Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2004


Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005.

Nr. 410/2004.

Vátryggingafélag Íslands hf. og

Svanfríður Drífa Óladóttir

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Þórhalli Haukssyni

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

 

Skaðabótamál. Viðurkenningarkrafa. Umferðarlög.

Þ höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu V hf. og S vegna tjóns sem hann varð fyrir í árekstri við bifreið S. Í málinu var deilt um hvort S hafi borið að veita Þ forgang sbr. 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eða hvort Þ hafi borið að víkja fyrir S sem hann hafði á hægri hönd sbr. 4. mgr. 25. gr. laganna. Í ljósi aðstæðna þótti verða að líta svo á að vegur sá er S ók væri heimreið eða svipaður vegur í skilningi 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga. Hefði henni því borið að víkja fyrir Þ í umrætt sinn. Sökum þessa og þar sem áreksturinn þótti ekki verða rakinn til orsaka er varðaði Þ var S talin bera alla sök á árekstrinum og V hf. og S því sameiginlega bótaábyrgð á tjóni Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Héraðsdómi var áfrýjað 7. október 2004. Áfrýjendur krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var höfðað til viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjenda vegna tjóns er stefndi varð fyrir í árekstri bifreiða á Borgarfjarðarvegi á Austur-Héraði 16. maí 2002. Sú kröfugerð var heimil samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Vátryggingafélag Íslands hf. og Svanfríður Drífa Óladóttir, greiði óskipt stefnda, Þórhalli Haukssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 27. september 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. september sl., var höfðað 2. apríl 2004.

Stefnandi er Þórhallur Hauksson, kt. [...], Eiðavöllum 4, Austur-Héraði. 

Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 699689-2009, Ármúla 3, Reykjavík og Svanfríður Drífa Óladóttir, kt [...], Þrepi, Austur-Héraði.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum gert að greiða honum skaðabætur vegna líkams- og eignatjóns sem hann varð fyrir vegna áreksturs bifreiðanna AN-856 og IL-709 þann 16. maí 2002. Þar sem fjárhæð bóta liggur ekki fyrir fer stefnandi fram á skiptingu sakarefnis þannig að fyrst verði fjallað um skaðabótaskyldu og síðar um bótafjárhæð.

Í þinghaldi 1. júní 2004 ákvað dómari með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 að skipta sakarefni málsins og dæma fyrst um bótaskyldu stefndu.

Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru að viðurkennt verði að stefndu séu in solidum skaðabótaskyld vegna líkams- og eignatjóns sem hann varð fyrir vegna áreksturs bifreiðanna AN-856 og IL-709 þann 16. maí 2002. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður.

I.

Þann 16. maí 2002 varð árekstur á þjóðvegi 94, Borgarfjarðarvegi á milli bifreiðarinnar H-602, fast númer IL-709 (hér eftir bifreiðin H-602), sem stefnandi ók norður eftir veginum með fyrirhugaða akstursstefnu áfram til norðurs og bifreiðarinnar AN-856, fast númer AN-856, sem stefnda, Svanfríður Drífa, ók vestur eftir Þrándarstaðavegi og inn á Borgarfjarðarveg með fyrirhugaða akstursstefnu til suðurs. Við áreksturinn rákust saman vinstra framhorn bifreiðar stefndu og framhluti bifreiðar stefnanda. Samkvæmt vettvangsuppdrætti rákust bifreiðarnar saman á sunnanverðum vegamótunum á akrein bifreiðar stefnanda. Var stefnandi ásamt farþegum sem í bifreið hans voru fluttir á sjúkrahús. Mikið tjón varð á báðum bifreiðunum og voru þær óökufærar. Hemlaför eftir bifreiðina H-602 mældust 33 m. Engin hemlaför sáust eftir bifreiðina AN-856. Bjart var af degi þegar áreksturinn varð, sólskin og þurrt færi. Á vegamótunum er óhindrað útsýni til allra átta. Engin umferðarmerki voru á vegamótum.

Stefnandi kveðst hafa ekið með um 90 km hraða miðað við klukkustund. Hann hafi talið sig vera á aðalbraut enda sé aðalbrautarmerki skömmu eftir að ekið sé af Fagradalsbraut inn á Seyðisfjarðarveg og ekkert umferðarmerki gefi til kynna að aðalbraut endi. Þá sé biðskyldumerki fyrir umferð frá Seyðisfirði. Hann hafi séð til ferða bifreiðar stefndu þar sem henni var ekið á miðjum Þrándarstaðavegi í átt að Borgarfjarðarvegi. Þegar bifreið stefndu hafi nálgaðist vegamótin hafi verið dregið úr hraða hennar en síðan hafi hraði hennar verið aukinn og bifreiðinni ekið viðstöðulaust af vinstri akrein inn á Borgarfjarðarveginn og í veg fyrir hann. Hans fyrsta hugsun hafi verið að sveigja til hægri við bifreið stefndu en ekkert svigrúm hafi verið til þess. Hann hafi hemlað en ekki getað forðað því að bifreiðarnar rákust saman þegar hann var rétt kominn að vegamótunum.

