Hæstiréttur íslands
Mál nr. 260/1999
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 1999. |
|
Nr. 260/1999.
|
Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir(Sigurður Georgsson hrl.) gegn Sævari Sigurðssyni (Ásgeir Magnússon hrl.) |
Verksamningur.
S var félagi í vörubílstjórafélaginu M. Venja var að M tæki að sér verk og skipti hagnaði af þeim á milli félagsmanna sinna í hlutfalli við þá vinnu sem þeir lögðu í þau. M tók að sér verk við vegagerð og samdi síðar auk þess um að taka að sér viðbótarverk við ræsagerð á nálægum slóðum. S vann að ræsagerðinni og varð nokkur hagnaður af því verki. Reis ágreiningur með honum og M um hvort gera ætti viðbótarverkið upp sérstaklega, þannig að þeir einir nytu hagnaðarins sem að því unnu eða hvort gera ætti viðbótarverkið upp með aðalverkinu. Talið var að um væri að ræða sjálfstætt verk og var fallist á kröfu S um greiðslu úr hendi M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 1999 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í málavaxtalýsingu héraðsdóms gerðu áfrýjandi og Vegagerðin með sér verksamning um lagningu Hálsasveitarvegar í Borgarfirði 2. júlí 1997. Af hálfu áfrýjanda, sem var verktaki, unnu við verkið 20 félagsmenn. Á verkfundi samningsaðila 1. október 1997 var því lýst að verkinu væri lokið, nema hluta frágangs og lítilsháttar lagfæringum á frágangi ræsa. Á fundi þessum sömdu samningsaðilar um viðbótarverk, sem svo er bókað: „Verktaki tekur að sér sem viðbótarverk að vinna ræsagerð á Þorgautsstaðasýki, Teigsá, Hvammslæk, Sámsstaðagili og við Miðfossa. Samningsverð er kr. 3.628.100. ...“ Af hálfu áfrýjanda unnu hið síðara verk stefndi, sem var verkstjóri, og annar maður. Var því lokið í nóvember 1997.
Ágreiningslaust er með málsaðilum, að áfrýjandi skuli gera upp fyrir hvert verk eingöngu við þá, sem það unnu, enda sé það venja, sem báðir vísa til. Ágreiningurinn lýtur að því einu, hvort telja skuli verkið, sem samið var um 1. október 1997, sjálfstætt verk eða hluta af verkinu við Hálsasveitarveg. Telur áfrýjandi það vera hluta af því síðarnefnda og að haga beri uppgjöri fyrir það samkvæmt því, en stefndi telur það sjálfstætt verk og því skuli einungis deila hagnaðinum milli þeirra, sem það unnu.
Verkið, sem áfrýjandi samdi um við Vegagerðina 1. október 1997, var ekki við þann hluta Hálsasveitarvegar, sem fyrri verksamningur þeirra tók til. Um þetta viðbótarverk var gerður sérstakur verksamningur. Samkvæmt honum átti að vinna að tilteknum framkvæmdum á ákveðnum verktíma og gegn umsaminni greiðslu. Við þessar framkvæmdir var sérstakur verkstjóri. Upphaflega verkinu var nánast lokið þegar samningur var gerður um viðbótarverkið. Verður því að líta svo á að þetta hafi verið nýtt og sjálfstætt verk, sem áfrýjanda bar að gera upp við þá, sem það unnu eftir vinnuframlagi þeirra samkvæmt venju, enda ekki á annan veg sérstaklega samið. Verður héraðsdómur því staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir, greiði stefnda, Sævari Sigurðssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. mars 1999.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 4. þessa mánaðar, er höfðað af stefnanda, Sævari Sigurðssyni, kt. 180540-4079, Hjarðarholti 6, Selfossi, á hendur stefnda, Mjölni, vörubílstjórafélagi, kt. 470269-2869, Hrísmýri 1, Selfossi, með stefnu, útgefinni 15. október 1998, en birtri 10. nóvember 1998.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum „skuld að fjárhæð kr. 401.455,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 01.07.1998 til greiðsludags.”. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
II.
