Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2010
Lykilorð
- Landamerki
|
Fimmtudaginn 26. maí 2011. |
|
|
Nr. 367/2010. |
Árni Jónsson og Guðrún Stefánsdóttir (Indriði Þorkelsson hrl.) gegn Guðjóni Stefáni Guðbergssyni og Sigríði Hjartar (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Landamerki.
Á og G, eigendur jarðarinnar H, og G og S, eigendur jarðarinnar M, deildu um hvar mörk jarðanna lægju. Af landamerkjabréfum mátti ráða að mörk jarðanna lægju frá Merkjárgljúfri til fjallsins Stóra-Dímonar í gegnum punkt þar sem sjá mátti foss í gljúfrinu með nánar tilgreindum hætti. Staðsetning punktsins kom ekki nánar fram í gögnum málsins en ljóst þótti að hann gæti ekki verið þar sem áin féll fram úr gljúfrinu heldur hlyti hann að vera í einhverri fjarlægð þaðan. Ekki var talið að uppdráttur sem fylgdi með niðurstöðu gerðardóms frá árinu 1969 skipti máli við afmörkun landamerkjanna, enda hafði gerðardóminum verið falið að taka afstöðu til annars álitaefnis. Aftur á móti taldi Hæstiréttur að landskiptagerðir þeirra jarða sem H og M höfðu áður tilheyrt tækju af tvímæli um að merki jarðanna skyldu fylgja Merkjá niður úr Merkjárgljúfri. Ekki var talið að samkomulag aðila um skiptingu lands M hefði falið í sér breytingar á mörkum jarðanna hvað þetta varðaði. Var því talið að farvegur Merkjár, og síðan farvegur Þverár eftir að árnar sameinuðust, réði mörkum jarðanna en eftir það bein lína frá Stóra-Dímon í fossinn í Merkjárgljúfri þaðan sem línan skæri Þverá. Vísað var til þess að staðhættir styddu jafnframt að Merkjá réði mörkum jarðanna, enda næðu tún, sem sýnilega væru gömul og óumdeilt væri að hefðu fylgt H, inn á svæðið sem deilt var um og allt annað land M lægi hinum megin árinnar sem samkvæmt heiti sínu réði merkjum. Í dóminum var vísað til þess að merkin fylgdu árfarveginum eins og hann væri nú, enda hefðu hvorugir aðila krafist þess að farið yrði í þessum efnum á einhvern nánar tiltekinn hátt eftir fyrirmælum 2.mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. júní 2010. Þau krefjast þess að merki milli jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II í Rangárþingi eystra verði ákveðin frá Merkjárgljúfri til suðurs eftir farvegi Merkjár þar til hann sker beina sjónlínu milli Merkjárfoss eða Gluggafoss og Hákolls Stóra Dímonar, „þar sem er hornmark nr. 1 samkvæmt landskiptauppdrætti Jóhanns F. de Fontenay dagsettur 6. apríl 1974 (rörhæll rekinn niður)“, en frá þeim stað fari merkin beint til suðurs í Hákoll Stóra Dímonar eftir fyrrgreindri sjónlínu. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómendur í málinu fóru á vettvang 16. maí 2011.
I
Í málinu deila áfrýjendur, sem eru eigendur jarðarinnar Hlíðarendakots, við stefndu um austurmerki hennar gagnvart vesturmerkjum jarðar þeirra síðarnefndu, Múlakots II, til suðurs á bili frá nánar tilteknum stað, þar sem Merkjá fellur niður af heiði um gljúfur sem við hana er kennt, og þangað, sem farvegur árinnar sker sjónhendingu frá svonefndum Hákolli á Stóra Dímon að fossi í gljúfrinu, sem áfrýjendur nefna Merkjárfoss eða Gluggafoss í framangreindri dómkröfu sinni. Áfrýjendur telja að merkin á þessu svæði eigi að fylgja farvegi árinnar, sem sveigir fyrst til suðausturs á um 150 m bili eftir að hún kemur niður úr gljúfrinu, rennur síðan um 350 m til suðurs og fellur þar saman við Þverá, en þaðan fer sameinuð áin loks í vestur rúmlega 130 m þar til hún skerst af fyrrnefndri sjónhendingu úr Hákolli á Stóra Dímon, sem er í rúmlega 5 km fjarlægð til suðurs. Stefndu telja á hinn bóginn að bein lína, sem dregin er frá áðurnefndum fossi að Hákolli, eigi að ráða merkjum jarðanna á þessu svæði, en eftir línunni eru um 600 m frá fossinum til suðurs að þeim stað, sem hún sker farveg árinnar. Í málatilbúnaði áfrýjenda er getið til um að flatarmál landsins, sem þessi ágreiningur lýtur að, sé um 4 til 5 hektarar.
Samkvæmt gögnum málsins er Merkjá bergvatnsá, sem á upptök sín í Merkjárbotnum á Múlaheiði norðan Fljótshlíðar, og rennur hún þaðan til vesturs og suðurs uns hún fellur í átt til láglendis um Merkjárgil, en ekki er deilt um að á heiðum ráði hún mörkum milli Eyvindarmúlatorfu, sem jörð stefndu er úr, og Hlíðarendatorfu, sem jörð áfrýjenda er úr. Á láglendi rennur Merkjá eins og áður segir saman við Þverá, sem kemur úr austri, en í Þverá mun löngum hafa borist jökulvatn úr Markarfljóti þar til komið var í veg fyrir það með görðum, sem reistir voru fyrir miðja síðustu öld. Norðan við farveg Þverár gætir á þessu svæði nokkurs landrofs, sem ætla má að hlotist hafi af sveiflukenndu rennsli hennar á þeim tíma, sem jökulvatn barst enn í hana. Af gögnum málsins verður ekki slegið föstu í hvaða mæli Merkjá renni nú í gömlum farvegi frá Merkjárgili, en að henni hafa þegar sunnar dregur að nokkru verið ruddir garðar, líklega í tengslum við gerð brúa yfir hana fyrir eldri og yngri þjóðveg um Fljótshlíð. Af framlögðum loftljósmyndum, sem ná aftur til ársins 1945, virðist þó mega ráða að mót Merkjár og Þverár hafi legið nokkuð vestar en nú þar til fyrrnefndu ánni virðist hafa verið markaður farvegur í tengslum við gerð þjóðvegarins, sem nú er í notkun.
II
Í bréfi, sem gert var 10. maí 1886 um „landamerki og landamerkjastefnur jarðarinnar Hlíðarenda ... með hjáleigunum Hlíðarendakoti, Nikulásarhúsum og Hallskoti“, var á nánar tiltekinn hátt lýst merkjum Hlíðarendatorfu til vesturs og norðurs, en að því búnu sagði eftirfarandi: „Merkin og merkjastefnan í móts við Eyvindarmúlatorfuna er: Merkiárgljúfur, gil og farvegur hennar inneftir heiðinni allt til Merkiárbotna ... Aftur úr Merkiárgljúfri að neðanverðu ræður bein stefna á láglendinu þar sem tveir fossar eru opnir í gljúfrinu og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja, að ofan talið, og svo frameftir beina stefnu í fyrrnefnda norðurhamra Stóradímonar“. Þetta bréf var áritað í einu lagi um samþykki „fyrir hönd Eyvindarmúlans, ½ Árkvarnar, hálfs Háamúla og hálfrar Dúðu“, en ekki að því er virðist fyrir aðrar jarðir í Eyvindarmúlatorfu. Bréfið var fært í landamerkjabók og lesið á manntalsþingi 27. maí 1890. Þá var gert landamerkjabréf 1. júní 1891 fyrir „Eyvindarmúlaland, hina svo kölluðu Múlatorfu í Fljótshlíð sem er með býlunum Eyvindarmúla, Múlakoti, Sauðtúni, Árkvörn og Háamúla.“ Í þessu bréfi var meðal annars lýst merkjum „á móts við land Hlíðarendatorfunnar“, sem áttu að vera „Merkiárfarvegur niður heiðina, Merkiárgil og Merkiárgljúfur niður til láglendis, þaðan er merkjalínan á láglendinu og aurunum, að tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja (að ofan talið) fram í norðurhamra Stóra-Dímonar“. Bréfið var áritað meðal annars um samþykki eigenda jarða í Hlíðarendatorfu, fært í landamerkjabók og lesið á manntalsþingi 18. maí 1892.
