Hæstiréttur íslands
Mál nr. 81/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Vanreifun
|
|
Miðvikudaginn 1. mars 2000. |
|
Nr. 81/2000. |
MyllanBrauð hf. (Ævar Guðmundsson hdl.) gegn Míþríli ehf. (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Vanreifun.
MB höfðaði mál gegn M til heimtu skuldar. Talið var að mjög hefði skorti á að MB gerði viðhlítandi grein fyrir atvikum málsins í stefnu. Hefði MB ekki bætt úr þessum annmörkum undir rekstri málsins og var ekki talið að það yrði gert síðar með viðhlítandi móti. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2000, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili málið á hendur varnaraðila með stefnu 10. maí 1999 til heimtu skuldar að fjárhæð 72.385 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Málsatvikum var lýst þannig í stefnunni að skuld varnaraðila væri samkvæmt viðskiptareikningi vegna kaupa á vörum frá sóknaraðila, en skuldin hafi 27. janúar 1999 numið fjárhæð dómkröfu hans. Í greinargerð fyrir héraðsdómi vísaði varnaraðili til þess að Sonja Irena Waltersdóttir, sem var stefnt til fyrirsvars fyrir hann, hafi gengið úr stjórn hins stefnda félags ásamt öðrum stjórnarmönnum samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 22. apríl 1998. Þar hafi þess einnig verið getið að framkvæmdastjóri félagsins hafi látið af störfum. Hafi hlutafélagaskrá ekki verið tilkynnt um nýja stjórn félagsins, en um allt þetta hafi sóknaraðila verið kunnugt þegar málið var höfðað, svo sem fram komi í stefnu. Reisti varnaraðili kröfu um sýknu einkum á því að engin skýring væri fram komin frá sóknaraðila um hver hafi pantað frá honum vörurnar, sem hann teldi til skuldar fyrir, með hvaða heimild hlutaðeigandi hafi gert það í nafni varnaraðila og hver hafi tekið við vörunum. Í kjölfar þessara varna lagði sóknaraðili fram eftirrit reikninga á hendur varnaraðila, en þeir voru dagsettir á tímabilinu frá 27. október 1998 til 25. janúar 1999. Með þessum gögnum var þó í engu varpað ljósi á þau álitaefni, sem varnaraðili hreyfði í greinargerð sinni og áður er rakið.
Að gættu því, sem að framan er getið, verður að fallast á með héraðsdómara að mjög skorti á að sóknaraðili hafi gert viðhlítandi grein fyrir atvikum málsins í stefnu, en brýnt tilefni var til að skýra þar sérstaklega þau atriði, sem áðurnefndar varnir lúta að, í ljósi vitneskju sóknaraðila um hvernig háttað var skráningu á stjórn varnaraðila. Úr þessum annmörkum hefur sóknaraðili ekki bætt undir rekstri málsins og verður ekki séð eins og málið er nú vaxið að það verði síðar gert með viðhlítandi móti. Verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Í samræmi við þessi úrslit málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, MyllanBrauð hf., greiði varnaraðila, Míþríli ehf., 30.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2000.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar föstudaginn 4. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Myllunni-Brauði hf., kt. 460963-0289, Skeifunni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 11. maí 1999 á hendur Sonju Irenu Waltersdóttur, kt. 170672-4969, Miðbraut 5, Seltjarnarnesi, sem stjórnarformanni, fyrir hönd Míþríls ehf., kt. 440894-2169, Miðbraut 5, Seltjarnarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða skuld að fjárhæð kr. 72.385,00 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, ásamt síðari breytingum frá 27.02.1999 til greiðsludags auk málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi. Krafizt er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum. Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafizt málskostnaðar til handa stefnda að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Málavextir:
Krafa stefnanda í máli þessu er um greiðslur vegna kaupa stefnda, Míþríls ehf., á vörum hjá stefnanda. Ágreiningur í málinu snýst um það annars vegar, hvort Sonju Irenu Waltersdóttur sé réttilega stefnt f.h. fyrirtækisins Míþríls ehf., en hún var stjórnarformaður fram til 1. september 1997, er stjórnin sagði upp störfum. Tilkynning um þessa breytingu á högum fyrirtækisins barst Hlutfélagaskrá, Hagstofu Íslands, þann 29.04.1998, en ekki hafði verið tilkynnt um skipun nýrrar stjórnar, þegar málið var höfðað. Ágreiningur er einnig um réttmæti krafna stefnanda.
III.
