Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2014
Lykilorð
- Grunnskóli
- Miski
- Vinnuveitendaábyrgð
- Eigin sök
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2014. |
|
Nr. 64/2014.
|
Grindavíkurbær (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Páli Erlingssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) og til réttargæslu Páli Leó Jónssyni (Marteinn Másson hrl.) |
Grunnskóli. Miski. Vinnuveitandaábyrgð. Eigin sök.
Grunnskólakennarinn PE höfðaði mál á hendur G, til heimtu miskabóta vegna ætlaðs eineltis sem hann hefði orðið fyrir í starfi af hendi skólastjórans PJ. G stefndi PJ til réttargæslu í málinu. Eftir að PE kvartaði til G vegna fyrrgreindrar háttsemi var aflað skýrslu þriggja sálfræðinga þar sem komist var að niðurstöðu um að háttsemi PJ í garð PE fæli í sér einelti. Ekki var talið að fullnægt væri skilyrðum um einelti samkvæmt skilgreiningu reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var meðal annars með stoð í e. lið 38. gr. laga nr. 46/1980 um um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í dómi Hæstaréttar var á hinn bóginn rakið að til þess væri að líta að G hefði fyrir héraðsdómi fallist á staðhæfingu PE um að hann hefði verið lagður í einelti af PJ og orðið fyrir miska af þeim sökum. Talið var að þótt háttsemi PJ í garð PE hefði að mestu leyti verið hluti stjórnunarathafna skólastjóra og liður í hagræðingu í rekstri grunnskólans sem fyrirskipuð hefði verið af sveitarstjórn G, væri önnur háttsemi af hálfu PJ svo tengd starfi hans að vinnuveitandinn G bæri ábyrgð á henni. PE var hins vegar sjálfur talinn bera ábyrgð á helmingi miska síns, með því að hann hefði ekki sinnt um skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Páli Leó Jónssyni er stefnt til réttargæslu í málinu. Hann krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi hefur starfað sem kennari frá 1989 og var ráðinn sem slíkur að Grunnskóla Grindavíkur á árinu 1999. Réttargæslustefndi var ráðinn skólastjóri við skólann 2008, en hafði ekki starfað við skólann áður. Hann mun þá hafa haft langa starfsreynslu sem skólastjóri við grunnskóla.
Í 5. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er mælt fyrir um að rekstur almennra grunnskóla sé á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er skólastjóri grunnskóla forstöðumaður skólans. Hann stjórnar skólanum, veitir faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Í 2. mgr. sömu greinar er meðal annars kveðið á um að skólastjóri ákveði verksvið annarra stjórnenda skólans og að einn þeirra skuli vera staðgengill skólastjóra. Í 12. gr. laganna er að finna almennt ákvæði um skyldur starfsfólks grunnskóla en þar segir í 1. mgr. að starfsfólk þeirra skuli rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skuli gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni, meðal annars gagnvart samstarfsfólki. Samkvæmt framansögðu er það hlutverk skólastjóra grunnskóla að stjórna fjármálum skólans innan þess ramma sem fjárveitingar sveitarfélags til skólans setja.
Í skýrslu bæjarstjóra áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá áfrýjanda í ágúst 2010. Þá hafi legið ljóst fyrir að þörf hafi verið fyrir hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins almennt. Aðgerðir til hagræðingar hafi reyndar verið hafnar áður en hann kom til starfa, meðal annars í rekstri Grunnskóla Grindavíkur, til samræmis við ákvörðun fyrrverandi bæjarstjórnar. Þeim aðgerðum hafi verið fram haldið og hafi kennslustundum verið fækkað auk þess sem dregið hafi verið úr öðrum rekstrarkostnaði skólans. Spurður hvernig þessi hagræðing hafi bitnað á kennurum við skólann svaraði hann því til að kennarar hefðu þurft að sæta skerðingu á yfirvinnu og þeir kennarar sem fyrir hefðu haft mesta yfirvinnu eða launuð aukastörf hafi þurft að sæta meiri skerðingu en aðrir. Spurður um stöðu stefnda í þessu efni svaraði bæjarstjórinn að stefndi væri í hópi þeirra sem hefðu haft marga yfirvinnutíma og því þurft að sæta meiri skerðingu en ella. Aðrir í sömu stöðu hefðu einnig þurft að sæta sambærilegri skerðingu. Í skýrslu bæjarstjóra kom einnig fram að það hefði verið að frumkvæði hans sem umsjón með heimasíðu skólans var flutt frá stefnda. Það hafi verið gert til þess að hafa hana í sama umhverfi og aðrar vefsíður bæjarins og til þess að fleiri en einn hefðu möguleika til þess að setja efni inn á síðuna. Í skýrslunni kom jafnframt fram að áfrýjandi hafi ákveðið að binda enda á starf réttargæslustefnda sem skólastjóra við Grunnskóla Grindavíkur og samið um starfslok við hann. Þetta hafi verið gert síðla hausts 2011.
II
Skömmu eftir að réttargæslustefndi réðst til starfa sem skólastjóri við Grunnskóla Grindavíkur hóf hann aðgerðir til hagræðingar í rekstri skólans. Aðgerðir þessar bitnuðu sem fyrr greinir meðal annars á stefnda, en hann hafði með höndum ýmis aukastörf fyrir skólann, sem hann fékk greitt fyrir, og umtalsverða yfirvinnu. Fyrir liggur að vorið 2009 boðaði réttargæslustefndi hann í starfsmannaviðtal og gerði honum þar grein fyrir því að yfirvinna hans yrði skorin niður á skólaárinu 2009-2010. Haustið 2009 boðaði réttargæslustefndi hann aftur til fundar og upplýsti þá að hann myndi framvegis ekki fá greitt fyrir að aðstoða aðra kennara í tölvu- og tæknimálum. Ári síðar var aftur gerð sú breyting, sem áður getur, að umsjón með vefsíðu skólans, sem stefndi hafði annast einn og fengið greitt fyrir, var flutt annað. Munu greiðslur til stefnda fyrir þessa vinnu þá hafa fallið niður.
