Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Nauðung
- Fjárkúgun
- Tilraun
- Hótanir
- Hegningarauki
- Samverknaður
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013. |
|
Nr. 148/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Berki Birgissyni og (Sveinn Guðmundsson hrl.) Sindra Kristjánssyni (Björgvin Jónsson hrl. Eva Hrönn Jónsdóttir hdl.) (Björn Jóhannesson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Nauðung. Fjárkúgun. Tilraun. Hótanir. Hegningarauki. Samverknaður. Vanaafbrotamaður.
A, B og S voru sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa, í félagi með með öðrum, veist að A og þremur öðrum sem hittust fyrir á heimili hans með margvíslegu ofbeldi. Taldi Hæstiréttur að þótt þáttur hvers og eins yrði ekki nákvæmlega aðgreindur væri ljóst að þeir hefðu allir átt þátt í brotinu, hver með sínum hætti og væru því allir aðalmenn í því. A og B voru að auki sakfelldir fyrir hafa í annað sinn í tiltekinni íbúð veist að F og G með þeim hætti að B hefði slegið F með trébarefli á hnakka, en G hefði verið neyddur til að leggjast á magann á gólf þar sem H var neyddur til að kasta yfir hann þvagi auk þess sem B reif í vinstra eyra G með þeim afleiðingum að úr blæddi. Þá voru þeir einnig sakfelldir fyrir tilraun til fjárkúgunar umrætt sinn með því að hafa krafist þess að F greiddi þeim 500.000 krónur daginn eftir og hótað honum frekara ofbeldi yrði hann ekki við kröfum þeirra. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 217. gr., 225. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. A og B voru hins vegar sýknaðir af ákæru um frelsissviptingu H, F og G. Loks var A sakfelldur fyrir líkamsárásir með því að hafa á tiltekinni sólbaðsstofu slegið I oftar en einu sinni í andlitið og tekið hann hálstaki með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og slegið J í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og nokkra bólgu í kringum hægra auga og yfirborðslæg sár á bæði eyru. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir tilraun til fjárkúgunar og hótanir umrætt sinn með því að hafa krafist þess að I og J greiddu honum 500.000 krónur hvort um sig, með hótunum um frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum hans auk þess sem hann hótaði þeim frekara ofbeldi og fjárkúgun ef þeir segðu frá atvikinu. Var háttsemi A talin varða við 1. mgr. 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 233. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar var ekki talið að sannað hefði verið að A hefði svipt I og J frelsi sínu umrætt sinn. Var refsing A ákveðin fangelsi í sjö ár, B í sex ár og S í 20 mánuði. Þá var þeim gert að greiða A skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. og 25. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.
Ákærðu Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til efnismeðferðar, til vara að þeir verði sýknaðir, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefjast þeir aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst ákærði Börkur þess að „sérstaklega verði endurákvarðað málsvarnarlaun verjanda í héraði samkv. framlagðri tímaskrá í héraði og aksturs“.
Ákærði Sindri Kristjánsson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærðu verði dæmdir til að greiða sér 2.563.200 krónur, þar af 463.200 krónur sameiginlega með X, Y, Z, Þ, Æ og Ö, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2012 til 21. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Ákærði Annþór reisir aðalkröfu sína um ómerkingu héraðsdóms í fyrsta lagi á því að ákærðu hafi verið synjað um að fá afhent „annað hvort eintak af mynd- og hljóðdiskum eða orðrétt endurrit“. Ákærði Börkur færir efnislega sömu rök fyrir aðalkröfu sinni. Með úrskurði héraðsdóms 31. ágúst 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. september sama ár í máli nr. 584/2012, var hafnað kröfu ákærða Annþórs og nafngreinds meðákærða um að þeir fengju afrit mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af öllum ákærðu og vitnum í máli þessu. Kemur því ekki til álita að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sökum þess að ákærðu hafi ekki fengið slík afrit afhent. Í endurriti úr þinghaldi 28. september 2012 kom fram að nafngreindur meðákærði í héraði hafi krafist þess að fá „orðrétt endurrit af þeim diskum sem verjendum hefur verið meinuð afhending á.“ Mun hér hafa verið átt við endurrit af skýrslum ákærðu og vitna sem teknar voru upp á mynd- og hljóðdiska. Beindi dómurinn því til ákæruvaldsins að verða við kröfunni ef unnt væri, en af þessu mun ekki hafa orðið og var kröfunni síðan hafnað í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram fengu verjendur aðgang að hljóð- og mynddiskum og gátu borið upptökurnar saman við samantekt lögreglu á því sem fram kom við skýrslutökur hennar. Þá hefur verið lagt fram í Hæstarétti orðrétt endurrit allflestra skýrslna sem sakborningar og vitni gáfu hjá lögreglu. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á að vörn ákærðu hafi orðið áfátt af þessum sökum þannig að varði frávísun málsins frá héraðsdómi. Þá kemur ekki til álita að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þessum sökum.
Ákærði Annþór reisir aðalkröfu sína í öðru lagi á því að saksóknari sem fór með málið í héraði hafi verið vanhæfur til að sinna því verki. Með bréfi til héraðsdóms 19. nóvember 2012, sem lagt var fram undir aðalmeðferð málsins 21. sama mánaðar, krafðist ákærði Annþór þess að málinu yrði vísað frá dómi af þessum sökum með vísan til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og mun ákærði Börkur hafa tekið undir þá kröfu. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með ákvörðun í sama þinghaldi á þeim forsendum að ekki hafi verið sýnt fram á atvik sem leitt gætu til vanhæfis, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í hinum áfrýjaða dómi er nánar lýst á hvaða rökum krafan var reist og forsendum héraðsdóms fyrir þeirri niðurstöðu að hafna henni. Umræddur saksóknari var aðstoðarsaksóknari við ákærusvið lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er hann flutti mál þetta í héraði, en ríkissaksóknari fór með ákæruvald í málinu og tók ákvörðun um útgáfu ákæru. Krafa ákærða er því haldlaus og er henni hafnað.
Ákærði Annþór hefur að auki gert ýmsar aðrar athugasemdir við rannsókn lögreglu. Telur hann að lögregla hafi annars vegar brotið gegn reglu 2. mgr. 53. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta sé leitt í ljós og gæta jafnt að atriðum sem horfi til sýknu og sektar og hins vegar gegn 3. mgr. 63. gr. laganna þar sem segir meðal annars að ekki megi rugla skýrslugjafa með ósannindum. Rannsóknin beri með sér að lögregla hafi hvatt vitni til að leggja fram kæru á hendur honum og lagt áherslu á að afla sönnunar fyrir sekt hans og ákærða Barkar. Samræmi sé ekki milli þess sem komið hafi fram í skýrslum hjá lögreglu og þeirra samantekta sem hún hafi gert eftir skýrslutökur. Lögregla hafi gert eigin skýrslur þar sem greint hafi verið frá hótunum sem beinst hafi að öðrum sakborningum og vitnum án þess að rannsakað hafi verið hvort „fótur sé fyrir slíkum ásökunum.“ Þá hafi rannsókn á vettvangi að [...] í Reykjavík einungis beinst að íbúð, þar sem atvik samkvæmt II. kafla ákæru eigi að hafa gerst, en ekki að stigagangi í húsinu, svo sem ástæða hafi verið til vegna framburðar ákærðu. Loks hafi lögregla við skýrslutöku greint einum meðákærða í héraði frá því að fyrir lægi í málinu að ákærðu hafi skipulagt líkamsárás að [...] í Mosfellsbæ, sem um ræðir í I. kafla ákæru, og að þeir hafi farið fyrstir inn í íbúð þar, en í framhaldi af því hafi meðákærði verið spurður hvort hann gæti staðfest þetta. Þótt fallast megi á að athugasemdir ákærðu séu að einhverju leyti á rökum reistar, meðal annars að því er varðar þá fullyrðingu lögreglu við skýrslutöku af sakborningi að tilteknar upplýsingar um atvik lægju fyrir sem ekki höfðu komið fram, hefur ríkissaksóknari metið rannsókn málsins fullnægjandi, sbr. 1. mgr. 53. gr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, og á grundvelli hennar talið fært að gefa út ákæru í málinu, sbr. 145. gr. laganna. Verður ekki litið svo á að málið hafi verið í því horfi að lokinni rannsókn þess að ríkissaksóknara hafi ekki að réttu lagi verið fært að meta hvort af saksókn ætti að verða. Að því leyti sem annmarkar kunna að hafa verið á rannsókn þeirra atriða, sem að framan greinir, koma þeir til athugunar við mat á því hvort sakir, sem á ákærðu eru bornar, teljist sannaðar og hvort refsiskilyrði um huglæga afstöðu þeirra séu fyrir hendi.
II
Samkvæmt framburði ákærða Sindra og meðákærðu í héraði, X, Y, Z, Þ, Æ og Ö, mun ástæða þess að þeir söfnuðu liði og fóru að [...] í Mosfellsbæ að kvöldi 4. janúar 2012 vera sú að A og B hafi farið við þriðja mann að heimili Z og veist þar að honum og Þ. Er fram komið að skömmu síðar fóru ákærðu og meðákærðu á þremur bifreiðum að heimili A að [...] og hittust þar allir níu samtímis fyrir utan húsið, en samkvæmt myndskeiði úr eftirlitsmyndavél komu þeir þangað kl. 19.01.
Ágreiningslaust er að ákærðu Annþór og Börkur hafi farið fyrstir inn í íbúð A. Myndskeið úr eftirlitsmyndavélinni, sem kann að skeika um tímasetningar um nokkrar mínútur en þó ekki innbyrðis, sýna að kl. 19.04 fóru tveir menn inn í húsið og um mínútu síðar hlupu aðrir að því. Kannast ákærði Annþór og Þ báðir við að sá fyrrnefndi hafi hringt í þann síðarnefnda skömmu eftir að hann fór inn í húsið með ákærða Berki til að láta þá sjö sem biðu fyrir utan vita að óhætt væri að koma þar inn. Kemur þetta heim og saman við gögn sem fyrir liggja í málinu um notkun á tilteknum farsímum. Samkvæmt þeim var hringt úr síma ákærða Annþórs í síma Z kl. 19.07, en Þ hefur fullyrt að hann hafi verið með síma Z þegar hann beið ásamt hinum mönnunum fyrir utan [...] og ákærði Annþór hringdi í hann. Þessi símagögn sýna einnig að samband var milli síma Z og X í nokkur skipti á tímabilinu milli kl. 18.01 og 18.16 þennan dag, síma ákærða Annþórs og A kl. 18.20 og síma ákærða Annþórs og Z fjórum sinnum á tímabilinu frá kl. 18.25 til 18.47. Þá var hringt mínútu síðar úr síma ákærða Annþórs í síma ákærða Barkar og sex mínútum síðar úr síma Z í síma X.
Í hinum áfrýjaða dómi er lýst framburði ákærðu og meðákærðu fyrir dómi og við rannsókn málsins. Kemur þar fram að ákærðu Annþór og Börkur hafi farið óvopnaðir inn í íbúðina að [...] á undan hinum mönnunum til að ræða við A um tiltekna skuld hans. Ákærði Annþór hafi ekkert hafst að á vettvangi að öðru leyti en því að óumdeilt er að hann opnaði fyrir sjömenningunum, sem í framhaldi af því ruddust inn í íbúðina, flestir með barefli, þar á meðal golfkylfur, prik, hafnaboltakylfu, plastsleggju og handlóð. Í hinum áfrýjaða dómi var hafnað þeim framburði ákærða Annþórs að A hafi leyft honum að opna fyrir sjömenningunum, en í því sambandi var vísað til vættis A og þess að ólíklegt væri að hann hefði heimilað þeim inngöngu undir þessum kringumstæðum.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit af skýrslu, sem A gaf fyrir héraðsdómi 30. ágúst 2013, átta mánuðum eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Tilefni skýrslutökunnar var bréf verjanda ákærða Annþórs 4. sama mánaðar til ríkissaksóknara þess efnis að honum hafi borist til eyrna frá skjólstæðingi sínum að A hefði tjáð nafngreindum manni að ákærðu Annþór og Börkur hefðu engan hlut átt að „[...]málinu“. Í samtali sem verjandinn hafi átt á Litla-Hrauni við A, sem hafi afplánað þar refsingu, hafi hann sagst hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna þegar hann gaf skýrslu sína fyrir dómi við aðalmeðferð þessa máls. Jafnframt hafi hann greint frá því að hann hafi gefið ákærða Annþóri leyfi til að hleypa sjömenningunum inn í íbúðina að [...], hann hafi verið undir þrýstingi bæði frá lögreglu og „undirheimunum“ um að leggja fram kæru á hendur ákærðu Annþóri og Berki, en þeir hafi engan lamið. Í skýrslunni 30. ágúst 2013 sagðist A hafa verið „frekar ruglaður“ við skýrslutöku fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, enda þá búinn að vera í daglegri neyslu vímuefna undanfarin þrjú ár. Nánar spurður um hvort hann hafi við þetta tækifæri verið undir áhrifum fíkniefna játti hann því og kvaðst af þeim sökum ekki hafa verið í stakk búinn til að gefa skýrsluna. Hann sagðist hafa verið undir „pressu“ frá lögreglu og „undirheimum“ um að leggja fram kæru, en kvaðst ekki muna hverjir hafi þar átt hlut að máli. Þessi þrýstingur hafi þó einungis lotið að þætti ákærðu Annþórs og Barkar í málinu. Hann hafi ekki verið „alveg með á hreinu“ hver hafi lamið sig 4. janúar 2012 eða hver hafi verið með kylfu. Aðspurður hvort hann hafi séð ákærðu Annþór og Börk hafast eitthvað að eða hvar þeir hafi verið í íbúðinni sagðist A ekki hafa verið að „spá“ í það, enda hræddur um líf sitt. Þá dró hann til baka fyrri framburð sinn um að ákærði Börkur hafi veist að sér og að ákærði Annþór hafi hleypt umræddum mönnum inn í íbúðina í leyfisleysi. Hann tjáði sig á hinn bóginn ekkert um það hvort hann hefði heimilað inngöngu mannanna hefði hann vitað að þeir væru vopnaðir bareflum.
A neitaði því fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hefði veitt ákærða Annþóri heimild til að hleypa sjömenningunum vopnuðum inn og var það í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu 19. mars 2012. Að virtum aðdragandanum að því að A dró framburð sinn til baka, sem einvörðungu laut þó að þætti ákærðu Annþórs og Barkar í málinu, og þess að hann hafði áður borið á annan veg um atvik málsins bæði fyrir dómi og við rannsókn þess verður ekki byggt á þessari síðbúnu skýrslu, enda er ekkert komið fram sem styður þá fullyrðingu A að hann hafi verið undir áhrifum vímuefna þegar hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Af gögnum málsins og því sem rakið hefur verið hér að framan er ljóst að ákærði Sindri og meðákærðu í héraði ruddust inn í íbúðina að [...] búnir bareflum. Á leiðinni á staðinn höfðu ákærðu Börkur og Annþór og meðákærðu verið í símsambandi eins og nánar hefur verið lýst og komu samtímis öðrum á staðinn. Þá er fram komið að áður en til inngöngu var ráðist hafði ákærði Annþór gert þeim sem biðu fyrir utan húsið viðvart um að óhætt væri að koma inn. Höfðu hann og ákærði Börkur aðeins verið þar í örfáar mínútur þegar ákærði Sindri og hinir sex sem með honum voru ruddust inn eftir að ákærði Annþór hafði opnað fyrir þeim. Eins og að framan segir komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að ákærði Annþór hafi haft heimild til þess að hleypa mönnunum inn með barefli, en taldi á hinn bóginn sannað að það hafi verið samantekin ráð ákærðu og meðákærðu að fara inn í íbúðina í þeim tilgangi að ráðast á A. Ákærðu og meðákærðu, að undanskildum X og Y, kusu að tjá sig lítið sem ekkert við lögreglurannsóknina og mat héraðsdómur framburð þeirra fyrir dómi meðal annars í því ljósi að þeir hefðu fyrir skýrslugjöf þar haft öll rannsóknargögn undir höndum og sýnt væri að þeir hefðu samræmt framurð sinn fyrir dómi. Verður niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi framburðar ákærðu og vitna ekki endurmetin fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, enda eru í ljósi alls þess sem að framan er getið ekki efni til að draga það mat héraðsdóms í efa, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Ákærði Sindri og meðákærðu í héraði voru sem fyrr segir flestir með barefli þegar ákærðu Annþór og Börkur hittu þá fyrir utan húsið að [...]. Hlaut ákærðu í síðasta lagi þá að hafa orðið ljóst að til hafi staðið að beita valdi þegar inn í íbúðina yrði komið. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði Annþór hafi komið að atvikum með þeim hætti sem þar er lýst.
Vitnið A hefur skýrt svo frá bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi að ákærði Börkur hafi verið einn þeirra sem hafi veist að honum, en vætti hans um það hvaða barefli ákærði hafi notað var á reiki. Það sama er að segja um vætti D. Framburður Y fyrir lögreglu um að ákærði Börkur hafi veist að A var mjög óstöðugur. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á þessum framburði. Á hinn bóginn fær vitnisburður B um að ákærði Börkur hafi ráðist á sig með kylfu stuðning í samhljóða og staðföstu vætti Y um þetta við rannsókn málsins. Héraðsdómur mat breyttan framburð þess síðastnefnda fyrir dómi ótrúverðugan, en skýrlega kom fram í skýrslum hans hjá lögreglu að hann óttaðist mjög hefndaraðgerðir vegna vættis síns þar. Telst samkvæmt framansögðu sannað að ákærði Börkur hafi veist að B með kylfu greint sinn. Af framburði annarra fyrir dómi verður ekki ráðið að ákærði Börkur hafi veist að öðrum og er það því ósannað.
Í framburði ákærðu, meðákærðu og vitna hefur komið fram að þáttur ákærða Sindra í atburðunum að [...] hafi aðallega falist í því að brjóta hluti eftir að inn var komið. Hann ruddist hins vegar inn í íbúðina í hópi sjö manna, sem voru búnir bareflum, eins og lýst hefur verið.
Þegar allt framangreint er virt og litið jafnframt til vottorða lækna og vættis þeirra fyrir dómi, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður staðfest niðurstaða hans um að ákærðu Annþór, Börkur og Sindri hafi í félagi við meðákærðu í síðasta lagi fyrir utan húsið að [...] sammælst um að veitast að A og félögum hans með hættulegum bareflum með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Þótt þáttur hvers og eins verði ekki nákvæmlega aðgreindur er ljóst af því sem rakið hefur verið að þeir áttu allir þátt í því, hver með sínum hætti, að veist var að mönnum sem hittust þar fyrir og voru ákærðu með því allir aðalmenn í brotinu sem þeir eru ákærðir fyrir. Er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæðis í hinum áfrýjaða dómi.
III
Í inngangi II. kafla ákæru var ákærðu Annþóri og Berki gefið að sök að hafa 15. desember 2011 farið ásamt meðákærðu X og Z „og óþekktum mönnum“ inn í íbúð að [...] í Reykjavík vopnum búnir og framið þar í félagi hegningarlagabrot, sem nánar voru tilgreind í niðurlagi þessa kafla. Var verknaði þeirra, sem talinn var fyrirfram skipulagður, nánar lýst í fjórum liðum.
Málsatvikum og framburði ákærðu og vitna við rannsókn málsins og fyrir dómi eru gerð ítarleg skil í hinum áfrýjaða dómi.
Í 1. lið þessa kafla ákæru er ákærðu gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa veist að F aftan frá, en ákærði Börkur hafi slegið hann með trébarefli í hnakka þannig að hann féll í gólfið með nánar greindum afleiðingum. Ákærðu vildu lítið sem ekkert tjá um þessar sakargiftir við rannsókn málsins, en fyrir dómi var framburður þeirra í öllum meginatriðum samhljóða. Hefur héraðsdómur metið þennan framburð ótrúverðugan eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Vitnið F bar í skýrslum hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði Börkur hafi slegið hann í hnakkann með priki eða spýtu. Á sama veg bar vitnið M í skýrslu hjá lögreglu, en héraðsdómur mat afturhvarf hans frá þeim framburði ótrúverðugt, eins og rökstutt er nánar í hinum áfrýjaða dómi, og verður því byggt á fyrri skýrslu vitnisins. Í dóminum eru réttilega rakin gögn um notkun nánar tilgreindra síma aðfaranótt 15. desember 2011 að öðru leyti en því að nöfnum M, F og ákærða Barkar er ranglega víxlað í umfjöllun um fyrstu fjögur símtölin. Er þar komist að þeirri niðurstöðu að gögn þessi hafi verið í samræmi við framburð M og F í málinu, svo og framburð M þess efnis að hann hafi látið ákærða Börk vita af komu F í [...] greint sinn. Jafnframt er þess getið í hinum áfrýjaða dómi að á umræddum tíma hafi símar ákærðu Annþórs og Barkar komið inn á senda í Hafnarfirði, meðal annars við [...]. Benda þessi gögn til þess að símar ákærðu Annþórs og Barkar hafi fylgst að á leiðinni frá Hafnarfirði inn í Grafarvog og þaðan í Breiðholt. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um þennan ákærulið, þar á meðal um heimfærslu brota ákærðu til refsiákvæða. Með sama hætti er staðfest niðurstaða dómsins um að ákærðu hafi fyrirfram skipulagt verknaðinn og farið á staðinn ásamt fjórum mönnum búnir bareflum í þeim tilgangi að veitast að vitninu F.
Í 2. lið er ákærðu gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás og ólögmæt nauðung með því að hafa veist að G, neytt hann til að leggjast á magann á gólfið, staðið á höndum hans og haldið honum þannig á meðan kastað hafi verið yfir hann þvagi. Auk þess er ákærða Berki gefið að sök að hafa slegið G nokkrum höggum á hnakkann með trébarefli og rifið í vinstra eyra hans með þeim afleiðingum sem getið er í þessum lið ákæru.
Í 3. lið eru ákærðu á hinn bóginn sakaðir um að hafa neytt H til að kasta þvagi á G, sbr. 2. lið. Í héraðsdómi er að nokkru lýst vitnisburði G, F, M og H og trúverðugleiki framburðar þeirra metinn. Bar F fyrir dómi að G hafi verið „tekinn upp við glugga og haldið þar“ og vitnið M sagði við rannsókn málsins að G hafi legið á maganum á gólfinu þegar pissað var yfir hann. Framburður G um að annars vegar hafi verið staðið á höndum hans og hins vegar að ákærði Börkur hafi slegið hann með trébarefli í hnakka fær á hinn bóginn hvorki stoð í framburði vitna né öðrum gögnum og verða ákærðu því sýknaðir af þeirri háttsemi. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu varðandi þessa tvo ákæruliði. Háttsemi ákærðu er rétt heimfærð til refsiákvæða að því undanskildu að líkamsárás þeirra varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í 4. lið eru ákærðu sakaðir um frelsissviptingu og tilraun til fjárkúgunar, eins og nánar er lýst í ákæru. Í héraðsdómi er framburði vitna sem getið er í þessum kafla ákæru lýst nánar. Samkvæmt símagögnum kom sími ákærða Barkar inn á sendi skammt frá vettvangi á tímabilinu frá kl. 1.09 til 1.50 og sími ákærða Annþórs kl. 1.32, sem bendir til að þeir hafi verið lengur á vettvangi en þeir hafa borið um. Vitnið F taldi sig ásamt H og G hafa verið svipt frelsi um eina klukkustund. Vitnið M sagðist aðspurður ekki vita það, en giskaði á 45 til 60 mínútur. Vitnisburðar G nýtur ekki við um hvenær ákærðu komu á vettvang, en hann kvaðst á hinn bóginn hafa farið þaðan um kl. 1.30. F kvaðst hafa farið „beint upp á slysó“ eftir að ákærðu fóru af staðnum og um það bar vitnið H líka. Þessi framburður er hins vegar í andstöðu við gögn í málinu sem sýna að sími F kom kl. 2.35 inn á sendi í Hafnarfirði, og samkvæmt læknisvottorði 12. mars 2012 kom F á slysadeild kl. 3.54 um nóttina. Þegar framangreint er virt er ekki komin lögfull sönnun fyrir því að umræddir menn hafi verið sviptir frelsi sínu í skilningi 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga á meðan ákærðu voru inni í íbúðinni að [...]. Í þessum lið ákæru eru ákærðu einnig sakaðir um tilraun til fjárkúgunar, eins að framan getur, annars vegar með því að krefjast þess að F greiddi þeim 500.000 krónur daginn eftir og hins vegar að G greiddi þeim 200.000 krónur á mánuði í ótiltekinn tíma. Um það fyrrgreinda hefur F staðfastlega borið bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi og fær framburður hans stoð í vætti M. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir þennan verknað og varðar hann við 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn hefur framburður G um síðargreint tilvik hvorki stoð í framburði vitna né öðrum gögnum málsins og verða ákærðu því sýknaðir af þeim sakargiftum.
IV
Í IV. kafla ákæru er ákærða Annþóri gefið að sök að hafa framið nánar tilgreind hegningarlagabrot 12. október 2011 í húsnæði sólbaðsstofunnar [...] að [...] í Hafnarfirði gegn I og J.
Í 1. lið þessa kafla ákæru er ákærði Annþór sakaður um sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að og slegið I nokkur högg í andlit og líkama, tekið um háls hans með kverkataki, haldið honum upp við vegg og ekki sleppt takinu fyrr en hann missti meðvitund, látið hann falla í gólfið og slegið hann ítrekað þar sem hann lá með þeim afleiðingum sem lýst er í þessum lið ákærunnar. Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið I „svæfingartaki“, en við það hafi hann lyppast niður og fallið á gólfið. Ákærði hafi sett flatan lófa í andlit I tvisvar til þrisvar sinnum til að vekja hann. Á hinn bóginn neitaði ákærði að hafa slegið I í andlitið þar sem hann lá á gólfinu. Y kom með I og J á vettvang, þar sem ákærði Annþór var fyrir. Y sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að það hafi liðið yfir annan strákanna þegar ákærði „var að kyrkja hann“ og ákærði hafi slegið þá báða í andlitið. Héraðsdómur mat breyttan framburður Y fyrir dómi ótrúverðugan með þeim rökum sem lýst var í II. kafla hér að framan. Verður því byggt á framburði hans hjá lögreglu um þetta. Vitnið J sagði einnig fyrir dómi að ákærði hafi slegið I „einu sinni eða tvisvar“. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er sannað að ákærði hafi slegið I í andlitið oftar en einu sinni og tekið hann hálstaki með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund. Sú aðferð að taka mann hálstaki með framangreindum afleiðingum er stórháskaleg og verður því sú háttsemi ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í þessum lið heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur játað að hafa slegið J í andlitið með flötum lófa og hrint honum þannig að hann hafi hrasað, en neitar öðrum sakargiftum í 2. lið þessa kafla ákæru. Samkvæmt vottorði læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss 21. mars 2012, sem staðfest var fyrir dómi, var J með mar og nokkra bólgu kringum hægra auga og yfirborðslæg sár á báðum eyrum er hann leitaði þangað 16. október 2011. Fyrir dómi kvaðst J hafa sjálfur veitt sér þessa áverka, en í skýrslu hjá lögreglu bar hann á annan veg eins og fram kemur í héraðsdómi. I bar hjá lögreglu að ákærði hafi lamið og traðkað á J, en um þetta var hann ekki spurður fyrir dómi, enda kvaðst hann þar lítið muna eftir atvikum. Auk þess að byggja niðurstöðu sína á játningu ákærða og áðurnefndu vottorði, reisti héraðsdómur hana á framburði vitnanna hjá lögreglu án þess að séð verði að dómurinn hafi í niðurstöðu sinni metið trúverðugleika framburðar þeirra fyrir dómi í ljósi afturhvarfs frá fyrri framburði. Var þetta þó nauðsynlegt að svo miklu leyti sem framburður vitnanna var óstöðugur, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu og með vísan til þess sem að framan er rakið er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði hafi veist að J og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Varðar þessi háttsemi við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Aðrar sakir sem á ákærða eru bornar í þessum lið eru ekki studdar framburði vitna né öðrum gögnum og eru því ósannaðar.
Í 3. lið þessa kafla ákæru er ákærða gefin að sök frelsissvipting og tilraun til fjárkúgunar gagnvart I og J og í 4. lið hótanir, allt eins og nánar er þar lýst. Í héraðsdómi er rakinn framburður ákærða og vitna hjá lögreglu og fyrir dómi. Þar kemur fram að ákærði neitar sakargiftum, en kannast við að hafa sagt I og J að endurgreiða skuld. I skýrði svo frá í skýrslu hjá lögreglu að ákærði hafi „sektað“ þá J um 500.000 krónur hvorn og sagt að þeir ættu að greiða féð strax daginn eftir. Þetta yrði „eilíf skuld“ ef þeir segðu frá. Héraðsdómur mat breyttan framburð ótrúverðugan. Fær sá framburður sem þar var lagður til grundvallar stoð í vætti C fyrir dómi, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Samkvæmt þessu er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að ákærði hafi gerst sekur um tilraun til fjárkúgunar eins og nánar er lýst í 3. lið þessa kafla ákæru, auk hótana um frekara ofbeldi og fjárkúgun eins og greinir í 4. lið hennar. Varðar brotið í 3. lið við 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en í 4. lið við 233. gr. sömu laga. Þegar á hinn bóginn er litið til framburðar vitna, sem rakið er í héraðsdómi, er ekki gegn neitun ákærða komin fram lögfull sönnun þess að hann hafi svipt I og J frelsi þann tíma sem brotin sem rakin hafa verið í þessum kafla stóðu, enda eru engin frekari gögn í málinu til staðfestu því hversu langur sá tími var. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum um brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.
V
Í héraðsdómi er sakaferill ákærðu Annþórs og Barkar rétt rakinn. Með dómi Hæstaréttar 21. febrúar 2013 í máli nr. 497/2012 var staðfest sex mánaða fangelsisrefsing sem ákærði Börkur hlaut 27. júní 2012 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 234. gr. almennra hegningarlaga. Að teknu tilliti til þess að ákærðu eru hér sýknaðir af brotum sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærðu Annþórs og Barkar verður hún staðfest. Jafnframt er staðfest niðurstaða hans um frádrátt gæsluvarðhalds þeirra.
Ákærði Sindri gekkst á árunum 2011 og 2012 sex sinnum undir viðurlagaákvörðun með sektargreiðslu fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot, en auk þess var honum gert að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot með dómi 20. október 2011. Þá var hann dæmdur 27. apríl 2012 í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Með dómi 12. desember sama ár hlaut hann 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað, brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og vopna-, fíkniefna- og umferðarlagabrot. Dómurinn frá 27. apríl 2012 var þá jafnframt dæmdur upp. Það brot sem ákærði Sindri hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið áður en dómarnir frá 27. apríl og 12. desember 2012 voru kveðnir upp. Ber því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp refsingu hans samkvæmt síðastnefndum dómi og gera honum refsingu í einu lagi fyrir öll brotin eftir 78. gr. sömu laga. Ákærði Sindri var 18 ára að aldri er hann framdi brot sitt, sem lýst er í II. kafla hér að framan. Við refsingu hans verður litið þess að brot hans var alvarlegt og unnið í félagi við aðra. Með vísan til alls þessa er refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Um frádrátt gæsluvarðhalds sem ákærði hefur sætt fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að refsing ákærða Sindra Kristjánssonar er ákveðin fangelsi í 20 mánuði, en til frádráttar henni komi gæsluvarðhald sem hann sætti frá 15. til 21. mars 2012.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.506.000 krónur.
