Hæstiréttur íslands
Mál nr. 543/2005
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2006. |
|
Nr. 543/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Jóni Heimdal Magnússyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
Ekki þótti sannað að J hafi ruðst óboðinn inn í tiltekið hús og var hann sýknaður af ákæru um húsbrot. J hafði hins vegar játað að hafa synjað að fara út úr húsinu þegar á hann var skorað og hafði hann þannig brotið gegn 231. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem hann var ekki ákærður fyrir þá háttsemi var hann ekki sakfelldur fyrir hana. J var einnig ákærður fyrir líkamsárás. Þrátt fyrir vissa annmarka á framburði mæðgna, sem sögðu J hafa ráðist á sig, var talið rétt í ljósi annarra atriða að byggja niðurstöðu um þennan þátt málsins á framburði mæðgnanna um átökin. Samkvæmt því var talið sannað að J hafi gerst sekur um líkamsrárás samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. var ekki talið eiga við í málinu. Var refsing J hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en þar sem hann hafði ekki gerst sekur um önnur brot sem áhrif hefðu á refsinguna þótti rétt að hún yrði skilorðsbundin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst sýknu.
Samkvæmt framburði ákærða og vitnanna A og B kom ákærði um miðja nótt á heimili C bróður síns og vitnanna í því skyni að ná tali af C, en þeir höfðu átt í deilum fyrr um kvöldið. Við rannsókn málsins bar vitnunum saman um að ákærði hafi verið æstur og undir áhrifum áfengis er hann kom á staðinn. A hafi farið til dyra og meinað honum inngöngu í húsið. Ákærði skýrði svo frá hjá lögreglu að B hafi komið til dyra og hann „ýtt henni frá og farið inn“ og komist inn í stofu. Fyrir dómi kvaðst hún hafa vaknað er ákærði hringdi dyrabjöllunni, farið niður stigann af efri hæðinni og hafi ákærði þá verið að reyna að ýta móður hennar niður stigann. Hún var ekki nánar spurð um það hvort hún hafi heyrt móður sína banna ákærða að koma inn í húsið. Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa ruðst þangað inn í heimildarleysi. B hafi opnað fyrir honum og hann verið kominn inn í stofu þegar mæðgurnar vísuðu honum á dyr. Stendur þannig orð gegn orði um það hvort ákærði hafi ruðst óboðinn inn í húsið. Verður ákærði því með vísan til þess og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sýknaður af þeirri háttsemi. Ákærði hefur játað að hann hafi synjað að fara út þegar á hann var skorað og hefur hann þannig brotið gegn 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann er ekki sakaður um þessa háttsemi í ákæru og verður hann því ekki sakfelldur fyrir hana.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða fyrir líkamsárás gegn A og B. Varðar brot hans við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. laganna eiga hér ekki við.
Ákærði réðst drukkinn og æstur á mæðgurnar á heimili þeirra um miðja nótt í kjölfar þess að honum hafði verið skipað að fara út. Hlutu þær báðar nokkra áverka, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, en þar sem hann hefur ekki gerst sekur um önnur brot sem áhrif hafa á refsinguna þykir rétt að fresta fullnustu hennar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um að ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði en helmingur hans greiðist úr ríkissjóði verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jón Heimdal Magnússon, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 272.107 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 2005.
Málið er höfðað með ákæru sýslumannsins í Kópavogi, útgefinni 19. maí 2005, á hendur ákærða, Jóni Heimdal Magnússyni, kt. 180952-2929, Lækjasmára 8, Kópavogi, fyrir líkamsárás og húsbrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 23. desember 2004, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhúsið að Álfaheiði [...] í Kópavogi, og ráðist á A, kt. [...], hrint henni ítrekað í gólfið, þar sem hann bæði sparkaði í hana og sló og slegið B, kt. [...], í andlitið, sparkað í vinstri sköflung hennar og rifið á hár hennar aftan frá, allt með þeim afleiðingum að A hlaut roða og skrámur aftan á hálsi, á báðum öxlum og á bringu, klór milli herðablaða og eymsli í vöðvum á hálsi og hægri öxl, auk mars og roða á báðum fótleggjum, en B hlaut roða yfir neðri kjálkanum hægra megin, breiða marbletti á hægri upphandlegg og framhandlegg, útbreitt mar á hægri rist og vinstra sköflungssvæði, marbletti á báðum lærum og þreifieymsl í hársverði og mjóbaki.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998..
