Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2014. |
|
Nr. 449/2013. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Jakobi Fannari Sigurðssyni og (Ásbjörn Jónsson hrl.) Birgi Erni Ragnarssyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Líkamsárás. Einkaréttarkrafa.
J
og B voru ákærðir fyrir að hafa veist að manni og konu í miðbæ Reykjavíkur með
því að taka annað þeirra hálstaki og sparka í þau bæði. J og B voru sýknaðir af
ákæru að hluta en brot J var að öðru leyti talið varða við 1. mgr. 218. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot B við 1. mgr. 217. gr. sömu laga.
Refsing J var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en refsing B fangelsi í einn
mánuð. Refsing beggja var skilorðsbundin til tveggja ára. J var dæmdur til að
greiða öðrum brotaþola 560.004 krónur í skaðabætur.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní og 1. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærði Jakob Fannar krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Ákærði Birgir Örn krefst sýknu.
Brotaþolinn A hefur ekki
látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann
krefjist staðfestingar á einkaréttarkröfu sinni, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að aðrir en ákærðu hafi
veitt brotaþolum þá áverka sem þau hlutu sannanlega aðfaranótt 7. apríl 2012.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms
verður hann staðfestur.
Ákærðu verða dæmdir til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Jakob Fannar Sigurðsson og Birgir Örn Ragnarsson, greiði hvor
fyrir sig 251.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðra verjenda sinna fyrir
Hæstarétti, Ásbjörns Jónssonar og Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanna, en
óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 21.516 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí
2013.
Mál þetta, sem dómtekið var
þriðjudaginn 14. maí 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum
á höfuðborgarsvæðinu 12. mars 2013, á hendur Jakobi Fannari Sigurðssyni, kt. [...],[...],[...], og Birgi Erni Ragnarssyni, kt. [...],[...],[...], fyrir líkamsárás með því að hafa,
aðfaranótt sunnudagsins 8. apríl 2012, á horni Smiðjustígs og Laugavegar í
miðbæ Reykjavíkur, veist í félagi að A og C, en ákærði Jakob kom aftan að A,
tók hann hálstaki og lagði síðan í götuna. Kom C þá A til hjálpar en ákærði
Birgir Örn brást við með því að sparka í kvið hennar. Í kjölfarið slógu ákærðu
og spörkuðu í A er hann lá í jörðinni, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut
3 cm langan skurð yfir hægri augabrún og brot á hægri
augntóft, en C hlaut mar á kviðvegg og brjóstkassa.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með
áorðnum breytingum.
Þess
er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls
sakarkostnaðar.
Í
málinu gerir Helga Vala Helgadóttir hdl., fyrir hönd A, kröfu um að ákærðu
greiði skaðabætur sameiginlega að fjárhæð 176.004 krónur, auk miskabóta að
fjárhæð 1.000.000 króna. Þá er krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. apríl 2012 þar til mánuður er liðinn frá
birtingu kröfunnar, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim
degi til greiðsludags.
Verjendur ákærðu krefjast þess
aðallega að ákærðu verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að
þeir verði dæmdir til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er aðallega krafist
frávísunar bótakröfu, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Þá krefjast
verjendur hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr
ríkissjóði.
Málsatvik
Aðfaranótt
laugardagsins 7. apríl 2012, klukkan 4:46, var lögregla kvödd að Smiðjustíg í
Reykjavík vegna líkamsárásar. Á vettvangi ræddu lögreglumenn við systkinin D, C
og A. Þau greindu frá því að tveir menn hefðu ráðist á þau að tilefnislausu og
slegið þau. C sagði annan árásarmanninn vera feitlaginn og hefði hann verið
íklæddur bláköflóttri skyrtu. Kemur fram að A hafi verið með skurð ofan við
auga og að systkinunum hafi verið ekið á slysadeild.
