Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2012
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn
6. desember 2012. |
|
Nr.
463/2012. |
M (Lára V.
Júlíusdóttir hrl.) gegn K (Valborg
Snævarr hrl.) |
Barn. Forsjá. Umgengni Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá tveggja barna sinna og
umgengni við þau. K hafði frá uppkvaðningu dóms í fyrra forsjármáli þeirra
farið ein með forsjá barnanna og í málinu freistaði M þess að fá hnekkt því
fyrirkomulagi. Að virtri matsgerð dómkvadds manns og öðrum gögnum málsins var
talið að M hefði ekki sýnt fram á að hagsmunir barnanna stæðu til þess að
forsjá þeirri yrði breytt, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, heldur
var það talið þjóna hagsmunum barnanna betur að K færi áfram með forsjá þeirra.
Var því ekki fallist á kröfu M um að forsjá barnanna skyldi færast frá K til M,
en á hinn bóginn var mælt fyrir um umgengni barnanna við hann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni
Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2012. Hann krefst þess að
sér verði falin forsjá barna aðila, A og B, og stefndu gert að greiða einfalt
meðlag með þeim frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs. Einnig krefst hann þess að
umgengni barnanna við það foreldri, sem þau búi ekki hjá, verði ákveðin með
dómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti
án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um
gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr
ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð
4. maí 2012, er höfðað með stefnu birtri 15. apríl 2011.
Stefnandi er M, kt.
[...], [...],[...].
Stefnda er K, kt.
[...],[...].
Stefnandi krefst þess að honum verði
einum falin forsjá barna aðila, stúlkunnar A, kt. [...],
og drengsins B, kt. [...].
Þá krefst stefnandi þess að stefndu
verði gert að greiða einfalt meðlag með hvoru barni fyrir sig eins og það
ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá 1. maí 2011 til
fullnaðs átján ára aldurs barnanna.
Jafnframt krefst stefnandi þess að
dómurinn ákveði hvernig umgengni barnanna skuli vera við það foreldri sem
börnin búa ekki hjá.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr
hendi stefndu að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum
stefnanda, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir:
Aðilar þessa máls voru hjón og eiga
saman 2 börn, þau A, fædda 2001, og B, fæddan 2003. Fyrir átti stefnda dóttur fædda 1996, C. Við skilnað þeirra varð að samkomulagi að þau
færu saman með forsjá barnanna. Seinna
höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu þar sem hann krafðist þess að sér yrði
dæmd forsjáin. Við meðferð málsins var
dómkvaddur matsmaður og varð meginniðurstaða hans sú að almennt séð væri staða
stefndu í forsjármálinu betri en staða stefnanda, hún hefði mun sterkari tengsl
við börnin, hefði annast þau miklu meira en sóknaraðili og ólíklegt væri að hún
vanrækti börnin með þeim hætti sem stefnandi hefði borið á hana. Lauk málinu með dómi Héraðsdóms Suðurlands 3.
júlí 2009 og var stefndu dæmd forsjáin og stefnanda gert að greiða einfalt
meðlag með börnunum. Ekki mun hafa verið
gerður formlegur samningur um umgengni, en ekki var kveðið á um umgengni í
dóminum, enda þess ekki krafist.
Með bréfi, dagsettu 24. mars 2011,
tilkynnti stefnda stefnanda um þá fyrirætlun sína að flytjast búferlum með
börnin til [...] 2. maí 2011, en hún hafði þá kynnst þarlendum manni og höfðu
þau ákveðið að ganga í hjúskap og gerðu það í
apríl 2011 skv. framlögðum gögnum.
Kveðst stefnda hafa flýtt för sinni og barnanna eftir að henni var birt
stefna í máli þessu, enda þar með ljóst að stefnandi myndi ekki samþykkja
flutning barnanna til [...] né ganga til samninga um umgengni við börnin á
grundvelli breyttrar búsetu þeirra, en hún hafi ávallt lagt á það áherslu að
stuðla að góðum samskiptum barnanna við stefnanda og hafi hún þess vegna sent
honum framangreinda tilkynningu 24. mars 2011, þó henni hafi ekki verið það
skylt að lögum.
Í stefnu kveður stefnandi aðstæður sínar
nú umtalsvert breyttar frá því fyrra forsjármál var rekið milli aðila. Hafi hann kvænst og eignast 2 börn með
núverandi konu sinni, en hann hafi jafnframt mikinn stuðning af sinni
fjölskyldu. Á árinu 2009 hafi stefnandi
frétt að dóttir hans, A, hafi orðið fyrir kynferðislegri misbeitingu af hálfu
skólabróður síns. Séu eftirmálar af því
illfyrirsjáanlegir þar sem stefnda hafi látið undir höfuð leggjast að sjá til
þess að stúlkan fái tilhlýðilega aðstoð vegna atviksins. Hafi sálfræðingur á vegum Barnahúss átt að eiga viðtöl við hana en það ekki
gengið eftir vegna „meintrar hyskni“ stefndu.
Hafi börnin haft umgengni við stefnanda og föður hans og systur. Faðir stefnanda sé barnakennari á [...], við
skóla barnanna. Þá hafi börnin verið í lengri og skemmri tíma hjá systur
stefnanda sem búi á [...].
Í greinargerð stefndu er þess getið
varðandi málavexti að meðan á hjúskap aðila hafi staðið hafi það fyrst og
fremst komið í hlut stefndu að annast uppeldi barnanna enda hafi stefnandi
stundað vinnu utan heimilis. Í fríum sínum hafi stefnandi lítinn þátt tekið í
uppeldi barnanna enda hafi hann þá átt við áfengisvanda að etja. Hafi
áfengisvandi stefnanda verið ein ástæða skilnaðarins. Telur stefnda samskipti
aðila vegna málefna barnanna eftir skilnaðinn hafa verið ágæt. Regluleg
umgengni stefnanda við börnin hafi ekki hafist fyrr en í janúar 2007 vegna
atvika sem vörðuðu stefnanda, en hann hafi verið á sjó og því mikið fjarverandi
auk þess sem hann hafi ekki haft ökuleyfi og borið fyrir sig peningaleysi. Hafi
stefnda sýnt stefnanda góðan skilning um þetta og engin illindi verið þeirra á
milli. Getur stefnda þess að stefnandi hafi um tíma dvalið á heimili stefndu í
kjölfar slyss sem hann hafi orðið fyrir og hafi stefnda annast hann í
veikindunum. Hafi því komið henni í opna
skjöldu þegar stefnandi hafi höfðað hið fyrra forsjármál. Í því máli hafi stefndu verið falin forsjá en
ekki verið gerður formlegur samningur um umgengni en börnin þó verið í
reglulegri umgengni við stefnanda.
Kveður stefnda að hún hafi hafið samband
við mann í [...] og liggur fyrir að þau gengu í hjúskap í apríl 2011. Hafi verið tekin ákvörðun um að hún myndi
flytja búferlum til [...] til eiginmanns síns með börnin og þau farið eftir það
og farið fyrr en áætlað hafi verið vegna ótta við þau viðbrögð stefnanda að
hann myndi leggjast gegn flutningi barnanna.
Stefnda bendir á að hún hafi tilkynnt stefnanda um fyrirhugaðan flutning
þótt henni hafi verið það óskylt að lögum.
Undir rekstri málsins hefur verið lagt
fram allnokkuð af dómskjölum. Kemur fram
að börnin ganga í skóla ytra og njóta sjúkratrygginga. Þá liggja fyrir endurrit af fyrirtökum úr
sifjamálabókum sýslumannanna á Selfossi og í Keflavík þar sem fram kemur að
aðilar sjái fyrir sér að umgengni verði milli 4 og 6 vikur á sumri hverju og að
börnin dvelji hjá sama foreldri um páska og jól á sama árinu. Þá liggja fyrir handskrifuð bréf frá börnunum
þar sem þau lýsa því að þeim líði vel í [...], þar sem þau áttu lögheimili á
árinu 2011 skv. framlögðum útprentunum úr þjóðskrá. Þá hafa verið lögð fram afrit af
sálfræðiskýrslum frá [...] Schools, undirritaðar af D
skólasálfræðingi varðandi börnin. Af
þeim verður ekki annað ráðið en að þeim líði vel í skólanum ytra, þó að fram
komi að þau sakni fjölskyldu sinnar og skólafélaga á Íslandi. Þá kemur fram að tungumálaörðugleikar hafi
háð þeim en að þau njóti aðstoðar vegna þess.
