Hæstiréttur íslands
Mál nr. 773/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Afleiðusamningur
- Gengi
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2014. |
|
Nr. 773/2013. |
Síminn hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Glitni hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Afleiðusamningur. Gengi.
S hf. og G hf. gerðu meðal annars með sér sex gjaldmiðlaskiptasamninga árið 2008 sem voru á gjalddaga 24. október, 18. nóvember og 1. desember það ár. Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að víkja stjórn G hf. frá, taka yfir vald hluthafafundar í honum og setja yfir hann skilanefnd og var G hf. síðar tekinn til slita 22. apríl 2009. G hf. efndi ekki fyrrgreinda samninga við S hf., sem lýsti af því tilefni kröfum við slit G hf. Úrlausn um ágreining sem reis um viðurkenningu þessara krafna við slitin var beint til héraðsdóms. Málsaðilar voru sammála um að miða skyldi uppgjör samninganna við gjalddaga hvers þeirra fyrir sig, en greindi á um við hvaða gengi íslenskrar krónu, gagnvart þeim erlendu gjaldmiðlum sem samningarnir vörðuðu, skyldi miða uppgjörið. S hf. bar því við að leggja bæri til grundvallar gengi sem Seðlabanki Evrópu hefði skráð á gjalddaga hvers samnings, en G hf. hélt því fram að miða bæri við skráð gengi hjá Seðlabanka Íslands. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt gengisskráning Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. málslið 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og þágildandi reglum nr. 913/2002 um gjaldeyrismarkað hefði ekki getað tekið mið af verði erlendra gjaldmiðla á skipulegum gjaldeyrismarkaði hér á landi á því tímabili, sem málið varðaði, yrði ekki fram hjá því litið að á þeim tíma hefðu farið fram viðskipti hér á landi með erlenda gjaldmiðla, sem staðið hefðu til boða eftir skráðu gengi seðlabankans að gættum reglum um takmarkaðar heimildir til gjaldeyriskaupa, og hefði gengið að því leyti verið í samræmi við raunverulegar aðstæður á markaði. Að virtri forsögu 19. gr. laga nr. 36/2001 orkaði ekki tvímælis að það gengi, sem nota ætti samkvæmt 2. málslið greinarinnar til viðmiðunar í samningum og dómsmálum þegar önnur gengisviðmiðun væri ekki sérstaklega tiltekin, gæti hvort heldur stuðst við 1. málslið eða 3. málslið hennar. Var uppgjör skiptasamninga S hf. og G hf. því miðað við það gengi sem Seðlabanki Íslands skráði á gjalddögum samninganna samkvæmt 3. málslið 19. gr. laga nr. 36/2001.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2013, þar sem viðurkenndar voru sex kröfur, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila, að fjárhæð samtals 10.543.027.330 krónur og þeim skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfur sínar verði aðallega viðurkenndar að samanlagðri fjárhæð 34.241.703.713 krónur, en til vara 24.378.599.534 krónur. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eftir ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 17. mars 2014.
I
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila tók hann á árinu 2005 svonefnt sambankalán í erlendum gjaldmiðlum, sem varnaraðili, sem þá hét Glitnir banki hf., átti meðal annarra hlut að og var upphaflega að fjárhæð 35.000.000.000 krónur. Sóknaraðili kveðst meðal annars sökum tilmæla lánveitendanna hafa allt frá árinu 2006 gert gjaldmiðlaskiptasamninga við varnaraðila til að verjast áhættu af breytingum á gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum vegna lántökunnar. Í þessu skyni gerðu aðilarnir meðal annars tvo samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti 25. ágúst 2008. Með öðrum þeirra seldi sóknaraðili 13.264.309 sterlingspund, sem varnaraðili átti að greiða 2.032.755.354 krónur fyrir, en varnaraðili skuldbatt sig til að selja sóknaraðila sömu fjárhæð í erlenda gjaldmiðlinum 24. október 2008 fyrir 2.059.947.188 krónur. Með hinum samningnum seldi sóknaraðili 71.502.919 evrur fyrir 8.690.464.775 krónur og bar varnaraðila að selja sóknaraðila sömu fjárhæð í evrum 24. október 2008 fyrir 8.817.024.942 krónur. Þá gerðu aðilarnir tvo aðra samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti 28. ágúst 2008. Samkvæmt öðrum þeirra seldi sóknaraðili 22.000.000 svissneska franka fyrir 1.654.840.000 krónur, en varnaraðili skuldbatt sig til að selja sóknaraðila sömu fjárhæð í erlenda gjaldmiðlinum 1. desember 2008 fyrir 1.699.940.000 krónur. Með hinum samningnum seldi sóknaraðili 50.000.000 bandaríkjadali fyrir 4.120.500.000 krónur, en varnaraðili hét því að selja honum sömu fjárhæð í bandaríkjadölum 1. desember 2008 fyrir 4.228.500.000 krónur. Loks gerðu aðilarnir tvo samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti 16. september 2008. Í öðrum þeirra var kveðið á um að sóknaraðili seldi 49.406.476 bandaríkjadali fyrir 4.545.395.792 krónur, en varnaraðila bæri að selja honum sömu fjárhæð í bandaríkjadölum 18. nóvember 2008 fyrir 4.611.600.470 krónur. Með hinum samningnum seldi sóknaraðili 21.553.223 svissneska franka fyrir 1.784.606.864 krónur, en varnaraðili átti að selja sóknaraðila sömu fjárhæð í erlenda gjaldmiðlinum 18. nóvember 2008 fyrir 1.811.979.458 krónur. Í öllum þessum sex samningum var mælt fyrir um að taka ætti fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum, sem sóknaraðili seldi varnaraðila, af nánar tilgreindum gjaldeyrisreikningum þess fyrrnefnda hjá þeim síðarnefnda og átti varnaraðili að greiða kaupverðið með því að leggja viðeigandi fjárhæð í íslenskum krónum inn á tékkareikning sóknaraðila hjá sér. Það gagnstæða átti síðan að gerast á gjalddaga samninganna þegar varnaraðili seldi sóknaraðila fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum fyrir íslenskar krónur.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði neytti Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að víkja stjórn varnaraðila frá, taka yfir vald hluthafafundar í honum og setja yfir hann skilanefnd, en varnaraðili var síðan tekinn til slita 22. apríl 2009. Varnaraðili efndi ekki framangreinda samninga við sóknaraðila, sem lýsti 25. nóvember 2009 sex kröfum af því tilefni við slit varnaraðila. Samanlagðar námu þessar kröfur sömu fjárhæð og fyrrgreindri aðalkröfu sóknaraðila hér fyrir dómi, en við útreikning þeirra studdist hann við gengi erlendu gjaldmiðlanna, sem hann kvað Seðlabanka Evrópu hafa skráð á gjalddaga hvers samnings. Slitastjórn varnaraðila viðurkenndi á hinn bóginn þessar kröfur með fjárhæðinni, sem héraðsdómur tók til greina og áður var getið, en við útreikning hennar var tekið mið af skráðu gengi erlendu gjaldmiðlanna hjá Seðlabanka Íslands á gjalddögum samninganna. Ágreiningi, sem reis milli aðilanna af þessu tilefni, var beint til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest 29. apríl 2011.
