Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


         

Miðvikudaginn 13. febrúar 2008.

Nr. 72/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Laufey Kristjánsdóttir, fulltrúi)

gegn

A

(Ólafur Kjartansson hdl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Málinu var vísað af sjálfsdáðum  frá Hæstarétti þar sem kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að loknum kærufresti samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. janúar 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur yrði maður til að meta nánar tilgreind atriði í tengslum við rannsókn á ætluðu broti varnaraðila gegn 2. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Varnaraðili krefst þess að hafnað verði að dómkveðja matsmann. Þá krefst hann málsvarnarlauna í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 22. janúar 2008, þar sem skipaður verjandi varnaraðila var viðstaddur ásamt sækjanda í málinu, hófst þriggja sólarhringa frestur til að kæra úrskurðinn samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991. Sá frestur var liðinn þegar kæra barst héraðsdómara 5. febrúar 2008. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. janúar 2008.

Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 6. nóvember sl., hefur matsbeiðandi, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, óskað þess að dómkvaddur verði kunnáttu­maður til þess að meta hvort athafnir kærða, A, sem vistaðar eru á mynddiski, séu til þess fallnar að fara illa með hest, hrekkja hann eða meiða og hvort kærði hafi beitt viðurkenndum tamningaaðferðum gagnvart hestinum í umrætt sinn. Af hálfu matsþola, A, var því mótmælt á dómþingi 18. desember sl. að dómkvaðning næði fram að ganga.

Málið var flutt 4. janúar sl. og tekið til úrskurðar. Við þá fyrirtöku óskaði sækjandi eftir að bóka svofellda skýringu á matsspurningu í matsbeiðni: „Að metið sé hvort líklegt sé og þá hversu líklegt að umrædd háttsemi hafi haft andlegar og/eða líkamlegar afleiðingar á hestinn og einnig hversu alvarlegar afleiðingarnar hafi verið.“ Matsþoli krefst þess að synjað verði um dómkvaðningu matsmanns og að málsvarnarlaun verj­anda hans verði greidd úr ríkissjóði. Matsbeiðandi krefst þess að dómkvaðningin nái fram að ganga.

Málsatvik.

             Þann 30. apríl 2007 barst lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kæra Gunnars Arnar Guðmundssonar héraðsdýralæknis, fyrir hönd Landbúnaðarstofnunar, vegna meints brots matsþola gegn 2. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um dýravernd nr. 15/1994. Lögreglustjóri felldi málið niður þann 8. ágúst sl. Þá ákvörðun kærði kærandi til ríkissaksóknara þann 4. september sl. Mánuði síðar lá fyrir sú afstaða ríkissaksóknara að fella ákvörðun lögreglustjóra úr gildi og leggja fyrir lögreglu að taka málið til áframhaldandi rannsóknar. Meðal þeirra gagna sem lagt var fyrir lögreglu að afla var mat kunnáttumanns á því hvort háttsemi matsþola væri til þess fallin að fara illa með hest, hrekkja hann eða meiða. Ennfremur bæri að meta hvort matsþoli hefði beitt viðurkenndum aðferðum í samskiptum við hestinn í umrætt sinn. Í kjölfar þessa lagði lögreglustjóri fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns.

Málsástæður og lagarök matsþola.

Af hálfu matsþola er vísað til þess að hann sæti opinberri rannsókn vegna meintra brota gegn lögum nr. 15/1994 um dýravernd. Matsbeiðandi hafi fellt málið niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þann 8. ágúst sl. Með bréfi ríkis­sak­sóknara, dags. 5. október 2007, hafi verið felld úr gildi sú ákvörðun lögreglustjóra að fella málið niður. Í rökstuðningi ríkissaksóknara segi að „almennur mælikvarði [gildi] um hvort háttsemi sé til þess fallin að hrekkja dýrið eða meiða það og þá með hliðsjón af þeirri árás eða athöfn sem beinist að dýrinu.“ Þá sé „lagt fyrir lögreglu­stjóra að afla mats kunnáttumanns um hvort háttsemi kærða sé til þess fallin að fara illa með hest, hrekkja hann og meiða. Ennfremur hvort kærði hafi beitt viðurkenndum aðferðum í samskiptum við hestinn umrætt sinn.“ Þessi fyrir­mæli séu tekin nánast orðrétt upp í beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns.

