Hæstiréttur íslands

Mál nr. 748/2012

A (Karl Ó. Karlsson hrl.)
gegn
Snælandi Grímssyni ehf. og Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting


Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting.

A krafði S ehf. og T hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns er hann varð fyrir við vinnu sína hjá S ehf. A starfaði þar sem bifreiðastjóri auk þess sem hann vann við viðhald hópferðabifreiða. Þegar slysið átti sér stað var A að fjarlægja ryð af þakbrún einnar af bifreiðunum. Vildi slysið til með þeim hætti að stigi sem reistur hafði verið upp að bifreiðinni og A stóð í við verkið, rann til. Féll hann með stiganum og meiddist við fallið. Byggði A á því að sá búnaður sem notaður var við verkið hafi ekki fullnægt öryggiskröfum. Í Hæstarétti var talið að tilhögun við verkið án sérstakra öryggisráðstafana hafi verið óforsvaranleg vegna þeirrar slysahættu sem hún hafði í för með sér. Ekki hafi verið gætt þess öryggis við framkvæmd verksins sem boðið væri í 13. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar sem líta yrði svo á að óvarkárni A við framkvæmd verksins hafi átt þátt í því að stiginn rann til hliðar var A látinn bera 1/3 hluta tjóns síns en S ehf. og T hf. 2/3 þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2012. Hann krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 2.684.776 krónur með 4,5% ársvöxtum af 905.240 krónum frá 13. desember 2007 til 14. febrúar 2009, af 2.591.776 krónum frá þeim degi til 14. ágúst 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.684.776 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Áfrýjandi varð fyrir vinnuslysi á verkstæði stefnda Snælands Grímssonar ehf. 13. desember 2007. Á þeim tíma starfaði áfrýjandi sem bifreiðastjóri, auk þess hann vann við viðhald hópferðabifreiða hjá stefnda. Þegar slysið átti sér stað var áfrýjandi að fjarlægja ryð af þakbrún einnar af bifreiðunum. Vildi það til með þeim hætti að stigi, sem reistur hafði verið upp að bifreiðinni og áfrýjandi stóð í við verkið, rann til. Við það féll hann með stiganum og meiddist við fallið. Áfrýjandi gerði lítið úr meiðslunum strax eftir slysið, en þegar heim kom ágerðust verkirnir. Því leitaði hann til læknis sama kvöld og fór síðan á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hann hafði hlotið slæmt fótbrot og aðra áverka. Lét áfrýjandi vita daginn eftir að hann kæmist ekki til vinnu af þessum sökum. Stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins þó ekki um slysið fyrr en 22. janúar 2008 og fór engin rannsókn fram á tildrögum þess eða aðstæðum á slysstað.

Að beiðni stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. voru teknar skýrslur af áfrýjanda og tveimur starfsmönnum stefnda Snælands Grímssonar ehf. fyrir héraðsdómi 4. mars 2010. Í skýrslu áfrýjanda kom meðal annars fram að stiginn, sem rann til umrætt sinn, hafi verið úr áli og kvaðst hann sjálfur hafa reist stigann upp við bifreiðina. Aðspurður sagðist áfrýjandi hafa verið búinn að standa í stiganum „kannski svona um tuttugu mínútur“ áður en slysið varð. Hafi hann verið ofarlega í honum og verið með vírbursta og annað tæki til að skrapa málningu af þaki bifreiðarinnar. Áfrýjandi kvaðst hafa verið að beita öðru verkfærinu þegar slysið bar að höndum, en því lýsti hann annars svo: „Ég datt ekki af stiganum heldur rann stiginn til og ég datt ásamt stiganum. Ég gat ekki haldið mér af því að stiginn rann til hliðar og ég datt með stiganum.“ Spurður hvort hann hafi notað stigann áður sagðist áfrýjandi hafa gert það í nokkur skipti.

Vitnið B, rekstrarstjóri yfir bílaflota stefnda Snælands Grímssonar ehf. og einn af eigendum hans, bar fyrir dómi að hann hafi meðal annars borið ábyrgð á viðhaldi hópferðabifreiða stefnda. Spurður hvaða fyrirmæli vitnið hafi gefið áfrýjanda við framkvæmd verksins svaraði hann: „Sko ég hafði verið sjálfur að vinna í þessu verki, að hreinsa upp þetta ryð og svo þurfti ég að hlaupa eitthvað annað og bað hann um að fara og halda áfram í þessu“. Vitnið sagði að komið hafi til umræðu hjá stefnda að kaupa vinnupall til að nota við þrif og viðhald bifreiðanna eftir að verkstæðið hafi verið stækkað þar sem slíkur pallur hafi þá komist fyrir. Spurður um verklag á staðnum eftir að slysið átti sér stað svaraði vitnið meðal annars: „[V]ið sáum að þarna meiddi sig maður og það var ekki nógu gott þannig að við keyptum vinnupall. Þannig að það var náttúrulega miklu öruggara“.

