Hæstiréttur íslands

Mál nr. 730/2016

Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
Júlíu Jóhannesdóttur (Skúli Bjarnason hrl., Guðmundur H. Pétursson hdl. 4. prófmál)

Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fyrning

Reifun

L krafðist þess að viðurkennd yrðu slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur J samkvæmt tveimur skuldabréfum sem hún gaf út til L vegna námslána. Bú J var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2013 og við lok þeirra 14. ágúst sama ár hófst nýr tveggja ára fyrningartími á kröfu L. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. væri réttur L til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur J háður þeim skilyrðum að hann sýndi fram á annars vegar að hann hefði sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur mætti telja á að fullnusta gæti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Að því er varðaði fyrra skilyrði þess ákvæðis vísaði Hæstiréttur til þess að líta yrði svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefði ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldara, fæli skilyrðið einkum í sér að kröfuhafi þyrfti vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi væri hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa yrði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Taldi Hæstiréttur aðstæður L ekki sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Þá yrði ekki framhjá því litið að L væri ríkisstofnun, sem fengi fé til að standa undir starfsemi sinni m.a. með framlögum ríkisins, þess sama og hefði í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Þar sem því hefði ekki verið borið við að J hefði með ólögmætri háttsemi stofnað til skulda við L taldi Hæstiréttur að skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 væru ekki uppfyllt og þurfti þá ekki að líta frekar til þess að L hefði á engan hátt leitt í ljós að líkur væru á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfum númer G-057075, útgefnu 22. ágúst 2005 og upphaflega að fjárhæð 1.091.211 krónur, og númer G-003901, útgefnu 2. september sama ár og upphaflega að fjárhæð 2.332.133 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefnda 22. ágúst 2005 skuldabréf, sem bar númerið G-057075, og viðurkenndi þar að skulda áfrýjanda fjárhæð, sem nema myndi heildarskuld vegna námslána í yfirstandandi námi hennar, en honum var í skuldabréfinu veitt heimild til að færa inn þá fjárhæð við lok þess náms. Óumdeilt er að stefnda hafi lokið náminu 15. maí 2006 og hafi áfrýjandi þá réttilega ritað fjárhæð skuldar hennar, 1.091.211 krónur, á viðeigandi stað í skuldabréfinu, en skuldin var bundin vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu. Að auki hafði stefnda áður tekið lán hjá áfrýjanda á árunum 1991 til 1993 vegna annars náms og gefið út í tengslum við það skuldabréf til hans, en skilmálum þess var breytt með nýju skuldabréfi, sem hún gaf út 2. september 2005 og fékk númerið G-003901. Fjárhæð þess, 2.332.133 krónur, var jafnframt bundin áðurnefndri vísitölu. Áfrýjandi kveður reglur um endurgreiðslu námslána hafa leitt til þess að stefnda hafi aðeins verið krafin um greiðslur af skuldabréfi nr. G-003901 á meðan innheimta hins skuldabréfsins hafi verið látin bíða og hafi stefnda staðið skil á þeim frá fyrsta gjalddaga 30. júní 2008 til og með gjalddaga 1. mars 2010. Fyrir liggur að stefnda sótti 19. nóvember 2010 um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, en ekki varð af samningi um hana þar sem stefnda afturkallaði umsókn sína 10. janúar 2013. Í framhaldi af því leitaði stefnda gjaldþrotaskipta á búi sínu með kröfu, sem barst héraðsdómi 8. febrúar 2013, og var hún tekin til greina 27. sama mánaðar. Við skiptin var lýst kröfum að fjárhæð samtals 83.907.380 krónur, en þar af nam krafa áfrýjanda á grundvelli fyrrnefndra skuldabréfa alls 5.306.225 krónum. Skiptunum lauk 14. ágúst 2013 án þess að greiðsla fengist upp í þá kröfu. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo sem þeirri lagagrein var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, rufu gjaldþrotaskiptin á búi stefndu fyrningu á kröfu áfrýjanda samkvæmt skuldabréfunum, en við lok skiptanna hófst nýr tveggja ára fyrningarfrestur hennar. Í málinu er deilt um hvort fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, til að áfrýjandi fái með dómi viðurkennd slit á þessari fyrningu kröfunnar með þeim áhrifum að upp frá því gildi um hana fyrningarfrestur eftir almennum reglum laga.

Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 er réttur áfrýjanda til að fá slitið fyrningu kröfu sinnar á hendur stefndu háður þeim skilyrðum að hann sýni fram á annars vegar að hann hafi sérstaka hagsmuni af því og hins vegar að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni á nýjum fyrningartíma. Varðandi skýringu á fyrirmælum um þessi skilyrði hefur áfrýjandi meðal annars vísað til þess að með 1. gr. laga nr. 142/2010 hafi ekki aðeins verið sett ný regla um að krafa á hendur þrotamanni fyrnist á tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta í stað eldri reglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um að gjaldþrotaskipti ryfu fyrningu lýstrar kröfu og hæfist við lok þeirra á nýjan leik sami fyrningarfrestur og áður gilti um hana, heldur hafi einnig verið takmörkuð mjög heimild kröfuhafa til að fá fyrningu slitið. Standi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar því í vegi að leidd séu í lög á afturvirkan hátt skilyrði, sem tálmi í svo ríkum mæli að fyrningu verði slitið að þau jafngildi banni við því, en að þessu verði sérstaklega að gæta við skýringu og beitingu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Um þessa röksemd áfrýjanda er til þess að líta að fyrirmælin í síðastnefndu lagaákvæði eru ekki afturvirk í öðrum skilningi en þeim að þau taka til allra krafna á hendur þrotamanni, sem ekki er fullnægt við gjaldþrotaskipti, án tillits til þess hvort þær hafi orðið til áður en eða eftir að lög nr. 142/2010 tóku gildi. Með lögum er unnt að breyta fyrningartíma kröfu frá því, sem gilti við stofnun hennar, enda sé kröfuhafa þá gefið ráðrúm til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar ef nýjum fyrningartíma hennar væri að öðrum kosti að ljúka eða þegar lokið. Eðli máls samkvæmt hefur löggjafinn þá einnig svigrúm til að setja nýjar reglur um hvernig og með hvaða skilyrðum fyrningu kröfu verði slitið. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 fela í sér almenna takmörkun á rétti kröfuhafa til að slíta fyrningu við tilteknar aðstæður og tekur hún jafnt til allra. Eru því ekki efni til að láta 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar setja sérstakt mark á skýringu 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

Í lögskýringargögnum, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður lítið séð sem máli skiptir um hvernig löggjafinn hafi ætlast til að skýrð yrðu þau fyrirmæli í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi þurfi að sýna fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu kröfu til þess að við því megi verða. Eftir orðalagi þessa lagaákvæðis og með hliðsjón af því, sem þó kom fram í lögskýringargögnum, verður að líta svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefur ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldarans, feli þetta skilyrði einkum í sér að kröfuhafi þurfi vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi sé hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa verði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Þótt áfrýjandi beri eftir lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna ríkar skyldur til að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum geta þær einar ekki valdið því að aðstæður hans séu í framangreindum skilningi sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. Í því sambandi verður heldur ekki litið fram hjá því að áfrýjandi er ríkisstofnun, sem fær samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 21/1992 fé til að standa undir starfsemi sinni meðal annars með framlögum ríkisins, þess sama og hefur í skjóli löggjafarvalds síns sett 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 án þess að undanþiggja áfrýjanda eða aðra tiltekna lánardrottna frá því að þurfa að hlíta reglum ákvæðisins. Því hefur ekki verið borið við að stefnda hafi með ólögmætri háttsemi stofnað til skulda við áfrýjanda. Þegar af þessum ástæðum eru ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu áfrýjanda um að viðurkennd verði slit á fyrningu kröfu hans á hendur stefndu og þarf þá ekki að líta frekar til þess að hann hefur á engan hátt leitt í ljós að líkur séu á að fullnusta kröfunnar gæti fengist á nýjum fyrningartíma.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu, Júlíu Jóhannesdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2016.

I. Dómkröfur.

Mál þetta var þingfest 29. september 2015, en tekið til dóms 7. september 2016. Stefnandi gerir þá kröfu að fyrningarslit kröfu hans á hendur stefndu samkvæmt skuldabréfum nr. G-057075, sem gefið var út 22. ágúst 2005, upphaflega að fjárhæð 1.091.211 krónur, og nr. G-003902, sem gefið var út 2. september 2005, upphaflega að fjárhæð 2.332.133 krónur, verði viðurkennd með dómi.

Stefnda gerir þá kröfu að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæðina.

 

II. Málavextir.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda tók námslán hjá stefnanda Lánasjóði íslenskra námsmanna á árunum 1991-1993 vegna náms í hjúkrunarfræði en námslok voru 26. maí 1993. Mun stefnda hafa lokið einum vetri í því námi. Síðan stundaði stefnda nám við Háskólann í Reykjavík árin 2003 til 2005 en námslok hennar munu hafa orðið 15. maí 2006 þegar hún lauk BS-námi í viðskiptafræði.

Stefnda ritaði undir skuldabréf hjá stefnanda til viðurkenningar á teknum námslánum og er krafa stefnanda tilkomin vegna þeirra. Er þar annars vegar um að ræða skuld stefnanda vegna námslána á grundvelli skuldabréfs sem upphaflega var nr. R-044723, en var síðar skuldbreytt í skuldabréf nr. G-003901, útgefið 2. september 2005, upphaflega að fjárhæð kr. 2.332.133. 

Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins skyldi lánið vera verðtryggt og verðtryggingin miðast við breytingar á vísitölu neysluverðs. Grunnvísitala skuldabréfsins er 255,2 stig sem er vísitala í maí 2006. Lánið skyldi bera breytilega vexti sem aldrei verða hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar, nú 1% ársvextir, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 478/2011. 

