Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Yfirmat
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gerðu Byr sparisjóður, sem nú ber heiti varnaraðila, og sóknaraðili með sér samning 9. október 2007 sem nefndur var fjármögnunarsamningur. Í þeim samningi kom fram að sóknaraðili væri eigandi að lóð sem tæki til norðvestur hluta svonefnds Héðinsreits, en hann afmarkaðist af Mýrargötu, Seljavegi, Vesturgötu og Ánanaustum. Fyrirhugað væri að reisa á reitnum 192 íbúðir og 221 bílastæði. Í 2. grein samningsins var mælt fyrir um þá skyldu varnaraðila að lána sóknaraðila ,,fé til framangreindra byggingarframkvæmda ... á grundvelli verksamnings milli“ sóknaraðila og tilgreinds verktaka. Gert var ráð fyrir að heildarkostnaður framkvæmda yrði 4.712.000.000 krónur og skyldi varnaraðili lána alla þá fjárhæð. Varnaraðili rifti samningnum 12. júní 2008 en sóknaraðili andmælti riftuninni og taldi hana ólögmæta. Höfðaði sóknaraðili mál þar sem krafist var viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna riftunarinnar. Með dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2011 í máli nr. 87/2011 var fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sóknaraðila sem leiddi af riftuninni.
Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur varnaraðila 22. apríl 2010 og skipaði honum slitastjórn. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitin um skaðabætur að fjárhæð 3.060.000.000 krónur, en þeirri kröfu var hafnað og var ágreiningi um kröfuna beint til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 2. mgr. 120. gr. og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi 22. júní 2012.
Í hinum kærða úrskurði er rakið að sóknaraðili hafi, í því skyni að sanna fjártjón sitt, óskað dómkvaðningar manna til að meta það til fjár. Í matsbeiðni hans, sem lögð var fram 19. mars 2013, var teflt fram þremur spurningum. Í fyrsta lagi hvort tjón hafi leitt af framangreindri riftun varnaraðila á fjármögnunarsamningnum. Í öðru lagi, ef svarið við fyrstu spurningu væri á þann veg að tjón hefði orðið, skyldi meta tjónið til fjár og í því sambandi sérstaklega líta til missis hagnaðar, viðbótarfjármagnskostnaðar, tjóns á viðskiptavild og annarra atriða sem matsmenn teldu rétt að taka tillit til við matið. Í matsbeiðni var tíundað nánar við einstakar spurningar til hvaða atvika matsmönnum bæri að líta og í sumum tilvikum hvaða forsendur matsmenn ættu að miða við. Matsmenn luku mati sínu með matsgerð í september 2014. Niðurstaða þeirra var sú að sóknaraðili hefði ekki orðið fyrir fjártjóni vegna riftunarinnar að gefinni þeirri forsendu að verksamningur um framkvæmdirnar hefði verið að fullu verðbættur. Ef miðað væri við að hann hefði verið óverðbættur hefði sóknaraðili á hinn bóginn orðið fyrir tjóni sem næmi 388.446.181 krónu, auk þess sem fjármagnskostnaður hans, miðað við sömu forsendu, hefði verið 92.221.163 krónur frá áætluðum verklokum. Þá var ekki talið að tjón hefði orðið ef miðað væri við að verksamningur hefði verið verðbættur með tilgreindri hækkun byggingarvísitölu á ári á verktíma.
Sóknaraðili undi ekki niðurstöðum matsmanna og óskaði dómkvaðningar yfirmatsmanna 17. apríl 2015. Í beiðni um yfirmat voru spurningar sem leitað var svara við hinar sömu og lagðar höfðu verið fyrir undirmatsmenn, svo og tilgreining þeirra atriða sem yfirmatsmenn skyldu taka tillit til. Í beiðninni var jafnframt fjallað sérstaklega um það sem sóknaraðili taldi að ábótavant hefði verið við matsgerð undirmatsmanna og forsendur þeirra fyrir niðurstöðum. Yfirmatsmenn luku sinni matsgerð 21. september 2016 og var niðurstaða þeirra sú að fjártjón sóknaraðila vegna riftunarinnar hefði numið frá 2.680.868.079 til 6.156.868.543 krónum háð forsendum sem lutu að því hvort verksamningur hefði verið verðbættur eða ekki og hefði svo verið, hvers konar verðbætur hefði verið um að ræða. Yfirmatsgerðin var lögð fram í héraðsdómi 28. september 2016. Í næsta þinghaldi, 19. janúar 2017, lagði varnaraðili fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, sem sóknaraðili andmælti og lýtur ágreiningur máls þessa að því hvort dómkvaðning skuli fara fram.
II
Í hinum kærða úrskurði er gerð glögg grein fyrir efni matsbeiðni varnaraðila. Eins og þar kemur fram unir varnaraðili ekki niðurstöðum yfirmatsmanna og leitar með nýrri matsbeiðni einkum endurskoðunar á þeim forsendum sem yfirmatsmenn lögðu til grundvallar niðurstöðunum. Þótt spurningar þær, sem varnaraðili beinir til matsmanna séu ekki orðaðar á sama veg og í matsbeiðnum sóknaraðila, leikur ekki vafi á því að með matsbeiðninni leitar varnaraðili endurskoðunar á niðurstöðum yfirmatsmanna, fyrst og fremst með því að vefengja forsendur sem þeir lögðu til grundvallar.
Rekstur málsins í héraði hefur nú staðið í hartnær fimm ár. Játa verður aðila máls ríkan rétt til þess að afla og leggja fram þau gögn sem hann telur þörf á til sönnunar, þar með talið matsgerðir dómkvaddra manna. Almennt eiga hvorki gagnaðili né dómstólar að standa slíkri gagnaöflun í vegi og málsaðila verða ekki settar skorður í þessu efni nema þær eigi sér stoð í lögum. Í þessu máli hefur verið aflað bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar. Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili leitað yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin. Svo sem fram er komið hefur slíkt endurmat þegar farið fram og samkvæmt gagnályktun frá síðastgreindu ákvæði verður ekki leitað nýrrar matsgerðar um sömu atriði. Þá verður ekki aflað matsgerðar um atriði sem lögfræðiþekkingu þarf til að skera úr, enda er það hlutverk dómara. Varnaraðili getur kvatt matsmenn fyrir dóm til að gefa skýrslu, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 91/1991, og leitað skýringa þeirra á því sem kemur fram í matsgerð, þar á meðal þeim forsendum sem hún er reist á. Við úrlausn málsins kemur sönnunargildi matsgerða til athugunar og eru hendur dómara ekki sérstaklega bundnar í því efni, sbr. 44. gr. sömu laga. Dómari getur, sé deilt um staðreyndir sem bornar eru fram og hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafi slíka sérkunnáttu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til þess að fallast á með varnaraðila að dómkvaddir verði matsmenn til þess að meta það sem þegar hefur verið metið yfirmati. Verður kröfu um dómkvaðningu matsmanna því hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Gamla Byrs ses., um dómkvaðningu matsmanna.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Héðinsreit ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2017.