Í skýrslu stefnda fyrir dómi kvaðst hann líta svo á að níðst hafi verið á sér. Hann hafi ekki legið á þeirri skoðun sinni að ófaglega hafi verið staðið að aðgerðum af hálfu réttargæslustefnda og því hafi hann svarað fyrir sig. Hann kvaðst einnig hafa fengið bágt fyrir að rækja starf sitt sem trúnaðarmaður kennara við skólann.
III
Með bréfi 12. október 2011 sendi stefndi kvörtun til áfrýjanda vegna þess að hann taldi sig hafa verið lagðan í einelti af hálfu réttargæslustefnda. Í bréfinu rakti stefndi atvik af sinni hálfu og þær aðgerðir skólastjóra sem hann taldi til marks um einelti. Þetta hafi leitt til vanlíðunar hjá honum sem kennara og ýmsir skólastjórnendur hafi vitað um og viljað leita leiða til þess að ráða bót á. Stefndi kveður þá ýmist hafa stutt sig eða skólastjóra. Hann hafi einangrast í skólanum, vinir sem hann hafi átt þar áður hafi ekki lengur verið vinir hans. Hann hafi því almennt kosið að halda sig í vinnuherbergi kennara, einn síns liðs, í kaffitímum og frímínútum í stað þess að dvelja í mötuneyti kennara með samstarfsmönnum sínum.
Stefndi gerði einnig grein fyrir síðasta atvikinu sem hann taldi til marks um einelti af hálfu réttargæslustefnda. Það hafi verið við skil á vinnuskýrslum 28. september 2011. Fyrir sig hafi verið lagt að skrifa undir ,,vinnuskýrslu og vinnuramma“ á eftir öllum öðrum. Hann hafi haft skamman tíma og ritað undir með fyrirvara. Upplýsingar á þessu skjali hafi verið rangar og af því hafi leitt að hann hafi ekki fengið greidd rétt laun 1. október 2011 og enga yfirvinnu. Loks gerði stefndi í bréfinu grein fyrir afleiðingum ætlaðs eineltis á daglega líðan sína og heilsufar.
IV
Í reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem meðal annars er sett með stoð í e. lið 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er því lýst hvað teljist einelti að lögum. Þar segir meðal annars í 3. gr. að einelti sé ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem sé til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Sérstaklega er tekið fram að með einelti sé ekki átt við ,,skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns“.
Eftir almennum reglum skaðabótaréttar ber sá, sem telur sig lagðan í einelti og leitar bóta af þeirri ástæðu, sönnunarbyrði fyrir því. Í þessu máli liggur ekki annað fyrir en að athafnir réttargæslustefnda í starfi hans sem skólastjóra, sem stefndi telur hafa falið í sér einelti, hafi verið hluti af stjórnunarskyldum skólastjóra og liður í hagræðingu í rekstri Grunnskóla Grindavíkur sem fyrirskipuð hafði verið af sveitarstjórn. Stefndi tók niðurskurði á yfirvinnu og aukastörfum sínum illa og reis skoðanaágreiningur með honum og skólastjóra af því tilefni. Engin sönnun liggur fyrir um að háttsemi skólastjóra hafi verið ámælisverð eða ætlað að niðurlægja eða gera lítið úr stefnda. Verður að gera kröfu til þess að meira þurfi til en einstök óheppileg ummæli svo unnt sé að telja skilyrðum um einelti fullnægt. Verður einnig að líta til þess að stefndi, sem samkvæmt gögnum málsins hafði sterka stöðu innan skólans þegar réttargæslustefndi varð skólastjóri, tók hagræðingaraðgerðum hans illa og svaraði fyrir sig eins og hann hefur sjálfur lýst í skýrslu fyrir dómi.
V
Þegar kvörtun stefnda 12. október 2011 um að hann væri lagður í einelti barst áfrýjanda óskaði sviðsstjóri félags- og fræðsluþjónustu áfrýjanda eftir því að sálfræðingar athuguðu ,,framkomna kvörtun“. Sálfræðistofan Líf og sál tók að sér að rannsaka málið og tóku sálfræðingar á vegum stofunnar viðtal við stefnda og réttargæslustefnda og níu aðra starfsmenn eða fyrrverandi starfsmenn Grunnskóla Grindavíkur. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir niðurstöðum sálfræðinganna, sem töldu að háttsemi réttargæslustefnda uppfyllti skilyrði um einelti, en í skýrslunni er lýst þeim skilyrðum sem miðað var við. Eru þau ekki að öllu leyti í samræmi við lýsingu a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 á inntaki hugtaksins einelti, sem áður er lýst.
Að fenginni þessari skýrslu gerði stéttarfélag stefnda kröfu um miskabætur honum til handa. Urðu nokkur bréfaskipti af því tilefni. Í svari bæjarstjóra 24. október 2012 hafnaði hann því að sveitarfélagið gæti borið ábyrgð á þeirri háttsemi réttargæslustefnda, sem fól í sér ætlað einelti, á grundvelli reglurnar um vinnuveitandaábyrgð. Ábyrgð sveitarfélagsins gæti einungis komið til ef það hefði sjálft brugðist skyldum sínum, en ekki hefðu verið færð rök fyrir því. Þá sagði: ,,Við höfum jafnframt sagt óumdeilt að [stefndi] varð fyrir einelti og varð fyrir miska.“ Kröfum um miskabætur ætti á hinn bóginn að beina að ,,gerandanum í málinu“, réttargæslustefnda.