Ákærði Börkur Birgisson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.
Ákærði Sindri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 1.004.000 krónur.
Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, 488.773 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað með tveimur ákærum, þeirri fyrri af ríkissaksóknara, útgefinni 3. maí sl., á hendur ákærðu Annþóri Kristjáni Karlssyni, kt. [...], [...], , Berki Birgissyni, kt. [...], [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], Y, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...], Sindra Kristjánssyni, kt. [...], [...], [...], Þ, kt. [...], [...], [...], Æ, kt. [...], [...], [...], Ö, kt. [...], [...], [...], og C, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
I.
„Á hendur ákærðu Annþóri Kristjáni, Berki, X, Y, Z, Þ, Æ og Ö fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2012, í íbúð að [...] í Mosfellsbæ, heimili A, í félagi veist að A, kennitala [...], B, kennitala [...], D, kennitala [...], og E, kennitala [...], sem hér greinir:
Í kjölfar sameiginlegrar ákvörðunar fóru ákærðu akandi saman og vopnum búnir að [...], sem þeir höfðu ákveðið fyrirfram, og er þangað var komið fóru ákærðu Annþór Kristján og Börkur fyrstir inn í íbúðina, en þeim var boðið inn af A. Á meðan biðu ákærðu X, Y, Z, Sindri, Þ, Æ og Ö fyrir utan, uns ákærði Annþór Kristján gaf þeim merki um inngöngu með því að hringja í síma eins þeirra, og hleypti þeim síðan öllum í heimildarleysi inn í íbúðina. Ákærðu veittust þá þegar að A, B, D og E, með því að slá þá ítrekað víðs vegar um líkama og í höfuð með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. golfkylfum, sleggju með haus úr harðplasti, kylfum, handlóðum og tréprikum, og með þeim hætti að brotaþolarnir áttu hvorki kost á því að komast undan ákærðu né verjast.
Afleiðingar af árásinni urðu eftirfarandi:
A hlaut þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og 6 cm opinn skurð á framanverðum sköflungnum, brot á hægri hnéskel og bólgu í kringum hnéð, fjölda yfirborðsáverka á fótlegg og fjölda yfirborðsáverka á úlnliðum og handleggjum.
B hlaut stjörnulaga sár á hnakka, sem var allt að 3 cm í þvermál, skrapsár á báðar axlir, stórt mar á vinstri upphandlegg, stórt mar á miðjan framhandlegg, mar á báða framhandleggi, brotinn beinnabba fremst á vinstri öln, og sprungu á húð á vísifingri hægri handar.
D hlaut flipalaga skurð á enni.
E hlaut höggáverka á fætur og höfuð og sár á hægri fót.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2012-665
II.
Á hendur ákærðu Annþóri Kristjáni og Berki fyrir hegningarlagabrot, framin í félagi aðfaranótt fimmtudagsins 15. desember 2011 í íbúð að [...] í Reykjavík, en ákærðu höfðu fyrirfram skipulagt verknaðina og fóru þangað ásamt ákærðu X og Z og óþekktum mönnum, og vopnum búnir, sem hér greinir:
1. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að F, kennitala [...], aftan frá en ákærði Börkur sló hann með trébarefli á hnakka þannig að hann féll á gólfið, með þeim afleiðingum að F hlaut skurð hliðlægt vinstra megin á höfuð sem sauma þurfti með 7 sporum.
2. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa veist að G, kennitala [...], neytt hann til að leggjast á magann á gólfið, staðið á höndum hans og haldið honum þannig á meðan kastað var yfir hann þvagi, auk þess sem ákærði Börkur sló G með trébarefli nokkrum höggum á hnakkann og reif í vinstra eyra hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut höggáverka á hnakka og rifu á vinstra eyra sem úr blæddi.
3. Fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa neytt H, kennitala [...], með hótunum um ofbeldi til þess að kasta af sér þvagi yfir vin hans, G, þar sem hann lá á gólfinu, eins og lýst er í ákærulið II.2.
4. Fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgana með því að hafa krafist þess að F greiddi þeim 500.000 krónur daginn eftir og að G greiddi þeim 200.000 krónur á mánuði um ótiltekinn tíma og hótað þeim frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum þeirra.H, F og G voru sviptir frelsi sínu og áttu þess ekki kost að komast út úr íbúðinni á meðan ákærðu voru þar, eða allt að klukkustund, vegna hótana, ógnana, nauðungar og ofbeldis af þeirra hálfu, og yfirgáfu ákærðu ekki íbúðina fyrr en F og G höfðu samþykkt að verða við kröfum ákærðu um greiðslu fjárins.
Telst háttsemin sem lýst er í ákæruliðum II.1 og II.2 varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í ákærulið II.2 auk þess við 225. gr., í ákærulið II.3 við 225. gr. sömu laga, og í ákærulið II.4 við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.
M. 007-2012-13402
III.
Á hendur ákærðu X og Z fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í kafla II með því að hafa farið með ákærðu Annþóri Kristjáni og Berki, ásamt óþekktum mönnum, í íbúðina að [...], vitandi hvað til stóð, og er í íbúðina var komið, haft það hlutverk að vera liðsauki og ógnun gagnvart H, F og G á meðan á brotum ákærðu Annþórs Kristjáns og Barkar gegn þeim stóð, og þannig veitt þeim liðsinni í verki.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
M. 007-2012-13402
IV.
Á hendur ákærða Annþóri Kristjáni fyrir hegningarlagabrot, framin miðvikudaginn 12. október 2011 í húsnæði sólbaðsstofunnar [...] að [...] í Hafnarfirði, sem hér greinir:
1. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa veist að I, kennitala [...], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, tekið um háls hans með kverkataki, haldið honum í takinu uppi við vegg og ekki sleppt takinu fyrr en I missti meðvitund, og að hafa þá látið hann falla á gólfið og slegið hann ítrekað í andlit þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að I hlaut glóðarauga og höggáverka í andlit.
2. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að J, kennitala [...], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, skipað honum að leggjast á gólfið, sparkað í líkama hans og höfuð og staðið á höfði hans þar sem hann lá, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og nokkra bólgu í kringum hægra auga og yfirborðssár á bæði eyru.
3. Fyrir frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgana með því að hafa krafist þess að I og J greiddu honum 500.000 krónur hvor um sig, með hótunum um frekara ofbeldi ef þeir yrðu ekki við kröfum hans. I og J voru sviptir frelsi sínu og áttu þess ekki kost að komast út úr húsnæðinu vegna framangreindra hótana, ógnana og ofbeldis af hálfu ákærða Annþórs Kristjáns, fyrr en þeir höfðu samþykkt að verða við kröfu ákærða um greiðslu fjárins.
4. Fyrir hótanir með því að hafa hótað I og J frekara ofbeldi og fjárkúgunum ef þeir segðu frá brotum ákærða gagnvart þeim, með þeim orðum að þeir færu þá í áskrift hjá honum, sem væri ævilöng skuld við hann.
Telst háttsemin sem lýst er í ákæruliðum IV.1 og IV.2 varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í ákærulið IV.3 við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr. og 251. gr., sbr. 20. gr. sömu laga og í ákærulið IV.4 við 233. gr. sömu laga.
M. 007-2012-14588
V.
Á hendur ákærðu Y og C fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í kafla IV með því að hafa farið með I og J, sem þeir töldu sig eiga sökótt við, að [...] í þeim tilgangi að leiða þá fyrir ákærða Annþór Kristján, verið með honum í húsnæðinu á meðan á brotum hans gegn piltunum stóð og á þann hátt verið liðsauki og ógnun við þá, og þannig veitt ákærða Annþóri Kristjáni liðsinni í verki.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr. 226. gr., 251. gr., sbr. 20. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, allt sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
M. 007-2012-14588
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Síðari ákæran er á hendur Y, kt. [...], í málinu S-[...]/2012, útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann [...] 2012.
„Fyrir þjófnað með því að hafa:
1) föstudaginn 4. maí 2012, stolið snyrtivöru úr verslun Hagkaupa, við [...].
Mál nr. [...]
2) laugardaginn 5. maí 2012, stolið snyrtivöru úr verslun Hagkaupa, við [...].
Mál nr. [...]
Verðmæti stolinna vara í liðum 1) og 2) eru alls kr. 47848,00.
Telst þetta brot varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa:
3) þann 08. apríl 2012, ekið bifreiðinni [...], skráða í eigu K, kt. [...], norður Norðurhóla við Hrafnhóla í Reykjavík, undir áhrifum fíkniefna (magn amfetamíns í blóði mældist 295 ng/ml. og magn Tetrahýdrókannabínóls í blóði mældist 1,9 ng/ml.) og sviptur ökuréttindum.
Mál nr. [...]
4) þann 24. apríl 2012, ekið bifreiðinni [...], skráða í eigu K, kt. [...], eftir Suðurhólum, við Dúfnahóla í Reykjavík, sviptur ökuréttindum.
Mál nr. [...]
Teljast þessi brot varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Þess er krafist að Y verði dæmdur til refsingar, ökuleyfissviptingar sbr. 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa vegna brota þeirra sem fram koma í kafla I hér að ofan, sem gerð hefur verið af L, [...] Haga hf., þar sem þess er krafist að hinn ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 47.848,00 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða þann 05. maí 2012, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Framhaldsákæra var þingfest þann 21. september 2012 í málinu S-406/2012, þar sem breyting var gerð á einkaréttarkröfunni þannig: „Vegna ákæruliðar I er af hálfu A, kt. [...], gerð sú krafa á hendur ákærðu X, Y, Sindra Kristjánssyni, Æ og Ö að þeir verði in solidum dæmdir til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð kr. 150.000 samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miskabætur að fjárhæð 2.500.000 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sömu laga, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. janúar 2012, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að hinum ákærðu verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðari framlögðum málskostnaðarreikningi, sbr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Við upphaf aðalmeðferðar lagði réttargæslumaður brotaþola A fram bókun til leiðréttingar á ákærunni og framhaldsákærunni þess efnis að allir ofangreindu ákærðu, utan ákærða C, verði, in solidum innbyrðis, dæmdir til að greiða A, kt. [...], skaðabætur og miskabætur, sbr. bótakröfu í ákæru. Var bókun þessari og lagfæringu á bótakröfunni ekki mótmælt af hálfu ákærðu.
Ákærðu neituðu allir sök í ofangreindum ákæruliðum og kröfðust sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærðu mótmæltu bótakröfunni. Þá var krafist málskostnaðar fyrir hönd allra ákærðu og þess að hann greiddist úr ríkissjóði.
Þá var mál nr. S-[...]/2012, ákæruvaldið gegn Y, kt. [...], [...], [...], sameinað þessu máli með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008.
Við þingfestingu málsins S-818/2012, játaði ákærði Y skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I-1, en neitaði sök í ákærulið I-2. Ákærði játaði sök í ákærulið II. Þá samþykkti ákærði bótakröfu varðandi ákærulið I-1 en hafnaði bótakröfum að öðru leyti. Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákærulið I-2. Þá mótmælti verjandi ákærða bótakröfunni þar sem ekki sé ljóst við hvaða ákærulið hvor bótakrafan á.
Eftir að aðalmeðferð hófst kröfðust verjendur ákærða Annþórs, Barkar og Z að málinu yrði vísað frá dómi. Í fyrsta lagi vegna vanhæfis sækjanda málsins, Karls Inga Vilbergssonar, og í öðru lagi vegna þess að orðrétt endurrit höfðu ekki verið afhent verjendum af skýrslutökum í hljóði og mynd á rannsóknarstigi.
Aðalmeðferð málsins fór fram dagana 19. til og með 22. nóvember sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
I.
Vanhæfi.
Við upphaf aðalmeðferðar krafðist verjandi Annþórs Kristjáns þess að málinu yrði vísað frá dómi vegna vanhæfis saksóknara til að fara með málið með vísan til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008. Tóku verjendur Barkar Birgissonar og Z undir þá kröfu.
Byggði verjandinn á því að sækjandi málsins, Karl Ingi Vilbergsson, hafi lent í átökum við einn ákærða í máli þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júní sl. Lagði verjandinn fram útprentun af fréttamiðlinum mbl.is frá sama degi þar sem fluttar voru fréttir af því að til handalögmála hafi komið í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Börkur Birgisson kom í dómhúsið. Segir í fréttinni að aðalmeðferð í máli gegn Berki Birgissyni fari þann dag fram í héraðsdómi en fyrr um morguninn hafi átt sér stað óvænt uppákoma þegar lögreglumenn hafi neyðst til að yfirbuga ungan mann á sama tíma og verið var að leiða Börk inn í dómsalinn. Þá byggir hann á frétt frá RÚV daginn eftir en þar segir að þrátt fyrir mikinn viðbúnað lögreglu í héraðsdómi, þegar Börkur Birgisson var færður fyrir dómara í járnum, hafi komið til átaka þegar ungur maður í annarlegu ástandi hafi veist að lögreglumönnum. Þá segir að saksóknari hafi skorist í leikinn og að kalla hafi þurft eftir aðstoð sérsveitarmanna. Þá segir enn í fréttum RÚV 26. janúar sl. að ungur maður hafi veist að lögreglumönnum og saksóknari hafi skorist í leikinn. Óskaði verjandi Annþórs eftir því að einn ákærði í máli þessu gæfi skýrslu sem vitni eftir að skýrslutökum var lokið vegna þessa en því var hafnað af dóminum. Var sú krafa of seint fram komin en ákæra í máli þessu var gefin út þann 3. maí sl. af ríkissaksóknara sem síðan fól saksóknara lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fara með málið. Í máli þessu voru haldnar átta fyrirtökur áður en til aðalmeðferðar kom auk þess sem dómsformaður hélt sérstakan fund með verjendum 2. nóvember sl. þar sem farið var yfir skipulagningu málsins við aðalmeðferð og hugsanlega annmarka á málsmeðferðinni svo og hvort einhverjar kröfur ættu eftir að koma fram sem vitað væru um og úrskurða krefðust úrskurðar. Aldrei á því stigi var minnst á að verjendur drægu hæfi saksóknara í efa. Ekki fyrr en eftir að aðalmeðferð málsins hófst, þann 19. nóvember sl., kom þessi krafa fram. Var byggt á því að verjandinn hefði ekki fengið þær upplýsingar sem hann byggði á fyrr en deginum áður. Vísaði verjandi ákærða til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008.
Dómurinn telur ekkert hafa fram komið, í þeim gögnum sem verjandinn lagði fram máli sínu til stuðnings, sem sýni að draga megi óhlutdrægni sækjanda málsins í efa og er þessari kröfu verjanda hafnað.
Þá krafðist verjandi Z frávísunar málsins frá dómi þar sem rannsókn málsins hafi verið ábótavant og verjendur ekki fengið gögn afhent eins og lög geri ráð fyrir. Hafi verjendum verið neitað um að fá orðrétt endurrit af skýrslum ákærðu og vitna fyrir aðalmeðferð málsins og komi það sannanlega niður á vörn þeirra. Því til staðfestu lagði verjandi Barkar Birgissonar fram samantekt þar sem hann vildi sýna fram á misræmi í skýrslutökum í hljóði og mynd og svo í samantekt lögreglu.
Vísaði sækjandi til þess að samkvæmt reglugerð nr. 651/2009, sem sett væri með stoð í 3. ml. 2. mgr. 28. gr., 67. gr. og 4. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008, sé valkvætt í hvaða formi skýrslutökur á rannsóknarstigi séu lagðar fram og hafi þeim reglum verið fylgt. Þá hafi verjendur allir sem einn fengið aðgang að hljóð- og mynddiskum og getað borið saman samantekt lögreglu og upptöku.
Verjandi Barkar Birgissonar lagði fram á öðrum degi aðalmeðferðar, dómskjal nr. 59, helstu niðurstöður yfir mynddiska og samanburði við samantektir lögreglu. Þar segir m.a. um samantekt lögreglu vegna framburðar X 16. mars sl. að lögregla hafi sagt X ósatt við yfirheyrslur. „Eftirfarandi er sett í samantekt: [...]: Nú hefur nafn þitt verið nefnt að ætluðum samverkamönnum, hvernig getur þú útskýrt það? X: Ég var ekki á staðnum. Ég er ekki þeir.“ Þá segir: „Réttur framburður er þannig: [...]: Nú hefur nafn þitt verið nefnt af ætluðum samverkamönnum, þannig að það eru fleiri grunaðir í þessu máli og þeir hafa nefnt þig að þú hafir verið þarna með þeim “ Síðan segir: „Lögreglumaðurinn segir ósatt. Þarna er hann að spyrja um [...]hluta málsins og segir að samverkamenn hafi nefnt X. Enginn meintra samverkamanna í málinu hafði nefnt X á nafn. Nafn hans hafði einungis verið nefnt í tengslum við [...]. Hér er brotið gegn 3. mgr. 63. gr. laga nr. 88/2008. Er það gert í þrígang a.m.k. við skýrslutökur.“
Í samantekt lögreglu úr skýrslutöku í hljóð- og mynd, sem tekin var af M 14. mars sl. vegna [...]hluta málsins, er hann spurður hverja hann hafi þekkt fleiri á staðnum. „Z og X,“ svaraði M. Þarna liggur fyrir a.m.k. að lögregla hafði þann 14. mars. sl. fengið upplýsingar frá aðilum um veru ákærða X í [...]. Þá fullyrðir verjandinn einnig að slíkt hafi verið viðhaft við skýrslutökur af Z þann 19. mars sl. og fullyrt að lögreglumaður hafi sagt ákærða ósatt um upplýsingar sem lögregla hafði þá. Eins og að ofan er rakið komu þessar upplýsingar fram við yfirheyrslur þann 14. mars, nokkrum dögum áður en skýrslur voru teknar af ákærðu. Þá heldur verjandinn því fram að í samantekt lögreglu úr skýrslutökum sé upplýsingum sleppt, framburður sé skældur eða beinlínis tekinn ranglega saman og mikilvægan vitnisburð vanti í samantektir lögreglu. Af þessu tilefni hlustaði dómurinn á alla hljóð- og mynddiska sem teknir voru af ákærðu og vitnum á rannsóknarstigi og bar saman við samantektir lögreglu. Ekkert misræmi kom þar fram sem skiptir máli fyrir niðurstöður málsins eða vörn þess.
Með vísan til þessa eru engin tilefni til að vísa máli þessu frá dómi vegna skorts á gögnum til verjenda á rannsóknarstigi.
II.
Verða nú málsatvik, eins og þeim er lýst í lögregluskýrslum, rakin með hliðsjón af hverjum ákærulið fyrir sig. Verða málsatvik í ákæru útgefinni 3. maí 2012 fyrst rakin.
Ákæruliður I.
Í frumskýrslu lögreglu þann 4. janúar 2012 segir að tilkynning hafi borist frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um hugsanlega líkamsárás að [...] í Reykjavík þar sem rúða hafi verið brotin. Þegar lögregla kom á vettvang hafi tilkynnandi tekið á móti henni og sagt þrjá menn hafa komið að blokkinni, brotið rúðu, sem sé í anddyri hennar, og gengið í skrokk á Z sem þar búi á efstu hæð. Hafi Z og Þ, sem þar var einnig, ætlað að leita aðstoðar á slysadeild eftir árásina. Sagði tilkynnandi að hvorki Z né Þ hafi óskað eftir lögregluaðstoð.
Klukkan 19.09 að kvöldi 4. janúar 2012 fékk lögreglan tilkynningu frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um að mikil læti væru í íbúð A að [...], Mosfellsbæ. Er lögreglan kom á vettvang stóð N fyrir utan íbúðina en inni í íbúðinni var Annþór Karlsson. Þá voru inni í íbúðinni A, B, D og E. Þeir hafi verið með áverka eftir barsmíðar. Áverkar hafi verið á hægri fæti A og smávægilegar blæðingar í andliti. B hafi kveinkað sér undan verkjum í höndum og höfði en B hafi verið með sár á hvirfli sem blætt hafi úr. D hafi verið með áverka á enni sem blæddi úr og E hafi kveinkað sér undan verkjum í hægri fæti. Mjög erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar um hvað hafi gengið á frá aðilum á vettvangi, enginn hafi viljað tjá sig um málið og þeir ólmir viljað losna við lögreglu út úr íbúðinni. Kváðust þeir sjálfir ætla að hafa samband við Neyðarlínu til að fá aðstoð eða hafa samband við félaga sína sem myndu aka þeim á slysadeild. Yfirgaf lögregla síðan vettvang. Tíu mínútum síðar hafi komið tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð um að sjúkrabifreið væri á leið að [...] vegna fjögurra aðila sem væru með opin beinbrot á fæti og annars sem væri með áverka á höfði eftir barefli. Þegar lögregla kom á vettvang í annað sinn hafi Annþór og N verið farnir. Þrátt fyrir eftirgrennslan lögreglu vildu þeir slösuðu ekkert upplýsa lögreglu um það sem hafði gengið á.
Þann 5. mars 2012 kærði A atburðinn hjá lögreglu og var málið rannsakað í kjölfar þess.
III.
Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.
Vegna misræmis í framburði ákærðu og vitna fyrir lögreglu og dómi þykir rétt að rekja einnig það sem fram kemur í lögregluskýrslum.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars 2012. Kvaðst hann hafa verið hjá A umrætt sinn og opnað hurðina og um leið hafi menn komið inn og lamið A. A hafi síðan þá reynt að koma því að að Annþór hafi tekið þátt í árásinni. Kvaðst Annþór hafa verið í íbúðinni þegar lögreglan kom og ekki verið í neinum ham. Kvaðst hann hafa átt erindi til A, en hann hafi lánað A 50.000 krónur sem hann hafi verið að krefja A um. A hafi ekki greitt það. Neitaði Annþór að hafa átt neinn þátt í árásinni. Neitaði Annþór að svara spurningum lögreglu varðandi árásina. Kvað hann aðspurður bull að þeir Börkur hafi reynt að skilja menn að í íbúðinni. Annþór neitaði að tjá sig frekar um málavexti hjá lögreglunni eða hvort Börkur hafi einnig verið þar.
Annþór gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 19. mars 2012 og aðspurður um atvikið í [...] kvaðst hann hafa verið óvopnaður en þeir sem fyrir voru hafi verið alvopnaðir, A með karatekylfu í buxnastrengnum og hamar í hendinni. Þeir hafi greinilega verið til í eitthvað „action“ og allir útúrdópaðir. Neitaði Annþór að tjá sig frekar um atvikið.
Annþór Kristján Karlsson kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að hann og Börkur hafi farið saman upp í [...] og verið í símasambandi á leiðinni við Þ og einhverja stráka. Erindið hafi verið skuld að fjárhæð 50.000 krónur sem þeir ætluðu að ræða við A. Fyrr um daginn hafi A og fleiri farið heim til Z og ráðist á hann og Þ og í kjölfarið ætluðu Z, Þ og fleiri að fara í Mosfellsbæ til að ræða við A. Það væri þannig í þessum heimi að ef einhver lemur einhvern í órétti þá borgi hann bætur. Þeir hafi því viljað fá skuldina greidda áður en A færi að greiða þeim bætur. Ákærði og aðrir ákærðu hafi allir komið á staðinn á sama tíma en þeir hafi verið í símasambandi á leiðinni upp eftir. Það hafi ekki verið neitt mál að þeir Börkur hafi fengið að fara inn í íbúðina á undan hinum. Z og Æ hafi komið í Hafnarfjörð til að biðja Sindra og Ö að koma með sér og þeir Börkur þá heyrt af þessu. Mjög oft sé það þannig að menn safni liði til að innheimta eða leita réttlætis, það sé „svolítið svona kúltúr í þessum heimi“. Ákærði og Börkur hafi farið inn en þá hafi þeir sem inni voru verið alvopnaðir, A hafi verið með einhvern lítinn hamar og ninjastjörnu í beltinu, B með brúna spánarkylfu, D með baseballkylfu úr áli, N ekki með neitt og E ekki með neitt, flestir berir að ofan og svakalegir í sinni. Þegar þeir komu inn hafi þeir ekki náð að ræða peninginn sem þeir voru komnir út af heldur hafi A farið að tala um málið í [...] og málin þróast þannig að ákærði hafi sagt A að þeir væru allir fyrir utan. A hafi þá sagt honum að hleypa þeim inn og ákærði hafi því hringt í þá og opnað hurðina fyrir þeim. Ákærði hafi farið fyrstur aftur inn ganginn, E hafi verið í símanum og ekki vitað hvað var að gerast og ráðist að Þ og upp hafi hafist „svaðaleg átök“. Slagsmálin hafi kannski staðið yfir í tvær til þrjár mínútur en stofan hafi verið í mesta lagi fimmtán fermetrar þar sem um tíu manns voru í átökum. Þ hafi verið með sleggju og einhverjir með golfkylfur, B og A með áðurnefnd vopn. Einhvern veginn fara allir að slá alla. Ákærði hafi þó ekki slegið neinn. Þá hafi B slegið til Barkar sem hafi tekið af B kylfuna og hent henni í burtu. Þá hafi ákærði séð N úti í horni og ákærði og Börkur tekið N og farið með hann út. Gólfið hafi verið þakið glerbrotum, N á sokkunum og þeir að hjálpa honum út úr þeim aðstæðum. Börkur hafi verið fingurbrotinn. Eftir að aðrir voru farnir hafi Annþór farið aftur inn því hann hafi ekki náð að ræða skuld A við sig áður en átökin hófust. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa staðið að því að safna liði til að lemja A út af [...]. Neitaði hann að hafa skipulagt verkið að neinu leyti, hann hafi ekki verið að skilja menn að í [...] né að fjarlægja vopn. Hann hafi sjálfur aldrei verið með vopn á staðnum. Ákærði kvaðst hafa verið á vettvangi þegar lögreglan kom en þá hafi ákærði verið að ræða við A og bjóða honum að keyra hann upp á sjúkrahús auk þess að ræða aurana við hann. Aðspurður kvaðst hann ekki geta staðsett Z í árásinni, sennilega hafi hann verið í miðjum hópnum, hann gæti ekki staðfest að Z hafi verið inni í herbergi. Ákærði kvað lögreglu hafa komið á vettvang um fjórum fimm mínútum eftir að aðrir voru farnir af staðnum. Þá hafi Börkur sótt sig að [...] og hann farið með honum. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest um þátttöku annarra ákærðu inni í [...] utan að hann taldi að Y hafi veist að B.
Ákærði Börkur Birgisson gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl. Kvaðst Börkur ekkert hafa um málið að segja og neitaði að tjá sig. Hann væri ekki vitni lögreglu í þessu máli.
Þann 19. mars sl. var tekin skýrsla af Berki hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið að [...], Mosfellsbæ, þann 4. janúar sl. Hann hafi farið þangað með vini sínum Annþóri til að ræða við A um pening sem Annþór hafði lánað A. Hafi þeir sem voru fyrir í [...] verið vel vopnaðir. Þegar þeir voru búnir að vera þar í smátíma hafi einhverjir komið þar inn og átök orðið. Aðspurður hverjir það hafi verið kvaðst hann ekki vera vitni í þessu máli. Neitaði hann að hafa lamið B og eina skiptið sem hann hafi verið með vopn hafi verið þegar hann reif prik úr höndum manns sem hafi verið að slá til hans með því. Þá hafi einhver stokkið upp á bakið á honum og hafi Annþór rifið þann mann af sér. Neitaði hann að hafa verið með vopn þegar þeir Annþór komu inn í [...], hvorki sleggju né hafnaboltakylfur.
Börkur Birgisson kom fyrir dóminn og lýsti aðkomunni í [...] svo að A hafi verið með lítinn klaufhamar þegar þeir komu inn og karatekylfu auk kaststjörnu. D hafi verið með hafnaboltakylfu, B með stutta trékylfu en E ekki með neitt. Þ hafi verið með plastsleggju en hann hafi ekki séð hann beita henni en hann hafi verið að sveifla henni. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið þátt í slagsmálunum. Hann hafi setið í stofunni og þeir að spjalla um ákveðið mál þegar A fer að lýsa árásinni í [...]. Annþór hafi þá sagt A að strákarnir væru úti á plani að bíða eftir því að tala við A og A þá sagt Annþóri að segja þeim að koma inn. Annþór hafi þá farið og opnað fyrir þeim. Þegar þeir komi inn hafi E stokkið á þá og um leið orðið mikil átök. Ákærði kvaðst hafa reynt að verjast höggum, hann hafi fengið högg í hnakkann og B hafi reynt að berja sig en ákærði náð kylfunni af honum. Þeir Annþór hafi þá forðað sér út og tekið N með sér. Aðspurður um frásögn A hjá lögreglu um að Börkur hafi slegið hann með sleggjunni, kvaðst ákærði hafa lesið þessa skýrslu og það væri allt lygi. Frásögn D hjá lögreglu væri einnig lygi, enda hefði D dregið þann framburð til baka í næstu skýrslu.
Ákærði kvað ástæðu þess að þeir fóru að [...] þá að Annþór hafi áður lánað A 50.000 krónur og þeir hefðu ætlað að endurheimta peningana. Þeir hafi vitað af árásinni í [...] sama dag áður en þeir fóru í Mosfellsbæ. Hann hafi farið með Annþóri og ónefndum þriðja aðila í bíl í Mosfellsbæ en hann ætlaði ekki að nefna hann. Ákærði hafi ekki farið í neinum hefndarerindum í [...]. Þá kvaðst Börkur ekki hafa slegið B eins og D hafi haldið fram. Kvað hann átökin hafa staðið í örfáar mínútur. Frá því lætin byrjuðu og þar til hann forðaði sér út hafi liðið augnablik, hann hafi farið áður en átökin hættu. Hann hafi þá ekki séð neina ákærðu taka þátt í árásinni.
Ákærði X gaf skýrslu hjá lögreglu 16. mars sl. Neitaði hann að hafa verið á staðnum í umrætt sinn en kvaðst vera vinur Barkar Birgissonar og kannast við Annþór Karlsson.
Þann 18. mars sl. kvaðst X hjá lögreglu kannast við að Þ hafi átt eitthvað sökótt við A. A hafi barið Z með kylfu og brotið rúðu og þeir farið síðan. X og Z hafi alltaf verið vinir. Eftir það kvaðst X hafa verið alveg brjálaður og þeir farið þarna upp eftir. X kvaðst hafa hitt Z og Þ uppi á sjúkrahúsi og þeir farið þaðan beint upp í Mosfellsbæ. Hann hafi séð sleggju þar og golfkylfur og Þ hafi verið með sleggjuna. Aðspurður hvað þeir hafi rætt á leiðinni upp í Mosfellsbæ, kvaðst X halda að Þ hafi ætlað að drepa A. Aðspurður kvaðst hann halda að Börkur og Annþór hafi komið að eftir árásina af tilviljun. Þ hafi labbað þarna inn með einhverja helvítis sleggju og meira hafi X ekki séð. X hafi beðið fyrst hjá bílunum, Þ farið fyrstur inn, hann hafi heyrt einhver læti, farið inn í ganginn og síðan farið beint aftur út og hitt N. Hann hafi ekkert þurft að gera þarna. Aðspurður kvaðst X halda að Annþór og Börkur hafi komið þar að eftir árásina en með X hafi Þ, Sindri, Y og Z verið. Hann muni ekki eftir fleirum. X lýsti sleggjunni, sagði hana hafa verið risasleggju, með stóru skafti og hausinn hafi verið mjög stór, um það bil 20 cm þykkur, og skaftið hafi verið um meters langt. Hann héldi að hún myndi flokkast frekar undir verkfæri en vopn. Hún hafi ekki verið neitt vopn.
