Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2003
Lykilorð
- Lausafé
- Galli
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2003. |
|
Nr. 194/2003. |
Sportbúð Títan ehf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Björgunarsveit Hafnarfjarðar (Valgarður Sigurðsson hrl.) og gagnsök |
Lausafé. Galli. Skaðabætur. Matsgerð. Skuldajöfnuður.
B, sem samið hafði við S um kaup á bát, hélt eftir lokagreiðslu kaupverðs vegna galla sem B taldi vera á bátnum. Með hliðsjón af matsgerð og niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, voru tilgreindir kröfuliðir B teknir til greina, en S hafði ekki óskað eftir yfirmati. Að gengnum dómi héraðsdóms hafði S einnig fallist á greiðsluskyldu sína varðandi suma galla á bátnum. Dæmdar skaðabætur til B drógust frá lokagreiðslunni sem haldið var eftir og var B dæmdur til að greiða mismuninn ásamt dráttarvöxtum frá tímamarki sem B hafði sjálfur tiltekið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2003. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.154.864 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. júní 2001 til 30. sama mánaðar, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Til frádráttar ofangreindri fjárhæð komi krafa gagnáfrýjanda, samtals að fjárhæð 891.500 krónur, til skuldajafnaðar og skuli sú fjárhæð dragast frá kröfu aðaláfrýjanda miðað við gjalddaga 20. mars 2002. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að krafist er hærri málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda en dæmdur var í héraði. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar með sér samkomulag 25. nóvember 1999 um að aðaláfrýjandi skyldi selja gagnáfrýjanda björgunarbát með tilteknum kostum og búnaði. Í kjölfar þess gerði aðaláfrýjandi samning við fyrirtæki í Skotlandi um smíði bátsins. Bú þess félags var síðar tekið til gjaldþrotaskipta og tók annað félag við smíðinni. Vegna þessa varð dráttur á afhendingu bátsins auk þess sem hann reyndist ekki búinn þeim kostum sem aðilar höfðu upphaflega samið um. Gagnáfrýjandi greiddi tvær af þremur afborgunum á umsömdum tíma, en hefur hins vegar ekki innt af hendi lokagreiðslu 2.826.187 krónur vegna ætlaðra vanefnda aðaláfrýjanda. Aðilar deila um umfang galla á bátnum. Jafnframt er um það deilt hvort breytingar hafi orðið á samkomulaginu 25. nóvember 1999 á þá lund að kaupverð skyldi hækkað um 1.000.000 krónur. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að slík breyting hafi ekki átt sér stað á umræddu samkomulagi aðila.
Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi fallist á að tilteknir þættir matsgerðar að fjárhæð 891.500 krónur skuli koma til skuldajafnaðar við kröfu sína. Eftir standa þá þessir þættir matsgerðar, tilgreindir eftir matsliðum: A.1. Teikningar af bol, 51.000 krónur. A.2. Teikningar af vélbúnaði/lagnir, 30.600 krónur. A. 7. Austursdæla í vélarrúmi, 23.500 krónur. A.8. Rafkerfi, 484.000 krónur. B.1. Endurbætur vegna ganghraða bátsins, 990.000 krónur. D.1. Dagsektir í 180 daga, 1.386.000 krónur.
Matsgerð er rækilega tíunduð í hinum áfrýjaða dómi og með skírskotun til forsendna hans er fallist á niðurstöðu varðandi matsliði A.1 og A.2.
Fram er komið að viðgerð á rafkerfi bátsins fór fram áður en matsmaður var kvaddur til. Þó ber að líta til þess að matsmaður sundurliðaði ætlaðan kostnað við endurbætur, en hann skoðaði rafkerfi bátsins að viðstöddum fulltrúum málsaðila. Var það niðurstaða matsmanns að tjónið næmi lægri fjárhæð en uppgefinn viðgerðarkostnaður og gaf hann fyrir dómi skýringar á þessari niðurstöðu sinni. Til stuðnings mati hafði matsmaður ítarleg gögn um viðgerðir á rafkerfi bátsins, sem og skriflegar athugasemdir Siglingastofnunar Íslands 24. apríl 2001, er gerðar voru í kjölfar skoðunar stofnunarinnar á rafkerfinu fyrir viðgerð. Gerði stofnunin fjölmargar athugasemdir og lagði fyrir gagnáfrýjanda að gera úrbætur í samræmi við gildandi reglur. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, er fallist á þennan kröfulið gagnáfrýjanda. Með sama hætti er fallist á lið A.7 í matsgerð, en matsmaður skoðaði umrædda austursdælu að lokinni viðgerð og hafði hann einnig til hliðsjónar gögn um þá viðgerð.
Fram er komið að báturinn uppfyllti ekki ákvæði smíðalýsingar um ganghraða, þannig að með þremur mönnum um borð náði hann einungis 28,4 hnútum í stað 36 hnúta eins og áskilið var. Eins og rakið er ítarlega í hinum áfrýjaða dómi taldi matsmaður ástæður þessa geta verið nokkrar og lúta þær að afköstum vélar, svokölluðu þotudrifi og formi bols bátsins. Fyrir dómi taldi matsmaðurinn að einnig mætti líta til þess að báturinn reyndist þyngri en getið var um í smíðalýsingu. Þrátt fyrir að matsgerð sé ekki að öllu leyti skýr um orsakir þessa galla, verður ekki annað séð en að réttra aðferða hafi verið gætt við matið. Benti matsmaður á hvað gera mætti til lagfæringar á galla þessum og áætlaði hann kostnað í því sambandi. Þá ber til þess að líta að aðaláfrýjandi óskaði ekki eftir yfirmati, auk þess sem hann átti þess kost að koma að athugasemdum við meðferð matsmálsins. Er niðurstaða mats um ætlaðan viðgerðarkostnað ekki bersýnilega reist á röngum forsendum og hefur matinu þannig ekki verið hnekkt. Að öllu þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um framangreint atriði.
Gagnáfrýjandi hefur ekki sannað að fyrir hendi sé venja í viðskiptum sem þessum, sem leiða eigi til þess að til dagsekta skuli koma vegna tafa á afhendingu, án sérstaks samkomulags þar um. Verður því ekki fallist á kröfu gagnáfrýjanda um dagsektir, sbr. og lið D. 1 í matsgerð.
Samkvæmt öllu framanrituðu á gagnáfrýjandi rétt á skaðabótum úr hendi aðaláfrýjanda, sem nema 81.600 krónum vegna teikninga á bátnum, 990.000 krónum vegna galla varðandi ganghraða hans, 484.000 krónum vegna gallaðs rafkerfis og 23.500 krónum vegna galla í austursdælu. Þá hefur aðaláfrýjandi með breytingu á kröfugerð fallist á skyldu sína til að greiða 891.500 krónur vegna annarra galla á bátnum. Alls nema dæmdar skaðabætur því 2.470.600 krónum er dragast skulu frá lokagreiðslu kaupverðs bátsins, 2.826.187 krónum. Nemur skuld gagnáfrýjanda samkvæmt því samtals 355.587 krónum.
Eins og fram kemur í áðurnefndu samkomulagi aðila 25. nóvember 1999 skyldi aðaláfrýjandi afhenda gagnáfrýjanda bátinn 14. apríl 2000, en gagnáfrýjandi átti að greiða lokagreiðslu kaupverðs viku fyrir afhendingu. Hins vegar átti afhending sér ekki stað fyrr en ári síðar, eða 9. apríl 2001 og vegna þess mátti gagnáfrýjandi halda eftir lokagreiðslu kaupverðsins fram að afhendingu bátsins. Ekki hafði farið fram mat á göllum bátsins við afhendingu hans og brast gagnáfrýjanda því heimild til að halda eftir greiðslu eftir það tímamark. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi 14. júní 2002, en aðaláfrýjandi krefst dráttarvaxta frá 17. júní 2001. Í kröfugerð fyrir Hæstarétti viðurkenndi aðaláfrýjandi hins vegar rétt gagnáfrýjanda til að skuldajafna kröfu sinni miðað við 20. mars 2002. Skal gagnáfrýjandi samkvæmt því greiða dráttarvexti af allri lokagreiðslunni frá þeim tíma, sem aðaláfrýjandi krefst, en af endanlegri skuld frá 20. mars 2002, allt eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.