Í vitnisburði C, verkstjóra hjá stefnda Snæland Grímssyni ehf., fyrir dómi kom fram að álstiginn, sem notaður var þegar slysið varð, hafi verið nýlegur á þeim tíma. Stiginn hafi verið þannig gerður að unnt hafi verið að draga hann sundur og nota sem tröppu. Rifflað gúmmí hafi verið á fótum stigans. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar slysið átti sér stað. Þegar hann hafi komið á vettvang hafi áfrýjandi verið staðinn á fætur og stiginn legið við hliðina á bifreið sem hann hafi verið að vinna við.

II

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað, meðal annars um framkvæmd vinnu, vinnustaði og vélar, tækjabúnað og fleira. Í 21. gr. sömu laga er kveðið á um að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og sjái um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hefur umsjón með. Eftir 1. mgr. 23. gr. laganna skal verkstjóri beita sér fyrir að starfsskilyrði séu fullnægjandi, meðal annars að því er varðar öryggi. Í 1. mgr. 37. gr. er mælt svo fyrir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis. Þá skal vinnustaður vera þannig úr garði gerður samkvæmt 1. mgr. 42. gr. að þar sé gætt fyllsta öryggis. Í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sem sett hefur verið á grundvelli 47. gr. laganna, er að finna ákvæði varðandi notkun tækja þegar unnið er tímabundið og starfsmenn eru í fallhættu. Í 4.1.2. gr. viðaukans segir að einungis sé „heimilt að nota stiga við vinnu í hæð þegar unnið er tímabundið verk og þegar ... ekki er ástæða til að nota önnur öruggari tæki vegna lítillar áhættu eða þess að annaðhvort stendur notkun stutt yfir eða tilteknar aðstæður eru á vinnustað sem atvinnurekandi getur ekki breytt.“ Í 4.2.1. gr. er kveðið á um að stigar verði „að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun.“ Þá er svofellt ákvæði í 4.2.2. gr.: „Koma skal í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri eða neðri enda hans, með búnaði sem hindrar að hann renni til eða með einhverjum öðrum hætti sem hefur sömu áhrif.“ Ennfremur segir í 4.2.3. gr.: „Stigar skulu notaðir þannig að starfsmenn geti jafnan verið stöðugir og haft trygga handfestu.“

Áfrýjandi reisir kröfu sína á hendur stefnda Snælandi Grímssyni ehf. á því að hann hafi bakað sér skaðabótaskyldu vegna þess að sá búnaður sem áfrýjandi notaði er slysið varð hafi ekki fullnægt þeim kröfum um öryggi sem gerðar séu í lögum og reglum, settum samkvæmt þeim. Áfrýjandi hafi unnið verkið, sem fólgið hafi verið í því að skafa ryð af þakbrún hópferðabifreiðar, að beiðni yfirmanns síns, B, með þeim eina búnaði sem stefndi lagði til verksins. Stiginn sem áfrýjandi stóð í við vinnu sína hafi verið lagður saman og hallað að bifreiðinni. Vegna þess að hann hafi staðið næstum efst í stiganum og haldið á verkfærum hafi yfirmönnum hans mátt vera fullljóst að stórfelld hætta fylgdi þessari verktilhögun.

Stefndi Snæland Grímsson ehf. hafði frjálsa ábyrgðartryggingu sem vinnuveitandi hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Greinir aðila fyrst og fremst á um hvort stefndu beri bótaábyrgð á fjárhagstjóni áfrýjanda af völdum slyssins. Stefndu gera hins vegar ekki  ágreining um þá bótafjárhæð, sem áfrýjandi gerir kröfu um, ef frá er talinn kostnaður við öflun matsgerðar og skattframtala sem þeir telja að fella beri undir málskostnað, venju samkvæmt.

III

Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 hvílir sú skylda á atvinnurekanda að tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins án ástæðulausrar tafar slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Sökum þess að stefndi Snæland Grímsson ehf. lét undir höfuð leggjast að tilkynna slysið, sem áfrýjandi varð fyrir, fyrr en rúmum mánuði eftir að það átti sér stað, og engin rannsókn fór sem fyrr segir fram á vegum Vinnueftirlitsins verður að leggja framburð áfrýjanda fyrir héraðsdómi um tildrög slyssins til grundvallar við úrlausn þessa máls, enda er hann einn til frásagnar um hvernig það vildi til.

