Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2015
Lykilorð
- Fasteign
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
|
|
Mánudaginn 24. ágúst 2015. |
|
Nr. 490/2015. |
Íbúðalánasjóður (Hafsteinn Viðar Hafsteinsson hdl.) gegn Ólafi
Geir Jóhannessyni og (Reimar Pétursson hrl.) Íslandsbanka
hf. (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun. Fasteign.
Kærður var
úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ÍLS um að felld yrði úr gildi
ákvörðun sýslumanns um að afmá af fasteign Ó veðkröfu ÍLS umfram tiltekið
matsverð fasteignarinnar. Í úrskurði héraðsdóms var talið að sýslumaður hefði
rannsakað málið og aðstæður Ó nægilega og lagt mat á það, með tilliti til fram
kominna upplýsinga, að Ó væri um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum
skilum með greiðslu skulda sem tryggðar væru með veði í þeirri fasteign sem
greiðsluaðlögunin tæki til og að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði væru ekki tæk.
Þá var talið að skilyrðum 12. gr. laga nr. 50/2009 væri fullnægt til að
veðréttindi yrðu afmáð af fasteign Ó. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi
að fullnægt væri skilyrðum 12. gr. laga nr. 50/2009, sbr. a. lið 1. mgr. 21.
gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, til að veðréttindi yrðu
afmáð af fasteigninni. Þá var enginn sá annmarki talinn vera á ákvörðun
sýslumanns sem valdið gæti því að hún yrði felld úr gildi.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. nóvember 2014 um að afmá af fasteign varnaraðilans Ólafs Geirs Jóhannessonar að Asparfelli 8 í Reykjavík veðkröfu sóknaraðila umfram tiltekið matsverð fasteignarinnar. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Ólafur Geir Jóhannesson krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Íslandsbanki hf. hefur ekki látið málið til sín taka.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. a. lið 1. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, til að veðréttindi verði afmáð af fasteign varnaraðilans Ólafs og að enginn sá annmarki hafi verið á þeirri ákvörðun sýslumanns sem valdið geti því að hún verði felld úr gildi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íbúðalánasjóður, greiði varnaraðila Ólafi Geir Jóhannessyni 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur
föstudaginn 3. júlí 2015.
Mál þetta, sem var þingfest 20. febrúar 2015, var
tekið til úrskurðar 15. júní sl. Sóknaraðili er Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21,
Reykjavík. Varnaraðili er Ólafur Geir Jóhannesson, Asparfelli 8, Reykjavík og
Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í
Reykjavík 26. nóvember 2014 um að afmá veðkröfur sóknaraðila umfram 16.900.000
krónur á eign varnaraðilans, Ólafs Geir Jóhannessonar, að Asparfelli 8,
Reykjavík, fastanúmer 205-1904, verði úrskurðuð ógild. Þá krefst sóknaraðili
málskostnaðar.
Varnaraðilinn, Ólafur Geir, krefst þess að kröfum
sóknaraðila verði hafnað. Einnig krefst varnaraðili málskostnaðar eins og máið
væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðilinn, Íslandsbanki hf., lætur málið ekki til
sín taka fyrir dóminum.
I
Málavextir
Umsókn varnaraðila um greiðsluaðlögun var samþykkt hjá
umboðsmanni skuldara 26. apríl 2011 samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun
einstaklinga. Þann 29. apríl sama mánaðar var skipaður umsjónarmaður með
greiðsluaðlöguninni. Var innköllun birt í Lögbirtingablaðinu 10. og 17. maí
2011. Lýsti sóknaraðili, sem átti veðréttindi á eign varnaraðila á 1. og 2.
veðrétti, kröfum sínum fyrir umsjónarmanni en kröfurnar eru tilgreindar í IV.
kafla frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun sem dagsett er 27. febrúar
2012. Í VI. kafla frumvarpsins er kveðið á um andmælafrest. Þar segir að þeir
lánardrottnar sem hafi lýst kröfum sínum innan kröfulýsingarfrests hafi rétt
til að andmæla innan þriggja vikna frá því að frumvarpið var sent til
lánardrottna. Hefði lánardrottinn athugasemdir við frumvarpið skyldi hann láta
umsjónarmanni í té skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni fyrir 19. mars 2012.
Lýsi lánardrottnar ekki yfir að þeir leggist gegn frumvarpinu innan
framangreinds frests teljist frumvarpið samþykkt, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr.
101/2010.
Andmæli munu ekki hafa borist og var frumvarpið
samþykkt 4. apríl 2012. Var þar með kominn á samningur um greiðsluaðlögun fyrir
varnaraðila. Lengd greiðsluaðlögunartímabils var ákveðin tvö ár. Gert var ráð
fyrir að fyrsti afborgunardagur væri 1. apríl 2012 en sá síðasti 1. mars 2014.
Var mælt með því að 80% samningskrafna féllu niður við samþykki frumvarpsins og
að skuldara yrði veittur greiðslufrestur af eftirstöðvum samningskrafna (20%) á
tímabili greiðsluaðlögunar. Þá skyldi skuldari greiða 64.000 krónur í
mánaðarlegar afborganir af veðkröfum innan verðmats fasteignar. Að auki skyldi
varnaraðili inna af hendi eingreiðslu að fjárhæð 460.507 krónur sem hann hafði
lagt fyrir og sem rynni til greiðslu lögveðskrafna. Vaxtabótum að fjárhæð
300.000 krónur, sem kæmu til greiðslu, skyldi vera skipt milli kröfuhafa og
voru þær greiddar 15. maí 2014. Samkvæmt yfirlýsingu varnaraðilans Íslandsbanka
hf. 1. september 2014 móttók bankinn og miðlaði umræddum greiðslum í samræmi
við ofangreint. Þá sagði í A-lið IV. kafla frumvarpsins að þegar minna en þrír
mánuðir væru til loka tímabils greiðsluaðlögunar, en áður en það væri á enda,
gæti skuldari leitað eftir því að veðbönd yrðu afmáð af fasteigninni eftir
reglum 12. gr. laga nr. 50/2009 enda væri fullnægt öllum almennum skilyrðum
fyrir þeirri aðgerð samkvæmt þeim lögum. Þá sagði að hlutaðeigandi kröfuhafar
væru samþykkir að veðkröfur sem yrðu afmáðar á grundvelli ákvæðisins og fengju
þannig stöðu samningskrafna, yrðu felldar niður í kjölfarið. Einnig sagði að
kröfuhafar féllu frá rétti sínum til að gera tilboð um að leysa til sín eignina
samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009. Þá sagði um fjárhagslega stöðu
varnaraðila að ljóst mætti vera að hann væri og yrði um fyrirséða framtíð ófær
um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Hann væri einstæður og
hefði ekki fasta atvinnu. Greiðslugeta hans myndi því að öllum líkindum
styrkjast þegar hann hefði fundið sér fasta vinnu.
