Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2010


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing


Fimmtudaginn 31. mars 2011.

Nr. 226/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Karli Stefáni Hannessyni og

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Vilhjálmi Kristni Eyjólfssyni

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Sekt. Vararefsing.

V, stjórnarformaður félagsins A ehf., og K, meðstjórnandi og framkvæmdastjóri þess, voru sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa á árinu 2007 hvorki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir félagið samtals 25.699.936 krónur, né staðgreiðslu opinberra gjalda samtals 78.408.818 krónur. Hæstiréttur vísaði til ábyrgðar stjórnarmanna og framkvæmdastjóra einkahlutafélaga að lögum varðandi reikningsskil og féllst á með héraðsdómi að ákærðu hefðu þannig borið sameiginlega ábyrgð á þeim brotum sem þeir voru ákærðir fyrir. Var refsing beggja ákærðu ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 18 mánuði og þeim, hvorum um sig, gert að greiða sekt að fjárhæð 104.110.000 krónur en sæta ella fangelsi í 12 mánuði. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Halldór Björnsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2010 og 3. júní sama ár í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en að refsing þeirra verði þyngd. 

Ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara að refsing þeirra verði milduð.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson skráður stjórnarformaður A ehf. á þeim tíma sem ákæra tekur til og ákærði Karl Stefán Hannesson skráður meðstjórnandi og framkvæmdastjóri félagsins. Stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Á hinn bóginn bera framkvæmdastjórar slíkra félaga, þegar þeir eru ráðnir, einnig ábyrgð samkvæmt 44. gr. laganna. Skal framkvæmdastjóri meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Fallist er á með héraðsdómi að ákærðu hafi þannig borið sameiginlega ábyrgð á þeim brotum sem lýst er í ákæru. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu beggja ákærðu.

Með vísan til forsendna héraðsdóms og með tilliti til umfangs brota ákærðu þykir rétt að þeir sæti fangelsi í 18 mánuði, sem verði bundið skilorði eins og í dómsorði greinir. Staðfest verður niðurstaða héraðsdóms um fésekt ákærðu, en vararefsing verður ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu verður, hvorum um sig, gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

 Ákærðu, Karl Stefán Hannesson og Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson, sæti hvor um sig fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði hvor um sig 104.110.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði, Karl Stefán, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærði, Vilhjálmur Kristinn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Magnúsar Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað málsins, 49.935 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 26. október 2009, á hendur Karli Stefáni Hannessyni, kt. 280150-2079, Grundarási 4, Reykjavík, og Vilhjálmi Kristni Eyjólfssyni, kt. 271254-4829, Svölutjörn 59, Reykjanesbæ, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins A, kennitala [...], sem ákærði Karl Stefán var framkvæmdastjóri og meðstjórnandi fyrir og Vilhjálmur Kristinn var stjórnarformaður fyrir, með því að hafa:

1.           Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna neðangreindra uppgjörstímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 25.699.936, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK

á eindaga:

Árið 2007

mars - apríl

kr.

15.949.488

maí - júní

kr.

692.838

júlí - ágúst

kr.

9.057.610

Samtals:

kr.

25.699.936

2.           Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna neðangreindra tímabila, samtals að fjárhæð kr. 78.408.818, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2007

apríl

kr.

10.157.623

maí

kr.

7.031.969

júlí

kr.

21.472.815

ágúst

kr.

11.309.855

september

kr.

12.538.533

október

kr.

11.840.775

nóvember

kr.

4.057.248

Samtals:

kr.

78.408.818

3.    Framangreind brot ákærðu samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af ákæru málsins, en til vara að refsing þeirra verði eins væg og lög leyfa og skilorðsbundin að öllu leyti. Í báðum tilvikum krefjast ákærðu þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðra verjenda.

Málsatvik

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkislögreglustjóra, dagsettu 4. nóvember 2008, var vísað til opinberrar rannsóknar máli vegna meints brots ákærðu og B á skattalögum og eftir atvikum almennum hegningarlögum. Var málið sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknastjóra á staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskilum einkahlutafélagsins A, sem var úrskurðað gjaldþrota 7. febrúar 2008.

Samkvæmt vottorði Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dagsettu 12. desember 2007, var stjórn A ehf., samkvæmt fundi 15. desember 2006, skipuð ákærða Vilhjálmi Kristni Eyjólfssyni, sem stjórnarformanni, ákærða Karli Stefáni Hannessyni sem  meðstjórnanda og C og D sem varamönnum. Ákærði Karl var skráður framkvæmdastjóri félagsins og fór hann jafnframt með prókúru ásamt B og E. Tilgangur félagsins var sagður leiga á vinnuvélum til byggingastarfsemi, gröftur, akstur og jarðvinnsla auk fjárfestingar í verðbréfum og fasteignum.

Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að ákærðu Vilhjálmur Kristinn og Karl og fjármálastjóri félagsins, B, hefðu vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á þeirri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðilans, sem þeim bar að standa skil á fyrir félagið vegna greiðslutímabilanna mars, apríl, maí, júlí, ágúst, september, október og nóvember 2007. Jafnframt hefðu þeir vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á innheimtum virðisaukaskatti sem þeim bar að standa skil á fyrir hönd félagsins vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst rekstrarárið 2007. B sætir ekki ákæru í máli þessu.

Meðal gagna málsins er yfirlýsing VBS fjárfestingarbanka hf., dagsett 7. nóvember 2007, þar sem kemur fram að bankinn sé, samkvæmt veðskuldabréfum útgefnum af einkahlutafélaginu F, veðhafi í tilgreindum lóðum í landi [...], en þinglýstur eigandi lóðanna sé A ehf. VBS staðfesti að samkvæmt beiðni A ehf. verði eftirstöðvum kaupverðs lóðanna að frádregnum kostnaði ráðstafað til Tollstjórans í Reykjavík samtals upphæð allt að 147.000.000 króna. Er yfirlýsingin undirrituð af starfsmanni VBS fjárfestingarbanka og E fyrir hönd A ehf., en E er [...]. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár, dagsettu 1. febrúar 2010, er E skráður framkvæmdastjóri F ehf. og situr í stjórn þess.

Ákærði Karl gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra 27. febrúar 2009. Ákærði sagði fyrirliggjandi upplýsingar um skráningu stjórnar og framkvæmdastjórnar vera formlega réttar. Hann hefði þó í raun hætt hjá félaginu vegna veikinda 15. desember 2007. Fjármálastjórn félagsins hefði verið í höndum B sem fjármálastjóra og E sem ráðgjafa. Ákærði sagðist sjálfur hafa séð um daglegan rekstur út á við í sambandi við verkefni og annað. Hann hefði að mjög litlu leyti komið að ákvörðunum um fjármálastjórn, þ.e. hvað skyldi greitt og hvað ekki hverju sinni. Þau mál hefðu verið í höndum þeirra B og E. Ákærði sagði að fyrri framkvæmdastjóri félagsins hefði hætt störfum í desember 2006 og þá hefði þurft að manna þá stöðu. Hefði hann „í einhverju bríaríi“ tekið að sér að vera skráður framkvæmdastjóri, en í raun hefði það einungis verið að nafninu til, þ.e. til að uppfylla formskilyrði. Aldrei hefði staðið til að hann tæki að sér fjármálastjórn eða önnur verkefni af því tagi. Hann hefði ekki áttað sig á því á þessum tíma hvaða skyldur fælust í því að vera skráður framkvæmdastjóri, enda hefði B verið ráðinn til að sjá um fjármál og E hefði einnig komið að þeim málum. Ákærði sagði að sér hefði orðið ljóst vorið 2007 að félagið var að lenda í vanskilum. Við tilboðsgerð í verkefni hjá Vegagerðinni um þetta leyti hefði komið fram að félagið væri í vanskilum við Tollstjóra vegna staðgreiðslugjalda og virðisaukaskatts. Hann hefði þó ekki vitað um hvaða fjárhæðir var að ræða, enda hefðu B og E verið í samskiptum við Tollstjóra og unnið að því að semja um greiðslur gjaldanna. Ákærði sagði stjórn félagsins ekki hafa tekið neinar formlegar ákvarðanir um skattskil, enda hefðu engir fundir verið haldnir í stjórn á þessum tíma þar sem þessi mál væru rædd.

Ákærði Vilhjálmur Kristinn gaf skýrslu hjá ríkislögreglustjóra 25. febrúar 2009. Ákærði staðfesti að fyrirliggjandi upplýsingar um skipan stjórnar og framkvæmdastjórn félagsins væru réttar. Hann sjálfur og meðákærði Karl hefðu í sameiningu annast daglega stjórn félagsins, þ.m.t. daglega fjármálastjórn, og þeir hefðu því sameiginlega verið ábyrgir fyrir hvers kyns skattskilum vegna þeirra tímabila sem um ræðir. Sagðist ákærði hafa vitað að ekki var unnt að standa að fullu skil á staðgreiðslugjöldum og virðisaukaskatti á tímabilinu, en hann hefði ekki fylgst með því þannig að hann vissi hverju sinni hvað var í vanskilum eða um hvaða fjárhæðir var að ræða. Karl hefði starfað á skrifstofu félagsins og fylgst betur með stöðu þessara mála ásamt B fjármálastjóra. Þeir hefðu verið í samskiptum við sýslumannsembættið vegna vangoldinna gjalda.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum.