X sagði í skýrslutöku 21. mars sl. hjá lögreglu rétt vera að hann hafi verið á staðnum. Þ, Sindri, Y og Z hafi verið á staðnum. Börkur og Anni hafi komið þegar þetta var búið. Upphafið hafi verið að Z hafi verið sleginn með járnröri og X frétt af honum uppi á sjúkrahúsi og farið þangað að hitta hann. Þetta hafi verið Þ að kenna, það hafi átt að berja hann en ekki Z. X kvaðst hafa farið með upp í [...] með Z og Þ því A var talinn vera stórhættulegur og tilbúinn að gera ýmsa hluti. Að öðru leyti vísaði X til fyrri skýrslu sinnar. Kvaðst hann ekki treysta lögreglunni og vera að reyna að snúa við blaðinu.
Ákærði X kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á staðnum en ekki tekið þátt í árásinni. Kvaðst ákærði vera vinur Z og Þ. Z hafi verið sleginn í hausinn heima hjá sér fyrr um daginn og hann hafi bara verið beðinn um að koma með. A væri hættulegur og því hafi hann farið með. Hafi hugmynd um að fara til A vaknað uppi á spítala þar sem Z og Þ voru. Ákærði kvaðst hafa verið á ganginum en síðan ákveðið að fara út og taka ekki þátt í þessu. Kvaðst ákærði ekki muna til þess að Annþór og Börkur hafi farið fyrstir inn í [...] en hann haldi það. Hann hafi séð Annþór og Börk leiða N út en Annþór og N hafi ekki tekið þátt í slagsmálunum. Sindri, Y, Æ, Ö og Z hafi verið með honum. Hann haldi að A og þeir hafi verið vopnaðir en einhverjir félagar hans hafi verið með vopn, sleggju og golfkylfur. X kvaðst hafa snúið sér að fjölskyldu sinni og ætla að fara í skóla. Aðspurður kvaðst ákærði hafa farið með Ö, Sindra og Æ í bíl upp í Mosfellsbæ.
Ákærði Y gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl. Kvaðst hann muna lítið eftir atvikinu, hann hafi verið mikið dópaður. Hann muni þó að A hafi slegið vin hans í hausinn með gaddakylfu fyrr þann sama dag. Í framhaldi hafi nokkrir menn farið heim til A, allt hafi gerst mjög hratt, farið var inn heima hjá A og allt hafi farið upp í loft. Þetta hafi verið slagsmál úti um allt. Kvaðst hann muna eftir að hafa passað einn gaurinn þarna svo hann kæmist ekki aftur að þeim en hann kvaðst ekki „meika“ að nefna nöfn. Þetta hafi verið E. Árásin hafi verið út um allt, í stofunni og á ganginum. Aðspurður hvers vegna hann vildi ekki nafngreina aðilana sem voru inni í íbúðinni kvaðst hann vera hræddur en honum hafi ekki verið hótað líkamsmeiðingum segði hann frá. Kvaðst Y ekki muna hvernig þeir hafi verið vopnaðir en þeir sem voru í íbúðinni hafi einnig verið vopnaðir. Kvaðst Y aðspurður ekki muna eftir Berki á staðnum og ekki eftir neinni sleggju.
Þann 15. mars sl. gaf Y skýrslu hjá lögreglu og kvað árásina hafa verið eftir að vinur hans Z var laminn í hausinn. Hann mundi ekki hver hefði hringt í hann og kvaðst ekki „meika það“ að nafngreina neinn sem skipuleggjanda, það væri ekki þorandi fyrir hann. Kvaðst hann ekki nenna að vera með augu í hnakkanum það sem hann ætti eftir ólifað. Hann hafi bara fengið símtal eftir að ráðist var á Z og sagt að drífa sig niður til að berja A og félaga. Kvaðst hann aðspurður óttast að eitthvað komi fyrir hann ef hann nafngreini einhverja í þessu máli.
Þann 16. mars sl. var borið undir Y hjá lögreglu að fyrir lægi í málinu að Börkur og Annþór hafi skipulagt árásina þann 4. janúar sl. Kvaðst hann ekki geta staðfest að þeir hafi skipulagt árásina en þeir hafi farið fyrstir inn í [...], Mosfellsbæ. Síðan hafi Annþór hringt í einhvern af þeim sem biðu úti og þeir rokið allir inn. Annþór hafi opnað fyrir þeim. Sjö manns hafi beðið úti. Sagði Y, aðspurður um skipulagningu, annaðhvort Sindra eða Þ hafa hringt í upphafi í hann heim til hans og sagt honum að koma niður og þá hafi Y verið skýrt frá því að Z hefði verið laminn í hausinn og þeir væru að fara og lemja A fyrir það og meiða hann. Börkur hafi sótt sig en hann hafi verið með strákunum í bíl. Börkur hafi keyrt. Börkur ásamt öðrum í bílnum hafi sagt að þeir væru að fara upp í [...] til að afgreiða þetta mál. Y sagðist ekki hafa alveg verið að nenna þessu en auðvitað hafi hann viljað hjálpa vinum sínum. Annþór hafi verið í öðrum bíl að ná í fleiri stráka en þeir hafi verið á tveimur eða þremur bílum. Þeir hafi allir hist síðan fyrir utan [...] í Mosfellsbæ. Y kvað sig, Annþór Kristján Karlsson, Börk Birgisson, Sindra Kristjánsson, Þ, Z, X, Æ og Ö hafa verið þar saman. Þeir hafi verið með golfkylfur sem vopn, kústsköft og eitthvað úr hvítu plasti sem hann viti ekki hvað heiti og Þ hafi verið með. Z hafi byrjað á að ýta E inn í herbergi á leiðinni inn í íbúðina og Y og Ö passað að E kæmist ekki út. E hafi ekkert verið laminn „þannig sko“. Þ hafi barið allt með þessu sem löggan kalli sleggju. Kvað hann Annþór hafa gengið út með N en hann hafi ekki fylgst með því hvað aðrir gerðu. Y kvaðst hafa farið inn í stofu og séð Þ með kylfuna berja allt, reyna að berja A en hann hafi ekki séð Börk fótbrjóta A. Y kvaðst hafa barið B með golfkylfu og Börkur hafi einnig barið B með litlu kylfunni. Kvað hann A og B hafa verið við svalahurðina þar sem þeir hafi reynt að komast út en ekki komist. Það hafi verið slagsmál úti um allt og blóð.
Y sagði lögreglu að hann væri, með þessum framburði sínum, að skrifa upp á sína eigin dauðarefsingu. Hann muni þurfa að hafa augun í hnakkanum núna. Þeir séu vinir hans en þetta kallist „skvíl fattarðu“ en þetta sé sannleikurinn. Y ítrekar síðar í skýrslunni að hann sé þegar orðinn hræddur þar sem hann sé að segja frá. Y kvaðst ekki hafa séð eða tekið eftir D fyrr en hann fór út en hann hafi allur verið út í blóði. Þá kvaðst hann ekki hafa séð N fyrr en hann var á leið út úr íbúðinni. Hann hafi ekki tekið eftir honum á meðan árásin stóð yfir. Kvað hann alla hafa tekið þátt í árásinni en Annþór hafi bara staðið og fylgst með auk þess að ganga út með N í lokin. Æ og Sindri hafi bara verið að eyðileggja hluti þarna inni á meðan árásin stóð yfir, brjóta glugga, sjónvarp og eitthvað fleira. Aðspurður um hvort handlóð hafi verið notuð, kvað Y þau hafa verið fljúgandi út um allt. Hann hafi síðar heyrt að það hafi verið handlóð sem fótbraut A. Þá sagði hann að golfkylfurnar hafi orðið eftir og einhverjar hafi verið brotnar. Z hafi síðan skutlað sér heim eftir árásina. Við lok skýrslutökunnar var Y sýnd lögreglukylfa úr tré og staðfesti Y að það hafi verið sams konar kylfa sem Börkur hafi verið með.
Y gaf aftur skýrslu þann 17. mars sl. hjá lögreglu og kvað rétt vera að hann hafi verið heima þegar hringt var í hann og hafi Börkur sótt hann og þeir farið saman í bíl upp í [...] þar sem átti að ganga frá A. Staðfesti hann það sem hann hafði áður sagt hjá lögreglu.
Ákærði Y kvaðst fyrir dómi muna eftir að hafa verið að [...] í Mosfellsbæ. Ákærði, Sindri, Ö og X hafi komið á sínum bíl og hitt Z og Þ fyrir utan. Börkur og Annþór hafi verið komnir inn þegar þeir komu á staðinn. Annþór hafi hringt í Þ og hleypt þeim síðan inn og þegar inn var komið hafi E ráðist á þá og síðan hafi allt farið í háa loft. Kvaðst ákærði hafa verið með eitthvert prik og Þ með sleggju þegar þeir komu þarna. Ákærði kvaðst hafa ráðist á B og barið hann með prikinu í hendurnar. Z og Ö hafi verið inni í herbergi með E. Þ hafi verið með sleggju og barið allt og alla, aðallega A. Sleggjan hafi næstum farið í þá alla. Ástæða þess að þeir fóru upp eftir hafi verið að A hafi lamið vin þeirra og þeir ætlað að ræða við hann. Aðspurður um hvort Börkur hafi sótt hann heim, kvað hann það vera rangt. Sagðist ákærði einu sinni hafa séð Börk með kylfu en það hafi verið vegna þess að Börkur hafi verið að afvopna strákinn. Hann minnti að það hafi verið D. Annþór hafi ekkert gert utan að taka N og fara með hann út. Z hafi verið inni í herbergi. Handlóð hafi verið þarna fljúgandi út um allt. Ö hafi verið hjá herberginu og Æ og Sindri hafi aðallega verið að brjóta hluti þarna inni. Aðspurður hvort hann hafi veist að A neitaði hann því en sagðist aðallega hafa barið B og þá í hendurnar á honum. Aðspurður kvaðst hann hafa sagt hvað sem er hjá lögreglu í þeim tilgangi að losna sem fyrst úr gæsluvarðhaldi. Lögreglan hafi sífellt beðið hann að segja eitthvað um Börk og Annþór sem ekki hafi verið satt. Þá hafi skýrsla verið tekin af honum hjá lögreglu án þess að verjandi hans hafi verið viðstaddur.
Ákærði Z gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl. Kvaðst hann ekki hafa verið á staðnum þegar árásin var gerð í [...]. Þá neitaði hann því einnig að ráðist hafi verið á hann að [...] þann sama dag.
Skýrsla var aftur tekin af Z þann 19. mars sl. Neitaði hann að tjá sig.
Ákærði Z kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á staðnum í umrætt sinn. Þar hafi þeir ekkert endilega verið að ráðast á A, þeir ætluðu bara að ræða við hann. Kvaðst hann hafa slegist við E en ekki A. Þegar þeir komu inn í íbúðina þá hafi E ráðist á þá og það endað með því að ákærði réðist á E. Síðan hafi allt endað í slagsmálum. Þeir E hafi slegist en hann hafi ekki slegist við neinn annan. Upphafið hafi verið að A og fleiri hafi komið upp í [...] til ákærða og ætlað að hitta Þ en ákærði hafi verið sleginn þar sama dag. Hann hafi farið upp á slysadeild og Þ með honum. Þá hafi X og Þ verið með sér uppi á slysadeild en hvort Sindri og Æ hafi verið með líka myndi hann ekki. Ákærði hafi farið af slysadeildinni án þess að láta athuga áverkana sem hann hafði fengið á höfuðið í [...]. Annþór og Börkur hafi verið á staðnum í [...] þegar þeir komu þangað. Þeir hafi bankað að [...] og farið inn. Hann hafi þá heyrt A öskra: „Opnið hurðina“. Þegar inn var komið hafi E komið á móti sér með karatespörk og þeir lent í átökum. Ákærði kvaðst ekki hafa séð þegar átökin áttu sér stað inni í íbúðinni en hann hafi séð Þ með sleggjuna og einhverjar golfkylfur hafi verið þarna. Aðspurður kvað hann tilganginn með að fara í [...] hafa alls ekki verið að ráðast á A heldur að koma honum í skilning um að hann ætti ekki að koma heim til hans með ofbeldi. Aðspurður kvaðst ákærði vita að Börkur og Annþór hafi verið á staðnum til að gera upp önnur mál.
Ákærði Sindri Kristjánsson gaf skýrslu þann 14. mars sl. Neitaði hann að tjá sig. Sindri neitaði einnig að tjá sig í skýrslutöku þann 19. mars sl.
Ákærði Sindri Kristjánsson kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á staðnum í umrætt sinn. Kvaðst ákærði hafa komið með X, Æ og Y í bifreið í [...]. Þá hafi Annþór hringt í Þ og opnað fyrir þeim svo þeir kæmust inn í íbúðina. Þegar þeir fóru inn hafi E komið á móti þeim og þá hafi orðið átök. Hann hafi séð Þ slá E með sleggju nokkrum sinnum í fótinn. Sindri kvaðst sjálfur hafa brotið spegil sem var á vegg á ganginum. Þá hafi hann séð einhvern lemja Börk með kylfu og Börkur tekið kylfuna af honum. Hann hafi ekki séð Börk berja neinn. Þá hafi Annþór staðið og horft á. Ákærði hafi ekki séð aðra gera neitt. Þeir einu sem hafi tekið þátt í barsmíðum hafi verið Y og Þ. Þegar þessu var lokið hafi þeir allir farið út. Sindri kvaðst vera kominn í fasta vinnu og hafa verið edrú frá 8. október sl. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð Annþór gera neitt en hann hafi farið með N út síðar. Kvað ákærði Börk ekki hafa komið með honum í bifreið í [...]. Kvaðst hann hafa séð B slá Börk og þá aftan í bakið en hann myndi það ekki svo. Aðspurður um það hvernig hann vissi um það að A hafi gefið Annþóri leyfi til að hleypa þeim inn, kvað hann Þ hafa sagt sér það.
Ákærði Þ gaf skýrslu hjá lögreglu 16. mars sl. Neitaði hann að tjá sig.
Skýrsla var aftur tekin af Þ hjá lögreglu 18. mars sl. og neitaði hann að tjá sig um sakarefnið. Aðspurður neitaði hann þó að Börkur Birgisson hafi veitt A áverka á fæti.
Ákærði Þ kom fyrir dóminn og kvað upphafið vera að A, B og E hafi komið heim til Z og ráðist á þá báða. Ákærði hafi farið með Z upp á slysadeild og þar hafi þeir ákveðið að fara heim til A og bjóða honum að borga skaðabætur fyrir það sem hann hafði gert. Þeir hafi því farið upp eftir en Annþór og Börkur hafi viljað fara inn á undan en þeir hafi átt eitthvað vantalað við A út af skuld. Síðan hafi Annþór hringt í sig og ákærði þá heyrt í A öskra: „Hleypið þeim bara inn“. Hurðin hafi verið læst og Annþór hafi opnað fyrir þeim. Þeir hafi því farið inn í íbúðina og þá mætt E sem hafi ráðist að þeim en Z tekið á móti honum. Síðan hafi bara brotist út átök. Ákærði hafi aðallega veist að A en þetta væri allt mjög óljóst, þetta hafi gerst í svo miklum flýti. Ákærði kvaðst hafa lamið A eins oft og hann gat með sleggjunni en ekki hitt hann mjög oft. A hafi dottið á bak við sófa og ákærði þá lamið A þar sem hann lá. Þetta hafi verið plastsleggja sem væri notuð til að berja ís af skipum. Ákærði kvaðst hafa fundið sleggjuna fyrir löngu og það hafi verið tilviljun að hann hafi tekið sleggjuna með sér inn, hún hafi bara verið í skottinu á bílnum. Ástæðan fyrir því að þeir hafi farið inn vopnaðir var að A og þeir hafi komið vopnaðir heim til hans. Aðspurður kvaðst hann ekki geta sagt til um hver hefði gert hvað inni í íbúðinni, hann hafi aðallega verið að hugsa um það sem hann gerði sjálfur. Hann hafi hins vegar séð Annþór og Börk fara út með N og það hafi verið fljótlega áður en átökin hófust. Það hafi verið þegar ákærði braut sófaborðið með sleggjunni. Aðspurður kvað hann rétt að Z hafi gætt E inni í herbergi svo hann kæmist ekki fram. Þá minnti ákærða að B hafi eitthvað veist að Berki sem hafi tekið kylfuna af B.
Aðspurður um það hvernig Börkur og Annþór hafi vitað að þeir væru á leiðinni til A, útskýrði hann að þegar X fór að sækja Sindra og Æ þá hafi þeir verið að vinna hjá Annþóri og Berki í Hafnarfirði, og þeir þá frétt af áætlun þeirra og beðið um að fá að fara á undan þeim til að gera upp skuld við A fyrst.
Ákærði Æ gaf skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl. Neitaði hann að hafa verið að [...] í umrætt sinn og neitaði að tjá sig frekar um málið.
Æ gaf aftur skýrslu þann 21. mars sl. Neitaði hann að tjá sig frekar um málið.
Ákærði Æ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að vinna í Hafnarfirði þegar tveir strákar, Ö og X, komu og sögðu A hafa ráðist inn á vin sinn og ákærði hafi verið beðinn um að koma með þeim til að ræða við A. Ákærði og Sindri hafi farið sama á einum bíl og hitt hina strákana þar, aðra ákærðu nema Annþór og Börk, en þeir hafi verið inni í íbúðinni þegar þeir komu að. Það sem ákærði mundi var að útidyrahurðin hafi verið opnuð, þeir farið inn en út hafi brotist slagsmál. Ákærði hafi séð E koma sparkandi á móti þeim þegar þeir komu inn, ákærði hafi farið beint inn á salerni og brotið eitthvað þar, sparkað í gler og brotið vask en misst af slagsmálunum og því ekki séð þau. Aðspurður kvað hann Börk ekki hafa komið að skipulagningu árásarinnar áður en þeir fóru upp í Mosfellsbæ. Þá kvaðst hann muna eftir því að Annþór hafi farið með N út. Aðspurður um það hvort hann hafi búið í [...] neitaði hann að tjá sig. Þá kvað hann enga skipulagningu hafa átt sér stað en það hafi verið sameiginleg ákvörðun að fara upp eftir. Ákærði kvaðst vera að koma sér út úr öllum „glæpum“ og reyna að koma lífi sínu á réttan kjöl.
Ákærði Ö gaf skýrslu hjá lögreglu 16. mars sl. Neitaði hann því að hafa verið á staðnum. Kvað hann Börk Birgisson vera kunningja sinn, kvað sig lítið þekkja Annþór Karlsson en hitta hann af og til. Ö var spurður hvort hann hafi orðið fyrir árásum eða hótunum eftir að rannsókn málsins hófst. Sagði hann að einhver hefði skemmt bíl móður hans nóttina eftir að þeir voru handteknir en honum sjálfum hafi ekki verið hótað.
Ö gaf aftur skýrslu 18. mars sl. Kvaðst Ö þá vilja breyta framburði sínum frá 16. mars þannig að hann hafi verið á staðnum. Kvað hann rétt vera að hann hafi verið að passa E inni í herbergi. Allt hafi þetta byrjað með því að A og félagar hans hafi ráðist á vini Ö, Þ og Z, í [...] og því hafi verið farið heim til A. Hann hafi verið sofnaður heima hjá sér þegar Þ hringdi í hann og hann beðinn að koma heim til A. Annþór og Börkur hafi farið fyrstir inn og síðan hafi verið hringt í einhvern þeirra og í framhaldi opnað fyrir þeim inn í íbúðina. Þeir hafi farið inn og Ö og Y hafi tekið E strax inn í herbergi. Ö hafi verið með golfkylfu og slegið og þá hitt Þ, sem hann ætlaði ekki að gera, en kylfan hafi brotnað við það. Þ hafi verið með kylfuna og sveiflað henni. Ö kvaðst hafa farið inn á salerni með kylfuna og slegið með henni inni á baði, brotið klósettsetuna og sturtudótið. Kvað hann engan hafa stjórnað þessu, þetta hafi bara verið sameiginleg ákvörðun. Kvaðst hann bara hafa þekkt A og N inni í íbúðinni en fimm eða sex manns hafi verið þar. Ö kvaðst ekki hafa séð hverjir hafi veitt A áverka. Flestir hafi verið með vopn en ekki Annþór og Börkur, en það gæti verið að Börkur hafi verið með kylfu. Ö kvaðst hafa farið með Z og Y í bifreið. Hann hafi ekki verið undir áhrifum enda nývaknaður. Sagði hann allt hafa gerst mjög hratt og þetta hafi verið mikið „kaos“ og ekki gott að sjá svo mikið. Það hafi brotnað borð og fullt af dóti þarna. Þ hafi komið með sleggjuna upp í [...]. Taldi hann aðspurður að Börkur og Annþór hafi ekki skipulagt þetta, þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun.
Ákærði Ö kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið inn í [...] og endað inni í herbergi með E. Ákærði hafi ekkert gert utan að gæta þess að E lægi þar áfram á gólfinu. Ákærði kvaðst hafa verið nývaknaður og X hafi komið til sín en hann fengið hringingu frá Þ sem var á slysavarðstofu. Þeir hafi farið inn í Hafnarfjörð til að ræða við Sindra og Æ um að þeir ætluðu að fara og tala við A. Þeir hafi farið upp í Breiðholt til að sækja Y. Þeir hafi síðan allir farið saman í bifreið upp í Mosfellsbæ. Þeir hafi hitt Annþór og Börk fyrir utan en þeir hafi viljað fara fyrstir inn til að ræða við A. Þeir hafi beðið fyrir utan á meðan. Hurðin hafi síðan bara opnast og þeir farið inn. Ákærði kvaðst lítið geta lýst því sem gerðist inni, en ljós og borð hafi brotnað. Ákærði kvaðst rétt hafa litið inn í stofuna eftir að árásinni var hætt en allt hafi verið í myrkri svo hann hafi lítið séð. Ákærði hafi séð Þ með sleggju auk þess að hann hafi séð golfkylfur á gólfinu. Þ hafi verið með sleggjuna þegar þeir fóru inn. Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið með golfkylfu en ekki gert neitt með hana. Áður en hann hafi farið út hafi hann farið inn á salerni og brotið klósettsetuna. Að öðru leyti kvaðst hann ekki geta lýst átökunum frekar. Ákærði kvað einhvern hafa verið með sér inni í herberginu en E hafi lagst sjálfur á gólfið þar. Ákærði kvaðst líklega vera kominn með vinnu úti á landi og vera að fara í skóla. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð Annþór ráðast á neinn en hann hafi farið út með N.
Vitnið A sagðist í skýrslu þann 5. mars 2012 hjá lögreglu hafa átt í útistöðum við Z og Þ í [...] um klukkustund áður en þeir komu heim til hans. Hann hafi setið, ásamt B, E, N og D, heima þegar Börkur og Annþór bönkuðu upp á hjá honum og A tekið á móti þeim. Annþór hafi hann faðmað en þeir hafi þekkst vel. Annþór hafi spurt hann hvað hafi gerst og í um það bil tíu mínútur ræði þeir um það. Á sama tíma hafi þeir Annþór og Börkur verið að „stilla öllu upp“, og meðal annars tekið öll vopn frá og slitið hópinn í sundur. Annþór hafi farið með E inn í herbergi og rætt við hann en jafnframt farið í símann og opnað hurðina fram á gang. Það síðasta sem A hafi vitað var að hann sá sleggju sem munaði sentimetra að færi í andlit hans og inn hafi komið fjórtán manns. Hann hafi þekkt Þ og Z, en ekki aðra í þeim hópi. Hópurinn hafi ráðist af alefli á þá. Þegar hann síðan kom heim af spítalanum hafi sjö brotnar golfkylfur legið á gólfinu. Kvað hann þá félaga hafa verið króaðir af í sitt hvoru horninu og barðir. Þ, Z og Börkur hafi ráðist á A. Þ hafi beitt golfkylfu, Z slegið hann með handlóði og Börkur verið með sleggju og lamið hann meðal annars í hægri fótlegg svo opið beinbrot hlaust af. Árásin hafi staðið yfir í tvær til þrjár mínútur. Aðspurður kvaðst hann hafa átt í útistöðum við Þ, [...], og Z, sem hafi verið í [...], og kæmu Annþóri og Berki ekki við. Þá kvað hann D hafa rotast illa, hann hafi fengið sleggju í höfuðið. E hafi sloppið best úr þessu, B hafi marist allur á höndum en N hafi frosið og Annþór og Börkur hafi farið með hann út. Kvaðst A hafa verið skíthræddur um líf sitt á meðan á árásinni stóð en þetta hafi bara verið fyrirsát. Sagði hann aðspurður Börk hafa skipulagt árásina, þetta væri hans „taktík“. Hinir hefðu aldrei þorað að koma ef Annþór og Börkur hefðu ekki komið og skimað út svæðið fyrir þá. Aðspurður kvaðst hann viss um að Börkur hafi slegið hann með sleggjunni. Þetta hafi verið sleggja úr harðplasti með stóru skefti.
Vitnið A gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 19. mars 2012 og sagði þá Anna og Börk hafa komið fyrsta inn og síðan opnað fyrir einhverjum tólf til fjórtán manns þegar hann sá ekki til. Hann hafi bara séð hausa og kylfur, íbúðin hafi fyllst af mönnum. Hann hafi séð út undan sér sleggju vera á leið í hausinn á sér og hafi Börkur verið með sleggjuna. Þá kvaðst hann hafa séð að Annþór hafi stjórnað árásinni, hann hafi staðið kyrr og stjórnað en verið vopnlaus. A kvaðst hafa séð D sleginn í höfuðið með sleggjunni af Berki. Aðspurður um hvort Þ hafi verið með sleggjuna neitaði A því og ítrekaði að Börkur hafi verið með hana. Þ hafi verið með golfkylfu og Z hafi kýlt hann með handlóðum.
A kvaðst hafa í fyrstu staðið uppi á sófabakinu þar sem höggin dundu á honum, en engin leið hafi verið að átta sig á því hver var að berja hann og hvar. Hann hafi svo dottið niður þegar sófinn ýttist frá honum. Hann hafi svo áttað sig á því, þar sem hann lá á gólfinu, að hann hafi verið fótbrotinn, eða þegar hann ætlaði að standa upp. Hann gæti ekki sagt til um það hvort hann hafi fengið sleggjuna í sig standandi eða liggjandi, það hafi verið svo margt í gangi en hann væri alveg viss um að sleggjan hafi komið í hann og það hafi verið Börkur sem hélt á henni. Hann haldi þó að hann hafi verið standandi þegar sleggjan kom í fótinn á honum, hann hafi fundið fyrir einhverjum smelli þá. Ítrekaði A, þegar borið var undir hann að önnur vitni hafi talið Þ hafa verið með sleggjuna, að það hafi verið Börkur sem hélt á henni.
Aðspurður um skýringu á því hvers vegna Annþór hafi enn verið á vettvangi þegar lögreglan kom, kvað hann Annþór hafa boðist til að skutla honum á sjúkrahús en A sagt honum að „drulla sér í burt“. Taldi A að Annþór hafi verið áfram til að gæta þess að hann segði ekki til hans. Z hafi ekki dottið það í hug þá. Kvaðst A hafa hringt í Annþór og lesið honum pistilinn þar sem hann hafi ekki átt að skipta sér af erjum A og Þ. Ítrekað aðspurður fullyrti A að Börkur hafi verið með sleggjuna. Hann myndi ekki hlífa Þ ef hann hefði verið með hana. Aðspurður um það hverjir hafi ráðist á B, sagðist A eiga erfitt með að nafngreina þá, allt hafi gerst svo hratt en það hafi verið einhverjir tittir. Aðspurður kvað A ágreining hafa verið á milli hans og Þ sem hafi ekki komið Berki né Annþóri nokkuð við. Kvaðst A ekki hafa vitað af því þegar Annþór fór og opnaði fyrir öðrum.
Vitnið A kom fyrir dóminn og lýsti atburðum þann 4. janúar sl. þannig að Annþór og Börkur hafi komið til sín að [...] í Mosfellsbæ, bankað, þeim hafi verið hleypt inn og þeir verið að „spjalla við hann eitthvað“ auk þess að þeir hafi verið að skipuleggja árásina. Íbúðin hafi allt í einu fyllst af fólki. Hann hafi fengið opið beinbrot eftir sleggju. Fyrst hafi hann talið að það hafi verið Börkur sem sló hann með sleggjunni en síðan hafi honum verið sagt að Þ hafi barið hann. Ítrekað spurður um þetta síðar í skýrslutökunni kvaðst hann hafa vitað hverjir voru að berja sig, „ég hélt fyrst að Börkur hafi barið mig með sleggjunni ég er pottþéttur á því“ en einhver hafi sagt honum seinna að einhver annar hafi barið hann með sleggjunni. Aðspurður kannaðist A ekki við það að Annþór hafi sagt honum að menn biðu fyrir utan hjá honum. Sagði hann að fyrr um daginn hafi hann farið að [...] í Reykjavík með karatekylfu, ásamt E og B, og þar hafi hann slegið Z með kylfunni. Facebook-samskipti A og Annþórs voru borin undir A þar sem fram kemur að löngu sé búið að taka ákvörðun um Þ lúxusvandamál. Lýsti hann þeim samskiptum fyrir dóminum. Aðspurður um það hvort lögregla hafi hvatt hann til að kæra árásir kvað A að fjöldi manns og lögregla hafi kvatt hann til að kæra Annþór og Börk. Aðspurður kvaðst hann vera viss um að Börkur og Annþór hafi undirbúið árásina að [...]. Þeir hafi komið fyrstir inn, fjarlægt það sem þeir gætu varið sig með og skilið menn að. Síðan hafi Annþór hleypt tólf manns inn í íbúðina. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa heimilað Annþóri að hleypa þeim inn. Kvaðst A hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar árásin átti sér stað. A neitaði því fyrst að Annþór og Börkur hafi verið í upphafi heimsóknarinnar að innheimta hjá honum 50.000 krónur en D hafi greitt Annþóri 20.000 krónur þegar þeir fóru, en Annþór hafi verið að rukka sig eftir árásina. Játti hann því þá að þeir hafi rætt það við komuna til hans.
