Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2004
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Galli
- Matsgerð
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2004. |
|
Nr. 36/2004. |
Óskar Hrafn Ólafsson og Kjartan Þröstur Ólafsson (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) gegn Ólafi Þ. Jónssyni og Bjarna Guðmundssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Fasteignakaup. Galli. Matsgerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Á grundvelli matsgerðar kröfðust kaupendur fasteignar afsláttar af kaupverði eignarinnar vegna galla á þaki hennar. Með vísan til þess að seljendur höfðu ekki verið boðaðir til matsfundar, þar sem könnuð voru flestöll þau meginatriði sem matsgerð beindist að, var ekki talið unnt að byggja niðurstöðu málsins á matsgerðinni. Önnur gögn höfðu ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar um ástand þaksins né fjárhæð hugsanlegs afsláttar. Vegna þessarar vanreifunar varð ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2004. Þeir krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfu stefndu. Að því frágengnu er þess krafist að fjárhæð sú, sem stefndu var dæmd í héraði, verði lækkuð. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi keyptu stefndu iðnaðarhúsnæði að Skútahrauni 9A í Hafnarfirði af áfrýjendum með samningi 26. október 1998. Var hið keypta miðhluti húseignarinnar. Kaupverð var 9.200.000 krónur. Ágreiningur reis með aðilum þar sem stefndu töldu húseignina haldna ýmsum göllum. Að beiðni stefndu var maður dómkvaddur 28. júní 2000 til að skoða nánar tilgreind atriði varðandi húseignina og meta kostnað við úrbætur. Skilaði matsmaður skýrslu 30. júní 2001. Var niðurstaða hans sú að kostnaður við úrbætur næmi samtals 2.876.000 krónum. Höfðuðu stefndu málið í héraði með stefnu 4. desember 2002 og kröfðust afsláttar af kaupverði fasteignarinnar. Reistu þeir kröfu sína á niðurstöðu matsgerðarinnar. Við meðferð málsins í héraði féllu stefndu frá öðrum þáttum kröfu sinnar en þeim er tengdust þaki hússins.
II.
Áfrýjendur hafa mótmælt gildi framangreindrar matsgerðar. Reisa þeir mótmæli sín annars vegar á því að þeir hafi ekki verið boðaðir til matsfunda og hins vegar að matsmaður hafi verið í óeðlilegu og einhliða sambandi við stefndu við framkvæmd matsins. Telja þeir að ekki verði af þessum sökum byggt á matsgerðinni við úrlausn málsins.
Samkvæmt matsgerðinni var matsfundur haldinn að Skútahrauni 9A þann 13. september 2000. Voru áfrýjendur og stefndi Ólafur Þ. Jónsson viðstaddir. Á þeim fundi voru dómkvaðning og matsbeiðni lesnar upp og bókað að engar athugasemdir hafi komið fram vegna tilnefningar matsmanns eða við boðun matsfundar. Um þau atriði sem til úrlausnar eru nú í málinu var bókað að stefndi Ólafur hafi tekið fram að leka hafi orðið vart með gluggum á austurhlið hússins og annað veifið komi fram þakleki, sem erfitt sé að staðsetja. Síðan hafi vettvangsskoðun farið fram og matsfundi að því búnu slitið. Þá kemur fram í matsgerðinni að 23. nóvember 2000 hafi matsmaður aftur farið á vettvang „til þess að reyna að átta sig á kvörtunum matsbeiðenda og ýmsum óskýrum atriðum í matsbeiðni sem matsmanni fannst erfitt að henda reiður á.“ Er bókað að stefndu hafi báðir verið viðstaddir og að matsmaður hafi aflað sér teikninga af húsnæðinu. Síðan fóru fram mælingar og könnun vegna ýmissa þátta í matsbeiðninni. Um þakið segir að við könnun á því innanverðu hafi komið í ljós „að búið er að einangra þakið innanfrá með 6“ steinull (léttull) en rakasperru vantar. Burðarvirkið í þakinu eru forsteyptir bitar þvert á langhliðar hússins. Þar ofan á koma ásar á langveginn (sperrur) úr 2“ x 8“ c/c 60 cm. Þegar steinull og vindpappi var tekin niður úr hólfi milli sperra kom í ljós þéttklædd borðaklæðning 1“ x 6“ þvert á ásana án útloftunar, enda reyndist klæðningin innihalda 20-45% raka.” Í matsgerðinni kemur fram að matsmaður taldi rétt að framangreindar athuganir yrðu kynntar fyrir áfrýjendum, en þeir voru ekki viðstaddir fundinn, enda ekki til hans boðaðir. Af því tilefni boðaði matsmaður til fundar að Skútahrauni 9A með símskeytum þann 14. júní 2001 eða tæpum sjö mánuðum síðar. Á þann fund mættu auk matsmanns áfrýjandinn Óskar Hrafn og stefndu. Segir í matsgerð að framangreindir ágallar á þaki hafi verið kynntir áfrýjanda, sem hafi lýst því yfir að hann hafi ekki byggt húsið á sínum tíma. Var fleira ekki gert og fundi slitið. Í matsgerðinni segir síðan að til hafi staðið að fá körfubíl til skoðunar þakkants vegna kvörtunar um leka með gluggum á austurhlið hússins. Matsmanni hafi verið tilkynnt 20. júní 2001 að körfubíll yrði til reiðu. Hafi verið farið á vettvang og þakkanturinn skoðaður. Hafi komið í ljós að kanturinn var „galopinn og ófrágenginn að ofan.“ Sé þar komin skýring á hinum mikla leka með gluggum á austurhlið hússins. Við þessa skoðun hafi einnig komið í ljós að ryð var komið í þakstálið á öllu þakinu umhverfis þaksaum þann, sem stálið var neglt niður með. Taldi matsmaður að það stafaði af því að rangt efni hafi verið í þaksaum þeim sem notaður var til verksins.
Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal matsmaður tilkynna aðilum með sannanlegum hætti hvar og hvenær verði metið. Þá er kveðið á um að matsmanni sé rétt að afla gagna til afnota við matið, en aðilum, sem eru viðstaddir skal þá gefinn kostur að tjá sig um þau eftir þörfum. Ljóst er að áfrýjendur voru ekki boðaðir til fundar 23. nóvember 2000. Var það brýnt þar sem þá voru könnuð flest þau meginatriði, sem matsgerð beindist að. Var þá meðal annars könnuð einangrun þaksins að innanverðu og í því skyni var steinull og vindpappi tekin niður úr hólfi milli sperra. Er niðurstaða matsgerðar um skort á útloftun þaksins reist á því, sem matsmaður taldi koma í ljós við þá skoðun, en réttmæti þeirrar niðurstöðu er meginágreiningsefni málsins. Varð ekki bætt úr því að áfrýjendum gafst ekki færi á að vera viðstaddir þessa skoðun með síðbúinni kynningu matsmanns á þeim ágöllum á þakinu, sem hann taldi sig hafa komist að við skoðunina. Þá voru málsaðilar heldur ekki boðaðir til fundar 20. júní 2001 þegar þak og kantur þess var skoðað að utanverðu. Verður af þessum sökum ekki unnt að byggja niðurstöðu málsins á matsgerðinni hvorki varðandi ástand þaksins né fjárhæð hugsanlegs afsláttar. Um þessi atriði hafa önnur gögn málsins ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar. Vegna þessarar vanreifunar verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2003.
Mál þetta var þingfest 19. febrúar 2003 og tekið til dóms 16. október sl. Stefnendur eru Ólafur Þ. Jónsson, kt. 061162-3059, Álfaskeiði 98, Hafnarfirði og Bjarni Guðmundsson, kt. 251069-3449, Löngubrekku 16, Kópavogi. Stefndu eru Óskar Hrafn Ólafsson, kt. 140550-3969, Sævangi 22, Hafnarfirði og Kjartan Þröstur Ólafsson, kt. 230153-4779, Þinghólsbraut 51, Kópavogi.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða afslátt af söluandvirði fasteignarinnar Skútahraun 9A, Hafnarfirði að fjárhæð 2.299.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Til vara krefjast stefnendur að dæmd verði lægri afsláttarfjárhæð að mati dómsins. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi Óskar krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar.
Stefndi Kjartan krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verið lækkaðar verulega. Í fyrra tilvikinu krefst hann málskostnaðar en í seinna tilviki að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Með kaupsamningi 26. október 1998 keyptu stefnendur iðnaðarhúsnæði að Skútahrauni 9A, Hafnarfirði á 9.200.000 krónur. Hið keypta er miðhluti í iðnaðarhúsalengju sem byggð var á árunum 1988 til 1989. Stefnendur fengu húsið afhent 17. október 1998 en kauptilboð þeirra hafði verið samþykkt 14. sama mánaðar.
