Hæstiréttur íslands
Mál nr. 203/2000
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Aðild
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 203/2000. |
Skipaþjónusta Suðurlands hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Guðlaugi Árna Oddssyni (Karl Axelsson hrl.) |
Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Aðild. Gjafsókn.
G slasaðist við vinnu sína um borð í skipi í eigu S þegar hann varð undir tómum fiskikössum, sem verið var að hífa með krana niður í lest þar sem G átti að taka á móti þeim. G, sem var 17 ára, var lausamaður hjá S og hafði tvisvar áður unnið við uppskipun. Enginn verkstjóri var við starfið og notaði G ekki hjálm við verkið, þó að öryggishjálmar væru á staðnum. Talið var að S, sem vinnuveitanda, hefði borið að gæta þess að starf G væri ekki unnið án þess að hjálmur væri notaður og var S talinn bera ábyrgð á að það hefði ekki verið gert. Þá var talið að G hefði mátt vita, þrátt fyrir ungan aldur, að hann ætti ekki að vera undir hífingu, en þar sem enginn verkstjóri hefði verið á staðnum var ekki talið sannað að þetta hefði verð brýnt fyrir G. Þegar virt var hve mikil sök S var í samanburði við gáleysi það, sem G kynni að hafa sýnt, þótti ekki ástæða til að leggja hluta sakar á G. Var S dæmdur til að greiða honum bætur vegna tjóns þess sem hann varð fyrir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Páll Sigurðsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2000 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
I.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið fram þá sýknuástæðu, að málið sé höfðað gegn röngum aðila. Stefndi hafi slasast 11. september 1989 í starfi hjá Skipaþjónustu Suðurlands sf. Samnefnt hlutafélag hafi hins vegar verið stofnað 1. janúar 1995 og framlögð yfirlýsing um yfirtöku hlutafélagsins á réttindum og skyldum sameignarfélagsins og ábyrgð á skuldbindingum þess í tilkynningu til firmaskár Árnessýslu vísi aðeins til skuldbindinga sameignarfélagsins innan samninga. Stefndi hefur mótmælt þessari nýju málsástæðu sem of seint fram kominni. Þegar af þeirri ástæðu kemst hún ekki að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 38/1994.
Einnig hreyfði áfrýjandi þeirri nýju málsástæðu, að stefndi hefði átt að stefna eiganda kranans, sem notaður var við lestunina 11. september 1989, þegar slysið varð, en hann hafi ekki verið starfsmaður Skipaþjónustu Suðurlands sf. Var henni sömuleiðis mótmælt sem of seint fram kominni og verður því ekki tekið tillit til hennar.
II.
Svo sem greinir í héraðsdómi vann stefndi við það í lest skipsins Þorláks ÁR 5 að taka á móti tómum fiskkössum, sem hífðir voru með krana úr landi niður í lestina, og raða þeim eftir að ís hafði verið settur í þá úr ísvél. Stefndi var sautján ára gamall og vann sem lausamaður hjá áfrýjanda og hafði tvisvar áður unnið við uppskipun. Starfið sem stefndi vann var í senn einfalt en hættulegt, ef ekki var gætt fyllstu varúðar. Fram er komið, að enginn verkstjóri var við starfið en reyndur starfsmaður áfrýjanda vann með stefnda í lestinni og sagði ungu mönnunum til. Yngri bróðir stefnda var svokallaður lúgumaður, sem gaf kranamanninum bendingar, og var hann í því starfi í fyrsta sinn.
Ekki er ágreiningur um hvernig slysið bar að höndum. Stefndi varð undir kössunum þegar þeir losnuðu úr stroffunni og féllu á hann, og hann var ekki með hlífðarhjálm. Af framburðum aðila og vitna er ljóst að mistök hafa orðið við hífinguna, hjá kranamanni eða lúgumanni eða báðum, en það var ekki nánar leitt í ljós með rannsókn. Eins og málið er lagt fyrir verður lagt til grundvallar að áfrýjandi beri ábyrgð á verkum þessara manna. Öryggishjálmar voru á staðnum, en stefndi notaði ekki einn slíkan, en telja má fullvíst að notkun hjálms hefði komið í veg fyrir eða dregið úr afleiðingum slyssins. Þegar aðstæður eru virtar verður að fallast á með héraðsdómara, að áfrýjanda sem vinnuveitanda stefnda hafi borið að gæta þess að starf þetta væri ekki unnið án þess að hjálmur væri notaður. Þessa var ekki gætt og verður áfrýjandi að bera á því ábyrgð. Reyndur maður hefði vitað að ekki mætti vera undir hífingu. Stefndi hafði, þrátt fyrir ungan aldur, verið við slíkt starf áður og mátti því gera sér grein fyrir hættum því samfara. En þar sem enginn var verkstjóri á staðnum er ekki sýnt af hálfu áfrýjanda að þetta hafi verið brýnt fyrir stefnda. Þegar virt er hve mikil sök áfrýjanda er í samanburði við það gáleysi, sem stefndi kann að hafa sýnt í umrætt sinn, þykir ekki ástæða til að leggja hluta sakar á stefnda. Vegna þessa, og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, ber að staðfesta niðurstöðu hans um óskipta ábyrgð áfrýjanda á slysi stefnda.
