Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Matsgerð
- Gjaldþrotaskipti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum yrði aðallega gert að afhenda sér tiltekin gögn og upplýsingar en til vara að matsmönnum yrði veittur aðgangur að þessum gögnum. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans um afhendingu skjala og annarra gagna verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Hvorki verður ráðið af bókun í þingbók í héraði né hinum kærða úrskurði að sóknaraðili hafi krafist málskostnaðar í tengslum við kröfugerð sína á hendur varnaraðilum um afhendingu gagna. Kemur sú krafa því ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti. Þá hafa varnaraðilar ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því heldur ekki til úrlausnar krafa þeirra um málskostnað í héraði.
I
Sóknaraðili, sem áður hét Landsbanki Íslands hf., var tekinn til slita með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Upphaf slitanna miðaðist við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi en sóknaraðila var skipuð slitastjórn 29. sama mánaðar. Slitum sóknaraðila lauk með nauðasamningi fyrir hann sem komst á 25. desember 2015.
Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðilum 8. mars og 11. apríl 2012 til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir af þeirra hálfu við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum bankans og ráðgjafar um hvernig haga bæri tilteknum þáttum í reikningsskilum hans. Undir rekstri málsins fékk sóknaraðili dómkvadda menn 28. nóvember 2013 til að leggja mat á nánar tiltekin atriði sem lutu að þessum störfum varnaraðila.
Af gögnum málsins verður ráðið að umfangsmikil gagnaöflun hafi farið fram við störf matsmanna. Á matsfundi 6. nóvember 2015 lögðu matsmenn fram beiðni til varnaraðilans PricewaterhouseCoopers ehf. um gögn um tiltekna ráðgjöf félagsins til sóknaraðila á árunum 2004 til 2008 vegna aflandsfélaga sem áttu hluti í sóknaraðila í tilefni af kaupréttarsamningum og endurskoðunargögn um eigið fé og kaupréttarsamninga fyrir árin 2005 og 2006. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðilar hafi ekki afhent þau gögn sem beiðni matsmanna náði til, en hún taki til hluta af þeim gögnum sem mál þetta lúti að. Aftur á móti telur varnaraðilinn PricewaterhouseCoopers ehf. sig hafa afhent matsmönnum öll umbeðin gögn.
Í þinghaldi 6. nóvember 2015 lagði sóknaraðili fram kröfu á hendur varnaraðilum um afhendingu á þeim gögnum og upplýsingum sem mál þetta tekur til. Krafan skiptist í nokkra liði en hún tók í fyrsta lagi til vinnugagna sem varnaraðilar hafa umráð yfir vegna endurskoðunar og könnunar á reikningsskilum sóknaraðila fyrir árin 2005 og 2006. Í öðru lagi tók krafan sérstaklega til sömu vinnugagna þessi ár að því er varðaði meðferð á hlutabréfum í sóknaraðila sem færð voru á svokallaðan LI Hedge reikning í reikningsskilum bankans, upplýsingagjöf um skuldbindingar og viðskipti tengdra aðila og meðferð á hlutabréfum í eigu aflandsfélaga og svokölluðum TRS afleiðum. Um þessi sömu atriði var í þriðja lagi gerð krafa um öll gögn og samskipti, þar með talda tölvupósta vegna ráðgjafar varnaraðila um reikningsskil bankans á tímabilinu 2005 til 2008. Í fjórða lagi tók krafan til allra vinnugagna sem varnaraðilar hefðu umráð yfir vegna endurskoðunar og könnunar á reikningsskilum bankans fyrir árin 2007 og 2008 að því marki sem þessum gögnum hefði ekki þegar verið komið á framfæri við matsmenn. Þá var fimmta lagi gerð krafa um að varnaraðilar legðu fram nánar tiltekin gögn, þar á meðal um TRS samninga á árinu 2008 og vinnu varnaraðilans PricewaterhouseCoopers LLP við endurskoðun og könnun á útibúi Landsbanka Íslands hf. í London. Loks var þess krafist í sjötta lagi að varnaraðilar legðu fram öll gögn um niðurstöðu gæðaúttektar sem gerð var af PricewaterhouseCoopers samtökunum í apríl 2008 vegna endurskoðunar varnaraðilans PricewaterhouseCoopers ehf. á sóknaraðila.
Í þinghaldi 19. nóvember 2015 mótmæltu varnaraðilar kröfu sóknaraðila um afhendingu gagna og var henni síðan hafnað með hinum kærða úrskurði.