Frá sveitarfélaginu [...] og grunnskólum
[...] hafa verið lögð fram 39 dómskjöl.
Verður hér gerð grein fyrir megin efni þeirra. Fram kemur í umsögn umsjónarkennara A að hún
hafi staðið höllum fæti í námi veturinn 2010/2011, en hafi góða greind en vinni
langt undir getu. Hún hafi hvorki sinnt
heimanámi né námi í skólanum sem skyldi, hafi mætt illa og kvartað ítrekað
undan þreytu og vanlíðan. Hafi umsjónarkennari
hennar haft af henni töluverðar áhyggjur og rætt þær bæði við stefndu og
skólastjórnendur. Stefnda hafi afþakkað
viðtöl hjá skólasálfræðingi þar sem A væri í sálfræðimeðferð á vegum
Barnahúss. Kveðst umsjónarkennari A hafa
haft lítil en ágæt samskipti við stefndu.
Þá hafi A bæði virst hlakka til og kvíða fyrir flutningum til [...]. Í umsögn umsjónarkennara B kemur fram að hann
sé námslega sterkur, en sinni náminu alls ekki vel. Hann vinni afar lítið í skólanum og vilji
ráða ferðinni sjálfur. Hann sé vel
greindur og fljótur að átta sig á hlutunum og ráði vel við allt námsefni. Samskipti umsjónarkennara við stefndu hafi
verið góð. Þá kemur fram að B hafi verið
spenntur fyrir fyrirhugaðri [...]ferð og hafi hlakkað til að flytja út. Einskis er í umsögnum þessum getið um samskipti
við stefnanda.
Fram kemur í umsögn Barnaverndar [...] að
A hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hendi skólabróður sÍns, móðir hafi ekki sinnt sem skyldi meðferðarviðtölum
sem barninu hafið verið boðin. Veturinn
2010/2011 hafi reynst fjölskyldunni erfiður og aukinheldur hafi verið
erfiðleikar í fjármálum móður. Megi
leiða líkum að því að flutningar til [...] hafi góð áhrif á stöðu
fjölskyldunnar allrar, en um leið séu áhyggjur af líðan og velferð A þar sem
talin sé mikil þörf á áframhaldandi stuðningi og meðferð. Þá kemur fram að umsögnin og lokaskýrsla
Barnahúss verði þýdd á ensku og send til [...].
Þá liggja fyrir 4 tilkynningarblöð, 2 fyrir hvort barn, þar sem tilkynnt
er um það til Barnavernd [...] að tilkynnandi hafi áhyggjur af vanrækslu
varðandi umrædd börn vegna umsjónar og eftirlits með þeim, dagsett 17. mars og
15. apríl 2011, en tilkynnandi óskar nafnleyndar. Þá liggja fyrir 3 bréf frá systur og föður
stefnanda til Barnaverndar [...], 2 ódagsett og eitt dagsett 19. mars
2011. Virðist tilkynningar þessar og
bréf ekki hafa leitt til neinna aðgerða.
Þá liggja fyrir 2 tilkynningar frá skólum barnanna, ein fyrir hvort
barn, dagsett 5. október 2010, til Barnaverndar [...] vegna lélegrar mætingar í
skóla og vanrækslu vegna umsjónar og eftirlits.
Virðist þetta hafa leitt til áætlunar sem gerð var 6. janúar 2011 um
stuðning við móðurina varðandi börn hennar og gilti áætlunin til 6. apríl
2011. Ekki er að sjá að framhald hafi
verið fyrirhugað á því. Þá kemur fram að
félagsráðgjafi á vegum Barnaverndar [...] hafi rætt við bæði börnin og hafi
komið fram hjá þeim báðum vilji til að búa frekar hjá stefndu en stefnanda, en
að þau hafi blendnar tilfinningar gagnvart fyrirhuguðum flutningum til [...].
Í
umsögn skóla A í [...] kemur fram að hún hafi aðlagast vel aðstæðum og eignast
félaga. Henni gangi vel námið og svo virðist sem móðir hugsi vel um hana. Í
umsögn skólans um B kemur fram að hann hafi látið vel af dvöl sinni. Hann hafi
fengið sérkennslu, sé framúrskarandi greindur og aðlögun hafi gengið vel. Það
var jafnframt álit skólans að vel væri hugsað um hann heima fyrir.
Fram kemur í umsögn kennara A í
Grunnskólanum í [...] að hún sé í góðu jafnvægi, sé kát og glaðleg og hafi
fallega framkomu og falli vel í hóp. Um B segir kennarinn að hann sé langt á
undan jafnöldrum sínum í þroska og áhuga og námslega sé hann kominn mun lengra
en bekkjarfélagarnir. Þá hafi móðir verið í góðu sambandi við skólann.
Undir rekstri málsins var Ragna
Ólafsdóttir sálfræðingur dómkvödd til að vinna matsgerð. Í niðurstöðum matsgerðar kemur fram að
stefnandi búi í [...] í eigin húsnæði ásamt pólskri eiginkonu sinni og sex
börnum. Hann hafi lengst af verið
sjómaður og hafi nýverið fengið skipstjórapláss í [...] og muni það kalla á
fjarvistir frá heimili. Stefnda sé gift [...]
sem sé búsettur í [...] og hafi stefnda búið með honum ásamt börnum sínum og
fjórum börnum hans í níu mánuði.
Aðstæður barnanna þar séu góðar, bæði í skólanum og á heimilinu. Stefnda hafi orðið að fara frá [...] og til
Íslands vegna vandamála með landvistarleyfi en unnið sé að því að leysa þau og
hafi hún búið hjá systur sinni í [...] á meðan.
Börnin hafi bæði verið í skóla í [...] frá því í janúar 2012 og líti á
það sem tímabundið, en þau horfi bæði til þess að flytja aftur til [...] og
halda þar áfram skólagöngu sinni.
Segir að báðir foreldrarnir séu hæfir
til að fara með forsjá barna sinna. Þau
sinni börnunum vel og veiti þeim ástríki.
Báðir foreldrarnir lýsi börnunum á samsvarandi hátt og beri umhyggju
fyrir þeim og þekki þau vel. Börnin
tengist nýjum mökum foreldra og meiri stöðugleiki virðist ríkja í lífi foreldra
með tilkomu nýrra maka.
Börnin séu vel gerð og búi yfir góðri
sjálfsmynd og séu í ágætu jafnvægi. Þau
líti á dvöl sína í [...] sem tímabundna ráðstöfun. Þau láti vel af dvöl sinni í [...] og horfi
til framtíðarheimilis þar. Skólaganga
þar hafi gengið vel og þau sátt á nýju heimili með stjúpföður og
stjúpsystkinum.
Samkvæmt viðtölum og tengslaprófi séu
börnin tengd foreldrum sínum jákvæðum og öruggum tengslum. Tengslin við móður séu sterkari og
endurspegli það að hún hafi verið megin umönnunaraðili barnanna.
Ekki virðist börnin vera í miklum
tengslum við stórfjölskyldur sínar, en föðurafi virðist vera þeim náinn.
Börnin séu nálæg í aldri og hafi alltaf
fylgst að og séu náin. Afstaða barnanna
sé skýr um það hjá hvoru foreldrinu þau vilji vera. Þau hafi ávallt búið hjá móður sinni og verið
í helgarumgengni við föður sinn frá unga aldri.
Þau þekki ekkert annað og vilji enga breytingu þar á. Þá kveður matsmaður það skýran vilja barnanna
að búa áfram í [...].
Þá segir að fari stefnda áfram með
forsjána þá sé mikilvægt að börnin geti áfram ræktað tengslin við stefnanda og
systkini. Vegna fjarlægða sé mikilvægt
að börnin geti dvalið hjá föður sínum í skólafríum. Fari forsjá frá móður til föður hafi það
mikla röskun í för með sér fyrir börnin, en þau hafi frá skilnaði foreldra
sinna búið hjá móður sinni og einungis verið í helgarumgengni hjá föður og
hluta af sumarfríi.
