 hafnaði íslenska ríkið bótaskyldu gagnvart stefnanda á þeirri forsendu að umrædd ljósmynd hefði verið notuð í góðri trú. 365 miðlar ehf. höfnuðu bótaskyldu gagnvart stefnanda með bréfi 19. september 2011.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því að ljósmynd hans af Jökulsárlóni njóti höfundaréttarverndar, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Stefnandi hafi því átt einkarétt á að gera eintök af ljósmyndinni og birta hana, hvort sem um hafi verið að ræðir óbreytta eða í breyttri mynd, sbr. 3. gr. laganna. Stefnandi hafi ekki með neinum hætti heimilað stefndu nýtingu myndarinnar, hvorki með þátttöku í hugmynda-samkeppni um útlit íslenska skálans á heimssýningunni 2010 né með öðru móti. Sé bent á að stefndi, íslenska ríkið, hafi ekki áskilið sér nein réttindi yfir innsendum tillögum í keppnina. Feli því notkun ljósmyndarinnar í vinningstillögu keppninnar, eftirfarandi notkun hennar í kynningarefni og öðrum gögnum vegna sýningarinnar og birting hennar í Fréttablaðinu, í sér brot gegn 3. gr. laganna um einkarétt til eintakagerðar og opinberrar birtingar. Jafnframt feli þessar aðgerðir í sér brot gegn sæmdarrétti stefnanda, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1972. Brotin felist bæði í því að ekki hafi verið getið nafns stefnanda við notkun myndarinnar og í breytingu á höfundarverki hans. Nýting hugmynda stefnanda um risamynd af fossi í návígi, íslenskar flugfreyjur, marga skjái/sýningakerfi og norðurljósasýningu og notkun þeirra á heimssýningunni með þeim hætti er gert hafi verið feli í sér brot gegn 5. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þessar hugmyndir stefnanda hafi hvorki verið sjálfgefnar eða nærtækar, heldur hafi verið um að ræða frumlegar hugmyndir sem hann viti ekki til að hafi verið notaðar á öðrum fyrri sýningum. Þessar hugmyndir hafi ekki verið að finna í vinningstillögunni heldur virðist þær hafa verið teknar úr tillögu stefnanda og útfærðar á sýningunni án hans heimildar en engin heimild hafi verið áskilin af skipuleggjendum keppninnar til að nota aðrar tillögur en vinningstillöguna. Sú notkun sem krafist sé skaðabóta fyrir sé eftirfarandi:
Birting ljósmyndarinnar í breyttri mynd í tillögu stefndu Plúsarkitekta ehf. og Sagafilm ehf., er send hafi verið í samkeppnina. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar verksins.
Vistun ljósmyndarinnar í breyttri mynd á vegum stefnda, íslenska ríkisins, á vefsíðunum www.expo2010.is og www.iceland.com.cn á tímabilinu apríl til desember 2009 en um sé að ræða vefsíður sem íslenska ríkið hafi haldið úti vegna sýningarinnar. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar og opinberrar birtingar.
Útgáfu í prentuðum bæklingi á vegum íslenska ríkisins. Um hafi verið að ræða bækling fyrir þá sem gætu haft áhuga á að kynna sér viðskiptaþjónustu íslenska skálans. Að sögn stefnda, utanríkisráðuneytisins, hafi upplagi bæklingsins verið fargað en hugsanlegt sé að eintök hafi komist í umferð. Upplag bæklingsins hafi verið 200 eintök og hafi myndina verið að finna í honum. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Dreifingu í efni á minniskubbum á blaðamannaviðburði á vegnum íslenska ríkisins við opnun íslenska skálans en fulltrúar um 60 erlendra fjölmiðla muni hafa verið á fundinum. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Dreifingu í efni á geisladiskum á vegum íslenska ríkisins til kínverskra fjölmiðla eftir beiðni fjölmiðla. Samkvæmt upplýsingum stefnda, utanríkis-ráðuneytisins, hafi verið um að ræða 10 20 eintök. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Notkun í power-point kynningum á vegum íslenska ríkisins. Samkvæmt upplýsingum stefnda, utanríkisráðuneytisins, hafi myndin verið notuð þrisvar til fimm sinnum í slíkri kynningu. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til opinberrar birtingar.
Afhendingu power-point kynninga til yfirstjórnar EXPO við undirbúning sýningarinnar. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Samkvæmt upplýsingum stefnda, utanríkisráðuneytisins, hafi power-point kynningar verið afhentar yfirstjórn verkefnisins en ekki virðist vitað hvort einstaklingar í yfirstjórninni hafi notað kynningar með ljósmyndinni. Hafi svo verið sé um að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Birtingu ljósmyndarinnar í frétt í Fréttablaðinu hinn 21. desember 2009. Um sé að ræða brot gegn einkarétti stefnanda til eintakagerðar.
Stefnandi hafi ekki eintök af því efni er að ofan greini og byggi frásögn sína á upplýsingum frá stefnda utanríkisráðuneytinu fyrir hönd íslenska ríkisins. Gerður sé fyrirvari um breytta og aukna kröfugerð komi nýjar upplýsingar fram, er gefi tilefni til slíks, hvort heldur sem sé með framhaldsstefnu eða kröfu í sérstöku dómsmáli.
Samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 beri stefndu, Plúsarkitektar ehf. og Sagafilm ehf. skaðabótaábyrgð á afritun ljósmyndar stefnanda og notkun hennar með því að fella ljósmyndina inn í vinningstillögu sína en þessir aðilar hafi sent inn tillöguna. Af þessu broti hafi síðan leitt frekari brot er falist hafi í því að ljósmyndin hafi verið notuð á kynningarvefsíðum fyrir þátttöku Íslands í sýningunni, í prentuðum bæklingi, í efni sem dreift hafi verið á minniskubbum á blaðamannaviðburði og síðar á geisladiskum til fjölmiðla, í power-point kynningum og í birtingu ljósmyndarinnar í Fréttablaðinu. Beri stefndu, Plúsarkitektar ehf. og Sagafilm ehf. skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna allra þessara brota. Stefndi, íslenska ríkið, beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna allra framangreindra brota, að undanskildu því broti er falist hafi í afritun ljósmyndar og innsendingu vinningstillögunnar, en utanríkisráðuneytið hafi komið fram fyrir hönd íslenska ríkisins, haft umsjón með og verið ábyrgt fyrir nýtingu myndarinnar í því kynningarefni er íslenska ríkið sem þátttakandi í sýningunni hafi sent frá sér. Stefndi, 365 miðlar ehf., beri ábyrgð á birtingu ljósmyndarinnar í Fréttablaðinu 21. desember 2009. Stefnandi taki fram að aðrir stefndu séu einnig ábyrgir fyrir þessari birtingu. Til stuðnings því sé bent á að stefnandi hafi gert athugasemd við verkefnisstjóra sýningarinnar í tölvupósti 9. desember 2009. Ljósmyndin hafi birst með frétt um undirbúning sýningarinnar 21. desember 2009. Í fréttinni séu höfð ummæli eftir Hreini Pálssyni, verkefnastjóra. Sé því ljóst að starfsmenn blaðsins hafi haft samband við Hrein við vinnslu fréttarinnar. Stefnandi hafi ekki vitneskju um hvort Fréttablaðið hafi á þessum tíma haft undir höndum efni er innihaldið hafi myndina. Ljóst sé að Hreini hafi verið óheimilt að afhenda fréttamanni efni sem innihaldið hafi myndina og borið sérstök skylda til að árétta að ef blaðið hefði hana undir höndum skyldi hún ekki birt með fréttinni enda hafi ljósmynd stefnanda gegnt veigamiklu hlutverki í vinningstillögunni og hafi verið notuð með margvíslegum hætti í kynningarefni. Með því að láta hjá líða að gæta að þessu hafi stefndi, íslenska ríkið, bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda, í það minnsta með því að eiga hlutdeild í broti stefnda 365 miðla ehf. og leiði það til bótaskyldu. Byggt sé á því að notkun ljósmyndarinnar af hálfu allra stefndu hafi verið með ásetningi. Stefndi, íslenska ríkið, hafi haft aðgang að ljósmynd stefnanda sem birst hafi í vinningstillögu hans auk þess sem gera verði kröfu um strangt sakarmat af hálfu opinbers aðila sem standi fyrir opinberri hugmyndasamkeppni um nýtingu hugverka. Stefndi, 365 miðlar ehf., hljóti að hafa gert sér grein fyrir því af samtölum við aðstandendur sýningarinnar að birting ljósmyndarinnar hafi verið óheimil.
