Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2008
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. október 2008. |
|
Nr. 14/2008: |
Þrotabú Parma ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Erki ehf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Sératkvæði.
Félagið P átti eignirnar A og B og var tilgangur þess að gera húseignir upp og breyta þeim í íbúðir. Eigandi P stofnaði einkahlutafélagið N í júní 2005 og seldi því farmangreindar eignir 5. ágúst sama ár. Kaupverð var greitt með yfirtöku skulda við bankann F. Í september sama ár voru allir hlutir í N seldir fyrir 11.063.000 krónur. Einu eignir félagsins voru fasteignirnar A og B. Nafni félagsins N var á sama degi breytt í E. P var úrskurðað gjaldþrota 12. janúar 2006 og skiptastjóri skipaður. Í málinu krafðist þrotabú P að staðfest yrði með dómi riftun á gjafagerningi sem fólst í afsali P til N 5. ágúst 2005. Þrotabú P byggði málsókn sína aðallega á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var sannað að P hefði staðið höllum fæti fjárhagslega 5. ágúst 2005 og að tilgangur stofnunar N og yfirfærsla einu eigna P hefði verið sá að losa eignirnar frá P svo auðveldara væri að selja þær. Þar með var talið sannað að um gjafa- eða málamyndagerning hefði verið að ræða. Jafnframt var talið sannað að verðmæti eignanna hefði verið töluvert hærra en nam framangreindum skuldum. Lögskipti þessi áttu sér stað rúmum fimm mánuðum fyrir frestdag. Þar með var skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 fullnægt og fallist á kröfu þrotabúsins um riftun gerninganna. Jafnframt var fallist á bótakröfu þrotabúsins og að miða mætti fjárhæð tjónsins við kaupverð N í september 2005 auk mismunar á uppgreiðsluverðmæti skuldanna við F þegar gjafagerningurinn átti sér stað og N var selt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2008. Hann krefst aðallega að staðfest verði með dómi riftun annars vegar á afsali Parma ehf. til stefnda 5. ágúst 2005 á fasteigninni að Hafnarstræti 81A, Akureyri og hins vegar á afsali Parma ehf. til stefnda sama dag á fasteigninni að Hafnarstræti 81B, Akureyri. Þá krefst áfrýjandi nú að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 13.837.366 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2005 til greiðsludags. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Þegar umdeild viðskipti áttu sér stað bar stefndi nafnið Norm ehf. Nafninu var breytt í kjölfar sölu alls hlutafjár í félaginu 17. september 2005.
Félagið Parma ehf. keypti eignirnar Hafnarstræti 81A og 81B á Akureyri af Akureyrarbæ 12. júní 2003. Tilgangur félagsins var að gera húseignirnar upp og breyta þeim í íbúðir. Hinn 27. júní 2005 stofnaði eigandi Parma ehf. nýtt félag, Norm ehf., og seldi því síðan framangreindar eignir 5. ágúst sama ár. Var Parma ehf. þá skuldsett og erfiðleikar höfðu komið upp við framkvæmdirnar við Hafnarstræti. Kaupverð var að fullu greitt með yfirtöku skulda við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. sem miðað er við að hafi á þeim degi numið 146.235.122 krónum að uppgreiðsluverðmæti. Afsöl voru gefin út fyrir eignunum á samningsdegi 5. ágúst 2005 og þau innfærð til þinglýsingar 10. sama mánaðar. Hinn 17. september sama ár voru allir hlutir í Norm ehf. seldir fyrir 11.063.000 krónur. Einu eignir félagsins voru Hafnarstræti 81A og 81B og skuldir við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. námu á þeim degi 149.009.488 krónum. Sama dag var nafni félagsins Norm ehf. breytt í Erki ehf. Beiðni um að taka Parma ehf. til gjaldþrotaskipta var móttekin af héraðsdómi 12. janúar 2006 og úrskurður kveðinn upp 9. febrúar 2006. Kröfulýsingarfresti lauk 22. apríl 2006.
Meðal gagna málsins eru óundirrituð drög að tilboði til Parma ehf. 7. júlí 2005, frá sömu aðilum og keyptu síðar Norm ehf., um kaup á eignunum fyrir 155.000.000 króna, sem meðal annars skyldu greiðast með yfirtöku lána hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að fjárhæð 135.000.000 krónur. Einnig liggja fyrir undirrituð drög að kauptilboði sömu aðila í alla hluti Norm ehf. 24. ágúst 2005, þar sem tilgreint kaupverð er 12.400.000 krónur, og var uppgreiðsluverðmæti skulda hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. sagt nema þann dag 147.172.847 krónum.