III.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi byggir áfrýjandi sýknukröfu sína einnig á því að stefndi hafi ekki sannað að höfuðverkir hans, mígreni, stafi af slysinu 11. september 1989. Engin gögn í málinu sýni að stefndi hafi þjást af höfuðverkjum eftir þetta slys fyrr en hann kom til læknis 27. janúar 1992 og sagði að hann ætti vanda til að fá eitt til þrjú höfuðverkjaköst á mánuði vegna slyssins. Stefndi hafi lent í bílveltu í mars 1991 og ekki sagt lækninum frá því í janúar 1992 og hafi læknirinn í vottorði sínu því eingöngu byggt á frásögn stefnda af slysinu í september 1989, en ekki slysinu í mars 1991. Þar sem ljóst sé að bílveltan hefði getað orsakað höfuðverk þurfi stefndi að sanna að hún hafi ekki orsakað þá höfuðverki, sem hann krefji áfrýjanda bóta fyrir í máli þessu.
Áfrýjandi fékk dómkvadda matsmenn til þess að gefa álit sitt um þetta efni, svo sem í héraðsdómi greinir, og fram er komið að hann hafi reifað sjónarmið sín fyrir þeim. Mat þeirra er skýrt og verður að leggja það til grundvallar í máli þessu, enda hefur áfrýjandi ekki hnekkt því með yfirmati.
Til stuðnings kröfu sinni um lækkun dómkröfu stefnda bendir áfrýjandi á að framlagt örorkumat sé læknisfræðilegt og sýni ekki að vinnugeta stefnda hafi skerst. Löng dómvenja er fyrir því að leggja slík örorkumöt til grundvallar bótum vegna tjónsatvika sem urðu áður en skaðabótalög nr. 50/1993 tóku gildi, og verða andmæli þessi ekki tekin til greina.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti gerði áfrýjandi þá kröfu, að draga ætti frá bótum greiddar bætur úr slysatryggingu launþega. Gegn andmælum stefnda verður þessari kröfu ekki komið að í málinu, þar sem ekki verður séð af gögnum þess að henni hafi fyrr verið hreyft, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Mótmæli áfrýjanda við upphafsdegi dráttarvaxta, sem einnig komu fyrst fram í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti, komast af sömu ástæðu ekki að.
Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskotnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Skipaþjónusta Suðurlands hf., greiði 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karli Axelssyni hrl. fyrir hönd Guðlaugs Árna Oddssonar, kt. 110372-3539, Suðurbraut 16, Hafnarfirði, á hendur Skipaþjónustu Suðurlands hf., kt. 460195-3069, Unubakka 10-12, Þorlákshöfn, með stefnu, sem birt var 18. júní 1998.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 2.019.295 kr. með 6% ársvöxtum frá 11.09.89 til 21.09.89, með 8% ársvöxtum frá þeim degi til 21.10.89, með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 01.11.89, með 11% ársvöxtum frá þeim degi til 01.01.90, með 9% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01.90, með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 01.03.90, með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.04.90, með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 01.10.90, með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.01.91, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 21.01.91, með 5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.06.91, með 6% ársvöxtum frá þeim degi til 01.08.91, með 7% ársvöxtum frá þeim degi til 11.10.91, með 4% ársvöxtum frá þeim degi til 01.11.91, með 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21.11.91, með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.12.91, með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 01.02.92, með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11.02.92, með 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21.03.92, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05.92, með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11.08.93, með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11.11.93, með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.06.95, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 01.10.96 og með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 16. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál ásamt virðisaukaskatti.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Til þrautavara krefst stefndi þess að stefnanda verði ekki dæmd hærri fjárhæð en sem nemur stefnufjárhæðinni að frádreginni innborgun 24. október 1997 að fjárhæð 84.428. krónur. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Með bréfi dómsmálaráðherra 26. mars 1998 var stefnanda veitt gjafsókn í þessu máli.
I.
