Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2004


Lykilorð

  • Verksamningur


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 58/2004.

Kristján Jónsson

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

Bortækni verktökum ehf.

(Jón Egilsson hdl.)

 

Verksamningur.

Á grundvelli samþykkts verktilboðs tók undirverktakinn B að sér að annast tiltekinn hluta verks fyrir yfirverktakann K. Síðar reis ágreiningur um hvernig túlka bæri efni samnings þeirra og hvort B bæri endurgjald fyrir aukaverk eða aukið umfangs verks, svo sem hann hélt fram. K taldi B hafa unnið verkið í samræmi við fyrrgreint tilboð sitt og þegar fengið greitt að fullu. Með því að tilboðið var samið af B var óskýrleiki í því túlkaður B í óhag. Var kröfu B hafnað að hluta, hluta hennar vísað frá héraðsdómi og einungis lítill hluti hennar tekinn til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi tók áfrýjandi að sér 10. ágúst 2001 sem verktaki fyrir Landsvirkjun að reisa viðbyggingu og sjá um breytingar á Hrauneyjarfossstöð. Stefndi annaðist sem undirverktaki áfrýjanda hluta verksins er laut að kjarnaborun og sögun samkvæmt nánar tilgreindum verkþáttum. Var það gert á grundvelli skriflegs verktilboðs stefnda 25. júlí 2001. Ekki var gerður skriflegur verksamningur, en báðir aðilar hafa vísað til framangreinds tilboðs um lögskipti sín. Er enda óumdeilt að áfrýjandi samþykkti tilboðið þannig að stefndi skyldi vinna tilgreinda 9 verkþætti af þeim 19, sem tilboðið upphaflega laut að. Komst því á bindandi verksamningur milli aðila um þessa tilteknu 9 verkþætti með þeim hætti sem í tilboðinu greinir. Umsamið endurgjald fyrir þá verkþætti var 2.538.000 krónur. Óumdeilt er hvaða verk stefndi vann og að áfrýjandi og starfsmenn hans hafi verið á verkstað meðan verkið var unnið. Hins vegar lýtur deila málsaðila að því hvernig túlka beri efni samnings þeirra og hvort stefnda beri endurgjald fyrir aukaverk, eða aukið umfang verks. Stefndi kveðst hafa unnið aukaverk að beiðni áfrýjanda, sem bæði hafi annast verkstjórn og aðstoðað stefnda við verkið. Þá verður að skilja málatilbúnað stefnda þannig að hann krefjist ekki einungis greiðslu fyrir sérstök aukaverk heldur einnig greiðslu fyrir aukið umfang umsaminna verkþátta vegna atriða er varða áfrýjanda. Áfrýjandi telur á hinn bóginn stefnda hafa unnið verkið í samræmi við tilboð sitt. Aukaverk hafi ekki komið til og hafi hann veitt stefnda endurgjaldslausa aðstoð við suma þætti verksins. Til vara byggir áfrýjandi á því að verulegur hluti af þeim kostnaði sem stefndi telji til aukakostnaðar eigi að falla undir samningsgreiðslu hans, sem þegar hafi verið innt af hendi.

II.

Fyrir hinn 1. af þeim 9 liðum sem að framan er getið, ásamt viðbótarverki sem þeim lið tengdist, gerði stefndi sérstakan reikning sem áfrýjandi hefur greitt að fullu. Er ekki ágreiningur um þann þátt. Samkvæmt 6 af þeim 8 liðum sem þá standa eftir skyldi stefndi saga þrenn göt í veggi vegna dyragata fyrir lyftu, tvö göt í gólf og eitt  loftræstigat. Var þykkt veggja og gólfa, sem saga átti í gegnum, mismikil og tiltekin í millimetrum. Þá voru tveir liðir um sérstaka borun vegna vírasögunar. Nánar um vinnutilhögun sagði í tilboðinu að verkið ætti að vinna í dagvinnu. Átti áfrýjandi að sjá um undirbúning og undirslátt, verkpalla, fæði og uppihald og að fjarlægja múrbrot. Auk þess skyldi áfrýjandi tryggja stefnda aðgang að vatni og rafmagni á verkstað, jafnframt því sem hann skyldi annast svokallaðar merkingar, en stefndi skyldi útvega vatnsslöngur og framlengingasnúrur fyrir rafmagn. Þá sagði í tilboðinu að innifalið í verði væri „vélar, tæki, mannalaun, akstur, tryggingar ásamt öllum opinberum gjöldum.“ Var tilboð stefnda „miðað við staðgreiðslu og inná greiðslur eftir framvindu verks.”

