Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Riftun
  • Réttindaröð


                                                        

Föstudaginn 16. apríl 2010.

Nr. 163/2010.

Gildi-lífeyrissjóður

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)

gegn

Straumi-Burðarási

Fjárfestingabanka hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Réttindaröð.

Fjármálafyrirtækið S gaf út skuldabréf í fjórum flokkum á árunum 2004 og 2008, sem skráð voru í Kauphöll Íslands. Í einum flokknum var S viðskiptavaki vegna skuldabréfanna, en í skilmálum skuldabréfanna í öllum flokkummun hafa verið tekið fram að engin uppgreiðsluheimild væri í skuldabréfunum. Fyrir lá að G eignaðist skuldabréf í öllum  flokkunum. Við breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi í október 2008, var kröfum vegna innstæðna veitt aukin rétthæð við skipti á búi fjármálafyrirtækis. Í nóvember 2008 bauðst S til að kaupa skuldabréfin af G gegn því að kaupverðið yrði lagt á bundinn innlánsreikning hjá sér og G léti að auki af hendi fjárhæð, sem svaraði til helmings kaupverðsins og yrði einnig lagt á slíkan reikning. Það gekk eftir og S keypti bréfin 11. nóvember 2008. S var síðan tekið til slitameðferðar samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 í mars 2009. Slitastjórn S lýsti því yfir í júní 2009 að hún teldi að ráðstafanirnar í nóvember 2008 væru riftanlegar, en G mótmælti þessari afstöðu til kröfunnar og lýsti henni sem forgangskröfu við slit S. Ekki var fallist á með G að líta mætti á þessa ráðstöfun sem kaup S á skuldabréfum og taldist hún hafa falið í sér greiðslu á skuld S sem ekki var fallin í gjalddaga og hafi greiðslan því verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki gæti talist venjulegt að stórfelldum skuldum fjármálafyrirtækis samkvæmt skuldabréfum, sem ekki féllu í gjalddaga fyrr en eftir þó nokkurn tíma, væri breytt í innlán, sem bundið var til þriggja ára og bar sömu eða hærri vexti en skuldabréfin hefðu borið, hvað þá þegar atvikum var að auki þannig háttað að kröfuhafinn skuldbatt sig til að leggja til frekara lánsfé og öðlaðist um leið forgangsrétt fyrir allri kröfu sinni gagnvart öðrum lánardrottnum. Þá hefðu ráðstafanir málsaðilanna í nóvember 2008, sem gerðar voru innan sex mánaða fyrir frestdag við slit S, miðað að því að G fengi forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum, sem hann hefði ella ekki notið. Af þeim sökum var talið að þessar ráðstafanir hefðu leitt til tjóns og því væri fullnægt skilyrðum laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu, sem fólst í þeim kaupum S á skuldabréfum sem um ræddi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2010, þar sem staðfest var riftun á greiðslu varnaraðila 11. og 12. nóvember 2008 að fjárhæð samtals 2.224.761.948 krónur til sóknaraðila á kröfu samkvæmt nánar tilteknum skuldabréfum og jafnframt hafnað að krafa sóknaraðila sömu fjárhæðar að viðbættum verðbótum og vöxtum til 22. apríl 2009, 183.970.616 krónum, yrði við slitameðferð varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans, samtals 2.408.732.564 krónur, verði viðurkennd sem forgangskrafa eftir áðurnefndum heimildum við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins gaf varnaraðili 1. júní 2004 út 800 rafræn skuldabréf að fjárhæð samtals 4.000.000.000 krónur í flokki, sem auðkenndur var STRB 04 1. Skuldabréfin, sem voru að fjárhæð 5.000.000 krónur hvert, áttu að bera 5% ársvexti, sem greiddir yrðu 1. júní hvert áranna frá 2005 til 2010, en höfuðstól átti að greiða í einu lagi síðastgreindan dag og var hann bundinn vísitölu neysluverðs. Skuldabréfin voru skráð í Kauphöll Íslands 21. júlí 2004 og var meðal annars tekið fram í skilmálum þeirra að varnaraðila bæri að setja daglega fram tilboð um kaup á þeim og sölu að lágmarki 40.000.000 krónur. Þá gaf varnaraðili 1. nóvember 2004 út 600 rafræn skuldabréf að fjárhæð samtals 6.000.000.000 krónur í flokki BURD 04 1, en skuldabréfin, sem voru að fjárhæð 10.000.000 krónur hvert, áttu að bera 4,75% ársvexti. Greiðslukjör á þessum skuldabréfum voru að öðru leyti þau sömu og lýst var um fyrrnefndan skuldabréfaflokk, en þó þannig að árlegur gjalddagi var 1. nóvember. Um þessi skuldabréf, sem skráð voru í kauphöll 19. nóvember 2004, var enginn skilmáli um svokallaða viðskiptavakt. Varnaraðili gaf jafnframt út 1. nóvember 2004 skuldabréf í flokki STRB 04 3, sem voru 600 talsins og hvert að fjárhæð 10.000.000 krónur. Skuldabréfin áttu að bera 4,5% ársvexti, en um önnur atriði, sem áður var getið varðandi skuldabréf í flokki BURD 04 1, voru þessi skuldabréf sams konar. Loks er þess að geta að enn gaf varnaraðili út nýjan flokk rafrænna skuldabréfa 13. júní 2008, sem fékk auðkennið STRB 08 6. Samkvæmt því, sem liggur fyrir í málinu um skilmála skuldabréfa í þessum flokki, var heildarfjárhæð þeirra 4.000.000.000 krónur og hvert að fjárhæð 10.000.000 krónur, ársvextir áttu að vera 7,25% og greiðast 13. júní á hverju árinu 2009 til 2013, en gjalddagi höfuðstóls, sem bundinn var vísitölu neysluverðs, átti að vera í einu lagi þann dag á síðastnefnda árinu. Skuldabréf í þessum flokki munu hafa verið skráð í kauphöll. Ekki liggur fyrir hvort viðskiptavakt hafi tekið til þeirra eða varnaraðila verið heimilt að greiða þau fyrir umsaminn gjalddaga, en í skilmálum skuldabréfanna í hinum flokkunum þremur, sem að framan var lýst, var tekið fram að engin „uppgreiðsluheimild“ væri í skuldabréfunum. Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili eignaðist skuldabréf að nafnverði samtals 865.000.000 krónur í flokknum STRB 04 1, 100.000.000 krónur í flokknum BURD 04 1, 500.000.000 krónur í flokknum STRB 04 3 og 200.000.000 krónur í flokknum STRB 08 6.