Varnaraðili stóð við greiðslur samkvæmt samningnum um
greiðsluaðlögun og leitaði eftir því 17. mars 2014 við sýslumanninn í Reykjavík
að veðréttindi, sem stæðu til tryggingar uppreiknuðum eftirstöðvum veðskulda og
næmu hærri fjárhæð en svaraði til söluverðs fasteignarinnar að Asparfelli 8 á
almennum markaði, yrðu máð af fasteigninni, samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr.
50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, enda
væri skilyrðum til þess fullnægt. Með bréfi sýslumanns 1. september 2014 var
óskað eftir frekari gögnum af hálfu varnaraðila.
Með ábyrgðarbréfi 12. september 2014 boðaði sýslumaður
varnaraðila og kröfuhafa á veðhafafund 23. sama mánaðar. Sóknaraðili og
varnaraðili mættu á fundinn en tilkynnt var af hálfu varnaraðilans,
Íslandsbanka hf., að ekki yrði mætt af hans hálfu. Á fundinum gerði fulltrúi
sóknaraðila athugasemdir við forsendur greiðslumats umboðsmanns skuldara frá 8.
september 2014 og að málið væri ekki nægilega upplýst af hálfu sýslumanns til
að hægt væri að taka ákvörðun í því. Sóknaraðili kaus ekki að neyta réttar
síns, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009, um að kalla til dómkvadda matsmenn
vegna verðmats, og þá var ekki gert tilboð í fasteignina. Sýslumanni bárust 24.
september og 25. nóvember 2014 gögn frá varnaraðila vegna athugasemda
varnaraðila. Gafst varnaraðila kostur á að kynna sér umrædd gögn. Ítrekaði
sóknaraðili athugasemdir sínar og það mat sitt að skilyrði fyrir afmáningu væru
ekki uppfyllt. Með vísan til framlagðra gagna tók sýslumaður ákvörðun 26.
nóvember 2014 um að veðkröfur umfram fasteignamat yrðu máðar af fasteign
varnaraðila að Asparfelli 8 í Reykjavík. Sóknaraðili skaut málinu til dómsins
með beiðni sem móttekin var 18. desember 2014 í samræmi við 7. mgr. 12. gr.
laga nr. 50/2009 í samræmi við XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
II
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að ákvörðun sýslumanns beri
að ógilda þar sem hann hafi ekki rannsakað málið nægilega vel samkvæmt 10. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 12. gr. laga nr. 50/2009, áður en hann tók
ákvörðun um afmáningu veðkrafna 26. nóvember 2014.
Sóknaraðili vísar um kröfur sínar til þess að skýrt sé
kveðið á um það í 12. gr. laga nr. 50/2009 að umsækjandi þurfi að sýna fram á
að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með
greiðslu skulda sem tryggðar eru með veði í þeirri fasteign sem greiðsluaðlögun
tekur til og að önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi.
Tilgangur löggjafans með þessum skilyrðum sé sá að afmáning veðkrafna komi
aðeins til hjá þeim einstaklingum sem á því þurfi að halda og jafnframt að ekki
sé gengið of nærri eignarrétti kröfuhafa með því að fella niður kröfur þar sem
greiðslugeta sé fyrir hendi. Það sé þannig ekki nóg að viðkomandi einstaklingur
fái samning um greiðsluaðlögun og jafnvel ekki nóg að staðið sé við greiðslur
samkvæmt þeim samningi. Viðkomandi þurfi að sýna fram á með gögnum að hann
verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa að fullu við greiðslur af
veðkröfum af fasteign sinni og þá þurfi hann einnig að sýna fram á að önnur
úrræði komi honum ekki að gagni. Skuldari þurfi að skila inn gögnum um laun,
skuldir, afborganir lána, skattframtöl o.fl. til staðfestingar á fjárhagsstöðu
sinni. Það sé svo í höndum sýslumanns að meta umrædd gögn og kalla eftir nánari
upplýsingum telji hann þörf á því.
Sóknaraðili kveður ákvörðun sýslumanns um afmáningu
veðréttinda vera stjórnvaldsákvörðun samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og
beri sýslumanni samkvæmt 10. gr. þeirra að sjá til þess að mál sé nægilega
upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Því meira íþyngjandi sem
stjórnvaldsákvörðun sé þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til
stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búa að baki
ákvörðun séu sannar og réttar. Rannsóknarskylda sýslumanns sem m.a. feli í sér
að staðreyna gögn málsins, sé sérstaklega rík í ljósi þess að umboðsmaður
skuldara forvinni málið með því að gera greiðslumat
en eitt af hlutverkum umboðsmanns sé að gæta hagsmuna skuldara, sbr. f-lið 2.
mgr. 1. mgr. laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara. Greiðslumatið sé því
ekki gert af hlutlausum aðila.
Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009
eigi skuldari að skila inn skriflegri og rökstuddri beiðni um afmáningu
veðkrafna. Ekki séu gerðar athugasemdir við að beiðni hafi verið skilað inn til
sýslumanns í þessu máli en gerðar séu athugasemdir við skort á rökstuðningi
fyrir beiðninni. Engin rökstudd beiðni hafi fylgt umsókn skuldara. Mikilvægt sé
að slík beiðni fylgi með sem tryggi yfirsýn yfir málið þannig að aðilar þess,
ásamt sýslumanni, séu upplýstir um stöðu umsækjanda og að tekin sé upplýst
ákvörðun í málinu.
