Hæstiréttur íslands

Mál nr. 766/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. desember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og sér verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og að hann sæti einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. desember nk. kl. 16:00

                Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að kærði, X, liggi undir rökstuddum grun um að hafa veist að A og óþekktum samlanda hans frá [...] við Austurvöll í miðbæ Reykjavíkur með hnífi og stungið þá báða.

                Lögregla hafi komið á vettvang laust fyrir kl. 05:00 í morgun og hafi þá hinn óþekkti aðili legið í götunni með stungusár á herðablaði og vinstri öxl. Er hann hafi komið á slysadeild hafi komið í ljós að hann hafði stungusár inn í brjósthol og hafi ein stungan farið í hjartað. Brotaþoli A hafi fundist svo í húsnæði að [...] og hafi hann verið með stungusár á fæti og baki. Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar í nálægð við dvalarstað hans að [...] í Garðabæ.

                Vitni á vettvangi hafi bent á kærða sem geranda í málinu. Kváðust þau hafa séð kærða veitast að brotaþolum og átök átt sér stað sem enduðu með því að annar brotaþola fell í jörðina en hinn hljóp í burtu. Kváðust ekki hafa séð kærða beita hnífi en að hann hefði sparkað í brotaþola er hann lá í jörðinni. Brotaþolinn A lýsti því að hann og félagi hans hafi lent í átökum við kærða sem enduðu með því að hann stakk þá báða með hnífi.

                Enn á eftir að taka frekari skýrslur af brotaþola og öðrum vitnum auk þess sem afla þurfi frekari sönnunargagna m.a. með því að fara í húsleit á dvalarstað kærða en samkvæmt upplýsingum lögreglu mun kærði hafa komið þangað eftir hið meinta brot. Kærði hafi ekki heimilað lögreglu leit í húsnæðinu.

                Það sé mat lögreglu að verði kærði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því hafa áhrif á framburð vitna og koma undan sönnunargögnum. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði getið spillt rannsókn þess og í því skyni er farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur.

                Sakarefni málsins sé talið varða við 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Niðurstaða:

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið framið brot gegn 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi en enn á eftir að taka skýrslu af brotaþolum og mögulega fleiri vitnum. Fallist er á að aðstæður séu þannig að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða koma undan gögnum, fái hann að ganga laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga til að fallast megi á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða og að hann sæti einangrun meðan á því stendur, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. desember nk. kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.