Hinn 20. október 1999 var haldinn fundur á fasteignasölu þeirri er annaðist söluna og skyldi gengið til uppgjörs og útgáfu afsals. Á þessum fundi munu stefnendur hafa gert athugasemdir við ýmislegt eins og hreinsun húsnæðisins, brotnar rúður, ónýt niðurföll og fleira. Settu þeir fram kröfu að fjárhæð 242.000 krónur sem ættu að koma til frádráttar frá kaupverði. Stefndu lýstu því hins vegar yfir að stefnendur hefðu haft nægjanlegan tíma til þess að skoða húsnæðið og kaupverð hafi verið miðað við ástand þess. Ekki náðist samkomulag með aðilum og varð úr að afsal var undirritað 5. janúar 2000 með fyrirvara af hálfu stefnenda um galla á eigninni. Þessi galli var þó ekki tilgreindur frekar í afsali. Stefnendur greiddu síðar lokagreiðslu kaupverðs.
Matsbeiðni er dagsett 14. mars 2000 og þann 28. júní 2000 var dómkvaddur matsmaður til þess að meta galla á eigninni. Í matsbeiðni er þess m.a. óskað að matsmaður meti hvað það muni kosta að gera við ónýt niðurföll, brotnar rúður, hreinsa niðurföll og háþrýstiþvo og skrúbba húsið og hvað það myndi kosta að ganga frá brunalokun í lofti. Við aðalmeðferð féllu stefnendur frá kröfum samkvæmt ofangreindum matsliðum og koma þeir ekki til frekari skoðunar í þessu máli.
Í matsbeiðni er matsmaður jafnframt beðinn um að skoða og meta leka á þaki og rennum, vöntun á að leið vatns frá þaki sé greið og að athuga leka við glugga á herbergjum á efri hæð hússins. Er þess óskað í matsbeiðni að gerð sé ítarleg grein fyrir orsökum þessara galla, hvort gallarnir hafi verið til staðar er kaup voru gerð, gera grein fyrir hvaða endurbætur séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og að lokum að meta kostnað við viðgerðir.
Í matsgerð Magnúsar Guðjónssonar húsasmíðameistara segir m.a. að í ljós hafi komið við skoðun að þakkantur sé allur galopinn og ófrágenginn að ofan. Sá vanbúnaður hafi í för með sér að slagregn eigi greiða leið niður um kantinn og inn fyrir stálklæðninguna sem sé utan á húsinu. Í því liggi skýringin á hinum mikla leka með gluggum á austurhlið hússins.
Þakklæðning hússins sé úr lituðu stáli, fest niður með ryðfríum stálsaumi sem valdi því að ryð sé komið í þakstálið umhverfis sauminn á þakinu öllu. Reynslan hafi sýnt að ryðfrír stálsaumur tæri stálklæðningu hérlendis á nokkrum árum. Hefði því átt að nota heitgalvaniseraðan kambsaum.
Í matsgerð og í framburði matsmanns fyrir dómi kom fram að leki frá þaki kom ekki utanfrá heldur reyndist vera rakaþétting inn í þakinu sjálfu. Skýrði matsmaður svo frá fyrir dómi að hann hafi opnað þakið á einum stað og þar hafi einangrun verið rennandi blaut og mátt vinda hana. Í ljós hafi komið að engin útloftun hafi verið fyrir ofan einangrunina eins og áskilið sé í byggingarreglugerð. Ekkert raunhæft rakavarnalag hafi heldur verið undir einangrun á þeim hluta þaksins sem ekki hafi verið búið að klæða.
Kostnaðarsundurliðun matsmanns er eftirfarandi:
|
|
Verkliðir |
Efni |
Vinna |
Samtals |
|
1. |
Vinnupallar á báðar hliðar |
90.000 |
96.000 |
186.000 |
|
2. |
Þakstál og pappi rifinn af, förgun |
0 |
193.000 |
193.000 |
|
3. |
Vindpappi, lektur, útloftunarrör |
142.000 |
244.000 |
386.000 |
|
4. |
Heilklæðning og pappalögn |
326.000 |
367.000 |
693.000 |
|
5. |
Bárujárn, litað |
408.000 |
163.000 |
571.000 |
|
6. |
Kjöljárn |
20.000 |
14.000 |
34.000 |
|
7. |
Þakrennur |
36.000 |
40.000 |
76.000 |
|
8. |
Þakkantar, lokun, flasningar |
70.000 |
90.000 |
160.000 |
|
|
Samtals kr. |
1.092.000 |
1.207.000 |
2.299.000 |
II.