Óumdeilt er að tilhögunin við að fjarlægja ryð af þakbrún hópferðabifreiða stefnda á verkstæði hans var fólgin í því að reisa álstiga upp við þá bifreið, sem verið var að vinna við, þannig að sá sem verkið vann stóð í stiganum. Stiginn var þeirrar gerðar að nota mátti hann sem tröppu, enda þótt hann hafi verið lagður saman í því tilviki sem hér um ræðir. Gúmmítappar voru undir kjálkum stigans, en ekki verður séð af gögnum málsins að neinn búnaður hafi verið á efri enda hans til að aftra því að hann rynni til hliðar þar sem hann studdist við bifreiðina. Ljóst er af vitnisburði B, sem var yfirmaður áfrýjanda umrætt sinn, að hann hafði sjálfur verið að vinna við að fjarlægja ryð af bifreiðinni áður en hann bað áfrýjanda um að halda verkinu áfram. Það er því hafið yfir vafa að sá yfirmaður stefnda, sem bar ábyrgð á viðhaldi bifreiða hans, var gjörkunnugur ofangreindri verktilhögun, auk þess sem áfrýjanda stóð ekki annar búnaður til boða en umræddur stigi til að inna verkið af hendi.

Af framburði áfrýjanda má ráða að hann hafi verið búinn að standa við vinnu sína í um það bil 20 mínútur ofarlega í stiganum og með verkfæri í annarri hendinni þegar slysið átti sér stað. Samkvæmt því sem áfrýjandi bar fyrir dómi var orsök slyssins sú að stiginn rann til hliðar. Við það féll hann ekki úr stiganum, heldur með honum og hlaut við fallið þá áverka sem að framan greinir.

Í leiðbeiningum sem Vinnueftirlit ríkisins hefur gefið út um notkun á lausum stigum, tröppum og búkkum og báðir aðilar vitnuðu til við flutning málsins fyrir Hæstarétti kemur meðal annars fram að í sumum tilfellum geti verið gott að hafa festibúnað á stigum að ofan og nota eigi stiga til að vinna úr ákveðið verk í stuttan tíma. Einnig er vakin athygli á því í leiðbeiningunum að þær einingar, sem unnt sé að nota bæði sem tröppur og stiga, geti verið varhugaverðar.

Að virtu öllu því sem að framan greinir verður að fallast á með áfrýjanda að sú tilhögun að reisa stiga upp við hópferðabifreið til nota við það verk að fjarlægja ryð af þakbrún hennar, án þess að gerðar væru sérstakar öryggisráðstafanir, meðal annars til að hindra að stiginn rynni til hliðar, hafi verið óforsvaranleg vegna þeirrar slysahættu sem hún hafði í för með sér. Í því efni skiptir máli að sá, sem verkið vann, þyrfti líklega að teygja sig til beggja hliða, en slíkt jók aftur hættu á að stiginn rynni til hliðar þar sem hann nam við yfirborð bifreiðarinnar. Einnig er til þess að líta að auðvelt hefði verið og tiltölulega útlátalítið fyrir stefnda að útvega hæfilega háan vinnupall til að nota við framkvæmd verksins. Það hefði aukið til muna öryggi þeirra, sem við það unnu, enda var það gert í kjölfar slyssins 13. desember 2007 eins og fram kom í vitnaleiðslum fyrir dómi. Samkvæmt öllu þessu verður að telja að af hálfu stefnda Snælands Grímssonar ehf. hafi ekki verið gætt þess öryggis við framkvæmd verksins sem boðið er í 13. gr. og 37. gr. laga nr. 46/1980. Bera stefndu því bótaábyrgð á tjóni áfrýjanda af völdum slyssins.

  Áfrýjandi hafði starfað nokkurn tíma sem bifreiðastjóri hjá stefnda Snæland Grímssyni ehf. þegar hann slasaðist og sinnt þar viðhaldsverkum, meðal annars sams konar verki og því sem hann vann við er slysið varð. Fyrir dómi kvaðst hann hafa notað stigann í nokkur skipti áður. Eins og stiginn var úr garði gerður hlaut áfrýjanda að vera ljóst að hætta gæti verið því samfara að teygja sig um of til annarrar hvorrar handar ef staðið var ofarlega í stiganum. Á áfrýjanda hvíldi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 skylda til að tilkynna yfirmönnum sínum um þann vanbúnað sem var á vinnuaðstæðum að þessu leyti. Þessari skyldu sinnti hann ekki. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að óvarkárni áfrýjanda við framkvæmd verksins hafi átt þátt í því að stiginn rann til hliðar. Af þeim sökum verður að leggja nokkra ábyrgð á hann og er hæfilegt að hann beri 1/3 hluta tjóns síns, en stefndu 2/3.