Rétt þykir að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Björgunarsveit Hafnarfjarðar, greiði aðaláfrýjanda, Sportbúðinni Títan ehf., 355.587 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 2.826.187 krónum frá 17. júní 2001 til 1. júlí sama árs, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 20. mars 2002, en af 355.587 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2003.
I
Mál þetta var höfðað 10. nóvember 2001 og dómtekið 3. febrúar 2003.
Stefnandi er Sportbúðin Títan ehf., kt. 690982-0489, Seljavegi 2, Reykjavík en stefndi er Björgunarsveit Hafnarfjarðar, kt. 410200-3170, Hjallahrauni 9, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 4.154.864 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júní 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.
II
Björgunarsveitin Fiskaklettur, nú Björgunarsveit Hafnarfjarðar, óskaði á árinu 1999 eftir tilboði í Seaworthy 750 björgunarbát með tilgreindum búnaði. Með yfirlýsingu aðila 25. nóvember 1999 var staðfest samkomulag um tilboð í nefndan björgunarbát. Kaupverð skyldi vera 5.985.000 krónur, auk virðisaukaskatts. Til viðbótar skyldi stefndi greiða sérstaklega fyrir merkingu bátsins, 75.000 krónur, auk virðisaukaskatts. Í samræmi við efni samkomulagsins voru verð miðuð við gengi sterlingpunds 117,16 og þar sagði jafnframt að verði breytingar á gengi áskilji stefnandi sér rétt til leiðréttingar samkvæmt því. Afhending bátsins skyldi fara fram þann 14. apríl 2000 “að Montrose í Skotlandi.” Þá skyldi kaupverð greitt þannig að 1.995.000 krónur og virðisaukaskattur 488.775 krónur eða samtals 2.483.775 krónur skyldu greiddar við staðfestingu pöntunar þann 25. nóvember 1999, við niðursetningu vélar sem áætlað var í byrjun mars 2000 skyldi greiða 1/3 hluta kaupverðs og eftirstöðvar viku fyrir afhendingu báts frá verksmiðju. Fyrstu tvær greiðslur hafa verið réttilega inntar af hendi af hálfu stefnda í samræmi við samkomulag aðila en ágreiningur þessa máls varðar lokagreiðsluna.
Nokkur dráttur varð á smíði bátsins af hálfu framleiðanda og svo fór að bú framleiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember árið 2000. Stefnandi heldur því fram að aðilar hafi haft samráð sín í milli á meðan smíði bátsins stóð yfir og hafi stefndi verið upplýstur um framvindu verks á hverjum tíma. Þessu mótmælir stefndi og kveður það rangt að aðilar hafi haft samráð sín á milli á smíðatíma bátsins.
Stefndi kveðst hafa greitt þriðjung kaupverðs bátsins í byrjun mars 2000 enda hafi honum verið tjáð af stefnanda að skilyrði greiðslunnar um niðursetningu vélar væri uppfyllt. Síðar hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið og því hafi upplýsingar stefnanda um þetta atriði verið rangar. Þá kveður stefndi að stefnandi hafi tilkynnt honum í maí 2000 að báturinn væri tilbúinn til prófunar og hafi hann boðið stefnda að senda mann til Skotlands á sinn kostnað til að vera við prófunina. Hafi stefndi sent mann í þessu skyni þótt fyrir hafi legið áður að báturinn væri alls ekki tilbúinn enda hafi stefnandi ákveðið að ferðin skyldi farin. Þegar út hafi verið komið hafi komið í ljós að það eina sem virst hafi tilbúið hafi verið skelin af bátnum og hafi framleiðandinn tjáð fyrirsvarsmanni stefnda að hann vildi útfæra skelina betur þar sem hún virkaði ekki rétt og hafi það endað með því að ný skel hafi verið smíðuð. Stefnandi hafi svo tilkynnt stefnda að báturinn yrði tilbúinn í júlí 2000.
Kemur fram hjá stefnda að stefnandi hafi boðið fulltrúa stefnda í ferð til Skotlands í júlí 2000 til að prófa bátinn en sú ferð hafi verið afboðuð og farin í september sama ár án þess þó að hægt hafi verið að prófa bátinn. Í nóvember 2000 hafi svo fyrirsvarsmaður stefnda farið út til Skotlands í þeim tilgangi að prófa bátinn. Þá hafi skrokkur bátsins verið tilbúinn og dekk hans og stjórnpúlt verið í smíðum. Við þetta tækifæri kom í ljós að vélin hafði enn ekki verið sett niður en á þessum tíma voru liðnir um átta mánuðir síðan stefndi greiddi greiðslu númer tvö samkvæmt samningi aðila sem átti að inna af hendi þegar vélin væri komin niður.
Stefnandi ber að þegar framleiðandi bátsins hafi verið úrskurðaður gjaldþrota hafi framkvæmdir verið svo skammt á veg komnar að sá hluti bátsins sem tilbúinn hafi verið á því tímamarki hafi ekki verið til neins nýtanlegur. Þá kveður stefnandi að fyrirsvarsmenn félagsins hafi leitað eftir viðræðum við fyrirsvarsmenn stefnda og hafi þeir hist á fundi í byrjun desember 2000 og í framhaldi þess fundar hafi fyrirsvarsmönnum stefnda verið sent símbréf þar sem reifaðir hafi verið þeir möguleikar sem ræddir hefðu verið á fundi aðila í desember. Í reynd hafi einungis tveir möguleikar verið í stöðunni, annars vegar að rifta kaupum og stefnandi skilaði til baka innborgun stefnda og hins vegar að endurnýja samning aðila miðað við breyttar forsendur og nýja stöðu mála. Þá hafi stefnandi upplýst stefnda um að kostnaðaraukning við áframhaldandi smíði bátsins yrði veruleg en stefnandi myndi einungis krefja stefnda 1.000.000 krónur sem væri einungis hluti þess kostnaðar og myndi kaupverðið hækka til samræmis við það. Ber stefnandi að fyrirsvarsmenn stefnda hafi ekki haft uppi athugasemdir vegna þessa heldur þvert á móti hafi þeir haft í frammi ítrekaðar fyrirspurnir um afhendingu bátsins og hafi fyrirsvarsmenn stefnda farið tvívegis erlendis til að fylgjast með framvindu smíði bátsins eftir þetta. Telur stefnandi þessa háttsemi stefnda jafngilda samþykki á breyttum samningi.
Stefndi kveður stefnanda hafa tilkynnt á fundi aðila í desember 2000 að hann hefði ákveðið að ljúka við smíði bátsins og að náðst hefði samkomulag við fyrrum samstarfsfyrirtæki hins gjaldþrota félags sem yfirtekið hafi rekstur þess. Hafi stefnandi talið sig standa frammi fyrir þremur kostum, að láta kaupin ganga til baka og endurgreiða stefnda innborgað fé, að rifta kaupunum við stefnda vegna þess að þeir gætu ekki staðið við umsamið verð eða að ná samkomulagi við stefnda um nýtt og hærra verði fyrir bátinn. Hafi stefnandi sjálfur ákveðið að reyna þriðja kostinn og hækka verð bátsins í 9.250.000 krónur eða um 3.265.000 krónur frá umsömdu verði. Þessu tilboði stefnanda kveðst stefndi hafa hafnað og ítrekað kröfur sínar um efndir í samræmi við upphaflegt samkomulag aðila.
Kemur fram hjá stefnda að fulltrúar aðila hafi farið til Skotlands í lok janúar 2001 til að prófa bátinn en þegar þangað hafi verið komið hafi þeim verið tilkynnt að ekki væri hægt að prófa bátinn fyrr en að 2-3 vikum liðnum. Fulltrúar aðila hafi þó náð að sigla bátnum með starfsmanni skipasmíðastöðvarinnar í um það bil 20 mínútur þegar hann hafi bilað með því að háþrýstislanga við stýrisbúnað hafi sprungið með þeim afleiðingum að starfsmaðurinn hafi misst stjórn á bátnum.