Stefnandi greinir þannig frá málavöxtum: Á árinu 1989 kveðst hann hafa starfað við löndun hjá Skipaþjónustu Suðurlands hf. 11. september það ár hafi hann verið við vinnu sína í lest b/v Þorláks ÁR 5, þar sem hann hafi tekið á móti fiskikössum. Kassarnir hefðu verið hífðir með krana úr landi niður í lestina. Bandi var slegið utan um kassana. Þá hafi það gerst að kassar losnuðu er þeir flæktust í bandi er var þar hjá og hafi kassarnir fallið niður í lestina og yfir stefnanda, sem þar hafi staðið. Fallið hafi verið 2-2,5 metir. Stefnandi rotaðist ekki við höggið en vankaðist. Hafi hann fyrst og fremst fengið höfuðhögg, stóran skurð á höfuðið, tognun á hálsi og áverka á olnboga. Hann hafi orðið að vera frá vinnu vegna slyssins í tvo mánuði auk þess sem hann hafi oft orðið síðan, vegna meina af þessum völdum, að taka sér leyfi úr vinnu einn til tvo daga í senn, en stundum í fleiri daga. Höfuðverkjaköst, sem hann fái reglubundið einu sinni til tvisvar í mánuði og standi yfirleitt í nokkra daga, sé það sem hér er um að ræða.
Stefnandi bendir á að samkvæmt áliti Johns E. G. Benedikz, sérfræðings í heila og taugasjúkdómum, hafi stefnandi við slysið orðið fyrir varanlegu post traumatisku mígreni auk áverka á hægri öxl. Niðurstaða örorkumats Jónasar Hallgrímssonar læknis frá 6. júní 1997 sé að stefnandi hafi við höfuðhöggið hlotið varanlegt mígreni og sé varanleg örorka hans af þeim sökum 5%. Áverki á hægri olnboga teljist hins vegar ekki til örorku. Tímabundin örorka stefnanda hafi verið 100% í tvo mánuði, þ.e. þann tíma sem stefnandi hafi verið óvinnufær fyrst eftir slysið. Eftir slysið hafi stefnandi orðið fyrir þremur öðrum slysum, umferðaróhöppum 2. janúar 1991 og 9. júní 1995 og vinnuslysi 16. janúar 1995. Fullt tillit hafi verið tekið til þessara síðari slysa er Jónas Hallgrímsson mat örorku stefnanda vegna slyssins 11. september 1989 er mál þetta fjallar um.
Í greinargerð stefnda er bent á að lögregluskýrsla, sem tekin var af stefnanda 20. september 1989 eða 9 dögum eftir slysið, greini frá að Helgi Hauksson, læknir á Heilsugæslustöðinni í Þorlákshöfn, hafi gert að sárum stefnanda og sent hann síðan í frekari rannsókn á slysadeild Borgarspítalans. Og samkvæmt læknisvottorði Þorvarðar Brynjólfssonar, læknis á Borgarspítalanum, hafi ekkert athugavert komið fram á röntgenmyndum eftir slysið en stefnandi hafi “ fengið hnykk á háls og trúlega væga tognun á hálsliðum. Fékk hér hálskraga og planlögð endurkoma 19. september en hann kom ekki til þeirrar endurkomu né heldur nýrrar endurkomu sem hann fékk þann 25. september.” Stefnandi hafi hafið vinnu hjá stefnda rúmum hálfum mánuði eftir slysið, sbr. dskj. nr. 5.
II.
Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
1.Tímabundin örorka |
kr.107.000.- |
|
2.Varanleg örorka |
kr.1.826.700.- |
|
Lækkun v/skatthagr., eingr.hagr. og fl. (15%) |
kr.274.005.- |
|
|
kr.1.552.695.- |
|
3.Töpuð lífeyrisréttindi |
kr.109.600.- |
|
4. Miskabætur |
kr.250.000.- |
|
Samtals |
kr.2.019.295.- |
Stefnandi kveðst leggja til grundvallar útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dags. 9. júlí 1997, á tímabundinni og varanlegri örorku sinni. Sé þar miðað við 100% örorku í 2. mánuði og síðan 5% varanlega örorku og meðaltekjur iðnaðarmanna samkvæmt skýrslum kjararannsóknarnefndar, enda séu tekjur stefnanda síðustu árin fyrir tjónsatburð ekki marktækar sem grundvöllur tjónsútreiknings vegna ungs aldurs stefnanda. Hann kveðst miða lækkun bóta vegna skattahagræðis og eingreiðsluhagræðis við venju. Krafa vegna tapaðra lífeyrisréttinda þarfnist ekki skýringar, en hann vilji minna á, að slík krafa sæti ekki sérstakri lækkun vegna skatta- og eingreiðsluhagræðis.
Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 250.000 kr. Hann segir að líðan sín sé þannig að hann fái höfuðverkjaköst að meðaltali einu sinni til tvisvar í mánuði og standi þau yfirleitt yfir í nokkra daga í senn. Hann hafi oft þurft að taka sér frí frá vinnu í 1- 2 daga þegar höfuðverkjaköstin eru sem verst. Nánast engin breyting hafi orðið á þessum höfuðverkjaköstum, þrátt fyrir að langt væri liðið síðan slysið varð.