Stefndi gerði áfrýjanda heildarreikning vegna verksins 20. mars 2002 fyrir aðra verkþætti en þann sem þegar hafði verið uppgerður samkvæmt framansögðu. Fylgdi honum yfirlit dagsett 20. nóvember 2001 þar sem áfrýjandi tilgreindi þau verk sem hann taldi að unnin hefðu verið samkvæmt „tilboði“, samtals að fjárhæð 2.596.770 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningnum fylgdi jafnframt hliðstætt yfirlit dagsett 30. október sama ár, en þá um „aukaverk“ að fjárhæð samtals 1.983.817 krónur, einnig að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Eins og fram kemur í héraðsdómi mun áfrýjandi hafa, áður en málið var höfðað, greitt stefnda, vegna annarra verkþátta en þess sem þegar var uppgerður, samtals 2.421.075 krónur, eða 121.075 krónur 28. september 2001, 500.000 krónur 19. október sama ár, 600.000 krónur 26. sama mánaðar og 1.200.000 krónur 23. nóvember sama ár. Að gengnum héraðsdómi greiddi áfrýjandi 3. júní 2004 stefnda 203.763 krónur, sem hann sundurliðaði í höfuðstól 175.695 krónur og vexti 28.068 krónur. Hefur áfrýjandi þar með greitt stefnda að fullu þann hluta höfuðstóls kröfu hans er lýtur að því, sem stefndi taldi til tilboðs, í fyrrgreindu yfirliti 20. nóvember 2001.

III.

Svo sem að framan greinir er krafa stefnda vegna „aukaverka“ um 80% af upphaflegu tilboði hans í umrædda verkþætti. Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt vinnuskýrslur starfsmanna sinna til frekari skýringar á aukaverkum. Eru þær skýrslur ekki áritaðar af áfrýjanda. Í gögnum málsins liggur ekkert skriflegt fyrir um að stefndi hafi verið beðinn um að vinna tiltekin aukaverk eða hann tilkynnt áfrýjanda að aukaverk væru nauðsynleg. Þá gerði stefndi áfrýjanda ekki fyrr en að loknu heildarverkinu sérstakan reikning vegna verka þeirra er hann taldi að meta bæri aukaverk.

Tilboð stefnda kvað á um að stefndi skyldi gera „göt“ í veggi og gólf, jafnframt því sem tiltekið var sérstaklega að áfrýjandi skyldi fjarlægja „múrbrot“. Stendur stærsti hluti deilu málsaðila um túlkun á þessum ákvæðum tilboðsins. Stefndi hefur haldið því fram að í þessum orðum felist einungis skylda hans til að saga gegnum veggi og gólf án þess að þurfa fjarlægja stykki sem hann hafði með því losað úr viðkomandi vegg. Reisir hann kröfu sína á því að það hafi hann hins vegar gert. Sé sú vinna aukaverk þar sem hún hafi ekki falist í þeim verkþáttum sem tilboðið kvað á um. Áfrýjandi byggir hins vegar á því að með því að semja um að gera göt í veggi hafi stefndi ekki einungis tekist á hendur að saga í þá, heldur einnig að fjarlægja úr veggjunum þau stykki sem við það losnuðu. Eins og rakið hefur verið byggist samningur aðila á skriflegu tilboði sem stefndi samdi. Ber því að túlka óskýrleika í tilboðinu honum í óhag. Þá ber að líta til þess að hér er um að ræða mikla viðbót varðandi þennan þátt miðað við upphaflega fjárhæð tilboðsins. Ósannað er að stefndi hafi gert áfrýjanda ljóst að hann teldi þetta verk ekki innifalið í upphaflega tilboðinu. Í ljósi alls framanritaðs ber að telja það hafa verið í verkahring stefnda samkvæmt tilboðinu að fjarlægja umrædd stykki úr veggjunum, án þess að til kæmi sérstök greiðsla fyrir það. Verður því ekki fallist á kröfu hans um aukagreiðslur af þessum sökum.