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og krefst hann þess jafnframt að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns.
I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Kópavogi, sem Ríkarður Ríkarðsson skráði, var óskað eftir aðstoð lögreglu að Álfaheiði [...] í Kópavogi kl. 03:30 aðfaranótt fimmtudagsins 23. desember 2004, kl. 03:30, en þar væri óvelkominn maður innandyra. Er lögreglumenn komu á staðinn hefði maður, sem reyndist vera ákærði legið á stofugólfinu en framangreindar B og A veist að honum. Ákærði hefði verið færður í handjárn og fluttur út í lögreglubifreið þar sem rætt hefði verið við hann. Í lögregluskýrslunni er aðkomu lögreglu annars lýst svo, að er lögreglumenn hafi komið að Álfaheiði [...] hafi þeir séð að útidyrnar stóðu opnar. Þaðan hafi sést inn í stofuna og þar hafi fólk verið í átökum. Þeir hafi séð að C hélt ákærða á gólfinu og hafi B staðið yfir þeim og sparkað í ákærða þar sem hann lá í gólfinu. A hafi tekið á móti lögreglumönnunum er þeir komu inn. Þeir hafi síðan tekið ákærða og fært hann í handjárn og út í lögreglubifreið. Allt hafi verið á rúi og stúi í húsinu og greinileg merki um átök. Jólatré hafi legið á hliðinni og kúlurnar af því verið brotnar um allt gólf. Frásögn B og A hafi verið svolítið ruglingsleg. Er rætt hafi verið við A hafi B verið að grípa fram í og öfugt. Þær hafi báðar greinilega verið í mikilli geðshræringu og því ekki gott að skrá niður frásögn þeirra.
Mæðgurnar A og B lögðu samdægurs fram kæru á hendur ákærða, A vegna húsbrots og líkamsárásar en B vegna líkamsárásar. Gáfu þær báðar skýrslur hjá lögreglu sama dag.
A kvaðst hafa vaknað kl. 03:15 umrædda nótt við að dyrabjöllu var hringt á heimili hennar og hefði hún farið til dyra. Þar hefði ákærði, tvíburabróðir eiginmanns hennar, C, verið kominn og talið sig eiga eitthvað vantalað við bróður sinn vegna fyrirtækis sem C rekur og þeir voru búnir að rífast um fyrr um nóttina. Ákærði hefði rutt upp hurðinni, ýtt henni frá og ruðst inn í húsnæðið, sem sé á tveimur hæðum. Strax hefði verið ljóst að C vildi ekkert tala við ákærða og hefði verið margítrekað við ákærða að koma sér út. Hann hefði ekki sinnt því og gert sig líklegan til að fara upp á efri hæð þar sem C svaf. Hún hefði reynt að koma í veg fyrir að hann kæmist upp en hann ýtt henni frá og þá hefðu átök milli þeirra byrjað. Dóttir hennar B hefði þá vaknað og komið niður stigann á móti ákærða með gsm síma í annari hendi en lítinn bitlausan grænmetishníf í hinni. Hún hefði haldið hnífnum fyrir framan sig og sagt við ákærða: “Þú lemur ekki konur.” Við það hefði ákærði bakkað niður stigann og átökin borist inn í stofu. Þar hefðu þær náð að yfirbuga ákærða og halda honum þar til lögreglan kom á staðinn. Ákærði hefði þá verið búinn að slá B og rífa í hár hennar. Sjálf hefði hún alla vega verið búin að lenda tvisvar í gólfinu.
