Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2017
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Íþrótt
- Sakarskipting
- Laun
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. ágúst 2017. Hún krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 11.656.117 krónur, til vara 11.341.538 krónur, að því frágengnu 11.177.667 krónur en að öðrum kosti 8.857.929 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. febrúar 2013 til 3. janúar 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur hér fyrir dómi.
I
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi slasaðist gagnáfrýjandi við skíðaiðkun á skíðasvæði aðaláfrýjanda í Böggvisstaðafjalli 2. febrúar 2013. Í málinu er ekki ágreiningur um afleiðingar slyssins heldur deila aðilar um bótaskyldu aðaláfrýjanda og eigin sök gagnáfrýjanda. Verði bótaskylda lögð á aðaláfrýjanda er og ágreiningur um við hvaða laun skuli miða í útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku.
Aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ljósmyndir sem hann kveður sér hafa borist eftir að áfrýjunarstefna var gefin út. Það séu annars vegar myndir sem teknar hafi verið og dagsettar séu sama dag og slysið varð og staðfesti þær að öryggisnet hafi þá í raun náð út fyrir alla mishæðina sem gagnáfrýjandi hafi farið fram af. Hins vegar séu myndir teknar og dagsettar daginn fyrir slysið sem sýni netið styttra. Myndirnar sýni að hin umdeilda mishæð hafi eingöngu verið milli bifreiðastæðis og skíðabrautar og til að fara þar fram af hafi þurft að stefna beint á bifreiðastæðið. Hvað sem öðru líði hefði ekki verið hætta á að fara fram af mishæðinni hefði gagnáfrýjandi farið troðna slóð sem skíðamenn noti almennt til að skíða að ökutækjum sínum. Hún hafi legið mun norðar en mishæðin.
Gagnáfrýjandi mótmælir því að ljósmyndirnar komi til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti og segir ótrúverðugt að þær komi fyrst fram fjórum og hálfu ári eftir slysið. Hvorki sé unnt að leggja til grundvallar að dagsetningar né tímasetningar á þeim séu réttar. Fyrir liggi vitnisburður tveggja óvilhallra vitna sem voru fyrst á slysstað um aðstæður þar, svo og starfsmanns aðaláfrýjanda til 20 ára sem hafi varað við aðstæðum áður en slysið varð. Gagnáfrýjandi bendir á að þær ályktanir sem aðaláfrýjandi dragi af hinum nýju gögnum og beri nú fram sem málsástæður séu í mótsögn við málatilbúnað hans til þessa. Í greinargerð sinni í héraði hafi aðaláfrýjandi áréttað þann skilning að enginn ágreiningur virtist vera um þá leið sem gagnáfrýjandi hafi farið og lýst sé í fyrirliggjandi gögnum. Á þeirri leið hafi verið hin umdeilda mishæð, sem myndast hefði fyrir tilverknað starfsmanna aðaláfrýjanda.
Hvort sem litið er til hinna nýju gagna aðaláfrýjanda eða ekki verður að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms, sem reist er á framburði vitna sem báru um mishæðina og öryggisnetið, að gagnáfrýjandi hafi slasast við fall eftir að hafa rennt sér fram af stalli sem starfsmenn aðaláfrýjanda höfðu myndað á leið þar sem búast hafi mátt við umferð skíðamanna og öryggisnet hafi ekki verið strengt nægilega langt til að loka leiðinni að stallinum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um bótaskyldu aðaláfrýjanda en einnig um skiptingu sakar.
II
Þá snýst ágreiningur aðila um hvaða árslaun skuli lögð til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku gagnáfrýjanda, en um þau er ekki tölulegur ágreiningur.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skulu árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Fallast ber á með aðaláfrýjanda að fjölbreyttur starfsferill gagnáfrýjanda komi skýrlega fram í tekjum hennar á síðustu þrem árum fyrir slysdag og gefi útreikningur í ýtrustu varakröfu því réttan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur. Verður aðaláfrýjanda því gert að greiða gagnáfrýjanda 2/3 hluta af 8.857.929 krónum eða 5.905.286 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Skíðafélag Dalvíkur, greiði gagnáfrýjanda, A, 5.905.286 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.489.700 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014 og af 5.905.286 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. marz 2017
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 30. janúar 2017, er höfðað af A, […] á hendur Skíðafélagi Dalvíkur, Brekkuseli, Dalvík. Til réttargæzlu er stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Málið var þingfest 19. maí 2016 en stefna er sögð gefin út 13. sama mánaðar.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda Skíðafélag Dalvíkur verði dæmt til að greiða stefnanda 11.656.117 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.234.550 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, af stefnufjárhæð frá þeim degi til 3. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 11.341.538 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.234.550 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, en af 11.341.538 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 11.177.667 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.234.550 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, en af 11.177.667 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautaþrautavara að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 8.857.929 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.234.550 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, af 8.857.929 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnda Skíðafélag Dalvíkur krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að sök verði skipt og/eða stefnukröfur lækkaðar. Í öllum þessum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Réttargæzlustefnda gerir engar sjálfstæðar kröfur í málinu.
Gengið var á vettvang 30. janúar 2017.
Málavextir
Hinn 2. febrúar 2013 var stefnandi á skíðum á skíðasvæði Böggvisstaðafjalls, en stefnda rekur svæðið. Óumdeilt er í málinu að stefnandi sé þaulreynd skíðakona, hafi þekkt vel til almennra aðstæðna á svæðinu og hafi á þessum tíma verið […] stefnda.
Stefnandi renndi sér hefðbundna skíðaleið er lá ofan að skíðaskála stefnda. Skömmu áður en að skálanum kom sveigði stefnandi til norðurs af leiðinni og framhjá færanlegu öryggisneti sem þar var strengt. Er óumdeilt í málinu að stefnandi hafi í framhaldinu rennt sér fram af mishæð sem þarna hafi verið og hafi myndazt við troðslu skíðasvæðisins. Stefnandi segist hafa farið fram af 1,5 metra háum stalli en stefnda segir þarna hafa verið 80 cm háa mishæð. Óumdeilt er að við þetta féll stefnandi og slasaðist. Er ekki ágreiningur um þá lýsingu í stefnu að stefnandi hafi lent harkalega á hægri hliðinni og mikið högg komið á hægri handlegg en einnig hafi höfuð hennar slegizt í jörðina og skafsár komið á andlit. Í málinu liggur matsgerð um afleiðingar slyssins, sem aflað var fyrir höfðun málsins. Er ekki sérstakur ágreiningur í málinu um niðurstöður matsmanna.
Ekki er vitað til þess að vitni hafi verið að atvikinu sjálfu. Sjúkrabifreið var kölluð til og flutti hún stefnanda á sjúkrahús.