Við aðalmeðferð málsins gaf áfrýjandi svofellda málflutningsyfirlýsingu: ,,[Áfrýjandi] dregur ekki í efa að höfundar skýrslu á dskj. nr. 3 hafa rétt eftir viðmælendum sínum. Þeir notast við skilgreiningu á því hvað einelti er og meta það svo að atvik málsins falli undir hana. Ekki eru gerðar neinar sérstakar athugasemdir við það faglega mat. [Áfrýjandi] byggir þó á að til er ,,einelti“ á ýmsum stigum og ekki allt sem [stefndi] byggir á fellur þar undir (stjórnunarlegar ákvarðanir um yfirvinnu og heimasíðu o.s.frv.). Telur [áfrýjandi] að skýrsluhöfundar staðfesti það. Það er ýmislegt í skýrslunni sem [áfrýjandi] byggir á líka að því leyti. [Áfrýjandi] heldur því eftir sem áður fram að það sem ráða má af skýrslunni nái því ekki endilega að fella miskabótaábyrgð á þann sem telst ábyrgur. Faglega (frá sjónarhóli vinnusálfræði) eru ekki bornar brigður á skýrsluna en lögfræðilega er deilt um hvað hún þýðir fyrir skaðabótarétt [stefnda].“ Yfirlýsing þessi var gefin til þess að ekki þyrfti að taka skýrslur fyrir dómi af vitnum, enda taldi áfrýjandi að það gæti haft slæmar afleiðingar og skaðað viðleitni til þess að bæta andrúmsloftið í Grunnskóla Grindavíkur.
Málflutningsyfirlýsingin og framangreind yfirlýsing bæjarstjóra verða ekki skýrðar öðruvísi en svo að fallist sé á staðhæfingu stefnda um að hann hafi verið lagður í einelti af réttargæslustefnda og orðið fyrir miska af þeim sökum. Ljóst er þó að áfrýjandi hefur frá öndverðu mótmælt því að hann beri ábyrgð á þessari háttsemi réttargæslustefnda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, auk þess sem hann hefur haldið því fram að stefndi sé meðábyrgur að miska sínum. Sú háttsemi réttargæslustefnda, sem áfrýjandi viðurkennir að hafi falið í sér einelti, var viðhöfð í starfi hans við Grunnskóla Grindavíkur. Háttsemin var að mestu leyti hluti stjórnunarathafna skólastjóra og átti meðal annars rót sína að rekja til krafna áfrýjanda um að hann skæri niður yfirvinnu og aukastörf kennara svo hagræða mætti í rekstri skólans. Önnur háttsemi réttargæslustefnda sem tiltekin er í skýrslu sálfræðinganna, sem áfrýjandi telur að leggja beri til grundvallar, er svo nátengd starfi hans að áfrýjandi sem vinnuveitandi ber ábyrgð á henni, þótt hún kunni að falla utan beinna starfsskyldna skólastjóra.
Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að áfrýjandi beri bótaábyrgð á miska stefnda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.
Áfrýjandi hefur, sem fyrr greinir, krafist lækkunar á kröfu stefnda um miskabætur vegna meðábyrgðar stefnda. Upplýst er að stefndi brást illa við aðgerðum réttargæslustefnda sem fólu í sér niðurskurð á yfirvinnu hans og aukastörfum. Hann kveðst sjálfur hafa svarað fyrir sig og ekkert verið að liggja á skoðunum sínum um að hann teldi ráðstafanir skólastjóra ómálefnalegar. Hann sinnti ekki allskostar þeirri skyldu sem á honum hvíldi samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 að gæta kurteisi og lipurðar gagnvart samstarfsfólki, heldur ól, samkvæmt því sem fram er komið í málinu, á flokkadráttum sem risið höfðu. Af þessum sökum verður hann sjálfur að bera ábyrgð á helmingi miska síns. Ákvæði héraðsdóms um dráttarvexti er staðfest, svo og ákvæði um málskostnað í héraði.
Áfrýjandi og stefndi beri hvor sinn hluta málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi greiði réttargæslustefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Grindavíkurbær, greiði stefnda, Páli Erlingssyni, 200.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2012 til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti milli áfrýjanda og stefnda fellur niður.
Áfrýjandi greiði réttargæslustefnda, Páli Leó Jónssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. september sl., höfðaði stefnandi, Páll Erlingsson, Leynisbraut 13c, Grindavík, hinn 14. desember 2012, gegn stefnda, Grindavíkurbæ, Víkurbraut 62, Grindavík. Með réttargæslustefnu 4. júlí 2013 var Páli Leó Jónssyni, Suðurengi 15, Selfossi, stefnt inn í málið til réttargæslu af stefnda.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 700.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. apríl 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Engar kröfur eru gerðar af hálfu stefnda á hendur réttargæslustefnda.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar sér til handa. Engar kröfur eru gerðar á hendur honum í málinu.
I
Stefnandi er grunnskólakennari og hóf hann störf við Grunnskóla Grindavíkur árið 1999. Stefnandi hafði þá starfað sem kennari frá 1989. Árið 2008 var réttargæslustefndi ráðinn skólastjóri við Grunnskóla Grindavíkur. Var stefnandi þá trúnaðarmaður kennara á vinnustaðnum.