Hins vegar er krafa stefnanda tilkomin vegna skuldabréfs nr. G-057075, sem gefið var út 22. ágúst 2005, upphaflega að fjárhæð kr. 1.091.211. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins skyldi lánið vera verðtryggt og verðtryggingin miðast við breytingar á vísitölu neysluverðs. Grunnvísitala skuldabréfsins er 255,2 stig sem er vísitala í maí 2006. Lánið skyldi bera breytilega vexti sem aldrei verða hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar, nú 1% ársvextir, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 478/2011. Af gögnum málsins verður ráðið að tiltekinn einstaklingur hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á báðum skuldabréfunum en í stefnu kemur fram að honum sé ekki stefnt í málinu þar sem bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 hefjast endurgreiðslur námslána tveimur árum eftir námslok. Vextir reiknast frá námslokum. Skyldi höfuðstóll skuldarinnar reiknaður út á hverjum gjalddaga áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Fyrsta afborgun af námslánunum var 30. júní 2008 sem stefnda greiddi og voru næstu reglulegu afborganir greiddar til og með 1. mars 2010. 

Með auglýsingu sem birt var í Lögbirtingablaði 23. nóvember 2010 var tilkynnt að umboðsmaður skuldara hefði samþykkt umsókn stefndu um greiðsluaðlögun einstaklinga og þá hófst þá tímabundin frestun greiðslna hjá henni samkvæmt lögum nr. 128/2010, um breytingu á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Með auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu, dags. 4. október 2011, var birt innköllun þar sem skorað var á alla sem teldu sig eiga kröfur á stefndu að lýsa þeim fyrir umsjónarmanni hennar.

Með auglýsingu sem birt var í Lögbirtingarblaði, dags. 11. janúar 2013, var tilkynnt að stefnda hefði afturkallað umsókn sína um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og tímabundinni frestun greiðslna hjá henni samkvæmt lögum nr. 101/2010 væri þar með lokið.

Með bréfi stefndu til Héraðsdóms Reykjaness, dags. 8. febrúar 2013, krafðist stefnda þess að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp 27. febrúar 2013 var bú stefndu tekið til gjaldþrotaskipta og var innköllun til kröfuhafa birt í Lögbirtingablaði 6. mars 2013. Stefnandi lýsti kröfu vegna námslána í þrotabú stefndu Júlíu en skiptum á þrotabúi hennar lauk þann 14. ágúst 2013.

III. Málsástæður aðila.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi með undirritun sinni á skuldabréf vegna námslána nr. G-057075 og nr. G-003901 skuldbundið sig til að endurgreiða námslánin með þeim skilmálum sem fram koma á námslánaskuldabréfunum sjálfum og í samræmi við fyrirmæli laga nr. 21/1992, um lánasjóð íslenskra námsmanna.

Stefnandi byggir á því að krafa hans á hendur stefndu hafi fallið í gjalddaga við úrskurð héraðsdóms um töku bús stefndu til gjaldþrotaskipta þann 27. febrúar 2013, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. sömu laga byrji nýr fyrningarfrestur að líða á kröfum á hendur þrotamanni á þeim degi sem skiptunum er lokið, hvort sem kröfu er lýst við gjaldþrotaskiptin eða ekki, svo fremi sem vanlýst krafa fyrnist ekki á skemmri tíma. Nýr fyrningarfrestur hafi þá byrjað að líða gagnvart stefndu frá þeim degi sem skiptum á þrotabúi hennar var lokið, eða þann 14. ágúst 2013.

Um kröfu sína um viðurkenningu á fyrningarslitum er byggt á því að stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Sú sérstaða hvíli á stefnanda að hlutverk hans sé að veita námsmönnum námslán og allir námsmenn sem uppfylla skilyrði laga nr. 21/1992, sbr. reglugerð nr. 478/2011, fyrir því að fá námslán eigi rétt á námslánum í samræmi við markmið og tilgang stefnanda. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 sé það hlutverk hans að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 3. gr. laganna komi fram að miða skuli við að lán sem falla undir ákvæði laganna nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti fjölskyldustærðar hans, sbr. einnig 12. gr. laganna. Í 3. mgr. 7. gr. laganna komi fram að lánstími er ótilgreindur en greitt skuli af námsláni samkvæmt 8. gr. þar til skuldin sé að fullu greidd. Í 4. mgr. 7. gr. segi síðan að endurgreiðsla námslána hefjist tveimur árum eftir námslok. Þá segi í 5. mgr. 7. gr. laganna að vextir skuli vera breytilegir, en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar, og vextir reiknist frá námslokum. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 478/2011 bera námslán auk verðtryggingar 1% ársvexti sem leggjast á verðtryggðan höfuðstól.

Stefnandi bendir á að samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 ákvarðist árleg endurgreiðsla lánanna í tvennu lagi. Sé þar annars vegar um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum og hins vegar viðbótargreiðslu sem miðast við ákveðinn hundraðshluta tekjuársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. laganna.

