Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2003


Lykilorð

  • Víxill
  • Gerhæfi
  • Málskostnaður


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. maí 2004.

Nr. 466/2003.

Elísabet Árnadóttir og

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Ástþór Auðunn Snjólaugsson

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

 

Víxill. Gerhæfi. Málskostnaður.

E og Á tóku til varna í máli sem S höfðaði á hendur þeim og fleirum til greiðslu víxlis á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991. Bar E því við að hún hafi ekki verið andlega fær um að takast á hendur víxilskuldbindinguna, sem um ræddi. Voru varnir á þessum grundvelli taldar rúmast innan ákvæðis b. liðar 1. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991, en framlögð gögn renndu ekki nægum stoðum undir fullyrðingar hennar og var þeim því hafnað. Aðrar ástæður, sem E byggði sýknukröfu sína á, rúmuðust ekki innan 118. gr. laganna. Með vísan til 1. mgr. 47. gr. laga  nr. 93/1933 var Á, ásamt öðrum sem stefnt var í héraði, talinn bera óskipta ábyrgð gagnvart víxilhafa, en ekki að tiltölu svo sem hann krafðist. Kröfur S voru samkvæmt þessu teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandinn Elísabet Árnadóttir skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 13. október 2003, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. nóvember sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hún öðru sinni 5. desember 2003. Endanleg krafa áfrýjandans er sú að hún verði sýknuð af kröfu stefnda og hann dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Ástþór Auðunn Snjólaugsson áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. desember 2003. Endanlega krefst hann sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð, hún einungis dæmd að tiltölu með öðrum stefndu í héraði og málskostnaður látinn falla niður á báðum dómstigum.

 Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefndi höfðaði málið í héraði gegn áfrýjendum og tveimur öðrum mönnum til greiðslu á víxli að fjárhæð 6.000.000 krónur, sem stefndi hafði fengið frá þeim á árinu 1997. Héldu áfrýjendur uppi vörnum í héraði, en ekki aðrir stefndu. Var annar þeirra, sem ekki tóku til varna, fyrrum eiginmaður áfrýjandans Elísabetar og jafnframt samþykkjandi víxilsins, sem var til tryggingar yfirdrætti á reikningi hans hjá stefnda. Málið var höfðað á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 og mótmælti stefndi því að aðrar varnir kæmust að en þær, sem getið er í 118. gr. laganna. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var sú afstaða hans sérstaklega áréttuð. Lauk málinu svo fyrir héraðsdómi að allir stefndu voru dæmdir til að greiða óskipt víxilkröfuna. Málavöxtum og málsástæðum aðila er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti breytti áfrýjandinn Elísabet kröfum sínum í það horf, sem að framan er getið, og féll með því frá varakröfum, sem hún gerði í héraði. Var lýst yfir af hennar hálfu að það væri gert vegna mótmæla stefnda við því að aðrar varnir kæmust að í málinu en þær, sem heimilaðar eru í 118. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms óskaði lögmaður áfrýjandans Elísabetar eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur yrði einn læknir til að meta hvort áfrýjandinn „hafi verið andlega fær um, þann 12. júní 1997, að takast á hendur fjárhagslegar skuldbindingar, af því tagi sem víxilábyrgð hennar ... ber vott um.“ Var Sigurður Páll Pálsson geðlæknir dómkvaddur í þessu skyni 23. janúar 2004 og er matsgerð hans dagsett 27. apríl sama árs. Er þar rakið í upphafi að líkamlegt heilsufar áfrýjandans hafi verið slæmt í rúmlega tvo áratugi og hún margoft legið á Reykjalundi vegna verkja og þá mánuðum saman. Er getið margs kyns heilsubrests, sem hún á við að stríða, en þar á meðal er alvarlegt þunglyndi. Fram kemur að sá læknir, sem áfrýjandinn virðist treysta best, sé Pétur Hauksson geðlæknir, sem hafi sinnt henni í mörg ár. Lagði matsmaðurinn fyrir hann ýmsar spurningar um heilsufar áfrýjandans, meðal annars um andlegt ástand hennar í júní 1997, sem Pétur taldi hafa verið óvenju slæmt á þeim tíma. Þá lýsir matsmaðurinn mjög mikilli lyfjatöku hennar á sama tíma samkvæmt fyrirmælum lækna og áhrifum hvers einstaks þessara lyfja. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segir meðal annars að áfrýjandinn hafi verið „á mörgum lyfjum sem gætu á umræddu tímabili hafa sljóvgað dómgreind hennar verulega.“ Ennfremur að það sé mjög líklegt að hún „hafi verið mjög áhrifagjörn á umræddu tímabili. ... Engin merki um ruglástand eða greindarskort almennan komu fram við þessa rannsókn. Engin merki komu fram um alvarlegan geðsjúkdóm í líkingu við sturlun eða geðhvarfasjúkdóm.“ Þá segir að í strangasta skilningi séu sjúkdómar áfrýjandans „hver og einn metnir yfirleitt þannig að einstaklingurinn er talinn yfirleitt bera ábyrgð gerða sinna. Ljóst er hins vegar að hér var bæði um að ræða mikið þunglyndi, mjög mikla verki og nýframkomna áfallastreitu. Auk þess var hún að læknisráði á mjög miklum róandi lyfjum sem bæði sljóvga dómgreind og athygli ...“ Matsgerðinni lýkur með þeim orðum að áfrýjandinn „verður því að teljast ekki fyllilega andlega fær til að gera sér grein fyrir fullri ábyrgð sinni þann 12. júní 1997 hafi hún þann dag skrifað undir umræddan víxil.“