Kröfu á hendur stefnda segir stefnandi að rekja megi til saknæmrar háttsemi stefnda og starfsmanna hans. Nægi að nefna í því sambandi ungan aldur hans, skort á leiðbeiningum og eftirliti, að verkstjóri hafi ekki verið á staðnum, að búnaður og aðferðir er beitt hafi verið við uppskipunina hafi ekki verið forsvaranlegar og að vinnuveitandinn hafi ekki útvegað starfsmönnum hjálma. Stefnandi hafi verið 17 ára gamall, er slysið varð, og starfað hjá fyrirtæki stefnda um skamman tíma. Stefnandi hafi ekki verið með hjálm á höfði við vinnu sína enda hafi honum ekki verið sagt að slíkt væri nauðsyn. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins komi fram að stefndi hafði ekki útvegað starfsmönnum öryggishjálm þótt skylda sé að nota slíka hjálma við losun og lestun skipa. Hljóti að verða leggja þá skyldu á vinnuveitanda að lögboðinn öryggisbúnaður sé á vinnustað. Í máli þessu hafi stefnandi verið við vinnu í lest skipsins og tekið á móti fiskikössum er þeir voru hífðir um borð með krana. Ljóst sé að ekki hafi nægilega vel verið gengið frá festingum kassanna áður en þeir voru hífðir um borð í skipið. Kassarnir hefðu aðeins verið festir saman með því að bandi var slegið utan um þá, enda hafi raunin orðið sú að bandið losnaði og kassarnir hrundu ofan á stefnanda með þeim afleiðingum sem greint hefur verið frá.
Stefnandi segir að enginn verkstjóri hafi stýrt verkinu. Verði það að teljast vítaverð vanræksla af hálfu stefnda þar sem um hefði verið að ræða hættulega vinnu við hættulegar aðstæður og starfsmenn ungir og óreyndir sem nauðsynlegt hefði verið að leiðbeina og fylgjast með. Þá komi ekkert fram í málinu sem bendi til að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu við starf sitt.
III.
Af hálfu stefnda er upplýst, að fyrirtækið vinni að löndun úr skipum í Þorlákshöfn en sjái einnig um lestun ef því er að skipta. Af hálfu stefnda segir að stefnandi hafi byrjað að starfa fyrir stefnda í lok júlí 1989. 11. september það ár hafi stefnandi verið við vinnu fyrir stefnda um borð í b/v Þorláki ÁR 5. Stefnandi hafi tekið á móti tómum fiskikössum sem hífðir hafi verið niður í lestina með krana. Það óhapp hafi orðið að kassar lentu utan í bandi í skipinu og hafi kassarnir losnað við það úr bandstroffunni og fallið niður í lestina og lent á stefnanda. Stefndi hafnar því alfarið að bera bótaábyrgð á tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir af þessum sökum.
Af hálfu stefnda er haldið fram að vegna þess langa tíma, sem liðinn sé frá slysinu, hvíli ríkari sönnunarbyrði en ella á stefnanda um atburðarásina, tjónið sjálft, afleiðingar og orsakatengsl. Bótaskylda stefnda hljóti að byggjast á því að fullnægjandi sönnunargögn séu fyrir hendi að slysið megi rekja til einhverra þeirra atvika sem fellt gætu bótaskyldu á stefnda, svo sem vanbúnum eða biluðum tækjabúnaði, mistökum annars starfsmanns stefnda eða ófullnægjandi verkstjórn eða leiðbeiningum. Ekki hafi neitt slíkt verið sannað. Stefnandi haldi því fram að slysið megi rekja til ófullnægjandi umbúnaðar á kassastæðunni, sem verið var að hífa um borð og einnig að kassastæðan hafi “flækst í bandi er var þar hjá”. Stefndi kveðst byggja á því að forsvaranlega hafi verið búið um stæðuna en fyrir óhappatilviljun hafi hún riðlast vegna áðurnefnds bands. Vísað er á bug að búnaður og aðferðir við uppskipunina hafi ekki verið forsvaranlegar hjá stefnda. Sú aðferð sem notuð hafi verið við uppskipun sé viðurkennd og hefðbundin aðferð við þessa vinnu, hafi alltaf verið notuð fyrir slysið og sé enn notuð.
Stefndi kveðst hafna því að skortur hafi verið á eftirliti og leiðbeiningum á staðnum hjá stefnda. Mjög vanur maður, Þórður Ólafsson, hafi stýrt verki. Stefnandi hafi fengið allar þær leiðbeiningar sem tíðkanlegar séu við þessa vinnu. Hér hafi verið um hefðbundna uppskipun að ræða og hafi verið brýnt fyrir stefnanda að ganga aldrei undir hífingar, ekki undir neinum kringumstæðum. Þetta sé almenn regla sem allir vinni eftir og tileinki sér á fyrsta degi við vinnu sem þessa. Stefnanda hafi því verið ljós sú áhætta, sem hann tók, með því að ganga gegn þessum fyrirmælum. Stefnandi hafi ekki verið að vinna við hífinga af þessu tagi í fyrst sinn og því mátt vita um þær hættur sem voru í lestinni við hana.