Eins og ráðið verður af framangreindu er í þessum tveimur heimildum að finna áþekka lýsingu á merkjum milli Hlíðarendatorfu og Eyvindarmúlatorfu. Þannig ber þessum heimildum saman um að „Merkiárgljúfur“ ráði merkjum að norðan á þessu svæði, en norðurhamrar Stóra-Dímonar að sunnan. Á milli þessara tveggja staða eru sem fyrr segir rúmir 5 km og er þar óskert sjónlína, þar sem greinilega má frá hvorum sjá til hins. Í stað þess að kveða á um að slík sjónhending réði merkjum, svo sem hæglega hefði mátt gera, var á hinn bóginn í báðum þessum heimildum farin sú leið að láta beina línu frá Stóra-Dímon ná til staðar, þar sem „tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja (að ofan talið)“, eins og komist var að orði í landamerkjabréfinu 1. júní 1891. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvar sá staður er, þar sem slík sýn kann að opnast, en ljóst má vera að það er þó ekki þar sem Merkjá fellur fram úr gljúfrinu, heldur óhjákvæmilega á láglendi í einhverri fjarlægð þaðan. Að þessu virtu er ekki unnt að líta svo á að merkjabréf þessi feli í sér að mörkin milli Hlíðarendatorfu og Eyvindarmúlatorfu hafi að öllu leyti átt að ráðast af beinni línu frá Stóra-Dímon, sem að norðanverðu endi í gljúfrinu. Af þessum sökum getur niðurstaða um merkin milli jarða málsaðila á því svæði, sem þau deila um, ekki fengist með því einu að líta til orðalags þessara tveggja heimilda.
Í málinu liggur fyrir að á árunum 1966 og 1968 gerðu eigendur jarða í Eyvindarmúlatorfu, Hlíðarendatorfu og Teigstorfu, svo og sex jarða í þáverandi Austur-Landeyjahreppi samninga um að fela gerðardómi að „skera úr um landamerki jarða okkar, að því er varðar markalínuna í Stóru Dímon“. Í úrlausn gerðardómsins 24. maí 1969 var kveðið á um að Hákollur á Stóra-Dímon væri „það kennileiti, sem miða skal við merki jarðanna“, og var tekið fram að „landamerkjalínur í Hákoll á Stóra-Dímon“ væru „dregnar á uppdrátt þann, er fylgir gerðardómi þessum ... og telst hluti af gerðardómnum.“ Á uppdrættinum, sem hér um ræðir, var meðal annars bein lína frá Hákolli að stað, sem auðkenndur var með heitinu Gluggafoss, til að greina að lönd Hlíðarendatorfu og Eyvindarmúlatorfu. Þótt merkin hafi þannig verið sýnd á uppdrættinum á sama hátt og stefndu gera kröfu um í málinu getur það engu breytt um niðurstöðu þess, enda var gerðardóminum einvörðungu falið að leysa úr ágreiningi fjölmargra jarðeigenda um sameiginlegt hornmark á Stóra-Dímon, en ekki að taka afstöðu til merkja þessara jarða að öðru leyti.
Samkvæmt gögnum málsins hefur landi að mestu verið skipt milli jarða annars vegar í Hlíðarendatorfu á árunum 1974 og 1981 og hins vegar í Eyvindarmúlatorfu 1971 og 1976. Í landskiptagerð fyrir Hlíðarendatorfu 6. apríl 1974 kom til skipta „allt láglendið á aurunum“, sem var nánar afmarkað sunnan frá Hákolli á Stóra-Dímon annars vegar að vestan eftir merkjum Hlíðarendatorfu og Teigstorfu og hins vegar að austan eftir „Múlatorfumarki: Hákollur í Gluggafoss“. Að norðan réðist landsvæðið af línu á milli hornmarka, sem ákveðin voru á hvorri áðurnefndri landamerkjalínu, en á merkjalínunni til austurs var hornmarkið 600 m suður frá neðsta fossi í Merkjá, þar sem er að finna þann svokallaða rörhæl, sem vísað er til í dómkröfu áfrýjenda. Í landskiptagerðinni sagði jafnframt eftirfarandi: „Aurarnir frá umræddri skiptalínu að hlíðarfæti takmarkast að austanverðu af farvegi Merkiár en að vestan af Neðri Þverár landi ... Öll eru mörk þessi ágreiningslaus. Á aurunum ofan við skiptalínu voru áður slægjulönd, sem fljótið hefur nú brotið niður, og fylgja þau nú jörðunum svo sem áður var, þannig að hver jörð á landið niður af sínu landi“. Með landskiptunum kom í hlut Hlíðarendakots land, sem að austan náði í „Múlatorfumörk í Hákoll“, en við því var ekkert hreyft í síðari landskiptum Hlíðarendatorfu 30. mars 1981, þar sem meðal annars var tekið fram að „Hlíðarendakot á allt land suður af sínum túnum frá mörkum Múlakots II“. Fyrri áfangi landskipta fyrir Eyvindarmúlatorfu 8. maí 1971 sneri að „óskiptu landi á aurunum“ og voru útlínur þess sagðar meðal annars vera „landamerki milli Eyvindarmúlatorfu og Hlíðarendatorfu“ að vestan. Að norðan var landið, sem kom til skipta, afmarkað með línu á milli tveggja hornmarka, en að vestan var þar um að ræða sama hornmark og stuðst var við í áðurnefndum landskiptum Hlíðarendatorfu, 600 m fyrir sunnan neðsta foss í Merkjá. Við landskiptin kom meðal annars nánar tiltekið land í hlut Múlakots II og var sagt að það næði „að merkjalínunni milli Eyvindarmúlatorfu og Hlíðarendatorfu.“ Í landskiptagerðinni sagði jafnframt: „Samkomulag er milli eigenda og ábúenda að hver fái land fram af sínu túni suður að línu þeirri sem áður er lýst að takmarki skiptalandið að norðanverðu“. Síðari áfanginn í landskiptum fyrir Eyvindarmúlatorfu fór fram 9. júní 1976 og sagði meðal annars í landskiptagerðinni að samkomulag væri „um að takmörk skiptalandsins væru þessi: Að sunnan norðurmörk hins áður skipta lands á aurunum ... að vestan Merkjaá að bug norðan Þrætutungna“, en samkvæmt gögnum málsins munu Þrætutungur vera á heiðum uppi fyrir norðan Merkjárgil. Í skiptagerðinni sagði síðan eftirfarandi: „Fyrst var tekið til skipta láglendi neðan brekkuróta. Var ákveðið að láta samkomulag sbr. lsk. 8/5 1971 haldast“. Í framhaldi af síðastgreindum orðum, sem sýnilega varða fyrrgreint samkomulag í landskiptagerðinni 1971 um að hver jörð fengi land fram af túnum sínum suður að skiptalínu sem þá var miðað við, var lýst nánar tilteknum frávikum, en þau varða ekki ágreining aðilanna í máli þessu. Loks er þess að geta að í landskiptagerðinni sagði að „Múlakot II hlýtur sitt land vestast með Merkjaá“, svo og að „allar merkjalínur eru dregnar inná áðurnefnda loftmynd, sem fylgja mun skiptagjörðinni til sýslumanns.“ Á framlagðri loftmynd, sem óumdeilt er að sé sú sama og vísað var til í landskiptagerðinni, eru merki Múlakots II til vesturs látin fylgja farvegi Merkjár á því svæði, sem ágreiningur aðilanna stendur um. Af þessu öllu er ljóst að ekki var aðeins við landskiptin fyrir Hlíðarendatorfu gengið út frá því að austurmerki Hlíðarendakots ættu frá hornmarki 600 m fyrir sunnan foss í Merkjárgljúfri og „að hlíðarfæti“ að ráðast „af farvegi Merkiár“, heldur var einnig í landskiptunum fyrir Eyvindarmúlatorfu miðað við að henni tilheyrði land norður frá sama hornmarki, sem fylgdi „að vestan Merkjaá að bug norðan Þrætutungna“, en þessi vestasti hluti landsins kom í hlut Múlakots II. Þessi merki, sem færð voru inn á loftmynd, voru þannig viðurkennd af fyrri eiganda Múlakots II.
