Hæstiréttur íslands

Mál nr. 834/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

                                     

Mánudaginn 14. desember 2015.

Nr. 834/2015.

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)

gegn

X

(Theodór Kjartansson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. janúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. desember 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til c-liðar 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ákærða,  X, fæddum [...], [...] ríkisborgara, verði með úrskurði dómsins gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. janúar 2016 en þó eigi lengur en þar til dómur hefur verið kveðinn upp í máli hans.

                Ákærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

I

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að lögregla hafi haft ætluð fjársvikabrot ákærða, X, gagnvart [...]., til rannsóknar frá komu ákærða hingað til lands í lok júlí sl., sbr. mál lögreglu nr. 008-2015-[...]. Ákærði hafi verið handtekinn 27. júlí sl. grunaður um að hafa svikið út farmiða þann sem hann ferðaðist á með því að gefa upp, í blekkingarskyni og án heimildar, greiðslukortanúmer annars manns. Þá hafi við leit í farangri ákærða fundist fjöldi muna sem lögregla ætli að séu kærða óviðkomandi, svo sem greiðslukort, óútfyllt brottfararspjöld frá mismunandi flugfélögum, merkimiðar ætlaðir áhöfnum mismunandi flugfélaga, óútfylltir úttektarmiðar fyrir hótel o.fl. Ákæra hafi verið gefin út vegna ætlaðra fjársvika við greiðslu flugbókana frá 26. júlí 2015, samtals að andvirði 327.450 krónur og sæti hún nú dómsmeðferð. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins til 26. ágúst sl. er honum hafi með úrskurði héraðsdóms verið gert að sæta farbanni.

                Frá lokum októbermánaðar hafi ákærði sætt rannsókn að nýju, sbr. mál 008-2015-[...], fyrir annars vegar áþekk brot og áður sé greint frá og hins vegar auðgunarbrot sem tengist verðmætum munum sem fundist hafi í híbýlum ákærða. Samkvæmt gögnum málsins hafi á tímabilinu 26.-29. október 2015 verið gerðar fimm mismunandi bókanir í flug með [...] hingað til lands á nafni móður ákærða, A. Við greiðslu á öllum bókunum hafi verið gerðar samtals 28 tilraunir til að greiða með nítján greiðslukortanúmerum manna víða um heim. Farmiðar í hverri flugbókun hafi verið að verðmæti 117.000 krónur til 146.000 krónur og á þeirri forsendu megi áætla andlag meintra brota yfir 600.000 krónur, hefðu greiðslur gengið í gegn. Allar þessar bókanir hafi verið framkvæmdar af aðila sem tengst hafi þráðlausu neti gistiheimilisins [...], [...], Reykjavík, hvar ákærði hafi dvalist í farbanni því sem honum hafi verið gert að sæta frá 26. nóvember 2015 og upplýst sé nú að hann hafi verið starfandi á meðan hann dvaldist þar. Í kjölfar þess að framangreindar bókanir gengu ekki í gegn er upplýst að ákærði fór á söluskrifstofu [...] í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og greiddi fyrir farmiða á nafni móður sinnar, sem hann hafði áður bókað símleiðis, í reiðufé. Lögreglustjóri segir ákærða strax hafa verið grunaðan um aðild að málinu og hann verið handtekinn á fyrrnefndu gistiheimili 2. nóvember 2015. Hafi hann verið færður til yfirheyrslu í kjölfarið. Á vettvangi hafi komið í ljós að upplýsingar um í það minnsta tvo gesti gistiheimilisins hafi verið notaðar við bókanir. Í framhaldinu hafi leit verið framkvæmd í vistarverum ákærða, og að því er virðist móður hans, sem þá hafi verið komin til landsins. Við leitina hafi fundist annars vegar fjölmörg handskrifuð kortanúmer, þar á meðal úr bókunum gesta á gistiheimilinu, og hins vegar mikið magn af dýrum útivistarfatnaði, augsýnilega úr hérlendum verslunum. Andvirði þeirra muna nemi um 1.000.000 króna.

                Lögreglustjóri segir rannsókn nýju málanna nokkuð vel á veg komna en þó ekki lokið. Ákærði hafi verið yfirheyrður í tvígang. Að mati lögreglu sé framburður hans ótrúverðugur og þær skýringar sem hann hafi gefið um margt fjarstæðukenndar. Ákærði hafi alfarið neitað aðild að bókunum farmiða á nafni móður sinnar á veraldarvefnum. Hann hafi gengist við því að hafa reynt að bóka farmiða símleiðis og gefið þær skýringar að nauðsynlegt hefði verið að gefa upp greiðslukortanúmer annarra manna til að geta fengið upp gefið númer flugbókunar sem hann hafi ætlað að staðgreiða í framhaldinu, svo sem hann hafi og gert. Ákærði hafi einnig sagt að mögulega hafi hann fundið handskrifað blað með kortanúmerum á gistiheimili því sem hann hafi starfað á sem sjálfboðaliði sem næturvörður. Vegna þeirra muna sem hafi fundist á gistiheimilinu hafi ákærði iðulega neitað að svara spurningum lögreglu. Ef hann hafi hann sem fyrr gefið fjarstæðukenndar skýringar. Móðir ákærða hafi alfarið neitað að hafa vitneskju um málið.