Fjárhæð skaðabótakröfu fyrir fjárhagslegt tjón taki mið af gjaldskrá Myndstefs, samtaka myndhöfunda, sem sett sé með heimild í 2. mgr. 25. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Krafan sundurliðist þannig:
1. Notkun í vinningstillögu kr. 49.500
(miðað við heila síðu sem forsíðu)
2. Birting á vefsíðunum www.expo2010.is og
www.iceland.com.cn
(birting á tveim vefsvæðum í níu mánuði á hvoru) kr. 81.756
3. Útgáfa í prentuðum bæklingi
(miðað við heila síðu sem forsíðu) kr. 49.500
4. Dreifing á minniskubbum á blaðamannaviðburði við
opnun íslenska skálans (miðað við gjald fyrir prentun,
heil síða sem forsíða) kr. 49.500
5. Dreifing á geisladiskum til kínverskra fjölmiðla eftir
beiðni, að minnsta kosti 10- 20 eintök
(miðað við gjald fyrir prentun, heil síða sem forsíða) kr. 49.500
6. Notkun í power-point kynningum að minnsta kosti
þrisvar til fimm sinnum
(gjald fyrir tölvuvinnslu eitt verk notað fimm sinnum) kr. 87.200
7. Afhending power-point kynninga til yfirstjórnar
EXPO við undirbúningu sýningarinnar
(viðhengi við fjölpóst, allt að 100 viðtakendur) kr. 17.440
8. Birting ljósmyndarinnar í frétt í Fréttablaðinu
(að ½ síðu, upplag 90.000 eintök) kr. 460.805
Samtals kr. 845.201
Byggt sé á því að í þeim tilvikum sem ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig ljósmyndin hafi verið notuð í framangreindum kynningargögnum beri stefndi, íslenska ríkið, sönnunarbyrði fyrir því að ljósmyndin hafi verið notuð með öðrum hætti en hér sé miðað við. Vegna ummæla í fyrirliggjandi svarbréfi stefnda, íslenska ríkisins, um að bótaskyldu sé hafnað, þar sem notkun ljósmyndar stefnanda hafi verið í góðri trú og ummælum í sömu veru í svarbréfi stefnda 365 miðla ehf., taki stefnandi fram að slíkt leiði ekki til brottfalls bótaskyldu skv. 56. gr. laga nr. 73/1972. Stefnandi taki fram að yrði talið að gjaldskrá Myndstefs yrði beitt með öðrum hætti en dómkrafa byggi á nemi bótakrafa samt sem áður þeirri fjárhæð sem krafist sé enda hafi í dómaframkvæmd verið talið að bótakrafa nemi hærri fjárhæð en gjaldskrár geri ráð fyrir, að minnsta kosti sem nemi allt að tvöföldun. Til stuðnings varakröfu taki stefnandi fram að fari svo að birting ljósmyndarinnar verði að einhverju leyti talin hafa átt sér stað í góðri trú sé samt sem áður um að ræða bótaskyldu af hálfu hinna brotlegu en bætur kunni þá að nema lægri fjárhæð en ella. Til stuðnings varakröfu færi stefnandi einnig fram þau rök að verði talið að gjaldskrá Myndstefs eigi að beita með öðrum hætti en dómkrafa byggi á kunni dæmd krafa að nema lægri fjárhæð. Jafnframt sé gerð krafa um miskabætur vegna brots gegn sæmdarrétti stefnanda. Við brot þau sem fyrr sé lýst hafi stefnandi orðið fyrir miskatjóni sem sé umtalsvert. Því til stuðnings sé bent á eftirfarandi. Ljósmynd stefnanda hafi verið notuð af samkeppnisaðila í samkeppni er haldin hafi verið af íslenska ríkinu. Ljósmyndin hafi vegið þungt í þeim áhrifum sem vinningstillögunni hafi verið ætlað að skapa en hún hafi birst sem heilsíðumynd á bls. 5 í tillögunni. Notkun myndarinnar hafi verið umtalsverð og staðið yfir í talsverðan tíma en stefndi, íslenska ríkið, hafi notað ljósmyndina við kynningu á framlagi sínu til heimssýningarinnar. Það auki þann hróður sem samkeppnisaðilar hafi náð að skapa sér við nýtingu vinningstillögunnar að um hafi verið að ræða nýtingu af hálfu opinbers aðila í jafn viðamiklu verkefni og hér um ræði. Eðli málsins samkvæmt megi ætla að ljósmyndin, þannig breytt, hafi komið fyrir augu gríðarlegs fjölda fólks, bæði almennings, er ætlað hafi að sækja sýninguna, fjölda einstaklinga annarra þjóða er tekið hafi þátt í sýningunni, ýmissa þjónustuaðila er annast hafi þjónustu í tengslum við sýninguna og svo mætti lengi telja. Samkvæmt fréttum um sýninguna hafi þessi heimssýning verið sú stærsta og umfangsmesta sem haldin hafi verið með þátttöku 186 þjóða og u.þ.b. 60 alþjóðastofnanna. Áætlaður gestafjöldi á sýningunni hafi verið um 70 milljónir. Fyrir liggi að fjölmiðlum hafi verið afhent efni er innihaldið hafi ljósmyndina. Jafnframt hafi ljósmyndin birst á ýmsum vefsíðum eins og sjáist af framlögðum gögnum. Breyting ljósmyndarinnar auki þann miska sem stefnandi hafi orðið fyrir. Við ákvörðun miskabóta verði einnig að hafa hliðsjón af því samhengi er brotin hafi átt sér stað í og því að stefndi, íslenska ríkið, hafi notfært sér hugmyndir stefnanda með ólögmætum hætti eins og nánar sé gerð grein fyrir í stefnu. Stefnandi telji hæfilegar miskabætur fyrir allt það tjón er hann hafi orðið fyrir nema að lágmarki 1.000.000 króna, þar af vegna birtingarinnar í Fréttablaðinu 500.000 krónur. Sé því gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur úr hendi stefnda, 365 miðla ehf. en 1.000.000 króna úr hendi annarra stefndu. Kröfur stefnanda séu byggðar á höfundalögum nr. 73/1972, einkum 1., 3., 4. og 56. grein, lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, einkum 5. gr. og hvað stefnda 365 miðla ehf. varði á 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956. Krafa um vexti byggi á 8., sbr. 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og sé byggt á því að tjón vegna nýtingar ljósmyndarinnar í vinningstillögu hafi orðið ekki síðar en 8. janúar 2009 þegar frestur til að skila tillögum hafi runnið út en að annað tjón hafi allt verið komið fram við birtingu myndarinnar í Fréttablaðinu hinn 21. desember 2009. Krafa um dráttarvexti byggi á 1. mgr. 6. gr. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og sé því gerð krafa um greiðslu virðisaukaskatts úr hendi stefndu.