Stefnandi telur að íslensk löggjöf beri þess víða merki að kröfur stefnanda séu sérstaks eðlis og að baki þeim liggi sérstakir og ríkir almannahagsmunir. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að lán hans séu undanþegin lögum nr. 33/2013, um neytendalán, og lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun. Að baki þessum sérstöku ívilnunum í garð stefnanda séu þau rök að kröfusafn stefnanda byggi á ríkum almannahagsmunum, þar sem endurgreiðsla standi að verulegu leyti undir fjármögnun nýrra lánveitinga. Lánin séu veitt á niðurgreiddum kjörum en ekki á viðskiptalegum forsendum í því markmiði að jafna aðstöðu til náms. Þá séu endurgreiðslukjör lánanna óvenju hagstæð þar sem þau taki að mestu mið af tekjum lánþegans. Enn fremur sé stefnanda heimilt að veita undanþágur frá árlegum endurgreiðslum vegna sérstakra aðstæðna hjá lánþega sem talin eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 12. og 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Að öðru leyti vísar stefnandi til þess að kröfur hans séu einkaréttarlegs eðlis sem byggi á skilyrðislausu loforði skuldarans um að endurgreiða lánið með tilteknum hætti, þ.e. samkvæmt skilmálum skuldabréfs og fyrirmælum laga, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 og 7. gr. reglugerðar nr. 478/2011, sbr. áður 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að vegna eðlis námslána sem félagslegs úrræðis og mikilvægi endurgreiðslu lánanna fyrir fjármögnun nýrra útlána stefnanda, auk tillits til annarra lánþega námslána og eftir atvikum sjálfskuldarábyrgðaraðila m.t.t. jafnræðissjónarmiða hafi stefnandi verulega hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið. Á stefnanda hvíli sú skylda að gæta jafnræðis gagnvart öðrum lánþegum sínum á grundvelli 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á því sé byggt að vegna sérstöðu kröfuréttinda stefnanda, sem löggjafinn hefur ákvarðað svo sem að framan er lýst, en þau falla t.a.m. utan laga nr. 33/2013 um neytendalán og laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sé stefnanda skylt að gæta að því að jafnræðis sé gætt meðal lánþega hans. Verði látið viðgangast að kröfur lítils hóps lánþega námslána fyrnist á 2 árum, meðan gætt sé að því að innheimta kröfur gegn öðrum skuldurum á miklu lengri tíma sé þeim síðarnefndu mismunað með ólögmætum hætti.

Um sérstaka hagsmuni stefnanda að því að fá fyrningunni slitið telur stefnandi að líta verði til þess að lán stefnanda séu veitt á afar hagstæðum kjörum, sem niðurgreidd eru af almannafé, og greiðslubyrði þeirra miðast að mestu við tekjur hvers greiðanda. Endurgreiðslukjör námslána taki mið af því að þau greiðist til baka á löngum tíma jafnvel svo áratugum skipti allt eftir greiðslugetu hvers lánþega. Líta verður til þessa þegar metnar eru líkur á því að námslánið verði endurgreitt.

Stefnandi vísar til þess að í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sé lögbundin heimild fyrir stefnanda að veita lánþega undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara svo sem vegna veikinda eða slysa sem skerðir ráðstöfunarfé hans eða möguleika á því að afla tekna. Þá sé stefnanda jafnframt heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagserfiðleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Á því er byggt að samkvæmt verklagsreglum stefnanda sé öllum lánþegum hjá stefnanda heimilt að koma námslánum sínum í skil, óháð því hvort krafan hafi verið gjaldfelld . Greiðist þá eftirleiðis afborganir af námsláninu samkvæmt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 21/1992 og samkvæmt skilmálum skuldabréfa stefnda vegna námslána. Greiðslubyrði námslána stefndu fari ekki yfir 3,75% af tekjustofni hennar, en annars rétt rúmar tíu þúsund á mánuði á ársvísu, sé tekið mið af fastri árlegri afborgun af námsláninu. Á því er byggt að ætla verði að stefnda geti greitt skuld sína eftir slit fyrningar vegna aukins aflahæfis á grundvelli þeirrar menntunar sem hún hefur aflað sér.

Stefnandi vísar í þessu sambandi til sjónarmiða í skaðabótarétti um að við útreikning á töpuðum framtíðartekjum verði aflahæfi metið út frá því hvort tjónþoli hafi lokið námi sem hann hefur lagt stund á. Tjón á aflahæfi er þá metið á grundvelli starfsréttinda ef námi hefur verið lokið á slysdegi. Á því er byggt að sömu sjónarmið verði lögð til grundvallar hér og aflahæfi og greiðslugeta stefnda verði metin á grundvelli mögulegra tekna á því fagsviði sem stefndi hefur menntað sig til. Stefnandi bendir á að verði stefnda fyrir alvarlegum áföllum geti hún óskað eftir því við stjórn stefnanda að henni verði veitt undanþága frá afborgun árlegrar endurgreiðslu á námsláni sínu, að hluta eða að öllu leyti, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sem fyrr greinir.

Stefnandi telur það leiða af framangreindu að líkur megi telja að fullnusta geti fengist á kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma. Framlögð kröfuskrá styðji málatilbúnað stefnanda um framtíðargreiðsluhæfi stefndu. 

