Hæstiréttur íslands

Mál nr. 169/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Geðrannsókn


Þriðjudaginn 26

 

Þriðjudaginn 26. apríl 2005.

Nr. 169/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Geðrannsókn.

X hafði ítrekað haft í hótunum um að beita nafngreinda menn ofbeldi, þar á meðal A. Hafði X setið fyrir A fyrir utan heimili hans og ráðist að honum með hnefahöggum þegar hann kom heim til sín. Fallist var á kröfu L um geðrannsókn og gæsluvarðhald með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2005 kl. 16 og sæta geðrannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur í gildi að því er snertir gæsluvarðhaldið en honum þess stað gert að sæta nálgunarbanni.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram, að ekki séu uppfyllt skilyrði c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að taka kröfu sóknaraðila til greina. Nægilegt sé að beita því vægara úrræði sem greinir í 110. gr. a. laga nr. 19/1991 og felst í nálgunarbanni. Hafi hann sjálfur samþykkt slíkt bann. Telur hann það úrræði hafa í „yfirgnæfandi fjölda tilvika dugað til þess að stemma stigu við ónæði, hótunum eða ofbeldi ...“. Þá telur hann kröfu sóknaraðila í þessu máli brjóta gegn jafnræðisreglu með því að varnaraðila sé mismunað gagnvart svokölluðum handrukkurum, sem hafi „orðið uppvísir að ítrekuðum og hrottalegum ofbeldisverkum og hótunum gagnvart öðrum einstaklingum, t.d. vegna fíkniefnaskulda.“

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili ítrekað haft í hótunum um að beita nafngreinda menn ofbeldi, þar á meðal A prófessor. Hafa hótanir hans gagnvart prófessornum beinst að því að fá hann til að breyta rannsóknarskýrslu í máli sem varðar varnaraðila. Samkvæmt gögnum málsins munu þetta vera einu tengsl hans við prófessorinn. Þann 22. þessa mánaðar sat varnaraðili síðan fyrir A fyrir utan heimili hans og réðst að honum með hnefahöggum þegar hann var að koma heim til sín. Samkvæmt læknisvottorði, sem lagt hefur verið fram í Hæstarétti, hlaut A áverka í andliti, glóðarauga báðum megin, verulega bólgu á kinnar, rispu yfir vinstra gagnauga og eymsli yfir framtönnum. Þá sé hann aumur yfir 7. rifi vinstra megin.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af varnaraðila að kvöldi árásardagsins 22. apríl játaði hann að hafa hótað A frekari líkamsmeiðingum „til þess að leggja meiri áherslu á það sem ég var að segja við hann“ eins og það er bókað eftir honum. Þá eru meðal gagna í málinu upplýsingar um að varnaraðili hafi, stuttu eftir árásina á A en áður en hann var handtekinn, sent frá sér tölvupóst, þar sem hann hælist um af árásinni og hefur í hótunum um frekara ofbeldi.

Að öðru leyti er vísað um málsatvik til hins kærða úrskurðar.

Fallist verður á með sóknaraðila, að uppfyllt séu skilyrði d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að hneppa varnaraðila í gæsluvarðhald. Eins og atvikum málsins er háttað, einkum með hliðsjón af því að varnaraðili hefur við árásina og eftir hana haft í hótunum um að halda áfram ofbeldisverkum sínum, er ekki fallist á að úrræði samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 veiti viðkomandi einstaklingum nægilega vernd fyrir varnaraðila. Ekkert hald er í málflutningi af hálfu varnaraðila um að ætluð meðferð lögreglu á málum annarra ofbeldismanna leiði til þess að hann njóti sérstaks réttar til að sæta ekki gæsluvarðhaldi.

Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2005.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að undanfarin tvö ár hafi kærði af og til áreitt B og eiginkonu hans C og börn þeirra en þau séu búsett í Danmörku, m.a. með því að senda þeim tölvupósta og símaskilaboð með hótunum. Standi B og fjölskyldu hans mikinn stuggur af kærða. Í mörgum þessara skilaboða sem kærði hafi sent B og fjölskyldu hans komi fram að kærði hafi jafnframt í hyggju að vinna A prófessor mein. Þá hafi kærði sent A sjálfum tölvupósta og hringt margsinnis á heimili hans og eiginkonu hans og haft í hótunum við þau. Lögreglan hafi nokkrum sinnum haft samband við A og tjáð honum að lögreglan hefði áhyggjur af velferð hans.