A kvaðst vera með allnokkra áverka á höndum og fótum eftir átökin. Hún finndi einnig til í hálsi og handlegg. Hún kvað C ekki hafa vaknað við átökin þannig að einungis hún, B og ákærði væru til frásagnar um það sem gerðist svo og lögreglumennirnir sem komu á staðinn og sáu þær halda ákærða.
B kvaðst hafa vaknað umrædda nótt við að dyrabjöllu var hringt heima hjá henni. Hún hefði klætt sig í peysu og farið fram og þá heyrt að mamma hennar var komin til dyra og var að segja þeim sem hringdi að hann fengi ekki að koma inn. Hún hefði strax kannast við að þarna var kominn tvíburabróðir föður hennar, ákærði. Hún hefði séð að hann var undir áhrifum áfengis og allur tryllingslegur í háttum. Hann hefði haldið í hönd móður hennar og reynt að ýta henni þjösnalega í burtu. Er hún heyrði að ákærði var kominn þarna og að móðir hennar var að banna honum inngöngu hefði hún orðið hrædd og gripið með sér hníf sem hún hafði notað kvöldið áður við að skera niður epli. Ástæða þess að hún greip hnífinn með sér hefði verið sú, að hún vissi að þegar ákærði væri ölvaður þá væri hann ofbeldisfullur og hefði hún því verið hrædd við hann og óttast um móður sína sem auðheyrilega hefði verið að berjast við hann. Hún kvaðst hafa komið móður sinni til hjálpar þegar ákærði og móðir hennar voru komin nokkuð áleiðis upp stigann. Hún hefði þá öskrað á ákærða og sagt honum að koma sér út. Hún hefði haldið á gsm síma í annari hendi en á hnífnum í hinni. Ákærði hefði öskrað á móti og sagst vilja tala við föður hennar. Hún hefði þá sagt honum að hún væri að hringja í lögregluna, en hún hefði hvorki ógnað ákærða með hnífnum né hótað honum, en honum hefði þó mátt vera ljóst að hún hélt á hnífnum. Ákærði hefði hörfað aðeins nokkur þrep niður stigann og hefði hún þá misst hnífinn. Þá hefði ákærði ráðist á móður hennar og hrint henni þannig að hún datt í gólfið þar sem ákærði sparkaði nokkrum sinnum í síðu hennar, en ekki væri hún viss hvoru megin. Ákærði hefði verið dýróður þegar hér var komið sögu. Hún hefði þá rifið í ákærða til að toga hann í burtu frá móður sinni. Ákærði hefði þá sparkað aftur fyrir sig og sparkið lent í vinstri sköflung hennar. Þá hefði hann kýlt hana á hægri vanga. Eftir þetta hefði ákærði róast aðeins og sest á stól í stofunni. Er ákærði neitaði að hafa lagt hendur á þær mæðgur hefði hún orðið svo reið að hún löðrungaði ákærða og hefði höggið lent á vinstri kinn hans. Ákærði hefði þá orðið reiður og staðið upp en þær beðið hann að fara út. Skyndilega hefði hann hjólað í móður hennar sem féll í gólfið og hefði ákærði beygt sig yfir hana og bæði sparkað og slegið. Hún hefði tekið í ákærða og reynt af öllum sínum krafti að koma í veg fyrir að hann gæti misþyrmt móður hennar frekar. Hún hefði sparkað í hann og við það hefði móðir hennar náð að standa upp en ákærði ýtt henni aftur niður og hefði hún þá fallið á jólatréð og hefði ákærði ætlað að halda áfram að sparka í hana þar sem hún lá á gólfinu. Hún hefði haldið að ákærði myndi drepa mömmu sína og því reynt af öllu sínu afli að koma í veg fyrir að hann ylli henni frekari miska og sparkað og sparkað í hann. Hann hefði þá hætt við atlöguna en snúið sér að henni, gripið aftan í peysu hennar, rykkt henni aftur og síðan gripið í hárið á henni og sparkað í hana. Þá hefði móðir hennar komið henni til hjálpar og tekið ákærða burt og hefði hún þá náð að sparka í klofið á honum og hefði hann þá farið í gólfið og þær mæðgur þá getað haldið honum niðri. Um leið hefði lögreglan komið. Hún hefði verið búin að biðja um aðstoð lögreglu áður en þetta skeði.
Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu 11. janúar 2005 kvað hann upphaf málsins megja rekja til þess að tvíburabróðir hans C hefði verið með svívirðingar í garð móður þeirra og hótað að ganga frá honum í tengslum við deilur um fjölskyldufyrirtæki sem C væri að reyna að sölsa undir sig. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að fá sér í glas þegar C var með svívirðingarnar og orðið mjög reiður, kallað til leigubifreið og haldið að heimili C þar sem hann hefði viljað ræða þessi mál nánar við hann. Hann hefði hringt dyrabjöllu og hefði dóttir C komið til dyra og opnað. Hún hefði sagt: “mamma, hann Jón er hérna”. Hann hefði þá ýtt henni frá sér og farið inn. Hann hefði komist inn í stofu og þar hefðu mæðgurnar ráðist á hann. Átök hefðu orðið í stofunni og hefði hann varið sig þegar ráðist var á hann. Ákærði kannaðist hvorki við að hafa kýlt né sparkað í þær mæðgur meðan á þessum átökum stóð. Hann hefði varið sig. Hann mundi ekki hve lengi átökin stóðu og kvaðst ekki geta lýst þeim í smáatriðum. Þetta hefðu verið stympingar þar sem hann varði sig eins og hann gat. Hann minntist þess ekki að C bróðir hans hefði komið að átökunum. Hann kvaðst ekki hafa ráðist á mæðgurnar. Þær hefðu veist að honum og í framhaldi af því hefði hann varið sig. Hann kvaðst hafa talið sig velkominn á staðinn, en B hefði opnað fyrir honum.
II.
Mæðgurnar A og B fóru á slysa-og bráðadeild Landspítalans í Fossvog laust fyrir kl. 13:00 á Þorláksmessu 2004. Í vottorði Stefáns Steinssonar læknis dagsettu 17. febrúar 2005 segir m.a. um skoðun á A og greiningu:
“Skoðun: Einkenni A voru fyrir það fyrsta andlegt uppnám sem enn bar töluvert á tæpum 10 klst. síðar. Þá var roði og skrámur aftan á hálsi, á báðum öxlum og á bringu, klór milli herðablaða og eymsli í vöðvum á hálsi og hægri öxl. Mar og roði sjáanleg á báðum fótleggjum. Greining: Greiningar af þessari ákomu voru árás af hendi annars manns, T14.9 og marblettir T34.0”
Í vottorði læknisins dagsettu sama dag varðandi B segir m.a: “Skoðun: Í lítils háttar andlegu uppnámi. Roði yfir neðri kjálkanum hægra megin líkt og eftir högg. Breiðir marblettir á hægri upphandlegg, einnig á hægra framhandlegg, um 3x3 cm. Útbreitt mar á hægri rist og vinstra sköflungssvæði. Marblettir á báðum lærum. Eymsli við þreifingu á þessum marblettum öllum. Þreifieymsli eru í hársverðinum á hnakkasvæði, þar hafði verið togað í tagl sem hún var með. Þreifieymsli eru loks á miðju mjóbaki líkt og eftir tognun. Greining: Greiningar vegna ákomunnar voru áverki/árás af hendi annars manns, T14.9 og útbreitt mar, T14.0.”
