Hæstiréttur íslands

Mál nr. 293/2017

Auður Hrefna Guðmundsdóttir (Ragnar Baldursson hrl.)
gegn
Davíð Stefánssyni og Hrund Ólafsdóttur (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður

Reifun

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu hans um að mál, sem hann hafði höfðað gegn D og H, yrði fellt niður og honum gert að greiða D og H óskipt 1.400.000 krónur. Í dómi Hæstaréttar var vísað til yfirlits sem fylgdi málskostnaðarreikningi D og H um unnar vinnustundir þeirra, þar á meðal vegna gerðar matsbeiðni og samskipta við matsmenn. Kom fram að þar sem matsgerð hefði hins vegar ekki legið fyrir þegar málið var fellt niður yrði ekki tekið tillit til þóknunar matsmanna eða annars matskostnaðar. Með vísan til þessa var A gert að greiða D og H 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2017 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðilum var fellt niður og henni gert að greiða þeim óskipt 1.400.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði, en til vara að hann verði felldur niður eða lækkaður. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Tildrög máls þessa voru þau að varnaraðilar keyptu fasteignina að Otrateigi 5 í Reykjavík af sóknaraðila með kaupsamningi 26. nóvember 2015. Vegna ætlaðra galla á eigninni héldu varnaraðilar eftir 2.000.000 króna lokagreiðslu sem greiðast átti við útgáfu afsals 15. janúar 2016. Með bréfi 8. mars 2016 lýstu varnaraðilar yfir riftun kaupanna, en því hafnaði sóknaraðili með bréfi 16. sama mánaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál gegn varnaraðilum sem þingfest var 20. október 2016 til heimtu lokagreiðslunnar samkvæmt áðurgreindum kaupsamningi. Í þinghaldi 14. febrúar 2017 lögðu varnaraðilar fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og voru í kjölfarið dómkvaddir tveir menn til að meta hvort fasteigninni hafi verið áfátt vegna galla. Hinn 14. mars 2017 óskaði sóknaraðili eftir því að málið yrði fellt niður og var á þá kröfu fallist í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um. Í samræmi við það ber sóknaraðila að greiða varnaraðilum málskostnað vegna rekstrar málsins í héraði eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Í a. lið þeirrar lagagreinar er kveðið á um að til málskostnaðar teljist kostnaður af flutningi máls og í g. lið annar kostnaður en sá sem talinn er upp í a. til f. liðum og stafar beinlínis af máli.

Við ákvörðun málskostnaðar í héraði er höfð hliðsjón af yfirliti sem fylgdi málskostnaðarreikningi varnaraðila um unnar vinnustundir lögmanns þeirra, þar á meðal við gerð matsbeiðni og vegna samskipta við matsmenn fram til 21. apríl 2017 er málið var fellt niður. Þar sem matsgerð lá þá ekki fyrir verður á hinn bóginn við ákvörðun málskostnaðar ekki tekið tillit til þóknunar matsmanna eða annars matskostnaðar. Samkvæmt þessu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum sameiginlega 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Sóknaraðili, Auður Hrefna Guðmundsdóttir, greiði varnaraðilum, Davíð Stefánssyni og Hrund Ólafsdóttur, sameiginlega 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2017.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. mars sl., er höfðað með stefnu sem þingfest var þann 20. október 2016 í Héraðsdómi Reykjavíkur af Auði Hrefnu Guðmundsdóttur, Háteigsvegi 24, Reykjavík, á hendur Davíð Stefánssyni, Nökkvavogi 20, Reykjavík og Hrund Ólafsdóttur, Veghúsum 29, Reykjavík.

Stefnandi krafðist þess að stefndu yrðu dæmd til að greiða sér 2.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 15. janúar 2016 til greiðsludags, gegn útgáfu afsals af hálfu stefnanda til stefndu fyrir fasteigninni að Otrateigi 5, fastanúmer 201-6980, Reykjavík. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar.

Stefndu kröfðust sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda væru lækkaðar verulega. Þá kröfðust stefndu málskostnaðar.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing stefndu um riftun kaupsamnings um eignina dags. 8. mars 2016. Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 16. mars 2016 var kröfu um riftun hafnað og gerð krafa um greiðslu eftirstöðva kaupverðs.

Mál þetta var sem áður segir þingfest 15. desember 2016

Eftir þingfestingu var málið tekið fyrir 17. nóvember 2016 og 1. desember 2016. Í báðum þinghöldum var stefndu veittur frestur til að skila greinargerð. Í þinghaldi 15. desember 2016 var skilað greinargerð af hálfu stefndu og fór málið til dómstjóra til úthlutunar. Undirrituðum dómara var úthlutað málinu þann 10. janúar 2017. Dómari tók málið fyrir 20. janúar sl. og 6. febrúar sl. Í þinghaldinu 6. febrúar sl. lagði lögmaður stefndu fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og voru tveir matsmenn dómkvaddir í næsta þinghaldi, 14. febrúar sl. Í þinghaldi 14. mars sl. lagði lögmaður stefnanda fram samþykki á riftun kaupsamnings um fasteignina Otrateigi 5 og að fallið væri frá fyrri andmælum um riftun, dags. 16. febrúar 2017. Í sama þinghaldi lagði lögmaður stefndu fram bókun þar sem fram kom að litið væri svo á að samkomulag hefði tekist með aðilum um að fallið hafi verið frá loforði og ákvöð sem fólst í yfirlýsingu stefndu um riftun þann 16. mars 2016. Stefnanda væri löngu ljóst að í verki verið fallið frá yfirlýsingu um riftun, engin mótmæli verið höfð í frammi og stefnandi væri bundin af ráðstöfun sakarefnis í stefnu og málflutningsyfirlýsingum sem þar fælust og í dómkröfum stefnanda. Í stefnu sé litið fram hjá yfirlýsingu um riftun og jafnframt í ummælum á bls. 3 í stefnu. Þar segi að yfirlýsingu um riftun hafi ekki verið fylgt eftir og stefndu farið í umfangsmiklar framkvæmdir á eigninni. Þeir virðist því ekki ætla að halda kröfum um riftun  til streitu.

        Í þinghaldinu 14. mars sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir því að málið yrði fellt niður og stefndu yrði gert að greiða stefnanda málskostnað. Lögmaður stefndu mótmælti málskostnaðarkröfu stefnanda og krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda með vísan til 2. mgr. 105. gr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málið var flutt munnlega um málskostnaðarkröfur aðila þann 22. mars sl. og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.

      Samkvæmt 2. mgr.  105. gr. laga nr. 91/1991, segir að ef mál er fellt niður skv. b- til e-lið 1. mgr. og stefndi sækir þing og krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda kveði dómari upp úrskurð um kröfuna og niðurfellingu málsins.

Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er mál þetta fellt niður. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli, sbr. og 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Telja verður að stefnanda hafi mátt vera ljóst að stefndu höfðu fallið frá riftunarkröfu sinni. Með vísan til þessa verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað. Með vísan til framangreinds verður hafnað kröfu stefnanda um málskostnað úr hendi stefndu.

Með vísan til þessa, atvika málsins og umfangs þess þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.400.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.

Uppkvaðning úrskurðar hefur vegna embættisanna dómara dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 1991, um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málið er fellt niður.

Stefnandi, Auður Hrefna Guðmundsdóttir, greiði stefndu, Davíð Stefánssyni og Hrund Ólafsdóttur, óskipt 1.400.000 krónur í málskostnað.