Í matsgerð kemur fram að matsmaður hafi
rætt við C hálfsystur barnanna, en hún dvaldist með þeim í [...]. Hún
lætur mjög vel af dvöl sinni þar í landi. Hún hafi fallið vel inn í hóp
bekkjarfélaga, hafi gengið námið vel og eignast nánar vinkonur. Henni hafi
jafnframt líkað vel við stjúpföður sinn og börn hans og sveitabýli hans hafi
fallið henni afar vel í geð. Hún segir jafnframt að mikil og jákvæð breyting
hafi orðið á hegðun og líðan móður hennar eftir að þau fóru til [...]. Hafi
hún áður verið pirruð og óróleg en sé nú hamingjusöm og ánægð. Þá sé systkini
hennar farið að lengja eftir að komst út að nýju. Frásögn stúlkunnar er studd
málsgögnum þar sem m.a. kemur fram að grunnskóli barnanna hafi, áður en þau
fóru til [...], tilkynnt móður til barnaverndarnefndar vegna umsjónar
hennar og lélegra mætinga barnanna. Þykir ljóst að breyting hafi orðið á hegðun
móður til hins betra
Þá voru lögð fram gögn frá
Lögreglustjóranum á Suðurnesjum þar sem fram kemur að 25. apríl 2012 var
lögregla kvödd að heimili stefnanda þar sem haft var tal af eiginkonu stefnanda
og eftir henni haft að stefnandi hafi verið með hótanir og ógnandi tilburði og
hún verið mjög hrædd við hann og flúið með börnin af heimilinu. Segir að hún hafi óskað eftir því við
lögreglu að útvega sér og börnum sínum húsaskjól í Kvennaathvarfinu. Kemur fram að rannsókn hafi verið hætt og
engin kæra né aðrar kröfur verið lagðar fram.
Fram kemur hins vegar að drykkja og ósætti hafi verið á heimilinu og að
skilnaður hafi komið til tals milli stefnanda og eiginkonu hans. Kemur jafnframt fram að áður hafi komið til
ósættis og jafnvel ryskinga milli þeirra.
Málsástæður
stefnanda
Í stefnu er ekki sérstakur kafli þar sem
málavöxtum er lýst en blandað saman málsástæðum og öðrum atvikum.
Stefnandi vísar til þess að aðstæður
hans séu nú betri en áður var þegar dæmt var í hinu fyrra forsjármáli.
Þá byggir stefnandi á því að stefnda
hafi látið undir höfuð leggjast að sjá
til þess að dóttir aðila, A, fengi nauðsynlega aðstoða vegna kynferðislegrar
áreitni sem hún hafi orðið fyrir.
Börnin hafi verið í umgengni við
stefnanda og föður hans og systur, en faðir stefnanda sé barnakennari og þá
hafi börnin verið í umgengni við systur stefnanda í lengri og skemmri tíma
þegar færi hafi gefist.
Ekkert komi fram í tilkynningu stefndu
24. mars 2011 um tilgang dvalarinnar í [...]. Ekkert bendi til þess að stefnda
hafi útvegað sér og börnunum dvalarleyfi þar í landi þannig að þau geti sest
þar að varanlega. Liggi hvorki fyrir hvar stefnda muni búa þar í landi, né
heldur um sjúkratryggingar, framfærslu eða hvernig staðinn verði straumur af
kostnaði við flutningana. Þar sem flest bendi til þess að fjárhagsstaða stefndu
sé erfið verði ekki sé að hún geti staðið undir kostnaði sem þessu fylgi. Stefnda hafi ekki áður búið erlendis. Sé ljóst að búferlaflutningarnir séu til þess
fallnir að valda óöryggi og stefnuleysi í lífi barnanna og slíta tengsl þeirra
við föðurfjölskyldu sína á Íslandi. Þá megi gera ráð fyrir að það bitni á rétti
barnanna til menntunar að þau verði tekin úr skóla á þennan hátt á miðri önn en
ekkert sé vitað um hvað standi til varðandi skólagöngu þeirra ytra. Sé það mat stefnanda að fyrirhugaðir
flutningar þjóni ekki hagsmunum barnanna og hafi stefnandi því ákveðið að höfða
forsjármál vegna þeirra, en hann hafi um það rökstuddan grun að fyrirhugaðir
flutningar „séu ekki alveg allir eins og þeir eru séðir“. Sé það fyrst og fremst með það í huga að
börnin öðlist meiri festu í líf sitt, en slíkir flutningar muni óhjákvæmilega
raska lífi barnanna en jafnframt þá líti stefnandi til þess að missa ekki
samband við börnin sín og að þau geti notið
samvista við annað skyldfólk þeirra.
Um lagarök vísar stefnandi til 4. mgr.
31. gr. og 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Kveðst stefnandi vísa til þess að krafa hans um óskipta forsjá samræmist
best þörfum og hagsmunum barnanna. Vegna
meðlagskröfu vísar stefnandi til 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 svo og
til 1. mgr. 53. gr. laganna um framfærsluskyldu, sem og 54. gr. nefndra
laga. Vegna kröfu um umgengni kveðst
stefnandi vísa til 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, um varnarþing til 37.
gr. nefndra laga en um málskostnað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr.
91/1991, auk laga nr. 50/1988 vegna kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað.
Málsástæður
stefndu
Stefnda kveðst byggja kröfur sínar á 34.
gr. barnalaga nr. 76/2003, enda væri það andstætt hagsmunum barnanna að fallast
á kröfur stefnanda. Hagsmunir barnanna
felist í því að stefnda fari með óskipta forsjá þeirra áfram enda börnin verið
búsett hjá henni og í hennar umsjá allt
sitt líf.
Stefnda hafi ávallt verið
umönnunarforeldrið, bæði meðan á sambúð aðila stóð og eftir það. Tengsl barnanna við hana hafi verið önnur en
tengsl þeirra við stefnanda, en þetta komi fram í matsgerð úr fyrra
forsjármáli. Í matsgerðinni komi fram
að stefnda átti sig mun betur á þörfum barnanna og bregðist við þeim þörfum á
eðlilegri hátt. Stefnandi sé hins vegar
með mun þrengri viðmiðunarramma og minna úthald og sé forsjárhæfni stefndu mun
víðtækari en stefnanda. Í fyrra
forsjármálinu hafi komið fram að stefnandi hafi aldrei verið í neinu sambandi
við skóla og leikskóla barnanna og ekki virst hafa neinar áhyggjur af umönnun
þeirra hjá stefndu.
Í fyrra forsjármálinu hafi verið lagt
fjölskyldutengslapróf fyrir stúlkuna A og niðurstaða þess orðið að hún myndaði
sterkust tengsl við stefndu og börn hennar, en tengsl hennar við stefnanda hafi
mælst talsvert veikari og raunar talsvert rýr.
Á sama hátt hafi niðurstaða fjölskyldutengslaprófs sem drengurinn B hafi
tekið verið sú að hann myndaði langsterkustu heildartengsl við stefndu og
tengslin við stefnanda hafi verið verulega rýrari en við stefndu.
Þá sýni greindarpróf að stúlkan A sé í efri meðalgreind í
heild en drengurinn með góða og trausta greind. Sé þannig ljóst að börnin séu
bæði vel gerð og greind og muni því ekki eiga í erfiðleikum með að aðlagast í
nýju skólakerfi. Þau hafi þegar hafið
þar skólagöngu og líði vel í nýjum skóla.
Við hið fyrra forsjármál hafi verið aflað umsagna skóla
og leikskóla og ekkert verið þar að finna sem hafi gefið tilefni til annars en
að vel væri hugsað um börnin af hálfu stefndu.
Í hinu fyrra máli hafi verið dæmt 3. júlí 2009 og niðurstaða orðið
sú að stefnda færi með forsjá barnanna.
Drengurinn B hafi lýst því við kennara sinn að hann hlakkaði
til að flytja til [...] og sé engin ástæða til að ætla
annað en að honum muni vegna vel þar.
Sé ljóst að engin rök standi til þess að fallist verði á
kröfur stefnanda enda myndi það valda gríðarlegri röskun á högum barnanna. Þau séu flutt til [...] og séu þar að aðlagast jákvæðum breytingum á högum fjölskyldunnar. Þau séu
mjög jákvæð í garð hinna breyttu aðstæðna og hafi hlakkað til þess að flytja.