Með 6. gr. laga nr. 125/2008, sem tóku gildi 7. október 2008, var bætt við 103. gr. laga nr. 161/2002 þeim nýmælum að kröfur vegna innstæðna samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skyldu njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við „skipti á búi fjármálafyrirtækis“. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi leitaði varnaraðili til hans um miðjan október 2008 með ósk um að hann legði varnaraðila til fé í bundnu innláni, en sá síðarnefndi væri „á móti reiðubúinn til að kaupa af honum áður útgefin skuldabréf gegn því að kaupverði þeirra yrði jafnharðan ráðstafað á bundinn innlánsreikning hjá varnaraðila.“ Varnaraðili hafi síðan aflað yfirlýsingar frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta 24. október 2008, þar sem staðfest væri að innlán á reikningum hjá varnaraðila nytu verndar samkvæmt lögum nr. 98/1999 og hafi hann kynnt þetta sóknaraðila með rafpósti 28. sama mánaðar. Af þessu hafi leitt viðræður aðilanna í byrjun nóvember 2008, þar sem varnaraðili hafi boðist til að kaupa skuldabréfin, sem áður var getið, gegn því að kaupverðið yrði lagt á bundinn innlánsreikning hjá sér og sóknaraðili léti að auki af hendi fjárhæð, sem svaraði til helmings kaupverðsins og yrði einnig lagt á slíkan reikning. Á grundvelli þessara viðræðna, sem varnaraðili hafi efnt til og snúist hafi meðal annars um vaxtakjör og binditíma innlána, hafi hann 11. nóvember 2008 keypt skuldabréfin. Fyrir liggur að kaupverðið nam samtals 2.224.761.948 krónum miðað við uppgjörsdag 12. nóvember 2008 og skiptist það þannig að skuldabréfin í flokki STRB 04 1 voru keypt á genginu 138,9518 fyrir 1.201.932.896 krónur, í flokki BURD 04 1 á genginu 134,1384 fyrir 134.138.400 krónur og í flokki STRB 04 3 á genginu 134,1286 fyrir 670.643.000 krónur, en gengi skuldabréfanna í flokki STRB 08 6 var 99,9385 og verð þeirra þannig 199.877.000 krónur, sem samtals 18.170.652 krónur bættust við vegna áfallinna vaxta og verðbóta. Í fjórum skjölum, sem aðilarnir undirrituðu á uppgjörsdeginum, var staðfest að samið hafi verið um að fjárhæðin, sem nam kaupverði allra skuldabréfanna, væri innlán hjá varnaraðila, þar sem „gjalddagi“ yrði 14. nóvember 2011, og hún verðtryggð með vísitölu neysluverðs. Síðastgreindan dag bæri varnaraðila að greiða sóknaraðila innlánið ásamt verðbótum og ársvöxtum, sem voru misjafnir eftir skuldabréfaflokkunum sem einstakir hlutir af innláninu áttu rætur að rekja til, en þeir voru á bilinu frá 5,58% til 7,25%. Samhliða þessu stofnaði sóknaraðili jafnframt til sérstaks innláns hjá varnaraðila að fjárhæð 1.112.381.061 króna, sem átti að vera bundið til 12. febrúar 2009 og bera 21,5% ársvexti.

Fjármálaeftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitastjórnin mun hafa gefið út innköllun til lánardrottna varnaraðila 12. maí 2009 og kröfulýsingarfresti lokið 18. júlí sama ár. Á þeim fresti ritaði slitastjórnin bréf 19. júní 2009 til sóknaraðila, þar sem hún lýsti því áliti að framangreindar ráðstafanir 11. og 12. nóvember 2008 væru riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009, en þessu andmælti sóknaraðili með bréfi 30. júní 2009. Í framhaldi af því lýsti sóknaraðili 17. júlí sama ár kröfu að höfuðstól 2.224.761.948 krónur á grundvelli fyrrgreinds innláns ásamt 183.970.616 krónum vegna áfallinna vaxta og verðbóta og krafðist hann þess að þær fjárhæðir samanlagðar nytu stöðu forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Í skrá slitastjórnar um lýstar kröfur á hendur varnaraðila mun þessi krafa sóknaraðila hafa verið viðurkennd með þeirri heildarfjárhæð, sem hann lýsti, 2.408.732.564 krónum, en sem almenn krafa. Í tilkynningu um þetta til sóknaraðila 30. júlí 2009 kom fram að slitastjórnin reisti þessa afstöðu til kröfunnar á því að hún hafi verið „skuldabréfalán til Straums sem breytt hafi verið í innlán innan 6 mánaða fyrir frestdag og áður en komið var að umsömdum gjalddaga skuldabréfanna. Breyting þessi hafi verið framkvæmd sem uppgreiðsla skuldabréfanna og andvirðið fært inn á innlánsreikning. Með þessari aðgerð var rétthæð hverrar kröfu við gjaldþrotaskipti breytt og kröfuhafinn fékk þannig auknar tryggingar fyrir ógjaldfallinni kröfu. Ráðstöfun þessi er riftanleg að mati slitastjórnar og vísar slitastjórn í því sambandi til bréfs sem hún sendi kröfuhafanum 19. júní 2009“. Þessari afstöðu til kröfunnar mótmælti sóknaraðili með bréfi 5. ágúst 2009. Ekki var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta á kröfuhafafundum, sem slitastjórnin hélt 6. og 25. ágúst 2009, og vísaði hún því ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 3. september sama ár. Mál þetta var þingfest af því tilefni 21. september 2009.

II

Samkvæmt áðurnefndum skilmálum skuldabréfa í flokknum STRB 04 1 bar varnaraðila að gegna hlutverki svonefnds viðskiptavaka og setja daglega fram í kauphöll tilboð um kaup og sölu á þeim fyrir tiltekna lágmarksfjárhæð. Þá var og tekið fram í skilmálum skuldabréfa í þessum flokki og flokkunum BURD 04 1 og STRB 04 3 að „engin uppgreiðsluheimild“ fylgdi þeim. Með þessu hefur sýnilega verið gengið út frá því að varnaraðili kynni að eiga viðskipti með skuldabréf, sem að minnsta kosti áttu undir einhverja þá flokka, sem mál þetta varðar. Þrátt fyrir það stendur engin haldbær réttarheimild til að víkja við þessar aðstæður frá þeirri meginreglu fjármunaréttar að krafa falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi og getur þar engu breytt þótt varnaraðili hefði í kjölfar kaupa á skuldabréfum, sem hann hafði sjálfur gefið út, getað stofnað á nýjan leik til skuldar með því að selja þau öðrum. Að lögum verður því að líta svo á að varnaraðili hafi greitt kröfu sóknaraðila á hendur sér 11. nóvember 2008 án tillits til þess að í skiptum þeirra hafi orðum verið hagað þannig að varnaraðili hafi þá keypt af sóknaraðila skuldabréf að nafnverði samtals 1.665.000.000 krónur, sem varnaraðili hafði gefið út. Á þeim tíma var næsti gjalddagi áfallinna vaxta af þessum skuldabréfum ýmist 1. júní, 13. júní eða 1. nóvember 2009, en gjalddagi alls verðbætts höfuðstóls þeirra ýmist 1. júní eða 1. nóvember 2010 eða 13. júní 2013. Að því virtu greiddi varnaraðili þessar skuldir sínar við sóknaraðila fyrr en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Með 6. gr. laga nr. 125/2008 var sem fyrr segir gerð sú breyting á lögum nr. 161/2002 að kröfur vegna innstæðna hjá viðskiptabanka öðluðust forgangsstöðu í réttindaröð við slit fjármálafyrirtækis eða eftir atvikum nauðasamningsumleitanir þess eða gjaldþrotaskipti á því, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og þeim var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009. Nokkru eftir að þessi lagabreyting tók gildi bauðst varnaraðili til að kaupa af sóknaraðila ógjaldfallin skuldabréf, sem varnaraðili hafði gefið út, gegn því að kaupverðið yrði bundið innlán hjá sér, samhliða því að sóknaraðili léti af hendi helming kaupverðsins til viðbótar, sem einnig yrði bundið innlán hjá varnaraðili. Óumdeilt er að þetta boð var kveikjan að þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru 11. og 12. nóvember 2008, en með þeim var fénu, sem sóknaraðili átti áður hjá varnaraðila á grundvelli skuldabréfa, ráðstafað á innlánsreikning, sem var þó bundinn til tiltekins dags, sem var ýmist fyrir eða eftir gjalddaga skuldabréfanna, og bar vexti, sem ýmist voru hærri eða þeir sömu og skuldabréfin höfðu borið. Þótt fjármálafyrirtæki afli sér lánsfjár eftir ýmsum leiðum og með margvíslegum kjörum, þar á meðal með því að taka við innlánum hafi þau starfsleyfi sem nái til þess samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, getur engan veginn talist venjulegt að stórfelldum skuldum þess samkvæmt skuldabréfum, sem falla ekki í gjalddaga fyrr en eftir þó nokkurn tíma, sé breytt í innlán, sem bundið er til þriggja ára og ber sömu eða hærri vexti en skuldabréfin hefðu borið, hvað þá þegar atvikum er að auki þannig háttað að kröfuhafinn skuldbindi sig til að leggja til frekara lánsfé og öðlist um leið forgangsrétt fyrir allri kröfu sinni gagnvart öðrum lánardrottnum. Ráðstafanir málsaðilanna 11. og 12. nóvember 2008, sem gerðar voru innan sex mánaða fyrir frestdag við slit varnaraðila, leiddu að sönnu ekki til þess að fé gengi að svo komnu úr höndum hans, en þær miðuðu á hinn bóginn að því að sóknaraðili fengi forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum, sem hann hefði ella ekki notið. Af þeim sökum leiddu þessar ráðstafanir til tjóns. Að þessu öllu virtu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu, sem fólst í þeim kaupum varnaraðila á skuldabréfum sem hér um ræðir.