Í skýrslu, sem áfrýjandinn gaf fyrir lögreglu 29. nóvember 2002, kom fram að hún og fyrrum eiginmaður hennar hafi verið skilin lögskilnaði þegar atvik málsins urðu 1997. Rámaði hana í að maðurinn hafi heimsótt hana einhvern tíma um þetta leyti og beðið hana um að skrifa undir framlengingu á yfirdráttarheimild svo að hann gæti borgað vanskil af lánum, sem hvíldu á íbúð áfrýjandans, og honum bar að greiða samkvæmt ákvæði í skilnaðarsamkomulagi þeirra. Kvaðst hún hafa gert það til að bjarga íbúðinni, en taldi fjárhæðina hafa verið miklum mun lægri en nam fjárhæð víxilsins. Grunaði hana að eiginmaðurinn fyrrverandi hafi breytt fjárhæðinni síðar. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar hún í meginatriðum á sama veg utan þess að ekki var vikið að því að fjárhæð kunni að hafa verið breytt á því skjali, sem hún undirritaði. Hafi hún skrifað undir eitthvert plagg að beiðni mannsins því „annað hvort ég yrði að skrifa eða íbúðin færi.“

Sú málsvörn er borin fyrir af hálfu áfrýjandans Elísabetar að hún hafi ekki verið andlega fær um að takast á hendur víxilskuldbindinguna, sem um ræðir í málinu. Hafi eiginmaðurinn fyrrverandi notað sér sjúklegt ástand hennar til að fá hana til að rita nafn sitt á víxilinn. Til stuðnings þessari málsástæðu er vísað til þeirra sönnunargagna, sem að framan var gerð grein fyrir.

III.

Í 118. gr. laga nr. 91/1991 eru taldar upp þær varnir, sem stefndi getur haft uppi um efni máls þegar um meðferð þess fer samkvæmt reglum XVII. kafla laganna. Meðal þessara varna er að aðila hafi skort hæfi að lögum til að taka á sig þá skuldbindingu, sem um ræðir, sbr. b. lið 1. mgr. 118. gr. Í því felst einkum að aðili hafi verið ólögráða vegna ungs aldurs eða hann verið sviptur lögræði, en einnig rúmast innan ákvæðisins að aðilinn hafi verið haldinn andlegum annmörkum á svo háu stigi að gerningurinn verði ekki talinn skuldbinda hann.

Að framan voru í meginatriðum rakin þau atriði úr matsgerð geðlæknis varðandi andlegt atgervi áfrýjandans Elísabetar, sem máli skipta við úrlausn um þetta atriði. Að virtu því í heild sinni, sem þar kemur fram, svo og framburði hennar sjálfrar hjá lögreglu og fyrir dómi, verður að hafna því að dómgreind hennar hafi verið svo skert eða hún að öðru leyti andlega þannig á sig komin að hún hafi verið alls ófær um að gera sér grein fyrir efni þeirrar skuldbindingar, sem hún gekkst undir, og hugsanlegum afleiðingum hennar. Aðrar ástæður, sem áfrýjandinn kann að telja vera fyrir hendi, og geti leitt til þess að sýknukrafa hennar eigi að ná fram að ganga á grundvelli ógildingarástæðna samkvæmt III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, rúmast ekki innan þeirra varna, sem unnt er að bera fyrir í málinu samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991.

Áfrýjandinn Ástþór Auðunn krefst þess til vara að hann verði einungis dæmdur að tiltölu með öðrum, sem stefnt var í héraði, til að greiða víxilkröfuna. Er á því byggt að héraðsdómur hafi farið út fyrir kröfur víxilhafans með því að dæma alla stefndu óskipt til að greiða stefnufjárhæðina. Í stefnu til héraðsdóms var sérstaklega vísað til 7. kafla víxillaga nr. 93/1933, en samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna bera þeir, sem hafa gefið út víxil, samþykkt hann, framselt eða gerst ábyrgðarmenn að honum óskipta ábyrgð gagnvart víxilhafa. Eru samkvæmt þessu ekki efni til að fallast á varakröfu áfrýjandans.

Að virtu því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest. Við úrlausn um kröfu stefnda um málskostnað fyrir Hæstarétti verður litið til þess að með rangri tilkynningu hans 15. ágúst 2002 til víxilskuldaranna um gjalddaga víxilsins gaf stefndi þeim tilefni til að halda að því leyti uppi vörnum í málinu. Er rétt að þessu virtu að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Elísabetar fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Elísabetar Árnadóttur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. september 2003.

             Mál þetta, sem var dómtekið í dag, var höfðað 18. nóvember 2002.