Stefnendur byggja málsókn sína og aflsáttarkröfu á hendur stefndu á því að þeir hafi mátt ganga út frá því að allur frágangur á þaki væri samkvæmt þeirri venju er ríkt hafi á byggingartíma fasteignarinnar. Matsmaður hafi staðfest að svo hafi ekki verið þar sem loftun vanti fyrir ofan einangrun í þaki. Þetta sé brot á byggingarlögum nr. 54/1978 og byggingarreglugerð nr. 292/1979 er gilt hafi er húsið hafi verið byggt. Þessir gallar hafi verið stefnendum leyndir og því beri stefndu ábyrgð á þeim. Enda þótt stefnandi Bjarni sé pípulagningameistari að mennt hafi hann ekki mátt sjá hina leyndu galla.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup og til byggingalaga nr. 54/1978 og byggingarreglugerðar nr. 292/1979.
Stefndi Óskar byggir á því að stefnendur séu sérfróðir menn. Stefnandi Bjarni pípulagningameistari og stefnandi Ólafur verktaki. Þeir hafi haft mjög rúman tíma til þess að skoða eignina áður en kaup hafi tekist og hafi engar athugasemdir gert við undirritun kaupsamnings. Þeir hafi sem sérfræðingar haft ríkari skoðunarskyldu en almennt gerist um ósérfróða aðila og einnig verði að gera ríkari kröfur til þeirra að athugasemdir varðandi eignina kæmu strax fram.
Stefndi Óskar mótmælir því alfarið að matsgerð geti haft nokkurt sönnunargildi í málinu. Málsmeðferð matsmanns brjóti í bága við 9. kafla laga nr. 91/1991. Matsfundur hafi fyrst verið haldinn 13. september 2000 og hafi aðilar verið boðaðir á þann matsfund. Matsbeiðendur hafi einungis verið viðstaddir skoðun matsmanns 23. nóvember 2000 en stefndu ekki boðaðir á þann matsfund. Á þessum fundi hafi hins vegar matsmaður gert umfangsmiklar rannsóknir, einkum á þaki hússins. Matsmaður hafi séð ástæðu til að kynna stefndu niðurstöðu þessara rannsókna sinna og hafi það verið gert 14. júní 2001 eða tæpum 7 mánuðum eftir fund matsmanns og stefnenda. Stefndi Óskar telur að ofanritað sé verulegt frávik frá þeirri málsmeðferð sem mælt sé um fyrir í 9. kafla laga nr. 91/1991. Matið sé ekki hlutlægt þar sem matsmaður hafi ekki boðað báða aðila á matsfund eins og gert sé ráð fyrir í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu hafi því ekki komið að sjónarmiðum sínum og athugasemdum varðandi störf matsmanns.
Kröfugerð stefnenda byggist á því að eignin sé endurnýjuð að verulegu leyti. Ekki sé tillit tekið til þess að nýtt komi í stað gamals. Þá sé ekki tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu. Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum í stefnu að þakið sé í ósamræmi við opinberar byggingarreglur sem gilt hafi á byggingartíma hússins. Þá hafi einnig verið augljóst við skoðun að eignin hafi ekki verið í fullkomnu ástandi og ýmislegt smálegt hafi þarfnast lagfæringar. Kaupverðið hafi einnig verið við það miðað.
Stefndi mótmælir einnig vaxtakröfu stefnanda. Fyrsta innheimtubréf lögmanns stefnanda vegna meintrar gallakröfu sé dagsett 16. nóvember 2001 eða rúmlega 3 árum eftir að kaup hafi tekist. Slíkt tómlæti leiði einnig til þess að stefnendur glati rétti.
Stefndi Kjartan byggir á því að stefnendur hafi keypt hús sem hafi augljóslega fengið slæmt viðhald og frágangur þess ekki verið fagmannlegur. Stefnendum hafi verið um það kunnugt að stefndu hafi aldrei nýtt húsnæðið og ekki þekkt það sérstaklega. Stefnendur hafi fengið húsið til ítarlegrar skoðunar áður en kaupsamningur hafi verið gerður. Stefnendur hafi því átt kost á því að skoða húsið með tilliti til þaks og annarra atriða. Stefnendur séu ennfremur sérfróðir um byggingar en stefndu hins vegar ekki. Stefnendur hafi því haft ríkari ástæðu til þess að skoða eignina vel. Stefnendur hafi ekki kvartað um galla fyrr en að ár hafi verið liðið frá sölu. Þeir hafi því fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis. Stefndi Kjartan telur það misskilning hjá matsmanni að engin loftun sé í þaki. Að öðru leyti byggir stefndi Kjartan á sömu sjónarmiðum og meðstefndi Óskar.
III.