Haustið 2011 kvartaði stefnandi formlega yfir einelti, sem hann sagðist verða fyrir af hálfu réttargæslustefnda, með erindi til sviðsstjóra Félagsþjónustu- og fræðslusviðs Grindavíkurbæjar. Var sálfræðistofunni Líf og sál falið að framkvæma athugun vegna kvörtunarinnar og gera skýrslu um málið. Þrír sálfræðingar á stofunni, Einar Gylfi Jónsson, Rakel Davíðsdóttir og Þórkatla Aðalsteinsdóttir, skiluðu skýrslu vegna athugunar sinnar 8. desember 2011. Er þar var komið sögu hafði réttargæslustefndi látið af störfum. Í skýrslunni er farið yfir málið og meðal annars reifaðar frásagnir aðila, þ.e. stefnda og réttargæslustefnda, sem og annarra starfsmanna við Grunnskóla Grindavíkur. Í lok skýrslunnar eru helstu niðurstöður sálfræðinganna teknar saman í sérstökum niðurstöðukafla. Í þeim kafla segir meðal annars svo:
PE (stefnandi) styður kvartanir sínar um einelti PLJ (réttargæslustefndi) í sinn garð ýmsum dæmum. Einkum snúast dæmin um tvennt. a) þegar leið að lokum fyrsta vetrar PLJ í starfi, hafi PLJ með markvissum hætti byrjað að skera niður störf PE og lítilsvirt þannig metnaðarfullt framlag hans til starfsemi skólans. b) Viðmót og framkoma PLJ í sinn garð hafi verið lítilsvirðandi og einkennst af hundsun og baktali.
PLJ hafnar alfarið ásökunum PE og segir að því sé í raun öfugt farið. Framkoma PE í sinn garð hafi nánast frá byrjun einkennst af neikvæðni, baktali og undirróðri. Hafi PE smitað neikvæðni sinni út í starfshópinn.
Verða nú framkomnar ásakanir PE skoðaðar í ljósi þeirrar skilgreiningar á einelti sem stuðst er við í athugun þessari:
Einelti er endurtekin, neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma sem erfitt er að verjast og leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem fyrir verður
Skilgreiningin samanstendur af fjórum þáttum: a) endurtekning; b) neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma; c) erfitt fyrir meintan þolanda að verjast framkomunni og d) meintur þolandi hefur orðið fyrir vanlíðan.
Til að framkoma geranda geti talist einelti þarf hún að falla undir alla fjóra þætti skilgreiningarinnar.
a) Endurtekning: Það ástand sem PE kvartar undan hefur verið viðvarandi frá því vorið 2009, þ.e. ákvarðanir um niðurskurð á verkefnum hans á ómálefnalegum forsendum og meint misbeiting PLJ á valdi því sem hann hefur sem stjórnandi.
b) Neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma: Ekki verður tekið undir með PE að ákvarðanir PLJ um niðurskurð verkefna og skipulagsbreytingar varðandi heimasíðu teljist neikvæð/niðurlægjandi framkoma í hans garð. Þó þær hafi bitnað á honum og honum hafi fundist þær illa rökstuddar, er um að ræða sparnaðaraðgerðir og skipulagsbreytingar sem PLJ sem stjórnandi er í fullum rétti að framkvæma, þó umdeildar kunni að vera. Hins vegar virðist undirrituðum að viðbrögð PLJ við óánægju PE hafi verið ófagleg og ekki sæmandi stjórnanda. Í samtali við undirrituð gengst PLJ við því að hafa baktalað PE („hvaða leikrit er nú að fara af stað?“), PHI staðfestir bæði þá frásögn PE að PLJ hafi viðhaft orðin „það kemur skólaár eftir þetta“ og að hann hafi beðist undan tilmælum millistjórnenda um að leita lausna í málinu. Þó PLJ telji með nokkrum rétti að PE hafi gert sér erfitt fyrir að bæta ástandið, er það mat undirritaðra, að með því að taka a.m.k. fullan þátt í að viðhalda andrúmslofti fáskiptni og persónulegrar óvildar, hafi hann brugðist í hlutverki sínu sem stjórnandi.
c) Erfitt fyrir meintan þolanda að verjast framkomu geranda: Fram kemur í frásögnum PLJ og ýmissa viðmælanda, að PE hafi að margra mati látið óánægju sína í ljós með óviðeigandi og skemmandi hætti. Talað er um fýlu, píslavætti, baktal, hundsun. M.ö.o. að PE hafi notað svipaðar aðferðir og PLJ til að bregðast við í þessu máli. Ljóst er að framkoma PE hefur að ýmsu leyti verið aðfinnsluverð og honum ekki til framdráttar. Á hitt ber að líta að PLJ hefur formleg völd og formlega ábyrgð umfram PE og að hann sem stjórnandi tók a.m.k. fullan þátt í að viðhalda andrúmslofti persónulegrar óvildar.
d) Vanlíðan meints þolanda: PE greinir frá langvarandi vanlíðan, svefntruflunum og líkamlegum einkennum langvarandi streitu.
Undirrituð telja, á grundvelli framkominna upplýsinga um málavöxtu, að framkoma PLJ í gerð PE uppfylli ofangreind skilyrði um að vera einelti. Undirrituð benda á, að eineltiskvörtun sú sem hér hefur verið könnuð er hluti af stærra vandamáli sem ríkti á vinnustaðnum um nokkurra missera skeið. Þeir flokkadrættir sem virðast hafa orðið um þetta mál, gætu hugsanlega dregið dilk á eftir sér og að þó PE sé í stöðu þolanda í þessu máli, þá er ýmislegt í framkomu hans aðfinnsluvert.
Eftir að skýrsla Lífs og sálar lá fyrir áttu sér stað samningaviðræður milli lögfræðings stéttarfélags stefnanda, Kennarasambands Íslands, og stefnda um mögulega greiðslu miskabóta til stefnanda, sbr. bréf stéttarfélagsins frá 7. mars 2012 og framlögð tölvupóstsamskipti. Svo fór að stefndi hafnaði bótaábyrgð. Lögmaður stefnanda ritaði stefnda innheimtubréf 12. nóvember 2012 þar sem færð voru rök fyrir bótakröfu stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnda 10. desember 2012 var kröfum stefnanda hafnað. Höfðaði stefnandi því mál þetta 14. desember 2012 samkvæmt áðursögðu.