Við mat á stöðugleika í uppeldisumhverfi barna sé aðallega átt við að sami
aðili annist uppeldið, með heildstæðum hætti þannig að börnin búi við sömu
reglur og uppeldisanda. Þar skipti það mestu máli að sami aðili annist
uppeldið, en ekki hvort umhverfið sjálft sé hér á landi eða annars staðar, í
borg eða sveit.
Stefnda hafi flýtt för sinni til [...] eftir að henni hafi verið birt stefna í forsjármáli þessu, enda hafi hún
talið verulega hættu á því að stefnandi myndi krefjast farbanns. Því hafi þau flust af landi brott þann 18.
apríl 2011. Tekur stefnda fram að þar sem hún fari ein með forsjá
barnanna hafi henni verið heimilt að lögum að flytja með börnin af landi brott.
Elsta dóttir stefndu, sem sé ekki dóttir stefnanda,
fimmtán ára gömul, hafi orðið eftir til að ljúka skóla á Íslandi en hún muni
halda til [...] sumarið 2011 en dvelja hjá móðurafa
sínum þangað til.
Ekki sé sýnt fram á að flutningur barnanna til [...] sé andstæður hagsmunum þeirra, en fyrir því beri stefnandi
sönnunarbyrði. Mikið þurfi til að koma
svo forsjá verði færð frá forsjárforeldri yfir til forsjárlauss foreldris. Börnin hafi aldrei verið búsett á heimili
stefnanda og sé ólíklegt að þau myndu samþykkja það. Fyrir liggi matsgerð
dómkvadds matsmanns úr fyrra forsjármáli sem sýni sterk tengsl barnanna við
stefndu og að hagsmunum þeirra sé best borgið í hennar forsjá. Ekki hafi þeirri matsgerð verið hnekkt með
yfirmati eða síðari matsgerð, en því hljóti sú niðurstaða matsgerðar sem og
dóms sem á henni byggir að standa.
Stefnda mótmælir því að hafa látið undir höfuð leggjast
að afla stúkunni tilhlýðilegrar aðstoðar
vegna þeirrar kynferðislegu misbeitingu hún hafi orðið fyrir. Vegna atvika sem varði alfarið
barnaverndaryfirvöld hafi meðferðin dregist á langinn. Telji dómurinn ástæðu
til geti stefnda aflað gagna til framlagningar um þetta atriði. Þá skorar stefnda á stefnanda að upplýsa við
hvað átt sé með „meintrar hyskni stefndu“ í kaflanum sem fjallar um þetta
atriði í stefnu.
Þá veki það furðu að tilgreint sé í stefnu að börnin hafi
verið í umgengni við föður sóknaraðila og systur. Samkvæmt lögum eigi börnin aðeins að vera í
umgengni við stefnanda. Með samkomulagi
við stefndu, eftir að hún flutti til [...], hafi
tilgreindir aðilar fengið aðgang að íbúð hennar, til að sækja leikföng í eigu
barns í fjölskyldunni. Í ljós hafi hins
vegar komið að allar eigur barnanna, leikföng, fatnaður og annað sem þar var,
hafi verið tekið ófrjálsri hendi og hafi ekki fengist afhentir. Ætlunin hafi
verið að faðir stefndu myndi pakka eigum barnanna og senda til [...], en það hafi ekki gengið eftir vegna þessa og séu því börnin án þessara eigna, fyrir tilstilli
fjölskyldu stefnanda. Þetta sé
augljóslega andstætt hagsmunum barnanna, en stefnda hafi orðið að útvega
börnunum allt nýtt ytra af þessum sökum.
Stefnda og unnusti hennar hafi gengið í hjónaband þann
25. apríl 2011 eins og ráðgert hafi verið. Muni börnin hefja skólagöngu í nýjum
skóla ytra mánudaginn 9. maí 2011 en skólinn hafi verið í vorleyfi þegar þau
fluttu út. Eftir að skóli hafi hafist að nýju, þriðjudaginn 3. maí 2011, hafi
börnin þurft að fara í berklapróf en þeim hafi verið óheimilt að hefja
skólagöngu fyrr en niðurstaða liggur fyrir.
Liggur fyrir að börnin stunduðu skóla ytra á haustönn 2011, áður en þau
komu aftur til Íslands, en hafa verið í skóla í [...] eftir það.
Stefnda kveður aðstæður fjölskyldunnar ytra mjög góðar.
Hún og börnin hafi flutt inn á heimili eiginmanns stefndu. Þar búi fyrir sonur
eiginmannsins, fimmtán ára gamall og ellefu ára dóttir. Hafi börnin náð mjög
vel saman. Þau búi í húsi á 40 ekra landi sem sé umlukið trjám, en þar sé stórt
tún ásamt leiktækjum sem börnin njóti mjög. Búi þau í sveit en þó sé ekki um að
ræða búgarð, þó svo að þau haldi húsdýr.
Fjölskylda eiginmannsins búi skammt frá og hafi tekið stefndu og börnin
inn í fjölskylduna. Stefnda og börnin finni sig mjög velkomin og séu börnin
mjög ánægð sérstaklega drengurinn. Börnin hafi náð mjög góðum tengslum við
alla fjölskylduna og eiginmaður stefndu taki börnunum sem sínum eigin. Sé algjörlega ljóst að vilji barnanna standi
til búsetu hjá stefndu, en það hafi komið fram hjá þeim báðum í samræðum við
stefndu en börnin viti af
málarekstrinum.
Þá tekur stefnda fram að hún muni stuðla að hverri þeirri
umgengni sem dómari ákveði en sé jafnframt reiðubúin að fara góða samningsleið
við stefnanda, fallist hann á breytta búsetu barnanna hjá stefndu og semja um
að börnin komi til stefnanda í öllum námsleyfum.
Skýrslur
fyrir dómi
Vitnið Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur,
sem var dómkvaddur matsmaður í málinu, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og
skýrði frá því aðspurð að aðilar virtust vera sáttari og líða betur eftir
tilkomu nýrra maka í líf þeirra. Ekki
hafi verið ástæða til að gera ný persónuleikapróf á aðilum frá því gerð hafi verið
matsgerð í fyrra forsjármáli aðila, enda hafi þau verið ítarleg og ekki líkleg
til að breytast, enda prófin nýleg. Hafi
vitnið talið réttara að leggja klínískt mat á aðila út frá viðtölum og
heimsóknum til þeirra. Ekki hafi þó
matsmaður farið heim til stefndu, en hún búi í [...]. Vitnið gat þess aðspurð að eiginmaður stefndu
ynni ekki utan heimilis um helgar, heldur á búgarði og heimili
fjölskyldunnar. Kom fram að börnin þekki
til stórfjölskyldu eiginmanns stefndu ytra.
Kom fram hjá vitninu að það væri skýr vilji barnanna að þau vildu engar
breytingar á því fyrirkomulagi að heimili þeirra væri hjá móður. Kvaðst vitnið telja mun meiri röskun felast í
því fyrir börnin að flytjast til föður, en að vera áfram með heimili sitt hjá
móður, þó svo að móðir hafi flutt til [...], enda hafi þau aðeins verið í
helgarumgengni hjá föður.
Ekki kvaðst vitnið hafa greint neinar
ástæður til að hafa áhyggjur af börnunum í [...]. Ekki kvaðst vitnið telja vera neinar ástæður
til að breyta forsjánni. Kom fram að
vitnið teldi tengsl barnanna mest við móður og að þau tengsl vegi mjög
þungt. Vilji barnanna um þetta hafi
verið mjög skýr og skipti miklu við úrlausn málsins þegar um sé að ræða svo
stálpuð börn. Vilji barnanna byggi á því
að þau hafi alla tíð fylgt móður sinni.
Þetta bendi til að þeim hafi alla jafna liðið vel í hennar umsjá. Ef litið væri fram hjá sterkum tengslum
barnanna við móður sína og vilja barnanna þá gæti það haft mjög mikil áhrif á
börnin, þ.e. ef forsjá færi til föður og hin sterku tengsl og vilji barnanna
yrði hunsuð. Vansæld, vanlíðan og
hegðunarraskanir gætu fylgt í kjölfarið og væru jafnvel sennilegar. Ef svo færi og börnin myndu gera föður sinn
ábyrgan fyrir breytingunum, þá gæti það haft alvarlegar afleiðingar. Aðspurð vegna nýrra gagna sem fram hefði
komið eftir ritun matsgerðar, kvað vitnið að börnin hefðu tengsl við eiginkonu
stefnanda og börn hennar og að það gæti breytt einhverju ef upp úr hjónabandi
hans slitnaði.
