Hæstiréttur íslands

Mál nr. 154/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 21

 

Þriðjudaginn 21. mars 2006.

Nr. 154/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans væri ólokið, þó ekki lengur en til föstudagsins 28. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með sóknaraðila að gögn málsins beri með sér að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa átt þátt í innflutningi á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna, þannig að varðað geti við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2006.

Lögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. apríl 2006, klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint fíkniefnabrot kærða sem varði innflutning á miklu magni af amfetamíni til landsins sem meðkærði, A, hafi flutt til landsins frá Litháen þann 4. f.m. gegn greiðslu að beiðni óþekkts manns í Litháen.  Lögregla hafi lagt hald á efnið sem reyndist vera í vökvaformi og hafi því verið komið fyrir í flöskum sem meðkærði kvaðst hafa átt að afhenda viðtakanda hér á landi.

Rannsókn hafi leitt í ljós að meðkærði hafi farið í desember sl. aðra sams konar ferð frá Litháen til Íslands fyrir sama mann í Litháen og hafi þá haft með sér 2 svipaðar flöskur með óþekktu innihaldi sem hann hafi afhent kærða hér á landi.  Að mati lögreglu þyki líklegt að flöskurnar hafi innihaldið svipað fíkniefni og lagt hafi verið hald á þann 4. f.m.  Fyrir liggi gögn frá Icelandair sem staðfesti að kærði hafi greitt fyrir umrædda ferð meðkærða í desember þegar hann hafi farið af landi brott til Litháen.  Við myndsakbendingu, sem hafi farið fram þann 23. f.m., hafi meðkærði bent á kærða sem þann mann sem hefði keypt fyrir hann farmiðann frá Íslandi í desember og sem boðið hafi honum heim til sín.  Fyrir liggi framburður frá meðkærða þar sem hann hafi lýst nánar samskiptum sínum við kærða en þar hafi komið m.a. fram að hann hafi afhent kærða flöskurnar í fyrri ferðinni.  Meðkærði hafi greint frá því að hann hafi ekki haft fullkomna vitneskju um hvern hann hafi átt að hitta í síðari ferðinni í því skyni að afhenda flöskurnar en einhver hér á landi hefði átt að hafa símasamband við hann eftir komuna til landsins og hefði hann allt eins átt von á því að það yrði kærði, m.a. vegna samtals þeirra við lok fyrri ferðarinnar.  Sé nánar vísað til framburðarskýrslu meðkærða frá 2. þ.m.

Kærði neiti allri aðild að málinu, hann hafi verið missaga við yfirheyrslur, hafi neitað að svara spurningum, gefið ótrúverðugar skýringar og framburður hans hafi ekki verið í samræmi við framburði annarra.  Kærði hafi játað að hafa tekið við tveimur flöskum með óþekktu innihaldi frá meðkærða í desember sl. að beiðni erlends manns, B, sem hann hafi áður hitt í gufubaði eftir æfingu á tiltekinni líkamsræktarstöð í Reykjavík.  Kærði kvaðst ekkert hafa haft með síðari ferð meðkærða að gera og ekki vitað um hana.  Framburður kærða um meintan mann að nafni B þyki ekki standast, enginn með nafninu B eða svipuðu nafni finnist á viðskiptamannaskrá líkamsræktarstöðvarinnar og þær tímasetningar sem kærði hafi gefið upp passi ekki við komur kærða á líkamsræktarstöðina.  Sé nánar vísað til upplýsingaskýrslu Kristins Sigurðssonar, rannsóknarlögreglumanns, frá 2. þ.m.

Fyrir liggi upplýsingar um fjölda innhringinga í síma meðkærða úr tilteknu íslensku óskráðu gsm frelsisnúmeri sama dag og hann hafi verið handtekinn þann 4. f.m.  Fyrir liggi símagögn sem sýni að sama óskráða frelsisnúmer hafi hringt margoft í tiltekið símanúmer óþekkts aðila í Litháen á tímabilinu frá 19. janúar til 6. febrúar sl.  Umrætt símanúmer í Litháen sé sama símanúmer og meðkærði hafi verið með skráð í minni í farsíma sínum, sem lögreglan hafi lagt hald á, en fram hafi komið hjá meðkærða að umrætt símanúmer sé númer þess mann sem hafi afhent honum flöskurnar í Litháen í bæði skiptin.  Kærði neiti að vera notandi umrædds frelsisnúmers en fyrir liggi að lögregla hafi rakið símanúmerið til kærða vegna flugmiðakaupa hans hjá Icelandair í janúar sl. fyrir erlendan mann þar sem símanúmerið hafi verið skráð sem símanúmer kaupanda flugmiðans.  Einnig liggi fyrir upplýsingar frá Landssíma Íslands hf. sem sýni að staðsetningar símtækis með hinu óskráða frelsisnúmeri, á tímabilinu frá 19. janúar til 6. febrúar sl., passi að mestu við staðsetningar annars símtækis sem kærði hafi viðurkennt að vera rétthafi að.  Alþekkt sé að brotamenn noti fleiri en eitt símtæki og símanúmer, óskráð, til að dylja slóð sína.  Er nánar vísað til upplýsingaskýrslu nefnds Kristins frá 9. þ.m. ásamt skýringaryfirliti sem taki til tíma- og staðsetninga beggja farsímanna.