Sóknaraðili kveðst hafa gert margvíslegar athugasemdir
á boðuðum veðhafafundi 23. september 2014 sem hefðu átt að vera tilefni fyrir
sýslumann til að rannsaka málið frekar. Það hafi hann ekki gert. Athugasemdir
sóknaraðila hafi í fyrsta lagi lotið að atvinnu varnaraðilans Ólafs Geirs. Í
greiðslumati umboðsmanns skuldara sé gert ráð fyrir að varnaraðili, sem sé 51
árs að aldri, og með fulla starfsgetu, vinni aðeins átta klukkustundir á viku
og séu laun hans miðuð við það. Sé þar gert ráð fyrir að hann starfi sem
íþróttaþjálfari hjá íþróttafélaginu Glóð. Tekjur hans séu samkvæmt greiðslumati
194.959 krónur á mánuði ásamt því sem hann fái 60.000 í leigutekjur mánaðarlega
frá maka. Heildartekjur hans séu því 254.959 krónur á mánuði. Það verði seint
talið eðlilegt vinnuframlag að vinna 8 klukkustundir á viku þegar hin hefðbundna
vinnuvika sé 40 stundir. Þá verði að setja þá lágmarkskröfu á einstaklinga sem
óski eftir afmáningu veðréttinda að þeir skili hefðbundnu vinnuframlagi hafi
þeir kost á því. Hvergi komi fram í gögnum málsins að starfsgeta varnaraðila sé
skert á nokkurn hátt og ekki hafi verið fjallað sérstaklega um það á umræddum
veðhafafundi.
Hafa verði í huga að það sé varnaraðilans að sýna fram
á að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með
skuldbindingar sínar. Fram komi í samningnum um greiðsluaðlögun að varnaraðili
hafi starfað við danskennslu ásamt því að hafa gengið í hin ýmsu verk á
veitingastöðum og á leikskóla sem bendi til þess að starfsgeta varnaraðila sé
eðlileg og góð. Í gögnum málsins sem liggi til grundvallar ákvörðun um
afmáningu komi hvergi fram að varnaraðili sé enn starfsmaður fasteignasölunnar
Brúar en á heimasíðu hennar séu á hinn bóginn upplýsingar um hann sem
starfsmann og þar sé hann titlaður sölufulltrúi. Samkvæmt upplýsingum frá
fasteignasölunni hafi hann verið það undanfarin ár. Í
greiðsluaðlögunarsamningum komi fram að varnaraðili hafi verið í hlutastarfi
hjá fasteignasölunni. Samkvæmt þessu hafi varnaraðili starfað hjá
fasteignasölunni í það minnsta í tæplega þrjú ár án þess að tekjur fyrir
starfið hafi komið fram á skattframtali og hvergi sé getið um það í gögnum sem
lögð voru fyrir sýslumann vegna umsóknar um afmáningu veðkrafna. Þrátt fyrir
ábendingar sóknaraðili hafi sýslumaður ekki séð ástæðu til að rannsaka
starfsgetu varnaraðila eða „kalla eftir frekari ástæðum“ fyrir svo skertu
vinnuframlagi hans.
Þá sé í greiðslumati gert ráð fyrir húsaleigu maka sem
hluta af tekjum varnaraðila að fjárhæð 60.000 krónur á mánuði. Engin gögn
liggja að baki þeim tekjum, hvorki leigusamningar né greiðslukvittanir.
Tekjuliðurinn hafi úrslitaáhrif á það hvort varnaraðili standist greiðslumatið
og því hafi verið full ástæða til að staðfesta þann þátt málsins. Þá skuli
undirstrika þau fyrirmæli sem fram komi í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 um
að með beiðni skuldara til sýslumanns um afmáningu skuli fylgja eintak af þeim
gögnum sem getið sé um í 3. og 9. gr. sömu laga. Í 4. tölulið 1. mgr. 3. gr.
þeirra sé kveðið á um að upplýsingar um hverjar tekjur skuldarans séu og tekjur
annarra sem eigi með honum lögheimili, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum,
skuli fylgja með umsókn. Gerð sé skýr krafa um upplýsingar um tekjur þeirra sem
haldi heimili með skuldara en svo virðist sem sýslumaður hafi ekki talið ástæðu
til að kanna þetta nánar þrátt fyrir að umræddar leigutekjur hafi haft
úrslitaáhrif á niðurstöðu málsins. Sóknaraðili ítrekar að ákvörðun sýslumanns
sé íþyngjandi fyrir sóknaraðila og hafi í för með sér takmörkun á eignarrétti.
Það sé því eðlileg krafa að málið sé unnið af kostgæfni og vandað til verka
þegar ákvörðun sé tekin. Afmáning veðkrafna eigi bara að koma til hjá þeim
einstaklingum sem þurfi á því að halda
Sóknaraðili kveðst í öðru lagi hafa gert athugasemdir
við það á umræddum veðhafafundi að í greiðslumati varnaraðila sé ekki gert ráð
fyrir greiðslu vaxtabóta. Í ljósi þess hversu lágar tekjur varnaraðila séu og
að eign hans sé yfirveðsett þyki óeðlilegt að ekki sé gert ráð fyrir greiðslu
slíkra bóta. Sýslumaður hafi ekki tekið athugsemdir sóknaraðila til greina
heldur hafi hann tekið skýringar varnaraðila gildar um að hann hefði ekki
fengið vaxtabætur þetta árið. Sóknaraðili kveður það hafa verið á ábyrgð
sýslumanns að kanna betur hvernig stæði á því þar sem öll skilyrði til greiðslu
vaxtabóta sem talin séu upp í lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt væru fyrir hendi.
Varnaraðili hafi greitt af veðskuldum sínum samkvæmt staðfestingu frá
sóknarnaðila, hann hafi verið með lágar tekjur og eign hans var yfirveðsett.
Hann hafi því uppfyllt öll skilyrði laga til greiðslu vaxtabóta og ekkert í
gögnum málsins hafi bent til þess að hann ætti ekki rétt á þeim. Sýslumaður
hafi haft öll gögn um tekjur og skuldir varnaraðila og honum hafi því verið í
lófa lagið að afla upplýsinga um áætlaðar vaxtabætur Það skjóti skökku við að
ekki sé gert ráð fyrir slíkum greiðslum við mat á greiðslugetu varnaraðila þegar
lagt sé mat á skilyrði 12. gr. laga 50/2009 um að skuldari verði ófær um að
standa við greiðslu skuldbindingar sinna og því liggi ekki fyrir hvort
varnaraðili sé ófær um standa við greiðslur af skuldbindingum sínum þar sem
sýslumaður hafi ekki rannsakað málið til hlítar að þessu leyti. Þegar af
þessari ástæðu skuli ógilda ákvörðun sýslumanns um afmáningu.
