Hæstiréttur íslands

Mál nr. 354/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Ár 1999, miðvikudaginn 8

                                                         

Miðvikudaginn 8. september 1999.

Nr. 354/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Talið var L hefði ekki rökstutt á viðhlítandi hátt hvernig X kynni að torvelda rannsókn mála ef hann sætti ekki gæsluvarðhaldi þannig að skilyrði til gæsluvarðhalds væru fyrir hendi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Að virtum þeim brotum, sem X hafði játað og máli skiptu, og því tímaskeiði sem þau voru framin á, þótti heldur ekki fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi X. Var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. september 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. september 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara er krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald reist á a. og c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu vísar sóknaraðili til þess að yfir standi rannsókn á þjófnaði úr húsakynnum nokkurra fyrirtækja 16. júlí og 23. ágúst 1999. Enn hafi aðeins fundist hluti af þeim munum, sem stolið var fyrrnefnda daginn, eftir eigi að rannsaka uppruna hluta þeirra muna, sem lagt var hald á við húsleit í aðsetri varnaraðila 24. ágúst sl., og grunur sé um aðild annars manns, sem eftir eigi að finna og taka skýrslu af. 

Með úrskurði héraðsdóms 25. ágúst sl. var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 3. þessa mánaðar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna rannsóknar á fyrrgreindum málum. Með bréfi sóknaraðila 2. september sl. var fangelsismálastofnun tilkynnt að rannsóknarhagsmunir krefðust ekki lengur að varnaraðili sætti einangrun í gæsluvarðhaldi og skyldi henni því aflétt. Að þessu virtu hefur sóknaraðili ekki rökstutt á viðhlítandi hátt hvernig ætla megi að varnaraðili muni torvelda frekari rannsókn þessara mála ef hann sætir ekki gæsluvarðhaldi. Er því ekki unnt að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila vísar sóknaraðili til þess, að auk þeirra brota, sem að framan greinir, sé varnaraðili grunaður um hilmingu með því að hafa geymt stolna muni í íbúð sinni 15. febrúar 1999. Hann hafi einnig játað að hafa tekið í heimildarleysi bifreið og stolið bensínsjálfsala 22. mars 1999, svo og að hafa skemmt bifreiðina og sjálfsalann, auk þess að hafa haft í vörslum sínum tiltekið magn fíkniefna 13. ágúst sama árs. Þá hefur varnaraðili gengist við áðurnefndum brotum 16. júlí 1999, en neitar aðild að broti 23. ágúst sama árs. Skilja verður rökstuðning sóknaraðila á þá leið að hann telji að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram auðgunarbrotum meðan málum hans er ólokið. Af þessum sökum skiptir fíkniefnabrot varnaraðila, sem síðast var getið og hann hefur gengist við, ekki máli við mat á því hvort skilyrði séu fyrir gæsluvarðhaldi. Að virtum öðrum þeim áðurnefndum brotum, sem varnaraðili hefur játað, og það tímaskeið, sem þau hafa verið framin á, verður ekki fallist á að nægileg ástæða sé fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. septmeber 1999.

Árið 1999, föstudaginn 3. september, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Páli Þorsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur með vísan í a- og c-liði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 15. október 1999, og að honum vegna rannsóknarhagsmuna verði gert að sæta gæsluvarðhaldinu með takmörkunum á frelsi, sbr. b-, c- og d-liði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19,1991, vegna mála nr. 010-1999-16724 og 010-1999-20051.

Í greinargerð lögreglunnar segir svo:

[...]

Lögreglan vísar til þess að X sé grunaður um brot gegn 244. gr., 254., 257., 259. gr. og 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og lögum um ávana- og fíkni­efni. Og með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a- og c- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Með vísan til framanritaðs og rannsóknarhagsmuna verður að telja að fullnægt sé lagaskilyrðum til að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um áframhaldandi gæsluvarðhald kærða. Eftir atvikum verður fallist á varakröfu af hálfu kærða að gæslu­varð­haldinu verði markaður skemmri tími en krafist er. Þá þykir rétt að hafna kröfu lögreglustjórans um takmörkun á frelsi kærða sbr. b, c, og d lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19,1991. Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi en þó ekki lengur en til föstudagsins 8. október nk. kl. 16.00.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. október nk. kl. 16.00.