Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Föstudaginn 13. nóvember 2009. |
|
Nr. 629/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Viðbótargögn bárust réttinum 3., 9. og 12. nóvember 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2009, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni, eins og þar greinir nánar í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara að „tímalengd nálgunarbannsins verði stytt, að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar bann við símasamskiptum og að úrskurðinn verði felldur úr gildi að því er varðar bann við því að kærandi veiti A eftirför eða nálgist hana á almannafæri.“ Þá krefst varnaraðili þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með vísan til 4. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 verður varnaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað í ríkissjóð þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Varnaraðili, X, greiði kærumálskostnað í ríkissjóð, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að M, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis M, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er þess krafist að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- og farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í samband við hana.
Verjandi varnaraðila krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjóra verði hafnað. Til vara er þess krafist að krafa sóknaraðila verði aðeins tekin til greina að mjög takmörkuðu leyti. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. þóknun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að varnaraðili og A eigi saman fjögurra ára gamlan dreng en séu ekki í sambandi. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úrskurðað í apríl 2009 um umgengni drengsins og varnaraðila. Úrskurðurinn feli í sér að umgengni drengsins og varnaraðila fari fram undir eftir eftirliti barnaverndarnefndar.
Varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn þann 2. september 2009 þegar hann hafði afplánað helming 9 mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum 27. nóvember 2008 þar sem hann hafi verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot. Eftir að varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn hafi A tvívegis kært hann fyrir hótanir og áreiti auk þess sem stjúpfaðir hennar og móðir hafi lagt fram kæru á hendur honum vegna lífláts- og ofbeldishótana í garð fjölskyldunnar, sbr. eftirfarandi:
007-2009-59127
Föstudaginn 25. september 2009 kl. 15:16 hafi A komið á lögreglustöð og kært varnaraðila fyrir hótanir. Sé tekið fram í skýrslunni að A hafi verið í miklu uppnámi og greinilega mjög hrædd er hún kom á lögreglustöðina. A hafi borið að varnaraðili væri búinn að vera í fangelsi og hún hefði fengið frið fyrir honum á meðan, en honum hafi nýlega verið sleppt. Kvað hún að rétt áður, eða klukkan 15, er hún hafi verið að aka norður Reykjanesbraut og verið skammt frá Sprengisandi, hefði hún orðið vör við að bifreið, sem ekið var í gagnstæða átt, tók u-beygju og veitti henni síðan eftirför. Bifreiðinni hafi síðan verið ekið meðfram hennar bifreið þannig að hún neyddist til að stoppa á miðri akrein. Varnaraðili hefði svo komið út úr bifreiðinni og hefði hann verið alveg brjálaður. Kvaðst hún hafa náð að læsa bifreið sinni en varnaraðili hefði mikið reynt að rífa hurðina upp. Þá hafi hann barið bifreiðina að utan og reynt að brjóta hliðarrúðuna. Jafnframt hefði hann öskrað á hana að passa sig. Hann hefði bent á höfuð hennar og gefið bendingar eins og hann myndi skjóta hana. Varnaraðili hefði svo farið burt þegar hann gat ekki opnað bifreiðina. Kvað hún vinkonu sína, B, hafa verið í bifreiðinni með sér og því vitni að þessu. Hafi hún jafnframt tekið fram í skýrslutökunni að þriðjudaginn 22. september hefði hún orðið vör við að varnaraðili veitti henni eftirför er hún ók úr Hlíðunum og upp á Bústaðaveg. Kvaðst hún hafa orðið mjög hrædd en náð að stinga hann af.
Þann 14. október 2009 hafi verið tekin skýrsla af B vegna ofangreinds. Lýsti hún því hvernig varnaraðili hefði veitt þeim eftirför. Kvað hún hann hafa ekið það nærri þeim að nokkrum sinnum hafi legið við árekstri. Varnaraðili hefði farið fram úr bifreið A þegar þær voru að aka á Reykjanesbraut við Sprengisand. Er varnaraðili hefði verið fyrir framan bifreiðina hefði hann hemlað nokkrum sinnum þannig að A hefði rétt náð að hemla til þess að lenda ekki aftan á bifreið hans. A hefði svo stöðvað bifreiðina þar sem hún hefði ekki treyst sér til að aka áfram. Varnaraðili hefði þá einnig stöðvað sína bifreið, komið út og gengið að bifreið A. Hann hefði verið mjög æstur og öskrað á A að passa sig. Hann hefði reynt að opna bílstjórahurðina hjá A en þær hafi verið búnar að læsa bifreiðinni. Hann hefði bent á höfuðið á A eins og hann væri að gefa til kynna að hann ætlaði að skjóta hana og um leið hefði hann öskrað á hana að passa sig. Hann hefði reynt að brjóta rúðu í bifreiðinni með því að berja mjög fast í hana og einnig hefði hann barið í bifreiðina. Aðspurð hafi B borið að mjög mikil hætta hafi verið á ferðum þegar varnaraðili veitti þeim eftirför en það hafi nokkrum sinnum legið við árekstrum milli bifreiðanna.