Báturinn kom síðan til landsins 9. apríl 2001 og var hann afhentur stefnda þá þegar eins og greinir í stefnu þrátt fyrir ákvæði í samningi aðila um að báturinn skyldi afhendast í Skotlandi. Þá bera tollskýrslur það með sér að innflytjandi bátsins var stefnandi.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist báturinn sem afhentur var vera af gerðinni Seaworthy 800 en ekki Seaworthy 750 eins og samningur aðila gerir ráð fyrir. Stefndi tók þá ákvörðun að halda eftir lokagreiðslu samkvæmt upphaflegum samningi aðila 1.995.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna galla sem hann taldi bátinn haldinn. Kveður stefndi að stefnanda hafi verið boðið að kynna sér ástand bátsins sem hann hafi nýtt sér og hafi hann því verið upplýstur rækilega um alla þá galla og vankanta sem komið hafi í ljós á bátnum en hann hafi ekki haft áhuga á að beita sér fyrir nauðsynlegum lagfæringum á honum eða búnaði hans. Þá hafi hann ekki sinnt tilboði stefnda að hvor um sig tilnefndu sérfróðan aðila til skoðunar á bátnum.
Stefndi fékk síðan Einar Hermannsson skipaverkfræðing til að skoða bátinn og leggja mat sitt á hverju væri ábótavant og meta úrbætur til peningaverðs og er álitsgerð hans dagsett 28. janúar 2002. Þá óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanns í sama skyni og var Jón B. Hafsteinsson skipaverkfræðingur dómkvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett 14. mars 2002. Stefnandi óskaði álitsgerðar Ólafs J. Briem skipaverkfræðings á matsgerð Jóns B. Hafsteinssonar og er álitsgerð hans dagsett 28. ágúst 2002.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu Birgir Bjarnason, Heiðar Dagur Jónsson, Júlíus Gunnarsson, Ólafur Briem og Jón B. Hafsteinsson.
III
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
Upphaflegt tilboð kr. 5.985.000,00 auk vsk. gengi 117,16
Innborgun 25. nóvember 1999 kr. 1.995.000,00 auk vsk. gengi 117,16
Innborgun 24. mars 2000 kr. 1.995.000,00 auk vsk. gengi 116,96
Hækkun smíðaverðs kr. 1.000.000,00 auk vsk. gengi 125,13
Eftirstöðvar kr. 3.337.240,30 auk vsk. gengi 133,54.
Kveður stefnandi að á grundvelli þessa hafi verið lögð fram svofelld tillaga að reikningsgerð:
Söluverð samkvæmt breyttu tilboði kr. 9.250.000,00
Innborgun 25. nóvember 1999 kr. 1.995.000,00
Innborgun 24. mars 2000 kr. 1.995.000,00
Eftirstöðvar kr. 5.260.000,00
Styrkur frá stefnanda kr. 1.922.759,70
Eftirstöðvar kr. 3.337.240,30
Samkvæmt þessu er dómkrafa stefnanda um greiðslu 3.337.240 króna að viðbættum virðisaukaskatti 817.624 krónur eða samtals 4.154.864 krónur.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að stefnandi og stefndu hafi gert með sér samkomulag um kaup á nefndum bát og beri stefnda að inna kaupverð af hendi í samræmi við efni þess samkomulags. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að stefndi hafi aldrei hreyft andmælum við breytingum á tilboðinu og hafi með háttarlagi sínu, viðræðum svo og viðtöku bátsins fallist á hið breytta tilboð og skilmála. Í afstöðu stefnda hafi falist sá vilji að ljúka kaupum á grundvelli breyttra forsendna og nýs samkomulags aðila í milli. Grundvallist sú afstaða á meginreglum samningaréttar um skuldbindingagildi samninga svo og á ákvæðum kaupalaga nr. 39/1992, sbr. nú lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup.
Þá kveðst stefnandi byggja kröfur sínar á því að hann hafi að fullu og öllu leyti efnt skyldur sínar gagnvart stefnda, meðal annars afhent bátinn í umsömdu ásigkomulagi og beri stefnda að inna endurgjald af hendi í samræmi við samkomulag aðila og fyrirliggjandi reikning. Af hálfu stefnanda sé ennfremur á því byggt að ákvörðun stefnda um að halda eftir samningsgreiðslu hafi verið ólögmæt enda skilyrði til þessa ekki verið fyrir hendi. Þannig hafi á þeim tíma er hann tók ákvörðun um að halda eftir greiðslu hvorki verið fyrirliggjandi matsgerð né önnur efnisskilyrði verið fyrir hendi.
Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar hann til 36. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Sýknukröfu sína kveðst stefndi byggja á því að hann eigi rétt á skaðabótum og/eða afslætti af kaupverði bátsins vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnanda á samningsskyldum sínum varðandi smíði bátsins. Stefndi telur að vanefndir stefnanda á smíði bátsins séu einkum eftirfarandi:
1. Báturinn uppfylli ekki kröfur um innflutning og skráningu á Íslandi.
2. Báturinn uppfylli ekki ákvæði smíðalýsingar.
3. Báturinn hafi ekki verið tekinn út af eftirlitsaðila eins og gert sé ráð fyrir í samkomulagi aðila frá 25. nóvember 1999.
4. Báturinn hafi ekki verið afhentur á umsömdum tíma í samræmi við ákvæði samkomulags aðila.
5. Báturinn nái ekki uppgefnum hámarkshraða samkvæmt upplýsingum í smíðalýsingu og á fyrirkomulagsteikningu.
6. Límingar á þéttingum á froðufenderum bátsins hafi losnað upp.
7. Stjórnbúnaði framdrifsbúnaðar sé ábótavant að því leyti að engin föst stilling sé fyrir kyrrstöðu bátsins.
8. Barkar og olíugjöf og drifbúnaði hafi skemmst og bilað.
Þá kveður stefndi að þegar báturinn hafi verið settur í skip í Immingham hafi komið í ljós skemmdir á skrokk hans og hafi verið um að kenna lélegum frágangi framleiðanda á bátnum til flutnings hans. Þá festist startarinn í bátnum ef hann sé ekki settur í gang reglulega og til að skipta um startara þurfi að rífa olíuverkið frá.
Telur stefndi því að vanefndir stefnanda felist í galla á búnaði bátsins og eiginleikum og vanrækslu stefnanda á þeirri grundvallarskyldu sinni að tryggja að báturinn uppfylli lágmarkskröfur íslenskra reglna sem gerðar séu til smíði slíkra báta. Þá telur stefndi að stefnandi hafi einnig unnið honum ómælt tjón með því að bregðast þeirri skyldu sinni að afla samþykkis Siglingastofnunar fyrir teikningum af bátnum og öðrum nauðsynlegum gögnum er bátinn varði svo sem honum sé skylt samkvæmt íslenskum reglum nr. 592/1994 um smíði og búnað vinnubáta með mestu lengd allt að 15 m., sbr. 2. gr. þeirra reglna. Hafi stefnanda borið að tryggja stefnda að smíði bátsins, búnaður og frágangur væri samkvæmt þeim teikningum og gögnum. Þá hafi stefnanda einnig borið að afhenda stefnda teikningar og önnur gögn með bátnum en það hafi hann ekki gert. Stefnandi hafi einnig brugðist þeim skyldum sínum að tryggja viðurkennt innra eftirlit smíðaaðilans eða eftirlit viðurkennds ytri eftirlitsaðila með smíði bátsins og afhenda með bátnum viðurkenningarskírteini og merkja hann varanlega með smíðanúmeri, nafni framleiðanda o.s.frv.