III.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum lýsti ákærði aðdraganda þess að hann fór umrædda nótt að heimili tvíburabróður síns C. Hann kvað bróður sinn, sem ekki hafði komið í heilt ár á heimili foreldra þeirra, hafa hringt þangað níu sinnum umrætt kvöld og í síðasta símtalinu úthúðað móður þeirra og hefði það farið illa í hana. Þá hefði hann sagst myndu ganga frá ákærða. Ákærði, sem kvaðst aðeins hafa fundið til áfengisáhrifa, kvaðst þá hafa ákveðið að fara heim til bróður síns til að fá skýringu á framkomu hans. Hann hefði ekki verið reiður en vonsvikinn yfir framkomu bróður síns. Hann hefði farið í leigubíl heim til C og séð að ljós loguðu í húsinu. Hann hefði hringt dyrabjöllu og B, dóttir C, komið til dyra og opnað útidyr. Um leið og hún hafði opnað dyrnar hefði hún kallað: “Mamma, hann Jón er kominn!” Hann hefði þá farið inn en eiginkona C og B viljað að hann færi út. Hann hefði verið kominn inn í stofu er hann var beðinn að fara út. Þær hefðu ráðist á hann og hefðu ryskingarnar borist inn í stofu. Í hann hefði verið sparkað en hann reynt að verja sig. Honum hefði virst sem B hefði hníf í hendi. Þær mæðgur hefðu ráðist á hann af heift og viljað hann út en það hefði hann ekki getað. Þær hefðu svo haft hann undir, sest á hann og hringt í lögreglu. Við átökin hefði jólatré fallið um koll. Lögreglan hefði svo komið, handjárnað hann og leitt út í lögreglubifreið. Síðan hefði honum verið ekið heim til foreldra sinna þar sem honum hefði verið sleppt og hann farið að sofa. Hann kvað mæðgurnar hafa átt upptök átakanna. Hann kvaðst ekki geta sagt til um það hvort hann hefði slegið B á kinnina eða sparkað í hana. Þetta hefði verið heiftúðug árás mæðgnanna sem báðar hefðu ráðist á hann í einu áður en honum gafst ráðrúm til að koma sér út.
Vitnið A greindi svo frá fyrir dóminum, að hún hefði vaknað um miðja nótt við að dyrabjöllu var hringt. Hún hefði farið niður og opnað útidyr. Fyrir utan hefði ákærði verið, æstur og örugglega drukkinn. Hann hefði viljað hafa tal af tvíburabróður sínum C. Hún hefði sagt ákærða að það gæti hann seinna. Þá hefði ákærði hlaupið inn í íbúðina með frekju og offorsi. Hún hefði hlaupið upp stigann upp á efri hæð hússins og ákærði komið á eftir henni með ógnandi framkomu og slegið og sparkað í hana og rifið í hana og klórað. Hann hefði viljað fá að tala við C. Er hún hefði verið komin upp í miðjan stigann hefði B dóttir hennar komið þar að með gsm síma sinn í annarri hendi en lítinn hníf í hinni. Hún hefði sagt að hún væri búin að hringja í lögregluna. Leikurinn hefði þá borist niður stigann og þar hefði ákærði ráðist á hana alveg trítilóður, hent henni og sparkað í hana. Þá hefði B komið henni til hjálpar og hefði ákærði þá kýlt B. Ákærði hefði síðan róast smástund og sest niður í stól. Þá hefði verið hægt að hringja í lögregluna. Þá hefði ákærði ráðist aftur á hana og við það hefði jólatré fallið um koll. B hefði þá byrjað að sparka í ákærða og segja honum að láta mömmu hennar í friði. A kvaðst hafa verið orðin dauðskelkuð. Þær mæðgur hefðu að lokum náð ákærða niður, hún sest ofan á hann en B haldið fótum hans niðri. Síðan hefði lögreglan í Kópavogi komið á staðinn og komið í veg fyrir að verr færi.
A kvað sér líða illa eftir þennan atburð. Hún kvaðst hafa leitað sér aðstoðar hjá Kolbrúnu Björnsdóttur sálfræðingi. Þá hefðu þau látið loka símanum heima hjá henni og setja upp öryggiskerfi í húsinu. Hún kvaðst sofa illa og hefði hún lést um 5-6 kíló. Hún kvað eiginmann sinn C hafa sofið þetta af sér. Henni hefði aldrei gefist ráðrúm til að vekja hann.