Með beiðni um dómkvaðningu matsmanna, sem var lögð fram á dómþingi 19. janúar sl., hefur matsbeiðandi sem jafnframt er varnaraðili, Gamli Byr ses, kt. 610269-2229, Ránargötu 18, Reykjavík, æskt þess, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn, með reynslu og þekkingu af gerð verðmata á fasteignaverkefnum, verkefnastjórnun byggingaframkvæmda og undirbúningi þróunar byggingaverkefna, til þess að leggja mat á tiltekin atriði varðandi ætlaða framlegð af byggingaframkvæmdum matsþola á svo kölluðum Héðinsreit.
Matsþoli, sem jafnframt er sóknaraðili, er Héðinsreitur ehf., kt. 560905-0330, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík, krefst þess að beiðni varnaraðila verði hafnað.
Málið var tekið til úrskurðar, 15. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi.
Málavextir
Þar eð þessi krafa um dómkvaðningu matsmanna er lögð fram við meðferð ágreiningsmáls vegna slita fjármálastofnunar þykir til einföldunar hæfa að tilgreina málsaðila ætíð í þeim hlutverkum sem þeir hafa í því máli en þar eru, eins og áður hefur verið tekið fram, matsbeiðandi varnaraðili og matsþoli sóknaraðili.
Sóknaraðili er einkahlutafélag sem á lóðina að Vesturgötu 64, Reykjavík. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Héðinsreitur. Á reitnum hugðist sóknaraðili reisa 170-190 þjónustuíbúðir og 220 bílastæði. Hann hafði með verksamningi 21. ágúst 2007 samið við verktakafyrirtæki um að það byggði húsið á reitnum samkvæmt teikningum tiltekinna arkitekta.
Sóknaraðili gerði fjármögnunarsamning við Byr sparisjóð 7. október 2007. Sjóðurinn átti að lána sóknaraðila fé til þess að fullfjármagna byggingaframkvæmdir á reitnum samkvæmt framangreindum verksamningi. Helmingur lánsins átti að vera í íslenskum krónum og helmingur í erlendum myntum. Greiðslu þess átti að tryggja með 1. veðrétti í Vesturgötu 64 með veðleyfi sem stæði framar láni VBS fjárfestingarbanka hf. í veðröð. Jafnframt átti sparisjóðurinn að lána sóknaraðila 500.000.000 kr. til þess að endurfjármagna hluta láns hans hjá VBS fjárfestingarbanka hf. gegn því að VBS fjárfestingarbanki hf. veitti sóknaraðila lán til að kaupa lóðir af Reykjavíkurborg sem voru hluti af heildarbyggingarreitnum. Þessar lóðir voru síðar sameinaðar í eina lóð sem fékk nafnið Vesturgata 64, Reykjavík.
VBS fjárfestingarbanki hf. gaf 7. nóvember 2007 út skilyrt veðleyfi þar sem hann veitti Byr sparisjóði veðleyfi á 1. veðrétti á lóðinni gegn því að sjóðurinn greiddi bankanum beint 500.000.000 kr. af fyrsta hluta lánsins.
Sóknaraðili fékk fyrsta hluta lánsins hjá Byr, 27. nóvember 2007, að fjárhæð 600.000.000 kr. Af þessari fjárhæð voru 500.000.000 kr. greiddar VBS fjárfestingarbanka hf. í samræmi við framangreind ákvæði fjármögnunarsamningsins og veðleyfis frá VBS. Eftirstöðvar þessa fyrsta hluta lánsins, 100.000.000 kr., voru ætlaðar til fjármögnunar verksins, þar á meðal til þess að greiða arkitektum fyrir hönnunarvinnu, leyfisgjöld og fleira sem tengdist verkefninu. Lánið var veitt í samræmi við fjármögnunarsamninginn, helmingur í íslenskum krónum og helmingur í erlendum myntum.
Eftir að þetta lán hafði verið veitt námu lán, sem sóknaraðili hafði tekið til þess að kaupa upp lóðir, um 2.100.000.000 kr. og lán vegna framkvæmda 100.000.000 kr. Samtals námu því vaxtaberandi lán vegna framkvæmda sóknaraðila á Vesturgötu 64 um það bil 2.200.000.000 kr.
Byr sparisjóður sendi sóknaraðila bréf, 12. júní 2008, og rifti fjármögnunarsamningnum því tafir hefðu orðið á framvindu verksins. Sóknaraðili mótmælti riftuninni með bréfi 18. júní 2008 og krafðist fullra efnda samningsins. Hann áskildi sér allan rétt vegna þess tjóns sem hann yrði fyrir félli sparisjóðurinn ekki frá hinni ólögmætu riftun. Sparisjóðurinn svaraði 22. júlí 2008 og hélt fast við riftun sína sem hann taldi lögmæta og hafnaði öllum kröfum sóknaraðila um efndir og skaðabætur. Að sögn sóknaraðila barst honum ekki það bréf og hafi hann ekki séð það fyrr en það var lagt fram síðar í dómsmáli.
Á 502. fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, 26. ágúst 2008, var samþykkt að veita sóknaraðila takmarkað byggingarleyfi vegna framkvæmda á byggingarreit að Vesturgötu 64. Þá þegar var unnt að hefja framkvæmdir á lóðinni enda yrðu gatnagerðargjöld greidd, byggingarstjóri skráður á verkið, teikningar af vinnubúðum og girðingum lagðar inn og lögð yrði fram verkáætlun og graftrarplan.
Sóknaraðili ritaði sparisjóðnum bréf 4. september 2008, og tilkynnti honum að samþykki fyrir byggingarleyfi lægi fyrir og að ekkert væri því til fyrirstöðu að fá byggingarleyfi gefið út og hefja framkvæmdir um leið og skilyrði byggingarfulltrúa hefðu verið uppfyllt. Sóknaraðili skoraði á sparisjóðinn að veita umsamið lán án tafar til þess að unnt væri að greiða umrædd gatnagerðargjöld og hefja framkvæmdir. Yrði ekki orðið við þessari áskorun innan sjö daga yrði litið svo á að lánssamningurinn hefði verið vanefndur. Sóknaraðili áskildi sér allan rétt til skaðabóta úr hendi sparisjóðsins vegna þess tjóns sem sóknaraðili yrði fyrir vegna vanefndanna, þar á meðal vegna þeirra tafa sem yrðu á verkinu. Sparisjóðurinn hafnaði sem fyrr öllum kröfum sóknaraðila og vísaði til bréfs síns 22. júlí 2008.
Sóknaraðili höfðaði þá mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur sparisjóðnum. Það var þingfest 25. febrúar 2009. Í því krafðist sóknaraðili annars vegar viðurkenningar á því að fjármögnunarsamningur aðila væri í gildi og hins vegar að viðurkennd yrði bótaskylda sparisjóðsins gagnvart sóknaraðila vegna þess tjóns sem hann hefði orðið og yrði fyrir vegna ólögmætrar riftunar á fjármögnunarsamningnum. Sparisjóðurinn hélt fast við þá afstöðu sína að riftun samningsins hefði verið lögmæt og því bæri að hafna kröfum sóknaraðila um efndir á samningnum og skaðabætur vegna tafa á efndum.
Á meðan málið var rekið í héraðsdómi tók Fjármálaeftirlitið, 22. apríl 2010, yfir rekstur Byrs sparisjóðs og skipaði honum slitastjórn til þess að stýra slitum hans. Sóknaraðili lýsti, 13. október 2010, kröfu að fjárhæð 3.060.000.000 kr. við slit sparisjóðsins. Það voru skaðabætur vegna tjóns sem hann taldi riftun sjóðsins á fjármögnunarsamningnum hafa valdið honum.
