Hæstiréttur íslands

Mál nr. 747/2017

Penninn ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson lögmaður)

Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Aðilar deildu um hvort P ehf. hefði fengið tjón sem það varð fyrir við bruna fasteignar að fullu bætt úr rekstrarstöðvunartryggingu sem félagið hafði hjá V hf. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að tiltekna skilmála vátryggingarinnar bæri að skýra þannig að til lækkunar reiknuðum bótum kæmi rekstrarkostnaður eins og húsaleigukostnaður sem fallið hefði niður við vátryggingaratburðinn og sparaðist samkvæmt því við tjónið. Því næst var rakið að í héraðsdómi hefði komið fram að lögmenn málsaðila hefðu ítrekað lýst því yfir að ekki væri tölulegur ágreiningur um endanlegan höfuðstól dómkröfu P ehf. Hefði héraðsdómur ályktað út frá því að höfuðstólskrafa P ehf. samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði á tilteknu tímabili. P ehf. lagði fyrir Hæstarétt gögn sem félagið taldi sýna að kostnaður vegna húsnæðis hefði numið lægri fjárhæð en dómkrafan var í málinu og bar því við að ekki hefði verið bent á annan kostnað sem draga ætti frá bótum. Hefði héraðsdómur því að minnsta kosti átt að fallast á lægri dómkröfu P ehf. Hæstiréttur vísaði til þess að reyndust þau gögn sem P ehf. hefði lagt fyrir dóminn rétt fengist ekki staðist framangreind ályktun héraðsdóms um höfuðstólsfjárhæð kröfu P ehf. Af öðrum gögnum málsins yrði ekki ráðið hvernig sú fjárhæð væri fundinn samkvæmt vátryggingarskilmálunum. P ehf. hefði ekki lagt fram viðhlítandi gögn svo unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón félagsins og væri málið vanreifað að því leyti. Yrði ekki úr þeim annmarka bætt með því að dómstólar mætu honum skaðabætur að álitum. Með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. nóvember 2017. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 61.783.228 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júlí 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Þegar bruni sá varð í fasteigninni Skeifunni 11 í Reykjavík 6. júlí 2014 sem um ræðir í málinu var áfrýjandi með gilda rekstrarstöðvunartryggingu hjá stefnda. Um hana giltu vátryggingarskilmálar stefnda nr. ER20 og auk þeirra sameiginlegir skilmálar félagsins, yfirlit yfir útreikning vátryggingarfjárhæðar og lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í málinu er um það deilt hvort áfrýjandi hafi fengið tjón sitt í brunanum að fullu bætt úr rekstrarstöðvunartryggingunni. Snýst ágreiningurinn fyrst og fremst um það hvort vátryggingin eigi að bæta framlegðartap áfrýjanda eða hvort stefnda sé heimilt að draga frá bótum kostnaðarliði í rekstrinum sem féllu niður við brunann.

Um bótasviðið sagði í 3. grein skilmála rekstrarstöðvunartryggingarinnar að hún bætti rekstrartap sem vátryggður yrði fyrir við stöðvun rekstrar á vátryggingartímabilinu og leiddi til samdráttar í sölu vöru eða þjónustu vátryggðs af völdum bruna, vatns og innbrotsþjófnaðar. Um vátryggingarfjárhæðina sagði í grein 11.1 að hún skyldi nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Í grein 11.2 var framlegð skilgreind sem rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara ef við ætti. Yfirlit yfir útreikning framlegðar skyldi gert af vátryggðum og samþykkt af báðum aðilum. Um breytilegan kostnað sagði í grein 11.4 að það væru þeir kostnaðarliðir sem breyttust í réttu hlutfalli við rekstrartekjur og þyrfti því ekki að vátryggja, til dæmis hráefniskaup, pökkun og flutningskostnað.

Reglur um ákvörðun bóta voru í 13. grein vátryggingarskilmálanna. Þar sagði í grein 13.1. að félagið greiddi bætur þann tíma sem kæmi fram í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið væri stöðvað að meira eða minna leyti. Um útreikning tjóns sagði í grein 13.2 að það næmi mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og  hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Þá sagði í grein 13.3 að bætur yrðu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hefði á bótatímabilinu að svo miklu leyti sem vátryggingin næði til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem eingöngu orsakaðist af stöðvun þeirri eða samdrætti á rekstrinum sem átt hefði sér stað.

II

Málsástæðum og lagarökum aðila er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur telur áfrýjandi að rekstrarstöðvunartryggingin eigi að bæta tapaða framlegð í hefðbundnum skilningi. Samkvæmt grein 13.2 í skilmálum tryggingarinnar eigi að ákvarða bætur vegna rekstrarstöðvunar sem mismun á annars vegar reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Áætluð framlegð frá júlí 2014 til júní 2015 hafi numið samtals 128.640.125 krónum. Raunframlegð í ágúst til september 2014 hafi verið 43.354.439 krónur og mismunurinn því 85.285.686 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi stefndi greitt áfrýjanda 23.502.457 krónur en eftir standi 61.783.228 krónur sem sé sú fjárhæð sem áfrýjandi krefji stefnda um. Stefndi andmælir því ekki að bætur til handa áfrýjanda eigi að reikna út samkvæmt grein 13.2 í vátryggingarskilmálunum sem mismun á reiknaðri og raunverulegri framlegð. Hins vegar verði bætur samkvæmt grein 13.3 í skilmálunum aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu að svo miklu leyti sem vátryggingin nái til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem eingöngu orsakist af stöðvun þeirri eða samdrætti á rekstrinum sem orðið hafi. Af því leiði að draga eigi frá bótum kostnað í rekstri áfrýjanda sem hafi sparast við tjónið eins og húsaleigu sem fallið hafi niður. 

