Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2007
Lykilorð
- Bifreið
- Svipting ökuréttar
- Útivist í héraði
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Ítrekun
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2008. |
|
Nr. 490/2007. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Aðalsteini A. Guðlaugssyni (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) |
Bifreiðir. Svipting ökuréttar. Útivist í héraði. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ítrekunaráhrif.
A var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í máli, sem dæmt var í héraði samkvæmt heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. A krafðist mildunar refsingar fyrir Hæstarétti. Niðurstaða héraðsdóms um viðurlög byggðist öðrum þræði á matsgerð tveggja sérfræðinga um magn ávana- og fíkniefna í blóði og þvagi A. Málsmeðferðin í héraði leyfði ekki að sérfræðingarnir kæmu fyrir dóm til að staðfesta matsgerðina og svara spurningum um hana. Talið var að ekki yrði með vissu ráðið af málsgögnum hvernig meta skyldi það magn fíkniefna sem mældist í líkama A og var óvissa um það metin A í hag. Hann hafði áður gerst sekur um ölvunarakstur en þá ekki náð18 ára aldri. Refsing hans var því ákveðin eins og um fyrsta brot væri að ræða og hún talin hæfileg 140.000 króna sekt. Eldra brot A gat í ljósi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki haft ítrekunaráhrif í samræmi við 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Fór því um ökuréttarsviptingu A eftir 4. mgr. ákvæðisins en ekki 6. mgr. þess og honum gert að sæta 12 mánaða sviptingu ökuréttar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sektarrefsingu ákærða en að hann verði sviptur ökurétti í tvö ár.
Ákærði krefst mildunar á sektarrefsingu og að ökuréttarsvipting verði stytt.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi var málið dæmt þar að ákærða fjarstöddum með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Um málskot þetta fer því eftir ákvæði 1. mgr. 150. gr. sömu laga.
Héraðsdómur var byggður á matsgerð tveggja sérfræðinga hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 19. mars 2007. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni matsgerðarinnar að því er varðar niðurstöðu mælinga á magni ávana- og fíkniefna í blóði og þvagi ákærða. Í matsgerðinni er síðan komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið „óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnið var tekið, sbr. gr. 45 a í umferðarlögum nr. 50/1987 m. breytingum.“ Málsmeðferðin í héraði leyfði ekki að sérfræðingar þessir kæmu fyrir dóm til að staðfesta matsgerð sína og svara spurningum um efni hennar. Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt bréfaskipti ríkissaksóknara við rannsóknastofuna frá nóvember 2007 í tilefni af þessu máli, þar sem óskað var eftir staðfestingu hennar á upplýsingum sem hún hafði afhent ríkissaksóknara 9. mars 2007 og vörðuðu rannsóknir á sýnum sem innihéldu ólögleg ávana- og fíkniefni sem fundist höfðu í blóði ökumanna. Bréfum þessum fylgdu rannsóknarniðurstöður varðandi þau fjögur efni sem mælst höfðu hjá ákærða, þar sem tilvikin voru flokkuð eftir styrk þeirra í blóði viðkomandi ökumanna. Tók rannsóknin til tímabilsins 1. janúar 2006 til 28. febrúar 2007. Í niðurstöðunum eru að því er þrjú efnanna varðar tilgreind svonefnd eitrunarmörk, án þess að með fylgi skýring á því hvort og þá hvaða þýðingu slík mörk hafi fyrir mat á hæfni viðkomandi til að stjórna ökutæki. Þessum gögnum fylgdi einnig bréf sem ríkissaksóknari hafði sent lögreglustjórum 25. júlí 2007, með leiðbeiningum um hvernig haga skyldi kröfugerð ákærenda um sviptingu ökuréttar með tilliti til magns ávana- og fíkniefna í blóði ökumanns eftir gildistöku þeirra nýmæla sem lögleidd höfðu verið í 45. gr. a og 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga með lögum nr. 66/2006. Var þar meðal annars tekin afstaða til þess hvenær telja skyldi um lítið magn fíkniefna að ræða og hvenær mikið. Að því er efnið MDMA snertir var talið að allt að 220 ng/ml í blóði skyldi teljast lítið magn en 220 ng/ml í blóði eða meira skyldi teljast mikið magn. Fyndist lítið magn í blóði skyldi krefjast ökuréttarsviptingar að lágmarki í þrjá mánuði en að lágmarki í eitt ár ef mikið magn fyndist.
