Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2014

Vörður tryggingar hf. (Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
A (Karl Ó. Karlsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkubætur
  • Slysatrygging ökumanns


Skaðabætur. Líkamstjón. Örorkubætur. Slysatrygging ökumanns.

A hlaut líkamstjón er hann varð fyrir slysi við akstur fjórhjóls árið 2006. Vátryggjandi, ökutækisins, V hf., greiddi honum skaðabætur úr slysatryggingu ökumanns og var bótafjárhæð vegna varanlegrar örorku hans reist á meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ahöfðaði mál á hendur V hf. til heimtu frekari skaðabóta þar sem hann taldi að ákvarða bæri árslaun sín á grundvelli 2. mgr. sömu greinar með hliðsjón af meðallaunum atvinnuflugmanna í F, með skírskotun til þess að hann hefði á slysdegi verið nærri því að ljúka tilskildu námi í því skyni að starfa sem atvinnuflugmaður. Skilyrði voru ekki talin standa til þess að meta árslaun A sérstaklega samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði, enda hefði því í dómaframkvæmd verið hafnað að aðstæður tjónþola, sem á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hefði ekki nýtt starfsrétti á grundvelli menntunar til að afla hærri tekna en hann naut í raun, gæti átt undir 2. mgr. sömu greinar. Var V hf. því sýknað af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að stefndi varð fyrir slysi 22. júlí 2006 við akstur fjórhjóls, en vátryggingar vegna ökutækisins, þar á meðal slysatrygging ökumanns, höfðu verið keyptar hjá áfrýjanda. Við slysið hlaut stefndi veruleg meiðsl í baki og gekkst hann af þeim sökum þrívegis undir skurðaðgerð á árunum 2006 og 2008. Aðilarnir óskuðu 25. ágúst 2008 sameiginlega eftir örorkumati tveggja manna, sem lokið var 27. janúar 2009. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnda hafi orðið stöðugt 13. mars 2008, en frá slysdegi hafi hann með öllu verið óvinnufær til 1. maí 2007, að hálfu frá þeim degi til 28. janúar 2008 og aftur að fullu frá þeim degi þar til stöðugleika var náð. Hann hafi á öllu þessu tímabili verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, þar af rúmfastur 12 daga. Varanlegur miski hans var metinn 30 stig og varanleg örorka 30%.

Að fengnu þessu örorkumati krafði stefndi áfrýjanda 20. febrúar 2009 um bætur að fjárhæð samtals 38.261.150 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði, en að teknu tilliti til innborgunar áfrýjanda, sem hafi ásamt vöxtum numið 1.877.028 krónum. Að undangengnum bréfaskiptum milli aðilanna gengu þeir til uppgjörs 24. júlí 2009, en samkvæmt því nam heildarfjárhæð bóta til stefnda 15.506.576 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Stefndi tók við þessari greiðslu með fyrirvara í fyrsta lagi um fjárhæð launa, sem tekið væri mið af við útreikning bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, og frádrátt frá þeim bótum, í öðru lagi árslaun, sem útreikningur bóta fyrir varanlega örorku væri reistur á, og í þriðja lagi stigatölu varanlegs miska og varanlegrar örorku samkvæmt niðurstöðum örorkumatsins.

Stefndi höfðaði mál þetta 22. október 2012 til heimtu bóta að fjárhæð 22.040.879 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. mars 2008 til 14. ágúst 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þessi krafa stefnda snýr eingöngu að fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku af völdum slyssins, en í fyrrnefndu uppgjöri aðilanna höfðu þær bætur, sem námu 9.069.837 krónum, verið reiknaðar á grundvelli meðalatvinnutekna stefnda árin 2003 til 2005, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem voru taldar að fjárhæð 2.228.078 krónur. Af ástæðum, sem nánar greinir frá hér á eftir, telur stefndi að meta eigi árslaun í þessu skyni sérstaklega eftir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga með tilliti til meðallauna flugmanna í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þau laun séu hærri en sem svari hámarkslaunum til viðmiðunar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og leggur stefndi því til grundvallar við útreikning dómkröfu sinnar þau hámarkslaun framreiknuð til 13. mars 2008 eftir 15. gr. skaðabótalaga, sem svari til árslauna að fjárhæð 7.642.500 krónur. Því til samræmis telur stefndi að bætur fyrir varanlega örorku eigi að verða 31.110.716 krónur, en að frádregnum fyrrnefndum 9.069.837 krónum, sem áfrýjandi hefur greitt stefnda í þessu skyni, fæst áðurgreind fjárhæð dómkröfu hans í málinu. Hvorki er deilt um bótaskyldu áfrýjanda né útreikning á kröfu stefnda.

 

 

II

Samkvæmt gögnum málsins lagði stefndi, sem er fæddur 1979, um skeið stund á nám að loknu grunnskólaprófi við Menntaskólann […] og Iðnskólann í Reykjavík, en starfaði síðan […] við rafvirkjun. Hann lauk í desember 1999 bóklegum prófum til að öðlast einkaflugmannsréttindi, sem hann mun svo hafa fengið á árinu 2000. Í framhaldi af því gekkst stefndi undir bóklegt nám á atvinnuflugmannsnámskeiði hjá Flugskóla Íslands hf., sem mun hafa verið fólgið í um 730 klukkustunda skólasókn, og lauk því með prófum 2. apríl 2002. Að því búnu hlaut hann verklega þjálfun, sem að lágmarki þurfti að nema 25 klukkustundum, og gekkst síðan undir próf til að öðlast réttindi sem atvinnuflugmaður, sem hann fékk 18. september 2002. Í málinu er fram komið að þau réttindi hafi þó ekki nægt til að fullnægja kröfum, sem gerðar voru á þeim tíma við ráðningu atvinnuflugmanna til starfa á grundvelli reglugerðar nr. 419/1999 um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, því að auki hafi þurft að ljúka annars vegar 55 klukkustunda þjálfun í blindflugi og verklegu prófi í því og hins vegar 45 klukkustunda bóklegu námi og verklegri þjálfun í fjöláhafnarsamstarfi. Samkvæmt vottorði Flugskóla Íslands hf. hafði stefndi lokið þessari þjálfun í blindflugi og jafnframt bóklegu námi vegna fjöláhafnarsamstarfs áður en hann varð fyrir slysinu 22. júlí 2006 og hafi hann því á þeim tíma „verið um 2 vikur frá því að öðlast þau réttindi sem hann stefndi að.“ Samkvæmt málatilbúnaði stefnda gekkst hann undir þjálfun í blindflugi á tímabilinu 8. apríl til 10. júní 2006, en fyrst að því loknu hefði honum verið heimilt að hljóta verklega þjálfun í fjöláhafnarsamstarfi. Þá liggur fyrir í málinu að stefndi hafi einnig hlotið réttindi til að starfa við flugkennslu, að því er virðist 2004, svo og að hann hafi nýtt þau réttindi í starfi hjá Flugskóla Íslands hf. frá því á árinu 2005.