II
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki litið svo á að ákvæði almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti, sem Samband íslenskra viðskiptabanka og Samband íslenskra sparisjóða gáfu út í febrúar 1998 og sóknaraðili hefur vísað til í málatilbúnaði sínum, geti varðað úrlausn um við hvaða gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum verði miðað við uppgjör áðurgreindra samninga aðilanna.
Í málatilbúnaði varnaraðila hefur meðal annars verið vísað til þess að í samningum aðilanna, sem málið varðar, hafi í öllum tilvikum verið miðað við skráð gengi Seðlabanka Íslands við ákvörðun fjárhæða í íslenskum krónum, sem varnaraðili greiddi sóknaraðila við gerð samninganna. Telur varnaraðili að í þessu hafi í raun falist samningur aðilanna um að beita jafnframt skráðu gengi seðlabankans við uppgjör á gjalddaga samninganna. Fyrir þessari málsástæðu varnaraðila er ekkert hald í texta samninganna og verður henni þegar af þeirri ástæðu hafnað.
Samkvæmt 1. málslið 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands skal hann skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum hvern virkan dag, sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi. Í 2. málslið sömu lagagreinar segir að það gengi skuli notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Með 3. málslið greinarinnar er seðlabankanum enn fremur heimilað að skrá gengi krónunnar á þeim dögum, sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt ekki starfandi. Í 3. mgr. 18. gr. laganna er bankanum falið að setja reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða og gerði hann það með reglum nr. 913/2002 um gjaldeyrismarkað, sem í gildi voru þegar atvik málsins gerðust. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglnanna átti seðlabankinn að skrá gengisvísitölu og opinbert viðmiðunargengi íslensku krónunnar með hliðsjón af leiðbeinandi verðtilboðum viðskiptavaka eða því verði, sem myndast hefði í viðskiptum hans og viðskiptavaka. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að byggja á því að frá því Fjármálaeftirlitið neytti heimilda í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 til að setja skilanefnd yfir varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. og Kaupþing banka hf. 7. og 8. október 2008 og fram yfir síðustu gjalddaga samninga aðilanna 1. desember sama ár hafi ekki verið fyrir hendi viðskiptavakar til að gegna því hlutverki, sem um ræddi í 1. mgr. 7. gr. reglna nr. 913/2002. Af þeim ástæðum gat gengisskráning Seðlabanka Íslands samkvæmt 19. gr. laga nr. 36/2001 ekki tekið mið á þessu tímabili af verði erlendra gjaldmiðla á skipulegum gjaldeyrismarkaði hér á landi. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að seðlabankanum er með 3. málslið sömu lagagreinar veitt fyrrgreind heimild til að skrá gengi krónunnar á þeim dögum, sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru ekki starfandi. Á tímabilinu, sem mál þetta varðar, fóru fram viðskipti hér á landi með erlenda gjaldmiðla, sem stóðu til boða eftir skráðu gengi seðlabankans að gættum reglum um takmarkaðar heimildir til gjaldeyriskaupa, og var gengið að því leyti í samræmi við raunverulegar aðstæður á markaði. Að virtri forsögu 19. gr. laga nr. 36/2001 orkar ekki tvímælis að það gengi, sem nota á samkvæmt 2. málslið greinarinnar til viðmiðunar í samningum og dómsmálum þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin, getur hvort heldur stuðst við 1. málslið eða 3. málslið hennar. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Síminn hf., greiði varnaraðila, Glitni hf., 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 29. apríl 2011, var tekið til úrskurðar 24. október sl. Sóknaraðili er Síminn hf., Ármúla 25, Reykjavík. Varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
I.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að viðurkenndar verði kröfur hans við slitameðferð varnaraðila, samtals að fjárhæð 34.241.703.713 krónur, sbr. samanlagðar kröfur á grundvelli kröfulýsinga nr. CL20091127-5895 að fjárhæð 4.192.758.701 króna, nr. CL20091127-5908 að fjárhæð 1.377.989.978 krónur, nr. CL20091127-5924 að fjárhæð 2.724.900.883 krónur, nr. CL20091127-5928 að fjárhæð 7.989.045.515 krónur, nr. CL20091127-5934 að fjárhæð 14.625.931.199 krónur og nr. CL20091127-5939 að fjárhæð 3.331.077.437 krónur, allar dagsettar 25. nóvember 2009, og að kröfurnar njóti stöðu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Til vara er þess krafist að viðurkenndar verði kröfur sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila, samtals að fjárhæð 24.378.599.534 krónur, sbr. samanlagðar kröfur á grundvelli kröfulýsinga nr. CL20091127-5895 að fjárhæð 5.379.179.996 krónur, nr. CL20091127-5908 að fjárhæð 1.795.380.120 krónur, nr. CL20091127-5924 að fjárhæð 1.877.434.973 krónur, nr. CL20091127-5928 að fjárhæð 5.619.803.042 krónur, nr. CL20091127-5934 að fjárhæð 7.864.789.088 krónur og nr. CL20091127-5939 að fjárhæð 1.842.012.316 krónur, allar dagsettar 25. nóvember 2009, og að kröfurnar njóti stöðu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991.