Með riftun á greiðslu varnaraðila, sem að framan getur, raknar við það réttarsamband, sem var við lýði milli hans og sóknaraðila áður en hún var innt af hendi. Samkvæmt 143. gr. laga nr. 21/1991 leiðir þetta til þess að sóknaraðili telst eftir riftun eiga kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli skuldabréfanna, sem málið varðar, en varnaraðili getur fyrir sitt leyti endurheimt greiðsluna, sbr. og 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Eftir samningi aðilanna 11. nóvember 2008, sem leiddi til þeirrar greiðslu, hefur fjárhæð hennar allar götur síðan verið í höndum varnaraðila sem innstæða sóknaraðila á innlánsreikningi. Vegna þessa verður að líta svo á að riftun greiðslunnar leiði sjálfkrafa til þeirrar niðurstöðu að fjárhæð hennar teljist ekki lengur til innstæðna, sem ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 taki til. Krafa sóknaraðila samkvæmt skuldabréfunum nýtur því stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 í réttindaröð við slit varnaraðila.

Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gildi-lífeyrissjóður, greiði varnaraðila, Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2010.

I

Mál þetta var þingfest 21. september 2009 og tekið til úrskurðar 1. febrúar 2010.  Sóknaraðili er Gildi-lífeyrissjóður, Sætúni 1, Reykjavík, en varnaraðili er Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf., Borgartúni 25, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að krafa að fjárhæð 2.408.732.564 krónur að meðtöldum vöxtum og verðbótum að fjárhæð 183.970.616 krónur (krafa nr. 249 á kröfuskrá) verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð varnaraðila, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila ásamt virðisaukaskatti

Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að staðfest verði riftun á uppgreiðslu skuldabréfa í eigu sóknaraðila, útgefnum af varnaraðila, sem hér segir:

a.  Skuldabréf í flokki STRB 04 1, Isin nr. IS0000009280, en uppgreiðslan fór fram  

11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 1.201.932.896 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

b.  Skuldabréf í flokki STRB 04 3, Isin nr. IS0000009868, en uppgreiðslan fór fram  

11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 670.643.000 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

c.  Skuldabréf í flokki STRB 08 6, Isin nr. IS0000018224, en uppgreiðslan fór fram   11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 218.047.652 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

d.  Skuldabréf í flokki STRB 04 1, Isin nr. IS0000009876, en uppgreiðslan fór fram   11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 134.138.400 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

Í öðru lagi krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu forgangs­réttar fyrir kröfu hans á hendur varnaraðila á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 verði hafnað, og að staðfest verði sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að krafa sóknaraðila ásamt áföllnum vöxtum til 22. apríl 2009 hafi stöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila ásamt virðisaukaskatti.

II

Samkvæmt gögnum málsins átti sóknaraðili fjögur skuldabréf að nafnverði samtals 1.665.000.000 krónur, útgefin af varnaraðila í fjórum tilgreindum skuldabréfa­flokkum.  Hinn 11. september 2008 náðust um það samningar með málsaðilum að sóknaraðili legði varnaraðila til laust fé að fjárhæð 1.112.382.061 króna sem bundið innlán til 12. febrúar 2009 gegn því að varnaraðili keypti af honum nefnd skuldabréf samtals að kaupverði 2.224.761.948 krónur.  Skyldi kaupverðið bundið á innlánsreikn­ing­um um þriggja ára skeið eða til 14. nóvember 2011.  Í þessum skilmálum fólst lenging á lánstíma um eitt ár að meðaltali og jafnframt hækkun vaxta úr 5,05% í 6,13%.  Samkvæmt skilagreinum varnaraðila 11. nóvember 2008 keypti hann nefnd skuldabréf af sóknaraðila fyrir samtals 2.224.761.948 krónur, að teknu tilliti til áfallinna vaxta, sem greiða skyldi 12. nóvember 2008. 

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. mars 2009 var varnaraðila skipuð skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009 var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar til 11. júní 2009 og hefur heimild til greiðslustöðvunar verið framlengd í tvígang, síðast til 10. september n.k.

Í kjölfar setningar laga nr. 44/2009 óskaði skilanefndin eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að félaginu yrði skipuð slitastjórn og var svo gert 11. maí 2009.  Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 18. maí 2009.  Kröfulýsingarfrestur rann út 18. júlí 2009.  Ekki er ágreiningur um að frestdagur er 9. mars 2009 og að upphafsdagur kröfumeðferðar miðist við gildistöku laga nr. 44/2009 eða 22. apríl 2009, sbr. 1. mgr. og 2. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Með bréfi slitastjórnarinnar til sóknaraðila 19. júní 2009 lýsti hún því áliti að framan­greindar ráðstafanir 11. og 12. nóvember 2008 væru riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.  Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 30. júní 2009 andmælti hann þessari afstöðu slitastjórnarinnar og lýsti 17. júlí 2009 kröfu um greiðslu á samtals 2.224.761.948 krónum auk áfallinna vaxta á fjórum innlánsreikningum og krafðist þess að krafan yrði viðurkennd sem for­gangs­krafa samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem um væri að ræða innlán hjá varnaraðila.  Í skrá slitastjórn­ar um lýstar kröfur á hendur varnaraðila var krafa sóknaraðila, sem var nr. 249 á kröfu­skránni,  viðurkennd sem almenn krafa að fjárhæð 2.408.732.564 krónur og var sóknaraðila tilkynnt sú afstaða með bréfi 30. júlí 2009.

Á kröfuhafafundi 6. ágúst 2009 var fjallað um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar þeirra.  Allmargir kröfuhafar lýstu andmælum gegn af­stöðu slitastjórnar til krafna sinna, þeirra á meðal sóknaraðili málsins.  Var tvívegis boðað til sérstaks kröfuhafafundar í ágúst 2009 til að freista þess að ná samkomulagi um ágreininginn, en án árangurs.

Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, mótteknu 7. septem­ber 2009, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Snýst ágreining­ur­inn um stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila.  Krefst sóknaraðili þess að kröfur hans verði flokkaðar sem forgangskröfur en slitastjórn telur kröfurnar flokkast sem almennar kröfur.

Við meðferð málsins í upphafi gerðu nánar tilgreindir sautján aðilar kröfu um að gerast meðalgönguaðilar í málinu en sóknaraðili mótmælti því.  Var leyst úr þeim ágreiningi með úrskurði uppkveðnum 6. nóvember 2009 og var meðalgöngu þeirra hafnað.  Var sá úrskurður staðfestur af Hæstarétti með dómi uppkveðnum 10. desem­ber 2009.

III

   Sóknaraðili kveður að með bréfi 30. júní 2009 hafi varnaraðili tilkynnt honum að hafnað væri kröfu hans um viðurkenningu á forgangsrétti vegna lýstrar kröfu hans sem einkennd var nr. 249 á kröfuskrá.  Þá hafi jafnframt verið tilkynnt að líta beri á tilkynningu varnaraðila til sóknaraðila frá 19. júní 2009 sem yfirlýsingu um riftun.  Um lagastoð hafi verið vísað til sömu tilkynningar.  Í téðri tilkynningu hafi verið tekinn upp texti 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 og til þess vísað að tilvitnaðar riftunarreglur byggi á meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og fullyrt að sú umbreyting á skuld sem að framan sé lýst raski því jafnræði, með því að einstökum kröfuhöfum sé veittur forgangsréttur umfram hina.  Þá segi þar: 

   „Það sem raunverulega á sér stað er að skuldabréf er greitt upp fyrir gjalddaga og uppgreiðslufjárhæð lögð inn á innlánsreikning. Nánar tiltekið er það uppgreiðsla skuldabréfsins sem er riftanleg á grundvelli ákvæðisins, þar sem greitt er fyrir gjald­daga samhliða því að nýr samningur er gerður um kröfuna sem veitti kröfuhafanum betri réttarstöðu en hann hafði gagnvart öðrum kröfuhöfum félagsins.”