Samkvæmt skattframtali stefnda 2004 námu launatekjur hans á árinu 2003 alls 1.485.609 krónum, sem greiddar voru af fyrirtæki með heitinu […] sf., en af yfirliti um staðgreiðslu opinberra gjalda hans 2003 verður ráðið að teknanna hafi verið aflað með vinnu alla mánuði þess árs. Samkvæmt skattframtali 2005 voru launatekjur hans á árinu 2004, að fjárhæð 1.742.607 krónur, einnig greiddar af sama fyrirtæki og var staðgreiðsla opinberra gjalda vegna þeirra innt af hendi alla mánuði þess árs að undanskildum febrúar og mars. Eftir skattframtali 2006 námu launatekjur hans 2005 samtals 1.456.701 krónu, en þar af greiddi fyrrnefnt fyrirtæki 940.106 krónur, Flugskóli Íslands hf. 466.020 krónur og fæðingarorlofssjóður 50.575 krónur. Af yfirliti um staðgreiðslu opinberra gjalda stefnda á árinu 2005 verður ráðið að hann hafi aflað framangreindra tekna frá […] sf. í mánuðunum janúar til maí og frá Flugskóla Íslands hf. í mars og frá maí til desember, en greiðsla úr fæðingarorlofssjóði hafi verið innt af hendi í nóvember. Loks er þess að geta að á slysárinu 2006 voru launatekjur stefnda samtals 638.828 krónur eftir skattframtali hans 2007, en af þeirri fjárhæð greiddi […] sf. 161.340 krónur, Flugskóli Íslands hf. 423.684 krónur og fæðingarorlofssjóður 53.804 krónur. Í yfirliti um staðgreiðslu opinberra gjalda af þessum tekjum kemur fram að hjá […] sf. hafi þeirra verið aflað í júní 2006 og Flugskóla Íslands hf. mánaðarlega frá janúar til ágúst sama ár, en úr fæðingarorlofssjóði hafi stefndi fengið greiðslur í maí og júní.

Eftir slysið 22. júlí 2006 lauk stefndi prófi í rafvirkjun við Tækniskólann og fékk sveinsbréf í þeirri iðngrein 10. júní 2011. Þá mun hann hafa lokið verklegu prófi í blindflugi á árinu 2012, svo og námi og verklegri þjálfun í fjöláhafnarsamstarfi 17. október sama ár, en frá þeim tíma mun hann hafa fullnægt öllum skilyrðum til að fá starf sem atvinnuflugmaður. Um atvinnu stefnda eftir slysið liggja ekki fyrir teljandi upplýsingar, en eftir skattframtölum aflaði hann launatekna að fjárhæð 403.537 krónur á árinu 2007, 835.614 krónur 2008, 984.626 krónur 2009, 692.398 krónur 2010 og 1.309.169 krónur 2011. Þessar tekjur fékk hann fjögur fyrstu árin að öllu leyti frá Flugskóla Íslands hf., en á því síðasta frá þeim sama og […] sf. Samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti hefur hann eftir 17. október 2012 sótt um störf sem atvinnuflugmaður, en ekki orðið ágengt.

III

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku að meginreglu leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag og skulu þær fjárhæðir framreiknaðar til samræmis við breytingar á launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar tjónþola verður stöðugt. Hvorki skal þó reikna bæturnar út með tilliti til lægri atvinnutekna en greindar eru í 3. mgr. þessarar lagagreinar né hærri tekna en segir í 4. mgr. hennar. Frá framangreindri reglu 1. mgr. 7. gr. er gerð undantekning í 2. mgr. 7. gr., þar sem mælt er svo fyrir að árslaun skuli meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Samkvæmt dómaframkvæmd ber tjónþoli, sem reisir kröfu um bætur á síðastnefndu lagaákvæði, sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum þess sé fullnægt.

Í málinu ber stefndi því við að skilyrði séu til að ákveða honum skaðabætur vegna varanlegrar örorku eftir framangreindri reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þegar metið er hvort aðstæður stefnda hafi verið óvenjulegar í skilningi þessa ákvæðis verður að líta til þess að hann var nýlega orðinn 27 ára að aldri þegar hann varð fyrir slysinu 22. júlí 2006. Á þeim tíma virðist stefndi hafa um árabil verið á vinnumarkaði án þess að hafa þó lokið sérstöku starfsnámi fyrr en á árinu 2002, þegar hann fékk sem áður segir réttindi sem atvinnuflugmaður, auk þess sem hann mun hafa hlotið réttindi til starfa sem flugkennari 2004. Eins og ráðið verður af áðurgreindu nýtti stefndi þessi síðastnefndu réttindi til að afla nokkurra launatekna á árunum 2005 og 2006, svo og á því tímabili eftir slysið, sem gögn málsins taka til, en fyrir slysið virðist þetta ekki hafa leitt til hækkunar á heildartekjum hans. Í málinu eru engar upplýsingar um tekjur stefnda á árunum fyrir 2003, en þær hafa á hinn bóginn lækkað á tímabilinu frá slysinu í samanburði við næstu þrjú árin á undan. Að þessu virtu er ekki unnt að líta svo á að stefndi hafi sýnt fram á að nám hafi svo að máli skipti sett mark á getu hans til að afla atvinnutekna á árunum 2003, 2004 og 2005, sem að öðru óbreyttu ætti að taka mið af við ákvörðun skaðabóta handa honum vegna varanlegrar örorku eftir meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Þegar metið er hvort ætla megi að breytingar hafi staðið fyrir dyrum 22. júlí 2006 á framtíðartekjum stefnda verður að gæta að því að hann fékk sem fyrr segir réttindi til að starfa sem atvinnuflugmaður 18. september 2002, sem hefðu þó ekki nýst honum til að leita vinnu á þeim vettvangi hér á landi án þess að hann lyki að auki námskeiðum í blindflugi og svonefndu fjöláhafnarsamstarfi. Eftir gögnum málsins hefði hann orðið að verja 100 klukkustundum í bóknám og verklega þjálfun til að ljúka þeim námskeiðum. Á slysdegi hafði stefndi haft nærri fjögur ár til að gera það og eiga þannig kost á atvinnu, sem þessi menntun hans stóð til, en engar haldbærar skýringar hafa komið fram á því hvað valdið hafi að af því hafi ekki orðið. Í dómaframkvæmd hefur því verið hafnað að aðstæður tjónþola, sem á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hefur ekki nýtt starfsréttindi á grundvelli menntunar til að afla hærri tekna en hann naut í raun, geti átt undir 2. mgr. sömu lagagreinar, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 2. desember 2004 í máli nr. 265/2004 og 8. júní 2006 í máli nr. 517/2005. Verður að leggja þetta að jöfnu við aðstæður stefnda, sem að framan greinir.