Í 1. mgr. 70. gr. stjskr. nr. 33/1944 sé mælt fyrir um að sérhverjum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru um refsiverða háttsemi á hendur sér innan hæfilegs tíma. Í síðastgreindu orðunum felist meginreglan um hraða málsmeðferð, sem sé ein af meginreglum íslensks sakamálaréttarfars, sbr. og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í samræmi við þetta segi í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 að hraða skuli meðferð máls eftir föngum. Þó svo að ákvæðið sé í XV. kafla laganna um reglur um málsmeðferð fyrir héraðsdómi beri alls ekki að skýra það þröngt. Enginn vafi leiki á að meginreglan um hraða málsmeðferð gildi jafnt um meðferð máls fyrir og eftir útgáfu ákæru, þar með talið þegar málið sé til meðferðar á rannsóknarstigi hjá lögreglu.

Í ljósi meginreglunnar um hraða málsmeðferð verði að leggja þá skyldu á rann­sóknar­aðila að ekki sé aflað gagna sem enga þýðingu hafa fyrir málið. Því er andmælt að umbeðin dómkvaðning fari fram, enda hafi umbeðið mat ekki þýðingu fyrir rannsókn málsins. Í ljósi meginreglna opinbers réttarfars hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði þess að umbeðið mat hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í þessu tilviki verður að horfa til þriggja atriða.

Í fyrsta lagi beinist rannsóknin gegn almennu ákvæði sem sé of óskýrt til að geta verið refsiheimild. Þá sé um að ræða, samkvæmt bréfi ríkissaksóknara, „almennan mæli­kvarða“. Samkvæmt því sé ekki þörf á kunnáttumanni til að leggja mat á hegðun varnaraðila. Að síðustu er matsbeiðni eins og hún liggur fyrir ekki til þess fallin að upplýsa um atriði málsins.

Í nefndaráliti með breytingartillögu sem varð að 2. gr. laga nr. 15/1994 segi um 2. gr.: „Um er að ræða almennt ákvæði þar sem kveðið er á um ýmis grundvallar­atriði í umgengi við dýr. Nefndin telur eðlilegt að slík almenn fyrirmæli séu sameinuð í texta.“ Þá segi í rökstuðningi ríkissaksóknara að um sé að ræða almennan mælikvarða.

Varnaraðili sitji undir opinberum ásökunum um brot gegn lögum og sæti opinberri rannsókn. Dómstóllinn geti ekki lagt blessun sína yfir slíka meðferð á varnaraðila eins og málum sé háttað.

Engin fordæmi séu fyrir sakfellingu um brot gegn því ákvæði sem rannsókn beinist að. Greinin sé ekki nægileg refsiheimild og því tilgangslaust að óska eftir mati á því hvort tiltekin háttsemi sé til þess fallin að geta átt undir greinina. Óljós refsiheimild geti ekki verið grundvöllur sakfellingar og því sé tilgangslaust að afla umbeðins mats og því beri að synja um dómkvaðninguna.

Sé ekki fallist á ofangreint er á því byggt að ekki sé þörf á að afla mats kunn­áttu­manns. Í rökstuðningi ríkissaksóknara, sem virðist vera grundvöllur framkominnar beiðni, segi að í greininni felist almennur mælikvarði. Þá sé vísað til ummæla í nefndaráliti að um sé að ræða almenn fyrirmæli.

Í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála segi að dómari leggi mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar. Þar sem um er að ræða almennan mælikvarða sé ljóst að óþarfi sé að kveðja til kunnáttumann til að leggja mat á umbeðin atriði. Slíkt yrði einungis til að tefja framgang málsins.

Sé ekki fallist á framangreint er á því byggt af hálfu varnaraðila að matsbeiðnin sé ekki til að upplýsa um atvik málsins.

Í fyrsta lagi sé óskað mats á því hvort hegðun varnaraðila sé til þess fallin að meiða eða hrekkja hest. Það skipti engu máli hvort hegðun sé til þess fallin að valda tiltekinni niðurstöðu. Það sé undarleg sönnunarfærsla sem hér eigi að fara fram ef óskað sé mats á því hvort tiltekin hegðun sé til þess fallin að valda tiltekinni niðurstöðu.

Hvort hegðun sé til þess fallin megi umorða þannig að spurt sé hvort mögulegt sé að kærði hafi með hegðun sinni hugsanlega meitt hestinn, hrekkt hann eða farið illa með hann. Hér virðist ætlunin sú að fara á svig við reglur um sönnun og leiða í ljós hvernig atvik hefðu getað verið. 

