Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2018

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild var í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómum Hæstaréttar 8. nóvember og 6. desember 2017 í málum nr. 700/2017 og 759/2017 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert hefur komið fram sem fær haggað þeirri niðurstöðu og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. desember 2017.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], til lögheimilis að [...], [...] verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. janúar 2018 kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa þessi, sem barst dóminum í dag, var tekin fyrir á dómþingi kl. 13:00 í dag. Kærði mótmælti kröfunni en til vara gerði hann þá kröfu að gæsluvarðhaldinu yrði markaður skemmri tími en krafist er. 

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi haft til rannsóknar ætluð kynferðisbrot kærða gegn dóttur hans, A.  Hafi hin ætluðu brot verið framin á hótelherbergi í [...] þegar brotaþoli hafi verið fimm til sex ára gömul, en fjölskyldan hafi á þeim tíma verið búsett í [...]. Umrædd brot kunni að varða við 194. gr., 200. gr. og 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn 194 gr. laganna varði fangelsi allt að 16 árum og því ljóst að um alvarleg brot sé að ræða. Kærði hafi neitað sök.

Að mati lögreglu sé, þrátt fyrir neitun kærða, sterkur rökstuddur grunur fyrir hendi um að hann hafi gerst sekur um hin ætluðu brot. Það mat byggi á því að framburður brotaþola hjá lögreglu sé metinn afar trúverðugur og ekkert fram komið sem gefi tilefni til að draga hann í efa á nokkurn hátt. Þá styðji framburður kærða framburð brotaþola í öllum meginatriðum varðandi ferðir hans með brotaþola til [...] á þeim árum sem um ræði og fyrirkomulag þeirra ferða, s.s. ferðatilhögun og aðstæður á gististað. Þá hafi tvö vitni staðfest hjá lögreglu að brotaþoli hafi greint þeim frá því, hvoru í sínu lagi, að faðir hennar hafi nauðgað henni þegar hún hafi verið fimm til sex ára og búið í [...]. Rannsókn málsins sé nú lokið og verði það sent embætti héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn á næstu dögum.

Í kröfu lögreglustjórans er því lýst að auk framangreinds máls sé til ákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara mál þar sem kærða sé gefið að sök að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn næst elstu dóttur sinni, B, kt [...]. Hafi B greint frá því að kærði hafi fyrst brotið gegn henni þegar hún hafi verið fimm til sex ára að hún telji, en á þeim tíma hafi þau verið búsett í [...] og hafi brotið átt sér stað á heimili þeirra þar. Hafi verið um að ræða samfarir þannig að kærði hafi stungið getnaðarlim sínum í leggöng hennar. Hafi þetta gerst oftar en einu sinni en hún myndi ekki hversu oft eða hve gömul hún hefði þá verið.  Þá hafi kærði sagt henni eftir brotin að segja engum frá þessu og hann ætlaði ekki að gera henni þetta aftur. Kærði neiti sök í málinu.

Fram kemur í greinargerðinni að undir rannsókn málsins sem varði ætlað brot kærða gegn brotaþolanum A hafi komið fram nýjar upplýsingar um frekari ætluð brot gegn þessum brotaþola. Hafi það mál því verið tekið til frekari rannsóknar, en það hefði áður verið sent embætti héraðssaksóknara til ákærumeðferðar. Viðbótarrannsókn í því máli sé nú einnig lokið og verði málið sent embætti héraðssaksóknara til ákærumeðferðar á nýjan leik á næstu dögum. Lögreglustjóri telur málið líklegt til sakfellis, en endanleg ákvörðun um saksókn sé á hendi héraðssaksóknara.

Í greinargerð lögreglustjóra er einnig greint frá dómi sakadóms Austur-Skaftafellssýslu frá [...] 1991, en samkvæmt þeim dómi hafi kærði verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið fimm til sjö ára gömul, en kærði hafi alfarið játað sök fyrir dómi. Þeim dómi hafi ekki verið áfrýjað.

Lögreglustjóri bendir á að í úrskurðum Héraðsdóms Suðurlands í málum nr. R-[...]/2017 og [...]/2017 hafi verið fallist á það með lögreglustjóra að kærði væri undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn 194. gr., 200. gr. og 202 gr. almennra hegningarlaga og einnig hafi verið fallist á það með lögreglustjóra að uppfyllt væru skilyrði um að kærði sætti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Hafi báðir þessir úrskurðir verið staðfestir með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 700/2017 og 759/2017.

Lögreglustjóri telur að öll þau sömu skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sem staðfest hafi verið með ofangreindum dómum Hæstaréttar, séu enn til staðar. Telji lögreglustjóri að umrædd brot séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé óforsvaranlegt að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök. Sé kærði því að mati lögreglu hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar.

Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

 Með vísan til þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður dómurinn enn að fallast á það mat lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um kynferðisbrot gegn tveimur ungum dætrum sínum og er talið að brot hans varði við 194. gr., 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sá sem gerist sekur um brot gegn 1. mgr. 194. eða 1. mgr. 202. gr. þeirra laga skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Þá verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og ætluð brot hans þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan mál hans séu til meðferðar. Þá fellst dómurinn á það með lögreglustjóra að ætluð brot kærða séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með tveimur dómum Hæstaréttar Íslands, annars vegar frá 8. nóvember sl. í máli nr. 700/2017 og hins vegar frá 6. desember sl. í máli nr. 759/2017 var fallist á þetta mat og telur dómurinn að ekkert nýtt hafi komið fram í máli þessu sem haggað gæti því mati. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Ekki er gerð krafa um að kærði sæti einangrun eða öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldinu.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. janúar 2018 kl. 16:00.