Hæstiréttur íslands

Mál nr. 239/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2006.

Nr. 239/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Hreini Hlífari Gottskálkssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

H var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við Y á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið sannað að H hefði gerst brotlegur við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða Y 600.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd og honum gert að greiða Y 900.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af kröfu Y, til vara að kröfunni verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hreinn Hlífar Gottskálksson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 438.558 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. desember 2005 á hendur Hreini Hlífari Gottskálkssyni, kt. [...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot með því að hafa, aðfaranótt laugar­dagsins 16. apríl 2005, haft samræði eða önnur kynferðismök við Y, kt. [...], gegn vilja hennar, í svefnherbergi á heimili ákærða að A en ákærði notfærði sér það að Y gat ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga.

Eru brot ákærða talin varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Y krefst bóta að fjárhæð kr. 900.000 auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 16. apríl 2005 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna þóknunar við réttargæslu.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Laugardaginn 16. apríl 2005, kl. 18.39, hafði Y samband við lögregluna í Kópavogi vegna kynferðisbrots er hún kvaðst hafa orðið fyrir aðfaranótt laugardagsins. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögregla hafi farið að heimili Y og rætt við hana. Í skýrsluna er færð frásögn Y af atburðum. Greindi hún lögreglu frá því að hún hafi verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Um kl. 2.00 um nóttina hafi hún ásamt fjórum kunningjum sínum ákveðið að fara að húsi nálægt miðbænum. Eftir að hún hafi verið komin inn í íbúð í húsinu hafi hún orðið mjög þreytt en hún hafi verið undir áhrifum áfengis. Hafi hún ákveðið að leggjast til svefns inn í herbergi húsráðenda, B og Hreinsa. Hafi B sofnað nokkru áður sökum ölvunar og þreytu. Hafi Y farið í náttbuxur í eigu B og lagst við hlið hennar í rúm. Hafi hún vaknað á vinstri hliðinni milli kl. 4.00 og 5.00 um nóttina. Þá hafi verið búið að draga náttbuxur og nærbuxur hennar niður að hnjám. Hafi hún fundið fyrir bleytu við lærin og við athugun áttað sig á að bleytan hafi verið sæði. Á þeirri stundu hafi Hreinsi einnig verið sofandi í rúminu, en hann hafi legið við hlið Y. Hafi hún ýtt við Hreinsa og borið á hann sakir um að hafa nauðgað sér. Hafi Hreinsi þvertekið fyrir það og sagst hafa verið sofandi. Hafi hún þá bent honum á sæðið og hann þá brotnað saman. Hafi hann beðið hana afsökunar á verknaðinum og í framhaldi farið út úr íbúðinni. Í kjölfarið hafi vinur hennar, C, ekið henni á heimili besta vinar hennar í Hafnarfirði. Hjá honum hafi hún dvalið í nokkra stund og eftir það farið heim til sín.

Fram kemur í frumskýrslu að lögreglumenn hafi ekið Y á Neyðarmóttöku. Á leið þangað hafi eftir leiðbeiningum hennar verið ekið fram hjá A í Reykjavík. Hafi hún skýrt frá því að þar í húsi hafi brotið átt sér stað. Hafi Y afhent lögreglu fatnað er hún hafi verið í er brotið hafi átt sér stað. Þeim fatnaði hafi verið komið í hendur hjúkrunarfræðingi á Neyðarmóttöku. Tekið er fram að náttbuxur sem Y hafi lagst til svefns í væru enn á vettvangi brotsins.

Lögreglan í Reykjavík hefur aðfaranótt laugardagsins 16. apríl 2005, kl. 4.25, ritað skýrslu í tilefni af handtöku. Fram kemur að ákærði hafi verið sofandi ölvunarsvefni á D á móts við hús nr. [...]. Hafi hann verið vakinn við illan leik en átt erfitt með að tjá sig eða standa í fæturna. Hafi hann verið fluttur á lögreglu­stöðina við Hverfisgötu þar sem hann hafi verið vistaður í klefa sökum ástands síns. Síðar sama dag rita lögreglumenn er afskipti höfðu af ákærða skýrslu vegna málsins. Er þar getið um ummæli er ákærði viðhafði í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöð. Fram kemur að ákærði hafi brostið í grát og sagt ,,Ég reið stelpu og sé svo eftir því...” “Ég hélt fram hjá kærustunni minni, af hverju má ég ekki bara deyja”.