Útlagður kostnaður áfrýjanda vegna matsgerðar og skattframtala, sem aflað var áður en málið var höfðað, telst til sjúkrakostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt því verður stefndu gert að greiða 2/3 hluta þess kostnaðar.

Eftir þessum málsúrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Snæland Grímsson ehf. og Tryggingamiðstöðin hf., greiði óskipt áfrýjanda, A, 1.789.851 krónu með 4,5 ársvöxtum af 603.493 krónum frá 13. desember 2007 til 14. febrúar 2009, af 1.727.851 krónu frá þeim degi til 14. ágúst 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.789.851 krónu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 19. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. [...], […], með stefnu, þingfestri 22. nóvember 2011, á hendur Snælandi Grímssyni ehf., kt. [...], Laugarnesvegi 60, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. [...], Síðumúla 24, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð kr. 2.684.776, með 4,5% ársvöxtum af kr. 905.240 samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 13. desember 2007 til 14. febrúar 2009, en af kr. 2.591.776 frá þeim degi til 14. ágúst 2011, og með dráttarvöxtum af kr. 2.684.776 samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk þess sem krafizt er virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda, en til vara, að sök verði skipt milli aðila. Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins, en til vara er þess krafizt, að málskostnaður falli niður. 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefnandi hóf störf hjá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf., í júlí 2006 og starfaði þar sem bílstjóri, auk þess sem hann sá um viðhald rútubifreiða, s.s. þrif og viðgerðir. Þann 13. desember 2007 var stefnandi að sinna viðhaldi rútubifreiðar í húsnæði stefnda, Snælands Grímssonar ehf., að Eldshöfða 18, Reykjavík. Sinnti stefnandi starfinu að beiðni yfirmanns síns, B rekstrastjóra stefnda, Snælands Grímssonar ehf. Fólst vinnan í því, að skafa ryð af þakbrún bifreiðarinnar, og stóð stefnandi í stiga, sem hallaði að bifreiðinni. Þegar stefnandi var við vinnu sína rann stiginn undan honum með þeim afleiðingum, að hann féll niður með stiganum og hlaut við það slæmt fótbrot. Í kjölfarið leitaði stefnandi á bráðamóttöku Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Röntgenmynd og sneiðmynd, sem teknar voru af fæti stefnanda, sýndu brot á teningsbeini vinstri fótar og nærenda fjórða framleistabeins. Þann 18. desember 2007 fór stefnandi í aðgerð, þar sem brotið var rétt. Stefnandi var óvinnufær frá slysdegi til loka janúar 2008, þegar hann kom aftur til starfa, til að byrja með í 50% starf. Stefnandi sinnti áfram sömu störfum og áður hjá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf. Slys stefnanda var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins með bréfi stefnda, Snælands Grímssonar ehf., dags. 15. janúar 2008. Tryggingarstofnun ríkisins var fyrst tilkynnt um slysið í byrjun maí 2008. Þar sem verkefnum hjá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf., fór fækkandi, og þar sem stefnandi þjáðist af verkjum í fæti, er hann sinnti starfi sínu, lauk hann störfum í október 2008. Í kjölfarið kveðst hann hafa gegnt ýmsum störfum en hafa fundið, og finni enn þann dag í dag fyrir verkjum í fæti. Í desember 2008 voru skrúfur, sem settar höfðu verið í fótinn til að lagfæra brotið, fjarlægðar. Þrátt fyrir aðgerðina kveðst stefnandi enn þjást af verkjum. Hafi hann ekki fundið starf við hæfi, þar sem ekki reyndi of mikið á fótinn og hafi hann að lokum ákveðið að halda til heimalands síns, […], í nóvember 2009, þar sem hann hafi meira og minna dvalizt síðan.

Stefnandi leitaði til Eflingar-stéttarfélags í janúar 2008 og óskaði eftir liðsinni félagsins við rekstur slysamáls síns. Tók lögmaður félagsins við rekstri málsins og óskaði m.a. eftir afstöðu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar, til bótaskyldu vegna slyssins. Stefndi, Tryggingamiðstöðin sendi í framhaldinu beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um vitnaleiðslur fyrir dómi, þar sem félagið taldi fyrirliggjandi gögn um aðdraganda slyssins misvísandi. Voru í kjölfarið teknar voru skýrslur af stefnanda, B rekstarstjóra stefnda, Snælands Grímssonar ehf., og C verkstjóra stefnda. Þegar skýrslur lágu fyrir hafnaði tryggingafélagið bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda, Snælands Grímssonar ehf., m.a. með vísan til þeirra skýrslna sem teknar voru fyrir dómi.

