Hæstiréttur íslands

Mál nr. 557/2007


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Rannsókn
  • Útivist
  • Sératkvæði


         

Miðvikudaginn 23. apríl 2008.

Nr. 557/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Óskari Valgarðssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Rannsókn. Útivist. Sératkvæði.

Ó var ákærður fyrir ölvunarakstur en mætti ekki til þingfestingar málsins í héraði. Farið var með málið í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 og það dómtekið. Ó var síðan sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar og ökuleyfissviptingar í eitt ár. Ákæruvaldið áfrýjaði málinu og krafðist lengingar á sviptingu ökuleyfisins. Ó krafðist staðfestingar héraðsdóms og reisti málsvörn sína á því að ekki hefði verið rétt að leggja dóm á málið á grundvelli 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991, þar sem rannsókn málsins hefði verið ábótavant, en ekki hefði verið tekin af honum lögregluskýrsla þar sem veittar höfðu verið upplýsingar um kæruefnið, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sakarefni málsins hefði verið einfalt og ekki talið að vanhöld hefðu verið á rannsókn lögreglu þannig að það gæti varðað frávísun þess. Skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 120. gr. sömu laga, voru talin vera fyrir hendi og því heimilt leggja dóm á málið án þess að Ó sækti þing. Ökuleyfissvipting Ó var lengd í tvö ár í samræmi við lögbundin lágmarksviðurlög samkvæmt 5. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar vínandamagn í blóði ökumanns er yfir 2‰.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu af hálfu ákæruvaldsins til Hæstaréttar 10. september 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að ökuleyfissvipting ákærða verði lengd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Krafa ákærða er byggð á því að ekki hafi verið tekin af honum lögregluskýrsla fyrir útgáfu ákæru þar sem honum hafi verið veittar upplýsingar um kæruefni, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hafi hann því átt erfitt með að átta sig á ákæru málsins og þýðingu þess að sagt var að alkóhól í blóði hans hafi mælst 2,22‰. Hefði það verið útskýrt fyrir honum hefði hann óskað eftir nýrri alkóhólrannsókn á blóðsýninu en hann telur að fyrri rannsókn fái ekki staðist. Þegar litið sé til þess hvernig lögregla hagaði rannsókn málsins hafi verið óeðlilegt að leggja á málið dóm með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt lögregluskýrslu 5. mars 2007 var ákærði stöðvaður á Akureyri aðfararnótt 3. mars 2007 við akstur á bifreiðinni RU 263. Í skýrslunni kemur fram að ákærði, sem var ökumaður bifreiðarinnar, hafi verið mjög reikull í spori og undir greinilegum ölvunaráhrifum þegar hann steig út úr henni. Ákærði var þá látinn gefa öndunarpróf í S-D2 mæli sem sýndi 2.10‰. Hann var síðan handtekinn og honum gerð grein fyrir réttarstöðu sinni. Í skýrslunni kemur fram að alls óvíst sé hvort ákærði hafi skilið leiðbeiningar um réttarstöðu sína sökum ölvunar. Þá er einnig skráð í skýrsluna að tilgangslaust virtist að kynna ákærða upplýsingablað um réttarstöðu handtekinna manna. Var honum að endingu gerð grein fyrir réttarstöðu sinni munnlega. Læknir tók blóðsýni úr ákærða klukkan 05:35 og mældist alkóhól í blóði hans 2,22‰. Tilraun varð gerð til að taka lögregluskýrslu af ákærða klukkan 05.43. Í lok skýrslunnar var skráð: „Ökumaður var áberandi ölvaður og var búinn að gleyma því er sagt var við hann nokkrum mínútum áður.“ Að skýrslutöku lokinni var honum sleppt. Hann var ekki boðaður síðar til skýrslugjafar um málið hjá lögreglu.

Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 mat lögreglustjórinn á Akureyri það svo, þegar hann gaf út ákæru í málinu 23. mars 2007, að rannsókn þess hjá lögreglu væri lokið og hún nægði til að taka ákvörðun um saksókn. Sakarefni málsins er einfalt og verða ekki talin þau vanhöld á rannsókn lögreglu að varðað geti frávísun þess, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 213/1998 frá 4. júní 1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 2286.

Ákærða var í samræmi við 120. gr. laga nr. 19/1991 birt fyrirkall 5. maí 2007 þar sem greinir stað og stund þingfestingar ásamt áskorun til hans um að sækja þing. Þar er þess einnig skilmerkilega getið að fjarvist ákærða kunni að verða metin til jafns við það að hann viðurkenni brotið og að dómur kynni að ganga um málið þótt hann myndi ekki sækja þing, auk þess að heimildir til áfrýjunar slíks dóms væru takmarkaðar, sbr. 150. gr. laga nr. 19/1991.

Í greinargerð ákærða kemur fram að hann hafi, þegar honum var birt fyrirkall, ákveðið að mæta ekki enda hafi hann kannast við að hafa ekið undir áhrifum áfengis eins og lýst hafi verið í ákæru.