Hafi Siglingastofnun staðfest að stofnuninni hafi hvorki borist umræddar teikningar né önnur nauðsynleg gögn sem krafist sé í framangreindum reglum og þá hafi stofnuninni ekki borist umsókn um samþykki umrædds báts. Engar upplýsingar sé að finna í gögnum Siglingastofnunar um burðarvirki bátsins, efnisþykktir, raflagnir eða aðrar lagnir. Í gögnum stofnunarinnar sé aðeins að finna fyrirkomulagsteikningar og smíðalýsingu á bátnum sem hafi reynst röng í veigamiklum atriðum
Kveðst stefndi grundvalla rétt sinn til þess að halda eftir eftirstöðvum kaupverðs og skuldajafna þeim við skaðabóta- og/eða afsláttarkröfu sína vegna framangreindra vanefnda stefnanda. Séu vanefndir stefnanda staðfestar með skoðun sérfræðings á bátnum og áætlun hans á fjárhagslegu tjóni stefnda vegna þeirra, sem síðan hafi verið staðfest með matsgerð dómkvadds matsmanns.
Stefndi kveðst telja allt eins víst að báturinn muni aldrei þjóna því hlutverki sem honum hafi verið ætlað sem björgunarbát vegna ofangreindra ástæðna.
Stefndi kveðst vísa um rétt sinn til þágildandi laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup, einkum 1. og 2.mgr. 41. gr. um rétt kaupanda til afsláttar af kaupverði eða skaðabóta eftir atvikum. Að öðru leyti sé vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og kröfu um réttar efndir. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hverjar eftirstöðvar kaupverðs umrædds björgunarbáts er og hvort báturinn hafi reynst gallaður þannig að stefndi eigi gagnkröfu á hendur stefnanda til skuldajafnaðar vegna þess að hann eigi rétt á afslætti af kaupverði eða kröfu til skaðabóta sem nemi hærri fjárhæð en ógreitt er af kaupverði bátsins.
Óumdeilt er að eftirstöðvar samkvæmt samkomulagi aðila 25. nóvember 1999 fyrir utan virðisaukaskatt eru 1.995.000 krónur áður en tillit hefur verið tekið til gengisbreytinga GBP. Samkvæmt útreikningi stefnanda sem hefur í sjálfu sér ekki verið mótmælt eru eftirstöðvar kaupverðs miðað við upphaflegt tilboð:
IKR GBP Gengi
Upphaflegt tilboð 5.985.000 51.083,99 117,16
innborgun 25/11´99 1.995.000 17.028,00 117,16
innborgun 24/3´00 1.995.000 17.057,11 116.96
Eftirstöðvar 16.998,88
Sú eftirstöðvatala 16.998,88GBP með genginu 133.54 á afhendingardegi 9. apríl 2001 er því 2.270.030 og virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð er 556.157 krónur og samtals eru því eftirstöðvar samkvæmt samningi aðila 2.826.187 krónur á afhendingardegi bátsins.
Stefnandi ber hins vegar að stefndi hafi gengið að tilboði um hækkun kaupverðs sem nemi 1.000.000 krónum auk virðisaukaskatts og gengishækkunar og reiknar því inn í eftirstöðvar sínar 1.000.000 miðað við 6. desember 2000 á genginu 125,13 og því séu 7.991,69GBP til viðbótar 16.998,88GBP þannig að eftirstöðvar samkvæmt samningi aðila um kaupverð bátsins séu því 3.337.240 krónur auk virðisaukaskatts sem er stefnukrafan 4.154.864.
Eins og rakið hefur verið liggur fyrir í málinu staðfest skrifleg pöntun stefnda dagsett 25. nóvember 1999, á Seaworthy 750 björgunarbát með eftirtöldum búnaði:
1. Cummins 5,9 lítra díselvél
2. Kamewa FF270 eða FF310
3. Frauðbelgskerfi
4. Sjálfréttibúnaður
5. Morse D290 stýribúnaður
6. Hnakksæti fyrir 3
7. Fellanleg hliðarsæti úr plasti fyrir 10 manns
8. 350 lítra olíutankur undir gólfi
9. Lensidælur (rafmagns- og handdæla)
10. Stjórnhestur með áttavita, snúningshraðamæli, Morse stjórnbörkum og rofum
11. Litur, Orange
12. Samþykktur af Lloyd´s í Bretlandi.
Heildarverð samkvæmt tilboði þessu er 5.985.000 án virðisaukaskatts. Þá kosti merking bátsins með skipaskrárnúmeri, nafni bátsins og merkjum og númeri SVFÍ-Landsbjörgu að auki 75.000 krónur án virðisaukaskatts. Ofangreind verð séu miðuð við gengi sterlingpunds 117,16. Verði breytingar á gengi sé áskilinn réttur til að leiðrétta verðin í samræmi við þær breytingar. Þá segir að afhending bátsins skuli vera 14. apríl 2000 í Montrose í Skotlandi. Þá segir að pöntunin sé staðfest með greiðslu 1.995.000 króna auk virðisaukaskatts 488.775 króna þann 25.nóvember 1999 og við niðursetningu vélar skuli greiða 1/3 hluta kaupverðsins, áætlað í byrjun mars 2000 og eftirstöðvar viku fyrir afhendingu báts frá verksmiðju. Undir þessa pöntun rita forsvarsmenn aðila máls þessa.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi, með því að gera ekki athugasemdir við tilboði stefnanda 6. desember 2000 og krefjast afhendingar bátsins, samþykkt þær breytingar á framangreindum samningi aðila að hækka kaupverð bátsins um 1.000.000 krónur auk virðisaukaskatts og gengisbreytinga.
Stefnandi hefur ekki stutt þessar fullyrðingar sínar neinum haldbærum gögnum og þykir sú staðreynd að stefndi hafi haldið fast í þá réttmætu kröfu sína að fá bátinn afhentan á engan hátt renna stoðum undir þær fullyrðingar stefnanda að með því hafi stefndi samþykkt breytingar á skriflegu samkomulagi aðila sem var án nokkurra skilyrða. Þá leysir það stefnanda ekki undan skyldu sinni samkvæmt samningi aðila að bú viðsemjanda hans, sem ekki var aðili að samningi þeim sem hér er fjallað um, var tekið til gjaldþrotaskipta. Enda þótt stefnandi hafi talið sig standa frammi fyrir einhverjum afarkostum vegna gjaldþrots þess aðila sem hann hafi samið við um smíði bátsins leysir það hann ekki sjálfkrafa undan samningi aðila. Gegn neitun stefnda þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að með aðilum hafi tekist samningar um hækkun kaupverðs og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Er því ekki við annað að styðjast en framangreindan samning aðila og miðað við það sem að framan er rakið er það niðurstaða málsins að ógreiddar eftirstöðvar af kaupverði bátsins eru að meðtöldum virðisaukaskatti 2.826.187 krónur miðað við afhendingardag bátsins 9. apríl 2001.
Stefndi krefst sýknu á þeim forsendum að hann eigi rétt á skaðabótum og/eða afslætti af kaupverði bátsins vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnanda á samningsskyldum sínum við smíði bátsins. Telur stefndi að tjón hans nemi hærri fjárhæð en krafa stefnanda hljóði upp á og því beri að sýkna hann af kröfu stefnanda.
Í greinargerð sinni byggir stefndi á því að tjón hans sé ekki undir 3.125.000 krónum samkvæmt álitsgerð Einars Hermannssonar skipaverkfræðings sem stefndi fékk til að meta meinta galla á bátnum. Eins og fram er komið aflaði stefndi enn fremur matsgerðar Jóns B. Hafsteinssonar skipaverkfræðings sem dómkvaddur var til verksins að kröfu stefnda. Eins og fram kemur í fyrirliggjandi matsbeiðni var hinn dómkvaddi matsmaður beðinn að meta meinta galla á umdeildum björgunarbát og verðmætisrýrnun bátsins vegna þeirra galla miðað við kaupverð hans. Þá var óskað mats á því hver væri kostnaður við viðgerðir og endurbætur og að koma honum í það ástand að hann uppfylli íslenskar kröfur og ákvæði íslenskra reglna um slíka báta.