II
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hann segir það markmið laganna að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu. Í V. kafla laganna, um framkvæmd vinnu, segi í 37. gr. að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í e-lið 38. gr. laganna sé mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Með stoð í þeirri grein hafi verið sett reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Í 3. gr. reglugerðarinnar sé einelti skilgreint með sama hætti og lagt hafi verið til grundvallar í skýrslu sálfræðinganna frá 8. desember 2011.
Stefnandi byggir á því í málinu að hann hafi orðið fyrir einelti af hálfu réttargæslustefnda, skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur, sbr. niðurstöður fyrrnefndrar skýrslu. Stefndi hafi viðurkennt að eineltið hafi átt sér stað og að stefnandi hafi orðið fyrir miska.
Bótakröfu sína segir stefnandi reista á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert sé við. Einelti það sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði, æru og persónu hans.
Fjárhæð miskabótakröfu sinnar kveður stefnandi vera að álitum. Leggur stefnandi áherslu á að við ákvörðun miskabóta verði til þess að líta að vinna sé mjög stór þáttur í daglegu lífi fólks. Þá sé frelsi til atvinnu stjórnarskrárvarið. Lögum nr. 46/1980 sé ætlað að tryggja líkamlegt og andlegt heilbrigði starfsmanna. Skaðleg áhrif eineltis séu vel þekkt í dag og þau áhrif eineltisins á stefnanda er fram komi í skýrslu sálfræðinganna, þ.e. langvarandi vanlíðan, svefntruflanir og líkamleg einkenni langvarandi streitu, séu dæmigerð. Þá beri að líta til þess að gerandinn var skólastjóri er hafði sem slíkur yfirburðastöðu gagnvart stefnda.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi beri bótaábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, en meta verði réttargæslustefnda það til sakar að hafa lagt stefnanda í einelti með þeim hætti sem hann hafi gert. Þó svo að það hafi ekki verið starfsskylda skólastjórans að leggja stefnda í einelti þá sé ekki unnt að líta svo á að það hafi verið án tengsla við starfið og framkvæmd þess. Líta verði til þess að réttargæslustefndi hafi verið forstöðumaður Grunnskóla Grindavíkur og sem slíkur haft boðvald yfir öðrum starfsmönnum skólans og borið ábyrgð á starfsmannahaldi. Þannig hafi hann meðal annars borið ábyrgð á framkvæmd laganna nr. 46/1980 og reglugerðarinnar nr. 1000/2004. Samkvæmt þessu hafni stefnandi þeim málatilbúnaði stefnda að með eineltinu hafi réttargæslustefndi farið svo langt út fyrir starf sitt að sveitarfélagið beri ekki á því ábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð á skaðaverkum starfsmanna.
Af hálfu stefnanda er einnig á það bent að eineltið hafi að öllu leyti átt sér stað innan veggja skólans. Jafnframt hafi stefnandi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að eineltið stæði í beinum tengslum við stjórnunarstíl skólastjórans og það vald sem hann hafi haft yfir stefnanda sem slíkur.
Framangreindu til viðbótar kveðst stefnandi enn fremur byggja á því að stefndi beri ábyrgð á því að ekki hafi verið brugðist við eineltinu frá vori 2011 fram á haust það ár, þrátt fyrir að yfirmönnum stefnda hafi verið greint frá því. Stefndi beri jafnframt ábyrgð á því að ekki hafi verið til áætlun í samræmi við 5. gr. laga nr. 1000/2004. Meta beri þessi atriði stefnda til sakar. Stefndi beri því einnig ábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefnandi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og honum beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
III
Stefndi tekur fram að hann þekki ekki til allra atvika málsins af eigin raun. Raunar telji stefndi að stefnandi hefði átt að beina kröfum sínum að réttargæslustefnda í stað sveitarfélagsins. Réttargæslustefndi hafi verið æðsti stjórnandi í grunnskólanum og telja verði að aðrir stjórnendur eða kennarar í skólanum geti ekki í neinum skilningi talist hafa verið í forsvari fyrir sveitarfélagið í málinu.
Við úrlausn málsins verði að horfa til stöðu stefnanda og möguleika hans til að gæta hagsmuna sinna og beina málinu í réttan farveg, en fyrir liggi að stefnandi hafi haft nokkuð langa reynslu sem kennari og trúnaðarmaður á vinnustað. Þá virðist ljóst að stefnandi hafi ráðfært sig við stéttarfélag sitt á fyrri stigum málsins.
Stefndi kveðst ekki betur sjá en óumdeilt sé í málinu að viðbrögð bæjaryfirvalda í framhaldi af kvörtun stefnanda um einelti um miðjan október 2011 hafi verið markviss og tafarlaus. Stefndi mótmæli þeim málatilbúnaði stefnanda að bæjaryfirvöld hafi brugðist á fyrri stigum málsins og jafnframt að ákveðin stjórnsýsla réttargæslustefnda hafi falið í sér misbeitingu á valdi sem skilgreina megi sem einelti. Þannig sé rangt með farið í stefnu að millistjórnendur í skólanum hafi gert bæjaryfirvöldum kunnugt um málið á árinu 2010. Hið rétta sé að María Eir Magnúsdóttir, deildarstjóri sérkennslu, hafi viðrað áhyggjur sínar af málinu við bæjarstjóra og sviðsstjóra Félagsþjónustu- og fræðslusviðs Grindavíkurbæjar undir lok skólaárs vorið 2011. Þá hafi stefndi, eftir að niðurstaða sálfræðinganna þriggja lá fyrir, boðist til að útvega stefnanda sérfræðiaðstoð til að vinna úr vanlíðan og öðrum mögulegum afleiðingum málsins. Enn fremur bendir stefndi á að í skýrslu sálfræðinganna komi fram að þeim hafi virst sem stjórnunarlegar ákvarðanir réttargæslustefnda, er beinst hafi að stefnanda, hafi verið réttmætar og ekki falið í sér neikvæða eða niðurlægjandi framkomu í hans garð.