Málástæður stefnda Plúsarkitekta ehf. og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á meintum aðildarskorti. Af málavöxtum sé ljóst að stefndi geti ekki borið ábyrgð á þeim meintu brotum sem mál þetta varði. Stefndi sé lögaðili sem reki arkitektastofu og sinni teiknivinnu og tengdum verkefnum. Eina aðkoma stefnda að undirbúningi og framlagi Íslands á heimssýningunni, hafi verið hönnunar- og teiknivinna, í samræmi við venjubundna starfsemi stefnda og efni sérstaks samnings við Sagafilm ehf. Af stefnu megi sjá að kröfur stefnanda um bótaskyldu stefnda byggi fyrst og fremst á atviki sem átt hafi sér stað löngu áður en stefndi hafi byrjað afskipti af verkefninu, þ.e. notkun á mynd í umsókn einstaklings um að gerast sýningarstjóri verkefnisins. Stjórn verkefnisins hafi því verið á höndum annarra en stefnda. Eðli málsins samkvæmt beri stefndi ekki bótaábyrgð vegna þess atviks. Varðandi möguleg brot á höfundarétti eftir að stefndi hafi komið að verkefninu þá bendi stefndi á að hann hafi ekki komið að ákvarðanatöku um prentun og útgáfu íslenska ríkisins á bæklingum vegna undirbúnings framlags Íslands til heimssýningarinnar, sem ætlaðir hafi verið til kynningar á viðskiptaþjónustu íslenska skálans. Hið sama eigi við um meinta dreifingu á minniskubbum, geisladiskum á blaðamannafundum á vegum íslenska ríkisins eða rafrænum kynningum (power point) fyrir yfirstjórn EXPO sýningarinnar, sem kunni að hafa innihaldið umþrætta mynd eða myndbrot. Það sé því ljóst að aðkoma stefnda að þeim atvikum sem stefnandi byggi skaðabótakröfur sínar á, hvort sem um sé að ræða notkun í umsókn sýningarstjóra eða mögulega síðari notkun, sé engin. Þá liggi fyrir að stefnda hafi verið óheimilt, nema með sérstöku leyfi meðstefnda, Sagafilm ehf., að veita nokkrar upplýsingar um verkefnið til þriðja aðila. Því geti stefndi ekki að neinu leyti talist bera ábyrgð á meintu tjóni stefnanda.
Í kröfugerð stefnanda sé þess krafist að stefndi beri að því er virðist hlutlæga og solidariska ábyrgð á ótilgreindri háttsemi stefndu, með ýmist Sagafilm ehf., 365 miðlum ehf. eða íslenska ríkinu, vegna mögulegs tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna hennar. Hvergi í stefnu sér þó reynt að gera nokkra grein fyrir hvaða háttsemi stefnda hafi falið í sér brot á höfundalögum og geti hafa leitt til tjóns fyrir stefnanda. Af stefnunni verði helst ráðið að stefndi geri ekki greinarmun á eigendum og hluthöfum í stefnda, meðstefndu og stefnda sjálfum. Stefndi hafi ekki sótt um starf hönnunar- og sýningarstjóra. Það hafi hins vegar einn eigenda félagsins gert án þess að sú umsókn væri tengd stefnda eða starfsemi hans á annan hátt. Aðkoma stefnda að umræddu verkefni, eftir samkomulagið 17. apríl 2009, hafi aðallega verið við ýmsa teikni- og hönnunarvinnu tengdri sýningunni. Það sé því vandséð að stefndi geti hafa sýnt af sér þá háttsemi gagnvart stefnda að varðað geti bótaskyldu, enda ákvarðanir um hvað skyldi birt, og hvernig það yrði birt eða kynnt, fyrst og fremst á ábyrgð framkvæmdastjórnar EXPO 2010. Það sé því mat stefnda að honum hafi verið stefnt fyrir dóm af tilefnislausu, þar sem augljóst sé að hann geti ekki borið ábyrgð á meintum brotum. Með vísan til þess er að framan greini telji stefndi að hann geti ekki borið þá skyldu sem stefnandi krefjist, og því beri að sýkna hann á grundvelli ólögfestra reglna um aðildarskort, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á sjónarmið stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts, liggi fyrir að stefndi hafi ekki komið að endanlegri ákvarðanatöku, kynningu eða afhendingu til þriðja aðila á efni sem innihaldið hafi mögulega hugverk stefnanda, eftir að stefndi hafi undirritað ráðgjafasamning um hönnun og teiknivinnu vegna verkefnisins 17. apríl 2009. Engin sýnileg sönnunargögn hafi verið lögð fram í málinu sem sýni fram á aðkomu stefnda, auk þess sem hvergi sé í stefnu vísað til eða að finna lýsingu á háttsemi stefnda eða starfsmanna hans, sem geti varðað bótaábyrgð. Þá hafi stefnandi hvorki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni eða stefndi haft ávinning af meintu broti. Af málatilbúnaði stefnanda virðist mega ráða að stefndi skuli bera hlutlæga og solidariska ábyrgð á öllum mögulegum brotum hvers og eins sem komið hafi að vinnu verkefnisins, hvort heldur viðkomandi hafi verið hluti af ráðgjafateymi eða utanríkisráðuneytið sjálft, án tillits til þess hvort tjón hafi af hlotist eða ekki. Engin slík ákvæði hafi verið að finna í höfundalögum á þeim tíma. Stefnda sé það því hulin ráðgáta á hvaða grundvelli, eða vegna hvaða brota, honum beri að greiða skaðabætur, enda hafi hann ekki komið að einstaka ákvörðunum um eintakagerð, birtingu eða notkun hinna umþrættu myndbrota, auk þess að vera fullkomlega grandlaus um að notkun þeirra væri ekki heimil. Af málatilbúnaði stefnanda virðist einnig mega ráða að hann byggi málatilbúnað sinn einkanlega á 12. gr. laga nr. 93/2010, sem breytt hafi 56. gr. þágildandi höfundalaga. Lögin hafi tekið gildi í júní 2010, eða um það bil einu og hálfu ári eftir að utanríkisráðuneytið hafi óskað eftir umsóknum um starf sýningarstjóra og löngu eftir að umþrætt myndbrot hafi verið tekin út úr öllum gögnum. Hvorki í lögunum eða lögskýringargögnum sé að finna vísbendingu um að þeim hafi verið ætlað að gilda afturvirkt. Sé þessi málatilbúnaður stefnanda því illskiljanlegur. Samkvæmt þágildandi 56. gr. höfundalaga hafi einvörðungu borið að bæta rétthafa fjárhagslegt tjón á grundvelli reglna skaðabótaréttarins. Í málatilbúnaði stefnanda sé ekki að finna rökstuðning um það að hann hafi orðið fyrir tjóni. Þvert á móti sé í stefnu að finna vísbendingar um að stefnandi telji sig ekki þurfa að sýna fram á fjárhagstjón sitt. Sé því alfarið mótmælt. Enn fremur hafi bótaábyrgð grandlauss aðila í þágildandi lögum verið takmörkuð við það að bótagreiðslur næmu ekki hærri fjárhæð en þeim ávinningi sem tjónvaldur hafi haft af broti sínu. Í málatilbúnaði stefnanda sé hvergi sýnt fram á að stefndi hafi haft nokkurn ávinning af hinum meintu brotum. Í stefnu komi fram að stefnandi telji að notkun á hugmyndum um að nýta fossa, íslenskar flugfreyjur, vönduð sýningakerfi og Norðurljósin við kynningu á framlagi Íslands á heimssýningunni í Kína, feli í sér brot á 5. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem stefnandi hafi í umsókn sinni viðrað einhverjar slíkar hugmyndir. Stefndi telji slíkar ásakanir í besta falli undarlegar og hafni þeim með öllu, enda vandfundin kynning á landi og þjóð í útlöndum þar sem ekki sé að einhverju leyti stuðst við klassískar hugmyndir um að nýta fossa, íslenska náttúru, Norðurljósin og vönduð sýningartæki við verkefnið. Það væri frekar að stefnandi gæti fengið viðurkenndan höfundarétt á kynningu, þar sem þessi atriði kæmu ekki fyrir. Þessum ásökunum stefnanda sé því mótmælt með öllu.