Sumarið 1997 gerðu stefndi og Vegagerð ríkisins með sér verksamning um lagningu svonefnds Hálsasveitarvegar í Borgarfirði. Verklaun stefnda voru 29 milljónir króna. Verkið hófst 11. júlí 1997. Hinn 1. október það ár, þegar því verki var lokið eða því sem næst, var ákveðið að stefndi tæki að sér verk samhliða þessu verki en í öðru sveitarfélagi. Var um að ræða ræsagerð í Hvítársíðu og við Andakíl. Umsamin verklaun til stefnda vegna þessa voru 3.628.100 krónur. Stefndi fékk tvo félagsmenn sína, þá Helga Sigurðsson og stefnanda, til að annast ræsagerðina í Hvítársíðu og við Andakíl, en þeir höfðu unnið að lagningu Hálsasveitarvegar ásamt öðrum félagsmönnum stefnda. Hófu þeir verkið í október 1997, en luku verkinu í lok nóvember sama ár.
Stefnandi hefur verið í hinu stefnda félagi í mörg ár og meðal annars setið í stjórn félagsins. Fram kom við meðferð málsins að félagið hefur á síðustu tíu árum breyst mikið. Það var áður stéttarfélag, en tilgangur þess er nú aðallega að annast fyrir félagsmenn tilboðsgerð í hin ýmsu verk í nafni félagsins, eða taka að sér verk með öðrum hætti, og bjóða félagsmönnum að vinna verkin og skipta hagnaði milli þeirra félagsmanna sem að verki unnu, en félagið hefur fengið óverulegan eða engan hluta af hagnaði vegna verka. Félagsmenn í hinu stefnda félagi munu vera um 30 sjálfstætt starfandi vörubílstjórar. Umsjón með tilboðum stefnda í hin ýmsu verk hefur verið í höndum sama manns, Róberts Róbertssonar, framkvæmdastjóra stefnda og hefur hann annast uppgjör til félagsmanna stefnda á hagnaði vegna verka sem stefndi hefur útvegað félagsmönnum sínum. Þá mun einnig vera nokkuð um það að félagsmenn stefnda hafi tekið að sér ýmis verk í eigin nafni án milligöngu stefnda.
Í máli þessu er deilt um hvort tengsl milli þeirra verka sem hér um ræðir séu með þeim hætti að ekki verði á milli skilið. Þannig að stefnda hafi við uppgjör verið rétt að líta á bæði verkin og hagnað vegna þeirra sem eina heild og skipta heildarhagnaðinum milli þeirra félagsmanna stefnda sem að öðru hvoru verkinu komu, með tilliti til vinnuframlags þeirra við bæði verkin. Eða að stefnda hafi borið að skipta hagnaði vegna lagningu Hálsasveitarvegar sérstaklega milli þeirra félagsmanna stefnda sem að því verki komu en hagnaði vegna ræsagerðar í vítár Hvítársíðu og við Andakíl sérstaklega milli þeirra félagsmanna stefnda sem að því verki unnu. Þá hélt stjórn stefnda eftir hluta af hagnaði vegna verkanna tveggja í því skyni að nota til greiðslu hluta af launum framkvæmdastjóra. Stafar þessi deila af því að hlutfallslega var mun meiri hagnaður vegna ræsagerðarinnar í Hvítársíðu og við Andakíl, en við lagningu Hálsasveitarvegar.
Stefnandi fékk greiddar 1.368.751 krónu frá stefnda, en telur sig hafa átt að fá 401.455 krónur til viðbótar sem er höfuðstóll stefnufjárhæðar, þar sem verkið hafi verið unnið af stefnanda og Helga Sigurðssyni, en ekki öðrum félagsmönnum stefnda.