Loks er gerð sú þrautavarakrafa að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila til krafna sóknaraðila.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu að mati réttarins.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða hans að samþykkja kröfur sóknaraðila sem almennar kröfur við slit varnaraðila skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 10.543.027.330 krónur.
Varnaraðili krefst og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
II.
Mál þetta snýst um uppgjör á sex samningum um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti sem aðilar gerðu með sér í ágúst og september 2008. Í samningunum var tekið fram að um þá giltu markaðsskilmálar Glitnis og Almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaviðskipti, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998, hér eftir nefndir SFF-skilmálar. Með bréfi, dags. 11. október 2008, óskaði sóknaraðili eftir því við varnaraðila að öllum samningunum yrði lokað á viðmiðunargengi því er Seðlabanki Evrópu hefði gefið út. Af hálfu varnaraðila var ekki brugðist við beiðninni um lokun samninganna og runnu þeir skeið sitt á enda í samræmi við tilgreindan lokadag þeirra. Tveir fyrstnefndu samningarnir voru með gjalddaga 24. október 2008, næstu tveir með gjalddaga 1. desember sama ár og tveir þeir síðasttöldu með gjalddaga 18. nóvember sama ár.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar hinn 24. nóvember sama ár. Með gildistöku laga nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og skildi upphaf hennar miðast við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 12. maí sama ár skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir varnaraðila, sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009, og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Lýsti sóknaraðili eftirgreindum sex kröfum á grundvelli umræddra samninga, samtals að fjárhæð 34.241.703.713 krónur:
- Krafa nr. CL20091127-5895. Samningur nr. SW69248, dags. 16. september 2008. Lýst krafa að höfuðstól 3.783.556.679 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 18. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 409.202.022 krónur, eða alls 4.192.758.701 króna.
- Krafa nr. CL20091127-5908. Samningur nr. SW69247, dags. 16. september 2008. Lýst krafa að höfuðstól 1.243.501.846 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 18. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 134.488.132 krónur, eða alls 1.377.989.978 krónur.
- Krafa nr. CL20091127-5924. Samningur nr. SW67511, dags. 28. ágúst 2008. Lýst krafa að höfuðstól 2.480.377.128 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 1. desember 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 244.523.755 krónur, eða alls 2.724.900.883 krónur.
- Krafa nr. CL20091127-5928. Samningur nr. SW67510, dags. 28. ágúst 2008. Lýst krafa að höfuðstól 7.272.134.518 krónur, auk dráttarvaxta frá 1. desember 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 716.910.997 krónur, eða alls 7.989.045.515 krónur.
- Kröfulýsing nr. CL20091127-5934. Samningur nr. SW67205, dags. 25. ágúst 2008. Lýst krafa að höfuðstól 12.991.365.353 krónur, auk dráttarvaxta frá 24. október 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 1.634.565.846 krónur, eða alls 14.625.931.199 krónur.
- Kröfulýsing nr. CL20091127-5939. Samningur nr. SW67204, dags. 25. ágúst 2008. Lýst krafa að höfuðstól 2.958.802.651 króna, auk dráttarvaxta frá 24. október 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 372.274.786 krónur, eða alls 3.331.077.437 krónur.
Kom fram í kröfulýsingunum að af hálfu sóknaraðila væri litið svo á að samkomulag hefði verið um það við varnaraðila að samningarnir hefðu verið gerðir við móðurfélags sóknaraðila, Skipti hf., enda þótt þeir væru stílaðir á sóknaraðila. Að öðrum kosti væri litið svo á að þeir hefðu verið gerðir í umboði og f.h. Skipta hf. Loks var í kröfulýsingunum tekið fram að til vara væri litið svo á að kröfulýsingarnar hefðu verið gerðar í nafni sóknaraðila.
Varnaraðili féllst ekki á kröfurnar eins og þeim var lýst heldur samþykkti þær með breytingum, meðal annars um að hann teldi réttmætan kröfuhafa vera sóknaraðila en ekki Skipti hf. Af hálfu sóknaraðila var afstöðu slitastjórnarinnar mótmælt, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður á kröfuhafafundum sem haldnir voru í því skyni. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna.
Í þinghaldi hinn 25. maí 2011 var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst yrði útkljáður ágreiningur um hvort Skipti hf. gætu talist eigandi umræddra krafna gagnvart varnaraðila. Með úrskurði uppkveðnum 5. júlí 2012 var þeirri kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest að sóknaraðili væri réttur kröfuhafi þessara krafna. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 514/2012.
