Hæstiréttur íslands
Mál nr. 414/2002
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
- Trúnaðarskylda
- Orlof
|
|
Fimmtudaginn 30. janúar 2003. |
|
Nr. 414/2002. |
Ráðningarþjónustan ehf. (Jón Magnússon hrl.) gegn Kristínu Elínborgu Sigurðardóttur (Örn Clausen hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn. Trúnaðarskylda. Orlof.
K var sagt upp starfi sínu hjá R ehf. með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfi var tekið fram að ekki væri óskað eftir starfsframlagi K í uppsagnarfresti, en laun yrðu greidd út uppsagnarfrestinn. Var jafnframt tekið fram að R ehf. áskildi sér rétt til að „kalla [K] til starfa ef þörf þykir með 24 tíma fyrirvara á meðan á uppsagnarfresti stendur“. K leitaði eftir liðsinni stéttarfélags síns sem ritaði lögmanni R ehf. bréf þar sem því var hafnað að heimilt væri að gera fyrirvara um hugsanlegt starfsframlag K fyrst ekki væri farið fram á starfsframlag hennar á uppsagnarfresti. Fór svo að K fékk greidd laun fyrir þá daga sem eftir voru af mánuðinum er henni var sagt upp en ekki á uppsagnarfresti. Í máli sem K höfðaði gegn R ehf. af þessum sökum kemur fram að yfirlýsingin í bréfi stéttarfélags K fái ekki staðist. Á hinn bóginn hafi R ehf. ekki gert athugasemd við þessa afstöðu og ekki látið reyna á hvort við hana yrði staðið með því að boða hana til vinnu. Var því hafnað að áðurnefnd yfirlýsing í bréfi stéttarfélags K til lögmanns R ehf. fæli í sér riftun og R ehf. með því losnað undan skyldu til að greiða K laun í uppsagnarfresti. Var R ehf. því gert að greiða K sem svaraði þriggja mánaða launum. Þá fann Hæstiréttur að því að R ehf. hefði lagt fram á annað hundrað tölvuútskriftir af bréfaskriftum K og Á, sem hefðu snúist um persónuleg málefni viðkomandi bréfritara og ekki snert deiluefni málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2002 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila er sprottinn af starfslokum stefndu hjá áfrýjanda, þar sem hún starfaði frá 16. ágúst 2000 til 14. maí 2001. Þann dag barst henni uppsagnarbréf frá lögmanni áfrýjanda í héraði, þar sem tekið var fram að í samræmi við ráðningarsamning væri uppsagnarfrestur hennar þrír mánuðir miðað við mánaðamót. Að svo komnu væri ekki óskað eftir starfsframlagi stefndu í uppsagnarfresti, en laun yrðu greidd til 31. ágúst 2001. Sagði jafnframt að áfrýjandi áskildi sér engu að síður rétt til að „kalla þig til starfa ef þörf þykir með 24 tíma fyrirvara á meðan á uppsagnarfresti stendur.“ Sama dag og stefndu barst bréfið leitaði hún eftir liðsinni stéttarfélags síns, Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, sem ritaði lögmanninum bréf 18. maí 2001. Í bréfinu sagði meðal annars: „Þar sem ekki er farið fram á starfsframlag í uppsagnarfresti lítur félagið svo á að ekki sé heimilt að gera fyrirvara um hugsanlegt starfsframlag og hafnar því hér með.“ Málavextir eru nánar raktir í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Svo sem fram er komið lýsti áfrýjandi því yfir að hann myndi greiða stefndu laun út uppsagnarfrestinn og var honum heimilt að ákveða að hún skyldi ekki skila vinnuframlagi af sinni hálfu á þeim tíma. Varð stefnda jafnframt að sæta því að verða hugsanlega kölluð til starfa á sama tíma og fékk yfirlýsing um hið gagnstæða í bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur ekki staðist. Áfrýjandi gerði þó enga athugasemd við þessa afstöðu stefndu og stéttarfélags hennar og lét ekki reyna á hvort við hana yrði staðið með því að boða hana til vinnu. Að auki greiddi hann stefndu laun fyrir allan maímánuð 2001, en ekki aðeins til 18. dags þess mánaðar, sem hefði þó mátt vænta í ljósi þeirrar afstöðu hans í málinu að stéttarfélagið hafi fyrir hönd stefndu einhliða rift vinnusamningi aðilanna með framangreindri yfirlýsingu. Áfrýjandi greiddi stefndu hins vegar ekki laun fyrir júnímánuð 2001. Fyrirspurn hennar um launin 3. júlí svaraði hann 6. sama mánaðar með því einu að vísa á lögmann sinn, sem hafi fengið afrit bréfs stefndu. Innheimtubréfi lögmanns stefndu 10. júlí 2001 var ekki svarað og höfðaði stefnda mál með stefnu 19. sama mánaðar til heimtu launanna. Lagði áfrýjandi fram greinargerð sína í héraði 16. október sama árs. Er ekkert fram komið um að hann hafi fyrr en þá kynnt stefndu afstöðu sína þess efnis að með bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hafi vinnusamningi málsaðila verið rift og hann þar með losnað undan skyldu til að greiða stefndu laun í uppsagnarfresti. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður ekki á það fallist að áfrýjandi geti borið fyrir sig að áðurnefnd yfirlýsing í bréfi stéttarfélagsins eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að taka beri kröfur hans til greina.