Ákærðu,
Jakob Fannar Sigurðsson og Birgir Örn Ragnarsson, voru einnig staddir á
vettvangi og ræddu lögreglumenn við þá. Kemur fram að þeir hafi séð strák og
stelpu vera að rífast og hefðu þeir ákveðið að ganga á milli þeirra. Þá hafi
strákurinn farið að æsa sig við þá og hefði hann slegið Jakob Fannar í
andlitið. Eftir það hefðu upphafist einhverjar stympingar og hefðu þeir hrint
stráknum í jörðina. Þeir neituðu að hafa snert stúlkuna.
Samkvæmt
vottorðum E, sérfræðings í slysa- og bráðalækningum, dagsettum 23. maí 2012,
leituðu A og C á slysadeild umrædda nótt. Kemur fram að A hafi sagst hafa verið
sleginn í andlit og að mögulega hafi verið sparkað í hann. Hann hafi verið með
þriggja cm skurð á augnloki, sem hafi verið saumað
með þremur sporum. Við tölvusneiðmyndatöku hafi sést brot á augntóft með
lítilli tilfærslu. Þá kemur fram að áverkar komi vel heim og saman við högg
eftir sljóan hlut svo sem hnefa eða spark. C hafi sagst hafa fengið spark í
magann. Hún hafi verið með eymsli ofan til í kvið, yfir hægra nýra og framan á
brjóstkassa hægra megin. Þá hafi hún verið með mar á kviðvegg og brjóstkassa,
sem vel geti hafa komið til við högg með sljóum hlut, svo sem hnefa eða eftir
spark.
Ákærðu
voru yfirheyrðir af lögreglu 3. og 10. júlí 2012. Þeir neituðu alfarið að hafa
veist að A og C í umrætt sinn og kváðust ekki geta skýrt áverka sem þau hefðu
hlotið. Ákærði Jakob Fannar kvaðst hafa verið íklæddur dökkblárri hettupeysu,
dökkbláum gallabuxum og hvítum strigaskóm þessa nótt. Ákærði Birgir Örn kvaðst
hafa verið í bláum gallabuxum og skyrtu, en ekki muna hvernig hún var á litinn.
Við
aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Jakob Fannar Sigurðsson hafa verið að rölta
upp Laugaveginn með meðákærða og F, félaga þeirra, og hefðu þeir ætlað að sækja
fjórða félagann sem hann minnti að hefði verið á Hverfisbarnum. Þegar þeir komu
að Smiðjustíg hefðu þeir séð mann og stúlku, sem hann vissi nú að voru A og C.
Þau hefðu verið að rífast og mikill hiti verið á milli þeirra. Birgir hefði
ætlað að ganga á milli, en við það hefði A orðið mjög æstur. Ákærði kvaðst hafa
reynt að draga Birgi frá A. Síðan hefði safnast að fólk, sem var að koma út af
veitingastöðum þarna í kring. Ákærði kvaðst ekki hafa séð nein átök þarna. Hann
hefði hvorki tekið A hálstaki né veitt honum högg. Þá hefði hann ekki séð A
verða fyrir höggi og kannaðist ekki við að A hefði veitt honum högg. Hann
kvaðst engin samskipti hafa átt við systur A. Þá kvað hann það ekki rétt sem
haft hefði verið eftir þeim meðákærða í frumskýrslu um málið. Ákærði kvað þá
meðákærða hafa hringt til lögreglu því að kaos hefði myndast þarna á vettvangi.
Hann hefði séð að blæddi úr andliti A eftir að lögregla kom á vettvang, en ekki
vita hvernig hann hlaut áverka. Ákærði kvaðst hafa verið í dökkblárri
hettupeysu og gallabuxum þetta kvöld. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa
verið í grárri hnepptri peysu eins og komið hefði fram hjá vitnum.
