Hæstiréttur íslands

Mál nr. 703/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 19. nóvember 2013.

Nr. 703/2013.

Þrotabú Helgavatns ehf.

(Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)

gegn

Ice Rental – Camper Iceland ehf.

(Guðrún Helga Brynleifsdóttir hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem riftunarmáli þrotabús H ehf. gegn IC ehf. var vísað frá dómi. Taldi héraðsdómur málshöfðunarfrest samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafa verið liðinn er málið var höfðað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að við lok kröfulýsingarfrests 26. nóvember 2012 hafi þrotabúið ekki haft handbært fé til að standa að málsókn á hendur IC ehf. Slík málsókn hafi þannig verið háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af kostnaði af henni. Ekki hafi verið efni til að taka afstöðu til þess atriðis fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu. Sá fundur hafi verið haldinn 6. desember 2012, skömmu eftir lok kröfulýsingarfrests. Taldi Hæstiréttur að undir þessum kringumstæðum yrði sá fundur að marka upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 og vísaði þar um til tveggja dóma réttarins í málum nr. 256/2003 og 463/1996. Frestur til að höfða málið hafi því ekki verið liðinn er stefna var birt IC ehf. 3. júní 2013. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem móttekin var í héraðsdómi 30. október 2013 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar og ennfremur að sóknaraðili setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um greiðslu málskostnaðar í héraði því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.

Krafa varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar var fyrst gerð í greinargerð hans fyrir Hæstarétti þar sem tekið var til varna gegn kröfu sóknaraðila. Krafa um málskostnaðartryggingu var því ekki komin fram svo tímanlega sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991,  sbr. dóma Hæstaréttar 23. október 2007 í máli nr. 505/2007 og 3. september 1998 í máli nr. 268/1998, sem birtur er á bls. 2670  í dómasafni það ár. Verður kröfunni því ekki sinnt.

I

Bú Helgavatns ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012. Kröfulýsingarfresti lauk 26. nóvember 2012. Við könnun skiptastjóra kom í ljós að 5. janúar 2012 hafði öll innstæða á reikningi félagsins hjá Landsbankanum hf. að fjárhæð 5.553.223 krónur verið millifærð yfir á reikning í eigu varnaraðila. Daníel Kjartan Johnson, gaf skýrslu hjá skiptastjóra 3. október 2012, en hann hafði verið eini stjórnarmaður Helgavatns ehf. og var jafnframt eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri varnaraðila. Hann var meðal annars spurður um ástæður fyrir þessari millifærslu. Óskaði skiptastjóri í kjölfarið eftir frekari gögnum er þessu tengdust og bárust þau 29. sama mánaðar. Við lok kröfulýsingarfrests varð ljóst að kröfuhafar í búið voru tveir. Skiptafundur í þrotabúinu var haldinn 6. desember 2012. Ekki var mætt til fundarins af hálfu kröfuhafa. Var bókað að engar eignir væru til staðar og eingöngu væri eftir að kanna hvort kröfuhafar teldu ástæðu til að höfða riftunarmál vegna fyrrgreindrar greiðslu af reikningi félagsins. Þá var bókað að Arion banki hf., aðalkröfuhafi í búið, hefði óskað eftir stuttum fresti til að taka afstöðu til þess. Mál þetta var höfðað 3. júní 2013. Krefst sóknaraðili þess að framangreindri millifærslu verði rift og að varnaraðila gert að endurgreiða sér 5.553.223 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Í þessum þætti málsins snýst ágreiningur aðila um hvort málshöfðunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. hafi verið liðinn er málið var höfðað. Málsatvikum er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.

II

Eins og að framan er rakið var á skiptafundi 6. desember 2012 bókað að engar eignir væru í þrotabúi Helgavatns ehf. og aðeins ætti eftir að reyna á hvort kröfuhafar vildu freista þess að rifta greiðslu þeirri sem færð var af bankareikningi félagsins til varnaraðila 5. janúar 2012. Liggur fyrir að Arion banki hf. ábyrgist greiðslu sóknaraðila af rekstri málsins allt að 600.000 krónum.

Kröfulýsingarfresti við gjaldþrotaskipti sóknaraðila lauk sem áður segir 26. nóvember 2012. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 gat sá sex mánaða frestur, sem þar um ræðir og sóknaraðili naut til að höfða mál þetta, fyrst byrjað að líða þann dag. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að á þeim tíma hafi sóknaraðili ekki haft handbært fé til að standa að málsókn á hendur varnaraðila. Slík málsókn var þannig háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af kostnaði af henni. Ekki voru efni til að taka afstöðu til þess atriðis fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu. Sá fundur var sem fyrr segir haldinn 6. desember 2012, skömmu eftir lok kröfulýsingarfrests. Undir þessum kringumstæðum verður sá fundur að marka upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 1. september 2003  í máli nr. 256/2003, sem birtur er á bls. 2850 í dómasafni það ár og 3. janúar 1997 í máli nr. 463/1996, sem birtur er á bls. 4 í dómasafni 1997.

