Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Handtaka
- Líkamsleit
- Lögreglumaður
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2003. |
|
Nr. 413/2002. |
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) Vigfús Guðmundsson Friðrik Brynjarsson og Heimir S. Haraldsson (Gylfi Thorlacius hrl.) gegn Sigurði Jóhannessyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Handtaka. Líkamsleit. Lögreglumenn.
S krafði íslenska ríkið og þrjá lögreglumenn um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í lögreglubifreið á ferð í kjölfar handtöku. Höfðu lögreglumennirnir beðið hann um að sýna innihald vasa sinna af öryggisástæðum, en hann var í annarlegu ástandi af völdum amfetamínneyslu. Hann brást ókvæða við þessari bón og kom til snarpra átaka í bifreiðinni. Lögreglumennirnir voru ekki taldir hafa sýnt af sér ógætni eða gengið harkalegar fram gagnvart S en nauðsynlegt var til að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum, þótt svo illa hafi til tekist, að hann slasaðist í átökunum, sbr. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Voru íslenska ríkið og lögreglumennirnir þrír sýknuð af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. og 6. september 2002. Þeir krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málinu var gagnáfrýjað 28. október 2002. Gagnáfrýjandi krefst þess, að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér in solidum 8.503.869 krónur auk vaxta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum frá 16. október 1998 til 10. apríl 2002 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eftir að gagnáfrýjandi hafði verið handtekinn og færður í lögreglubifreiðina án nokkurs mótþróa var henni ekið af stað. Lögreglumenn báðu hann þá að sýna innihald vasa sinna af öryggisástæðum, en hann var í annarlegu ástandi af völdum amfetamínneyslu, eins og síðar var staðfest við rannsókn rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði á blóðsýni úr honum. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er á það fallist, að ástæða hafi verið til þess að skora á gagnáfrýjanda að sýna fram á, að hann hefði enga hættulega hluti meðferðis og honum hafi verið skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu um það, sbr. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Eins og gögnum málsins er háttað verður við það að miða, að gagnáfrýjandi hafi brugðist ókvæða við þessari bón, búist til að rísa á fætur og brotist um og jafnframt hrópað að lögreglumönnum, að þeir yrðu að handjárna sig, ef framkvæma ætti á sér einhverja leit. Þeim var þá bæði rétt og skylt að taka gagnáfrýjanda föstum tökum í því skyni að færa hann í járn og framkvæma á honum líkamsleit, eins og þeim var heimilt samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 101. gr. laga nr. 19/1991. Áður en til slíkrar leitar gat komið lyktaði þeim stympingum, sem gagnáfrýjandi stofnaði til með mótþróa sínum við lögmæt fyrirmæli lögreglu og nánar er lýst í héraðsdómi, á þann veg að smellur heyrðist í öðrum handlegg hans og reyndist um að ræða brot á vinstri upphandlegg á mótum miðhluta og neðsta þriðjungs leggjarins. Ljóst er, að þetta hefur gerst á örskammri stundu. Fær það meðal annars stoð í framburði vitnisins Steins Þórs Karlssonar lögreglumanns fyrir héraðsdómi, en hann var ökumaður lögreglubifreiðarinnar og jafnframt í fyrirsvari lögreglumanna við handtöku gagnáfrýjanda. Hann sagðist hafa orðið var við það, eftir að bifreiðin var komin af stað, að gagnáfrýjandi hafi rokið upp „og það voru einhver átök þarna afturí, ég stoppa þá strax og það er um garð gengið þegar ég stoppa...“
Á það verður ekki fallist með héraðsdómi, að það hafi verið gáleysi af hálfu lögreglumanna að leita ekki á gagnáfrýjanda, áður en hann var færður inn í lögreglubifreiðina. Hann var fús inngöngu í bifreiðina og ekkert sérstakt knúði á um tafarlausa líkamsleit á almannafæri, en það er í samræmi við góða löggæsluhætti og meðalhóf við meðferð valds að forðast eftir megni, að borgarar þurfi að sæta slíkum þvingunaraðgerðum í allra augsýn, sbr. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Þótt almennt megi telja varlegra að hefja líkamsleit í lögreglubifreið, áður en henni er ekið af stað, er tvenns að gæta um það tilvik, sem hér er til úrlausnar. Annars vegar höfðu lögreglumennirnir ekki, vegna viðmóts gagnáfrýjanda á vettvangi, sérstaka ástæðu til að búast við jafn harkalegum viðbrögðum hans og raun bar vitni við þeirri beiðni einni saman, að hann sýndi þeim innihald vasa sinna. Hins vegar var ekki til þess komið, að leit á honum væri hafin, þegar hann umhverfðist með þeim afleiðingum, að til svo snarpra og skjótra átaka kom í bifreiðinni, sem ökumaður stöðvaði um leið og hann varð þeirra var.