Með dómi Héraðsdómi Reykjaness, 15. nóvember 2010, í máli nr. E-823/2009 var varnaraðili sýknaður af kröfum sóknaraðila. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu hafnaði sá fyrrnefndi kröfu þess síðarnefnda 2. desember 2010.
Sóknaraðili áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar 11. febrúar 2011. Fyrir Hæstarétti var kröfunni breytt þannig að aðeins var krafist viðurkenningar á bótaskyldu sparisjóðsins enda hefði fyrri krafan um viðurkenningu á gildi samningsins enga þýðingu fyrir sóknaraðila eftir að Byr sparisjóður var tekinn til slitameðferðar.
Með dómi, 17. nóvember 2011, í máli nr. 87/2011 viðurkenndi Hæstiréttur að Byr sparisjóður bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni sóknaraðila sem hlotist hefði af hinni ólögmætu riftun sjóðsins á fjármögnunarsamningnum.
Að gengnum dómi Hæstaréttar sendi sóknaraðili varnaraðila bréf, 22. nóvember 2010, þar sem fyrri skuldajöfnunaryfirlýsingar voru ítrekaðar og skorað á varnaraðila að ganga til samninga um fullnaðaruppgjör við sóknaraðila á grundvelli dóms Hæstaréttar. Þar sem samkomulag náðist ekki var málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fékk það númerið X-90/2012.
Málsaðila greinir á um hvort sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni af ólögmætri riftun sparisjóðsins, 12. júní 2008, á fjármögnunarsamningnum.
Á dómþingi 19. mars 2013 lagði sóknaraðili fram matsbeiðni. Þremur vikum síðar, 9. apríl 2013, voru dómkvaddir tveir menn, annar byggingarverkfræðingur en hinn lögfræðingur og löggiltur fasteignasali, til þess að vinna matsgerð. Þeir afhentu hana í september 2014. Sóknaraðili var óánægður með það hvernig þeir hefðu unnið matið og taldi ekki fært að leggja það til grundvallar.
Til þess að afla sönnunargagna um hvort og hversu miklu tjóni hann hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar riftunar sparisjóðsins á fjármögnunarsamningi taldi sóknaraðili því nauðsynlegt að fá dómkvadda þrjá yfirmatsmenn til þess að fá svarað sömu spurningum og voru lagðar fyrir undirmatsmenn. Málsaðila greindi á um hvaða fagþekkingu yfirmatsmenn ættu að hafa.
Á dómþingi 2. júlí 2015 voru dómkvaddir tveir hagfræðingar og einn verkfræðingur til þess að vinna yfirmat og svara sömu spurningum og undirmatsmenn höfðu svarað. Yfirmatsgerð var lögð fram á dómþingi 28. september 2016.
Varnaraðili telur efnistökum í yfirmatsgerð ábótavant og lagði, eins og áður greinir, fram þá matsbeiðni sem hér er deilt um á dómþingi 19. janúar 2017.
Málsástæður varnaraðila fyrir dómkvaðningu
Varnaraðili, matsbeiðandi, vísar til þess að sóknaraðili hafi fengið dómkvadda matsmenn, annan héraðsdómslögmann og löggiltan fasteignasala og hinn verkfræðing, í því skyni að sanna tjón sitt. Þeir hafi lokið mati sínu 26. september 2014. Það hafi verið niðurstaða matsgerðar þeirra að framlegðin af framkvæmdum á grundvelli fjármögnunarsamningsins hefði orðið neikvæð. Afstaða þeirra byggði á því að kvöð sem væri á eignarhaldi á þjónustumiðstöð og íbúðum leiddi til þess að framkvæmdin hefði aldrei verið seld á almennum markaði. Því hefði þurft að selja alla bygginguna í heilu lagi einum aðila eða félagi, sem myndi eiga og selja búseturétt og reka þjónustumiðstöð. Sóknaraðili hafi óskað yfirmats og til matsstarfa hafi verið dómkvaddir annars vegar tveir hagfræðingar og hins vegar verkfræðingur.
Yfirmatsmenn hafi annars vegar byggt niðurstöður á forsendum sem voru gefnar í yfirmatsbeiðni sóknaraðila, sem varnaraðili telur ýmist rangar eða ófullnægjandi, og hins vegar á nýjum forsendum sem hafi ekki verið hluti af matsbeiðni og undirmatsmenn höfðu því ekki byggt á. Yfirmatsmenn hafi auk þess nálgast matsspurningarnar á allt annan hátt en undirmatsmenn þannig að í raun hafi mat þeirra ekki verið endurskoðun á undirmatinu heldur nýtt undirmat. Yfirmatsmenn hafi ekki minnst á þá kvöð sem hvíldi á íbúðunum og þjónusturýminu og undirmatsmenn lögðu til grundvallar sinni nálgun. Yfirmatsmenn hafi vísað til þess að markaður fyrir búseturétt hefði verið stöðugur á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum ef rétt væri staðið að málum. Varnaraðila virðist yfirmatið einnig gera ráð fyrir því að forsvarsmenn sóknaraðila hafi verið trúverðugir framkvæmdaaðilar og að fjárhagsleg trygging Byrs sparisjóðs hafi vegið upp veika fjárhagsstöðu félagsins. Í matsgerðinni sé því ekki gefinn neinn gaumur að forsvarsmenn sóknaraðila hafi ekki haft reynslu af sambærilegum framkvæmdum og ekki virðist gert ráð fyrir að Byr sparisjóður rifti fjármögnuninni þar sem hann taldi verkið óráðlegt á sínum tíma.
Varnaraðili telur að í matsgerð yfirmatsmanna sé ekki á réttan hátt tekið tillit til fjármögnunarsamnings aðila, áhættu verkefnis né stöðu sóknaraðila sem framkvæmdaraðila og seljanda fasteigna. Ekki hafi heldur verið tekið tillit til þeirra ströngu skilyrða sem gildi um húsnæðissamvinnufélög, en samkvæmt lögum megi aðeins þau selja búseturétt. Varnaraðili telur það einfaldlega rangt að rökstyðja skaðabótakröfu sóknaraðila með vísan til þess að hann hafi notið fjárhagslegs styrks varnaraðila (Byrs sparisjóðs) í ljósi þess að einungis var um að ræða fjármögnun á framkvæmd en ekki rekstri til framtíðar. Þegar litið sé til þess að fjármögnunarsamningnum var rift, jafnvel þótt formreglna þar um hafi ekki verið gætt sem skyldi, sé varhugavert að draga of víðtækar ályktanir um varnaraðila sem fjárhagslegan bakhjarl og um samstarfsvilja hans, allra síst sóknaraðila einum til hagsbóta.