Í þinghaldi hinn 22. febrúar 2012 fór sóknaraðili fram á að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir matsmenn til að leggja mat á: „Hvert var markaðsgengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal (USD) og svissneskum franka (CHF) annars vegar þann 18. nóvember 2008 og hins vegar þann 1. desember 2008?“ Jafnframt skyldi metið: „Hvert var markaðsgengi íslensku krónunnar gagnvart evru (EUR) og sterlingspundi (GPB) þann 24. október 2008?“ Í matsbeiðninni kemur fram að matsmenn skuli leggja rökstutt mat á markaðsgengi krónunnar gagnvart hinum tilgreindu gjaldmiðlum og skila niðurstöðum í formi miðgengis viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni, greint niður á framangreinda daga. Við matið skuli og leitast við að leggja til grundvallar vegið meðaltalsverð íslensku krónunnar í viðskiptum, eða eftir atvikum í bindandi kaup- og sölutilboðum með íslensku krónuna. Kemur og fram að tilgangur matsbeiðninnar sé að leiða í ljós hvert verið hafi markaðsgengi íslensku krónunnar í frjálsum viðskiptum framangreinda daga í október, nóvember og desember 2008.
Varnaraðili mótmælti framangreindri beiðni, en með úrskurði uppkveðnum hinn 26. apríl 2012 var fallist á að dómkvaðningin færi fram og til að framkvæma matið voru kvaddir til hinn 9. maí 2012 þeir Arnar Jónsson, framkvæmastjóri ALM Fjármálaráðgjafar hf., og Birgir Arnarson, yfirmaður markaðsáhættu Zurich Insurance. Var matsgerð þeirra, dags. 5. október 2012, lögð fram í málinu hinn 29. sama mánaðar. Í henni kemur meðal annars fram að með setningu neyðarlaganna 6. október 2008 hafi þeim gjaldeyrismarkaði sem legið hafi til grundvallar öllum gjaldeyrissamningum hérlendis í reynd verið lokað. Megi færa rök fyrir því að síðasti raunhæfi viðskiptadagur með gjaldeyri á frjálsum innanlandsmarkaði hafi verið annað hvort föstudagurinn 3. október eða mánudagurinn 6. október 2008. Setja megi spurningarmerki við hugtakið „markaðsgengi“ við þær aðstæður sem ríkt hafi á gjaldeyrismarkaði eftir endanlega yfirtöku skilanefnda gömlu bankanna. Gerð hafi verið tilraun til að festa gengi miðað við gengisvísitölu 175 hinn 7. október 2008 en fram að setningu gjaldeyrislaga 28. nóvember sama ár hafi verið ríkjandi gjaldeyrishöft í formi mjög hamlandi reglna frá Seðlabanka Íslands. Gögn frá upplýsingaveitunni Reuters Dealing séu einu áreiðanlegu gögnin um gjaldeyrisviðskipti með íslensku krónuna sem byggi á frjálsum viðskiptum og sé það því mat matsmanna að þau gögn endurspegli best þau viðmið sem matsmönnum beri að hafa til hliðsjónar við mat sitt. Fram kemur að aðferðafræði matsmanna byggist á því að finna vegið meðalgengi í viðskiptum í Reuters Dealing. Sé meðalgengið fundið yfir þann tíma sem tekið hefði að loka viðkomandi samningum ef aðilar hefðu getað átt viðskipti á sömu dögum og í sömu fjárhæðum og endurspeglist í Reuters Dealing. Reuters Dealing endurspegli aðeins gjaldeyrisviðskipti milli evru (EUR) og íslenskrar krónu (ISK), en þar sem viðskipti hafi verið frjáls milli sterlingspunds (GBP), bandaríkjadals (USD) og svissnesks franka (CHF) annars vegar og evru hins vegar sé stuðst við lokagengi milli þessara mynta samkvæmt Bloomberg. Er í niðurstöðukafla matsins birt tafla er sýnir gengi íslensku krónunnar á móti GBP og EUR hinn 24. október 2008 og á móti CHF og USD hinn 18. nóvember og 1. desember 2008. Miðað sé við ofangreinda aðferðafræði og lokagengi GBP/EUR, CHF/EUR og USD/EUR á viðkomandi degi samkvæmt Bloomberg.
Niðurstaða matsins sé því eftirfarandi:
EUR CHF GBP USD
24.10.2008 221,01 278,65
18.11.2008 241,75 159,24 191,59
01.12.2008 235,67 154,95 186,88
Í þinghaldi hinn 20. desember 2012 voru að ósk varnaraðila dómkvaddir þrír sérfróðir yfirmatsmenn til að framkvæma yfirmat, en í þinghaldi 19. mars 2013 lýsti varnaraðili því yfir að hann hygðist ekki leggja yfirmatsgerðina fram.
III.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst byggja á því aðallega að leggja beri skráð gengi Seðlabanka Evrópu til grundvallar uppgjöri gjaldmiðlasamninga þeirra sem kröfur sóknaraðila byggjast á.