Vitnið D gaf skýrslu hjá lögreglu 6. mars 2012. Kvaðst hann hafa verið staddur heima hjá A ásamt E, N og B þegar þeir Annþór og Börkur komu þangað. Annþór hafi verið að spjalla við A og allt í góðu. Síðan gangi Annþór eitthvað fram, eins og hann sé að tala í símann. Næst viti D af sér er hann fær sleggju í hausinn og tólf manns komnir inn í íbúðina. Hann hafi svona „semi rotast“ og dottið niður í hornið og legið þar frekar vankaður. Hann hafi séð einhverja á B, en nánast restina af þeim sem inn komu á A, þá Z, Börk og einhverja stráka. Það hafi verið búið að króa E af inni í herbergi. Börkur hafi verið með sleggju og einhverjir verið með golfkylfu. Z hafi verið með handlóð sem A átti og barið A með þeim. Hafi D fundist árásin skipulögð, þeir hafi ekki búist við þessu en allt í einu eftir að Annþór hafi opnað hurðina hafi stofan verið full og allir inni óviðbúnir. Kvaðst D ekki hafa séð hver sló hann í höfuðið með sleggjunni en hann hafi séð Börk með hana stuttu síðar. Kvaðst D hafa verið að spjalla inni í eldhúsi og verið algjörlega óviðbúinn. Hann hafi legið á gólfinu eftir höggið og einhverjir hafi barið hann með golfkylfum og handlóðum þar. Hann hafi ekki átt möguleika á að verja sig. Spurður um það hverjir hafi veitt A áverka, kvað D flesta hafa verið á honum. Z með handlóð og Börkur með sleggjuna. Eftir árásina kvaðst D hafa skriðið til A og hafi þá ekki átt von á því að hann væri á lífi. D kvaðst, aðspurður, hafa séð Börk beita sleggjunni á A. Kvaðst D hafa farið á slysadeild sama kvöld en hann hafi fengið skurð ofan við enni í hársverði sem þurfti að sauma með sex eða átta sporum. Auk þess hafi hann verið marinn og aumur. D kvaðst ekki vita um tilefni árásarinnar. Kvaðst D viss um að árásin hafi verið skipulögð, þetta væri lengst uppi í Mosfellsbæ og hefði klárlega verið skipulagt. D kvaðst ekki hafa tilkynnt árásina til lögreglu þar sem hann hafi ætlað A að gera það. Kvað hann þá félaga ekkert hafa rætt saman um framhaldið.
A gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 19. mars 2012. Í sjálfstæðri frásögn segist hann hafa setið heima hjá A og verið að spjalla ásamt fleirum. Börkur og Annþór hafi komið og Annþór síðan gengið frá eins og hann væri að fara í símann. Það næsta sem hann vissi var að hann hafi fengið sleggju í hausinn og húsið hafi fyllst af einhverjum gaurum. Hann hafi dottið niður og verið vankaður. B hafi setið í sófa og A farið upp í sófann og staðið á bakinu á honum þar til sófinn hafi runnið fram og A dottið niður. Aðspurður um það hverjir hafi ráðist að A, kvaðst hann hafa séð í bakið á þeim en það hafi verið Z og Þ og hann haldi að Börkur hafi verið að því líka. Aðspurður um það hver hafi beitt sleggjunni, kvaðst hann ekki geta sagt til um það, hann væri ekki alveg viss um það. Aðspurður um framburð hans fyrir lögreglu 6. mars um þetta atriði sagðist hann vera búinn að hugsa þetta svolítið og hann hafi sjálfur verið hálfrotaður, þannig að hann væri bara ekki viss um það lengur. Þeir sem hafi helst veist að A hafi verið Z, Þ og Börkur. Þeir hafi verið með golfkylfur og, að hann hélt, handlóð sem Z hafi verið með en allir hafi verið með eins konar barefli. Kvaðst D ekki hafa séð þegar A var fótbrotinn og þegar hann skreið til hans eftir árásina hafi hann ekki verið viss um að koma að honum lifandi. Mikil óp og öskur hafi fylgt árásinni. Eftir að A hafi fallið á bak við sófann þá hafi verið ráðist enn frekar að honum en hann hafi þá lítið getað varið sig.
Spurður nánar út í það hvort Börkur hafi verið með sleggjuna, kvaðst D ekki muna það nú svo vel, hann gæti ekki verið 100% viss um að það hafi verið Börkur sem sveiflaði sleggjunni að A. Einhver í hópnum hafi verið með sleggjuna, en hver það var gæti hann ekki sagt til um. Þá kvaðst hann ekki geta sagt til um það hvort Þ hafi verið með sleggjuna. Hann hafi ekki verið að pæla í því. B hafi líka hlotið áverka og verið blóðugur eftir árásina. Aðspurður hvort hann hafi orðið fyrir hótunum eða ónæði frá því að hann gaf fyrst skýrslu fyrir lögreglu vegna þessa máls kvað hann svo ekki vera en hann hefði áhyggjur af því að verða beittur hefndaraðgerðum ef hann segði sannleikann í málinu. Hann væri samt ekki að ljúga út af því í skýrslunni.
Vitnið D kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að þeir hafi verið nokkrir heima saman hjá A. Annþór og Börkur hafi komið inn og spjallað. Það næsta sem hann vissi voru brjáluð læti og hann hafi fengið sleggju í höfuðið og síðan muni hann lítið. Hann hafi ekki séð hver sló hann. Hann gæti ekki lýst frekar hvað gerðist. Hann hafi verið hálfrotaður eftir þetta og því lítið séð. Hann minni þó að lóðum hafi verið kastað í hann þar sem hann lá. Hann hafi ekki tekið eftir öðrum vopnum, bara tekið eftir brotnum golfkylfum eftir á þegar aðrir voru farnir. Kvaðst hann ekki geta bent á neinn ákveðinn. Annþór hafi orðið eftir þegar aðrir fóru og hann hafi séð hann ræða við A. Lögregluskýrsla var borin undir D þar sem hann lýsti því að Börkur hafi verið með sleggjuna og kvaðst hann ekki muna nú eftir að hafa séð það. Þá kvaðst hann ekki muna núna að Z og Börkur hafi ráðist á A og kvaðst hann jafnframt ekkert muna núna. Það geti vel verið að hann hafi sagt þetta þá og talið sig muna það þá en hann muni þetta ekki svona núna. Ítrekað aðspurður kvað hann allt það rétt sem eftir honum var haft hjá lögreglu.
Vitnið B gaf skýrslu hjá lögreglu 8. mars 2012 og sagði þannig frá að hann, ásamt A, E, N og D, hafi verið heima hjá A þegar Annþór og Börkur komu inn. A og Annþór hafi greinilega verið félagar og ekki hafi verið annað að sjá en allt hafi verið í góðu. Allt í einu hafi íbúðin fyllst af mönnum en hann hafi illa getað áttað sig á því hverjir það voru, hann hafi þó þekkt Þ í hópnum. Hann hafi verið með sleggju, einhverja þá stærstu sleggju sem hann hafi séð. Þeir hafi þyrpst inn, hann hafi orðið skíthræddur og hlaupið að svalahurðinni og reynt að brjóta glerið í henni til að komast út. Það hafi ekki gengið svo hann hafi sparkað frá sér hornsófa sem var þar, staðið á bak við hann og reynt eftir fremsta megni að skýla höfðinu og efri hluta með handleggjum, það hafi dunið á honum högg með golfkylfum. Hann hafi ákveðið að standa kyrr og taka höggin og notað sófann líka til að skýla sér. Hann hafi fengið högg á handleggina, höfuð og efri hluta líkamans. Aðspurður kvað hann Börk hafa slegið sig með baseball-kylfu í handlegginn og B hafa reynt að slá hann hnefahögg til baka. Hann hafi verið barinn með golfkylfum, járnkylfu sem kastist út eins og lögreglukylfa og Þ hafi sveiflað sleggjunni að honum. Hann kvaðst ekki geta sagt að hann hafi séð Börk beita sleggjunni og hann hafi ekki séð Annþór gera neitt annað en að tala þarna inni. B kvaðst ekki hafa séð A fyrr en hann hafi dottið niður sjálfur, þá hafi A verið fyrir aftan hann en þá hafi mennirnir verið farnir út. Aðspurður hvort hann telji árásina hafa verið planaða eða heimsóknina frá Annþóri og Berki verið byrjun á þessu kvaðst hann vera viss um það, þetta hafi verið svona „setup“, alveg ákveðið. Aðspurður hvort hann hafi orðið hræddur um líf sitt svaraði hann fyrst: „Nei eða jú kannski fyrst“. B kvaðst hafa verið saumaður í hnakka nokkur spor eftir þetta, hann hafi verið marinn, átt erfitt með að anda í nokkra daga og bein í úlnlið hafi sprungið. Hann hafi ekki kært þetta, hann hafi meitt sig pínulítið í úlnlið og hann nenni ekki að vera að fá þetta hyski á eftir sér.
Í lokin hafi allir farið nema Annþór, hann hafi staðið þarna þegar lögreglan kom og hafi Annþór sagt nei við lögregluna þegar þeir spurðu hvort þeir mættu koma inn en A hafi hleypt þeim inn. Aðspurður hvort hann hefði það á tilfinningunni að Annþór hafi stýrt árásinni svaraði hann: „Já auðvitað, hann stýrði allavega „setupinu“.
Aðspurður hvort árásin að [...] fyrr um daginn hafi tengst þessari árás, sagði hann það alveg öruggt.
Vitnið B kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið staddur að [...] þegar Annþór og Börkur komu í heimsókn. Stuttu síðar hafi íbúðin fyllst af fólki með kylfur og fleira. Börkur og fullt af liði, sem hann þekkti ekki, hefði ráðist á sig. Börkur hafi barið sig með baseballkylfu og flestir aðrir réðust að honum. Hann hafi tekið eftir því eftir á að A hafi dottið niður fyrir aftan sig. Þ hafi komið fyrstur inn með sleggju og beint henni að B og síðan hafi hann snúið sér að A. Kvaðst hann ekki hafa séð hver opnaði fyrir strákunum sem komu inn í íbúðina. Annþór hafi verið að ræða við A um árásina í [...] og síðan komu allir inn. Kvaðst hann vera viss um að Annþór og Börkur hafi átt aðild að árásinni, þeir hafi verið að senda SMS og verið í símanum og stuttu síðar hafi allir komið inn. Annþór hafi síðan staðið þarna á meðan árásin átti sér stað. B kvaðst hafa farið að [...] deginum fyrir þessa árás og lent í ryskingum við Z. A hafi brotið rúðu þar og gæti verið að hann hafi slegið Z. Aðspurður kvaðst hann ekki geta sagt með fullvissu hver hefði stýrt þessu „setupi“ en það hafi litið út fyrir að vera skipulagt þegar Annþór og Börkur komu inn í [...]. Hann hafi ekki séð Annþór með vopn né í átökum á staðnum. Annþór hafi orðið eftir þegar aðrir fóru og verið á staðnum þegar lögreglan kom fyrst. Hann hafi ekki séð Z í átökum beint. Hann hafi ekki séð þegar A var laminn með sleggjunni. Minnti hann að Annþór hafi verið að ræða við A einhverja skitna skuld, sem hafi vafalaust verið yfirvarp. Annþór hafi verið óvopnaður þegar hann kom inn. A, sem og aðrir sem hafi verið í [...] þegar hinir komu, hafi verið óvopnaðir.
Vitnið N gaf skýrslu hjá lögreglu 6. mars 2012 og sagðist hafa verið heima hjá A þegar Annþór og Börkur komu í heimsókn. Nokkrum mínútum eftir að þeir komu hafi fínn hópur bara komið hlaupandi inn, gargandi og öskrandi. Hann hafi séð sleggju koma og brjóta glerborðið og það hafi allt verið slegið í klessu. Hafi þetta verið um fjórtán til fimmtán menn. Einhver hafi opnað fyrir þeim en hurðin sé alltaf læst. Taldi hann að Annþór og Börkur hafi ekki verið með barefli þegar þeir komu inn, en hann hafi ekki verið að pæla í því, hann hafi verið að horfa á sjónvarpið og þeir að ræða saman sem vinir. Það hafi ekkert verið í gangi. Sagðist hann hafa þekkt Z þegar hópurinn kom inn en aðra ekki. Þeir hafi verið með fjórar golfkylfur sem hafi verið brotnar í íbúðinni þegar þeir voru farnir. Einnig hafi þeir verið með sleggju með plasthaus úr glerhörðu plasti, sleggju sem sé í skipahöfnum. Kvaðst N hafa átt sleggjuna, fundið hana á sínum tíma og hirt fyrir löngu þegar hann og Þ voru saman í bíltúr niður á höfn, en hann hafi hins vegar ekki séð hana í sjö eða átta mánuði. Hann hafi kannast við hana þegar hann sá hana. Kvað N ekki gott að segja hver hafi komið með sleggjuna, hver sem var af þeim strákum hefði getað komið með hana en Þ hafi líklega kippt henni með. N kvaðst ekki geta sagt hver hafi slegið D í höfuðið með sleggjunni, hann hafi grúft sig niður og því ekki séð það sjálfur. N kvaðst ekki hafa séð þegar D, A eða B voru veittir áverkar. Þegar árásin varð hafi hann legið í tungusófanum, A við hliðina á honum og þegar þeir komu inn hafi N litið við og séð sleggjuna á lofti, hann hafi snúið sér undan, borðið hafi verið slegið í mél og A hafi stokkið upp í glugga. Þeir hafi fyrst reynt að bomba D með sleggjunni en E hafi slegið hann undan því höggi, sem hafi stefnt beint á gagnaugað á D, það hafi bara munað millimetra. Þá hafi hann tekið aðra sveiflu og bombað í ennið á D með sleggjunni. D hafi verið heillengi að jafna sig eftir það og hafi N haldið að hann væri alvarlega slasaður. N sagðist ekki hafa séð hver hélt á sleggjunni. Sagði N það rétt ályktað að A hafi orðið fyrir alvarlegustu árásinni og B hafi komið illa út úr þessu, hann hafi verið með stór kýli út úr sér eftir að hafa verið laminn með golfkylfum, sennilega hafi kylfurnar verið brotnar á honum. N sagðist sjálfur bara hafa fengið rispu á fingur. Aðspurður kvað hann rétt vera að þessir menn væru hræddir við föður sinn, O, hræddir við að hann tæki til sinna ráða, yrði N fyrir meiðslum. N kvaðst hafa séð örbylgjuofninn koma fljúgandi, einhver hefði hent honum, hann hafi grúft sig niður, hræddur um að fá golfkylfu í andlitið, hlutum hafi verið grýtt, eins og örbylgjuofni og handlóðum. Hann hafi ekki séð þegar D var laminn með sleggjunni, E hafi sagt honum það. N hafi hins vegar séð þegar verið var að berja með sleggjunni að höfðinu á A, högg sem hafi lent í veggjum, algjör dauðahögg. Svo hafi verið lamið í löppina á A en hann viti ekki hvað af þessum höggum hafi brotið á honum fótinn. N kvaðst svo hafa verið borinn út úr íbúðinni, Annþór hafi gert það og sagt við hann að vanda val sitt á vinum.
Vitnið N kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að hann hafi verið staddur í [...] í umrætt sinn. Hafi Börkur og Annþór komið þar og verið að kanna kvað gerðist á milli þeirra og Þ í [...]. Hnífur hafi verið á sófaborðinu sem Börkur hafi tekið í þeim tilgangi að A myndi ekki taka hann upp þegar þeir kæmu inn. Engin önnur vopn hafi verið nálæg þegar Annþór og Börkur komu inn. Annþór hafi meira og minna verið í símanum og farið síðan og opnað útidyrahurðina og hleypt strákunum inn. Sófaborð úr gleri hafi verið brotið strax og sleggja og golfkylfur hafi verið á lofti. Örbylgjuofn hafi komið fljúgandi. A hafi verið kominn upp á sófann og allir hafi verið að berja hann. Sig minni að fjórir hafi verið að berja A og Z hafi hent örbylgjuofninum í hann en hann hafi lítið séð annað, Annþór hafi staðið fyrir framan hann. Þ hafi verið með sleggjuna og slegið allt sem hann gat með henni. Kvað hann þá alla hafa komið saman á þremur bílum í [...]. Kvaðst hann ekki vita hver skipulagði árásina en honum fyndist það augljóst. Vildi vitnið ekki tjá sig frekar um það. Annþór hafi orðið eftir þegar aðrir fóru en líklega hafi hann ætlað að tryggja að A myndi ekki kæra þetta. Kvað N E hafa staðið í miðjum ganginum þegar hópurinn kom inn og einhverjir fóru með E beint inn í herbergi. Z hafi verið inni í herberginu auk þess sem hann hafi komið og kastað örbylgjuofninum. Hann hafi einnig heyrt Annþór spyrja A um 50.000 krónurnar. Aðspurður kvaðst hann hafa bæði séð X og Ö berja með golfkylfum. Aðspurður kvað hann Annþór hafa farið með sig út í forstofu þar sem hann klæddi sig í skóna eftir árásina. Lögregluskýrsla frá 7. mars sl. var borin undir N þar sem hann sagði að einhver hefði hent örbylgjuofninum. Nú segi hann að Z hafi hent ofninum. Kvaðst N hafa ákveðið í skýrslutöku hjá lögreglu að upplýsa ekki um Z. Það sé hins vegar rétt að Z hafi kastað ofninum. Aðspurður hvort hann vissi hverjir voru með Berki í bíl þegar þeir komu í [...] sagði hann það hafa verið Z, Ö, X og Y ef hann myndi það rétt. Hann þekkti þá alla og væri búinn að ræða við þá eftir þetta.
Vitnið E gaf skýrslu hjá lögreglu 8. mars 2012 og kvaðst hafa verið staddur heima hjá A í umrætt sinn ásamt D, B og N að spjalla saman þegar bankað var og í heimsókn hafi komið þeir Annþór og Börkur. Hafi þeir verið velkomnir en A og Annþór hafi verið vinir. Þeir hafi eitthvað spjallað saman sem E hafi ekki veitt athygli. Hann hafi síðan orðið var við einhver læti eða umgang frá útidyrahurðinni og séð runu af mannskap koma inn, hver með barefli í hendi og séð golfkylfur standa upp fyrir höfuð á þeim. E kvaðst hafa stokkið til á móti mönnunum og gripið í höndina á fyrsta manninum þannig að hann hafi ekki getað sveiflað kylfunni. Hann viti svo ekki af sér fyrr en hann liggi á bakinu inni í svefnherbergi A og einhverjir staðið í dyragættinni með sitt hvora golfkylfuna eitthvað að reyna að lemja hann. Hann hafi reynt að verjast höggum með höndum og fótum. Einhverjar kylfur hafi brotnað en þeir hafi ekki komið neinum þannig höggum á hann. Síðan hafi einhver aðili komið og troðið sér á milli þeirra tveggja sem gættu hans, tekið upp handlóð, sem hafi verið þar við dyrnar, og látið annað lóðið vaða í sig eins fast og hann gat, þar sem E lá á bakinu. Hann hafi síðan tekið hitt lóðið og grýtt því eins fast í E og hann gat. Honum hafi svo verið fyrirskipað að sitja kyrr á rúminu en einn aðili hafi þá staðið í dyragættinni með golfkylfu og gætt hans. Hann hafi séð mikið af fólki og læti eins og það væri verið að brjóta allt og bramla. Fljótlega hafi hurðinni verið lokað en þó verið litið inn af og til, til að kanna hvort hann væri ekki rólegur. Hann tók eftir að hann hafði dottið úr báðum skónum. Þá kvaðst hann hafa heyrt einhvern segja: „Komdu með sleggjuna“. Hafi hann verið hræddur um að það ætti að beita sleggjunni á hann síðastan. Eftir þetta hafi allt þagnað og hann farið fram og séð allt í rúst. A hafi verið fjærst, illa farinn og B líka. Annþór hafi verið að ræða við A. Kvaðst E ekki hafa þekkt aðra en Börk og Annþór af þeim sem komu inn. Aðspurður kvað hann þá sem inn komu ekki hafa verið miklu færri en fimmtán manns. E kvaðst hafa verið að ræða við Annþór þegar árásin átti sér stað en þeirra samtali hafi lokið þegar Annþór fór í símann stuttu áður en árásin átti sér stað. E hafi síðan klárlega verið hindrun í vegi árásarmanna þar sem hann hafi endað inni í herbergi með lokaða hurð og ekki fengið neina áverka þrátt fyrir að hafa verið barinn með stórum lóðum og verið haltur í nokkra daga. E kvaðst ekki hafa séð hverjir veittu áverka, hann hafi verið inni í herbergi allan tímann.
Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið heima hjá A ásamt fleiri félögum. Hann hafi verið að spjalla í símann þegar bankað var og Annþór og Börkur komu inn. Annþór hafi greinilega verið félagi A og heimsóknin virst vinaleg. Þeir hafi farið inn í stofu og verið að spjalla þegar húsið fyllist allt í einu af mönnum. Hann hafi verið inni í eldhúsi og heyrt eitthvað, litið fram og séð menn koma inn og kylfur standa upp frá þeim. Hann hafi rokið á móti þeim í þeim tilgangi að varna því að þeir gætu sveiflað kylfunum. Hann muni eftir að hafa tekið í höndina á fremsta manninum en mundi svo næst eftir sér þar sem hann hafi endað á bakinu inni í herbergi og verið barinn þar með golfkylfum. Honum sé sagt að vera kyrr inni í herbergi, sem hann hafi gert. Einn maður hafi staðið yfir sér og gætt þess að hann færi ekki fram. Hann hafi ekki þekkt þann mann. Tveir eða þrír menn hafi veist að honum, á meðan hann lá á gólfinu, með kylfu auk þess sem hann hafi verið barinn með handlóðum. Hurðinni hafi verið lokað en hann heyrt hluti brotna frammi en ekki séð átökin sem urðu í stofunni. E kvaðst hafa fengið kúlu á höfuð, orðið haltur á fæti og einhverja aðra áverka fengið. Staðfesti hann að hann ásamt fleirum hafi farið í [...] fyrr um daginn og einhverjar ryskingar hafi átt sér stað þá.
Vitnið Leifur Halldórsson lögreglumaður kom aftur fyrir dóminn að beiðni verjanda Barkar Birgissonar. Var hann inntur eftir því hvers vegna upplýsingar sem komi fram í lögregluskýrslu um vitneskju lögreglu hafi ekki komið fram í samantekt lögreglu. Kvað Leifur yfirheyrslur í hljóði og mynd gilda um framburð aðila umfram samantekt lögreglu og vísaði hann til upptökunnar þar sem megi ganga úr skugga um hvort samantektin sé rétt.
Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður kom aftur fyrir dóminn að beiðni verjanda Barkar Birgissonar. Var hann spurður út í misræmi á því sem komi fram í samantekt lögreglu af framburði ákærða og því sem komi fram í upptökum, þ.e. fullyrðingar lögreglu um að vitneskja liggi fyrir hjá lögreglu þegar skýrslutakan fór fram. Kvaðst Jón Gunnar ekki geta staðfest það sérstaklega en vísaði til hljóð- og mynddiska þar sem fram komi hvað spurt er um. Kvaðst Jón Gunnar alls ekki geta munað hvað komi fram í hverri lögregluskýrslu orðrétt í málinu.
Vitnið Sævar Þór Sigmarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fengið tilkynningu um læti að [...] í Mosfellsbæ. Þegar þeir komu þar að hafi Annþór og N verið fyrir utan íbúðina og N verið mjög stressaður. Lögreglan hafi farið inn í íbúðina og þar hafi A ásamt félögum verið og allt á rúi og stúi. Þeir hafi ekkert viljað segja hvað hafi gerst og lögreglan mátti ekki kalla á sjúkrabifreið. Þeir hafi ekki áttað sig á því að A hafi verið fótbrotinn. Stuttu seinna fengu þeir aftur beiðni um að fara í [...] vegna þess að kallað hafði verið á sjúkrabíl að [...]. N hafi farið með sjúkrabílnum á slysavarðstofuna. Annþór hafi rætt við þá og sagt lögreglu að þetta yrði bara gert upp á milli þeirra strákanna. Aðspurður kvað hann að enginn hafi viljað tjá sig um atburðinn og þeir hafi viljað fá lögregluna burtu. Uppi á sjúkrahúsi hafi B komið til hans og sagt honum frá því hvað hafi gerst í [...].
IV.
Önnur rannsóknargögn.
Læknisvottorð Arnbjörns Arnbjörnssonar liggur frammi í málinu, dagsett 7. nóvember 2012. Kemur þar fram að A hafi komið í skoðun 8. október sl. Við skoðun þá segir að nokkur vökvi hafi verið í hægra hné. Ekki eymsli kringum hnéskel, eymsli yfir innri liðþófa en ekki eymsli utan til á hnéliðnum. Hnéð sé stöðugt. Sársauki sé við að beygja hnéð og sjúklingur geti beygt hnéð til um það bil 120 gráðu. Það vanti 20-30 gráður upp á fulla beygju miðað við vinstra hné. Gróið sár var framan á hægri kálfa og eymsli þar í kring. Ökkli sé eðlilegur en nokkur vöðvarýrnun á kálfa. Röntgenmyndir voru teknar 22. október sl. sem sýndu væga liðbilslækkun innan til í hnéliðnum. Hnéskel hafi staðið talsvert neðarlega og líkt og laus beinvala væri frá neðri brún hnéskeljar. Merki eftir brot á sköflungsbeini hafi verið ofarlega. Borið saman við fyrri skoðun frá 16. mars sl. þá sé brotið nú gróið og sé lítils háttar hliðrun aftur á við á neðri hluta sköflungsbeins um rúma corticalis-breiddina eins og áður hafi verið. Við segulómun hafi sést talsvert mikill vökvi í hnjáliðnum. Laus flís hafi verið utan til við hnéskel neðan til, gæti verið afleiðing fyrri áverka. Þar séu brjóskskemmdir þarna aðlægt á liðbrún hnéskeljar utan til. Brot á hægra sköflungsbeini eftir árás í janúar 2012 hafi verið meðhöndlað með gifsi. Sjúklingur hafi enn óþægindi frá hægri kálfa eftir brotið og vöðvarýrnun en hann hafi líka haft óþægindi frá hægra hné eftir að árásin var gerð. Segulómun hafi sýnt rifinn innri liðþófa í hægra hné. Þar sem mikið afl þurfi til að brjóta sköflungsbein þá sé ekki ólíklegt að rifan í liðþófa hafi komið til við árásina. Við áframhaldandi óþægindi frá hné gæti þurft að gera aðgerð á hnénu. Reikna megi með að óþægindi vegna beinbrotsins geti verið langvarandi.
Hjalti Már Björnsson læknir kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð sem hann hafði gefið út vegna A. Kvað hann A hafa komið 4. janúar sl. á bráðamóttöku. Hafi hann lýst því svo að hann hafi verið barinn þá um kvöldið með bareflum og sleggju. Hafi sköflungur verið brotinn. Kvað hann lýsingu A koma heim og saman við áverkana. Taldi Hjalti ekki möguleika á að svona brot geti hlotist af falli úr 80 cm hæð hjá ungum hraustum einstaklingi.
Læknisvottorð Friðriks E. Yngvasonar sérfræðings liggur fyrir þar sem fram kemur að B hafi komið á bráðamóttöku kl. 20.28 þann 4. janúar 2012. Segir um áverka á B að hann hafi verið með stjörnulaga sár á hnakkanum um það bil 3 cm í mesta þvermál. Það hafi verið saumað. Hann hafi verið með skrapsár á báðum öxlum. Hann hafi verið með stórt mar og blóðsafn í upphandlegg vinstra megin og jafnframt með mar á báðum framhandleggjunum yfir öln og hafi vafalítið fengið það þegar hann varðist barsmíðum. Stórt mar hafi verið á miðjum framhandleggnum. Myndir hafi verið teknar og í fyrstu hafi ekki greinst brot. B hafi komið aftur 10. febrúar og þá ennþá aumur í vinstri úlnlið og hafi þá við rannsókn sést brot. Á vísifingri hægri handar sé sprungið fyrir á húð yfir nærkjúkulið en þarfnist ekki sauma.
Friðrik E. Yngvason, sérfræðingur á bráðamóttöku LSH, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa skoðað B er hann kom á slysadeild 4. janúar sl. Hann hafi verið með stjörnulaga sár á höfði, sem gæti verið eftir högg, og framan á handleggjum hafi hann verið með mikla áverka sem væri óvenjulegt en þeir væru sennilega varnaráverkar. Hann hafi líklega borið fyrir sig handleggina og fengið höggin á framhandleggina. Hann hafi verið með skrap á fingri en verið útskrifaður. Hann hafi komið aftur daginn eftir og þá verið með verki í úlnlið og í myndatöku hafi sést að hann var brotinn. Það hafi ekki komið fram deginum áður þar sem aðrir áverkar hafi verið það miklir að þeir vörnuðu honum hreyfingar. Frásögn B hafi komið heim og saman við áverkana sem voru á handleggjum. Aðspurður hvort áverki á hendi hafi komið til af því að hann hafi barið frá sér, kvað hann það afar ólíklegt, áverkinn sé þannig staðsettur.
Læknisvottorð Hjalta Más Björnssonar frá 12. mars sl. liggur fyrir þar sem fram kemur að D hafi komið á bráðadeild 4. janúar 2012 kl. 21.55 og lýst átökum. Við rannsókn kom í ljós flipalaga skurður á enni, sem greinilega hafi verið talinn eftir sljótt áhald, en öðrum áverkum hafi ekki verið lýst. Samrýmist lýsing D áverkunum á höfði hans.
Staðfesti Hjalti læknisvottorð vegna D en hann hafi komið á bráðamóttöku 4. janúar sl. Hafi hann verið sleginn með sleggju í ennið. Hann hafi verið með skurð á enni með þannig sárabrúnir að þær væru eftir áhald.
Mynddiskur úr eftirlitsmyndavél liggur fyrir í málinu. Kemur fram á honum að klukkan 19.01 þann 4. janúar 2012 komu þrír bílar samtímis að [...] og sjást menn ganga fram og til baka fyrir utan þá. Klukkan 19.04 fara tveir menn inn í [...]. Klukkan 19.05 hlaupa allir þeir, sem biðu fyrir utan húsið, inn. Klukkan 19.10 sjást nokkrir menn fyrir utan og kl. 19.11-19.12 sjást menn koma hlaupandi út að bílunum og klukkan 19.14 fer síðasti bíllinn burtu.
Upplýsingaskýrsla lögreglu þann 20. nóvember sl. liggur fyrir í málinu ásamt hljóðdiski þar sem fram kemur að lögregla hafi sent ákæruvaldinu tölvupóst þann 30. október sl. þess efnis að lögreglu væri enn að berast upplýsingar um að verið væri að reyna að hafa áhrif á vitni sem eigi að gefa framburð fyrir dómi vegna nokkurra líkamsárása sem búið sé að ákæra fyrir. Það sem lögregla hafi heyrt af sé m.a. upplýsingar frá Y en hann hafi tjáð lögreglu að Annþór hafi haft samband við móður kærustu sinnar og beðið hana um að koma því til skila til Y að „annaðhvort væri hann vinur þeirra eða ykkar“ en þessum orðum hafi hann beint til lögreglu í símtali sem hafi verið hljóðritað með hans vitneskju. Hafi hann einnig upplýst að P, kærasta hans, hafi fengið símtal frá aðila á Litla-Hrauni, sem hafi ekki kynnt sig, þar sem því var hótað að meiða P ef Y myndi ekki breyta framburði sínum.
Þá kemur fram í upplýsingaskýrslunni að annað vitni, sem hafi borið um það sem hafi gerst í [...], hafi haft samband við lögreglu í nokkur skipti en þá hafi aðilar nálgast hann og gert honum að draga framburð sinn til baka og bera ljúgvitni. Í eitt skipti hafi m.a. skotvopni verið beint að honum til að ítreka og leggja áherslu á að honum væri betra að hlýða. Sé þar um að ræða M.
Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður staðfesti að hafa átt ofangreint símtal við Y og var upptakan spiluð fyrir réttinum.
V.
Forsendur og niðurstöður.
Ágreiningslaust er að allir ákærðu vegna þessa ákæruliðar voru að [...], Mosfellsbæ, að kvöldi 4. janúar sl. Ákærðu neita því allir að um samverknað hafi verið að ræða eða að árásin hafi verið skipulögð áður en lagt var af stað heim til A.
Af gögnum málsins og framburði ákærðu og vitna er ljóst að upphaf máls þessa er atlaga sem A, B og einn annar ónefndur aðili gerðu að [...], Reykjavík, fyrr um daginn þann 4. janúar 2012, á heimili Þ.
Ákærðu Annþór og Börkur skýrðu aðild sína að árásarmálinu í [...] fyrir dóminum. Ákærðu hafa borið með misvísandi hætti hvenær ákærðu Börkur og Annþór komu í [...]. Er framburður þeirra hvað það varðar metinn með vísan til trúverðugleika framburðar þeirra eins og áður hefur verið lýst.
Aðrir ákærðu hafa lýst því fyrir lögreglu og dómi, hvernig það bar að að þeir fóru upp í [...] og er mikið misræmi í framburði þeirra varðandi aðdragandann og hvernig eða með hverjum þeir fóru þangað.
Telur dómurinn að metnum framburði ákærðu, sem að árásinni komu, það alveg ljóst að ákveðið var að fara upp í [...] í þeim tilgangi að ráðast að A og hafi ákærðu Börkur og Annþór verið með í þeirri ákvörðun. Þá er ljóst að nauðsynlegt hafi verið í skipulaginu, að ákærðu Annþór og Börkur færu fyrstir inn til að kanna hvort öðrum væri óhætt að ráðast til atlögu.
Telur dómurinn því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu allir, í þessum kafla ákærunnar, hafi sammælst um að fara heim til A í þeim tilgangi að ráðast á hann.
Ákærðu hafa reynt að sýna fram á verkskipta aðild sína í verknaðinum. Ágreiningslaust er að allir ákærðu í þessum ákærulið, fyrir utan ákærða Annþór og Börk, réðust inn í [...] með sleggju, golfkylfur, baseballkylfur og fleiri vopn eftir að ákærði Annþór hafði opnað fyrir þeim. Hafa ákærðu játað aðild sína eins og henni er lýst í lögregluskýrslum og fyrir dóminum hér að ofan.
Ágreiningslaust er að ákærði Annþór stóð inni í stofu á meðan á árásinni stóð og fylgdist með auk þess að standa fyrir N svo hann yrði ekki fyrir meiðslum. Ákærði Y lýsti því að ákærði Börkur hafi verið með baseball- eða lögreglukylfu og barið B og vitnið D sagði hjá lögreglu 6. mars sl. að ákærði Börkur hafi verið með sleggjuna og barið með henni. Þá sagði vitnið A fyrir lögreglu og dómi að ákærði Börkur hafi verið með sleggjuna. Vitnið B sagði hjá lögreglu 8. mars sl. að ákærði Börkur hafi verið með baseballkylfu. Dró vitnið þann framburð til baka hjá lögreglu 19. mars sl. og kvaðst ekki geta sagt til um hver hafi verið með sleggjuna. Ákærði Y dró þennan framburð sinn hjá lögreglu til baka fyrir dómi og sagðist einungis hafa séð Börk með kylfu í hendi þegar hann afvopnaði vitnið D. Þá hafi það verið rangt sem hann hafi sagt hjá lögreglu að Börkur hafi sótt hann heim áður en farið var að [...]. Gaf ákærði Y ekki trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum. Hins vegar liggur fyrir að honum hafi verið hótað ofbeldi, dragi hann framburð sinn ekki til baka. Þá sagði ákærði Sindri fyrir dómi að hann hafi séð einhvern berja Börk en Börkur tekið kylfuna af þeim aðila.
Aðild hvers og eins hefur verið rakin ítarlega í III. kafla hér að ofan. Telur dómurinn ljóst að tilviljun ein réð því hver gerði hvað. Tveir ákærðu virðast hafa tekið E og haldið honum inni í herbergi ásamt því að veita honum áverka, á meðan aðrir ákærðu réðust að þeim sem inni í stofu sátu. Óumdeilt er að ákærðu Annþór og Börkur fóru fyrstir inn í íbúðina. Þá er óumdeilt að ákærði Annþór hringdi í ákærða Þ og sagði þeim að koma inn, auk þess sem ákærði Annþór fór og opnaði útidyrahurðina. Var þá liðin rétt rúm mínúta frá því að ákærðu Börkur og Annþór fóru inn samkvæmt upptöku á eftirlitsmyndavél. Ákærðu Þ og Annþór bera að A hafi heimilað inngöngu annarra ákærðu og Annþór með samþykki A opnað útidyrahurðina. Gegn mótmælum vitnisins A og annarra vitna er ósannað að svo hafi verið og telur dómurinn ólíklegt að vitnið A hafi hleypt öðrum ákærðu inn til sín hefði hann vitað hversu margir þeir voru, í hvaða tilgangi þeir voru komnir og að þeir voru allir vopnaðir. Telur dómurinn að þáttur ákærða Annþórs hafi verið nauðsynlegur í verknaðinum, meðal annars með því að vera undanfari, ráðfæra sig við aðra ákærðu áður en þeir komu á staðinn og láta síðan ákærða Þ vita hvenær þeir máttu koma inn og opna fyrir þeim. Þá er mikið misræmi í framburði aðila fyrir lögreglu og dóminum um aðild ákærða Barkar og er sá framburður fyrir dómi, sem segir Börk einungis hafa varið sjálfan sig ótrúverðugur. Auk þess dregur dómurinn þá ályktun að framburður þeirra eftir breytingu, sem er nánast samróma, hafi verið samræmdur eftir á. Telur dómurinn því hafið yfir allan vafa að ákærði Börkur hafi tekið þátt í árásinni með vísan til framburðar vitna, hvort sem það hafi verið með sleggjunni eða öðrum bareflum. Þá verður að telja að nærvera ákærða Annþórs hafi verið hluti af árásinni en hann veitti henni aukið vægi með nærveru sinni.
Verður því að telja hafið yfir allan vafa að ákærðu allir hafi sammælst um að veitast í félagi að A, eins og greinir í I. kafla ákærunnar og með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru en tilviljun réði því hverjir aðrir urðu fyrir árásinni en það voru A, B, D og E. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir aðild sína í þessum ákærulið. Er háttsemi þeirra réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
VI.
Ákæruliður II.
Málsatvik.
Upphaf máls þessa er að lögregla fékk, við rannsókn á máli nr. 007-2012-821, upplýsingar um að G hafi verið lokkaður að [...] í Reykjavík og verið sviptur frelsi og gengið hafi verið í skrokk á honum ásamt F. Veist hafi verið að þeim G og F með spýtu, migið yfir G og stigið á hendur hans. Hafi árásaraðilarnir verið átta talsins, ýmist með hafnaboltakylfur eða kúbein. Hafi F leitað á slysadeild vegna áverka og hefði þurft að sauma skurð í höfði hans. Hafi þeir báðir tjáð lækni á slysadeild að þeir hafi dottið í stiga. Hafi þeim verið hótað lífláti auk þess sem F hafi verið hótað inni á salerni að hnéskeljarnar á honum yrðu brotnar ef hann greiddi ekki tiltekna fjárhæð.
Átti árás þessi að hafa átt sér stað að kvöldi 14. desember eða aðfaranótt 15. desember 2011. Þann 16. mars sl. rannsakaði lögregla íbúðina að [...], Reykjavík, íbúð [...] á [...] hæð. Var íbúðin tóm. Var Luminol sett á gólfið þar sem brotaþoli kvaðst hafa legið en efnið Luminol flúrljómar þegar það kemst í snertingu við blóð þrátt fyrir að búið sé að þvo umrætt svæði sem rannsakað er. Svörun við rannsóknina gaf til kynna að blóð hafi verið á stofugólfi og víðar.
Í skýrslu lögreglu þann 9. mars 2012 segir að G hafi komið á lögreglustöð til að kæra atburð sem lýst er í ákærulið II í ákæru útgefinni 5. maí 2012.
Ákærðu neita allir sök. Í ljósi þess að framburður vitna og ákærðu fyrir lögreglu og dómi er misvísandi og breytilegur þykir nauðsyn að rekja framburð aðila fyrir lögreglu sem og dóminum.
VI.
Skýrslur ákærðu og vitna fyrir lögreglu og dómi.
Skýrsla var tekin af ákærða Annþóri Kristjáni Karlssyni vegna þessa máls þann 14. mars 2012. Kvaðst Annþór ekki vita um hvað væri verið að tala. Aðspurður um það hvort hann hafi tekið þátt í að frelsissvipta menn svaraði hann því játandi en neitaði aðkomu að árásinni í [...]. Ákærði gaf aftur skýrslu 19. mars sl. hjá lögreglu vegna þessa ákæruliðar. Kvaðst hann saklaus og ekki hafa komið nálægt þessu.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson kvaðst fyrir dóminum hafa komið í [...] ásamt ákærða Berki og farið að útidyrum þar sem M bjó. Ákærði hafi ætlað að fá að tala við F, en F hafi verið með yfirlýsingar um að það ætti að skjóta undan þeim Berki lappirnar. Kærasta M hafi ekki viljað hleypa þeim inn í íbúðina en F hafi þá komið út, tekið á rás, hrasað í stiganum og síðan hlaupið í burtu. F hafi haldið um höfuðið þegar hann hljóp í burtu. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð G og H þarna. Ákærði kvað óvildarmenn þeirra Barkar í undirheimunum ljúga á þá sakir í þeim tilgangi að koma þeim inn. Ákærði kvaðst hafa rætt við M á staðnum kannski í tvær mínútur og síðan hafi það tekið þá einhverjar mínútur að keyra burtu. Ákærði kvað þá Börk eina hafa farið að útidyrahurðinni en hann minnti að Z hafi verið úti í bíl. Börkur hafi aldrei farið inn heldur. Þá neitaði ákærði því að „hafa sett skuld á“ G og neitaði annarri háttsemi.
Skýrsla var tekin af ákærða Berki Birgissyni hjá lögreglu vegna þessa ákæruliðar þann 14. mars sl. Kvaðst hann ekki kannast við G í fljótu bragði og ekkert kannast við þetta mál. Neitaði hann að tjá sig frekar en neitaði sök í málinu. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 19. mars sl. Neitaði ákærði að tjá sig um sakarefnið.
Ákærði Börkur Birgisson kvað fyrir dóminum ákærulið þennan vera uppspuna. Hann muni eftir að hafa farið að [...] til að ræða við F fyrir utan heimili M. M hafi hringt í sig og beðið sig um að koma. Aðspurður um það hvað hann hafi ætlað að ræða við F, kvaðst hann hafa getað rætt við hann um hvað sem er. Þegar þeir hafi bankað hjá M, hafi M og kærasta hans komið til dyra og F hafi síðan komið út til að ræða við þá. F hafi verið að tala um það að skjóta undan þeim lappirnar með haglabyssu en F hafi samt ekki verið með haglabyssu með sér. F hafi allt í einu tekið á sprett og hlaupið niður tröppurnar, flogið á hausinn í tröppunum og svo hlaupið í burtu út í nóttina. Ákærði kvaðst halda að hann hafi orðið eitthvað hræddur. Einhverjir strákar hafi verið með Annþóri og verið úti í bíl á meðan, allavega Sindri og Æ, en hann myndi ekki hvort Þ hafi verið í bíl ákærða. Kvað ákærði kærustu M ekki hafa viljað hleypa þeim inn í íbúðina og því hafi F komið út til að ræða við þá. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð G né H. Hann viti þó hver G sé. Aðspurður hvort X hafi verið með honum í bíl, kvað hann það vel geta verið, hann myndi það ekki alveg. Ef Z hafi verið á svæðinu þá hafi hann verið í bíl Annþórs. G sé mjög skrýtinn, hann hafi áður fyrr spurt ákærða hvort hann mætti gera honum greiða og slíkt. Ákærði hafi alltaf verið góður við hann. Ákærði kvaðst hafa verið í um fimm mínútur í [...] en hann hafi síðan tekið einhvern rúnt í hverfinu til að leita að F. Hvert hann fór eftir það myndi hann ekki. Kvað ákærði þá Annþór hafa rætt saman um að fara báðir í [...] til að ræða við F og þeir hafi komið á sitthvorum bílnum.
Vitnið G kvaðst fyrir lögreglu þann 9. mars 2012 hafa kynnst Berki á árinu 2009 en þá hafi G verið í slæmum félagsskap og í neyslu. Til að útvega sér dóp hafi hann farið að stela fyrir Annþór og Börk. Hann hafi unnið á barnum hans, [...] í [...]. Börkur hafi yfirleitt geymt dópið sitt inni í peningaskáp á [...]. Þegar G hafi eitt sinn skuldað Berki 10.000 krónur hafi Börkur hótað að drepa hann. Það hafi gerst á Tapasbarnum niðri í bæ. Síðan hafi hann ekkert heyrt af honum fyrr en árið 2011 en þá hafi G átt að stela blöndunartækjum fyrir hótelið hans í Hafnarfirði. Það hafi G ekki viljað gera þar sem blöndunartækið var dýrt og erfitt að ná því. Hann hafi því sagt Berki að hann vildi ekki gera þetta því hann væri að taka sig á. Börkur hafi þá sagt honum að hann væri ekki kominn í góð mál núna, hann væri búinn að koma sér í vandræði. G kvaðst hafa sagt vini sínum frá þessu en þann 2. janúar hafi hann verið tekinn í gíslingu í [...], hann verið laminn með priki í hausinn, staðið hafi verið á höndunum á honum og síðan pissað yfir hann. Honum hafi verið gert að greiða 200.000 krónur á mánuði þar til þeir myndu segja stopp. Börkur hafi slegið hann í hnakkann, þrjú til fjögur högg, hafi hann síðan látið hann leggjast á gólfið á magann og staðið ofan á handarbökunum á honum. Börkur hafi rifið í eyrað á honum þar til blæddi úr. Einnig hafi hann látið aðra stráka standa ofan á höndunum á honum.
Síðan segir G í sömu skýrslu hjá lögreglu að hann minni að Börkur og Annþór hafi elt hann 5. janúar sl., skorið hann í andlitið og kýlt hann í kjálkann. Það hafi verið Börkur sem sló hann. Hann hafi verið með veiðihníf með tönnum aftan á. H hafi þá verið með G og ekið. Þá hafi G velt því fyrir sér hvort hann þyrfti að flýja land en hann hafi síðan flúið norður í land. Q hafi eftir þetta hringt í sig og verið með hótanir. Hringt hafi verið í G úr fleiri númerum, en hann væri hættur að svara í símann. Þá hafi G heyrt að fullt af strákum væru á eftir honum fyrir Börk og ætluðu að koma honum til Reykjavíkur þegar þeir næðu honum og koma honum til Barkar og Annþórs. G kvaðst hafa heyrt að hann skuldaði Annþóri en þeir væru búnir „að setja skuld á hann“, hann vissi bara ekki hversu mikið.
G kvað H og F hafa einnig verið í [...] í umrætt sinn. F hafi verið barinn með sama priki og G og það hafi fossblætt úr höfði hans. Síðan hafi þeir dregið F inn á salerni og hótað að brjóta hnéskeljarnar á honum ef hann greiddi ekki hálfa milljón daginn eftir. Ástæða þess hafi verið að F hafi sagt á bar að það ætti að skjóta í lappirnar á Annþóri og Berki. Þá kvaðst G hafa heyrt í gegnum síma að Börkur hafi hótað að berja F næði hann í hann. G lýsti prikinu sem Börkur var með eins og herðatré í laginu en um fimm sentímetra á þykkt. G kvaðst hafa farið með F á slysadeild en ekki fengið áverkavottorð sjálfur. Læknirinn hafi litið á eyrað og sagt að brjósk hafi rifnað. Hann hafi ekki þorað að segja þá hvað raunverulega hafi gerst, heldur að hann hafi dottið í stigagangi. Læknirinn hafi spurt hvort þeir hafi báðir dottið og þeir játað því.
Aðspurður hvort hann hafi fengið fíkniefni hjá Berki, kvað G það vera rétt, hann hafi fengið bæði amfetamín og kókaín. Það hafi hann fengið fyrir að sendast fyrir Börk og sækja og senda vini hans. Þeir hafi líka stundað þjófnað fyrir Börk. Þá kvað hann M, vin Barkar, hafa tekið þátt í þjófnaði á dekkjum úr gámi fyrir Börk. Þá hafi Börkur stundum beðið sig um að dreifa dópi fyrir hann en vinur G hafi gert það í staðinn. Taldi G Börk hafa verið með tíu til tuttugu menn sem stunduðu þjófnað fyrir hann.
G kvaðst hafa átt við verulega erfiðleika að stríða eftir árásina að [...], hræðsluköst og ofsakvíðaröskun, svefntruflanir og almenna félagsfælni. Hann þori ekki að fara í búðir nema þar sem myndavélar séu og haldi sig annars inni. Aðspurður kvaðst G ekki hafa hugsað sér að borga neitt til Barkar og hann hafi á ákveðnum tímapunkti óttast að þeir myndu drepa sig. Þá hafi hann hugsað ýmis örþrifaráð til að losna undan þessu.
Aðspurður hversu lengi þeim hafi verið haldið í [...] kvaðst hann hafa komið þangað um kl. 20.00 en farið út klukkan 01.30. Hann hafi verið látinn liggja við svalahurðina. Teiknaði G íbúðina upp fyrir lögreglu. Kvað hann Börk og Annþór hafa tekið þátt í að frelsissvipta þá auk annars stráks sem H þekkti. H hafi ekki mátt vera nálægt honum. Sá sem hafi verið í íbúðinni hafi verið svolítið dökkur á hörund og sé kallaður Z í [...]. Hann hafi verið með hanakamb. Þeir Börkur hafi fyrst staðið á höndunum á honum. Börkur hafi síðan fengið annan strák sem var með þeim til að standa á honum. Sá hafi haldið á kúbeini. Börkur hafi síðan slegið hann í hnakkann. Þetta hafi verið þung högg, hann hafi verið aumur í tvær vikur og ekki getað sofið á hnakkanum. Hann hafi einnig verið rauður og aumur í puttunum.
G teiknaði upp afstöðumynd hjá lögreglu af íbúðinni í [...]. Er hún í samræmi við önnur rannsóknargögn.
Þann 12. mars sl. kom G að eigin frumkvæði til lögreglu og kvaðst vilja leiðrétta fyrri framburð frá 9. mars. Hann hafi sagt ósatt um skurðarmálið, það er að hann hafi verið eltur og skorinn í andlit. Kvaðst hann hafa sagt þetta þar sem hann hafi verið svo hræddur um að þeir myndu ná honum aftur og taka hann endanlega. Þetta hafi verið mjög stuttu eftir frelsissviptinguna. Hann hafi sagt vinum sínum að hann væri mjög hræddur um líf sitt og hafi beðið þá um að hjálpa sér. Það hafi verið þeir H, R og S sem kýldu hann. R hafi skorið hann. G hafi síðan verið sagt að hringja í lögreglu og segja að Börkur og Annþór væru að elta hann. Þetta hafi hann gert til að reyna að fá vernd hjá lögreglu. Hann hafi gert þetta svona því hann hefði ekki þorað niður á lögreglustöð vegna frelsissviptingarinnar og skuldarinnar sem þeir „hafi sett á hann“.
Aðspurður hvort hann sé viss um að frelsissviptingin hafi átt sér stað 2. janúar 2012, kvaðst G ekki vera viss en hann minni það. Hann hafi komið í bæinn 2. janúar en þar á undan hafi hann komið í desember að hann minni. Árásin gæti hafa átt sér stað þá, hann væri ekki góður í dagsetningum. Þegar hann hugsi betur út í það haldi hann að það hafi verið fyrir jól. Kvað hann H hafa pissað yfir sig þá en Börkur og Annþór hafi sagt honum að gera það. Að öðrum kosti myndu þeir berja H. G sagði að þeim hafi verið haldið algjörlega gegn vilja þeirra, þeir hafi engin ráð haft um það að fara. Þeir hafi verið umkringdir af strákunum og innikróaðir í horni á meðan aðrir hafi verið með kúbein og hafnaboltakylfur. Staðfesti G að annað í skýrslutökunni frá 9. mars sl. en frásögnin um að hann hafi verið skorinn væri rétt.
G kom fyrir dóminn og lýsti atvikum þannig að hann og vinur hans hafi komið frá Akureyri og sótt F til Hafnarfjarðar. F hafi verið eitthvað hræddur og verið að leita ráða hjá strák í Grafarvoginum. Þeir hafi farið heim til hans að [...]. Þeir hafi verið að ræða við vininn þegar allt í einu ruddust menn inn í íbúðina, sex eða sjö talsins. Börkur hafi gengið mjög hratt inn í íbúðina þar sem þeir sátu með bakið í útidyrahurðina og barið F í hnakkann með trékylfu svo hann féll í gólfið. F hafi legið á gólfinu hálfvankaður og blæddi úr honum. Þeir hafi síðan staðið í hring yfir F og sparkað í hann og spurt hann hvort hann væri með skotvopn. Annþór hafi látið G leggjast á gólfið með hendur fyrir framan höfuðið. Börkur og Annþór hafi staðið á höndum hans. Þeir hafi neytt vin hans til að kasta þvagi yfir hann þar sem hann lá á gólfinu og að því loknu hafi Börkur barið hann í höfuðið með trékylfu þar sem hann lá. Að því loknu hafi Börkur látið G setjast í sófann og sest við hliðina á honum, spurt sig hvort hann væri ofurhetja, kýlt hann í andlitið og rifið í eyra hans svo úr blæddi og hann fengið skurð bak við eyrað og spurt Annþór hvort þeir ættu að taka G með þeim. Börkur hafi spurt G hversu miklar bætur hann fengi á mánuði og þá sagt: „Þú skuldar mér 200.000 krónur þar til ég segi stopp“. Annþór hafi þá ásamt öðrum farið með F inn á salerni en G ekkert heyrt þaðan fyrr en þeir fóru allir. F hafi þá komið fram og sagst skulda þeim 500.000 krónur. Taldi G ástæðuna fyrir komu þeirra vera að F hafi sagt að það ætti að skjóta þessa menn og þeir frétt það. Fullt af mönnum hafi staðið við útidyrahurðina og Börkur og annar strákur staðið við svalahurðina og þeir hafi ekki átt neinn kost á að komast út úr íbúðinni.
G kvaðst hafa unnið fyrir Börk við að stela ýmsu fyrir hann. Síðasti þjófnaðurinn fyrir Börk hafi verið að fara í Bykó og stela blöndunartækjum fyrir hótel sem Börkur rak. Hann hafi ekki mátt ræða þetta í síma við Börk. G hafi ekki gert það og hafi hann orðið hræddur í framhaldi og farið í felur. G kvaðst hafa farið tvisvar inn á geðdeild eftir þetta, hann sé með áfallastreituröskun, víðáttufælni og þori ekki að vera úti. Hann fyllist hræðslu í hvert sinn sem hann heyri nöfn þeirra, hann sé sífellt hræddur um að menn séu á eftir sér. Hann sé að berjast við að reyna að vera hann sjálfur og lifa eðlilegu lífi en það sé mjög erfitt. Hann þurfi að vera á róandi, annars fyllist hann bara hræðslu. Þessi veikindi hafi komið til eftir árásina en hann hafi átt við þunglyndi að stríða fyrir árásina. Hann hafi fyrst leitað á geðdeild í febrúar sl. og aftur í október sl. og legið inni síðan.
Aðspurður um sögu hans fyrir lögreglu um að hann hafi verið skorinn í andlitið, kvaðst hann hafa búið þann atburð til þar sem hann hafi verið mjög hræddur og lögregla sagt honum að þeir hefðu engin úrræði til að vernda hann nema eitthvað kæmi fyrir. Hann hafi þá verið í áfengisvímu og verið mjög hræddur. Hann hafi því búið þann atburð til í þeim tilgangi til að fá vernd. Hann hafi hins vegar farið til lögreglu nokkrum dögum síðar og dregið þá frásögn til baka og skýrt ástæðu fyrir röngum framburði. G kvað lögreglu hafa tekið skýrslu af sér út af röngum framburði í lögregluskýrslu. Aðspurður hvort þann þekkti X neitaði hann því.
Spurður um það að tveir menn hafi staðið á höndum hans þar sem hann lá á gólfinu, kvað hann sína frásögn vera rétta, hann fann að stigið var á hendurnar á honum. M, sem beri annað, sé sá sem hafi hringt í Annþór og Börk og látið vita af komu þeirra þangað. Spurður hvort hann þekki Z, sagði G hann hafa verið á staðnum. G hafi séð „tanaðan“ mann með hanakamb, sem var á staðnum og vinir hans sagt honum að það hafi verið Z í [...]. Kvaðst hann ekki muna klukkan hvað þeir komu að [...] en þeir hafi verið þar í um eina til tvær klukkustundir. Þeir hafi ekki átt nokkurn kost á að yfirgefa íbúðina á meðan mennirnir voru inni en hann og F hafi farið upp á sjúkrahús strax eftir árásina en hann sjálfur ekki fengið áverkavottorð. Skýrði hann frásögn þeirra á slysadeildinni þannig að Börkur og Annþór hafi sagt þeim að ef þeir segðu til þeirra myndu þeir beita G ofbeldi. Því hefðu þeir gefið skýringuna með stigann þegar læknirinn spurði þá um áverkana.
G er spurður um misræmi í framburði hans varðandi tímasetningar. Kvaðst hann hafa komið til Reykjavíkur fyrir jól og aftur á nýjársdag. G kvaðst halda að árásin hafi átt sér stað 2. janúar að hann minni. Kvaðst hann ekki vera mjög minnugur á dagsetningar og útskýrði fyrir dóminum greiningu sem hann hafi fengið vegna greindarskerðingar. Aðspurður kvað hann frænku sína hafa kvatt hann til að kæra árásina sem hann hafi gert. Hann hafi ekki þorað að kæra fyrr af ótta við Börk og Annþór.
Vitnið F kvaðst hjá lögreglu 11. mars sl. hafa hringt í M og leitað ráða hjá honum því einhverjir væru á eftir honum. F hafi farið heim til M og þeir verið að spjalla saman. M hafi þá hringt í félaga sína og spurt hvort þeir ætluðu ekki að kíkja á hann og lagt síðan á. Fimm eða tíu mínútum síðan hafi einhverjir komið inn og F fengið högg í höfuðið aftan frá og legið á gólfinu hálfrotaður. Síðan hafi einhverjir menn sparkað í hann. Hann hafi síðan verið dreginn inn á salerni þar sem Börkur og Annþór hafi verið og viljað ræða við hann. Þeir hafi viljað að hann greiddi 500.000 krónur næsta dag og síðan fimm milljónir. Börkur hafi viljað brjóta á honum báðar lappirnar, hann hafi beðið þá um að gera það ekki og þá hafi Börkur svarað: „Nei ég er að djóka í þér“. Þeir hafi síðan farið fram og F farið að þrífa blóð af sér. Hann hafi síðan farið fram og þá séð G, M og H. Aðspurður hvað hafi gerst kvaðst hann hafa frétt að H hafi þurft að pissa á höfuðið á G. Hann hafi aldrei séð hvað gerðist því hann hafi legið á jörðinni hálfrotaður. Eitthvað hafi blætt úr eyranu á G. Í framhaldi hafi þeir farið á slysavarðstofuna þar sem átta spor voru saumuð í höfuðið á F. Næsta dag hafi hann einnig leitað á Slysó, þar sem hann hafi verið með svo mikinn hausverk, og látið kanna hvort hann væri höfuðkúpubrotinn. Kvaðst hann hafa sagt lækninum að hann hafi dottið í stiga. Kvaðst F hafa verið sleginn með priki í höfuðið. Lýsti hann prikinu sem bognu spýtupriki. Kvaðst hann hafa misst þvag þegar hann var barinn.
F kvað X, Y og Z hafa verið þarna en það voru þeir einu sem hann hafi þekkt af þeim sem komu. Hann hafi frétt frá H að T hafi verið þar. F minnti að árásin hafi átt sér stað 19. desember 2011, en hann hafi farið á slysavarðstofuna beint á eftir. F kvaðst ekki hafa séð þegar pissað var á G en hann hafi séð að hann var pissublautur. Kvað F að það kæmi í veg fyrir að hann kærði að þeir gætu komið á eftir honum eða sent einhverja. Hann óttaðist hefndir ef hann kærði þá fyrir árásina.
F kom fyrir dóminn og skýrði atburði þannig að hann hefði heyrt að Annþór og Börkur væru á eftir sér. Hann hafi hringt í M og farið til hans í [...]. Þeir hafi rætt málin þar en M hafi ætlað að hjálpa honum. M hafi hringt í Annþór og Börk sem hafi komið upp í [...] en M hafi skilið hurðina eftir opna. Þegar þeir ásamt Y og Æ komu inn í íbúðina hafi Börkur slegið hann í höfuðið og F við það fallið í gólfið. Þeir hafi lamið hann liggjandi á gólfinu. Annþór hafi síðan farið með hann inn á salerni, barið hann þar og sagt honum að hann ætti að greiða þeim 500.000 krónur næsta dag og fimm milljónir síðar en hann fengi ekki að fara út fyrr en hann samþykkti að borga þá fjárhæð. Hann kvaðst hafa fundið fyrir spýtu þegar hann var barinn og löppum þegar sparkað var í hann. Annþór hafi sagt honum að segja að hann hafi dottið í stiga og fengið áverkana þannig. Strákarnir hafi verið tíu sem komu inn í íbúðina. Z hafi verið einn þeirra.
F kvaðst hafa séð að G var tekinn og honum haldið upp við glugga en hann hafi þá verið dreginn inn á salerni og því ekki séð árásina á G. F kvaðst hafa verið skíthræddur eftir þetta og fengið hótanir síðar og meðal annars hafi hann fengið skilaboð um að ef hann kærði þá „fengi hann lest“ á eftir sér.
F taldi að árásin hafi staðið í um klukkustund. Hann kvaðst oft hafa sagt við þá: „Strákar plís leyfið mér að fara,“ en ekki fengið. F kvað sögu hafa gengið á Akureyri um að hann ætlaði að skjóta Annþór og Börk í lappirnar en hún væri ekki rétt, hann hafi aldrei sagt þetta. Aðspurður hvenær þetta hafi gerst, kvað hann það hafa verið í desember, það hafi sennilega verið 15. eða 19. desember. F kvað X, Æ, Y, Z, Ö, Annþór, U og Börk hafa verið þarna. Hann var viss um að X hafi verið þarna, hann kvaðst þekkja hann.
Vitnið H gaf tvisvar sinnum skýrslu hjá lögreglu þann 11. mars sl.