Stefnandi byggir á því að sú leið sem hún fór sé „skíðaleið þeirra sem ekki eiga erindi inn í skíðaskálann heldur ætla að skíða beint að bílum sínum sem og þeirra sem ætla að renna sér alla leið niður á Dalvík.“ Stefnda segir stefnanda hafa orðið fyrir slysinu utan brautar, en allar troðnar brautir liggi að skíðalyftuenda og að hefðbundnum útgangi.
Þá deila aðilar um viðmiðunarlaun stefnanda, komi til þess að bótaábyrgð verði lögð á stefndu. Stefnandi telur að vegna breyttra aðstæðna sinna eigi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, svo sem síðar verður rakið, en stefnda byggir á að ákveða eigi bætur samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna.
Meðal gagna málsins er matsgerð Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar, sérfræðings í bæklunarlækningum, og Eiríks Elíss Þorlákssonar hrl., dags. 9. nóvember 2015 Matsspurningar og svör matsmanna eru sem hér segir:
Hvenær varð heilsufar [stefnanda] stöðugt eftir slysið 2. febrúar 2013?
Við mat á því hvenær heilsufar er stöðugt í skilningi skaðabótalaga er almennt miðað við það hvenær ekki er að vænta frekari bata á heilsu viðkomandi. Matið á þessu er einkum læknisfræðilegt og má hafa til hliðsjónar hvenær tilraunum til að bæta heilsu viðkomandi er lokið, s.s. með aðgerð og meðferð eftir hana, að því gefnu að meðferð hafi einhverjar breytingar á heilsufari. Í þessu máli liggur fyrir að framkvæmd var aðgerð á [stefnanda] 19. nóvember 2013. Var hún framkvæmd af Brynjólfi Jónssyni. Að teknu tilliti til eðlis þeirrar aðgerðar verður að ætla að hún hafi verið þó nokkrar vikur að jafna sig af þeirri aðgerð. Fær það ennfremur stoð í gögnum málsins. Verður talið að heilsufar hafi orðið stöðugt ári eftir slysið eða 2. febrúar 2014.
Hver var tímabundin óvinnufærni [stefnanda] að öllu leyti eða hluta á tímabilinu frá því að slysið varð og þar til heilsufar var orðið stöðugt, sbr. 2. gr. skaðabótalaga?
Í 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að bætur fyrir atvinnutjón skuli ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. [Stefnandi] var í starfi á […] auk þess að sinna fyrirtæki sínu. Hún var strax eftir slysið frá vinnu og telst upphafstími tímabundins atvinnutjóns því slysdagurinn sjálfur. Lok tímabils tímabundins atvinnutjóns er talið vera þegar batahvörf eru eða þegar viðkomandi tjónþoli getur hafið störf að nýju, eftir því hvort tímamarkið kemur á undan. Í máli þessu liggur fyrir að matsbeiðandi fór ekki til starfa áður en batahvörf urðu og eru lok tímabilsins því þegar heilsufar hennar var orðið stöðugt sem var samkvæmt framangreindu hinn 2. febrúar 2014.
Hvort og þá hversu lengi [var stefnandi] veik eftir slysið þannig að hún teljist eiga rétt til þjáningabóta, sbr. 3. gr. skaðabótalaga? Í þessu sambandi [óskast] greint á milli þess tíma sem [stefnandi] hefur annars vegar verið rúmföst og hins vegar veik án þess að vera rúmliggjandi.
Réttur til þjáningabóta ræðst af 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Segir þar efnislega að greiða skuli þjáningabætur frá þeim tíma, sem tjón varð og þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Það er þó áskilnaður um að tjónþoli hafi verið veikur í skilningi ákvæðisins, annað hvort veikur og rúmliggjandi eða veikur án þess að hafa þurft að vera rúmliggjandi. Við mat á tímabili þjáningabóta er einatt litið til þess tíma sem frá slysi líður fram að því að tjónþoli hefur störf að nýju, í svipuðu magni og fyrir slys, eða til lengri tíma, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, en þó ekki lengur en að stöðugleikapunkti. Telja verður samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að [stefnandi] hafi verið veik í skilningi ákvæðisins til stöðugleikatímapunkts, sem var ári eftir slysið. Hún var rúmliggjandi í fimm daga á FSA og telst því hafa verið rúmföst í skilningi ákvæðisins í þá daga.
Hver er varanlegur miski [stefnanda] af völdum slyssins. sbr. 4. gr. skaðabótalaga? Taka skal afstöðu til þess hvort [stefnandi] hafi hlotið aukinn miska, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.
Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við skíðaslysið þann 2. febrúar 2013 hlaut [stefnandi] fjölbrot á upphandleggshálsi hægra megin. Afleiðingar slyssins hafa valdið verulegri hreyfiskerðingu og eymslum í hægri öxl. Samkvæmt miskatöflum örorkunefndar, lið VII.A.a.3 þar sem fram kemur daglegur áreynsluverkur með hreyfiskerðingu, virkri lyftu og fráfærslu í 90° að miski teljist 10 stig. Við skoðun á matsfundi kom fram að virk framlyftugeta handleggs var 100° en eymsli komu strax við 40° fráfærslu. Varanlegur miski vegna þessa axlarástands telst því hæfilega metinn 12 stig.
Þessu til viðbótar hefur [stefnandi] eymsli frá háls- og herðasvæði. Við slysið slóst höfuð matsbeiðanda í jörðina þannig að skafsár hlutust af á andliti. Við komu á FSA slysdaginn og við fyrstu endurkomu þar þá beindist athyglin eðlilega fyrst og fremst að upphandleggsbrotum. Slysið sem slíkt var þó til þess fallið að geta valdið hálstognunareinkennum þótt eins geti, a.m.k. hluti þeirra, talist afleidd einkenni vegna axlarástands. Miklum stífleika og eymslum í hálsi og sjalvöðva hægra megin er þó lýst við skoðun á FSA þann 13. mars 2013 en þá var [stefnandi] lítið farin að fara úr fatlanum og hreyfa þannig að ekki er hægt að segja að eingöngu sé um afleidd álagsmeiðsli að ræða. Á matsfundi tengir [stefnandi] hálseymsli þó ástandi hægri upphandleggs og axlar og má búast við að þau hafi aukist með tímanum. Þess ber einnig að geta að [stefnandi] hafði einhverja fyrri sögu um eymsli í hálsi og herðum en þó ekki frá árinu 2009. Talið er þó rétt að meta henni lítils háttar miska vegna hálstognunar og telst hann hæfilega metinn 3 stig.
Varanlegur miski vegna afleiðinga skíðaslyssins þann 2. febrúar 2013 telst því hæfilega metinn í heild sinni 15 stig.