Varnaraðili telur yfirmatsgerðina haldna annmörkum og að í hana vanti umfjöllun um forsendur sem hafi mikil áhrif á niðurstöðuna. Hún þurfi því ítarlegri skoðunar við. Þá bendir varnaraðili á að í því viðskiptalíkani sem byggt sé á í yfirmatsgerð beri leigjanda að greiða við leigusamning 30% verðs íbúðar fyrir búseturétt. Það stríði gegn 1. mgr. 2. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að leigjandi taki á sig ríkari skyldur en leiðir af lögunum og þeim ströngu takmörkunum sem þau setja um fyrirframgreiðslu leigu og greiðslu trygginga. Slíkt sé aðeins leyfilegt í húsnæðissamvinnufélögum sem séu starfrækt í samræmi við ákvæði laga nr. 66/2003. Viðskiptalíkanið sem yfirmatsgerð byggist á sé þannig ólögmætt. Varnaraðili telur það ekki standast skoðun að byggja einungis á eftirspurn eftir búseturétti án þess að taka samhliða tillit til þeirra ströngu skilyrða sem um hann gilda. Varnaraðili telur þessa forsendu þurfa ítarlegra mat dómkvaddra matsmanna og að reikna þurfi út áhrif þess í reiknilíkani sem gerð er grein fyrir í yfirmatsgerð. Til að mynda sé í yfirmatsgerðinni lögð rík áhersla á þýðingu þess að þegar seldur sé búseturéttur með innlausnarskyldu haldi seljandi búseturéttar eftir mjög mikilvægum eignarréttindum. Hann afsali sér ekki sambærilegum eignarrétti og seljandi venjulegrar íbúðar geri. Yfirmatsmenn telji þetta skipta miklu máli þar eð selja hafi átt íbúðir á téðum Héðinsreit á þeim tíma sem verulegt verðfall hafði orðið á fasteignamarkaði. Matsmenn virðist telja að í sölu á búseturétti felist þannig minni markaðsáhætta fyrir sóknaraðila en sala íbúðar sem er ekki háð slíkum rétti. Þessi mikilvæga forsenda yfirmatsins sem og niðurstaða þess um raunhækkun leigunnar stríði hins vegar gegn þeirri hugmyndafræði sem lög um húsnæðissamvinnufélög byggist á auk þess sem slíkum félögum sé einum heimilt að selja búseturétt. Í yfirmatsgerðinni sé sú staðreynd virt að vettugi. Í húsnæðissamvinnufélögum öðlist félagsmenn rétt til þess að hafa áhrif á félagið. Í 6. tölulið 2. gr. laganna sé afmarkað hvað felist í búsetugjaldinu, því gjaldi sem búseturéttarhafi greiði mánaðarlega vegna rekstrar-, viðhalds- og fjármagnskostnaðar. Búsetugjaldið fylgi með öðrum orðum ekki leigukjörum á almennum markaði því það feli í sér þessa tilteknu kostnaðarliði og tengist þeim. Þá hafi Hæstiréttur nýlega túlkað búseturétt sem eins konar ósýnilegt neðsta lögveð, sbr. t.d. dóma í málum nr. 426/2008 og 227/2014. Réttaráhrif samninga um búseturétt séu mjög ólík réttaráhrifum hefðbundinna leigusamninga því að í þeim felist umtalsvert framsal eignarréttinda. Varnaraðili telur þessi skilyrði og sérstöðu búseturéttar að lögum ekki hafa komið til skoðunar við yfirmatið og þar af leiðandi þurfi mat dómkvaddra matsmanna.
Þá bendir varnaraðili jafnframt á að þegar sjóðstreymislíkan yfirmatsgerðar sé skoðað komi í ljós atriði sem kalli á ítarlegri skoðun og samanburð við fasteignir á nærliggjandi svæði. Af líkaninu megi leiða að núvirði sjóðstreymis samsvari meðalfermetraverði íbúða sem hafi verið um 640 þúsund krónur í nóvember 2013. Meðalfermetraverð nú, árið 2017, á samsvarandi nærliggjandi íbúðum á svokölluðum Lýsisreit sé auglýst um 474 þúsund krónur, sem sé umtalsvert lægra en það sem yfirmatsgerð geri ráð fyrir í nóvember 2013, þrátt fyrir það verulega verðfall sem hafði orðið á fasteignamarkaði. Varnaraðili telur augljóst að forsenda yfirmatsgerðar um meðalfermetraverð geti engan veginn staðist og þarfnist ítarlegri skoðunar dómkvaddra matsmanna.
Varnaraðili áréttar að miklir hagsmunir séu í húfi. Honum sé hins vegar vandi á höndum. Hann eigi þess ekki kost að óska eftir því að yfirmatsmenn endurskoði yfirmatsgerð sem gagnaðili hafi aflað á sinn kostnað, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 211/2014. Hins vegar hafi ekki verið lagðar hömlur á að dómkvaddir séu sérfræðingar til að meta atriði sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um og enn síður hafi því verið hafnað að til viðbótar fyrirliggjandi matsgerð verði aflað nýrrar matsgerðar sem taki að einhverju leyti til annarra atriða en fyrri matsgerðir eða sé ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi verið fengið, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 400/2000 og 311/2007. Varnaraðili freisti þess að tryggja hagsmuni sína með því afla nýs mats um tiltekin sérfræðileg atriði og leggja fyrir matsmenn nýjar matsspurningar. Með öflun matsgerðarinnar sé ætlunin bæði að afla upplýsinga um ný atriði sem matsmenn hafa ekki áður tekið afstöðu til og að afla ítarlegri upplýsinga um matsefni.
Það sé ljóst að niðurstaða um ágreining málsaðila muni miklu fremur ráðast af þeim forsendum sem verði lagðar til grundvallar útreikningi á meintri tapaðri framlegð en af útreikningunum sjálfum. Varnaraðila sé því nauðsynlegt að fá dómkvadda matsmenn til að leggja mat á þau atriði sem hann telji að beri að leggja til grundvallar niðurstöðu og reikna út áhrif þess á mögulega framlegð sóknaraðila.
Hefði undirmatsgerð verið varnaraðila óhagstæð hefði hann getað óskað dómkvaðningar yfirmatsmanna. Hér standi svo á að undirmatsgerð sé varnaraðila hagstæð. Sóknaraðili hafi því getað aflað yfirmats á grundvelli einhliða forsendna sinna. Það sé með öllu ótækt að láta það útiloka varnaraðila frá því að afla nýrrar matsgerðar, sem hafi sama sönnunargildi í málinu um þau atriði sem hann telur að þurfi að meta, og á grundvelli þeirra forsendna sem hann telur að beri að byggja á.
Verði beiðni varnaraðila synjað en dómari fallist ekki á allar þær forsendur sem yfirmatsmenn gáfu sér í yfirmatsgerð sé sú staða uppi að ómögulegt sé að byggja á útreikningum í yfirmatinu. Öflun þessarar matsgerðar sé því nauðsynleg til þess að unnt sé að leggja efnislega réttan dóm á málið.