007-2009-63627
Þann 13. október 2009 hafi A komið aftur á lögreglustöð og kært varnaraðila fyrir hótanir og áreiti. Kvaðst hún hafa verið að rúnta með vinkonu sinni, C, þegar hún hafi séð varnaraðila setjast inn í bifreið sína við Hressingaskálann. Kvaðst hún hafa orðið mjög hrædd er hún sá varnaraðila og hún hafi ekið að verslun Bónus við Granda þar sem hún hafi stöðvað bifreiðina og beðið C að aka bifreiðinni þar sem hún hafi ekki treyst sér til þess að aka eftir að hafa séð varnaraðila. C hefði svo ekið frá Bónus og að hringtorgi við Granda þar sem hún hafi tekið eftir því að varnaraðili elti þær. Varnaraðili hefði fylgt þeim eftir og reynt að aka á bifreið þeirra nokkrum sinnum en C hefði náð að forða árekstri með því að beygja ítrekað frá. C hefði ekið út á Seltjarnarnes og hefði varnaraðili elt þær. Hann hefði ekið nánast alla leið út á Seltjarnarnes við hliðina á og fyrir aftan bifreið þeirra. C hefði svo ekið til baka fram hjá Hagkaup á Seltjarnarnesi og áleiðis út á Granda. C hefði svo ekið að Kaffivagninum þar sem þær hafi hitt lögregluna. Kvaðst A hafa verið í sambandi við lögregluna allan tímann á meðan á eftirförinni stóð. Hafi A tekið fram að þær hefðu verið með tvö ung börn í bifreiðinni. A kvaðst óttast um líf sitt þar sem varnaraðili hefði áður hótað því að drepa hana. Hafi A krafist þess að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni þar sem hún óttaðist að hann ynni henni mein.
Þann 13. október hafi verið tekin skýrsla af C vegna málsins. Bar hún að hún hefði verið ásamt A að aka fram hjá Hressingarskálanum við Austurstræti þegar A sá varnaraðila og hann hefði séð A. A hefði orðið mjög hrædd og sagt að þær þyrftu að komast í burtu. Hún hefði ekið dálítinn spöl og stoppað á bifreiðastæði í miklu uppnámi. C kvaðst þá hafa tekið við akstri bifreiðarinnar. Þær hefðu svo séð að varnaraðila var að veita þeim eftirför. Kvaðst hún hafa ekið út á Granda og út á Seltjarnarnes til þess að reyna að hrista hann af sér en hann hefði ekið hættulega nálægt þeim þrátt fyrir að tvö ung börn hafi verið í bifreiðinni með þeim. Kvaðst hún hafa komið í veg fyrir árekstur nokkrum sinum með því að beygja og auka hraðann eftir aðstæðum. Þessu hafi ekki lokið fyrr en lögreglan skarst í leikinn. Aðspurð um samskipti A og varnaraðila kvaðst C vita að hann hefði margsinnis ógnað A.
Lögregla hafi haft afskipti af málinu eftir að A hringdi hrædd. Hafi henni verið bent á að aka á móti lögreglu. Lögregla hafi rætt við varnaraðila vegna þessa, samanber bókun lögreglu sem fylgi málinu.
Þann 14. október 2009 hafi stjúpfaðir A, D, haft samband við lögreglu vegna þess að varnaraðili hefði í hádeginu hringt í farsíma hans og hótað A og fjölskyldunni lífláti og ofbeldi. Í kjölfarið hefði varnaraðili sent D smáskilaboð þar sem m.a. komi fram að ekki væri um hótanir að ræða heldur loforð. Um kvöldið hefði svo óþekktur maður hringt þrisvar í heimasíma D og móður A og sagt að fjölskyldunni yrði stútað ef hún hótaði félaga þess sem talaði aftur. Hringt hafi verið úr almenningssíma sem staðsettur sé í anddyri Sundhallar Reykjavíkur. Hafi D tekið fram í skýrslutöku vegna málsins að hann hefði aldrei hótað varnaraðila. Kvað hann að móðir A, E, hefði í hringt í varnaraðila í kjölfarið og beðið hann um að hætta þessu. Hafi varnaraðili þá sagt að hann gæti komið þessu til skila. Þau D og E hafi bæði lagt fram kæru á hendur varnaraðila fyrir þessar hótanir.