Loftur Gunnar Sigvaldason var einn eigandi Parma ehf. á þeim tíma sem hér um ræðir og stofnandi og eini eigandi Norms ehf. á þeim tíma sem umræddar eignir voru seldar. Með skýrslum hans hjá skiptastjóra 12. maí og 14. júlí 2006 og síðar fyrir dómi og með afsali 5. ágúst 2005 er sannað annars vegar að Parma ehf. stóð höllum fæti fjárhagslega 5. ágúst 2005 og hins vegar að tilgangur stofnunar Norms ehf. og yfirfærsla einu eigna Parma ehf., fasteignanna að Hafnarstræti 81A og 81B á Akureyri, var einmitt sá að losa eignirnar frá Parma ehf. svo auðveldara væri að selja þær. Lýsti hann því yfir við skýrslugerð hjá skiptastjóra að um hafi verið að ræða gjafa- eða málamyndagerning.
Með þessu, kaupsamningi 17. september 2005, fyrri þreifingum um kaup, fyrst á eignunum af Parma ehf. 7. júlí 2005 og síðar á Norm ehf. 24. ágúst 2005, sem og annars vegar áætluðu söluverðmæti eignanna að framkvæmdum loknum 14. apríl 2005 og hins vegar verðmætamati á framkvæmdu verki og verkstöðu 25. maí 2005, er nægilega sannað að 5. ágúst 2005 var verðmæti eignanna töluvert hærra en nam framangreindum skuldum sem Parma ehf. hafði þá stofnað til við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. vegna framkvæmdanna.
Samkvæmt því sem rakið er hér að ofan liggur fyrir að tilgangur afsala Parma ehf. og Norms ehf. 5. ágúst 2005 var að losa eignirnar frá fyrrnefnda félaginu vegna slæmrar skuldastöðu þess, einnig að verðmæti eignanna var talsvert meira en nam skuldum félagsins hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., og loks að ekkert endurgjald kom fyrir eignirnar við þá gerninga annað en yfirtaka þeirra skulda. Því varð eignaaukning hjá Norm ehf. sem svaraði til mismunar á verðmæti eignanna og áhvílandi skulda. Lögskipti þessi áttu sér stað rúmum fimm mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er fallist á með áfrýjanda að afsöl Parma ehf. til Norms ehf. 5. ágúst 2005 hafi verið gjafagerningar og er því fullnægt skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fallist er á kröfu áfrýjanda um riftun gerninganna.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að félagið hafi ekki auðgast á umræddum löggerningum, heldur hafi endurgjaldið runnið til fyrrum eiganda þess. Kaupandi eignanna 5. ágúst 2005 var Norm ehf. og er það því riftunarþoli í máli þessu. Þegar litið er til skýrslugjafar Lofts Gunnars Sigvaldasonar, sem var eigandi Parma ehf. og Norms ehf. er umþrættir gerningar áttu sér stað 5. ágúst 2005, er fallist á með áfrýjanda að stefnda hafi verið fullkunnugt um riftanleika þessara ráðstafana. Verður fallist á kröfu áfrýjanda um bótaskyldu stefnda samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er ljóst af framburði málsvara kaupenda Norms ehf. 17. september sama ár að þeim var kunnugt um bágan fjárhag Parma ehf. á þessum tíma.
Framkvæmdum við umræddar fasteignir var að mestu lokið og stór hluti eignanna seldur þegar mál þetta var höfðað og óskaði áfrýjandi ekki eftir matsgerð um hvert ætlað markaðsverð eignanna hafi verið 5. ágúst 2005. Hins vegar má áætla af drögum kauptilboðs 7. júlí 2005 um greiðslu 20.000.000 króna umfram skuldir við Frjálsa fjárfestingarbankann hf., drögum að kaupsamningi á Norm ehf. 24. ágúst 2005 um greiðslu 12.400.000 króna, og loks af endanlegu kaupverði Norm ehf. 11.063.000 krónum 17. september sama ár hvert tjón þrotabúsins hefur verið. Mismunur uppgreiðsluverðmætis skulda við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. 5. ágúst 2005 og 17. september sama ár var 2.774.366 krónur. Nemur kaupverð Norms ehf. 17. september 2005 og framangreindur mismunur uppgreiðsluverðmætis skuldanna samtals 13.837.366 krónum, sem er dómkrafa áfrýjanda. Hefur stefndi nægilega sannað tjón sitt og þykir mega miða við þessa fjárhæð.