Þau atriði sem þýðingu hafi séu hvort hesturinn hafi verið meiddur, hrekktur eða illa farið með hann. Ekki sé óskað mats á þessum atriðum. Hefði verið um slíkt að ræða ætti að liggja fyrir skýrsla dýralæknis frá umræddum tíma.

Samkvæmt ákvæðinu sé bannað að meiða hest. Umbeðið mat miði ekki að því að leiða í ljós hvort hesturinn hafi verið meiddur. Ekki skipti máli hvort hegðunin hafi verið til þess fallin að meiða hestinn. Einungis hvort hesturinn hafi meiðst.

Þá er á því byggt að það „að hrekkja“ sé of óljóst til að leggja mat á. Samkvæmt skilgreiningu þýði „að hrekkja“ sama og „að stríða“. Óútskýrt sé hvað eigi að meta og eftir hvaða mælikvörðum eigi að leggja mat á þetta atriði. Hvernig eigi að leggja mat á hvort varnaraðili hafi verið að hrekkja umræddan hest.

Þar sem ekki sé hægt að afla gagna sem máli skipti ætli lögreglustjóri, að boði ríkissaksóknara, að fara bakdyramegin að sönnunarfærslu í málinu. Ríkissaksóknari virðist byggja ákvörðun um framhald málsins á fyrirmælum héraðsdýralæknis.

Þá sé í engu rökstutt hvers vegna afla þurfi gagna um það hvort beitt hafi verið viður­kenndum tamningaaðferðum. Það sé ekki ólögmætt að beita ekki viðurkenndum tamninga­aðferðum. Óskýrt sé af hálfu sóknaraðila hvaða þýðingu þetta atriði hafi fyrir rannsókn málsins.

Ríkari skylda hvíli á ákæruvaldinu um að sönnunarfærsla hafi þýðingu vegna málsins. Þetta sé ekki sambærilegt einkamálum þar sem öflun gagna sé á ábyrgð aðila. Beri að hraða rannsókn eins og kostur er og ekki afla óþarfa gagna.

Með vísan til meginreglunnar um hraða málsmeðferð, sem eigi sér stoð í 70. gr. stjórnarskrárinnar sem og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, verði að synja um þarflausa beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Sóknaraðili hafi ekki rökstutt hvernig það hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins að leiða í ljós hvort hegðun varnaraðila hafi verið til þess fallin að valda tiltekinni niðurstöðu eða að ákvæði það sem meint háttsemi eigi að hafa brotið gegn geti verið grundvöllur refsidóms.

Beri því að synja um umbeðna dómkvaðningu matsmanns.

Málsástæður og lagarök matsbeiðanda.

             Matsbeiðandi vísar til þess að þar sem ekki hafi enn reynt á 2. gr. laga um dýravernd fyrir dómstólum sé ekki unnt að fullyrða hvort ákvæðið verði metið of óskýrt til þess að geta talist fullnægjandi refsiheimild. Telur matsbeiðandi nauðsynlegt fyrir almenna réttarvitund að fá úr því skorið hvort ákvæðið teljist of óskýrt.

             Matsbeiðandi telur að brýn þörf sé á að afla matsins og telur matið meðal þeirra nauðsynlegu rannsóknargagna sem verði að liggja fyrir í málinu svo unnt sé að leggja mat á hvort grundvöllur sé til að gefa út ákæru.

             Hann vísar til þess að mat á því hvort háttsemi sé til þess fallin að fara illa með hest, hrekkja hann eða meiða krefjist ekki almennrar þekkingar heldur þvert á móti sérfræðilegrar þekkingar fagaðila í dýrafræðum. Á sama hátt og sérfræðingar séu til kvaddir til að meta áhrif barsmíða á fólk þurfi sérfræðinga til að meta afleiðingar barsmíða á dýr.

             Matsbeiðandi telur að í rúmu orðalagi matsspurningarinnar felist eðli málsins samkvæmt að farið sér fram á að metið sé hvort líklegt sé, og þá hversu líklegt, að umrædd háttsemi hafi haft andlegar og/eða líkamlegar afleiðingar fyrir hestinn og einnig hversu alvarlegar slíkar afleiðingar hafi verið.

             Ennfremur vísar matsbeiðandi til þess að eigi ákvæði 2. gr. laga um dýravernd að ná tilgangi sínum og vernda dýr þá verði dómsniðurstaða máls þar sem reynir á ákvæðið að byggjast að verulegu leyti á því almenna mati fagaðila sem farið er fram á í þessu máli um afleiðingar barsmíða á hest þar sem mjög hæpið teljist að hægt sé að meta mar eftir barsmíðar á hestum vegna þess að húð þeirra er þéttvaxin hári og lituð.