Af málatilbúnaði stefnanda sé ljóst að einustu upplýsingar og sönnunargögn um hina meintu bótaskyldu háttsemi stefnda, sé að finna í bréfi utanríkisráðuneytisins frá 23. desember 2010. Sé fullyrðingum sem þar komi fram mótmælt, enda hvergi að finna lýsingu á háttsemi stefnda sem varðað geti ábyrgð og ljóst að framkvæmdastjórn á vegum utanríkisráðuneytisins hafi borið alla ábyrgð á framkvæmdinni. Í málatilbúnaði stefnanda sé hvergi að finna rökstuðning fyrir því eða sannfærandi lýsingu á að hin unna (photoshoppaða) útgáfa hinnar upprunalegu myndar, teljist listaverk í skilningi 1. gr. höfundalaga. Mun eðlilegra sé að líta svo á að hin breytta mynd njóti ekki verndar höfundalaga sem listaverk, en gæti mögulega fallið undir ákvæði 49. gr. höfundalaga. Á því sé þó ekki byggt í stefnu. Stefndi mótmæli enn fremur öllum fjárhæðum í stefnu, enda kröfugerð og fjárhæðir í þeim með öllu órökstuddar og ósannaðar, enda komi fram í stefnu, þ.e. að undanskyldri birtingu í Fréttablaðinu, að möguleg notkun á umþrættum myndbrotum hafi leitt til þess að þau hafi komið fyrir augu nokkurra nefndar- og blaðamanna. Ekkert liggi fyrir í málinu um að þau hafi verið birt að öðru leyti opinberlega í fjölmiðlum eða annars staðar. Þá liggi ekki fyrir í málinu hvort stefnandi sé aðili að Myndstefi, en vísað sé til gjaldskrár félagsins á dómskjali nr. 23, til stuðnings bótafjárhæð. Til álita komi af hálfu stefnda að krefjast frávísunar sökum þess að umþrætt mynd, sem stefnandi telji að hafi verið notuð við umsókn og undirbúning framlags Íslands á heimssýningunni í Kína og lögð hafi verið fram í málinu, hafi aldrei áður komið fyrir augu stefnda. Að sögn umsækjanda um starf sýningarstjóra hafi verið stuðst við myndbrot úr myndunninni útgáfu í umsókn. Þá sé í stefnu ekki sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem kröfugerð og málsatvikalýsing séu vanreifuð. Þá verði heldur ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að hann byggi kröfugerð sína á lögum, sem ekki hafi verið í gildi á þeim tíma er hin meintu brot eigi að hafa átt sér stað. Þrátt fyrir að það kunni að koma til álita að vísa málinu frá ex officio, geri stefndi ekki sérstaka kröfu um frávísun málsins.
Krafa stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda sé sama marki brennd og aðrar kröfur, að hún sé órökstudd með öllu, enda fullkomlega óljóst í hverju miski stefnanda sé fólginn. Megi í því samhengi nefna tölvupósta stefnanda til sýningarstjóra verkefnisins, en þar leggi stefnandi sérstaklega til að umþrætt mynd verði nýtt á ytra byrði sýningarskálans. Þeirri hugmynd hafi verið hafnað. Verði af þeim tölvupósti ráðið að stefnandi hafi ekki haft neinar athugasemdir varðandi notkun myndbrotanna, einungis haft áhyggjur af því hvort hann fengi sjálfur eitthvað greitt. Þess beri einnig að geta að umþrætt útgáfa af myndinni, hafi öllum verið aðgengileg á alnetinu, þó svo virðist ekki vera nú. Það bendi því ekkert til þess að stefnandi hafi þurft að þola skerðingu hugrænna gæða, niðurlægingu, lent í sérstökum sálarháska eða nokkru öðru tengdu málinu sem réttlæti huggun honum til handa í formi dóms um bótagreiðslu. Sé kröfu stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda alfarið hafnað. Stefndi vísi að öðru leyti til fyrri sjónarmiða sinna um aðildarskort og að stefndi hvorki hafi tekið þátt í því né geti talist bera ábyrgð á því ef umrædd mynd eða myndbrot hafi verið birt eða notuð einhversstaðar í heimildarleysi síðar til kynningar á verkefninu, þó hluthafi í félaginu hafi í upphafi sótt um starf sýningarstjóra og myndbrotin fylgt umsókninni, enda möguleg síðari notkun á þeim ekki á ábyrgð stefnda. Þá sé því sérstaklega mótmælt að til greina geti komið að stefnda verði gert að greiða stefnanda miskabætur vegna birtingar í Fréttablaðinu, enda útsend gögn alfarið á ábyrgð ráðuneytisins.
Um lagarök vísi stefndi einkum til hinnar ólögfestu reglu um aðildarskort sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. Enn fremur vísi stefndi til höfundalaga nr. 73/1972, einkum þágildandi 56. gr. laganna, um skilyrði þess að skaðabótaskylda geti stofnast, en stefndi hafi ekki sýnt af sér neina þá háttsemi sem geti verið grundvöllur bótaskyldu. Rétt sé að ítreka að 56. gr. höfundalaga hafi verið breytt með lögum nr. 93/2010, og hafi breytingin tekið gildi 29. júní 2010. Því eigi þau lög, eðli málsins samkvæmt, ekki við um málsatvik. Um málskostnað vísist til laga 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130 gr.
Málsástæður stefndu Sagafilm ehf. og tilvísun til réttarheimilda
Sagafilm ehf. krefst sýknu á þeim grundvelli að hvorki Sagafilm ehf., starfsmenn fyrirtækisins eða nokkur aðili sem Sagafilm ehf. beri ábyrgð á hafi komið nálægt þeirri ákvörðun að nota umrædda mynd, hvorki í vinningstillögu Sagafilm ehf. og Plúsarkitekta ehf. eða við síðara tímamark, þegar myndin hafi farið inn í prentað efni og tölvutækt á vegum utanríkisráðuneytisins, né hafi Sagafilm ehf. átt þátt í dreifingu efnisins. Forsenda þess að hægt sé að dæma bætur fyrir hagnýtingu ljósmyndar eins og þessarar sé að viðkomandi aðili, sem krafinn sé um bæturnar, hafi tekið ákvörðun um nýtingu myndarinnar, hagnýtt hana eða dreift henni. Ekkert af þessu hafi Sagafilm ehf. gert. Plúsarkitektar ehf. sé sá aðili sem beri ábyrgðina, sé hún á annað borð til staðar, og eftir atvikum íslenska ríkið f.h. utanríkisráðuneytisins. Um leið og Sagafilm ehf. hafi heyrt af notkuninni og að stefnandi héldi því fram að hann væri höfundur myndarinnar hafi Sagafilm ehf. gert það sem það hafi getað til að notkun myndarinnar yrði hætt og að sá sem ábyrgðina bæri reyndi að ná eðlilegum sáttum við stefnanda. Meira hafi Sagafilm ehf. ekki getað gert og þurfti ekki að gera. Þá byggi Sagafilm ehf. á því að engar sannanir hafi verið lagðar fram í málinu sem sanni að stefnandi eigi höfundarrétt að myndinni. Sagafilm ehf. hafni því að hafa komið að því að nýta myndina í vinningstillögunni og kynningarefninu, sem hún hafi verið hluti af. Það hafi Plúsarkitektar ehf. gert og eftir atvikum utanríkisráðuneytið, sem beri ábyrgðina, sé hún til staðar. Í þessu efni verði að hafa í huga að Páll Hjaltason arkitekt, sem unnið hafi að verkefninu fyrir Plúsarkitekta ehf., sé sérfræðiaðili og beri að gæta þess að höfundarréttur sé virtur, sé hann til staðar. Þau atriði sem stefnandi telji á bls. 6 í greinargerð og varði nýtingu myndarinnar séu öll Sagafilm ehf. óviðkomandi.