Ákærði, Birgir Örn Ragnarsson,
kvað þá meðákærða hafa verið að skemmta sér með félögum sínum þetta kvöld. Þeir
hefðu verið á leiðinni að Búddabar til að sækja félaga sinn sem ætlaði samferða
þeim heim. Á horni Laugavegar og Smiðjustígs hefðu þeir séð mann, sem þeir
vissu síðar að var A, og hefði hann verið að rífast við stúlku. Honum hefði
fundist A ógnandi við stúlkuna og hefði hann haft hendur á lofti. Ákærði kvaðst
hafa ákveðið að stinga sér á milli þeirra þar sem honum hefði sýnst eitthvað
vera í uppsiglingu og viljað stöðva það. Þau hefðu hins vegar brugðist illa við
og hefðu hafist einhverjar stympingar á milli þeirra þriggja. Ákærði kvaðst
hafa reynt að draga sig út úr þessu, en stúlkan hefði sakað hann um að kýla A.
Þau hefðu færst niður Smiðjustíginn og á móts við veitingastaðinn Celtic hefði dyravörður komið út og skilið þau í sundur.
Síðan hefði lögregla komið á vettvang. Ákærði kvaðst ekki hafa séð A liggjandi
í götunni. Þegar þau voru utan við Celtic hefði hann
tekið eftir því að A var blóðugur á augabrúninni, en hann hefði ekki séð hvernig
hann hlaut áverka. Hann kvaðst ekki hafa séð til meðákærða meðan á þessum
stympingum stóð, þar sem hann hefði snúið baki í hann. Spurður um klæðnað sinn
þetta kvöld kvaðst hann hafa verið í dökkgráum jakkafötum og bláköflóttri
skyrtu.
Vitnið, A, kvað þau systkinin
hafa verið stödd á Smiðjustíg við Laugaveg og hefðu þau C verið að rífast vegna
atviks sem átti sér stað skömmu áður. Hann kvaðst skyndilega hafa verið tekinn
hálstaki aftan frá og færður niður í götuna. Vitnið kvaðst síðan hafa séð tvo
menn og hefði annar þeirra gengið að D, en hinn að C. Hann kvaðst hafa hrópað á
mennina að láta systur sínar í friði og hefði hann reynt að veita manninum sem
nálgaðist D högg með hnénu til að stöðva hann. Hann hefði síðan ætlað að
aðstoða C, en þá aftur verið tekinn hálstaki og færður niður í götuna. Þar sem
hann lá hefði hann fengið þungt högg í andlitið ofan við hægra auga og vankast
við það. Þegar hann reis á fætur hefði hann fundið blóð renna niður andlitið.
Vitnið kvaðst hafa séð að mennirnir voru að reyna að láta sig hverfa niður á
Hverfisgötu og hefði hann þá hringt til lögreglu. Hann hefði fengið nöfn
mannanna uppgefin hjá lögreglu og fundið myndir af þeim á facebook.
Kvaðst hann þekkja ákærðu aftur sem árásarmennina. Það hefði verið ákærði Jakob
Fannar sem tók hann hálstaki í upphafi og væri hann þess fullviss að Jakob
Fannar hefði einnig tekið hann hálstaki í síðara skiptið, en enginn annar hefði
verið nálægt sem hefði getað gert það. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir
því hvort sparkað var eða slegið í hann þar sem hann lá. Hann kvaðst telja að
Jakob Fannar hefði veitt sér höggið, en hann hefði staðið hægra megin við hann,
þaðan sem höggið kom. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða Birgi Örn veitast að C í
upphafi, en hann hefði ekki séð hvað gerðist á milli þeirra þar sem hann hefði
verið að aðstoða D að komast undan Jakobi Fannari. Hann kvað fleira fólk hafa
verið þarna í kring, en það hefði aðeins fylgst með og ekki blandast í átökin.