Þegar allt þetta er virt í heild verður ekki séð, að lögreglumennirnir hafi sýnt af sér ógætni eða gengið harkalegar fram gagnvart gagnáfrýjanda en nauðsynlegt var til að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum, þótt svo illa hafi til tekist, að hann slasaðist í átökunum, sbr. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Ber því að sýkna aðaláfrýjendur af kröfu gagnáfrýjanda.
Eftir atvikum þykir mega fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda á báðum dómstigum er nánar mælt í dómsorði, en í málinu nýtur engra gagna um vinnustundir lögmanns hans til undirbúnings málflutningi.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, íslenska ríkið, Vigfús Guðmundsson, Friðrik Brynjarsson og Heimir S. Haraldsson, eru sýknir af kröfu gagnáfrýjanda, Sigurðar Jóhannessonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 900.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí s.l., er höfðað með stefnu birtri 10. og 11. maí 2001.
Stefnandi er Sigurður Jóhannesson, kt. 280465-4619, Grettisgötu 77, Reykjavík.
Stefndu eru íslenska ríkið og fyrir þess hönd er stefnt dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra, Vigfús Guðmundsson, kt. 130164-3239, Birkihlíð 2A, Hafnarfirði, Friðrik Brynjarsson, kt. 130473-6369, Selbrekku 28, Kópavogi og Heimir S. Haraldsson, kt. 041076-4889, Vesturbergi 122, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til greiðslu á kr. 8.503.869 auk vaxta skv. skaðabótalögum frá 16. október 1998 til 10. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi að viðbættum virðisaukaskatti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og honum verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki felldur niður. Dómkröfur annarra stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður samkvæmt reikningi að viðbættum virðisaukaskatti. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á dómkröfum og verði málskostnaður í því tilviki látinn niður falla.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt leyfi dómsmálaráðherra dagsettu 10. apríl 2001.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefndu Vigfús, Friðrik og Brynjar höfðu sem lögreglumenn fengið það verkefni föstudagsmorguninn 16. október 1998 að svipast um eftir bifreiðinni UA-184, en tilkynnt hafði verið að hún hefði verið tekin ófrjálsri hendi frá Austurströnd skömmu áður. Stefndu voru á lögreglubifreiðinni 10-104 og var ökumaður hennar Steinn Þór Karlsson. Einnig tóku þátt í aðgerðinni lögreglumenn á lögreglubifreiðunum 10-202 og 10-207. Stefnandi segist hafa verið gangandi á Austurströnd við Björnsbakarí þegar hann fór inn í sendibifreið sem þar var í gangi og ók henni út að Gróttu, en stefnandi taldi bifreiðina í eigu kunningja síns sem vann í bakaríinu. Tveir starfsmenn bakarísins munu hafa fundið bifreiðina vestan Bygggarða og að sögn þeirra mun stefnandi hafa gert sig líklegan til að fara að sofa í bifreiðinni. Munu starfsmennirnir hafa tekið bifreiðina og ekið henni að bakaríinu. Komu stefndu þá á vettvang og var þeim tjáð að maðurinn sem tók bifreiðina hefði verið ógnandi í garð starfsmananna og hafi hann ætlað að aka á brott en þá hafi hann bakkað á steina og skemmt bifreiðina. Stefndu fengu lýsingu á stefnanda og hófu leit að honum og fundu hann skömmu síðar vestast á Norðurströnd. Kemur fram í lögregluskýrslu að stefnandi hafi verið í annarlegu ástandi og hafi hann viljað fara að Skólavörðustíg 9 eða í fangelsi þar. Hafi stefndu tilkynnt stefnanda að hann væri handtekinn vegna þjófnaðar og skemmdarverka og hafi stefnanda verið kynnt réttarstaða sín. Stefnandi minnist þess ekki að honum hafi verið kynnt tilefni handtökunnar eða réttarstaða sín sem handtekins manns. Stefndu lýsa atvikum svo að stefnandi hafi verið færður inn um afturdyr lögreglubifreiðarinnar og látinn setjast á bekk í vinstri hlið hennar alveg upp við aftursæti í miðjum bílnum. Hafi stefndi Heimir setið á hægri enda aftursætis við hliðarhurð og snúið aftur í bifreiðina, stefndi Friðrik á langbekk í vinstri hlið bifreiðarinnar við hlið stefnanda, en stefndi Vigfús á langbekk í hægri hlið andspænis stefnanda og stefnda Friðriki. Hafi stefndi Heimir beðið stefnanda um að sýna hvað hann væri með í vösum sínum eða heimila leit á honum. Við þetta æstist stefnandi að sögn stefndu og hafi hann neitað að sýna í vasa sína, gert sig líklegan til að standa upp og fara út úr bifreiðinni. Þá hafi hann ýtt við stefnda Friðriki og öskrað að setja yrði hann í handjárn ef leita ætti á honum. Töldu stefndu að vegna viðbragða og annarlegs ástands stefnanda hafi ekki verið um annað að ræða en setja hann í handjárn. Hafi stefndi Friðrik tekið í hægri hönd hans en stefndi Heimir í þá vinstri. Hafi stefnandi ekki sinnt fyrirmælum um að hætta mótþróa og hafi hann brotist um, barið og sparkað. Hafi stefndu Friðrik og Heimir þá tekið um hendur stefnanda með hefðbundnu lögreglutaki en stefndi Vigfús hafi reynt að hemja fætur hans. Stefnandi, sem að mati stefndu var stór og sterkur, hafi veitt mikla mótspyrnu og barist kröftuglega um þannig að erfiðlega gekk að leggja hann í gólfið svo hægt væri að handjárna hann. Meðan á þessu hafi staðið hafi heyrst smellur í öðrum handlegg stefnanda og hafi honum þá þegar verið sleppt úr tökum. Stefnandi lýsir atvikum svo að stefndu hafi viljað leita á honum og hafi hann þá tjáð þeim að hann vildi ræða við lögfræðing og færi leitin fram á lögreglustöðinni. Hafi stefndu þá ráðist á hann og hann tekið á móti. Hafi honum verið skellt á gólfið og við það hafi hann hruflast á hægri kinn. Síðan hafi verið snúið harkalega upp á vinstri handlegg hans fyrir aftan bak og mikill þungi lagst ofan á hann.