Að framangreindu virtu verður fallist á með sóknaraðila að frestur til að höfða mál þetta hafi ekki verið liðinn 3. júní 2013 þegar stefna var birt varnaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Ice Rental – Camper Iceland ehf., greiði sóknaraðila, þrotabúi Helgavatns ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. október 2013.

Mál þetta, sem var höfðað 3. júní 2013, var tekið til úrskurðar 10. október 2013. Stefnandi er þrotabú Helgavatns ehf., kt. [...], Austurstræti 17, Reykjavík. Stefndi er Ice Rental – Camper Iceland ehf., kt. [...], Grófinni 14C, Reykjanesbæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði riftun á millifærslu að fjárhæð 5.553.223 krónur af reikningi stefnanda, 115-26-4[...], yfir á reikning stefnda, nr. 542-26-1[...], hinn 5. janúar 2012. Þá er krafist endurgreiðslu á 5.553.223 krónum ásamt vöxtum skv. 1. máls. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. janúar 2012 til 17. maí 2013 en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Enn fremur er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að öllum kröfum stefnanda verði hafnað, en til þrautavara að krafa stefnanda verði felld niður eða lækkuð verulega. Í öllum tilvikum er þess jafnframt krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefnda um að málinu verði vísað frá dómi.

I.

Málsatvik eru þau að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012 var bú Helgavatns ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var skiptastjóri skipaður.  Frestdagur við skiptin var 21. maí 2012 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember 2012. Tveir aðilar lýstu kröfum í búið, annars vegar Tollstjóri og hins vegar Arion banki hf.

Við könnun skiptastjóra á færsluyfirlitum á reikningum þrotabúsins kom í ljós að hinn 5. janúar 2012 var öll innistæða á reikningi félagsins hjá Landsbankanum hf., nr. 115-26-4[...], 5.553.223 krónur, millifærð á reikning í eigu stefnda, nr. 542-26-1[...].

Hinn 3. október 2012 gaf Daníel Kjartan Johnson, sem var framkvæmdastjóri Helgavatns ehf., og jafnframt fyrirsvarsmaður stefnda, skýrslu hjá skiptastjóra og var hann m.a. spurður út í millifærsluna til stefnda 5. janúar 2012, að fjárhæð 5.553.223 krónur. Hann greindi frá því að hún væri vegna endurútreiknings á gengistryggðu láni sem hvíldi á fasteign sem stefndi keypti, en gert hafi verið ráð fyrir því að stefndi ætti að njóta endurútreikningsins, kæmi til hans. Umrædd fasteign er að Grófinni 14C í Reykjanesbæ.

Í kjölfar skýrslu Daníels Kjartans óskaði skiptastjóri eftir frekari gögnum frá honum. Þau bárust með tölvupósti 29. október 2012, m.a. þinglýstur kaupsamningur um eignina að Grófinni 14C, dags. 15. mars 2010, og afsal dagsett sama dag. Í téðum kaupsamningi kemur fram að seljandi eignarinnar var Helgavatn ehf., en kaupandi var stefndi. Samkvæmt kaupsamningnum var kaupverðið 39.980.045 krónur, sem skyldi greiðast með yfirtöku áhvílandi veðskulda, samtals 34.980.045 krónur og gegn 5.000.000 króna greiðslu til Landsbankans hf.. Enn fremur fékk skiptastjóri í hendur eftirfarandi yfirlýsingu, dags. 20. mars 2010, en henni hafði ekki verið þinglýst:

Undirritaður [Pétur Kjartansson], sem er [...] [...] Jóns Kjartanssonar, kt. [...], samþykkir sölu á fasteigninni Grófin 14C í Reykjanesbæ hinn 15.03.2010 frá Helgavatni ehf til Ice-Rental ehf, en Jón er eigandi alls hlutafjár í Helgavatni ehf.

Gert er ráð fyrir að þegar endurgreiðslan fæst á ranglega reiknuðum gengistryggðum höfuðstól áhvílandi veðskulda við Landsbanka, að sú lækkun gangi til kaupanda til lækkunar á kaupverði.