Þá er fram komið að stefndi þurfti að saga vikurvegg dagana 5. og 6. september 2001 til að komast að vegg, sem saga átti í samkvæmt verksamningi aðila. Verður ekki séð að samið hafi verið um endurgjald fyrir þetta verk, enda er það ekki hluti af öðrum verkþáttum. Óumdeilt er að stefndi vann verkið með vitund áfrýjanda. Krafa stefnda vegna þessa er í framangreindu yfirliti tilgreind 116.274 krónur. Er ekkert fram komið annað en að krafa þessi sé í eðlilegu samræmi við vinnu vegna þessa liðar og er því á hann fallist.

Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að önnur umþrætt verk voru unnin samhliða þeim verkum sem tilgreind eru í tilboði stefnda og tengjast þau öll vinnu samkvæmt verkliðum í samningi aðila. Kröfur stefnda vegna þeirra verður því að líta á sem kröfur vegna aukins umfangs umsaminna verka vegna atvika er varða stefnda.

Fyrir liggur að við sögun í vegg fyrir lyftudyr var gert ráð fyrir að stefndi gæti athafnað sig frá vinnslusal stöðvarhúss virkjunarinnar. Í stað þess þurfti hann, að ósk áfrýjanda, að saga hinum megin frá, eða úr lyftugöngum, þar sem svigrúm til athafna var mun minna. Verður ráðið að þess vegna hafi stefndi þurft að gera sérstakar ráðstafanir, meðal annars vegna vatnsvarna. Er kröfugerð stefnda, sem að þessu lýtur, nægilega studd gögnum málsins þannig að fallist á þennan kröfulið hans með samtals 209.799 krónum.

Eins og að framan er rakið var tilboð stefnda miðað við tilgreinda þykkt veggja mælda í millimetrum. Er óumdeilt er að sumir veggir og gólf, sem sagað var í, reyndust þykkari en í tilboðinu gat, en aðrir þynnri. Í framangreindum yfirlitum um tilboð og aukaverk eru liðir vegna þessa og virðast sumir þeirra vera tilteknir á báðum yfirlitum. Þá er sundurliðun stefnda í greinargerð fyrir Hæstarétti um þennan þátt óglögg og ekki í fullu samræmi við framlögð gögn. Verður því þessum hluta kröfu stefnda vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið greiddi áfrýjandi 3. júní 2004 stefnda 28.068 krónur umfram það sem á vantaði til fullrar greiðslu höfuðstóls þess hluta kröfu stefnda sem hann taldi til tilboðs. Kemur sú greiðsla til lækkunar dæmdri fjárhæð. Samkvæmt öllu framanrituðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 298.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 501.768 krónum frá 11. júní 2002 til 3. júní 2004, en af 298.005 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi þeim hluta kröfu stefnda, Bortækni verktaka ehf., á hendur áfrýjanda, Kristjáni Jónssyni, sem reistur er á því að veggir í stöðvarhúsi Hrauneyjafossvirkjunar, sem stefndi sagaði í, hafi reynst þykkari en gert var ráð fyrir í verksamningi aðila.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 298.005 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 501.768 krónum frá 11. júní 2002 til 3. júní 2004, en af  298.005 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðs­dóms Reykja­víkur 7. nóvember 2003.

        Mál þetta, sem dómtekið var hinn 3. október sl., er höfðað fyrir Héraðs­dómi Reykja­víkur af Bortækni verktökum ehf., kt. 420597-3559, Vagnhöfða 19, Reykjavík, gegn Kristjáni Jónssyni, kt. 271042-2729, Réttarholti 5, Selfossi með stefnu birtri 3. júní 2002.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.580.587 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 4.580.587 kr. frá 20. mars 2002 til greiðsludags. Allt að frádregnum innborgunum: þann 28. september 2001 121.075 kr., þann 19. nóvember 2001, 500.000 kr., þann 26. október 2001, 600.000 kr., þann 23. nóvember 2001, 1.200.000 kr., eða alls að upphæð 2.421.075 kr., sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

          Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda.