   Með framangreindum hætti hafi grundvöllur riftunar varnaraðila verið lagður og telur sóknaraðili fullljóst að ekki verði öðrum stoðum skotið undir lögmæti riftunar varnar­aðila þaðan í frá.  Reyni þá á hvort fullnægt hafi verið lagaskilyrðum fyrir riftun á kaupum varnaraðila á tilgreindum skuldabréfum samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum 1. mgr. 134 gr. eða 137. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, en á það telur sóknaraðili mikið skorta.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. megi rifta tilteknum ráðstöfunum þrotamanns síðustu 6 mánuði fyrir frestdag, ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.  Í tilvitnaðri tilkynningu varnaraðila frá 19. júní segi:

 „að skuldabréf er greitt upp fyrir gjalddaga og uppgreiðslufjárhæð lögð inn á innlánsreikning.” 

Virðist því mega álykta sem svo að riftunin sé á því byggð að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var í skilningi tilvitnaðs ákvæðis.

Sóknaraðili kveðst vera sammála útleggingu varnaraðila í áðurgreindri tilkynningu á því að grundvöllur riftunarreglna gjaldþrotalaganna sé að stuðla að jafnræði með kröfu­höfum.  Við mat á því hvort þrotabú hafi greitt kröfu fyrr en eðlilegt sé reyni því á mat á því hver hafi verið markmið þrotamanns og viðtakanda greiðslu með hinni umdeildu ráðstöfun.  Þá dugi ekki eitt sér að vísa til þess að greitt hafi verið fyrir gjalddaga eins og varnaraðili láti sér nægja.  Ákvæðið sé einkum sett til varnar því að aðili sem sjái fyrir þrot freistist til þess að ívilna tilteknum kröfuhöfum á kostnað annarra.  Tilgangur ákvæðisins sé þá ekki síður að verja aðila í greiðsluerfiðleikum og kröfuhafa hans fyrir óeðlilegum þrýstingi kröfuhafa sem telji sig hafa af því spurnir að greiðsluþrot skuldara kunni vera skammt undan.  Hvorugu þessu hafi verið til að dreifa við hin umþrættu viðskipti enda hafi engum getum verið að því leitt af hálfu varnaraðila að aðstæður sem umlukt hafi þessi viðskipti hafi verið með þeim hætti.  Megin­tilgangur lagaákvæðisins sé raunar að hindra aðgerðir sem til þess séu fallnar að rýra fjárhagsstöðu skuldara í þágu eins kröfuhafa en á kostnað annarra.  Samningar málsaðila hafi þó sannanlega engin slík áhrif haft þegar þeir voru gerðir 4 mánuðum fyrir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á starfsemi varnaraðila.  Þvert á móti hafi samning­arnir ótvírætt leitt til þess að fjárhagsstaða varnaraðila, einkum lausafjárstaða hans, hafi batnað sem viðskiptunum nam bæði til skamms og langs tíma. Riftun verði því ekki studd fullyrðingum um það að sú greiðsla sem sögð sé rift, eða þau viðskipti önnur sem henni hafi órjúfanlega tengst, hafi skert greiðslugetu skuldarans eða verið til þess fallin að gera það.

Í umþrættu tilviki hafi átt sér stað margþætt viðskipti sem til hafi verið stofnað fyrir frumkvæði varnaraðila, sem hafi metið það svo að hann hefði af því verulega hagsmuni að lengja í skuldbindingum sínum og bæta lausafjárstöðu sína í bráð og lengd. Tilgangur varnaraðila hafi þannig verið fullkomlega lögmætur og eðlilegur og ekkert sem færi að því rök að hann hafi með einhverjum hætti viljað ívilna sóknaraðila með þeim viðskiptum sem hann hafi sóst eftir.  Hafi markmið hans sýnilega verið það eitt að efla lausafjárstöðu bankans.  Það hafi verið lögmætur tilgangur og eðlilegur í starfsemi varnaraðila enda í fullu samræmi við það sem hann hafi sjálfur lýst í opinberum tilkynningum til markaðarins sem markmiði sínu. Hin umþrættu viðskipti hafi því verið í samræmi við opinberlega markaða stefnu að styrkja lausafjárstöðu varnaraðila og gera hann færari um að standa við skuldbindingar sínar. Þegar viðskiptin voru gerð hafi þau því tvímælalaust verið til hagsbóta fyrir varnaraðila og þar með alla kröfuhafa hans og til þess gerð að verja fjárhagsstöðu bankans.   Riftun verði því ekki byggð á því að huglægar forsendur varnaraðila hafi verið með saknæm­um hætti og því síður verði sóknaraðili borinn þeim sökum þar sem hann hafi ekkert frumkvæði átt að umdeildum viðskiptum heldur hafi hann farið að tilmælum varnar­aðila um það efni. 

Setning neyðarlaganna nr. 125/2008 hinn 7. október 2008 hafi breytt forsendum fyrir fjármögnun banka og annarra fjármálafyrirtækja.  Með þeim hafi skuldabréf útgefin af nefndum aðilum verið gerð eftirstæð miðað við innistæður, sbr. 6. gr. nefndra laga, sem breytt hafi kröfuröð samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti en þau hafi fram að því notið jafnstöðu.  Lagabreytingin hafi þannig raskað aðstæðum fjármálafyrirtækja og mögu­leik­um til að sækja sér lánsfé með útgáfu skuldabréfa, en skuldabréfaútgáfan hafi verið meginuppspretta fjármögnunar viðskiptabankanna.  Hafi innlán fengið lög­bundna forgangsstöðu umfram skuldabréf og við því hafi markaðsaðilar hlotið að bregðast.  Breytingin hafi verið til þess fallin að torvelda  fjármálastofnunum fjáröflun til að efla lausafjárstöðu sína með öðrum hætti en með lántökum í formi bundinna innlána. Frumkvæði varnaraðila gagnvart sóknaraðila um að bjóða honum sam­keppnis­hæf kjör fyrir fjármögnun af hans hálfu hafi því verið eðlilegur þáttur í starfsemi hans og viðleitni til að tryggja stöðu félagsins.  Traust á fjármálamarkaði hafi þorrið hratt á haustmánuðum 2008, bæði alþjóðlega og þá ekki síður hér á landi í kjölfar þess að lausafjárþurrð hafi fellt stóru viðskiptabankana.  Það hafi því varðað varnaraðila miklu að geta sýnt fram á sem öflugasta lausafjárstöðu á síðustu mánuðum ársins 2008 og inn á árið 2009 en jafnframt að geta dregið úr endurfjármögnunarþörf á næstu misserum þar eftir.   

Hin umdeilda krafa samanstandi af innlánum á 4 innlánsreikningum og eigi hver þeirra rót í kaupum varnaraðila á skuldabréfum úr einum og sama skuldabréfa­flokknum.  Þrír af þessum skuldabréfaflokkum, eða um 90% af fjárhæð­inni, hafi verið á gjalddaga á fyrstu 11 mánuðum ársins 2010, þar af tæpar 1.202 milljónir fyrir mitt ár.  Það hafi því verið liður í endurfjármögnun bankans að hann keypti umrædd skuldabréf og hafi fengið kaupverðinu snúið í bundið innlán til þriggja ára með einum gjalddaga í nóvember árið 2011.  Þessi kaup hafi þannig verið hluti af venjulegri starfsemi banka við endurfjármögnun og til þess eins fallin að auka traust á starfsemi hans, hvoru tveggja í þágu hagsmuna varnaraðila og kröfuhafa hans.  Til þess sé að líta að sú aðgerð að reyna að bæta lausafjárstöðu varnaraðila sé eðlileg ráðstöfun og í raun viðskiptavenja, enda varði það banka miklu að geta sýnt fram á sterka lausafjár­stöðu, hvort sem sé á tímum samdráttar eða velsældar.  Þessi gerningur hefði því allt eins getað hafa gerst á öðrum tíma með sama hætti og hafni sóknaraðili því að það greiðsluþrot sem síðar hafi orðið hjá varnaraðila hafi verið einhvers konar hvati að gerningnum.  Viðskiptin hafi því verið venjuleg eftir atvikum í merkingu 1. mgr. 134. gr. i.f.