Sjónarmið 145. gr. laga nr. 21/1991 eiga hér ekki við. Þá byggir stefndi á því að 8.550.755 krónur af kaupverði félagsins Norm ehf. hafi gengið til greiðslu skulda Parma ehf. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir þessu. Stefndi sundurliðar kröfuna í greinargerð í héraði og meðal málsgagna eru ljósrit af nokkrum víxlum, kvittunum og reikningum. Stefndi hefur hins vegar ekki fært að því nægilegar líkur að gögn þessi sýni að kaupverðið hafi að þessu leyti verið notað til hagsbóta fyrir áfrýjanda og ber hann halla af því. Verður því ekki fallist á kröfu stefnda um lækkun af þessum sökum. Þá eru heldur ekki rök til lækkunar á kröfu áfrýjanda vegna sölulauna við gerð kaupsamnings 17. september 2005.
Það var fyrst við höfðun máls þessa að áfrýjandi setti fjárkröfu sína fram með glöggum hætti, þykir því rétt að miða upphaf dráttarvaxta við þingfestingu málsins í héraði 25. október 2006.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Erki ehf., greiði áfrýjanda, þrotabúi Parma ehf., 13.837.366 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Félagið Parma ehf. var stofnað 5. maí 2003. Tilgangur þess var byggingastarfsemi, kaup og sala fasteigna, leiga þeirra og rekstur. Meginmarkmið með stofnun félagsins var að kaupa fasteignirnar Hafnarstræti 81A og 81B á Akureyri af Akureyrarbæ í því skyni að gera húsin sem þarna stóðu upp og breyta þeim í íbúðarhús. Keypti félagið fasteignirnar af bænum með kaupsamningi 12. júní 2003. Um aðdraganda þess dómsmáls sem hér er til úrlausnar vísast að öðru leyti til atkvæðis meiri hluta dómara.
Áfrýjandi krefst riftunar á afsölunum 5. ágúst 2005 og byggir kröfur sínar á því að um hafi verið að ræða gjafagerning samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá vísar hann einnig til 141. og 142. gr. sömu laga til stuðnings kröfum sínum. Stefndi mótmælir kröfum áfrýjanda og telur ósannað að sala fasteignanna til Norms ehf. hafi verið undir markaðsverði og falið í sér gjöf eins og kröfur áfrýjanda byggi á. Kveður hann fermetraverð fasteignanna, sem við hafi verið miðað við sölu hlutabréfanna 17. september 2005, hafa verið „langt umfram það fermetraverð sem áður hafði þekkst á Akureyri“. Sérstaklega mótmælir hann því að um auðgun hafi verið að ræða hjá stefnda í viðskiptunum og tjón áfrýjanda sé enn fremur ósannað.
Við úrlausn málsins verður að hafa í huga að hlutfallslega var lítill munur á söluverði fasteignanna við söluna 5. ágúst 2005 og þess verðs sem greitt var fyrir hlutabréfin í Normi ehf. 17. september 2005. Sönnunarbyrði um að fasteignirnar hafi verið seldar undir markaðsverði 5. ágúst 2005 hvílir á áfrýjanda. Til þeirrar sönnunar dugar að mínum dómi ekki að vísa til skýrslu sem skiptastjóri áfrýjanda tók af fyrri fyrirsvarsmanni áfrýjanda eftir að áfrýjandi hafði verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Áfrýjandi hefur ekki með matsgerð eða á annan fullnægjandi hátt sannað staðhæfingu sína um að selt hafi verið á undirverði. Liggur því ekki fyrir að salan hafi valdið honum tjóni eða að stefndi hafi auðgast við hana á ólögmætan hátt. Þegar af þessari ástæðu tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm og þarf þá ekki að taka afstöðu til staðhæfinga stefnda um að fyrrverandi eigandi hans hafi ráðstafað kaupverði hlutabréfanna, 11.063.000 krónum, til að greiða skuldir Parma ehf. áður en til gjaldþrots fyrirtækisins kom.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tel ég að dæma beri áfrýjanda, þrotabú Parma ehf., til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2007.
Mál þetta var þingfest 25. október 2006 og tekið til dóms 20. september 2007. Stefnandi er þrotabú Parma ehf., kt. 460603-4040, Efstaleiti 5, Reykjavík en stefndi er Erki ehf., kt. 690605-2950, Blásölum 22, Kópavogi.