Laugardaginn 16. apríl 2005, kl. 18.48, lagði Y fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot.

Í rannsóknargögnum málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y. Í skýrslunni er rakin frásögn Y af atburðum. Þar kemur fram að átt hafi sér stað kynmök um leggöng. Um ástand er tiltekið að Y hafi verið þreytt, en gefið slitrótta sögu. Ekki hafi nein sérstök kreppuviðbrögð verið að finna hjá henni. Hún hafi verið í tilfinningalegu jafnvægi og yfirveguð. Sakargögn hafi verið tekin til skoðunar. Sýni hafi verið tekin af fötum og úr leggöngum. Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að Y hafi verið barnslega kærulaus. 

Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík hefur 4. maí 2005 ritað skýrslu vegna rannsóknar á gögnum frá Neyðarmóttöku, en um er að ræða nærbuxur, spekulum, sjö DNA pinna og glerplötur. Niðurstaða tæknirannsóknar er að engin lífsýni hafi fundist í gögnum frá Neyðarmóttöku er talist gætu hæf til DNA kennslagreiningar. Í nær­buxum hafi fundist stór blettur, sem hafi gefið jákvæða svörun við for- og staðfestingarpróf sem sæði. Önnur skýrsla er rituð 31. maí 2005. Í þeirri skýrslu kemur fram að ,,joggingbuxur” hafi verið haldlagðar við vettvangsrannsókn að A. Niðurstaða úr rannsókn er að í buxunum hafi fundist sæði sem nothæft sé til DNA kennslagreiningar. Samkvæmt skýrslu lögreglu voru sýni send 28. júní 2005 til DNA rannsóknar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló í Noregi. Til samanburðar voru send sýni úr Y og ákærða, en sýni úr honum voru tekin í tæknideild lögreglu 16. apríl 2005. Niðurstöður bárust frá Noregi 6. september 2005. Fram kemur að sáðfrumur og þekjufrumur hafi fundist í sýnum úr nærbuxum Y og buxum. Niðurstöður greiningar er að DNA snið sáðfrumuhluta beggja sýna væri samskonar og DNA snið ákærða. Greining á þekjufrumuhluta leiddi í ljós blöndu tveggja sniða, samskonar og DNA snið ákærða og Y. 

Ákærði var boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu að kvöldi laugardagsins 16. apríl 2005. Kvaðst hann ekki geta fullyrt hvort hann væri sekur eða saklaus í málinu. Kvaðst hann vilja taka fram að hann hafi verið mjög ölvaður umrædda nótt og myndi lítið eftir atvikum. Kvaðst hann vita nafn Y, sem hafi verið heima hjá ákærða umrædda nótt, ásamt C, kunningja ákærða. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa haft kynmök við Y en kvaðst minnast þess að hafa vaknað við hlið hennar. Hafi hún ýtt við ákærða og spurt hvað hann hafi gert. Hafi ákærði ekki áttað sig á hvað hún ætti við og hún þá fullyrt að ákærði hafi ,,riðið sér.” Hafi virst sem hún hafi ekki tekið það nærri sér. Hafi sambýliskona ákærða, B, þá vaknað. Hafi þau öll fengið sér að reykja. Kvaðst ákærði vilja taka fram að hann gerði á stundum ýmsa hluti í svefni er hann hefði ekki hugmynd um. Kvaðst ákærði því ekki getað svarað til um hvað í raun hafi gerst.