Í þriðja lagi kveðst sóknaraðili hafa gert
athugasemdir við að sýslumaður rannsakaði það ekki til hlítar að önnur
greiðsluerfiðleikaúrræði væru ekki fullnægjandi. Í samræmi við 12. gr. laga nr.
50/2009 hafi varnaraðila borið að sýna fram á að önnur vægari
greiðsluerfiðleikaúrræði gætu ekki leyst skuldavanda hans og sýslumanni hafi
borið að rannsaka það áður en til afmáningar kom. Samkvæmt greiðslumati, sem
afmáning sýslumanns hafi m.a. byggst á, komi fram að fyrir afmáningu hafi
greiðslugeta varnaraðila verið neikvæð um 35.915 krónur. Þar sé ekki gert ráð
fyrir vaxtabótum eins og áður sé vikið að. Ekki hafi verið sýnt fram á að
lenging lánstíma leiddi til þess að varnaraðili gæti staðið undir afborgunum
veðskulda án afmáningar. Rétt sé að benda á að varnaraðilinn, Íslandsbanki hf.,
hafi verið með veðkröfu á 3. veðrétti sem staðið hafi í 1.125.074 krónum.
Mánaðarleg greiðslubyrði af kröfunni hafi verið 58.125 krónur miðað við að 36
gjalddagar væru eftir. Hefði lánið verið lengt í 20 ár þá hefði mánaðarleg
greiðslubyrði af því orðið 8.689 krónur ef um jafngreiðslulán, annuitet, væri að ræða. Greiðslubyrðin af láninu hefði því
lækkað um 49.436 krónur á mánuði, sem miðað við fyrirliggjandi greiðslumat
hefði þýtt að varnaraðili hefði getað greitt af veðkröfum án afmáningar og
verið með 12.521 krónu mánaðarlega í greiðslugetu eftir það. Hefði lánið verið
lengt upp í 10 ár þá hefði mánaðarleg greiðslubyrði af láninu orðið 13.034
krónur sem þýði að varnaraðili hefði getað greitt af veðkröfum án afmáningar og
verið með 8.176. krónur mánaðarlega í greiðslugetu eftir það.
Fulltrúi sóknaraðila hafi vakið athygli sýslumanns á
skilyrðum laganna um að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði þyrftu að vera
ófullnægjandi en sýslumaður hafi ekki talið ástæðu til að kanna þann þátt
málsins frekar. Í endurriti úr gerðabók sé bókað að engin gögn lægju fyrir sem
sýndu fram á að lenging lána eða önnur greiðsluerfiðleikaúrræði væru ófullnægjandi.
Í ákvörðun sýslumanns um afmáningu komi fram að fyrir liggi yfirlýsing
varnaraðila um að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði væru ófullnægjandi. Það fái
hvergi stoð í gögnum málsins nema á umsóknareyðublaði um afmáningu sem
umsækjandi fylli sjálfur út og hægt sé að haka í reit því til staðfestingar.
Engin gögn styðji það en það sé á ábyrgð sýslumanns að staðreyna slíkar
staðhæfingar.
Af öllu framangreindu sé ljóst að sýslumaður hafi ekki
rannsakað málið nægjanlega vel til að geta tekið ákvörðun um afmáningu
veðréttinda á kostnað sóknaraðila og beri að ógilda ákvörðun hans af þeim
sökum.
Skýrt sé kveðið á um í 12. gr. laga nr. 50/2009 að
umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um
standa í fullum skilum með greiðslu skulda sem tryggðar séu með veði í þeirri
fasteign sem greiðsluaðlögun taki til og að önnur tiltæk
greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi. Þetta hafi varnaraðili ekki sýnt
fram á í málinu.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til ákvæða
stjórnarskrárinnar um að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema
fullt verði komi fyrir, laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, laga
nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði,
laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara og laga nr. 90/2003 um tekjuskatt,
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, auk 130. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála, varðandi málskostnað.
III
Málsatvik og
lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst vísa til þess að öll skilyrði 12.
gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á
íbúðarhúsnæði hafi verið uppfyllt við ákvörðun sýslumannsins 26. nóvember 2013.
Ekkert hafi verið við ákvörðun sýslumanns að athuga sem varðað geti ógildingu
hennar og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Í V. kafla samnings um greiðsluaðlögun segi að
varnaraðili geti leitað eftir því að veðbönd verði afmál af fasteign hans eftir
reglum laga nr. 50/2009 enda væri fullnægt öllum skilyrðum fyrir þeirri aðgerð
samkvæmt þeim lögum. Skilyrði fyrir því að unnt sé að beita þessari heimild sé
að sýnt sé að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum
með greiðslu skulda sem tryggðar séu með veði í þeirri fasteign sem
greiðsluaðlögun taki til enda sýni skuldari fram á að hann geti staðið í fullum
skilum með þær veðskuldir sem hvíli áfram á fasteigninni og enn fremur að önnur
tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi. Sýslumaður hafi talið umsókn
varnaraðila uppfylla skilyrði 12. gr. laga nr. 50/2009 og afmáð veðbönd af
fasteign varnaraðila. Hafnar varnaraðili sjónarmiðum sóknaraðila um ógildingu
þeirrar ákvörðunar.
Þegar minna en þrír mánuðir hafi verið eftir af
greiðsluaðlögunarsamningi hafi varnaraðili leitað eftir því að veðbönd yrðu máð
af fasteign hans samkvæmt áðurnefndri heimild. Öll skilyrði ákvæðisins hafi
verið uppfyllt og í yfirlýsingu sýslumanns 26. nóvember 2014 hafi verið tekin
ákvörðun um að veðkröfur umfram fasteignamat yrðu máðar af fasteign
varnaraðila. Málið hafi verið nægilega upplýst, öll nauðsynleg gögn legið fyrir
og skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því uppfyllt. Kröfu sóknaraðila
beri því að hafna.