Þau atriði sem varnaraðili telur að þurfi að meta lúti einkum að því hver sé eðlilegur fjármagnskostnaður við framkvæmd eins og Héðinsreit, hvert sé eðlilegt álag vegna framkvæmdaáhættu af slíku verkefni, hver sé eðlileg og sanngjörn breyting á leigutekjum af verkefni eins og Héðinsreit og hvert sé hlutfall nýtingar á útleigu. Einnig sé nauðsynlegt að skoða betur réttmæti þeirrar forsendu að miða við rekstrarforsendur Grundar-Markarinnar ehf. (hér eftir vísað til sem Markarinnar) eins og gert sé í yfirmatsgerð og búseturéttarfyrirkomulag almennt í ljósi þess að öðrum en húsnæðissamvinnufélögum sé óheimilt að selja eða leigja afnotarétt gegn greiðslu 30% verðs íbúðar. Þau félög lúti þar að auki ströngum skilyrðum og ekki megi reka þau í hagnaðarskyni. Varnaraðili áréttar að sóknaraðili sé ekki húsnæðissamvinnufélag heldur hefðbundið einkahlutafélag, auk þess sem ekki hafi verið áformað að breyta félagaformi hans, og því megi hann ekki selja búseturétt. Varnaraðili leggur áherslu á að hann fari ekki fram á endurskoðun á yfirmatinu sem slíku heldur vilji hann fá mat dómkvaddra matsmanna á tilteknum forsendum sem eftir atvikum geti haft áhrif á niðurstöður þess.
Nánar tiltekið telur varnaraðili að eftirtaldar forsendur kalli á mat dómkvaddra matsmanna.
Í fyrsta lagi, hvert sé eðlilegt og sanngjarnt viðmið um veginn meðalfjármagnskostnað (e: weighted average cost of capital, WACC), í verkefni eins og því sem sóknaraðili hugðist hefja haustið 2008 og ljúka 18 mánuðum síðar. Miðað verði við fjármagnskostnað fyrir félag eins og Héðinsreit ehf., sem hafði lítið sem ekkert eigið fé og enga reynslu af því að byggja eða selja fasteignir. Í yfirmatsgerð sé gert ráð fyrir 5% fjármagnskostnaði og vísað til upplýsinga frá einu fasteignafélagi miðað við ávöxtunarkröfu þegar matsgerðin er skrifuð og sé veginn meðalfjármagnskostnaður (WACC) í arðsemismati í einu útleiguverkefni hjá Regin hf. árið 2014. Sú forsenda sé hins vegar á skjön við upplýsingar eins og þær birtist í ársreikningum Eikar fasteignafélags hf., þar sem komi fram að veginn meðalfjármagnskostnaður (WACC) hafi verið á bilinu 6,1-6,7% árið 2013 og fasteignafélagsins Reita hf., sem gefi upp 6,9% árið 2012, 6,7% árið 2013, 6,6% árið 2014 og 6,6% árið 2015. Í ársskýrslu Reita hf. segi að óháður aðili hafi lagt mat á virði fasteigna félagsins og hann hafi notað veginn meðalfjármagnskostnað (WACC) á bilinu 7,5-15,5% í því mati. Í ársskýrslu Eikar hf. fyrir 2008 hafi verið gert ráð fyrir 9,5% verðtryggðum vöxtum á fyrsta ári, 6,6% á næsta ári og 5,8% á árunum þar á eftir. Varnaraðili bendir á að þessi forsenda, veginn meðalfjármagnskostnaður, hafi mikil áhrif á niðurstöðu yfirmatsgerðar um meint fjártjón og telur varnaraðili að hækkun á henni um hvern hundraðshluta (prósentustig) lækki framlegðina um 1.500 milljónir króna miðað við það að aðrar umdeildar forsendur matsins haldist óbreyttar. Varnaraðili telur óhjákvæmilegt að fá dómkvadda matsmenn til þess að gefa álit sitt á þessari forsendu yfirmatsins sem og við hvaða tíma skuli miða í því sambandi. Þeir skuli taka tillit til þess að metinn sé veginn meðalfjármagnskostnaður (WACC) fyrir sóknaraðila en ekki fyrir fasteignafélag með hátt eigið fé og dreift eignasafn.
Í öðru lagi, telur varnaraðili þá forsendu yfirmats að gera ráð fyrir að kostnaðaráætlun og verksamningur sóknaraðila og JÁVERKS ehf. sé heildarbyggingarkostnaður þurfi ítarlegri skoðun dómkvaddra matsmanna. Yfirmatsgerð hafi byggt á því að kostnaður samkvæmt verksamningi væri heildarkostnaður án þess að skoða gögn sem lágu verksamningnum til grundvallar og leggja mat á það hvort í kostnaðaráætluninni fælist óvissa af einhverjum ástæðum. Varnaraðili bendir á að við skoðun á verksamningnum ásamt fylgigögnum hans teljist augljóst að honum til grundvallar liggi ekki ítarleg eða nákvæm sundurliðun hárra kostnaðarliða. Það bendi til þess að framkvæmdin hafi verið á frumstigi sem ætti að valda því að álag yrði metið á kostnað við framkvæmdina. Þegar fjármögnunarsamningi var rift hafi aðeins verið útbúin drög að aðalteikningum og engin verkfræðihönnun legið fyrir. Samkvæmt upplýsingum varnaraðila hafi verkfræðingar einungis veitt ráðgjöf vegna verkefnisins á þessum tíma enda sé það í samræmi við verksamning JÁVERKS ehf., þar sem gert sé ráð fyrir að verkfræðihönnun væri á hendi verktaka. Að auki sé sú tilboðsskrá sem verðtilboð verktaka byggist á verulega ónákvæm og hvorki í samræmi við stærð verkefnisins né hversu flókið það sé. Tilboðsskráin sé byggð á færri en 20 einingaverðum sem varnaraðili telji harla óvenjulegt. Verksamningurinn byggi að auki á skilalýsingu sem sé ekki ítarleg og taki lítið sem ekkert til hárra kostnaðarliða eins og t.d. rafkerfa hússins, klæðninga utanhúss, gólfefna o.fl. Varnaraðili telur það samræmast góðum háttum, í jafnumfangsmiklum verkefnum og sóknaraðili áformaði, að kostnaðaráætlunin væri í nokkrum áföngum sem yrði ítarlegri eftir því sem nær liði upphafi framkvæmdanna. Eina kostnaðaráætlunin sem sóknaraðili eigi um verkið sé sú sem lá fyrir þegar fjármögnun var rift. Eins og áður sé rakið geti sú áætlun aldrei talist annað en frumkostnaðaráætlun. Af því leiði töluverð óvissa um kostnað við framkvæmdina. Varnaraðili telur að dómkvaddir matsmenn þurfi að leggja mat á umfang þeirra verkliða sem séu ekki nægilega vel skilgreindir og/eða jafnvel vantaldir í verksamningnum sem og hvaða áhrif það hafi á framkvæmdina og kostnað við hana. Jafnvel þótt slíkir verkliðir hefðu verið tæmandi taldir í verksamningnum sé alltaf óvissa um framkvæmdakostnað og gera megi ráð fyrir að vart sé til sú kostnaðaráætlun um byggingu fasteignar, sem hafi staðist að fullu. Varnaraðili telur að meta þurfi áhrif þessarar óvissu á áætlaðan byggingarkostnað og vanmats á honum eins og hann birtist í yfirmatsgerð og þar með reiknaða framlegð í yfirmatsgerð. Hvert sé eðlilegt álag vegna óvissu vegna framkvæmdaáhættu í útreikningi á fyrirliggjandi verksamningi sóknaraðila við JÁVERK ehf. svo og hvenær megi gera ráð fyrir að hægt hefði verið að hefja byggingarframkvæmdir miðað við þau gögn sem lágu fyrir þegar fjármögnun var rift?