Af hálfu stefnda er haldið fram að stefnandi hafi verið átján ára þegar slysið varð. Röng sé sú staðhæfing stefnanda að hann hafi aðeins starfað fyrir stefnda einn dag þegar slysið varð. Stefnandi hafi hafið störf fyrir stefnda í lok júlí 1989 og hafi því unnið í um það bil 6 vikur hjá stefnda þegar slysið varð. Stefnandi hafi því alls ekki verið óreyndur eða óvanur vinnu þeirri er hér um ræðir.
Staðhæft er af stefnda að starfsmenn hans hafi haft aðgang að hjálmum í skipinu og ítrekað hafi verið brýnt fyrir mönnum að nota þá.
Þótt ekki yrði fallist á ofangreindar málsálstæður stefnda um sýknu, þá heldur stefndi því fram að stefnanda hafi ekki tekist að sanna tjón sitt og því beri að sýkna stefnda eða lækka stefnukröfur verulega. Stefnandi eigi sjálfur sök eins og áður sagði en auk þess sé mikill vafi á að þeir verkir og þau eymsli, sem stefnandi hefur í dag, megi rekja alfarið til óhappsins 11. september 1989. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi ekki leitað læknis vegna óhappsins fyrr en þrjú og hálft ár voru liðin frá atburðinum. Í öðru lagi hafi stefnandi aldrei fengið neina læknismeðferð vegna ætlaðra meina af þess völdum og í þriðja lagi komi til önnur slys, sem stefnandi hafi orðið fyrir á þeim tíma, sem leið frá því að umrætt slys átti sér stað og þar til örorkumat fór fram, sbr. sjúkrasögu stefnanda sem fram komi í gögnum málsins.
Stefnanda hafi verið vísað á slysadeild Borgarspítala af heilsugæslulækni í Þorlákshöfn. Fram komi á áverkavottorði Þorvarðs Brynjólfssonar læknis á Borgarspítalanum að stefnandi hafi verið skoðaður m.a. með röntgenmyndum. Ekkert athugavert hafi sést. Þorvarður hafi talið hugsanlegt að um væga tognun væri að ræða; stefnandi hafi fengið hálskraga og fyrirmæli um að koma aftur til frekari læknismeðferðar. Stefnandi hafi hins vegar ekki sinnt því að koma aftur. Liggi því beinast við að telja að ekkert frekar hafi verið að stefnda eftir slysið. Merkilegt verði þó að telja, að samtímis því að leita ekki áfram læknismeðferðar, hafi stefnandi í lögregluskýrslu tjáðst hafa mikil eymsli og verki, vera óvinnufær og óvíst hvenær hann geti aftur hafið vinnu. Í þessu sambandi sé rétt að geta þess að stefnandi vann hjá stefnda í lausamennsku. Hann hafi því verið á atvinnuleysisbótum þá er enga vinnu var að fá hjá stefnda, sem gerðist þegar engin skip voru í landi fyrir stefnda að afgreiða. Þegar slysið átti sér stað hafi stefndi verið að afgreiða Þorlák ÁR 5 og þegar næsti bátur þurfti afgreiðslu, 27. september 1989 - tveimur dögum eftir fyrirhugaða endurkomu stefnanda á slysadeild Borgarspítalans - hafi stefnandi aftur hafið vinnu hjá stefnda eins og ekkert hefði í skorist.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi orðið fyrir því óláni að vera farþegi í bíl sem valt á Skeiðavegi norðan Suðurlandsvegar 2. mars 1991. Stefnandi fullyrði að hann hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni við þá veltu en víst sé að hann hafi eitthvað verið frá vinnu vegna bílveltunnar. Stefndi staðhæfir að John E. G. Benedikz lækni hafi verið ókunnugt um þennan atburð er hann gaf út áverkavottorð sitt 27. maí 1993.
Þrátt fyrir niðurstöðu læknisins áréttar stefndi að stefnandi hafi ekki farið í örorkumat fyrr en 1997. Í millitíðinni hafi stefnandi lent í tveimur mjög alvarlegum slysum og annað þeirra valdið stefnanda miklum höfuð- og hálsáverkum. Þegar Jónas Hallgrímsson hafi metið örorku stefnanda hafi hann væntanlega bæði gengið út frá að rétt væri að stefnandi hefði ekki slasast í bílveltunni og að rétt væri að stefnandi hefði ekki unnið í tvo mánuði eftir slysið 11. september 1989. Þannig telur stefndi að tímabundin örorka stefnanda sé byggð á röngum forsendum og varanleg örorka á einhliða frásögn stefnanda af meinum sínum eftir slysið 11. september 1989.