II
Til stuðnings kröfu sinni um afhendingu gagna og upplýsinga úr höndum varnaraðila vísar sóknaraðili aðallega til 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna hvílir skylda á endurskoðanda félags, sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, til að verða við kvaðningu skiptastjóra um að mæta á fund hans og veita honum upplýsingar og láta honum í té gögn sem hann krefst vegna skiptanna. Verði endurskoðandi ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn má skiptastjóri fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að endurskoðandinn verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni, sbr. 3. mgr. 81. gr. laganna. Skal þá farið eftir reglum laga nr. 91/1991 um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við. Samkvæmt 5. mgr. 51. gr. þeirra laga er unnt að leggja fyrir vitni að hafa með sér gögn til sýningar fyrir dómi eða að athuga bækur sínar, skjöl og aðra muni og gera útdrátt úr tilteknum atriðum í þeim til skýringar á málsatvikum. Eftir 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 er þeim sem hafa eignir þrotabús í umráðum sínum skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Sama skylda hvílir á sýslunarmönnum en endurskoðendur teljast til þeirra, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Ef sýslunarmaður neitar að verða við kröfu skiptastjóra getur hann, samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991, farið svo að sem segir í 3. mgr. 81. gr. laganna með því að óska eftir að tekin verði skýrsla af viðkomandi fyrir dómi eftir þeim reglum sem áður voru raktar.
Þær reglur um upplýsingagjöf og afhendingu gagna til skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, gilda um slitastjórn fjármálafyrirtækis sem tekið hefur verið til slita, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Svo sem áður greinir komst á nauðasamningur fyrir sóknaraðila 25. desember 2015. Með því lauk slitum á sóknaraðila, sbr. 3. mgr. 103 gr. a. laga nr. 161/2002. Frá þeim tíma gilda ekki reglur laganna um heimild slitastjórnar til að afla gagna og upplýsinga eftir reglum XIII. kafla laga nr. 21/1991. Þess utan verður úrræðum 3. mgr. 81. gr. laganna um hvernig fullnægt verður skyldu til að veita skiptastjóra upplýsingar án tengsla við dómsmál ekki beitt í máli sem höfðað er til heimtu skaðabóta á hendur þeim sem slík skylda getur hvílt á. Krafa sóknaraðila verður því ekki reist á 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991.
III
Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína á hendur varnaraðilum um afhendingu gagna og upplýsinga á 2. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 67. gr., laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 62. gr. sömu laga.
Samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 ber aðila máls að verða við áskorun gagnaðila um að leggja fram skjal sem hann hefur í vörslum sínum ef gagnaðilinn á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að aðila væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu. Verði aðili ekki við slíkri áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefur undir höndum, getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn gagnaðilans um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Frekari úrræði hefur aðili ekki að lögum til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila síns eins og ítrekað hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm réttarins 15. janúar 2015 í máli nr. 11/2015 og þá dóma sem þar var vísað til. Þá á vísun sóknaraðila til 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 ekki við, enda gildir það ákvæði ekki um málsaðila heldur þriðja mann sem hefur vörslu skjals og hvernig honum verður gert að afhenda það.
Svo sem áður greinir voru dómkvaddir menn til að leggja mat á nánar tiltekin atriði sem lutu að störfum varnaraðila í þágu sóknaraðila. Telur sóknaraðili að varnaraðilum beri að láta af hendi þau gögn og upplýsingar sem krafa hans tekur til svo að matsmenn hafi aðgang að því sem matsgerðin lýtur að, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Eins og áður er rakið verður aðila máls ekki gert að láta af hendi gögn sem hann hefur í sínum umráðum. Hjá þeirri meginreglu verður ekki komist með því að óska matsgerðar sem snertir sakarefnið og fá gagnaðila þannig knúinn til að afhenda gögn óbeint í skjóli reglna um matsgerðir, enda geta þær reglur ekki orðið til þess að málsaðila verði gert að afhenda skjal sem hann þyrfti ella ekki að láta af hendi. Verður krafa sóknaraðila því heldur ekki tekin til greina á þessum grundvelli.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðilum, PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP, 400.000 krónur í kærumálskostnað hvorum um sig.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2016.
Í þinghaldi þann 19. nóvember sl. krafðist stefnandi úrskurðar dómsins þess efnis að stefndu yrði gert að afhenda stefnanda tiltekin gögn og upplýsingar. Til vara krefst stefnandi þess að dómurinn úrskurði að matsmönnum verði veittur aðgangur að þessum gögnum. Í þinghaldi þann 14. desember fór fram munnlegur málflutningur um kröfuna sem var að því loknu tekinn til úrskurðar.