Varðandi það sem stefnandi haldi fram að hugverk í eigu stefnanda um risamynd af fossi í návígi, íslenskar flugfreyjur, marga skjái og norðurljósasýningu, hafi verið notuð án hans heimildar, þá sé því hafnað. Allt sé þetta mjög íslenskt og sjálfsagt það fyrsta sem öllum detti í hug þegar kynna eigi Ísland. Á slíkum óútfærðum hugmyndum sé ekki hægt að eignast höfundarrétt, auk þess sem Sagafilm ehf. hafi aldrei séð hugmyndir stefnanda um sýninguna fyrr en við þingfestingu málsins.
Stefnandi byggi mál sitt einkum á 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 93/2010, sem tekið hafi gildi 15. júní 2010 eða eftir að þau atvik sem mál þetta snúist um hafi átt sér stað. Úr málinu verði ekki leyst á grundvelli þessarar lagareglu. Ákvæði þágildandi 56. gr. höfundalaga hafi verið svohljóðandi:
„Þegar saknæmt brot á lögum þessum hefur haft fétjón í för með sér, ber að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
Dæma skal höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi.
Heimilt er að dæma þeim, sem misgert er við, bætur úr hendi þess, sem réttarröskun olli, þó að hann hafi gert það í grandleysi, en ekki mega bæturnar nema hærri fjárhæð en ávinningi hans af brotinu“.
Að mati Sagafilm ehf. leiði þessi lagaregla, sem dæma beri málið eftir, til eftirfarandi niðurstöðu. Bætur í málinu skuli ákvarðast eftir almennum reglum skaðabótaréttar, þ.e. stefnandi þurfi að sanna sök, tjón og fjárhæð þess og orsakasamhengi milli saknæmrar háttsemi og tjónsins. Sá einn verði dæmdur til greiðslu miskabóta, sem sýnt hafi af sér saknæma háttsemi, þ.e. raskað hafi rétti höfundar með ólögmætri háttsemi. Varðandi Sagafilm ehf., þá séu skilyrði skaða- og miskabóta ekki fyrir hendi, en verði ekki fallist á það, þá einungis sú fjárhæð sem nemi ávinningi Sagafilm ehf. af meintu broti. Í þessu máli sé það fyrsta dómkrafa stefnanda, þ.e. um greiðslu á 49.500 krónum, en um sé að ræða kröfu vegna nýtingar myndarinnar í vinningstillögunni. Skilyrði til að dæma Sagafilm ehf. til greiðslu bóta vegna nýtingar myndarinnar að öðru leyti séu án efa ekki fyrir hendi, hvort sem um sé að ræða miskabætur eða fjártjónsbætur. Sagafilm ehf. hafi verið algjörlega grandlaus um að einhver möguleiki væri á því að stefnandi kynni að eiga rétt yfir myndinni.
Stefnandi geri fjárkröfur á hendur Sagafilm ehf. í kröfuliðum nr. 1 til 5. Sagafilm ehf. krefjist sýknu af kröfulið 1. Eins og rakið hafi verið haldi Sagafilm ehf. því þó fram að eigi að dæma áfall á hendur félaginu að einhverju leyti, þá sé það vegna liðar 1 í kröfugerð stefnanda, sbr. þágildandi 56. gr. höfundalaga. Sagafilm ehf. krefjist sýknu af kröfulið 2 en til vara að hann verði lækkaður verulega. Gerð sé grein fyrir þeim fjárhæðum, sem myndi þennan lið á bls. 8 í stefnu. Um sé að ræða bætur fyrir fjárhagstjón vegna birtingar myndarinnar á vefsíðum, útgáfu í prentuðum bæklingi, dreifingu minniskubba á blaðamannaviðburði við opnun íslenska skálans, dreifingu á geisladiskum til kínverskra fjölmiðla, notkun í power point kynningum í þrjú til fimm skipti, afhendingu power point til kynningar til yfirstjórnar EXPO, auk birtingar ljósmyndarinnar með frétt í Fréttablaðinu. Sagafilm ehf. hafni því að bera ábyrgð á þessari notkun myndarinnar, auk þess sem fjárhæð tjónsins sé ósönnuð. Engin þessara gagna séu komin frá Sagafilm ehf.. Skilyrði til að dæma Sagafilm ehf. til greiðslu fjárhagstjóns vegna þessara atriða sé því ekki til staðar. Sagafilm ehf. hafni því að geta verið meðábyrgt með 365 miðlum ehf., sbr. kröfulið 3, þegar myndin hafi verið birt í Fréttablaðinu. Sagafilm ehf. hafi hvorki afhent myndina til Fréttablaðsins né vitað af birtingu hennar. Á þeim tíma sem hún hafi birst hafi Sagafilm ehf. ekki vitað betur en allri notkun myndarinnar hefði verið hætt, en í málinu liggi fyrir gögn sem sanni að áður en fulltrúi utanríkisráðuneytisins hafi afhent myndina til Fréttablaðsins, hafi verið búið að upplýsa ráðuneytið um að stefnandi teldi sig eiga höfundarrétt að myndinni og að hann legðist gegn notkun hennar. Hvað kröfulið 4 varðar byggi Sagafilm ehf. á því að félagið verði ekki dæmt til greiðslu miskabóta á grundvelli 56. gr. höfundalaga, eins og hún hafi verið þegar atvik hafi gerst. Þá hafi stefnandi ekkert sannað um miskatjón sitt eða reynt að leiða líkur að því auk þess sem ekkert bendi til þess að myndin hafi átt nokkurn einasta þátt í því að Sagafilm ehf. og Plúsarkitektar ehf. hafi unnið hugmyndasamkeppnina. Varðandi dreifingu myndarinnar þá lýsi Sagafilm ehf. sig ábyrgðarlausa með öllu af því verki. Ofangreindu til viðbótar sé fjárkrafan um greiðslu miskabóta án allrar veruleikatengingar um greiðslu miskabóta í málum sem þessum. Kröfuliður 5 beinist að 365 miðlum ehf. Sagafilm ehf. hafni því að verða dæmd in solidum til greiðslu miskabóta vegna birtingu myndarinnar í Fréttablaðinu.
Fari svo, þvert gegn væntingum Sagafilm ehf., að félagið verði dæmt til greiðslu skaða- eða miskabóta, í samræmi við kröfugerðir stefnanda, í heild eða að hluta, þá sé gerð sú krafa að kröfurnar verði lækkaðar verulega. Sagafilm ehf. hafni varakröfu stefnanda og haldi fram sömu sýknuástæðum fyrir þeim og aðalkröfum að breyttu breytanda. Um lagarök fyrir kröfum sínum vísi stefndi einkum til 56. gr. höfundalaga.