Stefnandi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

Stefndu eru Ásgeir Vilhjálmsson, Stórholti 16, Reykjavík, Elísabet Árnadóttir, Hrísmóum 4, Garðabæ, Baldur Ingvarsson, Bollagötu 14, Reykjavík og Ástþór Auðunn Snjólaugsson, Suðurgötu 100, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða 6.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá 10.09.2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Þá er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 10.09.2003, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi Ásgeir Vilhjálmsson hefur hvorki sótt þing né látið sækja þrátt fyrir löglega birta stefnu og verður farið með kröfur á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

             Stefnda Elísabet Árnadóttir krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, samkvæmt fyrstu varakröfu að henni verði gert að greiða stefnanda 300.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags, samkvæmt annarri varakröfu að henni verði gert að greiða stefnanda 1.375.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og samkvæmt þriðju varakröfu að henni verði gert að greiða stefnanda 3.500.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og ekki væri um gjafsókn að ræða.

Stefndi Baldur Ingvarsson hefur hvorki sótt þing né látið sækja þrátt fyrir löglega birta stefnu og verður farið með kröfur á hendur honum samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

             Stefndi Ástþór Auðunn Snjólaugsson krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, samkvæmt fyrstu varakröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 300.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags, samkvæmt annarri varakröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 1.375.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og samkvæmt þriðju varakröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 3.500.000 krónur auk vaxta frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og samkvæmt fjórðu varakröfu er þess krafist, verði ekki fallist að fullu á einhverja fyrrgreindra krafna, að dráttarvextir reiknist fyrst frá 27. desember 2002. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

I.

             Með umboði dagsettu 12. júní 1997, sem ber undirskrift allra stefndu í máli þessu, afhenti stefndi Ásgeir Vilhjálmsson stefnanda viðfestan tryggingarvíxil samþykktan af stefnda Ásgeiri, útgefinn og framseldan af stefndu Elísabetu og ábektan af stefndu Baldri Ingvarssyni og Ástþóri Auðuni Snjólfssyni. Var víxillinn óútfylltur að því er varðaði útgáfudag og gjalddaga en að fjárhæð 6.000.000 milljón krónur. Víxillinn var til tryggingar viðskiptum stefnda Ásgeirs við stefnanda vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi nr. 410. Samkvæmt umboðinu var stefnanda veitt heimild til að formgilda víxilinn með því að rita á hann útgáfudag og gjalddaga kæmi til vanskila. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að bæði umboðið og víxileyðublaðið hafi verið útfyllt á framangreindan hátt er stefndu undirrituðu skjölin.

             Með bréfi dagsettu 15. ágúst 2002 tilkynnti lögmaður stefnanda stefndu að vegna vanskila á ofangreindum tékkareikningi að fjárhæð rúmlega 20.000.000 króna yrði víxillinn formgiltur með því að færður yrði á hann útgáfudagur og gjalddagi sem hefði verið ákveðinn 28. ágúst 2002, en þann dag yrði víxillinn sýndur í afgreiðslu stefnanda að Strandgötu 8-10 Hafnarfirði.

Með bréfi dagsettu 27. ágúst 2002 sendi lögmaður stefnanda stefndu leiðrétta tilkynningu um gjalddaga víxils. Segir í bréfi lögmannsins að þar sem greiðslustaður víxilsins hafi verið ranglega tilfærður í fyrri tilkynningu, verði víxillinn sýndur í afgreiðslu stefnanda að Garðatorgi 1, Garðabæ á gjalddaga hans, sem hafi verið ákveðinn 10. september 2002.

Á víxilinn hefur verið færður útgáfudagurinn 15. ágúst 2002 og gjalddaginn 10. september 2002. Í stöðluðum texta víxileyðublaðsins segir að víxillinn greiðist í Sparisjóði Hafnarfjarðar Garðabæ.

Víxillinn var ekki greiddur á greiðslustað á gjalddaga víxilsins eða næstu tvo virku daga þar á eftir.

II,

             Að tilhlutan lögreglu fór fram rannsókn á því hvort undirskrift stefndu Elísabetar hefði verið fölsuð á víxileyðublaðið eða umboðið áfast því og hvort fjárhæðum á þeim skjölum og dagsetningum á þeim hefði verið breytt. Í niðurstöðum Statens kriminaltekniska laboratorium-SKL í Linköping í Svíþjóð, sem annaðist rannsóknina, kemur fram að gerðar athuganir leyfi ekki afdráttarlausa niðurstöðu en þær bendi þó helst til þess að undirskriftirnar fjórar “Elísabet Árnadóttir”, á tryggingarvíxlinum (tvær) og á tilheyrandi umboði (tvær) séu með eigin hendi Elísabetar Árnadóttur. Þá sjáist ekki nein merki um að hróflað hafi verið við upphæðum og dagsetningum eða þeim breytt.

             Í greinargerðum stefndu, einkum stefndu Elísabetar, var m. a. byggt á því að nafn stefndu Elísabetar hefði verið falsað og upphæðum breytt. Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins var ekkert vikið að þeim málsástæðum. Úr því þykir ekki ástæða til að fjalla frekar um þennan þátt málsins.

III.