Um atvik að öðru leyti bar ákærði að C hafi komið í heimsókn til ákærða að kvöldi föstudagsins. Hafi þeir farið á bifreið C að E til að ná í Y. Þaðan hafi verið haldið upp á F en þar hafi verið náð í sambýliskonu ákærða. Hafi hún verið í hestaferð þennan dag. Klukkan hafi sennilega verið um 21.00 til 22.00 er þetta hafi verið. Eftir það hafi verið haldið að A þar sem áfengi hafi verið drukkið. Hafi ákærði drukkið ótæpilega, líklega þrefaldan romm í kók. Hafi hann orðið mjög ölvaður. Hafi hann síðan farið í bæinn og á skemmtistaði. Þau hafi endað á veitingastaðnum Ópus og klukkan þá verið um mið­nættið. Á meðan þau hafi dvalið á veitingastaðnum hafi Y verið nokkuð uppá­þrengjandi. Á Ópus hafi ákærði drukkið tvo bjóra og verið orðinn mjög ölvaður. Laust eftir miðnættið hafi ákærði, C og Y farið heim til ákærða. Þá hafi verið með þeim tveir strákar. Á A hafi þau hlustað á tónlist um stund en strákarnir síðan farið. C hafi sofnað í sófa í stofu, en B og Y farið inn í hjóna­herbergi og lagst til svefns í hjónarúmi. Kvaðst ákærði ekki geta fullyrt hver hafi sofnað fyrst en B sennilega farið fyrst inn. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að Y hafi leitað eftir því að fá að sofa í rúminu, en þar hafi hún legið er ákærði hafi ætlað að leggjast til hvílu. Hafi ákærði ekki viljað vekja B, lagst í rúmið og snúið baki í B og Y. Það næsta er ákærði myndi hafi verið er Y hafi stjakað við honum. Hafi hún þá borið á ákærða brot. Hafi hún haft á orði að hún héldi að hún væri komin með blæðingar og ákærði engar athugasemdir gert við það. Hafi hún í framhaldi sagt að ákærði hafi riðið sér. Þá hafi B einnig vaknað og áttað sig á því sem Y hafi verið að bera upp á ákærða. Er þær hafi séð hve skelkaður ákærði var hafi þær sagt við hann að hann skyldi ekki hafa áhyggjur og fara aftur að sofa. Það hafi ákærði ekki gert heldur farið út þar sem hann hafi verið með það mikið samviskubit þar sem hann hafi verið hræddur um að B vildi ekki vera með honum lengur. Hafi ákærði farið á skemmtistaðinn 11 þar sem hann hafi drukkið sterkt áfengi. Það næsta er ákærði myndi hafi verið er hann var í fangaklefa lögreglu. Eftir að ákærða hafi verið sleppt út hafi hann farið heim til sín og hitt þar B. Ákærði hafi sofnað, en er hann hafi vaknað hafi atburðir næturinnar borist í tal. Hafi B virst vera ,,svekkt.” Er undir ákærða voru borin ummæli er hann viðhafði í lögreglubifreið á leið á lögreglustöð kvaðst hann ekki geta tjáð sig um þau þar sem hann myndi ekki eftir atburðum. Ákærði bar að Y hafi fengið lánaðar náttbuxur af B áður en hún hafi farið að sofa. 

Ákærði var á ný boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu 6. júní 2005. Staðfesti hann fyrri framburð sinn í málinu. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa gengist við því í áheyrn B og Y að hafa haft mök við Y. Ákærði var loks boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu 27. október 2005. Voru honum þá kynntar niðurstöður úr DNA rannsókn. Kvað hann niðurstöður koma sér mjög á óvart þar sem hann væri þeirrar skoðunar að hann hafi ekki haft mök við Y. Kvaðst ákærði telja aðstæður fremur hafa verið þær að Y hafi ,,nauðgað” ákærða á meðan hann hafi verið sofandi. 