Samkvæmt þessu hefur stefndi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að beita reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun skaðabóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins 22. júlí 2006. Óumdeilt er að áfrýjandi hafi þegar staðið stefnda skil á slíkum bótum, sem reiknaðar voru eftir fyrirmælum 1. mgr. 7. gr. laganna, og verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður látið standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað hans hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 750.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 3. október sl. var höfðað 22. október 2012 af A, […] gegn Verði tryggingum hf., Borgartúni 25 í Reykjavík til greiðslu skaðabóta.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 22.040.879 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 22.040.879 krónum frá 13. mars 2008 til 14. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar, hver sem úrslit málsins verða, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Til vara er þess krafist að dómkrafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi lenti í slysi á fjórhjóli 22. júlí 2006 er hann ók ofan í lækjarfarveg sem klauf sandfjöru sem hann ók eftir í […]. Slysið var alvarlegt, en það varð stefnanda til happs að læknir og hjúkrunarfræðingur voru nærstödd sem gátu hlúð að honum og veitt fyrstu hjálp þar til unnt var að flytja hann á sjúkrahús.

Að beiðni lögmanns stefnanda og stefnda var B lækni og C hrl. falið að meta afleiðingar slyssins með tilliti til ákvæða skaðabótalaga. Í álitsgerð þeirra 27. janúar 2009, var varanlegur miski stefnanda metinn til 30 stiga og varanleg örorka 30%. Tímabil þjáningarbóta var metið frá 22. júlí 2006 til 13. mars 2008, þar af taldist stefnandi hafa verið rúmfastur frá 22. júlí 2006 til 30. júlí 2006 og aftur frá 29. janúar 2008 til 31. janúar 2008. Tímabil tímabundins atvinnutjóns var metið 100% frá 22. júlí 2006 til 1. maí 2007, 50% frá 2. maí 2007 til 28. janúar 2008, og 100% frá 29. janúar 2008 til 13. mars 2008. Heilsufar stefnanda var talið hafa orðið stöðugt þann 13. mars 2008.

Þegar niðurstaða matsmanna lá fyrir freistuðu aðilar þess að ljúka málinu með samkomulagi. Stefnandi vildi við uppgjör bóta byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þannig að árslaun yrðu metin sérstaklega, til útreiknings bóta vegna varanlegrar örorku, en stefndi vildi byggja á meginreglu 1. mgr. sömu greinar og taka mið af meðalatvinnutekjum næstliðinna ára.

Um þennan ágreining snýst mál þetta. Tildrög slyssins og afleiðingar þess fyrir stefnanda eru óumdeildar, svo og bótaábyrgð stefnda vegna slyssins.

Þegar slysið varð 22. júli 2006 var stefnandi nýorðinn 27 ára gamall og hafði lokið einkaflugmannsprófi og atvinnuflugmannsprófi og var við það að ljúka blindflugsprófi og prófi í fjöláhafnarsamstarfi, sem hann lagði stund á hjá Flugskóla Íslands. Samhliða námi starfaði hann í hlutastarfi sem flugkennari og einnig að hluta til við rafvirkjun hjá […] sf. Árið 2003 fékk hann 1.485.609 krónur í árslaun og hann fékk árið 2004 1.742.607 krónur í árslaun frá sama atvinnuveitanda. Árið 2005 fékk hann greidd laun frá […] sf., en einnig frá fæðingarorlofssjóði og Flugskóla Íslands hf. samtals 1.456.701 króna. Upplýst er og óumdeilt að stefnandi hafði samhliða vinnu lagt stund á flugnám. Hann hafði öðlast atvinnuflugmannsréttindi árið 2002 og síðan starfað við flugkennslu og verið að vinna sér inn nægjanlega áskilda reynslu í flugi til að vera heimilt að þreyta próf í blindflugi og ljúka námskeiði í fjöláhafnarsamstarfi. Stefnandi hafði ekki lokið þessum prófum þegar slysið varð. Hann hafði þá ekki lokið stúdentsprófi, en hafði að mati menntamálaráðuneytisins nám og námstengda starfsreynslu sem meta megi hliðstæða undirbúningi stúdentsprófs til frekari starfa eða menntunar á sérsviði hans. Þá hafði stefnandi ekki lokið námi í rafvirkjun, en hann hafði unnið við rafvirkjun hjá […] sf.

Stefnandi leggur til grundvallar kröfu sinni að framtíðarstarf hans væri flugmannsstarf og að líta verði til launaviðmiðs í starfsgrein flugmanna, sem sé réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans en meðaltalstekjur þrjú almanaksárin fyrir slys. Leitað var til Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) um upplýsingar um meðallaun þeirra flugmanna sem greitt hefði verið af til FÍA í marsmánuði 2008 (tímamarki stöðugleika). Samkvæmt svari FÍA eru meðalmánaðarlaun flugmanna samkvæmt skilagreinum frá Icelandair og Flugfélagi Íslands fyrir mars 2008 711.347 krónur eða 8.536.164 krónur á ársgrundvelli. Að teknu tilliti til 18% mótframlags í lífeyrissjóð, nemur árslaunaviðmið, sé tekið mið af launum 352 flugmanna hjá þessum tveimur flugrekendum, 10.072.674 krónum. Sé tekið mið af öllum atvinnuflugmönnum sem greiddu til FÍA á sama tíma, 553 flugmenn hjá 11 félögum, er árslaunaviðmið 9.961.149 krónur. Hámarksviðmið samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að teknu tilliti til hækkunar verðbóta var þá 7.642.500 kr.

Gengið var til uppgjörs bóta vegna slyssins með samkomulagi þann 24. júlí 2009. Þar sem ekki var samkomulag um árslaunaviðmið við útreikning varanlegrar örorku voru bætur mótteknar með fyrirvara. Frá því að bótauppgjör fór fram á árinu 2009 munu hafa orðið þær breytingar á högum stefnanda að hann hafi lokið sveinsprófi í rafvirkjun frá Tækniskólanum 10. júní 2011 og stundi nám í Háskólanum í Reykjavík í rafiðnfræði frá hausti 2011. Samhliða námi hafi stefnandi starfað sem flugkennari, en búið við takmörkun í heilbrigðisskírteini vegna afleiðinga slyssins þar til 19. júlí 2012. Eftir að takmörkuninni hafi verið aflétt hafi hann lokið á árinu 2012 blindflugsprófi á tveggja hreyfla flugvél (MEP) og fjöláhafnarsamstarfsnámi (MCC).