Hver er varanleg örorka [stefnanda] af völdum slyssins, sbr. 5.-7. gr. skaðabótalaga?
Í 5. gr. skaðabótalaga kemur fram að valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi tjónþoli rétt á bótum, sbr. 1. mgr. Þegar tjón vegna örorku sé metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfi við, sbr. 2. mgr. Varanleg örorka reiknast í hundraðshlutum, sbr. 3. mgr. Matið á varanlegri örorku er því persónubundið og fjárhagslegt. Við matið er m.a. litið til stöðu tjónþola fyrir slysið. Er í því sambandi litið til menntunar, aldurs, atvinnusögu og fyrra heilsufars. Þá er litið til stöðu tjónþola fyrir slysið. Er í því sambandi litið til menntunar, aldurs, atvinnusögu og fyrra heilsufars. Þá er litið til varanlegra áhrifa líkamstjónsins sem um ræðir og möguleik tjónþola við atvinnuþátttöku. Aðferðafræðin við matið er að bera saman tvær atburðarásir, þ.e. annars vegar hvernig líf tjónþola hefði orðið ef það tjónsatvik, sem verið er að meta, hefði ekki orðið, og hins vegar hvernig er líklegt að líf tjónþola verði að þeirri staðreynd fenginni að líkamstjón hefur orðið.
[Stefnandi] hefur verið metin til 15 stiga miska, sbr. fyrri umfjöllun. Hún starfaði á hjúkrunarheimili á slysdegi ásamt því að reka eigin fyrirtæki. Ljóst er að laun hennar hafa farið lækkandi frá slysdegi. Það segir þó ekki alla söguna því endurgjald fyrir vinnu hennar getur ennfremur komið fram sem hagnaður af rekstri fyrirtækjanna. Fyrir liggur að hún getur ekki sinnt öllum þeim störfum sem hún sinnti fyrir slys og er slysið því til þess fallið að valda henni tekjutapi til framtíðar, eins og þegar hefur orðið raunin, sbr. framangreint. Einnig hafa þau hjónin þurft að ráða umfram mannskap til vinnu vegna afleiðinga slyss [stefnanda]. Að virtum áverkanum, starfi [stefnanda], sem hún hyggst sinna áfram, og telja verður að hún muni gera, verður að telja að geta hennar til að starfa hafi skerst um fimmtung eða 20% og er það metin varanleg örorka.
Hvenær var fyrst tímabært að meta afleiðingar slyssins?
Fyrst var tímabært að meta afleiðingar slyssins 18 mánuðum eftir slysið en þá var komin góð reynsla á [...] hvernig [stefnanda] myndi reiða af eftir að stöðugleika var náð, skv. mati síðar, og sjúkraþjálfun lokið en þeirri meðferð lauk um mitt ár 2014.“
Auk þeirra spurninga sem hér hafa verið raktar voru matsmenn spurðir hvort stefnandi þyrfti til fyrirsjáanlegrar frambúðar að leggja út fyrir kostnaði vegna afleiðinga slyssins, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, og voru matsmenn beðnir að meta hvort stefnandi þyrfti að leita bæklunarlæknis eða stunda sjúkraþjálfun. Matsmenn svöruðu því til að stefnandi þyrfti ekki að leita bæklunarlæknis og hún hefði hætt sjúkraþjálfun í júní 2014 og hafi sjúkraþjálfari talið sig ekkert geta fyrir hana gert.
Hinn 24. september 2013 ritaði stefnandi stefndu bréf og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu vegna slyssins. Hinn 29. október sama ár hafnaði réttargæzlustefnda kröfunni, en stefnda var á slysdegi með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá réttargæzlustefndu. Stefnandi ritaði réttargæzlustefndu hinn 11. febrúar 2014 og ítrekaði sjónarmið sín en réttargæzlustefnda ítrekaði höfnun sína á skaðabótaskyldu með tölvubréfi 7. marz sama ár. Með bréfi til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, dags. 18. febrúar 2015, kvartaði stefnandi yfir synjuninni. Niðurstaða nefndarinnar, dags. 30. apríl 2015, var sú að stefnandi ætti rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefndu vegna líkamstjóns síns en bæri að bera þriðjung tjónsins sjálf vegna meðábyrgðar. Með bréfi dags. 7. maí 2015 tilkynnti réttargæzlustefnda að félagið yndi ekki niðurstöðunni.
Stefnandi krafðist bóta með bréfi 3. desember 2015.
Málástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst reisa skaðabótakröfu sína á almennu skaðabótareglunni sem og reglu um vinnuveitendaábyrgð. Stefnda, sem rekstaraðili skíðasvæðisins, beri ábyrgð á tjóni því sem stefnandi hafi hlotið hinn 2. febrúar 2013. Kveðst stefnandi telja að aðbúnaði skíðasvæðisins hafi verið áfátt vegna vangár starfsfólks stefnda. Starfsfólk stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt reglu um vinnuveitendaábyrgð.
Stefnandi segir starfsfólk stefnda hafa með snjótroðara rutt upp stalli án nokkurra merkinga. Á þeim stað þar sem stefnandi hafi farið fram af stallinum hafi ekkert verið sem bent hafi til þess að hætta væri á ferðum og engar merkingar gefið til kynna að hættulegt væri að renna sér þá leið. Öryggisnet sem sett hafi verið upp hafi ekki náð að þeim stað þar sem stefnandi hafi fallið fram af og stefnandi því eðli málsins samkvæmt ekki getað gert sér grein fyrir því að hætta væri á ferðum. Verði að meta það starfsmönnum stefnda til gáleysis að hafa ekki látið öryggisnetið ná nægilega langt í því skyni að bægja fólki frá og forða því frá hættu. Það að öryggisnet hafi verið sett upp sýni að starfsmenn hafi verið meðvitaðir um þá hættu sem hafi verið á ferðum við þessar aðstæður enda sé þarna um að ræða þekkta skíðaleið þeirra sem ætli að renna sér beint að bílastæði eða alla leið til Dalvíkur. Fallið hafi verið um einn og hálfur metri og því full ástæða til að láta öryggisnetið ná lengra norður. Leiðin hafi verið troðin og stefnandi hafi ekki verið að stytta sér leið heldur rennt sér hefðbundna leið sem fjölmargir skíðamenn í Böggvisstaðafjalli fari þegar þeir eigi ekki erindi inn í skíðaskálann á svæðinu. Hafi því ekki verið um óhefðbundna leið að ræða.