Miskabótakröfu stefnanda kveðst stefndi sérstaklega mótmæla sem alltof hárri og órökstuddri. Það sé ekki óeðlilegt að stefnandi þjáist af höfuðverkjum í dag, enda hafi hann orðið fyrir óvanalegum fjölda slysa. Ósannað og raunar ótrúlegt að verkirnir stafi einvörðungu frá slysinu 11. september 1989.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda. Skv. 2. mgr. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 sé krafa um vexti vegna fyrri tíma en fjögurra ára frá birtingu stefnunnar, eða 22. júní 1994, fyrndar. Miðað við málsgrundvöll stefnanda sé ljóst að ekki hefði verið að vænta frekari bata strax frá upphafi eftir meðhöndlun á slysadeild Borgarspítalans 11. september 1989. Ekkert hafi gerst frá þeim tíma í læknismeðferð stefnanda og jafnvel þótt ekki yrði fallist á þetta tímamark sé fulljóst að áverkavottorð John Benedikz læknis í maí 1993 hafi skilgreint skilmerkilega að ekki væri að vænta frekari bata.
Að lokum er því haldið fram af stefnda að allur bótaréttur stefnanda sé fallinn niður fyrir tómlæti.
IV.
Þegar stefnandi varð fyrir slysi því er hér um ræðir 11. september 1989, vann Ingibergur Oddsson, bróðir stefnanda, sem lúgumaður við lestun á kössum undir ís um borð í b/v Þorlák ÁR-5. Á sama tíma var lestaður ís um borð í skipið með svokallaðri ísvél og var ísinn látinn í kassana er komu um borð. Ingibergur var þá 16 ára gamall. Hann bar fyrir rétti að hafa í fyrsta skipti unnið við lestun skips þá með þeim hætti sem þar var gert. Um morguninn hafi hann starfað niðri í lest við að færa til kassa en upp úr hádegi hafi hann verið beðinn um að stjórna á lúgunni og hafi Þórður Ólafsson, er stjórnaði verkinu, leiðbeint honum hvernig bendingar hann ætti að gefa kranamanni um hífingu tómra fiskikassa um borð og niður í lestina. Þórður hafi við útskipun verið niðri í lestinni við að stýra ísnum úr ísvélinni í kassana, sem stefnandi, Guðlaugur, eftir hverja hífingu úr landi, hafi tekið úr stroffunni undir lestaropinu. Eitt sinn, þegar verið var að slaka kössum niður í lestina, kveðst Ingibergur hafa séð að kassarnir í hífingunni þvældust í bandi úr ísvélinni. Kveðst Ingibergur þá hafa gefið kranamanni merki um að stoppa en án árangurs. Hafi hann þá kallað niður í lest til aðvörunar en sökum hávaða frá ísvélinni hafi bróðir hans ekki heyrt í honum; kassarnir hefðu við svo búið losnað úr stroffunni og hrapað niður í lestina en samtímis hafi Guðlaugur verið að teygja sig í kassa í lestinni úr síðustu hífingu á undan og því orðið undir.
Stefnandi hélt m.a. fram í aðilaskýrslu sinni fyrir rétti, að hann hefði enga reynslu haft áður af vinnu við lestun á skipi sem þeirri, er verið var að vinna við er hann varð fyrir umræddu slysi. Hann kvaðst hafa verið að vinna niðri í lest skipsins við að raða kössum. Hröð handtök hefðu þurft til að hafa undan því nauðsynlegt hefði verið að hafa kassana tilbúna fyrir ísinn, sem í þá fór niðri í lestinni, að öðrum kosti hefði orðið að stoppa ísvélina. Og slíkur hávaði hefði verið frá ísflutningi niður í lest að köll að ofan og niður í lest hefðu ekki verið heyranleg þar sem hann var. Hann kvaðst ekki hafa fengið fyrirmæli um að hafa hjálm við vinnu sína. Þá hefði Þórður Ólafsson, er stjórnaði verkinu, ekki verið með hjálm.
Hafsteinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnda, bar fyrir réttinum m.a. að miðað við lestarrými skipsins og það pláss, sem kassarnir tóku, gæti ekki staðist að ekki hefði verið unnt að taka á móti kössunum öðru vísi en undir lestaropinu. Á þeim tíma, sem hér um ræðir, sagði hann, að stefndi hefði nýlega tekið við að sjá um lestun skipsins af útgerðinni, en hjá útgerðinni hefði tíðkast að nota hjálma úr skipinu við þá vinnu og stefndi hefði haft sama háttinn á til að byrja með.
Þórður Laxdal Ólafsson, er var við vinnu niðri í lestinni þegar slysið varð, kvaðst fyrir rétti m.a. ekki muna eftir að hafa heyrt aðvörunarkall frá lúgumanni áður en kassarnir hrundu niður í lestina. Hann kvaðst ekki hafa verið ráðinn sem verkstjóri, en sökum reynslu sinnar við þessi störf, hefði honum verið falið í starfi sínu sem almennur verkamaður að leiðbeina öðrum við vinnuna. Hann staðhæfði að starfsmönnunum hefði staðið öryggishjálmar til boða hjá útgerð skipsins og áhersla hefði verið lögð á að þeir væru notaðir. Hann fullyrti einnig að nægilegt rými hefði verið í lestinni til að vinna störfin án þess að standa undir lestaropinu. Hann kvaðst hafa haft hjálm með sér í lestina en hann væri einn af „svörtu sauðunum" og líklegast hefði hann ekki verið með hann á höfðinu, enda hafi hann ekki verið að verki undir lestaropinu. Hann sagði að yfirmenn stefnda hefðu fengið upplýsingar um atburðinn.