Í niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns kemur fram að ætla megi að verðmæti bátsins miðað við gengi GBP 27. febrúar 2002 143,3 sé 7.32 milljónir auk flutningskostnaðar 0,41 milljón eða samtals 7.7 milljónir króna. Niðurstaða hans um kostnað við endurbætur eru 3.856.600 krónur þannig að kaupverð að því frádregnu metur hann 3.843.400 krónur.
Í 1. mgr. 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, sem eiga við um viðskipti þau sem hér er fjallað um sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000, segir að ef hlutur er seldur og honum er áfátt eða hann gallaður megi kaupandi rifta kaupin eða heimta afslátt af kaupverði að tiltölu. Í 2. mgr. segir að ef hluti skortir, þegar kaup eru gerð, einhverja þá kosti sem ætla má að áskildir séu, eða það sem hlutnum er áfátt, hefur gerst fyrir vanrækt seljanda eftir að kaup voru gerð eða að seljandi hafi haft svik í frammi, geti kaupandi krafist skaðabóta.
Eins og rakið hefur verið liggja frammi í málinu matsgerð dómkvadds matsmanns og tvær álitsgerðir aðrar sem aðilar hafi hvor í sínu lagi aflað einhliða. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns og álitsgerð Einars Hermannssonar skipaverkfræðings bera með sér að umræddur bátur sé gallaður og hver kostnaður sé við að lagfæra þá galla. Álitsgerð Ólafs Briem skipaverkfræðings sem stefnandi aflaði einhliða er í raun athugasemdir við matsgerð hins dómkvadda matsmanns eða eins og segir í greinargerð hans þá var honum falið af stefnanda að leggja fram álit á fyrirliggjandi matsgerð Jóns B. Hafsteinssonar.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 sker dómari hverju sinni úr um vægi sönnunargagna og verður almennt litið svo á að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi meira vægi sem sönnunargagn, heldur en álitsgerðir sem aðilar afla einhliða, vegna þeirrar lögbundnu málsmeðferðar sem matsmál sæta og verða þessi sönnunargögn því metin með hliðsjón af þessu, en stefndi hefur ekki aflað yfirmatsgerðar svo sem honum hefði verið í lófa lagið að gera.
Þykir ekki hjá því komist að rekja nokkuð ítarlega það sem hinn dómkvaddi matsmaður telur ábótavant varðandi umdeildan bát en samkvæmt matsgerð hans segir hann að við skoðun hafi eftirfarandi komið í ljós:
A. Bolur.
Matsmaður kveður að engar teikningar eða upplýsingar séu fyrir hendi um bol bátsins eins og þykktir á bol og þilfari, styrkingar, undirstöður, lúgur eða hlífðarlista heldur einungis fyrirkomulagsteikning dagsett 12. júní 2000 sem sé í mörgum atriðum ekki í samræmi við bátinn, heiti teikningar sé Seaworthy 800 og báturinn 8.0 m mesta lengd en samkvæmt pöntun og smíðalýsingu á bátnum sé gerðin Seaworthy 750 og 7,8 m að lengd. Hvergi sé að finna merkingu á bátnum samkvæmt reglum sem segi til um nafn skipasmíðastöðvar, smíðaár og smíðanúmer. Enga staðfestingu sé að fá um að báturinn hafi verið smíðaður samkvæmt ákvæðum SOLAS 1992 kafla III reglu 47 eins og standi í smíðalýsingu. Þá hafi báturinn ekki verið tekinn út af Lloyds þrátt fyrir að slík úttekt sé staðfest í pöntun.
Þá sé enginn lyftibúnaður til staðar þótt þess sé getið í lýsingu. Þá hafi líming á hlífðardúk við hlífðarlista losnað á samskeytum og vatn komist undir dúkinn og losað hann að hluta frá. Þá sé lúgukarmur yfir vélaropi óþéttur við þilfar og hleri með ófullkomnar þéttingar þannig að sjór komist í vélarrúm og valdi skaða á rafkerfi bátsins.
B. Vélbúnaður og rafkerfi
Matsmaður kveður tæknimann umboðsaðila aðalvélar hafa stillt aðalvél og hafi hann staðfest að hún skili 280 hestöflum við 2.600 snúninga á mínútu í afköst. Á 30 klukkustunda keyrslutíma aðalvélar hafi ýmsir vankantar komið í ljós varðandi framdrifskerfið sem meðal annars stafi af raka í vélarúmi. Ræsir á aðalvél hafi fest, dæla í vélarými verið ónothæf, barkar á framdrifi og olíugjöf hafi skemmst. Þá sé framdrifsbúnaður sítengdur við vélina. Til að hafa bátinn í kyrrstöðu þurfi að tryggja að jafnt sjóstreymi sé áfram og afturábak. Engar merkingar séu á stjórntækjum fyrir þessa stöðu. Rafkerfi bátsins hafi orðið að endurnýja samkvæmt kröfum Siglingastofnunar Íslands. Stjórnborð bátsins hafi verið endurbætt aðallega vegna óþéttleika.
C. Búnaður
Í 9. kafla smíðalýsingar sé talinn upp búnaður sem fylgja skuli björgunarbátnum samkvæmt SOLAS reglum. Við skoðun og í viðtölum hafi komið í ljós að einungis radarsvari, krókstjaki, tvær árar og áttaviti sem talinn hafi verið ónothæfur af Siglingastofnun, hafi fylgt með.
D. Reynsluferð
Matsmaður kveður reynsluferð hafa verið farna með bátnum 7. mars 2002 frá Hafnafjarðarhöfn en enginn verið mættur við það tækifæri af hálfu seljanda þrátt fyrir boðun. Hafi mestur hraði sem mælst hafi á tæki bátsins verið 28,6 hnútar og á handtæki 28,2 hnútar. Hafi veður verið stillt. Við lok reynsluferðar hafi opnast fyrir loka á kælivatnslögn efst á vél á leið til hafnar. Niðurstaða um mesta hraða bátsins hafi verið næstum óbreytt frá fyrri prófunum.
Í niðurstöðum matsgerðar sundurliðar hinn dómkvaddi matsmaður matsþætti í samræmi við matsbeiðni:
a. Í matsbeiðni var spurt hvort báturinn uppfylli lágmarkskröfur íslenskra reglna sem gilda um smíði slíkra báta. Ef ekki þá var beðið um að matsmaður upplýsti í hvaða atriðum hann telji bátnum áfátt til að uppfylla kröfur um innflutning og skráningu á Íslandi, hvaða breytingar þurfi að gera á bátnum og hver kostnaður sé við það. Er það niðurstaða matsmanns að umræddur björgunarbátur hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur íslenskra reglna um smíði slíkra báta við komuna til landsins og þrátt fyrir ýmsar endurbætur á bátnum séu enn gallar sem varni því að hann teljist uppfylla kröfur íslenskra reglna. Báturinn uppfylli hvorki þær kröfur sem gerðar séu í reglugerð um björgunarbáta né kröfur samkvæmt reglum nr. 592/1994 á eftirfarandi hátt:
1. Ekki komi fram að báturinn hafi verið smíðaður samkvæmt íslenskum reglum eða samkvæmt reglum viðurkennds aðila. Í pöntun á bátnum 25. nóvember 1999 segi að báturinn skuli samþykktur af Lloyds í Bretlandi. Fram komi í svari frá Lloyds að báturinn hafi ekki verið tekinn út af félaginu.
2. Engar teikningar hafi borist Siglingastofnun Íslands til samþykktar áður en smíði hófst.
3. Ekkert eftirlit hafi verið frá stofnuninni á meðan á smíði stóð og ekki liggi fyrir skýrslur um skoðun frá öðrum viðurkenndum aðilum.
4. Báturinn hafi ekki verið merktur með nafni skipasmíðastöðvar, smíðanúmeri og smíðaári samkvæmt 5. gr. ofangreindra reglna.