Samkvæmt 19. gr. laga nr. 26/2001 um Seðlabanka Íslands skuli skráð gengi bankans notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmið séu ekki tiltekin. Sóknaraðili telji hins vegar að í samningum milli aðila hafi einmitt verið samið um tiltekna gengisviðmiðun og því eigi 19. gr. laganna ekki við. Í gjaldmiðlasamningunum sé tekið fram að um þá gildi markaðsskilmálar varnaraðila og SFF-skilmálarnir. Varnaraðili hafi ekki brugðist við beiðni sóknaraðila um lokun samninganna og því hafi þeir runnið sitt skeið á enda í samræmi við tilgreindan lokadag þeirra. Tveir samninganna hafi verið með lokagjalddaga hinn 24. október 2008, aðrir tveir með lokagjalddaga 1. desember 2008 og þeir tveir síðustu með lokagjalddaga 18. nóvember 2008. Í 2. mgr. gr. 4.1 í SFF-skilmálunum komi fram að falli samningur um framvirk gjaldmiðlaviðskipti úr gildi samkvæmt samkomulagi samningsaðila skuli reikna út hagnað og tap aðila vegna markaðsaðstæðna skv. gr. 4.2 og kostnað sem samningsaðilar verði fyrir og skuli mismunurinn gerður upp á milli þeirra. Í tilvitnaðri gr. 4.2 segi m.a. orðrétt: „Falli samningur um framvirk gjaldmiðlaviðskipti úr gildi reiknar bankinn út þann hagnað og tap sem myndast hjá samningsaðilunum við það að samningurinn fellur úr gildi. Hagnaður og tap er fundið með því að bera saman virði samningsins við riftun hans, miðað við vexti og gengi hlutaðeigandi gjaldmiðla á þeim tíma, og virði hans á afhendingardegi. Útreikningurinn skal byggður á markaðsskilyrðum tveimur bankadögum fyrir samningsslitadaginn.“
Þá telji sóknaraðili unnt að hafa til hliðsjónar 2. mgr. 7. gr. markaðsskilmálanna, þar sem segi að lokun á slíkum samningi skuli fara fram á eðlilegu gengi „m.v. markaðsgengi“, markaðsvexti og kjör viðskiptamanns á þeim tíma.
Sóknaraðili bendir á að undir venjulegum kringumstæðum endurspegli skráð gengi Seðlabanka Íslands markaðsgengi krónunnar gagnvart hinum tilgreindu gjaldmiðlum. Það hafi þó ekki verið reyndin á lokadögum gjaldmiðlasamninganna þar sem skráðri gengisvísitölu og opinberu viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands hafi þá verið handstýrt af hálfu bankans. Í október 2008 hafi Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og Landsbanki Íslands hf., auk Seðlabanka Íslands, verið aðilar að millibankamarkaði með gjaldeyri. Frá og með 6. október 2008 sé ljóst að enginn markaðsaðila hafi sinnt skyldum sínum sem viðskiptavaki. Hafi því skapast ómöguleiki fyrir Seðlabankann að skrá opinbert viðmiðunargengi í samræmi við ákvæði gjaldeyrisreglna þar um. Þetta hafi verið staðfest í eftirgreindri tilkynningu Seðlabanka Íslands hinn 30. október 2008: „Vegna hinna sérstöku aðstæðna sem upp komu í rekstri banka nú í október lögðust niður viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri. Á þeim markaði sinntu stóru viðskiptabankarnir þrír hlutverki viðskiptavaka skv. reglum um tíðni tilboða, verðmyndun og fleira.“
Í eftirgreindri tilkynningu Seðlabankans frá 8. október 2008 hafi enn fremur verið staðfest að gengisskráning bankans byggðist ekki á gengi íslensku krónunnar á markaði: „Seðlabanki Íslands hefur í tvo daga átt viðskipti með erlendan gjaldeyri á öðru gengi en myndast hefur á markaði. Ljóst er að stuðningur við það gengi er ekki nægur. Bankinn mun því ekki gera frekari tilraunir í þessa veru að sinni.“ Þá hafi Seðlabanki Íslands hinn 10. október 2008 sent frá sér tilmæli til innlánsstofnana um tímabundna takmörkun á útflæði gjaldeyris. Þau tilmæli hafi loks verið leyst af hólmi hinn 4. desember 2008 með reglum nr. 1082/2008 um gjaldeyrismál, sem ætlað hafi verið að takmarka útflæði gjaldeyris sem gæti haft neikvæð áhrif á endurreisn stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.
Þá beri að nefna að samhliða viðskiptum á millibankamarkaði á Íslandi fari fram viðskipti í gegnum miðlarakerfi Reuters, milli fjölda innlendra og erlendra fjármálastofnana. Þar hafi farið fram viðskipti frá því í lok fyrstu viku október 2008 sem falið hafi í sér verulegt frávik frá skráðu gengi Seðlabanka Íslands. Evrópski Seðlabankinn hafi allt til 3. desember 2008 birt daglegt viðmiðunargengi íslensku krónunnar, í það minnsta gagnvart evru. Hafi bankinn birt viðmiðunargengi gagnvart fjölda gjaldmiðla og sé gengið byggt á samráðsferli við aðra seðlabanka. Fram komi á heimasíðu bankans að gengisskráning hans miði að því að tryggja að skráð gengi endurspegli ríkjandi markaðsaðstæður á þeim tíma sem samráðsferlið hafi átt sér stað, sem sé að jafnaði kl. 14.15 að mið-evrópskum tíma (CET). Skráð gengi íslensku krónunnar gagnvart evru hjá Evrópska Seðlabankanum hafi falið í sér meðaltal kaup- og sölutilboða og gefi þannig skýra vísbendingu um markaðsgengi á hverjum tíma.
Verði ekki fallist á að leggja beri til grundvallar gengi Seðlabanka Evrópu, sbr. framangreint, byggi sóknaraðili á því að leggja beri til grundvallar annað markaðsgengi, sem taki mið af raunverulegum viðskiptum með íslenskar krónur á viðmiðunardögum. Í því sambandi megi nefna að erlendar fjármálastofnanir muni hafa átt viðskipti með íslensku krónuna á umræddum tíma, bæði sín í milli svo og við aðra viðskiptavini. Slík viðskipti muni ekki endilega í öllum tilvikum hafa tengst hreinum gjaldeyrisviðskiptum heldur muni einnig vera um að ræða viðmiðunargengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum við uppgjör hvers konar samninga, afleiðuviðskipta og við kaup og sölu eigna, svo eitthvað sé nefnt. Áskilji sóknaraðili sér rétt til að leggja fram frekari upplýsingar frá erlendum fjármálastofnunum um framangreint og/eða óska eftir matsgerð dómkvaddra matsmanna um raunverulegt markaðsgengi íslensku krónunnar.