Vitnið B skýrði svo frá fyrir dóminum að hún hefði vaknað við að dyrabjöllu var hringt. Er hún hefði verið að fara niður stigann af efri hæðinni hefði ákærði verið að reyna að ýta móður hennar niður stigann. Hann hefði hrint henni, sparkað í hana og slegið hana. Móðir hennar hefði sagt ákærða að koma sér út. Ákærði hefði verið öskrandi. Hún kvaðst hafa sagt ákærða að hún væri búin að hringja í lögregluna. Þau hefðu þá farið niður stigann en ákærði aftur ráðist á móður hennar. Hún hefði reynt að ná honum af henni. Hún hefði séð hann sparka ítrekað í móður sína þar sem hún lá á gólfinu. Ákærði hefði svo snúið sér við og kýlt hana í andlitið. Þá hefði hann róast niður og sest í stól. Honum hefði þá verið sagt að fara út en hann neitað því. Hún hefði þá náð sambandi við lögreglu og tilkynnt um óvelkominn mann í húsinu. Ákærða hefði þá aftur verið sagt að fara út og hefði hann þá aftur ráðist á móður hennar og hún reynt aftur að ná honum af henni. Ákærði hefði dottið um jólatréð og jólakúlurnar farið út um allt. Ákærði hefði rifið í hár hennar, sparkað í hana og kýlt hana. Þær mæðgur hefðu svo náð honum niður og hún sparkað í hann. Þá hefði lögreglan komið. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvort pabbi hennar var heima eða hvort hann svaf. Hún hefði ekkert gert í því að ná í pabba sinn eða vekja hann. Til þess hefði ekki gefist neinn tími. Hún hefði verið að hjálpa mömmu sinni. Hún kvaðst hafa sparkað í ákærða þegar hann var að fara í gólfið. Hún hefði haldið að hann ætlaði að ganga frá mömmu hennar. Hann hefði sagt að hann ætlaði ekki út en viljað tala við pabba hennar. Hún hefði spurt ákærða hvort hann væri hreykinn af því að hafa ráðist á konu og 17 ára stelpu. Við þau orð hefði ákærði aftur ráðist á móður hennar. Hún kvaðst ekki hafa reynt að ýta kærða út úr húsinu.
Vitnið Guðmundur Guðmundsson lögreglumaður kvaðst hafa verið í eftirliti að næturlagi ásamt Rúnari Jakobi Halldórssyni lögreglumanni. Þeir hefðu verið sendir að Álfaheiði [...] vegna húsbrots og átaka. Er þeir komu að Álfaheiði [...] hefðu útidyr verið opnar og þeir séð atvikin sem áttu sér stað inni í stofu. Þeir hefðu farið inn í stofu og tekið ákærða sem lá á gólfinu lögreglutökum, handjárnað hann og farið með hann út í lögreglubifreiðina. Hann kvað ákærða hafa legið á grúfu á gólfinu og hefði húsráðandinn, karlmaður, legið ofan á honum og haldið honum en tveir kvenmenn veist að ákærða. Yngri kvenmaðurinn hefði sparkað í ákærða. Vitnið kvaðst vera viss um að þarna var karlmaður, sem dró sig í hlé eftir að ákærði hafði verið handtekinn.Vitnið kvaðst vera nokkuð viss, hann minnti að að karlmaður hefði haldið ákærða niðri. Vitnið kvað ákærða ekki hafa veitt mótspyrnu við handtöku en verið í uppnámi og reiður vegn illdeilna fyrr um kvöldið við bróður sinn út af fjölskyldufyrirtæki.
Vitnið Rúnar Jakob Halldórsson lögreglumaður kvað útidyr hafa verið opnar að Álfaheiði [...] er hann og lögreglumaðurinn Guðmundur komu á vettvang. Þeir hefðu séð ákærða liggjandi á gólfinu og hefði C bróðir ákærða haldið honum niðri. Mikill æsingur hefði verið. Ákærði hefði verið handtekinn. Vitnið kvaðst viss um að hafa séð C halda ákærða niðri og að B hefði sparkað í hann. Ákærði hefði legið á gólfinu, C haldið honum en B sparkað 3-4 sinnum í ákærða. Spörk hennar hefðu verið áberandi. Móðir B, A, hefði staðið í forstofunni er þeir lögreglumennirnir komu hlaupandi inn. Vitnið kvað þá ekki hafa séð ákærða veita öðrum högg eða spörk. Vitnið ítrekaði að hann minntist þess að hafa séð C ofan á ákærða en ekki A og minntist vitnið þess að C hefði verið í dökkum bol. Vitnið kvað aðra lögreglumenn hafa komið á vettvang og farið inn í húsið eftir að vitnið og Guðmundur voru farnir út með ákærða. Þessir lögreglumenn hefðu sagt að C hefði verið inni í herbergi og ekki viljað koma fram og ræða við þá.