Með tölvuskeyti 5. desember 2012 óskaði skiptastjóri eftir upplýsingum frá Landsbankanum hf. um það hvort það hafi komið fram í samningaviðræðum að stefndi ætti að njóta endurútreiknings á láni sem hvíldi á eigninni að Grófinni 14C. Jafnframt óskaði skiptastjóri eftir öllum gögnum með samskiptum fyrirsvarsmanns Helgavatns ehf. og Landsbankans hf. vegna yfirtöku á eigninni og gögnum sem varða endurútreikning á framangreindu láni.

Skiptafundur var haldinn í þrotabúi Helgavatns ehf. daginn eftir, 6. desember. Í fundargerð skiptastjóra kemur fram að enginn hafi mætt til fundarins og að engar eignir væru til staðar í félaginu. Eingöngu ætti eftir að kanna hvort kröfuhafar teldu ástæðu til þess að höfða riftunarmál vegna greiðslna út af reikningum félagsins, sem tengdust endurútreikningi á gengistryggðu láni sem félagið væri með hjá Lands­bankanum. Ef kröfuhafar myndu ekki óska eftir því yrði búinu lokað sem eignalausu. Hafi Arion banki hf. óskað eftir stuttum fresti til að taka afstöðu til þess.

Hinn 17. janúar 2013 ítrekaði skiptastjóri erindi sitt við Landsbankann hf. frá 5. desember 2012, þar sem svar hafði ekki borist frá bankanum.

Í tölvuskeyti Landsbankans hf. 22. janúar 2013 segir að ekki sé að finna gögn um það hjá bankanum að stefndi ætti að njóta endurútreiknings á láni sem hvíldi á Grófinni 14C og að engin sérstök gögn finnist um samskipti milli fyrirsvarsmanns Helgavatns ehf. og bankans. Jafnframt fékk skiptastjóri afhent gögn sem varða endur­útreikning lánsins. Hinn 4. febrúar 2013 óskaði skiptastjóri eftir nánari upplýsingum frá Landsbankanum hf. og í svari 5. febrúar 2013 segir að hinn 21. nóvember 2011 hafi bankinn endurgreitt Helgavatni ehf. 5.552.591 krónu vegna endurútreiknings láns, inn á reikning félagsins nr. 0115-26-4[...]. Hinn 5. janúar 2012 hafi Helgavatn ehf. millifært þessa fjárhæð inn á reikning í Íslandsbanka, nr. 0542-26-0014. Þá kemur fram í svari Landsbankans að ekkert samkomulag væri til um að stefndi hefði átt að njóta endurútreikningsins, enda hefði bankinn þá ekki innt af hendi greiðsluna til Helgavatns ehf. Enn fremur segir í svari bankans að 5.000.000 króna greiðsla, sem stefndi átti að greiða til bankans samhliða kaupum á fasteigninni, hafi ekki verið hluti af kaupverði fyrir fasteignina heldur hafi greiðslan verið uppgjör á sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar Helgavatns ehf., en bankinn hafi sett greiðsluna sem skilyrði fyrir því að hann myndi samþykkja kaup á umræddri fasteign og yfirtöku á áhvílandi lánum.

Með bréfi skiptastjóra 17. apríl 2013 var stefnda tilkynnt um riftun umræddrar greiðslu frá 5. janúar 2012, að fjárhæð 5.553.223 krónur, með vísan til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., 2. mgr. 134. gr. og 141. gr. sömu laga. Af hálfu stefnda var riftun mótmælt, með bréfi 6. maí 2013, og höfðaði stefnandi því mál þetta.

II.

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 3. júní 2013, en samkvæmt 93. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 teljist mál höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna.

Stefndi telur að kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 26. nóvember 2012. Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skuli höfða mál til þess að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingar­frests. Hvað sem öðru líði verði upphaf þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, ekki talið vera fyrr en þann dag. Þessi viðmiðun sé eina hlutlæga reglan sem 1. mgr. 148. gr. hafi að geyma, þar sem að öðru leyti skuli miða upphaf máls­höfðunar­frests við það tímamark þegar skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu. Óumdeilt sé að fyrirsvarsmaður þrotabúsins hafi komið í skýrslutöku til skiptastjóra þann 3. október 2012 en í skýrslutökunni hafi hann m.a. verið spurður út í millifærsluna til stefnda. Nokkru áður hafi skiptastjóri kannað færsluyfirlit á reikningum stefnanda og þá komið í ljós að innistæðan á reikningi stefnanda hafi verið millifærð til stefnda. Jafnframt hafi skiptastjóri óskað eftir frekari upplýsingum frá fyrirsvarsmanni stefnanda eftir skýrslutökuna til að varpa ljósi á ákveðin atriði og þau gögn hafi borist honum 29. október 2012.