Í málinu liggur fyrir að áfrýjendur og stefndu gerðu í sameiningu 29. apríl 2000 þáverandi eiganda Múlakots II tilboð um kaup á jörðinni, sem samþykkt var, og fengu þau afsal fyrir henni 23. nóvember sama ár. Málsaðilarnir gerðu síðan 25. mars 2003 samkomulag um að skipta landi Múlakots II á þann hátt að áfrýjendur fengju í samræmi við fjárframlög sín til kaupanna 1/22 hluta þess, sem yrði látinn svara til 46,7 hektara landspildu fyrir sunnan þjóðveg vestast á jörðinni móts við land Hlíðarendakots, auk þess sem áfrýjendur fengju „greiðslumark/búmark jarðarinnar“, en að öllu öðru leyti yrði hún eign stefndu. Í samkomulaginu var vísað til þess að „til staðfestingar á framangreindri skiptingu“ hafi verið færð á loftmynd „með hnitasetningum landamerki þeirrar spildu“, sem kæmi í hlut áfrýjenda, og teldist sú loftmynd „órjúfanlegur hluti af samkomulagi þessu“. Á þessari loftmynd, sem aðilarnir staðfestu með því að rita á hana upphafsstafi sína, er ferhyrningslöguð spildan sýnd með hnitasettum hornmerkjum og liggja norðurmörk hennar suður undir þjóðveg rétt ofan við Þverá, meðal annars þar sem Merkjá rennur saman við hana, en vesturmörkin fylgja beinni línu, sem sýnd er óslitin frá Gluggafossi í norðri í stefnu til suðurs, sem greinilega beinist að Hákolli á Stóra-Dímon. Ekki verður litið svo á að áfrýjendur hafi með þessu viðurkennt að landamerki Hlíðarendakots og Múlakots II færu eftir þessari beinu línu allt norður að Gluggafossi, en í því sambandi verður að gæta að því að óumdeilt hefur verið að fossinn réði stefnu nærri 5 km langrar línu fyrir sunnan Merkjá eða Þverá, sem merki jarðanna höfðu þá í áratugi fylgt, auk þess sem loftmynd þessi var eftir hljóðan samkomulags aðilanna gerð til þess eins að taka af tvímæli um merki spildunnar, sem áfrýjendur voru að fá og fylgdu þessari línu að vestan, en ekki til að ákveða á nýjan leik landamerki jarðanna.
Samkvæmt því, sem að framan greinir, er ekki unnt að líta svo á að landamerkjabréf fyrir Hlíðarendatorfu og Eyvindarmúlatorfu frá 10. maí 1886 og 1. júní 1891 nægi ein út af fyrir sig til að kveða á um hvar merki jarða málsaðilanna liggi frá Þverá eða Merkjá norður að Merkjárgljúfri. Á hinn bóginn hafa eigendur Hlíðarendakots og Múlakots II hvorir fyrir sitt leyti tekið af tvímæli við landskiptagerðir á 8. og 9. áratug síðustu aldar um þann skilning sinn að merkin fylgi farvegi Merkjár á þessu svæði. Staðhættir styðja jafnframt eindregið þá niðurstöðu um merkin, meðal annars með því að tún, sem sýnilega eru gömul og óumdeilt er að hafi fylgt Hlíðarendakoti, ná að hluta inn á svæðið, sem aðilarnir deila um. Yrðu landamerkin ákveðin eftir því, sem stefndu krefjast, lægju þau yfir þessi tún, sem myndu þannig falla að hluta undir Múlakot II, en allt annað land þeirrar jarðar er handan ár, sem eftir heiti sínu ræður merkjum. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu áfrýjenda um að merki jarða aðilanna ráðist af farvegi Merkjár að þeim stað, sem hún rennur saman við Þverá. Óhjákvæmilegt er að Þverá verði látin ráða merkjunum þaðan til vesturs uns lína, sem dregin er frá Hákolli á Stóra-Dímon að Gluggafossi, sker ána, enda stendur engin haldbær heimild til þess að merkin taki mið af hornmarki samkvæmt landskiptauppdrætti, svo sem áfrýjendur hafa krafist. Í þessum efnum verður og að leggja til grundvallar að merki þessi fylgi árfarvegi eins og hann nú er, enda hafa hvorugir aðila krafist þess að farið verði í þessum efnum á einhvern nánar tiltekinn hátt eftir fyrirmælum 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Um merkin frá þeim stað, sem síðast var greindur, er þess að gæta að hann er nú á vesturmörkum þeirrar 46,7 hektara landspildu, sem áfrýjendur eignuðust með fyrrgreindu samkomulagi 25. mars 2003, en fyrir liggur að með stofnskjali 13. mars 2007 varð hún sjálfstæð fasteign með heitinu Múlakot 2, Þveráraurar. Eins og aðilarnir hafa hagað orðalagi dómkrafna sinna verður að líta svo á að þau hafi öll gengið út frá því að þegar rætt sé um vesturmerki Múlakots II sé að hluta átt við merki Múlakots 2, Þveráraura, gagnvart Hlíðarendakoti. Að þessu athuguðu verða merki Hlíðarendakots og Múlakots II ákveðin á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Stefndu verður í sameiningu gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Landamerki milli jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II í Rangárþingi eystra skulu ráðast af farvegi Merkjár og síðan Þverár eftir að þær renna saman þar til þær skerast af beinni línu, sem dregin er frá Hákolli á Stóra-Dímon að Gluggafossi í Merkjá, og fylgi þeirri línu síðan að Hákolli.
Stefndu, Guðjón Stefán Guðbergsson og Sigríður Hjartar, greiði í sameiningu áfrýjendum, Árna Jónssyni og Guðrúnu Stefánsdóttur, samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 24. apríl sl. Gagnsök var höfðuð með birtingu gagnstefnu 29. maí sl.
Stefnendur eru Guðjón Stefán Guðbergsson, kt. 070743-2219 og Sigríður Hjartar, kt. 300143-3939, bæði til heimilis að Múlakoti II, 861 Hvolsvelli.
Stefndu eru Árni Jónsson, kt. 150132-4959 og Guðrún Stefánsdóttir, kt. 020259-4509, bæði til heimilis að Hlíðarendakoti, 861 Hvolsvelli.
Dómkröfur stefnenda eru þær í aðalsök að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Múlakots II og Hlíðarendakots í Rangárþingi eystra liggi með eftirfarandi hætti: Frá Merkiárgljúfri niður til láglendis að punkti þar sem tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja með hnitin 455942;357818 og þaðan í hákollur í Stóra-Dímon með hnitin 453292;352759. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær í aðalsök að þau verði sýknuð af öllum dómkröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur gagnstefnenda eru þær að landamerki jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II, Rangárþingi eystra, verði ákvörðuð með eftirfarandi hætti: Frá Merkjárgljúfri til suðurs með árfarvegi Merkjárinnar allt að þeim stað þar sem farvegur Merkjár sker beina sjónlínu milli Merkjárfoss (Gluggafoss) og Hákolls Stóra-Dímons, þar sem er hornmark nr. 1 samkvæmt landskiptauppdrætti Jóhanns F. de Fonteney dagsettur 6. apríl 1974 (rörhæll rekinn niður), en frá þeim stað í beina stefnu til suðurs í Hákoll Stóra-Dímons miðað við sjónhendingu frá Gluggafossi í Hákoll Stóra-Dímons. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Gagnstefndu krefjast sýknu af kröfum gagnstefnenda og málskostnað að mati dómsins.