             Í greinargerð stefndu Elísabetar kemur fram að þann 1. nóvember 1996 hafi hún og stefndi Ásgeir Vilhjálmsson skilið. Í skilnaðarkjarasamningi hafi verið kveðið á um að fasteignin Hrísmóar 4, hluti, skyldi falla til stefndu en stefndi Ásgeir skyldi yfirtaka tilteknar skuldbindingar sem hvíldu á fasteigninni. Um það leyti hafi stefnda Elísabet átt við erfiða líkamlega og andlega sjúkdóma að stríða og lagst inn á Reykjalund til lækninga. Þar hafi hún dvalist á virkum dögum óslitið frá 10.3. 1997 til 24.8.1997, en á heimili sínu um helgar. Eitt sinn er hún var í helgarleyfi frá Reykjalundi hafi stefndi Ásgeir komið að máli við hana og óskað eftir ábyrgð hennar vegna væntanlegrar fyrirgreiðslu stefnanda við hann svo hann gæti greitt tiltekin vanskil sem voru áhvílandi á heimilisfasteign stefndu. Hún hafi samþykkt það ella viðblasandi að fasteignin yrði sett á nauðungarsölu.

Í greinargerð stefndu Elísabetar kemur fram að á þessum tíma hafi yfirdráttarheimildin á reikningi stefnda Ásgeirs nr. 410 í Sparisjóði Hafnarfjarðar numið 3.500.000 krónum. Þann 15. ágúst 2001 hafi stefnda Elísabet fengið bréf frá stefnanda þar sem hún var krafin um greiðslu á 516.543 krónum á grundvelli ábyrgðar hennar á tékkareikningi nr. 410. Þessi krafa hafi komið henni á óvart þar sem stefndi Ásgeir hafi tjáð henni að ábyrgð hennar væri fallin niður enda ríflega 4 ár liðin frá því að hún gekkst í ábyrgðina. Þá hafi stefndi Ásgeir tjáð henni að hann væri búinn að greiða kröfuna og hafi hún því ekki haft samband við stefnanda. Í greinargerðinni er síðan rakið hvernig yfirdráttarheimildin á reikningi nr. 410 hafi sífellt verið hækkuð án þess að samþykkis hennar væri leitað. Þannig hafi heimildin verið hækkuð í 3.500.000 krónur daginn áður en hún undirritaði víxilinn og umboðið, þann 19.12.1997 í 5.700.000 krónur, og síðan koll af kolli og hæst muni yfirdráttarheimildin hafa numið 30.400.000 krónum þann 02.10.2001.

             Í greinargerð stefnda Ásþórs Auðuns kemur fram að hann hafi skrifað sem ábekingur á víxileyðublað og umboð að beiðni stefnda Ásgeirs, en hann hafi verið meistari að húsbyggingu sem stefndi Ásgeir hafi verið að smíða, en fjármagna hafi þurft greiðslur fram að afgreiðslu húsbréfa. Rúmum fjórum árum seinna, eða 15. ágúst 2001 hafi hann fengið aðvörunarbréf frá stefnanda. Hafi þá komið í ljós að víxillinn hafði verði útfylltur með upphæðum og notaður sem trygging á yfirdráttarláni stefnda Ásgeirs hjá stefnanda. Hann hafi þegar haft samband við starfsmann stefnanda sem hafi sagt að stefndi Ásgeir yrði að leggja fram frekari tryggingar vegna yfirdráttarins. Hann hafi þá haft samband við stefnda Ásgeir sem hafi brugðist skjótt við og lagt inn veð til tryggingar tékkaskuldinni. Hafi stefndi Ástþór Auðunn því staðið í þeirri trú að umræddur víxill væri þar með fallinn úr gildi. Þann 2. apríl 2002 hafi stefnda borist annað aðvörunarbréf frá stefnanda, en þá hafi skuldin á áðurnefndum reikningi numið 25.949.682 krónum. Hann hafi þá farið á fund stefnanda ásamt fleirum og þá verið tjáð af starfsmanni stefnanda að nægar veðábyrgðir væru fyrir kröfum stefnanda á hendur samþykkjanda víxilsins og að ábyrgðarmenn víxilsins yrðu leystir undan ábyrgð sinni. Ekki hafi verið staðið við þetta loforð af hálfu stefnanda. Með bréfi dagsettu 22. apríl 2002 hafi lögmaður stefnda Ástþórs Auðuns farið fram á að hann yrði leystur undan ábyrgð sinni sem ábekingur á víxlinum en því hafi stefnandi hafnað með bréfi dagsettu 15. ágúst 2002. Með bréfi dagsettu 30. október 2002 hafi stefndi boðist til að greiða hluta víxilskuldbindingarinnar, en því hafi stefnandi hafnað með tölvubréfi 11. nóvember 2002. Málinu hafi verið skotið sem kvörtun til Úrskurðanefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki áður en mál þetta var höfðað, en eftir málshöfðunina vísaði nefndin málinu frá þar sem málið væri komið fyrir dómstóla.

Í greinargerðinni kemur fram að daginn áður en stefndi á að hafa undirritað víxilinn og umboðið hafi yfirdráttarheimildin verið hækkuð í 3.500.000 krónur. Hún hafi síðan verið hækkuð jafnt og þétt og hafi stefnda hvorki verið tilkynnt um þær hækkanir né samþykkis hans leitað fyrir þeim.