Vitnið,
C, kvaðst hafa staðið andspænis A bróður sínum þegar hún hefði skyndilega séð
að handlegg var brugðið um háls honum og hann dreginn niður í götuna. Vitnið
kvaðst þekkja ákærða Jakob Fannar aftur sem manninn sem veittist að bróður
hennar. Meðákærði Birgir Örn hefði gengið að vitninu og sparkað í maga hennar
svo að hún féll utan í glugga verslunarhúss sem hún stóð við. Birgir hefði
síðan snúið baki við henni og gengið að A þar sem hann lá í götunni. Vitnið
kvaðst hafa stokkið upp á bak Birgis til að reyna að stöðva hann. Hún hefði séð
út undan sér að Jakob Fannar sparkaði í átt að A þar sem hann lá í götunni, en
hún hefði ekki séð hvar spörkin lentu. A hefði risið á fætur og hefði hann þá
verið blóðugur í andliti. Ákærðu hefðu gengið niður Smiðjustíginn, en hún hefði
hlaupið á eftir þeim og fengið dyraverði við veitingastað til að aðstoða sig
við að stöðva þá. Hún kvað engan hafa verið nálægt þeim þegar ákærðu réðust á
þau. Spurð um klæðnað ákærðu kvað hún Jakob Fannar hafa verið í grárri peysu og
gallabuxum, en Birgir í svörtum „blaser“ jakka,
svörtum buxum og hvítri skyrtu. Borin voru undir vitnið ummæli sem höfð voru
eftir henni í skýrslu sem lögreglumaður tók af henni í síma 15. nóvember 2012.
Þar var bókað eftir vitninu að eftir að maðurinn í „blaser“
jakkanum hefði sparkað í hana hefði hann komið hinum manninum til aðstoðar og
hefðu þeir látið högg og spörk dynja á A þar sem hann lá. Vitnið kvaðst telja
þessa lýsingu rétta, en tók fram að hún hefði ekki séð mennina slá eða sparka í
A þar sem hún hefði verið á bakinu á Birgi.
Vitnið,
D, kvaðst hafa staðið á milli systkina sinna þegar ákærðu veittust að þeim.
Hefði ákærði Jakob Fannar tekið A hálstaki, en ákærði Birgir gripið um fót hans
og hefðu þeir reynt að færa hann niður í götuna, en hún kvaðst ekki muna hvort
það hefði tekist. Þá hefði Jakob Fannar snúið sér að henni, en Birgir gengið að
C. Vitnið kvað A hafa komið sér til hjálpar, en hún hefði ekki séð hvað Birgi
og C fór á milli. Hún hefði síðan séð að Jakob Fannar tók A aftur taki og færði
hann í götuna. Hefði hún séð Jakob Fannar sparka oftar en einu sinni í andlit A
þar sem hann lá. Vitnið kvað Jakob Fannar hafa verið íklæddan grárri peysu, en
Birgir hefði verið í svörtum „blaser“ jakka og
svörtum buxum. Hún kvað fólk hafa verið úti á götu þegar þetta átti sér stað,
en enginn hefði blandað sér í átökin. Borin var undir vitnið skýrsla hennar hjá
lögreglu 10. apríl 2012, þar sem hún var spurð hvort hún hefði séð þegar A var
kýldur og svar vitnisins var bókað á þessa leið: „Það var mikið af fólki í
kringum hann þannig að ég sá ekki högg en ég sá einhvern lyfta hnefa, ég veit
ekki hver það var.“ Vitnið kvaðst hafa verið í sjokki þegar hún gaf skýrslu hjá
lögreglu og hefði hún helst ekki viljað muna hver sparkaði í hvern. Hún kvaðst
hins vegar muna þetta nú. Þá var borin undir vitnið skýrsla sem lögreglumaður
tók af henni í síma 12. nóvember 2012 þar sem hefði komið fram hjá henni að
árásarmennirnir hefðu báðir látið högg og spörk dynja á A. Var vitninu
jafnframt bent á að lýsingar sem bókaðar voru eftir þeim C í símaskýrslum sem
þær gáfu væru nánast samhljóða, en við skýrslutöku tveimur dögum eftir atvikið
hefðu þær ekki greint eins frá. Vitnið kvað þau systkinin hafa rætt þessi atvik
eftir á. Hún kvaðst þó vilja árétta að hún hefði verið í sjokki eftir atvikið
og hefði ekki viljað hugsa um það sem gerðist. Hún hefði ekki viljað greina frá
því sem hún hefði séð í smáatriðum við skýrslutöku tveimur dögum eftir
atvikið.