          Til vara krefst stefndi að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

          Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

          Málsatvik

         Hinn 10. ágúst 2001 var gerður verksamningur milli stefnda Kristjáns Jónssonar, sem verktaka, og Landsvirkjunar, sem verkkaupa.  Samkvæmt samningnum tók verktaki að sér fyrir verkkaupa að byggja viðbyggingu og annast breytingar í Hrauneyjafossstöð, eins og nánar er tilgreint í “ÚTBOÐSGÖGNUM HRA-02, VIÐBYGGING OG BREYTINGAR.” Samkomulag varð um það milli stefnanda og stefnda að stefnandi tæki að sér hluta verksins, sem laut að kjarnaborun og sögun á nánar tilgreindum verkþáttum sem voru skilgreindir í framlögðu verk- og verðtilboði stefnanda. Varð um það samkomulag milli aðila að stefnandi myndi framkvæma verkliði nr. 1-9 í samræmi við verðtilboð sitt. Í tilboðinu var kveðið á um vinnutil­högun þar sem m.a. segir að stefndi skuli sjá um undirbúning og undirslátt, fjar­lægingu á múrbroti, verkpalla, fæði og uppihald.  Krafa stefnanda í málinu er byggð á reikningi dags. 20. mars 2002 að heildarfjárhæð 4.580.587 kr. fyrir verk samkvæmt tilboðinu og fyrir aukaverk í samræmi við framlagða sundurliðun. Óumdeilt er að stefndi hafi þegar greitt 2.421.075 kr. til stefnanda.

         Í málinu er ágreiningur með aðilum um greiðslu fyrir aukaverk, sem stefnandi gerir kröfu til, samtals að fjárhæð 1.983.817 kr.  Stefndi byggir á því að hann hafi ekki samþykkt nein aukaverk og telur sig hafa gert að fullu upp við stefnanda vegna verkþáttar hans.

 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

          Krafa stefnanda er byggð á reikningi sem er tilkominn vegna vinnu stefnanda fyrir stefnda. Um sé að ræða vinnu við Hrauneyjarfossvirkjun samkvæmt tilboði í 19 liðum. Hafi tilboð verið gert í vinnu m.a. við sögun á gluggagötum, dyragötum, gólfgötum og vegna gata í veggi. Einnig hafi verið gert tilboð í kjarnaborun.  Uppgefin verð í þessi göt og kjarnaborunina hafi verið eftir stærð þeirra og þykkt veggja. Samkvæmt yfirliti stefnanda hafi verið unnið jöfnum höndum við verk samkvæmt tilboðinu og umbeðin aukaverk  af stefnda eftir því sem verkinu vatt fram. Aukaverk hafi m.a. verið vegna vinnu stefnanda við vatnsvarnir og fjarlæginu á steinsteypustykkjum, en samkvæmt tilboði hafi það verið í verkahring stefnda að sjá um þessa hluti. Einnig hafi verið tekið fram í tilboði að stefndi skyldi sjá um uppsetningu vinnupalla og að rafmagn yrði í góðu lagi.  Svo hafi ekki verið í mörgum tilvikum og því hafi stefnandi orðið að vinna þessi verk sem aukaverk. Allt tilboðið hafi miðast við ákveðna þykkt á veggjum og stærð á götum og hafi stefndi verið meðvitaður um breytingu á verði ef breytingar yrðu á þykkt og stærð. Stefndi hafi sjálfur verið á staðnum er verkið var unnið og hafi hann verkstýrt öllu verkinu og öll þau aukaverk er unnin voru hafi verið unnin að hans beiðni.

          Tekið hafi verið tillit til innborgana við kröfugerð þessa.

          Reikningur stefnanda nr. 120 er að fjárhæð 4.580.587 kr., útgefinn 20. mars 2002 og með gjalddaga sama dag.