Stefnda, sem ók eftir Þrándarstaðavegi í átt að Borgarfjarðarvegi, kveðst hafa ekið hægt þegar hún nálgaðist vegamótin en hún hafi talið að hún ætti að víkja fyrir umferð um Borgarfjarðarveg. Hún telji sig ekki hafa ekið á vinstra vegarhelmingi. Hún hafi litið eftir umferð til beggja átta en engrar orðið vör og því ekið inn á Borgarfjarðarveginn. Í sömu andrá hafi farþegi í framsæti kallað að bifreið væri að koma og hún þá hemlað en árekstur orðið.

Stefnda kveður þrjú íbúðarhús hafa verið byggð á lóðum úr landi Þrándarstaða þar á meðal hennar hús. Því séu nú á jörðinni fjögur íbúðarhús auk loðdýrahúss og verkstæðis. Þá sé þar malarnám.

Vitnið Anna Heiðdal Þórhallsdóttir sem var farþegi í bifreið stefnanda kveður stefndu hafa ekið of mikið til vinstri á Þrándarstaðavegi. Hún hafi talið Borgarfjarðarveg vera aðalbraut enda sé aðalbrautarmerki áður en komið sé að Eyvindarárbrúnni og biðskylda fyrir umferð frá Seyðisfirði.

Vátryggingafélag stefnanda, stefndi Vátryggingafélag Íslands hf., neitaði bótaskyldu vegna slyssins. Tjónanefnd vátryggingafélaganna komst að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi borið að víkja fyrir umferð um Þrándarstaðaveg og því eigi hann sök á árekstrinum. Stefnandi áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem með úrskurði dags. 1. október 2002 féllst á kröfu stefnanda um bótaskyldu stefndu. Með bréfi dagsettu 8. sama mánaðar tilkynnti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., að það myndi ekki virða úrskurðinn.

Stefnandi fékk gjafsókn til að reka mál þetta fyrir héraðsdómi með gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, útgefnu 20. nóvember 2002.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína um bótaábyrgð á 88. og 90. gr. sbr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987.

Byggir stefnandi á að stefndu, Svanfríði Drífu, hafi í greint sinn borið að víkja fyrir bifreið stefnanda. Þetta sé skýrt skv. 25. gr. umferðarlaganna, sem mæli fyrir um að umferð frá heimreið beri að víkja fyrir umferð af þeim vegi sem ekið er inn á. Til vara byggir stefnandi á því að stefnda, Svanfríður Drífa, eigi alla sök á árekstrinum þar sem hún hafi ekið inn á öfugan vegarhelming Borgarfjarðarvegar og þannig hindrað stefnanda í því að geta brugðist við með því að aka inn á heimreiðina. Til þrautavara byggir stefnandi á því að Borgarfjarðarvegur hafi á greindum stað stöðu aðalbrautar.

III.

Stefndu byggja á að stefnanda hafi borið að víkja fyrir umferð um Þrándarstaðaveg þar sem vegurinn sé ekki heimreið í skilningi 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga eins og stefnandi haldi fram. Staðhættir séu þannig að við Þrándarstaðaveg séu þrír bæir, auk iðnaðarbýlisins Þreps og liggi heimreiðar frá Þrándarstaðavegi að hverjum bæ fyrir sig. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni teljist Þrándarstaðavegur vera tengivegur frá Borgarfjarðarvegi að Þrándarstöðum 2 en þaðan safnvegur að Þrepi. Þrándarstaðavegur sé tengivegur af því að hann tengir þrjú býli eða fleiri, þar sem búseta er. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 45/1994 sé því ljóst að Þrándarstaðavegur teljist vera þjóðvegur eins og Borgarfjarðarvegur.

Samkvæmt Íslenskri orðabók Bókaútgáfu Menningarsjóðs frá 2002 merki heimreið götu eða veg sem liggur heim að bæ. Ekki sé um heimreið að ræða ef vegur liggur að fleiri bæjum eða býlum.

Samkvæmt ofangreindu sé ljóst að Þrándarstaðavegur sé ekki heimreið í skilningi 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga og því beri að fara eftir hinni almennu hægri reglu í 4. mgr. 25. gr. laganna.

Þá byggja stefndu á að ósannað sé að stefndu, Svanfríði Drífu, hafi borið að víkja fyrir umferð um Borgarfjarðarveg á grundvelli þess að hann hafi haft stöðu aðalbrautar. Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga ákveði dómsmálaráðherra að fengnum tillögum frá vegamálastjóra hvaða þjóðvegir utan þéttbýlis skuli teljast aðalbrautir þar sem umferð hafi forgang. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að slík ákvörðun hafi verið tekin um Borgarfjarðarveg. Ef slík ákvörðun sé tekin verði samt sem áður að setja umferðarmerki á hliðarveginn sbr. 2. mgr. 25. gr. umferðarlaganna en engin umferðarmerki hafi verið við vegamótin. Samkvæmt þessu verði að telja ósannað að Borgarfjarðarvegur sé aðalbraut í skilningi umferðarlaga.