Í þessu samhengi sé ekki síður mikilvægt að greina hvort það skilyrði 1. mgr. 134. gr. um að greiðsla hafi farið fram hafi verið uppfyllt.  Sóknaraðili kveðst skilja inntak tilvitnaðs ákvæðis með þeim hætti að það geti því aðeins komið til skoðunar að greiðsla hafi farið fram, að greiðslan hafi skipt um hendur.  Í hinum umdeildu viðskiptum sé ekki ágreiningur um það að krafa sóknaraðila hafi verið um peninga­greiðslu og jafnframt sé skýrt að kaupverð skuldabréfanna hafi verið greitt með peningum.  Það sem hins vegar sé sérstakt sé það að kaupverðið hafi aldrei skipt um hendur.  Sóknaraðili hafi aldrei fengið þá fjármuni sem greiðslu fyrir umrædd skuldabréf.  Fjármunirnir hafi aldrei farið úr vörslum varnaraðila því þeim hafi jafn­harð­an og kaupin hafi gengið í garð verið ráðstafað inn á bundinn innlánsreikning hjá varnaraðila.  Umdeild greiðsla hafi því aldrei átt sér stað enda hafi ekki verið um uppgreiðslu skuldar að ræða í merkingu 134. gr. gjaldþrotalaganna, heldur samkomu­lag um endurfjármögnun sem hafi falist í því að sóknaraðili hafi samþykkt ráðstöfun á uppgjöri á kaupverði skuldabréfanna í nýtt lán til handa varnaraðila, lán með breyttum vaxtakjörum og lengri lánstíma, aukinheldur sem hann hafi skuldbundið sig til að leggja varnaraðila til nýtt laust fé sem svaraði til 50% af kaupverði téðra skuldabréfa, sem bundið skyldi á innlánsreikningi hans, þótt til skemmri tíma væri.  Þannig hafi aldrei verið uppfyllt það lagaskilyrði fyrir riftun greiðslu skuldar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga að umdeild greiðsla hafi skipt um hendur og farið úr vörslum þrotamannsins, þ.e. varnaraðila máls þessa.  Verði riftun því ekki reist á því að viðskipti málsaðila hafi falið í sér greiðslu skuldar fyrr en eðlilegt hafi verið.

Sóknaraðili bendir á að hin umdeildu skuldabréf hafi verið hluti af útgáfu varnaraðila á skráðum markaðsverðbréfum. Skilmálar krafna samkvæmt slíkum útgáfum komi fram í opinberlega birtri skráningarlýsingu sem finna megi á vef Verðbréfaþingsins fyrir þá fjóra flokka sem sóknaraðili hafi selt.  Hafi kaupin átt sér stað fyrir milligöngu verðbréfamiðlunar varnaraðila og hafi kaupverðið verið gert upp miðað við umsamda ávöxtunarkröfu hvers flokks til kaupdags.  Skuldabréfin hafi þannig verið framseld varnaraðila samkvæmt umræddum kaupum og hafi sóknaraðila mátt það einu gilda hvort varnaraðili síðar seldi þessa fjármálagerninga til annarra aðila.  Sjáist einnig af þessu að ekki hafi verið um það að ræða að einhver tiltekin skuldabréf væru greidd upp, því ef svo hefði verið þá hefðu þau átt að áritast um uppgreiðslu og þannig verða gildislaus.  Umrædd skuldabréf hafi hins vegar verið skráð í rafrænni útgáfu hjá Kauphöll Íslands og verði hver flokkur þar ekki afskráður fyrr en hann sé greiddur á gjalddaga.  Samkvæmt skráningarlýsingu fyrir flokkinn STBR 04-1, sé skýrt tekið fram að engin uppgreiðsluheimild sé að skuldabréfunum og jafnframt hafi varnaraðili samkvæmt skilmálunum verið skuldbundinn til þess að halda uppi viðskiptavakt með skuldabréf í umræddum flokkum.  Það hafi því verið eðlilegur þáttur í starfsemi hans að kaupa umrædd skuldabréf af sóknaraðila.  Hvað varði skuldabréf í tilvitnuðum flokki sem varnaraðili hafi keypt fyrir 1.202 milljónir króna, þá séu í skilmálunum tekin af öll tvímæli um það að þessi bréf verði ekki greidd upp.  Fullyrðingar varnar­aðila um hið gagnstæða eigi sér því ekki stoð í gögnum málsins.  Sé raunar af þessu tilefni skorað á varnaraðila að hann leggi fram upplýsingar frá Verðbréfaskráningu Íslands um það hver hafi verið skráður framsalshafi að umræddum skuldabréfum við  yfirtöku FME á starfsemi hans hinn 9. mars sl.  Ætlar sóknaraðili að þá verði enn frekar staðfest að varnaraðili hafi ekki greitt upp umrædd skuldabréf eins og hann hafi haldið fram heldur hafi hann fengið þau framseld.  Sé þá enn ein lögmætisforsenda riftunar varnaraðila fallin.

Sóknaraðili hafnar því ennfremur í þessu samhengi að umþrætt viðskipti hafi falið í sér greiðslu á kröfu „fyrr en eðlilegt var”  í merkingu 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti.  Með vísan til þess sem rakið sé hér að framan um eðli viðskiptanna hafi ekkert verið óeðlilegt við tímasetningu þeirra.  Skuldabréfin hafi bæði mátt kaupa og selja á hvaða tíma sem var allt fram að gjalddaga þeirra.  Framangreind kaup varnaraðila á skuldabréfunum hafi þannig ekki verið ótímabær í neina veru enda væri fráleitt að halda því fram að endurfjármögnun með samningi um lengri lánstíma og aukin lán geti á nokkurn máta skoðast sem greiðsla „fyrr en eðlilegt var” í merkingu tilvitnaðs lagaákvæðis.  Þvert á móti hafi inntak viðskiptanna verið það að tryggja varnaraðila rétt til að greiða seinna, en honum ella hefði borið að gera.  Það sé raunar til staðfestu þessum kjarna viðskiptanna, þ.e. að tryggja lengingu lánstíma, að varnaraðili hafi fallist á hækkun vaxtagreiðslna miðað við þau vaxtakjör sem verið hafi á margnefndum skuldabréfum um liðlega 1% sem hafi endurspeglað hækkandi ávöxtunarkröfu á lánsfjármarkaði.  Sýni það vel hversu mikils varnaraðili mat það að tryggja sér umrædda endurfjármögnun með kaupum á nefndum skuldabréfum og bindingu fjárins í full 3 ár.  

Í riftunartilkynningu sinni kjósi varnaraðili að flétta saman tilvísan til efnisþátta 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. gr. gjaldþrotaskiptalaganna á þann veg að skilja verði það svo að riftun hans samkvæmt fyrrgreindu lagastoðinni sé háð því að um brot á síðargreinda lagaákvæðinu sé að tefla.  Verði tilkynningin þannig ekki skilin á annan veg en svo, að mati sóknaraðila, en að skilyrði fyrir lögmæti riftunar skv. 134. gr. sé að staðfest verði að umdeild viðskipti hafi falið í sér brot á 137. gr.  Þá fái sóknaraðili með engu móti séð að varnaraðili hafi með riftunartilkynningu sinni áskilið sér rétt til að rifta innlánshluta viðskiptanna einum og sér, færi svo að riftunarheimild 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti þyki ekki veita lagastoð fyrir riftun á kaupum skuldabréfanna sem áður sé fjallað um.  Um leið og þessum skilmálum riftunar­til­kynn­­ing­ar­­innar sé haldið til haga árétti sóknaraðili að hann telji enga lagastoð liggja í 137. gr. fyrir þeirri riftun sem varnaraðili hafi tilkynnt um.