          Inn á skuldina hafa verið greiddar þessar innborganir: 28. september 2001  121.075 kr., 19. október 2001 500.000 kr., 26. október 2001 600.000 kr., 23. nóvem­ber 2001 1.200.000 kr., og hafi þegar verið tekið tillit til þeirra við gerð dómkrafna. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

          Varðandi lagarök er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuld­bind­inga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga 39/1922, en einnig í 45., 47. og 51.gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. laga nr. 39/1922 og 49. gr. laga nr. 50/2000.

          Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við l. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 36 gr. laga númer 91/1991.

 

         Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi lýsir málsatvikum svo að hann hafi annast verktöku vegna viðbyggingar og breytinga á Hrauneyjafossstöð á Landmannaafrétti fyrir Landsvirkjun. Hann hafi aflað tilboðs í hluta verksins, sem laut að kjarnaborun og sögun á nánar tilgreindum verkþáttum sem skilgreindir voru í 19 liðum, sbr. tilboð stefnanda. Stefnandi hafi boðið í verkið og í tilboðinu hafi verið ákvæði um vinnutilhögun þar sem m.a. hafi verið kveðið á um að stefndi myndi sjá um undirbúning og undirslátt, fjarlægingu á múrbroti, verkpalla, fæði og uppihald. Verktaki skyldi einnig sjá um að hægt yrði að fá vatn og rafmagn á staðnum er sögun átti að eiga sér stað. Samkvæmt tilboði stefnanda skyldi stefndi greiða 3.684.500 kr. fyrir verkið.

          Samkomulag varð um að stefndi myndi sjálfur framkvæma hluta af þeim verk­liðum sem tilgreindir voru í tilboðinu og myndi stefnandi eðlilega ekki fá greitt fyrir þá.  Nánar tiltekið hafi stefndi framkvæmt verkliði nr. 10 - 19 samkvæmt tilboðinu og hafi endurgjald stefnanda þannig átt að lækka um 1.106.500 kr. Stefnandi skyldi því fá greiddar 2.578.000 kr. fyrir verkliði 1 - 9 samkvæmt samkomulagi aðila.

          Stefndi efndi að sínu leyti efni verksamningsins og bauðst m.a. til að aðstoða stefnanda við að fjarlægja stykki úr þeim götum sem stefnandi kjarnaboraði og sagaði, án sérstaks endurgjalds. Hafi stefndi gert þetta þegar ljóst var að stefnandi ætti í vandræðum með verkið að þessu leyti, en stefndi hafði ótvíræða hagsmuni af því að verkið ynnist hratt og vel, vegna samnings hans við aðalverkkaupa. Stefndi hafði þá þegar fengið nokkrar athugasemdir frá aðalverkkaupa vegna vinnu stefnanda og frágangs á verkstað.

         Stefndi taldi sig hafa að fullu leyti gert upp við stefnanda vegna verksins þegar stefnandi hófst handa við að krefja stefnda um frekari greiðslur. Stefndi lagði til í óformlegum viðræðum við stefnanda að hann greiddi stefnanda 500.000 kr. til að ljúka málinu án frekari dráttar. Þeirri málamiðlunartillögu hafi stefnandi alfarið hafnað og sé stefndi á engan hátt bundinn af þeirri sáttatillögu. Stefnandi hóf því innheimtu­aðgerðir með atbeina lögmanns síns með bréfi dags. 26. mars 2002. Stefnda hafði þá ekki borist reikningur sá sem innheimta stefnanda byggir á og hafi í raun ekki enn fengið slíkan reikning í hendur.

         Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á því að á milli stefnanda og stefnda hafi stofnast tvíhliða, gagnkvæmur samningur um að stefnandi tæki að sér tiltekið verkefni gegn ákveðnu gjaldi. Stefndi hafi að fullu efnt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila og í raun ríflega það. Stefndi vísar til þess að samið hafi verið um að stefnandi tæki aðeins að sér hluta þeirra verkliða sem tilgreindir séu í verk- og verðtilboði stefnanda. Samkvæmt greindu tilboði skyldi stefnandi fá greiddar 2.578.000 kr. ­fyrir verkið. Óumdeilt sé að stefndi hafi þegar greitt 2.421.075 kr. til stefnanda. Stefndi telur að heildargreiðslur hans til stefnda séu hærri, eða u.þ.b. 2.700.000 kr. og hafi hann nú þegar greitt fyrir verkið að fullu.

          Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda um greiðslu vegna aukaverka sé bein­línis röng og hafi stefndi aldrei samþykkt nein aukaverk í tengslum við verksamning aðila. Samkvæmt almennum reglum kröfu- og verktakaréttar hafi stefnanda borið að afla fyrir fram samþykkis til aukaverka sem kynnu að falla til vegna verksins, hafi um þau verið að ræða. Vísast þar m.a. til meginreglna IST 30. Ótvírætt sé að þær meginreglur sem þar séu teknar fram gildi um verksamning aðila.

          Með sama hætti hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda fyrir fram um hugsan­legar hækkanir á því verði sem samið hafi verið um að stefndi skyldi greiða sam­kvæmt samningi aðila. Samningur aðila gerði ráð fyrir að stefndi greiddi stefnda tiltekna heildarfjárhæð fyrir verkið í heild sinni.

          Hafi forsendur fyrir þeim fjárhæðum breyst á verktímanum eða stefnandi talið sig knúinn til að hækka verð eða breyta samningi af einhverjum ástæðum hafi honum borið að semja um það sérstaklega við stefnda fyrir fram. Stefnandi geti ekki einhliða breytt ákvæðum verksamningsins og krafist þess að stefndi greiði hærra verð fyrir einstaka liði hans.

          Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefndi hafi átt að annast það að fjarlægja stykki úr götum sem stefnandi sá um að bora og saga. Ljóst sé að almennur skilningur á því hvað felist í sögun og borun steinveggja sé að eftir standi gat. Stefnanda bar, án nokkurs vafa, að annast um að taka stykki úr veggjunum, enda sé það hluti af sögun og borun. Stefnda bar eingöngu að fjarlægja múrbrot sem féll eðlilega til við sögun og borun. Hafi stefnandi ætlast til að stefndi annaðist um að fjarlægja stykkin sem féllu til við sögun og borun bar honum að tilgreina það í tilboðinu.

          Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi taka að sér ákveðna verkhluta, sem fól­ust í undirbúningi og undirslætti, fjarlægingu á múrbroti, verkpöllum, fæði og uppi­haldi. Jafnframt skyldi stefndi annast um að útvega vatn og rafmagn á verkstað. Stefndi hafi fyllilega staðið við sinn hluta samningsins. Að því leyti sem fjárkrafa stefnanda varðar þessa verkhluta er því mótmælt að til slíkrar kröfu hafi stofnast.

          Að öðru leyti er því mótmælt að stofnast hafi til skuldar stefnda umfram það sem um var samið að greitt skyldi fyrir verkið samkvæmt þeim hlutum tilboðsins sem stefnandi tók að sér að framkvæma.  Stefndi hafi að fullu efnt sinn hluta samningsins og í raun ríflega það.

          Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefndi skuli vera krafinn um greiðslu á reikningi, sem hafi ekki borist honum í hendur, þrátt fyrir sérstaka beiðni þar að lútandi sbr. bréf dags. 2. apríl 2002. Hafi á engan hátt verið gerður reki að því að skýra eða sundurliða kröfugerð stefnanda með viðhlítandi hætti, umfram það sem fram komi í innheimtubréfi dags. 26. mars sl. Þar sé höfuðstóll skuldarinnar tilgreindur 4.580.587 kr. en innborganir 2.421.075 kr. án frekari skýringa. Stefnandi verði að bera hallann af sönnunarskorti og óskýrri og órökstuddri kröfugerð sinni.

          Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt sem rangri.

          Verði á það fallist að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda er á því byggt að lækka beri þá kröfu verulega. Stefndi vísar til þess sem rakið er til rökstuðnings aðalkröfu, til stuðnings varakröfu sinni. Sérstaklega er á það bent að stefnandi hafi ekki fyrir fram samið um þau aukaverk sem hann krefur stefnda um greiðslu á.

