Hæstiréttur íslands
Mál nr. 376/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Slitameðferð
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 11. júní 2012. |
|
Nr. 376/2012.
|
SPB hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) |
Kærumál. Slitameðferð. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni E ehf. um dómkvaðningu matsmanns í máli um viðurkenningu á lýstri kröfu félagsins við slitameðferð S hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2012, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns í máli, sem rekið er um viðurkenningu á lýstri kröfu varnaraðila við slitameðferð á sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Af hinum kærða úrskurði verður ekki ráðið að varnaraðili hafi í héraði gert kröfu um málskostnað vegna þessa þáttar í máli sínu við sóknaraðila. Þá hefur varnaraðili heldur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Krafa hans um málskostnað í héraði kemur því ekki frekar til álita.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, SPB hf., greiði varnaraðila, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2012.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 30. apríl sl., um fram komna matsbeiðni lögmanns sóknaraðila.
Sóknaraðili, matsbeiðandi, er Eignasafn Seðlabanka Íslands hf.
Varnaraðili, matsþoli, er Sparisjóðabanki Íslands hf. í slitameðferð.
Í þinghaldi 23. janúar sl., lagði sóknaraðili fram matsbeiðni sína, dagsetta sama dag.
Varnaraðili mótmælir því að dómkvaðning nái fram að ganga.
Við munnlegan málflutning um matsbeiðni 30. apríl sl., krafðist matsbeiðandi þess að matsbeiðni næði fram að ganga, en matsþoli krafðist þess að matsbeiðni yrði hafnað.
Málsatvik
Með kröfulýsingu, frá 3. nóvember 2009, lýsti fjármálaráðuneytið m.a. eftirfarandi kröfu við slitameðferð varnaraðila:
a) Vegna veðlána, gjaldfallinna 22. október 2008, að fjárhæð kr. 131.237.112.471, ásamt dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009 að fjárhæð kr. 31.251.194.786 (að frádreginni innborgun á dráttarvexti að fjárhæð kr. 2.269.768.774), Samtals að fjárhæð kr. 160.218.538.483.
b) Vegna daglána, gjaldfallinna 31. desember 2008, að fjárhæð kr. 10.556.020.450, ásamt áföllnum dráttarvöxtum fram til 3. nóvember 2009 að fjárhæð kr. 1.955.502.788. Samtals að fjárhæð kr. 12.511.523.238.
c) Vegna verðbréfalána, gjaldfallinna 17. október 2008, að fjárhæð kr. 23.914.242.320, ásamt áföllnum dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð kr. 5.592.716.971 (að frádreginni innborgunum á höfuðstól að fjárhæð kr. 927530275 og innborgun á dráttarvexti að fjárhæð kr. 1.108.130.203. Samtals að fjárhæð kr. 27.471.298.813.
Kröfur vegna veðlána og daglána, sbr. liði a) og b) hér að framan voru upphaflega í eigu Seðlabanka Íslands, en kröfurnar voru framseldar til fjármálaráðuneytisins með samkomulagi, dags. 12. janúar 2009. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2010, var matsþola tilkynnt að krafa samkvæmt kröfulýsingu fjármálaráðuneytisins, dags. 3. nóvember 2009, sem úthlutað hafði verið númerinu 190, hefði verið framseld, með öllum réttindum, þ.m.t. veðréttindum, til matsbeiðanda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., kt. 701209-2060, með kaupsamningi dags. 31. desember 2009.
Eins og kemur fram í kröfulýsingu, dags. 3. nóvember 2009, voru eftirtaldar eignir settar Seðlabankanum að veði til tryggingar veðlánum varnaraðila:
|
ISIN |
Flokkur |
Gjaldm. |
Nafnverð |
|
IS0000015444 |
KAUP 08 1114 |
ISK |
10.000.000.000 |
|
IS0000015451 |
KAUP 08 1215 |
ISK |
20.000.000.000 |
|
IS0000016103 |
GLB 08 1103 |
ISK |
4.900.000.000 |
|
XS0327897491 |
GLB 09 1028 |
ISK |
19.100.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
ISK |
2.165.000.000 |
|
XS0356469493 |
GLBIRFLOAT 03/09 |
ISK |
10.000.000.000 |
|
IS0000017614 |
LAIS 09 0401 |
ISK |
8.000.000.000 |
|
XS0337005390 |
LANISL Float 06/09 |
ISK |
10.000.000.000 |
|
XS0354616988 |
LANISL Float 04/09 |
ISK |
47.000.000.000 |
Til tryggingar á daglánum varnaraðila voru eftirtaldar eignir settar Seðlabankanum að veði:
|
ISIN |
Flokkur |
Gjaldm. |
Nafnverð |
|
XS0327897491 |
GLB 09 1028 |
ISK |
525.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
ISK |
40.000.000 |
|
IS0000015436 |
KAUP 08 1015 |
ISK |
10.000.000.000 |
Framangreind verðbréf voru lögð fram til tryggingar í reglulegum dag- og veðlánaviðskiptum matsþola við Seðlabankann.