Aðspurð kvað vitnið telja ráðlegra að
börnin fylgi móður sinni en föður. Um sé
að ræða greind og skýr börn og ekkert hafi komið fram í máli þeirra sem gæfi
tilefni til að tortryggja eða efast um þeirra afstöðu. Ef til kæmi að hjónaband stefndu og
eiginmanns hennar gengi ekki og búseta þeirra í [...] yrði endaslepp eða með
öðrum hætti en nú væri ráðgert, þá væru foreldrarnir vonandi það skynsöm að
geta tekið á því. Mikilvægt væri að
ákvarðanir yrðu teknar um umgengni við föður
enda væru börnin tengd föður sínum.
Kom fram að stefnda hafi skýrt vitninu
frá því að stefnda hafi reynt að koma dóttur sinni að hjá sálfræðingi ytra til
að kanna hvort hún þyrfti aðstoð vegna þeirrar áreitni sem hún hefði orðið
fyrir hér á landi af hálfu skólabróður síns, en hafi reynst torvelt að fá þá
aðstoð. Ekki hafi vitnið greint neitt um
að eimdi eftir af því atviki eða að hún væri sködduð vegna þess, en vitnið hafi
lítt spurt um þetta þar sem hún hafi ekki haft nein tök að fylgja því
eftir. Kvað vitnið að fram hafi komið
hjá stefndu að stefnda teldi mjög mikilvægt að börnin héldu góðu sambandi við
föður sinn, en að erfitt gæti verið að koma því við m.a. vegna stuttra
páskaleyfa ytra, en að mjög mikilvægt væri að börnin kæmu til föður síns um jól
og í sumarleyfum.
Ekki kvaðst vitnið telja neina ástæðu
til að draga í efa að stefnda myndi virða ákvarðanir dómsins um umgengni. Ekkert væri í hennar fari sem benti til
þess. Umgengni hafi t.a.m. gengið öll
vel áður en stefnda hafi flutt til [...], en þó hafi komið fram hjá stefnanda
við gerð matsins að undir lokin, skömmu fyrir búferlaflutningana, hafi aðeins
brugðið út af því.
Ekki kvað vitnið telja vera neitt í fari
og aðstæðum stefnanda sem gæfi tilefni til að ætla að óheppilegt væri að hann
hefði forsjá barnanna. Tengsl hans við
börnin væru góð, en hann hafi samt lítið komið að daglegri umönnun barnanna.
Ekki kvaðst vitnið hafa merkt það á
nokkurn handa máta að afstaða barnanna hafi verið gefin undir einhverri pressu
eða væri stýrt á nokkurn hátt. Hafi
vitnið skynjað öryggi í frásögn barnanna og framsetningu þeirra á skoðunum
sínum. Hafi börnunum í raun fundist
„fáránlegt“ og „fjarri lagi“ að spyrja út í þann möguleika að forsjáin flyttist
til föður. Hafi vitnið ekki orðið vör
við annað en að afstaða barnanna væri einlæg.
Afstaða þeirra gagnvart föður sínum sé þó jákvæð allt að einu. Ekki hafi vitninu fundist börnin taka
forsjárdeilu foreldranna inn á sig, en þvert á móti virtust börnin vera með
góðar varnir.
Vitnið kvaðst telja mikilvægt vegna
búsetu barnanna ytra að komið yrði á einhvers konar reglulegum samskiptum og
tengslum við föður sinn utan hinnar eiginlegu umgengni, s.s. með samskiptum á
netinu. Væri það mjög gott fyrir börnin
að finna það að faðir þeirra væri ekki andsnúinn veru þeirra og búsetu ytra.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum við
aðalmeðferð og kom fram hjá honum að ástæður þess að hann hafi farið af stað
með málssókn hafi verið sú að honum hafi þótt fyrirætlanir stefndu líta
ótryggilega út. Of margt hafi verið
ófrágengið í málum þeirra á Íslandi til að „sleppa þeim af radarnum hérna
heima“. Margt hafi komið í ljós síðan
sem hafi farið fram úr sínum mestu áhyggjum vegna barnanna. Ekkert hafi komið fram sem hafi dregið úr
áhyggjum sínum, heldur þvert á móti hafi styrkst sú skoðun sín að rétt hafi
verið að höfða málið. Það hafi verið sér
áfall þegar börnin hafi flutt úr landi enda hafi hann ekki fengið tækifæri til
að kveðja þau og samskiptin eiginlega engin.
B hafi þó tekist að hafa við sig samskipti á eigin spýtur og þá í gegnum
skóla. Þá hafi A náð að stelast á „facebook“ og slíkt, en þau hafi greinilega verið undir
pressu, t.d. hafi hann ekki mátt vita hvar þau væru. Taldi stefnandi að stefnda og hin nýja
fjölskylda hennar ytra hafi meinað börnunum að hafa samband við sig. Hafi stefnandi átt að vera með börnin um og í
kringum páskana 2011, en það hafi ekki gengið eftir, sennilega vegna þingfestingar
máls þessa. Að öðru leyti hafi umgengni
farið eðlilega fram allt til þess. Ekki
hafi stefnandi heyrt neitt í börnum sínum með vitund og vilja stefndu fyrr en
um jólin 2011, að því frátöldu að þau hafi tvisvar sinnum fengið að tala við
hann á „skype“ en þá hafi stefnda verið yfir þeim
allan tímann. Ekki kvaðst stefnandi hafa
vitað af fyrirhugaðri komu til landsins fyrir jólin 2011, en hafa þó grunað það
og þess vegna verið á Keflavíkurflugvelli þegar þau hafi komið. Kvað stefnandi að börnin væru meðvituð um
málareksturinn nú, en hann forðaðist mjög að tala um þessi mál við þau. Það hafi verið mjög gaman að fá börnin í
umgengni um jólin og hafi hann ekki fundið annað en að börnin nytu þess líka. Hafi þeir dagar verið „ein dásemd“. Börnin hafi verið sjálfum sér lík. Þau hafi verið hjá sér u.þ.b. viku eða svo og
hafi það verið í samráði við stefndu.
Hafi hann ekki vitað til fulls hve lengi þau yrðu hjá sér og hvernig yrði
með búsetu stefndu og hann því gert ráðstafanir til að koma þeim í skóla í hans
heimabyggð í [...]. Af hálfu stefndu
hafi verið brugðist illa við því. Sér
hafi skilist af skólayfirvöldum í [...] að viðbrögð stefndu við þessu hafi
verið „hávær“. Ekki hafi þá verið búið
að koma fram af hálfu barnanna að ráðstafanir hafi verið gerðar um skóla og því
hafi hann farið af stað með þetta.
Aðspurður um það hvort afi barnanna og
frænka hafi farið og tekið eigur barnanna, kvað stefnandi að það hafi verið í
samráði milli stjúpföður stefndu og föður stefnanda að faðir stefnanda myndi
sækja hluti þeirra á fyrrverandi heimili þeirra. Hafi orðið að sammæli að faðir stefnanda tæki
munina og gætti þeirra.
Vegna matsgerðar vildi stefnandi taka
fram að rangt væri þar farið með nafn á hundi en hundurinn héti ekki „Hitler“
heldur héti hundurinn“Adolf“.
Sér hafi ekki fundist að upplifun
barnanna varðandi búferlaflutninga til [...] væri endanleg, heldur frekar svona
eins og skemmtiferð eða eitthvað sem væri tímabundið.
Vegna nýrra gagna kvað stefnandi að
aðkoma lögreglu að heimili hans nýverið hafi verið útspil móður stefnanda, sem
hafi verið mikil „álægja“ á heimilinu.