Í fyrri skýrslu sinni kvað hann upphafið vera að Annþór og Börkur hafi átt eitthvað vantalað við G. G hafi skuldað þeim pening en ekki viljað greiða þeim. Hann hafi verið búinn að fá nóg og hafi hringt í lögregluna og beðið lögregluna um að hitta sig á Granda. Þar hafi G sagt lögreglunni að Annþór og Börkur væru á eftir sér. Í framhaldi hafi H, R og S farið og veitt G áverka, kýlt hann og skorið í andlit með bjórdós. Í framhaldi hafi þeir aftur hringt í lögregluna.
G lýsti árásinni í [...] þannig að Annþór og Börkur hafi viljað ræða við G og F. Þeir hafi verið þrír saman og farið að [...]. F hafi beðið þá um að koma með sér í þá íbúð til M. Annþór og Börkur hafi farið með F inn á salerni og rætt við hann þar. F hafi komið fram eftir það með blóðnasir. H kvaðst ekki hafa séð hvað gerðist þar. G hafi verið frammi í sófa á meðan. Á eftir hafi Annþór og Börkur verið ósáttir við G og „drullað“ yfir hann vegna þess hvernig G hefði komið fram, m.a. beðið þá um lán. Börkur hafi ýtt við G og lýst því fyrir honum hvað myndi gerast ef hann greiddi þeim ekki skuldina. Þeir hafi sagt G að eitthvað slæmt myndi koma fyrir hann. H kvaðst hafa verið „pínu smeykur“, þetta væru „stórir kallar sko“. Aðspurður hvort H hræddist þá, kvaðst hann náttúrulega verða smeykur ef þeir væru á eftir honum sjálfum, en ef maður kæmi vel fram við þá, þá gerist ekki neitt. Aðspurður um „ef þú kemur vel fram“, svaraði H „bara ef þú svíkur þá ekki og kemur vel fram við þá“. Aðspurður hvort hann myndi greina rangt frá í skýrslu af ótta við hefndaraðgerðir þessara aðila svaraði H að hann myndi verða smeykur ef þeir kæmust í þessa skýrslu og sæju hvað stæði í henni.
Í síðari skýrslunni kvaðst hann muna að Börkur og Annþór hafi viljað tala við F um orðróm um að F ætlaði að skjóta þá en F ekki viljað það. F hafi viljað fara í felur og hafi farið til M að ráði kærustu F. Þar sem þeir voru hjá M, hafi M hringt í Börk og Annþór og látið þá vita að F væri staddur hjá honum. Anni og Börkur ásamt nokkrum strákum hafi komið þangað tuttugu mínútum síðar. H kvaðst helst ekki vilja tjá sig um það sem gerðist í framhaldi. Hann hafi séð barefli, kylfu sem hafi verið bogin. Hann hafi séð Börk með kylfuna og vini þeirra líka. Aðspurður um það hvort hann hafi verið látinn pissa á G sagði hann það vera satt og hann hafi verið neyddur til þess af Berki. Börkur hafi hótað honum barsmíðum ef hann hlýddi ekki. Börkur hafi staðið við sitt. G hafi legið á maganum á gólfinu í stofunni þegar það gerðist. Sér hafi liðið mjög illa við að pissa á hann. H kvað þetta hafa gerst rétt fyrir jólin. H vildi ekki skýra frá því hvers vegna það hafi blætt mikið úr F. Þeir hafi síðan farið beint á slysavarðstofu eftir þetta.
H var spurður út í atvikið þegar G kærði skurðárás í andlit. Kvað H hann hafa gert það þar sem Börkur og Annþór hafi átt eitthvað vantalað við hann.
H kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna en lýsti atvikum þannig að hann, F og G hafi verið að slaka á og spjalla við mann sem hann viti ekki hvað heiti. Þá hafi hann heyrt læti og farið út í horn. Þar hafi þrír menn staðið yfir sér. Einhver öskur hafi verið, tekið var á F, hann sá ekki hver, einhverjir fóru með hann inn á salerni og ræddu við hann þar. Hann hafi setið frammi úti í horni ásamt þremur mönnum og verið hræddur. Síminn hafi verið tekinn af honum. Hann taldi að ekki hafi verið ráðist á G og kvaðst ekkert geta lýst því. Aðspurður hvort hann hafi verið látinn pissa á G kvaðst hann helst ekki vilja tjá sig um það. Skýrsla sem H gaf hjá lögreglu 11. mars sl. var borin undir H og hann spurður hvort það væri rétt lýsing sem þar kæmi fram. Kvaðst hann ekki hafa svarað spurningunni hjá lögreglunni, það væri þá ekki hans skýrsla. Kvaðst hann geta staðfest að Annþór og Börkur komu þarna inn en hann hafi ekki séð með berum augum hvað gerðist þar. Þeir hafi farið með F beint upp á spítala eftir árásina. Sagði hann að enginn hefði lagt hendur á G. Hann mundi þó að G hafi legið á gólfinu því að þeir vildu að hann lægi á gólfinu, alveg eins og þeir hafi viljað að H færi út í horn. Aðspurður kvað hann rétt að bogin kylfa hafi verið þarna, hún hafi verið úti um allt, hann hafi ekki séð hver beitti kylfunni. H kvaðst ekki vera hræddur við að gefa skýrslu núna.
Vitnið M gaf skýrslu þann 14. mars sl. hjá lögreglu og kvaðst hafa fengið símtal frá hans fyrrverandi um að kærasti hennar væri í hremmingum vegna ákveðinna einstaklinga sem ætluðu að rukka hann og veita honum einhverjar líkamsmeiðingar. M kvaðst hafa ákveðið að hjálpa þessum dreng með því að fá hann til sín, auk þess að hjálpa honum með að tala við þá aðila. Á meðan hann var á leiðinni til hans hafi hann hringt í hina aðilana, Börk í síma [...] og hafi sjálfur hringt úr síma [...], og látið þá vita að þessi drengur væri á leiðinni til sín. Kvaðst hann hafa verið búinn að heyra að þeir væru fyrir utan heimili foreldra þessa stráks, F. Hann hafi auðvitað þurft að láta þá vita að strákurinn væri á leið til sín, því annars hefðu þeir leitað að honum inni á heimili foreldranna, sem ætti alls ekki að gera. Hann hafi ætlast til að þeir ræddu við strákinn daginn eftir og ætlaði að leyfa stráknum að gista hjá sér yfir nóttina svo hann væri öruggur. Eftir að þeir voru búnir að vera heima í íbúð hans fyrrverandi nokkra stund, þá hafi þeir allt í einu birst og heljarinnar hópur með þeim en hann þekkti ekki nöfnin á þeim öllum. Þar hafi strákurinn verið tekinn og laminn og fengið skurð á höfuðið. Börkur hafi lamið hann en hann hafi komið aftan að honum. Það hafi verið tvö eða þrjú högg. M hafi verið hent í sófann og sagt að vera þar, sími hans og hans fyrrverandi, sem bjó þar þá, hafi verið teknir af þeim og teknir í sundur svo ekki væri hægt að staðsetja símana í gegnum GPS. Hans fyrrverandi hafi látist síðan [...] eða [...] eftir atburðinn. Síðan hafi þeir látið einn strák míga yfir annan. Þetta hafi verið vegna þess að einn strákurinn hafi hótað að láta skjóta þessa aðila í lappirnar. Annar aðilinn hafi farið með annan strákinn inn á salerni, hjálpað honum að þrífa sig og þeir náð einhverri sátt og síðan hafi þessir aðilar farið. Minnti M að strákurinn hafi átt að greiða aðilanum 500.000 krónur daginn eftir.
M kvað aðilana hafa verið vopnaða, þeir hafi verið með tréprik, um metra á lengd, ljóst tréprik í laginu eins og er á goggum úti á sjó nema búið að taka gogginn af. Aðspurður kvað hann þá hafa verið á staðnum í 45 til 60 mínútur. Aðspurður hvort F og félagar hafi getað yfirgefið íbúðina eftir að mennirnir komu í hana kvað hann þá ekki hafa getað það, M hafi ekki getað það sjálfur. Þeim hafi verið haldið þarna óbeint fyrst, en síðan hafi þeir náð sáttum um greiðsluna. Ítrekaði M að hann hefði ekki getað komist út úr íbúðinni né hans fyrrverandi. Strákarnir hafi heldur ekki átt aðra kosti en að ná sáttum. Aðspurður sagði M að F hafi verið barinn í höfuðið, þar sem hann sat í sófanum, með prikinu, það hafi blætt strax úr og það hafi verið góður blóðblettur fyrir neðan. Þess vegna hafi hann hoppað upp og sagt hingað og ekki lengra. M kvaðst engar líkamsmeiðingar hafa séð gagnvart stráknum sem migið var á. Hann hafi þó heyrt sagt við strákinn sem pissaði að ef hann vildi sleppa við líkamsmeiðingar þá skyldi hann pissa yfir strákinn. G, sem migið var yfir, hafi legið á maganum á gólfinu við svaladyrnar með hendurnar fram. Strákurinn sem meig hafi verið hræddur. M kvaðst hafa farið af og til inn á salerni til að athuga hvort verið væri að gera F eitthvað og því ekki alltaf getað séð hvort G hafi verið gert eitthvað. M kvaðst hafa þekkt Z og X á staðnum. Þeir hafi bara verið svona „backup“. Börkur hafi séð um að lemja en Anni hafi lesið yfir G, látið hann vita hvað kæmi fyrir hann ef hann hætti ekki að tala um hluti sem hann hefði ekki vit á. Ítrekaði M að frásögn hans væri í samræmi við það sem gerðist.
Vitnið M dró framburð sinn til baka hjá lögreglu fyrir dóminn og lýsti atvikum þannig að F og tveir vinir hans hafi kíkt í heimsókn en M hafi verið að kaupa af þeim fíkniefni. Annþór og Börkur hafi komið á meðan. Á meðan hann ræddi við þá í anddyrinu hafi þeir séð F inni og þeir viljað tala við F. F hafi komið í anddyrið, rætt við þá og síðan farið.
Aðspurður um breyttan framburð kvað hann strákana vera viðriðna [...] mótorhjólaklúbb tengda [...]. M hafi verið dæmdur 2011 fyrir líkamsárás og frelsissviptingu. Eftir það hafi honum verið sagt hvað hann ætti að segja. Ef ekki, þá yrði herjað á hann og fjölskyldu hans. Hann geti ekkert farið núna, ekki skemmt sér vegna vina F og vina hans. M hafi þá ákveðið að segja svo frá vegna sinna eigin hagsmuna. M kvað kærustu sína hafa búið að [...] í þetta sinn og hann búið þar þegar strákarnir komu til hans. Aðspurður hvort hún hafi neitað að hleypa Annþóri og Berki inn í íbúðina, kvað hann það rangt, þau hafi verið góðir kunningjar.
Snorri Örn Árnason lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði skýrslu um staðsetningu ákveðinna símanúmera aðfaranótt 15. desember 2012 og þá hvenær símarnir hafi verið notaðir í námunda við [...] á ákveðnu tímabili. Í niðurstöðum komi fram að á tímabilinu klukkan 1.09 og klukkan 1.50 þessa nótt hafi sími Barkar Birgissonar [...] komið inn á sendinn við [...] og klukkan 1.32 hafi sími Annþórs [...] komið fram á sendinum við [...] líka. Þá hafi símar F og M líka komið fram á þessum sendi bæði fyrir og eftir þennan tíma.
Aðspurður kvað hann síma Annþórs hafa komið fram á sendi við [...] kl. 1.04 og næst hafi síminn verið notaður kl. 1.32, sem komi fram á sendinum við [...]. Kvað hann það ekkert segja til um það hvort eða hversu lengi hann hafi verið á því svæði. Sími Annþórs hafi komið klukkan 2.34 á sendi við [...]. Þá sé hann allavega kominn út af því svæði sem sendirinn við [...] taki til. Sími Barkar hafi komið inn á sendi við [...] kl. 2.04. Aðspurður kvað hann símann koma inn á sendi þegar hann væri í notkun, þess á milli viti hann ekkert hvar símarnir eru staðsettir. Þá komi fram að X hafi talað við Z klukkan 00.55 og þá verið á sendi í [...].
Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið beðinn um að rannsaka íbúð að [...] þar sem meint árás átti að hafa átt sér stað. Hafi þeir farið þangað 16. mars sl. Þeir hafi notað efnið Luminol til að rannsaka hvort blóð væri í íbúðinni. Búið hafi verið að þrífa allt blóð í íbúðinni og passaði uppljómun efnisins við þá frásögn. Kvaðst hann ekkert geta sagt til um það hvort þetta blóð hafi verið nýlegt eða eldra, það hafi ekki verið rannsakað frekar.
Hjalti Már Björnsson læknir kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð er hann gaf út vegna F. Kvað hann F hafa komið á bráðadeild 15. desember 2011 og gefið þá skýringu að hann hafi dottið í stiga. Hann hafi verið skýr þegar hann kom, með allstóran skurð á höfði vinstra megin en óverulega gapandi. Kvað hann skurðinn vel passa við að hann hafi orðið fyrir höggi með beinum hætti eða dottið, það væri ekki hægt að fullyrða um það.
Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að F hafi komið á lögreglustöð 3. maí sl. og kvaðst hafa fengið hótanir um ofbeldi ef hann drægi ekki kæru sína vegna [...] til baka. Hann hafi ekki viljað gera það en þegar þeir skildu við hann hafi F farið beint út í bílinn sinn og hringt.
Tveir aðrir aðilar hafi haft samband, einn í sumar og aftur í október sl., og sagt lögreglu að þeim hafi borist hótanir um ofbeldi ef þeir drægju ekki framburð sinn til baka hjá lögreglu. Byssu hafi verið miðað á annan að hans sögn til að árétta alvarleikann. Um sé að ræða vitnið M. Hljóðupptaka var spiluð í dóminum.
VII.
Forsendur og niðurstöður.
Ákæruliður II.1.
Í þessum ákærulið eru ákærðu Annþór og Börkur ákærðir fyrir að hafa í félagi, aðfaranótt fimmtudagsins 15. desember 2011, farið í íbúð að [...] í Reykjavík, ásamt ákærðu X og Z og óþekktum mönnum, vopnum búnir og sakaðir um sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að F, aftan frá, en ákærði Börkur sló hann með trébarefli í hnakkann þannig að hann féll á gólfið, með þeim afleiðingum að F hlaut skurð hliðlægt vinstra megin á höfuð sem sauma þurfti með sjö sporum.
Ákærðu Annþór og Börkur játuðu fyrir dóminum að hafa komið að [...] í Reykjavík en aldrei farið inn þar sem kærasta M hafi neitað þeim inngöngu. Kvað M það rangt vera.
Framburður ákærðu Annþórs og Barkar er í öllum atriðum ótrúverðugur og stangast á við framburð annarra. Þá stangast hann einnig á við símagögn en samkvæmt þeim hringdi F í M klukkan 00.37.01 aðfaranótt 15. desember 2011. M hringdi aftur í F klukkan 00.37.30. Þá hringdi M í Börk klukkan 00.39.31 þar sem ekki var svarað. F hringdi í M klukkan 00.39.31. Börkur hringdi í M klukkan 00.39.47 og M aftur í F kl. 00.43.43. Þá hringdi F í M kl. 00.45.20 og kl. 00.45.46.51 sendi M Berki SMS. Næst hringdi Börkur í M kl. 02.13.28. Á bilinu 02.35.39 til 03.24.05 hringdi M tvisvar í F og sendi honum tvisvar SMS. Voru M og F í símasambandi frá klukkan 00.37.01 til 00.45.20, sem samrýmist framburði þeirra beggja, það er að F hafi hringt í M og þeir sammælst um að F kæmi til hans í [...]. Þá samrýmist framburður M ofangreindum símagögnum, að hann hafi látið Börk vita af væntanlegri komu F. Þá sýna símagögn að frá miðnætti til kl. 00.41 aðfaranótt 15. desember hafi Annþór fimm sinnum hringt í F. Frá klukkan 00.30 til kl. 00.46 hringdi Börkur þrisvar sinnum í M. Á þeim tíma komu símar Annþórs og Barkar inn á senda sem eru í Hafnarfirði, m.a. inn á sendi við [...] um svipað leyti. Símagögn varðandi síma Barkar og Annþórs benda til þess að símar þeirra hafi fylgst að á leiðinni frá Hafnarfirði upp í Breiðholt og þaðan inn í Grafarvog. Þá kemur fram í símagögnum að Börkur hafi hringt í Z kl. 00.49 og Z til baka kl. 00.51. Þá voru Z og X í símasamskiptum milli kl. 00.42 til 00.55. Í læknisvottorði, sem liggur frammi í málinu, kemur fram að F hafi leitað á bráðadeild þann 15. desember 2011 kl. 03.54 en hann kvaðst hafa farið þangað þegar hann var viss um að allir væru farnir af bílaplaninu.
Vitnið G sagði hjá lögreglu að ákærði Börkur hafi barið F með priki í höfuðið. Prikið hafi verið í laginu eins og herðatré en um fimm sentímetra þykkt. Aðspurður um misræmi vitnisins um það hvenær árásin hafi átt sér stað sagðist vitnið hafa komið til Reykjavíkur í desember og aftur í janúar. Hann væri ekki góður í dagsetningum. Fyrir dóminum lýsti vitnið því meðal annars að þegar árásin átti sér stað í [...] hafi ákærði Börkur gengið mjög hratt inn í íbúðina þar sem þeir sátu með bakið í útidyrahurðina og barið F í hnakkann með trékylfu svo hann féll í gólfið. F hafi legið á gólfinu hálfvankaður og blætt úr honum. Hann og F hafi farið upp á sjúkrahús strax eftir árásina en hann sjálfur ekki fengið áverkavottorð. Kvað hann frásögn þeirra um stigann hafa verið að fyrirskipan ákærðu Annþórs og Barkar og þeir ekki þorað annað. Að mati dómsins var vitnið mjög trúverðugt í framburði sínum.
Vitnið M gaf greinargóða lýsingu á atvikum í [...] fyrir lögreglu 14. mars sl. og sagði að F hafi verið tekinn og laminn og fengið skurð á höfuðið með priki og það hafi blætt strax úr og hafi verið góður blóðblettur fyrir neðan. Lýsti vitnið prikinu svo að það hafi verið um metri á lengd, ljóst tréprik í laginu eins og sé á goggum úti á sjó nema búið að taka gogginn af. Fyrir dómi dró vitnið framburð sinn hjá lögreglu til baka og bar á sama veg og ákærðu Annþór og Börkur. Er skýring M á breyttum framburði mjög ótrúverðugur sérstaklega í ljósi þess að fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu um að vitnið hafi upplýst lögreglu, eftir að rannsókn málsins hófst, um að því hafi verið hótað ofbeldi breytti vitnið ekki framburði sínum. Verður framburður vitnisins hjá lögreglu lagður til grundvallar við úrlausn þessa ákæruliðar, enda hefur ekkert komið í ljós um að vitnisburðurinn hafi verið gefinn undir þrýstingi eða hótunum. Þá er frásögn vitnisins hjá lögreglu í flestu í samræmi við framburð vitnanna H, G og F hjá lögreglu og fyrir dómi.
Vitnið H kvaðst fyrir lögreglu hafa séð Börk með bogna kylfu í [...] og vini hans líka. Vitnið vildi ekki skýra það hjá lögreglu hvers vegna það hafi blætt mikið úr F. Fyrir dóminum vildi vitnið lítið tjá sig. Fyrir lögreglu lýsti vitnið yfir hræðslu sinni við að gefa skýrslu en kvaðst ekki vera hrætt núna.
Vitnið F lýsti atvikum hjá lögreglu og dóminum á sama veg og vitnið H og M. Telur dómurinn framburð hans trúverðugan.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Hjalta Más Björnssonar læknis sem staðfesti það fyrir dóminum. Kvað hann F hafa komið á bráðadeild 15. desember 2011 og gefið þá skýringu að hann hafi dottið í stiga. Hann hafi verið skýr þegar hann kom með allstóran skurð á höfði vinstra megin en óverulega gapandi. Kvað hann skurðinn vel passa við að hann hafi orðið fyrir höggi með beinum hætti eða dottið, það væri ekki hægt að fullyrða um það. Var skurðurinn saumaður með sjö sporum.
Af framburði vitnanna M og F, sem fær staðfestu í símagögnum, telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærðu Börkur og Annþór hafi sammælst um og skipulagt að fara að [...] umrætt sinn í þeim tilgangi að veitast að vitninu F. Styður það að ákærði Annþór kvað þá Börk hafa rætt saman um að fara báðir í [...] til að ræða við F og þeir hafi komið á sitthvorum bílnum.
Þá telur dómurinn sannað, með framburði vitnanna M, F, G og H, sem er samhljóða hjá lögreglu og að hluta fyrir dóminum, eins langt og hann nær með hliðsjón af breyttum framburði, að ákærði Börkur hafi barið F aftan frá með trébarefli í hnakkann þannig að hann féll í gólfið eins og segir í ákærulið II.1 með þeim afleiðingum að sauma þurfti sjö spor í höfuð hans. Með þessari aðför hafi ákærðu veist að honum með sérstaklega hættulegri aðferð með því að veita honum högg á höfuðið með trébarefli þannig að mikið blæddi úr. Er frásögn ákærðu um að vitnið F hafi dottið í stiga afar ótrúverðug og með ólíkindablæ. Var um samverknað að ræða.
Verða ákærðu sakfelldir fyrir þessa háttsemi eins og henni er lýst í þessum ákærulið en hún er í ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
Ákæruliður II.2.
Ákærðu neita sök í þessum ákærulið en þar eru ákærðu sakaðir um sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung með því að hafa veist að G, neytt hann til að leggjast á magann á gólfið, staðið á höndum hans og haldið honum þannig á meðan kastað var yfir hann þvagi, auk þess sem ákærði Börkur sló G með trébarefli nokkrum höggum á hnakkann og reif í vinstra eyra hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut höggáverka á hnakka og rifu á vinstra eyra sem úr blæddi.
Framburður vitnisins G fyrir lögreglu og fyrir dóminum hefur verið stöðugur og trúverðugur. Þrátt fyrir að vitnið hafi reynt að skaða sig sjálft og borið með því rangar sakir á ákærðu Börk og Annþór, þykir það staðfesta þann ótta sem vitnið hefur ítrekað borið um fyrir lögreglu og dóminum. Fær framburður vitnisins G stoð í framburði annarra vitna þrátt fyrir að þau hafi dregið framburð sinn að einhverju leyti til baka fyrir dómi. Vitnið kvað árásaraðila ásamt ákærða Berki hafa fyrst staðið á höndunum á sér. Ákærði Börkur hafi síðan fengið annan strák, sem var með þeim, til að standa á honum og hafi sá haldið á kúbeini. Ákærði Börkur hafi síðan slegið hann þungu höggi í hnakkann, hann hafi verið aumur í tvær vikur og ekki getað sofið á hnakkanum. Hann hafi einnig verið rauður og aumur í puttunum. Þeir hafi neytt vin vitnisins til að kasta þvagi yfir vitnið þar sem það lá á gólfinu og að því loknu hafi ákærði Börkur barið vitnið í höfuðið með trékylfu þar sem það lá. Að því loknu hafi ákærði Börkur látið vitnið setjast í sófann og sest við hliðina á því, spurt vitnið hvort það væri ofurhetja, kýlt það í andlitið og rifið í eyra þess, svo úr blæddi og vitnið hafi fengið skurð bak við eyrað, og spurt meðákærða Annþór hvort þeir ættu að taka vitnið með sér. Fær framburður G stoð í framburði F og H fyrir lögreglu og að nokkru fyrir dóminum og framburði M, sem staðfesti að símarnir hafi verið teknir af honum og kærustu, ákærðu hafi verið vopnaðir og lýstu þeir vopninu sem ákærði Börkur var með á sama veg, svo og að þeir hafi ekki átt möguleika á að komast í burtu. Ákærðu hafi verið á staðnum í 45 til 60 mínútur. Samræmist það einnig þeim símagögnum sem rakin eru í ákærulið II.1. Vitnið M breytti framburði sínum fyrir dóminum. Fyrir liggur að vitninu var hótað og er breyttur framburður hans mjög ótrúverðugur.
Dómurinn hefur hlustað á framburð vitna fyrir lögreglu í hljóði og mynd og er ekkert fram komið sem styður að þau hafi sagt frá undir þrýstingi. Af öllu framansögðu virtu þykir dóminum komin fram lögfull sönnun þess að ákærðu hafi veist að G eins og lýst er í þessum ákærulið með sérstaklega hættulegri árás og neytt vin hans til að kasta þvagi yfir vitnið eins og lýst er í ákæru. Þrátt fyrir að áverkavottorð liggi ekki fyrir um áverka vitnisins, þá telur dómurinn lýsingu hans á áverkum sem hann segist hafa fengið trúverðuga, enda staðfesti vitnið F að blætt hafi úr eyranu á G. Þá var ráðist að vitninu með trékylfu, sem veitti vitninu F opinn skurð á höfði, og verður að telja að um hættulegt vopn og hættulega árás hafi verið að ræða sem ákærðu beittu en þeir börðu F og G í höfuðið með kylfunni.
Verða ákærðu sakfelldir fyrir þennan ákærulið en háttsemin er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
Ákæruliður II.3.
Ákærðu neita sök varðandi þennan ákærulið.
Hefur dómurinn í ákærulið II.2 komist að þeirri niðurstöðu að þvagi var kastað yfir vitnið G í umrætt sinn. Fær sú niðurstaða stoð í framburði vitnisins F, sem sá að G var pissublautur þegar vitnið F kom aftur fram af salerninu, og framburði vitnisins H sjálfs hjá lögreglu en fyrir dóminum vildi vitnið ekki tjá sig um þennan lið ákærunnar. Vitnið M lýsti því hjá lögreglu að vitnið H var neytt til að kasta þvagi yfir G. Er vitnisburður þeirra allra samhljóma fyrir lögreglu. Fyrir dómi breyttu vitnin F og M framburði sínum. Stangast hann svo á við fyrri framburð þeirra hjá lögreglu og framburð annarra vitna að virða verður hann að vettugi. Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og verða ákærðu sakfelldir fyrir hana. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
Ákæruliður II.4.
Ákærðu neita sök í þessum ákærulið.
Vitnið F lýsti því svo fyrir lögreglu að hann hafi verið dreginn inn á salerni, eftir að búið var að veita honum þungt högg í höfuðið. Hafi ákærðu viljað að hann greiddi 500.000 krónur næsta dag og síðan fimm milljónir og beitt hann hótunum. Hann kvaðst hafa fundið fyrir spýtu þegar hann var barinn og löppum þegar sparkað var í hann. Hann hafi ekki átt annarra kosta völ en að samþykkja það. Fær framburður F stoð í framburði G, H og M, bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum, allt að metnum breyttum framburði fyrir dómi sem áður hefur verið skýrt.
Með hliðsjón af öllu framansögðu telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun þess að ákærðu hafi brotið af sér eins og lýst er í þessum ákærulið. Verða ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
VIII.
Ákæruliður III.
Málsatvikum er lýst í ákærulið II.
Í ákærulið þessum eru ákærðu X og Z sakaðir um hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í II. kafla ákærunnar með því að hafa farið með ákærðu Annþóri Kristjáni og Berki, ásamt óþekktum mönnum, í íbúðina að [...], vitandi hvað til stóð og er í íbúðina kom haft það hlutverk að vera liðsauki og ógnun gagnvart H, F og G á meðan á brotum ákærðu Annþórs og Barkar gegn þeim stóð, og þannig veitt þeim liðsinni í verki.
Ákærði Z kannaðist ekki við að hafa verið á staðnum umrætt sinn í skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl. og kvaðst ekki þekkja G né F. Börkur Birgisson og Annþór Karlsson væru hins vegar vinir hans. Í skýrslu hjá lögreglu 19. mars sl. neitaði ákærði að tjá sig um sakarefnið. Ákærði Z kom fyrir dóminn og kvaðst ekkert kannast við þessa árás sem lýst er í ákærunni. Það gæti vel verið að hann hafi verið með einhverjum þarna en þá hafi hann ekki verið viðstaddur neina árás. Kvaðst ákærði kannast við M en ekki aðra brotaþola.
Við lok skýrslutöku á öðrum degi réttarhaldanna óskaði ákærði að gefa aftur skýrslu og var spurður út í hvort hann hafi verið á staðnum. Svaraði hann því játandi og kvaðst hafa séð Börk og Annþór standa við útidyrnar og ræða við M í tvær til fimm mínútur og séð svo F koma hlaupandi niður stigann og hlaupa burtu. Þeir hafi síðan keyrt um hverfið til að leita að honum.
Ákærði X kvaðst hjá lögreglu þann 16. mars sl. ekki hafa verið í [...] þegar meint árás átti sér stað þar og þann 18. mars sl. kvaðst ákærði ekkert kannast við árás í [...] og hafi hann ekki verið á staðnum. Kvaðst hann hafa heyrt eitthvað um þetta á djamminu. Spurður nánar kvaðst hann samt vel geta hafa verið á staðnum fyrr um daginn en honum síðan verið blandað þarna inn í málið út af því. Þann 21. mars sl. kvaðst X ekkert kannast við þetta mál. Vel gæti verið að hann hafi verið á staðnum en hann hefði örugglega munað eftir því ef einhver hefði pissað á annan. Fyrir dóminum kvaðst ákærði X ekki muna eftir að hafa farið að [...] í umrætt sinn. Það gæti vel verið að hann hafi verið í einhverjum bíl fyrir utan en hann hefði ekki séð pissað á neinn, hann hefði munað eftir því. Kvaðst hann ekki muna með hverjum hann hafi verið í bíl, hann hafi verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Hann hafi ekki séð nein átök eða barsmíðar. Hann muni þó eftir að hafa séð einhvern [...] sem hafi flúið, það gæti hafa verið í [...]. Hann muni ekki hvort hann hafi séð Annþór, Börk eða Z þarna.
Í samantekt lögreglu yfir símagögn aðfaranótt 15. desember 2011 kemur fram að símagögn varðandi síma Barkar og Annþórs benda til þess að símar þeirra hafi fylgst að á leiðinni frá Hafnarfirði inn í Grafarvog og þaðan í Breiðholt. Þá kemur fram í símagögnum að Börkur hafi hringt í Z kl. 00.49 og Z til baka kl. 00.51. Þá voru Z og X í símasamskiptum milli kl. 00.42 og 00.55.
Ákærði Annþór sagði fyrir dóminum að hann og meðákærði Börkur hefðu einir farið að útidyrahurðinni að [...] en hann minnti að Z hafi verið úti í bíl. Ákærði Börkur kvað fyrir dóminum að ef ákærði Z hafi verið með þá hafi hann verið úti í bíl hjá Annþóri. Aðspurður hvort X hafi verið með honum í bíl, kvað hann það vel geta verið, hann myndi það ekki alveg.
Vitnið G sagði hjá lögreglu að hann hafi séð mann í íbúðinni og hafi sá verið svolítið dökkur á hörund og sé kallaður Z í [...]. Hann hafi fengið staðfest síðan að það hafi verið ákærði Z. Vitnið F kvað hjá lögreglu að ákærði Z hafi verið einn þeirra sem réðust inn í íbúðina og fyrir dóminum hafi hann þekkt ákærða X og Z meðal þeirra sem réðust inn í íbúðina. Þá kvað vitnið M, X og Z hafa verið á staðnum í skýrslu hjá lögreglu 14. mars sl.