Stefnandi kveðst vera mjög vön skíðakona og gjörþekkja skíðasvæðið. Þrátt fyrir það hafi hún á engan hátt getað komið í veg fyrir slysið enda hafi aðstæður verið þannig að alls ómögulegt hafi verið að sjá stallinn áður en farið hafi verið fram af honum. Stefnandi hafi sýnt af sér alla þá aðgát sem eðlileg hafi verið miðað við aðstæður. Hún eigi þannig ekki eigin sök og þar að auki verið á lítilli ferð þegar hún hafi farið fram af stallinum enda nýkomin úr barnabrekku svæðisins og hafi hún verið komin neðst í skíðabrekkuna. Jafnvel þótt skíðafólk taki vissa áhættu með skíðaiðkun sinni verði að gera þá kröfu til rekstraraðila skíðasvæðis að skíðafólki sé ekki beinlínis stefnt í hættu. Aðstæður á skíðasvæðinu hafi verið með öllu óforsvaranlegar enda geti það, eðli málsins samkvæmt, stefnt skíðafólki í mikla hættu að hafa svo háan stall, hvorki með merkingum né öryggisneti, á troðinni og algengri skíðaleið þeirra sem renni sér að bifreið sinni eða til Dalvíkur. Beri stefndi því fulla ábyrgð á tjóni stefnanda enda sé ekki hægt að rekja tjónið til óhappatilviks.
Stefnandi kveðst árétta, að stefndi hafi ekki kallað lögreglu til, ekki tekið myndir af vettvangi, og ekki hlutazt til um hlutlausa rannsókn. Stallinum hafi þess í stað verið rutt burt. Verði stefndi að bera hallann af þeim skorti á gögnum um aðstæður þennan dag. Strax hafi verið ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir miklu tjóni og hafi staðið stefnda nær að tryggja sönnun aðstæðna á slysstað felli hann sig ekki við þær málavaxtalýsingar sem þó liggi fyrir í málinu.
Stefnandi kveðst byggja tölulega kröfu sína á skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau hafi verið á slysdegi svo og matsgerð Eiríks Elíss Þorlákssonar og Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar, en samkvæmt henni tímabil þjáningabóta verið eitt ár, þar af fimm daga rúmlega, varanlegur miski 15% og varanleg örorka 20%. Mismunandi fjárhæð stefnukrafna skýrist af mismunandi tekjuviðmiðununum við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Stefnandi segir kröfufjárhæð þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga og miskabóta samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga uppreiknaða samkvæmt 15. gr. laganna. Þessar kröfur séu samhljóða í aðal-og varakröfum og byggðar á eftirfarandi forsendum: Krafa um þjáningabætur sbr. 3. gr. skaðabótalaga nemi 672.150 krónum (3.390 x 5 + 1820 x 360), krafa um miskabætur skv. 4.gr. skaðabótalaga nemi 1.562.400 krónum (10.416.000 x 15%). Vegna kröfu um varanlega örorku, sbr. 5.-7. gr. skaðabótalaga, segir stefnandi að af þeim þremur stærðum, sem margfaldaðar séu saman til að finna út heildarkröfu stefnanda samkvæmt þessum lið, meðalatvinnutekjur, margfeldisstuðull/aldursstuðull og örorkustig, séu þær tvær síðasttöldu sömu fyrir allar kröfurnar. Aldurstuðullinn sé 8,011 enda hafi stefnandi verið 49 ára og 136 daga gömul þegar hún hafi náð stöðugleikapunkti hinn 2. febrúar 2014 og örorkustigið samkvæmt matsgerð sé 20%. Hvað meðalatvinnutekjur varði beri skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga að miða við meðalatvinnutekjur tjónþola þrjú síðust almanaksárin fyrir þann dag er tjón hafi orðið. Í tilviki stefnanda væri horft til áranna 2010, 2011 og 2012. Stefnandi kveðst hins vegar byggja á því að aðstæður sínar fyrir slysdag hafi verið svo óvenjulegar að mat á árslaunum hennar til útreiknings varanlegrar örorku geti ekki farið fram samkvæmt meginreglunni. Megin atvinnutekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slys séu ómarktækar þar sem á því tímabili hafi orðið miklar sveiflur og breytingar á tekjum og atvinnuhögum hennar. Í ljósi meginmarkmiðs skaðabótalaga, að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón hans, telji stefnandi rétt að ákvarða árslaun sín sérstaklega og að í því sambandi beri að líta til reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ákvæðið setji þrjú skilyrði fyrir því að árslaun séu ákveðin sérstaklega. Í fyrsta lagi að aðstæður hafi verið óvenjulegar, í öðru lagi að árslaun sem meginreglan sé miðuð við, geti ekki talizt réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola og í þriðja lagi að annar mælikvarði sé til staðar og réttari við mat á líklegum framtíðartekjum hans. Stefnandi kveðst halda því fram að öll þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu og sé ekki rökrétt að skýra ákvæðið þröngt.
Stefnandi kveðst hafa lokið grunnskólaprófi frá […] og stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla […] árið 1987. Eftir það hafi hún lokið brautargengisnámskeiði á […], námskeiði fyrir þá sem séu í eða hyggi á rekstur. Þessu námi hafi hún lokið árið 2008. Atvinnusaga stefnanda sé sú að hún hafi unnið í frystihúsi, verið á sjó, unnið á dvalarheimili aldraðra og við verzlunarstörf allt þar til hún hafi hafið eigin rekstur um mitt ár 2011. Reki hún nú, ásamt eiginmanni sínum, ferðaþjónustu á […] undir heitinu […] þar sem þau bjóði upp á gistingu í 78 rúmum. Auk þess reki þau kaffihús sem hafi verið opnað í ágúst 2013.
Stefnandi segir að í frumvarpi til laga um breytingar á skaðabótalögum, sbr. lög númer 37/1999, sé þess getið að launatekjur liðinna ára séu oftast góð vísbending um launatekjur komandi ára. Þetta eigi þó ekki alltaf við en þannig séu launatekjur liðinna ára ekki góður mælikvarði er breytingar hafi orðið á högum tjónþola skömmu fyrir slys eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Sé til dæmis tekið að tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Þegar horft sé til þessa sé að mati stefnanda ljóst að tekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysdag gefi ekki rétta mynd af ætluðum framtíðartekjum stefnanda þar sem hún hafi hætt störfum sem verzlunarmaður um mitt ár 2011 til þess að setja á fót ferðaþjónustu á […]. Eðli málsins samkvæmt hafi hún ekki verið með tekjur að ráði eftir að stofnað hafi verið til rekstrarins eins og skattframtöl 2012 og 2013 beri með sér. Sé með þessu augljóslega sýnt fram á að tvö fyrstnefndu skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt.