Tvíburabróðir ákærða, C, kom fyrir dóminn sem vitni en skoraðist undan vitnisburði vegna skyldleika við ákærða. Hann kvaðst hafa verið sofandi allan tímann.
Er ákærði var spurður hvort C bróðir hans hefði komið við sögu svaraði hann því til að C kunni að hafa vaknað og komið aftan að honum án þess að hann yrði þess var. Hann hefði hins vegar hvorki séð C né heyrt hann tala.
Í ljósi framburða lögreglumannanna var málið endurupptekið samkvæmt 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála í því skyni að taka skýrslur af öðrum lögreglumönnum sem fóru á vettvang. Komu lögreglumennirnir Ríkarður Ríkarðsson og Jóhannes Magnússon fyrir dóminn sem vitni svo og C tvíburabróðir ákærða, sem áður hafði skorast undan vitnisburði í málinu.
Vitnið Ríkarður Ríkarðsson kvað búið hafa verið að handtaka ákærða og færa hann í lögreglubifreið er hann kom á vettvang. Vitnið kvaðst fyrst hafa rætt við ákærða en síðan farið inn í húsið og rætt við mæðgurnar A og B. Hann kvaðst aldrei hafa séð heimilisföðurinn C, en viljað hafa tal af honum. Mæðgurnar hefðu þá sagt honum að C væri inni á salerni og að hann vildi ekki tala við lögregluna.
Vitnið Jóhannes Magnússon lögreglumaður kvað búið hafa verið að handtaka ákærða er hann kom á vettvang. Hann og Ríkarður hefðu farið inn í hús til að ræða við mæðgurnar. Hann hefði aldrei séð C bróður ákærða en aðspurðar hefðu mæðgurnar sagt að C væri inni á baði.
Vitnið C, bróðir ákærða, kvaðst hafa verið sofandi er átökin áttu sér stað og hefði hann ekki vaknað við þau. Hann kvaðst hafa farið niður á neðri hæðina eftir að búið var að fara með ákærða út. Hefði hann þá séð að allt var í brotnum jólakúlum og drasli í stofunni. Hann hefði síðan hafa farið inn á salerni á neðri hæðinni og kvað hann aldrei verið óskað eftir því að hann talaði við lögregluna. Hann kvaðst ekki hafa tekið neinn þátt í átökunum.
Niðurstaða.
Gegn neitun ákærða þykir þrátt fyrir gagnstæðan framburð vitnisins A ósannað að hann hafi ruðst í heimildarleysi inn á umrætt heimili í skilningi 231. gr. almennra hegningarlaga. Byggja verður á því að honum hafi í fyrstu verið hleypt inn í húsið. Ber því að sýkna ákærða af ákæru fyrir húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga.