Hafi stefnandi kært móður sína til að reyna að losna við afskipti
hennar, en tilkynningin til lögreglu hafi komið alfarið frá henni. Allt sé þetta að undirlagi móður stefnanda sem
vinni gegn sér í málinu. Hafi hún áður
sent lögreglu á stefnanda og systkini hans í tíma og ótíma. Taldi stefnandi hegðun móður sinnar stjórnast
af neyslu áfengis og lyfja og kvaðst engin samskipti hafa við hana. Kvað stefnandi að eiginkona sín hefði ekki
íslenskan orðaforða til að láta koma fram það sem haft væri eftir henni í
umræddum gögnum.
Hjúskaparstöðu sína kvað stefnandi vera
óbreytta og engar breytingar væru væntanlegar þar á næstunni og væri slíkt ekki
í farvatninu. Hjónabandið hafi verið traust
og konan sín væri tilbúin að takast á hendur uppeldishlutverk gagnvart
börnunum. Kvað stefnandi að umrætt kvöld
hafi skilnaður komið til tals og því hafi eiginkona hans farið út, en hún hafi
misskilið hann þar sem hann hafi talið að móðir hans væri að reyna að skemma
fyrir honum með því að koma neikvæðum upplýsingum til lögmanns stefndu. Hafi eiginkona stefnanda og móðir hans verið
í samskiptum og hafi stefnandi sagt að ef þetta yrði til að eyðileggja mál þetta
fyrir stefnanda þá gæti komið til skilnaðar.
Hafi stefnandi varað eiginkonu sína við móður stefnanda og beðið hana um
að vera ekki í samskiptum við hana.
Taldi stefnandi ekki að skilnaður stæði fyrir dyrum, en hann hafi þó
sagt við eiginkonu sína að hann þyrfti að íhuga skilnað. Kvað stefnandi að ekki væri flugufótur fyrir
þeim ásökunum á hendur honum sem hafðar væru eftir eiginkonu hans í gögnum
lögreglu og skýrslu sem tekin var af henni hjá lögreglu. Það væri t.d. alrangt að hann hafi lagt á
hana hendur. Ekki kvaðst þó stefnandi
geta sagt til um það hver væri að segja ósatt og hvers vegna slíkt væri haft
eftir eiginkonu sinni. Rétt væri hins
vegar að eiginkona sín hafi nefbrotnað í febrúar og kvaðst stefnandi ekki vita
hvernig hún hafi nefbrotnað, en hún hafi verið afar drukkin umrætt sinn og
„snarvitlaus“, en þetta hafi verið eina skiptið sem hún hafi drukkið sterkt vín
og það gegn sínum fyrirmælum og í miðri viku.
Hafi hún verið undir pressu, en þó bregðist hún venjulega ekki við
pressu með því að drekka áfengi.
Aðspurður um það hvers vegna lögregla hafi tekið og lagt hald á
byssusafn sitt nýverið kvað stefnandi það hafa verið vegna þess að tilkynning
hafi komið um að tveir skothvellir og neyðaróp hafi átt að heyrast frá
íbúðinni. Þetta væri hins vegar rangt og
kvaðst stefnandi jafnframt hafa leyfi fyrir öllum byssunum. Aðspurður kvaðst stefnandi hafa verið
nýhættur í skipsplássi og þá verið atvinnulaus.
Aðspurður kvað stefnandi sér hafa þótt
glórulaust hvernig stofnað hafi verið til [...]farar stefndu og sambands hennar
við eiginmann sinn. Hafi stefnda ekkert
vitað hvað hún væri að fara út í og ekkert hafi legið fyrir um dvalarleyfi og
annað. Virtist sér enn allt vera fremur
óljóst um tryggilega dvöl og aðbúnað ytra, en hann væri réttlaus gagnvart
börnunum ef eitthvað kæmi fyrir ytra.
Stefnandi kvaðst þekkja stefndu að því að hafa tilefni til að vantreysta
henni. Benti stefnandi á að ef upp úr
slitnaði milli stefnda og eiginmanns hennar að þá yrðu börnin í óvissu. Ekkert kvaðst stefnandi vita um eiginmann
stefndu nema að börnunum virtist líka vel við hann. Stefnandi benti á að hann hafi alla tíð
stundað sjómennsku og sér þætti ósanngjarnt vegna þess að því væri haldið fram
að börnin hefðu sterkari tengsl við stefndu, en umgengnin hafi stýrst dálítið
af atvinnu stefnanda. Stefnandi kvaðst
ekki geta komið auga á að börnin væru tengdari stefndu en stefnanda. Sér fyndist að börnin reyndu að styggja engan
og taka ekki afstöðu.
Aðspurður kvaðst stefnandi ekki treysta
sér til að véfengja faglegt mat sérfræðinga, en hann
hafi ekki sjálfur hafa orðið var við að börnin hefðu sterkari tengsl við
stefndu. Stefnandi væri þó ósammála ýmsu
í matgerðinni og hissa á sumu. Finnist
sér gæta misræmis í málsgögnum og niðurstöðum.
Kvaðst stefnandi vel treysta sér til að
hafa öll börnin þó að hópurinn væri stór.
Aðspurður kvaðst stefnandi telja að börnin myndu vel geta komið inn í
hópinn enda hafi þau verið þar svo mikið að um einn hóp væri að ræða nú
þegar. Börnin væru klár til að koma inn
í hópinn og allt væri til staðar. Taldi
stefnandi að börnin ætluðust til þess af sér að hann setti þau ekki skör neðar
en hin börnin á heimilinu, en hann hefði ekki orðið var við aðrar kröfur til
sín af þeirra hálfu. Aðspurður kvað
stefnandi að rígur væri milli C, eldri dóttur stefndu, og barnanna. Hún hafi hins vegar verið mikið með þau og
hann teldi að þau treystu henni. Hann
teldi að C vildi systkinum sínum vel en hún væri kannski ekki góð fyrirmynd þar
sem hún reykti bæði og drykki áfengi.
Ekki gæti hann tjáð sig um samband þeirra a.ö.l. enda hefði hann ekki
haft neitt samband við C lengi, en það hafi ekki verið gott og þau ekki náð að
tengjast.
Aðspurður kvað stefnandi að hann hafi
bara haft gott samband við systur stefndu sem búi í [...], en nánast ekkert við
þá systur hennar sem búi í [...].
Aðspurður gat stefnandi þess að ef hann
fengi fulla forsjá með báðum börnum sínum gæti hann hliðrað til vinnu sinni sem
skipstjóri í [...] og hefði hann aðlögunartíma enda væri bróðir stefnanda
skipstjóri á móti sér, en hann sæi ekki að hann gæti sleppt þeim tekjum sem
byðust til langframa. Hann myndi halda
vinnunni áfram og þurfa að taka 50% á móti bróður sínum. Fyrirkomulag þess yrði þannig að hann myndi
vinna mánuð og eiga mánuð frí.
Stefnda kom fyrir dóminn við aðalmeðferð
og skýrði frá því kvaðst vera sátt við það sem eftir henni væri haft í matsgerð
dómkvadds matsmanns og sátt við niðurstöður matsmannsins. Teldi stefnda að matsmaður hafi metið rétt
líðan og afstöðu barnanna. Sérstaklega
staðfesti stefnda allt sem fram kemur í matsgerðinni um aðstæður sínar í [...]. Vegna þess kynferðisbrots sem A hafi orðið
fyrir áður fyrr kvað stefnda hana ekki vera í neinni meðferð, en hún hafi
fengið samband við viðurkennda sálfræðistofu sem á hafi verið vísað en þar hafi
verið fullt og ekki tekið við nýjum skjólstæðingum. Þá hafi henni verið bent á annan
meðferðaraðila en það hafi reynst vera í tveggja klukkustunda fjarlægð frá
heimili stefndu sem sé lengst út í sveit.
Hún hafi hins vegar látið starfsfólk skólans vita af þessu og beðið
sérstaklega um að verða látin vita ef einhvers yrði vart um að A þyrfti
aðstoðar við. Skólinn sé þannig full
meðvitaður um þetta. Ekki sé þetta neitt
sem hái A í daglegu lífi að því er stefnda verði vör. Fyrst eftir þetta hafi hún verið mikið inn í
sig og hafi grátið, en hún hafi áður verið opin. Hún sé hins vegar öll að koma til. Stefnda sé hins vegar ekki sérfræðingur sem
geti sagt til um að dóttirin þurfi ekki aðstoð og þess vegna sé stefnda enn að
vinna í málinu. Aðspurð kvað stefnda að
hún hafi á sínum tíma farið fyrr til [...] en áætlað hafi verið, vegna þess að
hún hafi ekki viljað fá á sig farbann.