Samkvæmt framansögðu skilji stefndi niðurstöður skýrslunnar þannig að eineltið hafi í fyrsta lagi falist í ófaglegum viðbrögðum réttargæslustefnda við óánægju stefnanda með ákvarðanir um breytingu á störfum. Í öðru lagi hafi það falist í því að réttargæslustefndi hafi baktalað stefnanda og tekið þátt í að „viðhalda andrúmslofti fáskiptni og persónulegrar óvildar “ Að mati sálfræðinganna sé því rót vandans óánægja stefnanda með ákvarðanir réttargæslustefnda sem virðist þó efnislega hafa átt rétt á sér. Þá taki þeir fram að framkoma stefnanda hafi að „... ýmsu leyti verið aðfinnsluverð og honum ekki til framdráttar.“
Stefndi tekur fram að ákvarðanir réttargæslustefnda um breytingu á fyrirkomulagi á umsjón með heimasíðu skólans hafi verið að frumkvæði stefnda. Breytingarnar hafi verið liður í hagræðingu innan bæjarfélagsins. Einnig hafi ný sveitarstjórn frá árinu 2010 markað stefnu um aðhald í rekstri sveitarfélagsins, þ.m.t. skólans, sem leitt hafi til niðurskurðar á kennslu- og yfirvinnutímum kennara almennt. Rót þeirra aðgerða hafi því ekki verið meinbægni réttargæslustefnda gagnvart stefnanda.
Stefndi segir stefnanda ekki hafa lagt fram fullnægjandi sönnunargögn um aðalatriði málsins, þ.e. um hina meintu bótaskyldu athöfn og það tjón sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Svo virðist sem málsókn stefnanda byggist eingöngu á þeirri forsendu að geti eitthvað flokkast sem einelti sé það sjálfkrafa ólögmæt meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Því mótmæli stefndi.
Eina sönnunargagnið í málinu sé skýrsla sálfræðinganna frá 8. desember 2011 um samskipti stefnanda og réttargæslustefnda. Að áliti stefnda sé sú skýrsla hins vegar ekki sönnun fyrir bótaskyldri athöfn í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ýmsar athafnir í mannlegu lífi, sem nefndar séu einelti, geti mögulega fallið undir ákvæði 26. gr. skaðabótalaga. Það undanþiggi aftur á móti ekki þann sem geri kröfu um bætur frá því að sýna fram á að skilyrði 26. gr. um ólögmæti sé uppfyllt og að meintur tjónvaldur hafi sýnt af sér háttsemi sem telja verði meingerð í skilningi greinarinnar. Þannig geti ýmislegt er í mæltu máli sé rætt um sem einelti fallið utan marka 26. gr., svo sem ókurteisi, almenn leiðindi eða stríðni.
Stefndi kveður einelti ekki lögákveðið hugtak þó svo ákvæði í reglugerð nr. 1000/2004 veiti ákveðnar leiðbeiningar. Sem dæmi megi taka að þar sé tekið fram að skoðana- eða hagsmunaárekstur, sem rísa kunni á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns, falli ekki þar undir. Þá sé því mótmælt af hálfu stefnda að sú skilgreining á einelti sem lögð hafi verið til grundvallar í skýrslu sálfræðinganna sé sama skilgreining og reglugerðin geymi.
Þá hafi stefnandi ekkert lagt fram um tímabundnar eða varanlegar afleiðingar vegna háttsemi skólastjórans. Því sé með öllu ómögulegt að leggja mat á það hvort þær séu til staðar. Dómstólar hafi aldrei dæmt miskabætur eingöngu á grundvelli frásagnar tjónþola sjálfs.
Skýrslu sálfræðinganna hafi ekki verið aflað til að vera sönnunargagn um miskabætur. Hún byggist á viðtölum og viðmiðum sem með engu móti tengist hefðbundnu lögfræðilegu mati á því hvort skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt. Stefndi hafi enga aðkomu haft að gerð skýrslunnar eftir að hann óskaði eftir því að verkið yrði unnið. Þá leggi sálfræðingarnir í skýrslu sinni ekkert mat á trúverðugleika frásagna, tímasetningar eða annað það sem máli kunni að skipta.
Stefndi segir það óhóflega einföldun í stefnu að halda því fram að hann hafi viðurkennt „... að eineltið hafi átt sér stað og að stefnandi hafi orðið fyrir miska.“ Stefndi hafi enga afstöðu tekið til þess hvort athafnir réttargæslustefnda falli undir ákvæði 26. gr. skaðabótalaga og hafi mjög takmarkaða möguleika til að gera það. Þá sé það einnig alvarlegur galli á málsókn stefnanda að einstökum atvikum sé lítt eða ekkert lýst. Þegar við bætist að stefnandi hafi ákveðið að hafa þann hátt á málsókn sinni að stefna ekki meintum geranda verði að gera þá kröfu að hann leggi fram fullnægjandi sönnunargögn fyrir öllum atvikum og reifi þau þannig að dómurinn geti tekið afstöðu til þeirra á grundvelli viðeigandi lagaákvæða.
Að áliti stefnda væri það fráleitt, fari svo að viðurkennt verði að ólögmæt meingerð í skilningi 26. gr. skaðabóta hafi átt sér stað, að hann yrði látinn bera ábyrgð á þeirri háttsemi og tjóni sem af henni leiddi á grundvelli reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Meint einelti hafi falist í persónulegum ágreiningi, en ekki því hvernig réttargæslustefndi hafi beitt valdi sínu eða tekið ákvarðanir um réttindi og skyldur stefnanda. Þau dómafordæmi sem stefnandi hafi vísað til, máli sínu til stuðnings, fjalli öll um slík tilvik. Ákvarðanir þær sem skólastjórinn hafi tekið um réttindi og skyldur stefnanda sem stefnandi hafði reyndar á fyrri stigum byggt á að hefðu verið einelti voru í sálfræðingaskýrslunni taldar hafa verið eðlilegar og málefnalegar. Ákvarðanirnar hafi verið liður í aðgerðaáætlun um aðhald í rekstri sveitarfélagsins og ekki hafi verið sýnt fram á annað en umræddar breytingar á starfi stefnanda hafi verið málefnalegar og réttmætar. Viðbrögð stefnanda og samskipti stefnanda og réttargæslustefnda í kjölfar þeirra ákvarðana hafi hins vegar ekki verið það ef marka megi skýrsluna.