Í fyrsta lagi telur varnaraðili að sjónarmið
sóknaraðila er lúta að atvinnu hans eigi ekki rétt á sér og eigi ekki að leiða
til ógildingar á ákvörðun sýslumanns. Varnaraðili starfi sem danskennari hjá
íþróttafélaginu Glóð á grundvelli samnings sem hann hafi gert við félagið í
ágúst 2014. Starfstímabilið nái frá 1. september til 30. apríl ár hvert eða
átta mánuði á ári. Á starfstímabilinu sé varnaraðili með tæpar 195.000 krónur á
mánuði. Þrátt fyrir að samningur varnaraðila við félagið geri ráð fyrir að hann
þjálfi átta klukkustundir á viku sé raunverulegt vinnuframlag hans fyrir
félagið hærra. Í umræddum tímafjölda sé ekki gert ráð fyrir þeim tíma sem fari
í undirbúning æfinga og keppnisferðalög svo fátt eitt sé nefnt.
Í framlögðum skattframtölum komi fram að varnaraðili
hafi tekið að sér verkefni fyrir fasteignasöluna Brú og leikskólann Hagaborg.
Um sé að ræða minni háttar verkefni sem varnaraðili hafi tekið að sér í
verktöku. Erfitt sé að áætla fyrir fram tekjur varnaraðila af þessum störfum en
þær séu tiltölulega lágar og breyti ekki niðurstöðu um greiðslugetu
varnaraðila. Varnaraðili kveðst sérstaklega mótmæla sem röngum staðhæfingum sóknaraðila
um að þessara tekna sé ekki getið í skattframtölum hans. Þá sé það heldur ekki
rétt að upplýsingar um tekjur maka hafi ekki verið lagðar fram undir rekstri
málsins hjá sýslumanni. Gjalda beri varhug við málatilbúnaði sóknaraðila hvað
þetta varðar.
Eins og gögn málsins beri með sér þá sé varnaraðili í
sambúð með Tintrinai Thikhasuk.
Í greiðslumati sé lagt til grundvallar að Tintrinai
greiði 60.000 krónur í húsaleigu á mánuði. Sá háttur hafði verið hafður á þar
sem Asparfell 8 sé séreign varnaraðila og hann einn skráður greiðandi áhvílandi
veðlána. Undir rekstri málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið gerð krafa um að
varnaraðili legði fram sérstakan húsaleigusamning þessu til stuðnings. Um þetta
hafi ekki verið deilt og upplýsingar varnaraðila um leigugreiðslur maka hafi
því verið lagðar til grundvallar greiðslumati. Varnaraðili kveðst mótmæla því
að ógilda eigi ákvörðun sýslumanns vegna þessa atriðis og kveðst reiðubúinn til
að leggja fram gögn þessu til stuðnings sé þess krafist.
Í öðru lagi kveður varnaraðili sjónarmið sóknaraðila
um vaxtabætur sæta furðu. Ljóst sé af gögnum málsins að varnaraðili naut ekki
vaxtabóta á árunum 2013 og 2014. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra
skýrist það einkum af ákvæðum 3.-4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og
9.-10. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Um þetta þurfi enginn að efast enda
staðfesta framlögð skattframtöl að varnaraðili naut ekki vaxtabóta á þessu
tímabili greiðsluaðlögunar.
Í þriðja lagi hafnar varnaraðili sjónarmiðum
sóknaraðila hvað varðar önnur greiðsluerfiðleikaúrræði. Kveðst varnaraðili
byggja á því að þegar aðili hafi fengið samþykktan samning til
greiðsluaðlögunar á grundvelli laga nr. 101/2010 liggi fyrir eðli málsins
samkvæmt að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði dugi ekki til að leysa skuldavanda
viðkomandi enda geti einstaklingur eingöngu leitað greiðsluaðlögunar sýni hann
fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í
skilum með fjárskuldbindingar sínar.
Þá komi fram í greinargerð með frumvarpi til laga nr.
101/2010 að þegar umboðsmaður skuldara samþykki umsókn um heimild til að leita
greiðsluaðlögunar felist í því viðurkenning eða mat stjórnvalda á að litlar sem
engar líkur séu á að lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna. Því sé
nauðsynlegt að afskrifa þær að hluta eða í heild enda sé krafa ekki meira virði
en þær greiðslur sem skuldari geti staðið undir. Þá sé jafnframt vísað til þess
að nauðsynlegt sé í greiðsluaðlögun að aðlaga virði eigna og krafna að
veruleikanum og eðlilegri greiðslugetu skuldara.
Óumdeilt sé að varnaraðili hafi uppfyllt skilyrði til
að fá greiðsluaðlögun og hafi sóknaraðili samþykkt sérstaklega samning
varnaraðila til greiðsluaðlögunar. Sóknaraðili hafi ekki borið fyrir sig í
samningaumleitunum áður en til greiðsluaðlögunar kom að hægt væri að leysa
fjárhagsvanda varnaraðila með öðrum greiðsluerfiðleikaúrræðum. Þá megi sjá af
framlögðum gögnum að breytingar hafi hvorki orðið á fjárhagslegri stöðu
varnaraðila frá því að samningur um greiðsluaðlögun hafi verið samþykktur né
aflahæfi hans. Þannig liggi enn fyrir að varnaraðili sé ófær um að standa í
fullum skilum með greiðslur skulda sem tryggðar séu með veði í Asparfelli 8 um
fyrirséða framtíð og að önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi
fyrir varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á annað.
Þá bendir varnaraðili á að lög nr. 50/2009 um
tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafi verið sett á undan lögum nr.
101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þau skilyrði sem tilgreind séu í 12.
gr. laga nr. 50/2009 eigi við um þann hóp sem eingöngu sækir um úrræði vegna
fasteignaveðkrafna og er því ekki búinn að fara í greiðslumat samkvæmt ákvæðum
laga nr. 101/2010. Þegar lög nr. 101/2010 hafi verið sett hafi verið ákveðið að
21. gr. þeirra vísaði í umrædda 12. gr. laga nr. 50/2009. Kveðst varnaraðili
byggja á því að skilyrðið um að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði séu
ófullnægjandi hafi ekki sama vægi í ljósi þess að varnaraðili hafði leitað
greiðsluaðlögunar og fengið frjálsan samning við sóknaraðila en sá samningur taki
bæði til samnings- og veðkrafna.