Dómkröfur stefananda eru eftirfarandi:
1. Að staðfest verði með dómi riftun stefnanda á gjafagerningi milli aðila sem fólst í afsali Parma ehf. til stefnda, dags 5. ágúst 2005 á fasteigninni að Hafnarstræti 81a, fastanúmer 214-6930, safnhús 01-0101, Akureyri og hins vegar afsali Parma ehf. til stefnda, dags. 5. ágúst 2005 á fasteigninni að Hafnarstræti 81b, fastanúmer 214-6931, tónlistarskóli 01-0101, Akureyri.
2. Að stefndi verði aðallega dæmur til að greiða stefnanda 28.344.878 krónur og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 5. ágúst 2005 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.837.366 krónur og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 5. ágúst 2005 til greiðsludags.
3. Að stefndi verði dæmur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Stefandi segir að forsaga málsins sé sú að þann 5. maí 2003 hafi fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verið tilkynnt um stofnun einkahlutafélagsins Parma ehf. með lögheimili að Hafnarstræti 81, Akureyri. Tilgangur félagsins hafi verið sagður byggingastarfsemi, kaup og sala fasteigna, leiga þeirra og rekstur. Allt frá stofnun félagsins hafi aðalstarfsemi félagsins verið endurbætur og bygging fasteignarinnar að Hafnarstræti 81a, safnhús, Akureyri, og Hafnarstræti 81b, tónlistarskóli, Akureyri. Félagið hafi breytt þessum byggingum í 25 íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum. Skila hafi átt íbúðum fullbúnum með innréttingum, öllum gólfefnum og tækjum í eldhús, eldavél, viftu, ísskáp og uppvöskunarvél ásamt öllum ljósum í eigninni. Brúttóstærð hússins sé 1.600 fm en birt flatarmál íbúðanna u.þ.b. 1.450 fm. Fasteignasalan Hóll á Akureyri hafi metið söluverð fasteignanna 14. apríl 2005, miðað við fullbúnar eignir, að fjárhæð 203 milljónir krónur.
Breytingarnar hafi verið fjármagnaðar að mestu leyti af Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. Bankinn hafi haft sér til aðstoðar Teiknistofu HSH á Akureyri til eftirlits með framkvæmdunum. Haraldur S. Árnason byggingatæknifræðingur hafi tekið að sér að fylgjast með framvindu verksins og meta verðmæti eignarinnar þannig að veðsetningarhlutfall bankans færi ekki upp fyrir þau mörk sem bankinn hafði sett sér. Samkvæmt yfirliti Teiknistofu HSH, dags. 14. apríl 2005 og 25. maí 2005, hafi verðmæti þess sem þá hafi verið framkvæmt verið að fjárhæð 180.337.500 krónur. Hafi þá átt eftir að leggja lokahönd á eignina til þess að hún yrði fullbúin.
Með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjaness þann 9. febrúar 2006 hafi bú Parma ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag hafi Ólafur Eiríksson hdl. verið skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur við skiptin sé 12. janúar 2006 en þann dag hafi fyrsta beiðni um gjaldþrotaskipti verið móttekin hjá Héraðsdómi Reykjaness.
Skiptastjóri hafi tekið skýrslu af fyrrverandi framkvæmdastjóra Parma ehf., Lofti Gunnari Sigvaldasyni, þann 12. maí 2006. Fram hafi komið hjá Lofti að framkvæmdir við fyrrgreinda fasteign hafi gengið vel allt fram að páskum 2005 en þá hafi byggingastjóri gengið út og tekið með sér starfsmenn. Í kjölfarið hafi byggingafulltrúi Akureyrarbæjar stöðvað framkvæmdir. Ágreiningur vegna þess hafi staðið í u.þ.b. einn og hálfan mánuð en þá hafi komið aðilar sem sýnt hafi áhuga á að kaupa eignirnar í því ástandi sem þær voru. Sala hafi hins vegar verið háð leyfi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. sem hafi átt veð í eigninni. Á þessum tíma hafi verkið verið langt komið.
Stefnandi kveður fyrrgreindum fasteignum hafi verið afsalað til einkahlutafélagsins Norm ehf. með tveimur afsölum, 5. ágúst 2005 sem þinglýst hafi verið 10. sama mánaðar. Í afsölum segi að umsamið kaupverð sé að fullu greitt m.a. með yfirtöku þriggja skulda við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Það hafi ekki komið fram í afsölunum hver staða skuldanna hafi verið á afsalsdegi. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafi staða þeirra þann 5. ágúst 2005 verið að fjárhæð 146.235.122 kr. Stefnandi segir að Norm ehf. hafi að fullu verið í eigu Lofts Gunnars Sigvaldasonar.