Vegna hinna nýju mála hafi lögreglustjóri 3. nóvember sl. gert kröfu um að ákærða yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-, b- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði héraðsdóms þann sama dag hafi ákærða verið gert að sæta farbanni. Ákærði hafi þá verið leystur úr haldi. Með dómi Hæstaréttar Íslands 6. nóvember sl. í málinu nr.[...]/2015 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þriðjudagsins 17. nóvember kl. 16:00. Hafi ákærði verið handtekinn samdægurs á áðurnefndu gistiheimili. Við það tækifæri hafi fundust fleiri munir áþekkir þeim sem hald var lagt á við fyrri húsleit lögreglu. Fyrir liggi að móðir ákærða hafi farið af landi brott í kjölfar handtöku ákærða.

II

   Lögreglustjóri vísar til þess að ákærði sé undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn ákvæðum 248. gr. og eftir atvikum 244. eða 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við umræddri háttsemi liggi allt að sex ára fangelsi. Það sé mat lögreglustjóra að brot ákærða muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu verði hann fundinn sekur. Sú afstaða lögreglu byggist á réttarframkvæmd hér á landi fyrir sambærileg fjársvik og þess að ákærði hafi áður gerst sekur um viðlíka brot.

                Að mati lögreglustjóra sé ekki völ á vægari úrræðum í ljósi þess sem upplýst sé í málinu. Því sé þörf á að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans séu til meðferðar innan refsivörslukerfisins. Í því sambandi bendir lögreglustjóri á að ákærði eigi sér mjög langa sögu fjársvika erlendis. Gerð sé grein fyrir brotaferli ákærða í gögnum málsins og komi þar fram að hann hafi á árunum 2004 til 2014 margítrekað hlotið dóma fyrir auðgunarbrot, suma hverja þunga t.a.m. hér á landi þegar hann hafi verið sakfelldur fyrir fjársvik með dómi Héraðsdóms Reykjaness, 17. ágúst 2007 í máli nr. [...]/2007, fyrir að hafa í níu skipti á tímabilinu frá mars 2007 til ágúst sama ár svikið út farmiða, samtals að andvirði 802.000 krónur.

                Lögreglustjóri segir aðstæður í málinu vera hinar sömu og þegar Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp dóm sinn 6. nóvember sl. Ákærði sé vanaafbrotamaður sem láti sér ekki segjast, svo sem hann hafi sýnt í verki. Megi ætla að ákærði muni halda brotum áfram á meðan málum hans sé ekki lokið hér á landi, en það séu einmitt þeir hagsmunir sem c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé ætlað að vernda. Skilyrði nefnds ákvæðis séu því uppfyllt í málinu.

                Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, dóms Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015, 248. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna refsivörsluhagsmuni standa til þess að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 7. janúar 2016, kl. 16:00.

III

Samkvæmt framangreindu og fyrirliggjandi rannsóknargögnum er ákærði undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við.

Fyrir liggur að ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærða fyrir fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakamál á grundvelli ákærunnar var þingfest 17. nóvember sl. Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrr í dag og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Má vænta dóms í málinu innan fjögurra vikna frá deginum í dag að telja.

Eins og reifað er í kafla I hér að framan eru í greinargerð lögreglustjóra rakin þau meintu brot ákærða sem voru tilefni höfðunar fyrrnefnds sakamáls hendur honum. Í greinargerðinni er einnig vísað til annarra auðgunarbrota sem ákærði er grunaður um að hafa framið og lögreglustjóri telur varða við 248. gr., og eftir atvikum 244. eða 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. [...]/2015, sem kveðinn var upp 6. nóvember sl., var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna brotanna á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Að hinum meintu brotum ákærða virtum og þess sem fyrir liggur um sakaferil hans þykir ákvæði 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki standa því í vegi að fallist verði á kröfu lögreglustjóra.

Að mati dómsins má ætla að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því og öðru framangreindu er fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Í ljósi allra atvika málsins og þess að áðurnefnt sakamál, sem lögreglustjóri höfðaði á hendur ákærða, var dómtekið fyrr í dag, þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina með þeim hætti sem hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

                Ákærða, X, fd. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. janúar 2016, kl. 16:00, en þó eigi lengur en þar til dómur hefur verið kveðinn upp í máli hans nr. S-[...]/2015.