Gunnar Halldórsson, sem starfaði sem kranamaður umrætt sinn, bar vitni í málinu. Hann kvaðst ekki hafa getað séð þegar kassarnir losnuðu og hrundu niður enda hafi það gerst á millidekkinu og hann eingöngu farið eftir ábendingum lúgumannsins.
Gísli Rúnar Sveinsson, umdæmisstjóri hjá Vinnueftirliti ríkisins, bar vitni í málinu. Hann staðfesti að skýrsla hans frá 6. júní 1993, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 7 og varðar slys það, sem stefnandi varð fyrir um borð í Þorláki ÁR-5 þann 11. september 1989, væri rétt. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa haft samband við neinn nema Þórð Ólafsson af hálfu stefnda út af þessu máli.
John E.G. Benediktz læknir kom fyrir dóm. Hann staðfesti vottorð sitt frá 27. maí 1993, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 9. Aðspurður kvaðst hann ekki sjá af gögnum sínum að honum hefði verið kunnugt að stefnandi hafði lent í bílveltu átta mánuðum áður en hann skoðaði stefnanda. Hann kvaðst hvort sem er ekki hafa getað byggt ályktun sína um áhrif slyssins 11. september 1989 á heilsufar stefnanda á öðru en frásögn stefnanda, sem tjáð hefði honum, að höfuðverkjaköst sín hefðu byrjað eftir slysið 11. september 1989.
Dómkvaddir matsmenn, læknarnir Grétar Guðmundsson og Atli Þór Ólason, komu fyrir dóminn og staðfestu undirskrift sína undir matsgerðina, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 40. Þeir svöruðu spurningum lögmanna aðila varðandi matið og sögðu m.a. að ekki væri að ætla að umferðarslys, sem stefnandi varð fyrir 2. mars 1991, væri orsök mígrenihöfuðverkja stefnanda.
V.
Niðurstaða:
Stefnandi er fæddur 11. mars 1972. Slysið, sem hér um ræðir, varð 11. september 1989. Hann hefur þá verið sautján ára. Stefnda, sem atvinnurekanda, bar því sérstök skylda til að gæta þess að slíkt ungmenni bæri öryggishjálm við lestun skipsins og koma í veg fyrir að drengurinn stæði undir lestaropinu við að taka kassa úr kassastæðunni, sem barst úr landi í hverri hífingu. Ekki var verkstjóri, í skilningi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, við verkið svo kunnugt sé. Bróður stefnanda, Ingibergi, var falið af Þórði Laxdal Ólafssyni - í umboði stefnda eftir því sem næst verður komist - að stjórna hífingu á kössunum úr landi og niður í lest með bendingum til kranamanns. Ingibergur var sextán ára gamall og skorti bæði reynslu og þjálfun við verkið. Stefndi, sem rak þá atvinnustarfsemi sem þarna fór fram, verður því talinn bera óskipta ábyrgð á því óhappi sem þarna varð.
Stefndi fékk 15. apríl 1999 dómkvadda þá Grétar Guðmundsson heila- og taugasjúkdómalækni og Atla Þór Ólason bæklunarlækni til að svara eftirfarandi:
1. Að leggja mat á hvort Guðlaugur Árni Oddsson hafi fengið tímabundið og /eða varanlegt tjón (örorku og/eða miska) vegna slyssins hjá Skipaþjónustu Suðurlands í september 1989.
2. Að leggja mat á hvort læknismeðferð hefði getað komið í veg fyrir eða dregið úr meintu tjóni Guðlaugs, ef gripið hefði verið til hennar strax eftir slysið.
3. Að leggja mat á hvort bílvelta sú, sem Guðlaugur lenti í á árinu 1991, hafi haft áhrif og/eða aukið meint tjón hans vegna slyssins 1989 hjá Skipaþjónustunni.
Matsmenn svöruðu spurningunum á eftirfarandi hátt eftir að hafa gert nána grein fyrir því á hverju þeir byggðu niðurstöðu sína sbr. matsgerðina á dskj. nr. 40.:
„Við slysið þann 11.09.1989 varð Guðlaugur Árni Oddson fyrir eftirfarandi skaða:
Tímabundin örorka:
1 mánuður..............................100%
Varanleg örorka...................................5%
...