Varnaraðili kveður einnig að tillögur sóknaraðila um
lengingu lána séu óraunhæfar. Ljóst sé að ef á þær yrði fallist myndi það girða
fyrir hagnýta þýðingu 12. gr. laga nr. 50/2009. Kveðst varnaraðili jafnframt
byggja á því að sú lenging lána sem sóknaraðili leggi til teljist ekki
greiðsluerfiðleikaúrræði í skilningi ákvæðisins. Að auki verði að gera kröfu um
að slíkar tillögur komi fram við gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar.
Þá kveðst varnaraðli að lokum mótmæla því sem fram
kemur í greinargerð sóknaraðila að rökstudd beiðni hafi ekki fylgt með umsókn
varnaraðila um afmáningu hjá sýslumanni. Öll umbeðin gögn lágu til grundvallar
ákvörðun sýslumanns, m.a. greiðslumat, skattframtöl og verðmöt en þessi gögn
séu grundvöllur þess og í raun rökstuðningur fyrir því að varnaraðili uppfylli
12. gr. laga nr. 50/2009.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 101/2010 um
greiðsluaðlögun einstaklinga, laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun
fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og til
almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða. Þá er vísað til
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna hvað
varðar málskostnað en varnaraðili hafi gjafsókn í málinu.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sýslumannsins í
Reykjavík að verða við beiðni varnaraðila um að afmá veðkröfur sóknaraðila
umfram fasteignamat af fasteign varnaraðila að Asparfelli 8, fastanúmer
205-1904, samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna
greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Skilyrði fyrir því að unnt
sé að beita heimild þessari er að sýnt sé að skuldari verði um fyrirséða
framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu skulda sem tryggðar eru
með veði í þeirri fasteign sem greiðsluaðlögun tekur til og að önnur tiltæk
greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi, enda sýni skuldari fram á að hann
geti staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem hvíla áfram á fasteigninni.
Í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 segir að rísi
ágreiningur um ráðstafanir sem um er fjallað í ákvæðinu geti þeir sem hlut eigi
að máli leitað úrlausnar um hann fyrir dómstólum eftir sömu reglum og gildi um
úrlausn ágreinings um gildi nauðungarsölu. Málið er því rekið samkvæmt reglum
laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og fer um meðferð þess eftir ákvæðum XIV.
kafla laganna. Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 er kveðið á um hverjir geti
leitað dómsúrlausnar samkvæmt ákvæðum XIV. kafla laganna og um tímafresti.
Hefur sóknaraðili réttilega beint kröfu sinni til dómsins í samræmi við
áðurnefnt ákvæði og innan þess fjögurra vikna frests sem þar er tiltekinn.
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að ákvörðun
sýslumanns um afmáningu veðskuldanna, sem hafi verið íþyngjandi fyrir sóknaraðila,
sé stjórnvaldsákvörðun. Því hafi sýslumanni borið að sjá til þess að málið væri
nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun
var tekin. Hafi sýslumanni borið að vanda sérstaklega vel til verka þar sem um
var að tefla stjórnarskrárvarinn eignarrétt sóknaraðila. Sóknaraðili hafi komið
að athugasemdum sínum við sýslumann um að gögn skorti vegna atvinnu
varnaraðila, vaxtabóta og um önnur greiðsluerfiðleikaúrræði. Sýslumaður hafi
ekki brugðist við andmælum sóknaraðila og þrátt fyrir þau tekið hina umþrættu
ákvörðun. Þetta leiði til þess að óljóst sé hvort uppfyllt séu fyrrgreind
skilyrði 12. gr. laga nr. 50/2009 um afmáningu veðkrafna af fasteign
varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði
hafnað þar sem ekkert bendi til þess að málið hafi ekki verið nægilega
rannsakað af hálfu sýslumanns er hann tók ákvörðun um afmáningu veðkrafna.
Ljóst sé að umsókn varnaraðila hafi uppfyllt öll skilyrði 12. gr. laga nr.
50/2009 enda hafi hann á sínum tíma fengið samþykkta umsókn til
greiðsluaðlögunar og hafi þá verið talinn uppfylla skilyrði um að hann væri
ófær um að standa í skilum með greiðslu skulda og að önnur tiltæk
greiðsluerfiðleikaúrræði væru ófullnægjandi í hans tilviki. Engar breytingar
hafi orðið á stöðu varnaraðila hvað þetta varðar.
Í málinu hefur varnaraðili m.a. haldið því fram að
ekki sé unnt að taka tillit til sjónarmiða sóknaraðila hvað varðar ógildi
ákvörðunar sýslumanns, á grundvelli brots á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og
skorts á gögnum og upplýsingum er ákvörðun var tekin, þar sem hann hafi ekki
komið þeim sjónarmiðum að við meðferð málsins hjá sýslumanni. Um þessi
sjónarmið varnaraðila er það að segja að í XIV. kafla laga nr. 90/1991 er
hvorki að finna sérstakt ákvæði þess efnis að aðili verði að gera athugasemdir
og koma fram með málsástæður fyrir kröfu sinni undir rekstri málsins hjá
sýslumanni né verður það með nokkrum hætti leitt af ákvæðum kaflans. Verður því
fjallað um sjónarmið sóknaraðila hvað þetta varðar og tekin efnisleg afstaða
til málsástæðna hans þar að lútandi auk þess sem ekki verður betur séð en að
sóknaraðili hafi gert viðlíka athugasemdir undir meðferð málsins hjá
sýslumanni, í það minnsta að hluta.
Í hinni umþrættu ákvörðun sýslumanns um afmáningu frá
26. nóvember 2014 segir að með vísan til framlagðra gagna sé niðurstaða
sýslumanns sú að varnaraðili sé ófær um að greiða af áhvílandi veðkröfum nema
til afmáningar komi. Þá liggi fyrir yfirlýsing varnaraðila um að önnur
greiðsluerfiðleikaúrræði séu ófullnægjandi. Ljóst sé að gögn málsins beri með
sér að slíkt standi heima þar sem ekki verði séð að hagur varnaraðila komi til
með að vænkast sé tekið mið af skattframtölum, greiðslumati umboðsmanns
skuldara og öðrum framlögðum gögnum um tekjur hans. Standi því ekki efni til
annars en að greiðsluerfiðleikar varnaraðila verði að teljast ótímabundnir. Þá
sé talið að með framlögðum gögnum hafi varnaraðili sýnt fram á að geta staðið í
fullum skilum með þær skuldir sem muni hvíla áfram á eigninni þegar afmáð hafi
verið veðréttindi sem standi utan þeirra marka sem um geti í 1. mgr. 12. gr.
laga nr. 50/2009 og séu því öll skilyrði fyrir afmáningu uppfyllt.