Við lok kröfulýsingarfrestsins hafi skiptastjóri því aflað sér allra nauðsynlegra gagna til að taka ákvörðun um málshöfðun. Ljóst hafi verið á þessu tímamarki að kröfuhafar búsins hafi eingöngu verið tveir, annars vegar Arion banki hf. og hins vegar Tollstjórinn. Skiptastjóra hafi því verið endanlega ljóst þegar kröfulýsingarfresti lauk hverjir höfðu hagsmuna að gæta í þrotabúinu og hverjir myndu koma til greina til að ábyrgjast greiðslu kostnaðar af fyrirhuguðu riftunarmáli. Ekki verði séð að skiptastjóri hafi ekki átt þess kost að taka ákvörðun um málshöfðun fyrr en á fyrsta skiptafundi, þann 6. desember 2012, eða að hann hafi skort gögn eða upplýsingar til að leita svo fljótt sem auðið hafi verið eftir samþykki fyrir að höfða riftunarmál á hendur stefnda.

Þá segir stefndi að tilgangur reglna gjaldþrotaskiptalaga um takmörkun á rétti þrotabús til höfðunar riftunarmála sé einkanlega sá að vernda hagsmuni viðsemjanda þrotamanns og öryggi í viðskiptalífinu. Stefndi hafi hlotið að geta gert þá kröfu að ákvörðun um höfðun riftunarmáls yrði tekin eins fljótt og auðið væri og allur dráttur skiptastjóra sem og kröfuhafa verði ekki öðrum að kenna nema þeim sjálfum. Við lok kröfulýsingarfrests hafi allar upplýsingar legið fyrir um stefnanda og hverjir voru kröfuhafar búsins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að málshöfðunarfresturinn ætti að byrja að líða á síðara tímamarki en við lok kröfulýsingarfrests.

Jafnframt segir stefndi að í lögum nr. 21/1991 séu gerðar mjög strangar kröfur til þess að skiptastjóri setji sig fljótt inn í rekstur þann er þrotamaður hefur með höndum, afli sér aðgangs að bókhalds­gögnum þrotamanns og sjái um reikningshald þess. Þá geti skiptastjóri leitað sér aðstoðar sérfræðinga til þess að inna af hendi einstök verk. Þetta telur stefndi leiða til þess að alveg sérstakar aðstæður þurfi að koma til, til þess að frestur þessi verði talinn byrja að líða síðar en við lok kröfulýsingar­frests. Stefndi telur að engin slík atvik séu uppi í máli þessu, enda hafi skiptastjóri verið búinn að móta kröfu sína endanlega þann 17. apríl 2013 er hann hafi sent stefnda bréf og lýst yfir riftun. Málið hafi hins vegar ekki verið höfðað fyrr en 3. júní 2013, eða um einum og hálfum mánuði seinna. Ljóst hafi verið á því tímamarki að málið hafi verið höfðað eftir að málshöfðunar­frestur 148. gr. laga nr. 21/1991 var liðinn og því eðlilegt að málinu verði vísað frá dómi.

Samkvæmt öllu ofangreindu telur stefndi að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað 3. júní 2013 og beri því að vísa málinu frá dómi.

III.