Gangur málsins:
Í þinghaldi þann 25. janúar sl., er aðalmeðferð skyldi fara fram, óskaði lögmaður stefnanda frestunar á henni vegna veikinda fjármálastjóra stefnanda. Sonja Írena Waltersdóttir gaf hins vegar skýrslu f.h. stefnda. Í því þinghaldi vakti dómari málsins athygli lögmanna á því, að engir reikningar liggi fyrir í málinu, sem séu grundvöllur hreyfingalista á dskj. nr. 3. Hreyfingalisti sé stílaður á Kaffi Galdur, C/o Míþríl. Í sóknargögnum sé ekki að finna, að grein sé gerð fyrir tengslum Míþríls og Kaffi Galdurs eða gerð grein fyrir þeim viðskiptum, sem liggja að baki kröfunni. Tjáði dómarinn lögmönnum, að til álita kæmi að vísa bæri málinu frá dómi ex officio, en taldi jafnframt rétt að gefa lögmönnum kost á að flytja málið um þann þátt, áður en til aðalmeðferðar kemur.
Lögmaður stefnanda lagði í framhaldi af því fram endurprentun af 65 reikningum í því skyni að skýra stefnukröfuna. Var málinu því næst frestað til munnlegs málflutnings um formhlið málsins.
Í sama þinghaldi og flutningur um formhlið málsins fór fram, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að leggja fram skriflega vitnaskýrslu til að skýra tengsl fyrirtækjanna, Kaffi Galdurs og Míþríls ehf. Var þeirri kröfu andmælt af hálfu lögmanns stefnda og hafnað með úrskurði dómara.
Stefndi gerði þær kröfur, að málinu verði vísað frá dómi og krafðist málskostnaðar.
Stefnandi gerði þær kröfur, að málinu verði ekki vísað frá dómi.
IV.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningsyfirliti vegna kaupa stefnda á vörum hjá stefnanda, þar sem fram komi, að skuld stefnda við stefnanda hafi, þann 27.01.1999, numið kr. 72.385. Krafizt sé dráttarvaxta að mánuði liðnum frá þeim degi.
Þann 29.04.1998 hafi verið lögð inn tilkynning til hlutafélagaskrár, Hagstofu Íslands, þess efnis að eigendaskipti hefðu orðið hjá Míþríli ehf. þann 01.09.1997, og að þáverandi stjórn hefði sagt upp störfum. HIutafélagaskrá hafi á hinn bóginn ekki verið tilkynnt um skipan nýrrar stjórnar, og með vísan til 3. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög sé þeim, er síðast gegndu stjórnarstörfum, stefnt f.h. Míþríls ehf.
Innheimtutilmæli hafi ekki borið árangur.
Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, einkum l. nr. 39/1922, og reka málið samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991. Einnig sé vísað til 3. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994. Dráttarvaxtakröfur séu gerðar á grundvelli III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 67/1989. Kröfur sínar um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefndu:
Í greinargerð stefnda segir svo, að Sonju Irenu Waltersdóttur, kt.170672-4969, sé stefnt sem stjórnarformanni f.h. Míþríls ehf., þrátt fyrir að stefnandi hafi vitað, að hún hafi ekki haft nein afskipti af félaginu frá 1.09.1997. Sonja hafi falið lögmanni sínum, Jóni Egilssyni hdl., að reka málið fyrir sína hönd og gera þar til greindar dómkröfur.
Stefndi gerði þá aðalkröfu upphaflega, að málinu yrði vísað frá dómi, þar sem röngum forsvarsmanni væri stefnt f.h. Míþríls ehf. Undir rekstri málsins féll hann frá þessari kröfu. Dómkröfur stefnda eru því þær, að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að Sonja sé réttur forsvarsmaður, þá verði stefndi sýknaður af öllum kröfum, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi kveður Árna Steingrím Sigurðsson, kt. 020871-4909, hafa keypt alla hluti í Míþríli ehf. þann 12.08.1997, en félagið hafi rekið verzlun, aðallega með tölvuspil og tölvuvörur, í leiguhúsnæði að Skólavörðustíg 5 Reykjavík, og hafi Árni tekið við rekstinum þann 01.09.1997. Tilgangur félagsins hafi verið sala á tölvuleikjum og tengdum vörum.
Öll þessi viðskipti hafi verið á sama tíma tilkynnt hlutafélagaskrá og nýr forsvarsmaður tilkynntur. Öll þessi gögn hafi stefnandi undir höndum. Það liggi því ljóst fyrir, að Árni S. Sigurðsson sé, frá hausti 1997, einn eigandi að öllum hlutum hlutafélagsins. Ráði hann öllu á hluthafafundum. Hann ráði stjórn og framkvæmdarstjóra og endurskoðendur, ef því sé að skipta, sem og öllum rekstri félagsins (sbr. 55. gr. l. nr. 138/1994, sbr. 49.-51.gr. s.l.). Af öllu þessu sé ljóst, að Árni sé einn forsvarsmaður félagsins og beri að stefna honum fyrir hönd félags síns. Engin tengsl séu milli seljenda og Árna.