Stefnandi segir aðalkröfu sína gerða með miði af meðaltekjum við störf tengd ráðgjöf og sölu ferðaþjónustu skv. útreikningum Hagstofu Íslands fyrir árið 2011 en ekki séu til nýrri útreikningar skv. upplýsingum Hagstofunnar. Stefnandi hafi á slysdegi starfað við störf tengd ferðaþjónustu og geri enn. Viðmiðunarlaun í þeim greinum gefi því réttasta mynd af framtíðartekjum hennar. Meðal mánaðarlaun hafi á þessum tíma verið 387.000 krónur. Viðmiðunarlaunin séu framreiknuð miðað við meðallaunavísitölu 2011 til stöðugleikatímapunkts í febrúar 2014 ásamt því sem litið sé til 8% mótframlags vinnuveitanda, sbr.: 12 x 378.000 x 470,5/401,3 x 1,08 = 5. 880.394. Nemi krafa vegna varanlegrar örorku því 9.421.567 krónum, (5.880.394 x 8,011 x 20%). Höfuðstóll aðalkröfu stefnanda samanstandi af samtölu þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, 11.656.117 (672.150 + 1.562.400 + 9.421.567).
Stefnandi segir fyrstu varakröfu sína ákveðna með miði af meðaltekjum verkamanna skv. útreikningum Hagstofu Íslands fyrir árið 2013. Stefnandi hafi starfað við ýmis verkamannastörf í gegnum tíðina svo sem í frystihúsi og á sjó. Meðal mánaðarlaun hafi á þessum tíma verið 426.000 krónur. Viðmiðunarlaun séu framreiknuð miðað við meðallaunavísitölu 2013 til stöðugleikatímapunkts í febrúar 2014 ásamt því sem litið sé til 8% mótframlags vinnuveitanda sbr. 12 x 426.000 x 470,5:457 x 1,08 = 5.684.052. Krafa vegna varanlegrar örorku nemi því 9.106.988 krónum, (5.684.052 x 8,011 x 20%). Höfuðstóll fyrstu varakröfu sem samanstandi af samtölu þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku sé því 11.341.538 krónur (672.150 + 1.562.400 + 9.106.988).
Stefnandi segir aðra varakröfu sína ákveðna með miði af þeim launatekjum sem hún hafi haft árið 2010 og hálft árið 2011, það sé helming þess tíma sem meginregla 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga miði við. Árið 2010 hafi tekjur stefnanda samkvæmt staðgreiðsluyfirliti 2010 og skattframtali 2011 numið 4.097.917 krónum. Árið 2011 hafi tekjur hennar í janúar til júní, samkvæmt staðgreiðsluyfirliti 2011 nemi 2. 220.175 krónum. Uppreiknað til heils árs nemi tekjurnar 4.440.315 krónum og verði útreikningar því með eftirfarandi hætti: Launatekjur 2010 hafi verið 4.097.917 krónur en uppreiknað til stöðugleikatímapunkts 5.130.575 krónur. Launatekjur 2011 hafi verið 4.440.350 krónur en uppreiknað til stöðugleikatímapunkts 5.206.042 krónur. Meðalaárslaun nemi skv. þessu 5.168.309 krónum eða 5.581.773 krónum eftir að bætt hafi verið við 8% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Krafa vegna varanlegrar örorku nemi því 8.943.117 krónum, (5.581.773 x 8,011 x 20%). Höfuðstóll annarrar varakröfu sem samanstandi af samtölu þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku verði því 11.177.667 krónur, (672.150 + 1.562.400 + 8.943.117). Stefnandi segir þriðju varakröfu sína taka mið af meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt skattframtölum hafi launatekjur stefnanda árið 2010 numið 4.097.917 krónum en árið 2011 2.481.468 auk þess sem stefnandi hafi haft 180.000 krónur í reiknað endurgjald af eigin atvinnurekstri, og árið 2012 hafi launatekjur stefnanda numið 2.787.870 auk 180.00 króna reiknaðs endurgjalds af eigin atvinnurekstri. Útreikningar verði því með eftirfarandi hætti: Launatekjur 2010 hafi verið 4.097.917 krónur en uppreiknað til stöðugleikatímapunkts 5.130.575 krónur. Launatekjur 2011 hafi verið 2.661.468 krónur en uppreiknað til stöðugleikatímapunkts 3.123.928 krónur. Launatekjur 2012 hafi verið 2.067.870 en uppreiknað til stöðugleikatímapunkts 3.228.631 króna. Meðalárslaun nemi samkvæmt þessu 3.827.711 krónum eða 4.133.928 krónum eftir að bætt hafi verið við 8% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Krafa vegna varanlegrar örorku nemi því 6.623.397 krónum, (4.133.928 x 8,011 x 20%). Höfuðstóll þriðju varakröfu sem samanstandi af samtölu þjáningabóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku sé því 8.857.929 krónur (672.150 + 1.562.400 + 6.623.379).
Þá kveðst stefnandi krefjast vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi hvað þjáningabætur og miskabætur varði en frá stöðugleikatímapunkti hvað varanlega örorku varði. Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, mánuði eftir að bótakrafa hafi verið sett fram hinn 3. desember 2015, sbr. 9. gr. sömu laga, en á sama tíma hafi stefnda verið komið með öll þau gögn sem þurft hafi til að geta metið fjárhæð bóta.
Stefnandi kveðst vísa til almennu skaðabótareglunnar sem og reglna um vinnuveitandaábyrgð. Einnig kveðst stefnandi vísa til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum og almennra megin reglna skaðabótaréttar um fébótaábyrgð tjónvalds og rétt tjónþola til að fá allt tjón sitt bætt. Kröfur um vexti séu studdar við 16. gr. skaðabótalaga en kröfur um dráttarvexti við 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001. Vegna réttargæzlu sé vísað til 21. gr. laga nr. 91/1991 en vegna kröfu um málskostnað sé einnig vísað til sömu laga, einkum 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun sé studd við ákvæði laga nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þeim úr hendi stefnda. Vegna varnarþings sé vísað til 41. og 48. gr. laga nr. 19/1991.