Ákærði Karl sagðist hafa stofnað A ehf. ásamt öðrum árið 1984. Árið 2006 hefðu [...], meðákærði Vilhjálmur Kristinn og E, keypt félagið í gegnum F ehf. Hann hefði tekið að sér að vera skráður framkvæmdastjóri á því tímabili sem ákæra lýtur að. Ákærði sagðist gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgdi því að vera skráður framkvæmdastjóri. Hann hefði hins vegar ekki komið nálægt peningamálum hjá félaginu heldur séð um verklegar framkvæmdir úti á vettvangi. B fjármálastjóri, E og meðákærði Vilhjálmur Kristinn hefðu annast daglega fjármálastjórn. Borið var undir ákærða það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði „að mjög litlu leyti“ komið að ákvörðunum um fjármálastjórn, þ.e. hvað skyldi greitt og hvað ekki hverju sinni. Sagðist ákærði aðeins að litlu leyti hafa komið að slíku og þá einvörðungu þannig að hann hefði notað fé úr eigin vasa til að greiða reikninga. Hann hefði ekkert haft með fjármálastjórn félagsins að gera og engin fyrirmæli gefið um hvað skyldi greiða og hvað ekki. Ákærði sagði að aldrei hefðu verið haldnir stjórnarfundir eftir að [...] keyptu félagið. Einu fundirnir sem hefðu verið haldnir hefðu verið vikulegir fundir með verkstjórum á föstudögum.

Ákærði sagði að sér hefði orðið ljóst að stefndi í óefni hjá félaginu þegar fór að líða á árið 2007. Þá hefðu þeir ekki fengið verkefni sem ríkið bauð út vegna þess að í ljós kom að skattgreiðslur voru í vanskilum. Meðákærði Vilhjálmur Kristinn og E hefðu þá átt samskipti við VBS fjárfestingarbanka, en þaðan hefðu átt að koma peningar til að greiða þessa skuld. Hefðu þeir jafnan haft orð á því að peningar væru að koma úr lóðaverkefninu í [...]. Það hefði hins vegar ekki gengið eftir. Síðari hluta árs 2007 hefði hann loks gert sér grein fyrir því að tekjurnar sem vænst hafði verið voru ekki að skila sér. Ákærði sagðist þá hafa verið búinn að leggja A ehf. til 100.000.000 króna, auk þess sem hann hefði orðið að greiða laun og borga reikninga fyrir félagið. Hann hefði samið við byrgja og greitt þeim til að halda verkum gangandi.

Bornar voru undir ákærða skilagreinar félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og rafrænar virðisaukaskattsskýrslur, vegna þess tímabils sem ákæra tekur til. Ákærði sagðist ekki vefengja þessi gögn, sem hann taldi vera byggð á færðu bókhaldi félagsins.

Ákærði sagði E alfarið hafa séð um samningagerð við VBS banka.

Ákærði Vilhjálmur Kristinn sagðist hafa verið stjórnarformaður A ehf. árið 2007 og vel gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvíldi á honum sem slíkum. Hann sagði B hafa haft prókúru fyrir félagið og alfarið séð um fjármál þess. Borið var undir ákærða það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu að þeir meðákærði Karl hefðu í sameiningu annast daglega stjórn félagsins, þ.m.t. daglega fjármálastjórn og þeir því sameiginlega verið ábyrgir fyrir hvers konar skattskilum vegna tímabilanna sem um ræðir. Ákærði sagði þetta hafa átt við um rekstur félagsins í lokin þegar farið var að ganga illa. Þeir hefðu þá unnið saman að því að reyna að leysa málin. Hann hefði hins vegar ekki annast daglega fjármálastjórn, heldur haft umsjón með verklegum framkvæmdum við [...]. Þá sagði ákærði að E hefði ekkert komið að fjármálastjórn félagsins. Ákærði sagði að sér hefði þó verið kunnugt um að félagið var komið í vanskil og hefðu þeir þá gengið í að reyna að semja við tollstjóra. Hann vísaði á bug ummælum sem höfð voru eftir B í skýrslu skattrannsóknarstjóra, að ákærði Karl hefði lagt miklu meiri áherslu á það að standa skil á sköttum hjá ríkissjóði en þeir [...] Vilhjálmur Kristinn og E.