Þótt ekki sé aldeilis ljóst af riftunartilkynningu varnaraðila hvort hann byggi boðaða riftun á ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti þá sé að minnsta kosti ljóst að þar sé enga skýra tilgreiningu að finna á því á hvaða grundvelli nákvæmlega hann byggi riftun sína.  Í tilkynningu sinni segi hann að það sé:

„..uppgreiðsla skuldabréfsins sem er riftanleg á grundvelli ákvæðisins, þar sem greitt var fyrir gjalddaga samhliða því sem nýr samningur var gerður um kröfuna sem veitti kröfuhafanum betri réttarstöðu en hann áður hafði gagnvart öðrum kröfuhöfum félagsins.“

Sóknaraðili minnir af þessu tilefni á að varnaraðili hafi skilgreint riftun sína þannig að það sé uppgreiðsla skuldabréfsins sem sé riftanleg.  Riftunin beinist því að þeim viðskiptum sem hafi falist í kaupum varnaraðila á margnefndum skuldabréfum eða ef til vill nánar tiltekið á greiðslu kaupverðs samkvæmt þeim samningi.  Fái sóknaraðili með engu móti séð hvernig ákvæði 1. mgr. 137. gr., sem mæli fyrir um ógildanleika tiltekinna tryggingarráðstafana þrotamanns í þágu skuldara, geti skotið stoðum lögmætis undir ógildingu á greiðslu sem um sé fjallað í allt annarri grein laganna.  Sóknaraðili telur því að ekki liggi fyrir skýr málsástæða um riftun tiltekinna tryggingarráðstafana sem lagaákvæðið geti tekið til.  Hafi varnaraðili ætlað sér að standa að riftun tiltekinna ráðstafana, s.s. stofnun innlánsreikninga, þá hafi hann orðið að gera það með skýrum hætti í téðri tilkynningu.  Verði hann að bera hallann af óskýrleika í nefndri tilkynn­ingu sem ekki verði skýrð með rýmkandi hætti eftir að grundvöllur málsins sé lagður.

Af umfjöllun varnaraðila verði helst ráðið að hann byggi tilvísun til 137 gr. gjald­þrota­skiptalaganna á því að ný skuldbinding hafi stofnast með samningi málsaðila um bundið innlán, sem njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, samhliða kaupum varnaraðila á margnefndum skulda­bréfum og að sú ráðstöfun feli í sér veitingu tryggingarréttinda sem sóknaraðili hefði ella ekki notið.  Hafi þetta gerst innan tilgreindra 6 mánaða tímamarka.   Þessu hafni sóknaraðili og vísi til þess að þau veð- og tryggingarréttindi sem vísað sé til í 1. mgr. 137. gr. eigi undir 111. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.  Staða innlána í kröfuröð sé hins vegar ákveðin í  112. gr. og verði þeim lögboðnu réttindum ekki jafnað til veð- eða tryggingarréttar sem stofnað sé til með löggerningum.  Telur sóknaraðili einboðið að ákvæði 1. mgr. 137. gr. taki einungis til löggerninga um veð- eða tryggingarréttindi en geti eðli málsins sam­kvæmt ekki ógilt lögbundin réttindi á borð við þau sem skilgreind séu í 112. gr. gjaldþrota­skiptalaga.  Því sé það ekki á færi dómstóls að rifta eða synja um réttindi sem lög ákveði að fylgi tiltekinni réttarstöðu.

Til þess að koma fram riftun á veð- eða tryggingarréttindum sem veitt hafi verið síðustu 6 mánuði fyrir þrot, þurfi að staðreyna að téð réttindi hafi verið veitt eftir að stofnað hafi verið til skuldar þeirrar sem þeim sé ætlað að tryggja.  Það eigi ekki við í máli þessu.  Réttindi til kröfu samkvæmt innlánssamningi stofnist við innlegg á reikninginn og því sé stofndagur kröfu og lögbundinna réttinda hinn sami.  Þegar af þessari ástæðu verði riftunarkrafan ekki studd tilvísan til 1. mgr. 137. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar sóknaraðili til meginreglna gjaldþrotaréttar meðal annars um tilgang og eðli riftunarreglna.  Um málskostnaðar­kröfu vísar sóknaraðili til. 91. gr. laga nr. 90/1989  um aðför og 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Varnaraðili kveður ekki vera ágreining um fjárhæð kröfu sóknaraðila, en hann hafi lýst kröfu að fjárhæð 2.408.732.564 krónum að meðtöldum vöxtum til 22. apríl 2009 að fjárhæð 183.970.616 krónur.  Varnaraðili kveður að með 6. gr. laga nr. 44/2009 hafi efni 102. gr. laga nr. 161/2002 verið breytt verulega.  Eftir þá breytingu sé 3. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

 „Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Að því leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt þeim lögum af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita.“

Samkvæmt 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis II með lögum nr. 44/2009 gildi ofangreint ákvæði um varnaraðila. 

Ákvæði laga nr. 161/2002 um slit fjármálafyrirtækja hafi tekið gagngerum breytingum með lögum nr. 44/2009.  Þar sé meðal annars mælt fyrir um hlutverk og viðfangsefni skilanefnda og slitastjórna, en jafnframt séu þar ákvæði til bráðabirgða sem hér skipti miklu máli.  Þannig sé í ákvæði II. til bráðabirgða mælt fyrir um allmargar sérreglur sem taki til fjármálafyrirtækja sem njóti heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laganna.  Hafi varnaraðili haft heimild til greiðslustöðvunar á þeim tíma og sérregl­urn­ar eigi því beint við um fyrirtækið, skilanefnd þess og slitastjórn. 

Í 3. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða sé mælt fyrir um hlutverk sem skilanefnd sé ætlað samkvæmt tilteknum ákvæðum í lögunum.  Þetta sé orðað þannig í ákvæðinu:

 „Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara.“

Í 4. tölul. sama bráðabirgðaákvæðis segi síðan um verkefni slitastjórnar:

 „Til annarra verka slitastjórnar en um ræðir í 3. tölul. skal héraðsdómari eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipa fyrirtækinu slíka stjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga þessara.“

Telji varnaraðili þetta afar þýðingarmikil ákvæði, einkum vegna ákvæða í 4. mgr. 101. gr. laganna, sem sé svohljóðandi:

 „Þegar dómsúrlausn hefur gengið um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita skipar héraðsdómari því slitastjórn sem í skulu sitja allt að fimm menn. Við skipun hennar tekur hún við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. þó 3. mgr. 103. gr. Að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjald­þrota­skipti um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni.“

Af þessu ákvæði leiði, að slitastjórn varnaraðila hafi sams konar hlutverk við slitameðferð félagsins eins og skiptastjóri hafi við gjaldþrotaskipti samkvæmt lögum nr. 21/1991, þótt verkefni slitastjórnarinnar takmarkist af því sem falli undir verksvið skilanefndar.

Slitastjórn varnaraðila hafi tilkynnt sóknaraðila með bréfi 30. júlí 2009 að hún hefði hafnað kröfu hans um að umrædd krafa yrði viðurkennd sem forgangskrafa.  Í bréfinu sé því lýst að slitastjórnin rifti því svokallaða uppgjöri sem fram hafi farið á skulda­bréfs­kröfu sóknaraðila með því að krafan hafi verið gerð að innlánskröfu hjá varnar­aðila. 