Málsástæður lagarök stefnda Skíðafélags Dalvíkur
Stefnda segir í málinu gerða kröfu um greiðslu skaðabóta og sé krafan grundvölluð á sakarreglunni. Hvíli sönnunarbyrði um meinta sök stefnda, orsakatengsl, tjón og önnur skilyrði sakarreglunnar alfarið á stefnanda. Stefnda segir sýknukröfu sína á fyrsta lagi byggða á því að skilyrði sakarreglunar séu ekki uppfyllt þar sem ósannað sé að tjónsatvikið sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda eða aðila sem að stefnda beri vinnuveitendaábyrgð á. Að svo miklu leyti sem tjón stefnanda sé afleiðing hreinnar óhappatilviljunar beri stefnandi sjálf sök á tjóninu enda hafi það verið háttsemi hennar sjálfrar sem öðru fremur hefur valdið óhappinu. Stefnda beri ekki ábyrgð á tjóni hennar. Stefnda segir stefnanda vera alvana skíðakonu sem vel hafi þekkt aðstæður á skíðasvæðinu. Slysdaginn hafi veður og skyggni verið góð. Stefnda segir að hefði stefnandi ekki rennt sér of hratt og óvarlega miðað við aðstæður hefði hún átt að sjá hvernig aðstæður væru og getað forðast fallið. Hafi stefnandi talið skyggni sitt ekki nægilega gott, hafi henni verið í lófa lagið að notast við skíðagleraugu, til sporna við svonefndri snjóblindu, eða renna sér á þeim hraða sem hefði gert henni kleift að litast um eftir aðstæðum, sbr. 2. gr. reglna alþjóða skíðasambandsins. Stefnda segir að einnig sé til þess að líta að stefnandi sé ekki aðeins alvön skíðakona heldur hafi sinnt […] fyrir stefnda og verið gjörkunnug aðstæðum á skíðasvæði Böggvisstaðafjalls. Sá háttur sem hafður hafi verið á þennan dag við snjótroðslu hafi verið alvanalegur á skíðasvæðinu og aðstæður meðal annars verið með þessum hætti um tveggja mánaða skeið þegar óhappið hafi orðið. Hafi stefnandi mátt vita að sú leið sem að hún fór, hafi ekki verið ætluð umferð skíðandi fólks og að slík svæði, utan troðinna skipulagðra skíðasvæða, væru hættumeiri en önnur. Verði því að gera sérstaklega ríkar kröfur til stefnanda, sem gjörþekkt hafi svæðið og aðstæður þar til að renna sér ekki um svæði sem ekki sé sérstaklega ætlað umferð skíðandi fólks, hvað þá með svo óvarlegum hætti sem raun beri vitni. Stefnda segir að kjósi þaulvanur skíðamaður að fara út fyrir venjulega skipulagða skíðaleið verði hann að líta sérstaklega eftir aðstæðum hverju sinni. Í þeim efnum hafi öryggisnetið gefið stefnanda sérstaka ástæðu til að litast vel um og fara sér hægt en í því felist að sjálfsögðu gáleysi að renna sér rétt framhjá öryggisneti ef skíðamaðurinn sér ekki hvað fram undan er. Eigi þetta sérstaklega við þegar farið sé út fyrir skipulagða troðna skíðaleið þegar farið sé framhjá öryggisnetinu.
Stefnda segir sýknukröfu sína í öðru lagi byggða á reglum um áhættutöku, að stefnandi hafi með ákvörðun sinni að fara á skíði þennan dag og að skíða með þeim hætti sem hún hafi gert, tekið áhættu af því að slasast við þá iðkun og þannig fyrirgert rétti sínum til bóta fyrir það tjón sem að hún hafi orðið fyrir. Sé grundvallarregla íslenzks skaðabótaréttar að með þátttöku í íþróttum taki iðkendur þeirra áhættu að ýmisskonar tjóni sem orðið geti af íþróttaiðkuninni. Sé þessari grunnreglu íslenzks réttar um áhættutöku í íþróttum slegið fastri í niðurlagi XIII. kafla mannhelgisbálks Jónsbókar, þar sem segi að gangi maður til leiks, fangs eða skinndráttar að vilja sínum ábyrgist hann sig sjálfur eða öllu þó hann fái mein eða skaða af. Í þessu máli liggi fyrir að stefnandi hafi verið reynd skíðakona og þekkt vel þá áhættu sem stafi af skíðaiðkun en í slíkum tilvikum verði að gera kröfu til aðgæzlu stefnanda. Stefnandi hafi ekki verið á skíðum í umsjá á vegum stefnda heldur af eigin frumkvæði eða af fúsum og frjálsum vilja sínum. Henni hafi ennfremur ekki verið leiðbeint að renna sér þá leið sem hafi valdið falli hennar, heldur látið sig engu skipta þá aðvörun sem öryggishlið hafi gefið til kynna og rennt sér óvarlega um ótroðna leið sem greinilega komi fram á korti af skíðaleiðum að ekki hafi verið ætluð umferð skíðamanna.
Stefndi segir stefnanda vera eina til frásagnar um að hún hafi sýnt af sér nægilega aðgát þrátt fyrir að aðstæður þær, sem valdið hafi falli hennar, hafi verið augljósar og átt að blasa við þeim sem skíðaði varlega og gætilega miðað við aðstæður utan brautar. Við slíkar aðstæður sé ótækt að byggja á frásögn stefnanda einnar um það atriði, horfa framhjá áhættutöku hennar og leggja bótaábyrgð á stefnda.
Stefnda segir að í þriðja lagi sé sýknukrafa sín byggð á reglum um óhappatilvik. Óhapp stefnanda sé einfaldlega dæmigert slys sem verði við íþróttaiðkun án þess að sök á því slysi liggi hjá neinum tilteknum aðila. Ótækt sé að gera þá kröfu til rekstraraðila skíðasvæða að þau séu með öllu hættulaus eða hver einast fermetri svæðisins sé hæfur til umferðar skíðandi fólks. Utan þar til gerða merktra og troðinna skíðabrauta og skíðaleiða sé meiri hætta á slysum en annars staðar og sé ekki við stefnda að sakast í þeim efnum. Sú leið sem stefnandi hafi skíðað hafi hvorki verið troðin, merkt né ætluð umferð skíðamanna.
Stefnda kveðst sérstaklega mótmæla því að þurfa að bera hallann af meintum skorti á gögnum í málinu svo sem stefnandi byggi á. Enginn grundvallarágreiningur ríki um aðstæður á tjónsdegi eða atvikið að baki tjónsatburðinum. Þá liggi fyrir ljósmyndir af skíðabrekkunni og uppdráttur af skíðasvæði Dalvíkur með merktum leiðum og skýringum. Athugun lögreglu eða annars aðila á aðstæðum hefði engu breytt um sakarmatið sem sé grundvallaratriði málsins.