Stefnandi bendir á að af lögskýringargögnum verði ráðið að dómstólum er eftirlátið að meta hvenær sérstakir hagsmunir kröfuhafa séu fyrir hendi svo viðurkenna megi slit fyrningar. Í lögskýringargögnum sé nefnt í dæmaskyni að ef niðurfelling geti talist óhæfileg gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu teljist hagsmunir kröfuhafa sérstakir. Stefnandi telur hvoru tveggja eiga við í tilviki stefnda. Þannig verði samfélagið fyrir tjóni þar sem námslán sem hugsað sé til langs tíma og veitt sé á samfélagslegum forsendum fyrnist hjá afmörkuðum hópi skuldara á tveimur árum, en aðrir lántakar séu bundnir greiðsluskyldu áratugum saman. Stefnda búi hins vegar að þeirri menntun sem hún hafi aflað sér alla ævi og engin sanngirnisrök mæli með því að skuld hennar verði markaður skemmri fyrningartími en annarra sem tekið hafa félagsleg lán á niðurgreiddum kjörum hjá stefnanda.

 

Málsástæður stefndu.

Stefnda vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, eins og ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 142/2010, beri þrotamaður ábyrgð á þeim skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin án þess að hún fengist greidd sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanni og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið.

Með 2. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2010 var 3. mgr. síðan bætt við 165. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu verði fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi í senn sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfur hans á nýjum fyrningartíma.

Stefnda telur það verða ráðið af orðalagi ákvæðisins að kröfuhafi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði ákvæðisins séu fyrir hendi. Vísar stefnda til þess að samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum nr. 142/2010 hafi tilgangur breytinganna verið sá að auðvelda þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta, en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Þá sagði í frumvarpinu að einungis ætti að fallast á kröfu um slit fyrningar í undantekningartilfellum og heimildin skyldi túlkuð þröngt. Ráðgert var að það kæmi í hlut dómstóla að afmarka hvenær fyrningu yrði slitið á grundvelli ákvæðisins. 

Að því er varðar aðalkröfu sína um sýknu byggir stefnda á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, til að slíta fyrningu, séu fyrir hendi. Þannig byggir stefnda á að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að hann hafi 1) sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, né 2) að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma.

Hvað snertir fyrra atriðið, þá hafi skilyrðið um sérstaka hagsmuni kröfuhafa í 3. mgr. 165. gr. verið skýrt með eftirfarandi hætti í frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2010:

Þegar rætt er hér um sérstaka hagsmuni lánardrottins er horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess ber að líta að hér er gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Er ráðgert að það komi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt hér undir.

 

Stefnda bendir auk þess á að fjallað hafi verið um skilyrðið um sérstaka hagsmuni í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar, sem veitt var í tengslum við setningu laga nr. 142/2010. Þar hafi m.a. komið fram að við mat á því hvenær sérstakir hagsmunir séu fyrir hendi væri rétt að líta til krafna sem óhæfilegt gæti verið gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu að veita skamma fyrningu. Það gæti t.d. átt við kröfur sem stofnað væri til vegna óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna, óhóflegra kaupauka og annarra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það geti hafa talist ámælisvert að leggja í skuldsetninguna sjálfa miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hefði haft.

Í sama áliti megi sjá að nefndin skoðaði sérstaklega hvort undanþiggja ætti kröfur sem greiðsluaðlögun tæki ekki til, þ. á m. eru kröfur stefnanda, frá meginreglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um tveggja ára fyrningarfrest. Virðist nefndinni ekki hafa þótt tilefni til þess. Nefndin hafi tekið fram að dómstólar skyldu meta hvert einstakt tilvik og gæti við það mat m.a. tekið mið af rétthæð krafna við gjaldþrotaskipti. 

Stefnda bendir á að kröfur stefnanda eigi ekki rót sína að rekja til saknæmrar eða ámælisverðar háttsemi stefndu. Kröfur stefnanda séu hins vegar „einkaréttarlegs eðlis“ og byggi á „skilmálum skuldabréfa og fyrirmælum laga“, eins og fram komi í stefnu. 

Í ljósi framangreinds telur stefnda ljóst að kröfur stefnanda séu ekki „sérstakar“ heldur þvert á móti „almennar“ enda sé um að ræða lán sem standi öllum námsmönnum til boða sem uppfylla skilyrði laga nr. 21/1992, sbr. 1. gr. laganna. Þessu til frekari stuðnings bendir stefnda á að stefnandi lýsti kröfum sínum í þrotabú stefndu sem almennum á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991.

Þá bendir stefnda á að ef fallist verður á að stefnandi hafi sérstaka hagsmuni til að slíta fyrningu, kynni það að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla lántakendur stefnanda sem eru í sömu stöðu og stefnda. Stefnda telur eðlilegra að svo veigamikli undantekning frá meginreglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, um tveggja ára fyrningarfrest, eigi sér skýra stoð í lögum. Slík niðurstaða sé í samræmi við tilgang laga nr. 142/2010, um að koma fjármálum skuldara á réttan kjöl, og um þrönga túlkun á heimild kröfuhafa til að slíta fyrningu.