Stefndi vísi um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málástæður stefnda, íslenska ríkisins, og tilvísun til réttarheimilda
Sýknukrafa íslenska ríkisins er á því byggð að sýkna beri ríkið vegna aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Utanríkisráðuneytið hafi ekki tekið ákvarðanir um notkun myndarinnar vegna EXPO þátttökunnar, heldur hafi það verið á ábyrgð Sagafilm ehf. og Plúsarkitekta ehf. Af orðalagi 3. gr. fyrirliggjandi verksamningsins milli utanríkisráðuneytisins annars vegar, sem verkkaupa, og Plúsarkitekta ehf. og Sagafilm ehf. hins vegar, sem verksala, leiði að verksalar hafi borið ábyrgð á hugsanlegri hagnýtingu á myndefni sem nota bæri í kynningarefni, heimasíðu, skála o.s.frv., og kynni að vera háð rétti þriðja aðila og samningaviðræðum við þriðja aðila enda innifalið í greiðslum til þeirra sbr. 2. gr. Sé það í samræmi við reglur samninga- og kröfuréttar um að verksali beri ábyrgð á eiginleikum hins selda og tryggi eignaréttarvernd. Ráðuneytið hafi haft réttmætar væntingar um að samið væri við þriðja aðila vegna notkunar á efni og samkvæmt verksamningi væri ráðuneytið varið gagnvart hugsanlegri síðar fram kominni kröfugerð vegna hagnýtingar á myndefni þriðja aðila sem kynni að vera háð rétti þess aðila. Utanríkisráðuneytið hafi verið í góðri trú um að notkun á umræddri ljósmynd væri heimil. Í annan stað sé ekki fullnægt skilyrðum til að stofnast geti til skaðabótaábyrgðar íslenska ríkisins að lögum. Stefndi hafni alfarið þeim ásökunum, sem ýjað sé að í málsatvikalýsingu og málsástæðum stefnanda, að ráðuneytið hafi með ásetningi hagnýtt sér hugmyndir stefnanda eða dreift tillögum hans sem og myndefni til stefndu Plúsarkitekta ehf. og Sagafilm ehf.. Hin meintu brot, sem stefnandi byggi á, hafi átt sér stað fyrir 2. júlí 2010. Lög nr. 93/2010 er breytt hafi höfundalögum nr. 73/1972 hafi tekið gildi 2. júlí 2010 og þar með núgildandi 56. gr. höfundalaga. Notkun á ljósmyndinni hafi því ekki farið fram í tíð eldri laga, þegar góð trú hafi skipt máli varðandi bótaskyldu notanda höfundavarins efnis. Fram að gildistöku laganna hafi 1. mgr. 56. gr. höfundalaga verið túlkuð með þeim hætti að bótaábyrgð skv. ákvæðinu væri reist á sakarreglunni. Ákvæði 56. gr. hafi verið svohljóðandi: ... .
Starfsmenn utanríkisráðuneytisins hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en póstur stefnanda hafi borist 9. desember 2009 að kynningarefni kynni að hafa geyma efni sem birt hafi verið án vitneskju höfundar og hafi talið það á ábyrgð verksala að annast um að afla viðeigandi heimilda, kæmi til notkunar á myndefni þriðja aðila. Það hafi enda verið innifalið í þóknun verksala samkvæmt 2. gr., og hafði ráðuneytið því enga ástæðu haft til að ætla annað en því væri heimil notkun umræddar ljósmyndar með þeim hætti sem lýst sé í bréfi ráðuneytisins frá 23. desember 2010. Af hálfu ráðuneytisins hafi síðan allt verið gert sem unnt hafi verið til að koma í veg fyrir frekari birtingu. Áréttað skuli, að framkvæmdastjóri sýningarinnar kannast ekki við að hafa látið Fréttablaðinu neitt efni í té eftir að athugasemdir frá stefnanda hafi borist og því líklegt að Fréttablaðið hafi notað gamalt kynningarefni. Þá geti stefndi ekki á nokkurn hátt borið ábyrgð á nýtingu myndarinnar í vinningstillögu meðstefndu. Þaðan af síður því að frumeintaki myndar hafi verið breytt og sæmdarréttur stefnanda mögulega brotinn líkt og dómkrafa nr. 4. um miskabætur byggi á, með sömu rökum og að framan hafa verið rakin. Þá skuli á það bent að ekki sé annað að sjá en að hin breytta mynd hafi þegar legið fyrir á internetinu og verið öllum aðgengileg. Tekið skuli fram að utanríkisráðuneytið hafi ekki viðurkennt hugverkarétt stefnanda að umræddri ljósmynd enda hafa starfsmenn þess hvorki faglega þekkingu eða forsendur til að meta hvort um sömu mynd sé að ræða og frummynd stefnanda og þaðan af síður hvort myndefnið sé varið af hugverkarétti eður ei. Í 3. mgr. eldri höfundalaga hafi verið kveðið á um bætur samkvæmt svonefndri auðgunarreglu, þrátt fyrir að brot væri framið í góðri trú. Ekki verði séð að þessi atriði geti átt við um ráðuneytið. Skilyrði 3. mgr. 56. gr. sé óréttmæt auðgun, en í þessu tilviki hljóti það að eiga við um verksala en ekki ráðuneytið þ.e. auðgun líti að þeim er taki ákvörðun um nýtingu myndefnis í góðri trú og auðgist, en ekki gagnvart grandlausum viðsemjanda eða þriðja aðila. Af hálfu utanríkisráðuneytisins hafi enda verið litið svo á að í þóknun til verksala væru m.a. falin kaup sem kynnu að falla til vegna myndefnis þriðja aðila sbr. 2. gr. samningsins, svo sem áður hafi verið rakið. Þá sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni er varðað geti stefnda bótaábyrgð að lögum. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu því sem viðkomi bótakröfu hans, þ.á m. hvíli á stefnanda að sanna sök, tjón sitt og fjárhæð þess og orsakasamband milli tjóns og saknæmrar háttsemi. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni eða miska. Ekkert styðji heldur að utanríkisráðuneytið hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi er gæti hafa valdið stefnanda fjártjóni eða miska. Ef ekki verði fallist á að framangreind sjónarmið leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda sé á þeim byggt til stuðnings varakröfu stefnda um lækkun stefnukrafnanna. Kröfur stefnanda vegna fjártjóns að fjárhæð 795.701 króna, sem beint sé að stefnda, séu sundurliðaðar í töluliðum 2 til 8 á bls. 8 í stefnu. Krafist sé lækkunar allra þeirra liða verði ekki fallist á að sýkna beri af þeim. Fyrir liggi að prentuðum bæklingi, sbr. lið 3, hafi verið fargað og ekkert liggi fyrir, sbr. lið 7, um að yfirstjórn EXPO hafi notað kynningarefni með hinni umdeildu ljósmynd og fái þessir kröfuliðir ekki staðist hvernig sem á verði litið. Kröfuliður 8, vegna birtingar í Fréttablaðinu að fjárhæð 460.805 krónur, sé ekki rökstuddur í stefnu og fáist ekki séð að sú fjárhæð eigi neina stoð í fyrirliggjandi gjaldskrá Myndstefs. Sé tekið undir þau sjónarmið meðstefnda 365 miðla ehf. að sú kröfugerð sé fjarstæðukennd og að bætur byggðar á gjaldskrá Myndstefs gætu í hæsta lagi numið 21.038 krónum. Kröfu stefnanda um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, þar af 500.000 krónur vegna birtingar í Fréttablaðinu, sé harðlega vísað á bug og fáist ekki séð að lagaskilyrði séu til að dæma stefnanda miskabætur. Til vara sé krafist stórfelldrar lækkunar hennar.
Kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti sé mótmælt og þess krafist að upphafstími dráttarvaxta miðist við ekki fyrri tíma en dómsuppsögu í málinu.
Málsástæður stefndu, 365 miðla ehf. og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi, 365 miðlar ehf., krefst sýknu á þeim grundvelli að hann sé fjölmiðill sem hafi rétt til að birta það efni, sem hann fái í tengslum við fréttaflutning. Fyrir liggi að umrædd mynd hafi verið fengin úr kynningarefni, sem íslenska utanríkisráðuneytið hafi látið blaðamanni Fréttablaðsins í té í tengslum við umfjöllun þess um heimssýninguna í Kína og þátttöku Íslands þar. Stefnda sé ekki kunnugt um hvort stefnandi sé höfundur umræddar myndar eins og hann haldi fram í stefnu og eigi höfundarrétt að henni, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og eigi þar með einkarétt til eintakagerðar. Þó svo væri hafni stefndi 365 miðlar ehf. því að birting hennar í Fréttablaðinu hafi falið í sér brot gegn 3. og 4. gr. höfundalaga. Fréttablaðið starfi í sinni fréttamiðlun m.a. í samræmi við 15. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Sú grein takmarki höfundarrétt að því er varðar frétta- eða upplýsingaþjónustu fjölmiðla. Í 2. mgr. greinarinnar sé heimilað að birtar séu í blöðum myndir eða teikningar af birtum listaverkum í sambandi við frásögn af dægurviðburðum. Sé í greininni átt við kvaðalaus not viðkomandi efnis sem felist í að fréttamiðill þurfi ekki að fá samþykki höfundar fyrir birtingu og fréttamiðill verði ekki krafinn um endurgjald fyrir birtingu. Greinin veiti því fréttamiðli fullt leyfi til að birta slíkt efni ef þess sé gætt að birting sé í nægilegu sambandi við umfjöllunina. Það hafi augljóslega átt við í þessu tilviki þar sem umfjöllun Fréttablaðsins hafi eingöngu snúið að heimssýningu í Kína og skála Íslands þar sem umrædd myndbirting sé notuð til að sýna hann. Þó að Fréttablaðið starfi eftir heimildum höfundalaga sem takmarki höfundarrétt ná þær lögheimiluðu takmarkanir almennt ekki til sæmdarréttar 4. gr. laganna, þ.e. m.a. auðkenningarréttar skv. 1. mgr. 4. gr.. Mikilvægur fyrirvari réttarins til auðkenningar sé þó að rétturinn sé metinn eftir því sem við geti átt. Með þeim víðtæka fyrirvara greinarinnar komi því fram að meta þurfi hvort auðkenningarskylda eigi við hverju sinni. Megi í því mati m.a. líta til venju sem kunni að hafa myndast á tilteknum birtingarsviðum og einnig eftir atvikum til eðlis máls og allra aðstæðna með mið af sanngjörnum hagsmunum allra aðila. Fréttablaðið hafi um margra ára skeið starfað eftir verklagi sem skapast hafi á meðal prentmiðla landsins þar sem auðkenningarréttur sé metinn hverju sinni. Fullyrða megi að ekki séu auðkennd öll listaverk sem þar birtist. Segja megi að viðmið hafi skapast um að ef listaverk sé aðalefni myndar og/eða umfjöllunar sé verkið auðkennt. Ef listaverk sé hins vegar einhvers konar aukaefni myndar og/eða umfjöllunar sé það verk alla jafna ekki auðkennt. Sem dæmi megi nefna umfjöllun um bók með mynd þar sem listaverk á kápu bókarinnar yrði alla jafna ekki auðkennt. Fréttablaðið hafi því ekki þurft að gæta að auðkenningarrétti höfundar ljósmyndar sem notuð hafi verið í mynd af skála sem verið hafi til umfjöllunar í blaðinu. Þess megi geta að í umræddu tilviki taki Fréttablaðið fram í texta umfjöllunarinnar hverjir hafi séð um útlit skálans og nafngreini þar sérstaklega aðalhönnuð og listrænan stjórnanda, sem Fréttablaðið hafi haft upplýsingar um frá utanríkisráðuneytinu að væru réttmætir höfundar verksins í heild. Stefndi 365 miðlar ehf. hafi að auki verið algjörlega grandlaus um að einhver möguleiki væri á því að stefnandi kynni að eiga rétt yfir þeirri mynd, sem verið hafi hluti af kynningargögnum sem utanríkisráðuneytið hafi afhent Fréttablaðinu eða að athugasemdir hafi verið settar fram vegna myndarinnar. Það hafi ekki verið fyrr en stefndi hafi fengið bréf lögmanns stefnanda, að stefndi hafi fengið vitneskju um málið. Því sé harðlega mótmælt að stefndi 365 miðlar ehf. hafi gert sér grein fyrir því af samtölum við aðstandendur sýningarinnar að birting ljósmyndarinnar hafi verið óheimil. Ekkert í þeim samskiptum hafi gefið slíkt til kynna, heldur þvert á móti. Því sé mótmælt að stefndi 365 miðlar hafi verið þátttakandi í einhvers konar samsæri annarra stefndu við að brjóta gegn höfundarrétti stefnanda. Fréttablaðið hafi verið í góðri trú um að gögn þau sem utanríkisráðuneytið hafi látið blaðinu í té væru gögn sem heimild væri fyrir að birta samkvæmt heimild höfundalaga til birtingar gagna í samhengi við umfjöllun. Því sé meira að segja svo farið að Fréttablaðið hefði ekki einu sinni getað aflað sér upplýsinga um hvort höfundar myndarinnar, sé það stefnandi á annað borð, hefði heimilað birtingu.
Stefndi 365 miðlar ehf. byggi á því að sú skylda verði ekki lögð á fjölmiðil að kanna uppruna alls efnis, sem fjölmiðilinn fær frá þriðja aðila og athuga hvort höfundarréttur sé til staðar. Sérstaklega eigi það við þegar efni sé fengið frá opinberum aðila eins og verið hafi í þessu tilviki. Sú skylda sé fyrir hendi, þegar fjölmiðillinn verði sér sjálfur út um efni, en ekki þegar efnið komi frá þriðja aðila. Hafi sá þriðji aðili brotið gegn réttindum einhvers verði hann að bera ábyrgð á því, en ekki fjölmiðillinn. Stefndi 365 miðlar ehf. hafni því að hafa brotið gegn ákvæðum höfundalaga og því eigi ákvæði 56. gr. laganna ekki við, auk þess sem stefnandi byggi á núgildandi ákvæði 56. gr. höfundalaga, hafi ekki verið í gildi, þegar atvik málsins hafi gerst. Fjárhæð kröfunnar sé mótmælt sérstaklega. Verði talið, þvert gegn væntingum stefnda, að stefndi 365 miðlar ehf. beri ábyrgð gagnvart stefnanda á birtingu myndarinnar sé byggt á því að hámarksbætur 365 miðla ehf. til stefnanda geti numið 21.038 krónum, sem sé byggt á gjaldskrá Myndstefs, sbr. ákvæði þágildandi 56. gr. höfundalaga. Krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð 460.805 krónur sé mótmælt sem fjarstæðukenndri, enda ekki að finna í stefnu upplýsingar um á hverju sú fjárhæð sé byggð. Varðandi miskabætur þá sé þeim mótmælt sérstaklega enda ekki séð að lagaskilyrði séu til að dæma stefnanda miskabætur og allra síst þá fjárhæð sem farið sé fram á. Um lagarök fyrir kröfum sínum vísi stefndi einkum til 15. gr. höfundalaga og þeirrar reglu að fjölmiðli sé heimilt að birta útgefið efni sem og 4. gr. höfundalaga og þeirrar reglu að auðkenningarréttur höfundar sé matskenndur. Stefndi vísi um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt á því með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Með eignarrétti er í framangreindu sambandi vísað til höfundaréttar. Í lögum nr. 73/1972 er greint á milli fjárhagslegra réttinda höfundar en meginákvæði um þau eru í 3. gr. laganna sem kveða á um einkarétt höfundar til eintakagerðar og birtingar og svonefnds sæmdarréttar höfundar en meginákvæði um hann eru í 4. gr. laganna sem fjallar um rétt höfundar til að nafns hans sé getið og virt séu höfundasérkenni hans og höfundaheiður.