Með matsbeiðni, dags. 11. febrúar 2011, var óskað eftir því að dómkvaddir matsmenn mætu afleiðingar slyss stefnanda og voru dómkvaddir til starfans þeir D læknir og E hrl. Er matsgerð þeirra dags. 11. maí 2011. Er niðurstaða matsmanna sú, að stefnandi hafi verið tímabundið óvinnufær að fullu frá 13. desember 2007 til 27. janúar 2008 og 50% óvinnufær á tímabilinu 28. janúar til 1. apríl 2008, varanlegur miski hafi verið 5 stig, varanleg örorka 5% og stöðugleiki hafi verið 14. febrúar 2009. Þegar niðurstöður matsgerðarinnar lágu fyrir greiddi stefndi Tryggingamiðstöðin stefnanda bætur á grundvelli slysatryggingar launþega. Með bréfi dags. 14. júlí 2011 var sett fram skaðabótakrafa á hendur stefnda, Tryggingamiðstöðinni, án árangurs.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að vinnuveitandi beri skaðabótaábyrgð á slysi hans. Honum hafi verið falið af yfirmanni sínum, B, að sjá um viðhald á bifreið stefnanda, sem fólst í því að skrapa ryð af þakbrún hennar. Við verkið hafi stefnandi staðið í stiga, sem hann hafi reist upp við bifreiðina. Stiginn hafi verið vanbúinn til þessarar vinnu, en enginn sérstakur öryggisbúnaður hafi verið á stiganum, fyrir utan tvo rifflaða gúmmítappa.  Annar búnaður hafi ekki staðið stefnanda til boða. Stiginn hafi runnið undan stefnanda með þeim afleiðingar að hann slasaðist. Stefndi, Snæland Grímsson ehf., hafi borið ábyrgð á því, að allar aðstæður á vinnustaðnum væru öruggar og að tæki og tól væru í lagi, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Telji stefnandi, að yfirmönnum hans, sem hafi falið honum að vinna verkið, hafi mátt vera fullljóst, að stórfelld hætta hafi fylgt verktilhöguninni. Stefndi, Snæland Grímsson ehf., hafi ekki kallað til Vinnueftirlit ríkisins svo sem skylt sé skv. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en samkvæmt lögunum sé tilkynningarskylda vinnuveitanda tengd við alvarleika slyss. Ljóst sé, að B og C, starfsmönnum stefnda, Snælands Grímssonar ehf., hafi í síðasta lagi daginn eftir slysið orðið ljóst, að stefnandi hefði slasazt svo alvarlega, að tilkynningarskylda hafi verið vafalaus. Þá hafi stefndi ekki farið fram á lögreglurannsókn skv. þágildandi 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. einnig f-lið 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Verði að meta þessa vanrækslu stefndu í óhag. Hafi stefndu þannig ekki tekizt að sanna þá staðhæfingu sína, að búnaður og vinnuaðstæður á vinnustað hafi verið í lagi, en sönnunarbyrðin hvíli á honum.

Um lagarök vísi stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, sérstaklega til reglna um ábyrgð atvinnurekanda á saknæmum athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna sinna, þ.e. reglum um húsbóndaábyrgð, hertra reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vegna vanbúnaðar tækja og áhalda og vegna vinnu við hættuleg störf. Enn fremur sé vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum ákvæða 13., 14., 21., 22., 23., 37. og 42. gr. laganna. Um aðild stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar, vísist til 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.    

Krafa um vexti af skaðabótakröfu vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta og varanlegs miska byggi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en kröfur þessar beri vexti frá slysdegi að telja, eða 13. desember 2007. Krafa um vexti vegna varanlegrar örorku byggi á sama ákvæði, og beri krafan vexti frá stöðugleikapunkti, eða frá 14. febrúar 2009. Krafizt sé dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá kröfu um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi stefndu hverju sinni, eða af 93.000 kr. frá 14. ágúst 2011. Loks sé krafizt dráttarvaxta af skaðabótakröfu stefnanda í heild sinni að liðnum mánuði frá því að skaðabótakrafan á hendur stefndu hafi verið sett fram með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 14. júlí 2011, eða af 2.591.776 kr. frá 14. ágúst 2011 til greiðsludags.