Stefnandi kveður Loft hafa sagt í skýrslu sinni hjá skiptastjóra að hann hafi stofnað félagið Norm ehf. gagngert til þess að það félag keypti fasteignirnar af Parma ehf. og hafi það verið gert til að skapa frið um eignirnar og auðvelda sölu þeirra. Hinir væntanlegu kaupendur hafi ekki viljað kaupa fyrirtækið með rekstrinum. Þeir hafi ekki viljað kaupa Parma ehf. vegna skulda og því hafi þetta verið nauðsynlegt. Hafi hann fengið ráðleggingu frá bankanum þess efnis. Hann hafi verið orðinn heilsuveill á þessum tíma og reynt að gera það besta að hans mati fyrir kröfuhafa Parma ehf. Hið selda hafi verið 11 2ja herbergja íbúðir og 14 stúdíóíbúðir. Ármann Sverrisson fasteignasali hjá fasteignasölunni Hóli hafi metið eignina. Kaupendur hafi tekið yfir skuld við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. og borgað auk þess 11.063.000 krónur. Sú fjárhæð hafi verið fundin þannig að tilboð hafi komið frá kaupendum sem hann hafi samþykkt. Til hafi staðið hjá kaupendum að kaupa eignirnar en að tillögu bankans hafi verið talið betra að hann stofnaði fyrirtækið Norm ehf. og kaupendur keyptu síðan félagið. Engar greiðslur hafi komið frá Norm ehf. er það félag hafi keypt eignirnar af Parma ehf. Eignirnar hafi verið færðar yfir til Norm ehf. án nokkurrar greiðslu. Það hafi hann gert til þess að losa eignirnar frá Parma ehf. í þeim tilgangi að auðvelda sér að koma þeim í verð.
Stefnandi kveðst hafa sent stefnda riftunarbréf 18. september 2006 og hafi því bréfi verið svarað 2. október 2006.
Stefnandi getur þess að með breytingu á lóðarleigusamningi 12. október 2005 hafi fyrrgreindar tvær eignir verið felldar saman undir eitt heiti, Hafnarstræti 81, Akureyri.
Stefnandi kveður málatilbúnað sinn byggjast á því að gjöf sú sem falist hafi í fyrrgreindum afsölum sé riftanleg. Í því sambandi vísar stefnandi til 131. gr., 141.gr., sbr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að þessar gjafir hafi verið til þess fallnar að rýra eignastöðu þrotamanns og hafi leitt af sér ógjaldfærni hans á þeim tíma sem þessar ráðstafanir hafi farið fram. Augljóst sé að þrotamaður hafi orðið ógjaldfær þegar fasteignunum var afsalað til stefnda enda hafi ekkert endurgjald komið fyrir gjöfina. Ráðstöfunin sé því riftanleg á grundvelli 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í þessu sambandi beri að líta til þess að Loftur Gunnar Sigvaldason hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Parma ehf. og Norm ehf. teljist vera nákominn í skilningi 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
Stefnda hafi verið kunnugt um að umrædd ráðstöfun væri ólögmæt og riftanlegt undanskot á eignum þrotabúsins. Vísist í því sambandi til skýrslutöku yfir fyrirsvarsmanni Parma ehf. Skuldir Parma ehf. hafi verið miklar og eina óumdeilda eign búsins hafi verið fyrrgreindar fasteignir. Þess vegna hafi stefnda verið kunnugt um að ef eignirnar væru seldar yrði Parma ehf. ógjaldfært. Því sé gjöfin einnig riftanleg á grundvelli 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga.
Varðandi kröfufjárhæð vísar stefnandi til þess að kaupverð eignanna við afsal þeirra 5. ágúst 2006 hafi eingöngu falist í yfirtöku á skuldum að fjárhæð 146.235.122 krónur. Þann 25. maí 2005 hafi raunvirði eignanna verið metið að fjárhæð 180.337.500 krónur af Haraldi S. Árnasyni byggingatæknifræðingi fyrir hönd Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Miðað við þróun fasteignaverðs á Akureyri frá maí 2005 til ágúst 2005 verði að telja að verðmæti fasteignanna hafi alls ekki lækkað á þessum tíma heldur frekar hækkað. Þetta sé viðurkennt og staðfest í bréfi lögmanns stefnda, dags. 2. október 2006.