Varnaraðili geri í máli þessu kröfu um að riftunin verði staðfest.  Málsástæður fyrir riftunarkröfunni séu eftirfarandi:

Með 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi ákvæði um forgangsrétt bankainnstæðna hjá fjár­mála­fyrirtækjum fyrst verið lögfest hér á landi.  Lög þessi séu í daglegu tali kölluð neyðarlögin vegna aðstæðna á fjármálamarkaði hér á landi við lögfestingu þeirra 6. október 2008.  Hafi aðilar málsins gert með sér samkomulag um að ógjaldfallnar kröf­ur sem sóknaraðili hafi átt á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfum yrðu greiddar og að andvirðið skyldi lagt inn á innlánsreikning hjá varnaraðila.  Sé ljóst af þeirri lýsingu og öðrum gögnum málsins um aðdraganda þessara viðskipta að starfs­menn varnaraðila hafi boðið sóknaraðila að gera breytingu á formi lánveitinga sóknar­aðila til félagsins á þann hátt að skuldabréfakröfum verði breytt í innlán sem verði bundin lengur en fram að þeim gjalddaga sem hafi verið á bréfunum og gegn heldur hærri vöxum en skuldabréfin hafi borið.  Jafnframt hafi það verið áskilið að sóknar­aðili legði meira fé inn á innlánsreikninga hjá varnaraðila samhliða þessum upp­gjör­um.  Liggi fyrir að sóknaraðili hafi lagt inn á innlánsreikning hjá varnaraðila af þessu tilefni 1.112.381.061 krónu en það innlán sé ekki meðal þeirra krafna sem mál þetta snúist um.

Af þessu sé ljóst að varnaraðili hafi boðið sóknaraðila að breyta skuldabréfakröfu hans í innlán að því tilskildu að sóknaraðili legði einnig fram nýtt fé inn á innlánsreikning í bankanum.  Ákvörðun aðila um að gera viðskiptin hafi verið tekin 11. nóvember og hafi verið gengið frá viðskiptunum þann dag og næsta dag þar á eftir.  Umrædd skuldabréf séu reifuð í kröfugerð varnaraðila og vísist til þeirrar reifunar.

Af gögnum málsins sé ljóst að mati varnaraðila að skuldabréfakröfurnar sem sóknar­aðili fékk greiddar með framangreindum hætti hafi ekki verið greiddar með peningum heldur hafi hver krafa verið reiknuð upp samkvæmt skilmálum viðkomandi skulda­bréfs og breytt í innlán sem skyldi vera bundið til ákveðins tíma sem hafi verið nokkru lengri en annars svaraði til gjalddaga hvers skuldabréfs auk þess sem samið hafi verið um breytingu á vöxtum.

Varnaraðili byggir riftunarkröfur sínar annars vegar á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.  Sé á því byggt að með þeim hætti sem lýst hafi verið hafi sóknaraðili fengið greiðslur bæði með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var í skilningi nefnds lagaákvæðis.  Skilyrði riftunar samkvæmt lagaákvæðinu séu því uppfyllt.

Venjulegur greiðslueyrir sé peningar.  Umrædd krafa hafi ekki verið greidd með pening­um heldur hafi henni verið breytt í innlánskröfu en að öðru leyti hafi ekkert uppgjör farið fram.

Svokölluð greiðsla á skuldabréfunum hafi ekki farið fram á gjalddaga þeirra heldur hafi verið samið um að breyta skuldabréfskröfunum í innlán löngu áður en kom að gjalddaga þeirra.  Þess vegna hafi ekki verið um það að ræða að varnaraðili hafi keypt bréfið af sóknaraðila því engin eiginleg greiðsla hafi farið fram.  Í ljósi þess verði að líta svo á að í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 hafi svokölluð greiðsla farið fram fyrr en eðlilegt var.  Skilyrði riftunar samkvæmt lagaákvæðinu sé einnig uppfyllt vegna þessa. 

Varnaraðili telur augljóst að þessi gerningur verði ekki réttlættur með því að svokölluð greiðsla hafi verið venjuleg eftir atvikum.  Mótmæli varnaraðili því sem röngu og ósönnuðu að einhvers konar venju sé hér til að dreifa sem leitt geti til þess að riftunarkrafan nái ekki fram að ganga.  Ljóst sé að tilefni viðskiptanna sé sú staðreynd að lögum hér á landi hafi verið breytt í október 2008 á þann veg að innlánskröfur á hendur lánastofnunum hafi orðið forgangskröfur til jafns við aðrar kröfur sem falli undir 112. gr. laga nr. 21/1991.

Af hálfu varnaraðila sé byggt á að engu máli skipti hvort  sóknaraðili hafi verið í góðri trú um lögmæti umræddra viðskipta þegar þau fóru fram og að hann hafi talið að eignir varnaraðila væru meiri en skuldir félagsins.  Málið snúist að mati varnaraðila ekki um það hvort viðskiptin hafi verið lögmæt heldur um það hvort sú staðreynd að varnaraðili sé ógjaldfært félag sem tekið hafi verið til slitameðferðar leiði til þess að rifta beri þessum gerningum.  Riftunarregla 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 mæli eingöngu fyrir um hlutlæg skilyrði riftunar.  Ekki sé um það deilt að umrædd viðskipti hafi átt sér stað innan síðustu 6 mánaða fyrir frestdag við slitameðferð varnaraðila.  Ekki sé áskilið í lagagreininni að viðsemjandinn þurfi að hafa haft einhverja tiltekna vitneskju um raunverulega fjárhagsstöðu skuldarans. 

Riftunarkrafa varnaraðila sé einnig sjálfstætt byggð á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991.  Sé á því byggt að með umræddum viðskiptum hafi sóknaraðili fengið trygg­ingar­réttindi fyrir kröfu sinni á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. 

Varnaraðili telur að þau viðskipti sem mál þetta snúist um hafi í reynd ekki snúist um annað en að bæta stöðu sóknaraðila gagnvart öðrum kröfuhöfum varnaraðila.  Sú sérstaka aðstaða sem skapast hafi með áðurnefndu ákvæði neyðarlaganna hafi gert varnaraðila kleift að fjármagna rekstur sinn með innlánum sem eftir lagabreytinguna höfðu betri réttindastöðu í skuldaröð en áður hafði verið.  Með því að breyta kröfu sóknaraðila úr skuldabréfskröfum í innlánskröfur hafi sóknaraðili verið færður upp fyrir aðra kröfuhafa sem annars voru með hliðstæðar kröfur á hendur varnaraðila.  Telur varnaraðili að þarna hafi sóknaraðili fengið sérstök tryggingarréttindi fyrir kröfu sem annars hafi verið ótryggð, en ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 sé einmitt sett til að tryggja réttarstöðu kröfuhafa sem annars mundu sitja eftir. 

Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 130. gr. laga nr. 21/1991.

V

Eins og fram er komið liggur fyrir að aðilar málsins gerðu með sér samkomulag um að breyta skuldbindingum varnaraðila samkvæmt skuldabréfum í eigu sóknaraðila í innlán gegn því að sóknaraðili legði varnaraðila til frekari fjármuni í formi innláns.  Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 19. júní 2009 voru þau sjónarmið viðruð að framangreind breyting á skuldabréfakröfu í innlán kynni að vera riftanleg á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og vísaði slitastjórnin til þess að lögfræðiálit sem hún hefi aflað sér væri á þá lund að breytingin væri riftanleg samkvæmt 134. gr. og eftir atvikum 137. gr. laganna.

Í bréfinu eru efni 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 137. greina laganna og sjónarmið að baki þeim rakin.  Svo segir í bréfinu að það sem raunverulega hafi átt sér stað hafi verið að skuldabréf hafi verið greitt upp fyrir gjalddaga og uppgreiðslufjárhæð verið lögð inn á innlánsreikning.  Nánar tiltekið sé það uppgreiðsla skuldabréfanna sem sé riftanleg þar sem greitt hafi verið fyrir gjalddaga samhliða því að nýr samningur hafi verið gerður um kröfuna sem veitt hafi kröfuhafanum betri réttarstöðu en hann áður hafði gagnvart öðrum kröfuhöfum. 

Með bréfi 30. júlí 2009 til sóknaraðila tilkynnti svo slitastjórn um afstöðu til kröfulýsingar sóknaraðila þar sem forgangsrétti kröfunnar var hafnað og tekið fram að líta beri á tilkynningu þessa sem yfirlýsingu um riftun umræddra ráðstafana og um lagastoð fyrir riftun væri vísað til fyrrgreinds bréfs 19. júní 2009.