Af öllu framansögðu virtu þykir dóminum fram komin lögfull sönnun þess að ákærðu X og Z hafi verið staddir að [...] í umrætt sinn og verið liðsauki og ógnun eins og lýst er í ákæruliðnum og þannig veitt ákærðu liðsinni sitt í verki. Verða þeir sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þar er lýst en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
IX.
Ákæruliður IV.
Málsatvik.
Aðdragandi þessa máls er að ákærðu C og Y voru saman í bifreið er þeir sáu I og J í annarri bifreið. Var það í október 2011. Veittu C og Y þeim eftirför að húsi, ræddu við þá vegna peninga er þeir töldu sig eiga hjá þeim. Vildu þeir fá I og J til Hafnarfjarðar og ræða við Annþór vegna þeirrar skuldar, sem I og J samþykktu að gera. Er þeir komu að [...], Hafnarfirði, sólbaðsstofu er Annþór rak, urðu átök sem leiddu til kæru á hendur Annþóri.
Ákærði Annþór gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 19. mars sl. og neitaði sök varðandi þennan ákærulið. Kvaðst ákærði þekkja I og J en neitaði að tjá sig frekar um málið. Hann kvaðst þó, aðspurður um það hvort hann hafi sagt öðrum hvorum, I eða J, að greiða einhverjum einhverja tiltekna peningaupphæð á einhverjum tilteknum degi, hafa beðið þá um að greiða það sem þeir hefðu rænt af viðkomandi. Þeir hafi fengið pening hjá dreng og rænt hann. Ákærði hafi beðið þá að borga þann pening, það hafi verið einu afskipti hans af þessu máli. Hafi þeir annaðhvort getað greitt peninginn til Annþórs eða til þess sem þeir tóku peninginn frá.
Ákærði lýsti því svo fyrir dómi að Y og C hafi komið með I og J til sín á sólbaðsstofuna. Ákærði kvaðst hafa slegið J utan undir flötum lófa og tekið I svæfingartaki þar til hann var að líða út af. Ákærði neitaði að hafa tekið hann kyrkingartaki. I hafi fallið í gólfið og hafi ákærði tuskað hann til svo I hafi vaknað og sett flatan lófann, tvisvar eða þrisvar, í andlit hans. Þá hafi hann rætt við þá um að skila peningunum. Neitaði ákærði að hafa staðið á höfði J eða sparkað í hann. Ákærði játti því að hafa slegið J utan undir og hrint honum svo að hann hafi hrasað. Kvað ákærði afleiðingar í læknisvottorði passa nákvæmlega við framburð sinn. Neitaði hann að um frelsissviptingu hafi verið að ræða, aldrei hafi komið til þess að þeir hafi ætlað út á meðan þeir ræddu saman. Þá sé rangt í ákæru að ákærði hafi „lagt á þá skuld“. Þá kvaðst ákærði hafa ítrekað við I og J að þeir skyldu greiða 250.000 krónurnar sem þeir höfðu tekið. Ákærði kvað rétt vera að Y hafi hringt í sig áður en þeir komu og beðið Annþór um að sannfæra strákana um að greiða skuld þeirra við C. Ákærði kvaðst vera 120 kíló á þyngd og 1,86 metrar á hæð og því myndi sá brotna sem hann trampaði á eða sparkaði. Þá hafi I og J aldrei beðið um að fara. Þeir hafi verið um fimm mínútur inni hjá sér.
Y, sem ákærður er vegna hlutdeildar fyrir þennan ákærulið í ákærulið V, sagði hjá lögreglu aðdragandann vera þann að tveir strákar hafi rænt vin hans þannig að þeir hafi tekið við peningum til að kaupa fíkniefni fyrir en hirt peninginn. Y hafi fengið símtal frá C sem hafi spurt hann hvort hann vildi taka að sér að rukka strákana, sem hann hafi gert og hafi hann sagt Annþóri frá því. Y kvaðst hafa séð strákana fyrir tilviljun í umferðinni, hringt í Annþór og spurt hann hvort hann mætti ekki koma með þá til hans, sem Annþór hafi samþykkt en hann hafi verið staddur á sólbaðsstofu í Hafnarfirði. Hann hafi rætt við strákana sem hafi samþykkt að koma með sér til Annþórs. Það hafi ekkert vesen átt að vera, það hafi bara átt að lesa þeim pistilinn. Annþór hafi verið í símanum þegar þeir komu en allt í einu hafi annar strákurinn fengið högg í andlitið, sá hafi beðið Anna um að hætta og þá fengið einhver högg í viðbót. Síðan hafi Annþór barið hinn strákinn á ganginum þar sem farið var í ljósin. Hafi Y ekki séð almennilega hvað Annþór gerði við þann strák. Síðan hafi Annþór tekið annan strákinn hálstaki og sagt eitthvað á þá leið: „Af hverju varstu að ræna þessu rottan þín“. Það hafi liðið yfir annan strákinn þegar Annþór var að kyrkja hann. Síðan hafi „sekt verið sett á“ annan strákinn. Aðspurður kvað hann að Annþór hefði ekki leyft þeim að fara hefðu þeir óskað þess. Þeir hafi hins vegar farið eftir þessa meðferð. Kvað hann Annþór hafa slegið þá með flötum lófa, það væri meiri niðurlæging í því. Auk þessa hafi Annþór verið með eitthvert annað mál á annan strákinn sem þeir voru ekki viðriðnir.
Y kvaðst hafa unnið fyrir Annþór og Börk og fengið pening, þegar hann vantaði, hjá báðum. Annþór hafi einnig látið hann fá sjónvarp og tölvu auk þess sem hann hafi fengið að borða hjá Annþóri. Sindri og Æ hafi líka unnið hjá þeim á sömu kjörum. Aðspurður kvaðst Y vita til þess að Annþór og Börkur væru í handrukkun og eitt sinn selt MDMA fyrir Börk og Börkur fengið peninginn, 360.000 krónur.
Fyrir dóminum lýsti Y atburðarásinni svo að hann hafi verið úti að aka og þá séð tvo stráka, sem höfðu áður rænt vin hans, elt þá og stoppað og rætt við þá. Hann hafi hringt í Annþór vin sinn og beðið hann að hjálpa sér. Meiri líkur hafi verið á að strákarnir skiluðu peningunum ef Annþór talaði við þá. Strákarnir hafi komið á eftir honum. Þegar þeir komu í sólbaðsstofuna hafi Annþór verið í símanum en síðan hafi hann rætt við strákana og þeir svo farið. Þetta hafi tekið um þrjár mínútur.
Kvað hann lögregluna hafa neytt sig til að segja eitthvað allt annað í skýrslutöku sem væri ósatt. Hann hafi verið tilbúinn að segja hvað sem var til að losna úr gæsluvarðhaldi. Allt sem kæmi fram í lögregluskýrslu væri lygi, þarna hafi ekkert gerst.
Í gögnum málsins liggur fyrir upplýsingaskýrsla lögreglu og hljóðdiskur af upptöku er Y hringdi í lögreglu og lýsti því að fjölskyldu hans hafi borist hótanir um ofbeldi ef hann breytti ekki framburði sínum. Hann hafi verið hræddur og ekki vitað hvað hann ætti að gera. Hann hafi fengið símtal frá Litla-Hrauni þar sem honum hafi verið hótað auk þess sem móðir kærustu hans hafi fengið hótun.
C, sem er einnig ákærður fyrir hlutdeild í ákærulið V, gaf skýrslu 19. mars hjá lögreglu og kvað upphaf málsins vera að honum hafi áskotnast peningur sem hann hafi ætlað að nota til að fjármagna fíkniefnakaup til endursölu, 250.000 krónur. Hann hafi látið vin sinn hafa peninginn til að kaupa fíkniefnin en peningnum hafi verið rænt. Ákærði Annþór hafi þá verið kominn í málið. Það hafi svo verið einhverjum dögum síðar að hann, ásamt V félaga sínum, hafi verið á rúntinum og séð þessa tvo stráka sem voru með í þessu ráni. Þeir hafi séð þá keyra úr Breiðholtinu í Fossvoginn og elt þá. Þeir hafi rætt við þá í Fossvoginum. Einnig hafi þeir rætt við ákærða Annþór en hann muni ekki hvernig það hafi gengið fyrir sig en það hafi verið í gegnum besta vin hans, sem var rændur. C kvaðst hafa verið reiður á þessum tíma og viljað fá sitt til baka. Þeir hafi farið til Hafnarfjarðar og inn á sólbaðsstofu þar. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa lagt hendur á strákana en ákærði Annþór hafi tekið þá eitthvað þarna bak við og barið þá. Hann hafi séð þegar Annþór tók I hálstaki en hann hafi ekki séð J gera neitt en hann hafi heyrt í þeim, hann hafi heyrt J öskra á bak við. Síðan hafi hann tekið þá fram og sett 500.000 króna skuld á hvorn þeirra. J hafi eitthvað verið búinn að vinna fyrir Annþór og hann hafi átt að fá sína peninga. I hafi líka átt að vinna fyrir Annþór en látið sig hverfa.
C lýsti kverkatakinu sem ákærði Annþór tók I þannig að hann hafi tekið um hálsinn á honum og haldið honum upp við vegginn. I hafi verið orðinn rauður í framan og dottið niður og þurft tíma til að jafna sig. Það gæti verið að ákærði Annþór hafi sparkað eitthvað laust í I til að ýta við honum, hann myndi það ekki alveg. I hafi verið smástund að jafna sig áður en hann gat staðið upp aftur. C lýsti sólbaðsstofunni þannig að hún hafi verið ókláruð og kassar og drasl úti um allt. C sagði I hafa verið bólginn í andlitinu en það hafi ekkert sést í andlitinu á J. Kvaðst hann hafa heyrt eitthvert tramp á bak við en hann hafi ekkert verið að spá í það sérstaklega. Sér hafi ekki liðið vel yfir því að strákarnir hafi verið teknir svona harkalega. Aðspurður kvað hann I og J ekki hafa átt þess kost að fara út úr sólbaðsstofunni þegar þeir vildu. Þá hafi hann heyrt talað um ævilanga skuld ef þeir myndu ekki borga innan tíu daga. Þá hafi komið fram að ef þeir færu til lögreglu þá yrði það líka ævilöng skuld.
C kvað aðspurður að I og J hafi komið sjálfviljugir með þeim til Hafnarfjarðar. Þeir hafi bara sagt já, þegar þeim var sagt að þeir ættu að koma með, og „við gerum okkar besta til að borga til baka“. C kvaðst ekki hafa vitað að þetta myndi fara svona, það hafi bara átt að tala við þá. Sjálfur væri hann lítið peð og hafi ekki getað stöðvað þetta. Sagði hann Y hafa þekkt Annþór og hringt í hann þegar þeir fundu strákana. Aðspurður hvort C myndi þora að gefa þennan framburð aftur fyrir dómi svaraði hann því neitandi. Það myndi ábyggilega koma af stað einhverjum „drastískum“ afleiðingum sem hann vildi ekki taka þátt í. Hann langi bara ekkert með þennan mann að gera lengur. Hann óttaðist ákærða Annþór. Ítrekað spurður hvort hann hafi sagt sannleikann, kvað hann já við því.
C kom fyrir dóminn og sagði upphafið vera að tveir félagar hafi ætlað að staðgreiða einhverja sendingu og hann látið félaga sinn hafa 250.000 krónur til þess. Sá hafi verið rændur í framhaldi. Síðar hafi þeir félagar séð strákana sem rændu peningnum á rúntinum og elt þá upp í Breiðholt, I og J. Hringt hafi verið í Annþór og hann beðinn um aðstoð. I og J hafi samþykkt að koma með þeim í Hafnarfjörð og þeir farið inn á sólbaðsstofuna. Annþór hafi rætt eitthvað við þá og sagt þá vera rottur eða eitthvað og síðan hafi þetta bara farið út í „drastískar aðgerðir“ og einhver skuld verið sett á hausinn á þeim og þeim sagt að borga eftir tíu daga eða eitthvað. Aðspurður um frásögn sína í lögregluskýrslu um atburðinn kvaðst C ekki vilja tjá sig um þetta, hann væri töluvert hræddur við ákærða Annþór. Hann væri bara lítið peð í kringum hann. Það væri rétt að hann hafi sagt hjá lögreglu að hann þyrði ekki að gefa sömu skýrslu fyrir dómi, en það sem hann hefði sagt þar stæði.
C kvaðst ekki muna hvort hann hafi beðið ákærða Y að aðstoða sig við að innheimta peningana. Hann vissi til þess að rætt hafi verið við Annþór vegna þessa og hafi bara viljað fá peninginn sinn til baka. Kvaðst C ekki þekkja Annþór. C kvaðst aðspurður ekki vera viss um það hvort hann hefði getað stöðvað atburðarásina á sólbaðsstofunni, hann væri bara lítið peð og efaðist um að ákærði Annþór hefði hlustað á sig. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð Annþór standa á höfði J né sparka í hann. Árásin hafi staðið í um tíu til fimmtán mínútur. Kvað hann Y og V hafa farið saman í bíl á undan til Hafnarfjarðar en ákærða hafa verið í bíl með I og J. Þeir hafi því ekki rætt saman um það hvað ætti að gera á sólbaðsstofunni. Ákærði kvað Y ekkert hafa gert inni á sólbaðsstofunni né heldur hann sjálfur. C kvaðst vera búinn að vera í meðferð á Vogi og síðan á Staðarfelli og hafa ætlað að halda sér á þeirri braut.
Vitnið I gaf skýrslu hjá lögreglu 15. mars sl. og kvaðst hafa verið á rúntinum með Á og Ð og þeir farið að blaðra eitthvað um fíkniefni. Hafi þetta endað með því að þeir hafi náð í 250.000 krónur, sem tveir strákar, É og Í, hafi verið með og átti að nota til fíkniefnakaupa. Það hafi endað með því að Á stal peningnum. Svo vissi I ekki fyrr en Y hafi verið kominn til landsins og frétt af þessu. J hafi verið heima hjá honum. É og Í hafi síðan allt í einu birst heima hjá sér með Y með sér. Þeir hafi byrjað með smáhótanir og Y spurt hvort þeir ætluðu ekki að redda þessu. Kvaðst I hafa orðið hræddur í framhaldi og flutt dótið sitt í annað herbergi og farið heim til móður sinnar og búið þar í smátíma. Tveim dögum síðar hafi hann og J verið að keyra þegar þeir sáu Sindra, Y og C á eftir sér og hafi þeir elt þá heim til móður I. I og J hafi flúið inn en strákarnir hafi beðið fyrir utan. Y hafi síðan komið inn og rætt við sig og beðið sig um að koma og hitta Börk. Hann hafi ekki vitað á þeim tíma hver Börkur var en hann hafi þekkt Annþór og verið hræddur við hann. Þeir hafi síðan farið til Hafnarfjarðar á sólbaðsstofu sem Annþór var að byggja upp. Þeir hafi farið inn og allt í einu hafi hurðinni verið lokað á eftir þeim. Í fyrstu hafi Annþór verið rólegur en allt í einu gefið honum högg í andlitið svo að I hafi fengið glóðarauga af. Í framhaldi hafi Annþór slegið hann í magann og I orðið skíthræddur. Þá hafi Annþór tekið um hálsinn á honum og haldið honum og allt í einu hafi hann lyft honum upp með vegg. Hann hafi haldið honum með taki á hálsinum en hvergi annars staðar, en I kvaðst vera 55 kíló. I kvaðst hafa öskrað en ekki getað talað og síðan hafi liðið yfir sig. Hann hafi vaknað á gólfinu við það að ákærði Annþór var að slá hann á gólfinu og segja honum að vakna. Í millitíðinni hafi Annþór verið búinn að taka J inn í ganginn og lemja hann og traðka á honum þar, svo og hræða hann. Þá hafi ákærði Annþór sektað þá um 500.000 krónur á mánuði sem þeir ættu að borga strax daginn eftir og síðan mánaðarlega og það ætti að vera eilíf skuld. Lagði hann til að þeir færu bara í einhverja tölvubúð, en hann man ekki hvort það var Annþór eða Y sem sagði það. Ákærði Annþór hafi síðan sagt þeim að drulla sér út og þeir verið því mjög fegnir. I kvaðst ekki hafa farið á slysadeild en vinur hans J hafi farið um þremur dögum seinna á slysadeild. J hafi verið með gott glóðarauga. I kvað þá ekki hafa getað farið sjálfviljugir út af sólbaðsstofunni. Hann hafi verið sviptur frelsi í um tuttugu mínútur. I kvaðst ekki ætla að greiða skuldina til Annþórs en hann vildi þó semja um 250.000 krónurnar sem hann tók frá C. Hann hafi síðan reynt að hunsa strákana og farið meðal annars til Svíþjóðar í [...].
Vitnið I kom fyrir dóminn og kvaðst muna eftir því að hafa farið á sólbaðsstofuna en hann myndi lítið, hann hafi verið í miklu rugli. Hann geti þó sagt að margt sem hann hafi sagt í lögregluskýrslu hafi verið rugl, þetta hafi ekki verið neitt mikið. Hann muni að einhver hafi slegið hann flötum lófa en hann muni ekki hver hafi gert það. Hann myndi ekki til þess að hafa verið tekinn kverkataki. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa gefið skýrslu hjá lögreglunni. Hann myndi þó eftir því að hafa hitt Y og strákana og þeir hafi ætlað að spjalla við Annþór út af einhverjum peningum sem hann tók. Þá muni hann ekki eftir því að Annþór hafi lagt á hann 500.000 króna skuld. Hann muni bara eftir rifrildi en ekki hvað var rætt um. Hann myndi ekki hversu lengi hann var á sólbaðsstofunni. Hann myndi þó að hann bað ekki um að fá að fara, hann hefði alveg getað farið út í sígó ef hann hefði viljað. Aðspurður sagði hann að C og Y hafi ekki haft sig neitt í frammi.
Vitnið J gaf skýrslu hjá lögreglu 19. mars sl. og kvaðst hafa farið í bíltúr með I og J hafi ekið. Þeir hafi átt að kaupa gras fyrir strák og síðan tekið peninginn og látið sig hverfa. Á hafi allt í einu horfið með peninginn. I og J hafi síðan verið í neyslu en þeir svo farið heim til móður I. Þar hafi Y, V og C birst og farið með þá í Hafnarfjörð þar sem Anni beið þeirra. Anni hafi byrjað á I og síðan farið í sig og svo aftur í I. Annþór hafi staðið á höfðinu á honum með báðum fótum og hann hafi reynt að brjóta puttana á sér. J kvaðst hafa séð Annþór taka með höndunum um hálsinn á I þar til I sofnaði. Síðan hafi Annþór vakið I strax aftur og I lofað að borga Annþóri. Sagði J að augsýnilega hafi Y ekki líkað aðfarirnar hjá Annþóri. Aðspurður kvað hann Annþór hafa byrjað að slá hann með flötum lófa og sparka í sig þar sem hann hafði dottið í gólfið. Hann hafi sparkað í magann á sér og hausinn. Hann hafi flakkað á milli þeirra, hann hafi ekki mátt standa upp á milli, Annþór hafi bannað sér það. Hann hafi séð Annþór kyrkja I þar sem J lá á gólfinu. Þegar I hafi vaknað hafi hann öskrað að hann skyldi borga. Ákærði Annþór hafi sett 500.000 króna skuld á þá. Þó væri hann ekki viss hvort það átti að vera bara á I eða þá báða.
J kvaðst hafa orðið hræddur um líf sitt en eftir þetta hafi eitthvað brostið og hann verði ekki hræddur eftir þetta. Hann hafi þarna orðið hræddur um að brotna. Síðan hafi þeir farið heim til I. Um einni til tveimur vikum síðar hafi Annþór birst heima hjá I þar sem J var staddur. Annþór hafi tekið tölvu I og J líka. J hafi átt að ræna alls konar hlutum fyrir Annþór sem hann ætlaði að nota í sólbaðsstofunni. J kvaðst á þessu stigi vilja segja allan sannleikann, þó svo að hann varði refsiverða háttsemi hjá honum sjálfum. Kvaðst J hafa hræðst Annþór og því stolið fyrir hann.
J kvaðst ekki vilja kæra árásina en vilja hjálpa vini sínum með því að bera vitni. Hann þori ekki að kæra. Honum finnist bara „heví“ flottur kjarkur í I að þora að kæra Annþór.
Vitnið J gaf aftur skýrslu þann 20. mars sl. og lagði fram kæru á hendur Annþóri vegna árásarinnar að [...] í Hafnarfirði. Kvað hann allt hafa komið fram í vitnaskýrslu sinni deginum áður. Kvað hann Annþór hafa hótað honum að setja hann í áskrift ef hann kærði atburðinn. Lýsti hann atburðum á sama hátt og deginum áður.
Vitnið J kom fyrir dóminn og kvaðst muna þetta en þeir hafi verið á þessum tíma í mjög miklu rugli og ákveðið að segja mjög rangt frá. Hann hafi verið með Y vini sínum og rætt við Annþór. Annþór hafi rétt ýtt við sér og slegið I einu sinni eða tvisvar. Annþór hafi ýtt sér þannig að hann hafi dottið í ganginn og bara staðið upp aftur. Annþór hafi komið með einhverjar spurningar og hann nennti þessu bara ekki lengur. Hann hafi farið á bráðamóttöku nokkrum dögum síðar. Þá áverka hafi hann veitt sér sjálfur í þeim tilgangi að ná sér í peninga. Þetta hafi verið skráma á eyra og eitthvað í hársverðinum að hann minnti. Hann hafi fengið einn félaga sinn til að hjálpa sér við að fá högg eins og spörk í höfuðið. Hann ætli bara að taka þetta sjálfur á sig. J kvaðst halda að þeir hafi verið í um tuttugu mínútur til hálftíma inni á sólbaðsstofunni. Þá hafi hann vel getað farið út og fengið sér pulsu ef hann vildi, það hafi ekki verið neitt mál. C hafi ekki gert neitt þarna, bara staðið. Þá hafi Y líka bara staðið þarna við hliðina á C.
Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð Hjalta Más Björnssonar læknis. Kvað hann fyrir dóminum að J hafi komið á bráðamóttöku 16. október 2011 og sagst hafa þann 12. október orðið fyrir líkamsárás og sagst hafa verið sleginn oft í andlit og víða á líkama auk þess að staðið hafi verið á höfðinu á honum og hann tekinn hálstaki. Þetta hefði staðið yfir í um 20 mínútur. J hafi sagst hafa verið með mar á hálsi en það væri horfið þegar hann kom á bráðamóttöku. Hann hafi verið með mar og bólgu á auga hægra megin, áverka við bæði eyru en enga áverka á kvið sem sáust. Aðspurður um það ef 120 kílóa maður stæði ofan á höfði manns hvort höfuðkúpan brotnaði ekki, kvað hann hugsanlegt að höfuðkúpan þyldi það.
X.
Forsendur og niðurstöður.
Óumdeilt er að Y og C fóru með I og J í sólbaðsstofu í Hafnarfirði þar sem þeir hittu ákærða Annþór. Var tilgangur ferðarinnar að ákærði ræddi við I og J vegna peninga er þeir áttu að hafa stolið frá C.
Ákæruliður IV.1.
Ákærði Annþór lýsti því svo fyrir lögreglu að hann hafi slegið J utan undir flötum lófa og tekið I svæfingartaki þar til að hann var að líða út af. Ákærði neitaði að hafa tekið hann kyrkingartaki en fyrir dóminum kvað hann reginmun á svæfingartaki og kyrkingartaki. Fyrir lögreglu og dómi sagði hann að I hafi fallið í gólfið og hafi ákærði tuskað hann til, svo I hafi vaknað, og sett flatan lófann, tvisvar eða þrisvar, í andlit hans. Þá hafi hann rætt við þá um að skila peningunum. Kvað ákærði afleiðingar skv. læknisvottorði passa nákvæmlega við framburð sinn.
Vitnið Y dró framburð sinn hjá lögreglu til baka fyrir dóminum. Er framburður hans fyrir dóminum ótrúverðugur, enda liggur fyrir að honum hafði verið hótað öllu illu, breytti hann ekki framburði sínum. Er framburður vitnisins Y fyrir lögreglu trúverðugur en dómurinn hefur hlustað á hljóð- og myndupptökur af frásögn hans og er ekkert sem bendir til að hann hafi ekki sagt satt og rétt þar frá. Fyrir lögreglu lýsti vitnið Y árásinni svo að allt í einu hafi annar strákurinn fengið högg í andlitið, ákærði hafi tekið hann hálstaki og sagt: „Af hverju varstu að ræna þessu rottan þín“. Þá hafi ákærði slegið hann með flötum lófa. Samrýmist þessi frásögn, frásögn ákærða sjálfs fyrir dóminum. Vitnið C kvað hjá lögreglu að ákærði hafi tekið strákana baka til og barið þá. Vitnið kvaðst hafa séð þegar ákærði tók I hálstaki þar til I varð rauður í framan og hafi dottið niður. Ákærði hafi sparkað í I liggjandi til að vekja hann og I hafi verið bólginn á eftir. Fyrir dóminum kvaðst C vera hræddur og hann þyrði ekki að gefa sömu skýrslu aftur fyrir dómi en það væri rétt sem fram kæmi í lögregluskýrslum.
Vitnið I kvaðst hjá lögreglu hafa þekkt ákærða og vera hræddur við hann. Þegar þeir komu í sólbaðsstofuna hafi ákæri í fyrstu verið rólegur en gefið honum allt í einu högg í andlit og hafi I fengið glóðarauga af. Ákærði hafi slegið hann í magann, tekið um hálsinn og lyft honum upp með vegg þar til leið yfir hann. Vitnið hafi vaknað er ákærði var að slá hann. Fyrir dóminum kvaðst vitnið lítið muna, þetta hafi verið rugl en hann muni eftir því að einhver hafi slegið hann flötum lófa en mann ekki eftir kverkatakinu.
Vitnið J kvað fyrir lögreglu að ákærði hafi fyrst farið í I, síðan vitnið og svo aftur í I. Vitnið hafi séð ákærða taka I hálstaki þar til I sofnaði. Fyrir dóminum sagði vitnið allt það sem hann hafi sagt hjá lögreglu vera rugl en hann muni að Annþór hafi rétt ýtt við sér og slegið I einu sinni eða tvisvar sinnum.
Af öllu ofansögðu virtu þykir dóminum sannað, með frásögn vitna hjá lögreglu, sem fær stoð í frásögn ákærða sjálfs, að ákærði hafi gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás eins og lýst er í ákærulið IV.1. Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður IV.2.
Ákærði neitaði sök hjá lögreglu en fyrir dóminum kvaðst hann hafa slegið J utan undir flötum lófa og hrint honum þannig að J hafi hrasað. Neitaði hann að hafa staðið á höfði J. Ákærði kvaðst vera 120 kg á þyngd og 1,86 m á hæð og því hefði höfuð J brotnað ef hann hefði staðið á því.
Y, sem ákærður er fyrir hlutdeild í þessum ákærulið, sagði fyrir lögreglu að ákærði hafi, eftir að hafa barið annan strákinn, slegið hinn strákinn á ganginum þar sem farið væri í ljósin. Fyrir dóminum kvað Y framburð sinn fyrir lögreglu ósannan.
C, sem einnig er ákærður fyrir hlutdeild vegna þessa þáttar ákærunnar, sagði hjá lögreglu að ákærði hafi tekið strákana baka til og barið þá. Vitnið hafi ekki séð ákærða gera J neitt en hann hafi heyrt J öskra á bak við. Hann hafi einnig heyrt tramp baka til. Fyrir dóminum kvað vitnið ákærða hafa rætt við strákana og sagt þá vera rottur eða eitthvað en vildi lítið tjá sig meira. Kvaðst hann vera hræddur og myndi ekki þora að gefa aftur sama framburð fyrir dómi og hann hefði gert hjá lögreglu, hann væri bara lítið peð.
Vitnið I lýsti fyrir lögreglu aðförinni að sér en sagði ákærða hafa í millitíðinni veist að J. J hafi verið með glóðarauga. Fyrir dóminum kvað hann allt vera rugl sem hann hefði sagt hjá lögreglu.
Vitnið J sagði hjá lögreglu að ákærði hefði staðið á höfðinu á honum og reynt að brjóta puttana á honum. Ákærði hafi byrjað að slá vitnið með flötum lófa og sparka í sig og vitnið hafi dottið á gólfið. Ákærði hafi síðan sparkað í magann á sér og höfuð. Ákærði hafi flakkað á milli þeirra og vitnið hafi ekki mátt standa upp á milli, ákærði hafi bannað honum það. Kvaðst vitnið hafa verið hrætt um líf sitt og hrætt um að brotna. Síðar hjá lögreglu sagði vitnið að ákærði hefði hótað sér öllu illu myndi vitnið kæra árásina til lögreglu. Fyrir dómi sagði vitnið allt rangt sem það hefði sagt hjá lögreglu. Ákærði hafi rétt ýtt við sér þannig að hann hafi dottið á ganginum en staðið upp strax aftur. Vitnið hafi síðan veitt sér áverka sjálft með aðstoð vina í þeim tilgangi að ná út peningum.
Hjalti Már Björnsson læknir kvað fyrir dómi að J hafi komið á bráðamóttöku 16. október 2011 og sagst hafa þann 12. október orðið fyrir líkamsárás og sagst hafa verið sleginn oft í andlit og víða á líkama auk þess að staðið hafi verið á höfðinu á honum og hann tekinn hálstaki. Þetta hefði staðið yfir í um 20 mínútur. J hafi sagst hafa verið með mar á hálsi en það væri horfið þegar hann kom á bráðamóttöku. Hann hafi verið með mar og bólgu á auga hægra megin, áverka við bæði eyru en enga áverka á kvið sem sáust. Aðspurður um það að ef 120 kílóa maður stæði ofan á höfði manns hvort höfuðkúpan brotnaði ekki, kvað hann hugsanlegt að höfuðkúpan þyldi það, það færi allt eftir því hvernig það væri gert. Ekki liggur hins vegar fyrir hversu þungur ákærði var á þeim tíma er árásin átti sér stað.
Að öllu ofansögðu virtu þykir dóminum sannað, með frásögn vitna hjá lögreglu, sem fær stoð að hluta í frásögn ákærða sjálfs og áverkavottorði, að ákærði hafi gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás eins og lýst er í ákærulið IV.2. Verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður IV.3.
Ákærði neitaði sök í þessum lið ákærunnar.
Varðandi þennan ákærulið þá neitar ákærði sök og kveðst einungis hafa sagt I og J að greiða þá peninga til baka sem þeir hafi tekið.
Vitnið Y sagði hjá lögreglu að eftir að liðið hafði yfir annan strákinn hafi ákærði sett sekt á hinn strákinn. Þá sagði hann að ákærði hefði ekki leyft þeim að fara ef þeir hefðu óskað þess. Fyrir dóminum neitaði Y að tjá sig frekar um þetta.
Vitnið C sagði hjá lögreglu að eftir að ákærði hafði beitt strákana ofbeldi hafi hann sett 500.000 króna skuld á hvorn þeirra. Hann hafi heyrt talað um ævilanga skuld ef þeir greiddu ekki innan tíu daga. Þá hafi þeim verið hótað ævilangri skuld ef þeir færu til lögreglu. Þá sagði hann að I og J hafi ekki átt kost á að fara ef þeir vildu. Fyrir dóminum kvað vitnið einhverja skuld hafa verið setta á hausinn á þeim og þeim sagt að borga eftir tíu daga.