Bornar voru undir ákærða skilagreinar félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og rafrænar virðisaukaskattsskýrslur, vegna þess tímabils sem ákæra tekur til. Sagðist hann ekki vefengja þessi gögn, sem hann taldi vera byggð á færðu bókhaldi félagsins. Engin sérstök ákvörðun hefði verið tekin um að standa ekki skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Fjárhagserfiðleikum væri um að kenna. Þessir fjármunir hefðu farið í rekstur félagsins.

Ákærði sagðist hafa verið í vinnu á [...], en komið annað slagið á skrifstofu félagsins í Reykjavík til að gefa skýrslu um framgang verksins. Meðákærði Karl og B hefðu haft aðsetur á skrifstofunni. Ákærði sagðist hafa vitað að bókhald félagsins var fært. Þá hefði verið fundað vikulega með tæknimönnum og verkstjórum.

Ákærði sagði fyrrgreint samkomulag við VBS fjárfestingarbanka hafa átt að tryggja að þegar lóðirnar sem um ræðir seldust myndi andvirði þeirra ganga til greiðslu skuldarinnar við tollstjóra. Hann vissi ekki til þess að yfirlýsingin hefði verið afturkölluð. F ehf. hefði haft lóðirnar til sölu, en staðið hefði til að andvirðið rynni til A ehf.

Vitnið E sagðist ekki hafa starfað hjá A ehf. árið 2007. Hann hefði verið framkvæmdastjóri F ehf. og G ehf., en jafnframt starfað með A ehf. Ákærðu hefðu séð um daglegan rekstur A ehf. Vitnið sagðist ekki vita hver gaf fyrirmæli um greiðslu á sköttum og því um líkt. Hann hefði hins vegar komið að málum þegar til þess kom að tollstjóri ætlaði að innsigla félagið í ágúst eða september 2007. Hann hefði þá átt samningaviðræður við tollstjóra. Hefðu eignir F ehf. verið veðsettar til greiðslu á skuldum A ehf.

Vitnið sagði F ehf. hafa keypt hlutabréfin í A ehf. árið 2006. Fjármunir hefðu átt að koma inn í félagið vegna sölu á lóðunum í landi [...]. Vitnið sagðist hafa undirritað fyrrgreint samkomulag við VBS fjárfestingarbanka þar sem honum hefði verið falið að ganga frá þessum málum og semja við tollstjóra. Hefði hann verið í samskiptum við yfirlögfræðing tollstjóraembættisins vegna málsins. Hann sagðist ekki vita til þess að VBS fjárfestingarbanki hefði afturkallað yfirlýsinguna og teldi hann samkomulagið enn vera í gildi. Eins og staðan væri nú myndi söluandvirði lóðanna renna til greiðslu skuldarinnar hjá tollstjóra ef lóðirnar yrðu seldar.

Vitnið H sagðist hafa starfað á skrifstofu A ehf. og m.a. séð um útreikning launa og launagreiðslur. Vitnið sagði að áður en fjármálastjóri var ráðinn til félagsins hefðu hún ætíð fengið fyrirmæli frá ákærða Vilhjálmi Kristni og E um hvað skyldi greiða og hvað skyldi ekki greiða, þ.á m. um greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærði Karl hefði ekki komið að þessum málum. Fjármálastjóri hefði séð um greiðslu reikninga eftir að hann kom til starfa.

Vitnið I sagðist hafa starfað hjá A um árabil og verið í hálfu starfi á skrifstofu félagsins undir lokin. Vitnið sagði ákærðu hafa annast verklegar framkvæmdir úti á vettvangi. E og B hefðu verið „í pappírunum“ og séð um daglegan rekstur félagsins.

Vitnið B sagðist hafa tekið til starfa sem fjármálastjóri A ehf. í febrúar 2007. Þá hefði safnast upp tveggja eða þriggja mánaða skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og vangoldins virðisaukaskatts. Vitnið sagðist hafa tekið við fyrirmælum um hvernig greiðslum yrði háttað frá [...] E og ákærða Vilhjálmi Kristni, en í einhverjum tilvikum frá ákærða Karli. Hann hefði aldrei fengið fyrirmæli um að greiða ekki skattskuldina, heldur hefði verið lagt fyrir hann hvernig ætti að ráðstafa þeim fjármunum sem til voru. [...] hefðu rekið félagið frá degi til dags, enda hefðu þeir staðið fyrir langstærsta eignarhluta þess. Karl hefði ekki komið mikið að daglegum rekstri félagsins.