Meðal málsgagna er yfirlýsing Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 22. maí 2002 þess efnis að engin iðgjöld eða félagsgjöld hafi verið greidd vegna stefndu í júní, júlí og ágúst 2001 og fyrir Hæstarétti var lýst yfir af hennar hálfu að hún hafi engra tekna aflað við önnur störf á því tímabili. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þar á meðal um aðfinnslur varðandi gagnaöflun áfrýjanda í héraði.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ráðningarþjónustan ehf., greiði stefndu, Kristínu Elínborgu Sigurðardóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2002.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 22. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristínu Elínborgu Sigurðardóttur, kt. 300461-2049, Sogavegi 123, Reykjavík, með stefnu, birtri 30. ágúst 2001, og framhaldsstefnu, þingfestri 17. desember 2001, á hendur Ráðningarþjónustunni ehf., kt. 571298-2289, Háaleitisbraut 58-60, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda í aðalsök og framhaldssök eru þær, að stefnda verði gert að greiða kr. 795.994 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 169.950 frá 01.07. 2001 til 15.07. 2001, af kr. 180.147 frá þeim degi til 01.08. s.á., af kr. 350.097 frá þeim degi til 15.08. s.á., af kr. 362.097 frá þeim degi til 01.09. s.á., og af kr. 795.994 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 01.07.2002 af kr. 180.147, og af kr. 615.847 þann 01.08. 2002, og síðan árlega á hverjum gjalddaga. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti og höfð hliðsjón af málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda í aðalsök og framhaldssök eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu, samkvæmt málskostnaðaryfirliti. Þá er þess krafizt, að málskostnaðurinn beri dráttarvexti frá og með 15. degi frá uppkvaðningu. Til vara krefst stefndi lækkunar dómkröfu.
II.
Málavextir:
Með ráðningarsamningi, dags. 11.10. 2000, var stefnandi ráðin til starfa sem ráðningarfulltrúi hjá stefnda. Hóf hún störf 16.8. 2000, og tók ráðningarsamningurinn þá gildi. Umsamin byrjunarlaun stefnanda voru kr. 150.000 fyrir dagvinnu, en höfðu hækkað í kr. 169.950 vorið 2001 og voru kr. 169.950 fyrir júní 2001. Auk þess skyldi stefnandi fá bónus, 10% af sölu.
Með bréfi dags. 14.05. 2001 sagði stefndi stefnanda upp störfum frá og með 31. sama mánaðar, og var uppsagnarfrestur þar tilgreindur 3 mánuðir. Þar kom fram, að ráðgert yrði að síðasti starfsdagur stefnanda hjá félaginu yrði 31. ágúst 2001. Ekki var óskað eftir starfsframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, en tekið fram, að stefndi áskildi sér rétt til að kalla hana til starfa eftir þörfum með 24 tíma fyrirvara, meðan á uppsagnarfresti stæði. Í uppsagnarbréfinu var gerð sú krafa, að stefnandi tæki orlof sitt í uppsagnarfresti, þ.e. í ágúst 2001. Stefnandi hafnaði þeim skilningi stefnda, að hann gæti hafnað starfsframlagi hennar en jafnframt gert fyrirvara um starfsframlag. Þá hafnaði hún kröfu stefnda um að hún tæki orlof sitt út í uppsagnarfresti.
Laun stefnanda voru greidd eftir á. Laun júnímánaðar voru ekki greidd þrátt fyrir kröfu stefnanda þar um, og var stefnanda bent á, með bréfi stefnda, dags. 06.07. 2001, að snúa sér til lögmanns stefnda, sem hefði tekið að sér að ganga frá viðskilnaði stefnanda við stefnda.
Stefndi kveður stefnanda hafa haft mikil tölvusamskipti við fyrrverandi starfsmann stefnda, sem hafði hafið rekstur ráðningarþjónustunnar Ísgen ehf. í samkeppni við stefnda. Stefndi kveður að í ljós hafi komið, að Ísgen ehf. hafi m.a. haft samband við aðila, sem skömmu áður höfðu leitað til stefnda um þjónustu, og boðið þeim þjónustu sína, og hafi stefnda þótt sýnt, að upplýsingar hefðu borizt frá skrifstofu stefnda til Ísgen ehf. Af þeim sökum hafi framkvæmdastjóri stefnda boðið stefnanda að ljúka vinnuréttarsambandi þeirra með starfslokasamningi, en stefnandi hafi hafnað því. Því hafi stefnda verið nauðugur einn kostur að segja stefnanda upp störfum.
Þar sem stefnandi hefði hafnað því að leggja fram starfsframlag í uppsagnarfresti, með bréfi dags. 18. maí 2001, hafi stefndi litið svo á, að stefnandi hefði rift ráðningarsamningnum og ekki átt heimtu á frekari launum.