Var stefnanda þegar ekið á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og var honum tekið blóð og þvag til rannsóknar, en amfetamín hafði fundist í fórum hans. Í niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfjafræði, dagsettri 30. október 1998, kom fram að etanól hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóði stefnanda en hins vegar hafi komið í ljós að magn amfetamíns í blóði var 22 ng/ml. Var tekið fram að magn amfetamíns í blóði stefnanda væri það mikið að telja mætti víst að hann hafi verið í vímu af völdum þess þegar sýnin voru tekin.
Í vottorði Leifs Jónssonar, læknis, dagsettu 3. nóvember 1998 segir svo m.a.: „Bólga er yfir miðjum upphandleggnum og eymsli eru þar við þreifingu. Einnig er verkur um axlarlið, olnbogalið og framhandlegg við þreifingu. Hann getur kreppt fingur, en segist ekki geta rétt. Sjúklingur lýsir dofatilkenningu í hönd og fingrum svarandi til n. ulnaris. Snertiskyn virðist þó í stórum dráttum í lagi Við skoðun hér á deildinni hafði sjúklingur ekki kvartanir frá öðrum líkamshlutum og ekki fundust aðrir áverkar en ofanskráðir. Ekkert mælir gegn því að sjúklingur hafi hlotið upphandleggsbrotið í átökum, til dæmis við það, að snúið hafi verið upp á handlegginn“.
Röntgenmyndir, sem teknar voru af upphandleggnum, sýndu brot á mótum mið- og fjærþriðjungs upphandleggs með beinbreiddar hliðrun. Eftir skoðun á Landspítalanum var stefnandi settur í gipsspelku og fetil og ákveðið að hann kæmi aftur fimm dögum síðar.
Í læknisvottorði Höskuldar Baldurssonar, dagsettu 3. nóvember 1999, segir svo m.a.: „Sjúklingur fær spiralbrot á vinstri upphandlegg á mótum miðhluta og neðsta þriðjungs leggjarins. Brot þetta er sett í réttar skorður og því fest með mergnagla og skrúfum fimm dögum eftir áverka. Brot hefst vel við og þrem mánuðum eftir brot má segja að brot sé gróið samkvæmt röntgenmyndum. Við upphaflegan áverka og brot fær sjúklingur jafnframt lömun á radialistaug í upphandlegg. Þetta er mjög vel þekktur áverki, þar sem radialistaugin vindur sig um upphandleggsbeinið og er mjög viðkvæm fyrir áverka. Oftar en ekki er áverkinn á radialistauginni tognunaráverki þannig að taugin verður óstarfhæf jafnvel í einhverja mánuði en nær sér síðan aftur. Þó getur komið fyrir að taug þessi höggvist í sundur af brotendum og verður þá ekki um bata að ræða nema hún sé saumuð saman og er bati þá jafnvel óviss. Í þessu tilfelli er taugin ekki í sundur og við síðustu skoðun er sjúklingur kominn með góða réttihreyfingu í fingur og úlnlið, þótt hann sé ekki kominn með fullan styrk. Það má því fastlega búast við að sjúklingur nái fullum styrkleika í réttihreyfingum í fingrum og úlnlið.“
Í ofangreindu vottorði segir svo enn fremur m.a.: „Sjúklingur kemur á bráðamóttöku Landspítalans þann 30.10.98 eða viku eftir útskrift. Sjúklingur er þá mjög bólginn á upphandlegg og framhandlegg með mikið mar niður eftir innanverðum handlegg allt fram á fingur. Á orðið mjög erfitt með hreyfingu í fingrum sökum bólgu, skurður á upphandlegg er fínn og engin merki um sýkingu. Sjúklingur er bæði án fatlans og púðans sem hann fékk við útskrift. Að sögn sjúklings hefur hann verið mikið á ferðinni og því ekki viljað nota fatla og púða vegna fyrirferðar. Við útskrift hafði verið haft samband við þann fulltrúa hjá Félagsmálastofnun sem hafði með mál sjúklings að gera en vistunarmál sjúklings og húsnæði voru í einhverri óreglu. Vegna hinnar miklu bólgu á handlegg var ákveðið að leggja sjúkling aftur inn þannig að hægt væri að fylgjast með handlegg og hafa í hálegu þar til bólga væri runnin af. Jafnframt yrði fengin sjúkraþjálfunarmeðferð til að hreyfa í liðum. Í þessari legu voru nýjar röntgenmyndir fengnar af upphandlegg og sást að brot sat áfram í óbreyttri og góðri stöðu.“