Í þriðja lagi, sé lagt til grundvallar í yfirmatsgerðinni að þróun á verði fasteigna og þróun leigutekna vaxi um 2% á ári að meðaltali og byggingarvísitala hækki um 1% umfram verðlag á sama tíma. Það leiði til þess að leigan í lok matstímabils sé rúmlega þrefalt hærri en í upphafi þess en byggingarkostnaður tæplega tvöfaldur. Varnaraðili telur að þær forsendur standist ekki og þurfi ítarlegri skoðun dómkvaddra matsmanna. Þessi forsenda sé að auki á skjön við kennslugögn eins yfirmatsmanna á námskeiði í hagfræðideild Háskóla Íslands, síðast á vormisseri 2016. Í þeim komi fram að síðastliðin 40 ár hafi langtímaleitni hækkunar fasteignaverðs umfram almennt verðlag verið um 1% að meðaltali. Í hvert skipti sem hækkanir hafi verið umfram þann hraða hafi markaðurinn leitað í fyrra horf. Forsendan um hækkun leigutekna umfram verðlag hafi mikil áhrif á niðurstöðu yfirmatsgerðar um meint fjártjón sóknaraðila. Varnaraðila sýnist lækkun á þessari forsendu um hvern hundraðshluta (prósentustig) lækka framlegðina um rúma tvo milljarða miðað við að aðrar umdeildar forsendur matsins haldist óbreyttar. Varnaraðili telur óhjákvæmilegt að fá ítarlegri skoðun á álitaefninu og fá dómkvadda matsmenn til þess að gefa álit sitt á þessum forsendum yfirmatsins. Þá verði einnig að horfa til þess að þegar sóknaraðili var að hefja þessa fjárfestingu árið 2008 á einhverjum mestu óvissutímum í efnahagssögu landsins var engan veginn vitað hvernig helstu hagstærðir myndu þróast. Miðað við stutta sögu fasteignamarkaðar hér á landi sé ekki rétt, að mati varnaraðila, að meta þennan lið í efstu mörkum mögulegrar hækkunar – ekki síst á þessum tíma. Varnaraðili telur að sé svona mikill munur á kostnaði við að byggja samanborið við að leigja myndist hvati fyrir menn til að byggja nýtt húsnæði til að fara í samkeppni við eldri hús á leigumarkaði, enda sé unnt að bjóða hagstæðari leigu í nýju húsi miðað við ofangreinda þróun markaðarins og skýri það af hverju fasteignaverð leiti til fyrra horfs hafi það farið upp yfir tiltekin mörk.
Varnaraðili ítrekar að sóknaraðili segist byggja á viðskiptalíkani Markarinnar og hafi óskað eftir því að framlegð yrði reiknuð á þeim grundvelli. Niðurstaða yfirmatsgerðar byggist á viðskiptalíkani um búseturétt, með vísan til Markarinnar. Sala á búseturétti sé hins vegar einungis heimil húsnæðissamvinnufélagi sem sé rekið án hagnaðarsjónarmiða eins og þegar hafi verið rakið. Mörkin uppfylli það skilyrði að vera rekin án hagnaðarsjónarmiða en rekstrarform félagsins og fyrirkomulag sé augljóslega ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Af þeim sökum telur varnaraðili að ekki sé unnt að byggja á samanburði við Mörkina, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem sóknaraðili geri og byggt sé á í yfirmatinu. Jafnvel þótt litið sé fram hjá því hvort samanburðurinn sé tækur þá hækka leigusamningar Markarinnar ekki á þann hátt sem yfirmatsgerð geri ráð fyrir heldur einskorðast hækkunin við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Verði hækkun á opinberum gjöldum er Mörkinni, samkvæmt leigusamningum, heimilt að breyta leigufjárhæðinni í samræmi við það. Breytingar eða hækkun á leigugrunni gildi hins vegar einungis fyrir nýja leigutaka, en ekki þá sem þegar hafi gildan leigusamning. Varnaraðili ítrekar að samanburður við Mörkina sé ekki tækur, en allt að einu þurfi að taka tillit til þessa. Fjármagnsflæðið til sóknaraðila ætti því ekki að endurspegla annað en leiguverð að viðbættu verðlagi og í besta falli gæti sóknaraðili hækkað leiguna við endurnýjun leigusamninga. Varnaraðili vísar til þess að yfirmat geri ráð fyrir endurnýjun leigutaka í umfjöllun um afskrift búseturéttar. Yfirmatsmenn geri ráð fyrir að þriðjungur íbúa myndi búa í 10 ár, þriðjungur í 20 ár og þriðjungur í 30 ár. Varaðili telur eðlilegt að hækkun á leigusamningi umfram verðlag yrði í þessum áföngum í samræmi við ofangreinda nálgun á endurnýjun leigusamninga. Varnaraðili bendir jafnframt á að taka þurfi tillit til þess að eftirspurn íbúða Markarinnar sé nátengd þeim væntingum sem markhópurinn hafi um verð leigunnar og að hún sé í samræmi við ofangreinda hækkun. Eigi að gera samanburð við Mörkina verði slíkur samanburður að ganga alla leið, þ.e. ekki aðeins taka eftirspurnina þaðan án þess að taka einnig mið af leigukjörunum sem séu boðin og mögulega öðrum atriðum sem hafi áhrif á eftirspurnina þar. Varnaraðili telur óhjákvæmilegt að fá dómkvadda matsmenn til þess að gefa ítarlegt og rökstutt álit á þessu álitaefni og þar með forsendum yfirmats með hliðsjón af ofangreindu.
Að lokum telur varnaraðili að dómkveðja þurfi matsmenn til þess að fá ítarlegra mat á þeirri forsendu yfirmatsgerðar að miða við 100% útleigunýtingu til 60 ára og hvort hún geti talist sanngjörn og eðlileg. Þess er óskað að matsmenn skoði og beri saman þá niðurstöðu við nýtingarhlutfall í fasteignafélögum eins og til að mynda Eir og Eik. Hjá Eir hafi komið tímabil þar sem erfiðlega gekk að leigja út og selja íbúðarrétt. Í fjárfestakynningu Eikar fasteignafélags frá apríl 2014 komi fram að virðisútleiguhlutfall félagsins hafi verið 91,6-93% árið 2014. Þetta hlutfall hafi farið hækkandi enda aðstæður á markaði núna góðar og hlutfallið í árshlutauppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2016 sé 95,1-96,3%. Ljóst sé að á 60 ára tímabili verði einhverjar niðursveiflur, því þurfi matsmenn að meta hvort þessi forsenda yfirmats teljist eðlileg og sanngjörn. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að hlutfallið sé ofmetið er þess óskað að matsmenn reikni út áhrif þess á reiknaða framlegð yfirmats.