Ágreiningur aðila í aðalsök og framhaldssök snýst um launakröfu stefnanda vegna uppsagnarfrests í þrjá mánuði, auk orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar, en ekki er tölulegur ágreiningur.
III.
Málsástæður stefnanda í aðalsök og framhaldssök:
Stefnandi kveður umsamin mánaðarlaun sín hafa verið kr. 169.950. Við þá fjárhæð bætist 6% framlag stefnda í lífeyrissjóð stefnanda fyrir júní 2001, kr. 10.197. Stefnufjárhæð í aðalsök sé samtala þessara tveggja fjárhæða. Gerð sé krafa um dráttarvexti af kr. 169.950 frá 01.07. 2001 en af kr. 10.197 frá 15.07. 2001.
Í framhaldssök sé byggt á sömu málsástæðum, málavöxtum og lagarökum og í aðalsök. Kröfur í framhaldssök byggist á því, að uppsagnarfrestur stefnanda sé þrír mánuðir samkvæmt kjarasamningi VR, en í upphaflegri stefnu sé einungis krafið um bætur vegna eins mánaðar af þremur í uppsagnarfresti, þar sem uppsagnarfrestur hafi ekki verið liðinn, er stefna var gefin út.
Til viðbótar við kröfur í aðalsök sé í framhaldssök krafið um bætur, sem nemi launum í uppsagnarfesti í tvo mánuði til viðbótar, auk orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar, sbr. kjarasamning.
Í uppsagnarbréfi stefnda komi fram, að stefndi hafi hafnað vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, en áskilið sér rétt til að kalla hana til vinnu með 24 tíma fyrirvara. Þessum áskilnaði hafi stefnandi mótmælt í bréfi frá VR, dags. 18. maí 2001. Réttarstaða starfsmanns í uppsagnarfresti eigi að vera sú sama og í almennu vinnusambandi. Hluti af rétti starfsmanns sé réttur til að stunda þá vinnu, sem hann hafi verið ráðinn til. Vinnuveitendum sé frjálst að ákveða, hvort vinnuframlagi sé hafnað, en höfnun vinnuframlags feli í sér slit á vinnusamningi aðila og öðlist starfsmaður við það bótakröfu á hendur vinnuveitanda. Ekki verði á það fallizt, að stefndi, sem hafnað hafi vinnuframlagi stefnanda og slitið þar með vinnusambandinu, geti gert þann áskilnað að kalla stefnanda aftur til starfa eftir geðþótta með 24 tíma fyrirvara. Eftir að sjónarmið stefnanda komu fram, hafi þó ekki reynt á þennan áskilnað, og sé stefnandi því bótaskyldur vegna launa út uppsagnarfrest.
Í greinargerð stefnda sé því haldið fram, að stefnandi hafi brotið gegn trúnaðarákvæðum í ráðningarsamningi aðila með samskiptum við fyrrverandi vinnufélaga sinn. Því til sönnunar séu lagðar fram útskriftir úr tölvupósti aðila. Umrædd gögn sýni í engu, að stefnandi hafi brotið trúnaðarákvæði aðila, sem sýni sig bezt á fyrstu tilvitnun, dags. 13. febrúar 2001, en þar sé umræðuefni aðila sonur stefnanda, og verði ekki með nokkru móti séð, hvernig heimfæra megi slík samtöl undir brot á trúnaðarákvæðum. Útprentun og skoðun framlagðra gagna á dómskjölum nr. 16-23 brjóti í bága við ákvæði laga um persónuvernd og 25. kafla almennra hegningarlaga og beri að skoðast með hliðsjón af því.
Stefnandi hafi einnig mótmælt þeirri túlkun stefnda, að orlof ætti að vera hluti af uppsagnarfresti. Meginreglur vinnuréttar með hliðsjón af ákvæðum orlofslaga kveði skýrt á um, að orlof og uppsagnarfrestur fari ekki saman, og hafi sú meginregla verið staðfest af dómstólum. Í dómaframkvæmd hafi verið litið svo á, að fari orlof og uppsagnarfrestur af einhverjum ástæðum saman, framlengist uppsagnarfrestur. Í þessu máli hafi ekki í raun reynt á þann ágreining, þar sem vinnuframlagi hafi verið hafnað.
Krafa í framhaldssök miðist því við bætur vegna vangoldinna launa í júlí og ágúst, auk orlofs. Stefnandi hafi áunnið sér hlutdeild í orlofs- og desemberuppbót samkvæmt kjarasamningi, sbr. greinar 1.4.1. og 1.4.2 í kjarasamningi VR, dómskjal nr. 5.
Krafan sundurliðist þannig:
Laun í uppsagnarfresti, júlí 2001 kr. 169.950
Laun í uppsagnarfresti, ágúst 2001 kr. 169.950
Orlofsuppbót 2001 (kr. 15.000 / 45 vikum x 36 vikur) kr. 12.000
Áunnið orlof 16. ágúst 2000 - apríl 2001 (10,17% af kr. 1.549.460) kr. 157.580
Áunnið orlof maí 2001 - ágúst 2001 (4 x kr. 169.950 x 10,17%) kr. 69.136
Desemberuppbót 2001 (kr. 40.000 / 45 vikum x 35 vikum) kr. 31.111
Orlofsuppbót 2002 (kr. 15.300 / 45 vikum x 18 vikur) kr. 6.120
Samtals kr. 615.847
Þar sem innheimtutilraunir, sbr. bréf frá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, dags. 18. maí 2001, svo og innheimtubréf frá Erni Clausen hrl., dags. l. október 2001, hafi reynzt árangurslausar og málshöfðun því nauðsynleg, sé farið fram á ítrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.