Við húsleit á heimili kærða þann 13. f.m. hafi verið lagt hald á minnismiða þar sem fram hafi komið leiðbeiningar um gerð amfetamíns.  Einnig hafi fundist þar 2 MDMA töflur og mikið af reiðufé sem lagt hafi verið hald á.  Útskýringar kærða á minnismiðanum þyki ekki standast og sé nánar vísað til upplýsingaskýrslu Ágústs Evalds Ólafssonar, lögreglufulltrúa, frá 13. þ.m., um tölvuskoðun.

Fyrir liggi matsgerð lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands frá 14. f.m. sem taki til magns og styrkleika hinna haldlögðu fíkniefna.  Alls sé um að ræða 1,745 lítra af amfetamínvökva sem vóg 1.619 g.  Styrkleiki vökvans úr annarri flöskunni var 77% amfetamínbasi af þunga sýnis en í hinni hafi styrkleikinn verið 89%.  Skv. áliti sömu stofnunar frá 23. f.m. samsvarar innihald beggja flasknanna um 13,3 kg af amfetamíndufti með 10% styrkleika en það sé algengur styrkleiki amfetamíns í útþynntum neysluskömmtum.

Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið fyrir innflutningi hins haldlagða amfetamíns með samskiptum við sendanda efnisins í Litháen og að kærði hafi átt að móttaka efnið hér á landi frá meðkærða.  Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. f.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurði héraðsdóms í málum nr. R-90/2006, R-101/2006, R-106/2006 og R-118/2006, sem Hæstiréttur Íslands hafi staðfest, sbr. mál réttarins nr. 95/2006, 103/2006, 110/2006 og 124/2006. Rannsókn málsins sé ólokið en reynt sé að hraða henni eins og kostur sé. Að lokinni rannsókn verði málið sent  ríkissaksóknara til viðeigandi meðferðar. 

Kærði þyki hafa gegnt verulegu hlutverki í brotinu og sé um að ræða mikið magn sterks og hættulegs fíkniefnis sem mögulegt hafi verið að margfalda með frekari meðferð á því.  Nær öruggt þyki að fíkniefnið hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi.  Hið meinta brot kærða þyki þannig mjög alvarlegt og einnig með hliðsjón af því að rökstuddur grunur þyki fyrir hendi um að kærði hafi með sama hætti komið að sams konar innflutningi fíkniefna í desember sl.  Brotavilji kærða þyki þannig vera einbeittur.  Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings, sbr. danska fræðiritið Straffeprocess, höf. prófessor Eva Smith, útg. 2003, bls. 81.  Þyki staða kærða sambærileg stöðu annarra sakborninga sem sætt hafa gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þar sem fyrir hafi legið sterkur rökstuddur grunur um beina aðild að stórfelldum fíkniefnainnflutningi, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 158/2001, 417/2000 og 471/1999.  Sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir. 

Þá liggi fyrir að kærði sé erlendur ríkisborgari með takmörkuð tengsl við Ísland.  Þyki þannig brýnt á þessu stigi málsins að vernda rannsóknar-, saksóknar- og fullnustuhagmuni og tryggja nærveru kærða hér á landi með gæsluvarðhaldi en gera mætti ráð fyrir að hann fari af landi brott verði hann látinn laus. 

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild fyrir gæsluvarðhaldi sé vísað til b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi.  Rannsókn málsins er ekki að fullu lokið.  Kærði er erlendur ríkisborgari.  Er í ljósi þess fallist á að brýnt sé að vernda rannsóknar-, saksóknar-  og fullnustuhagsmuni með því að tryggja nærveru kærða hér á landi.  Þá telst eðli brotsins og umfang þess slíkt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  Teljast skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt og ber því að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. apríl 2006, klukkan 16:00.