Málsástæður og lagarök stefnanda

Um grundvöll bótaábyrgðar vísi stefnandi til XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, en samkvæmt 92. gr. laganna skuli hver ökumaður skráningarskylds ökutækis, tryggður sérstakri slysatryggingu. Í 1. mgr. 91. gr. sé kveðið á um að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hljótist af notkun skráningarskylds ökutækis skuli vera tryggð með ábyrgðatryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi. Er slys stefnanda hafi orðið hafi ökutækið […] verið vátryggt hjá stefnda Verði tryggingum hf. Ekki sé deilt um bótaskyldu í máli þessu heldur útreikning bótafjárhæðar.

Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda samkvæmt 5-8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, samkvæmt uppgjöri við stefnda þann 24. júlí 2009, hafi verið lagt til grundvallar margfeldi meðaltalslauna stefnanda þrjú almanaksár fyrir slys, verðbætt til stöðugleikapunkts og að viðbættum 6% árin 2005 og 2006 og 7% árið 2007 vegna mótframlags í lífeyrissjóð, samtals 2.228.078 krónur, stuðulsins 13,569 og 30% metinnar örorku. Hafi bætur vegna varanlegrar örorku samkvæmt því verið samtals 9.069.837 krónur á stöðugleikapunkti þann 13. mars 2008. Ágreiningur standi um það hvaða árslaunaviðmið eigi að leggja til grundvallar útreikningi varanlegrar örorku.

Krafa stefnanda byggi á því að ekki fái staðist að leggja til grundvallar ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku meðaltalslaun stefnanda þrjú almanaksárin fyrir slys samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Beita beri þeirri reglu sem fram komi í 2. mgr. 7. gr. sömu laga og ákvarða árslaunaviðmið stefnanda sérstaklega, en í því sambandi beri m.a. að leggja til grundvallar að þegar stefnandi hafi orðið fyrir hinu alvarlega slysi hafi hann lokið einkaflugmannsprófi og atvinnuflugmannsprófi, en verið við það að ljúka blindflugs- og fjöláhafnarsamstarfsnámi sem hann hafi lagt stund á við Flugskóla Íslands. Samhliða blindflugs- og fjöláhafnasamstarfsnámi sínu á árinu 2006 hafi stefnandi unnið í hlutastarfi sem flugkennari og fengið greidd laun eftir fjölda kennslufluga hverju sinni. Að auki hafi hann sinnt hlutastarfi í rafvirkjun í maí og júní sama ár. Fyrir liggi staðfestingar frá Flugskóla Íslands 20. maí 2009 og 9. febrúar 2012, en í þeirri síðarnefndu segi m.a. eftirfarandi um stöðu náms stefnanda:

[A] ... stundaði atvinnuflugmanns, blindflugs- og fjöláhafnarsamstarfsnám við Flugskóla Íslands á tímabilinu 2002-2006. [A] lenti í slysi þann 22. júlí 2006 sem olli því að honum var ómögulegt að ljúka blindflugsnámi sínu og námskeiði í áhafnarsamstarfi en námskeið þessi og þau réttindi sem þeim fylgja eru meðal krafna sem flugrekendur setja við ráðningu atvinnuflugmanna til starfa.

Þau réttindi sem [A] sótti krefjast að tilskyldri lágmarksþjálfun sé lokið áður en nemandi fær að þreyta próf á vegum Flugmálastjórnar Íslands.

Undanfari þess að geta hafið verklegt atvinnuflugmanns- og blindflugsnám er að hafa lokið bóklegu atvinnuflugmannsnámskeiði sem telur um 730 klst. hjá Flugskóla Íslands. Námskeið þetta lýkur með því að nemandinn þreytir bókleg próf í flugfræðum hjá Flugmálastjórn Íslands (FMS) í samræmi við samevrópska staðla (JAR-FCL). [A] lauk þessum hluta námsins þann 02.04.2002.

Lágmarks tímakröfur í verklegu atvinnuflugmanns-, blindflugsnámi auk námskeiðs í fjöláhafnarsamstarfi eru sem hér segir:

Atvinnuflugmannsþjálfun (CPL): 25 klst., þar af 11 klst. á fjölhreyfla flugvél.

Blindflugsþjálfun (IR): 40 klst. í flugaðferðarþjálfa auk 15 klst. á fjölhreyfla flugvél.

Námskeið í fjöláhafnarsamstarfi (MCC): 25 klst bókleg þjálfun auk 20 klst í flugaðferðarþjálfa.

[A] lauk atvinnuflugmannsþjálfun sinni eftir 25,1 klst þjálfun auk þess sem hann lauk atvinnuflugmannsprófi með prófdómara frá FMS þann 18.9.2002. Frá þeim degi hefur hann verið handhafi atvinnuflugmannsréttinda.

[A] hafði lokið 60,1 klst í blindflugsþjálfun sinni og því uppfyllt kröfur um þjálfun og var í raun kominn á þann stað í námi sínu að fara í lokapróf með prófdómara FMS sem hefði veitt honum tilskilin réttindi.

[A] hafði lokið bóklegum hluta námskeiðs í fjöláhafnarsamstarfi 25 klst og vantaði einungis þann hluta sem fer fram í flugaðferðarþjálfa en undanfari þeirrar þjálfunar er að hafa lokið áðurnefndu blindflugsprófi.

Vegna slyss þess sem [A] lenti í reyndist honum ekki unnt að ljúka þjálfun á þeim tíma. Er það mat okkar að [A] hafi verið um 2 vikur frá því að öðlast þau réttindi sem hann stefndi að.

Í bréfi Flugmálastjórnar Íslands til lögmanns stefnanda 2. desember 2011, segi m.a. um stöðu náms stefnanda:

Samkvæmt staðfestingu frá Flugskóla Íslands dagsettri 20. maí 2009 var [A] langt kominn með blindflugsnám fyrir fjölhreyflaflugvél þegar hann lenti í slysi þann 22. júlí 2006. Til að fá í skírteini sitt blindflugsáritun fyrir fjölhreyflaflugvél hefði [A] þurft að ljúka því námi með útskrift frá flugskólanum og standast færnispróf hjá Flugmálastjórn Íslands. Hvað varðar námskeið í áhafnarsamstarfi (MCC) þá var [A] skv. áðurnefndri staðfestingu Flugskóla Íslands búinn með bóklega hluta námskeiðsins. Til að klára námskeiðið hefði [A] einnig þurft að ljúka verklega hluta námskeiðsins sem er að lágmarki 20 tímar í þjálfun í áhafnarsamstarfi.