Stefnandi mótmælir því að máli þessu verði vísað frá dómi. Stefnandi byggir á því að samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. beri að höfða mál sem þetta áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Stefnandi heldur því fram að samkvæmt dómaframkvæmd byrji málshöfðunar­frestur ekki að líða fyrr en á fyrsta skiptafundi þegar þrotabú séu eignalaus, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 256/2003, enda sé það ekki fyrr en þá sem skiptastjóri geti formlega fengið ábyrgð kröfuhafa á kostnaði sem getur hlotist af málshöfðun. Vísar stefnandi í þessu sambandi jafnframt til dóms Hæstaréttar í máli nr. 357/1995. Í þrotabúi Helgavatns ehf. hafi eignir aðeins numið um 100.000 krónum, en sú fjárhæð dugi ekki til að höfða mál. Á skiptafundi 6. desember 2012 hafi verið fært til bókar að aðeins ætti eftir að kanna hvort kröfuhafar telji ástæðu til þess að höfða riftunarmál vegna umræddrar millifærslu, sem tengist endurútreikningi á gengis­tryggðu láni sem Helgavatn ehf. var með hjá Landsbankanum.  Einnig hafi verið fært til bókar í fundargerð að aðalkröfuhafi þrotabúsins, Arion banki hf., hafi óskað eftir sérstökum fresti til þess að taka afstöðu til þess hvort veitt yrði trygging fyrir málskostnaði. Þannig hafi kröfuhafar látið sig málið varða þó að þeir hafi ekki mætt á skiptafundinn. Endanleg trygging fyrir málskostnaði hafi ekki fengist fyrr en löngu síðar, í febrúar 2013, þegar öll nauðsynleg gögn til að taka ákvörðun um málshöfðun hafi borist skiptastjóra. Þannig hafi skiptastjóra ekki verið unnt að leggja fram kröfu á hendur stefnda fyrr en löngu eftir að kröfulýsingarfresti lauk, þar sem ekki hafi náðst að afla allra þeirra gagna sem hafi þurft til að ákveða hvort um riftanlegan gerning væri að ræða eða ekki. Skiptastjóri hafi óskað eftir gögnum frá Landsbankanum hinn 5. desember 2012, en endanlegt svar hafi ekki borist fyrr en 5. febrúar 2013. Það hafi ekki verið fyrr en þá sem skiptastjóri hafi haft undir höndum öll nauðsynleg gögn til að geta tekið afstöðu til þess hvort rifta bæri umræddri greiðslu, en það hafi verið grundvallaratriði hvort Landsbankinn hefði samþykkt í samningaviðræðum við stefnanda að stefndi ætti að njóta endur­útreikningsins.

IV.

Í þessum þætti málsins er deilt um það hvenær málshöfðunarfrestur hafi byrjað að líða. Stefndi telur að miða eigi við kröfulýsingarfrest 26. nóvember 2012 en stefnandi heldur því fram að miða eigi við skiptafund 6. desember 2012, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 357/1995 og nr. 256/2003. Jafnframt heldur stefnandi því fram að ekki hafi legið fyrir öll gögn til að taka ákvörðun um málshöfðun fyrr en 5. febrúar 2013, þegar svar barst frá Landsbankanum við fyrirspurn skiptastjóra.

Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal höfða mál til að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingar­frests. Málshöfðunarfrestur byrjar því almennt að líða við kröfulýsingarfrest, en hann getur byrjað að líða síðar þegar sérstaklega stendur á. Við mat þess hvort málshöfðunarfrestur byrji að líða við seinna tímamark en kröfulýsingarfrest ber að hafa í huga að reglan um málshöfðunarfrest er mikilvæg til að tryggja festu og öryggi í viðskiptalífinu og hefur viðsemjandi þrotamanns af því brýna hagsmuni að leitt verði sem fyrst í ljós hvort látið verði reyna á riftanleika ráðstöfunar.

Að mati dómsins verður ekki alhæft af dómum Hæstaréttar í málum nr. 357/1995 og nr. 256/2003 að málshöfðunar­frestur byrji ávallt að líða við fyrsta skiptafund þegar bú eru eignalítil eða eignalaus, heldur verði að meta atvik í heild sinni. Í máli því sem hér er til úrlausnar var skiptastjóra við lok kröfulýsingarfrests endanlega ljóst hverjir hefðu hagsmuna að gæta í þrotabúinu og hverjir kæmu til greina til að ábyrgjast kostnað af riftunarmáli, en kröfuhafar voru aðeins tveir. Þá hafði skiptastjóri á því tímamarki undir höndum öll gögn sem þörf var á til að gera riftunarkröfu. Nánar tiltekið hafði framkvæmdastjóri Helgavatns ehf. gefið skýrslu hjá skiptastjóra 3. október 2012, m.a. varðandi greiðsluna til stefnda. Þá höfðu skiptastjóra borist gögn frá framkvæmda­stjóranum hinn 29. október 2012, þ.e. kaupsamningur og afsal um fasteign að Grófinni 14C og yfirlýsing Péturs Kjartanssonar frá 20. mars 2010, um að stefndi ætti að njóta þess ef endurgreiðsla fengist við endurútreikning gengistryggðs láns sem hvíldi á eigninni.

Þegar litið er til alls framangreinds verður að miða málshöfðunarfrest í máli þessu við kröfulýsingarfrest 26. nóvember 2012, en ekki skiptafund 6. desember 2012, sem kröfuhafar mættu ekki til, eða svar Landsbankans 5. febrúar 2013, enda hafði skiptastjóri fengið í lok október 2012 nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til riftunarkröfu, þ.e. framangreindan kaupsamning og yfirlýsingu frá 20. mars 2010. Þessi frestur hefði átt að duga vel til að höfða mál þetta en það var ekki gert fyrr en 3. júní 2013, þegar málshöfðunarfrestur var liðinn. Ber því að vísa máli þessu frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.