Aðalkrafa stefnanda varðandi kröfufjárhæð sé því byggð á því að raunvirði fasteigna á þeim tíma sem þeim var afsalað, hafi a.m.k. verið að fjárhæð 180.337.500 krónur. Áhvílandi skuldir hafi hins vegar á þeim degi verið 146.235.122 krónur. Telji dómurinn ekki sannað að verðmæti fasteignanna hafi a.m.k. verið að fjárhæð 180.337.500 krónur þann 5. ágúst 2005 verði að telja að það hafi a.m.k. ekki verið lægra en kaupverð einkahlutafélagsins Norm ehf. samkvæmt kaupsamningi 17. september 2005. Í kaupsamningnum komi fram að kaupverð hafi verið 11.063.000 krónur miðað við stöðu lána hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. að fjárhæð 149.009.488 krónur. Heildarverðmæti fasteignanna hafi því verið metið að fjárhæð 160.072.488 krónur þann 17. september 2005. Þar sem staða lána hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. hafi verið að fjárhæð 146.235.122 krónur þann 5. ágúst 2005 sé varakrafa stefnanda um greiðslu frá stefnda að fjárhæð 13.837.366 krónur sem sé mismunur áhvílandi lána þann 5. ágúst 2005 og heildarverðmætis stefnda þann 17. september 2005.
Varðandi kröfu um endurgreiðslu vegna riftunar á grundvelli 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga bendir stefnandi á 1. mgr. 142. gr. laganna, aðallega 3. málslið 1. mgr. 142. gr. Stefnda hafi verið fullkunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar. Til vara sé byggt á 1. málslið 1. gr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga enda ljóst að stefndi hafi óumdeilanlega haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun þrotamanns sem nemi mismuni á áhvílandi skuldum fasteignanna og raunvirði þeirra á afsalsdegi. Verði fallist á riftunarkröfu samkvæmt 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé byggt á 3. mgr. 142. gr. laganna. Slík krafa sé skaðabótakrafa og sé fjárhæð hennar sú sama og fjárhæð kröfu um tjónsbætur aðallega en til vara endurgreiðslukröfu.
Krafa stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 3. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé miðuð við 5. ágúst 2005. Byggt sé á því að þá hafi peningakrafa á hendur þrotamanni stofnast.
II.
Stefndi kveður málavexti þá að þrír einstaklingar á Akureyri, þeir Jón Ellert Lárusson, Vignir Már Þormóðsson og Gunnar Bogi Sigurðsson, hafi ákveðið að kaupa framangreint húsnæði sem hafi verið í sölumeðferð hjá Ármanni Sverrissyni fasteignasala. Þá hafi ástand hússins verið í grófum dráttum þannig að búið hafi verið að hólfa það niður og grunnmála en öll innréttingarvinna, hurðir o.þ.h. hafi verið eftir. Kaupverðið hafi aðallega átt að vera fólgið í yfirtöku áhvílandi lána við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. Áhugi þremenninganna hafi eingöngu beinst að því að kaupa fasteignirnar til þess að ljúka framkvæmdum og selja síðan einstakar íbúðir. Í upphafi hafi verið rætt um að kaupa eignirnar beint og sett fram tilboð að fjárhæð 155.000.000 krónur. en samningar ekki náðst. Hafi þá verið gert ráð fyrir að yfirtaka áhvílandi skuldir og greiða jafnframt gjaldfallnar skuldir við iðnaðarmenn sem hafi verið áætlaðar um 15.000.000 krónur. Að undirlagi þáverandi forsvarsmann seljanda, Lofts Gunnars Sigvaldasonar, hafi hins vegar verið ákveðið að þremenningarnir keyptu félagið Norm ehf. í heild. Það félag hafi verið kvaðalaus eigandi fasteignanna. Kaupverðið hafi að stærstum hluta verið fólgið í yfirtöku áhvílandi veðskulda að fjárhæð 149.009.488 krónur en að auki hafi átt að greiða 11.063.000 krónur með öðrum hætti, ýmist með peningum eða víxlum. Samkvæmt samningi aðila hafi sú fjárhæð átt að lækka ef í ljós kæmi að félagið skuldaði meira. Heildarkaupverð eignarinnar hafi því verið 160.072.488 krónur. Það hafi verið langt umfram það fermetraverð sem áður hafði þekkst á Akureyri. Stefndi segir að Loftur hafi talið það þjóna betur hagsmunum allra aðila, m.a. kröfuhafa, að selja eignina með þessum hætti enda hafi hann ætlað að greiða kröfuhöfum Parma ehf. af andvirði sölunnar. Framlögð gögn í málinu sanni þessa fullyrðingu. Því sé því mótmælt sem ósönnuðu að sala á fasteignunum til Norms ehf. 5. ágúst 2005 hafi verið undir markaðsverði eða falið í sér gjöf.