Þar sem ákærða hafði verið löglega birt fyrirkall og veittar leiðbeiningar um réttaráhrif þess sækti hann ekki þing og ætluð brot hans vörðuðu ekki þyngri viðurlögum en sekt og sviptingu réttinda voru öll skilyrði a. liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt til þess að leggja dóm á málið svo sem héraðsdómari gerði. Eins og málið var vaxið og í ljósi þeirra laga sem á reyndi valt niðurstaða þess um sakfellingu og refsiákvörðun á alkóhólmagni í blóði ákærða er hann var tekinn ölvaður við akstur. Það var á áhættu ákærða að ákveða að sækja ekki þing, en hefði hann gert það hefði honum gefist kostur á krefjast nýrrar alkóhólrannsóknar á því blóðsýni sem úr honum var dregið 3. mars 2007, færa fram varnir og gæta hagsmuna sinna.

Ákvæði héraðsdóms um sektarrefsingu ákærða er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og stendur það því óraskað. Ákærði verður sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu héraðsdóms samkvæmt þeim lögbundnu lágmarksviðurlögum sem lögð eru við því þegar vínandamagn í blóði stjórnanda ökutækis reynist yfir 2‰, sbr. 5. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 5. mgr. 102. gr. umferðarlaga og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir  Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um sektarrefsingu ákærða, Óskars Valgarðssonar, skal vera óraskað.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu héraðsdóms 29. maí 2007.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í atkvæði meiri hluta dómara má ráða af skýrslu lögreglu er ákærði var handtekinn að hann hafi vegna ölvunar hvorki skilið hvert var tilefni handtökunnar né hver réttarstaða hans var. Í framburðarskýrslu sem af honum var tekin um klukkustund eftir handtöku var skráð: „Ökumaður var áberandi ölvaður og var búinn að gleyma því er sagt var við hann nokkrum mínútum áður.“ Hann var ekki boðaður til skýrslutöku á ný.

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er skylt að gefa sakborningi upplýsingar um kæruefni áður en hann er yfirheyrður út af því eða við handtöku ef til hennar kemur. Fyrir liggur að þetta var reynt þegar ákærði var handtekinn en upplýsingarnar náðu ekki til vitundar ákærða vegna ölvunar hans. Samkvæmt lögum nr. 19/1991 er ekki skylt að taka skýrslu af sökuðum manni áður en ákvörðun er tekin um saksókn gegn honum. Er þannig ekkert því til fyrirstöðu að maður sé sóttur til sakar, þó að engin slík skýrsla hafi verið tekin, ef ákærandi telur rannsókn fullnægjandi til að ákveða megi saksókn, sbr. 67. gr. og 112. gr. laganna. Hér er til úrlausnar hvort unnt sé að beita heimild 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 til að dæma mál að ákærða fjarstöddum, þegar engin skýrsla hefur verið tekin af honum um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

Það er meginregla laga nr. 19/1991 að ákærður maður skuli koma fyrir dóm, áður en dómur verði á mál lagður, sbr. 1. mgr. 123. gr. laganna. Þá er kveðið svo á í 1. mgr. 48. gr. að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Frá reglu 1. mgr. 123. gr. er vikið í 1. mgr. 126. gr. þegar tilgreind skilyrði eru uppfyllt. Að mínum dómi verður að túlka þessa undantekningarreglu þröngt á þann veg að það sé skilyrði fyrir beitingu hennar, að tekin hafi verið að minnsta kosti lögregluskýrsla af ákærða, þar sem leitað er afstöðu hans til sakargifta, hvort sem hann hefur kosið að veita efnisleg svör eða ekki. Að öðrum kosti yrði ákærði dæmdur án þess að ætlað brot hafi nokkurn tíma verið borið undir hann með formlegum hætti hjá lögreglu eða fyrir dómi. Skýrsla sú sem tekin var af ákærða stuttu eftir handtöku og getið er að framan, telst ekki að mínum dómi uppfylla þá kröfu að geta talist framburðarskýrsla hans, þar sem ljóst er af því sem skráð var að ákærði skildi ekki það sem undir hann var borið.

Samkvæmt framansögðu tel ég að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. maí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 7. maí 2007 sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, útgefinni þann 23. mars sl., á hendur Óskari Valgarðssyni, [kt.], Einholti 12a, Akureyri;

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. mars 2007, ekið bifreiðinni RU-263 undir áhrifum áfengis (2,22‰) norður Laufásgötu á Akureyri, uns lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 48, 1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44, 1993, sbr. lög nr. 84, 2004.“

Fyrirkall í málinu var gefið út 28. mars. sl., og birt ákærða 5. maí sl.  Við þingfestingu málsins þann 7. maí sl. sótti ákærði ekki þing og var málið dómtekið að kröfu sækjanda með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Þykir mega jafna útivist ákærða til játningar hans, sbr. téða lagagrein, enda fer sú niðurstaða eigi í bága við gögn málsins.  Telst sök ákærða því nægjanlega sönnuð og varðar brot hans við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.  Þykir refsing ákærða hæfilega áveðin kr. 130.000- í sekt í ríkissjóð og komi 10 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.

Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga ber að svipta ákærða ökurétti í 1 ár frá birtingu dómsins.

Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins nemur kostnaður af rekstri málsins kr. 28.287-, sem er kostnaður af töku blóðsýnis og rannsóknar þess.  Ber að dæma ákærða til greiðslu þeirrar fjárhæðar í sakarkostnað.

Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Óskar Valgarðsson greiði kr. 130.000- í sekt til ríkissjóðs og komi 10 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins.  Ákærði greiði kr. 28.287- í sakarkostnað.