Í vottorði Alberts Páls Sigurðssonar, taugasérfræðings, dagsettu 18. apríl 2000 segir svo m.a.: „Kraftar á svæði vi. radialis taugar eru nú nær fullir. Sigurður ætti þess vegna að geta haft sæmileg not af hendinni. Hins vegar er hann með dofa og aukið húðnæmi á skynsvæði vi. radialis taugar sem mögulega getur hamlað honum í starfi. Ekki hefur hins vegar komið reynsla á hvort svo sé, þar sem Sigurður er enn ekki farinn að vinna né hefur heldur verið reynd meðferð við slíku ofurnæmi.“
Jónas Hallgrímsson, læknir, var fenginn til að meta afleiðingar áverkanna og samkvæmt matsgerð hans dagsettri 18. maí 2000 var niðurstaða hans svohljóðandi: „Við áverkann hlaut Sigurður slæmt brot á vinstri upphandlegg og jafnframt skemmd á radialis taug (sveifartaug) sem er nú að líkindum komin í varanlegt horf. Samkvæmt áliti taualæknis hefur hann náð nær fullum krafti á svæði taugarinnar. Hann hefur enn dofa og aukið húðnæmi (ofurviðkvæmni) á skynsvæði taugarinnar. Einnig má rekja til áverkans kulvísi og álagsverki í vinstri hönd, vöðvarýrnun á vinstra upphandlegg og vinstra framhandlegg og skerta hreyfigetu í vinstra axlarlið og vinstra úlnlið.“ Læknirinn taldi ólíklegt að stefnandi kæmist til sjómennsku aftur og taldi ekki um tímabundið atvinnutjón að ræða þar sem stefnandi hafi ekki verið í starfi þegar hann slasaðist. Hann taldi stefnanda hafa verið veikan í skilningi skaðabótalaga í eitt ár frá slysdegi, þar af rúmliggjandi í tíu daga. Varanlegur miski var metinn 25% og varanleg örorka 50%.
Málinu var vísað til örorkunefndar og í áliti hennar dagsettu 13. mars 2002 segir að eftir 1. nóvember 1999 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum slyssins. Taldi nefndin varanlega miska stefnanda vera hæfilega metinn 15%. Þá taldi nefndin að afleiðingar slyssins valdi því að stefnandi eigi ekki kost á að snúa aftur til fyrri starfa á sjó og að vinna sem hann muni eiga kost á í landi sé til muna verr launuð en þau störf er hann annars hefði unnið. Taldi nefndin varanlega örorku stefnanda hæfilega metna 35%.
Stefnandi var ákærður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að taka umrædda bifreið í heimildarleysi og aka henni ófær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu amfetamíns. Þá var stefnanda gefið að sök að hafa brotið gegn fíkniefnalöggjöf með því að hafa í fórum sínum 0,26 g af amfetamíni. Var stefnandi sakfelldur fyrir þessi brot og fleiri 17. febrúar 1999 og hlaut hann fjársekt, fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi og þriggja mánaða ökuréttarsviptingu. Þá var hann dæmdur til að þola upptöku amfetamínsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að valdbeiting lögreglu umrætt sinn hafi verið algerlega að nauðsynjalausu. Hann hafi sætt sig við handtöku og farið án átaka inn í lögreglubifreiðina. Hann hafi hins vegar ekki sætt sig við leit við þessar aðstæður og óskað eftir því að leitin færi fram á lögreglustöð í viðurvist lögmanns. Átökin sem orðið hafi í lögreglubifreiðinni í framhaldi af synjun stefnanda um leit hafi verið án tilefnis, enda verði leit á manni án samþykkis hans ekki gerð nema með dómsúrskurði. Stefnandi telur sig hafa verið beittan miklu harðræði og telur óumdeilt að líkamstjón hans hafi verið á ábyrgð eins hinna stefndu lögreglumanna. Þar sem tjóninu hafi verið valdið í störfum hans sé stefndi íslenska ríkið einnig ábyrgt in solidum á grundvelli húsbóndaábyrgðar. Sé öllum lögreglumönnunum, sem voru aftur í lögreglubifreiðinni, stefnt, enda hafi ekki fengist svör um það frá lögreglustjóranum í Reykjavík hver hafi átt hlut að máli.