III

Vátryggingarfjárhæð rekstrarstöðvunartryggingar þeirrar sem áfrýjandi tók hjá stefnda var samkvæmt skilmálum hennar hvorki fyrir fram ákveðin sem föst krónutala né samkvæmt föstu viðmiði óháð frádrætti. Var því ekki um að ræða fyrir fram umsamdar meðalhófsbætur fyrir það tjón sem vátryggður yrði fyrir við það að rekstur hans stöðvaðist vegna þeirra atvika sem féllu undir bótasvið vátryggingarinnar. Er fallist á með héraðsdómi að grein 13.2 í vátryggingarskilmálunum beri að skýra til samræmis við grein 13.3 og þá þannig að til lækkunar reiknuðum bótum samkvæmt grein 13.2 komi rekstrarkostnaður eins og húsaleigukostnaður sem féll niður við vátryggingaratburðinn og sparaðist samkvæmt því við tjónið. Leiðir þetta og af ákvæðum 35. gr. laga nr. 30/2004. Á þessum grunni bar áfrýjanda að haga kröfugerð sinni í málinu.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að lögmenn málsaðila hafi ítrekað lýst því yfir og þar á meðal við aðalmeðferð málsins að ekki væri tölulegur ágreiningur um endanlegan höfuðstól dómkröfu áfrýjanda, 61.783.228 krónur. Ályktaði héraðsdómur út frá því og með vísan til málsástæðna aðila að höfuðstólskrafa áfrýjanda samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði á tímabilinu 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015.

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn sem hann telur sýna að kostnaður vegna húsnæðis á bótatímabilinu hafi numið um það bil 2.600.000 krónum á mánuði eða samtals um 31.000.000 krónum allt bótatímabilið og sé það helmingi lægri fjárhæð en dómkrafan í málinu. Stefndi hafi ekki bent á neinn annan kostnað sem hann telji að hafi sparast við vátryggingaratburðinn og eigi að draga frá bótum. Því blasi við að tjón áfrýjanda vegna tapaðrar framlegðar sé að stórum hluta óbætt ef fallist yrði á sjónarmið stefnda um skýringu vátryggingarskilmálanna. Af því leiði að héraðsdómur hefði að minnsta kosti átt að fallast á helming dómkröfu áfrýjanda.

Áður er gerð grein fyrir því hvernig áfrýjandi reiknar höfuðstól dómkröfu sinnar. Ef rétt reynast þau gögn sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt samkvæmt framansögðu fengi ekki staðist sú ályktun héraðsdóms að dómkrafa áfrýjanda samsvaraði áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði hans á bótatímabilinu. Af öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig höfuðstólsfjárhæð kröfu hans er fundin samkvæmt greinum 13.2 og 13.3 í vátryggingarskilmálunum. Áfrýjanda var í lófa lagið að leggja fram viðhlítandi gögn um þetta efni svo unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón hans en gerði ekki og er málið vanreifað að því leyti til. Verður ekki úr þeim annmarka bætt með því að dómstólar meti honum skaðabætur að álitum. Að þessu gættu þykir slíkt ósamræmi vera milli kröfugerðar áfrýjanda, málsástæðna hans og málflutningsyfirlýsinga að óhjákvæmilegt er með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vísa málinu frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2017.

Mál þetta sem dómtekið var 21. september 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. febrúar 2016 af Pennanum ehf., Skeifunni 10, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi greiði honum 61.783.228 krónur með dráttarvöxtum frá 23. júlí 2015 og til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

Atvik máls

Þann 6. júlí 2014 kviknaði mikill eldur í fatahreinsun, sem starfrækt var í Skeifunni 11 í Reykjavík. Olli hann verulegu tjóni á eigninni og nálægum fasteignum. Stefnandi starfrækti á þessum tíma ritfanga- og bókaverslun þ.m.t. svonefndan skiptibókamarkað í leiguhúsnæði í Skeifunni 11. Var starfsemin rekin undir auðkenninu Griffill. Var öll yfirbygging þess húsnæðis dæmd ónýt eftir brunann og eignin felld og fjarlægð.

Þegar bruninn varð var stefnandi með lausafjár- og rekstarstöðvunartryggingar hjá stefnda m.a. vegna framangreindrar starfsemi sinnar í Skeifunni 11. Óumdeilt er að um rekstrarstöðvunartrygginguna giltu vátryggingarskilmálar stefnda nr. ER20 (hér eftir skilmálar nr. ER20).

Fyrir liggur að rekstri Griffils lauk við brunann að því undanskildu að stefnandi rak skiptibókamarkað í Laugardalshöll í ágúst og september 2014 undir nafni Griffils.