Samkvæmt 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal við þingfestingu ágreiningsmáls af því tagi sem hér um ræðir gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð þar sem jafnframt komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við.  Að framkomnum gögnum sóknaraðila skal varnaraðila gefinn kostur á að leggja fram greinargerð af sinni hendi þar sem fram komi kröfur hans ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við.  Af þessu verður ráðið að með framkomnum greinargerðum aðila verði lagður grundvöllur málsins og verður ekki fallist á að varnaraðili hafi með fyrrgreindum bréfum til sóknaraðila bundið hendur sínar varðandi kröfur sínar og rök fyrir þeim.  Hins vegar er málatilbúnaður varnaraðila í samræmi við þau sjónarmið sem þar eru rakin.  Þá þykir ítarlega rökstutt í bréfi slitastjórnar til sóknaraðila hinn 19. júní 2009 með hvaða rökum slitastjórnin telur umdeilda ráðstöfun riftanlega og verður ekki á það fallist að umrædd tilkynning sé óskýr og var hún ekki til þess fallin að hamla málatilbúnaði sóknaraðila. Þá verður málatilbúnaður varnaraðila með engu móti skilinn svo að hann byggi riftunarkröfu sína á því skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu varnaraðila verulega heldur á því að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði varnaraðila verður ekki annað ráðið en að hann byggi riftunarkröfur sínar sjálfstætt á annars vegar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og hins vegar á 1. mgr. 137. gr. laganna en ekki á því að forsenda riftunar á grundvelli 134. gr. sé í reynd sú að um óheimila tryggingarráðstöfun sé að ræða sem falli undir 137. gr. laganna. 

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Ekki er deilt um að umdeild ráðstöfun fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag.  Varnar­aðili telur að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri og fyrr en eðlilegt var.  Ljóst er að þegar umdeild ráðstöfun átti sér stað dagana 11. og 12. nóvember 2008 var gjalddagi skuldabréfa þeirra sem mál þetta snýst um ekki kominn.  Þannig var gjalddagi bréfs STRB 04 1 IS0000009280 1. júní 2010, bréfs STRB 04 3 IS00009868 1. nóvember 2010, bréfs STRB 08 6 IS0000018224 13. júní 2013 og bréfs BURD 04 1 IS0000009876 1. nóvember 2010.  Var krafan samkvæmt skuldabréfunum því ógjaldfallin þegar hún var greidd og þar með var hún greidd fyrr en eðlilegt var.  Verður ekki séð að neinu breyti í þessu sambandi þótt markmið varnaraðila með þessum ráðstöfunum hafi verið að efla lausafjárstöðu sína en ekki að láta undan þrýstingi frá kröfuhöfum eða að hann hafi freistast til að ívilna sóknaraðila á kostnað annarra.  Þá þykir engu breyta þótt umrædd skuldabréf hafi mátt kaupa og selja á hvaða tíma sem er allt fram að gjalddaga þeirra.  Það sem skiptir máli var að kröfu varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum var breytt í innlán hjá varnaraðila áður en kom að gjalddaga þeirra.

Þá þykir ljóst að krafan samkvæmt umræddum skuldabréfum var í raun greidd upp því að í stað hennar eignaðist sóknaraðili inneign í formi innláns hjá varnaraðila.  Var því um að ræða greiðslu sem ekki var greidd með peningum heldur var krafan reiknuð upp samkvæmt skilmálum skuldabréfanna og breytt í innlán með öðrum kjörum en skuldabréfin höfðu.  Var því um það að ræða að krafan samkvæmt skuldabréfinu var greidd með óvenjulegum greiðslueyri.  Verður ekki séð að máli skipti hvort og þá hver hafi verið skráður framsalshafi umræddra bréfa eftir umdeild viðskipti aðila.

Að þessu virtu er fullnægt þeim skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun að skuld samkvæmt skuldabréfum þessum var greidd með óvenjulegum greiðslueyri og var sú skuld greidd fyrr en eðlilegt var.

Þá er eftir að taka afstöðu til þess hvort umrædd greiðsla hafi þrátt fyrir allt virst venjuleg eftir atvikum.  Sóknaraðili telur að setning neyðarlaganna nr. 125/2008 hinn 7. október 2008 hafi breytt forsendum fyrir fjármögnun banka og annarra fjármála­fyrirtækja.  Hafi lagasetningin raskað aðstæðum slíkra aðila til að sækja sér lánsfé með útgáfu skuldabréfa.  Þar sem innlán hafi fengið lögbundna forgangsstöðu umfram skulda­bréf hafi markaðsaðilar hlotið að bregðast við því.   Hafi frumkvæði varnaraðila með að bjóða sóknaraðila umdeild kjör því verið eðlilegur þáttur í starfsemi varnar­aðila og í raun viðskiptavenja í þeirri viðleitni að tryggja starfsemi hans.  Hefði gerningur þessi allt eins getað hafa gerst á öðrum tíma og með sama hætti.  Hafi viðskiptin því verið venjuleg eftir atvikum.  Framangreind atriði þykja ekki sýna fram á það svo ekki verði um villst að umdeild ráðstöfun hafi af þessum sökum virst venjuleg eftir atvikum, en ljóst er að ráðstöfun þessi var allt önnur en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.  Þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum að ráðstöfunin hafi þrátt fyrir allt virst venjuleg eftir atvikum og verður hann að bera hallann af því. 

Hlutverk riftunarreglna laganna um gjaldþrotaskipti er að tryggja enn frekar að markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun eigna búsins náist.  Þannig gera riftunarreglur þrotabúinu kleift að ónýta með afturvirkum hætti ráðstafanir sem gerðar hafa verið og mismuna kröfuhöfum.  Þykir ljóst að með hinni umdeildu ráðstöfun var jafnræði kröfuhafa raskað þegar skuldabréfakröfu sóknaraðila sem var almenn krafa var gerð að forgangskröfu með því að breyta henni í innlán.  Með þessu var sóknaraðila ívilnað á kostnað annarra kröfuhafa. 

Af riftunarreglu 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður ekki annað ráðið en að hún mæli eingöngu fyrir um hlutlæg skilyrði riftunar og skiptir því ekki máli hvort sóknaraðili hafi verið í góðri trú um lögmæti viðskiptanna þegar þau fóru fram og að hann hafi talið eignir varnaraðila meiri en skuldir hans.  Þá breytir engu um skilyrði riftunar samkvæmt ákvæði þessu hvort varnaraðili hafi haft frumkvæði að viðskiptum þessum eða hver tilgangur hans var með þeim viðskiptum. 

Þegar af þeim ástæðum sem nú hafa verið raktar verður riftunarkrafa varnaraðila tekin til greina með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og þykja því ekki efni til að fjalla um það hvort skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laganna séu fyrir hendi.  Að þessu virtu eru dómkröfur varnaraðila teknar til greina eins og þær eru fram settar og nánar getur í úrskurðarorði.

Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Þórarinn V. Þórarinsson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Ragnar H. Hall hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er riftun á uppgreiðslu skuldabréfa í eigu sóknaraðila, Gildis-lífeyrissjóðs, útgefnum af varnaraðila, Straumi Burðarási fjárfestinga­banka hf.,  sem hér segir:

a.  Skuldabréf í flokki STRB 04 1, Isin nr. IS0000009280, en uppgreiðslan fór fram  

11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 1.201.932.896 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

b.  Skuldabréf í flokki STRB 04 3, Isin nr. IS0000009868, en uppgreiðslan fór fram  

11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 670.643.000 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

c.  Skuldabréf í flokki STRB 08 6, Isin nr. IS0000018224, en uppgreiðslan fór fram   11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 218.047.652 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

d.  Skuldabréf í flokki BURD 04 1, Isin nr. IS0000009876, en uppgreiðslan fór fram   11. og 12. nóvember 2008 með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 134.138.400 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila, sbr. staðfestingu aðila 12. nóvember 2008.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að krafa hans að fjárhæð 2.408,732.564 krónur að meðtöldum vöxtum og verðbótum verði við slitameðferð varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.  Staðfest er að krafa sóknaraðila ásamt áföllnum vöxtum til 22. apríl 2009 hafi við slitameðferð varnaraðila stöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Málskostnaður fellur niður.