Stefnandi vísar til almennra reglna vinnuréttar, ráðningarsamnings milli aðila dags. 11.10.2000, og kjarasamnings milli Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins og annarra kjarasamninga, eigi þeir við. Þá vísar hún til almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Þá er vísað til laga nr. 55/1980. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001, en til vara til III. kafla eldri vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfur um vaxtavexti styður stefnandi við reglur 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað er vísað til laga nr. 50/1988. Þá vísast til laga nr. 30/1987 um orlof.
Stefnandi vísar um framhaldsstefnu til 29. gr. l. 91/1991. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti í framhaldssök styður stefnandi við reglur III. kafla l. nr. 25/1987.
Málsástæður stefnda í aðalsök og framhaldssök:
Stefndi kveður ljóst, með hliðsjón af málavöxtum, að stefnandi hafi rift ráðningarsamningi sínum við stefnda og eigi því ekki launakröfu á hendur honum.
Bréf Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, dags. 18. maí 2001, fyrir hönd stefnanda, verði ekki skilið öðruvísi en svo, að stefnandi hafi með því tilkynnt stefnda, að hún, án nokkurs fyrirvara, hyggðist ekki inna af hendi starfsframlag í uppsagnarfresti, eins og henni hafi verið skylt. Það sé grundvallarregla vinnuréttar, að starfsmönnum beri að rækja störf sín í uppsagnarfresti, æski vinnuveitandi þess. Breyti engu þótt vinnuveitandi kjósi að haga vinnutilhögun þannig, að starfsmaður sé kallaður til starfa með hæfilegum fyrirvara, þegar hans sé þörf á vinnustað. Þá sé það einnig meginregla vinnuréttar, að starfsmönnum beri að mæta til starfa að loknum veikindum, í lok launalauss leyfis eða orlofs, nema um annað sé samið. Á sama hátt beri starfsmanni að mæta til vinnu, þegar atvinnurekandi krefjist þess, þó að vinnuframlag eða nærveru starfsmanns hafi ekki verið óskað á einhverju tímabili. Að öllu virtu sé því ljóst, að stefnanda hafi borið að mæta til vinnu á umræddu tímabili, ef stefndi hefði krafizt þess. Til þess hafi ekki komið, enda stefnandi búin að lýsa því yfir, að hún myndi ekki mæta aftur til starfa hjá stefnda.
Með hliðsjón af framangreindu sé fullyrðingu stefnanda þess efnis, að hún hafi innt af hendi sína greiðslu, en hafi ekki fengið gagngreiðslu greidda frá stefnda, mótmælt. Þvert á móti hafi stefndi greitt stefnanda laun fyrir tímabilið frá 18. maí 2001 til loka maímánaðar umfram skyldu, þar sem stefnandi hafði tilkynnt, að hún myndi ekki inna af hendi sína greiðslu út uppsagnarfrest.
Þá sé til þess að líta, að í umræddu bréfi, dags. 18. maí 2001, sé ekki gerður sérstakur fyrirvari um, að þrátt fyrir að stefnandi neiti að inna af hendi vinnuskyldu sína, geri hún kröfur um að fá greidd laun út uppsagnarfrestinn. Með því hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til frekari launagreiðslna af hálfu stefnda. Breyti hér engu, þótt að sú skoðun stefnanda sé sett fram í umræddu bréfi, að hún telji, að henni hafi ekki verið skylt að taka út orlof sitt í uppsagnarfresti.
Verði ekki fallizt á, að stefnandi hafi, með umræddu bréfi, dags. 18. maí 2001, rift án fyrirvara ráðningasamningi sínum við stefnda, sé ljóst, að með bréfi sínu lýsi hún því yfir, að hún myndi ekki hlýða skipunarvaldi vinnuveitanda, og að hún myndi ekki inna frekari vinnu af hendi í uppsagnarfresti. Með þeirri yfirlýsingu hafi stefnandi vanefnt ráðningarsamninginn svo freklega, að stefnda hafi verið heimilt að rifta samningnum, án frekari fyrirvara. Til þess hafi þó ekki þurft að koma, þar sem stefndi hafi litið svo á, að stefnandi hefði þá þegar rift samningnum.
Þá sé ljóst, að þó að til riftunar stefnanda hefði ekki komið, hafi hún fyrirgert rétti sínum til frekari launa með því að brjóta freklega gegn ákvæði 6. gr. ráðningarsamningsins við stefnda. Í ákvæðinu sé tekið fram, að brjóti starfsmaður gegn þagnar- og/eða trúnaðarskyldum sínum gagnvart stefnanda, teljist hann hafa rift ráðningarsamningnum, og hann skuli þá láta af störfum sínum þegar í stað og eigi þá ekki rétt á frekari launum en þeim, sem ógreidd séu, þegar samningnum ljúki.