Matsmenn telja að óþægindi tengd mígrenihöfuðverk er Guðlaugur hefur í dag af völdum slyssins í september 1989 hefði ekki verið minni þó greint hefði verið fyrr eða læknismeðferð hefði verið hafin fyrr. Skiptir þar mestu að lyfjameðferð eða önnur meðferð við mígrenihöfuðverk getur einungis haldið niðri einkennum eða dregið úr þeim, sérstakalega við upphaf þeirra en ekki dregið úr alvarleik sjúkdómsins. Þar með hefur meðferð eða skjót greining ekki áhrif á varanlega örorku af völdum hans.
...
Umferðaslys það er Guðlaugur Árni Oddson varð fyrir á árinu 1991, nánar tiltekið 02.03.1991, leiddi ekki til neinna varanlegra meina og jók ekki þau höfuðóþægindi er Guðlaugur hafði haft frá slysinu í september 1989."
Matsgerð þessi var lögð fram af hálfu stefnda 27. september 1999 sem dskj. nr. 40.
Í niðurstöðu örorkumats Jónasar Hallgrímssonar læknis frá 6. júní 1997, er stefnandi byggir kröfu sína á, segir: „Við slysið 11. september 1989 fékk Guðlaugur höfuðhögg sem leiddi til migrene sem rekja má til áverkans að dómi sérfræðings í taugalækningum. Eftir slysið var Guðlaugur 2 mánuði frá vinnu. Hann hefur frá slysinu fengið reglulega höfuðverkjaköst sem hafa tengst álagi og áreynslu og hafa orðið til þess að hann hefur þurft að vera heima frá einum og upp í nokkra daga í senn. Auk höfuðverkjakastanna hefur Guðlaugur álagsverki í hægri olnboga sem sennilega má einnig rekja til slyssins.
Tímabundin örorka miðast við þann tíma sem Guðlaugur var óvinnufær fyrst eftir slysið. Varanleg örorka er vegna migrene verkja í höfði. Álagsverkir um hægri olnboga teljast ekki til örorku.
Örorka Guðlaugs vegna slyssins er því metin sem hér segir:
Frá slysinu í 2 mánuði 100%
Síðan varnaleg örorka 5%. "
Matsgerðum aðila varðandi niðurstöðu um örorkustig ber því ekki í milli að öðru leyti en því að tímabundin örorka skeikar um einn mánuð. Á þessu verður að byggja og álykta að varnaleg örorka stefnanda vegna vinnuslyssins 11. september 1989 sé 5%.
Í greinargerð Jónasar Hallgrímssonar læknis um örorku stefnanda er staðhæft að stefnandi hafi verið frá vinnu í tvo mánuði. Í matsgerð þeirri, sem unnin var fyrir stefnda, er hins vegar byggt á því að samkvæmt launaseðlum hafi stefnandi komið til vinnu fyrr eftir slysið. Verður því við það miðað að tímabundin örorka stefnanda hafi varað einn mánuð.
Kröfugerð stefnanda er reist á líkindaútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings á slysadagsverðmæti tekjutaps. Þar segir m.a.: „Hér er um að ræða ungan pilt. Tekjur hans framvegis áætla ég þannig: á 22. aldursári reikna ég með 52 vikna vinnu með 40 dagvinnustundum án orlofs og 467 1/2 yfirvinnustund (10 stundir á viku í 46 3/4 vikur) á taxta Dagsbrúnar fyrir fiskivinnu (almennt fiskvinnslufólk eftir 3 ár) með 10,17% orlof. Á 21. aldursári geri ég ráð fyrir 95% framangreindra tekna og lækkandi um 5% á ári niður í 80% á 18. aldursári. Frá og með 26. aldursári geng ég út frá meðaltekjum iðnaðarmanna, sem nú teljast vera kr. 1.747.200 á ári samkvæmt skýrslum Kjararannsóknarnefndar. Hækkun tekna frá 22. til 26. aldursárs skipti ég jafnt á árin þar á milli. til viðbótar framansögðu reikna ég með áætlaðri 8% hækkun rauntekna vegna nýrra kjarasamninga." Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi vegna varanlegrar örorku reiknast honum vera 1.826.700 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda áætlar hann 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku eða 109.600 krónur. Þykir mega byggja á þessu samkvæmt dómafordæmum.
Með hliðsjón af skattfrelsi bóta vegna varanlegrar örorku og hagræði af eingreiðslu þykja þær hæfilega ákveðnar 1.400.000 krónur. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 120.000 krónur. Samtals verður tjón stefnanda því metið 1.683.100 krónur. Vextir verða dæmdir eins og í dómsorði greinir.
Stefndi, Skipaþjónusta Suðurlands hf. greiði 490.000 krónur alls í málskostnað, sem renna í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Karls Axelssonar hrl., 490.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Skipaþjónusta Suðurlands hf., greiði stefnanda, Guðlaugi Árna Oddssyni, 1.683.100 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 18. júní 1994 til 1. júní 1995, með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996 og með 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 16. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði 490.000 krónur alls í málskostnað, sem renna í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Karls Axelssonar hrl., 490.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.