Í málinu hefur sóknaraðili talið að sýslumanni hafi í
raun verið ómögulegt að taka hina umþrættu ákvörðun þar sem ekki hafi legið
fyrir fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu varnaraðila, atvinnu hans og
tekjur, vaxtabætur og önnur greiðsluerfiðleikaúrræði. Dómurinn telur að gögn
málsins beri með sér að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um
framangreind atriði. Þannig lágu fyrir í málinu er ákvörðun var tekin
skattframtöl varnaraðila og sambýlismanns hans þar sem voru upplýsingar um
tekjur hans og greiðslu vaxtabóta, samningur varnaraðila við íþróttafélagið
Glóð auk ítarlegs greiðslumats frá umboðsmanni skuldara og samþykkts samnings
varnaraðila um greiðsluaðlögun. Þá kom skýrt fram í í skattframtali 2014 að
varnaraðili hafði haft tiltekin sölulaun vegna starfa sinna á fasteignasölu auk
þess sem hann fékk greitt vegna danskennslu. Kemur það einnig fram í
skattframtali 2015. Verður ekki talið að tekjur hans hafi verið aðrar en þær er
fram koma í þeim skattframtölum er liggja fyrir í málinu og hefur sóknaraðili
ekki leitt líkur að öðru. Þá verður ekki séð að úrslitaáhrif hafi haft í málinu
að leigusamningur við maka varnaraðila hafi ekki legið fyrir. Í tilefni af
athugasemdum sóknaraðila um vaxtabætur tekur dómurinn fram að greiðslu þeirra
er ítarlega lýst í samningi um greiðsluaðlögun og ljóst er af framlögðum
skattframtölum og gögnum málsins að varnaraðili naut þeirra ekki á
greiðsluaðlögunartímabili. Getur þessi þáttur því ekki nokkru breytt um mat
sýslumanns á fjárhagsstöðu varnaraðila.
Hvað varðar sjónarmið sóknaraðila um að varnaraðili
hafi ekki sýnt fram á að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði væru ekki tæk er til
þess að líta að er varnaraðili óskaði eftir afmáningu veðréttinda á grundvelli
1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 hafði hann þegar fengið samþykkta
greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010. Verður að telja að í því felist
ákveðin viðurkenning eða mat stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á að
lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna. Ljóst mátti
vera af þeim gögnum sem lágu fyrir að önnur úrræði voru ekki tæk í tilviki
varnaraðila. Bæði kom það skýrt fram í umþrættri ákvörðun sýslumanns en einnig
í samþykktum samningi um greiðsluaðlögun. Í því ljósi verður að telja að
sóknaraðila hafi, sem kröfuhafa, borið að sýna fram á að önnur úrræði væru fær
hafi hann talið að svo væri. Verður ekki talið á þessu stigi í fjárhagslegri
endurskipulagningu varnaraðila að sú skylda hafi hvílt á varnaraðila sem
skuldara enda sóknaraðili fjármálastofnun með þá sérþekkingu og upplýsingar sem
til þurfti. Þá má einnig ljóst vera að varnaraðili hafði, þegar þarna var komið
sögu, farið í gegnum hina svokölluðu 110% leið auk þess sem þau lán sem á eign
hans hvíldu höfðu verið greiðslujöfnuð. Er öllum sjónarmiðum sóknaraðila hvað
ofangreint varðar hafnað.
Að mati dómsins liggur því fyrir að sýslumaður
rannsakaði málið og aðstæður varnaraðila nægilega og lagði mat á það, með
tilliti til fram kominna upplýsinga, að varnaraðili væri um ófyrirséða framtíð
ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu skulda sem tryggðar væru með
veði í áðurnefndri fasteign og að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði væru ekki tæk.
Þá verður og að telja að sýslumaður hafi lagt mat á það að uppfyllt væri það
skilyrði 12. gr. laga nr. 50/2009 að varnaraðili gæti staðið í skilum með þær
veðskuldir sem hvíldu áfram á fasteigninni. Þá tekur dómurinn fram að jafnvel
þótt vera kunni að umsókn varnaraðila um afmáningu hafi að einhverju leyti
verið áfátt í byrjun átti hann þess ávallt kost að bæta úr undir rekstri
málsins. Er enda til þess að líta að sýslumaður óskaði sérstaklega eftir
frekari gögnum með bréfi til varnaraðila 1. september 2014 sem ekki verður
annað séð en að varnaraðili hafi orðið við og þá liggur fyrir að varnaraðili
lagði fram gögn 24. september og 25. nóvember 2014 í tilefni af athugasemdum
sóknaraðila. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að sýslumaður hafi
með ákvörðun sinni gengið á svig við ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr.
37/1993. Þá verður ekki talið að með ákvörðun sýslumanns hafi verið gengið á
svig við stjórnarskrárvarinn eignarrétt sóknaraðila enda verður að hafa í huga
að í málum sem þessum fara hagsmunir kröfuhafa og skuldara að nokkru saman með
þeim hætti að kröfuhafar halda greiðsluflæði fyrir þeim hluta áhvílandi skulda
er eftir standa og skuldari nær að standa í skilum með þær sömu skuldir.
Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila svo að hann
byggi að nokkru sjálfstætt á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 12. gr.
laga nr. 50/2009 til að verða við beiðni varnaraðila um afmáningu veðkrafna af
eign varnaraðila að Asparfelli 8. Fyrir liggi að einungis sé gert ráð fyrir að
varnaraðili vinni átta stundir á viku en ekki sé annað komið fram í málinu en
að hann hafi fulla starfsgetu. Um þessi sjónarmið sóknaraðila er það að segja
að mat á fjárhagslegum framtíðarhorfum skuldara hvað atvinnu varðar hlýtur að
fara eftir aðstæðum í hverju máli og aðstæðum skuldara. Engin ástæða er í þessu
máli til að draga í efa þær útskýringar sem gefnar hafa verið varðandi atvinnu
varnaraðila og finna má stoð í gögnum málsins. Er þessum sjónarmiðum
sóknaraðila hafnað.
