Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 24. júlí 2012.

Nr. 507/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 8. nóvember 2012 klukkan 17. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurðar er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 20. júlí 2012.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að dómfellda, X, kt. [...], til heimilis að [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 8. nóvember 2012, kl. 17:00.

Í greinargerð kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. S-304/2012, uppkveðnum þann 27. júní 2012, hafi X, verið sakfelldur fyrir fjögur brot gegn 244. gr. og eitt brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Brot þessi hafi dómfelldi framið 26. mars, 28. mars, 30. mars, 31. mars og 4. apríl 2012 eða nánast í beinu framhaldi þess að hann hafi lokið afplánun 15 mánaða fangelsisvistar þann 21. mars 2012.  Með dómnum frá 27. júní 2012 hafi dómfelldi verið dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og hafi hann þá verið dæmdur til fangelsisvistar í sjötta sinn frá árinu 2007 að telja.

Með áfrýjunarstefnu útgefinni 19. júlí 2012, hafi dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-304/2012 verið áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu dómfellda.

Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 4. apríl 2012. Krafa um að lengd gæsluvarðhaldsvistar takmarkist við 8. nóvember nk. miðast við að dómur verði fallinn í Hæstarétti í máli dómfellda fyrir þann tíma.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið verði að telja að brotavilji dómfellda sé augljós og ekkert lát á brotastarfsemi hans.  Telji ríkissaksóknari að yfirgnæfandi líkur séu á að dómfelldi muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því sé brýnt að hann sæti gæsluvarðhaldi.  Með vísan til framangreinds sé þess krafist að dómfellda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar fyrir Hæstarétti á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Með vísun til þess að framan er rakið svo og sakaferils dómfellda, sem rakinn er í framangreindum dómi, er fallist á það með ríkissaksóknara að ætla megi að hann haldi áfram brotum fái hann að ganga laus meðan máli hans er ólokið í Hæstarétti. Það er því fallist á með ríkissaksóknara að skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi. Krafan um gæsluvarðhald er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði en ætla má að dómur gangi í Hæstarétti í máli dómfellda fyrir 8. nóvember nk.

                Arngrímur Ísberg kvað upp þenna úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, eigi lengur en til fimmtudagsins 8. nóvember 2012, kl. 17:00.