Gengið var á vettvang 17. nóvember sl.
Málavextir.
Ágreiningur aðila máls þessa snýst um landamerki jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra. Er deilt um landamerki á milli jarðanna á láglendi eða um staðsetningu merkjapunkts þar sem „tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja (að ofan talið)“, en ekki er ágreiningur um önnur merki milli jarðanna. Telja stefnendur að línan eigi að vera bein í samræmi við landamerkjabréf og uppdrátt en stefndu telja að brot eigi að vera í línunni.
Í landamerkjabréfi fyrir Eyvindarmúlaland frá 1. júní 1891, eða Múlatorfu í Fljótshlíð, sem var með býlunum Eyvindarmúla, Múlakoti, Sauðtúni, Árkvörn og Háamúla segir að landamerki á móts við land Hlíðarendatorfunnar séu þessi: „Úr Stóra-Hæringsfelli beint niður í miðgilið, upp af Merkiárbotnum, svo ræður það gil niður í Merkiárbotna, þá Merkiárfarvegur niður heiðina, Merkiárgil og Merkiárgljúfur niður til láglendis, þaðan er merkjalínan á láglendinu og aurunum, að tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja (að ofan talið) fram í norðurhamra Stóra-Dímonar, þar sem þeir eru vestast að bera á þessari leið, svo úr hömrunum upp í Hákoll á móts við land Stóradalstorfunnar í Stóra-Dímon.“ Landamerkjabréfið var þinglesið 18. maí 1892 og undirritað m.a. af þáverandi eigendum Múlakots og Hlíðarendakots.
Í landamerkjabréfi fyrir Hlíðarenda ásamt hjáleigunum Hlíðarendakoti, Nikulásarhúsi og Hallskoti frá 10. maí 1886 segir m.a. að merkin liggi „aftur úr Merkiárgljúfri að neðanverðu ræður bein stefna á láglendinu, þar sem tveir fossar eru opnir í gljúfrinu og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja, að ofan talið, og svo fram eftir beina stefnu í fyrrnefnda norðurhamra Stóra-Dímonar, þar sem þeir eru vestast að bera á þeirri leið að sjá“. Landamerkjabréfið var þinglesið 27. maí 1890 og undirritað m.a. af eigendum Hlíðarenda.
Með gerðardómi 24. maí 1969 var leyst úr ágreiningi eigenda jarða í Eyvindarmúla- Hlíðarenda- og Teigstorfum í Fljótshlíðarhreppi hinum forna um það hvar landamerki lægju í Stóra- Dímon. Í gerðardóminum er gerð grein fyrir þeim landamerkjabréfum sem fyrir liggja, m.a. þeim sem hér hafa verið rakin. Segir í dóminum að ljóst sé að þeim beri ekki saman um hvert sé hornmarkið í Stóra-Dímon. Bendi athugun á vettvangi eindregið til þess að þegar merkin hafi verið ákveðin hafi aðilar staðið á láglendinu (aurunum) og horft til Stóra-Dímons, eigi miðað frá fjallinu. Sé ástæða til að ætla að þetta sé m.a. orsök þess að staðarvísanir til Stóra-Dímons séu eigi hinar sömu í landamerkjabréfunum. Þar sem flest benti til þess að ætlunin hafi verið að merkjalínur allra jarðanna mættust í einum punkti í Stóra-Dímon var það niðurstaða dómsins að sameiginlegt mið allra þeirra jarða sem um ræddi verði í Hákoll á Stóra-Dímon. Segir í dóminum að merkjalínur þannig ákveðnar hafi verið dregnar á uppdrátt af Zophaníasi Pálssyni skipulagsstjóra og teljist uppdrátturinn hluti gerðardómsins. Samkvæmt uppdrættinum eru landamerkin milli Hlíðarendakots og Múlakots bein lína úr Hákolli í Stóra-Dímon og þaðan í Gluggafoss í Merkjá.
Þann 1. maí 1971 var úrskurðað um landskipti milli jarðanna Háamúla, Árkvarnar, Eyvindarmúla og Múlakots I og II á óskiptu landi á aurunum. Voru mörkin sögð vera „að vestanverðu landamerki milli Eyvindarmúlatorfu og Hlíðarendatorfu, en að ofanverðu bein lína á aurunum fyrir neðan túnin, en hún ákvarðast þannig: endapunktur annar er á ofangreindri merkjalínu 600 m suður mælt frá þeim stað í hlíðinni þar sem neðsti fossinn í Merkjá er í hornréttri stefnu út frá línunni“. Á skjalinu er uppdráttur þar sem merkin eru dregin og þá virðist farvegur Merkiár dreginn upp og er það til skýringar á mörkum gagnvart Hlíðarendakoti að mati aðalstefnda.
Þann 6. apríl 1974 var með landskiptagerð skipt öllu óskiptu landi Hlíðarendatorfu á aurunum og segir í skiptagerðinni að mörk þess séu „að utanverðu (vestan) nær landið að Teigsmarki þ.e. Hákollur í Dímon í Dýauga við Deild, nema þar sem Rauðuskriðuland er. Að innan eða austanverðu nær landið að Múlatorfumerki: Hákolur í Gluggafoss í Merkiá; en að norðan takmarkast landið af línu sem samkomulag var um að staðsetja þannig: bein lína sem frá Hornmarki no. 1 (en það er sama hornmark og gildir fyrir skiptalínu Múlatorfubæja) um hornmark no. 2 þartil línan sker markalínuna Hákollur Dýauga. Hornmark no. 2 er mark milli Neðri Þverár, Efri Þverár og Hlíðarendatorfu og er hornstaur í girðingu steyptur niður. Aurarnir frá umræddi skiptalínu að hlíðarfæti takmarkast að austanverðu af farvegi Merkiár en að vestan af ..... Öll eru mörk þessi ágreiningslaus. Á aurunum ofan við skiptalínu voru áður slægjulönd, sem fljótið hefur nú brotið niður og fylgja þau nú jörðunum svo sem áður var, þannig að hver jörð á landið niður af sínu landi og er merkt inn á uppdráttinn“. Samkvæmt uppdrættinum virðast mörkin milli Hlíðarendakots og Múlakots liggja um Merkiána frá norðurmörkum hins áður óskipta lands.
Samkvæmt landskiptagerð frá 9. júní 1976 á heimalöndum jarða í Eyvindarmúlatorfu voru takmörk skiptalandsins sögð vera „að vestan Merkjaá að bug norðan Þrætutungna. Þaðan bein lína í Grjóthól sunnan Tómagils ....“.
Árið 2000 keyptu málsaðilar í sameiningu jörðina Múlakot II, sbr. afsal dagsett 23. nóvember það ár. Þann 25. mars 2003 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um skiptingu jarðarinnar. Var jörðinni skip í tvo misstóra hluta með hliðsjón af því að aðalstefnendur greiddu 21/22 hluta kaupverðsins en aðalstefndu 1/22 hluta. Í samkomulaginu kemur fram að aðalstefndu skuli eiga land sunnan Múlakotsvegar og vestan Dímonarvegar. Norðurmörk landsins takmörkuðust af línu sunnan Múlakotsvegar, austurmörk landsins voru við línu vestan Dímonarvegar, vesturmörk landsins voru mörk að landi Hlíðarendakots og suðurmörk landsins voru nánar afmörkuð á meðfylgjandi uppdrætti. Er tekið fram að uppdrátturinn sé órjúfanlegur hluti samkomulagsins. Aðalstefnendur segja uppdráttinn sýna hvernig land Múlakots II afmarkist til vesturs af landi Hlíðarendakots norðan Múlakotsvegar og sé uppdrátturinn í samræmi við merkjalínu þá sem Zóphanías Pálsson hafi dregið í tilefni af gerðardóminum frá 1969.
