Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2013
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013 |
|
Nr. 212/2013.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms.
Þar sem meira en fjórar vikur höfðu liðið frá munnlegum málflutningi til dómsuppsögu í héraði, og ekki hafði verið bókað að dómari og sakflytjendur teldu ekki þörf á endurflutningi málsins, var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka það til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Ákærði krefst krefst aðallega sýknu, en til vara að fésekt verði lækkuð.
Ákveðið var að fjalla um formhlið málsins fyrir Hæstarétti, en sækjandi og verjandi ákærða töldu óþarft að munnlegur málflutningur færi fram um það efni, sbr. 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málið var tekið til dóms í héraði 20. nóvember 2012 en hinn áfrýjaði dómur var upp kveðinn 20. desember sama ár. Leið því lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Í endurriti vegna þinghalds, sem háð var til uppkvaðningar dóms, er aðeins bókað að verjandi ákærða og sækjandi hafi ekki sótt þing.
Samkvæmt framansögðu var við uppkvaðningu dómsins ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 til að í málinu yrði kveðinn upp dómur án þess að það yrði flutt að nýju. Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði en hann felst í málsvarnarlaunum verjanda ákærða fyrir Hæstarétti. Verða þau ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 94.125 krónur greiðast úr ríkissjóði.