Í gögnum málsins er að finna bréfaskipti aðila í framhaldi brunans vegna uppgjörs á bótum samkvæmt framangreindum lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingum. Ekki náðist fullt samkomulag um fjárhæð bótanna og höfðaði stefnandi mál þetta 16. febrúar 2016 til greiðslu meintra vangreiddra bóta úr lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingunum. Nam höfuðstóll stefnufjárhæðarinnar 103.746.622 krónum. Undir rekstri málsins náðu aðilar samkomulagi um fjárhæð og greiðslu bóta  samkvæmt lausafjártryggingunni þ.m.t. vegna svonefnds viðbótarkostnaðar en eftir stendur ágreiningur þeirra um uppgjör á grundvelli rekstarstöðvunartryggingarinnar. Hefur stefnandi lækkað stefnukröfur sínar samsvarandi.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir kröfur sínar í máli þessu á rekstrarstöðvunartryggingu þeirri sem hann var með hjá stefnda, þegar umræddur eldsvoði varð í Skeifunni, 6. júlí 2014, og húsnæði það sem hann hafði á leigu í Skeifunni 11, undir starfsemi Griffils,  eyðilagðist og starfsemi hans þar stöðvaðist. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um rekstarstöðvunartrygginguna hafi gilt skilmálar stefnda nr. ER20. Í endanlegri kröfugerð stefnanda sé stefndi krafinn um bætur umfram það sem hann hafi þegar greitt á grundvelli rekstarstöðvunartryggingarinnar enda sé tjón stefnanda ekki enn að fullu bætt samkvæmt skilmálum hennar. Stefnandi byggi kröfu sína um frekari bætur úr rekstrarstöðvunartryggingunni á því að í skilmálum hennar komi skýrt fram í gr. 11.1 að vátryggingarfjárhæð skuli nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Með vátryggingarfjárhæð sé átt við fjárhæð, sem tilgreind sé í vátryggingarsamningi og hagsmunir séu að hámarki vátryggðir fyrir, sbr. h-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í gr. 11.2 í skilmálum nr. ER20 sé hugtakið framlegð skilgreint þannig, að hún sé rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara, ef við eigi. Þessi skilgreining sé í fullu samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á hugtakinu framlegð. Í gr. 13 sé fjallað um ákvörðun bóta. Í gr. 13.1 segi að vátryggingarfélagið greiði bætur í þann tíma sem fram komi í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun, en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið sé stöðvað að meira eða minna leyti. Ekki sé ágreiningur um að vátryggingartímabilið hafi verið 12 mánuðir, frá tjónsatburði, 6. júlí 2014 að telja, og að bótatímabilið eigi að miðast við það. Rekstur Griffils hafi stöðvast við tjónsatburðinn og ekki hafist enn, að undanskildu stuttu tímabili, þegar stefnandi hafi rekið skólamarkað í Laugardalshöll undir merkjum Griffils. Samkvæmt gr. 11.1 skuli vátryggingarfjárhæð nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingartímabilinu. Í gr. 11.5 sé tekið fram að við áætlun á framlegð, rekstrartekjum og breytilegum kostnaði sé byggt á ársreikningi síðasta rekstrarárs hins vátryggða eða árshlutauppgjöri og áætlun um breytingar á vátryggingartímabilinu. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæðar beri því að miða við framlegð eins og hún hefði orðið, ef ekki hefði komið til tjónsatburðar. Þótt stefndi haldi því fram að fastur kostnaður stefnanda verði að breytilegum kostnaði, þegar hann hverfi eða minnki, verði framlegð rekstursins ekki reiknuð út frá þeirri forsendu. Samkvæmt gr. 13.2  skuli bótafjárhæð nema mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð. Sem fyrr segi hafi rekstur stefnanda í Skeifunni 11 stöðvast  algerlega að undanskildum tímabundnum rekstri í Laugardalshöll og ekki hafist aftur. Krafa stefnanda sé byggð annars vegar á áætlaðri  framlegð eins og hún hefði orðið ef reksturinn hefði ekki stöðvast og hins vegar raunverulegri framlegð á vátryggingartímabilinu. Enginn vafi leiki á því að „raunverulegt tjón“, sem beri að bæta samkvæmt skilmálum rekstrarstöðvunartryggingarinnar, sé töpuð framlegð af rekstri Griffils. Stefndi hafi hafnað slíku uppgjöri á grundvelli „meginreglna vátryggingaréttarins“. Með því hafi stefndi litið framhjá þeirri staðreynd að í gildi hafi verið samningur milli aðila. Skipti „meginreglur vátryggingaréttarins“ því ekki máli, enda geti þær ekki breytt því hvernig aðilar hafi samið um uppgjör tjóns, sem falli undir trygginguna. Skilmálar vátryggingarinnar verði ekki, með vísan til meginreglna vátryggingaréttarins, túlkaðir í andstöðu við skýrt orðalag þeirra, en skilmálana beri að túlka í samræmi við  meginreglur samningaréttarins m.a. andskýringarregluna um að sá sem samið hafi skilmála einhliða beri hallann af óskýrleika þeirra. Í bréfum stefnda til stefnanda hafi birst sú afstaða, að ákvæði laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, séu að meginstefnu ófrávíkjanleg. Það sé hins vegar ekki rétt. Í lögunum segi að óheimilt sé að víkja frá I. og II. hluta þeirra, ef það leiði til lakari stöðu þess sem öðlist kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi. Þannig sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna, vátryggingartaka til hagsbóta. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi enda, að það skuli undirstrikað að einungis sé óheimilt að víkja frá ákvæðum laganna, ef það leiði til lakari stöðu þess sem öðlist kröfu á hendur félaginu. Af hálfu stefnanda sé litið svo á að það veiti vátryggingartaka betri rétt að tryggja framlegð fremur en beinan hagnað af rekstri. Samningur um slíka vátryggingarskilmála sé því fyllilega lögmætur. Tjón á rekstri stefnanda hafi verið altjón. Hafi stefnandi talið að með umræddri rekstarstöðvunartryggingu yrði honum tryggð framlegð reksturs Griffils, ef reksturinn stöðvaðist, enda hafi það verið markmið hans. Því kæmi sér verulega illa fyrir stefnanda ef bæta ætti tjónið með öðrum hætti. Stefnandi vísi til og byggi á 4. gr. laga nr. 30/2004, hvað varði upplýsingar við töku vátryggingar. Í ákvæðinu segi, að við töku vátryggingar skuli vátryggingarfélagið, eða sá sem komi fram fyrir þess hönd, veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að vátryggingartaki geti metið tilboð þess. Sérstaklega skuli gera grein fyrir því hvort verulegar takmarkanir séu á gildissviði vátryggingarinnar eða þeirri vernd er hún veiti. Væri það svo, að gera ætti upp tjónið á grundvelli vátryggingarinnar með allt öðrum hætti heldur en skilmálar hennar mæli skýrt fyrir um, þannig að munurinn hlaupi á tugum milljóna króna, hljóti að hafa verið nauðsynlegt við töku vátryggingarinnar að vátryggingarfélagið veitti upplýsingar um það, þannig að vátryggingartakinn, stefnandi í þessu tilviki, hefði getað metið tilboð tryggingarfélagsins. Stefndi hafi hins vegar engar upplýsingar veitt um að uppgjör tjóns myndi fara fram með öðrum hætti en skilmálarnir segðu til um. Stefndi beri hallann af því að hafa brotið gegn þessu ákvæði, fyrst hann haldi því fram nú að gera eigi tjónið upp með öðrum hætti en skilmálar tryggingarinnar segi til um. Stefnandi vísi til þess að fyrir liggi fordæmi um sambærilegt mál hjá úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum, sbr. mál nr. 207/2014. Í málinu hafi verið ágreiningur um það hvað félli undir hugtakið „hráefnisbirgðir á geymslustöðum“ og hvort dekkjalager, sem hafði brunnið, félli undir rekstrarstöðvunartryggingu. Í úrskurði nefndarinnar komi fram að þegar litið væri til efnis vátryggingarsamningsins um rekstrarstöðvunartryggingu, væri verulegur vafi uppi um túlkun hugtaksins „hráefnisbirgðir á geymslustöðum“. Einnig yrði að telja tilvísun til hráefnisbirgðanna í vátryggingarskírteininu verulega óskýra. Nefndin hafi áréttað, að mikilvægi þess að skýrt kæmi fram í vátryggingarsamningi um hvað væri samið, væri ótvírætt þegar litið væri til anda laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Því til viðbótar yrði að benda á að vátryggingarfélaginu hefði verið í lófa lagið að tilgreina með nákvæmari hætti hvaða hráefni væru hluti af hráefnisbirgðum og þá undanskilja sérstaklega dekkjalagerinn, ef ætlunin hafi verið að semja með þeim hætti. Hallann af óljósu orðalagi vátryggingarinnar yrði vátryggingarfélagið að bera. Væri það í samræmi við anda laganna um vátryggingarsamninga, sem og andskýringarregluna, sem úrskurðarnefndin hafi tekið fram að væri vel þekkt í vátryggingasamningarétti. Stefnandi telji sjónarmiðin í framangreindum úrskurði eiga við, þ.e.a.s. að stefnda hafi verið í lófa lagið að taka fram, ef markmið tryggingarinnar væri að gera upp tjón með öðrum hætti en skilmálar vátryggingarinnar segðu skýrt til um. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að stefndi hafi gert það í öðrum skilmálum fyrir rekstrar-stöðvunartryggingar, sbr. skilmála vátryggingar nr. ER25, rekstrarstöðvunartryggingar kúabúa, en ekki í skilmálum nr. ER20, sem gildi í þessu máli. Í samræmi við andskýringarregluna, sem hafi mikið vægi í vátryggingarréttinum, beri stefndi hallann af því ef skilmálar hans séu ekki skýrir. Raunar sé ekki hægt að tala um óskýra skilmála, þar sem afstaða stefnda sé beinlínis í andstöðu við orðalag skilmálanna. Sú niðurstaða að gera tjón upp með allt öðrum hætti en skilmálar segi til um sé ótæk fyrir vátryggingartaka. Stefnandi bendi á að vátryggingarfjárhæð vátryggingarskírteinisins hafi numið um 130 milljónum króna, en sú fjárhæð sé í engu samræmi við hagnað af starfseminni á einu ári. Fjárhæðin í vátryggingarskírteininu sé vísbending þess að hún hafi átt að tryggja framlegð rekstursins en ekki hagnað af honum. Í bréfi stefnda til stefnanda, 12. janúar 2015, sé vitnað til frumvarps til laga um vátryggingarsamninga, þar sem fram komi að sú meginregla gildi „eftir sem áður“ að skaðatryggingar eigi ekki að bæta meira en raunverulegt tjón hins vátryggða. Rétt sé að taka fram að hugtakið „raunverulegt tjón“ sé ekki skilgreint í lögum, en stefnandi líti svo á að krafa hans sé ekki um annað en raunverulegt tjón hans. Raunverulegt tjón sé töpuð framlegð af rekstrareiningunni Griffill. Það sé tjón stefnanda. Þá vísi stefnandi til þess, að í eldri lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, hafi verið ákvæði í 39. gr. laganna sem kveðið hafi á um að þótt samið hafi verið á annan veg, væri vátryggingarfélagi óskylt að greiða hærri bætur en með þyrfti til þess að bæta tjón það sem orðið hefði. Þetta ákvæði hafi hins vegar ekki verið tekið upp í gildandi lög um vátryggingarsamninga. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, í umfjöllun um þetta atriði, sé skýringin sögð sú, að því væri ekki að neita að í framkvæmd hefðu vátryggingafélög í skilmálum sínum samið um að bæta tjón á tilteknum munum umfram raunverulegt verðmæti þeirra. Þætti því ekki rétt að halda sem sérstakri grein hinni fortakslausu reglu 39. gr. Því megi vera alveg ljóst að vátryggingarfélögum sé heimilt að semja hvernig sem sé, vátryggingartaka til hagsbóta. Hvað sem því líði telji stefnandi ekki að krafa hans sé umfram raunverulegt tjón hans. Gild rök séu fyrir því að bæta fremur framlegð en beinan hagnað, þegar rekstur stöðvist. Hið vátryggða séu fyrst og fremst tekjumöguleikar reksturs að frádregnum breytilegum kostnaði við að skapa tekjurnar. Ein meginröksemd stefnda fyrir höfnun frekari bóta sé sú að stefndi hafi sparað sér húsaleigu og að húsaleiga verði að breytilegum kostnaði við tjón. Stefnandi hafni því alfarið að fastur kostnaður hans, s.s. húsaleiga o.fl., verði skyndilega að breytilegum kostnaði við bruna fasteignar. Fyrir þessu hafi engin rök verið færð af hálfu stefnda, enda vandséð hvernig þetta geti átt við rök að styðjast. Skýrt sé tekið fram í skilmálum vátryggingarinnar, að horfa eigi til framlegðarinnar eins og hún hefði orðið ef vátryggingaratburður hefði ekki orðið. Húsaleiga hefði verið fastur kostnaður án tjónsatburðar og hún ekki haft nein áhrif á framlegðina. Með því að líta á húsaleigu sem breytilegan kostnað þannig að hún hafi áhrif á framlegð í rekstrinum sé vikið frá fyrirmælum skilmála vátryggingarinnar um að bæta tjón á þeim forsendum að leggja til grundvallar það sem hefði orðið án tjónsatburðar, svo ekki sé minnst á að þessi túlkun stefnda sé í andstöðu við almennan og viðurkenndan skilning um hugtökin framlegð og fastur kostnaður. Þá árétti stefnandi að í 35. gr. laga nr. 30/2004, sem fjalli um útreikning bóta og vátryggingarverðmæti, segi að sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Ekki þurfi að fjölyrða um að stefnandi hafi orðið fyrir altjóni á rekstri sínum, sem ekki verði endurreistur. Rekstrarstöðvunartrygging bætir framlegðartap, sem vátryggður verði fyrir. Hann fái ekki fullar bætur nema hann fái að fullu bætta tapaða framlegð sína af rekstri Griffils. Uppgjör með öðrum hætti feli í sér að stefnandi fái ekki fullar bætur fyrir fjártjón sitt. Aðeins sé deilt um bótaskyldu í málinu en ekki tölulegur ágreiningur.  Endanleg fjárhæð stefnukröfunnar nemi útreiknaðri og áætlaðri framlegð stefnanda vegna reksturs Griffils á bótatímabilinu samkvæmt fyrirliggjandi útreikningi endurskoðanda, 104.840.962 krónum að frádreginni greiðslu stefnda í lok vátryggingartímabilsins 23. júlí 2015 að fjárhæð 23.502.457 krónur og lækkun upphaflegrar kröfu vegna rekstrarstöðvunartryggingarinnar um 19.555.277 krónur vegna viðbótarkostnaður sem fallið hafi undir lausafjártryggingu stefnanda hjá stefnda en fyrir mistök hafi verið reiknuð inn í kröfu vegna rekstarstöðvunartryggingarinnar. Mismunurinn 61.783.228 krónur samsvari höfuðstól endanlegar kröfugerðar stefnanda í málinu. Stefnandi krefjist þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2015 og sé þá miðað við það tímamark, þegar uppgjör stefnda hafi borist stefnanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi til laga um vátryggingarsamninga og almennra reglna vátryggingaréttarins. Um dráttarvaxtakröfu vísi stefnandi til 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 og III. kafla laganna almennt. Um varnarþing sé vísað til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Um málskostnað sé vísað til 129., sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála,  nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi greitt stefnanda fullar bætur á grundvelli þeirrar rekstrarstöðvunartryggingar sem stefnandi hafi verið með hjá honum, þegar vátryggingaratburðurinn hafi átt sér stað. Hvað varði lausafjártryggingu stefnanda hjá stefnda hafi stefndi þegar greitt stefnanda 10.531.876 krónur umfram skyldu vegna þeirrar tryggingar og sé krafist skuldajafnaðar hvað þá fjárhæð varði, komi til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur umfram það sem hann hafi þegar greitt honum skv. rekstrarstöðvunartryggingunni. Stefndi byggi á því að gera verði skýran greinarmun á 11. gr. í skilmálum  nr. ER20, sem fjalli um ákvörðun vátryggingarfjárhæðar, og 13 gr., sem fjalli um ákvörðun bóta. Samkvæmt ákvæðum 11. gr. skuli vátryggingarfjárhæðin taka mið af áætlaðri framlegð á vátryggingartímabilinu. Framlegð sé síðan í grófum dráttum skilgreind sem rekstrartekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Vissulega sé það svo að í gr. 13.2 sé mælt fyrir um að tjón nemi mismuni á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Að öllu öðru óbreyttu reiknist bætur til vátryggðs á þeim grundvelli. Í ákveðnum tilvikum komi þó fyrir að tjónsatburður leiði til þess að ýmsir kostnaðarliðir í rekstri sparist vegna vátryggingaratburðarins. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hafa í huga þá meginreglu vátryggingarréttar að tjónþoli skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði en sú regla sé meðal annars sett fram í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem fram komi að hafi ekki verið um annað samið eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Í skýringum greinargerðar frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 30/2004 komi meðal annars fram að skýra verði regluna svo að vátryggður verði að sætta sig við eðlilegar bætur, verði t.d. að sætta sig við enduröflunarverð vátryggðs hlutar en geti ekki krafist viðgerðarkostnaðar, ef sá kostnaður fari langt umfram enduröflunarverðið. Í reglunni felist því með öðrum orðum lögfesting þeirrar meginreglu að tjónþoli megi ekki hagnast á vátryggingaratburði. Þá sé einnig vert að benda á að fram komi í skýringunum að ekki sé ætlunin að breyta gildandi rétti hvað þessi atriði varði en í eldri lögum hafi sérstaklega verið mælt fyrir um að vátryggingarfélagi væri óskylt að greiða hærri bætur en með þyrfti til að bæta það tjón sem orðið hefði. Í samræmi við þessa meginreglu og til að unnt sé að taka á þeim ólíku tilvikum sem upp geti komið sé í gr. 13.3 í skilmálum nr. ER20 sérstaklega mælt fyrir um að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu. Í því sambandi skipti engu máli hvernig vátryggingarfjárhæðin sé reiknuð eða hvort kostnaður, sem falli niður við vátryggingaratburð, teljist fastur kostnaður eða breytilegur. Það sé eingöngu hið raunverulega tjón sem sé bætt. Vátryggður skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði. Fjárhæð sem jafngildi kostnaði, sem fallið hafi niður við vátryggingaratburð, sé ekki tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefnandi þurfti ekki að greiða húsaleigu eftir brunann og hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna húsaleigukostnaðar. Húsaleigukostnaður stefnanda hafi vissulega verið talinn fastur kostnaður fyrir brunann þar sem ekki hafi verið fyrirséð að fjárhæð húsaleigunnar tæki  breytingum í takt við breytingar á framleiðslu eða sölu Griffils. Þetta hafi þó ekki verið án undantekninga. Ákvæði húsaleigusamningsins hafi verið þess eðlis að ef sala Griffils hætti að fullu sökum bruna á húsnæðinu þá félli húsaleigan niður. Í þeim skilningi hafi kostnaðurinn verið breytilegur. Á sama tíma og reksturinn hafi stöðvast vegna brunans hafi skylda stefnanda til greiðslu húsaleigu fallið niður. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni sem jafngildi fjárhæð húsaleigunnar og hafi því í raun verið um breytilegan kostnað að ræða í þessu tilviki. Í stefnu sé lagt út frá því að vátryggingarfjárhæðin hafi tekið mið af framlegð sem sé hærri fjárhæð en hagnaður af starfseminni og af því dregin sú ályktun að vátryggingarfjárhæðin, sem sé grundvöllur iðgjalda, hafi ekki verið í samræmi við áhættu af tryggingunni. Þetta sé ekki rétt. Það séu ekki allir mögulegir vátryggingaratburðir sem undir trygginguna geti fallið þess eðlis að húsaleiga eða annar fastur kostnaður falli niður. Það hafi hinsvegar gerst í þessu tilviki sem valdi því að tjón stefnanda nemi í þessu tilviki ekki allri framlegð rekstrarins. Þessi niðurstaða sé í fullu samræmi við ákvæði skilmála tryggingarinnar enda sé þar sérstaklega tekið fram að einungis raunverulegt tjón á bótatímabilinu sé greitt. Að lokum bendi stefnda á að málatilbúnaður stefnanda, til að mynda varðandi kaup á tölvu og kassakerfi fyrir skiptibókamarkað og tímasetning framsetningu kröfu um greiðslu allrar vátryggingarfjárhæðar rekstrarstöðvunartryggingarinnar, beri þess merki að stefnandi hafi verið búinn að ákveða löngu áður en vátryggingartímabilinu lauk að hann myndi ekki hefja rekstur Griffils að nýju eftir brunann. Samkvæmt gr. 13.4 í skilmálum nr. ER20 takmarkist bætur til aðila sem ekki hyggist hefja vátryggða starfsemi að nýju við óhjákvæmilegan, sannanlegan kostnað vátryggðs. Stefndi hafi í öllu falli greitt stefnanda bætur sem nema hærri fjárhæð en nemi slíkum kostnaði. Stefndi byggi á að það sé stefnanda að sanna að hann hafi í raun haft hug á því að hefja reksturinn að nýju eftir brunann, enda standi slík sönnun honum mun nær en stefnda. Takist stefnanda ekki sú sönnun sé ljóst að stefndi hafi greitt fullar bætur á grundvelli gr. 13.4 í skilmálum nr. ER20 og vel það. Að öllu framangreindu athuguðu telji stefndi ljóst að hann hafi þegar greitt stefnanda fullar bætur úr rekstrarstöðvunartryggingu aðila. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