Svo sem fram komi í málavaxtalýsingu, hafi stefnandi haft daglega mikil samskipti við samkeppnisaðila stefnda. Með því einu að hafa einhver samskipti við samkeppnisaðila, sérstaklega þegar haft sé í huga, að um hafi verið að ræða fyrrum starfsmenn stefnda, sem hætt hefðu störfum í fússi, verði að telja, að stefnandi hafi brotið gegn þagnar- og trúnaðaryfirlýsingu 6. gr. ráðningarsamnings málsaðila, enda sé m.a. tekið fram í ákvæðinu, að starfsmanni, þ.e. stefnanda, beri að gæta fyllstu þagmælsku um atriði, sem hann fái vitneskju um í starfi sínu, og gera engum utan fyrirtækisins eða óviðkomandi kunnugt um málefni þess eða um viðskipti manna, félaga, fyrirtæka eða annað, sem varði hagsmuni fyrirtækisins, nema með leyfi yfirboðara sinna. Þá sé einnig tekið fram, að starfsmönnum sé, utan starfstíma, óheimilt að veita nokkrar upplýsingar, sem leynt eigi að fara, svo sem upplýsingar um einstök mál, og gildi það einnig, þótt nafnleynd sé haldið.
Að þessu virtu sé augljóst, að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðinu. Því til rökstuðnings megi m.a. benda á eftirtalin brot úr tölvuskeytum stefnanda til Ástu Sigvaldadóttur, sem augljóslega varði starfsemi stefnda á einn eða annan hátt:
Dags. 13. febrúar 2001 svohljóðandi: "... Hvað um það Siggi kom í gær og ég skammaði hann fyrir að bíða eftir þér að þú hefðir samband hann yrði sjálfur að leita. ..."
Dags. 14. febrúar 2001 svohljóðandi: "... Ég er að athu. Með aukavinnu í bókh. og launum. Mjög hot. Annars er það sem ég aðallega gera núna er að markaðssetja. Nú svo eru hausveiðar mjög spennandi."
Dags. 22. febrúar 2001 svohljóðandi: "... Svo það verður frekar fámennt hjá okkur hér er nýr ráðningafulltrúi sem er búin að vera hörku dugleg samt ekki eins og ég Hver er það reyndar fékk ég þjálfun hjá þér. En það vantar nu eiginlega svona alla keppni. Reyndar held ég að ég sé sú eina sem er á prósentum og örugglega lægstu laununum. Þó ég sé nánast eina sem er að selja."
Dags. 27. febrúar 2001 svohljóðandi: "... Óli í Lúmex er að athuga hvort hann fá ekki fleiri sem henta honum. Varst þú ekki að segja mér að þú hafir ráðið”
Dags. 20. mars 2001 svohljóðandi: "... Hér gengur allt sinn vana gang mikil aukning að ské þessa dagana. ... "
Með hliðsjón af framangreindum dæmum megi álykta, að hin miklu samskipti stefnanda við samkeppnisaðila stefnda hafi valdið stefnda verulegu tjóni, enda samskiptin augljóslega ekki bundin við tölvuskeyti, heldur hafi sambandið verið mikið, bæði í gengum síma á vinnutíma og utan hans, auk heimsókna og annarra samskipta.
Sé augljóst, að hegðun stefnanda hafi án vafa verið til þess fallin að skaða stefnda og hafi ótvírætt brotið gegn títtnefndu ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings málsaðila.
Beri að hafa í huga, að stefndi hafi einungis afrit af litlum hluta þeirra tölvupóstsendinga, sem gengu á milli stefnanda og samkeppnisaðila stefnda. Stefndi hafi ekki upplýsingar um nærri allan tölvupóst stefnanda til samkeppnisaðila stefnda, hvað þá um símtöl, símbréf, póstsendingar eða önnur samskipti.
Með hliðsjón af þessu sé ljóst, að riftun stefnanda hafi ekki þurft að koma til, svo að hún hefði fyrirgert rétti sínum til frekari launa en hún hafði þegar þegið, þar sem hún hafi brotið gegn ákvæðum 6. gr. ráðningarsamnings málsaðila, og það komi skýrlega fram, að brot á ákvæðinu leiði til þess, að starfsmaður fyrirgeri rétti sínum til frekari launa en þeirra, sem ógreidd séu, þegar samningnum ljúki vegna brota hans.
Engin formskilyrði séu samkvæmt ráðningasamningi málsaðila, þegar samningssambandi þeirra ljúki vegna brota starfsmanns, og því hafi stefnda ekki borið að tilkynna stefnanda sérstaklega, að hann teldi, að hún hefði brotið gegn ákvæðinu. Þá hafi stefndi talið, með hliðsjón af bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, dags. 18. maí 2001, að sér bæri ekki skylda til að tilkynna, að hann hefði kosið að rifta ráðningarsamningi við stefnanda sökum brota hennar á ákvæðum 6. gr. ráðningarsamnings málsaðila, þar sem stefnandi hefði þegar rift samningnum og riftun af hálfu stefnda því marklaus.