Stefnandi byggir á reglum íslensks skaðabótaréttar, ákvæðum skaðabótalaga og niðurstöðu örorkunefndar um tjón stefnanda og sundurliðar kröfu sína þannig að þjáningabætur séu kr. 334.920, bætur fyrir 15% varanlegan miska séu kr. 803.486 og bætur fyrir 35% varanlega örorku að teknu tilliti til 8% lækkunar vegna aldurs séu kr. 7.365.463. Stefnandi segir fjárhæð varanlegrar örorku þannig reiknaða að árslaunum 1997 kr. 1.857.280 sé skipt í 12 hluti og sé hver hlutur kr. 154.773. Helmingur af þeim hlut sé kr. 77.386. Tveir og hálfur hluti af tekjum 1997 geri því kr. 386.926. Árslaun 1998 séu kr. 1.757.768. Þegar þeim sé skipt í 12 hluti sé hver hlutur kr. 146.480 og hálfur hlutur kr. 73.240. Níu og hálfur hlutur geri því kr. 1.391.560. Fáist þá niðurstöðutalan kr. 1.778.486. Töpuð 6% lífeyrisréttindi séu kr. 106.709 og tekjugrunnur því kr. 1.885.195. Lánskjaravísitala í október 1998 hafi verið 3609, en í apríl 2002 4379. Verði tekjugrunnurinn því kr. 2.287.411.
Vaxtakrafa er reist á 16. gr. skaðabótalaga og dráttarvaxtakrafa er byggð á vaxtalögum. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins.
Stefndi mótmælir því að bótaskylda verði lögð á hann þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði almennra fébótareglna. Sé óljóst á hvaða réttarheimildum stefnandi byggi bótakröfur sínar. Hann vísi til 1. gr. skaðabótalaga, en þau lög taki ekki til stofnunar bótaábyrgðar. Þá vísi stefnandi til húsbóndaábyrgðar og reglna íslensks skaðabótaréttar. Verði málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn öðru vísi en svo að byggt sé á því að saknæm og ólögmæt háttsemi starfsmanna stefnda hafi valdið honum tjóni. Sé engri hlutlægri bótaábyrgð til að dreifa við þessar aðstæður. Stefndi mótmælir bótakröfum stefnanda þar sem engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa af hálfu hinna stefndu lögreglumanna. Sé því skilyrði húsbóndaábyrgðar ekki uppfyllt.
Byggir stefndi á því að lögreglumönnunum hafi verið rétt og skylt að handtaka stefnanda þar sem rökstuddur grunur lék á því að hann hefði framið brot sem sætt gæti ákæru, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Hafi stefnandi verið undir áhrifum amfetamíns og þá sýndi hann mótþróa við handtökuna. Hafi því verið ljóst að beita þyrfti hann tökum til að koma honum í járn.
Stefndi byggir á því að samkvæmt 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé almenningi skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu. Þá sé handhöfum lögregluvalds heimilt með vísan til 14. gr. laganna að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna, en aldrei megi þeir ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Þá skulu lögreglumenn gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur og ekki megi þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum eða á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum, sbr. 2. mgr. 13. gr. laganna. Sé því valdbeiting lögreglu lögmæt athöfn en mótþrói gegn fyrirmælum lögreglu almennt ólögmæt athöfn.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið undir áhrifum amfetamíns þegar hann sýndi mótþróa við handtökuna. Hafi lögreglumönnunum því verið fyllilega heimilt að leita á honum samkvæmt 17. gr. lögreglulaga. Sé um að ræða sérstaka leitarheimild sem miði að því að lögregla fái gegnt því lögmæta hlutverki sínu að halda uppi lögum og reglu og að hún geti framkvæmt öryggisleit strax ef ástæða er til. Ber að aðgreina slíka heimild frá þeirri heimild sem lögregla hafi samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og eru liður í rannsókn einstakra mála. Stefndi vísar einnig til 2. og 3. mgr. 101. gr. laga nr. 19/1991 og mótmælir því að þurft hefði að afla dómsúrskurðar til að leita á stefnanda strax við handtöku, enda þurfi að tryggja öryggi lögreglumanna við þessar aðstæður.
Stefndi byggir á því að lögreglu hafi verið rétt og skylt að óska eftir því að stefnandi sýndi þeim í vasa sína, en í stað þess að verða við því æstist hann og ætlaði að rísa upp, en var þá haldið niðri. Í beinu framhaldi af því hafi hann öskrað að það yrði að setja hann í handjárn ef til stæði að leita á honum og byrjaði þegar að sparka og brjótast um. Þá fyrst hafi verið ákveðið að handjárna hann og mun hann hafa handleggsbrotnað þegar leggja þurfti hann á gólfið. Stefnandi hafi verið stór og sterkur og hafi gengi erfiðlega að koma honum í járn þar sem hann barðist kröftuglega um og sparkaði. Hljóti lögreglumenn sérstaka þjálfun til að bregðast við aðstæðum sem þessum og verði ekki annað ráðið en þeir hafi beitt réttum tökum og forsvaranlegum aðferðum.