Vorið 2007 reis ágreiningur milli aðila um eignarrétt að landsvæði vestan Merkiár og ofan Fljótshlíðarvegar. Héldu aðalstefndu því fram að Merkiá afmarkaði landamerki milli Múlakots II og Hlíðarendakots þar til hún sameinaðist Þverá og að land vestan árinnar tilheyrði Hlíðarendakoti. Mun þetta hafa komið aðalstefnendum í opna skjöldu enda hefðu þau aldrei heyrt landamerkjum lýst með þessum hætti.
Málsástæður og lagarök stefnenda í aðalsök.
Aðalstefnendur byggja á landamerkjalýsingum vegna Eyvindarmúlalands og Hlíðarenda frá 1886 og 1891 sem gerðar hafi verið á grundvelli þágildandi landamerkjalaga nr. 5/1882. Hafi lýsingarnar verið færðar í landamerkjabók lögum samkvæmt, þinglesnar og samþykktar vegna aðliggjandi jarða að því er varði þau mörk sem til úrlausnar séu hér. Ekki séu fyrir hendi neinar yfirlýsingar eða gerningar um merki milli jarðanna sem feli í sér breytingu á landamerkjum eins og þeim hafi verið lýst með lögformlegum hætti. Verði því að reisa dóm um merki jarðanna á lýsingu í umræddum landamerkjabréfum.
Aðalstefnendur byggja á því að landamerkjalýsingunum beri saman um hvernig merki jarðanna liggi. Í landamerkjabréfum vegna beggja svæðanna sé miðað við að merki á milli jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II liggi úr Merkiárgljúfri niður til láglendis um sama punkt, en þaðan í Stóra-Dímon. Hafi upphafspunktur landamerkja milli jarðanna í norðri ætíð verið óumdeildur, svo og lega merkjanna að Merkiárgljúfri. Um hríð hafi verið ágreiningur um endapunkt línunnar í suðri en úr því hafi verið leyst með gerðardóminum 1969 þar sem ákveðið hafi verið að miða við Hákoll í Stóra-Dímon. Telja aðalstefnendur að samkvæmt þessu geti eingöngu verið ágreiningur um legu landamerkja milli Merkiárgljúfurs og Stóra-Dímons. Aðalstefnendur telja skýrt af orðalagi landamerkjalýsinganna að landamerkjalínan frá Merkiárgljúfri um láglendið um punkt þann sem merktur sé með hnitin 455942;357818 sé á „láglendinu og aurunum, að tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja (að ofan talið)“, sbr. landamerkjalýsingu Eyvindarmúlalands og einnig „á láglendinu, þar sem tveir fossar eru opnir í gljúfrinu og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja, að ofan talið“, sbr. landamerkjalýsingu Hlíðarenda. Sé ekki unnt að miða við annan punkt á láglendinu, enda eini staðurinn þar sem aðstæður komi heim og saman við framangreindar lýsingar. Þá sé eðlilegt að landamerki liggi um þennan punkt þar sem um beina landamerkjalínu sé að ræða frá upphafspunkti til endapunkts í Stóra-Dímon, en venja sé að landamerkjalínur milli ákveðinna punkta sé bein nema annað sé tekið fram, sbr. einnig lýsingar í landamerkjalýsingu fyrir Hlíðarenda þar sem talað sé um beina stefnu á láglendinu og beina stefnu í Stóra-Dímon.
Aðalstefnendur vísa einnig til þeirrar meginreglu íslensks eignarréttar að landamerkjalýsingar samkvæmt formlega gildum og samþykktum landamerkjabréfum, sem gerðar hafi verið á grundvelli landamerkjalaga, teljist hafa sönnunargildi fyrir legu landamerkja samkvæmt efni sínu nema sýnt sé fram á annað með óyggjandi hætti. Beri aðalstefndu því sönnunarbyrðina fyrir því að landamerki séu með öðrum hætti en að framan greini.
Aðalstefnendur byggja einnig á því að aðalstefndu hafi samþykkt að landamerki milli jarðanna séu með þeim hætti sem í dómkröfu greini. Á uppdrætti með samkomulagi málsaðila um skiptingu jarðarinnar megi glögglega sjá að landamerki liggi með þeim hætti sem aðalstefnendur byggi á. Þá hafi málsaðilar byggt á þeirri landamerkjalínu sem Zóphanías Pálsson hafi dregið vegna gerðardómsins frá 1969, en af þeim uppdrætti verði ráðið að landamerkin liggi eins og greini í kröfugerð aðalstefnenda. Telja aðalstefnendur að með því að leggja þessa uppdrætti athugasemdalaust til grundvallar samkomulagi aðila hafi aðalstefndu staðfest og samþykkt landamerkin með bindandi hætti. Geti þau ekki horfið frá þessu samþykki nú, enda engin tilvik til staðar sem leiði til þess að virða beri meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga að vettugi. Verði ekki fallist á að með þessu hafi aðalstefndu samþykkt legu landamerkja milli jarðanna með bindandi hætti, telja aðalstefnendur að sú staðreynd að umræddur uppdráttur hafi verið lagður til grundvallar samkomulagi aðila renni engu að síður stoðum undir dómkröfu þeirra.
Aðalstefnendur mótmæla þeim sjónarmiðum aðalstefndu að Merkiá ráði landamerkjum milli jarðann á láglendi. Enga stoð sé að finna fyrir þessum skilningi í fyrirliggjandi heimildum um landamerki á svæðinu og þekkt sé meðal kunnugra á svæðinu að þegar Merkiá var komin niður á láglendið hafi hún áður fyrr sveiflast til á sand- og malarsvæði sem þarna hafi verið og því ótækt að miða landamerki á þessu svæði við hana. Þá mótmæla aðalstefnendur sjónarmiðum aðalstefndu um að þau hafi eignast einhvers konar eignarrétt að hinu umdeilda landi fyrir hefð, enda skilyrði hefðarlaga ekki uppfyllt.
Aðalstefnendur byggja á meginreglum eignarréttar um landamerki, áðurgildandi lögum nr. 5/1882 um landamerki og lögum nr. 441/1919 um landamerki. Þá er vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.
Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefndu í aðalsök.
Aðalstefndu byggja á því að hið umdeilda landsvæði sé allt innan eignarlands jarðarinnar Hlíðarendakots. Er á því byggt að frá fornu fari hafi merki jarðanna (áður Hlíðarenda og Eyvindarstaða) miðast við farveg Merkjár allt niður á láglendi á aurunum. Þá beri heiti árinnar skýrlega með sér að hún hafi skipt löndum.
Aðalstefndu vísa einkum til landamerkjabréfa Hlíðarenda og Eyvindarmúlalands þar sem merkin virðast miðuð við árfarveg Merkjár, sbr. orðalag landamerkjabréfs Hlíðarenda „...þá Merkiárfarvegur niður heiðina, Merkiárgil og Merkiárgljúfur niður til láglendis... “. Þá vísa aðalstefndu til landskiptagerða Hlíðarendatorfu frá 1974 þar sem mörkin á láglendi í Stóra-Dímon eru miðuð frá „hornmarki no.1“. Síðan segi: „Aurarnir frá umræddri skiptalínu að hlíðarfæti takmarkast að austanverðu af farvegi Merkiár“. Þá er vísað til landskiptagerðar Eyvindarmúlatorfu frá 1976 þar sem glögglega sé miðað við farveg Merkjár, þ.e. „að vestan Merkjaá að bug norðan Þrætutungna. Þaðan bein lína í Grjóthól sunnan Tómagils“. Telja aðalstefndu að verið sé að lýsa vesturmerkjum torfunnar gagnvart Hlíðarendalandi að sunnan með farvegi Merkjár til norðurs allt að þeim stað sem áin taki sveig til austurs norðan svokallaðra Þrætutungna sem liggi milli Tófugils og Tómagils.
