Hæstiréttur íslands
Mál nr. 741/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Lögheimili
|
|
Miðvikudaginn 4. desember 2013. |
|
Nr. 741/2013. |
Drómi hf. (Ólafur Kjartansson hdl.) gegn Stefáni Karli Stefánssyni (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lögheimili.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu D hf. um gjaldþrotaskipti á búi S var hafnað. S hafði ekki skráð lögheimili hér á landi og með vísan til 4. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. var ekki unnt að taka bú hans til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann „málskostnaðar fyrir Hæstarétti“.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2013.
Drómi hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, krafðist þess með bréfi, sem barst dóminum 13. ágúst 2013, að bú Stefáns Karls Stefánssonar, kt. [...], með lögheimili í Bandaríkjunum en dvalarstað að [...], Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á dómþingi 16. október sl. Af hálfu skuldara var sótt þing en hvorki var óskað eftir fresti né kröfunni mótmælt. Var málið tekið til úrskurðar að kröfu skiptabeiðanda.
Skiptabeiðandi kveðst eiga fjárkröfu á hendur skuldaranum sem nánar er lýst í beiðni og er studd með framlögðum gögnum. Í bréfi hans er skuldin sögð nema samtals 13.927.903,00 krónum. Skiptabeiðandi styður kröfu sína um gjaldþrotaskipti við 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara 2. júlí sl. Jafnframt kemur fram að skuldari sé með skráð lögheimili í Bandaríkjunum en sé búsettur að [...] í Reykjavík. Skiptabeiðandi vísar til þess að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hafi fasta búsetu, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Þar sem skuldari sé búsettur á Íslandi sé krafist gjaldþrotaskipta á búi hans eftir ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 4. gr. laganna.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. verður ákvæðum laganna um gjaldþrotaskipti á búi skuldara, þegar hann er einstaklingur, aðeins beitt að skuldarinn eigi lögheimili hér á landi og sé ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla. Þar sem skuldari var með skráð lögheimili í Bandaríkjunum þegar beiðni um gjaldþrotaskipti barst Héraðsdómi 13. ágúst sl. og er enn, er ekki unnt að taka bú hans til gjaldþrotaskipta með vísan til 4. gr. laga nr. 21/1991, enda uppfyllir krafa skiptabeiðanda ekki skilyrði laganna. Kröfu skipta-
beiðanda um gjaldþrotaskipti á hendur skuldara er því hafnað.
Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu Dróma hf., um að bú Stefáns Karls Stefánssonar verði tekið til gjaldþrotaskipta, er hafnað.