Stefndi nefnir að áralöng venja sé fyrir því að við uppgjör útboðsverka hjá stefnda að hagnaði eða tapi sé skipt á milli þeirra félagsmanna stefnda sem að verki unnu eftir vinnuframlagi og staðfesting þeirrar venju komi fram í reglum sem samþykktar voru á aðalfundi stefnda hinn 27. mars 1998. Stefndi kveðst líta svo á að það sé út í hött að aðeins tveir félagsmanna stefnda eigi að njóta einir hagnaðar af viðbótarverki því sem um ræðir. Þvert á móti eigi allir sem við heildarverkið unnu að njóta hagnaðarins. Bendir stefndi sérstaklega á að samkvæmt skjali um lokauppgjör vegna framkvæmdanna hafi hagnaður m. t. t. framlags í jöfnunarsjóð stefnda verið kr. 722.500. Hagnaðinum hafi verið skipt á milli þeirra félagsmanna sem að verkinu unnu án tillits til þess hvaða verkþætti hver sinnti. Stefndi nefnir einnig að stefnandi hafi áralanga reynslu af vinnu sem þessari, hann hafi starfað um töluvert skeið á vörubílastöð stefnda og þekki vel venjubundnar reglur við uppgjör. Hafi stefnandi aldrei áskilið sér önnur kjör en aðrir félagsmenn stefnda, eða gert athugasemdir við uppgjörsaðferðir stefnda. Þá vill stefndi vekja athygli á því að í lokauppgjöri stefnda við stefnanda komi fram að daglaun stefnanda hafi numið 40.257 krónum.
Samkvæmt lokauppgjöri skiptast framangreindar 722.500 krónur milli 21 félagsmanns stefnda. Hlutur Helga Sigurðssonar er mestur, 99.500 krónur, en hlutur stefnanda næstmestur, 97.000 krónur. Sá sem næstur kemur fær í sinn hlut 86.000 krónur, en hinn minnsti hlutur er 5.000 krónur.
Hinn 7. janúar 1998 rituðu stefnandi og Helgi Sigurðsson bréf til stefnda þar sem segir m. a.:
„Bréf þetta er samið í framhaldi ákvörðunar stjórnar og framkvæmdastjóra vörubílstjórafélagsins Mjölnis að halda eftir hluta af greiðslu sem félaginu barst frá Vegagerðinni í Borgarnesi vegna vinnu Sævars Sigurðssonar og Helga Sigurðssonar nú í haust.
Ljóst er að við undirritaðir getum ekki unað við þá ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra að halda eftir hluta af launum okkar til þess að setja í jöfnunarsjóð sem nota eigi til að mæta töpum væntanlegra verka þar sem engar lagaheimildir þar að lútandi eru fyrir hendi sem og vegna þeirra áhrifa sem slíkur gjörningur hafi á starfsemi félagsins og félagsmanna þess.
Til stuðnings ákvörðun okkar viljum við benda á nokkur atriði úr lögum félagsins.
1. Félagið er hagsmunafélag sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjóra og kemur ekki fram sem sjálfstætt starfandi aðili sbr. lög félagsins og túlkun yfirvalda. Félagið getur því ekki verið sjálfstætt starfandi rekstraraðili og haft af því tekjur t. d. með því að vera með bílstjóra á launum.
2. Hvergi í lögum vörubílstjórafélagsins Mjölnis er kveðið á um að stjórn félagsins sé heimilt að draga hluta af greiðslum sem félagið móttekur fyrir hönd félagsmanna sinna og ráðstafa þeim.
Áratuga hefð er fyrir því að vinnuframlag ráði skiptingu greiðslna sem Mjölnir innheimtir fyrir félagsmenn sína ef fleiri en einn félagsmaður vinnur verk.
Hvergi er kveðið á um jöfnunarsjóð í lögum félagsins þar sem dregið er af einum félagsmanni og greitt til annars félagsmanns.
Skýrt er kveðið á um það hverjar tekjur félagsins og sjúkrasjóðs félagsins séu og hvernig þeim skuli ráðstafað.
Eini starfsmaður félagsins er framkvæmdastjóri.
Að auki viljum við benda á.
Að ábyrgð á hverju verki sem unnið er hvílir á þeim sem verkið vinna, skiptir þar engu hvort verkið sé stórt eða smátt, bílstjórar fá greitt það sem út af stendur eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur. Bæði á það við um aðkeypta vélavinnu, tryggingar eða annan kostnað sem til fellur. Ábyrgð og ávinningur hlýtur að haldast í hendur.