Matsþoli átti einnig í beinum verðbréfalánaviðskiptum við fjármálaráðuneytið, en framkvæmd þeirra lána var í höndum Seðlabankans. Til tryggingar á skuldbindingum matsþola vegna þessa voru m.a. eftirfarandi verðbréf sett fjármálaráðuneytinu að veði:
|
ISIN |
Flokkur |
Gjaldm. |
Nafnverð |
|
XS0336519961 |
GLB 09 1217 |
ISK |
10.345.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
ISK |
7.795.000.000 |
|
XS0327897491 |
GLB 09 1028 |
ISK |
375.000.000 |
Framangreind veð vegna verðbréfalánaviðskipta matsþola voru lögð fram, í samræmi við reglur um verðbréfalán Seðlabankans, f.h. ríkissjóðs til aðalmiðlara ríkisverðbréfa og í samræmi við lög nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
Slitastjórn matsþola hafnaði framangreindri kröfulýsingu að svo stöddu með tilkynningu, dags. 19. nóvember 2009, en boðaði jafnframt að sú ákvörðun yrði endurskoðuð. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2010, upplýsti slitastjórn matsþola um að tekin hefði verið endanleg afstaða til einstakra liða kröfulýsingar matsbeiðanda. Afstaða slitastjórnar matsþola var sem hér segir, sbr. tilkynningu þess efnis:
Af hálfu slitastjórnar hefur verið tekin eftirfarandi afstaða til neðangreindra krafna yðar f.h. Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., sbr. kröfulýsingu dags. 3. nóvember 2009 og framsal dags. 9. febrúar 2010:
a) Kröfu vegna veðlána, gjaldfallinna 22. október 2008, að fjárhæð kr. 131.237.112.471, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð kr. 31.251.194.786, er hafnað.
b) Kröfu vegna daglána, gjaldfallinna 31. desember 2008, að fjárhæð kr. 10.556.020.450, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, að fjárhæð kr. 1.955.502.788, er hafnað.
c) Kröfu vegna veðbréfalána, gjaldfallinna 17. október 2008, að fjárhæð kr. 23.914.242.320, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, kr. 5.592.716.971 (að frádregnum innborgunum á höfuðstól, kr. 927.530.275 og á dráttarvexti, kr. 1.108.130.203), er samþykkt að fjárhæð kr. 4.324.620.544, ásamt dráttarvöxtum til 3. nóvember 2009, kr. 610.097.724. Samþykkt er að krafa að fjárhæð kr. 4.934.718.268 njóti réttarstöðu samkvæmt 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti, það er sem veðkrafa, að því leyti sem henni verður fullnægt af andvirði viðkomandi veða eins og tilgreint er í kröfulýsingu, en að öðru leyti telst hún almenn krafa. Kröfunni er að öðru leyti hafnað.
Til viðbótar við framangreinda afstöðu til krafna matsbeiðanda, rifti matsþoli öllum veðréttindum matsbeiðanda og krafðist afhendingar á öllum veðum. Lögmaður matsbeiðanda mótmælti afstöðu slitastjórnar matsþola 11. ágúst 2010 og var ágreiningur sendur Héraðsdómi Reykjavíkur til úrlausnar í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. erindi, dags. 7. desember 2010.
Matsbeiðandi lagði fram greinargerð 3. maí 2011 og krafðist þess að kröfur hans yrðu viðurkenndar að fullu sem veðkröfur. Matsþoli lagði fram greinargerð 15. desember 2011 í dóminum. Þar krafðist matsþoli þess að öllum kröfum matsbeiðanda yrði hafnað, gegn afhendingu matsþola á kröfum á hendur Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. til matsbeiðanda, en til vara var þess krafist að öllum kröfum matsbeiðanda yrði hafnað að því leyti sem þeim yrði ekki fullnægt af andvirði og arði af veðum sem standi þeim til tryggingar, eins og tilgreint sé í aðalkröfu.