Um málskostnaðarkröfu stefnanda vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt sé gerð á grundvelli laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta og skila virðisaukaskatti af tekjum. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum hluta kröfu sinnar úr hendi stefndu. Um varnarþing vísist til 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Skaðabótakrafa stefnanda grundvallist á matsgerð D læknis og E hrl., dags. 11. maí 2011, og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Tölulega sundurliði stefnandi skaðabótakröfu sína þannig:

1.       Tímabundið atvinnutjón tímabilið 13. desember 2007 til 1. apríl 2008

Laun                                                                                                     kr.           1.034.127

Frádr. Áður greitt                                                                             kr.               786.083

Samtals                                                                                                        kr.              248.044

Orlof 10,17%                                                                                              kr.                25.226

Samtals vangreitt                                                                                       kr.              273.270

 

2.       Bætur fyrir þjáningar

Rúmliggjandi               2 dagar * 2.950 kr.                                             kr.                 5.900

Án rúmlegu  108 dagar * 1.590 kr.                                                         kr.             171.720

Samtals vangreitt                                                                                       kr.             177.620

 

3.       Varanlegur miski

9.087.000 kr. * 5%                                                                                    kr.             454.350

 

4.       Varanleg örorka

5.746.164 kr. * 7,633 * 5%                                                                      kr.           2.193.023

Frádráttur: örorkubætur úr slysatryggingu launþega                       kr.              506.487

Samtals                                                                                                        kr.           1.686.536

 

         Tjón samtals                                                                                             kr.           2.591.776

               

5.       Útlagður kostnaður

Kostnaður vegna örorkumats                                                                  kr.               90.000

Skattframtöl                                                                                               kr.                 3.000

Samtals                                                                                                        kr.               93.000

 

         Krafa samtals                                                                                           kr.           2.684.776

 

Krafizt sé bóta vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi verið metinn óvinnufær með öllu frá 13. desember 2007 til 27. janúar 2008 og 50% óvinnufær frá 28. janúar til 1. apríl 2008. Beri stefnanda réttur til greiðslu launa vegna þessa tímabils. Við útreikning tímabundins atvinnutjóns séu lögð til grundvallar meðaltalslaun stefnanda hjá stefnda, Snæland Grímssyni ehf., tímabilið apríl til og með nóvember 2007, að viðbættu orlofi. Heildarlaun stefnanda á tímabilinu hafi numið samtals kr. 3.182.042, eða sem svari meðaltalsmánaðarlaunum að fjárhæð kr. 397.775. Brúttó nemi krafan kr. 1.034.127 skv. verðlagi á slysdegi. Til frádráttar komi greidd laun á tímabilinu kr. 679.186 frá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf., og kr. 106.897 í dagpeninga frá stefnda, Tryggingamiðstöðinni.

Við ákvörðun þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga sé lagt til grundvallar, að stefnandi hafi verið veikur án rúmlegu í 108 daga og í 2 daga rúmfastur. Fjárhæð þjáningabóta sé kr. 2.950 þá daga, sem stefnandi hafi verið, rúmliggjandi og kr. 1.590 fyrir þá daga, sem stefnandi hafi verið veikur án rúmlegu. Tekið hafi verið tillit til breytingar á lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. 

Krafizt sé bóta fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga og miðist bæturnar við metinn miska, 5 stig. 

Útreikningur bóta fyrir varanlega örorku fari skv. 6. og 7. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun árslaunaviðmiðs við útreikning bótakröfu vegna varanlegrar örorku sé byggt á ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki sé unnt að ákvarða árslaun skv. meginreglu 1. mgr. 7. gr., þar sem stefnandi hafi hafið störf á Íslandi á árinu 2006. Árslaunamiðvið grundvallist á meðaltalslaunum stefnanda frá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf., fyrir slys, að viðbættu mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð og að teknu tilliti til hækkunar launavísitölu til stöðugleikapunkts, þar sem telja verði, að sá mælikvarði sé réttari, hvað varði líklegar framtíðartekjur stefnanda. Vísist hér einnig m.a. til Hæstaréttardóms frá 10. júní 2010 í máli nr. 646/2009. Heildarlaun stefnanda hjá stefnda, Snælandi Grímssyni ehf., til og með nóvember 2007 hafi numið samtals kr. 3.182.042, eða kr. 4.773.063 á ársgrundvelli. Að viðbættu 8% mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð og að teknu tilliti til hækkunar launavísitölu til stöðugleikapunkts sé árslaunaviðmiðið kr. 5.746.164. Til frádráttar útreiknuðum bótum fyrir varanlega örorku komi örorkubætur úr slysatryggingu launþega að fjárhæð kr. 506.487, í samræmi við ákvæði skaðabótalaga þar um.