Kröfugerð stefnanda í máli þessu er grundvölluð á því að hann sé höfundur ljósmyndar af Jökulsárlóni, sem njóti verndar sem listaverk samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Myndin hafi verið notuð af stefndu, án heimildar stefnanda, þannig að brotið hafi í bága við rétt hans samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 73/1972.
Af hálfu stefnda, Plúsarkitekta ehf., er í greinargerð m.a. á því byggt að mynd sú
sem um sé þrætt í máli þessu þ.e. hin myndunna útgáfa af frummyndinni af Jökulsárlóni, hafi ekki notið verndar sem listaverk samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1972. Við aðalmeðferð málsins ítrekaði lögmaður stefnda, Plúsarkitekta ehf., þessa málsástæðu.
Af hálfu stefnda, Sagafilm ehf., er í greinargerð m.a. á því byggt að ekki sé sannað að stefnandi eigi höfundarétt að myndinni af Jökulsárlóni. Við aðalmeðferð málsins ítrekaði lögmaður stefnda, Sagafilm ehf., þessa málsástæðu, með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er m.a. í greinargerð á því byggt að stefndi, íslenska ríkið, hafi ekki viðurkennt höfundarétt stefnanda að umræddri ljósmynd, þ.e. myndinni eins og hún hafi verið birt í vinningstillögunni og kynningarefni, enda hafi starfsmenn stefnda, íslenska ríkisins, hvorki haft faglega þekkingu eða forsendur til að meta hvort um sömu mynd væri að ræða og frummynd stefnanda og þaðan af síður hvort myndefnið væri varið af höfundarétti eður ei. Við aðalmeðferð málsins ítrekaði lögmaður stefnda, íslenska ríkisins, þessa málsástæðu.
Af hálfu stefnda, 365 miðla ehf., er í greinargerð m.a. á því byggt að stefndu, 365 miðlum ehf., sé ekki kunnugt um hvort stefnandi sé höfundur umræddrar myndar eins og hann haldi fram í stefnu og eigi höfundarétt að henni samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Við aðalmeðferð málsins ítrekaði lögmaður stefnda, 365 miðla ehf., þessa málsástæðu.
Af hálfu stefnanda var þeim málsástæðum stefndu, að ekki væri sannað að stefnandi væri höfundur umræddrar ljósmyndar og hún væri ekki varin af höfundarétti, mótmælt við aðalmeðferð málsins, sem of seint fram komnum.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er því hafnað að framangreindar málsástæður stefndu séu of seint fram komnar enda eiga þær sér næga stoð í greinargerðum allra stefndu.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1972 telst höfundur verks sá, uns annað reynist, sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða lýstur er höfundur, þegar verk er birt. Gildir þetta einnig um höfunda, sem nota gervinöfn eða merki, þegar almennt er vitað, hver þar felst að baki. Þá segir ennfremur í ákvæðinu að höfundur bókmennta eða listaverks sé sá sem skapað hafi verkið. Auk framan-greindrar líkindareglu er ljóst að höfundaréttur verður sannaður með hverjum þeim hætti sem dómur telur að feli í sér næga sönnun á grundvelli frjáls sönnunarmats, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í stefnu er því lýst að stefnandi, sem sé áhugaljósmyndari, hafi um nokkurt skeið haldið úti vefsíðunni www.photo.is. Hann hafi á árinu 1988 tekið umrædda ljósmynd af Jökulsárlóni og hafi myndin verið tekin á „tölvustýrða 360° filmu hringmyndavél“ af fullkomnustu gerð, a.m.k. á þeim tíma er myndin hafi verið tekin. Myndin hafi verið sett inn á heimasíðu stefnanda, www.photo.is, eins og sjáist á dómskjali nr. 28.
Ekkert er fram komið í málinu sem styður að framangreindar upplýsingar stefnanda um tilurð myndarinnar af Jökulsárlóni séu ekki réttar og verður því fallist á að nægilega hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi tekið umrædda mynd með þeim hætti sem hann hefur lýst. Fyrir liggur að myndinni var lítillega breytt og hún notuð þannig í tillögunni sem sigraði í samkeppninni um hönnun íslenska sýningarskálans vegna heimssýningarinnar EXPO 2010 og í kynningarefni sem unnið var og notað við kynningu á framlagi Íslendinga til sýningarinnar og í frétt í Fréttablaðinu 21. desember 2009. Sú breyting raskar ekki því sem að framan segir um eignarrétt stefnanda að frumeintaki myndarinnar og myndinni breyttri, sbr. 3. gr. laga nr. 73/1972, enda hefur því ekki verið haldið fram af stefndu að breytingin hafi falið í sér nýtt verk.
Til að verk njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 verður það samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna að fela í sér andlega sköpun sem sé ný og sjálfstæð a.m.k. að formi til. Viðurkennt er að almennt sé ekki hægt að setja ákveðin skilyrði um gæði í þessu sambandi heldur verði að líta til þess sjálfstæðis og frumleika sem í verkinu felist. Ljósmyndir sem hafa listrænt gildi njóta verndar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 og 3. og 4. gr. laganna, sbr. orðalag ákvæðisins og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laganna en þar er áréttað að aðeins listrænar ljósmyndir njóti verndar samkvæmt ákvæðinu en um vernd annarra ljósmynda fari samkvæmt 49. gr. laganna.
Skilja verður áðurgreindan málatilbúnað stefndu þannig að þeir mótmæli því að ljósmyndin af Jökulsárlóni, frummyndin og myndin eftir breytingu, sé verk í merkingu 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 þ.e. myndina skorti þann frumleika og þá andlegu sköpun sem sé forsenda höfundaréttar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 og njóti því ekki verndar samkvæmt 3. og 4. gr. laganna.
Stefnandi hefur hvorki aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna eða með öðrum hætti leitast við að sanna að umrædd ljósmynd teljist listaverk í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Á stefnanda hvílir að afla þeirra sönnunargagna sem hann vill styðja málsástæður sínar og málatilbúnað að öðru leyti við, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Framlögð ljósmynd af Jökulsárlóni nægir ekki, gegn andmælum stefndu, til sönnunar á því að myndin uppfylli skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 fyrir réttarvernd. Verður mat í þeim efnum ekki lagt á herðar dómsins.
Verður því fallist á með stefndu að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að umrædd ljósmynd, frummyndin eða myndin eftir að henni var breytt, njóti verndar skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Bótakröfur stefnanda í máli þessu eru allar reistar á þeirri forsendu að myndin njóti verndar skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu að ekki sé gegn andmælum stefndu sannað að myndin njóti slíkar verndar verða stefndu sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Dóminn kveður upp Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari.
Dómsorð
Stefndu, Plúsarkitektar ehf., Sagafilm ehf., íslenska ríkið og 365 miðlar ehf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Kjartans Péturs Sigurðssonar, í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellur niður.