Aðalstefndu hafna þeirri ályktun aðalstefnenda að lesa megi út úr fyrrgreindum landamerkjabréfum að austurmerki Hlíðarenda hafi verið talin liggja í beinni línu úr Merkjárgljúfri í punkt í Stóra-Dímoni. Telja aðalstefndu að þetta orðalag verði ekki skilið svo að merki jarðanna hafi legið í beinni línu úr norðurhömrum Stóra-Dímons í Merkjárgljúfur, heldur feli lýsingin í sér tilvísun til punkta (sjónhendingar) til viðmiðunar við ákvörðun um legu hinnar beinu línu á aurunum, neðan Merkjár (Þverár). Verði að telja slíka tilvísun nauðsynlega til þess að ákvarða merkin á aurunum, ella væri fullkomlega óljóst hvar miða skyldi punkt í Stóra-Dímoni. Telja aðalstefndu að höfundar landamerkjabréfanna hafi við mat á legu línunnar á aurunum staðið neðan núverandi Fljótshlíðarvegar, u.þ.b. á þeim stað þar sem hornpunktur no. 1 liggur og miðað merkjalínuna í beinni línu miðað við ímyndaðan punkt í Merkjárgljúfri. Hafi gljúfrið því verið nýtt sem viðmiðun um legu línunnar að ósi Merkjár, þ.e.a.s. að norðurmörkum hins áður óskipta svæðis á aurunum.
Aðalstefndu telja að skýra verð orðalag landamerkjabréfa með hliðsjón af öðrum rituðum heimildum. Hafi skilningur aðalstefndu m.a. verið staðfestur í landskiptagerðunum og þá hnígi öll rök til þess að merkin hafi verið talin liggja um Merkjá eins og nafn hennar beri með sér. Aðalstefndu hafna þeirri staðhæfingu aðalstefnenda að farvegur Merkjárinnar hafi verið breytilegur fyrir neðan fossa. Þótt farvegur árinnar (Þverár) á aurunum hafi sveiflast til og frá hafi farvegur árinnar á hinu umdeilda svæði verið sá sami. Hafi áin verið skýrt merki milli jarðanna, sem lýsi sér í því að óþarft hafi verið að setja niður merki milli jarðanna, sbr. m.a. 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919, sbr. ákvæði 2. gr. áðurgildandi landamerkjalaga nr. 5/1882. Hafi þar verið kveðið á um að þar sem eigi væru glögg merki, svo sem ár eða lækir, en sjónhending ræður, skuli setja marksteina eða hlaða vörður á merkjum með hæfilegu millibili, svo merki séu auðséð, eða hlaða merkjagarð eða grafa merkjaskurð.
Aðalstefndu vísa til uppdráttarins frá 6. apríl 1974 sem sýni glögglega að merkin hafi verið talin liggja um Merkjána allt frá norðurmörkum hins óskipta lands.
Aðalstefndu hafna því alfarið að gerðardómurinn frá 1969 hafi nokkra þýðingu við mat á merkjum milli jarðanna norðan skiptalínu, heldur hafi úrskurðurinn eingöngu lotið að því við hvaða punkt í Stóra-Dímoni skyldi miða, þ.e. hvað hornmark jarðanna lægju þar.
Aðalstefndu hafna því alfarið að þau hafi með bindandi hætti samþykkt merki milli jarðanna eins og þeim sé lýst í dómkröfum aðalstefnenda. Varði samkomulagið eingöngu skiptingu jarðarinnar Múlakots II þar sem aðalstefndu hafi fengið í sinn hlut tiltekið svæði á aurunum. Hafi uppdráttur sem fylgdi samkomulaginu því eingöngu þýðingu varðandi það landsvæði sem komið hafi í hlut aðalstefndu en með honum hafi ekki verið fallist á breytt landamerki milli jarðanna, enda ekki um það fjallað í samkomulagi aðila. Hafi áritun aðalstefndu á samkomulagið og uppdráttinn því ekki falið í sér nokkra viðurkenningu á merkjum milli jarðanna. Telja aðalstefndu að lína sú sem dregin sé í Merkjárgil hafi eingöngu verið til viðmiðunar og hafi samkomulagið því ekki falið í sér nokkurt afsal á landi aðalstefndu.
Aðalstefndu vísa til þeirrar meginreglu eignarréttarins að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri og ríkari rétt en seljandi átti, en merki jarðanna hafi legið um Merkjár með þeim hætti sem lýst hafi verið frá aldaöðli. Aðalstefndu benda á að aðalstefnendum hafi við kaup jarðarinnar Múlakots II borið að kynna sér þau gögn og heimildir sem jörðina varði, t.d. landskiptagerð Eyvindarmúlatorfunnar frá 1976 ásamt uppdrætti sem sýni glögglega að merkin hafi legið um Merkjána en ekki í beinni stefnu úr Gluggafossi í Hákoll Stóra-Dímons. Þá benda aðalstefndu á gróður- og merkjakort frá 1981 og uppdráttar á landskiptagerð Eyvindarmúlatorfu frá 1971, en þar sé sérstaklega dreginn upp farvegur Merkjár til skýringar á mörkum gagnvart Hlíðarendakoti. Þá ítreka aðalstefndu að hið umdeilda landsvæði hafi ætíð verið nýtt af landeigendum Hlíðarendakots og hafi svo verið á þeim tíma sem aðalstefnendur keyptu jörðina. Hafi aðalstefnendum því mátt vera ljóst við skoðun að svæðið hafi tilheyrt Hlíðarendakoti.
Aðalstefndu vísa sérstaklega til yfirlýsinga Oddgeirs Guðjónssonar fyrrverandi hreppstjóra Fljótsdalshlíðarhrepps og séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar, þar komi skýrt fram að merkin hafi ætíð verið talin liggja um Merkjána og þá hafi svæðið vestan árinnar frá ómunatíð verið nýtt af hálfu Hlíðarendakots (áður Hlíðarendatorfunnar). Þá benda aðalstefndu á að merkjakrafa aðalstefnenda liggi þvert yfir ræktað land aðalstefndu.
Aðalstefndu telja aðalstefnendur engar skjallegar heimildir hafa lagt fram sem rennt geti stoðum undir kröfugerð þeirra, en sönnunarbyrðin um að landamerkin séu með þeim hætti sem haldið sé fram af hálfu aðalstefnenda hvíli alfarið á þeim. Þá gefi staðhættir ekki tilefni til annars en að Merkjáin hafi ráðið merkjum eins og algengt hafi verið, enda hafi merki jarða almennt verið dregin um vatnsföll þar sem þeim hafi verið til að dreifa.
Aðalstefndu vísa einkum til meginreglna eignarréttar, þ. á m. um afmörkun fasteigna, einkum laga nr. 5/1882 og 41/1919. Þá er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar og byggt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarrétt fasteignareigenda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Þá er vísað til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök gagnstefnenda.
Gagnstefnendur byggja kröfur sínar í gagnsök á sömu málsástæðum og í aðalsök og vísast til umfjöllunar þar að lútandi hér að framan.