Ef greiðsla og uppgjör vegna verksins verður ekki innt af hendi innan 7 daga frá dagsetningu þessa bréfs þá munum við sjá okkur tilneydda til að innheimta þessa greiðslu eftir öðrum leiðum.”.
Með bréfi undirrituðu af framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda dagsettu 11. janúar 1998 barst þeim svofellt svar:
„Á stjórnarfundi sem haldinn var á Selfossi 11/1 1998 í Vörubílstjórafélaginu Mjölni, var mál Sævars Sigurðssonar og Helga Sigurðssonar tekið fyrir.
Eftirfarandi var samþykkt.
Þar sem allir reikningar félagsins eru hjá endurskoðanda verður mál ykkar ekki afgreitt, fyrr en reikningar liggja fyrir.”.
Með skeyti hinn 16. janúar 1998 tilkynntu stefnandi og Helgi Sigurðsson stefnda að ef þeim bærist ekki efnislegt svar við fyrirspurn sinni yrði krafa þeirra um viðbótargreiðslu send til innheimtu hjá lögmanni.
Með bréfi lögmanns stefnanda hinn 9. febrúar 1998 til stefnda var formlega óskað eftir því að stefnanda og Helga Sigurðssyni yrðu send öll gögn vegna vinnu þeirra við ræsagerð í Hvítársíðu og Andakíl, „m. a. afrit af tilboði í verk og samningi um verk (ef til er), svo og afrit af fundargerðum verkfunda, afrit af reikningum sem hafa verið gerðir og heildaruppgjör ef til er.”.
Á aðalfundi stefnda hinn 27. mars 1998 var bókað m. a. í fundargerðabók:
„Tillögur að reglu fyrir vörubílstjórafélagið Mjölni vegna uppgjörs útboðsverka, lagðar fram á aðalfundi 27. mars 1998.
Skv. upplýsingum frá skattstjóranum er rétt að félagið sæki um annað VSK. númer sem eingöngu verði notað í tengslum við útboðsverkefni félagsins.
Að 1% af tilboðsupphæð verði lagt inn á félagssjóð af hverju verki.
Bifreiðastjórar á stöðinni taki sjálfir ákvörðun um það hvort þeir taki þátt í vinnu við einstök útboðsverk.
Verði hagnaður af einstöku verki deilist hann á milli þeirra bifreiðastjóra sem þátt tóku í verki í samræmi og hlutfalli við vinnuframlag hvers eins bifreiðastjóra.
Verði tap af einstöku verki deilist það á milli þeirra bifreiðastjóra sem þátt tóku í verki í samræmi og hlutfalli við vinnuframlag hvers og eins bifreiðastjóra.
Reynir Guðmundsson
Magnús Lárusson
Samþ. samhljóða
B.T.
Til máls tóku Helgi Sigurðsson Ingvi Sigurðsson og lýstu stuðningi við framangreinda tillögu. Athugasemdir gerðu Egill - Halldór- Sævar - Reynir o. fl. Mönnum var allheitt í hamsi og er uppi talsverður ágreiningur meðal félagsmanna varðandi uppgjör einkum varðandi útboðsverk sl. árs.
Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt af þorra fundarmanna.”.
Þá var bókað að Helgi Sigurðsson hefði á fundinum óskað eftir „nánari skilagrein á verkum unnum í Hálsasveit og í Hvítársíðu og Andakíl.”.
Þar sem stefnanda bárust ekki umbeðin gögn frá stefnda ritaði lögmaður hans vegagerðinni bréf hinn 30. apríl 1998 um málefnið og í framhaldi af því sendi vegagerðin honum ljósrit af lokareikningi vegna verksins við Hvítársíðu og Andarkíl og ljósrit fundargerða vegna verksins.
Með bréfi dagsettu 10. júní 1998 krafði stefnandi stefnda um greiðslu kr. 401.739 í höfuðstól vegna títtnefnds verks. Með innheimtubréfi hinn 7. október 1998 var sú höfuðstólskrafa lækkuð í kr. 401.455, sem er höfuðstóll stefnukröfu.
III.