Í bréfi menntamálaráðuneytisins til stefnanda, dags. 29. apríl 2009, í tilefni af beiðni stefnanda um mat á námi sínu með hliðsjón af stúdentsprófi, komi fram að nám og námstengda starfsreynslu stefnanda megi meta sem sambærilega stúdentsprófi hvað lengd varði.

Þegar stefnandi hafi orðið fyrir því slysi sem mál þetta varði hafi hann haft að baki 896 flugtíma. Atvinnuflugmenn verði að vera með gilt heilbrigðisvottorð útgefið af fluglækni á vegum Flugmálastjórnar Íslands, svokallað heilbrigðisvottorð 1. flokks, líkt og stefnandi hafi haft þegar slysið hafi orðið. Þegar stefnanda hafi verið heimilað að snúa aftur til flugkennarastarfa hafi heilbrigðisvottorð hans í fyrstu verið takmarkað vegna afleiðinga slyssins við að öryggisflugmaður væri ávallt um borð og að hann flygi einungis einshreyfilsflugvélum (SEP) búnum tvöföldum stjórntækjum. Síðar og fram til 19. júlí 2012 hafi heilbrigðisvottorðið verið bundið við það að stefnandi flygi einungis einshreyfilsflugvélum. Þessi takmörkun hafi verið tilkomin vegna þeirrar kraftminnkunar sem stefnandi glími við í ganglimum í kjölfar slyssins. Stefnandi hafi bundið vonir við að takmörkuninni yrði síðar aflétt, svo hann gæti klárað það nám sem hann hafi verið í þegar slysið varð. Þau áform hafi gengið eftir og hafi kennsluréttindi stefnanda þar skipt sköpum. Stefnandi glími þó enn við afleiðingar slyssins, þ.m.t. kraftminnkun í fótum og verki.

Með hliðsjón af framangreindu, kröfum flugrekenda og fordæmum Hæstaréttar hvað varði ákvörðun árslaunaviðmiðs samkvæmt skaðabótalögum í þeim tilvikum þegar tjónþoli sé við nám þegar slys beri að höndum, sé á því byggt að beita eigi reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og meta árslaun stefnanda sérstaklega og með hliðsjón af meðallaunum í þeirri starfsgrein sem stefnandi hafi verið að ljúka námi í þegar slysið hafi orðið og stefnandi hafi haft framtíðaráform um að starfa við, starfsgrein atvinnuflugmanna, enda megi ætla að sá mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda, í skilningi skaðabótalaga. Engar forsendur séu til að beita reglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og stefndi hafi gert. Stefnandi hafi unnið hlutastarf í rafiðn á árinu 2004 og hlutastörf í rafiðn og sem flugkennari á árinu 2005, auk þess að fara í fæðingarorlof á árinu 2005 og 2006.

Engar opinberar upplýsingar liggi fyrir um meðaltekjur atvinnuflugmanna á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), eina stéttarfélagi atvinnuflugmanna á Íslandi, hafi meðallaun allra atvinnuflugmanna sem greitt var af til félagsins í mars 2008 (tímabili stöðugleika) verið 703.471 króna. Á ársgrundvelli hafi meðallaun flugmanna verið 8.441.652 krónur, eða 9.961.149 krónur, að teknu tilliti til 18% kjarasamningsbundins mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Sú fjárhæð sé talsvert yfir hámarksárslaunaviðmiði 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en hámarksárslaunaviðmið á stöðugleikapunkti hafi verið 7.642.596 krónur (4.500.000 /3282*5574) og sé sú fjárhæð lögð til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku. Krafa stefnanda sundurliðist samkvæmt framangreindu með svofelldum hætti:

Bætur vegna varanlegrar örorku:

7.642.500 krónur * 13,569 * 30%                                              31.110.716 krónur

Frádráttur: Innborgun stefnda Varðar 24.7.2009         -9.069.837 krónur

                                                           Krafa samtals                      22.040.879 krónur

Að gefnu tilefni og vegna rökstuðnings stefnda fyrir þeirri ákvörðun að hafna því að miða árslaunaviðmið við meðaltekjur atvinnuflugmanna á Íslandi, vilji stefnandi árétta að það skipti engu máli fyrir úrlausn máls þessa að stefnandi hafi ekki hlotið tékk á flugvélar sem notaðar séu í áætlunarflugi þegar slysið hafi orðið, að margir einstaklingar sem lokið hafi atvinnuflugmannsprófi starfi ekki sem flugmenn, sú staðreynd að stefnandi hafi haft atvinnuflugmannsréttindi í þrjú ár fyrir slys eða að stefnandi hafi verið 27 ára gamall þegar slysið hafi orðið. Þegar slysið hafi orðið hafi stefnandi verið við það að ljúka námi sem hefði gefið honum ótakmarkaða möguleika til þess að feta fyrirhugaða braut atvinnuflugmannsins. Hann hafi þá verið í hlutastarfi með námi. Gögn málsins sýni, sbr. fyrirliggjandi auglýsingu stærsta flugrekanda á Íslandi, Icelandair, sem hafi birst í fjölmiðlum á Íslandi í októbermánuði 2011, þar sem óskað hafi verið eftir flugmönnum til starfa hjá félaginu, að stefnandi hafi uppfyllt við slysið öll skilyrði ráðningar að tveimur frátöldum. Flugrekendur krefjist þess að umsækjendur hafi gilt atvinnuflugmannsskírteini með blindflugsáritun fyrir tveggja hreyfla flugvél, hafi lokið bóklegu námi til réttinda atvinnuflugmanns 1. flokks, hafi lokið námskeiði í áhafnarsamstarfi (MCC), búi yfir 500 fartíma lágmarksreynslu og hafi lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi. Það sem skorti í tilviki stefnanda samkvæmt framangreindri upptalningu hafi verið blindflugsáritun og að hafa lokið áhafnarsamstarfsnámi (MCC), hvort tveggja atriði sem stefnandi hafi verið við það að ljúka þegar slysið hafi orðið. Þó að tilvitnuð auglýsing sé frá árinu 2011 þá endurspegli hún þær kröfur sem flugrekendur gerðu og geri til umsækjenda um flugmannsstörf. Viðmið við meðaltekjur atvinnuflugmanna sé þannig bæði rétt, sanngjarnt og eðlilegt viðmið við ákvörðun árslaunaviðmiðs til útreiknings bóta fyrir varanlega örorku í tilviki stefnanda.