Þá hefur sóknaraðili einnig talið að umsókn
varnaraðila uppfylli ekki það skilyrði ákvæðisins að önnur tiltæk
greiðsluerfiðleikaúrræði séu ekki tæk og að sönnunarbyrði um það hvíli á
varnaraðila. Dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að í málinu liggi
fyrir að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði séu ekki fær í tilviki varnaraðila og
hafnað þeim sjónarmiðum sóknaraðila auk sjónarmiða hans um að ekki sé tekið
tillit til greiðslu vaxtabóta við mat á greiðslugetu varnaraðila.
Auk ofangreinds tekur dómurinn fram að ljóst er að með
ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. apríl 2011 var samþykkt umsókn varnaraðila um
greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.
Efni frumvarps að samningi um greiðsluaðlögun hefur þegar verið rakið. Í VI.
kafla þess er lánardrottnum, sem lýstu kröfum innan kröfulýsingarfrests,
veittur þriggja vikna andmælafrestur en lýsi þeir því ekki yfir innan þess tíma
að þeir leggist gegn frumvarpinu teljist það samþykkt, sbr. 3. mgr. 17. gr.
laga nr. 101/2010. Ekki verður séð af gögnum málsins að þann frest hafi
sóknaraðili nýtt sér enda liggur fyrir bréf frá umboðsmanni skuldara til
kröfuhafa 4. apríl 2012 þar sem fram kemur að samningurinn hafi verið
samþykktur. Samkvæmt þessu liggur fyrir að sóknaraðili samþykkti tillögu
umsjónarmanns í frumvarpi að samningi um greiðsluaðlögun varnaraðila. Eftir að
greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna varnaraðila komst á með þeim hætti samkvæmt
7. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2009 var sóknaraðili, sem veðhafi fasteignarinnar að
Asparfelli 8 í Reykjavík, bundinn af frumvarpi umsjónarmanns þar um samkvæmt
lögum nr. 50/2009 sem samþykkt hafði verið af hálfu kröfuhafa án athugasemda
eins og áður er lýst.
Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 50/2009 segir að á meðan á
tíma greiðsluaðlögunar stendur geti veðhafi, sem af henni er bundinn, leitað
eftir ógildingu hennar eftir sömu reglum og gilda um ógildingu nauðasamnings. Í
62. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segir um ógildingu
nauðasamnings að meðan nauðasamningur hafi ekki verið efndur að fullu megi
ógilda hann með dómi í máli sem einhver sá, sem á samningskröfu, höfðar á
hendur skuldaranum. Þetta sé heimilt, í fyrsta lagi ef leitt er í ljós að
sviksamlegt eða refsivert atferli skuldarans hafi stuðlað að því að
nauðasamningurinn hafi komist á. Í öðru lagi ef skuldarinn hefur greitt eða
heitið að greiða einhverjum lánardrottni meira af samningskröfu hans en hann á
tilkall til eftir nauðasamningnum. Og í þriðja lagi ef skuldarinn vanefnir
verulega skuldbindingar sínar samkvæmt nauðasamningnum. Vildi sóknaraðili
hnekkja nefndum samningi um greiðsluaðlögun var honum einungis fær sú leið er
greinir í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 50/2009, sbr. 62. gr. laga nr. 21/1991, að
fá hann ógiltan með dómi. Það var ekki gert.
Að framan er rakið að nokkru efni 1. mgr. 12. gr. laga
nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
Þegar skuldari sækir um afmáningu veðkrafna, á grundvelli 12. gr. laga nr.
50/2009, eftir að hafa staðið við greiðslu á umsömdum greiðsluaðlögunartíma er
ekki að lögum gert ráð fyrir því að greiðslugeta hans verði endurmetin á öðrum
forsendum en gert var við samning um greiðsluaðlögunina í upphafi þess
tímabils. Sóknaraðili, sem er aðili að greiðsluaðlögunarsamningi varnaraðila,
er bundinn af samningnum og getur ekki síðar óskað slíks endurmats á
greiðslugetu varnaraðila, enda hefur hann ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að
forsendur séu aðrar og svo breyttar frá því sem var þegar samningurinn var
samþykktur. Benda gögn málsins enda eindregið til þess að svo sé ekki og að
fjárhagsleg staða varnaraðila hafi ekki batnað svo teljandi sé frá því að
samningur um greiðsluaðlögun var samþykktur. Veita lög nr. 50/2009 um
tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði enga heimild til
þess að endurmeta greiðslugetu varnaraðila við þessar aðstæður. Verður um þessi
sjónarmið vísað til dóms Hæstaréttar frá 29. apríl 2014 í máli nr. 231/2014.
Auk þess verður ekki fram hjá því litið að sjónarmið sóknaraðila hvað varðar
önnur greiðsluerfiðleikaúrræði verður að telja óraunhæf miðað við fjárhagslega
stöðu varnaraðila.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ekki
fallist á kröfu sóknaraðila í málinu um að hnekkt verði ákvörðun sýslumanns um
að afmá veðkröfur umfram fasteignamat af eign varnaraðila að Asparfelli 8 í
Reykjavík, fastanúmer 205-1904.
Með vísan til atvika málsins þykir rétt að hvor aðili
fyrir sig beri sinn kostnað af málinu. Varnaraðili fékk gjafsókn í málinu með
bréfi innanríkisráðuneytisins 15. júní sl. Samkvæmt því og 1. mgr. 127. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála greiðist allur gjafsóknarkostnaður
varnaraðila úr ríkissjóði, þar með talinn þóknun lögmanns hans, Eldjárns
Árnasonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 558.000 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hafsteinn Viðar
Hafsteinsson hdl. en af hálfu varnaraðila, Eldjárn Árnason hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð
þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 24. apríl sl.
Ú R S K U R Ð
A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Íbúðalánasjóðs, um að hnekkt verði
ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 26. nóvember 2014 um að afmá veðkröfur
sóknaraðila umfram fasteignamat af fasteign varnaraðila, Ólafs Geirs
Jóhannessonar, að Asparfelli 8, Reykjavík, fastanúmer 205-1904, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Eldjárns Árnasonar, hdl.,
558.000 krónur.