Stefndi byggir á því í aðalkröfu að ósannað sé að um gjafagjörning í skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga hafi verið að ræða. Ráðstafanir forsvarsmanns Parma ehf. hafi fyrst og fremst miðast við að tryggja hag kröfuhafa. Þannig hafi hann ráðstafað greiðslum fyrir félagið til skulda við byggingaraðila og til bæjarfélagsins. Ósannað sé hvert raunverulegt verðmæti eignarinnar hafi verið 15. ágúst 2005. Stefndi mótmælir rangfærslum í stefnanda um að eina endurgjaldið fyrir eignina hafi verið yfirtaka á áhvílandi veðskuldum. Þá sé einnig ósannað að stefndi hafi auðgast á viðskiptunum eða að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Loks telur stefndi að 145. gr. gjaldþrotaskiptalaga leiði til þeirrar niðurstöðu að sýkna beri af sanngirnisástæðum þegar horft sé til allra atvika. Því sé mótmælt að 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi við eins og hér standi á.
Varakröfu sína um verulega lækkun byggi hann á svipuðum sjónarmiðum og vísar stefndi í því sambandi aðallega til 142. gr. og 145. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Hvernig sem málið fari telur stefndi að ekki verði litið fram hjá því að stefndi hafi greitt til kröfuhafa Pharma ehf. ýmsar skuldir: Skuld við Akureyrarbæ að fjárhæð 1.250.000 krónur, sölulaun að fjárhæð 2.325.000 krónur, víxil eða fjárhæð 2.000.000 krónur, skuld við Álfaborg ehf. að fjárhæð 1.000.000 krónur, skuld við Tréverk að fjárhæð 1.000.000 krónur., skuld við Álfaborg ehf. að fjárhæð 300.000 krónur, skuld við Akureyrarbæ, annars vegar að fjárhæð 89.643 krónur og hins vegar að fjárhæð 596.112 krónur eða samtals að fjárhæð 8.550.755 krónur. Því sé aldrei hægt að ganga lengra heldur en að dæma stefnda til greiðslu á varakröfunni að fjárhæð 13.837.366 krónur að frádregnum 8.550.755 krónum eða 5.286.611 krónur. Stefndi mótmælir sérstaklega mati Haraldar S. Árnasonar á eigninni og telur að afla hefði þurft mats dómkvadds matmanns, auk þess hafi eignin verið til sölu á almennum markaði og ekkert liggi fyrir um að óeðlileg sjónarmið hafi ráðið verðlagningu hennar. Raunar telji stefndi að verðið hafi verið óvenju hátt.
Af hálfu stefndu komu fyrir dóminn Ármann Sverrisson, Jón Ellert Lárusson og Haraldur Sigmar Árnason.
III.
Parma ehf. var stofnað 5. maí 2003 í þeim tilgangi að breyta safnhúsi og tónlistarskóla að Hafnarstræti 81 a og b, Akureyri í íbúðarhús með 25 íbúðum. Síðar með nýjum lóðarleigusamningi 12. október 2005 voru lóðirnar og húsin sameinuð undir Hafnarstræti 81. Til stóð hjá Parma ehf. að selja íbúðirnar og skila þeim fullbúnum til kaupenda. Framkvæmdirnar voru fjármagnaðar að miklu leyti af Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. og munu þær hafa gengið vel framan af, allt fram að páskum 2005, en þá kom upp vandamál sem leiddi til þess að byggingastjóri hússins gekk út sem aftur varð til þess að byggingafulltrúi Akureyrarbæjar stöðvaði framkvæmdir. Framkvæmdastjóri Parma ehf., Loftur Gunnar Sigvaldason, ákvað nú að reyna að selja eignirnar á því byggingarstigi sem þær voru þá í.