Fyrir dómi bar ákærði á sama veg um atvik og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Kærasta hans, B, hafi verið að skemmta sér föstudaginn 15. apríl 2005. Hafi ákærði þann dag hitt C og þeir farið að ná í Y, en C hafi verið búinn að kynnast henni. Þau hafi farið að A þar sem áfengi hafi verið drukkið, utan C er ekkert hafi drukkið þá. Eftir það hafi verið náð í B og hópurinn farið aftur að A. Áfengi hafi áfram verið drukkið. Síðar hafi ákærði, C og Y farið í bæinn, en B orðið eftir. Hafi þau farið á veitingastaðinn Ópus. Ákærði kvaðst aðallega hafa drukkið vodka þetta kvöld, en Y sennilega bjór. Þau hafi verið á Ópus um stund og ákærði orðið mjög ölvaður. Minni ákærða hafi orðið mjög ,,köflótt” á þessum tíma. Hafi þau farið saman að A. Kvaðst ákærði minnast þess að hafa brotið einhverja rúðu, sem hann myndi ekki hvort hafi verið í húsi eða bíl. Á A hafi C og Y sennilega sest í sófa. Ekki kvaðst ákærði muna hvort Y hafi farið þess á leit að fá að sofa í rúmi, eða hvort hún hafi óskað eftir að fá lánuð föt til að sofa í. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi áfram eftir að heim var komið. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að hafa farið að sofa, en muna eftir er hann hafi vaknað. Hafi hann þá verið í hjónarúminu og B og Y verið þar einnig. Y hafi vakið ákærða og talað um að ákærði hafi gert eitthvað við sig. Kvaðst ákærði ekki hafa skilið hvað hún ætti við og fundist fjarstæðukennt það sem hún hafi talað um. Hafi Y sagt að hún væri blaut í klofinu. Ákærða hafi brugðið mikið við þetta, en hann hafi enn verið mjög ölvaður. Ákærði, Y og B hafi fengið sér að reykja og rætt málið. Y og B hafi farið að sofa en ákærði farið út úr íbúðinni. Hafi hann áfram drukkið áfengi og myndi næst eftir sér á lögreglustöð. Kvaðst hann ekki muna eftir því er lögreglumenn hafi tekið hann upp í lögreglubifreið. Ekki kvaðst ákærði átta sig á hvernig á því stæði að DNA snið hafi greinst úr honum í sýnum úr nærbuxum Y. Þó gæti verið að Y hafi notfært sér ástand ákærða á meðan hann hafi verið sofandi. Talsverðar minnisgloppur væru þó frá því er gerst hafi um nóttina.    

Y gaf fyrst skýrslu vegna málsins er hún lagði fram kæru á hendur ákærða. Greindi hún frá því að hún hafi verið að skemmta sér með vini sínum, C, ákærða og tveim öðrum. Hafi þau farið saman í miðbæ Reykjavíkur og gengið á milli skemmtistaða. Þau hafi endað á skemmtistaðnum Ópus. Hafi hún verið orðin mjög drukkin og liðið illa, en hún hafi frá um kl. 23.00 drukkið um sex hálfs lítra bjóra. Frá Ópus hafi hópurinn farið að A, heimili ákærða. Hafi hún sjálf boðið sér að leggjast í rúm að A og ákærði vitað af því. Sambýliskona ákærða hafi einnig vitað að hún ætlaði að leggjast í rúmið og samþykkt það. Ákærði og sambýliskona hans hafi verið almennileg við Y og ákærði m.a. náð í fötu fyrir hana til að æla í ef með þyrfti. Þá hafi ákærði lánað henni náttbuxur af B, sem hún hafi farið í. Hafi hún sofnað um kl. 2.00. Hún hafi vaknað skömmu síðar við mikinn hávaða, líkt og rúða hafi brotnað. Hafi hún farið á fætur til að athuga málið og þá komið í ljós að eitthvað hafi gerst fyrir utan húsið. Hafi hún séð ákærða alblóðugan. Hafi hann tjáð henni að hann hafi brotið rúðu í bíl sem hafi verið lagt í bifreiðastæði ákærða. Hafi hún í kjölfar þessa lagst aftur í rúmið. Hafi ákærði vitað af því. Hafi hann tjáð henni að hann myndi hugsanlega leggjast í rúmið hjá þeim en tók fram að hann myndi leggjast B megin í rúminu. Y hafi vaknað aftur við það að sími hennar hafi hringt. Ákærði hafi þá verið sofandi við hlið hennar. Vinur hennar, G, hafi hringt. Þá hafi klukkan sennilega verið um 4.00. Að loknu símtalinu hafi hún sofnað á ný. Hafi hún vaknað aftur skömmu síðar og sími ákærða þá verið að hringja. Þá hafi hún veitt því athygli að buxur hennar og nærbuxur hafi verið komnar niður á hné. Jafnframt hafi hún orðið vör við vökva á lærum sínum sem hún hafi talið vera sæði. Ákærði og B hafi enn legið í rúminu og bæði virst sofa. Hafi hún dregið upp um sig nærbuxur og náttbuxur. Því næst hafi hún borið upp á ákærða að hann hafi haft mök við sig, en hún væri öll í ,,brundi” eftir hann. Hafi hún spurt hann hvað hann hafi gert við sig. Hafi ákærði svarað því til hvort hún væri ekki einfaldlega byrjuð á blæðingum en hún tjáð honum að vökvinn væri ekki þannig á litinn. Því næst hafi hún farið á salernið til að þurrka sér og að því loknu rætt frekar við ákærða. Hafi hún tjáð honum að hún hafi fundið eitthvað hafa farið inn í leggöng sín og borið á ákærða að hafa gert það. Hafi ákærði þá virst mjög miður sín. Hafi hún ætlað að fara að sofa en ákærði þá viljað ræða málið frekar. Hafi ákærði sagt B frá þessu, sem ekki hafi viljað hlusta á það og viljað halda áfram að sofa. Ákærði hafi sest í stól og farið að gráta. Hafi hún sagt honum að hætta því og að allt væri í lagi. Því næst hafi hún farið aftur upp í rúm. Hafi hún legið í rúminu vakandi og þungt hugsi. Hafi hún ákveðið að ná sambandi við G, sem hafi búið í Hafnarfirði. B hafi vakið C sem allan tímann hafi legið sofandi í sófa í stofu. Jafnframt hafi B rætt við Y í örstutta stund. Hafi B sagt að hún væri reið út í ákærða. Hafi Y farið í buxur og að því loknu fengið C til að aka sér suður í Hafnarfjörð til G. Vinur hennar hafi ráðlagt henni að leggja fram kæru á hendur ákærða.  