          Þá er á því byggt að stefnandi hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á í hverju aukakostnaður sá, sem hann hefur krafist greiðslu á, felist. Stefndi byggir á því að sá aukakostnaður sem talinn sé upp í framlögðu yfirliti sé fjarri lagi og alltof hár. Stefnandi hafi ekki skýrt með hvaða hætti greindur kostnaður falli utan verðs samkvæmt samningi aðila. Stefndi telur ljóst að verulegur hluti af þeim kostnaði sem stefnandi telur til aukakostnaðar eigi að falla undir samningsgreiðslu stefnda, sem hann hafi þegar innt af hendi. Krafa stefnanda sé þannig alltof há og beri að lækka hana verulega.

          Varðandi lagarök byggir stefndi sýknukröfu sína á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra. Jafnframt er vísað til meginreglna verktakaréttar t.d. varðandi aukaverk. Þá er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að því er málskostnaðarkröfu varðar er byggt á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

         Niðurstaða

         Ágreiningur aðila í máli þessu varðar kröfu stefnanda um greiðslu fyrir aukaverk, samtals að fjárhæð 1.983.817 kr.  Gerð er grein fyrir aukaverkum þessum á sérstöku yfirliti, sem dagsett er 31. október 2001.  Samkvæmt því yfirliti og ítarlegri verk­lýsingu ásamt myndum, sem liggur fyrir í málinu, hefur stefnandi innt af hendi tiltekin verk, sem ekki er getið sérstaklega um í því verk- og verðtilboði, sem aðilar eru sam­mála um að verktaka stefnanda byggðist á. Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila og öll þeirra samskipti varðandi framkvæmd verksins voru munnleg, að frátöldu greindu verk- og verðtilboði, sem leggja ber til grundvallar, svo langt sem það nær. 

         Í tilboði þessu segir m.a. svo um vinnutilhögun:  “Verkkaupi sér um undirbúning og undirslátt, fjarlægingu á múrbroti, verkpalla, fæði og uppihald. Verkkaupi mun einnig sjá um að hægt verði að fá vatn og rafmagn á staðnum er sögun á að eiga sér stað. …”

         Í  yfirliti og verklýsingu aukaverka er í allnokkrum tilvikum um það að ræða að stefnandi hefur unnið við að brjóta og fjarlægja steypustykki eftir kjarnaborun eða sögun. Ekki verður talið að sú vinna hafi verið innifalin í verk- og verðtilboði hans og með skírskotun til þess að það hafi verið á verksviði stefnda að sjá um að fjarlægja múrbrot beri stefnanda að fá greitt aukalega fyrir vinnu sína að þessu leyti.

         Óumdeilt er að stefnda bar að annast vatnsvarnir vegna vinnu stefnanda við borun og sögun.  Ber því einnig að fallast á að stefnanda beri að fá greitt aukalega fyrir vinnu sína vegna ófullnægjandi vatnsvarna.

         Þá verður að ætla að stefnda hafi verið kunnugt um önnur þau aukaverk, sem stefnandi vann og tilgreind eru í yfirliti hans og samþykkt framkvæmd þeirra í raun. Svo sem samskiptum og samstarfi aðila var háttað varðandi framkvæmd verksins samkvæmt gögnum málsins verður ekki talið að stefnandi skuli bera halla af því að hafa ekki sett fram skriflegar kröfur vegna breytinga á verkinu. Verður því fallist á kröfu stefnanda um greiðslu vegna tilgreindra aukaverka.

         Samkvæmt framansögðu, og þar sem stefndi hefur ekki sýnt fram á að reiknings­fjárhæð stefnanda standist ekki tölulega, verður krafa stefnanda tekin til greina þannig, að teknu tilliti til innborgana, að stefnda ber að greiða stefnanda 2.159.512 kr. með dráttar­vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. júní 2002 til greiðslu­dags. Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefn­anda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 kr.   Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Kristján Jónsson, greiði stefnanda, Bortækni verktökum ehf. 2.159.512 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. júní 2002 til greiðsludags og 400.000 kr.  í málskostnað.