Stefnda kveðst byggja varakröfu sína á því að stefnandi eigi einnig sök á slysinu og verði því að bera tjón sitt sjálf í hlutfalli við eigin sök. Stefnda kveðst byggja þessi sjónarmið sín á hinu sama og aðalkröfu, en sök stefndu sé algjör og því beri að fella bætur niður að fullu af þeim sökum. Varakrafa stefnda sé í öðru lagi byggð á því að útreikningur stefnanda á þeim bótum sem henni beri sé rangur, sérstaklega er varði viðmiðið um árslaun stefnanda. Engar forsendur séu til annars en að leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur stefnanda samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi enga menntun sem snúi að ráðgjöf og sölu ferðaþjónustu né heldur hafi hún reynslu af rekstri ferðaþjónustufyrirtækis fyrr en stuttu fyrir slysdag. Stefnandi hafi af stefnu að dæma unnið margvísleg störf á ýmsum sviðum og liggi ekkert fyrir um að meðaltekjur af ferðaþjónustu gefi raunsannari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar, sérstaklega í ljósi þess hve hræringar og breytingar á ferðaþjónustumarkaði séu tíðar. Þá séu ekki efni til að leggja meðaltekjur verkamanna til grundvallar á útreikningi á árslaunum stefnanda. Stefnandi hafi unnið ýmiss konar störf um ævina, þar á meðal verkamannastörf, en hún hafi ekki starfað við slíkt í aðdraganda slyssins heldur við afgreiðslustörf og eigin rekstur og sé ekkert fram komið sem geri laun fyrir verkamannastörf réttara viðmið um líklegar framtíðartekjur hennar en tekjur hennar af þeim störfum. Fjölbreyttur starfsferill stefnanda endurspeglist skýrlega í tekjum hennar á síðustu þremur árum fyrir slysdag og gefi útreikningur eftir meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga því réttan mælikvarða á líklegar framtíðartekjur stefnanda en hún hafi að minnsta kosti ekki sýnt fram á að mælikvarði þessi sé rangur né sannað að þeir mælikvarðar, sem krafa hennar sé byggð á, sé réttari. Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt þar sem stefndi kveðst telja dráttarvexti ekki eiga rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögu en fyrr verði ekki ljóst hvort að stefnandi eigi nokkurra kröfu á hendur stefnda.
Stefndi kveðst einkum vísa til almennra reglna skaðabótaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 91/1991 þá kveðst stefndi vísa til skýrra reglna alþjóða skíðasambandsins.
Niðurstaða
Stefnandi, Snæþór Arnþórsson formaður stefnda, Bjarni Th. Bjarnason, Jóhann Hafþór Arnarson og Einar V. Hjörleifsson starfsmaður stefnda gáfu skýrslu í málinu.
Óumdeilt er í málinu að stefnandi slasaðist við fall er hún hlaut við lendingu eftir að hafa rennt sér fram af mishæð, stalli, skammt frá skíðaskála stefnda við skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli. Í stefnu segir stefnandi að starfsmenn/troðaramenn stefnda hafi rutt upp stallinum. Í greinargerð sinni segir stefnda um mishæðina: „Mishæðin sem um ræðir varð til við troðslu skíðasvæðisins og frágang á aðkomu að skíðaskálanum. Alvanalegt er að slíkar mishæðir myndist við troðslu skíðasvæða, en mishæðinni sem um ræðir var komið fyrir til að koma í veg fyrir að umferð bíla og vélsleða næði að skíðasvæðinu. Gagngert var gætt að því að mishæðin myndaðist ekki á eða nálægt þeirri leið sem ætlast var til að skíðafólk færi að skíðaskálanum, heldur myndaðist hún á bak við skíðaskálann þar sem ekki var ætlast til að umferð fólks færi. Fyrir mishæðina hafði verið sett öryggisnet, til að vara skíðafólk við því að leiðin sem um ræðir væri ekki ætluð umferð skíðandi fólks, enda náði öryggisnetið út fyrir troðna leið.“ Samkvæmt þessu verður miðað við það í málinu að starfsmenn stefnda eða menn á hans vegum hafi rutt upp mishæðinni sem stefnandi rann fram af.
Aðilar deila um hæð mishæðarinnar, stefnandi segir hana hafa verið hálfan annan metra en stefnda segir hana hafa verið 80 cm. Engar myndir liggja fyrir af henni og engin óháð rannsókn fór fram á aðstæðum á slysdegi. Þegar horft er til þess að slysið verður þegar rennt er fram af mishæð sem starfsmenn stefnda hafa rutt upp á þeim stað sem um ræðir og hin slasaða er flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús, verður stefnda að bera halla af slíkum sönnunarskorti um aðstæður. Fyrir dómi lýsti vitnið Bjarni Th. Bjarnason, þaulvanur skíðamaður, því að það hefði farið á slysstað, skömmu eftir atvikið og séð greinilega hvar stefnandi hefði farið fram af stallinum og hvar hún hefði lent. Kvaðst vitnið telja hæðina hafa verið um hálfan annan metra. Vitnið Jóhann Hafþór Arnarson sagði hæð stallsins hafa verið „kannski meter eða eitthvað svoleiðis“. Vitnið Einar V. Hjörleifsson, starfsmaður stefnda, kvaðst ekki muna eftir hæð stallsins þennan dag, en sagði telja að „Þessi bakki [hefði] aldrei verið held ég meira en hérna 80 centimetrar eða eitthvað svoleiðis. En hvernig nákvæmlega þetta var, það bara get ég ekki sagt til um.“ Að öllu samanlögðu en einkum vegna skýrs vitnisburðar Bjarna Th. Bjarnasonar, telur dómurinn að leggja megi til grundvallar, að hæðin hafi verið um hálfur annar metri, en eins og áður segir verður stefnda að bera hallann af því að ekki hafi verið aflað gagna á vettvangi.
Fyrir dómi sagði Snæþór Arnþórsson formaður stefnda að leið sú, er stefnandi var komin á og slysið varð á, „gæti mögulega hafa verið troðin“ en hann sagðist ekki vita „nákvæmlega hvernig þetta leit út þennan dag.“ Almennt væri þessi leið ekki hugsuð „sem skíðaleið innan svæðisins.“ Þó væri þekkt að hún væri farin af og til. Troðarinn gæti ekki snúið við á skíðabrautinni sjálfri „þannig að hann verður alltaf að fara út af svæðinu til þess að snúa við.“
Er stefnandi fór út af hinni hefðbundnu skíðabraut fór hún til norðurs. Spurður fyrir dómi hvort önnur hjáleið væri þekkt á þessu svæði, sagði Snæþór Arnþórsson að „það [væri] náttúrulega líka oft troðið, eða sem sagt myndast svona svipuð leið sunnan við húsið þar sem að troðarinn fer niður og snýr við.“ Sú leið lægi „svipað, bara svona niður fyrir og oft stendur troðarinn einmitt þar, þegar hann er ekki í notkun.“ Fyrir kæmi að fólk renndi sér þá leið.