Stefndi vísi til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, meginreglu skaðabótaréttar og vátryggingaréttar um að einungis raunverulegt fjártjón verði bætt, meginreglunnar um að tjónþoli eða vátryggingartaki skuli ekki hagnast á tjónsatburði eða vátryggingaratburði. Þá vísi stefndi til þeirra skilmála nr. ER20.  Krafa stefnda um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu greinir aðila á um túlkun skilmála rekstrarstöðvunartryggingar, sem stefnandi var með hjá stefnda, þegar sú starfsemi hans, sem rekin var undir auðkenninu Griffill, stöðvaðist við eldsvoða í Skeifunni í Reykjavík, 6. júlí 2014. Óumdeilt er að um trygginguna giltu skilmálar stefnda nr. ER20. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að bætur samkvæmt tryggingunni beri að greiða á grundvelli gr. 11.1 í skilmálum nr. ER20 þar sem mælt sé svo fyrir að vátryggingarfjárhæð skuli nema áætlaðri framlegð vátryggðs á vátryggingar-tímabilinu. Í gr.11.2 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu framlegð þ.e. að hún sé rekstrartekjur vátryggingartímabilsins að frádreginni vörunotkun, breytilegum launakostnaði, öðrum breytilegum kostnaði og birgðabreytingu fullunninna vara ef við eigi. Þessi skilgreining sé í fullu samræmi við hefðbundnar skilgreiningar á hugtakinu framlegð. Í 13. gr. skilmálanna sé mælt fyrir um ákvörðun bóta. Í ákvæði 13.1 segi að vátryggingarfélagið greiði bætur í þann tíma sem fram komi í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun, en þó aldrei fyrir lengra tímabil en fyrirtækið sé stöðvað að meira eða minna leyti. Ekki sé ágreiningur um að vátryggingartímabilið hafi verið 12 mánuðir, frá tjónsatburði, hinn 6. júlí 2014 að telja. Rekstur Griffils hafi stöðvast við tjónsatburðinn og ekki hafist að nýju, að undanskildu stuttu tímabili í ágúst og september 2014, þegar stefnandi hafi rekið skólamarkað í Laugardalshöll undir merkjum Griffils. Í gr. 11.5 í skilmálunum sé tekið fram að við áætlun á framlegð, rekstrartekjum og breytilegum kostnaði sé byggt á ársreikningi síðasta rekstrarárs hins vátryggða eða árshlutauppgjöri og áætlun um breytingar á vátryggingartímabilinu. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæðar beri því að miða við framlegð eins og hún hefði orðið ef ekki hefði komið til tjónsatburðar. Samkvæmt ákvæði 13.2 skuli bótafjárhæð tryggingarinnar nema mismun á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð. Sé kröfugerð stefnanda í fullu samræmi við þetta ákvæði. Við endanlegt uppgjör aðila á grundvelli umræddrar rekstrarstöðvunartryggingar beri að leggja framangreinda skilmála stefnda nr. ER20 til grundvallar enda feli þeir í sér bindandi samning milli aðila. Sé því sjónarmiði stefnda að „meginreglur vátryggingaréttar“ eigi að skerða rétt stefnanda í þessum efnum með öllu hafnað enda fari það gegn skýru orðalagi skilmálanna og krafa stefnanda ekki byggð á öðru en raunverulegu tjóni hans þ.e. tapaðri framlegð vegna rekstrareiningarinnar Griffils. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að vátryggingarfélögum sé heimilt að semja hvernig sem er, vátryggingartaka til hagsbóta. Hvað sem því líði telur stefnandi ekki að krafa hans sé umfram raunverulegt tjón hans. Gild rök séu fyrir því að bæta fremur framlegð en beinan hagnað, þegar rekstur stöðvist. Hið vátryggða séu fyrst og fremst tekjumöguleikar reksturs að frádregnum þeim breytilega kostnaði sem til falli við að skapa tekjurnar. Stefnandi hafni því alfarið að fastur kostnaður hans, s.s. húsaleiga o.fl., verði skyndilega að breytilegum kostnaði við bruna fasteignar enda sé það með öllu órökstutt. Skýrt er tekið fram í skilmálum rekstarstöðvunartryggingarinnar, að horfa eigi til framlegðarinnar eins og hún hefði orðið ef vátryggingaratburður hefði ekki orðið. Húsaleiga hefði verið fastur kostnaður án tjónsatburðar og hún ekki haft nein áhrif á framlegðina. Með því að líta á húsaleigu sem breytilegan kostnað þannig að hún hafi áhrif á framlegð í rekstrinum sé vikið frá skýrum ákvæðum skilmála nr. ER20 um að bæta tjón á þeim forsendum að leggja til grundvallar það sem hefði orðið án tjónsatburðar, svo ekki sé minnst á að þessi túlkun stefnda sé í andstöðu við almennan og viðurkenndan skilning um hugtökin framlegð og fastur kostnaður. Þá byggir stefnandi á því að í 35. gr. laga nr. 30/2004, sem fjalli um útreikning bóta og vátryggingarverðmæti, segi að sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Ljóst sé að stefnandi fá ekki fullar bætur nema hann fái að fullu bætta tapaða framlegð sína af rekstrareiningu Griffils. Uppgjör með öðrum hætti feli í sér að stefnandi fái ekki fullar bætur fyrir fjártjón sitt.

Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi greitt stefnanda fullar bætur á grundvelli þeirrar rekstrarstöðvunartryggingar sem stefnandi hafi verið með hjá honum við vátryggingaratburðinn, 6. júlí 2014. Stefndi byggi á því að gera verði skýran greinarmun á ákvæðum 11. gr. skilmála nr. ER20, sem fjalli um ákvörðun vátryggingarfjárhæðar og ákvæðum 13. gr. Samkvæmt 11. gr. skuli vátryggingarfjárhæðin taka mið af áætlaðri framlegð á vátryggingartímabilinu. Framlegð sé síðan í grófum dráttum skilgreind sem rekstrartekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Vissulega sé það svo að í gr. 13, ákvæði 13.2, sé mælt fyrir um að tjón nemi mismuni á reiknaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur annars vegar og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Að öllu öðru óbreyttu reiknist bætur til vátryggðs á þeim grundvelli. Í ákveðnum tilvikum komi þó fyrir að tjónsatburður leiði til þess að ýmsir kostnaðarliðir í rekstri sparist vegna vátryggingaratburðarins. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hafa í huga þá meginreglu vátryggingarréttar að tjónþoli skuli ekki hagnast á vátryggingaratburði en sú regla sé meðal annars sett fram í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem fram komi að hafi ekki verið um annað samið eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Jafnframt feli reglan í sér lögfestingu þeirrar meginreglu að tjónþoli eigi ekki að hagnast á vátryggingaratburði. Í samræmi við þessa meginreglu og til að unnt sé að taka á þeim ólíku tilvikum sem upp geti komið sé í ákvæði 13.3  sérstaklega mælt fyrir um að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á bótatímabilinu. Í því sambandi skipti engu máli hvernig vátryggingarfjárhæðin sé reiknuð eða hvort kostnaður sem falli niður við vátryggingaratburð teljist fastur kostnaður eða breytilegur. Það sé eingöngu hið raunverulega tjón sem sé bætt. Fjárhæð sem jafngildi kostnaði sem fallið hafi niður við umræddan tjónsatburð, 6. júlí 2014, sé ekki tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki þurft að greiða húsaleigu vegna húsnæðisins í Skeifunni 11 eftir brunann og hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna leigu eða annars húsnæðistengds kostnaðar sem nemi fjárhæð þessa kostnaðar. Þessi kostnaður hafi því orðið breytilegur við tjónsatburðinn og sé sú niðurstaða í fullu samræmi við ákvæði skilmála nr. ER20. Samkvæmt ákvæði 13.4 í umræddum skilmálum takmarkist bætur til tryggingartaka, sem ekki hyggist hefja vátryggða starfsemi að nýju, við óhjákvæmilegan, sannanlegan kostnað vátryggðs. Fyrir liggi og sé óumdeilt að stefnandi hyggist ekki hefja starfsemi Griffils að nýju. Stefndi hafi í öllu falli greitt stefnanda bætur sem nema hærri fjárhæð en slíkum kostnaði.