Um þau átök sem áttu sér stað inni á heimilinu eftir að ákærði var kominn þangað inn eru einvörðungu ákærði og mæðurnar A og B til frásagnar, ef frá er talið það sem lögreglumenn þeir er fyrstir komu á vettvang urðu vitni að. Í framburði þeirra kom fram að er þeir komu á vettvang hafi útidyr hússins verið opnar og þeir séð inn í stofu hvar ákærði lá á grúfu á gólfinu og bróðir hans C ofan á honum og mæðgurnar að veitast að ákærða. Kom fram hjá öðrum þeirra að B hefði sparkað nokkrum sinnum í ákærða þar sem hann lá og C hélt honum. Hvorki ákærði né mæðgurnar minntust þess að C hefði komið við sögu umrædda nótt. Ákærði kvað þó hugsanlegt að C hafi komið aftan að honum. Ekki þykir unnt að útiloka að C hafi verið þarna og haldið ákærða niðri áður en lögreglan kom enda mun ákærði hafa legið á grúfu á gólfinu er lögreglu bar að og því hugsanlegt eins og hann taldi sjálfur að hann hafi ekki séð C. Í skýrslum sínum hafa þær mæðgur haldið því fram að C hafi sofið þessi átök af sér uppi í svefnherbergi á efri hæðinni. Sjálfur hefur C borið að hann hafi verið sofandi þegar átökin áttu sér stað en farið niður í stofu eftir að búið var að fara með ákærða út og séð verksummerki en síðan farið inn á salerni á neðri hæðinni. Lögreglumennirnir Ríkarður og Jóhann kváðust hafa viljað hafa tal af C en mæðgurnar sagt að hann væri inni á salerni og að hann vildi ekki tala við lögregluna. Ekkert þykir fram komið í málinu sem hnekkir framburði lögreglumannanna Guðmundar Guðmundssonar og Rúnars Jakobs Halldórssonar fyrir dómi um að C, bróðir ákærða, eiginmaður A og faðir B, hafi verið ofan á ákærða og haldið honum niðri er lögreglan kom á staðinn. Engin skýring liggur fyrir um það það hvers vegna mæðgurnar bera að C hafi hvergi komið við sögu en verið sofandi á efri hæðinni allan tímann. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu bendir þó ekkert til þess að C hafi komið við sögu fyrr en mæðgunum hafði tekist að hafa ákærða undir á stofugólfinu. Fram til þess tíma hefði ákærði hlotið að verða C var, en ákærði hefur borið að hann hafi hvorki séð C né heyrt í honum umrædda nótt.
Samkvæmt áverkavottorðum sem liggja frammi í málinu má ljóst vera að þær A og B hafa lent í átökum. Á hinn bóginn ber þeim og ákærða ekki saman um upptök átakanna. Ákærði kveður þær mæðgur hafa ráðist á sig og hann hafi því orðið að verja sig. Mæðgurnar bera á hinn bóginn að ákærði hafi ráðist á þær. Þær mæðgur hafa greint skilmerkilega frá átökunum við ákærða bæði hjá lögreglu og fyrir dómi og hefur samræmi verið í framburði þeirra. Ákærði hefur á hinn bóginn ekki getað lýst átökunum í smáatriðum. Þeir áverkar sem lýst er í áverkavottorðum þeim sem lögð hafa verið fram í málinu geta komið heim og saman við lýsingu mæðgnanna á átökunum og háttsemi ákærða. Styðja áverkavottorðin því framburð þeirra, en á hinn bóginn er álitamál hvaða áhrif það eigi að hafa við mat á trúverðugleika framburðar þeirra að þær halda því fram andstætt framburði tveggja lögreglumanna að C hafi verið sofandi á efri hæðinni er lögreglan kom á staðinn og handtók ákærða. Eins og áður getur hefur ekki verið gefin nein eðlileg skýring á þessu og erfitt að átta sig á hvað þarna býr að baki. Þrátt fyrir þessa annmarka sem að vissu leyti þykja draga úr trúverðugleika framburðar mæðgnanna telur dómurinn engu að síður að í ljósi annarra atriða sé rétt að byggja niðurstöðu þessa þáttar málsins á framburði mæðgnanna um átökin og samkvæmt því verður að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga eins og henni er lýst í ákæru. Við ákvörðun refsingar ber þó að hafa til hliðsjónar að líkamsárás ákærða var unnin í átökum við þær mæðgur, sbr. 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 20/1981.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt þykir að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað samtals krónur 158.450 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 112.050 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en að hálfu greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði.
Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglustjórans í Kópavogi flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp dóminn.
d ó m s o r ð :
Ákærði, Jón Heimdal Magnússon, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Ákærði greiði helming alls sakarkostnaðar, sem nemur alls 158.450 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 112.050 krónur, en að hálfu greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði.