Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
A ehf. (Þorgils Þorgilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Þar sem kæra A ehf. til Hæstaréttar uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var málinu vísað frá réttinum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétt yrði haldi sóknaraðila á bifreiðinni [...] og frumritum skjala er varða kaup og innflutning bifreiðarinnar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru varnaraðila segir aðeins að tilkynnt sé um kæru á úrskurðinum, en hvorki er vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á, né hvaða kröfur um breytingu eru gerðar á hinum kærða úrskurði. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2017

Mál þetta barst dóminum 8. júní sl. Við fyrirtöku á málinu 16. júní sl. óskaði varnaraðili eftir fresti til að skila greinargerð og setti sóknaraðili sig ekki upp á móti því.  Greinargerð var skilað 23. júní og munnlegur málflutningur um kröfuna ákveðinn 30. júní.

Sóknaraðili er A ehf. [...] og varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 115, 150 Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að aflétt verði haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bifreiðinni [...] ásamt frumritum skjala er varða kaup og innflutning bifreiðarinnar. Þá er krafist málskostnaðar

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað.

I.

Mál þetta varðar bifreið af gerðinni [...], árgerð 2014, sem B annaðist innflutning á frá Litháen. Bifreiðin mun hafa verið forskráð og fengið skráningarnúmerið [...]. Bifreiðin mun hins vegar ótollafgreidd og er staðsett á Seyðisfirði. Þann 15. maí sl. framkvæmdi lögregla húsleit á heimili B og haldlagði m.a. gögn sem lúta að kaupum á bifreiðinni, aðspurður þá kvaðst B hafa flutt inn bifreiðin og hún sé hans eign. Hann hafi fjármagnað hana með tryggingarbótum vegna annarrar bifreiðar í hans eigu sem hafði eyðilagst í tjóni auk þess sem hann hafi fengið lán. Þá haldlagði lögreglan einnig bifreiðina sjálfa í þágu rannsóknar máls nr. [...] en rannsókn málsins snýr einkum að meintum brotum B á 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við húsleitina fundust jafnframt fíkniefni, vopn, sterar, ætluð íblöndunarefni fyrir fíkniefni og ýmis skjöl sem lagt var hald á auk tölvubúnaðar til rannsóknar. Þá fundust á víð og dreif m.a. í leyndum hirslum alls 2.530.000 krónur í reiðufé.

B hefur upplýst lögreglu að hann sé öryrki og hafi um 250.000 krónur í ráðstöfunarfé á mánuði. Þá er upplýst að hann leigir einbýlishús á 400.000 krónur. Það gerir hann reyndar að sögn í félagi við annan mann sem greiði sinn hlut.

Í kjölfar framangreinds hóf lögregla rannsókn á meintu peningaþvætti B.

B kveðst vera gjaldþrota og hafi verið það frá 17 ára aldri.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu var B tilkynnt ákvörðun lögreglu um að haldleggja [...] bifreiðina. B mótmælti haldlagningunni. Hann áréttaði að hann mætti ekki eiga neitt þar sem kröfuhafar væru á eftir honum. Því stundaði hann jafnan bílaviðskipti í gegnum þriðja aðila eða í félagi við annan.

II.

Sóknaraðili fullyrðir að A ehf. sé eigandi bifreiðarinnar en ekki B og því verði haldlagningu ekki komið við. Félaginu hafi hvorki verið tilkynnt um haldlagninguna af lögreglu né kröfu þar um verið beint að félaginu. Ástæður þess kveður varnaraðili vera að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýti svo á að um eign B sé að ræða og beinist því haldlagningin eingöngu að honum sem sakborningi máls. Forsendur þær sem lögreglan hafi gefið fyrir haldlagningunni séu að um sé að ræða muni sem kunni að verða gerðir upptækir á þeim grundvelli að kaupin hafi verið fjármögnuð með ávinningi af brotastarfsemi B.

A ehf. sé kaupandi og skráður eigandi bifreiðarinnar og telur að í fyrsta lagi hefði lögreglunni borið að beina kröfu að félaginu skv. 2. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 enda liggi samþykki A ehf. ekki fyrir. Þá telur félagið jafnframt að skilyrði 68. gr. og 69. gr. laganna fyrir haldlagningu séu ekki uppfyllt enda engin gögn til staðar sem sýni fram á að bifreiðin hafi verið fjármögnuð með afrakstri af brotastarfsemi. Heimild til að bera málið undir dóm styðst við 3. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

III.

Varnaraðili gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi af þeim sökum að sóknaraðili sé hvorki eigandi né vörsluhafi munarins, líkt og ákvæðið geri kröfu um. Samkvæmt gögnum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sé félagið A í eigu dánarbús C. Í dag sitji D fyrrum eiginkona C í óskiptu dánarbúi hans. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi D ekki kannast við að félagið hafi verið selt eins og fullyrt hafi verið.

B hafi og skýrt frá eignarhaldi sínu á bifreiðinni, hvernig hann fann hana, fjármagnaði og flutti hana til landsins. Þá styðji gögn úr síma B, kvittanir og samskipti hans og lögmanns hans við embætti Tollstjóra að hann sé eigandi bílsins.

E sem hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og hefur verið skráður stjórnarformaður sóknaraðila frá 1. maí sl. eða eftir kaupin á bifreiðinni, hafi haldið því fram að hann hafi fengið félagið A ehf. án þess að greiða neitt fyrir það og að hann hafi átt að fá helming hagnaðar af sölu bifreiðarinnar hér á landi. Hann sé sá eini sem beri um að selja hafi átt bifreiðina við komu til landsins. Þá hafi hann ekki getað lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Þá kannist D ekki við að hann hafi fengið félagið endurgjaldslaust.

B hafi skýrt ítarlega frá því hvernig félagið A ehf. hafi verið notað til innflutnings á bifreiðinni hans því hann væri gjaldþrota og mætti ekki eiga neitt. Gögn málsins sýni fram á að A ehf. hafi ekki geta verið selt án heimildar frá D, en hún hafi neitað slíkri sölu.

Lögregla telji því ljóst með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins að innflutningur bifreiðarinnar í nafni A ehf. hafi einungis verið til málamynda, en B sé réttmætur eigandi bifreiðarinnar og umráðamaður. Sóknaraðili geti því ekki krafist að fá bifreiðina afhenta eða frumskjöl er varða innflutning á henni. Fallist dómurinn ekki á að vísa málinu frá dómi, þá gerir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þá kröfu að hafnað verði kröfu sóknaraðila og vísar til sömu raka og koma fram hér að framan.

IV.

Heimild rannsakenda til að leggja hald á muni er að finna í 68. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma, hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. er lögreglu heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar nema ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Í 72. gr. laganna segir að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema ákvæði a- til c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi við.

Samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem lögregla hefur lagt hald á, borið lögmæti haldlagningar undir dómara.

Samkvæmt opinberri skráningu virðist sóknaraðili vissulega forskráður eigandi biðreiðarinnar og sem slíkur verður að telja hann uppfylla skilyrði ofangreindra lagaákvæða um að eiga þess kost að bera ákvörðun um haldlagningu undir dóminn. Því verður talið að ekki séu lagaskilyrði til að vísa kröfu sóknaraðila frá á grundvelli þessara ákvæða.

Á hinn bóginn eru mjög afgerandi gögn í málinu svo sem framburður B, D og F sem er sambýlingur B sem styðja það að raunverulegur eigandi hinnar handlögðu bifreiðar sé B og kemur það ítrekað fram í gögnum málsins. Framburður núverandi stjórnarformanns sóknaraðila er á hinn bóginn ekki trúverðugur að mati dómsins og er á skjön við önnur gögn málsins og framburð annarra. Dómurinn telur þó ekki efni til eða nauðsynlegt að slá eignarhaldi bifreiðarinnar föstu á þessu stigi og í þessum úrskurði. Horft verður einnig til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 sem heimilar að haldleggja eign annarra en sakbornings ef niðurstaðan yrði sú að sóknaraðili teldist sannanlega eigandi bifreiðarinnar.

Lögregla hefur til rannsóknar meint peningaþvætti og sá grunur er uppi að umrædd bifreið hafi verið fjármögnuð með fé sem B hafi eignast með refsiverðri háttsemi. Ýmislegt við rannsókn málsins styður þennan grun, bæði það sem rakið er í úrskurðinum en einnig önnur gögn málsins. Verður að fallast á að það skilyrði að bifreiðin kunni að vera gerð upptæk í sakamáli sbr. 68. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt.

Þegar litið er til framangreinds verður kröfu sóknaraðila hafnað

Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila um að aflétt verði haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bifreiðinni [...] ásamt frumritum skjala er varða kaup og innflutning bifreiðarinnar er hafnað.