Í 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. er síðan kveðið svo á að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. mælist í blóði hans eða þvagi. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti taldi ákærði að ekki væri unnt að sakfella sig fyrir að hafa við aksturinn verið undir áhrifum kókaíns, þar sem það hefði einungis mælst í þvagi en ekki blóði og í matsgerð rannsóknarstofunnar væri tekið fram að þetta benti til neyslu á efninu en hann hefði „ekki verið undir áhrifum þess þegar blóðsýnið var tekið“ eins og segir í matsgerðinni. Í 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga er svo sem fyrr segir tekið fram að ökumaður teljist hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefnis ef það mælist í þvagi hans. Málsvörn ákærða sem að þessu lýtur verður því hafnað.
Samkvæmt framansögðu verður ekki með vissu ráðið af málsgögnum hvernig meta skuli magn það sem mældist í líkama ákærða, en 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga leggur dómstólum á herðar að meta þetta meðal annars. Óvissa sem þetta varðar verður metin ákærða í hag.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða. Ákærði er fæddur 20. maí 1985. Þann 28. febrúar 2003 gekkst hann undir sátt vegna ölvunarakstursbrots, svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði hafði ekki náð 18 ára aldri þegar hann framdi það brot. Með vísan til dómvenju verður refsing hans ákveðin eins og um fyrsta brot væri að ræða. Í viðaukum við reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim nr. 930/2006 er að finna reglur um sektarfjárhæðir og tímalengd ökuréttarsviptingar vegna ölvunaraksturs en ekki vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir verður refsing ákærða ákveðin sekt 140.000 krónur sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Vararefsing ákveðst 10 daga fangelsi.
Í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga er að finna sérreglur um sviptingu ökuréttar þegar stjórnandi ökutækis, sem áður hefur brotið gegn 45. gr. eða 45. gr. a laganna, gerist sekur um slíkt brot á nýjan leik. Reglum þessum verður þó aðeins beitt ef brot verður talið ítrekað í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eitt skilyrða þess að brot hafi ítrekunaráhrif er að sakborningur hafi verið fullra 18 ára þegar hann framdi það brot. Fer því um ökuréttarsviptingu hans eftir 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga, en ekki 6. mgr. greinarinnar. Með vísan til þessa er ökuréttarsvipting ákærða ákveðin eitt ár frá birtingu héraðsdóms 5. júní 2007 að telja.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.
Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skal áfrýjunarkostnaður málsins greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Aðalsteinn A. Guðlaugsson, greiði 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 10 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 5. júní 2007 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. maí 2007.
Mál þetta, sem þingfest var þann 10. maí sl., og dómtekið sama dag, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 21. apríl 2007, á hendur Aðalsteini A. Guðlaugssyni, kt. 200585-2759, Furugrund 26, Kópavogi,
,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 11. febrúar 2007 ekið bifreiðinni LP-196, um Biskupstungnabraut á vegarkafla við Laugarvatnsveg, Grímsnes- og Grafningshreppi, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa MDMA, MDA, kókaíns, og tetrahýdrókannabínóls.
Telst brot ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50,1987 sbr. 5. gr. laga nr. 66,2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. lög nr. 44,1993, lög nr. 57,1997, lög nr. 23,1998, lög nr. 132,2003, lög nr. 84,2004 og lög nr. 66/2006.“
Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir löglega birtingu ákæru þann 4. maí sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærðu fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og það réttilega fært til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur þann 24. febrúar 2003 til níutíu daga fangelsisrefsingar, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þann 28. febrúar 2003 gekkst ákærði undir sátt og var gert að greiða 75.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og 47. gr. sömu laga og var sviptur ökurétti í átta mánuði og þann 23. október 2006 gekkst ákærði undir sátt og var gert að greiða 45.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot. Samkvæmt matsgerð sem liggur frammi í málinu frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði mældist í blóði ákærða amfetamín 295 ng/ml og MDMA 900 ng/ml, MDA 70 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,9 ng/ml. Í þvagi fannst MDMA, kókaín og kannabínóíðar. Með vísan til þessa mikla magns af MDMA í blóði ákærða sem er við eitrunarmörk og þess að um ítrekað brot er að ræða þykir refsing hæfilega ákvörðuð 180.000 króna sekt til ríkissjóðs sem ákærði greiði innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í fjórtán daga.
Ákærði skal sviptur ökurétti í fjögur ár frá birtingu dóms að telja.
Með vísan til 165., sbr. 164. gr. laga um meðferð opinberra mála skal ákærða, gert að greiða allan sakarkostnað sem er vegna rannsóknar á blóði ákærða og matsgerðar, 196.427 krónur.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Aðalsteinn A. Guðlaugsson, greiði 180.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja en sæti ella fangelsi í fjórtán daga.
Ákærði skal sviptur ökurétti í fjögur ár frá birtingu dóms að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 196.427 krónur.