Stefnda kvaðst ekki hafa sérstaklega neitað stefnanda um aðgang að
börnum sínum, en vísvitandi leynt því að hún væri að fara. Hún hafi hins vegar eftir það reynt að fá
netfang stefnanda til að börnin gætu verið í sambandi við stefnanda. Börnin hafi reynt töluvert að hafa samband
við stefnanda á „facebook“, en það hafi gengið illa,
hann hafi ýmist verið sofandi eða úti á sjó eða fjarverandi. Svo hafi hún fengið netfangið hans. Ástæða þess að umgengni samkvæmt úrskurði
dómsins frá 27. júní 2011 hafi ekki gengið eftir hafi verið sú að þau hafi ekki
verið komin með svokallað græna kort.
Hún hafi misskilið reglur í sambandi við það. Hún hafi ekki visvitandi
verið að blekkja með því að ferðast til [...]
sem ferðamaður, en um hafi verið að ræða misskilning. Hún hafi ekki getað sent börnin til Íslands
meðan þau hafi ekki verið komin með græna kortið. Hún hafi sagt börnunum að þau gætu ekki farið
til Íslands meðan þau væru ekki með umrætt kort, því þá kæmust þau ekki til
baka. Um leið og græna kortið yrði klárt
þá gætu þau farið til Íslands. Hún hafi
ekki tálmað umgengni að öðru leyti og síst til að vera leiðinleg. Lýsingar stefnanda um samkomulag milli
fósturföður hennar og föður stefnanda séu rangar að sínu viti. Systir stefnanda og faðir hafi fengið leyfi
til að sækja einhver leikföng en þau hafi gert gott betur og tekið allt saman
og köttinn líka. Faðir stefnanda hafi
hins vegar ekki orðið við því að senda umrædda hluti til barnanna. Aðspurð um tengsl eldri dóttur sinnar við börnin
kvað hún þau vera sterk og góð, en þau færu stundum mikið í taugarnar á hvert
öðru eins og systkina er siður. Þegar
stefnda kom til Íslands um jólin hafi verið búið að ákveða að þau færu í skóla
í [...]. Svo hafi þau hitt stefnanda á
flugvellinum og þau farið til hans þá, en verið ákveðið á flugvellinum að hann
yrði með þau til sunnudagsins 22. janúar 2012.
Ekkert hafi verið óákveðið í því sambandi. Hún hafi þurft að skrá þau til lögheimilis
hér svo þau kæmust í skólann. Aðspurð
kvað stefnda að börnin töluðu vel um aðstæðurnar á heimili föður síns. Það fari í taugarnar á B að þar sé viðhafður
munnsöfnuður. A kvarti um að allt það
góða þar sé handa litlu stelpunum. En
annars sé allt í lagi og þau hlakki til að fara þangað og þeim líði vel þar,
enda léti hún þau ekki fara þangað ef þeim liði illa þar. Ef hins vegar til þess kæmi að þau þyrftu að
flytja þangað og frá henni, þá myndu þau fá algjört sjokk. Þau myndu verða eyðilögð og hafi marg sagt að þau ætli alltaf að vera hjá henni. Sennilega myndu þau jafna sig að einhverju
leyti með tímanum, en það myndi ekki verða þeim gleðiefni þó þau elski föður
sinn. Kvaðst stefnda myndu stuðla heils
hugar að umgengni barnanna við stefnanda.
Þá væri hún opin fyrir öllum samskiptum á netinu, s.s. með „skype“ og „facebook“. Aðspurð um nýlega framlögð gögn um ástand á
heimili stefnanda kvaðst hún kannast við þær lýsingar frá sambandi sínu við
stefnanda. Sambærilegt væri t.d. drykkja
og nefbrot. Aðspurð kvaðst stefnda hafa
deilt við vinkonu systur stefnanda undir áhrifum áfengis fyrir ekki löngu
síðan, en það hefði ekki haft eftirmála og væru þær sáttar. Þá hafi hún farið út að skemmta sér. Faðir stefnanda hafi látið eiginmann sinn
vita um þetta, en það hafi engin áhrif haft á samband þeirra hjóna. Kvaðst stefnda hafa kynnst manni sínum vorið
2010 á netinu, en svo hafi tekist með þeim ástir og þau nú verið gift í eitt
ár. Hún hafi farið og hitt hann og
fjölskyldu hans áður en hún hafi tekið um það ákvörðun að flytja til hans. Ef hjónabandi hennar lyki, sem ekkert benti
þó til, þá myndi hún flytja beint til Íslands.
Ef börnin myndu vilja flytja heim til Íslands, t.d. til að fara í
menntaskóla, þá þyrfti að ræða það og væri hún opin fyrir umræðunni ef það
yrði.
Aðspurð um hvers vegna A hafi ekki mætt
í viðtöl vegna misnotkunar sem hún hafi orðið fyrir áður lýsti stefnda því að
það hafi fyrst og fremst verið vegna misskilnings, en einum tíma hafi stefnda
gleymt. Hún hafi sjálf átt erfitt með að
höndla þetta. Ekki myndi standa á þessu
framvegis eftir að stefnda væri búin að finna og komast í samband við
meðferðaraðila ytra. Þær mæðgur hafi
hins vegar rætt þetta atvik mikið, en stefnda hafi hagað því þannig að dóttirin
ætti frumkvæði að því. A sé mjög vakandi
gagnvart umhverfi sínu og sjái „perra“ í hverju horni, en það geri vinkonur
hennar líka. Ekki kvaðst stefnda verða
þess vör að þetta atvik hái dóttur sinni sérstaklega og t.d. hafi hún átt
„kærasta“ eftir þetta. Aðspurð um stöðu
leyfismála kvað stefnda að samkvæmt upplýsingum yfirvalda [...] innflytjendamála
lægju öll gögn fyrir og væri nú beðið eftir að fá viðtal í sendiráði [...] á
Íslandi. Ekkert sérstakt bendi til þess
að hún og börn hennar fái ekki landvistarleyfi eða svokallað „græna kort“, en
málið sé þó ekki enn í höfn.
Aðspurð um tengslanet sitt á Íslandi
lýsti stefnda góðu sambandi við fósturföður sinn, vinkonur og systur, sem og
systur sína í [...] sem búi þar ytra með þarlendum manni. Hún hefði mikil samskipti við systur sína
ytra, en systir hennar dveljist ekki þar löglega. Það myndi stefnda hins vegar aldrei gera
sjálf. Áður en hún fór ytra með börnin
hafi eiginmaður hennar verið búinn að hafa samband við skólann þar og kynna sér
hann og upplýst sig um að skólamál væru þar góð, en hann eigi sjálfur börn í
skólanum, en hún hafi ekki sjálf haft samband við skólann. Það hafi legið fyrir að börnin myndu komast í
skóla úti.
Aðspurð um notkun áfengis kvaðst stefnda
hvorki drekka áfengi á virkum dögum né í kringum börnin sín. Geti liðið langur tími milli þess sem hún
neyti áfengis.
Aðspurð kvaðst stefnda treysta stefnanda
fyrir börnum sínum um „pabbahelgar“, en ekki vildi hún þó að þau ættu heima hjá
honum, m.a. vegna vinnu stefnanda. Kom
fram hjá stefndu að börn hennar væru tengd öðrum börnum á heimili
stefnanda.
Lýsti stefnda eiginmanni sínum sem góðum
og elskulegum. Kom fram að hún hefði trú
á sambandi sínu við hann.
Aðspurð um gögn frá skóla barnanna áður
en þau fluttu til [...], frá árinu 2010, kannaðist stefnda við að á þeim tíma
hafi hún verið að kljást við þunglyndi, en neitaði því að hún hafi þá verið á
einhverju „fylleríi“. Á þessum tíma
hefði hún getað verið betri fyrirmynd fyrir börnin. Sé hins vegar munur á henni núna og þá. Hún hafi á þessum tíma misst tökin en hafi
endurheimt þau. Sér líði mun betur núna
og sé glaðari og bjartsýnni. Henni vaxi
ekki í augum að vera húsfreyja á stóru heimili ytra.