Loks byggja stefndu á að ósannað sé og rangt að stefnda hafi ekið á vinstri akrein. Stefnda hafi notið almenns umferðarréttar og hafi verið komin nokkuð inn á Borgarfjarðarveginn þegar áreksturinn varð með þeim afleiðingum að bifreið stefndu kastaðist aftur á bak til vinstri. Ekkert í gögnum málsins bendi til að stefnda hafi ekið á röngum vegarhelmingi. 

IV.

Árekstur sá er mál þetta er risið af varð þann 16. maí 2002 á Borgarfjarðarvegi á milli bifreiðarinnar H-602, sem stefnandi ók norður eftir veginum með fyrirhugaða akstursstefnu áfram til norðurs og bifreiðarinnar AN-856 sem stefnda, Svanfríður Drífa, ók vestur eftir Þrándarstaðavegi og inn á Borgarfjarðarveg með fyrirhugaða akstursstefnu til suðurs. Taldi stefnandi að umferð af Þrándarstaðavegi ætti að víkja fyrir umferð á Borgarfjarðarvegi og stöðvaði því ekki er hann sá bifreið stefndu nálgast gatnamótin. Stefnda, Svanfríður Drífa, sem taldi að henni bæri að víkja fyrir umferð um Borgarfjarðarveg, varð hins vegar ekki vör við bifreið stefnanda, þrátt fyrir að útsýni á gatnamótunum sé óhindrað, og ók því inn á Borgarfjarðarveg þar sem árekstur varð með bifreiðunum. Ekki er um það deilt að áreksturinn hafi orðið með þessum hætti. Hins vegar neitar stefnda, Svanfríður Drífa, að hafa ekið af vinstri akrein Þrándarstaðarvegar inn á Borgarfjarðarveg eins og stefnandi heldur fram að hún hafi gert.

Fyrir liggur að þegar áreksturinn varð hafði Borgarfjarðarvegur ekki verið gerður að aðalbraut og að engin umferðarmerki voru á vegamótum Borgarfjarðarvegar og Þrándarstaðavegar.

Í málinu er fyrst og fremst um það deilt hvort stefndu, Svanfríði Drífu, hafi borið að veita stefnanda forgang sbr. 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eða hvort stefnanda hafi borið að víkja fyrir stefndu sem hann hafði á hægri hönd sbr. 4. mgr. 25. gr. laganna.

Ákvæði 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er svohljóðandi: Nú ætlar ökumaður að aka út á veg af bifreiðastæði, lóð, landareign, bensínstöð eða svipuðu svæði eða af götuslóða, stíg, göngugötu, vistgötu, heimreið eða svipuðum vegi eða af gangstétt eða vegaröxl og skal hann þá veita umferð í veg fyrir leið hans forgang. Fyrir liggur að Borgarfjarðarvegur er tveggja akreina vegur lagður bundnu slitlagi sem liggur á milli byggðarlaga á Héraði. Þrándarstaðarvegur er hins vegar malarvegur sem einungis er ætlaður fyrir umferð til og frá Þrándarstöðum og húsa sem byggð hafa verið á lóðum í landi jarðarinnar. Í ljósi aðstæðna þykir verða að líta svo á að Þrándarstaðavegur sé heimreið eða svipaður vegur í skilningi 3. mgr. 25. gr. umferðarlaga og því beri þeim sem aki eftir honum að veita umferð í veg fyrir leið hans forgang. Það er því niðurstaða dómsins að stefndu, Svanfríði Drífu, hafi borið að víkja fyrir stefnanda í umrætt sinn. Þegar af þeirri ástæðu, og þar sem áreksturinn þykir ekki verða rakinn til orsaka er varða stefnanda, verður stefnda, Svanfríður Drífa, talin bera alla sök á árekstrinum. Samkvæmt því bera stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., og stefnda, Svanfríður Drífa, in solidum bótaábyrgð á tjóni stefnanda.

Eftir niðurstöðu málsins verða stefndu gert að greiða stefnanda óskipt 269.570 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er málflutningsþóknun lögmanns hans Gísla M. Auðbergssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 249.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, og ferðakostnaður 20.570 krónur, samtals 269.570 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., og Svanfríður Drífa Óladóttir, bera óskipta bótaábyrgð á líkams- og eignatjóni sem stefnandi varð fyrir við árekstur bifreiðanna AN-856 og H-602 þann 16. maí 2002.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 269.570 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 269.570 krónur, þar með talin málflutnings-þóknun lögmanns hans, Gísla M. Auðbergssonar hdl., 249.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.