Byggir stefndi á því að við handtöku stefnanda hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hann hefði framið brot sem varðað gæti fangelsi allt að 6 árum. Þá hafi stefnandi sýnt mótþróa og verið undir áhrifum fíkniefna. Verði að skoða valdbeitingu lögreglunnar í þessu ljósi. Sé ljóst að hefði stefnandi engan mótþróa sýnt hefði ekki þurft að handjárna hann eða beita hann tökum. Sé tjón stefnanda því afleiðing af mótþróa hans sjálfs og að öllum líkindum vegna vímuáhrifa. Hafi áverkar stefnanda orðið vegna átaka sem hann hafi sjálfur stofnaði til og með hátterni sínu hafi hann brotið gegn 16., 17. og 19. gr. lögreglulaga.
Stefndi byggir á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að lögreglumennirnir hafi valdið handleggsbrotinu á saknæman og ólögmætan hátt. Hafi slík sönnun ekki tekist og sé hvorki um að ræða ásetning né gáleysi lögreglumannanna og hafi þeir haft lögmæta ástæðu til að beita stefnanda valdi í hlutfalli við mótspyrnu hans. Þá byggir stefndi einnig á því að stefnandi hafi fallið frá kæru á hendur lögreglumönnunum fyrir líkamsmeiðingar og þá hafi ríkissaksóknari komist að þeirri niðurstöðu að framkomin gögn hafi ekki leitt til þess að frekar yrði aðhafst í málinu.
Stefndi mótmælti í greinargerð bótakröfu stefnanda sem rangri og ósannaðri, enda væri hún ekki rökstudd með vísan til þeirra réttarreglna sem gildi um bætur fyrir líkamstjón. Þá mótmælti stefndi mati Jónasar Hallgrímssonar og taldi að leita ætti álits örorkunefndar á tjóni stefnanda. Eftir að álit örorkunefndar lá fyrir gerði stefndi ekki athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar um varanlegan miska og varanlega örorku. Stefndi byggir þó á því að stefnandi beiti rangri aðferð við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku og sé sú aðferð ekki í samræmi við ákvæði 7. gr. skaðabótalaga í því horfi sem hún var þegar stefnandi slasaðist. Verði árslaun 1997 ekki lögð til grundvallar heldur beri samkvæmt 7. gr. laganna að leggja til grundvallar heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Sé ekki átt við almanaksár heldur tekjur síðustu tólf mánuði fyrir tjónsdag. Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda um þjáningabætur og segir hana byggða á mati Jónasar Hallgrímssonar. Bendir stefndi á að eftir 21. janúar 1999 hafi stefnandi ekki verið í læknismeðferð. Þá segir stefndi kröfuna yfir því hámarki sem sett sé í skaðabótalögunum.
Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi við komu á slysadeild hafnað þeirri læknismeðferð sem læknar hafi ráðlagt honum og hafi hann neitað að fara strax í aðgerð. Hann hafi ekki farið að fyrirmælum lækna síðar og við endurkomu eftir aðgerð hafi hann ekki verið með fetil eða púða sem settur hafi verið til að skorða höndina. Hann hafi því ekki takmarkað tjón sitt og verulegar líkur séu til þess að þessi framganga hans hafi tafið fyrir bata eða gert ástand hans verra en ætlast mætti til.
Stefndi rökstyður varakröfu sína með sama hætti og byggir á því að skipta beri sök þannig að stefnandi verði látinn bera stærsta hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta og telur að miða eigi við dómsuppkvaðningu.
Stefndi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök annarra stefndu.
Hinir stefndu lögreglumenn byggja á því að þeir séu ekki bótaskyldir gagnvart stefnanda vegna handtökunnar þar sem ekki séu til staðar skilyrði skaðabótareglna fyrir bótaskyldu. Þeir mótmæla því að þeir hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti en stefnandi hafi verið handtekinn með lögmætum hætti og þess óskað að leita á honum í samræmi við heimild lögreglu til handtöku og leitar. Að öðru leyti vísast til málsástæðna og lagaraka stefnda íslenska ríkisins hér að framan.
Dómskýrslur.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að honum hafi hvorki verið kynnt ástæða handtökunnar né hafi honum verið kynnt réttarstaða hans sem handtekins manns. Þá kvað hann sér ekki hafa verið tjáð tilefni leitar. Hann kvaðst fljótlega hafa verið ofurliði borinn og hafi honum verið skellt harkalega í gólf lögreglubifreiðarinnar og tekið vel á honum. Hann kvaðst hafa fundið þrýsting á bakið, spennu og sársauka í hendi. Þá fannst honum eins og lamið hefði verið með hamri á beinið. Stefnandi kvaðst ekki hafa verið í aðstöðu til að veita viðnám, enda hafi þrír legið ofan á honum. Hann taldi ekki að ásetningur lögreglumannanna hafi staðið til að brjóta hönd hans. Stefnandi kvaðst vera 178 cm að hæð og vega 90 kg, en á þessum tíma hafi hann verið 80 kg. Hann kvaðst ekki hafa verið sterkur, enda í fíkniefnaneyslu.