Varnaraðili telur ofangreindar forsendur hafa umtalsverð áhrif á niðurstöðu yfirmatsmanna. Undirmatið hafi byggst á annarri nálgun en yfirmatið og þessar forsendur hafi því ekki komið til skoðunar við undirmat. Varnaraðili telur nauðsynlegt að fá sérstakt mat á þessum forsendum auk viðbótarsjónarmiða sem varnaraðili telur þurfa að koma til skoðunar og hafi mikla þýðingu, eins og t.d. hvaða aðili eigi í hlut, við hvaða tíma matið miðist og að búseturéttur sé alltaf seldur í húsnæðissamvinnufélagi sem ekki megi reka í hagnaðarskyni og um gildi ströng skilyrði. Af þeim sökum þurfi varnaraðili að fá kvadda til sérfróða og óvilhalla matsmenn til þess að kanna og meta sérstaklega þessar forsendur sem og áhrif þeirra á þá útreikninga sem matsgerðin byggist á. Varnaraðili telur að aðeins sé nauðsynlegt að leggja mat á þær forsendur sem hér að ofan hefur verið lýst en að öðru leyti sé unnt að miða við reiknilíkan yfirmatsmanna.
Með þessum rökum óskar varnaraðili þess að dómkvaddir verði þrír hæfir og óvilhallir matsmenn til að svara eftirfarandi spurningum:
1. „Hvert er eðlilegt og sanngjarnt viðmið um ávöxtunarkröfu eða veginn meðalfjármagnskostnað (e. weighted average cost of capital, WACC) í framkvæmd eins og þeirri sem matsþoli ætlaði að hefja haustið 2008 og ljúka 18 mánuðum síðar? Við svar á ofangreindri spurningu er óskað eftir að fjallað verði sérstaklega um eftirtalin atriði:
a. Hver er eðlilegur og sanngjarn fjármagnskostnaður í reiknilíkani yfirmats fyrir verkefni af þessari stærðargráðu og miðað við þá reynslu sem stjórnendur félagsins höfðu.
b. Gerður verði samanburður á fjármagnskostnaði matsþola annars vegar og annarra stórra fasteignafélaga hins vegar, sem og félaga sambærilegum matsþola ef til eru og rökstudd verði frávik frá þeim.
c. Þess er óskað að tekin sé afstaða til þess hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt að gera ráð fyrir sama fjármagnskostnaði á framkvæmdartíma og til framtíðar?
d. Ef niðurstaða matsmanna er önnur en yfirmatsgerð gerði ráð fyrir er þess óskað að reiknuð verði áhrif þess á framlegð matsþola í yfirmatsgerð.
2. Hvert er eðlilegt og sanngjarnt álag á byggingarkostnað vegna óvissu miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlun sem verksamningur matsþola byggir á? Við svar á ofangreindri spurningu er óskað eftir að fjallað verði sérstaklega um eftirtalin atriði:
a. Umfang ólokinnar hönnunar- og teiknivinnu sem hefði þurft til þess að endanlegt byggingarleyfi hefði fengist útgefið?
b. Hvenær má gera ráð fyrir að vinnu skv. spurningu í a-lið hefði verið lokið þannig að endanlegt byggingarleyfi hefði fengist útgefið þannig að bygging hefði í fyrsta lagi getað hafist?
c. Hvert er eðlilegt og raunhæft álag vegna óvissu um byggingarkostnað ef miðað er við að kostnaðarliðir séu tæmandi taldir?
d. Hvaða verkliðir í samningnum má gera ráð fyrir að séu vantaldir í samningnum og fylgiskjölum hans og hvaða áhrif hefur það á byggingarkostnað og þar með framkvæmdaáhættu? Þess er óskað að matsmenn fari yfir þessa verkliði og meti áhrif þess á reiknaða framlegð yfirmats.
e. Eru að mati matsmanna einhverjir verkliðir í samningnum og fylgiskjölum sem ekki eru nægilega vel skilgreindir þannig um að um þá ríki teljandi kostnaðaróvissa. Ef svo er hvaða verkliðir eru það og hvaða áhrif getur það haft á byggingarkostnað og þar með framkvæmdaáhættu? Þess er óskað að matsmaður fari yfir þessa verkliði og meti áhrif þess á reiknaða framlegð yfirmats.
f. Ef niðurstaða matsmanna er sú að það teljist eðlilegt og sanngjarnt að hafa óvissu vegna framkvæmdaáhættu er þess óskað að reiknuð verði áhrif þess á framlegð matsþola í yfirmatsgerð í reiknilíkani yfirmatsmanna.
3. Reiknilíkan í yfirmatsgerð gerir ráð fyrir raunhækkun leigutekna. Hver er eðlileg og sanngjörn breyting á leigutekjum til 60 ára fyrir félag sem er með leigusamninga með íbúðarrétti eins og Mörkin, þar sem leigutekjur hækka miðað við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar? Við svar á ofangreindri spurningu er óskað eftir að fjallað verði sérstaklega um eftirtalið atriði:
a. Hvaða áhrif það hefur á leigutekjur og raunhækkun þeirra í reiknilíkani yfirmatsgerðar að óheimilt er að selja búseturétt nema í húsnæðissamvinnufélagi og í samræmi við ákvæði laga nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög.
b. Ef niðurstaða matsmanna er önnur en yfirmatsgerð gerði ráð fyrir er þess óskað að reiknuð verði áhrif þess á framlegð matsþola í yfirmatsgerð.
4. Hvert eðlilegt og sanngjarnt hlutfall útleigunýtingar hjá matsþola til 60 ára? Ef niðurstaða matsmanna er önnur en yfirmatsgerð gerði ráð fyrir er þess óskað að reiknuð verði áhrif þess á framlegð matsþola í yfirmatsgerð.“
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að kröfu um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Hann telur þessa matsbeiðni vera beiðni um „yfirmat“ á yfirmati eins og skýrt komi fram í matsbeiðninni sjálfri. Þar sé reynt að færa rök fyrir því að það yfirmat sem hafi verið unnið í málinu sé í raun undirmat og því sé matsbeiðnin heimil. Sóknaraðili mótmælir því enda hafi hann lagt fram beiðni um yfirmat þar sem yfirmatsmenn voru skipaðir og afhentu yfirmatsgerð. Engin lagaheimild sé fyrir yfirmati á yfirmati í IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og sé skýrt í þeim lögum að aðeins sé gert ráð fyrir að fram fari mat og síðan yfirmat vegna tiltekinna matsþátta. Matsbeiðnin varnaraðila sé því ólögmæt og á þeim grundvelli beri að hafna henni.
Fyrirliggjandi undirmat og yfirmat varði nákvæmlega sömu matsspurningar en það sé hlutverk matsmanna að koma fram með niðurstöðu mats og að setja fram þau rök sem þeir telja rétt að líta til, við matið. Því hafi fullt og endanlegt mat farið fram hvað varðar þær matsspurningar.
Þetta mál hafi tekið mjög langan tíma og nú, þegar loks sé farið að sjá fyrir endann á því, leggi varnaraðili fram nýja matsbeiðni sem muni tefja málið enn frekar, og að öllum líkindum verulega, verði fallist á hana. Það sé þó alvarlegra að verði fallist á þessa matsbeiðni hafi verið opnað fyrir endalaust matsferli þar sem sá málsaðili sem sé ósáttur við niðurstöðu yfirmats eða röksemdir þess geti endalaust óskað eftir nýju mati. Það sé ekki tæk niðurstaða og því beri að hafna matsbeiðninni.