Krafa vegna útlagðs kostnaðar sé vegna skattframtala, örorkumats og ferðakostnaðar stefnanda til að koma í örorkumat. Vísist hér til dómskjala nr. 25-27. Þess beri að geta, að þar sem reikningur vegna ferðarkostnaðar stefnanda sé í evrum, sé við útreikning miðað við miðgengi evru þann dag, sem kaup á flugi og hóteli hafi átt sér stað. Samkvæmt upplýsingum af vef Seðlabanka Íslands svari 1 evra til kr. 158.81. Samtals nemi ferðakostnaður því kr. 70.035 (441 evra * 158.81 kr.).

Málsástæður stefnda

Aðalkrafa um sýknu

Stefndu mótmæla því, að slys stefnanda sé að rekja til sakar stefnda, Snælands Grímssonar ehf., eða starfsmanna hans, vegna vanbúnaðar og óforsvaranlegra vinnuaðstæðna, eins og stefnandi byggi á í málinu.

Stefnandi hafi unnið við minni háttar viðhald í umrætt sinn á einni af bifreiðum stefnda, Snælands Grímssonar í starfstöð hans að Eldshöfða 18, Reykjavík. Hafi hann verið að skrapa og pússa ryðbletti, sem síðar hafi átt að lakka. Við verkið hafi hann notazt við verkfæri til að skrapa með og vírbursta. Um þetta séu aðilar sammála. Aðilar séu einnig sammála um, að stefnandi hafði sinnt sambærilegri viðhaldsvinnu áður hjá stefnda Snælandi Grímssyni.  Verkið verði að teljast einfalt.

Við vinnuna hafi stefnandi notað álstiga í eigu stefnda Snælands Grímssonar, sem  unnt sé að nota ýmist sem stiga eða tröppu. Stefnandi hafi sjálfur stillti stiganum upp í umrætt sinn.           Álstiginn hafi verið að venjulegri gerð, útbúinn með gúmmíefni á fótum, sem sé m.a. ætlað að koma í veg fyrir, að hann renni til. Stiginn hafi verið breiðari að neðan og með þverbita, sem líkast til sé ætlað að auka stöðugleika hans. Stiginn hafi því haft þá öryggiskosti, sem gera megi áskilnað um með tilliti til þeirra verka, sem hann hafi verið notaður til hjá stefnda Snælandi Grímssyni. Stiginn geti því ekki talizt vanbúinn, og verði skaðabótaábyrgð því ekki byggð á þeirri málsástæðu.

Þar sem um einfalt verk hafi verið að ræða og aðbúnaður á vinnustað hafi verið á þann hátt, sem að framan sé lýst, verði að mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda, að yfirmönnum hans hefði mátt vera fullljóst ,,að stórfelld hætta fylgdi verktilhöguninni“, eins og segi í stefnu. Sé og þeirri staðhæfingu stefnanda, að slys hefðu átt sér stað áður, mótmælt sem ósannaðri. Þá geti það ekki leitt til skaðabótaskyldu, að stefndi, Snæland Grímsson, hafi, eftir slysið, fest kaup á hjólapalli.

Varakrafa um skipta sök

Stefnandi hafi verið á 49. aldursári er hann slasaðist 13. desember 2007. Hann hafi unnið hjá stefnda, Snæland Grímssyni, frá árinu 2006. Hann hafi áður sinnt sambærilegri viðhaldsvinnu í störfum sínum og áður notað margumræddan stiga við störf sín. Hann hafi sjálfur stillt stiganum upp við verkið. Hann byggi sjálfur á því, að yfirmönnum hans ,,hefði mátt vera fullljós að stórfelld hætta fylgdi verktilhöguninni“, eins og segi í stefnu. Sé fallizt á, að vinnuveitandi beri skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda, sé því óhjákvæmilegt að fella einnig meðábyrgð (eigin sök) á stefnanda vegna slyssins.

Upphafstíma dráttarvaxta sé mótmælt og telji stefndi, að miða eigi við síðara tímamark, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefndu geri ekki tölulegan ágreining um dómkröfur stefnanda. Kostnaður vegna örorkumats og vegna skattframtala sé stefnanda, þar sem stefndi Tryggingamiðstöðin hafi aðeins samþykkt að standa að eins læknis mati vegna uppgjörs á bótaskyldu úr slysatryggingu launþega, en ekki örorkumati á grundvelli skaðabótalaga.