Meginágreiningur aðila snýst um það hvort leiguna, sem stefnandi greiddi vegna húsnæðisins í Skeifunni 11 fram til 6. júlí 2014 og annan húsnæðistengdan kostnað, beri að skilgreina sem fastan kostnað eða breytilegan kostnað eftir brunann 6. júlí en fyrir liggur og er óumdeilt að leigan féll niður frá og með 6. júlí samkvæmt ákvæðum í leigusamningi stefnanda og leigusala. Þá liggur fyrir að annar húsnæðistengdur kostnaður vegna leiguhúsnæðisins í Skeifunni 11 svo sem hiti, rafmagn, ræsting og annað þess háttar féll niður frá og með tjónsatburðinum.

Eins og áður er rakið var mælt svo fyrir í vátryggingarskilmálum stefnda vegna rekstrarstöðvunartryggingar nr. ER20, sem í gildi voru þegar tjónið varð, sbr. ákvæði 13.2, að tjón vegna rekstrarstöðvunar í merkingu skilmálanna næmi mismun annars vegar á áætlaðri framlegð eins og hún hefði orðið miðað við ótruflaðan rekstur og hins vegar raunverulegri framlegð á bótatímabilinu. Óumdeilt er að bótatímabilið í þessu tilviki var frá 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015. Þetta ákvæði skilmálanna verður að skýra í samræmi við ákvæði 13.3 þar sem segir að bætur séu aðeins greiddar fyrir það raunverulega tjón sem orðið hafi á tímabilinu að svo mikil leyti sem vátryggingin nái til og aðeins fyrir þann hluta af tjóninu sem  eingöngu orsakist af stöðvun þeirri eða samdrætti í rekstrinum sem átt hafi sér stað.