Fyrir dómi bar Y á sama veg um atvik er hún lýsti ferðum sínum, ákærða og C að kvöldi föstudagsins 15. apríl 2005. C hafi hún kynnst í febrúar eða mars 2005 og þetta kvöld í fyrsta sinn farið með honum út að skemmta sér. Hafi þau verið með til athugunar hvort þau ættu að vera saman. Um nóttina hafi þau þrjú farið á veitingastaðinn Ópus. Þar hafi hún drukkið þrjá bjóra, en áður hafi hún verið búin að drekka bjór að A. Þau hafi verið í eina til eina og hálfa klukkustund inni á Ópus. Hafi hún verið orðin mjög drukkin. Þau hafi verið komin aftur að A um kl. 13.30 um nóttina. Þar hafi hún drukkið einn bjór til viðbótar. Hafi hún orðið þreytt og spurt ákærða hvort hún mætti leggjast í rúmið við hlið B. Hafi ákærði heimilað henni það. Hafi hún spurt hann hvort hún mætti fara í buxur af B og ákærði einnig heimilað það. Hafi hann komið með fötu fyrir hana til að æla í, en henni hafi liðið illa vegna áfengisneyslunnar. Í framhaldi þessa hafi hún sofnað. Hún hafi vaknað þegar G hafi hringt. Hafi hún farið aftur að sofa og vaknað á ný við að rúða hafi brotnað. Ákærði hafi brotið rúðu í bifreið og verið alblóðugur eftir það. Hún hafi sofnað aftur og á ný vaknað þegar sími hafi hringt. Þá hafi hún verið með sæng yfir sér og ákærði legið við hlið hennar. Hafi hún fundið eitthvað leka niður læri sín og þá veitt því athygli að hún hafi verið blaut á nárasvæðinu. Hafi hún verið með buxur og nærbuxur niður um sig. Hafi hún öskrað, vakið ákærða og spurt hann hvað hann hafi gert. Í framhaldi hafi hún farið fram á bað. Ákærði hafi rætt við B á meðan. Í framhaldi hafi Y sagt B hvað hafi gerst. Ákærði hafi sagt að hann hafi ekkert gert. Hafi hann síðan farið að gráta og farið á brott. Eftir að hafa farið aftur upp í rúm til að sofa hafi hún farið að hugsa með sér að þetta væri ekki rétt. Hafi hún hringt í G, en hann hafi verið að skemmta sér þessa nótt í miðbæ Reykjavíkur. Hafi hann þá verið kominn til Hafnarfjarðar. Hafi hún spurt hann hvort hún mætti koma til hans og hann játað því. Hafi hún farið fram í stofu og með aðstoð B vakið C en hún hafi beðið hann um að aka sér í Hafnarfjörðinn. Í Hafnarfirði hafi hún sagt G hvað hafi komið fyrir. Kvaðst Y alltaf hafa litið svo á að ákærði hafi haft við sig samfarir, en hún kvaðst hafa fundið fyrir því er limur hans hafi farið inn í sig. Y kvaðst hafa átt erfitt fyrstu daga eftir þessa atburði. Hafi hún leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi vegna málsins, en til hans hafi hún farið í fjögur viðtöl. Væru þessir atburðir enn í huga hennar, en hún reyndi að hugsa sem minnst um þá þar sem hún gæti ekkert gert við þeim. 