Það er málsástæða af hálfu stefndu að ekki sé unnt að byggja á matsgerð þar sem matsmaður hafi ekki gætt málsmeðferðarreglna við mat og skoðun. Fyrir liggur að matsmaður boðaði aðila á fyrsta matsfund, kynnti þeim fyrirhugað mat og gaf þeim kost á að koma með athugasemdir. Síðan vann matsmaður sjálfstætt að mati og fór í nokkrar skoðunarferðir á vettvang. Ekki verður fallist á með stefndu að túlka beri ákvæði 2. mgr. 62. gr.laga nr. 91/1991 á þann veg að matsmanni sé skylt að gefa aðilum kost á að vera viðstaddir hverja skoðun matsmanns. Verður því talið að matsgerð hafi fullt sönnunargildi.
Ekki verður heldur talið að stefnendur hafi fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis þar sem það þykir nægilega komið fram í málinu að þeir kvörtuðu fljótlega um leka frá þaki eftir að þeir urðu lekans varir.
Dómurinn fór á vettvang og skoðaði aðstæður með aðilum og lögmönnum þeirra. Á vettvangi voru einnig Þorgeir Bergsson vélfræðingur og Eyjólfur Einarsson skipasmiður en þeir höfðu skoðað þakið 2. desember 2002 á vegum stefndu. Þeir lýstu skoðun sinni á vettvangi og einnig fyrir dómi. Eyjólfur sagðist ekki hafa fundið neinn fúa í þakviði og Þorgeir taldi niðurstöðu matsmannns ranga. Sagðist hann hafa rofið loftið á einum stað og hefði einangrun verið þurr og vel loftað fyrir ofan hana.
Dómurinn er sammála matsmanni um að ytra byrði þaks leki ekki fyrir utan leka frá þakkanti sem stendur opinn og ófrágenginn að ofanverðu. Sá frágangur sést ekki við skoðun því þakkantur er frágenginn að öðru leyti og klæddur timbri að neðan. Stefnendur gátu því ekki séð þennan galla og voru ekki upplýstir um hann fyrir sölu. Þessi vansmíð orsakaði leka með gluggum og ber því að fallast á með stefnendum að þeim beri afsláttur af kaupverði vegna þessara annmarka á frágangi hússins.
Dómurinn er sammála matsmanni um að útloftun þaks sé ekki til staðar. Samkvæmt grein 7.5.12.2 í byggingarreglugerð nr. 292/1979, sem gilti er húsið var byggt og sett var með stoð í byggingarlögum nr. 54/1978, á að vera loftbil fyrir ofan einangrun næst þakvið. Þetta loftbil á að lofta út. Loftbilið virðist vera fyrir hendi milli sperra en útloftun skortir. Þaksperrur eru langsum eftir þakinu og ætti því útloftunarraufar að vera á göflum húsalengjunnar. Slík útloftun er hins vegar ekki fyrir hendi og virðist þak hins umdeilda eignarhluta, sem er í miðri húsalengjunni, vera sjálfstæð eining að þessu leyti. Verður ekki betur séð en að á húsinu við hliðina sé milliveggur sem nái upp að þakklæðningu og getur því engin útloftun farið þar fram. Þessi frágangur þaksins á húsi stefnenda mun fyrr eða síðar verða þess valdandi að þak hússins fúnar og skemmist. Raki sem myndast í húsinu á sér ekki útgönguleið heldur þéttist í einangrun þaksins.
Tillaga matsmanns gerir ráð fyrir að þakið sé endurnýjað að miklu leyti og nýtt komi fyrir gamalt. Dómurinn telur að fara megi ódýrari og auðveldari leið til þess að breyta útloftun þaksins. Koma megi fyrir túðum ofan á þakið. Þrjátíu hólf eru á milli sperra og gerir dómurinn ráð fyrir að tvær túður séu settar ofan á þakið yfir hvert hólf á sitthvorn endann eða samtals 60 túður. Með þessari lagfæringu ætti þakið að lofta og forða mætti því frá skemmdum.
Að öllu þessu virtu þykja stefnendur eiga samkvæmt meginreglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 er þá gilti um samningssamband aðila rétt á afslætti af kaupverði að fjárhæð 1.000.000 krónur. Matsgerð var kynnt stefndu með bréfi 20. september 2001 og verða dráttarvextir dæmdir frá 20. október 2001 sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu dæmdir til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt og að stefnendur þurftu að afla mats til að sýna fram á tjón sitt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnari Ingimarssyni og Stanley Pálssyni verkfræðingum.
DÓMSORÐ
Stefndu, Óskar Hrafn Ólafsson og Kjartan Þröstur Ólafsson, greiði stefnendum, Ólafi Þ. Jónssyni og Bjarna Guðmundssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. október 2001 til greiðsludags og 450.000 krónur í málskostnað.