Verði það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi orðið fyrir ólögmætri meingerð af hálfu skólastjórans verði að telja ljóst að sú háttsemi hafi verið án nauðsynlegra tengsla við starf og starfssvið viðkomandi starfsmanns. Einelti sé alvarlegt frávik frá hegðun sem búast megi við af fólki. Því sé skipað í sama flokk og alvarlegum afbrotum gegn lífi og heilsu í skilgreiningu reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, svo sem kynferðislegri áreitni, öðru andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Litið hafi verið svo á að slíkt ofbeldi falli almennt utan marka óskráðra reglna um vinnuveitendaábyrgð. Engin lagarök standi til þess að útvíkka eða kveða almennt á um ábyrgð vinnuveitanda á slíku hátterni starfsmanna. Meta verði hvert mál fyrir sig, alvarleika hegðunar, eðli hennar og sýnileika.
Stefndi byggir jafnframt á því í málinu að rangt sé og ósannað að sveitarfélagið hafi í talsverðan tíma vitað um og látið óátalda hina meintu bótaskyldu háttsemi. Stefnandi hafi haldið þessu fram í stefnu og byggist þessi staðhæfing a.m.k. að hluta til á röngum fullyrðingum um málavexti. Hið rétta sé að á umræddu tímabili hafi stefndi ekki haft vitneskju um ætlaða háttsemi réttargæslustefnda. Það hafi ekki verið fyrr en með kvörtun stefnanda haustið 2011 sem stefnda hafi orðið ljós umkvörtunarefni stefnanda, sbr. eftirfarandi ummæli í bréfinu: „Nú er svo komið að ég get ekki undan því vikist að kalla það einelti sem ég er beittur á vinnustað mínum hér í Grunnskóla Grindavíkur “ Þetta orðalag beri beinlínis með sér að stefnandi hafi ekki fyrr rætt um samskipti réttargæslustefnda og sín sem einelti. Stefndi hafi brugðist við kvörtun stefnanda með fullkomlega fullnægjandi hætti og sérfræðingar verið fengnir til að rannsaka ástandið. Réttargæslustefndi hafi látið af störfum og verði því ekki annað séð en að málinu hafi lyktað á ákjósanlega hátt fyrir stefnanda.
Af hálfu stefnda er sérstaklega tekið fram að engu hefði breytt þó svo í gildi hefði verið sérstök aðgerðaáætlun á umræddum tíma. Þegar kvörtun stefnanda hafi borist 12. október 2011 hafi verið leitað ráðgjafar og málið sett í ferli sambærilegt því sem aðgerðaáætlun hefði mælt fyrir um.
Við mat á bótagrundvelli og/eða bótafjárhæð kveður stefndi verða að líta til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi stefnandi a.m.k. að einhverju marki átt sök á þeirri misklíð sem upp hafi komið á milli hans og réttargæslustefnda. Á því sé því byggt af hálfu stefnda að sú staðreynd eigi að hafa áhrif á sakarmatið, svo og til lækkunar bóta á grundvelli reglna skaðabótaréttar um eigin sök.
Að lokum kveðst stefndi mótmæla bótakröfu stefnanda sem ósannaðri og of hárri. Umkrafðar bætur séu hærri en dæmdar hafi verið í sambærilegum málum. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé enn fremur mótmælt sem of hárri.
Við aðalmeðferð málsins 30. september sl. var svohljóðandi málflutningsyfirlýsing bókuð eftir lögmanni stefnda:
„Stefndi dregur ekki í efa að höfundar skýrslu á dskj. nr. 3 hafa rétt eftir viðmælendum sínum. Þeir notast við skilgreiningu á því hvað einelti er og meta það svo að atvik málsins falli undir hana.
Ekki eru gerðar neinar sérstakar athugasemdir við það faglega mat.
Stefndi byggir þó á að til er „einelti“ á ýmsum stigum og ekki allt sem stefnandi byggir á fellur þar undir (stjórnunarlegar ákvarðanir um yfirvinnu og heimasíðu o.s.frv.). Telur stefndi að skýrsluhöfundar staðfesti það. Það er ýmislegt í skýrslunni sem stefndi byggir á líka að því leyti. Stefndi heldur því eftir sem áður fram að það sem ráða má af skýrslunni nái því ekki endilega að fella miskabótaábyrgð á þann sem telst ábyrgur.
Faglega (frá sjónarhóli vinnusálfræði) eru ekki bornar brigður á skýrsluna en lögfræðilega er deilt um hvað hún þýðir fyrir skaðabótarétt stefnanda.“
IV
Samkvæmt yfirlýsingu stefnda við aðalmeðferð málsins er hvorki ágreiningur um efni framlagðrar skýrslu Lífs og sálar frá 8. desember 2012, sem samkvæmt áðursögðu var unnin af þremur sálfræðingum á sálfræðistofunni, né það faglega mat sem í henni kemur fram. Hins vegar er ágreiningur með aðilum um gildi skýrslunnar við hina lögfræðilegu úrlausn máls þessa.
Skv. 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum setur ráðherra nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, um hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum, sbr. staflið e. í greininni. Í 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var með stoð í nefndu ákvæði laga nr. 46/1980, er einelti skilgreint sem ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.