B kvaðst hafa farið í hestaferð með vinnufélögum sínum föstudaginn 15. apríl 2005. Ákærði, C og B hafi komið upp á F til að ná í hana, en þar hafi hún verið fram á kvöld. Þau hafi farið að sækja aðgöngumiða á skemmtistaðinn Ópus, en miðana hafi Y unnið á útvarpsstöðinni FM 957. Þaðan hafi þau farið að A, heimili hennar og ákærða. Fleiri gestir hafi komið að A en þeir farið í bæinn að skemmta sér. Hafi B ekki treyst sér til að fara með gestunum þar sem hún hafi verið orðin talsvert ölvuð. Hafi hún farið snemma að sofa og sennilega sofnað um 0.30. Ákærði og Y hafi vakið hana um kl. 4.00 um nóttina. Hafi ákærði sennilega tjáð henni að hann hafi haldið framhjá henni þar sem hann hafi haft samfarir við Y. Y hafi hlustað á samtal þeirra. B kvaðst ekki hafa gefið Y leyfi til að sofa í rúmi hennar og ákærða og ekki vitað af því að Y hafi sofið í rúminu fyrr en þau hafi vakið hana um nóttina. Hafi ákærði sagt að hann myndi ekki eftir að hafa haft samfarir við Y en hún hafi vakið hann og tjáð honum það. Y hafi í fyrstu haldið að hún væri byrjuð á blæðingum, en eftir að hafa farið á klósettið hafi hún áttað sig á að um væri að ræða sæði. Hafi ákærði gengist við að hafa haft mök við Y eftir að hafa farið sjálfur á klósettið. Þau þrjú hafi því verið á einu máli um hvað hafi gerst. Ákærði hafi verið mjög miður sín og margbeðið B og Y afsökunar á gjörðum sínum. Eftir þetta hafi B og Y farið að sofa en ákærði farið út. Y hafi ekki getað sofnað, en skömmu síðar hafi þær farið fram í stofu og rætt málin. Hafi B ekki almennilega vitað hvað hún ætti að segja. Hafi Y spurt B hvort hún væri reið út af þessu og B tjáð henni að svo væri, en jafnframt hafi hún tjáð henni að hún gæti ekkert gert í málinu. Skömmu síðar hafi Y yfirgefið íbúðina, ásamt C, sem hafi sofið allt af sér. 