             Vegna tilvísunar matsþola til hraðrar málsmeðferðar bendir matsbeiðandi á að eftir að afstaða ríkis­sak­sóknara lá fyrir hafi af hálfu embættis lögreglustjóra verið unnið að málinu með eins miklum hraða og hægt hafi verið og framhald málsins hafi verið í forgangi hjá sækjanda.

Niðurstaða.

Matsþoli byggir á því að dómkvaðning matsmanns hafi enga þýðingu fyrir málið. Rök hans fyrir því eru í fyrsta lagi að rannsóknin beinist að of almennu ákvæði sem sé of óskýrt til að geta verið grundvöllur sakfellingar.

Að mati dómsins er ekki tímabært á rannsóknarstigi máls að taka afstöðu til þess hvort það ákvæði, sem hegðun kærða kann að verða felld undir að rannsókn lokinni, sé of óskýrt til þess að geta talist viðunandi refsiheimild. Verður ekki synjað um dómkvaðningu af þeim sökum.

Í öðru lagi byggir matsþoli á því að ekki sé þörf á að afla mats kunnáttumanns þar sem mælikvarði 2. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd sé almennur.

Þó að það sé mat einhverra að mælikvarði á refsinæmi verknaðar sé almennur þýðir það ekki að ekki þurfi að rannsaka mál til hlítar. Umbeðin dómkvaðning miðar að því að leggja vandaðan grunn að ákvörðun um það hvort rétt sé að gefa út ákæru eða láta málið falla niður. Þykir mat ekki verða lagt á það hversu nærri má ganga dýri, án þess að dýrið meiðist, nema af fólki sem þekkingu hefur á viðkomandi dýrategund. Því þykir þörf á að málið sé rannsakað af kunnáttumanni.

Í þriðja lagi byggir matsþoli á því að matsbeiðnin sé ekki til þess fallin að upplýsa um atvik málsins.

Lögreglunni ber að rannsaka, svo sem kostur er, öll þau atriði sem máli geta skipt til að komast að því hvað gerðist og hvað hafi verið reynt að gera áður en afstaða er tekin til þess hvort gefa skuli út ákæru eða fella málið niður. Dómari leggur mat á sönnunargögnin eftir útgáfu ákæru, ef til hennar kemur, og tekur afstöðu til þess þá hvort með þeim hafi tekist að sanna refsiverðan verknað. Ekki þykir fært að taka afstöðu til þess áður en gagnanna, sem afla á með þessu mati, hefur verið aflað hvort þau séu sýnilega þarflaus til upplýsingar málsins, enda ber við rannsókn málsins að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Verður því ekki synjað um dómkvaðningu matsmanns á þeim grunni að fyrirfram sé ljóst að gagnaöflunin sé þýðingarlaus.

Matsþoli vísar ennfremur til þess að með beiðninni sé brotið gegn reglunni um hraða málsmeðferð.

Hér verður ekki talið að sá dráttur, sem verður við það að málið er rannsakað frekar áður en tekin er afstaða til þess hvort gefa eigi út ákæru eða fella málið niður, eigi að hafa áhrif á afdrif rannsóknar­innar. Tekin verður efnisleg afstaða til þess við dómsúrlausn málsins hverju sá dráttur ætti að sæta verði ákæra gefin út á hendur matsþola.

Fallast má á það með matsþola að þörf fyrir mat á viðurkenndum tamninga­aðferðum sé ekki augljós en ekki þykir þó fært að hafna því sérstaklega að það mat fari fram, enda er ekki hægt að útiloka fyrirfram að kunnáttumanni í umgengni við dýr kunni að þykja athafnir matsþola í samræmi við viðurkenndar tamningaaðferðir og ekki er hægt að útiloka fyrirfram að það kunni að hafa áhrif á lyktir málsins.

             Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu verður ákvörðun um málskostnað að bíða lykta málsins.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Uppkvaðning úrskurðarins hefur tafist vegna veikinda dómarans.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Dómkveðja skal matsmann til að leggja mat á það hvort athafnir kærða, A, sem vistaðar eru á mynddiski, séu til þess fallnar að fara illa með hest, hrekkja hann eða meiða og hvort kærði hafi beitt viðurkenndum tamninga­aðferðum gagnvart hestinum í umrætt sinn.

Ákvörðun um málskostnað bíður lykta málsins.