Stefndi Vigfús skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hefði verið beðinn að tæma vasa sína, en athuga átti hvort hann væri með sprautu eða einhver vopn á sér, en hann hafi brugðist illa við og ætlað að rjúka upp. Hann kannaðist ekki við að stefnandi hefði beðið um lögmann. Vigfús kvað stefnda Friðrik hafa haldið stefnanda niðri, en hann hafi barist um með ógnandi tilburðum og haft á orði að fyrst yrði að handjárna hann. Hann hafi þá verið lagður á gólfið í þeim tilgangi að handjárna hann og í því hafi heyrst smellur. Hann kvað ekki um annað að ræða í stöðunni en taka hann tökum.
Stefndi Friðrik skýrði svo frá fyrir dómi að aðeins hafi verið beitt þeim tökum sem nauðsynleg hafi verið til að koma stefnanda í handjárn. Hann mundi ekki eftir því að stefnandi hefði beðið um lögmann. Hann kvað að framkvæma hafi átt öryggisleit á stefnanda og ekki mundi hann eftir því að hann hefði beðið um lögmannsaðstoð.
Stefndi Heimir skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hafi neitað leit og öskrað. Hann kvað stefnanda hafa verið kynnt réttarstaða sín á leiðinni í bifreiðinni. Hann kvað stefnanda hafa virkað einkennilegur og þá kvað hann það venju að biðja menn að sýna í vasa sína, enda um öryggisráðstöfun að ræða. Kvað Heimir að lögreglubifreiðin hafi verið á ferð og hafi stefnandi verið æstur. Hann kvað þá ekki hafa beitt óþarflega mikilli hörku, en stefnandi hafi barist um og reynt að losa sig úr tökunum.
Niðurstaða.
Skilja verður málatilbúnað stefnanda á hinum stefndu lögreglumönnum á þann veg að byggt sé á því að þeir beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda eftir almennum skaðabótareglum. Kröfur stefnanda á hendur stefnda íslenska ríkinu byggjast á því að þar sem stefndu hafi valdið stefnanda tjóni í störfum sínum sem lögreglumenn beri stefndi íslenska ríkið bótaábyrgð á því á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Gerir stefnandi kröfur um óskipta bótaábyrgð allra stefndu.
Í máli þessu er nægilega upplýst að stefnandi handleggsbrotnaði inni í lögreglubifreið er hinir stefndu lögreglumenn freistuðu þess að færa hann í handjárn. Stefnandi var grunaður um að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi og var hinum stefndu lögreglumönnum rétt að handtaka hann og færa til yfirheyrslu á lögreglustöð. Gerir stefnandi ekki athugasemdir við þetta mat stefndu. Ágreiningur aðila snýst um það hvort nauðsyn hafi borið til að leita á stefnanda í lögreglubifreiðinni og hvort honum hafi verið kynntur réttur hans sem handtekins manns til að njóta aðstoðar lögmanns. Heldur stefnandi því fram að ekki hafi verið heimilt að leita á honum án undangengins dómsúrskurðar. Stefndu halda því fram að sökum mótþróa stefnanda beri hann einn ábyrgð á tjóni sínu, en hann hafi sjálfur stofnað til átakanna með hátterni sínu og vímuefnaneyslu.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt ef ástæða er til að leita að vopnum eða öðrum hættulegum munum á hverjum þeim sem fjarlægður er eða handtekinn af lögreglu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er lögreglu heimilt að leita á manni sem vistaður er í fangageymslu og taka til varðveislu muni sem hann hefur á sér og hann getur notað til þess að vinna tjóna á sjálfum sér eða öðrum. Fram kom í framburði hinna stefndu lögreglumanna að stefnandi hafi verið beðinn að sýna í vasa sína af öryggisástæðum og virðist ætlun þeirra hafa verið sú að ganga úr skugga um að stefnandi væri hvorki með sprautur né vopn í fórum sínum. Fram hefur komið að stefnandi var í annarlegu ástandi og jafnframt höfðu stefndu fengið fregnir af því að hann hefði sýnt ógnvekjandi framkomu þá skömmu áður. Þá hefur komið í ljós að stefnandi var undir áhrifum amfetamíns. Má því fallast á að ástæða hafi verið til, eins og atvikum málsins var háttað, að leita á stefnanda eða skora á hann að sýna fram á að hann hefði enga hættulega hluti meðferðis. Var stefnanda því skylt að hlýða fyrirmælum stefndu þar að lútandi.
Fram hefur komið að stefnandi var kominn inn í lögreglubifreiðina þegar hann var beðinn um að sýna í vasa sína. Þá var upplýst við yfirheyrslur að lögreglubifreiðin var á ferð þegar stefndu tóku þá ákvörðun að setja stefnanda í handjárn sökum mótþróa hans. Verður að telja það gáleysi af hálfu stefndu að leita ekki á stefnanda áður en hann var færður inn í lögreglubifreiðina, enda mátti þeim vera ljóst af ástandi hans og lýsingu af viðbrögðum hans skömmu áður að brugðið gæti til beggja vona með viðbrögð hans við leitarbeiðni stefndu.