Mánudaginn 18. þ.m. hafi kærði komið á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur A vegna óljósra sakargifta. Í kjölfar þessar komu kærða á lögreglustöð hafi lögreglan enn haft samband við A í því skyni að vara hann við kærða. Dagana 19. og 20. þ.m. hafi A tilkynnt að kærði hefði hringt í hann og haft í hótunum við hann. Hafi lögreglan gert ráðstafanir til að hafa eftirlit með heimili A. Í gær hafi lögreglu borist tilkynning um að kærði hefði setið fyrir A fyrir utan heimili hans og ráðist á hann. Síðar um daginn hafi A lagt fram kæru á hendur kærða vegna árásarinnar og hótana í sinn garð. Kveðst A hafa verið að koma heim til sín þegar kærði hafi gengið til hans og hafði í hótunum við hann. Kvað hann kærða hafa gefið sér tveggja sólarhringa frest til að skila greinargerð en að öðrum kosti myndi hann verða “tekinn í gegn af harðasta fíkniefnagenginu í bænum” en kærði hafi síðan látið hnefahöggin dynja á honum bæði meðan hann stóð við bifreið sína og eins eftir að hann féll í jörðina. Þá hafi A greint frá því í kæruskýrslu sinni að kærði hefði um nokkurt skeið haft í hótunum við sig og konu sína, bæði í símtölum og með tölvupóstum. Kvaðst A vera áhyggjufullur þar sem honum virtist sem andlegri heilsu kærða færi sífellt hrakandi. A sé opinber starfsmaður og hafi ekki átt nein samskipti við kærða nema vegna starfs síns. Ekki verði annað ráðið af fyrirliggjandi rannsóknargögnum en árás kærða og hótanir í garð A séu vegna starfa hans sem opinbers starfsmanns.

Kærði hafi verið handtekinn kl. 21:26 í gærkvöldi. Í skýrslu sem tekin hafi verið af honum hjá lögreglu stuttu eftir handtöku hafi hann viðurkennt að hafa ráðist á A eftir að hafa beðið um hálfa klukkustund fyrir utan heimili hans. Kvaðst kærði hafa sagt A að ef hann ekki færi að vilja hans myndi hann halda þessu áfram. Þá hafi kærði viðurkennt að hafa margsinnis haft í hótunum við A. Þann 21. apríl sl. framsendi B lögreglu tölvupóst sem honum hafði borist frá kærða. Í pósti þessum segir m.a. svo: “Núna verður A laminn og laminn og laminn aftur þangað til hann játar … Í vinnunni, heima hjá sér eða á ættarmóti skiptir engu A verður barinn þangað til hann játar punktur. Kveikt í heima hjá honum, kveikt í bílnum hans eða eitthvað annað verra. Og B  þegar málið er frágengið þá sleppur þú ekki lifandi útúr evrópu”. Í gærkvöldi hafi B framsent lögreglu annan tölvupóst sem honum hafi borist frá kærða. Af pósti þessum sé ljóst að hann hafi verið skrifaður eftir að kærði réðist á B í gær. Í tölvupósti þessum segir m.a.: “Well nú hefur karlinn smá frest til að hugsa málið af því að ég er so sanngjarn og so byrja lætin f alvöru aftur og aftur og aftur þar til B litli sér ljósið”.

Fyrirliggjandi rannsóknargögn beri með sér að kærði muni ekki láta af hótunum sínum í garð A ef hann haldi frelsi sínu. Þá þyki einsýnt að kærði muni ekki láta við það sitja að hafa í hótunum við A eins og alvarleg árás hans á A í gær sýni best og af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að kærði hafi færst mjög í aukana síðustu daga. Beri því að mati lögreglu brýna nauðsyn til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að hann geti haldið áfram brotum og  til að vernda Aog eiginkonu hans og jafnframt B og fjölskyldu hans fyrir árásum kærða.

Það sé og mat lögreglu að fyrirliggjandi rannsóknargögn beri þess skýr merki að ástæða sé til að kanna geðhagi kærða og í því skyni er þess krafist að hann sæti geðrannsókn.

Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætluð brot kærða XII, XXIII. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sem varðað geta fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Krafa um gæsluvarðhald byggist á c- og d-liðum 1. mgr. 103. gr. og krafa um geðrannsókn við d-lið 1. mgr. 71. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna er þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Þegar litið er til gagna málsins verður að telja nauðsynlegt að verja tilgreinda einstaklinga fyrir árásum kærða. Kærði hefur haft í alvarlegum hótunum við það fólk og ráðist á A. Eins og málið er vaxið og með vísan til rannsóknargagna þykir nálgunarbann ekki tækt úrræði. Ber því að taka kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Kærði hefur ekki mótmælt kröfu um að hann sæti geðrannsókn og verður hún tekin til greina eins og hún er fram sett.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 20. maí 2005 kl. 16:00. Kærði skal sæta geðrannsókn.