Vitnið, F, kvaðst hafa verið í
för með ákærðu í umrætt sinn. Þeir hefðu gengið upp Laugaveginn og ætlað að
sækja félaga sinn sem hefði verið staddur á bar þar skammt frá. Þeir Jakob
hefðu báðir verið í símanum að reyna að ná sambandi við þennan félaga sinn, en
Birgir Örn hefði gengið aðeins á undan þeim. Skyndilega hefðu þeir séð karl og
konu sem hefðu verið að rífast og hefði karlinn verið farinn að ýta konunni.
Hefði Birgir Örn gengið að þeim og stigið á milli þeirra. Þeir hefðu síðan séð
að hiti var kominn í leikinn og hefði Jakob farið á eftir Birgi Erni og togað í
hann. Síðan hefði allt farið í háa loft og hrindingar byrjað. Margt fólk hefði
drifið að og hefði þvagan færst rólega niður Smiðjustíginn. Vitnið kvaðst
hvorki hafa séð A tekinn hálstaki né að slegið eða sparkað hefði verið í hann
liggjandi. Þá hefði hann ekki séð fólkið í þvögunni blandast í átök þarna. Hann
hefði hins vegar séð að blæddi úr A þegar hann sté út úr hópnum. Hann kvaðst
hafa staðið í um 10 til 15 metra fjarlægð frá hópnum. Vitnið kvað þá ákærðu
hafa hringt til lögreglu eftir þetta og hefðu þeir beðið eftir að lögregla kæmi
á vettvang.
Vitnið, G, gaf skýrslu fyrir
dóminum og staðfesti læknisvottorð sem hann hafði ritað vegna A og C. Ekki eru
efni til að rekja framburð vitnisins.
Niðurstaða
Ákærðu neita sök og hafna því að
hafa veist að A og C eins og í ákæru greinir. F, sem kom fyrir dóminn sem
vitni, gat ekki lýst atvikum þar sem hann kvað fólk sem var á vettvangi hafa
byrgt sér sýn. Þá voru lýsingar D á atvikum nokkuð misvísandi, svo sem rakið
hefur verið. Hefur framburður þessara vitna því takmarkað sönnunargildi í
málinu.
C
hefur borið að ákærði Birgir Örn hafi sparkað í maga hennar. Þá lýsti hún því
að ákærði Jakob Fannar hefði tekið A hálstaki og lagt hann í götuna og hefði
hún síðan séð hann sparka í átt til A, sem hefði verið blóðugur í andliti er
hann reis á fætur. A kvaðst þess fullviss að ákærði Jakob Fannar hefði tekið
hann hálstaki og fært hann í götuna, en engum öðrum hefði verið til að dreifa
þar sem Birgir Örn hefði þá verið að kljást við C. Þá kvað hann höggið sem hann
fékk í andlitið þar sem hann lá hafa komið frá hægri, en Jakob hefði þá staðið
hægra megin við hann. Vitnin hafa gefið greinargóða lýsingu á atvikum og hefur
framburður þeirra verið stöðugur um atriði sem skipta máli, auk þess sem hann
fær stoð í læknisfræðilegum gögnum sem liggja fyrir málinu. Á hinn bóginn hafa
ákærðu engar skýringar getað gefið á því hvernig A og C hlutu áverka í umrætt
sinn. Þykir ekki varhugavert að leggja frásögn vitnanna A og C til grundvallar
í málinu. Samkvæmt framansögðu telst sannað, gegn neitun ákærðu, að ákærði
Jakob Fannar hafi tekið A hálstaki, lagt hann í götuna og sparkað í hann, en
ákærði Birgir Örn hafi sparkað í kvið C, með þeim afleiðingum sem í ákæru
greinir og lýst er í læknisvottorðum. Hins vegar er ósannað að ákærði Birgir
Örn hafi veist að A með höggum og spörkum og Jakob Fannar slegið hann
liggjandi, auk þess sem ekki er komið fram í málinu að ákærði Jakob Fannar hafi
veist að C með ofbeldi. Verða ákærðu sýknaðir af ákæru að þessu leyti, sbr.