Að auki byggja gagnstefnendur á því að verði ekki fallist á merki jarðanna í samræmi við kröfugerð þeirra á grundvelli fyrirliggjandi heimilda, hafi þau öðlast eignarrétt að hinu umdeilda svæði fyrir hefð, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Hafi gagnstefnendur einir svo og fyrri eigendur Hlíðarendakots (áður Hlíðarendatorfu) nýtt hið umdeilda landsvæði og haft öll umráð þess frá öndverðu og ætíð verið í góðri trú um eignarhald svæðisins. Fullnægt sé skilyrðum hefðarlaga um óslitið eignarhald, virk umráð og huglæga afstöðu í fullan hefðartíma og verði því að telja að hefð hafi unnist með vísan til fyrrgreindra ákvæða hefðarlaga.
Með vísan til alls framanritaðs telja gagnstefnendur ljóst að merki jarðanna Hlíðarendakots og Múlakots II hafi legið með þeim hætti sem í dómkröfum greini, þ.e. um Merkjá. Gagnstefnendur vísa til þeirra skjallegu heimilda sem raktar hafi verið í gagnstefnu, auk þess sem staðhættir gefi ekki tilefni til annars en að Merkjáin hafi ráðið þar merkjum eins og algengt hafi verið, enda merki jarða almennt dregin um vatnsföll þar sem þeim hafi verið til að dreifa.
Tilvísun gagnstefnenda til lagaraka er með sama hætti og í aðalsök og þá er vísað til sömu lagaákvæða og þar greinir að því er málskostnað varðar.
Málsástæður og lagarök gagnstefndu.
Gagnstefndu mótmæla kröfugerð gagnstefnenda og telja hana ekki fá stoð í landamerkjabréfum eða öðrum heimildum sem varði landamerki á svæðinu. Sérstaklega er tekið fram að miðað sé við hornmark sem eigi rætur að rekja til landskiptauppdráttar fyrir Hlíðarendatorfu, dags. 6. apríl 1974, en landeigendur Múlakots hafi ekki átt aðild að þessari landskiptagerð og hafi aldrei samþykkt hana. Þá benda gagnstefndu á að óþarfi hafi verið að skipta hluta jarðarinnar Múlakots II eins og málsaðilar hafi gert 25. mars 2003 sé miðað við kröfu gagnstefnenda eins og hún sé sett fram. Sé ástæðan sú að ákveðinn hluti landsins hafi þegar verið í eigu gagnstefnenda sé miðað við lýsingu á landamerkjum í kröfugerð þeirra. Telja gagnstefndu þetta sýna að kröfur gagnstefnenda fái ekki staðist, enda hafi þau ekki þurft að kaupa land sem þau hafi talið sig eiga.
Gagnstefndu mótmæla sérstaklega þeirri staðhæfingu að í landamerkjabréfi Eyvindarmúlalands frá 1. júní 1891 sé Merkiá sögð ráða merkjum á hinu umdeilda svæði, enda sé það í ósamræmi við orðalag landamerkjabréfsins eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu hér að framan. Sé samsvarandi lýsingu að finna í landamerkjabréfi Hlíðarenda frá 10. maí 1886. Þá hafi með gerðardóminum frá 1969 því verið slegið föstu að suðurendi landamerkjalínunnar væri í Hákolli Stóra-Dímonar. Byggja gagnstefndu á því að þessari landamerkjalínu hafi aldrei verið hnikað eða breytt.
Gagnstefndu byggja á því að eingöngu megi ráða af orðalagi landamerkjabréfanna að Merkiá ráði merkjum á heiðinni og niður til láglendis, en ekki sé ágreiningur um landamerki á því svæði. Telja gagnstefndu landamerkjalýsinguna alls ekki bera með sér að Merkiá ráði merkjum á hinu umdeilda svæði, heldur beri orðalagið þvert á móti með sér að á láglendi, þegar Merkiárgljúfri sleppi, liggi merkjalínan frá Hákolli Stóra-Dímons til brekkuróta með stefnunni að tveir fossar séu opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja. Gagnstefndu telja ljóst að Merkiá hafi alla tíð ráðið mörkum jarðanna niður að láglendi en ekki lengra. Sé þessi skilningur í samræmi við texta landamerkjabréfa og aðrar heimildir um landamerki á svæðinu. Þá hafi áin sveiflast umtalsvert á hinu umdeilda svæði og hafi því verið talið óheppilegt að miða landamerki á svæðinu við farveg hennar. Gagnstefndu vísa til loftmynda því til sönnunar. Gagnstefndu fallast á að heiti árinnar beri með sér að Merkiá hafi skipt löndum en telja að áin hafi markað landamerki niður að láglendi og útskýri það nafn hennar. Gagnstefndu telja að áin hafi verið illa hæf til að marka landamerki á svæðinu, enda vatnsmikil á sem sveiflaðist á ýmsa vegu. Telja gagnstefndu ljóst að það hafi fyrst verið í kjölfar þess að áin var brúuð árið 1940 sem áin hafi haldist í nokkuð stöðugum farvegi niður að brúnni. Þegar núverandi brú hafi verið byggð 1988 hafi verið gerðir varnargarðar til að halda ánni í farvegi og hafi hún í kjölfarið haldist í farvegi sínum niður fyrir núverandi brú.
Að mati gagnstefndu styðja landamerkjabréf Hlíðarenda og Eyvindarmúla ekki að neinu leyti kröfur gagnstefnenda. Þvert á móti sé orðalag bréfanna að öllu leyti í samræmi við kröfur gagnstefndu í málinu. Hafi landamerkjabréfin sönnunargildi fyrir legu landamerkja milli jarðanna nema sýnt sé fram á annað með óyggjandi hætti. Hafi gagnstefnendum ekki tekist að sýna fram á slíkt en aðallega vísað til landskiptagerða sem varði ekki með beinum hætti hið umdeilda svæði.
Gagnstefndu telja landskiptagerð Hlíðarendatorfu vera ágreiningi aðila óviðkomandi, enda varði hún eingöngu landskipti innan Hlíðarendatorfunnar og taki til skipta á landi sem sé neðan þess svæðis sem ágreiningur aðila lúti að. Hafi landeigendur Múlakots ekki átt aðild að skiptagerðinni og það orðalag sem þar greini geti ekki verið bindandi fyrir gagnstefndu. Gagnstefndu mótmæla tilvísun gagnstefnenda til uppdráttar sem fylgt hafi landskiptagerðinni. Hann hafi aldrei verið viðurkenndur eða samþykktur af eigendum Múlakots og geti ekki haft neina þýðingu við ákvörðun landamerkja á svæðinu.
Að því er varðar landskiptagerð Eyvindarmúlatorfu telja gagnstefndu að hafa verði í huga að hún varði skipti á heiðinni, þ.e. ofan hins umdeilda svæðis og sé því ágreiningi aðila óviðkomandi. Þegar af þeirri ástæðu fái gagnstefndu ekki séð að skiptagerðin geti stutt kröfur gagnstefnenda eða haft þýðingu við mat á legu landamerkja á hinu umdeilda svæði. Vissulega sé rétt að vísað sé til Merkiárfarvegar í skiptagerðinni, en óumdeilt sé að merki miðist við árfarveginn á því svæði á heiðinni sem skiptagerðin taki til. Af þessari tilvísun til Merkiárfarvegar verði hins vegar ekkert ráðið um landamerki á hinu umdeilda svæði. Landskiptagerðin sé jafnframt óviðkomandi ágreiningi aðila þar sem hún varði land neðan hins umdeilda svæðis. Þá verði ekki séð að uppdráttur í gerðinni styðji kröfur gagnstefnenda að neinu leyti og því er harðlega mótmælt að farvegur Merkiár hafi verið sérstaklega dreginn upp til skýringar á mörkum gagnvart Hlíðarendakoti. Megi eitthvað ráða af landamerkjum milli Múlakots og Hlíðarendakots af uppdrættinum megi þvert á móti sjá að landamerkin ráðist ekki af Merkiá, enda fylgi uppdregin lína ekki farvegi árinnar.