Áður en að sölu kom seldi Parma ehf. Normi ehf. framkvæmdirnar á Hafnarstræti 81 a og b með tveimur afsölum 5. ágúst 2005. Kaupverð var einungis yfirtaka skulda við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. en engin greiðsla fór á milli aðila. Loftur var einn eigandi beggja þessara félaga. Í skýrslu sinni hjá skiptastjóra og hér fyrir dómi sagði hann að tilgangurinn með þessari sölu hafi eingöngu verið sá að skapa frið vegna skuldheimtumanna Pharma ehf. og selja eignirnar á almennum markaði til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Hafi honum verið ráðlagt að standa þannig að verki.
Þrír aðilar á Akureyri, þeir Jón Ellert Lárusson, Vignir Már Þormóðsson og Gunnar Borg Sigurðsson, sýndu áhuga á að kaupa eignirnar. Fram hefur komið að fasteignasalan Hóll hafði verðmetið eignirnar miðað við það ástand sem þær voru í og í framburði Árna Sverrissonar fasteignasala, sem annaðist söluna, kom fram að skýrsla Haraldar S. Árnasonar byggingartæknifræðings var lögð til grundvallar þessu verðmati fasteignasölunnar, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna á Akureyri. Hófust nú samningaviðræður og voru fyrst boðnar 155.000.000 króna í eignirnar. Á það var ekki fallist af hálfu Lofts en að lokum féllst hann á tilboð þremenninganna að fjárhæð 160.072.488 krónur. Fram hefur komið að kaupendur vildu einungis kaupa eignirnar en ekki félagið Norm ehf. og er þeirra fyrsta tilboð miðað við það. Að beiðni Lofts varð úr að þeir keyptu alla hluti í einkahlutafélaginu Normi og var gerður kaupsamningur um þau viðskipti 17. september 2005. Kaupverð var sem áður sagði 160.072.488 krónur sem skiptist þannig að kaupendur yfirtóku skuld við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. að fjárhæð 149.009.488 krónur og greiddu út í peningum og víxlum 11.063.000 krónur. Í kaupsamningi var ákvæði þess efnis að kaupverð skyldi lækka kæmi í ljós að félagið væri skuldbundið umfram það sem fram hefði komið. Fram hefur komið í málinu að Loftur ráðstafaði 8.550.755 krónum af útborgunargreiðslu til skuldheimtumanna Parma ehf. Í kjölfar þessarar sölu var nafni Norms ehf. breytt í Erki ehf.
Fram kom í skýrslu Jóns Ellerts Lárussonar, framkvæmastjóra stefnda, að tilgangur þeirra félaga með kaupum á eignunum var að fullgera íbúðirnar og selja þær síðan. Hann kvað þá hafa vitað af fjárhagserfiðleikum Parma ehf. og hafi þeir viljað kaupa eignirnar beint af Parma ehf. en Loftur viljað hafa þennan hátt á og þeir fallist á það án þess að íhuga hvort sú ráðstöfun orkaði tvímælis eða gæti haft eftirmála í för með sér.
Stefnandi byggir málsókn sína aðallega á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. og telur að gjöf hafi falist í afsali Pharma ehf. til Norms ehf. Þá byggir stefnandi einnig á 141. gr. laganna.
Loftur Gunnar Sigvaldason var einn eigandi Parma ehf. þegar eignirnar að Hafnarstræti 81 a og b voru seldar til Norms ehf. með tveimur afsölum 5. ágúst 2005. Loftur stofnaði Norm ehf. 27. júní 2005 og tilkynnti stofnun félagsins til Fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra tveimur dögum síðar. Loftur átti sjálfur alla hluti í Normi ehf. Með kaupsamningi 17. september 2005 eignuðust Jón Ellert Lárusson, Vignir Már Þormóðsson og Gunnar Bogi Sigurðsson alla hluti í félaginu.
Þegar hin umdeilda ráðstöfun þrotamanns fór fram, sem stefnandi vill nú rifta, var Loftur eigandi allra hluta í Normi ehf. Hafi orðið auðgun hjá móttakanda gjafarinnar, eins og stefnandi heldur fram, hefur sú eignaraukning orðið hjá Lofti sem var einn eigandi Norms ehf. en ekki hjá þeim sem síðar keyptu félagið af Lofti. Það er því álit dómsins að stefnanda beri að beina kröfu sinni að Lofti persónulega en ekki að stefnda enda hefur ekki verið sýnt fram á annað en þremenningarnir sem nú eiga stefnda hafi keypt fasteignirnar í Hafnarstræti 81 a og b á markaðsverði. Stefndi verður því sýknaður af kröfu stefnanda í málinu.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 470.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Erki ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabúi Pharma ehf., í þessu máli.
Stefnandi greiði stefnda 470.000 krónur í málskostnað.