Vitnið I sagði hjá lögreglu að ákærði hefði sektað þá um 500.000 krónur á mánuði, sem þeir ættu að borga strax daginn eftir og síðan mánaðarlega og það ætti að vera eilíf skuld. Þá sagði hann að þeir hafi ekki getað farið sjálfviljugir út af sólbaðsstofunni. Þeir hafi verið sviptir frelsi í tuttugu mínútur. Fyrir dómi dró vitnið framburð þennan til baka og kvaðst hafa logið þessu öllu. Hann hafi vel getað farið út og fengið sér sígó ef hann vildi. Er þessi framburður hans fyrir dóminum ekki trúverðugur.
Vitnið J sagði hjá lögreglu að ákærði hefði bannað honum að standa upp, eftir að hann hafði dottið í gólfið og ákærði sett á þá 500.000 króna skuld. Vitnið dró þennan framburð til baka fyrir dóminum. Hann hafi vel getað farið út og fengið sér pulsu ef hann vildi. Er framburður hans fyrir dóminum ekki trúverðugur.
Eins og lýst hefur verið í ákæruliðum IV.1 og 2 hefur ákærði verið fundinn sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart I og J og er henni lýst í hverjum ákærulið fyrir sig. Er frelsissviptingin eins og henni er lýst í þessum ákærulið órofa tengd líkamsárásinni og liggur í hlutarins eðli að árásarþolar, sem annars vegar er meðvitundarlaus eftir kyrkingartak og hins vegar liggjandi í gólfi, þolandi endurtekna árás, fara ekki frjálsir ferða sinna. Með vísan til framburðar vitna fyrir lögreglu, sem fær stoð í annarri háttsemi ákærða, sem sönnuð hefur verið, er komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um frelsissviptingu eins og henni er lýst í þessum ákærulið. Þá telur dómurinn það sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um tilraun til fjárkúgunar eins og lýst er í þessum ákærulið. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður IV.4.
Eins og rakið hefur verið að ofan í ákærulið IV.3 telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Er vísað með rökstuðningi til þess framburðar sem rakinn er þar.
Verður ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
XI.
Ákæruliður V.
Í þessum þætti ákærunnar eru ákærðu Y og C ákærðir fyrir hlutdeild í þeim brotum sem lýst er í kafla IV, með því að hafa farið með I og J, sem þeir töldu sig eiga sökótt við, að [...] í þeim tilgangi að leiða þá fyrir ákærða Annþór Kristján, verið með honum í húsnæðinu á meðan á brotum hans gegn piltunum stóð og á þann hátt verið liðsauki og ógnun við þá, og þannig veitt ákærða Annþóri liðsinni í verki.
Ákærðu hafa játað fyrir dóminum að hafa farið með piltana til ákærða Annþórs en í þeim tilgangi að ákærði ræddi við þá um peninga sem þeir áttu að hafa stolið.
Ákærði Y kvaðst hjá lögreglu þekkja ákærða og hafa verið búinn að ræða þessa skuld drengjanna við hann áður. Þá hafi aftur verið hringt í ákærða, þegar þeir sáu drengina á förnum vegi, og spurt hvort þeir mættu koma með strákana, sem ákærði hafi samþykkt. Þá sagði ákærði Y að hann hafi áður unnið fyrir ákærðu Annþór og Börk og fengið pening fyrir þegar hann vantaði. Hann hafi einnig fengið sjónvarp og tölvu hjá ákærða Annþóri auk þess að fá að borða hjá honum. Þá hafi hann vitað að ákærði væri í handrukkun. Fyrir dóminum kvaðst ákærði Y hafa hringt í ákærða Annþór vin sinn og beðið hann að hjálpa sér. Meiri líkur hafi verið á að strákarnir skiluðu peningunum ef ákærði Annþór talaði við þá. Fyrir dóminum kvað ákærði Y lögregluna hafa neytt hann til að segja eitthvað allt annað í skýrslutöku sem væri ósatt. Hann hafi verið tilbúinn að segja hvað sem var til að losna úr gæsluvarðhaldi. Allt sem kæmi fram í lögregluskýrslu væri lygi, þarna hafi ekkert gerst. Eins og rakið hefur verið fyrr sætti ákærði Y hótunum um ofbeldi ef hann breytti ekki framburði sínum fyrir dómi. Verður framburður hans metinn með hliðsjón af því.
Ákærði C kvað hjá lögreglu að hann hafi látið vini sína hafa 250.000 krónur til fíkniefnakaupa en þeir verið rændir. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hafi beðið ákærða Y að aðstoða sig við að innheimta peningana. Hann vissi til þess að rætt hafi verið við Annþór vegna þessa og hafi bara viljað fá peninginn sinn til baka. Kvaðst ákærði ekki þekkja Annþór. Hann hafi síðar séð þessa drengi í umferðinni og elt þá. Ákærðu báðir hafi fengið drengina til að koma með sér í Hafnarfjörð til að ræða við Annþór vegna þessa máls. Þá hafi verið hringt í ákærða Annþór en hann muni ekki hvernig það gekk fyrir sig. C kvað aðspurður að I og J hafi komið sjálfviljugir með þeim til Hafnarfjarðar. Þeir hafi bara sagt já, þegar þeim var sagt að þeir ættu að koma með, „við gerum okkar besta til að borga til baka“. C kvaðst ekki hafa vitað að þetta myndi fara svona, það hafi bara átt að tala við þá. Sjálfur væri hann lítið peð og hafi ekki getað stöðvað þetta. Sagði hann Y hafa þekkt Annþór og hringt í hann þegar þeir fundu strákana. Þeir hafi því ekki rætt saman um það hvað ætti að gera á sólbaðsstofunni. Ákærði kvað ákærða Y ekkert hafa gert inni á sólbaðsstofunni né heldur hann sjálfur.
Vitnið I lýsti aðdragandanum eins og aðrir fyrir lögreglu en hann kvaðst hafa verið hræddur og farið í felur eftir að ákærði Y var kominn í málið. Það hafi síðan verið tveimur dögum eftir að hann flutti til móður sinnar að ákærðu Y og C hafi séð hann og J í umferðinni og elt þá heim til móður hans. Y hafi elt þá inn í hús og beðið þá um að koma og hitta Börk Birgisson. Vitnið hafi ekki vitað á þeim tíma hver Börkur var en hann hafi þekkt Annþór og verið hræddur við hann. Þeir hafi samt samþykkt að fara með ákærðu í Hafnarfjörðinn.
Vitnið J lýsti aðdraganda málsins á sama hátt og vitnið I.
XII.
Forsendur og niðurstöður.
Með framburði ákærðu Y og C, sem fær stoð í framburði vitnanna J og I, ætluðu ákærðu að innheimta hjá J og I peninga sem þeir töldu drengina hafa tekið ófrjálsri hendi. Ákærði Y þekkti ákærða Annþór og vissi að aðkoma hans að málinu myndi auka líkurnar á að J og I greiddu féð til baka. Með þessari aðferð ætluðu ákærðu að auka vægi á kröfum þeirra til þess að fá féð endurgreitt. Þá vissi ákærði Y að ákærði Annþór stundaði handrukkanir. Ákærði Y var auk þess búinn að ræða um aðstoð Annþórs fyrirfram og hringdi í hann, eftir að þeir sáu drengina, og vildi koma með þá til Annþórs. Máttu ákærðu báðir vita, áður en þeir fóru með drengina til Annþórs, að hans aðkoma, í hvaða mynd sem hún yrði, myndi setja aukinn þunga á innheimtu fjárins. Auk þess er viðurkennt af ákærðu báðum að þeir hafi staðið inni í sólbaðsstofunni á meðan á árásinni stóð og ekkert gert til að aftra ákærða Annþór í að beita ofbeldi. Þannig er sannað að þeir hafi, með því að fara með J og I til ákærða Annþórs og vera á staðnum á meðan hann beitti þá ofbeldi, veitt Annþóri liðsinni í verki.
Verða ákærðu Y og C því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
XIII.
Ákæra útgefin [...] 2012.
Mál nr. S-[...]/2012, ákæruvaldið gegn Y, kt. [...], [...], [...], var sameinað þessu máli. Er það mál höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 16. október 2012 „fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:
I.
Fyrir þjófnað með því að hafa:
1) föstudaginn 4. maí 2012, stolið snyrtivöru úr verslun Hagkaupa, við [...].
Mál nr. [...].
2) laugardaginn 5. maí 2012, stolið snyrtivöru úr verslun Hagkaupa, við [...].
Mál nr. [...].
Verðmæti stolinna vara í liðum 1) og 2) eru alls kr. 47.848,00.
Telst þetta brot varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa:
3) þann 08. apríl 2012, ekið bifreiðinni [...], skráð í eigu K, kt. [...], norður Norðurhóla við Hrafnhóla í Reykjavík, undir áhrifum fíkniefna (magn amfetamíns í blóði mældist 295 ng/ml. og magn Tetrahýdrókannabínóls í blóði mældist 1,9 ng/ml.) sviptur ökuréttindum.
Mál nr. [...].
4) þann 24. apríl 2012, ekið bifreiðinni [...], skráða í eigu K, kt. [...], eftir Suðurhólum við Dúfnahóla í Reykjavík, sviptur ökuréttindum.
Mál nr. 007-2012-14970.
Teljast þessi brot varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Þess er krafist að Y verði dæmdur til refsingar, ökuleyfissviptingar sbr. 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa vegna brota þeirra sem fram koma í kafla I hér að ofan, sem gerð hefur verið af L, [...] Haga hf., þar sem þess er krafist að hinn ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 47.848,00 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eða þann 05. maí 2012, og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Við þingfestingu þessa máls játaði ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum er gerð að sök í ákærulið I-1, en neitaði sök í ákærulið I-2. Ákærði játaði sök í ákærulið II. Þá samþykkti ákærði bótakröfu varðandi ákærulið I-1 en hafnaði bótakröfum að öðru leyti. Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá ákærulið I-2. Þá mótmælti verjandi ákærða bótakröfunni þar sem ekki sé ljóst við hvaða ákærulið hvor bótakrafan á.
Ákærði játaði fyrir dóminn við þingfestingu málsins sök. Þá samþykkti hann bótakröfuna. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann því sakfelldur fyrir brot sitt. Háttsemin er í ákæru réttilega færð til refsiákvæðis.
Ákærði samþykkti bótakröfu í ákærulið I.1 en hafnaði bótakröfu í ákærulið I.2. Ekkert er getið um fjárhæð í ákæruliðum ákærunnar né er bótakrafan sundurliðuð í ákæru. Er bótakrafan vanreifuð að þessu leyti og er henni vísað frá dómi.
XIV.
Ákvörðun refsingar.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson er fæddur [...] og er því 36 ára gamall. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum ellefu sinnum verið gerð refsing frá árinu 1993 en þá var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir skjalafals og þjófnað, þá 17 ára gamall. Rauf ákærði þann skilorðsdóm. Í nóvember sama ár var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir nytjastuld. Í nóvember 1996 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir þjófnað. Í maí 1997 var ákærði dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir þjófnað og í nóvember sama ár var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og húsbrot. Í janúar 1998 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir líkamsárás og í maí sama ár var hann aftur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás. Fékk hann reynslulausn í ágúst 1998 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 205 dögum. Í nóvember 2002 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað og umferðarlagabrot og í nóvember 2003 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í apríl 2005 var ákærði dæmdur í Hæstarétti í þriggja ára fangelsi fyrir líkamsárás. Fékk ákærði reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 360 dögum. Rauf ákærði reynslulausnina og var gert að afplána 360 daga eftirstöðvar refsingar með dómi Hæstaréttar 12. mars 2008. Með dómi 2. apríl 2009 var ákærði dæmdur í fangelsi í fjögur ár fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Fékk hann reynslulausn 27. ágúst 2011 í tvö ár á eftirstöðvum refsingarinnar, 600 dögum. Var sú reynslulausn dæmd upp þann 27. apríl 2012 og ákærða gert að afplána þá 600 daga.
Við ákvörðun refsingar nú verður að líta til þess að ákærða hefur, fyrir utan þau brot sem hann hefur verið sakfelldur fyrir nú, fjórum sinnum verið gerð refsing fyrir líkamsárásir, nú síðast þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, fimm sinnum fyrir þjófnað og nytjastuld og tvisvar fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot. Þá hefur ákærði þrisvar rofið skilorðsdóma og þrisvar sinnum rofið reynslulausn, nú síðast 27. apríl 2012. Þá ber að líta til 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr., 72. gr. og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar til refsiþyngingar.
Þau brot sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann á meðan hann var á reynslulausn, fyrst í október 2011, aftur í desember 2011 og síðast í janúar 2012. Virðast varnaðaráhrif skilorðsdóma eða reynslulausnar engin áhrif hafa á ásetning ákærða til afbrota. Ákærði á sér engar málsbætur. Hefur hann nú verið sakfelldur fyrir ítrekaðar hættulegar líkamsárásir, frelsissviptingar, hótanir og fjárkúgun, unnar í samverknaði við marga aðila, eða einn og sér. Verður honum nú ákvörðuð refsing með hliðsjón af 72. gr. almennra hegningarlaga en líta verður á að ákærði telst vera vanaafbrotamaður.
Er refsing ákærða Annþórs ákveðin fangelsi í sjö ár. Engin skilyrði eru til að skilorðsbinda refsinguna. Frá refsingunni skal dragast gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. mars til 27. apríl 2012.
Verjandi ákærða krafðist þess að eftirstöðvar reynslulausnar, sem ákærði var dæmdur til að afplána með úrskurði héraðsdóms þann 27. apríl 2012, verði dæmdar með í þeirri refsingu sem ákærða er gerð nú. Engin lagaskilyrði eru til að verða við þeirri kröfu þar sem ákærði er með þeim úrskurði að afplána fyrri dóm. Er þeirri kröfu því hafnað.
Ákærði Börkur Birgisson er fæddur [...] og er því 33 ára gamall. Hann hefur sjö sinnum hlotið refsidóma frá árinu 1997 en þá var hann dæmdur í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundna í fimm ár, fyrir hótun og stórfellda líkamsárás. Í mars 1998 var ákærði dæmdur í átján mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir hættulega líkamsárás og gripdeild. Rauf ákærði ítrekað skilorð þessara dóma. Í september 2003 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í júní 2005 var ákærði dæmdur til sjö og hálfs árs fangelsisvistar fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, tilraun til manndráps og umferðarlagabrot. Fékk ákærði reynslulausn 6. ágúst 2009 í þrjú ár á eftirstöðvum refsingarinnar, 900 dögum. Í desember 2008 var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn valdstjórninni og fleiri hegningarlagabrot. Í nóvember 2011 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot og í júní 2012 var ákærði dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn valdstjórninni og móðganir. Ákærði rauf reynslulausn sem hann fékk 6. ágúst 2009 og var úrskurðaður til að afplána eftirstöðvar dómsins með úrskurði 27. apríl 2012.
Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir, frelsissviptingu, nauðung og tilraun til fjárkúgunar, unnar í samverknaði við aðra meðákærðu. Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr., 72. gr. og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ákærða til refsiþyngingar. Þau brot sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann á meðan hann var á reynslulausn, fyrst í október 2011 og aftur í desember 2011. Virðast varnaðaráhrif skilorðsdóma eða reynslulausnar engin áhrif hafa á ásetning ákærða til afbrota. Ákærði á sér engar málsbætur. Verður honum nú ákvörðuð refsing með hliðsjón af 72. gr. almennra hegningarlaga en ákærði hefur ítrekað verið dæmdur fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir auk tilraunar til manndráps allt frá árinu 1997. Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en dómur gekk þann 27. júní sl. en þá var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. og 234. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærða því gerður hegningarauki nú skv. 60. gr., sbr.78. gr., almennra hegningarlaga.
Er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í sex ár. Skal gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. mars til 27. apríl 2012 dragast að fullri dagatölu frá refsingunni. Ekki er tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði X er fæddur í [...] og var því 22 ára gamall er hann framdi brot þessi. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun í desember 2008 fyrir eignaspjöll og í nóvember 2010 gekkst hann undir sátt fyrir ölvunarakstur. Þá var ákærði dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, þann 30. október sl. fyrir fjármunabrot. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hrottalega líkamsárás og hlutdeild í annarri líkamsárás unninni í samverknaði með öðrum meðákærðu. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot og umferðarlagabrot samkvæmt ákæru útgefinni 16. október sl. Ákærði á sér engar málsbætur. Verður ákærða nú dæmdur hegningarauki, sbr. 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga, en brot samkvæmt III. kafla ákærunnar var framið áður en sá dómur gekk. Verður sá dómur því dæmdur upp í þessu máli. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hrottalega líkamsárás samkvæmt I. kafla ákærunnar og hlutdeild samkvæmt II., sbr. III., kafla ákærunnar fyrir hrottalega líkamsárás, frelsissviptingu, nauðung og fjárkúgun. Er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í tvö ár. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 17. til 21. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði Y er fæddur í [...] og var því nítján ára er hann framdi brotin skv. 1. kafla og IV., sbr. V., kafla ákærunnar. Samkvæmt sakavottorði hans var hann dæmdur í mars 2009 fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot. Var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Í nóvember 2010 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr., 244. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrot. Var skilorð fyrri dóms frá mars 2009 ekki dæmt upp með þessum dómi. Þá var ákærði orðinn 18 ára er hann var sakfelldur fyrir þessi brot. Í júní 2011 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir fíkniefnaakstur og fíkniefnalagabrot og í febrúar 2012 var hann dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu, hótanir og fjársvik, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Var dómur frá júní 2011 dæmdur upp og honum gerður hegningarauki. Við ákvörðun refsingar nú verður ákærða gerður hegningarauki skv. 60., sbr. 78., gr. almennra hegningarlaga en brot þau er ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en dómur gekk þann 28. mars sl. Ber að dæma honum nú refsingu í einu lagi. Í máli þessu hefur ákærði Y verið sakfelldur fyrir hrottalega árás unna í samverknaði með öðrum samkvæmt I. kafla ákærunnar og hlutdeild í líkamsárás, hótunum, frelsissviptingu og fjárkúgun samkvæmt IV., sbr. V., kafla ákærunnar. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir þjófnað og umferðarlagabrot samkvæmt ákæru útgefinni 16. október sl. Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 5., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í átján mánuðir. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Ákærði er sviptur ökurétti vegna ölvunar- eða fíkniefnaaksturs í fjórða sinn frá árinu 2010. Síðast var hann sviptur ökurétti í tvö ár frá 16. júní 2012. Með vísan til þessa og dómaframkvæmdar skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá 16. júní 2014. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 17. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði Z er fæddur [...] og er 28 ára. Hefur honum sjö sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis brot. Í mars 2006 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir fíkniefnalagabrot. Í febrúar 2007 gekkst hann undir tvær sáttir fyrir umferðarlagabrot. Í maí 2009 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir ýmis umferðarlagabrot, m.a. fíkniefnaakstur. Í september 2009 var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnaakstur og í nóvember 2010 gekkst hann undir sátt fyrir umferðarlagabrot. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hrottalega líkamsárás samkvæmt I. kafla ákærunnar, unna í samverknaði með meðákærðu, auk þess að vera sakfelldur fyrir hlutdeild í hrottalegri árás, frelsissviptingu, hótunum og fjárkúgun skv. II., sbr. III., kafla ákærunnar. Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Sindri Kristjánsson er fæddur í [...] og var því 18 ára gamall er hann framdi brot þetta. Hefur honum átta sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis brot frá árinu 2011. Frá apríl 2011 til febrúar 2012 var ákærða sjö sinnum gerð refsing fyrir ýmis umferðarlagabrot, fíkniefnaakstur og fíkniefnabrot. Í apríl 2012 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot, m.a. fíkniefnaakstur. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en sátt var gerð í febrúar 2012 og dómur gekk í júlí 2012. Verður honum því gerður hegningarauki nú skv. 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga og ber að dæma honum refsingu eins og hún hefði verið dæmd í einu lagi. Þykir rétt að láta sátt frá 17. febrúar 2012 halda sér. Hins vegar verður við ákvörðun refsingar að líta til 1., 2., 3., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot þetta var samverknaður með öðrum meðákærðu í þessum ákærulið. Þrátt fyrir ungan aldur ákærða þykir hann ekki eiga sér neinar málsbætur nú en hann hefur verið sakfelldur fyrir hrottalega líkamsárás í samverknaði með öðrum.
Er refsing hans ákveðin fangelsi í átján mánuði. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Þ er fæddur árið [...] og er því 26 ára gamall. Honum hefur átta sinnum verið gerð refsing frá mars 2006. Frá árinu 2006 til október 2008 var ákærða fjórum sinnum gerð refsing vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í september 2010 var ákærði dæmdur í sextíu daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 244. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 48. gr. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Í maí 2011 gekkst hann undir sátt vegna umferðarlagabrots og í nóvember 2011 gekkst hann undir sátt fyrir fíkniefnaakstur og í nóvember 2011 gekkst hann undir sátt fyrir fíkniefnalagabrot. Þá var ákærði dæmdur 13. nóvember 2012 í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrot og sviptur ökurétti ævilangt. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann í janúar 2012 og verður honum því dæmdur hegningarauki skv. 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga við dóminn frá 13. nóvember 2012. Þá ber að líta til alvarleika brotsins og verknaðar ákærða í árásinni við ákvörðun refsingarinnar. Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er refsing hans nú ákveðin fangelsi í tvö ár. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði Ö er fæddur í [...] og var því 22 ára gamall er hann framdi brot sitt. Honum hefur níu sinnum verið gerð refsing frá júní 2007 en þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og í ágúst 2007 gekkst hann undir sátt fyrir brot á umferðarlögum. Í apríl 2009 var hann dæmdur til sex mánaða fangelsisrefsingar, þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í júní 2010 gekkst ákærði undir sátt vegna umferðarlagabrots og í júlí 2010 var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Fékk hann reynslulausn 30. nóvember 2010 í eitt ár á eftirstöðvum 180 daga refsingarinnar. Í nóvember 2010 var ákærða ekki gerð sérstök refsing vegna hegningarauka fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og laga um ávana- og fíkniefni. Í september 2011 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot og í september 2012 var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur og fyrir að aka sviptur ökurétti ítrekað. Ákærða hefur þrisvar frá árinu 2007 verið gerð refsing fyrir líkamsárás. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en dómur gekk þann 18. september sl. og verður honum því dæmdur hegningarauki skv. 60. gr. sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar í því máli var litið til þess að ákærði hafði þá gerst sekur um ölvunar- eða fíkniefnaakstur þrisvar sinnum og akstur sviptur ökuréttindum þrisvar sinnum sem samkvæmt dómaframkvæmd varðar fangelsisrefsingu í tvo mánuði. Þá rauf ákærði reynslulausn á 180 dögum sem einnig var dæmd upp. Við ákvörðun refsingar nú ber einnig að líta til 1., 2., 3., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á sér engar málsbætur.
Er refsing hans nú ákveðin fangelsi í átján mánuði. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 17. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Æ er fæddur í [...] og var því 23 ára gamall er hann framdi brotið. Var hann dæmdur í febrúar 2012 í tólf mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og í júní 2012 var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn 1. mgr. 48. gr. Var fyrri dómur dæmdur upp í seinna málinu. Verður ákærða því gerð refsing nú skv. 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga en brot það sem hann hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en ofangreindir dómar gengu. Verður ofangreindur skilorðsdómur því dæmdur upp. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann í samverknaði með öðrum meðákærðu. Hefur hann gerst sekur um hrottalega líkamsárás. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 6., 7., 8. og 9. tl. 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár. Ekki eru rök til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði C er fæddur í [...] og var því 18 ára gamall er hann framdi brotið. Samkvæmt sakavottorði hefur honum þrisvar verið gerð refsing frá því í janúar 2010 en þá gekkst hann undir sátt fyrir fíkniefnalagabrot. Í nóvember 2011 var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir vopnað rán og í febrúar 2012 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga. Var dómur frá 22. nóvember 2011 ekki dæmdur upp með dóminum frá 8. febrúar 2012. Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir framdi hann í október 2011 og verða dómar frá 22. nóvember 2011 og 8. febrúar 2012 því dæmdir upp í máli þessu skv. 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga.
Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði. Með vísan til ungs aldurs ákærða, þess að um hlutdeild er að ræða í því máli sem nú er sakfellt fyrir og að ákærði hefur sýnt fram á að hann hefur leitað sér meðferðar, fyrst á Vogi og síðan í fjórar vikur á Staðarfelli, þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
XV.
Sakarkostnaður.
Ákærðu hafa allir verið sakfelldir í máli þessu og með vísan til 218. gr. og 219. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma þá til greiðslu sakarkostnaðar.
Ákærðu, Annþór Kristján Karlsson, Börkur Birgisson, X, Y, Z, Sindri Kristjánsson, Þ, Æ og Ö, greiði óskipt sakarkostnað samkvæmt yfirliti 50.400 krónur vegna ákæruliðar I.
Ákærðu Annþór, Börkur, X og Z greiði óskipt sakarkostnað að fjárhæð 10.800 krónur vegna ákæruliðar II og III.
Verjandi ákærða Annþórs lagði fram tímaskýrslu þar sem kemur fram að unnir tímar í málinu hafi verið 331,75 klukkustund. Er sú tímaskýrsla ekki í neinu samræmi við umfang málsins og verður litið fram hjá henni við ákvörðun málsvarnarlauna. Ákærði Annþór Kristján Karlsson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 1.600.000 krónur, auk virðisaukaskatts, og vegna aksturs 80.370 krónur.
Verjandi ákærða Barkar lagði fram tímaskýrslu þar sem kemur fram að unnir tímar í málinu hafi verið 319,5 klukkustund. Er sú tímaskýrsla ekki í neinu samræmi við umfang málsins og verður litið fram hjá henni við ákvörðun málsvarnarlauna. Ákærði Börkur Birgisson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Inga Freys Ágústssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 1.500.000 krónur, auk virðisaukaskatts, og vegna aksturs 80.370 krónur.
Ákærði X greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurvins Ólafssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Y greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Björgvins Jónssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Z greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Guðmundssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Sindri Kristjánsson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Reynis Loga Ólafssonar hdl, á rannsóknarstigi og fyrir dóminum., 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Þ greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Æ greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Inga Poulsen hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Ö greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gylfa Jens Gylfasonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði C greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Bjarna Haukssonar hrl., fyrir dóminum, 1.100.000 krónur auk virðisaukaskatts.
XVI.
Skaðabótakrafan.
Í málinu gerir A kröfu um að honum verði dæmdar skaðabóta- og miskabætur. Ákærðu kröfðust allir í fyrsta lagi að bótakröfunni yrði vísað frá dómi en til vara sýknu af henni og til þrautavara að hún yrði lækkuð verulega.
Ákærðu, Annþór Kristján, Börkur, X, Y, Z, Sindri, Þ, Æ og Ö, hafa allir verið sakfelldir fyrir hrottalega líkamsárás gegn brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og sex sentimetra opinn skurð á framanverðum sköflungnum, brot á hægri hnéskel og bólgu í kringum hnéð, fjölda yfirborðsáverka á fótlegg og fjölda yfirborðsáverka á úlnliðum og handleggjum. Í gögnum málsins liggur fyrir áverkavottorð frá Hjalta Má Björnssyni lækni þar sem staðfest er að brotaþoli kom með sjúkrabíl þann 4. janúar 2012 á bráðamóttöku. Hjalti Már staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Staðfesti hann að það þyrfti mikið högg til að brjóta sköflungsbein á ungum hraustum manni. Þá eru ofangreindir ákærðu sakfelldir fyrir að nota hættuleg vopn, eins og sleggju, baseball-kylfu og golfkylfur, sem eitt og sér er hættulegt vopn. Ákærðu réðust fyrirvaralaust inn á heimili brotaþola og veittu honum áðurgreinda áverka. Verður að teljast mildi að ekki hlaust verri skaði af. Verður af árásinni ráðið að brotaþoli hefur sannanlega orðið fyrir miska. Brotaþoli gerir kröfu um skaðabætur að fjárhæð 63.200 krónur sem er útlagður kostnaður vegna komu á slysavarðstofu og læknisvottorða og reikningar hafa verið lagðir fram vegna. Með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 er krafa þessi tekin til greina og verða ofangreindir ákærðu dæmdir til að greiða brotaþola óskipt þá fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingu framhaldsákærunnar 21. september 2012 til 21. október 2012, en samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá verða ákærðu dæmdir til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 4. janúar 2012 til 21. október 2012, en samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærðu alla fyrir utan C óskipt til þess að greiða réttargæslulaun Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 500.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Karl Ingi Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari, sótti mál þetta.
Mál þetta dæma Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, Finnbogi Alexandersson héraðsdómari og Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Dómsorð.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson skal sæta fangelsi í sjö ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. mars til 27. apríl 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði Börkur Birgisson skal sæta fangelsi í sex ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. mars til 27. apríl 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði X skal sæta fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 17. til 21. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði Y skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 17. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði Y er sviptur ökurétti ævilangt frá 16. júní 2014.
Ákærði Z skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Sindri Kristjánsson skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Þ skal sæta fangelsi í tvö ár.
Ákærði Ö skal sæta fangelsi í átján mánuði. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 17. til 21. mars 2012 skal koma til frádráttar refsingunni.
Ákærði Æ skal sæta fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 15. til 21. mars 2012 skal dragast frá refsingunni.
Ákærði C skal sæta fangelsi í fimmtán mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærðu Annþór Kristján Karlsson, Börkur Birgisson, X, Y, Z, Sindri Kristjánsson, Þ, Æ og Ö greiði óskipt sakarkostnað, 50.400 krónur, vegna ákæruliðar I.
Ákærðu Annþór, Börkur, X og Z greiði óskipt sakarkostnað að fjárhæð 10.800 krónur vegna ákæruliðar II og III.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 1.600.000 krónur auk virðisaukaskatts, og vegna aksturs, 80.370 krónur.
Ákærði Börkur Birgisson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Inga Freys Ágústssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samtals 1.500.000 krónur auk virðisaukaskatts, og vegna aksturs, 80.370 krónur.
Ákærði X greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurvins Ólafssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Y greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Björgvins Jónssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Z greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sveins Guðmundssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Sindri Kristjánsson greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Reynis Loga Ólafssonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum., 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Þ greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Æ greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Inga Poulsen hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði Ö greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gylfa Jens Gylfasonar hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.200.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærði C greiði annan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Bjarna Haukssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 1.100.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Ákærðu, Annþór Kristján Karlsson, Börkur Birgisson, X, Y, Z, Sindri Kristjánsson, Þ, Æ og Ö, greiði A, kt. [...], skaðabætur að fjárhæð 63.200 krónur og miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 4. janúar 2012 til 21. september 2012, af 400.000 krónum en af 463.200 krónum frá þeim degi til 21. október s.á. en samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Allir ákærðu, utan ákærða C, skulu greiða, óskipt, réttargæslulaun Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 500.000 krónur auk virðisaukaskatts.