Matsbeiðni sóknaraðila var lögð fram í þinghaldi 23. janúar 2012. Af hálfu varnaraðila, matsþola, var dómkvaðningu matsmanns mótmælt með athugasemdum hans, sem lagðar voru fram í þinghaldi 28. febrúar 2012.
Málsástæður og lagarök matsbeiðanda fyrir því að fallast beri á matsbeiðni.
Af hálfu matsbeiðanda er óskað eftir því að matsmaður meti markaðsvirði þeirra skuldabréfa sem matsþoli setti Seðlabanka Íslands að veði vegna veð-, dag- og verðbréfalánaviðskipta þeirra. Óskað er eftir því að matið miðist við 23. janúar 2012, en þann dag kveðst matsbeiðandi hafa gengið formlega að veðunum.
Matsbeiðandi kveður að í neðangreindri töflu sé að finna yfirlit yfir þau skuldabréf sem matsþoli hafi veðsett Seðlabankanum. Öll skuldabréfin hafi verið útgefin í íslenskum krónum (ISK). Fjárhæðirnar í töflunni eru nafnverð hvers skuldabréfs:
Verðbréf vegna veðlána:
|
ISIN númer |
Flokkur |
Skuldari |
Nafnverð |
|
IS0000015444 |
KAUP 08 1114 |
Kaupþing banki hf. |
10.000.000.000 |
|
IS0000015451 |
KAUP 08 1215 |
Kaupþing banki hf. |
20.000.000.000 |
|
IS0000016103 |
GLB 08 1103 |
Glitnir banki hf. |
4.900.000.000 |
|
XS0327897491 |
GLB 09 1028 |
Glitnir banki hf. |
19.100.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
Glitnir banki hf. |
2.165.000.000 |
|
XS0356469493 |
GLBIRFLOAT 03/09 |
Glitnir banki hf. |
10.000.000.000 |
|
IS0000017614 |
LAIS 09 0401 |
Landsbanki Íslands |
8.000.000.000 |
|
XS0337005390 |
LANISL Float 06/09 |
Landsbanki Íslands |
10.000.000.000 |
|
XS0354616988 |
LANISL Float 04/09 |
Landsbanki Íslands |
47.000.000.000 |
Verðbréf vegna daglána:
|
ISIN númer |
Flokkur |
Skuldari |
Nafnverð |
|
XS0327897491 |
GLB 09 1028 |
Glitnir banki hf. |
525.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
Glitnir banki hf. |
40.000.000 |
|
IS0000015436 |
KAUP 08 1015 |
Kaupþing banki hf. |
10.000.000.000 |
Verðbréf vegna verðbréfaviðskiptalána:
|
ISIN númer |
Flokkur |
Skuldari |
Nafnverð |
|
XS0336519961 |
GLB 09 1217 |
Glitnir banki hf. |
10.345.000.000 |
|
XS0337049091 |
GLB 09 0618 |
Glitnir banki hf. |
7.795.000.000 |
|
XS0327897491 |
GLB 091028 |
Glitnir banki hf. |
375.000.000 |
Af hálfu matsbeiðanda er þess óskað að matsmaður skýri í upphafi matsgerðar frá aðferðafræði og forsendum við matið. Þá er þess óskað að matið verði framkvæmt með þeim hætti að kröfur á einstaka skuldara, þ.e. Glitni banka hf., Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf., verði metnar sérstaklega, þ.e. að unninn verði sjálfstæður kafli um hvern og einn skuldara og markaðsvirði krafna á hendur honum. Í hverjum og einum kafla skuli svarað eftirfarandi spurningu:
- Hvert er markaðsvirði hverrar kröfu miðað við framsalsdag þann 23. janúar 2012?