5. Ekki séu tryggar festingar fyrir sjúkrabörur samkvæmt 6. gr.
6. Réttibúnaður hafi ekki verið prófaður og tekinn út.
7. Handföng við ræsibúnað á réttibúnaði séu ekki fyrir hendi samkvæmt 8. gr.
8. Austursdælu í vélarými þurfi að endurnýja
9. Rafbúnaður hafi ekki verið samþykktur og hafi hann verið endurnýjaður.
10. Leitarljós hafi ekki fylgt með bátnum og innstunga fyrir leitarljós á gálga hafi verið ótengd rafkerfi.
11. Legufæri hafi ekki fylgt með þótt þeirra hafi verið getið í smíðalýsingu og eigi að vera með samkvæmt Norðurlandareglum.
12. Annar búnaður samkvæmt 24. gr. hafi ekki verið með utan krókstjaka og ósamþykkts áttavita sem nú hafi verið endurnýjaður.
13. Lúgukarmur vélarýmis leki við þilfar, þéttingar á lúguhlera og festingar séu ófullnægjandi
14. Taka þurfi upp ræsibúnað vélar, bæta við austri í vélarúmi og stilla drif.
Telur matsmaðurinn að kostnaðarmat við ofangreindar endurbætur þannig að hann uppfylli íslenskar reglur og vinni rétt vera 887.100 krónur, sem hann sundurliðar svo:
Teikningar af bol kr. 51.000
Teikningar vaf vélbúnaði kr. 30.600
Teikningar af rafkerfi kr. 40.800
Skráningargjald, mæling SÍ kr. 50.000
Festingar fyrir sjúkrabörur kr. 7.000
Handföng við ræsihandfang kr. 7.200
Austursdæla í vélarrúm kr. 23.500
Rafkerfi endurnýjað kr. 484.000
Legufæri kr. 25.000
Viðgerð á lúgukarmi kr. 80.000
Viðgerð á ræsibúnaði kr. 88.000
Í álitsgerð Einars Hermannssonar er það einnig niðurstaða hans að söluaðili hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt viðeigandi íslenskum reglum þannig að hann hafi valdið kaupanda bátsins verulegum viðbótarkostnaði í endurbótum á bátnum nú þegar auk ókomnum frekari kostnaði við að uppfylla íslenskar reglur.
Í álitsgerð Ólafs J. Briem segir meðal annars um þetta að í umræddri matsgerð telji matsmaður upp í 14 liðum þau atriði sem hann telji að ekki hafi verið uppfyllt um ákvæði þau sem um bátinn gildi samkvæmt íslenskum lögum. Eitt þessara atriða varði rafbúnað skipsins og annað ýmsan lausan búnað sem afhenda skyldi með bátnum en ekki hafi verið komið fyrir um borð í honum er skoðun Siglingastofnunar hafi farið fram. Vekur hann athygli á því að báturinn hafi verið tekið til skoðunar hjá Siglingastofnun þegar hann kom til landsins og hafi verið framkvæmdar á honum allar þær skoðanir á bátnum sem reglur geri ráð fyrir. Hafi Siglingastofnun aðeins gert athugasemd varðandi rafbúnað bátsins en ekki að öðru leyti. Séu því önnur atriði sem matsmaður geri athugasemdir við byggðar á misskilningi.
Ekki verður fallist á að þótt Siglingastofnun hafi ekki gert athugasemdir við nema brot af því sem hinn dómkvaddi matsmaður telur að skort hafi á til að báturinn uppfyllti lágmarkskröfur íslenskra reglna við komu bátsins til landsins firri stefnanda ábyrgð á þeim áskildu kostum sem bátinn skorti og hefur stefnanda ekki tekist að hnekkja matsgerð að þessu leyti.
Þá kemur fram í álitsgerð Ólafs að í þeim reikningi sem stefndi hafi lagt fram varðandi endurbætur á rafbúnaði séu innifaldar fjárhæðir sem ekki hafi verið hluti af því sem lagfæra hafi þurft. Megi því ætla að kostnaður við að færa rafbúnað skipsins til samræmis við reglur nemi tæplega 450.000 krónum.
Á umræddum reikningi sem er að fjárhæð 598.000 krónur kemur fram að hann sé vegna endurnýjunar raflagnar í björgunarbát samkvæmt kröfu Siglingastofnunar. Óumdeilt er að stefndi greiddi þá fjárhæð sem í reikningnum greinir en miðað við niðurstöðu matsgerðar sem hefur ekki verið hnekkt verður við það miðað að kostnaður vegna endurnýjunar á rafkerfi sé hæfilega metinn á 484.000 krónur. Þá hefur matsgerð hins dómkvadda matsmanns ekki verið hnekkt hvað snertir aðra ofangreinda liði og þykir mega leggja hana til grundvallar við mat á kostnaði við endurbætur á bátnum þannig að hann uppfylli íslenskar reglur og vinni rétt.
b. Þá telur matsmaður að ákvæði smíðalýsingar séu ekki uppfyllt í eftirfarandi atriðum:
1. Hraði báts með þrem mönnum samkvæmt 1. kafla átti að vera 36 hnútar, en báturinn hafi aðeins náð 28,4 hnúta hraða.
2. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að báturinn uppfylli reglur SOLAS sbr. kafla 2.
3. Þá séu engin vottorð fyrir hendi um efnið í bátsbol sbr. kafli 3.
4. Lyftibúnaður samkvæmt 4. kafla sé ekki fyrir hendi, en ekki muni hafa verið reiknað með þessum búnaði af hálfu kaupanda.
5. Þá hafi vantað eftirfarandi búnað samkvæmt 9. kafla reglugerðar nr. 592/1994:
Leitarljós, 2 stykki árar, viðurkenndan áttavita, akkeri og keðju, flotlínu 50 m, vatnsþétt vasaljós, flautu, sjúkrakassa, 2 björgunarhringi, 10 hitapoka, fötu, hníf, verkfæri fyrir vél, leiðbeiningar fyrir vélbúnað og slökkvitæki.
Kostnað við úrbætur að þessu leyti kveður matsmaður vera 1.046.500 krónur sem hann sundurliðar svo:
Endurbætur vegna hraða kr. 990.000
Leitarljós kr. 4.000
Árar kr. 2.000
Flotlína kr. 8.000
Vasaljós, fata, hnífur, flauta kr. 3.500
Sjúkrakassi kr. 6.000
Bjarghringir kr. 13.500
Hitapokar kr. 12.500
Slökkvitæki kr. 7.000
Í niðurstöðu Einars Hermannssonar segir um þetta að við skoðun hafi komið í ljós að veruleg frávik séu í smíði bátsins og búnaði hans frá ákvæðum SOLAS 1992 kafla II. Reglu 47 sem komi fram í smíðalýsingu framleiðanda að báturinn sé smíðaður samkvæmt.
Um þetta atriði segir í álitsgerð Ólafs J. Briem að hann telji sig hafa leitt í ljós að ástæður þess, að báturinn nái ekki þeim ganghraða sem smíðalýsing tilgreini, megi rekja til þess að báturinn sé um 400 kg þyngri en ráð hafi verið fyrir gert við gerð smíðalýsingar. Sé ekkert sem bendi til að afköst vélar séu ekki nægileg eða að eitthvað athugavert sé við val á þotudrifi.
Þá telur Ólafur að þrátt fyrir að bátnum hafi átt að fylgja staðfesting þess að báturinn fullnægði kröfum SOLAS sé ekki þar með sagt að hann hafi ekki fullnægt þeim kröfum og telur hann að svo sé. Í þeim atriðum sem hann fullnægi ekki þeim reglum kunni að vera þær eðlilegu skýringar að báturinn sé ekki hannaður til að vera hluti af björgunartækjum kaupskips heldur sérstaklega hannaður sem björgunarbátur.
Þá telur Ólafur að orsök þess, að seljandi hafi ekki getað lagt fram staðfestar upplýsingar um efni það sem notað hafi verið við smíði í bol bátsins, megi rekja til þess að framleiðandinn hafi orðið gjaldþrota. Þá hafi lyftibúnaður ekki átt að fylgja auk þess sem matsmaður tvítelji ýmsan lausan búnað sem fylgja hafi átt bátnum.