Aðspurð ef hún myndi ekki fá
landvistarleyfi í [...] kvaðst stefnda þá bara myndu taka því og vinna út frá
því.
Vitnið E, systir stefnanda, gaf skýrslu
fyrir dóminum í síma við aðalmeðferð.
Komu fram hjá henni lýsingar á því að börnin og einkanlega A hafi verið
upptekin af því að hafa séð það sem hún hafi talið vera „barnaperra“ og verið
óttaslegin yfir því og hringt í Neyðarlínuna vegna þess. Þetta hafi verið þegar þau hafi gist hjá
henni. Vitnið lýsti því að hún hefði
reynt gegnum árin að hafa sem mest samskipti við umrædd börn aðila. Hún hefði reynt að aðstoða með ýmislegt svo
sem ef eitthvað hafi vantað, s.s fjárhagslega eða með föt. Um hafi verið að ræða 50.000 kr. kostnað
vegna tannréttinga A, en stefnda hafi boðist til að endurgreiða þetta og hafi
vitnið sagt að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því. Vitnið staðfesti að móðir hennar og stefnanda
hafi haft horn í síðu ýmissa og hafi verið einhver kergja milli hennar og
stefnanda.
Stefnda kom aftur fyrir dóminn og skýrði
frá því að stefnandi hafi ekki sinnt meðlagsgreiðslum vegna barnanna meðan þau
voru í [...] og vanrækt framfærsluskyldu sína á því tímabili.
Niðurstaða
Allt frá
uppkvaðningu dóms í fyrri forsjárdeilu aðila, sem kveðinn var upp 3. júlí 2009,
hefur stefnda farið ein með forsjá umræddra barna. Var það í samræmi við framlagða matsgerð
dómkvadds matsmanns í því máli.
Stefnandi freistar þess nú að hnekkja því fyrirkomulagi og fá dæmda
fulla forsjá með báðum börnum aðila. Til
þess að svo geti orðið þarf þannig stefnandi að sýna fram á það að það sé
börnunum fyrir bestu að hann fari með forjá þeirra,
þannig að það séu hagsmunir barnanna að forsjáin flytjist frá stefndu til
stefnanda, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ýmis atriði koma þar til skoðunar.
Fyrir liggur
að samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns hafa bæði börnin góð tengsl við báða
foreldra sína, en þó er skýrt að þau hafa sterkari tengsl við stefndu, enda
hefur hún verið megin umönnunaraðili þeirra og þau alltaf búið hjá henni. Báðir aðilar eru hæfir til að fara með forsjá
barnanna, en það er hins vegar skýr afstaða beggja barnanna að vilja búa hjá
móður sinni, en flytjast ekki til föður síns.
Þá kemur fram vilji þeirra til að búa í [...]. Fram
kemur í matsgerð að börnin séu náin.
Báðir foreldrar hafa húsnæði til að veita börnum sínum heimili. Stefnandi býr í eigin húsnæði, en heimili
stefndu er í húsnæði sem [...] eiginmaður
hennar á. Ekkert liggur fyrir annað en
að aðstæður barnanna í [...] séu
góðar, bæði hvað varðar heimili og skóla.
Báðir aðilar njóta liðsinnis fjölskyldna sinna í umhverfi sínu. Mikil breyting varð á högum barnanna við að
flytja til [...], en telja
verður að enn meiri breyting og rask yrði á högum þeirra við að færa forsjána
frá móður til föður að því virtu að börnin hafa ávallt búið hjá móður. Þá ber að líta til þess að börnin hafa ekki
verið búsett í [...]hjá
föður sínum, þannig að það yrði líka nýtt umhverfi. Ekki þykir fært að líta með öllu fram hjá
framlögðum nýlegum gögnum um drykkju á heimili stefnanda og ósætti milli hans
og eiginkonu hans, en fyrir liggur að hjónaskilnaður kom til tals á heimilinu
eftir að slegið hafði í brýnu. Ekki er
það trúverðugt að mati dómsins að sú uppákoma sem þar er lýst hafi öll verið
vegna móður stefnanda svo sem hann vildi vera láta.
Ekki verður að
mati dómsins heldur fram hjá því litið að framtíðaráætlanir stefnanda um
atvinnu eru þannig að hann verði að vinna á sjó í mánuð í senn og eigi svo frí
í mánuð, en börn hans yrðu þá alfarið án hans í mánuð í senn.
Ekkert liggur
fyrir um að aðstæður barnanna í [...] séu ótraustar eða ótryggar eins og vísað til í
stefnu af hálfu stefnanda. Gildir þetta
jafnt um heimilis- og fjölskyldu aðstæður sem og um annað félagslegt um hverfi
s.s. skólagöngu.
Í stefnu er
vísað til þess að stefnandi hafi af því áhyggjur að stefnda hafi ekki sinnt því
að A fengi aðstoð vegna atviks sem hún varð fyrir áður af hálfu skólabróður
síns. Fram hefur komið að stefnda hefur
unnið í þessu og að hún hefur fullan hug á að dóttir hennar fái þá aðstoð sem
hún hafi þörf á, en að ekki hafi enn fundist sálfræðingur eða annar slíkur
meðferðaraðili sem taki við nýjum skjólstæðingum það sem stefnda er búsett. Þá liggur ekki fyrir neitt um að umrætt atvik
valdi telpunni sérstökum vandkvæðum nú, í það minnsta ekki svo að þetta atriði
geti ráðið úrslitum í máli þessu.
Að virtri
matsgerð Rögnu Ólafsdóttur og öðru því sem fram hefur komið í málinu þykir
stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hagsmunir barna hans liggi í því að forsjá
barnanna verði tekin af stefndu og færð til stefnanda. Þvert á móti er það mat dómsins að það þjóni
hagsmunum barnanna betur að stefnda fari áfram með forsjá beggja barnanna eins
og verið hefur. Verður þannig hafnað
kröfum stefnanda um að fá dæmda forsjá umræddra barna.
Í málinu er
þess krafist að kveðið verði á um umgengni barnanna við það foreldrið sem ekki
fær forsjána. Um það eru allir sammála,
bæði aðilar málsins sem og dómkvaddur matsmaður, að mikilvægt sé að börnin
haldi góðum tengslum við það foreldri sem ekki fær forsjána. Er rétt að
börnin verði bæði saman hjá stefnanda í 4 vikur samfleytt á hverju sumri eftir
skólalok og komi aftur til stefndu áður en skóli hefst aftur að loknu sumarleyfi. Skal sú umgengni hefjast sumarið 2012. Þá skulu börnin dvelja saman hjá stefnanda í
eina viku um áramót og eina viku um páska, hvert ár og skal sú umgengni hefjast
áramótin 2012/2013. Er rétt að það
foreldrið sem sendir börnin til hins sjái um að tryggja framkvæmd þess og beri
kostnað af þeirri för.
Stefnda hefur ekki krafist þess að
kveðið verði á um meðlagsgreiðslur. Um
meðlagsgreiðslur var kveðið á í óáfrýjuðum dómi Héraðsdóms Suðurlands 3. júlí
2009 í málinu nr. E-418/2008. Eru ekki
efni til að hrófla við því
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila
falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, kr. 818.887
vegna lögmannsþóknunar að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og útlagður kostnaður
lögmannsins og aksturskostnaður hans, kr. 137.895.
Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt
ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður
upp dóm þennan, ásamt meðdómsmönnunum Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi og
Guðfinnu Eydal sálfræðingi.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, K, skal fara með forsjá barnanna A, kt. [...] og B, kt. [...].
Börnin A og B skulu dvelja bæði saman hjá stefnanda, M, í fjórar vikur
samfleytt á hverju sumri eftir skólalok og koma aftur til stefndu áður en skóli
hefst aftur að loknu sumarleyfi. Skal sú
umgengni hefjast sumarið 2012. Þá skulu
börnin dvelja saman hjá stefnanda í eina viku um áramót og eina viku um páska
hvert ár, og skal sú umgengni hefjast áramótin 2012/2013.
Málskostnaður milli aðila fellur
niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu
greiðist úr ríkissjóði, kr. 818.887 vegna lögmannsþóknunar Valborgar Þ. Snævarr
hrl. að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og útlagður kostnaður lögmannsins og
aksturskostnaður hans, kr. 137.895.