Svo sem rakið er í kafla I hér að framan er í skýrslu sálfræðinganna þriggja komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi sætt einelti af hálfu réttargæslustefnda, sbr. þau ummæli í skýrslunni að „undirrituð telja, á grundvelli framkominna upplýsinga um málavöxtu, að framkoma réttargæslustefnda í garð stefnanda uppfylli ofangreind skilyrði um að vera einelti.“ Framar í skýrslunni er einelti skilgreint sem „... endurtekin neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma sem erfitt er að verjast og leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem fyrir verður.“ Stefndi hefur ekki hnekkt þessu mati skýrsluhöfunda heldur þvert á móti lýst því yfir að af hálfu bæjarins séu ekki gerðar neinar sérstakar athugasemdir við faglegt mat þeirra.
Framangreindar tvær skilgreiningar á hugtakinu einelti eru ekki að öllu leyti sambærilegar. Verður þó að telja að efnislega byggist þær báðar á því að til þess að háttsemi geti talist einelti þurfi hún að vera endurtekin, ótilhlýðileg og til þess fallin að niðurlægja og valda þeim vanlíðan sem hún beinist að. Að þessu athuguðu þykir stefnanda hafa nægjanlega tekist að sanna með framlagningu skýrslu sálfræðinganna, sbr. áðurnefnda niðurstöðu í skýrslunni, að hann hafi sætt einelti af hálfu réttargæslustefnda í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004.
Skv. b-lið 1. mgr. 26.
gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri
meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Þá er það ólögfest regla í
skaðabótarétti að vinnuveitandi getur orðið skaðabótaskyldur vegna tjóns sem
starfsmaður hans hefur valdið með saknæmum hætti, óháð því hvort
vinnuveitandinn sjálfur hefur sýnt af sér saknæma háttsemi.
Stefndi var vinnuveitandi réttargæslustefnda. Réttargæslustefndi var skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur er atvik máls gerðust og hafði sem slíkur boðvald yfir stefnanda og öðrum starfsmönnum skólans. Þá bar hann ábyrgð á starfsmannahaldi í skólanum og á honum hvíldi meðal annars sú skylda í störfum sínum að gæta að ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 1000/2004.
Ekki hefur annað komið fram í málinu en eineltið hafi að öllu leyti átt sér stað innan veggja skólans. Þá verður ekki fram hjá því litið að í niðurstöðum skýrslu sálfræðinganna er meðal annars að því vikið að viðbrögð réttargæslustefnda við óánægju stefnanda hafi verið ófagleg og ekki sæmandi stjórnanda. Jafnframt hafi verið staðfest af þriðja aðila að réttargæslustefndi hafi beðist undan tilmælum millistjórnenda um að leita lausna í málinu. Síðan segir svo: „Þó réttargæslustefndi telji með nokkrum rétti að stefnandi hafi gert sér erfitt fyrir að bæta ástandið, er það mat undirritaðra, að með því að taka a.m.k. fullan þátt í að viðhalda andrúmslofti fáskiptni og persónulegrar óvildar, hafi réttargæslustefndi brugðist í hlutverki sínu sem stjórnandi.“ Að öllu þessu virtu þykir hin saknæma háttsemi réttargæslustefnda hafa verið nægjanlega tengd starfi hans sem skólastjóra svo stefndi verði látinn bera bótaábyrgð á afleiðingum háttseminnar á grundvelli fyrrnefndrar reglu um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna.
Í þeim hluta skýrslu sálfræðinganna þriggja, þar sem viðtöl við aðra starfsmenn grunnskólans en stefnanda og réttargæslustefnda eru reifuð, kemur meðal annars fram að stefnandi hafi „... einangrast mikið í starfshópnum síðustu misseri og sumir töldu að það væri hans aðferð til að stýra umhverfi sínu og refsa samstarfsmönnum sínum fyrir að styðja sig ekki nægilega. Aðrir töldu að stefnanda liði mjög illa á vinnustaðnum og fundu til með honum.“ Sjálfur hefur stefnandi lýst vanlíðan vegna framkomu réttargæslustefnda í sinn garð, sbr. það sem eftir stefnanda er haft í skýrslu sálfræðinganna og framburð hans fyrir dómi. Í ljósi þess sem áður segir um einelti réttargæslustefnda í garð stefnanda og þess stuðnings sem telja verður fullyrðingar stefnanda um vanlíðan sína vegna eineltisins fá í tilvitnuðum orðum samstarfsmanna hans, þykir stefnanda nægjanlega hafa tekist að sanna að framkoma réttargæslustefnda í garð stefnanda hafi valdið honum vanlíðan og þar með ófjárhagslegu tjóni. Samkvæmt þessu og öðru framangreindu verður því slegið föstu að stefnandi eigi rétt til miskabóta úr hendi stefnda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.
Við mat á miska stefnanda verður ekki fram hjá því litið að í títtnefndri skýrslu, sem stefnandi sjálfur leggur til grundvallar kröfum sínum í málinu, er komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi að nokkru leyti gert réttargæslustefnda erfitt fyrir að bæta ástandið á vinnustaðnum. Enn fremur var það niðurstaða sálfræðinganna að framkoma stefnanda sjálfs hefði að ýmsu leyti verið aðfinnsluverð og honum ekki til framdráttar. Að þessum atriðum virtum og að teknu tilliti til dómafordæma þykja miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Um dráttarvexti af hinni dæmdu fjárhæð fer svo sem í dómsorði greinir, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að dæma stefnda til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans, með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði.
Bótaábyrgð stefnda grundvallast samkvæmt áðursögðu á saknæmri háttsemi réttargæslustefnda. Að því virtu þykir rétt að sýkna stefnda af kröfu hans um málskostnað.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Grindavíkurbær, greiði stefnanda, Páli Erlingssyni, 400.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Stefndi skal sýkn af málskostnaðarkröfu réttargæslustefnda, Páls Leós Jónssonar.