Verði ekki á þetta fallist sé þess krafist að árslaunaviðmið verði metið að álitum. Í því sambandi bendi stefnandi á að vegna afleiðinga slyssins hafi hann þurft að feta aðra braut með því að klára iðnnám á árinu 2011. Meðalmánaðartekjur iðnaðarmanna á árinu 2008 séu samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands 484.000 krónur, eða 5.808.000 krónur á ársgrundvelli. Að teknu tilliti til 8% mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð myndi árslaunaviðmið samkvæmt þeim mælikvarða nema 6.272.640 krónum. Því til viðbótar vilji stefnandi benda á að fordæmi séu fyrir því að viðmið við fleiri en eina starfsgrein ákvarði árslaunaviðmið og því komi til álita t.a.m. viðmið við starfsgrein iðnaðarmanna og flugmanna.

Um lagarök vísi stefnandi til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1997, einkum XIII. kafla. Um forsendur og útreikning bótakröfunnar vísi stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., og 15. gr. Krafan um vexti styðjist við 16. gr. skaðabótalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, og um dráttarvexti og vaxtavexti við III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Upphafsdagur vaxta samkvæmt skaðabótalögum miðist við stöðugleikapunkt, en upphafsdagur dráttarvaxta við þann dag þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnda hafi borist viðbótar rökstuðningur og gögn í framhaldi af bótakröfu stefnanda.

Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn að tekið sé tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Stefnanda hafi með bréfi innanríkisráðuneytis, dags. 20. september 2012, verið veitt gjafsókn í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir umfangi meints tjóns sem hann telji eiga rót að rekja til óhapps þess sem hann hafi orðið fyrir þann 22. júlí 2006, umfram það tjón sem hann hafi þegar fengið bætt. Slík sönnun liggi ekki fyrir. Stefndi hafi bætt stefnanda tjón vegna varanlegrar örorku hans sem og af öðrum toga. Hvað varanlega örorku snerti telji stefndi að byggja beri útreikninga á meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, að leggja beri til grundvallar meðalatvinnutekjur stefnanda að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón hafi orðið, sem í tilfelli stefnanda feli í sér meðaltal áranna 2003, 2004 og 2005. Stefnandi hafi hins vegar viljað byggja á meðallaunum starfsstéttar sem hann hafi ekki átt samleið með hingað til, atvinnuflugmanna. Þessa kröfu styðji stefnandi öðrum þræði við að hann hafi sökum náms verið með takmarkaða þátttöku á vinnumarkaði og hins vegar að nám hans sé þess eðlis að horfa beri til þess starfsvettvangs sem flugnám hans hefði mögulega opnað honum.

Af hálfu stefnda áréttist sönnunarbyrði stefnanda í þessum efnum fyrir því að beita eigi undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Hans sé að sanna að nám stefnanda, hefði hann lokið því, hefði leitt til launatekna í líkingu við það launaviðmið sem kröfugerð hans í máli þessu byggi á. Slík sönnun liggi ekki fyrir og því sé þar með mótmælt sem ósönnuðu. Fyrst sé til þess að taka að stefnandi hafi ekki verið búinn að ljúka námi og tilskildum prófum. Þá beri að halda til haga að jafnvel eftir að stefnandi hefði lokið tilskildum áföngum hjá Flugskóla Íslands, hefði hann einnig átt eftir að ljúka færnisprófum hjá Flugmálastjórn. Þau próf séu eingöngu haldin í afmarkaðan fjölda skipta á hverju ári. Ekkert liggi fyrir um hvort eða hvenær stefnandi hefði lokið þeim prófum. Þegar af þeirri ástæðu séu ekki forsendur fyrir ofangreindu viðmiði. Þá sé líka til þess að líta að stefnandi hafi ekki heldur haft hæfi til að fá auglýst starf  hjá Icelandair hf. sem hann þó skírskoti til í málatilbúnaði sínum. Í þeirri auglýsingu sé vísað til þess að umsækjendur þurfi að hafa stúdentspróf. Slíkt próf hafi stefnandi ekki haft á þessum tíma. Ósannað sé að Icelandair hf. eða aðrir flugrekendur sem sömu kröfur geri, hefðu tekið þá staðfestingu menntamálaráðuneytis gilda að reynslu stefnanda mætti jafna til stúdentprófs. Stefnanda sé að sanna það.

Þá sé einnig til þess að líta að stefnandi hafi verið orðinn 27 ára gamall og hafði ekki enn lokið námi en nýútskrifaðir flugmenn standi ekki fremst í röð umsækjenda þegar eftirsótt störf eins og hjá Icelandair hf. séu auglýst. Og þá sérstaklega ekki slíkir nýgræðingar sem þegar eru komnir undir þrítugt. Í þessu ljósi sé það eitt að stefnandi hafi verið kominn langt áleiðis í því að afla sér frekari réttinda sem flugmaður ekki staðfesting þess að stefnandi muni afla sér slíkra launatekna sem stefnandi vilji miða við. Aldur stefnanda og fjölbreytt framganga hingað til þyngi þá sönnunarbyrði frekar en ekki.

Á því sé jafnframt byggt að hugsanleg sjónarmið um að undantekning 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 eigi við ef menn slasast á síðustu metrum tiltekins náms, eigi engan veginn við í máli þessu. Til þess sé að líta að því fari fjarri að fullloknu atvinnuflugmannsnámi fylgi starfsöryggi sem tryggi meðallaun atvinnuflugmanna. Í fáum starfsstéttum sé jafn ótryggt að námslok og fagréttindi leiði til starfs. Í raun sé það svo að í fáum starfsstéttum sé jafn algengt að einstaklingar ljúki námi án þess að fá vinnu í atvinnugreininni. Loks sé ekki sopið kálið þótt vinna fáist enda vel þekkt að slík vinna sé oft aðeins tímabundin, einungis yfir þann hluta ársins sem álag í ferðaþjónustu sé mest. Fréttabréf FÍA frá því síðsumars 2006 og 2012 beri þessum staðreyndum glöggt vitni. Þar sé á forsíðu sagt frá uppsögnum hjá Icelandair hf. og fjallað um árstíðabundnar uppsagnir og þess getið í hinu síðara að nú séu slíkar uppsagnir einnig farnar að ná til smærri innlendra flugrekenda. Nýgræðingar þurfi því oft að sæta því að vera ekki í neinni og/eða verr launaðri vinnu stóran hluta ársins.