Niðurstaða

Ákærðu bera ekki brigður á að þau brot sem greinir í ákæru hafi verið framin í rekstri A ehf. Þá gera þeir engar athugasemdir við tímabil og fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákæru. Ákærðu neita hins vegar sök. Hafa þeir hvor um sig borið fyrir sig að þeir hafi ekki komið að eiginlegri stjórn félagsins og beri því ekki refsiábyrgð vegna brotanna. Ákærðu vísa því á bug að þeir hafi gerst sekir um vanrækslu í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Þá séu huglægar refsiforsendur ekki fyrir hendi.

Ákærði Karl Stefán ber fyrir sig að hann hafi einungis haft með verklegar framkvæmdir að gera hjá félaginu. Hann hafi staðið í þeirri trú að bókhald félagsins og reksturinn væru í góðu lagi. Hann hafi ekki komið að ákvarðanatöku varðandi fjármál félagsins. Þá hafi hann verið óvinnufær vegna veikinda, en fram er komið að ákærði lagðist inn á sjúkrahús 15. desember 2007 og gekkst undir hjartaaðgerð í kjölfarið.

Ákærði Vilhjálmur Kristinn ber aðallega fyrir sig að í gildi hafi verið greiðslusamkomulag við innheimtumann ríkissjóðs og vísar þá til fyrrnefndrar yfirlýsingar VBS fjárfestingarbanka frá 7. nóvember 2007. Hafi hann því fullnægt skyldum sínum sem stjórnarformaður félagsins og gert ráðstafanir til þess að vangoldin opinber gjöld félagsins verði gerð upp. Þá hafi hann ekki haft yfirsýn yfir þau gjöld sem félagið hafi átt að standa skil á.

Ákærði Vilhjálmur Kristinn var skráður stjórnarformaður A ehf. á þeim tíma sem ákæra tekur til og ákærði Karl Stefán skráður framkvæmdastjóri. Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 hvíldi á ákærðu rík skylda stöðu þeirra vegna. Bar ákærðu að annast daglegan rekstur félagsins og sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi væri í réttu og góðu horfi, en í því felst m.a. að sjá til þess að staðið sé skil á afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Samkvæmt því bera ákærðu í sameiningu ábyrgð á þeim brotum sem lýst er í ákæru.

Brot ákærðu voru að verulegu leyti fullframin er yfirlýsing VBS fjárfestingarbanka var undirrituð. Þá er til þess að líta að jafnvel þótt sú yfirlýsing teldist enn í fullu gildi hefur hún enga þýðingu í málinu þar sem A ehf. hafa verið úrskurðaðar gjaldþrota og því ekki á færi þeirra sem undirrituðu yfirlýsinguna að ráðstafa fjármunum með þeim hætti sem í yfirlýsingunni greinir.

Samkvæmt framansögðu hafa ákærðu gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og eru brot þeirra þar rétt færð til refsiákvæða.

Refsing og sakarkostnaður

Ákærði Karl er fæddur í janúar 1950, en ákærði Vilhjálmur Kristinn í desember 1954. Ákærðu hafa ekki sætt refsingu svo vitað sé. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að brotaandlag nemur háum fjárhæðum. Refsing verður ákveðin samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með hliðsjón af 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda verða ákærðu jafnframt dæmdir til að greiða hvor um sig 104.110.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 6 mánaða fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði Karl greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar héraðsdómslögmanns, 928.700 krónur, auk aksturskostnaðar að fjárhæð 42.230 krónur. Ákærði Vilhjálmur Kristinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 690.250 krónur, auk aksturskostnaðar að fjárhæð 42.230 krónur. Málsvarnarlaun taka til vinnu verjenda á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi og eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Tryggvason saksóknarfulltrúi.

Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærðu, Karl Stefán Hannesson og Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson, sæti hvor um sig fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar ákærðu og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu greiði hvor um sig 104.110.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 6 mánaða fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna.

Ákærði Karl greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar héraðsdómslögmanns, 928.700 krónur, auk aksturskostnaðar, 42.230 krónur.

Ákærði Vilhjálmur Kristinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 690.250 krónur, auk aksturskostnaðar, 42.230 krónur.