Í 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga er mælt svo fyrir að sé ekki á annan veg samið í vátryggingarsamningi eigi vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt. Þótt ákvæðið mæli ekki fyrir um bann við auðgun, svo sem leitt varð af 1. mgr. 39. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, þykir rétt að skýra ákvæðið svo að gagnálykta eigi út frá því á þann veg að vátryggður eigi að fá fullar bætur fyrir tjón sitt en ekki meira.

Hugtakið framlegð vísar til þeirra fjármuna sem fyrirtæki fær í afgang til að mæta föstum kostnaði, þegar breytilegur kostnaður fyrirtækisins, þ.e. sá kostnaður sem breytist með breyttu framleiðslumagni, hefur verið dreginn frá sölutekjum. 

Það er mat dómsins að yrði fallist á þá skoðum stefnanda að húsaleigu og annan  húsnæðistengdan kostnað, sem féll niður við brunann í Skeifunni 11, 6. júlí 2014, beri að skilgreina sem fastan kostnað en ekki breytilegan við uppgjör á umræddri rekstrarstöðvunartryggingu myndi það leiða til auðgunar stefnanda, sem fjárhæð þessa kostnaðar næmi. Þykir því rétt að fallast á þá málsástæðu stefnda að skilgreina beri umræddan kostnað sem breytilegan kostnað í framhaldi brunans og að rétt sé að hann  komi til til lækkunar á áætlaðri framlegð skv. ákvæði 13.2 í skilmálum nr. ER20.

   Endanlegur höfuðstól dómkröfu stefnanda í máli þessu er 61.783.228 krónur. Hafa lögmenn aðila ítrekað lýst því yfir undir rekstri málsins þ.á.m. við aðalmeðferð þess að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu. Verður því að álykta með vísan til þeirra málsástæðna sem aðilar byggja á og að framan hafa verið raktar að höfuðstólskrafa stefnanda samsvari áætluðum leigukostnaði og öðrum húsnæðistengdum kostnaði, á tímabilinu 6. júlí 2014 til og með 5. júlí 2015.

Með vísan til alls framangreinds ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.  

 Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Pennans ehf., í máli þessu. Málskostnaður milli aðila falli niður.