Forsendur og niðurstöður
Ákvörðun um að stefndi skyldi annast ræsagerð í Hvítársíðu og Andakíl var tekin án undangengins útboðs, eða á verkfundi hinn 1. október 1997 vegna lagningar Hálsasveitarvegar í Borgarfirði. Ber það verk merki svokallaðs viðbótarverks, enda er það verk nefnt viðbótarverk í fundargerðum verkfunda, svo og í öllum gögnum málsins sem um það fjalla, m. a. í gögnum frá lögmanni stefnanda. Miðað við umfang verkanna var hagnaður af viðbótarverkinu hlutfallslega mun meiri en vegna aðalverksins.
Stefndi ábyrgðist verk þau sem hér um ræðir gagnvart verkkaupa, sem var Vegagerð ríkisins. Fram kom fyrir dómi hjá Ingva Árnasyni, deildarstjóra framkvæmdadeildar Vegagerðar ríkisins á Vesturlandi, að þegar um sé að ræða tiltölulega lítil verk, jafnvel óskyld aðalverki, sem falla vel að öðrum verkum unnum í nágrenni, þá sé oft samið við þann aðila að annast þau viðbótarverk án útboðs. Svo hafi háttað til í þessu tilviki, þannig að hér hafi ekki verið um aukaverk að ræða, sem sé aukning á sama verki, heldur viðbótarverk. Viðbótarverkið hafi verið það umfangslítið að vegagerðinni hafi ekki verið skylt að bjóða það út.
Að aðalverkinu, þ. e. lagningu Hálsasveitarvegar í Borgarfirði, komu 21 af 30 félagsmönnum stefnda og deildi stefndi milli þeirra, en ekki annarra félagsmanna, hagnaði af verkinu með tilliti til vinnuframlags hvers og eins félagsmanns. Hins vegar fékk stefndi einungis stefnanda og Helga Sigurðsson til að annast ræsagerðina í Hvítársíðu og Andakíl. Svo virðist sem uppgjörsreglur vegna viðbótarverksins hafi ekki borið á góma milli framkvæmdastjóra stefnda og stefnanda og Helga Sigurðssonar áður en verkið hófst. Nefndur Helgi Sigurðsson kvaðst fyrir dómi hafa hafa staðið í þeirri meiningu að hagnaður vegna viðbótaverksins myndi einungis skiptast milli hans og stefnanda, eins og venja hefði verið til. Stefnandi var verkstjóri yfir verkinu og sá um samninga við undirverktaka. Fram kom við meðferð málsins að fyrirsvarsmenn stefnda og stefnandi bjuggust ekki við svo miklum hagnaði vegna viðbótarverksins sem raun varð á, enda verður ekki annað séð en að uppgjör til félagsmanna stefnda vegna aðalverksins hafi nánast að öllu leyti átt sér stað áður en viðbótarverki lauk. Hins vegar sóttist stefnanda og Helga Sigurðssyni viðbótarverkið betur en þeir og aðrir höfðu búist við, m. a. vegna þess að stefnandi og Helgi Sigurðsson gátu vegna sérstakra samninga þeirra við landeigendur tekið malarefni tiltölulega nálægt þeim stöðum þar sem unnið var, auk þess sem stefnandi virðist hafa náð hagstæðum samningi við undirverktaka.
Af gögnum málsins og framburði vitna verður ekki fullyrt um hvernig háttað hefur verið skiptingu þóknunar til félagsmanna stefnda í öðrum tilvikum vegna viðbótarverka í kjölfar aðalverka. Framkvæmdastjóri stefnda bar að uppgjör hafi verið í samræmi við venju, en sá stjórnarmaður stefnda sem skýrslu gaf fyrir dómi gat ekkert upplýst um reglur félagsins um uppgjör, en kvað framkvæmdastjóra félagsins hafa annast þau mál. Kvaðst hann raunar ekki vita til þess að stjórn félagsins hefði ályktað um að hluti af hagnaði vegna verka skyldi renna til greiðslu launa framkvæmdastjóra stefnda. Samþykkt aðalfundar stefnda, sem stefndi skírskotar til í þessu efni, var gerð eftir að verki því sem hér um ræðir lauk, eða hinn 27. mars 1998, en samþykktin er einungis um að skipta beri hagnaði eða tapi milli þeirra félagsmanna sem að verki vinna með tilliti til vinnuframlags þeirra. Þá verður ekkert ráðið af lögum stefnda um þetta atriði.