Gagnstefndu taka fram að ekki sé miðað við það í kröfugerð þeirra að merki jarðanna hafi legið í beinni línu úr norðurhömrum Stóra-Dímons í Merkiárgljúfur heldur sé við það miðað að landamerkin ráðist af línu sem liggi frá Hákolli Stóra-Dímons með stefnu „þar sem tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja“, og í brekkurótina. Eigi þessi kröfugerð sér beina stoð í landamerkjabréfum þar sem beinlínis sé tekið fram að merki liggi í beina stefnu í Stóra-Dímon. Gagnstefndu hafna hugleiðingum í gagnstefnu um að lýsingin feli í sér tilvísun til viðmiðunarpunkta við ákvörðun um legu hinnar beinu línu á aurunum, neðan Merkiár (Þverár).
Gagnstefndu mótmæla þeirri fullyrðingu að farvegur Merkiár á láglendi hafi verið hinn sami um langan aldur og verið skýrt merki milli jarðanna. Hafi farvegur árinnar sveiflast verulega á hinu umdeilda svæði og sé tilvísun gagnstefnenda til ákvæða landamerkjalaga því þýðingarlaus.
Gagnstefndu halda því fram að þrátt fyrir að samkomulag aðila frá 25. mars 2003 hafi eingöngu varðað skiptingu tiltekins svæðis, hafi gagnstefnendur undirritað uppdráttinn án athugasemda og þar með viðurkennt þau landamerki sem þar komi fram.
Að því er skoðunarskyldu gagnstefndu við kaup jarðarinnar varðar taka þau fram að þau hafi skoðað öll skjöl sem máli hafi skipt varðandi landamerki milli jarðanna. Hafi gagnstefndu verið kunnugt um þær landskiptagerðir sem gagnstefnendur vísi til en ekki talið þær styðja kröfugerð þeirra.
Gagnstefndu taka fram varðandi framkomnar yfirlýsingar þeirra Oddgeirs og Sváfnis að skilningur ákveðinna aðila á landamerkjum á svæðinu geti ekki ráðið úrslitum um raunveruleg landamerki, heldur verði slíkt að ráðast af landamerkjabréfum svo sem þau verði skýrð með hliðsjón af öðrum áreiðanlegum heimildum.
Gagnstefndu mótmæla þeirri málsástæðu gagnstefnenda að þau hafi öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð. Beri gagnstefnendur sönnunarbyrðina fyrir því að þau hafi ein haft óslitin umráð svæðisins í meira en tvo áratugi, sbr. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga. Engin sönnunargögn hafi verið lögð fram þessu til stuðnings og ekki hafi verið útskýrt hvers konar umráð hafi verið um að ræða, hvernig þau hafi nýtt það eða frá hvaða tímamarki slík umráð eigi að hafa átt sér stað. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2008 sem gagnstefnendur hafi hafist handa um girðingarframkvæmdir í því skyni að ná utan um stærri hluta hins umdeilda svæðis gegn mótmælum gagnstefndu. Sé því ljóst að gagnstefnendur hafi ekki haft slík afnot af hinu nýgirta svæði sem útilokað hafi aðra frá afnotum þess.
Tilvísun gagnstefndu til lagaraka er með sama hætti og í aðalsök og þá er vísað til sömu lagaákvæða og þar greinir að því er málskostnað varðar.
Niðurstaða.
Í landamerkjabréfinu frá 10. maí 1886 segir m.a. um hin umdeildu merki að þau liggi „aftur úr Merkiárgljúfri að neðanverðu ræður bein stefna á láglendinu, þar sem tveir fossar eru opnir í gljúfrinu og fuglsbringu að sjá í hinn þriðja, að ofan talið, og svo fram eftir beina stefnu í fyrrnefnda norðurhamra Stóra-Dímonar, þar sem þeir eru vestast að bera á þeirri leið að sjá“. Í landamerkjabréfinu 1. júní 1891 segir að landamerki á móts við land Hlíðarendatorfunnar séu þessi: „Úr Stóra-Hæringsfelli beint niður í miðgilið, upp af Merkiárbotnum, svo ræður það gil niður í Merkiárbotna, þá Merkiárfarvegur niður heiðina, Merkiárgil og Merkiárgljúfur niður til láglendis, þaðan er merkjalínan á láglendinu og aurunum, að tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja (að ofan talið) fram í norðurhamra Stóra-Dímonar, þar sem þeir eru vestast að bera á þessari leið, svo úr hömrunum upp í Hákoll á móts við land Stóradalstorfunnar í Stóra-Dímon.“ Óumdeilt er að Merkiá réð merkjum á heiðinni niður að Gluggafossi en aðilar deila um það hvort farvegur Merkiár ráði merkjum eftir það eða hvort miða skuli við beina línu úr Hákolli Stóra-Dímons í punkt þann í gljúfrinu sem lýst er í landamerkjabréfunum. Ekki verður fallist á að af landamerkjabréfunum megi ráða að Merkiá ráði merkjum neðan Gluggafoss og fær sá skilningur stoð í gerðardóminum frá 24. maí 1969 og uppdrætti sem fylgdi honum. Segir í gerðardóminum að landamerkjalínur séu dregnar á uppdráttinn og teljist hann hluti af dóminum. Á uppdrættinum er síðan dregin bein lína úr Hákolli Stóra-Dímons í Gluggafoss. Er kröfugerð aðalstefnenda því í samræmi við framangreind landamerkjabréf.
Fallast ber á það með gagnstefndu að landskiptagerð Hlíðarendatorfu frá 1974 varði eingöngu landskipti innan Hlíðarendatorfunnar og hafi landeigendur Múlakots ekki átt aðild að skiptagerðinni. Verða kröfur gagnstefnenda því ekki byggðar á þeirri skiptagerð.
Að því er landskiptagerð Eyvindarmúlatorfu varðar verður að hafa í huga að með henni var skipt óskiptu landi á aurunum og útlínur þess markaðar með tilteknum hætti. Verður ekki fallist á að með skiptagerðinni hafi orðið samkomulag um að Merkiá skyldi ráða merkjum milli málsaðila á hinu umdeilda svæði.
Ekki verður fram hjá því litið að á uppdrætti þeim sem fylgdi samkomulagi aðila um skiptingu jarðarinnar Múlakots II og sagður var órjúfanlegur hluti af samkomulaginu var og sýndi landamerki þeirrar 46,7 ha spildu sem kom í hlut aðalstefndu voru landamerki milli jarðanna mörkuð með beinni línu í Gluggafoss en ekki eftir Merkiá. Uppdrátturinn er sérstaklega áritaður af málsaðilum og er ekki að sjá að aðalstefndu hafi gert neina athugasemdir við hann. Verður að telja að þetta styðji kröfur aðalstefnenda.
Að mati dómsins hafa gagnstefnendur ekki rökstutt með nægjanlegum hætti hvernig þau hafi öðlast eignarrétt að hinu umdeilda svæði fyrir hefð. Verður því ekki fallist á þá málstæðu.
Niðurstaðan verður því sú að fallist er á kröfur aðalstefnenda í aðalsök og af því leiðir að gagnstefndu eru sýkn af kröfum gagnstefnenda í gagnsök.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutnings ekki þörf.
DÓMSORÐ:
Viðurkennt er í aðalsök að landamerki jarðanna Múlakots II og Hlíðarendakots í Rangárþingi eystra liggi með eftirfarandi hætti: Frá Merkiárgljúfri niður til láglendis að punkti þar sem tveir fossar eru opnir í Merkiárgljúfri og fuglsbringur að sjá í hinn þriðja með hnitin 455942;357818 og þaðan í hákollur í Stóra-Dímon með hnitin 453292;352759.
Gagnstefndu, Guðjón Stefán Guðbergsson og Sigríður Hjartar, eru sýkn af kröfum gagnstefnenda, Árna Jónssonar og Guðrúnar Stefánsdóttur í gagnsök.
Málskostnaður fellur niður.