Ekki verður séð að um tvítalningu sé að ræða í mati hins dómkvadda matsmanns varðandi þann búnað sem hann telur umræddan bát skorta. Þá leysir, sú staðreynd að framleiðandi bátsins hafi orðið gjaldþrota, stefnanda ekki undan þeim skyldum sínum að skila fullnægjandi teikningum og öðrum gögnum um bátinn. Þá verður ofangreint orðalag í álitsgerð Ólafs: “Í þeim atriðum sem hann fullnægi ekki þeim reglum” ekki skilið á annan veg en að hann telji að báturinn hafi að minnsta kosti ekki fullnægt reglum að einhverju leyti. Þá hafa vangaveltur Ólafs um að báturinn þurfi ef til vill ekki að uppfylla hinar svokölluðu SOLAS reglur enga þýðingu í málinu enda ótvírætt samkvæmt smíðalýsingu að hann átti að uppfylla þessar reglur. Þá hafa vangaveltur Ólafs um hugsanlega þyngdaraukningu bátsins heldur enga þýðingu í málinu enda verður kaupanda vart um hana kennt. Staðreyndin er sú að sýnt hefur verið fram á að báturinn nær ekki tilætluðum hámarkshraða samkvæmt smíðalýsingu, hver sem orsökin kann að vera og er hann því að þessu leyti ekki í samræmi við það sem um var samið.
Hefur stefnanda því ekki tekist að hnekkja framangreindri niðurstöðu matsmanns að bátnum hafi verið áfátt að þessu leyti. Þá hefur mati hins dómkvadda matsmanns um kostnað við endurbætur á bátnum varðandi þessi atriði heldur ekki verið hnekkt og það því lagt til grundvallar í máli þessu.
c. Samkvæmt 12. lið samkomulags aðila átti báturinn átt að vera samþykktur af Lloyds í Bretlandi. Telur matsmaðurinn að skilja verði þetta ákvæði þannig að flokkunarfélagið, Lloyds Register of Shipping, sem sé flokkunarfélag sem viðurkennt sé af íslenskum yfirvöldum, hafi átt að samþykkja teikningar, fylgjast með smíðinni og gera lokaúttekt á bátnum. Þessi þjónusta tryggi kaupanda, skipasmíðastöðinni og Siglingastofnun að reglur um smíði þessarar tegundar sé uppfylltar. Engin vottorð liggi fyrir frá Lloyds. Hafi báturinn því verið smíðaður án eftirlits viðurkennds eftirlitsaðila og rýri það verðgildi bátsins við endursölu. Megi áætla að fjárhagslegt tjón nemi ekki lægri upphæð en kostnaður við eftirlitið hefði numið og metur hann þennan kostnað 358.000 krónur.
Í álitsgerð Einars Hermannssonar segir um þetta að ljóst sé að ef umrædd yfirlýsing Lloyds hefði fylgt væri hún nægileg staðfesting á smíðalýsingu og framleiðslu fyrir Siglingamálastofnun viðvíkjandi SOLAS reglum, enda hefði báturinn þá verið öðruvísi búinn er raunin varð.
Um þetta segir í álitsgerð Ólafs J. Briem að í þessum efnum beri að horfa til þess að samkvæmt samkomulagi aðila skyldi afhending bátsins vera í Montrose í Skotlandi. Sérstakur fulltrúi kaupanda hafi verið viðstaddur allar prófanir á bátnum áður en hann var afhentur auk þess sem kaupandi hafi engar athugasemdir gert við móttöku hans og því fyrirgert rétti til að gera kröfu löngu eftir afhendingu hans.
Ekki er ljós á hverju Ólafur byggir þá fullyrðingu sína að fulltrúi kaupanda hafi verið viðstaddur allar prófanir á bátnum þar sem fyrir liggur að einungis ein prófun fór fram á bátnum í Skotlandi og aðeins í nokkrar mínútur.
Framangreint ákvæði í 12. lið samnings aðila verður ekki skilið á annan veg en fram kemur í matsgerð hins dómkvadda matsmanns að flokkunarfélagið Lloyds Register of Shipping, sem er flokkunarfélag sem viðurkennt er af íslenskum yfirvöldum, hafi átt að samþykkja teikningar, fylgjast með smíðinni og gera lokaúttekt á bátnum. Þykir verða að hafa í huga að áætlaður kostnaður vegna þess að stefnandi efndi ekki þetta ákvæði samningsins er lágmarkskostnaður þar sem ekki er í mati hins dómkvadda matsmanns tekið mið af hugsanlegum athugasemdum flokkunarfélagsins og þar með hugsanlegum lagfæringum í samræmi við þær athugasemdir. Þá verður að telja að áætlun matsmanns um kostnað við gerð nauðsynlegra teikninga í matsliðum nr. a.1 til a.3 sé í lægri kantinum en slíkar teikningar yrðu ótvírætt að liggja fyrir við úttekt á bátnum. Hefur stefnanda ekki tekist að hrekja framangreinda niðurstöðu matsmanns og verður hún lögð til grundvallar.
d. Afhending bátsins átti samkvæmt samningi aðila að fara fram 14. apríl 2000 en varð ekki fyrr en ári síðar. Var matsmaðurinn beðinn að meta hvort það verði metið til fjárhagslegs tjóns fyrir stefnda að báturinn hafi ekki verið afhentur fyrr en raun ber vitni. Um þetta segir matsmaður að í skipasmíðasamningum samkvæmt hinu norska samningsformi, en það er samningsform sem oft er lagt til grundvallar við gerð smíðasamninga milli kaupanda og viðkomandi skipasmíðastöðvar, sé venjan að ákveðin upphæð sé fyrir hvern dag allt að 30 dögum, hærri fyrir 60 daga og svo framvegis. Verði tafir umfram 180 daga hafi kaupandi rétt til að rifta kaupum. Ekkert sé tekið fram um dagsektir í samkomulagi aðila og engar haldbærar skýringar séu komnar fram á töfum. Er það niðurstaða matsmanns að dagsektir vegna 180 daga megi reikna þannig út að 0,1% af kaupverði sem hann hafði reiknað 7.700.000 krónur þýði að dagsektir vegna þessa séu að verðmæti 1.386.000 króna.
Um þetta segir í álitsgerð Einars Hermannssonar að venja sé í báta og skipasmíðum að smíðaaðili greiði dagsektir fyrir drátt á umsaminni afhendingu sem iðulega nemi 0,2% af kaupverði á dag í að minnsta kosti 60 daga umfram umsaminn afhendingardag og riftunarrétt á kaupum í kjölfar þess.
Um þetta segir í álitsgerð Ólafs J. Briem að í matsgerð matsmanns séu engin rök færð fyrir því að stefndi eigi rétt á bótum vegna tafa á afhendingu og þaðan af síður hafi hann fært sönnur á fjárhagslegt tjón stefnda að þessu leyti. Í ljósi þess að framleiðandinn hafi orðið gjaldþrota geti stefnandi vart borið fulla ábyrgð á þeim drætti sem orðið hafi á afhendingu bátsins og þar sem stefndi hafi ekki gert kröfu um riftun verði að líta svo á að hann hafi fallist á hæfilegan drátt á afhendingu bátsins.