C kvaðst hafa verið að skemmta sér ásamt ákærða, Y og fleirum. Um nóttina hafi C, ásamt ákærða og Y, farið á heimili ákærða að A. Þar hafi kærasta ákærða, B, verið fyrir sofandi inni í herbergi. Strax og heim til ákærða kom hafi Y farið rakleitt inn í herbergi þar sem B hafi sofið. Hafi hún lagst við hlið hennar í rúminu. Y hafi verið mjög ölvuð og beðið C um að vekja sig ef hún myndi sofna. Hafi C farið á klósettið og er hann hafi komið þaðan hafi hann séð að Y var sofnuð. Hafi hann reynt að vekja hana en það ekki tekist þar sem hún hafi sofið ölvunarsvefni. Hafi C þá breitt yfir hana og farið inn í stofu til ákærða. Hafi þeir rætt saman í um 20 mínútur. Hafi C ráðgert að gera tilraun til að vekja Y, en sofnað í sófa. Síðar um nóttina hafi Y og B vakið C og klukkan þá sennilega verið um 5.00 um nóttina. Hafi þær tjáð C að ákærði væri farinn út. Hafi Y sagt að ákærði hafi nauðgað henni er hún hafi verið sofandi í rúmi hjá B. Hafi Y farið þess á leit við C að hann æki henni til Hafnarfjarðar til vina hennar. Á leið þangað hafi Y sagt frá atburðum næturinnar. Í máli hennar hafi komið fram að hún hafi vaknað við síma. Þá hafi ákærði legið við hlið hennar. Hún hafi verið með buxur og nærbuxur niður um sig og fundið fyrir bleytu á lærum. Hafi Y strax grunað að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega á meðan hún hafi sofið. Hafi hún vakið hann og borið á hann þær sakir. Hafi ákærði í fyrstu ekkert kannast við það og borið fyrir sig minnisleysi. Hafi ákærði margítrekað við Y að vekja ekki C vegna málsins. Ákærði hafi verið farinn á brott úr húsi er C hafi vaknað. Y hafi verið í nokkru uppnámi er hún hafi vakið C. Hún hafi verið dofin en ekki í móðursýkiskasti.

G kvaðst hafa fengið símtal frá Y aðfaranótt laugardagsins 16. apríl 2005. Hafi Y tjáð honum að dálítið slæmt hafi komið fyrir og að hún þyrfti að hitta hann. Hafi G tjáð Y að hann væri í Hafnarfirði og gæti ekki náð í hana. Hafi hún tjáð honum að hún ætlaði að útvega sér far til Hafnarfjarðar. Eftir 10 til 15 mínútur hafi Y verið komin. Hafi hún tjáð honum að hún hafi vaknað upp við það að strákur hafi legið hjá henni. Hafi hún tekið eftir að hún var með buxur og nærbuxur niður um sig og fundið fyrir klístri á lærum. Hafi hún vakið strákinn og spurt hann hvað hann hafi verið að gera. Hún hafi engin svör fengið önnur en að hann hafi sofnað ölvunarsvefni. Kærasta drengsins hafi einnig verið í rúminu. Hafi Y ásakað strákinn um að hafa haft við sig kynmök gegn vilja hennar en hann neitað því. Kærasta stráksins hafi spurt að hinu sama en strákurinn ekki viljað viðurkenna það. Kvaðst G hafa ekið Y til síns heima um hádegi á laugardeginum.

Lögreglumennirnir Logi Sigurjónsson og Ólafur Gunnar Sævarsson staðfestu fyrir dómi að hafa haft afskipti af ákærða að morgni laugardagsins 16. apríl 2005 en hann hafi legið á D við hús nr. [...]. Kváðust þeir hafa ritað í lögregluskýrslu orð er ákærði hafi látið falla í lögreglubifreið á leið á lögreglustöð. Jóhanna Jónasdóttir læknir staðfesti rannsóknargögn frá Neyðarmóttöku. Þá staðfesti Björgvin Sigurðsson sérfræðingur skýrslur tæknideildar lögreglu um tæknirannsóknir í málinu. Björgvin kvað útilokað að efni í sýni úr innanverðum nærbuxum Y hafi getað komið úr ,,joggingbuxum” er hún hafi verið í. Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur kvaðst hafa átt fjögur viðtöl við Y eftir þessa atburði. Þau viðtöl hafi leitt í ljós einkenni áfallaröskunar. Samræmdust einkennin því að Y hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli. Erfitt væri að fullyrða um langtímaáhrif þessa atburðar á stúlkuna, en almennt væru líkur fyrir því að þau væru nokkur.

Niðurstaða:

Ákærði neitar sök. Hefur hann borið við minnisleysi um atburði sökum mikillar áfengisneyslu. Kvaðst hann reyndar í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu ekki geta fullyrt hvort hann væri ,,sekur eða saklaus í þessu máli.” Ekki hefur hann getað gefið skýringu á því að DNA snið úr honum fannst í sýni er tekið var úr nærbuxum er Y var í aðfaranótt laugardagsins 16. apríl.