Vitnið Bjarni Th. Bjarnason kvaðst hafa verið mikið í fjallinu og verið þar með börn og unglinga við æfingar, en vitnið væri menntaður skíðaþjálfari. Vitnið var spurt hvort sú leið, sem stefnandi fór, væri notuð til þess að renna sér að bifreiðastæðunum eða niður á Dalvík og svaraði vitnið: „Já já, það er oft, oft gert, sérstaklega þegar það eru stórir dagar, mikið af fólki í fjallinu, mikið af bílum á bílastæðunum, að þá troða þeir oft þessa leið þarna niður eftir til þess að svona bæta líklega þá aðgengi að bílastæðunum. Gott að renna sér þarna niður með veginum.“ Vitnið sagðist telja algengt að staðkunnugir nýttu sér þessa leið og hefði vitnið sjálft gert það nokkurum sinnum. Nánar spurt sagði vitnið að þegar fjölmennt væri á svæðinu væri „oft troðin þessi leið bara til þess að bæta aðgengi fólks að bílastæðunum, þá getur það farið þarna niður með, norðan við í rauninni bílastæðin og labbað þaðan, tekið af sér skíðin og labbað þaðan stuttan spöl að bílunum“.
Vitnið Einar V. Hjörleifsson, starfsmaður stefnda, var spurt hvort starfsmenn stefnda þekktu til þess að leið þessi væri nýtt til að renna sér að bílastæði eða niður á Dalvík, og svaraði: „Sko, hérna sitt hvoru megin við brekku, það er yfirleitt bara opið niður og þetta er jafn mismunandi eins og, eins og veðrið liggur við, [...] ef að aðstæður leyfa þá rennir fólk sér bara hérna, já að bílastæði og niður og út um allt þannig lagað.“ Vitnið var spurt um skilti á staðnum sem sýndi skíðaleiðir og sagði það ekki tæmandi heldur gefa „ákveðnar vísbendingar“. Allt færi þetta eftir snjóalögum hverju sinni og veðri. Vitnið kvaðst hafa verið á skíðasvæðinu þennan dag, en ekki við störf. Það kvaðst hafa komið að máli við starfsmann stefnda á staðnum um morguninn og vakið athygli á því að öryggisnet, sem sett hefði verið upp, næði ekki nógu langt. Nánar spurt um ástæður þeirrar ábendingar sinnar sagðist vitnið hafa haft í huga aðstæður eins og þær sem stefnandi hefði svo lent í.
Þegar á framanritað er horft verður að miða við það í málinu að nokkuð algengt hafi verið að skíðamenn hafi tekið þann kost að renna sér til hliðar við skíðaskálann, með þeim hætti sem stefnandi gerði umrætt sinn, ekki sízt þegar fjölmennt var í fjallinu. Þótt ekki verði fullyrt hversu algengt þetta hafi verið hafi stefnda hlotið að vera ljóst að þetta gerðu skíðamenn af og til. Í stefnu segir að fjölmennt hafi verið á skíðasvæðinu þennan dag en þar hafi meðal annars farið fram bikarmót Skíðasambands Íslands í unglingaflokki. Veður hafi verið gott og skíðafæri einnig. Þessu hefur ekki verið mótmælt og verður miðað við þetta.
Samkvæmt öllu framanrituðu verður miða við í málinu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sínu við fall eftir að hafa rennt sér fram af stalli, sem starfsmenn stefnda höfðu myndað og það hafi gerzt á leið þar sem stefnda vissi að búast mátti við umferð skíðamanna. Öryggisnet sem sett hafði verið náði ekki nægilega langt til að loka leiðinni að mishæðinni. Verður að telja ljóst að af mishæðinni hafi verið augljós slysahætta og verði að virða starfsmönnum, sem stefnda beri vinnuveitandaábyrgð á, til gáleysis að hafa skapað þá slysahættu. Eru augljós tengsl milli þeirrar hættu sem þannig var sköpuð og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Þótt viss áhætta fylgi skíðaiðkun hefur stefnandi ekki með því að ákveða að fara á skíði umrætt sinn, eða með því að fara þá leið sem hún fór, leyst stefnda undan ábyrgð á þeirri hættu sem starfsmenn hans sköpuðu. Verður að telja stefnda skaðabótaskylt vegna tjóns stefnanda á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar. Á hinn bóginn verður jafnan að ætlast til þess af skíðamanni að hann fylgist með því sem fram undan er og sé fær um að bregðast við hindrunum eða torfærum um leið og þær verða sýnilegar. Slysið varð er stefnda hafði sveigt út af hefðbundinni skíðaleið og fór aðra leið og ætlaði að bílastæðum. Gerir það aukna kröfu um aðgát hennar. Með hliðsjón af því þykir verða að ákveða að stefnandi beri tjón sitt að þriðjungi sjálf.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar bóta teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Þótt launatekjur síðustu ára fyrir slys séu iðulega góð vísbending um þær tekjur sem vænta hefði mátt eftir slys er það ekki algilt. Launatekjur liðinna ára eru síðri mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys varð eða þegar víst má telja að slíkar breytingar hafi staðið fyrir dyrum, svo sem þegar tjónþoli hefur skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Í slíkum tilvikum er eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður. Í máli þessu liggur fyrir að nokkuru fyrir slys söðlaði stefnandi um og hóf rekstur ferðaþjónustufyrirtækis með manni sínum. Hafa þau rekið það síðan og reka umfangsmikla gistiaðstöðu auk kaffihúss á […]. Eins og á stendur þykja launatekjur stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slys því ekki gefa rétta mynd af þeim tekjum sem stefnandi mátti vænta á komandi árum heldur þykja meðaltekjur við störf tengd ráðgjöf og sölu ferðaþjónustu réttari mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda. Eru uppi óvenjulegar aðstæður sem felast í hinum breytta starfsvettvangi stefnanda og eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að miða við annan mælikvarða en 1. mgr. 7. gr. kveður á um. Verður aðalkrafa stefnanda að þessu leyti tekin til greina.
Með vísan til alls framanritaðs verður aðalkrafa stefnanda í málinu tekin til greina en þó þannig að stefnandi beri þriðjung tjóns síns. Ekki þykja efni til annars en að dæma vexti svo sem krafa er gerð um og því verður hafnað kröfu stefnda um að vextir ákveðist frá dómsuppsögu. Verður stefnda Skíðafélagi Dalvíkur samkvæmt þessu gert að greiða stefnanda 7.770.744 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.489.700 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, en af 7.770.744 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, af 7.770.744 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.500.000 króna þóknun lögmanns stefnanda, Björgvins Þórðarsonar hrl., en virðisaukaskattur er ekki innifalinn. Stefndu verður gert að greiða 1.500.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð. Af hálfu stefndu fór Heiðar Örn Stefánsson hrl. með málið. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefnda, Skíðafélag Dalvíkur, greiði stefnanda, A, 7.770.740 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.489.700 krónum frá 2. febrúar 2013 til 2. febrúar 2014, en af 7.770.744 krónum frá þeim degi til 3. janúar 2016, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna, af 7.770.744 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.500.000 þóknun lögmanns hennar, Björgvins Þórðarsonar hrl.
Stefnda greiði 1.500.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.