             Í málinu var lagt fram vottorð Péturs Haukssonar geðlæknis, dagsett 3. september 2002, varðandi stefndu Elísabetu og er texti þess svohljóðandi: “ Hér með vottast að Elísabet Árandóttir, kt. 180860-4019, var innlögð á Reykjalundi 10.3.1997 og dvaldi hér samfleytt til 24.8. 1997. Hún var þá alvarlega veik, bæði með líkamlega og andlega sjúkdóma á háu stigi. Veikindi hennar voru þess eðlis að sjúkdómseinkenni höfðu áhrif á dómgreind hennar, ekki síst einkenni geðsjúkdóms. Þá var hún á lyfjameðferð, fékk m. a. geðlyf og verkjalyf, sem einnig orsökuðu vitsmunalega skerðingu. Hún var af þessum sökum ekki fær um að taka mikilvægar ákvarðanir og í raun ekki sjálfráð gerða sinna. Þetta vottast hér með”. Geðlæknirinn staðfesti vottorðið fyrir dómi við aðalmeðferð málsins

             Stefndu Elísabet og Ástþór Auðunn gáfu aðilaskýrslur við aðalmeðferð málsins.

IV.

             Af hálfu stefnanda er mál þetta rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og byggir stefnandi greiðsluskyldu stefndu á reglum víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. gr. laganna. Fyrir aðalmeðferð málsins og í munnlegum málflutningi mótmælti lögmaður stefnanda því að stefndu kæmu að vörnum sem ekki rúmist innan 118. gr. einkamálalaga. Stefnandi byggir á því að umræddur víxill hafi verið afhentur stefnanda til tryggingar yfirdráttar stefnda Ásgeirs á tékkareikningi nr. 410 hjá stefnanda. Skjalið hafi verið undirritað af stefndu og útfyllt að öðru leyti en því að á það hafi hvorki verið skráður útgáfudagur né gjalddagi. Viðfest víxileyðublaðinu hafi verið umboð til handa stefnanda að fylla skjalið út og gera það að formgildum víxli ef á ábyrgð víxilskuldara reyndi. Aðrar takmarkanir hafi ekki verið gerðar á útfyllingarheimild stefnanda. Stefnandi hafi fært á víxileyðublaðið útgáfudaginn 15. ágúst 2002 og gjalddagann 10. september 2002. Prentað form víxilsins beri með sér að greiðslustaður sé í Sparisjóði Hafnarfjarðar í Garðabæ. Stefndu hafi ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og sé málssókn þessi því nauðsynleg.

V.

             Af hálfu stefndu Elísabetar er aðalkrafa um sýknu í fyrsta lagi byggð á því að víxilrétturinn sé fallinn niður fyrir vangeymslu, þar sem víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu á umsömdum gjalddaga á réttum stað, sbr. 53. gr. víxillaga sbr. og 10. gr. sömu laga. Stefnandi hafi tilkynnt stefndu að víxillinn yrði sýndur til greiðslu þann 28. ágúst 2002 í útibúi stefnanda við Strandgötu í Hafnarfirði. Sú tilkynning hafi verið bindandi fyrir stefnanda sem hafði þá samkvæmt umboðssamningi aðila ákveðið gjalddagann. Sýning víxilsins hafi ekki átt sér stað á réttum gjalddaga heldur á röngum stað og svo aftur síðar, án þess að leitað væri samþykkis stefndu um að breyta mætti gjalddaganum. Slíkt sé í andstöðu við tilvitnuð ákvæði víxillaga.

             Í öðru lagi er byggt á því, án tillits til niðurstöðu um framangreinda málsástæðu, að stefnda hafi ekki verið andlega hæf til að takast á hendur víxilábyrgð vegna fyrrverandi eiginmanns síns sökum sjúkdóms. Hafi stefnda verið haldin geðsjúkdómi og neytt sterkra lyfja sem hafi gert það að verkum að hún hafi ekki getað gert sér grein fyrir því í hverju það fólst að veita stefnanda umboð til að skuldbinda hana við ábyrgð í þágu stefnda Ásgeirs. Mikilvægt sé að hafa í huga að stefnandi hirti ekki um að standa rétt að veitingu umboðsins sér til handa, með því að kalla stefndu á starfsstöð sparisjóðsins, gera henni grein fyrir yfirdráttarheimildinni og láta hana árita umboðið og víxilinn í viðurvist starfsmanna stefnanda, svo efni umboðsins væri óyggjandi. Í þess stað hafi stefnandi tekið við víxlinum úr hendi stefnda Ásgeirs, án þess að hirða um það hvernig til umboðsins var stofnað af hálfu stefndu. Stefnanda hefði verið ljóst um viljaskort stefndu og andlega vangetu hennar til að ábyrgjast yfirdrátt fyrrum eiginmanns síns um ótiltekinn tíma, og hvað þá fjárhæð kr. 6000.000,- sem stefnda hefði fyrirsjáanlega aldrei getað staðið undir, ef stefnandi hefði staðið rétt að gerð umboðsins. Stefnandi verði því að þola ógildingu víxilskuldbindingarinnar í ljósi þess að stefndi Ásgeir nýtti sér bágt ástand stefndu til þess að blekkja hana til að rita á yfirlýsinguna/umboðið, sem er grundvöllur útfyllingar víxilsins, sbr. 31. gr., sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingum.

             Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu Elísabetar um sýknu er fyrsta varakrafa reist á því að krafa stefnanda geti aldrei numið hæri fjárhæð en 300.000 krónum. Grundvöllur kröfu stefnanda sé umboð það sem stefnda veitti stefnanda til útfyllingar víxilsins. Það umboð nái einvörðungu til þess að skuldbinda stefndu til að greiða víxil að fjárhæð 300.000 krónur vegna yfirdráttar á téðum reikningi nr. 410. Verði því að sýkna stefndu af kröfum umfram 300.000 krónum.

             Aðra varakröfu byggir stefnda á því að krafa stefnanda á hendur henni geti aldrei numið hærri fjárhæð en 1.375.000 krónum. Þann 12. júní 1997 hafi yfirdráttarheimild á reikningi nr. 410 numið 3.500.000 krónum. Á þeim tíma hafi stefnandi verið með víxil að fjárhæð 2.125.000 krónur, með ábyrgð Árna Guðjónssonar og Árdísar G. Árnadóttur. Byggt er á því að stefnandi geti ekki safnað saman öllum tryggingarvíxlum sem hann hafði undir höndum og sótt einstaka ábyrgðarmenn sjálfstætt og án tengsla við þá yfirdráttarheimild sem var til staðar er víxlarnir voru afhentir. Verði ábyrgðarmenn til samans ekki bundnir við aðra og hærri fjárhæð en var í gildi er ábyrgðin var veitt, sbr. Hrd. 16. janúar 2003. Af þeim sökum sé eigi hægt að sækja stefndu um hærri fjárhæð en sem nemur mismun á samþykktri heimild pr. 12. júní 1997, 3.500.000 krónur og andvirði víxilábyrgðar Árna Guðjónssonar o.fl., 2.125.000 krónur, frá 1996, þ.e.a.s. 1.375.000 krónur.

             Þriðju varakröfu byggir stefnda á því að ábyrgð hennar geti aldrei orðið hærri en 3.500.000 krónur, þ.e sem nemi fjárhæð yfirdráttarheimildar sem var í gildi er umboðið var veitt þann 12. júní 1997. Er byggt á því að fjárhæð víxilsins takmarkist ávallt við heimildina á undirritunardegi umboðsins, sbr. Hrd. 16. janúar 2003. Þar sem stefnda hafi ekki samþykkt hækkun á heimild fyrir sitt leyti verði hún aldrei bundin við aðra og hærri fjárhæð en sem nemi heimildinni, 3.500.000 krónur. Er á því byggt að stefnanda hafi verið óheimilt að áskilja sér hærri ábyrgð stefndu þann 12. júní 1997 en sem nam yfirdráttarheimildinni og beri, ef þörf krefur, að víkja samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.

 

VI.

             Af hálfu stefnda Ástþórs Auðuns er aðalkrafa um sýknu byggð á eftirtöldum málsástæðum:

             Í fyrsta lagi á því að málið sé höfðað af röngum aðila sem leiða eigi til sýknu stefnda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Er byggt á því að stefnandi geti ekki verið víxilhafi þar sem víxlinum hafi verið ætlað að vera tryggingarvíxill vegna yfirdráttar við Sparisjóð Hafnarfjarðar í Garðabæ sem sé annar lögaðili en stefnandi. Á víxileyðublaðinu komi ekki fram að Sparisjóður Hafnarfjarðar í Garðabæ hafi framselt Sparisjóði Hafnarfjarðar í Hafnarfirði víxilinn.

             Í öðru lagi er byggt á því að víxilrétturinn sé fallinn niður fyrir vangeymslu samkvæmt 53. gr. víxillaga nr. 93/1993, sbr. 10. gr. sömu laga, þar sem víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu á gjalddaga á réttum stað, þ.e. Sparisjóði Hafnarfjarðar, Garðabæ. Stefnandi hafi tilkynnt stefnda um að víxillinn yrði sýndur til greiðslu þann 28. ágúst 2002 í útibúi sínu við Strandgötu, Hafnarfirði. Þá hafi stefnandi tilkynnt um vanskil víxilsins með tilkynningu dagsettri 12. september 2002 þar sem fram komi að víxillinn sé vistaður í Sparisjóði Hafnarfjarðar við Strandgötu með gjalddaga 28. ágúst 2002. Báðar þessar tilkynningar hafi verið bindandi fyrir stefnanda sem hafði þá samkvæmt umboðssamningi aðila ákveðið gjalddagann.

             Í þriðja lagi er byggt á því að útgáfudegi og gjalddaga á fullgildum víxli með gjalddaga 28. 08. 2002 hafi verið breytt án samþykkis stefnda í 10.09.2002 og sé hinn nýi gjalddagi því ekki skuldbindandi fyrir stefnda, sbr. 69. gr. víxillaga og því geti stefnandi ekki byggt aðgerðir sínar er miði við þann gjalddaga og því skuli það leiða til sýknu.

             Í fjórða lagi er byggt á því að prentað form víxilsins beri það með sér að miðað hafi verið við að útgáfudagur og gjalddagi væru á 20. öldinni þar sem 19 standi bæði við útgáfudag og gjalddaga. Telja verði að umboðið hafi ekki veitt heimild til að rita á víxilinn útgáfudag og gjalddaga á 21. öldinni og sé útfylling víxilsins því ekki í samræmi við 10. gr. víxillaga.