Þá megi einnig benda á, að augljóst hafi verið, að trúnaðarsamband stefnanda við stefnda hafi verið brostið, þar sem stefnandi hefði íhugað að segja upp störfum, svo sem fram komi í tölvuskeyti hennar til Sigrúnar Viktorsdóttur hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, dags. 18. maí 2001.
Miðað við málsatvik og fyrir samskipti málsaðila sé ljóst, að ráðningarsamningi þeirra hafi verið rift, ef ekki af hálfu stefnanda með bréfi, dags 18. maí 2001, þá sannanlega með broti stefnanda á þagnar- og trúnaðarskyldu sinni samkvæmt 6. gr. ráðningarsamningsins.
Vinnuréttarsamband málsaðila hafi því liðið undir lok eigi síðar en í maí 2001 og því sé ljóst, að stefnandi eigi ekki rétt til frekari launagreiðslna úr hendi stefnda.
Fullyrðingu stefnanda, um að hún hafi ekki stundað launuð störf á uppsagnartímanum sé mótmælt sem órökstuddum, enda hafi ekki verið lögð fram nein gögn, sem styðji þá fullyrðingu.
Stefndi kveðst áskilja sér allan rétt til að krefja stefnanda um endurgreiðslu launa fyrir tímabilið frá 18. maí til 31. maí 2001, auk skaðabóta vegna fyrirvaralauss brotthlaups úr starfi og þess skaða, sem brot hennar á þagnar- og trúnaðaryfirlýsingu við stefnanda kunni að hafa valdið stefnanda.
Stefndi vísar til meginreglna vinnuréttar, samningaréttar og kröfuréttar. Þá sé vísað til ráðningarsamnings málsaðila, sérstaklega 6. gr. samningsins. Um dráttarvexti sé vísað til III. kafla laga nr. 38/2001, en ef þau lög verða ekki talin eiga við, þá sé vísað til III. kafla eldri laga nr. 38/1987. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra.
Varðandi málsástæður í framhaldsstefnu kveðst stefndi mótmæla þeim skilningi stefnanda, að í höfnun atvinnurekanda á vinnuframlagi starfsmanna felist slit á vinnusamningi. Það sé skýlaust réttur atvinnurekanda að hafna vinnuframlagi starfsmanna, telji hann það til hagsbóta fyrir starfsemi sína. Það sé ekkert í skráðum lögum eða í óskráðum reglum vinnuréttar, sem banni atvinnurekanda að hafna vinnuframlagi starfsmanns tímabundið eða ótímabundið, enda væri annað óeðlilegt.
Það sé hins vegar ein af meginskyldum starfsmanna samkvæmt vinnurétti að hlýða löglegum fyrirmælum atvinnurekanda og vera reiðubúinn að sinna starfi sínu, þegar atvinnurekandi æski þess. Neiti starfsmaður að koma til vinnu, þegar atvinnurekandi æski þess, jafngildi það brotthlaupi úr starfi. Ekki sé hægt að túlka bréf Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, dags. 18. maí 2001, fyrir hönd stefnanda, öðruvísi en svo, að stefnandi hafni því að inna af hendi vinnuskyldu sína og hafi með því rift ráðningarsamningi sínum við stefnda og hlaupizt fyrirvaralaust úr starfi.
Af framangreindu virtu og með hliðsjón af fyrri greinargerð stefnda þyki ljóst, að stefnandi hafi rift ráðningarsamningi sínum við stefnda og eigi því ekki bótakröfu á hendur honum.
Í fyrrnefndu ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings stefnanda við stefnda sé tekið fram, að starfsmaður skuldbindi sig til að inna af hendi starf sitt af samvizkusemi. Umrætt skeyti sanni skýrt brot á ákvæðinu, þar sem stefnandi sé þar að beina viðskiptum frá fyrirtæki stefnda til samkeppnisaðila. Skipti hér engu, þótt um sé að ræða son stefnanda.
Önnur dæmi í fyrri greinargerð stefnda beri að sama brunni.
Fullyrðingum stefnanda um, að útprentun framlagðra gagna á dómskjölum nr. 16-23 brjóti í bága við ákvæði laga um persónuvernd og almennra hegningarlaga, sé hafnað sem órökstuddum.
Hvað varði mótbárur stefnanda við töku orlofs í uppsagnarfresti sé ítrekað, að stefnandi hafi sjálf óskað eftir því að taka orlof á umræddu tímabili. Eins og stefnandi hafi sjálf bent á, breytist réttarstaða hennar ekki við uppsögn, og því geti stefnandi ekki krafizt þess, að orlof leggist við uppsagnarfrest og með því verið betur sett, en ef ekki hefði komið til uppsagnar. Orlof og uppsagnarfrestur geti farið saman, þegar starfsmaður hafi farið fram á að taka orlof á ákveðnu tímabili, og atvinnurekandi hafi samþykkt það, eins og reyndin hafi verið í máli þessu.
Vakin sé athygli á, að svo virðist sem dráttarvaxtakrafa framhaldsstefnu stefnanda styðjist ekki við gildandi lög.
