Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Aðfinnslur


_Dómsatkvæði

                                                         

Miðvikudaginn 11. ágúst 1999.

Nr. 313/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Birni Kafka Darrelssyni

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Aðfinnslur.

Úrskurður héraðsdóms um að B skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Sú framkvæmd, að halda gæslu B áfram, eftir að gæsluvarðhaldi lauk við uppkvaðningu dóms í máli hans, þótti vítaverð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. september nk. kl. 14.45. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri í því skyni að fá úrskurð héraðsdóms felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Það athugast, að 4. ágúst sl. var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli á hendur varnaraðila, þar sem honum var gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, en þar af voru 9 mánuðir skilorðsbundnir. Fram til þess tíma hafði varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi, sem lauk við uppkvaðningu dómsins, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991. Brast lagaheimild fyrir frelsissviptingu varnaraðila frá því að dómur héraðsdóms var kveðinn upp og þar til hann var leiddur fyrir héraðsdómara 6. sama mánaðar kl. 14.45. Er þessi framkvæmd vítaverð.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 1999.

Ár 1999, föstudaginn 6. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að gæsluvarðhald sem dómþoli Björn Kafka Darrelsson, kt. 280878-6189, Laugavegi 24, Reykjavík, hefur sætt samkvæmt c lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála haldist með vísan til heimildar í 106. gr. sömu laga á meðan á áfrýjunarfresti stendur.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu númer S-1910/1999, sem kveðinn var upp 4. ágúst sl. var framangreindur Björn Kafka Darrelsson dæmdur í fangelsi í tólf mánuði, þar af eru níu mánuði skilorðsbundnir til þriggja ára. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans í 35 daga.

Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér frest til að ákveða hvort hann hyggst áfrýja dóminum.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæslu­varð­hald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 stendur.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. laganna eru fyrir hendi og er krafa lögreglu­stjóra tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, Björn Kafka Darrelsson, sæti gæsluvarðhaldi meðan á fresti til að lýsa áfrýjun stendur, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. september 1999 kl. 14.45.