Hæstiréttur íslands

Mál nr. 121/2014

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Bónus hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón


Dómsatkvæði

Skaðabótamál. Líkamstjón.

A krafði B hf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir er band af flaggstöng flæktist í hjóli A og hann féll af hjólinu. Byggði A á því að B hf. bæri sem umráðamaður viðkomandi fasteignar ábyrgð á slysinu þar sem starfsmenn félagsins hefðu ekki gengið frá böndum fánastangarinnar með fullnægjandi hætti. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að ekki nyti við neinna gagna sem sýndu fram á að orsök óhappsins væri að rekja til hirðuleysis starfsmanna B hf. við frágang flaggstangarinnar, en A bæri sönnunabyrði fyrir því að tjón hans hefði hlotist af saknæmri hegðun starfsmanna félagsins. Þá var ekki fallist á að B hf. gæti sem umráðamaður fasteignarinnar borið hlutlæga ábyrgð á tjóni A. Var félagið því sýknað af kröfu A.  

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2014. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar hann ,,hjólaði í band af flaggstöng og féll og slasaðist, við vegamót Holtavegar og Vatnagarða, þann 3. ágúst 2011.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að skaðabótaskylda hans verði einungis viðurkennd að hluta. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Bónus hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. september sl., var höfðað fyrir dómþinginu af A, […], á hendur Bónus hf., Skútuvogi 13, Reykjavík, og Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu 6. febrúar 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir er hann hjólaði í band af flaggstöng, féll af hjóli sínu og slasaðist, við vegamót Holtavegar og Vatnagarða, hinn 3. ágúst 2011.  Þá er þess krafist að hinu stefnda félagi verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

                Stefndi, Bónus hf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.          

II

                Stefnandi kveðst hafa verið á leið til vinnu sinnar á reiðhjóli sínu er atvik urðu.  Þegar hann hafi verið komið að vegamótum Holtavegar og Vatnagarða hafi hann beygt til vesturs inn Vatnagarða, og flækst þar í bandi af flaggstöng við verslunarreitinn Holtagarða.  Viðkomandi húsnæði sé í eigu Reita hf., en sé leigt til Haga hf., sem reki þar Bónusverslun.  Slysið hafi orðið á þeim tíma dags þegar ekki sé búið að flagga fánum verslunarinnar.  Vindur hafi verið á umræddum tíma og hafi böndin flaksað inn á akveginn, þar sem stefnandi hafi hjólað með þeim afleiðingum að bandið flæktist í reiðhjóli hans þannig að hann hafi fallið við og slasast. 

                Stefnandi kveður flaggstöngina ekki hafa verið af hefðbundinni gerð.  Flaggstangirnar standa uppi á háum kanti, u.þ.b. þriggja til fjögurra metra kanti við umferðargötu og svo virðist sem staðið sé niðri á umráðasvæði stefnda þegar flaggað er svo unnt sé að losa böndin.  Böndin sem flaggað er með ná síðan vel niður kantinn, u.þ.b. tvo og hálfan metra.  Böndin þurfa því að vera löng til þess að hægt sé að vinna við þau neðan frá. 

Í slysinu 3. ágúst 2011 hlaut stefnandi samfallsbrot á hryggjarlið, samkvæmt framlögðu læknisvottorði.

Stefnandi hefur sótt bætur í launþegatryggingu […] hjá Sjóvá hf.  Af því tilefni kveðst hann hafa aflað sér sérfræðimats B lögfræðings og C læknis.  Þar kemur fram að stefnandi hafi hlotið 10 stiga læknisfræðilega varanlega örorku.

Stefnandi bar álitaefnið undir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum.  Fyrst var beðið um úrskurð varðandi eiganda fasteignarinnar Reita hf., en það félag er ekki umráðamaður fasteignarinnar.  Síðan bað stefnandi um úrskurð er varðaði ábyrgð leigjanda fasteignarinnar, Haga hf.  Niðurstaða nefndarinnar var sú að hvorki stefndi né Hagar hf.  bæru ábyrgð á tjóni stefnanda.