Þau gögn sem krafa stefnanda lýtur að eru í fyrsta lagi öll vinnugögn sem stefndu hafa umráð yfir vegna endurskoðunar og könnunar á reikningsskilum Landsbanka Íslands hf. vegna reikningsskila áranna 2005 til 2006 og sérstaklega áréttuð framlagning nánar greindra vinnuganga frá þessum árum. Þá er gerð krafa um framlagningu alla gagna og samskipta, þ.m.t. tölvupóstsamskipta, vegna ráðgjafar stefndu vegna nánar greindra þátta í reikningsskilum Landsbankans hf. á sama tímabili. Í þriðja lagi er krafist framlagningar vinnugagna sem stefndu hafi umráð yfir vegna reikningsskila áranna 2007 og 2008 og ekki hafi þegar verið lögð fram í tengslum við vinnu dómkvaddra matsmanna og er nánar greint frá því í kröfunni hvaða gögn sérstaklega hún lýtur að. Loks er þess krafist að lögð verði fram öll gögn, samskipti og niðurstöður gæðaúttektar sem PWC samtökin gerðu í apríl 2008 vegna endurskoðunar PWC ehf. á Landsbanka Íslands hf.
Stefnandi vísar til þess í kröfu sinni að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá ofangreind gögn afhent, hann hyggist afhenda þau dómkvöddum matsmönnum en á fundum með matsmönnum hafi komið fram að stefndu hyggist ekki leggja þessi gögn fram. Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 68. gr. sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings aðalkröfu sinni og til 3. mgr. 62. gr. sömu laga til stuðnings varakröfu sinni.
Stefndu mótmæla kröfu stefnanda og krefjast þess að henni verði hafnað. Þá gera þeir kröfu um að stefnanda verði gert að greiða málskostnað í þessum hluta málsins og vísa til þess að kröfugerð þessi sé með öllu tilhæfulaus. Í fyrsta lagi sé það rangt sem stefnandi haldi fram að stefndu hafi neitað því að afhenda dómkvöddum matsmönnum framangreind gögn. Þá liggi fyrir að samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 sé ekki lagagrundvöllur fyrir kröfu stefnanda svo sem margstaðfest hafi verið með dómum Hæstaréttar og tilvísun til ákvæðis 3. mgr. 62. gr. geti ekki verið til stuðnings kröfu stefnanda þar sem ákvæðið lýtur að skyldu til að veita matsmönnum aðgang að gögnum en ekki stefnanda.
Sú meginregla gildir í einkamálaréttarfari að aðilar hafa sjálfir forræði á málarekstri sínum, þ.á.m. því hvaða gögn þeir leggja fram í dómi. Aðili getur skorað á gagnaðila að leggja fram tiltekin gögn sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 og ber gagnaðila að verða við því samkvæmt því sem nánar greinir í því ákvæði. Verði aðili máls ekki við kröfu gagnaðila um framlagningu skjals getur það haft þær afleiðingar sem greinir í 1. mgr. 68. gr. sömu laga, þ.e. að dómari geti þá skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskorandans um efni skjalsins. Úrræði til að knýja á um aðgang að gögnum í vörslu gagnaðila eru tæmandi talin á framangreindan hátt sbr. m.a. dóm Hæstaréttar nr. 11/2015 kveðinn upp 15. janúar 2015 og þá dóma réttarins sem vísað er til í forsendum hans. Þá er því jafnframt hafnað að stefnandi geti krafist afhendingu ganga á grundvelli 3. mgr. 62. gr. þegar af þeirri ástæðu ákvæðið kveður á um skyldu til að láta dómkvöddum matsmanni í té gögn en ekki aðilum máls.
Með vísan til framangreinds er kröfu stefnanda hafnað. Fallist er á það með stefndu að tilefni kröfugerðar þessarar er óljóst, enda fá staðhæfingar stefnanda um að stefndu hafi neitað að afhenda matsmönnum framangreind gögn, litla stoð í framlögðum gögnum auk þess sem telja verður að framangreind niðurstaða dómsins um skort á lagarökum fyrir kröfu stefnanda sé skýr og ótvíræð í fyrirliggjandi fordæmum Hæstaréttar. Verður tekið tillit til þessa við ákvörðun málskostnaðar sem látin er bíða endanlegs dóms í málinu.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu stefnanda er hafnað. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.