Stefndi vísi til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum um hina almennu sakarreglu, vinnuveitendaábyrgð og meðábyrgð tjónþola. Málskostnaðarkrafa stefndu styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Í marz 2010, eða um tveimur árum áður en mál þetta var höfðað, fóru fram skýrslutökur fyrir dómi í sérstöku vitnamáli vegna slyss stefnanda. Skýrslu gáfu stefnandi, A, B, einn eigenda stefnda Snælands Grímssonar ehf. og rekstrarstjóri yfir bílaflota fyrirtækisins, og C, starfsmaður stefnda Snælands Grímssonar ehf. Lögmenn aðila töldu ekki þörf á frekari skýrslutökum við aðalmeðferð málsins.

Stefnandi byggir á því, að umræddur stigi hafi verið vanbúinn til þess verks, sem hann var notaður við, þegar slysið varð, þar sem ekki hafi verið á honum fullnægjandi öryggisbúnaður. Þá byggir stefnandi á því, að þar sem slysið hafi hvorki verið rannsakað af hálfu Vinnueftirlitsins, né hafi farið fram á því lögreglurannsókn, beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því, að búnaður og aðstæður á vinnustað hafi verið í lagi.

Ágreiningslaust er með aðilum, að umræddur stigi hafi verið í góðu lagi sem slíkur og hafi fullnægt þeim kröfum, sem gerðar eru til einfaldra stiga, sem jafnframt er hægt að nýta sem tröppu. Á stiganum voru gúmmífóðraðir fætur á þeim enda stigans, sem nam við gólf, auk þess sem stiginn var breiðari við neðstu rim, með þverbita, sem reyndar er ekki ljóst, hvaða tilgangi þjónaði.

Stefnandi byggir á því í stefnu, að stiginn hafi runnið undan honum, og er ekki að finna frekari lýsingu á því, hvernig það vildi til. Í framburði sínum fyrir dómi lýsir stefnandi því annars vegar svo, að stiginn hafi runnið undan honum og hann hafi fallið niður og stiginn, eða eitt þrep hans, hafi lent undir vinstra færi hans. Hins vegar lýsti hann atvikum svo, nánar aðspurður, að stiginn hafi runnið til hliðar og hann dottið með stiganum.

Það liggur fyrir, að stefnandi reisti stigann sjálfur upp að bifreiðinni, sem hann var að vinna við, og kveðst hann hafa staðið einhvers staðar á eftir þriðjungi stigans. Stefnandi var ekki með önnur áhöld við vinnuna en vírbursta og einhvers konar tæki til að skafa með, en þegar slysið varð, var hann að nota annað þessara verkfæra. Hann hafði áður unnið á þessum stiga við sams konar vinnu.

Eins og málsatvikum er háttað í máli þessu, verður að telja að um fremur einfalt verk hafi verið að ræða, þar sem stefnandi vann við að skrapa ryð á þaki rútubifreiðar. Stigi sá, sem notaður var til verksins var í alla staði til þess búinn að geta staðið upp við vegg, eða eftir atvikum hlið kyrrstæðrar bifreiðar.

Stefnandi var ekki inntur eftir því við skýrslutökur, hvort hann hefði verið að teygja sig til hliðar með skröpuna, þegar stiginn rann til hliðar, en það er nokkuð ljóst, að til þess að stigi sem þessi renni til hliðar, svo sem hér gerðist, þurfi að koma ójafnvægi á hann af hálfu þess, sem í honum stendur, sé ekki um utanaðkomandi átak að ræða. Hefur stefnandi enda ekki bent á nein þau atvik í umhverfi hans, sem hefðu getað valdið því að stiginn rynni undan honum til hliðar. Þá liggur fyrir, að stefnandi reisti sjálfur stigann upp að bifreiðarhliðinni og ber ábyrgð á því, að hann hafi verið stöðugur, þegar stefnandi fór upp í hann. Þykir því nokkuð ljóst, að slys stefnanda stafi af óhappatilviki, sem stefnandi var sjálfur valdur að. Þykir ósannað, að um vanbúnað við verkið hafi verið að ræða, enda þótt annar búnaður, eins og síðar var tekinn í notkun hjá fyrirtækinu, kunni að hafa verið betur fallinn til slíks verks. Enda þótt slysið hafi ekki verið rannsakað af Vinnueftirliti eða lögregla kvödd á staðinn, þykir ekki sýnt að slík rannsókn hefði getað varpað frekara ljósi á málsatvik, en þess ber að gæta, að stefnandi stóð sjálfur upp eftir slysið, afþakkaði alla hjálp og gekk hjálparlaust út á strætisvagnastöð, þar sem hann tók strætisvagn heim. Máttu fyrirsvarsmenn stefndu því ekki gera sér grein fyrir alvarleika meiðsla stefnanda fyrr en næsta dag, þegar hann tilkynnti þeim um meiðsl sín.

Samkvæmt öllu framansögðu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Snæland Grímsson ehf. og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

Aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.