Af ofangreindum sökum verði því alls ekki slegið föstu að á milli þess að menn ljúki námi og fái starf sem tryggi þeim meðallaun sé fylgni í þeim mæli sem stefnandi byggi á. Einnig vegna þess að námið taki stuttan tíma samanborið við háskólanám. Við mat á fordæmisgildi dómsúrlausna beri þannig að líta til þess að ekki verði lagt að jöfnu við mat á því hvort 2. mgr. 7. gr. eigi við, hvort komið sé að lokum fimm ára náms í verkfræði, svo dæmi sé tekið, eða að eiga eftir tvö námskeið og prófraunir í námi sem unnt virðist að ljúka á þremur önnum. Það sé stefnanda að sýna fram á að meðaltekjur atvinnuflugmanna hjá FÍA á slysári gefi fullnægjandi mynd af framtíðartekjum hans en slík sönnun liggi ekki fyrir og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda.

Niðurstaða matsmanna virðist byggja á þeirri forsendu að afar ólíklegt sé að stefnanda muni, heilsu sinnar vegna, vera mögulegt að leggja fyrir sig flugmannsstarfið. Í þeim efnum sé sérstaklega vísað til hinna ströngu heilsufarsskilyrða sem fylgi skyldubundnu fyrsta flokks heilbrigðisskírteini. Fyrir liggi að stefnandi hafi nú fengið á ný fyrsta flokks heilbrigðisskíreini.

Ekki verði fallist á málsástæðu stefnanda til vara um að árslaunaviðmið verði metið að álitum. Engin rök standi til þess að miða við meðallaun iðnaðarmanna þar sem stefnandi hafi ekki verið með iðnréttindi á tjónsdegi. Þau hafi hann ekki öðlast fyrr en rétt tæpum fimm árum síðar. Verði fallist á þau sjónarmið stefnanda, að rétt sé að miða við laun atvinnuflugmanna, telji stefndi að réttast sé að líta til launaviðmiðs sem sé nær byrjunarlaunum en meðallaunum heillar stéttar sem stefnandi hafi ekki tilheyrt, en samkvæmt málatilbúnaði stefnanda virðist hann fyrst og fremst horfa til kjarasamningsbundinna réttinda félagsmanna Félags íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, sem byggð séu á kjarasamningum Flugfélags Íslands hf. og Icelandair hf. Óupplýst sé hvort starf stefnanda í þágu Flugskóla Íslands hf. falli undir gildissvið greindra kjarasamninga og sé því mótmælt sem ósönnuðu. Stefndi telji að réttast væri, ef rök standi yfirhöfuð til þess að líta til annars en eigin launa stefnanda, að upplýst yrði um meðallaun flugmanna sem starfi hjá atvinnurekanda hans, Flugskóla Íslands hf. Þar starfi stefnandi enn og því séu laun þar miklu nær því að vera fugl í hendi en þeir tveir í skógi sem launatekjur þotuflugmanna séu.

Mótmælt sé dráttarvaxtakröfu stefnanda enda hafi stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn sem liggi málsástæðum stefnanda til grundvallar þannig að fullnægt sé hugtaksskilyrðum 9. gr. laga 38/2001. Verði fallist á aðalkröfu stefnda áréttist framsett krafa um málskostnað með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991. Verði fallist á varakröfu stefnda, eða kröfu stefnanda um bætur að álitum sé þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla enda hafi verið gerð athugasemd af hálfu stefnda við skort á gögnum málstað stefnanda til stuðnings áður en til þessarar málsóknar kom. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist sé álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefndi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og sé því nauðsyn á að fá dæmt álag er þeim skatti nemi úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að stefndi ber bótaábyrgð vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir 22. júlí 2006 og aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar matsgerð sem aflað var sameiginlega af aðilum um varanlegar afleiðingar slyssins. Aðila greinir á um bótafjárhæð, sem ræðst af því hvaða viðmið árslauna verði lagt til grundvallar útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, skulu árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku miðast við meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Er þessi regla meginregla laganna og tekur í tilviki stefnanda til meðaltals árslauna hans árin 2003, 2004 og 2005. Stefndi hefur greitt stefnanda bætur í samræmi við hana að viðbættum 6% árin 2005 og 2006 og 7% árið 2007 vegna mótframlags í lífeyrissjóð. Sýknukrafa stefnda er á því byggð að miða hafi átt við meginregluna við uppgjör bóta til stefnanda, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði til að víkja frá meginreglunni séu fyrir hendi.

Í 2. mgr. 7. gr. er sérákvæði um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari um líklegar framtíðartekjur tjónþola. Á þeirri reglu byggir stefnandi og vísar til þess, sem upplýst er í gögnum málsins, að á viðmiðunarárunum hafi hann aðeins verið í hlutastarfi, enda hafi hann stundað nám á þeim tíma og auk þess verið frá vinnu vegna fæðingarorlofs. Tekjur hans á þessum tíma séu því ekki marktækar um framtíðartekjur.

Í dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að reglan í 2. mgr. 7. gr. eigi meðal annars við þegar svo stendur á að tjónþoli hefur ekki stundað fulla vinnu vegna barneigna eða náms á viðmiðunartíma. Hafi tjónþoli verið langt kominn í námi þegar slys verður hefur verið fallist á að réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur séu meðallaun þeirrar starfsstéttar sem hann stefndi að með námi sínu að tilheyra að því loknu, heldur en meðallaun undangenginna ára eða lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna.

Í frumvarpi með lögum nr. 37/1999, til breytinga á skaðabótalögum, segir í athugasemdum um 7. gr. laganna, að í tilviki námsmanns yrði almennt að líta til mismunar á atvinnutækifærum fyrir og eftir slys. Við þær aðstæður að námslok tengd starfsferli eða starfsréttindum megi teljast fyrirsjáanleg, yrðu metnir möguleikar námsmannsins til þess að gegna því starfi sem hann stefndi að með menntun sinni. Þetta eigi við hvort heldur slys valdi því að hann verði að hætta námi eða það dragi úr starfsgetu í fyrirhuguðu starfi. Tekjuviðmiðun í slíku tilviki færi eftir sérreglunni í 2. mgr. 7. gr.

Þegar slysið varð var stefnandi handhafi atvinnuflugmannsréttinda og starfaði í hlutastarfi sem flugkennari. Hann var einnig langt komin með að afla sér þeirra réttinda sem flugrekendur setja við ráðningu atvinnuflugmanna til starfa. Til að öðlast þau réttindi átti hann aðeins eftir að taka lokapróf í blindflugi með prófdómara frá Flugmálastjórn Íslands og ljúka 20 tímum í þjálfun í fjöláhafnarsamstarfi í flugaðferðaþjálfa, samkvæmt staðfestingum frá Flugskóla Íslands og Flugmálastjórn Íslands sem fyrir liggja í málinu. Flugskóli Íslands hefur staðfest að stefnandi hafi verið um tveimur vikum frá því að öðlast þau réttindi sem flugrekendur gera kröfu um og hann stefndi að. Taka þær kröfur meðal annars mið af ákvæðum reglugerðar nr. 419/1999, um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.