Fram er komið að stefndi beitti öðrum uppgjörsaðferðum vegna viðbótarverksins en vegna aðalverksins. Í uppgjörinu vegna aðalverksins var aðallega tekið mið af fjölda ferða vörubíla með efni, en í uppgjöri vegna viðbótarverksins var frekar litið til fjölda vinnustunda stefnanda og Helga Sigurðssonar. Í uppgjörinu vegna viðbótarverksins mat stefndi hverja vinnustund á kr. 4.000, án þess þó að séð verði að slík viðmiðun hafi verið ákveðin áður en verkið hófst, en framkvæmdastjóri stefnda kvaðst hafa getað miðað við taxta félagsins þar sem svo mikill hagnaður hafi orðið af verkinu sem raun bar vitni. Virðist sem uppgjörsaðferð vegna aðalverksins hafi verið í samræmi við venju, en ekki vegna viðbótarverksins. Aðilum tókst ekki að upplýsa fyrir dóminum hver niðurstaðan hefði orðið ef beitt hefði verið sömu uppgjörsaðferðum vegna þessara tveggja verka. Þó má ætla að stefnandi og Helgi Sigurðsson hafi fengið hlutfallslega meira í sinn hlut en aðrir félagsmenn vegna þeirrar uppgjörsaðferðar sem viðhöfð var vegna viðbótarverksins, heldur en þeir hefðu fengið ef gert hefði verið upp við þá eins og við aðalverkið, að teknu tilliti til þess að allir félagsmenn stefnda fengju í báðum tilvikum metinn hlut samkvæmt báðum verkunum sameiginlega. Framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi að hann hefði tekið ákvörðun um að haga uppgjörum með þessum hætti því sér hefði þótt eðlilegt að umbuna stefnanda og Helga Sigurðssyni eitthvað umfram aðra. Þá kom einnig fram að m. a. vegna hins óvænta hagnaðar af viðbótarverkinu hafi stjórn félagsins ákveðið að láta hluta af hagnaði vegna verka á vegum stefnda fara til launagreiðslna framkvæmdastjórans. Samkvæmt framburði Sigurðar Hjaltasonar, endurskoðanda stefnda til margra ára, munu laun framkvæmdastjórans áður hafa verið tekin af félagsgjöldum og á árinu 1997 hafi stefndi ekki haft reglur um að láta hluta af hagnaði renna til greiðslu launa framkvæmdastjóra stefnda.
Samkvæmt framanrituðu verður sú ályktun dregin, að ákvörðun um skiptingu hagnaðar vegna verka sem félagsmenn stefnda önnuðust hafi ekki verið í jafn föstum skorðum og stefndi heldur fram. Þá virðist ræsagerðin í Hvítársíðu og Andakíl ekki hafa verið í miklum tengslum við lagningu Hálsasveitarvegar, þó það verk hafi komið til í kjölfar lagningu Hálsasveitarvegar. Þegar litið er til þess að sem að framan er rakið og þeirrar staðreyndar að mismunandi uppgjörsaðferðir voru viðhafðar af hálfu stefnda vegna verkanna tveggja, er það niðurstaða dómsins að uppgjör hafi átt að vera með þeim hætti sem stefnandi heldur fram, sem er í samræmi við hina einu reglu sem báðir aðilar skírskota til, þ. e. að þeir sem verk vinna fái greitt fyrir þau, samkvæmt vinnuframlagi, en ekki aðrir.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um útreikninga stefnufjárhæðar eða um upphafstíma vaxta. Verður því krafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett.
Eftir þessum úrslitum er rétt að stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Mjölnir, vörubílstjórafélag, kt. 470269-2869, greiði stefnanda, Sævari Sigurðssyni, kt. 180540-4079, kr. 401.455, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. júlí 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.