Matsbeiðandi kveður að nauðsynlegt sé að afla mats um ofangreind atriði, þar sem vafi leiki á því hvert markaðsvirði framangreindra trygginga sé, enda sé matsbeiðanda nauðsynlegt að ganga að veðum sínum og taka tillit til þeirra verðmæta við útreikning á kröfu sinni. Matsbeiðandi hafnar þeirri fullyrðingu matsþola að matsbeiðandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að mat nái fram að ganga. Matsbeiðandi bendir á að honum beri nauðsyn til að fá afla sér sönnunar um verðmæti þess sem meta eigi, vegna ágreinings þess sem uppi er í málinu. Ekki sé heimilt að synja honum um að afla sér slíkrar sönnunar.
Málsástæður og lagarök varnaraðila fyrir því að hafna beri matsbeiðni
Matsþoli kveður að engin grein sé gerð fyrir því í matsbeiðni hvert sé tilefni matsbeiðni, en sóknaraðili hafi, í greinargerð sinni til réttarins, einungis áskilið sér rétt til að láta dómkveðja matsmenn til að meta ,,lánsviðskipti aðila“ en ekki markaðsvirði einstakra verðbréfa. Í matsbeiðni sé þess eins getið að þessu leyti, að matsbeiðanda sé ,,nú nauðsynlegt að ganga að veðum sínum og taka tillit til þeirra verðmæta við útreikning á kröfu sinni“. Er tekið fram að vafi leiki á hvert markaðsvirði trygginganna sé og hafi aðilar ekki náð samkomulagi þar um. Matsþoli bendir á þá meginreglu einkamálaréttarfars að undir dómstóla verði einungis borin til úrlausnar sakarefni sem málsaðilar hafi lögvarða hagsmuni af, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá bendir matsþoli á að ekki sé ágreiningur um verðmæti þess sem meta eigi. Matsbeiðandi hafi einungis lýst kröfu sinni sem veðkröfu og kveður matsþoli að mat á þeim verðmætum sem beiðst hefur verið mats á, geti engu skipt um ágreiningsefni máls þessa. Sé matsgerð því tilgangslaus og beri að hafna matsbeiðni.
Niðurstaða
Matsbeiðandi hefur með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála farið þess á leit að dómkvaddur verði matsmaður til að meta markaðsvirði nánar tilgreindra skuldabréfa sem sett voru Seðlabanka Íslands að veði vegna veð-, dag- og verðbréfalánaviðskipta hans við Sparisjóðabanka Íslands hf., varnaraðila máls þessa. Með matsbeiðni þessari freistar matsbeiðandi þess að afla sér sönnunargagna sem hann telur málstað sínum til framdráttar.
Matsþoli, varnaraðili málsins, kveður að dómkvaðning matsmanns sé óþörf og tilgangslaus.
Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um málsmeðferð fyrir héraðsdómi vegna ágreiningsmála um gjaldþrotaskipti, ef ekki verður annað leitt af ákvæðum laganna. Í 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um dómkvaðningu matsmanna, eftir beiðni aðila. Þá er kveðið svo á í 3. mgr. 46. gr. laganna að telji dómari bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar, geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu.
Af hálfu matsþola hefur því verið haldið fram að afmörkun kröfu matsbeiðanda í greinargerð til dómsins sé með þeim hætti að engum tilgangi þjóni að láta meta til verðs þau skuldabréf sem sett voru Seðlabanka Íslands að veði í lánaviðskiptum aðila.
Í dómum Hæstaréttar Íslands er að finna mörg fordæmi þess að ekki sé á valdi dómstóla að takmarka rétt aðila til að afla sönnunargagna umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála. Þegar litið er til málatilbúnaðar aðila verður ekki talið að bersýnilegt sé að matsgerð, sem sýni fram á markaðsvirði trygginga þeirra sem Seðlabanka Íslands voru sett að veði í tengslum við lánafyrirgreiðslu þá sem mál þetta lýtur að, skipti ekki máli varðandi málatilbúnað sóknaraðila. Dómurinn telur því að eins og hér standi á sé ekki unnt að takmarka rétt matsbeiðanda til að afla sönnunar um þau atriði sem beiðni hans lýtur að.
Verður því fallist á beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns, allt eins og nánar greinir í matsbeiðni.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Dómkveðja skal matsmann til þess að meta markaðsvirði skuldabréfa þeirra sem tilgreind eru í matsbeiðni frá 23. janúar 2012, og matsþoli, Sparisjóðabanki Íslands hf., setti Seðlabanka Íslands að veði vegna veð-, dag- og verðbréfalánaviðskipta þeirra, allt eins og nánar greinir í matsbeiðni.