108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Telst brot ákærða Jakobs
Fannars varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en brot ákærða
Birgis Arnar við 1. mgr. 217. gr. sömu laga.
Ákærði, Jakob Fannar Sigurðsson,
er fæddur í febrúar 1992 og hefur hann ekki áður sætt refsingu. Atlaga ákærða
að A var tilefnislaus og gróf, en ákærði sparkaði í andlit A liggjandi. Með
vísan til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir
refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði,
Birgir Örn Ragnarsson, er fæddur í júlí 1985 og hefur hann ekki áður sætt
refsingu. Ákærði réðst að tilefnislausu á C og veitti henni nokkra áverka.
Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Refsing
ákærðu verður bundin skilorði, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu A er krafist skaðabóta
úr hendi ákærðu sameiginlega að fjárhæð 1.176.004 krónur auk vaxta. Ákærði
Birgir hefur verið sýknaður af ákæru um líkamsárás gagnvart A og verður kröfu
um skaðabætur á hendur honum því vísað frá dómi.
Bótakrafa sundurliðast þannig:
Miskabætur 1.000.000 króna
Tjón v/atvinnumissis 60.000 krónur
Tjón v/hljóðverstíma 56.000 krónur
Lækniskostnaður 22.454 krónur
Fatatjón 37.550 krónur
Brotaþoli á rétt á miskabótum
samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur
hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Krafa um tjón vegna atvinnumissis er ekki
studd viðhlítandi gögnum og verður henni vísað frá dómi. Þá er ósannað að
brotaþoli hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tapaðra hljóðverstíma, sem ákærði
beri ábyrgð á og verður kröfu um bætur þar fyrir vísað frá dómi. Í málinu
liggja fyrir gögn um útlagðan lækniskostnað og kvittun vegna fatatjóns. Verður
ákærði Jakob Fannar dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna þeirra liða eins og
krafan er fram sett. Skaðabætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Loks verður
ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjanda málskostnað að fjárhæð 200.000
krónur.
Ákærði, Jakob Fannar, greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Vilhjálmssonar hdl., 313.750
krónur. Ákærði, Birgir Örn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna
Hólmars Einarssonar hdl., 313.750 krónur. Þóknun lögmanna er vegna vinnu á
rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi og hefur verið tekið
tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun hennar. Ákærðu greiði sameiginlega
234.982 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti
málið Kjartan Ólafsson saksóknarfulltrúi.
Ragnheiður Harðardóttir
héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Jakob Fannar Sigurðsson,
sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði, Birgir Örn Ragnarsson,
sæti fangelsi í einn mánuð.
Fresta skal fullnustu refsingar
beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu
dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Jakob Fannar, greiði A
560.004 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr.
38/2001 frá 7. apríl 2012 til 3. maí 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 200.000 krónur í
málskostnað.
Ákærði, Jakob Fannar, greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Vilhjálmssonar hdl., 313.750
krónur. Ákærði, Birgir Örn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna
Hólmars Einarssonar hdl., 313.750 krónur. Ákærðu greiði sameiginlega 234.982
krónur í annan sakarkostnað.