Sóknaraðili kveðst líta svo á að ekki sé ágreiningur milli málsaðila um útreikning krafnanna, þ.m.t. gengisviðmiðanir Seðlabanka Evrópu á viðkomandi lokadögum, enda þótt varnaraðili hafi hafnað því að leggja beri umræddar gengisviðmiðanir til grundvallar í málinu. Sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að miða uppgjör gjaldmiðlasamninganna við skráð gengi Seðlabanka Íslands hafi ekki verið rökstudd sérstaklega í bréfum slitastjórnarinnar frá 10. maí 2010. Beri varnaraðili allan hugsanlegan halla af ófullkomnum rökstuðningi hvað þetta varði.
IV.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sína á því að miða beri uppgjör umræddra samninga við skráð gengi Seðlabanka Íslands á gjalddögum þeirra, sbr. 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, en þar komi skýrt fram að bankinn skuli skrá gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum á hverjum degi. Aðilar séu sammála um að gera eigi samningana upp á lokadegi þeirra.
Varnaraðili mótmæli þeirri staðhæfingu sóknaraðila að samið hafi verið um tiltekin gengisviðmið. Í samningum aðila komi fram að markaðsskilmálar Glitnis og SFF-skilmálarnir gildi um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga þeirra. Í 4. gr. SFF-skilmálanna komi fram hvernig reikna skuli greiðslur við samningsslit. Hins vegar sé nauðsynlegt að benda á þá staðreynd að sóknaraðili beri ekki fyrir sig að miða eigi uppgjörið við samningsslit skv. 3. gr. skilmálanna, eins og áskilið sé í skilmálunum. Ljóst sé að áskilnaður 3. gr. um að samningarnir hafi verið gjaldfelldir eða þeim rift eigi ekki við, enda sé krafa sóknaraðila byggð á því að miða eigi uppgjör við lokadag samninganna. Af málsástæðum sóknaraðila verði þannig ekki ráðið að ákvæði 4. gr. skilmálanna eigi við í umræddum tilvikum, enda hafi samningum aðila aldrei verið rift eða þeir gjaldfelldir. Hins vegar hafi verið farið fram á lokun samninganna án þess að ákvæðum 3. gr. væri beitt. Varnaraðili telji því einsýnt að ákvæði 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands eigi við og að notast skuli við viðmið viðkomandi gjaldmiðla eins og þeir séu skráðir hjá Seðlabanka Íslands á lokadegi hvers samnings.
Verði ekki fallist á að líta beri fram hjá ákvæðum SFF-skilmálanna um greiðslur við samningsslit sé því engu að síður haldið fram að slíkt uppgjör fari fram með sama hætti og að ofan hafi verið lýst, þ.e. í samræmi við 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Í grein 4.1 í SFF-samningsskilmálunum komi fram að falli samningur um framvirk gjaldmiðlaviðskipti úr gildi skuli reikna út hagnað og tap aðila í samræmi við grein 4.2. Í grein 4.2. segi: „... hagnaður og tap er fundið með því að bera saman virði samningsins við riftun hans, miðað við vexti og gengi hlutaðeigandi gjaldmiðla á þeim tíma og virði hans á afhendingardegi. Útreikningur skal byggður á markaðsskilyrðum tveimur bankadögum fyrir samningslitadaginn.“ Þessi grein í samningnum segi einungis til um hvernig uppgjör viðskipta skuli fara fram en víki ekki til hliðar lagaákvæðum sem um uppgjörið gildi. Þá verði ekki séð af 2. mgr. 7. gr. SFF-skilmálanna að samið hafi verið um að miða skuli við gengi Seðlabanka Evrópu. Þar sé einungis talað um eðlilegt gengi miðað við markaðsgengi, markaðsvexti og kjör viðskiptamanns.
Varnaraðili mótmæli þeirri fullyrðingu sóknaraðila að þar sem skráðu gengi Seðlabanka Íslands hafi verið handstýrt á lokagjalddaga samninganna hafi það ekki verið rétt markaðsgengi og því sé rétt að miða við gengi Seðlabanka Evrópu í uppgjöri gjaldmiðlasamninga aðila. Fyrir hrun íslensku bankanna í október 2008 hafi verið til staðar virkur gjaldeyrismarkaður þar sem allir bankarnir hafi verið viðskiptavakar og átt aðild að gjaldeyrismarkaðnum, auk Seðlabanka Íslands. Á virkum gjaldeyrismarkaði ráðist gengi gjaldmiðla af framboði og eftirspurn gjaldmiðla á markaði. Gengi gjaldmiðla verði bæði að skoða út frá kaupverði gjaldmiðils og einnig út frá magni viðskipta. Magn og fjöldi viðskipta séu grundvallarupplýsingar til að meta verðmyndun á milli viðskipta á markaði. Magn gefi vísbendingu um hve kvikur markaður sé. Á kvikum markaði geti mikil viðskipti (háar fjárhæðir) átt sér stað með tiltölulega litlum verðbreytingum. Það hversu kvikur markaður sé gefi vísbendingar um það hversu áhugaverður viðkomandi gjaldeyrismarkaður sé. Því kvikari sem markaður sé því dýpri sé hann, þ.e. því auðveldara sé að kaupa og selja gjaldeyri.