Stefndi vísar í framhaldssök til sömu lagaraka og í aðalsök.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur Jón Baldvinsson, framkvæmdastjóri og eigandi stefnda, og Ástríður Sigvaldadóttir ráðningafulltrúi.
Stefnanda var sagt upp störfum með bréfi lögmanns stefnda, dags. 14. maí 2001. Ástæða uppsagnarinnar er ekki tilgreind í bréfinu. Tekið er fram, að uppsagnarfrestur stefnanda sé 3 mánuðir og ráðgert, að síðasti starfsdagur hennar hjá fyrirtækinu skyldi vera 31. ágúst 2001. Þá segir, að ekki sé óskað eftir starfsframlagi stefnanda í uppsagnarfresti, að svo komnu máli, en laun verði greidd út uppsagnarfrest. Jafnframt áskilur stefndi sér rétt til að kalla stefnanda til starfa, ef þörf þyki, með 24 tíma fyrirvara, meðan á uppsagnarfresti standi. Þá er þess einnig krafizt, að stefnandi taki orlof sitt í uppsagnarfresti. Í lok bréfsins er stefnanda bent á, að hafi hún sérstakar óskir vegna starfsloka samkvæmt bréfinu eða frekari spurningar, skuli hún hafa samband við lögmann stefnda. Stefnandi tók við bréfinu með fyrirvara um mótmæli síðar.
Með bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, dags. 18. maí, stíluðu á lögmann stefnda, undirrituðu af Sigrúnu Viktorsdóttur í umboði stefnanda, eru, með vísan til niðurlags uppsagnarbréfsins, gerðar athugasemdir við áskilnað stefnda um að kalla stefnanda til starfa með 24 tíma fyrirvara og áskilnaðinum mótmælt á þeim forsendum, að í uppsagnarbréfinu sé tekið fram, að ekki sé farið fram á starfsframlag stefnanda í uppsagnarfresti. Þá er tekið fram, að stefnandi fallizt á, að taka út orlof sitt í uppsagnarfresti, en jafnframt lengist uppsagnarfrestur sem því nemi.
Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi rift ráðningarsamningnum með því að mótmæla framangreindum áskilnaði stefnda í uppsagnarbréfinu. Stefndi svaraði aldrei bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og lét aldrei á það reyna, hvort stefnandi myndi mæta til vinnu samkvæmt áskilnaðinum. Gerði hann stefnanda aldrei ljóst, að hann liti svo á, að hún hefði rift ráðningarsamningi þeirra með því að mótmæla fyrirvaranum, heldur þvert á móti greiddi hann henni laun fyrir allan maímánuð. Sú skýring, sem fyrirsvarsmaður stefnda gaf fyrir dóminum, að hann hefði greitt umfram skyldu, lá ekki fyrir á þeim tíma, sem hann greiddi launin. Stefnandi mátti því líta svo á, að stefndi hefði fallizt á athugasemdir hennar, sem lutu að fyrirvaranum, og að ákvæði uppsagnarbréfsins um laun í uppsagnarfresti stæðu. Er ekki fallizt á, að stefnandi hefði þurft að hafa uppi fyrirvara í fyrrgreindu bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur um launakröfur í uppsagnarfresti, svo sem stefndi byggir á í greinargerð.
Stefndi kveðst byggja á því til vara, að honum hefði verið heimilt á grundvelli synjunar stefnanda um vinnuframlag í uppsagnarfresti, að rifta ráðningarsamningnum, en til þess hefði ekki komið, þar sem stefnandi hefði þegar verið búin að rifta honum. Með því að stefndi byggir á því, að hann hafi ekki rift samningnum, þykir ekki ástæða til að fjalla frekar um þessa málsástæðu.
Þá byggir stefndi á því, að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launa með því að brjóta gegn ákvæði 6. gr. ráðningarsamnings aðila, sem lýtur að þagnar- og trúnaðarskyldu starfsmanns. Með trúnaðarbrotum sínum teljist stefnandi hafa rift ráðningarsamningnum og skuli láta af störfum þegar í stað og eigi ekki rétt til frekari launa en þeirra, sem ógreidd séu, þegar samningnum ljúki.
Meint trúnaðarbrot stefnanda kveður stefndi hafa gerzt í tölvusamskiptum við fyrrverandi starfsmann stefnda, Ástríði Sigvaldadóttur, sem nú rekur ráðningarþjónustufyrirtækið Ísgen.
Stefnandi og vitnið, Ástríður, báru báðar fyrir dómi, að með þeim hefði tekizt góð vinátta, meðan þær störfuðu saman í fyrirtæki stefnda, og hefði sú vinátta haldizt, eftir að Ástríður hætti störfum þar, og næðu samskipti þeirra út yfir vinnutíma.
Til stuðnings fullyrðingum sínum um trúnaðarbrot hefur stefndi lagt fram í málinu hátt á annað hundrað tölvuútskriftir af bréfasamskiptum stefnanda og Ástríðar. Fyrir dómi gat stefnandi þó ekki bent á nema 5 bréf úr þeim bunka, dskj. nr. 16-20, sem hann taldi innihalda brot á trúnaði. Önnur bréf snúast um persónuleg málefni viðkomandi bréfritara og snerta ekki deiluefni þessa máls. Ber að átelja slíka gagnaframlagningu.