Stefnda bendir á að líkt og stefnandi tiltaki í stefnu sé ákveðin lagahefð fyrir því að undanskilja kröfur stefnanda frá öðrum kröfum. Nærtækasta dæmi um slíkt sé 10. gr. laga nr. 135/2010, sem breytti 1. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991. Með breytingunni voru kröfur stefnanda sérstaklega undanskildar nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Áður hafi kröfur stefnanda fallið undir nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og dómstólar sérstaklega úrskurðað um staðfestingu slíkra nauðasamninga, gegn mótmælum stefnanda. Þannig töldu dómstólar kröfur stefnanda ekki þess eðlis að undanskilja ætti þær nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Stefnda telur sambærilega aðstöðu uppi í þessu máli og fyrir gildistöku laga nr. 135/2010.

Með vísan til alls þessa byggir stefnda á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu í skilningi 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Af þessari ástæðu einni beri því að sýkna hana af kröfum stefnanda.

Að því er snertir það skilyrði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi verði að geta leitt líkur að því að fullnusta krafna fáist á nýjum fyrningartíma, þá bendir stefnda á að þetta skilyrði sé nánar skýrt í fyrrnefndu nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar. Þar segi að kröfuhafi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að líkur séu á greiðslu kröfu á nýjum fyrningartíma. Þá hafi meiri hlutinn tekið fram að með skilyrðinu sé ekki átt við að lítill hluti kröfunnar sé greiddur á nýjum fyrningartíma heldur öll krafan eða meiri hluti hennar.

Stefnda telur sig ekki hafa fjárhagslega burði til að greiða kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma. Vísar hún í því sambandi til þess að höfuðstóll kröfu stefnenda á hendur henni nemi nú               5.227.745 krónum, en dráttarvextir frá 27. febrúar 2013 til 1. desember 2015 2.084.550 krónum, eða samtals 7.312.295 krónum. Stefnda starfi við bókhald hjá Pricewaterhouse Coopers ehf., sé gift eins barna móðir og búi ásamt fjölskyldu sinni í leiguhúsnæði að Ársölum 5, 201 Kópavogi. Eiginmaður stefndu sé menntaður framreiðslumaður og starfi hjá Aski veitingarhúsi. Samanlögð útborguð laun hjónanna samkvæmt síðustu tveimur skattframtölum nemi að meðaltali 600.782 krónum á mánuði. Að frádreginni hefðbundinni framfærslu samkvæmt neysluviðmiði Velferðarráðuneytisins og greiðslu húsaleigu sé greiðslugeta heimilisins neikvæð um 32.165 krónur á mánuði. 

Að auki hafi stefnda og sonur hennar átt við heilsufarsleg vandamál að stríða sem kunni að hækka framfærslu og draga úr aflahæfi stefndu. Greiðslugeta fjölskyldunnar versni því hugsanlega í ókominni framtíð.

Með vísan til þessa telur stefnda að engar líkur séu á því, að öllu óbreyttu, að fullnusta fáist fyrir kröfu stefnanda á nýjum fyrningartíma líkt og áskilið sé í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

IV. Niðurstaða.

Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, hafi sérstaka hagsmuni af því að fyrning kröfunnar sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti á búi stefndu en fékkst ekki greidd sé rofin, sbr. ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1992, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum. Ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. eru svohljóðandi:

Þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.

Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda

Ljóst er að skiptum á búi stefndu lauk 14. ágúst 2013. Stefna málsins var birt 13. júlí 2015. Stefnandi hefur því höfðað málið áður en tvö ár voru liðin frá skiptalokum og þar með innan nýja tveggja ára fyrningarfrestsins samkvæmt framangreindum ákvæðum 165. gr. laga nr. 21/1991.

      Stefnandi byggir mál sitt, eins og áður segir, á því að hann uppfylli skilyrði ákvæðis 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, og hafi sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar. Stefnandi hefur rökstutt málatilbúnað sinn um að hann hafi þessa sérstöku hagsmuni með því að vísa til félagslegs hlutverks síns og eðlis þeirra lána sem hann veitir, sem og endurgreiðslukjara, sbr. þær málsástæður sem raktar eru í kafla III hér að framan.

Við munnlegan málflutning vísaði stefnandi enn fremur til þess að við túlkun orðasambandsins „sérstakir hagsmunir“ í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 yrði að taka mið af ákvæðum stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, sérstaklega 2. gr. um þrískiptingu ríkisvaldsins, 27. gr. um birtingu laga og 65. gr. um jafnræði, en einkum og sér í lagi þó 72. gr., um friðhelgi eignarréttar.

Í málflutningi sínum mótmælti stefnda þessum röksemdum sem málsástæðum sem væru of seint fram komnar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómsins verður hins vegar ekki séð að röksemdir stefnanda að þessu leyti lúti að atvikum málsins sem eru háð forræði aðila á sönnunarfærslu, heldur er þar að ræða sjónarmið um lagatúlkun sem er í höndum dómara. Af þeim sökum verður að hafna mótmælum aðila um að röksemdir stefnanda feli í sér málsástæður sem séu of seint fram komnar.