Y hefur frá upphafi verið sjálfri sér samkvæm í frásögn af atburðum. Hefur hún borið að hún hafi vaknað um kl. 4.00 þessa nótt við símhringingu og þá áttað sig á því að hún var blaut um læri og nára. Þá hafi hún verið með nærbuxur og buxur niður um sig. Hefur hún fullyrt að hún hafi borið á ákærða sakir um að hafa misnotað sig kynferðislega og að hann hafi viðurkennt það fyrir sér og sambýliskonu sinni B. B hefur staðfest að ákærði og Y hafi vakið sig um nóttina. Hefur hún jafnframt borið að ákærði hafi viðurkennt fyrir sér að hafa haldið fram hjá sér þessa nótt með Y og að þau þrjú hafi verið á einu máli um hvað hafi gerst.

Niðurstöður úr DNA rannsókn er fram fór á vegum Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló í Noregi á sýni er tekið var úr nærbuxum Y staðfesta að DNA snið úr ákærða greindist í nærbuxunum. Þegar til þeirrar niðurstöðu er litið og trúverðugs framburðar Y, er ekki varhugavert að slá föstu að ákærði hafi aðfaranótt laugardagsins 16. apríl 2005, gegn vilja Y, notfært sér ölvun og svefndrunga stúlkunnar og framið kynferðisbrot gegn henni. Y hefur staðhæft að ákærði hafi farið með getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar. Sýni er tekin voru úr leggöngum hennar á Neyðarmóttöku staðfesta ekki að svo sé. Þá er til þess að líta að Y hefur alla tíð fullyrt að hún hafi vaknað við símhringingu og að hún hafi á þeirri stundu verið blaut um læri og nára og verið með buxur og nærbuxur niður um sig. Verður því ekki við annað miðað en að hún hafi verið sofandi er ákærði framdi brot sitt. Við þær aðstæður er óvarlegt að slá föstu að hún hafi fundið fyrir getnaðarlimi hans inni í leggöngum sínum. Miðað við að sæði úr ákærða var á lærum stúlkunnar og nárasvæði, sem fær stoð í því að snið úr því greindist í sýni úr klofbót innanverðra nærbuxna, er sannað að ákærða hefur orðið sáðfall við kynfæri stúlkunnar. Er það framferði hans önnur kynferðismök en samræði, í merkingu 196. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn því ákvæði, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Ákærði er fæddur í apríl 1984. Hann gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra 14. október 2004 fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Brot ákærða er trúnaðarbrot, sem beinst hefur gegn persónu- og kynfrelsi ungrar stúlku. Hefur það haft talsverðar andlegar afleiðingar fyrir hana. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  

Ása Ólafsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd Y að fjárhæð 900.000 krónur, auk vaxta. Í rökstuðningi er vísað til þess að brot ákærða hafi valdið Y umtalsverðum miska. Hafi ákærði nýtt sér ölvunarástand og svefndrunga hennar og fengið vilja sínum framgengt án þess að Y gæti spornað við verknaðinum. Frammi liggur skýrsla er Heiðdís Sigurðar­dóttir sálfræðingur hefur ritað vegna Y. Í skýrslunni kemur fram að Y hafi sótt 4 viðtöl hjá henni á tímabilinu 10. maí til 15. júní 2005. Viðtölin hafi leitt í ljós einkenni áfallaröskunar, sem væri í samræmi við að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra um sakar­kostnað ásamt tildæmdum réttargæslulaunum verjanda á rannsóknarstigi og málsvarnarlaunum vegna meðferðar málsins fyrir dómi. Að auki greiði ákærði laun réttargæslumanns brotaþola. Þessar fjárhæðir eru tildæmdar, að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Eggert Óskarsson og Sigrún Guðmundsdóttir kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Hreinn Hlífar Gottskálksson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði Y, 600.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. apríl 2005 til 9. júlí 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 894.963 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns 493.020 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 112.050 krónur.