Stefndi, Bónus hf. og tryggingarfélag þess, Tryggingamiðstöðin hf., hafa hafnað bótaskyldu.

III

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að leggja verði þá skyldu á rekstraraðila og yfirráðamenn fasteigna, að aðstæður á og við umráðasvæði þeirra skapi ekki hættu fyrir fólk, sem þar á leið um og þeim sem fara þurfi um svæðið.  Byggir stefnandi á sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og reglunni um vinnuveitandaábyrgð.  Einnig byggir stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð á slysinu sem rekja megi til hættueiginleika vegna lengdar á böndum flaggstanganna, samkvæmt reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð fasteignaeigenda eða í þessu tilviki umráðamanns fasteignarinnar, eða þess atvinnurekanda sem hafði með rekstur fasteignarinnar að gera.

                Byggt er á því að leggja verði þá skyldu á yfirráðamenn fasteigna og vinnustaða að hlutir sem tengist atvinnustarfsemi þeirra skapi ekki hættu gangandi, hlaupandi, hjólandi eða akandi vegfarendum.  Ef aðstæður, líkt og lýst sé hér að ofan, geta leitt til einhverrar hættu sé það skylda yfirráðamanna að draga úr þeirri hættu eins og framast er unnt.

                Yfirráðamanni fasteignarinnar eða rekstraraðila hennar hafi verið í lófa lagið að tryggja að gengið yrði frá viðkomandi böndum að kvöldi.  Einnig hefði verið möguleiki á að hafa þyngingar á endum bandanna svo þau myndu ekki flaksast um í miklum vindi.  Ljóst sé að ekki sé um hefðbundið fyrirkomulag að ræða þar sem böndin sem notuð séu í viðkomandi flaggstöngum séu mörgum metrum lengri en venjulega tíðkist svo hægt sé að flagga neðan af umráðasvæði stefnda.  Ljóst megi vera að óvenjuleg lengd bandanna valdi því að þau skapi hættu þeirri umferð sem fari um götu eða göngustíg fyrir ofan, ef þau séu laus og nái að fjúka yfir kantinn.

                Stefnandi byggir á því að aðstæður á vegamótum Holtavegar og Vatnagarða hafi verið með þeim hætti að laus bönd af flaggstöngum stefnda hafi skapað hættu þeirri umferð sem átt hafi leið um götuna og hafi orðið til þess að stefnandi hafi flækst í viðkomandi böndum og slasast.

                Byggir stefnandi á því að stefndi beri sök á slysi hans á grundvelli sakar starfsmanna sinna, og kveðst stefnandi hér vísa til svokallaðrar uppsafnaðrar sakar ótilgreindra starfsmanna stefnda.  Byggist sú sök á því að ekki hafi verið gengið með forsvaranlegum hætti frá böndum flaggstanganna að kvöldi 2. ágúst 2011, sem leitt hafi til þess að böndin hafi verið laus að morgni þess 3. sama mánaðar.  Hér byggi stefnandi á sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og reglunni um vinnuveitandaábyrgð.

                Byggir stefnandi einnig á því að sök stefnda liggi í því að honum hafi mátt vera ljóst að böndin gætu skapað hættu fykju þau yfir veginn og inn á umferðargötu og hafi stefndi því átt að gera ráðstafanir svo að það myndi ekki henda.  Hefði stefnda verið í lófa lagið að setja þyngingar á böndin eða ganga með tryggum hætti frá þeim þannig að þau gætu ekki fokið yfir kantinn. 

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi sjálfur átt þátt í tjóni sínu með því að sýna af sér gáleysi umrætt sinn.  Gögn málsins beri það ekki með sér og ekki sé sanngjarnt að ætlast til þess að hann hefði átt að vara sig á svífandi böndum í alfaraleið.  Stefnda beri að sanna að svo hafi verið, en honum hafi ekki tekist sú sönnun.

                Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar eða sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.  Þá vísar stefnandi til laga  um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.  Einnig vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að skilyrði sakarreglunnar um að tjón stefnanda hafi hlotist af saknæmri og ólögmætri afhöfn stefnda eða athafnaleysi sé ekki til staðar og að ekki hafi verið sýnt fram á að tjónið sé sennileg afleiðing athafnar eða athafnaleysis stefnda.

                Morguninn sem slysið varð, hinn 3. ágúst 2011, hafi veður verið með besta móti í Reykjavík.  Samkvæmt veðurfarsupplýsingum hafi hitastig kl. sjö að morgni verið 12,1° C. vindhraði hafi verið 4m/s og engin úrkoma.  Aðfararnótt 3. ágúst hafi vindhraði verið 3,5-5,6 m/s.  Eins og rakið sé í málavaxtalýsingu séu fánar á flaggstöngum stefnda teknir niður þegar versluninni sé lokað síðdegis.  Það hafi verið gert kvöldið sem slysið varð, eins og alla aðra daga.  Eftir að fánarnir séu teknir niður sé flöggunarböndunum vafið margsinnis utan um þar til gerða plasthólka.  Ómögulegt sé að böndin losni af sjálfsdáðum, jafnvel þótt vindur hefði verið margfalt meiri en umrædda nótt.  Slíkt hafi heldur aldrei gerst þau 23 ár sem stefndi hafi stundað verslunarrekstur og flaggað vörumerki sínu með um 140 fánum daglega.  Allur frágangur flöggunarbandanna hafi verið hefðbundinn og tryggilega frá þeim gengið og með sama hætti og almennt gerist um sambærilegar flaggstangir sem séu mörg þúsund á höfuðborgarsvæðinu.

                Stefndi kveðst ekki hafa fengið vitneskju um umrætt slys fyrr en réttargæslustefndi hafi upplýst hann um framkomna skaðabótakröfu meira en sex mánuðum eftir slysið.  Umræddan morgun hafi verslunin verið opnuð kl. 11 og starfsemi því ekki hafin er slysið hafi orðið og ekki búið að flagga.  Stefnda hafi því með öllu verið ómögulegt að kanna orsakir þess að bönd einnar flaggstangarinnar hefðu losnað en stefnandi hafi aldrei haft fyrir því að upplýsa stefnda um slysið sem hann hefði getað gert sama dag og slysið varð.

                Til þess að almenna skaðabótareglan eigi við verði tjónþolinn að sýna fram á að tjónið megi rekja til ásetnings eða gáleysis stefnda eða starfsmanna hans.  Sönnunarbyrðin hvíli hér á stefnanda.  Sömu sjónarmið eigi við um svonefnda vinnuveitandaábyrgð.  Vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á hegðun starfsmanna sinna nema sýnt sé fram á að hún hafi ekki verið með þeim hætti sem almennt sé krafist af viðkomandi starfsmanni.  Í máli þessu liggi alls ekki fyrir að slysið sé sennileg afleiðing vítaverðrar vanrækslu starfsmanna stefnda sem vinnuveitandi starfsmanna, stefndi, beri ábyrgð á.  Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til álits Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, en þar segi: „Ekki verður ráðið af gögnum málsins að starfsmenn Bónuss hafi vitað af því að bönd fánastanganna hafi verið laus á þessum tíma eða að þeir hafi búið þannig um fánastangirnar kvöldið áður að meta megi þeim til sakar.  Ekki verður heldur lögð svo rík skylda á umráðamenn fasteignar, hvort sem um er að ræða leigutaka eða rekstraraðila verslunar, að þeir hafi sólarhringsvakt með umbúnaði sem þessum.  Ekki verður lögð skaðabótaábyrgð á Bónus eða H, sem er eignarhaldsfélag það sem leigir húsnæði það sem Bónus er með starfsemi í að Holtagörðum 10.“  Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að tjónið verði rakið til sakar eða gáleysis stefnda eða starfsmanna hans beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

                Varakröfu sína um að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti byggja stefndu annars vegar á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 og hins vegar almennum reglum skaðabótaréttarins um eigin sök tjónþola.

                Í umferðarlögum séu gerðar almennar kröfur til vegfarenda og beri þeim öllum að sýna tillitsemi og varúð.  Reiðhjól sé í lögunum skilgreint sem ökutæki og þar af leiðandi séu hjólreiðamenn jafnframt ökumenn.  Ríkar skyldur séu lagðar á ökumenn að sýna aðgæslu og haga akstri sínum með tilliti til aðstæðna.  Það sé mat stefndu að stefnandi hafi ekki sýnt þá aðgæslu sem almennt verði að gera kröfu um.  Ekkert liggi fyrir um hvenær flöggunarböndin hafi losnað en gera megi ráð fyrir að fjöldi ökutækja hafi farið um götuna, Vatnagarða, án þess að flöggunarböndin hafi verið til trafala.  Þá verði að gera ráð fyrir að ökumaður sem sýni tilætlaða aðgæslu hefði átt að sjá flöggunarböndin tímanlega og getað hægt á akstrinum eða stöðvað hann.  Leiða megi líkum að því þegar litið sé til áverka stefnanda að hann hafi verið á það mikilli ferð þegar slysið varð, að hann hafi ekki getað stöðvað reiðhjólið þegar flöggunarböndin hafi blasað við honum.  Slysið verði því að hluta rakið til eigin sakar stefnanda.  Varhugaverður akstur hans eigi að leiða til þess að hann beri verulegan hluta tjóns síns sjálfur.

                Um lagarök vísa stefndu til umferðarlaga nr. 50/1987 og skaðabótalaga nr. 50/1993.  Einnig vísa stefndu til almennu skaðabótareglunnar, sem og meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar.

                Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Eins og rakið hefur verið hér að framan kveðst stefnandi hafa dottið af hjóli sínu 3. ágúst 2011 er band af flaggstöng við vegamót Holtavegar og Vatnagarða flæktist fyrir hjólinu.  Í málinu er deilt um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir við það að falla af hjólinu.

                Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að við þá byltu að falla af hjóli sínu brotnaði stefnandi á fyrsta lendarlið.  Engin vitni voru að slysinu, en samkvæmt framburði vitnis sem kom á vettvang skömmu síðar var þar laust band fánastangar sem þar var.  

                Stefnandi byggir á því aðallega að tjón hans hafi hlotist af saknæmri hegðun starfsmanna stefnda, með því að ekki hafi verið gengið nægjanlega vel frá böndum fánastangarinnar, en einnig, að því er virðist, á hættueiginleika flaggstanganna, sem stefndi beri ábyrgð á, sem umráðamaður fasteignarinnar.  

                Við upphaf aðalmeðferðar fór dómari, lögmenn aðila og stefnandi á vettvang og skoðuðu aðstæður á slysstað.

Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að tjón hans hafi hlotist af saknæmri hegðun starfsmanna stefnda.  Ekki fór fram skoðun á slysstað í kjölfar slyssins, en stefndi fékk fyrst að vita um atvik er rúmir sex mánuðir voru liðnir frá slysinu.  Í málinu nýtur ekki við neinnar sönnunar um það að orsök óhappsins sé að rekja til hirðuleysis við frágang flaggstanga, eða að frágangur þeirra hafi verið með öðrum hætti en hefðbundið er og teljast má eðlilegt.  Með því að stefnandi hefur á engan hátt, hvorki með gögnum né á annan veg, sýnt fram á eða gert það sennilegt að orsök þess að hann féll af hjóli sínu umræddan dag megi rekja til sakar stefnda verður stefndi ekki látinn bera ábyrgð á því tjóni hans sem af því hlaust, en ekki verður fallist á það með stefnanda að stefndi geti borið hlutlæga bótaábyrgð á slysi stefnanda, vegna hættueiginleika flaggstanga.  Þegar af þeirri ástæðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Bónus hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu,

                Málskostnaður fellur niður.