Í byrjun október 2008 hafi orðið verulegur óróleiki á gjaldeyrismarkaði með íslensku krónuna. Viðskipti hafi farið minnkandi og áhugi erlendra aðila til kaupa á íslenskum krónum dregist saman og orðið nánast enginn. Hafi það leitt til verulegrar lækkunar íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Í því skyni að koma í veg fyrir algjört hrun krónunnar hafi Seðlabanki Íslands komið á fót tilboðsmarkaði með gjaldeyri hinn 15. október 2008 og byggi sú heimild á ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga um Seðlabankann. Í ákvæðinu komi fram að Seðlabankinn setji reglur um skipulag gjaldeyrismarkaða eftir því sem kveðið sé á um í lögum um gjaldeyrismál og þá geti hann við sérstakar aðstæður takmarkað tímabundið eða stöðvað viðskipti á skipulögðum gjaldeyrismörkuðum. Seðlabankinn hafi neyðst til að beita sérstökum úrræðum á gjaldeyrismarkaði með íslensku krónuna og stýrt gengi hennar til að koma í veg fyrir verulegt hrun íslensks efnahagslífs. Það að illa hafi gengið hjá Seðlabankanum að eiga viðskipti með krónur á skráðu markaðsgengi fyrstu dagana eftir hrun hafi hér ekkert að segja og gefi ekki til kynna að með því skuli miða við markaðsgengi Seðlabanka Evrópu eða annað erlendis skráð gengi íslensku krónunnar.
Mótmælt sé þeirri fullyrðingu sóknaraðila að einungis skuli miða við gengi Seðlabanka Íslands við venjulegar kringumstæður. Kveðið sé skýrt á um það í 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands að við uppgjör í samningum milli aðila skuli styðjast við skráð gengi Seðlabanka Íslands á uppgjörsdegi. Eigi það líka við á tímum þar sem sveiflur verði á gjaldeyrismörkuðum og Seðlabankinn þurfi að grípa til lögákveðinna aðgerða.
Sóknaraðili hafi hvorki fært sönnur fyrir því að gengi Seðlabanka Evrópu, frá október til og með nóvember 2008, hafi miðað við virkan gjaldeyrismarkað, þar sem gengið hafi byggst á framboði og eftirspurn með íslenskar krónur, né að gengið hafi byggst á magni og verði íslensku krónunnar. Varnaraðili hafi sent Seðlabanka Evrópu fyrirspurn með bréfi, dags. 2. maí 2011, sem bankinn hafi svarað með bréfi sínu 12. sama mánaðar. Í svarinu komi eftirfarandi fram: „The exchange rates against the euro published by the ECB are released for reference purposes only.“ Samkvæmt þessu sé það gengi sem Seðlabanki Evrópu birti aðeins til hliðsjónar og hafi ekki byggst á raunverulegum viðskiptum heldur takmörkuðum markaðsupplýsingum. Þá hafi bankinn fastsett gengi evru gagnvart íslensku krónunni frá 30. október til 3. desember 2008 og í framhaldi hætt skráningu á gengi íslensku krónunnar gagnvart evru. Sýni það að markaðurinn hafi verið óvirkur og að erfitt hafi verið fyrir Seðlabanka Evrópu að ákvarða gengi evru gagnvart íslensku krónunni.
Eigi að nota annað gengi en það sem Seðlabanki Íslands gefi út hljóti sú skylda að hvíla á sóknaraðila að sýna fram á að annað gengi hafi staðið honum til boða og að aðilar hefðu getað átt viðskipti á því gengi.
Þeirri staðhæfingu sóknaraðila sé mótmælt að skapast hafi ómöguleiki hjá Seðlabanka Íslands við að skrá opinbert viðmiðunargengi frá 6. október 2008, þar sem markaðsaðilar á millibankamarkaði, þ.e. Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, hafi verið hættir að eiga viðskipti þar. Seðlabankinn hafi fullar heimildir til að takmarka og hefta gjaldeyrisviðskipti þegar sérstakar aðstæður séu til staðar, auk þess sem Seðlabankinn hafi alltaf heimild til að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði, sbr. lög um Seðlabanka Íslands. Renni tilkynningar Seðlabanka Íslands frá 8. október og 30. október 2008 stoðum undir það. Tilkynningarnar beri með sér að eini raunhæfi gjaldeyrismarkaðurinn innanlands með íslenskar krónur haft byggst á skráðu gengi Seðlabanka Íslands.
Varnaraðili tekur loks fram að hann fallist á rétt sóknaraðila til dráttarvaxta af samþykktri fjárhæð frá uppgjörsdögum samninga til 22. apríl 2008, í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
V.
Niðurstaða
Fyrir liggur að varnaraðili brást ekki við beiðni sóknaraðila í bréfi, dags. 11. október 2008, um lokun umræddra samninga og að samningarnir runnu því sitt skeið á enda í samræmi við tilgreinda lokadaga þeirra. Er ágreiningslaust með aðilum að samningana skuli gera upp miðað við stöðu þeirra á gjalddaga, eða afhendingardegi, hvers samnings fyrir sig, 24. október, 18. nóvember og 1. desember 2008, en aðila greinir hins vegar á um hvaða gengi gjaldmiðla skuli miða uppgjörið við.