Jafnframt sé mjög óljóst hvað eigi að meta enda séu ekki settar fram neinar skýrar matsspurningar heldur sé matsbeiðnin sett fram eins og ný greinargerð í málinu þar sem gerðar séu athugasemdir við niðurstöður fyrirliggjandi yfirmats. Matsbeiðnin fullnægi þannig ekki áskilnaði laga og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna henni.
Sóknaraðili mótmælir málatilbúnaði í matsbeiðninni í heild sinni sem fráleitum. Hann bendir jafnframt á að yfirmatsgerð og fylgigögn hennar sýni skýrt að varnaraðili sem matsþoli hafi haft fullt svigrúm til að koma öllum sínum sjónarmiðum, athugasemdum og gögnum að við framkvæmd yfirmatsins og sé fráleitt að ætla að halda því áfram nú.
Niðurstaða
Efnislegur ágreiningur málsaðila varðar það hvort sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar varnaraðila á fjármögnunarsamningi milli sóknaraðila og Byrs sparisjóðs, sem var gerður 9. október 2007 og var rift 12. júní 2008. Í dómi í máli nr. 87/2011 taldi Hæstiréttur riftunina ekki hafa verið í samræmi við ákvæði fjármögnunarsamningsins. Sóknaraðili lýsti við slitameðferð varnaraðila skaðabótakröfu vegna þeirrar framlegðar sem hann telur sig hafa farið á mis við vegna ólögmætrar riftunar sparisjóðsins. Þessari skaðabótakröfu hefur varnaraðili hafnað.
Sóknaraðili hefur tvisvar fengið dómkvadda matsmenn til þess að færa sönnur á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna riftunar fjármögnunarsamningsins. Fyrst voru dómkvaddir tveir matsmenn, annar héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali og hinn verkfræðingur. Í matsgerð sem þeir luku 26. september 2014 töldu þeir að framlegðin af framkvæmdum á grundvelli fjármögnunarsamningsins hefði orðið neikvæð/ að halli hefði orðið á framkvæmdinni. Afstaða þeirra byggði meðal annars á því að kvöð á eignarhaldi á þjónustumiðstöð og íbúðum leiddi til þess að framkvæmdin hefði aldrei verið seld á almennum markaði og hefði salan því orðið að fara fram í heilu lagi til eins aðila eða félags, sem myndi eiga og selja búseturétt og reka þjónustumiðstöð.
Sóknaraðili fór fram á yfirmat og voru dómkvaddir tveir hagfræðingar og verkfræðingur. Þeir töldu sóknaraðila hafa orðið fyrir fjártjóni vegna missis framlegðar vegna riftunar fjármögnunarsamningsins. Sóknaraðili lagði fyrir þá í beiðni um yfirmat að vinna eftir þremur forsendum og var niðurstaðan mismunandi eftir því hvaða forsendu þeir lögðu til grundvallar, á bilinu 2.680 milljónir til 6.156 milljónir króna.
Varnaraðili telur sóknaraðila hafa lagt fyrir yfirmatsmenn rangar eða ófullnægjandi forsendur og telur yfirmatsmenn einnig hafa byggt yfirmatið á forsendum sem voru ekki hluti af matsbeiðni og undirmatsmenn höfðu ekki byggt á. Þessu til viðbótar telur varnaraðili að í yfirmatsgerðinni sé ekki fjallað um forsendur sem hafi mikil áhrif á niðurstöðuna. Þeirra á meðal sé sérstaða búseturéttar og sá lagarammi sem þeim rétti sé sniðinn. Þessar forsendur telur varnaraðili að þurfi að meta nánar. Af þeim sökum hefur hann lagt fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Sóknaraðili mótmælir því að fallist verði á hana.
Aðilar að dómsmáli eiga, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Það er hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt án sérstakrar lagastoðar. Því ber dómara alla jafna að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn. Þó verður ekki fallist á beiðni standi svo á að hún uppfylli ekki skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna, að óskað sé mats á atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, að matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara beri sjálfum að leggja mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.
Varnaraðili byggir þá kröfu sína að matsmenn verði dómkvaddir á því að niðurstöður yfirmatsgerðar byggist á röngum eða ófullnægjandi forsendum, svo og að ekki sé tekið tillit til áhrifa löggjafar sem gildi um þær íbúðir sem sóknaraðili hugðist reisa.
Þau atriði, sem varnaraðili vill fá mat lagt á samkvæmt matsbeiðni dagsettri 18. janúar 2017, varða að nokkru leyti sömu atriði og fjallað var um í yfirmatsgerð dags. 21. september 2016. Í lögum nr. 91/1991 eru því hins vegar ekki settar skorður að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um. Þar er ekki heldur girt fyrir það að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýs mats, sem taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri eða sé ætlað að veita ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi fengist.
Kröfunni verður því ekki hafnað fyrir þá sök að matsmenn kunni að nokkru leyti að taka til umfjöllunar atriði sem yfirmatsmenn hafa þegar fjallað um. Dómurinn fellst ekki heldur á þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili óski nú yfirmats á yfirmatinu.
Það er rétt að málið er nokkuð komið til ára sinna en varnaraðili sendi dóminum ágreininginn 23. maí 2012 og var málið þingfest mánuði síðar. Á dómþingi 25. febrúar 2013 lagði sóknaraðili fram matsbeiðni og endurbætta matsbeiðni mánuði eftir það. Undirmatsmenn voru dómkvaddir 9. apríl það ár og afhentu þeir sóknaraðila matsgerðina í september 2014. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 2. júlí 2015. Þeir afhentu sóknaraðila yfirmatsgerð í september 2016. Þremur og hálfu ári af málsmeðferðartímanum hefur því verið varið í gagnaöflun sóknaraðila.
Það er fyrst nú, þegar matsgerð yfirmatsmanna hefur verið lögð fram, að varnaraðili hefur tilefni til þess að óska þessa mats enda eru matsspurningarnar sprottnar af efnistökum og niðurstöðum í yfirmatsgerð. Kröfunni verður því ekki hafnað með þeim rökum að hún sé of seint fram komin eða að matsvinnan muni tefja málsmeðferðina óhóflega.
Matsbeiðni uppfyllir skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Á því leikur ekki vafi að varnaraðili óskar mats á atriðum sem krefjast sérfræðiþekkingar en hvorki almennrar þekkingar né lagaþekkingar. Jafnframt þykir ekki bersýnilegt að þau atriði sem varnaraðili vill sanna með matsgerðinni skipti ekki máli eða séu tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Enn fremur má árétta að dómari er ekki bundinn af matsgerð við úrlausn máls, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna, heldur ber honum að leggja mat á gildi hennar.
Dómurinn fær ekki séð að neitt standi því í vegi að varnaraðila verði heimilað að afla matsgerðar um þau atriði, sem hann tilgreinir í beiðni sinni. Hann ber áhættuna af því hvort matsgerðin nýtist til sönnunar svo og kostnaðinn af öflun hennar.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Fallist er á að dómkveðja tvo sérfróða og óvilhalla matsmenn til þess að leggja mat á þau atriði sem varnaraðili, Gamli Byr ses., tiltekur í matsbeiðni sem hann lagði fram á dómþingi 19. janúar 2017 og varða ætlaða framlegð af byggingarframkvæmdum sóknaraðila, Héðinsreits ehf., á Vesturgötu 64, Reykjavík.