Það sé jafnljóst, að Sonja hafi engar heimildir frá sama tíma til að hafa ein eða nein afskipti af félaginu, og hafi hún ekkert fylgzt með rekstri þess eftir kaup Árna. Sé því ekki rétt að stefna henni f.h. félagsins. Ákvæði 40 gr. hlutafjárlaga eigi hér ekki við þar sem eignarhald Árna og forsvar sé eins og að ofan sé rakið, enda hrein undantekningarheimild. Telji stefnandi sér þrátt fyrir allt heimilt að standa á undantekningarákvæði 40. gr., sé rétt að hafa í huga, að hafi engin stjórn eða forsvar verið í félaginu frá 1997, svo sem stefnandi haldi fram, þá sé enginn hæfur frá sama tíma til að skuldbinda félagið í þeim meintu viðskiptum, sem stefnandi haldi fram, að hafi átt sér stað, og því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.
Verði stefnda engu að síður talin réttur forsvarsmaður f.h. hlutafélagsins, styðji hún varakröfur sínar þeim rökum, að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um viðskipti með brauð við hið stefnda félag, svo sem hver hafi pantað vöru í hvert sinn og haft heimild til þess f.h. stefnda? Hver hafi stofnað til viðskiptanna? Hver hafi tekið við vörunni? Hvert hafi verið umfang pöntunar? Hve mikið hafi verið af vörunni? Hvort sá, er tók við vörunni, hafi haft heimild til þess að taka við vöru í nafni stefnda? Hvar vara hafi verið afhent, og hver hafi staðfest, að magn væri rétt? Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um þessi atriði, og ber því að sýkna stefnda. Það sé jafnljóst, að verzlun með brauð og kornvöru eigi ekki undir tilgang félagsins og þurfi því breytingu á tilgangi stefnda svo umfangsmikil kaffibrauðaviðskipti eigi undir félagið.
Stefndi vísar til l. nr. 91/1991 og l. nr. 138/1994, sbr. einnig lög, sem tilgreind séu í stefnu.
V.
Forsendur og niðurstaða:
Málavaxtalýsing í stefnu er afar knöpp. Eingöngu er vísað til þess, að skuldin sé samkvæmt reikningsyfirliti vegna kaupa stefnda á vörum hjá stefnanda, sem hafi numið þann 27.01.1999 stefnufjárhæð. Engin lýsing er á þeim vörum, sem viðskiptin snerust um, eða á hvaða tímabili þau viðskipti fóru fram. Stefndi í málinu er Míþríl ehf., Miðbraut 5, Seltjarnarnesi, en hreyfingarlisti sá, sem er grundvöllur krafna stefnanda, er vegna viðskipta við Kaffi Galdur, sem skráð er "C/o Míþríll, Lækjargötu 10, Reykjavík". Kennitölu er ekki getið í hreyfingarlista. Á hreyfingarlistanum er nafnið Árni Steingrímsson ritað við orðið "Teng", en merking þess er óljós. Kaupandi Míþríls ehf. samkvæmt kaupsamningi, dags. 12. ágúst 1997 er hins vegar Árni Steingrímur Sigurðsson. Engin grein er fyrir því gerð í sóknargögnum, hver tengsl Kaffi Galdurs eru við hið stefnda félag eða við Árna Steingrímsson. Stefnandi lagði fram, svo sem fram er komið, endurprentun af 65 reikningum til skýringar á stefnukröfum. Eru þeir allir stílaðir á Kaffi Galdur, C/o Míþríl. Kemur þar fram kennitala viðskiptamanns, sem er sú hin sama og kennitala Míþríls. Að öðru leyti kemur ekkert fram um tengsl fyrirtækjanna.
Telja verður, að málatilbúnaður stefnanda í stefnu og öðrum sóknargögnum sé ekki með þeim hætti, að samrýmist ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. l. nr. 91/1991. Verður ekki úr slíkum annmarka bætt undir rekstri málsins og ber því að vísa málinu frá dómi. Eftir atvikum ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda kr. 35.000 í málskostnað, en telja verður, að Sonju Irenu Waltersdóttur sé réttilega stefnt fyrir hönd fyrirtækisins með vísan til 3. mgr. 40. gr. l. nr. 138/1994. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar, enda liggur ekki annað fyrir í málinu en að stefndi, Míþríl ehf., sé virðisaukaskattskyldur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Myllan-Brauð hf. greiði stefnda, Míþríli ehf. kr. 35.000 í málskostnað.