Varnaraðili hafi verið yfirheyrður vegna ofangreindra mála. Kannist hann við málin en neiti sök.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 1. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann séu uppfyllt. Í 2. mgr. 3. gr. laganna segi að við mat á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir nálgunarbanni skuli meðal annars líta til framferðis þess sem krafist er að sæti því. Jafnframt skuli horfa til hagsmuna þess sem njóta ætti verndar af nálgunarbanni með tilliti til þeirra takmarkana sem bannið legði á athafnafrelsi þess sem krafist er að sæti því. Af því sem rakið hafi verið að ofan sé ljóst að varnaraðili hafi nú á stuttu tímabili, eftir að hann hlaut reynslulausn, hótað A og fjölskyldu hennar lífláti og ofbeldi auk þess að veita A tvívegis eftirför í umferðinni þannig að henni bjó mikil hætta af. Hafi hann hagað sér á mjög óútreiknalegan hátt og hafi A fulla ástæðu til að óttast hann enda hafi hann tvívegis verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot. Í ljósi framferðis hans gagnvart A nýverið telji lögreglustjóri rökstudda ástæðu til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot gegn henni eða raska friði hennar á annan hátt verði ekkert að gert. Verði hagsmunir A að teljast vega þyngra en hagsmunir varnaraðila.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 1. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann.
Í greinargerð varnaraðila er reifað að A hafi komið í veg fyrir umgengni varnaraðila við son hans og hafi dregið í efa að varnaraðili væri faðir drengsins. Þá bæri hún á varnaraðila alvarlegar sakir um kynferðislega misnotkun og að barnið hefði komið undir við þær aðstæður. Varnaraðili hafi höfðað mál til ómerkingar ummælum sem A hefði látið falla við fyrirtöku sýslumanns á umgengnismáli. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úrskurðað í mars 2009 um umgengni varnaraðili við son sinn, en umgengni hefði aldrei farið fram vegna tálmana A. Varnaraðili kveður að framganga A í þessu máli hafi ekki á sér þann blæ að hún virði sannleikann. Barn þeirra hafi farið á mis við umgengni við föðurinn og hefði verið rangfeðrað í dag, ef ekki hefði komið til þrautseigja varnaraðila við að vinda ofan af rangfærslum A.
Varnaraðili vefengir sannleiksgildi framburðar A hjá lögreglu vegna þeirra kæra á hendur sér, sem sóknaraðili byggir kröfu sína á. Hann kveðst aldrei hafa hóta því að skjóta A, heldur hafi A mistúlkað eða oftúlkað bendingu varnaraðila þegar hann sneri sér við og benti á hana. Þá dragi úr trúverðugleika framburðar vitnanna B og C, að þær og A séu góðar vinkonur.
Varnaraðili telur ekki lagaskilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila. Annars vegar sé um að ræða óljósar ásakanir um að varnaraðili standi á einhvern hátt að baki meintum hótunum gagnvart stjúpföður A, hins vegar sé um þau tilvik að ræða að varnaraðili og A hafi ekið um sömu götur á sama tíma. Við þetta bætist að sóknaraðili hafi ekki rannsakað málið að neinu marki og ekki af fullkominni hlutlægni.
Að mati varnaraðila hafi hann ekki farið út fyrir það sem eðlilegt sé í samskiptum foreldra vegna umgengni við barn þeirra. Ótækt sé að A verði gert auðveldara fyrir að tálma umgengni varnaraðila við barn sitt með því að fallast á nálgunarbannskröfu.
Niðurstaða.
Eins og að framan greinir hefur A tvívegis kært varnaraðila fyrir hótanir og áreiti í sinn garð og stjúpfaðir hennar og móðir hafa einnig lagt fram kæru á hendur honum vegna lífláts- og ofbeldishótana í garð fjölskyldunnar. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram hann hafi einungis verið að leita eftir umgengni við son sinn.
Við rannsókn lögreglu á þeim kærum sem A lagði fram á hendur varnaraðila voru vitni þau sem voru farþegar í bifreið A umrædd skipti, yfirheyrð. Var frásögn þeirra á sömu lund og frásögn A um ógnandi framkomu varnaraðila í garð A. Þá leitaði A aðstoðar lögreglu, sem kom á vettvang í einu þeirra tilvika sem krafa um nálgunarbann er reist á.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 122/2008 er heimilt að leggja á nálgunarbann ef ástæða er til að ætla, að sá sem nálgunarbanni skal sæta, muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Við mat á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir nálgunarbanni skal meðal annars líta til framferðis þess sem krafist er að sæti því á fyrri stigum og jafnframt horfa til hagsmuna þess sem njóta ætti verndar af nálgunarbanni.
Í ljósi þeirra kæra sem fram eru komnar á hendur varnaraðila og þess sem rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós um samskipti A og varnaraðila er urðu tilefni kæru á hendur honum, er fallist á að fram sé komin rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A. Hegðun varnaraðila í garð A verður með engu móti réttlætt með vísan til þess að honum hafi verið meinuð umgengni við son sinn. Til lausnar þeim ágreiningi nýtur hann úrræða samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Þegar framangreint er virt er fallist á nálgunarbann eins og greinir í úrskurðarorði.
Í samræmi við 4. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann ber að úrskurða varnaraðila til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 1. gr. laga um nálgunarbann nr. 122/2008, í 6 mánuði frá birtingu úrskurðar, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, að M, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis M, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er varnaraðila bannað að veita A eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima,- vinnu- og farsíma hennar, eða setja sig á annan hátt í samband við hana.
Varnaraðili greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.