Sóknaraðili hefur vísað til þess að í 2. mgr. gr. 4.1 í SFF-skilmálunum komi fram að falli samningur um framvirk gjaldmiðlaviðskipti úr gildi samkvæmt samkomulagi samningsaðila skuli reikna út hagnað og tap aðila vegna markaðsaðstæðna skv. gr. 4.2 og kostnað sem samningsaðilar verði fyrir og skuli mismunurinn gerður upp á milli þeirra. Á grundvelli þessa samningsákvæðis séu aðilar því bundnir við að gera samningana upp með tilliti til raunverulegs markaðsgengis. Þegar til þess er litið að aðilarnir eru sammála um að samningana beri að gera upp á gjaldaga þeirra, þannig að þeir verði í raun efndir í samræmi við efni sitt, verður þegar af þeirri ástæðu ekki talið að líta beri svo á að umræddir samningar hafi fallið úr gildi þannig að byggt verði á ákvæðum gr. 4.2 við uppgjör þeirra. Samkvæmt því verður heldur ekki á það fallist með sóknaraðila að aðilar hafi sérstaklega um það samið að endanlegt uppgjör samninganna tæki mið af raunverulegu markaðsgengi umræddra gjaldmiðla á uppgjörsdegi samninganna.
Í 19. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er kveðið á um að hvern virkan dag sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir séu almennt starfandi skuli Seðlabanki Íslands skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það gengi skuli notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun sé ekki sérstaklega tiltekin. Enn fremur geti Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar á þeim dögum sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir séu almennt ekki starfandi. Þegar sérstaklega standi á geti Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar. Þá segir í 3. mgr. 18. gr. sömu laga að Seðlabankinn setji reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða eftir því sem kveðið sé á um í lögum um gjaldeyrismál. Á grundvelli þeirrar heimildar gaf Seðlabankinn út tilmæli 10. október 2008 um tímabundna temprun á útflæði gjaldeyris í því skyni að koma í veg fyrir hrun krónunnar. Hinn 15. sama mánaðar kom bankinn síðan á fót tilboðsmarkaði með gjaldeyri og sagði í tilkynningu bankans þann dag að fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta yrði frá þeim tíma með þeim hætti að daglega yrði haldið uppboð sem myndi veita vísbendingu um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum og að gengið myndi ráðast af framboði og eftirspurn gjaldeyris. Þá kemur fram í tilkynningu sem birtist á heimasíðu bankans hinn 30. október 2008 að vegna hinna sérstöku aðstæðna sem upp hafi komið í rekstri banka fyrr í þeim mánuði hafi viðskipti á millibankamarkaði lagst niður en á þeim markaði hafi stóru viðskiptabankarnir þrír sinnt hlutverki viðskiptavaka samkvæmt reglum um tíðni tilboða, verðmyndun og fleira. Í staðinn hafi komið framangreindur tilboðsmarkaður með gjaldeyri. Á honum séu fleiri fjármálafyrirtæki en við fyrri skipan en þau taki þó ekki á sig skyldur viðskiptavaka. Séu niðurstöður um viðskipti og verð birtar daglega á heimasíðu Seðlabankans. Þá er þess að geta að hinn 28. nóvember sama ár voru á heimasíðu Seðlabankans birtar nýjar reglur um gjaldeyrismál þar sem tilmæli bankans frá 10. október, um tímabundna temprun á útflæði gjaldeyris, voru afturkölluð. Í tilkynningu Seðlabankans vegna þessa kom fram að í því fælist þó ekki að hömlum á fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa yrði aflétt að sinni, sem aftur þýddi m.a. að viðskipti á milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf og aðra fjármálagerninga, sem gefin hefðu verið út í íslenskum krónum, væru óheimil og að erlend afleiðuviðskipti, sem ekki tengdust vöru- og þjónustuviðskiptum, væru takmörkuð eða óheimil. Loks segir eftirfarandi í tilkynningu sem birtist á heimasíðu Seðlabankans hinn 3. desember 2008: „Undanfarnar vikur hefur verið stuðst við bráðabirgðaskipan gjaldeyrisviðskipta milli fjármálafyrirtækja á svonefndum tilboðsmarkaði Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn hefur verið nánast eini seljandi gjaldeyris á þeim markaði. Gengið hefur mótast af kauptilboðum annarra og ákvörðun Seðlabankans hverju sinni.“
Eins og áður er fram komið sömdu málsaðilar ekki sérstaklega sín í milli um það hvaða gengi skyldi miða uppgjör umræddra samninga við á gjalddaga þeirra. Þegar til þess er litið, og jafnframt þess að líta verður svo á að á þeim dögum sem uppgjör umræddra samninga miðast við hafi í öllum tilvikum verið starfandi skipulegur tilboðsmarkaður í skilningi framangreindrar 19. gr. laga nr. 36/2001, verður fallist á það með varnaraðila að miða beri uppgjör samninganna við skráð gengi Seðlabanka Íslands á gjalddaga hvers samnings fyrir sig. Verður ekki talið að neinu breyti í því tilliti þótt sú staða hafi verið uppi á því tímabili að gengisskráning íslensku krónunnar hafi ekki í hvívetna ráðist af frjálsum viðskiptum markaðsaðila.
Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem ekki er ágreiningur um útreikning á kröfu sóknaraðila miðað við framangreindar forsendur, verður fallist á kröfu varnaraðila, og um leið þrautavarakröfu sóknaraðila, um að staðfest verði sú afstaða varnaraðila að samþykkja kröfur sóknaraðila sem almennar kröfur við slit varnaraðila skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 10.543.027.330 krónur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað í þessum síðari hluta ágreiningsmálsins.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum dr. Sigurði Hannessyni stærðfræðingi og Stefni Kristjánssyni viðskiptafræðingi.
Úrskurðarorð:
Við slit varnaraðila, Glitnis hf., er viðurkennd krafa sóknaraðila, Símans hf., að fjárhæð 10.543.027.330 krónur með stöðu í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.