Að framangreindu virtu er fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari um líklegar framtíðartekjur stefnanda en samkvæmt meginreglunni. Því skal beita 2. mgr. 7. gr. laganna og meta árslaun sérstaklega við útreikning bóta.

Stefnandi krefst þess að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga miðist við hámarksfjárhæð 4. mgr. 7. gr. laganna og tekur krafan mið af því að það yrði hans framtíðarstarf að starfa sem atvinnuflugmaður eins og hann stefndi að með námi sínu. Til stuðnings kröfum sínum hefur stefnandi lagt fram upplýsingar frá FÍA, félagi íslenskra atvinnuflugmanna, um meðaltekjur þeirrar starfsstéttar, sem hann hafði væntingar um að tilheyra, en þær tekjur eru þó nokkru hærri en uppreiknaðar hámarkstekjur samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Stefndi andmælir tekjuviðmiðinu á þeim grundvelli að stefnandi sé fyrst og fremst að horfa til réttinda félagsmanna FÍA, sem byggð séu á kjarasamningum Flugfélags Íslands hf. og Icelandair hf., en ekki til annarra vinnuveitenda flugmanna, svo sem Flugskóla Íslands þar sem stefnandi hafi sjálfur starfað. Þessi málsástæða stefnda á sér ekki stoð í gögnum málsins. Í stefnu er skilmerkilega gerð grein fyrir upplýsingum frá FÍA, sem fyrir liggja, annars vegar um meðallaun þeirra atvinnuflugmanna sem starfa hjá þessum tveimur flugrekendum, Icelandair og Flugfélagi Íslands, og hins vegar um meðallaun allra félagsmanna FÍA sem starfa hjá 11 félögum. Í báðum tilvikum eru meðallaunin nokkuð yfir þeim hámarkstekjum samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem dómkrafan er takmörkuð við. Hafna verður málsástæðu stefnda um að stefnanda hafi ekki tekist að sanna hver meðallaun íslenskra atvinnuflugmanna séu. 

Stefndi mótmælir kröfum stefnanda um að tekjur atvinnuflugmanna verði lagðar til grundvallar útreikningi bóta meðal annars með vísun til þess að ósannað sé hvort stefnandi hefði fengið starf sem atvinnuflugmaður hjá þeim flugrekendum sem vísað sé til þótt hann hefði lokið tilskildu námi og uppfyllti kröfur þeirra um að fá starf. Stefnandi þykir hafa sýnt fram á að hann átti ólokið tiltölulega litlum hluta námskeiðs í fjöláhafnarsamstarfi og blindflugsprófi með prófdómara frá Flugmálastjórn Íslands til að ná því markmiði þegar hann slasaðist, að uppfylla skilyrði til að eiga möguleika á starfi atvinnuflugmanns hjá flugrekendum. Þá er upplýst að stefnanda hefur, þrátt fyrir afleiðingar slyssins, tekist að ljúka því námskeiði og prófi sem ólokið var og uppfyllir nú skilyrði til að fá starf sem atvinnuflugmaður á fjölhreyflavél samkvæmt þeim kröfum sem innlendir flugrekendur setja og hefur frá 19. júlí 2012 uppfyllt þau heilsufarsskilyrði sem sett eru til að ráða megi hann til starfa. Hefur stefnandi því sýnt fram á að hann gat í raun lokið því námi sem stefnt var að og fyrirsjáanlegt var að hann myndi ljúka og hann þurfti að ljúka til þess að eiga möguleika á að fá þau störf í atvinnugreininni sem hann hafði hug á. Því er hafnað að stefnandi þurfi að sanna að hann hefði fengið starf hjá tilteknum flugrekanda ef hann hefði ekki slasast. Þá er og hafnað málsástæðum stefnda um að ótrygg atvinna og árstíðabundnar uppsagnir flugmanna takmarki rétt stefnda til að miða kröfu sína við raunveruleg meðallaun félagsmanna FÍA.

Að framangreindu virtu hefur stefnanda tekist að sanna að víkja beri frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga vegna óvenjulegra aðstæðna við útreikning skaðabóta sem hann á rétt á úr hendi stefnda vegna slyssins sem hann varð fyrir 22. júlí 2006. Stefnandi hefur að mati dómsins einnig sýnt fram á réttmæti þess að miða við meðallaun atvinnuflugmanna við útreikning bótanna og jafnframt sýnt fram á hver þau séu. Þau laun eru nokkru hærri en þau árslaun sem stefnukrafan tekur mið af, sem er uppreiknuð fjárhæð samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og verður fallist á þá kröfu stefnanda að hann eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda sem miðist við þá lögboðnu hámarksfjárhæð.

Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði séu uppfyllt til að krefjast dráttarvaxta af bótakröfu frá 14. ágúst 2009. Niðurstöður matsgerðar um afleiðingar slyssins höfðu þá legið fyrir frá 27. janúar sama ár og var krafa stefnanda um að miðað yrði við hámark árslauna samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sett fram í kröfubréfi 20. febrúar 2009 ásamt útreikningi og rökstuðningi kröfunnar. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 14. júlí 2009 fylgdu gögn og frekari rökstuðningur bótakröfunnar, en dráttarvaxta er krafist frá því mánuður var liðinn frá því það bréf var sent ásamt gögnum. Ekki verður fallist á sjónarmið stefnda um að lagaskilyrði 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, til að reikna dráttarvexti frá þeim degi sem krafist er séu ekki fyrir hendi. Samkvæmt ákvæðinu skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta og er þeim skilyrðum fullnægt. Verður því fallist á kröfu stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta. 

Útreikningi og fjárhæð stefnukröfu hefur ekki verið mótmælt og verður fallist á hana eins og hún er fram sett.

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og gerir þá kröfu, svo sem áskilið er í gjafsóknarleyfi, að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Eftir úrslitum málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga, nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, eins og í dómsorði greinir.

Málskostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Karls Ó. Karlssonar hrl., sem ákveðin er samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála 990.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, skaðabætur að fjárhæð 22.040.879 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 22.040.879 krónum frá 13. mars 2008 til 14. ágúst 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði 990.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð. 

 Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Karls Ó. Karlssonar hrl., 990.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.