Tölvusamskipti þau, sem lúta að meintum trúnaðarupplýsingum, dskj. nr. 16-20, eru skrifuð á tímabilinu 13. febrúar til 20 marz 2001. Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi, að honum hefði verið kunnugt um þessi tölvusamskipti í apríl, þegar ljóst varð, við tölvueftirlit, að óvenju mikill tölvupóstur hafði farið fram milli stefnanda og Ísgen ehf. Í framhaldi af því hefði hann haft samband við lögmann sinn. Hann hafi hins vegar aldrei haft samband við stefnanda, eða beint athugasemdum til hennar vegna þessara tölvusamskipta. Hann kvað það þó hafa hvarflað að sér, en ákveðið, í samráði við lögmann sinn, að gera það ekki. Um mánuði síðar skrifaði hann undir framangreint uppsagnarbréf, þar sem hvergi er minnzt á trúnaðarbrot.
Aðspurð fyrir dómi mótmælti stefnandi því, að tiltekin ummæli í dskj. nr. 16-20 væru brot á trúnaði. Fengu skýringar hennar stoð í vitnisburði Ástríðar Sigvaldadóttur. Í ljósi þess, að Ástríður hafði hætt störfum hjá fyrirtæki stefnda um tveimur til þremur mánuðum áður en umdeild tölvusamskipti áttu sér stað og þekkti vel til allra starfshátta þar, teljast ummæli þau, sem lúta að fyrirtækinu, almenns eðlis ekki til þess fallin að gefa móttakanda bréfanna trúnaðarupplýsingar, og gat fyrirsvarsmaður stefnda enda ekki gefið dóminum fullnægjandi skýringar á því, á hvern hátt trúnaður væri brotinn með ummælunum. Þannig eru ummæli um laun stefnanda á dskj. nr. 18 almenns eðlis. Siggi, sem nefndur er í dskj. nr. 16, er að sögn stefnanda og vitnisins, Ástríðar, sonur stefnanda og snertir ekki fyrirtækið. Ummæli um hausaveiðar, markaðssetningu og mikla aukningu, eins og þau koma fyrir á dskj. nr. 17, 18 og 19, virðast almenns eðlis og ekki til þess fallin að gefa móttakanda bréfanna trúnaðarupplýsingar. Stefnandi og vitnið, Ástríður, skýrðu báðar svo frá, að vitnið hefði haft til meðferðar mál Óla í Lúmex, sem nefndur er í dskj. nr. 19, og því hefði verið lokið, þegar vitnið hætti störfum hjá fyrirtækinu. Stefnandi kvaðst hafa verið að ganga úr skugga um, að hann væri ekki að leita á ný til fyrirtækisins með kröfur, sem hann ætti ekki heimtingu á; þ.e. hún hafi verið að gæta hagsmuna fyrirtækisins. Aðspurður gat stefndi ekki svarað því, hvort máli Óla í Lúmex hefði verið lokið, þegar Ástríður lét af störfum. Skýringar stefnanda eru trúverðugar og ekki verður fallizt á, að hún hafi í tilgreindu bréfi gefið Ástríði trúnaðarupplýsingar, sem væru til þess fallnar að skaða fyrirtæki stefnda. Að öllu þessu athuguðu er ekki fallizt á, að stefndi geti byggt á því, að ráðningarsamningi aðila hafi verið slitið, eða að honum hefði mátt slíta fyrirvaralaust vegna framangreindra tölvusamskipta.
Ekki er fallizt á með stefnda, að honum hafi verið rétt að ákveða, að stefnandi skyldi taka orlof sitt í uppsagnarfresti, án þess að uppsagnarfresturinn lengdist að sama skapi. Svaraði hann reyndar aldrei athugasemdum stefnanda við þeirri ákvörðun, sem komu fram í bréfi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur frá 18. maí 2001. Mátti stefnandi því þegar af þeim sökum líta svo á, að stefndi hefði fallizt á sjónarmið hennar.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina, eins og þær eru fram settar, en tölulegur ágreiningur er ekki í málinu og ósannað, að stefnandi hafi þegið laun annars staðar í uppsagnarfresti. Stefndi gerir ekki athugasemdir við upphafstíma dráttarvaxta, og dæmast dráttarvextir því eins og krafizt er, að því athuguðu, að dráttarvextir dæmast samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001, sem gildi tóku 1. júlí 2001.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 250.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Ráðningarþjónustan ehf., greiði stefnanda, Kristínu Elínborgu Sigurðardóttur, kr. 795.994, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla l. nr. 38/2001 af kr. 169.950 frá 01.07. 2001 til 15.07. s.á., af kr. 180.147 frá þeim degi til 01.08. s.á., af kr. 350.097 frá þeim degi til 15.08. s.á., af kr. 362.097 frá þeim degi til 01.09. s.á. og af kr. 795.994 frá þeim degi til greiðsludags, og leggjast dráttarvextir við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti. Þá greiði stefndi stefnanda kr. 250.000 í málskostnað.