             Í fimmta lagi sé byggt á því að heimildarlaust hafi verið fyrir stefnanda að fylla út víxilinn samkvæmt viðfestri yfirlýsingu/umboði enda feli yfirlýsingin í sér ábyrgðarskuldbindingu sem sé fyrnd samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905, jafnframt því sem skuldaábyrgð fyrir yfirdráttarheimild skuli ekki gilda lengur en í fjögur ár frá útgáfudegi samkvæmt 2. mgr. 6. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga

             Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er í fyrsta lagi á því byggt til vara, að krafa stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en 300.000 krónum. Vísar stefndi til röksemda meðstefndu Elísabetar varðandi þessa varakröfu. Verði því að sýkna stefnda af kröfum umfram 300.000 krónum.

Í öðru lagi er byggt á því til vara að krafa stefnanda á hendur stefnda geti aldrei numið hærri fjárhæð en 1.375.000 krónur og eru sömu rök færð fyrir þeirri málsástæðu og reifuð eru hér að framan þar sem málsástæðum stefndu Elísabetar eru gerð skil. Er vísað til þeirrar umfjöllunar.

             Í þriðja lagi er á því byggt til vara að ábyrgð stefndu verði aldrei talin hærri en 3.500.000 krónur og eru sömu rök færð fyrir þeirri málsástæðu og reifuð eru hér að framan þar sem málsástæðum stefndu Elísabetar eru gerð skil. Er vísað til þeirrar umfjöllunar.

             Í fjórða lagi er á því byggt til vara, verði ekki fallist á einhverja framangreindra krafna, að dráttarvextir leggist fyrst við tildæmda kröfu frá 27.12. 2002. Stefnda hafi engin tilkynning borist um samþykkisskort eða greiðslufall víxilsins. Samkvæmt 6. mgr. 45. gr. víxillaga skuli víxilhafi ábyrgjast allt það tjón sem af vanrækslu hans hlýst. Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við þann tíma er mánuður sé liðinn frá þingfestingu málsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

             Lagarök stefnda Ástþórs Auðuns:

             Stefndi byggir kröfur sínar á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991, einkum XVII. kafla laganna og sér í lagi einkum 118. gr. svo og 16. gr. sömu laga. Þá er byggt á víxillögum nr. 93/1933, einkum 53. gr., 10. gr., 69. gr. og 45. gr.. Þá er byggt á lögum nr. 14/1905 um fyrningu og lögum nr. 7/1936 og lögum nr. 38/2001 um vexti. Þá er byggt á almennum kröfuréttarreglum um tómlæti.

Málskostnaðarkrafa er byggð á ákvæðum XXI. kafla einkamálalaga, aðallega 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum.

 

VII.

             Fyrir liggur í málinu að stefndi Ásgeir afhenti stefnanda margnefnt víxilskjal til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi hans nr. 410 hjá stefnanda. og að víxilskjalið var þá undirritað af stefndu öllum og útfyllt að öðru leyti en því að á skjalið hafði hvorki verið færður útgáfudagur né gjalddagi. Með afhendingu víxilskjalsins í þeim búningi sem það þá var veittu stefndu stefnanda umboð til að fylla skjalið út samkvæmt 10. gr. víxillaga nr. 93/1933 og gera það að formgildum víxli, ef á ábyrgð víxilskuldara reyndi. Aðrar takmarkanir voru ekki gerðar á útfyllingarheimild stefnnanda. Á víxileyðublaðið færði stefnandi útgáfudaginn 15. ágúst 2002 og gjalddaga 10. september 2002. Prentað form víxilsins ber með sér að greiðslustaður sé í Sparisjóði Hafnarfjarðar í Garðabæ.

             Samkvæmt ofansögðu fullnægði víxillinn formkröfum 1. sbr. 2. gr. víxillaga og var stefnanda því heimilt að höfða mál þetta á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gegn andmælum stefnanda koma stefndu því ekki öðrum vörnum að í málinu en heimilaðar eru í 118. gr. nefndra laga.

             Eins og áður hefur verið vikið að hreyfðu stefndu eigi þeirri málsástæðu fyrir sýknukröfu í munnlegum málflutningi er lutu að fölsun á nafni stefndu Elísabetar á víxli og umboði eða að tölum á þeim skjölum hefði verið breytt. Lá þá fyrir rannsókn á þeim atriðum sem benti ekki til fölsunar. Ber því að líta svo á að stefndu hafi fallið frá sýknukröfu á grundvelli þessarar málsástæðu og kemur hún því ekki til álita..

             Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10 Hafnarfirði, kennitala 610269-5599, hefur einn aðildarhæfi til að geta verið aðili dómsmáls í skilningi 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Útibú stefnanda í Garðabæ, þar sem umræddur víxill var vistaður, getur ekki verið aðili dómsmáls í þessum skilningi. Með hliðsjón af þessu er ekki fallist á sýknukröfu stefnda Ástþórs Auðuns á grundvelli aðildarskorts stefnanda.