Ekki er hægt að fallast á það með stefnanda að þar sem ekki hafi verið samið sérstaklega um dagsektir hafi seljandi getað dregið afhendingu svo lengi sem raun ber vitni án þess að kaupandi eigi rétt á bótum vegna þess dráttar. Ekki verður dregin önnur ályktun en að sú staðreynd að stefndi hafði greitt 2/3 hluta kaupverðs í mars 2000 og hann fékk ekki bátinn afhentan fyrr en ári eftir það hefur bakað honum tjón. Þá er til þess að líta að hann greiddi 1/3 hluta kaupverðsins í mars 2000 án skyldu þar sem fyrir liggur að á þeim tíma hafði því skilyrði greiðslunnar að vélin væri komin í bátinn ekki verið fullnægt. Þá er ljóst af gögnum málsins að stefndi hefur orðið fyrir ýmiss konar tjóni vegna þeirrar miklu seinkunar sem varð á afhendingu bátsins. Hefur hinn dómkvaddi matsmaður reiknað með dagsektum í aðeins 180 daga en ljóst er að afhending bátsins dróst um eitt ár. Þykir tjón stefnda að þessu leyti síst ofmetið í matsgerð hins dómkvadda matsmanns og hefur stefnandi á engan hátt hnekkt því mati.
e. Varðandi hámarkshraða bátsins segir í matsgerð að í reynsluferð bátsins 7. mars 2002 hafi hraði mælst mest 28,4 hnútar með 3 menn um borð sem sé um 7.6 hnútum minni hraði en gefinn hafi verið upp í smíðalýsingu. Ástæður þess að báturinn nái ekki meiri hraða telur matsmaður vera meðal annars þær að afköst vélar séu ekki nægileg og eða val á þotudrifi ekki rétt. Einnig geti verið að form bols hafi þau áhrif að báturinn “plani” ekki. Samkvæmt upplýsingum umboðs vélaframleiðanda sé vélin 280 hestöfl (209 kW) við 2600 snúninga á mínútu, þotudrifið KAMEWa FF-jet 310 eigi að þola mest 230 kW við 3000 snúninga á mínútu. Hugsanlegar endurbætur á framdrifsbúnaði bátsins sé stækkun á aðalvél og þotudrifi. Ef reiknað sé með að stækka aðalvélina í 265 kW og samhæfa þotudrifið þeim afkostum sé áætlaður kostnaður með því að núverandi aðalvél og þotudrif verði tekin sem greiðsla upp í öflugri búnað um 990.000 krónur (skipti á vél 600.000 krónur, breyting á þotudrifi 150.000 krónur, vinna 240.000 krónur) Hér sé um grófa áætlun að ræða og þurfi að fara fram viðræður við framleiðendur framdrifsbúnaðarins um tæknilega hlið málsins. Þessi kostnaðarliður hefur verið tekinn með undir lið b. hér að framan og er innifalinn í þeirri niðurstöðutölu sem þar greinir.
Um þetta segir í álitsgerð Einars Hermannssonar að ítrekaðar prófanir hafi sýnt að báturinn nái aðeins 28 hnúta hámarkshraða á sléttum sjó með 3 menn innanborðs. Um ástæður þess telur hann að geti verið þær að vélin sé ekki nægilega afkastamikil. Þá hafi val á þotuskóflu einnig mikil áhrif á afköst drifs.
Um þetta vísar Ólafur J. Briem í álitsgerð sinni til þess liðar þar sem fjallað er um þyngd bátsins undir lið b. Þá hafi fulltrúar stefnda verið viðstaddir allar prófanir og vitað af því að báturinn næði ekki meiri hraða en þeir hafi ekki gert athugasemdir.
Ekki verður séð af gögnum málsins eða vitnaleiðslum að stefndi hafi haft neitt raunverulegt tækifæri til að prófa hámarkshraða bátsins eða bátinn að öðru leyti fyrr en eftir afhendingu hans. Slíkt tækifæri gafst ekki við þær litlu prófanir sem fulltrúi stefnda var viðstaddur í Skotlandi. Ljóst er að báturinn nær ekki þeim hraða sem segir í smíðalýsingu hver sem ástæða þess kann að vera. Er ljóst að það hlýtur að koma niður á notkun bátsins við björgunaraðgerðir og því um vanefndir að ræða miðað við það sem kaupandi mátti ætla af smíðalýsingu bátsins sbr. það sem að framan er rakið.
f. Þá kemur fram hjá matsmanni að hlífðarlistar bátsins hafi losnað og sé nauðsynlegt að fjarlægja þá og líma upp á nýtt. Metur hann kostnað við það 100.000 krónur. Um þetta segir í álitsgerð Einars Hermannssonar að ljóst sé að til að ráða bót á þessum galla verði að svipta nær öllum dúknum af fendurunum og líma hann niður á ný og ganga á viðunandi hátt frá samskeytum. Um þetta er ekki fjallað í álitsgerð Ólafs J. Briem og hefur stefnandi ekki hnekkt þessari niðurstöðu matsmanns.
g. Þá kemur fram í matsbeiðni að engin föst stilling sé fyrir kyrrstöðu bátsins og er spurt hvort slíkt sé nauðsynlegt fyrir bát af þessu tagi og ef svo er hvaða breytingar þurfi að gera á stjórnbúnaði framdrifsbúnaði bátsins og hvaða kostnaður sé því samfara. Í niðurstöðu matsmannsins kemur fram að ekki sé unnt að aftengja vél frá þotudrifi. Til þess að halda bátnum í kyrrstöðu sé nauðsynlegt að beina streymi jafnt fram og aftur. Engin merki séu í mælaborði sem gefi þessa stillingu til kynna. Nauðsynlegt sé að útbúa slíka merkingu á búnaðinn þar sem ófært sé að björgunarbátur geti ekki verið í kyrrstöðu við björgunarstörf. Betri lausn væri að geta frátengt vél frá þotudrifi með fjarstýrðu tengi. Kostnað við tengi megi áætla á bilinu 250-300.000 krónur. Í niðurstöðu mats hans er hins vegar aðeins gert ráð fyrir kostnaði að fjárhæð 55.000 krónur. Má því draga þá ályktun að í þessu mati geri matsmaður aðeins ráð fyrir að sett sé merking á stjórnbúnaðinn sem sýni kyrrstöðustillingu. Telst það vart fullnægjandi heldur þarf að vera unnt að aftengja vélina frá þotudrifinu sem hefði í för með sér töluvert hærri kostnað en í matsgerð greinir.
Í niðurstöðu álitsgerðar Einars Hermannssonar segir um þetta að það sé hans mat að núverandi stjórnhæfni bátsins í kyrrstöðu sé óásættanleg og hættuleg. Ekkert er fjallað um þetta í álitsgerð Ólafs J. Briem. Er kostnaður við úrbætur á þessum ágalla því síst of hár enda er því ekki haldið fram.
h. Þá kemur að lokum fram í matsgerð að barkar á olíugjöf og drifi hafi skemmst eftir einungis 30 tíma notkun. Hafi verið nauðsynlegt að bæta þær skemmdir með því að endurnýja barkann og er það mat matsmanns að kostnaður við það sé 24.000 krónur. Í álitsgerð Einars Hermannssonar kemur fram að framangreint sé óásættanlegt eftir ekki meiri notkun. Um þetta atriði er ekki fjallað sérstaklega í álitsgerð Ólafs J. Briem. Það er niðurstaða dómsins að þetta sé ótvíræður galli á bátnum og að nauðsynlegt sé að bæta úr honum. Verður að telja vel sloppið ef fullnaðarviðgerð á þessum galla nær ekki hærri fjárhæð en í matsgerð greinir.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir stefndi hafa sýnt fram á það svo ekki verði um villst að bátur sá sem um er deilt í máli þessu var langt frá því að vera búinn þeim kostum sem hann mátti gera ráð fyrir og með vísan til 2. mgr. 42. gr. eldri lausafjárkaupalaga á hann rétt á skaðabótum úr hendi stefnanda. Eins og rakið hefur verið hefur því verið slegið föstu með stuðningi í matsgerð hins dómkvadda matsmanns að tjón stefnanda vegna vanefnda stefnanda er metið að fjárhæð 3.856.600 krónur. Með hliðsjón af þeim mikla drætti sem varð á afhendingu bátsins og þess að fljótlega eftir afhendingu bátsins kom í ljós að vanefndir voru af hálfu stefnanda var stefnda heimilt að halda eftir þeirri greiðslu sem eftir stóð af kaupverði bátsins sem var 2.826.187 krónur. Samkvæmt þessu eru kröfur aðila með sama gjalddaga og þar sem höfuðstóll kröfu stefnda er mun hærri en höfuðstóll kröfu stefnanda og skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 eru fyrir hendi verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þeirri niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Óskar Norðmann hdl., en af hálfu stefnda flutti málið Valgarður Sigurðsson hrl.
Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Þór Þórsson og Eyþór H. Ólafsson
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Björgunarsveit Hafnarfjarðar, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sportbúðarinnar Títan ehf.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.