Gera verður ráð fyrir að stefndu hafi sem lögreglumenn hlotið sérstaka þjálfun í að handjárna handtekna menn. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga skulu handhafar lögregluvalds gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum. Fram hefur komið að stefnandi sýndi mikinn mótþróa og barðist um á hæl og hnakka. Stefndu voru hins vegar þrír og verður að ætla að sá liðsmunur hefði átt að duga til að yfirbuga stefnanda. Hafa ber í huga að lögreglubifreiðin var á ferð og bar stefndu við þær aðstæður að sýna ýtrustu varkárni. Afleiðingar aðgerða stefndu urðu hins vegar þær að stefnandi handleggsbrotnaði. Verður tjón stefnanda því rakið til gáleysis hinna stefndu lögreglumanna sem þeir bera allir ábyrgð á eftir almennum skaðabótareglum. Hinir stefndu lögreglumenn tóku þátt í lögregluaðgerð er stefnandi slasaðist og ber stefndi íslenska ríkið því skaðabótaábyrgð eftir reglunni um vinnuveitandaábyrgð.
Eins og rakið hefur verið sýndi stefnandi mikinn mótþróa og sinnti ekki lögmætum fyrirmælum stefndu. Þykir stefnandi því að nokkru bera sjálfur ábyrgð á lemstrum sínum og verður hann af þeim sökum látinn bera þriðjung tjónsins. Ekki hefur að mati dómsins verið sýnt fram á með læknisfræðilegum gögnum að hátterni stefnanda eftir að hann slasaðist hafi tafið fyrir bata hans eða gert ástand hans verra en ella.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um þá niðurstöðu örorkunefndar að varanlegur miski stefnanda sé 15% og varanleg örorka 35%. Ágreiningur er hins vegar um þjáningabætur. Örorkunefnd var ekki falið að meta hvort stefnandi ætti rétt á þjáningabótum og byggir stefnandi því kröfu sína á því áliti Jónasar Hallgrímssonar, læknis, að stefnandi hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga í eitt ár frá slysdegi. Í áliti Jónasar kemur fram að stefnandi hafi hlotið slæmt brot og skemmd á taug. Megi ætla að eðlilegur vöxtur á tauginni frá skemmda svæðinu á upphandlegg og fram til fingra sé að lágmarki sex mánuðir. Síðan verði að ætla stefnanda aðra sex mánuði til endurhæfingar. Stefnandi hafi verið rúmliggjandi í samtals tíu daga vegna aðgerðarinnar. Þessu mati læknisins hefur ekki verið hnekkt og verður byggt á því við úrlausn málsins. Gerir stefnandi kröfu um greiðslu á kr. 334.920. Hámarksbætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga eru hins vegar kr. 266.000, en að mati dómsins þykir mega nota heimildarákvæði 3. gr. laganna in fine og víkja frá fjárhæðum þeim er greinir í 1 málslið 3. gr. Verður krafa stefnanda því tekin til greina.
Ekki eru gerðar athugasemdir við kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlegan miska og verður krafa hans um greiðslu á kr. 803.486 tekin til greina.
Ágreiningur er um reikningsaðferð stefnanda að því er varðar varanlega örorku. Samkvæmt upplýsingum skattstjórans í Reykjavík námu tekjur stefnanda árið 1997 kr. 1.857.280 og árið 1998 kr. 1.757.768 eða samtals kr. 3.615.048. Lætur nærri að meðalmánaðartekjur stefnanda þessi ár hafi numið u.þ.b. kr. 150.000, eða kr. 1.807.524 á ársgrundvelli. Stefnandi miðar hins vegar við kr. 1.778.486 og þykir mega fallast á að sú viðmiðun sé í samræmi við ákvæði 7. gr. skaðabótalaga í því horfi sem hún var þegar stefnandi slasaðist. Verður krafa stefnanda um greiðslu á kr. 7.365.463 vegna varanlegrar örorku því tekin til greina.
Samkvæmt framansögðu er fallist á að tjón stefnanda sé kr. 8.503.869 og með hliðsjón af því er áður segir um eigin sök stefnanda verða stefndu dæmdir in solidum til að greiða honum tvo þriðju þess eða kr. 5.669.246. Ber sú fjárhæð vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 16. október 1998 til 25. apríl s.l., en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, en þann dag lá fyrir endanleg kröfugerð stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Sigurgeirssonar, hrl., kr. 900.000.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, íslenska ríkið, Vigfús Guðmundsson, Friðrik Brynjarsson og Heimir S. Haraldsson, greiði in solidum stefnanda, Sigurði Jóhannessyni, kr. 5.669.246 ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 16. október 1998 til 25. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Sigurgeirssonar, hrl., kr. 900.000.