             Stefndu krefjast sýknu á þeim grundvelli að víxilrétturinn hafi fallið niður fyrri vangeymslu þar sem víxillin hafi ekki verið sýndur til greiðslu á umsömdum gjalddaga á réttum stað sbr. 53. gr. sbr. 10. gr. víxillaga. Byggja stefndu á því að stefnandi hafi tilkynnt þeim 15. ágúst 2002 að víxillinn yrði sýndur þann 28. ágúst 2002 í Sparisjóði Hafnarfjarðar við Strandgötu í Hafnarfirði og að á hann yrði settur útgáfudagurinn 15. ágúst 2002 og gjalddaginn 28. ágúst sama ár. Telja stefndu þá tilkynningu hafa verið bindandi fyrir stefnanda sem hefði þá ákveðið gjalddagann á grundvelli umboðssamninga aðila. Eins og áður getur færði stefnandi útgáfudaginn 15. ágúst 2002 og gjalddagann 10. september á víxileyðublaðið. Gjalddaginn 28. ágúst var aldrei færður á víxilinn. Er því ekki fallist á að stefnandi hafi verið bundinn af tilkynningunni 15. ágúst 2002. Ber í þessu sambandi að benda á að stefnanda bar engin skylda til að tilkynna stefndu um útfyllingu víxilsins með þeim útgáfudegi og gjalddaga sem á hann var settur. Er sýknukröfum stefndu á grundvelli þessarrar málsástæðu því hafnað.

             Sýknukrafa stefndu Elísabetar af þeirri ástæðu að hana hafi að lögum skort hæfileika til að taka á sig skuldbindingu er byggð á læknisvottorði Péturs Haukssonar og skýrslu hans fyrir dóminum. Kemur fram í vottorði læknisins að stefnda hafi verið illa á sig komin á umræddum tíma bæði andlega og líkamlega auk þess sem hún hafi neytt mikilla lyfja sem hafi haft áhrif á dómgreind hennar. Þrátt fyrir vottorð geðlæknisins, sem rakið var hér að framan og framburð hans fyrir dómi, þykir gegn andmælum stefnanda varhugavert að telja lögfulla sönnun komna fram fyrir því að stefndu Elísabetu hafi á þeim tíma er hún ritaði undir víxileyðublaði og viðfest umboð, að lögum skort hæfileika til að taka á sig skuldbindingu. Hefði borið nauðsyn að afla mats dómkvaddra matsmanna varðndi þetta atriði. Verður sýknukrafa stefndu því eigi tekin til greina á þessum forsendum

             Sýknukröfu stefnda Ástþórs Auðuns sem er reist á því að útgáfudegi og gjalddaga víxilsins hafiv erið breytt án samþykkis stefndu, sbr. 69. gr. víxillaga er hafnað enda ber víxillinn slíka breytingu ekki með sér.

             Sýknukröfu stefnda Ástþórs Auðuns sem er byggð á því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að rita á víxilinn útgáfudag og gjalddaga á 21. öld er hafnað, enda fólst í umboðinu óskilyrt heimild til að færa þessa daga á víxileyðublaðið og þar með strika yfir tölustafina 19 sem voru staðaltölur í víxileyðublöðum á 20. öld.

             Varnir stefnda Ástþórs Auðuns sem byggjast á því að stefnanda hafi verið óheimilt að fylla víxilinn út samkvæmt viðfestu umboði þar sem ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið fyrnd samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905 eða að útfyllingarheimildin hafi fallið niður þar sem sem meira en fjögur ár voru liðin frá útgáfudegi ábyrgðar vegna yfirdráttarheimildar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. samkomulags frá 27. janúar 1998 milli íslenska ríkisins, Neytendasamtakanna, sambands íslenskra viðskiptabanka og sambands íslenskra sparisjóða o.fl. um notkun sjálfskuldarábyrgða, komast ekki að í máli samkvæmt XVII. kafla víxillaga gegn andmælum stefnanda. Er sýknukröfu á þessum grundvelli því hafnað.

             Varnir stefndu Elísabetar samkvæmt varakröfum 1-3 byggjast á lögskiptum að baki víxlinum og komast þær því ekki að í víxilmáli samkvæmt XVII. kafla víxillaga gegn andmælum stefnanda.

             Varnir stefnda Ástþórs Auðuns samkvæmt varakröfum 1-3 byggjast á lögskiptum að baki víxlinum og komast þær því ekki að í víxilmáli samkvæmt XVII. kafla víxillaga gegn andmælum stefnanda.

             Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi höfðað mál til greiðslu á fullgildum víxli að formi til með óskoruðum víxilrétti. Ber því samkvæmt 47. gr. víxillaga að dæma stefndu in solidum til greiðslu víxilfjárhæðarinnar með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr. einkamálalaga ber að dæma stefndu in solidum til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

             Stefndu Elísabetu hefur verið veitt gjafsóknarleyfi í málinu. Greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Jóns Ögmundssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur.

             Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.

DÓMSORÐ:

             Stefndu, Ásgeir Vilhjálmsson, Elísabet Árnadóttir, Baldur Ingvarsson og Ástþór Auðunn Snjólaugsson, greiði stefnanda, Sparisjóði Hafnarfjarðar, in solidum 6.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. september 2002 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.

             Allur gjafsóknarkostnaður stefndu Elísabetar Árnadóttur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Jóns Ögmundssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.