                Núgildandi ákvæði 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 voru leidd í lög með 1. gr. laga nr. 142/2010. Í þessu ákvæði fólst sú breyting að með henni var styttur fyrn­ing­ar­frestur allra krafna sem ekki fást greiddar við skipti á búi einstaklings sem hefur verið tekið til gjald­þrota­skipta. Með þessu nýmæli var settur almennur tveggja ára fyrningarfrestur á slíkum kröfum, burtséð frá því hversu langur hann hafði verið fyrir skiptin. Því til við­bótar var sett það ákvæði inn í lög nr. 21/1991 að kröfu­hafi getur ekki rofið fyrningu kröfu sinnar nema dómstóll sam­þykkti það með dómi, en slíkt gerist ekki nema að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 165. gr.

Samkvæmt athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2010 var það markmið frumvarpsins að auðvelda þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.

Í ljósi orðalags núgildandi ákvæðis 165. gr. laga nr. 21/1991 svo og þeim lögskýringargögnum sem liggja að baki ákvæðinu verður að mati dómsins að leggja til grundvallar að það sé meginregla samkvæmt ákvæðinu að gjaldþrota einstaklingar losni undan sérhverri fjárhagslegri skuldbindingu við gjaldþrot, nema kröfuhafi geti sýnt fram á að hann hafi „sérstaka hagsmuni“ af því að halda kröfu sinni á hendur gjaldþrota manni á lífi.

Þegar metið er hvort stefnandi hafi sérstaka hagsmuni af slitum fyrningar sinnar gagnvart stefndu verður að hafa í huga að í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2010 er gengið út frá því að við þetta mat skuli horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar. Er í því sambandi vísað til tilvika eins og þegar krafa á hendur þrotamanni hefur orðið til með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans.

Í greinargerðinni er þó jafnframt tekið fram að þessi tilvik séu aðeins nefnd í dæmaskyni og ekki tæmandi talin. Í því sambandi er þó einnig sérstaklega nefnt í tilvik af þessum toga séu undantekningartilfelli og að heimild 3. mgr. 165. gr. til fyrningarslita beri því að túlka þröngt, en slíkt sé hlutverk dómstóla.

Fjallað er frekar um áskilnað ákvæðis 3. mgr. 165. gr. um sérstaka hagsmuni í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 142/2010 á Alþingi. Þar segir að við meðferð frumvarpsins hafi komið fram ábendingar um að „nota mætti til viðmiðunar að hvorki hafi verið stofnað til skuldanna á óheiðarlegan hátt né að niðurfellingin gæti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara eða hagsmuna almennings almennt“. „Þannig gætu viðmiðin átt við kröfur sem óhæfilegt gæti verið gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu að veita skamma fyrningu“, en það geti „t.d. átt við kröfur sem stofnað hefur verið til vegna óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna, óhóflegra kaupauka og annarra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það geti hafa talist ámælisvert að leggja í skuldsetninguna sjálfa miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hefur haft.“ Þá segir í áliti allsherjarnefndar að meiri hluti hennar telji að „að við mat dómstóla á því hvort undanþágan eigi við sé rétt að líta til þessara sjónarmiða.“

Eins og rakið hefur verið hér að framan er í lögskýringargögnum við ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 í senn gengið út frá því að um þrönga undantekningarreglu sé að ræða en jafnframt þó lögð áhersla á að þau tilvik sem þar eru nefnd séu ekki tæmandi talin. Þau sjónarmið sem þarna er lýst um túlkun ákvæðisins fara ekki að öllu leyti saman. Ljóst er þó af ummælum í bæði almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 142/2010 sem og nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar að dómstólum var ætlað ríkt hlutverk við túlkun reglunnar með þeim hætti að atvik hvers máls yrðu tekin til sérstakrar athugunar við mat á því hvort kröfuhafi hefði sérstaka hagsmuni af fyrningarslitum.

Af ummælum úr athugasemdum í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 142/2010 og vitnað er til hér að framan er gengið út frá því að við þetta mat dómstóla skuli litið til þess af hvaða „rót kröfurnar eru runnar“ og í því sambandi vísað til tilvika eins og þegar krafa á hendur þrotamanni „hefur orðið til með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans.“ Upphafleg ráðagerð við setningu laga nr. 142/2010 virðist þannig hafa verið sú að við mat dómstóls á því hvort fallast skyldi á fyrningarslit skyldi fyrst og fremst litið til háttsemi skuldara í tengslum við stofnun eða tilurð kröfunnar.

Í áliti meirihluta allsherjarnefndar er hins vegar vikið frá þessari ráðagerð að nokkru leyti þar sem þar er í senn gengið út frá því að líta skuli til þess hvort stofnað hafi verið til skuldar á ,,óheiðarlegan hátt“ sem og hvort „niðurfellingin gæti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara og hagsmuna almennings almennt.“ Eru þá nefndar í dæmaskyni skuldir sem stofnað er til vegna „óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna, óhóflegra kaupauka og annarra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það geti hafa talist ámælisvert að leggja í skuldsetninguna sjálfa miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hefur haft.“

Þegar allt framangreint er haft í huga verður því að leggja til grundvallar að 3. mgr. 165. laga nr. 21/1991 feli efnislega í sér vísireglu sem afmarkist af þeim huglægu og samfélagslegu mælikvörðum sem vísað er til í lögskýringargögnum. Við mat á því hvort fallast eigi á kröfu stefnanda verður því að líta til þess hvort stefnda hafi annaðhvort stofnað til skuldarinnar við lánasjóðinn með óheiðarlegum hætti eða þá hvort niðurfelling skuldar stefndu geti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara og hagsmuna almennings almennt vegna þess að stofnað var til skuldarinnar vegna ósiðlegra athafna stefndu, burtséð frá því hver fjárráð stefndu voru á þeim tíma þegar til skuldarinnar var stofnað.

Í máli þessu liggur fyrir að stefnda var úrskurðuð gjaldþrota 27. febrúar 2013. Enginn ágreiningur er um það í málinu uppfyllti þá skilyrði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991. Eins og rakið er í kafla II hér að framan sóttist stefnda upphaflega eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara en tilkynnt var um að umsókn hennar hefði verið samþykkt með auglýsingu í Lögbirtingablaði 23. nóvember 2010. Hófst þá tímabundin frestun greiðslna hjá henni samkvæmt lögum nr. 128/2010 um breytingu á lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Með auglýsingu í Lögbirtingarblaði 4. október 2011 var birt innköllun þar sem skorað var á alla sem töldu sig eiga kröfur á stefndu að lýsa þeim fyrir umsjónarmanni hennar.

Með auglýsingu sem birt var í Lögbirtingarblaði, 11. janúar 2013 var tilkynnt að stefnda hefði afturkallað umsókn sína um greiðsluaðlögun einstaklinga hjá Umboðsmanni skuldara og tímabundinni frestun greiðslna hjá henni samkvæmt lögum nr. 101/2010 þar með lokið. Krafðist stefnda þess í kjölfarið að bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. bréf hennar til Héraðsdóms Reykjaness, dags. 8. febrúar 2013.

Í skýrslutöku fyrir dómi upplýsti stefnda að fjárhagsörðugleika hennar mætti rekja til þess að hún hafði stofnað til atvinnurekstrar árið 2007 ásamt eiginmanni sínum. Í skýrslutöku upplýsti hún jafnframt að hún hefði afturkallað umsókn sína um greiðsluaðlögun þar sem hún og eiginmaður hennar hefðu ekki séð að fjárhagsleg staða þeirra myndi vænkast þrátt fyrir 85% afskrift skulda, þar sem verulegar skuldir sem stofnað var til vegna atvinnurekstrar þeirra hjóna, og voru veðtryggðar, hefðu staðið eftir, en þær hafi þá numið um 24 milljónum. Á því tímabili þar sem þau hafi verið í greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010 hafi þau lagt fyrir um 2,2 milljónir en þeim fjármunum hafi verið ráðstafað til að greiða skuldir sem foreldrar stefndu hafi verið í ábyrgð fyrir, eftir að óskað var eftir gjaldþrotaskiptum en áður en úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Framburður stefndu er að þessu leyti í samræmi við skýrslu hennar hjá skiptastjóra, dags. 16. apríl 2013, en þar kemur fram að fjármunum á vaxtasprotareikningi hjá Íslandsbanka sem tilgreindur var á skattframtali  hafi verið ráðstafað til að greiða til baka lán til ættingja hennar, að hluta til vegna lánsveðskrafna.

Að mati dómsins verður ekki séð að þessi atvik feli á nokkurn hátt í sér að stefnda hafi stofnað til skuldar sinnar við stefnanda á óheiðarlegan hátt. Að því er snertir það sjónarmið hvort niðurfelling skuldar hennar geti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara og hagsmuna almennings almennt þá fær dómurinn ekki séð að ofangreind atvik gefi nokkra vísbendingu um að einhverjar ósiðlegar athafnir stefndu liggi að baki skuld þeirri sem mál þetta snertir. Verður þá jafnframt að hafa í huga að í ljósi eðlis 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 sem undantekningarreglu og sjónarmiða sem rakin eru í lögskýringargögnum verður ákvæðið ekki skýrt rýmkandi lögskýringu.

Hvað snertir þau sjónarmið sem stefnandi hefur haldið fram um að túlka beri orðasambandið „sérstakir hagsmunir“ í 3. mgr. 165. gr. laga rúmt í ljósi sjónarmiða sem leidd verða af mannréttindaákvæðum stjórnarskrár og að kröfuréttindi stefnanda njóti að þessu leyti stjórnskipulegrar verndar telur dómurinn rétt að benda á að ríkisstofnanir sem stofnað er til á grundvelli laga geta sem slíkar almennt ekki borið fyrir sig mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar gagnvart ákvörðunum ríkisins í formi lagasetningar sem hafa áhrif á starfsemi þeirra. Hafa verður í huga mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum og einkaréttarlegum lögaðilum en ekki stjórnvöldum, sjá hér til hliðsjónar Hrd. 1988:1532.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hefur ekkert komið fram í máli þessu um að háttsemi stefndu hafi verið með þeim hætti að stefnandi verði talinn hafa sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu kröfu sinnar samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum verður stefnda sýknuð af kröfu stefnanda.

Vegna þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefnda, Júlía Jóhannesdóttir, er sýknuð af kröfu stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Stefnandi greiði stefndu 700.000 krónur í málskostnað.